Vafasamt vistspor

Það er hægt að taka undir það, að óvænlega horfi í umhverfismálum heimsins, en með hugtakinu "vistspor mannkyns", sem er þokukennt hugtak í hugum margra, má jafnvel skjóta harðsvíruðum umhverfissóðum skelk í bringu. Samkvæmt þróun vistsporsins á nefnilega mannkynið að óbreyttum lifnaðarháttum aðeins 120 ár eftir á jörðunni, sem þýðir hrun þjóðskipulags að okkar skilningi á fyrri helmingi næstu aldar. 

Hér dugir ekki lengur að segja, eins og Frakkakóngur Lúðvík 15. skömmu fyrir byltingu alþýðu gegn aðlinum 1789:

"La duche, après moi"-eða syndafallið kemur eftir minn dag.  Til huggunar má þó verða, að aðferðarfræðin við að finna út stærð vistsporsins gefur stundum kyndugar niðurstöður og skrýtinn innbyrðis samanburð, sem draga má stórlega í efa, eins og drepið verður á í þessari vefgrein.

Fjöllum fyrst um hugtakið "vistspor".  Þann 15. ágúst 2016 fékk Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur, birta eftir sig hugvekju í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

"Vistspor mannkyns stækkar stöðugt með sívaxandi ágengni í auðlindir jarðar":

"Alþjóðlegar horfur í umhverfismálum eru túlkaðar með ýmsum hætti, en niðurstaðan er ótvírætt á þá leið, að það sígur ört á ógæfuhliðina.  Þessa dagana erum við minnt á mælikvarða "Global Footprint Network",  GFN, samtaka, sem um alllangt skeið hafa sérhæft sig í að reikna út vistspor þjóðríkja og jarðarbúa sem heild.  Þau byggja á upplýsingum, sem fengnar eru úr gagnasöfnum Sameinuðu þjóðanna, og aðferðarfræðin hefur þróazt smám saman og orðið áreiðanlegri. 

Á hverju ári gefa samtök þessi út svo nefndan yfirdráttardag ("Earth Overshoot Day"), en það er sú dagsetning, þegar birgðir mannkyns til að framfleyta sér það árið eru upp urnar, og úr því fara menn að ganga á höfuðstólinn.  Í ár gerðist það mánudaginn 8. ágúst, og það sem eftir er ársins er mannkynið að eyða um efni fram og "éta útsæðið", svo að gripið sé til annarrar samlíkingar."

M.v. þetta á mannkynið aðeins eftir 60 % af þeim auðlindum, sem því stendur til boða á jörðunni.  Ennfremur kemur fram síðar í þessari frásögn Hjörleifs, að undanfarin 6 ár hafi forðinn, varpaður á tímaásinn, minnkað um 13 daga, sem þá samsvarar hraðanum 0,6 %/ár.  Með sama áframhaldi verður tími mannkyns, eða auðlindir "þess", upp urinn að öld liðinni eða árið 2116. Hér er ekki ætlunin að gera sérstaklega lítið úr alvarleika þess máls, sem Hjörleifur gerði að umfjöllunarefni í grein sinni, heldur að líta á málið frá íslenzku sjónarhorni með vísun í téða blaðagrein o.fl.: 

"Á árinu 2010 skilaði Sigurður Eyberg Jóhannesson meistararitgerð við Háskóla Íslands, sem ber heitið "Vistspor Íslands", en leiðbeinandi hans var Brynhildur Davíðsdóttir.  Niðurstöður hans þóttu í hógværari kantinum, en samkvæmt þeim taldist vistspor Íslendinga að frátöldum fiskveiðum vera 12,7 ha í stað 2,1 ha, sem væri sjálfbært, þannig að munurinn er 6-faldur. 

Væru fiskveiðar okkar teknar með í dæmið, samkvæmt aðferðarfræði GFN, teldist hver Íslendingur aftur á móti nota 56 jarðhektara, sem væri margfalt heimsmet !"

Þessi lokaniðurstaða er með eindæmum í ljósi þess, að nýting miðanna innan fiskveiðilögsögu Íslands er sjálfbær, enda reist á vísindalegri ráðgjöf, sem nýtur stuðnings Alþjóða hafrannsóknarráðsins, ICES. Ekki er betur vitað en umgengni sjómanna við auðlindina sé, eins og bezt verður á kosið, enda hefur fiskveiðistjórnunarkerfi Íslendinga í sér byggðan mikilvægan hvata til umhverfisverndar, sem ekki er að finna í öllum fiskveiðistjórnunarkerfum. 

Varla eru veiðarfærin sjálf ástæða meints stórs vistspors fiskveiðanna, skipunum fer fækkandi og megnið af þeim er hægt að endurvinna, þegar þeim er lagt.  Vistspor skipanna sjálfra getur þess vegna varla verið stórt. 

Skipin nota hins vegar að mestu leyti óendurnýjanlega orku, ýmist svartolíu, flotaolíu eða dísilolíu, en íslenzki sjávarútvegurinn hefur verið til hreinnar fyrirmyndar í orkunýtnilegum efnum, svo að koltvíildislosun flotans er nú þegar um 290 kt/ár minni en hún var viðmiðunarárið 1990, sem jafngildir 37 % samdrætti m.v. við þetta viðmiðunarár Parísarsamkomulagsins frá desember 2015.  Atvinnugreinin er u.þ.b. 13 árum á undan marmiðssetningunni um 40 % minnkun losunar árið 2030.

Ekki skal gera lítið úr vistspori þessarar olíunotkunar á hvern íbúa landsins, þar sem Íslendingar eru líklega mesta fiskveiðiþjóð í heimi á eftir Færeyingum þannig reiknað og þriðja mesta fiskveiðiþjóð Evrópu á eftir Rússum og Norðmönnum án tillits til íbúafjölda.  Þetta vistspor mun hins vegar halda áfram að minnka á næsta áratugi, með því að í sjávarútveginum verður jarðefnaeldsneyti leyst af hólmi með innlendri olíu úr jurtum og innlendri tilbúinni olíu úr koltvíildi iðnaðar og jarðgufuvirkjana og vetni, sem rafgreint verður úr vatni.  Rafknúnar vélar um borð munu ennfremur ryðja sér til rúms á tímabilinu 2025-2035, ef að líkum lætur, svo að um 2040 verður jarðefnaeldsneytisnotkun flotans orðin hverfandi.  Sé það rétt, sem er illskiljanlegt, að sjávarútvegurinn 4,4-faldi vistspor Íslendinga, hillir nú undir, að hann stækki vistspor landsmanna sáralítið. Allt er þetta háð því, að útgerðirnar fái áfram frelsi til þróunar og ráðstöfunar á framlegð sinni til fjárfestinga og annars, eins og önnur fyrirtæki, og auðlindin verði ekki þjóðnýtt, eins og alls staðar hefur gefizt illa með auðlindir almennt.

Nú skal skoða kolefnisspor markaðssetningar fisksins með stoð í viðtali Ásgeirs Ingvarssonar við Mikael Tal Grétarsson í sjávarútvegskafla Morgunblaðsins, 20. október 2016,

"Kolefnisspor flugfisksins ekki svo stórt":

"Þegar allt dæmið er reiknað, reynist íslenzkur fiskur, sendur með flugi, hafa minna kolefnisspor en norskur fiskur, fluttur landleiðina.  Þá kemur íslenzki fiskurinn mjög vel út í samanburði við próteingjafa á borð við nauta- og lambakjöt."

Þetta kemur þægilega á óvart, því að samkvæmt téðri grein Hjörleifs "er Noregur dæmi um land, sem talið er í jafnvægi í sínum auðlindabúskapi, á meðan Danmörk telst í þrefalt verri stöðu".  Það er óskiljanlegt, hvernig "Global Footprint Network" kemst að þeirri niðurstöðu, að Noregur sé hlutfallslegur auðlindanotandi, sem nemur aðeins broti af hlutfallslegri íslenzkri auðlindanotkun, þegar þess er gætt, að Noregur er mesta stóriðjuland Evrópu vestan Rússlands og mesta olíuvinnsluland vestan Rússlands með um 1 % heimsframleiðslunnar. GFN-niðurstöður og samanburður þeirra á milli landa eru svo ótrúlegar, að það er ekki hægt að taka þær alvarlega að svo stöddu. Þessar tölur eru engu að síður alvarlegar fyrir ímynd Íslands í augum umheimsins. Við höfum allar forsendur til að geta keppt að allt annarri ímynd.  Í ljósi þessa og af hagkvæmniástæðum er mikilvægt að vinna ötullega að "orkuskiptum" á Íslandi og útjöfnun gróðurhúsalofttegunda með ræktun, einkum skógrækt, og endurheimt votlendis, svo að losun koltvíildisjafngilda á mann komist nálægt OECD-meðaltali um 5 t/íb á ári og lækki þar með um 60 % á 14 árum.  Það kostar átak, en það er viðráðanlegt, af því að tækniþróunin gengur í sömu átt.

"Þegar allt dæmið er reiknað, segir Mikael, að íslenzkur flugfiskur, sem kominn er á markað í Belgíu, hafi losað um 1,22 kg af CO2 á hvert kg af fiski, þar af 220 g vegna sjálfs flugsins.  Hins vegar megi reikna með, að fiskur, sem komi á belgískan markað alla leið frá norðurhluta Noregs, sé með kolefnisspor upp á 2,55 kg CO2 á hvert fisk kg, þar af 360 g vegna flutningsins.  "Íslenzkur fiskur, sem fluttur er með fragtflugvélum, hefur ögn stærra kolefnisspor en sá, sem sendur er með farþegaflugi, en er samt umhverfisvænni en norski fiskurinn.""

Þetta eru merkileg og ánægjuleg tíðindi, sem sýna í hnotskurn, hversu góðum árangri íslenzkur sjávarútvegur hefur náð í umhverfisvernd, þar sem veiðar norsks sjávarútvegs og vinnsla losa 2,2 sinnum meira koltvíildi en íslenzks, og norskur fiskur kominn til Belgíu hefur losað 2,1 sinnum meira.

Áliðnaður er annað dæmi um, að framleiðsla Íslendinga skilur eftir sig minna vistspor eða er umhverfisvænni en sambærileg framleiðsla annars staðar.  Yfir helmingur af álframleiðslu heimsins fer fram með raforku frá kolakyntum orkuverum, og flest ný álver undanfarið í heiminum fá raforku frá slíkum verum.  Í slíkum tilvikum er myndun koltvíildis á hvert framleitt tonn áls 9,4 sinnum meiri en á Íslandi, sem þýðir, að andrúmsloftinu er þyrmt við 11,5 Mt á hverju ári við framleiðslu á 0,86 Mt af áli á Íslandi. 

Álvinnslan sjálf er og umhverfisvænst á Íslandi, þó að áhrifum orkuvinnslunnar sé sleppt, því að starfsmönnum hérlendis hefur tekizt bezt upp við mengunarvarnirnar, t.d. myndun gróðurhúsalofttegunda í rafgreiningarkerunum, og hefur ISAL í Straumsvík iðulega lent efst á lista álvera í heiminum með traustverða skráningu og lágmarksmyndun gróðurhúsalofttegunda.  Það stafar af góðri stjórn á kerrekstrinum, þar sem verkfræðingar fyrirtækisins hafa lagt gjörva hönd á plóg með öðru starfsfólki.

Í lok greinar Ásgeirs Ingvarssonar er vistspor fisks af Íslandsmiðum borið saman við vistspor landbúnaðarafurða.  Væri líka fróðlegt að bera það saman við vistspor fiskeldisins.  Það er líklegt, að fjárfestar líti í vaxandi mæli á vistsporið, þegar þeir gera upp á milli fjárfestingarkosta, því að lítið vistspor auðveldar markaðssetningu og verðmunur eftir vistspori mun aukast, eftir því sem vistspor mannkyns vex, eins og Hjörleifur Guttormsson lýsti, þó að þar kunni ýmislegt að fara á milli mála. 

"Er líka forvitnilegt að bera íslenzkan flugfisk saman við aðra próteingjafa, sem neytendum standa til boða.  Kemur þá í ljós, að íslenzkur fiskur hefur mun minna kolefnisspor.  "Að jafnaði má reikna með, að nautakjöt og lambakjöt hafi 20-30 sinnum stærra kolefnisspor en fiskur, sem fluttur er með flugi, og það eru ýmsir framleiðsluþættir í landbúnaðinum, sem valda þessum mikla mun."

Ofangreindar hlutfallstölur eiga augsýnilega við landbúnað meginlands Evrópu og Bretlands, en ekki Íslands, því að samkvæmt FAO - Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna - gildir talan 2,8 kg koltvíildis á hvert kg fitu og próteins kúastofna, sem framleiða bæði mjólk og kjöt, eins og íslenzki kúastofninn gerir,  en á meginlandinu gildir talan 46,2 kg CO2 per kg kjöts af stofni, sem eingöngu framleiðir kjöt. Þá er vistspor íslenzkra lamba hverfandi lítið, þar sem þau ganga með ánum á heiðum uppi eða í úthaga allt sumarið. 

Fróðlegt hefði verið að telja upp nokkra þeirra þátta, sem vistspor íslenzks landbúnaðar felst í.  Þá kæmi sennilega í ljós, að þeir standa margir hverjir til bóta.  Íslenzkir bændur eru nánast hættir að þurrka upp land og farnir að snúa þeirri þróun við.  Innan 15 ára verða nýjar dráttarvélar að líkindum knúnar rafmagni.  Slíkt, með mörgu öðru, kallar á að hraða þrífösun sveitanna og styrkinu dreifikerfis dreifbýlisins með jarðstrengjum í stað loftlína. 

Tilbúinn áburður stækkar sennilega vistspor landbúnaðarins.  Markaðstækifæri hins heilnæma íslenzka landbúnaðar felast sennilega öðru fremur í lífrænni ræktun, og þar er tilbúnum áburði úthýst. Íslenzkur fiskur og íslenzkt kjöt er nú þegar með svo lítið vistspor, að íslenzki landbúnaðurinn stenzt samkeppnisaðilum erlendis umhverfislegan og gæðalegan snúning, og það þarf að beita því vopni af meiri einurð við markaðssetninguna til að fá hærra verð. Það mun koma að því, að varan verður merkt með þessari einkunnagjöf á umbúðum eða í kjöt/fiskborðum verzlananna.   

 

 


Hvað er tromp ?

Kjör Donalds Trump sem 45. forseti Bandaríkjanna (BNA) hefur valdið úlfaþyt á vinstri vængnum.  Sumpart er það vegna þess, að sigur hans kom eins og þruma úr heiðskíru lofti þvert á skoðanakannanir og umsagnir álitsgjafa um frammistöðu frambjóðenda í sjónvarpseinvígjum, viðtölum og á fundum.  Sumpart stafar úlfaþyturinn af róttækri stefnu Trumps þvert á viðtekna stefnu ráðandi afla í Washington, á "Wall Street" og víðar.  Víxlararnir á "Wall Street" hafa verið stefnumarkandi á stjórnarárum demókrata og lengra aftur. Donald Trump ætlar að velta við borðum víxlaranna.  Slíkt þýðir óhjákvæmilega mikla drullu í viftuspaðana.

Ótta hefur gætt víða um, hvað valdataka svo róttæks manns muni hafa í för með sér, t.d. á sviði hernaðar, viðskipta og umhverfisverndar.  Þessar áhyggjur eru óþarfar, nema á þeim sviðum, þar sem stefna tilvonandi forseta og meirihluta í hvorri þingdeild fara saman.  

Donald Trump var vanmetinn frambjóðandi í forkosningum og í forsetakjörinu sjálfu.  Hann beitti annarri tækni en andstæðingarnir og uppskar vel.  Hann var ekki með fjölmargar kosningaskrifstofur hringjandi í fólk með hvatningu um að skrá sig í kosningarnar og kjósa sig.  Hann hélt hins vegar fjöldafundi, þar sem hann blés stuðningsmönnum og hugsanlegum stuðningsmönnum kapp í kinn.  Hann var með á sínum snærum greinendur, sem beittu nýrri tækni við að finna út, hverjir gætu hugsanlega kosið Donald Trump, og hvað hann þyrfti líklega að segja eða gera, lofa, til að slíkir kjósendur tækju af skarið og styddu Trump. 

Minnir þetta á baráttuaðferð Húnvetningsins Björns Pálssonar á Löngumýri, er hann vann þingsæti fyrir Framsóknarflokkinn í Húnaþingi 1959 með því að einbeita sér að Sjálfstæðismönnum.  Var hann spurður að því, hvers vegna hann heimsækti bara Sjálfstæðismenn, en vanrækti Framsóknarmennina.  Sagðist hann þá vita, hvar hann hefði hefði Framsóknarfólkið, það þekkti hann vel, en hann yrði að snúa nokkrum Sjálfstæðismönnum á sitt band til að komast á þing.  Fór svo, að Björn felldi Sjálfstæðismanninn, höfðingjann Jón á Akri, þingforsetann,m.a. með þessari aðferðarfræði.   

Repúblikanaflokkurinn hefur um langa hríð stutt heimsvæðingu viðskiptanna, "globalisation", og á því hefur engin breyting orðið með sigri Trumps.  Trump mun ekki skrifa undir neina nýja fríverzlunarsamninga, eins og t.d. við Evrópusambandið, ESB, enda er sá samningur strandaður nú þegar á andstöðu og tortryggni Evrópumanna. Hann mun líklega binda enda á fríverzlunarsamning yfir Kyrrahafið til Asíu, en þingið mun tæplega leyfa honum að rifta samningum við Kanada í norðri og Mexíkó og fleiri ríki í suðri. Kínverjar hafa þegar tekið frumkvæði um að bjarga Asíusamninginum, þótt BNA dragi sig út.  Vísar það til þess, sem koma skal, ef/þegar Bandaríkjamenn draga sig inn í skel sína.

Hins vegar mun hann líklega fá fjárveitingu í vegg/girðingu á landamærunum við Mexíkó til að draga úr straumi eiturlyfja og ólöglegra innflytjenda til BNA. Talið er, að þeir séu 11 milljónir talsins í BNA eða 3 % af fjölda bandarískra ríkisborgara. Slíkir undirbjóða bandaríska launþega og verktaka og eru undirrót víðtækrar óánægju í BNA.

Finnur Magnússon, lögmaður og aðjunkt við Lagadeild HÍ, birti grein á Sjónarhóli Morgunblaðsins, 20. október 2016,

"Blikur á lofti", um hnattvæðinguna, "globalisation":

"Undanfarin 30 ár hefur orðið "hnattvæðing" verið einkennandi fyrir pólitíska umræðu á Vesturlöndum.  Stjórnmálamönnum, embættismönnum, verkalýðsleiðtogum o.fl. hefur orðið tíðrætt um síaukna hnattvæðingu.  Árið 2000, í síðustu stefnuræðu sinni í bandaríska þinginu, fullyrti Bill Clinton, forseti Bandaríkjanna,að ekki yrði hægt að vinda ofan of hnattvæðingu þess tíma - hún yrði varanleg.

Einungis rúmum áratug síðar hefur aftur á móti átt sér stað þróun, sem bezt verður lýst sem bakslagi í viðhorfum kjósenda vestrænna ríkja til hnattvæðingar."

Það er næsta víst, að hinn síkáti Bill hafði rangt fyrir sér, þegar hann taldi hnattvæðinguna hafa fest sig í sessi.  Hún er ekki varanlegt fyrirkomulag í sinni núverandi mynd, heldur hljóta agnúar hennar að verða sniðnir af, svo að flestir geti samþykkt hana.  Hún hefur gagnast Þriðja heiminum vel og lyft hundruðum milljóna manna úr örbirgð til bjargálna.  Neikvæða hliðin er gjaldþrot fyrirtækja á Vesturlöndum, sem ekki hafa getað lagað starfsemi sína að breyttum aðstæðum.  Fólk hefur þá orðið atvinnulaust eða orðið að samþykkja lægri laun við sömu eða önnur störf.  Í sumum tilvikum er endurhæfing og/eða endurmenntun lausn á þessum vanda, en slíkt krefst vilja og getu starfsmanna til að gangast undir slíkt og nýrra atvinnutækifæra, sem hörgull er á í stöðnuðum þjóðfélögum. 

Íslendingar hafa orðið áþreifanlega varir við þetta ástand hjá málmframleiðslufyrirtækjunum, álverum og járnblendiverksmiðju, en mikil verðlækkun hefur orðið á mörkuðum þeirra vegna offramleiðslu Kínverja, sem fyllt hafa markaðina af ódýrri og jafnvel niðurgreiddri vöru frá kínverskum ríkisverksmiðjum.  Erlendis hefur komið til minni framleiðslu fyrirtækjanna af þessum sökum eða jafnvel lokun, en á Íslandi hefur afleiðingin orðið mikið aðhald og sparnaður í rekstri þessara fyrirtækja og litlar fjárfestingar ásamt tapi í þeim tilvikum, þar sem raforkuverðið hefur ekki fylgt afurðaverðinu.  Um það eru dæmi hérlendis, t.d. í elzta álverinu.  Þjóðhagslega hefur þetta ekki komið að sök vegna ótrúlegrar fjölgunar erlendra ferðamanna á Íslandi, sem sumir koma frá Kína og hefðu ekki haft ráð á slíku ferðalagi án hnattvæðingarinnar. Síðan 2009 hefur aukning gjaldeyristekna ferðageirans verið tvöföld saman lögð aukning sjávarútvegs og orkukræfs iðnaðar. 

Hnattvæðingin hefur lækkað verð á iðnaðarvörum og hækkað verð á matvælum, af því að fleiri hafa nú ráð á að kaupa matvæli.  Fyrir íslenzka hagkerfið er litlum vafa undirorpið, að frjáls viðskipti þjóna almennt hagsmunum fyrirtækjanna, hagsmunum almennings og efla hagvöxtinn.  Hin pólitíska mótsögn Trumps er sú, að hægri menn eru mun hrifnari af hagvexti en vinstri menn, sem tala margir hverjir niðrandi um hann, og ofstækisfullir umhverfisverndarsinnar telja jörðina ekki þola hagvöxt. Trump er reyndar hrifinn af hagvexti, en ætlar að beita öðrum aðferðum en frjálsum utanríkisviðskiptum honum til eflingar.  Hugmyndafræði bókarinnar  "Endimarka vaxtar" eða "Limits to Growth" lifir enn góðu lífi í vissum kreðsum, en það eru ekki kreðsar Donalds Trump, og nú óttast menn, að hann muni losa BNA undan skuldbindingum Parísarsamkomulagsins frá desember 2015, en það yrði þeim ekki til vegsauka. 

Tæknivæðingin hefur gert hnattvæðinguna í sinni núverandi mynd mögulega.  Tæknivæðingin og hnattvæðingin í sameiningu hafa knúið  framleiðniaukningu undanfarinna áratuga um allan heim.  Framleiðniaukning er undirstaða sjálfbærs hagvaxtar og varanlegra kjarabóta almennings.  Donald Trump mun sem forseti hafa nokkuð víðtæk völd í utanríkismálum og getur þess vegna með fyrirvara afturkallað skuldbindingar Bandaríkjamanna í samningum við erlend ríki.  Þar sem hann er sjóaður viðskiptamaður, mun hann væntanlega aðeins gera það að vel athuguðu máli, ef hann er t.d. sannfærður um, að slíkt sé nauðsynlegt til að draga úr miklum halla Bandaríkjanna á viðskiptum við útlönd.

Lítum á, hvað Finnur Magnússon skrifar meira um hnattvæðingu:  

"Hvað er hnattvæðing ?  Í bók sinni, "Hnattvæðing og gagnrýni hennar", útskýrir Joseph Stiglitz, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, hugtakið þannig, að um sé að ræða nánari samskipti ríkja og einstaklinga í heiminum, sem eru afleiðing af lækkun flutningskostnaðar og aukinna samskipta og útrýmingar á hindrunum, sem standa í vegi fyrir frjálsum vöruviðskiptum, þjónustuviðskiptum, fjármagnsviðskiptum og skoðanaskiptum á milli fólks í ólíkum löndum. - Það er einmitt brottfall þessara hindrana, sem gerir fólki kleift að auka lífsgæði sín.  Svo að dæmi sé nefnt, lækkaði kostnaður vegna 3 mín símtals á milli New York og London úr USD 300 árið 1930 niður í USD 1 árið 1997.  Þessi lækkun á kostnaði getur af sér aukin samskipti, þar sem allur almenningur hefur ráð á að notfæra sér þessa þjónustu, og leiðir það ekki síður til aukinna viðskipta á milli landa, sem skapa gífurleg efnahagsleg gæði."

Af þessum sökum eru miklir hagsmunir í uppnámi í Evrópu eftir Brexit.  Það er mjög mikið í húfi fyrir Breta og hin ríkin í Evrópusambandinu, ESB, að frjáls viðskipti haldist við Breta.  Heyrzt hefur, að brezka ríkisstjórnin kjósi helzt að gera sjálfstæðan fríverzlunarsamning við ESB, BNA, Brezka samveldið, Kína og önnur mikilvæg viðskiptasvæði Breta.  EES, Evrópska efnahagssvæðið, freistar ríkisstjórnarinnar ekki sérstaklega, af því að þá situr hún uppi með frjálsa för EES-þegna til Bretlands, þótt Bretar séu ekki aðilar að hinu alræmda Schengensamkomulagi um opin innri landamæri aðildarlandanna. Skotar eru með þreifingar í Brüssel og Reykjavík um aðild að ESB eða EES.  Í ríkjasambandi við Englendinga er hvorugt mögulegt.  Skeri þeir á böndin við Lundúni, verður aðild ekki samþykkt í Brüssel vegna óvinsæls fordæmis, en yrði samþykkt í Reykjavík, Ósló og Liechtenstein, ef að líkum lætur. 

Jafnframt hefur framkvæmdastjórn ESB látið út berast, að hún vilji hörkulegt Brexit til að önnur aðildarlönd ESB falli ekki í freistni og yfirgefi ESB líka.  Því verður samt ekki að óreyndu trúað, þótt því sé trúandi upp á búrókratana í Brüssel, að ESB muni stofna til viðskiptastríðs innan Evrópu. 

Lars Christensen, alþjóðahagfræðingur, ritar áhugaverða pistla í "Markaðinn", sem er hluti af Fréttablaðinu á miðvikudögum.  Greinin, 16. nóvember 2016, heitir:

""Trumpbólga" er yfirvofandi":

"...., en ég hef lagt áherzlu á, að ég byggist ekki við, að verðbólgan færi yfir 2,0 % í Bandaríkjunum og á evrusvæðinu í náinni framtíð.  Það var hins vegar áður en Donald Trump vann óvæntan sigur í bandarísku forsetakosningunum 8.11.2016.  Með Trump sem forseta Bandaríkjanna mun verðbólgan stefna hærra.

Næstum öll stefnumál Donalds Trump munu ýta upp verðlagi í BNA - bæði frá framboðshliðinni (kostnaður) og frá eftirspurnarhliðinni (aukning). Ef við byrjum á framboðshliðinni, þá munu fyrirætlanir Trumps um um að herða innflytjendastefnuna og jafnvel að reka ólöglega innflytjendur úr landi örugglega leiða til hækkunarþrýstings, hvað launakostnað varðar.  Auk þess mun afstaða Trumps til verndartolla hækka innflutningsverð.  Sem betur fer virðist ekki vera meirihluti fyrir því að koma öllum stefnumálum Trumps, hvað varðar innflytjendur og verndartolla, gegnum þingið, en honum mun sennilega takast að koma einhverjum þeirra í gegn.

Hvað eftirspurnarhliðina varðar, hefur Trump sagzt vilja "tvöfalda hagvöxt" - við aðstæður, þar sem vöxtur vergrar landsframleiðslu að raunvirði er sennilega nú þegar farinn að nálgast mögulegan vöxt.  Hann hyggst auka hagvöxt með því, sem bezt verður lýst sem gamaldags stefnu Keynes - miklum vanfjármögnuðum skattalækkunum  og umfangsmiklum fjárfestingum í innviðum."

Meginvandi hagkerfis heimsins hefur verið stöðnun og verðhjöðnun.  Donald J. Trump mun setja bandaríska hagkerfið á fullan snúningshraða og fá öllum vinnufúsum höndum betur launuð verk að vinna en fáanleg hafa verið lengi í BNA. Væntingar um þessa stefnubreytingu hófu þegar um 10.11.2016 að hækka bandaríkjadalinn, USD, og hann er nú t.d. orðinn verðmætari en CHF og mun vafalítið árið 2017 sigla fram úr EUR.  Ástæðan fyrir því er aukið fjárstreymi til BNA í væntingu um hækkun stýrivaxta bandaríska seðlabankans til að sporna við verðbólgu vegna aukins peningamagns í umferð af völdum hugsanlegs tímabundins aukins hallarekstrar ríkissjóðs BNA. 

Ef Donald ætlar að girða fyrir aukinn innflutning til BNA af völdum aukins hagvaxtar og kaupmáttar almennings með innflutningshömlum, þá verða áhrif Trump-sveiflunnar í BNA takmörkuð á umheiminn, en annars er aukinn kraftur í bandarísku hageimreiðinni einmitt það, sem hagkerfi flestra landa heimsing þarf á að halda núna.  Það eru spennandi tímar framundan, eins og alltaf, þegar jákvæðra breytinga er að vænta með nýjum leiðtogum.  Er óskandi, að Evrópumenn og aðrir láti af fordómum og sleggjudómum um væntanlega embættistíð nýkjörins Bandaríkjaforseta, en dæmi hann, ríkisstjórn hans og Bandaríkjaþing af verkum sínum í fyllingu tímans.  Slíkt er siðaðra manna háttur. 


Æskan og menntakerfið

Fyrir hag almennings á Íslandi skiptir samkeppnishæfni landsins við útlönd meginmáli.  Á síðasta kjörtímabili fór Íslandi mjög fram, hækkaði um 4 sæti frá 2013-2015, hvað samkeppnishæfni varðar, að mati World Economic Forum-Global Competitiveness Index-WEF-GCI, en hrörnun samkeppnishæfni og lífskjara hefur hins vegar verið óumflýjanlegur fylgifiskur vinstri stjórna. 

Samkvæmt skýrslu WEF eru helztu hamlandi þættir á samkeppnishæfni hérlendis: gjaldeyrishöft, skattheimta og verðbólga.  Þessir þættir stóðu allir til bóta árið 2016, og munu þeir draga úr rýrnun samkeppnishæfni af völdum um 20 % styrkingar ISK á árinu.  Nú, 16.11.2016, hafa furðufuglarnir í Peningastefnunefnd Seðlabankans hins vegar ákveðið, að vegna um 5,0 % hagvaxtar 2016 sé óráð að lækka vexti.  Með þessu ráðslagi grefur bankinn undan trúverðugleika hagstjórnarinnar, því að ISK ofrís nú, og slíkt endar aðeins með kollsteypu. Í þessu sambandi má benda á Svíþjóð.  Þar er hagvöxtur um 4 % 2016, en stýrivextir sænska seðlabankans eru neikvæðir.  Hagfræðingarnir, sem þessu ráða í þessum tveimur löndum,virðast hafa gengið í mjög ólíka skóla.  Vonandi bjagar fortíð íslenzka Seðlabankastjórans sem Trotzkyisti ekki lengur viðhorf hans til raunveruleikans. 

Sviss, Singapúr og Bandaríkin eru efst á þessum lista WEF.  Svissneski frankinn, CHF, hefur fallið mjög m.t.t. USD á þessu ári, enda stýrivextir við 0 í Sviss.  Nú eru teikn á lofti um, að USD muni stíga m.v. aðra gjaldmiðla, einkum EUR og GBP, vegna vaxandi hagvaxtar og hækkandi stýrivaxta í upphafi valdatíðar Donalds J. Trump.

Hið merkilega er, m.v. umræðuna í fjölmiðlum, að á Íslandi stendur grunnskólakerfið og heilbrigðiskerfið vel að vígi samkvæmt WEF og skorar 6,6 af 7,0, og er Ísland þar í 7. sæti af 138 löndum. 

Þá er Ísland vel í sveit sett, hvað varðar að tileinka sér nýja tækni, skorar 6,2 og lendir í 8. sæti.

Hið síðast nefnda hlýtur að vera háð menntunarstigi í landinu og gæðum framhalds- og háskóla.  Vitað er hins vegar, að þar er pottur brotinn, svo að slembilukka gæti ráðið mikilli aðlögunarhæfni að nýrri tækni. 

Mennta- og menningarmálaráðherra vinstri stjórnarinnar 2009-2013 reif niður framhaldsskólakerfið með stórfelldum skerðingum á framlögum ríkisins til þess. Það var kreppa, en það er almennt viðurkennt, að við slíkar aðstæður má ekki ráðast á fræðslukerfið, því að það er undirstaðan fyrir viðsnúning.  Þá er mikilvægast að fjárfesta í framtíðinni

Þrátt fyrir þessi afglöp og stórfelld svik við kjósendur VG með umsókn ríkisstjórnar um aðild að ESB og undirlægjuhátt hennar við AGS og kröfuhafa föllnu bankanna, þá er téð Katrín samt vinsælasti stjórnmálamaður þjóðarinnar.  Ávirðingar hennar virðast enn ekki festast við hana, svo að hún verðskuldar vissulega heitið Teflón-Kata.

Illugi Gunnarsson, mennta-og menningarmálaráðherra ríkisstjórna Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Sigurðar Inga, 2013-2016, er af allt öðru sauðahúsi, enda lét hann hendur standa fram úr ermum við að bæta fyrir kárínur Katrínar í embætti.  Hann skrifaði mjög góða grein í Morgunblaðið 18. október 2016, "Endurreisn framhaldsskólans",

og verður nú vitnað í hana:

"Þegar núverandi ríkisstjórn tók við sumarið 2013, voru framlög á hvern nemanda í framhaldsskólum landsins um kkr 900 á verðlagi 2016.  Á árunum fyrir hrun hafði aðhaldskröfu verið beint að skólunum, en í kjölfar hrunsins var gengið mjög hart fram gagnvart framhaldsskólunum og þeir skornir mjög grimmt niður.  Til að setja kkr 900 framlagið á hvern nemanda í samhengi, þá er framlag á verðlagi ársins 2016 á hvern grunnskólanemanda um kkr 1´700.  Þessi skelfilega lága tala, sem blasti við sumarið 2013, stefndi öllu skólastarfi í voða, og engar raunhæfar áætlanir voru uppi um, hvernig unnið yrði úr þeirri stöðu."

Þessi hrikalega lýsing eftirmanns Teflón-Kötu á viðskilnaði hennar við embætti menntamálaráðherra bendir til, að hún sé óhæfur stjórnandi.  Ekki einvörðungu skar hún framhaldsskólana inn að beini, svo að starfsemi þeirra beið tjón af, heldur var hún svo sinnulaus um starf sitt, að hún lét undir höfuð leggjast að gera áætlun um endurreisnina.  Öll sú vinna féll í skaut eftirmanns hennar í embætti, og hann hafði forgöngu um kerfisbreytingar, sem leggja munu grundvöll að framhalds- og háskólakerfi í fremstu röð og að menntakerfi, sem eykur samkeppnishæfni þjóðfélagsins:

"Fjölmargar ástæður liggja því til grundvallar að fara úr fjögurra ára framhaldsskólakerfi í þriggja ára kerfi.  Ljóst var, að Ísland var eina landið innan OECD, þar sem 14 ár þurfti til að undirbúa ungmenni fyrir háskólanám, en önnur lönd kláruðu það verkefni á 12 eða 13 árum.  Ekki var hægt að víkja sér undan því að breyta þessu, gríðarlegir hagsmunir eru undir fyrir þjóðarbúið allt, og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur metið það svo, að þjóðarframleiðslan muni verða hærri sem nemur 14-17 miökr/ár vegna þessarar breytingar.  Ríkissjóður mun þar af leiðandi fá í sinn hlut um 5-7 miakr/ár í auknar skatttekjur, og munar um minna."

Illugi gat ekki vikizt undan skyldum sínum sem menntamálaráðherra til að auka skilvirkni framhaldsskólanna, um leið og hann skaut traustum fótum undir umbætur með mjög auknum fjárframlögum úr ríkissjóði.  Teflón-Kata átti hins vegar í engum erfiðleikum með það.  Hennar aðferð er að stinga hausnum í sandinn, ef hana grunar, að krefjandi verkefni sé handan við hornið: 

"Það, sem ég ekki sé, það er ekki fyrir hendi."

"Til viðbótar því fjármagni, sem mun bætast við framlög á hvern nemanda vegna styttingarinnar, þá liggur nú fyrir í samþykktri áætlun um ríkisfjármál til ársins 2021 ákvörðun um að auka framlög til framhaldsskólans um miakr 2,6 á þeim tíma, sem áætlunin nær til. 

Þar með mun framlag á hvern nemanda aukast úr rúmum kkr 900 í um kkr 1´570 árið 2021, og svigrúm er til enn frekari hækkana, ef vilji stendur til slíks. 

Þetta mun gjörbreyta öllu starfi framhaldsskólanna, möguleikum þeirra til að sinna hverjum nemanda með fullnægjandi hætti og tryggja, að menntun ungmenna á Íslandi sé jafngóð því, sem bezt gerist í þeim löndum, sem við viljum bera okkur saman við um lífskjör."

Ofan á sveltigildi Teflón-Kötu er Illugi búinn að bæta kkr 670 eða 74 % sem framlagi ríkisins per nemanda á ári að raunvirði.  Þá verður þetta framlag hærra en allra hinna Norðurlandanna, nema Noregs, og 42 % hærra en meðaltal OECD var árið 2012.  Ef svo fer fram sem horfir um þróun efnahagsmála, verður framlag ríkisins á Íslandi hið hæsta á Norðurlöndunum árið 2021. Er það vel að verki verið hjá Illuga og ríkisstjórninni, sem hann sat í 2013-2016. 

Átak er nauðsynlegt á þessu kjörtímabili í fjármögnun háskólanna, svo að góður menntunargrunnur beri hámarks ávöxt.  Illu heilli stöðvaði Teflón-Kata, ásamt öðrum afturhaldsöflum í blóra við vilja stúdenta, framgang frumvarps Illuga um fjárhagslegt stuðningskerfi við stúdenta í lok síðasta þings haustið 2016.  Frumvarpið innihélt fjárhagslega hvata fyrir stúdenta til að standa sig í námi og ljúka því án tafa.  Umbætur Illuga beinast allar að aukinni framleiðni og auknum gæðum, en skilvirkni er eitur í beinum Teflón-Kötu. Þar situr aumingjavæðingin í fyrirrúmi, enda þjónar slíkt flokkshagsmunum Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.  Stórskuldugir eilífðarstúdentar, sem aldrei verða borgunarmenn himinhárra skulda við LÍN, eru hennar menn. 

Mjög jákvætt teikn við íslenzka þjóðfélagið er atvinnuþátttaka ungmenna á aldrinum 15-29 ára.  Á meðal aðildarríkja OECD er hún mest á Íslandi eða um 78 %. Aðgerðarleysi og atvinnuleysi ungmenna er í mörgum löndum stórfellt þjóðfélagslegt og efnahagslegt vandamál.

Í Sviðsljósi Björns Jóhanns Björnssonar í Morgunblaðinu, 13. október 2016, stendur þetta í upphafi greinarinnar:

"Atvinnuþátttaka ungmenna hvergi meiri":

"Samkvæmt nýrri skýrslu frá OECD, Efnahags- og framfarastofnuninni, virðast íslenzk ungmenni búa við mun betri aðstæður en [ungmenni] í öðrum löndum.  Þannig er atvinnuþátttaka 15-29 ára um 80 % hér á landi, en hlutfallið er 2 % í Grikklandi og 28 %-37 % á Ítalíu, Spáni og Portúgal."

Að Ísland skuli fá hæstu einkunn innan OECD fyrir atvinnutækifæri til handa ungmennum, er einhver þýðingarmesta umsögn, sem íslenzka þjóðfélagið getur fengið, og vitnar um heilbrigði þess, fólks, atvinnulífs og stjórnarfars, hvað sem úrtöluröddum niðurrifsaflanna líður.  Ýmsar úrtöluraddir telja íslenzka samfélagið of lítið til að geta staðizt sjálfstætt.  Af 35 ríkjum OECD í þessum samanburði er meðaltalið rúmlega 50 % atvinnuþátttaka ungmenna.  Til hvers að vera stór eða hluti af stóru ríkjasambandi, ef það þýðir mun verri aðstæður og færri atvinnutækifæri fyrir nýja kynslóð ?

Þessu tengd eru lífslíkur, sem eru einna hæstar á Íslandi innan OECD, svo og lífsánægjan, sem fær 7,5 af 10,0 á Íslandi. 

Að lokum skal birta hér upplýsingar um fátækt innan OECD, sem sýna svart á hvítu, að jöfnuður er tiltölulega mikill á Íslandi, enda er menntakerfi, eins og hið íslenzka, öflugasta jöfnunartækið:

"Þegar tölur um fátækt eru skoðaðar, er hlutfall ungmenna einna hæst í flestum ríkjum, einkum þar sem ungmenni fara fyrr að heiman.  Á Íslandi er hlutfall ungmenna, sem teljast búa við fátækt, rúm 5 %.  Um 3 % eldri borgara á Íslandi búa við fátækt samkvæmt OECD.  Eru þær tölur frá árinu 2014.

Athygli vekur, að 25 % ungmenna (16-29 ára) í Bandaríkjunum búa við fátækt, um 24 % í Danmörku, 23 % í Noregi og tæp 20 % í Svíþjóð.  Hvað Norðurlöndin varðar, er í skýrslunni sérstaklega bent á, að ungt fólk flytji fyrr úr foreldrahúsum en víðast annars staðar."

Íslendingar geta verið stoltir af þjóðfélagi sínu varðandi aðbúnað ungmenna og tækifæri þeirra til náms og starfa.  Það er þó vissulega hægt að gera betur. Viðskilnaður fráfarandi ríkisstjórnar er glæsilegur í þessum efnum, en hvort ný ríkisstjórn hefur vit á því að beina kröftunum í rétta átt, þ.e. þangað, sem mestu varðar að ná frábærum árangri út frá sanngirnissjónarmiðum og fjárhagslegum ávinningi samfélagsins er önnur saga.  Það er líka undir hælinn lagt, hvort hún ratar rétta braut að ákvörðunarstað eða þvælist bara fyrir framförum.  Sporin hræða.

 

 

 


Vinstrið slegið út af laginu

Hvarvetna um heim hallar á vinstri menn í kosningum til þjóðþinga og í embætti þjóðhöfðingja.  Stundaglas vinstri manna er að tæmast, enda er ferill þeirra ömurlegur í sögulegu samhengi.  Það flæðir um þessar mundir hratt undan þeim. 

Nýjustu dæmin eru frá Íslandi og Bandaríkjunum, BNA. Á Íslandi var mynduð vinstri blokk fyrir kosningar með bramli og brauki, sem kjósendur  síðan höfnuðu sem misheppnuðu tiltæki.  Í BNA unnu repúblikanar, sem á 20. og 21. öldinni hafa yfirleitt verið taldir vera hægra megin við demókrata,  meirihluta í báðum þingdeildum, og frambjóðandi þeirra til forsetaembættisins vann kosningarnar, þótt hann tapaði í flestum skoðanakönnunum og væri "underdog-tapari" í umsögnum flestra fréttastofanna og meira eða minna óalandi og óferjandi í munni flestra álitsgjafanna.  "Elítan" á öllum sviðum, sem borin er uppi af "Wall Street", hefur demókrata í vasanum og hirðir lítt um hagsmuni almúgans, mátti lúta í gras og sleikir nú sár sín, urrandi ill, eins og Samfylkingin á Íslandi, sem kjósendur sýndu rauða spjaldið og fékk aðeins einn kjördæmakjörinn þingmann 29. október 2016, þótt 2 aðrir flytu á fjörur Alþingis sem hvert annað strandgóss. Fyrrverandi varaformaður þeirra er nú komin í embætti hjá samtökum fjármálafyrirtækja.

Þó að blekbóndi sé ekki stjórnmálafræðingur, tekur hann sér Bessaleyfi og skýrir stefnu og sigur Donalds Trumps þannig, að hún miði öll að því að endurreisa framleiðslukerfi Bandaríkjanna, BNA, iðnaðinn, og skapa þannig grundvöll nýrra, vel launaðra og gefandi starfa, draga þannig úr atvinnuleysi bandarískra ríkisborgara, svo að bandaríski Meðal-Jóninn sjái aftur fjölgun dollara á launaseðli sínum eftir 40 ára hlé á því í raundölum talið. 

Í þessu ljósi ber að líta á afstöðu Donalds til ólöglegra innflytjenda í landinu og ráða hans til að stemma stigu við innflæði fólks yfir landamærin.  Fríverzlunarsamninga hefur hann sömuleiðis gagnrýnt, því að ódýr innflutningur hefur ógnað framleiðslustörfum í BNA og haldið launum niðri í slíkum geirum. 

Hatur spákaupmanna, sem kenndir eru við verðbréfahöllina á "Wall Street", á Donald Trump,  má skýra með því, að stefna hans miði að því, að aukinn hluti verðmætasköpunar bandaríska hagkerfisins lendi í vasa launþeganna.  Aukinn launakostnaður fyrirtækjanna dregur að öðru jöfnu úr hagnaði þeirra, og þá minnka arðgreiðslur til fyrirtækjanna, og pappírssnatarnir á "Wall Street" hafa þá minna upp úr krafsinu.  Kosningasigur Trumps og Repúblikanaflokksins og átökin í kosningabaráttunni verða vel skiljanleg í þessu ljósi, en þeir, sem kenna sig við fræðiheitið Stjórnmálafræði á Íslandi hafa ekki borið við að setja stöðu mála í þetta samhengi, heldur fjargviðrazt einfeldningslega út af einstökum atriðum, að því er virðist vegna andúðar og/eða samúðar með persónum og leikendum.  Verður ekki séð til hvers slík "fræðimennska" er eiginlega nýt.

 Stjórnmálaflokkar, sem staðsetja sjálfa sig vinstra megin við miðju í stjórnmálum, þó að sú miðja sé breytileg frá einu landi til annars, og breytist líka í tíma, eins og Bandaríkin eru skýrt dæmi um, eru í hugmyndafræðilegri úlfakreppu, sem kemur fram í kosningaósigrum um víða veröld.  Vinstri menn á Íslandi, sem 29. október 2016 töpuðu kosningum til Alþingis, þegar þeir töldu sér sigurinn vísan vegna  skoðanakannana, sem vitað er nú, t.d. eftir bandarísku kosningarnar, að er lítið að marka, og er í sumum tilvikum hrein "manipúlasjón", þ.e. misnotkun í því augnamiði að afvegaleiða kjósendur. 

Ríkisstjórn Sigurðar Inga, vinsæls og vel metins dýralæknis af Suðurlandi, féll að vísu, en tilburðir Pírata til að mynda vinstri stjórn fyrir kosningar reyndust alls ekki falla meirihluta kjósenda í geð.  Svikabrigzl sjóræningjadrottningarinnar eftir kosningar í garð þeirra (BF), sem þáðu boð hennar um myndun sýndarríkisstjórnar, sem aldrei varð barn í brók, hljóma eins og spangól kjölturakka. Áður lýsti hún því yfir, að Píratar vildu ekki setjast í ríkisstjórn, en nú vilja þeir í ríkisstjórn með Teflon-Kötu.  Hringlandahátturinn ríður ekki við einteyming á þeim bænum.  Tilburðir til stjórnarmyndunar með þessu tætingsliði á vinstri kantinum eru einber tímasóun. 

Aumkvunarverðar tilraunir vinstri flokkanna til stefnumörkunar eru allar reistar á sandi vanþekkingar og/eða rangtúlkunar á staðreyndum.  Með því að sigla undir fölsku flaggi komast þeir einatt til valda og þá bregst ekki, að þeir nota völdin til að hrinda óvinsælli sérvizku sinni í framkvæmd. Sem dæmi má taka hundakúnstir talsmanna vinstri flokkanna, er þeir fiskuðu í gruggugu vatni jöfnunar tekna og eigna í landinu fyrir kosningar til að fá átyllu til skattahækkana eftir kosningar:

Teflon-Kata, formaður VG, lapti eins og vel strokinn köttur upp úr Kjarnanum og Fréttablaðinu á síðustu dögum síðasta þings, þar sem hún reyndi að gera dreifingu fjármagnstekna og launatekna tortryggilega.  Svandís Svavarsdóttir, SS, illyrtur og hugmyndasnauður sameignarsinni, bætir jafnan um betur til að falla samt ekki í skugga Teflon-Kötu, enda er hún meira í ætt við broddgölt áferðar en Teflon-Kata, og sagði á þingi af þessu tilefni, að baráttan á Íslandi stæði nú um það, hvort lítill hópur eigi að taka til sín miklu meira en aðrir og klykkti svo út þannig:

"Hvort útgerðaraðallinn og Panama-yfirstéttin eigi áfram að efnast meira á kostnað hinna.  Við sjáum það á hverjum einasta degi, að hinir ríku verða ríkari, og misskipting er að aukast dag frá degi."

Þessi tilvitnun í Alþingismanninn SS er groddaleg blanda hálfkveðinna vísna og ósanninda í anda stéttastríðs upp á gamla móðinn.  SS virðist vera genetísk afæta. Téðum þingmanni hentar afar illa að fara með rétt mál, enda helgar tilgangurinn meðalið hjá ómerkilegum stjórnmálamönnum. ("Der Erfolg berechtigt den Mittel" var mottó annarra einræðisafla, sem sölsuðu undir sig ríkisstjórnarvald í veiku  Weimar-lýðveldi eftir þingkosningar í janúar 1933.)

Gunnar Jörgen Viggósson gerði aðdróttanir Teflon-Kötu á þingi um aukna misskiptingu tekna og eigna að umræðuefni í pistli, sem hann fékk birtan á Stundinni fyrir kosningar 29.10.2016. 

Hann hrekur allan vaðalinn í Teflon-Kötu og endar pistilinn þannig:

"Meirihluti þeirra fullyrðinga, sem Katrín Jakobsdóttir hafði eftir Fréttablaðinu í gær á Alþingi voru rangar.  Á undanförnum árum hefur þróunin ekki verið sú, að 2 tekjuhæstu tekjutíundir fái greiddan stærri hlut af launum landsmanna.  Sömu tekjutíundir fengu ekki 2 krónur af 3 af aukningu launatekna, og aukning launatekna nam ekki miakr 200 á milli áranna 2013 og 2015."

Teflon-Kata fær hér falleinkunn fyrir slæleg vinnubrögð og skáldskap, þar sem hún veður að óathuguðu máli upp í ræðupúlt Alþingis og slær um sig með upplýsingum frá fjölmiðli án þess að kynna sér sannleiksgildið.  Það litla, sem hún kom í verk í ráðherratíð sinni, var reyndar þessu markinu brennt að standast illa gagnrýni, t.d. frumvarp hennar um lánsfé til stúdenta erlendis án greiningar á lánsfjárþörf í hverju landi. 

Hvað hefur Óðinn að skrifa um þetta í greininni, "Vopnabúr vinstrimanna er tómt"

í Viðskiptablaðinu, 13. október 2016 ?: 

"Tekjujöfnuður eftir skatta er mestur á Íslandi af ríkjum OECD, var það í tíð síðustu ríkisstjórnar [Jóhönnu Sigurðardóttur] og er enn. Samkvæmt GINI stuðlinum hefur heldur dregið saman með tekjuháum og tekjulágum síðastliðin ár, og var stuðullinn 0,4 stigum lægri (meiri jöfnuður) árið 2015 en við lok síðasta kjörtímabils.

Einnig er hægt að skoða þróun eigin fjár einstaklinga síðustu ár, en eigið fé er í einföldu máli eignir að frádregnum skuldum.  Eigið fé einstaklinga á Íslandi hefur aukizt verulega frá árinu 2010, þegar það var í lágmarki eftir fall bankanna.  Alls nemur aukning eigin fjár einstaklinga miökr 1´384,3, sem er 88 % aukning á milli áranna 2010 og 2015. 

Hlutfallslega hefur staða einstæðra foreldra og hjóna með börn batnað mest.  Árið 2010 var eiginfjárstaða einstæðra foreldra neikvæð um miakr 6,0, en var í árslok 2015 jákvæð um miakr 69,4.  Eiginfjárstaða hjóna með börn hefur batnað um 184 % og farið úr miökr 184,8 í miakr 524,3.  Til samanburðar hefur eiginfjárstaða hjóna án barna batnað um 60 % á tímabilinu."

Þessar tölur sýna, svo að ekki verður um villzt, að eignastaða hinna lakar settu í þjóðfélaginu hefur tekið stakkaskiptum á fáeinum árum, og þvert ofan í getsakir þeirra tveggja sameignarsinnuðu og þó ólíku kvenna, sem vitnað var til hér að ofan, þá hefur hagur hinna lakast settu skánað hlutfallslega mest, sem hefur haft jákvæð áhrif á jöfnuðinn.  Þær hafa þannig báðar orðið berar að gaspri um mál, sem hvorug þeirra hefur þó meiri áhuga á en svo, að hvorki formaður VG né formaður þingflokks hennar nennir að kynna sér málið.  Þar er hinum ráðandi öflum rétttrúnaðarsafnaðarins rétt lýst. Þau vaða á súðum.

Óðinn heldur áfram:  

"Hinir efnuðustu eru vissulega að auka verulega við eignir sínar í krónum talið, en hlutfallslega hefur hagur allra annarra batnað meira en þeirra.  Sést þetta til að mynda á því, að árið 2010 átti efnamesta tíundin um 86 % af heildareiginfé landsmanna, en árið 2015 var hlutfallið komið niður í um 64 %."

Sú spurning vaknar, hvort það sé hlutverk ríkisvaldsins að amast við því, að einhverjum vegni fjárhagslega betur en öðrum ?  Ef féð er heiðarlega fengið, þá hefur sjaldnast nokkur skaðast á velgengni annars.  Oft er um að ræða háskólafólk, sem hefur auðgazt af menntun sinni og sérfræðiþekkingu, t.d. læknar, lögfræðingar, verkfræðingar og viðskiptafræðingar, svo að ekki sé nú minnzt á eftirsótta skipsstjórnendur og flugstjóra.  Það er einmitt hin eftirsóknarverða þjóðfélagslega afleiðing menntunar, að hún eykur s.k. þjóðfélagslegan hreyfanleika, þ.e. tilfærslu fólks á milli stétta og tekjuhópa.  Þessi þjóðfélagslegi hreyfanleiki eftir launastiganum er óvíða meiri en á Íslandi, og hann er miklu eftirsóknarverðara og heilbrigðara þjóðfélagseinkenni en tekju- og/eða eignajöfnuður, sem dregur dám af ríkisvæddu ráni, dregur úr hagvexti og minnkar eða dregur úr vexti skattstofnanna.  Með öðrum orðum á ríkisvaldið að leggja meiri áherzlu á jöfnun tækifæra en jöfnun tekna og/eða eigna, sem ríkið gerir einatt með ranglátri skattheimtu.  Það orkar mjög tvímælis að mismuna þegnunum með misharðri skattheimtu og þannig draga úr hvatanum til að sækja sér menntun eða öðruvísi að leggja harðar að sér við tekjuöflun og eignamyndun. 

"Nær hvernig sem á það er litið, hefur jöfnuður verið að aukast síðustu ár, og er allt tal um annað í bezta falli á misskilningi byggt.  Hitt er svo annað, að jöfnuður á ekki að vera sérstakt markmið í sjálfu sér.  Aðalatriðið er það, hvort almenn velsæld sé að aukast eða minnka.  Það, að nágranni Óðins eigi meira í dag en í gær, hefur ekkert með það að gera, hvort hagur Óðins sjálfs hafi vænkazt eða ekki."

Þarna drepur Óðinn á þjóðfélagslega meinsemd, sem er metingur nágranna, kunningja eða stétta um lífskjör.  Þetta kom síðast fram, þegar Kjararáð kvað upp úrskurð um laun Alþingismanna.  Þegar betur var að gáð, fylgdi Kjararáð bara þróun launavísitölu, þó að stökkið væri hátt, en þau hafa verið tiltölulega fá.  Verkalýðsforingjar réðust að Kjararáði fyrir þennan úrskurð, og fór forseti ASÍ þar fremstur.  Það hefur verið upplýst, að hann sé á hærri launum en Alþingismenn verða eftir téðan úrskurð.  Er það eðlilegt ?  Nei, það er ekkert vit í því, að verkalýðsforingi sé á margföldum launum sinna félagsmanna og á hærri launum en þeir/þau, sem setja eiga þjóðinni allri lög, og sjái svo ekki sóma sinn í því að halda þverrifunni saman, þegar öðrum er dæmd leiðrétting launa sinna. 

Á Íslandi eru heimilin að fá ríflega sinn skerf af batnandi hag fyrirtækja og hins opinbera.  Það er ekki svo alls staðar.  Í Bandaríkjunum hafa t.d. miðlungstekjur hvítra karla, miðgildi launatekna þeirra, "median white male earnings", fremur lækkað að raungildi í 40 ár, þ.e. frá 8. áratuginum, raungildi tekna vel ofan miðgildis hafa þó hækkað, en neðan miðgildis lækkað.  Þetta er algerlega óeðlileg launaþróun, og óánægjan brauzt út með sigri "utangarðsmanns" í forkosningum repúblikana og síðar sigri hans í kosningunum 8. nóvember 2016, þar sem hann fékk yfir 300 kjörmenn, að kjörmönnum Michigan meðtöldum, sem vafi leikur um á þessari stundu, af 528, með sigri í um 70 % ríkjanna, meirihluta flokks hans í báðum þingdeildumm og nú eru um 70 % ríkisstjóranna repúblikanar.  Þótt Donald Trump hafi e.t.v. ekki fengið fleiri atkvæði en Mitt Romney 2012, þá fékk Hillary Clinton mun færri atkvæði, um 6 milljónum, en Barack Obama þá, og þetta er þess vegna einn versti ósigur demókrata í manna minnum á landsvísu, þótt halda beri til haga, að þeir fengu fleiri atkvæði alls en repúblikanar í forsetakosningunum, af því að stuðningur er mikill við þá í fjölmennustu ríkjunum, New York ríki og Kaliforníu.  Slíkt nýtist ekkert í kjörmannakerfi BNA.

Áfram skal vitna í Óðin:

"Í þessu ljósi er vert að benda á, að ráðstöfunartekjur heimila [á Íslandi] jukust árið 2015 um 10,8 % frá fyrra ári.  Ráðstöfunartekjur á mann jukust um 9,6 % á milli ára, og kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann jókst um 7,9 %.  Þá jukust heildartekjur heimila um 9,5 % á milli áranna 2014 og 2015."

Hér er um einstæðar tölur að ræða í sögulegu samhengi á Íslandi, og á seinni árum finnst svo hröð kaupmáttaraukning vart annars staðar á Vesturlöndum.  Íslendingar eru þess vegna án nokkurs vafa "á réttri leið", enda hafa vinstri flokkarnir engan höggstað fundið á efnahagsstjórnuninni 2013-2016. 

Það er fullkomið vindhögg hjá þeim að reyna að gera sér mat úr tekju- eða eignadreifingunni á Íslandi.  Hún er nánast hvergi jafnari en hér, og alþjóðlegir ráðgjafar hafa bent á, að jafnari tekjudreifing geti orðið skaðleg fyrir samfélagið, því að í tekjumuni felist hvati til að komast í hærra tekjuþrep.  Því fleiri leiðir sem einstaklingarnir hafa til slíks, þeim mun betra.  Það er jafnframt kunnara en frá þurfi að segja, að há sérfræðingslaun eru stór þáttur í samkeppnishæfni landa um fólk með verðmæta alþjóðlega þekkingu fyrir stofnanir og fyrirtæki.  Síðast sannaðist það áþreifanlega eftir læknaverkfallið á Íslandi 2015, þó að nokkrir íslenzkir læknar á erlendri grundu bíði bættrar og langþráðrar vinnuaðstöðu á Landspítalanum.     

 


Umferðaröngþveiti í boði sérvitringa

Ef ekkert verður að gert, sem að kveður í gatnakerfi höfuðborgarinnar, þá stefnir í þreföldun ferðatíma þar á álagstímum m.v. ferðatímann árið 2007, sem þó var ærinn. Að 7 árum liðnum, árið 2023, mun það taka að jafnaði eina klukkustund að komast leiðar sinnar á milli heimilis og vinnu og til baka, ef svo heldur fram sem horfir, sem tók að jafnaði 21 mín árið 2007. 

Þetta er algerlega óviðunandi, hrikalega dýrt á formi tímaeyðslu og eldsneytis og mun rýra loftgæði á höfuðborgarsvæðinu til mikilla muna, því að vélarnar ganga megnið af þessum tíma kaldar í lausagangi við aðstæður, þar sem þær sóta sig og menga mest. Ekki þarf að orðlengja það, að loftgæði eru dauðans alvara, því að árlega verða nokkur snemmbúin dauðsföll af völdum mengunar andrúmslofts af völdum umferðar á höfuðborgarsvæðinu, og vanlíðan margra eykst, þegar loftgæðin eru léleg.

Það er ekki náttúrulögmál, að svona þurfi þetta að vera, eins og er erlendis vegna fjölmennis, langra vegalengda, stilltara veðurfars og mengunar af öðrum völdum.  Þetta er heimatilbúið vandamál heimaalninga í vinstri meirihlutanum í Reykjavík, þar sem vel að merkja glærir Píratar hafa sameinazt hinum hefðbundnu rauðliðum við stjórnun borgarinnar án þess, að hún hafi batnað merkjanlega við það. 

Af hugsjónaástæðum neitar borgarstjórnarmeirihlutinn að horfast í augu við vandamálið með raunsæjum hætti, þ.e. með því að auka flutningsgetu helztu umferðaræða í Reykjavík á annatímum, þ.e. hámarksflutningsgetuna, en ákvað þess í stað að fara í stríð við 78 % vegfarenda, sem kjósa að fara ferða sinna í einkabíl.  Þetta stríð forræðishyggjunnar við einkabílinn hefur borið þann árangur, að fækkað hefur hlutfallslega í hópi vegfarenda í einkabíl um 9 %, en 87 % vegfarenda voru í einkabílum fyrir 9 árum, árið 2007, þ.e. fækkun um 1 %/ár. 

Engu að síður varð 6,5 % aukning umferðar í dæmigerðum talningasniðum Vegagerðarinnar tímabilið janúar-október 2016 m.v. sama tímabil 2015, og er umferðin þar nú 153´021 farartæki á sólarhring, sem er 9,5 % meira en árið 2007. Aukningin stafar af erlendum ferðamönnum, fjölgun bíla og rýmri fjárhag landsmanna, þó að borgarbúar séu skattlagðir upp í rjáfur af vinstri flokkunum, eins og þeim einum er lagið.

  Vegfarendur voru spurðir um meðaltímalengd sína á leiðinni frá heimili til vinnu, og var niðurstaðan 14,0 mín árið 2016 og 10,5 mín árið 2007.  Á þessum grundvelli má búast við hálftíma aðra leið eigi síðar en árið 2023 í boði meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur, sem í blóra við Sjálfstæðisflokkinn í minnihlutanum hefur sett framkvæmdastopp á allar meiriháttar fjárfestingar í gatnakerfi Reykjavíkur með samningi við Vegagerðina um fjárframlög hennar til strætisvagnasamgangna á milli Reykjavíkur og hinna dreifðu byggða landsins.  Ótrúlegt, en satt.  Vegir Dags eru að sönnu órannsakanlegir. 

Í Morgunblaðinu 8. nóvember 2016 birtist fréttin "Mikið álag á gatnakerfið",

þar sem viðtal var við Ólaf Kristin Guðmundsson, umferðarsérfræðing og stjórnarmann í FÍB, Félagi íslenskra bifreiðaeigenda:

"Ólafur Kr. Guðmundsson segir, að ástandið á Vesturlandsvegi á álagstímum á morgnana gefi glögga mynd af þeim vanda, sem við sé að etja.  Þá nái bílaröðin iðulega frá Grensásvegi alla leið upp að Mosfellsbæ.  Í bílunum sé fólk á leið í vinnu og skóla.

""Miklabrautin annar bara um 60 % af umferðinni með góðu móti.  Það er vegna umferðarljósanna.  Það eina, sem dugir er að setja mislæg gatnamót við öll helztu gatnamótin á Miklubraut og við Sæbraut líka", segir Ólafur. 

Hann segir, að setja þurfi mislæg gatnamót á öllum gatnamótum Miklubrautar, við Grensásveg, Háaleitisbraut, Kringlumýrarbraut og Lönguhlíð.

"Þessi framkvæmd var á aðalskipulagi, en nú er búið að henda henni út", segir Ólafur.  Hann segir, að það sama eigi við um Sæbrautina.  Þar séu fjölmörg ljós, sem tefji umferðina, og á annatímum seinni part dags myndist bílaröð frá miðborginni alla leið austur að Reykjanesbraut.  Umferðin komi í gusum vegna ljósanna, og þess á milli sé brautin tóm."

Með mislægu gatnamótunum, sem umferðarsérfræðingurinn nefnir, má a.m.k. tvöfalda núverandi snurðulausa flutningsgetu Miklubrautar og þannig vinna góðan tíma unz Sundabrúin kemst í gagnið. Það er ekki til neins fyrir sérvitringana í meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur að stinga hausnum í sandinn að hætti strútsins og neita að horfast í augu við viðfangsefni borgar og Vegagerðar, sem er að greiða úr umferðaröngþveitinu í Reykjavík og nærsveitum með því að setja mislæg gatnamót á helztu umferðaræðar, fyrst inn á Aðalskipulag, síðan í forhönnun og deiliskipulag og að lokum í verkhönnun á vegum Vegagerðarinnar, og vinna þetta skipulega, hratt og fumlaust. 

Það er þó víðar pottur brotinn en hjá garminum honum Degi, því að Vegagerðin er með "mörg svín á skóginum" vegna fjársveltis frá árinu 2011.  Slíkum sparnaðarráðstöfunum ríkissjóðs má líkja við "að míga í skóinn sinn", og sannast þar enn, að dýrt er að vera fátækur.  Hér fer á eftir lýsing úr fréttaskýringu Morgunblaðsins, 22. september 2016:

"Nýjar tölur sýna, að vetrarumferð á leiðinni á milli Gullfoss og Geysis hefur á 5 árum aukizt um 185 %.

Ólafur Kr. Guðmundsson, sem er tæknistjóri EuroRAP á Íslandi, sem er vegamatsáætlun fyrir öryggi vegakerfis á Íslandi, er ómyrkur í máli, þegar hann er inntur eftir stöðu vegakerfisins:

"Það er að hruni komið mjög víða.  T.d. er vegurinn niður á Hakið við Almannagjá þannig, að hann er allur í holum, sprunginn og brotinn og allar yfirborðsmerkingar horfnar.  Vegurinn upp að Gjábakka er að molna niður, ekki sízt austanmegin, og hann lifir vart sumarið.  Vegurinn á milli Gullfoss og Geysis er mjög illa farinn, siginn, risastórar holur og kantarnir að gefa sig.  Þetta eru fjölfarnir ferðamannavegir og aðeins 2 dæmi af fjölmörgum um ástandið, eins og það er." 

Hann segir, að það dugi engan veginn til að leggja um miaISK 10 til kerfisins á ári. 

"Við þurfum að komast í ríflega miaISK 20 á ári, sem er tvöföldun frá því, sem nú er.  Við vorum að eyða um 2,5 % af VLF í vegakerfið fyrir hrun.  Nú erum við að verja um 1 %, og það er einfaldlega allt of lítið.  Þetta birtist t.d. í því, að hlutfall erlendra ferðamanna í hópi alvarlega slasaðra og látinna hefur hækkað stöðugt.  Það var 12 % árið 2014 og er nú komið í 23 %, það sem af er þessu ári [2016].""

Það er hægt að taka heils hugar undir þetta mat og ráðleggingu umferðar-og vegasérfræðingsins.  Nú er varið úr ríkissjóði um miaISK 25 til Vegagerðarinnar, en sú upphæð dreifist á ólíka liði, t.d. ferjusiglingar, og hún þarf að hækka um að lágmarki 10 miaISK/ár til vegaviðhalds einvörðungu, og heildarfjárfestingar og rekstur vegakerfisins að einkaframkvæmdum meðtöldum að nema um 50 miaISK/ár.   

 

 


Ráðandi öfl hlutu ráðningu

Bandaríkjamenn kusu þriðjudaginn 8. nóvember 2016 til forseta alríkisins mann, sem helztu forkólfar repúblikanaflokksins og fyrrverandi forsetar á vegum þess flokks höfðu neitað að styðja.  Svo kölluð elíta Bandaríkjanna og annarra Vesturlanda vildi ekki sjá Donald Trump í Hvíta húsinu. Það var vegna þess, að þessi auðjöfur var ómeðfærilegur og ekki í vasa valdamikilla sérhagsmunahópa. Donald J. Trump var ekki til sölu. Ekki þarf að hafa mörg orð um fréttastofur og álitsgjafa í þessu sambandi.  Þar er ríkjandi víðast hvar vinstri slagsíða og ósvífnin og hrokinn næg til, að ekki er reynt að draga fjöður yfir svo ófagmannlega starfshætti. Á "The New York Times" hefur útgefandinn nú séð að sér og sent afsökunarbréf til áskrifenda og lofað þar bót og betrun.  Hvenær skyldi skylduáskrifendum RÚV berast afsökunarbeiðni frá Útvarpsráði vegna hlutdrægs fréttaflutnings af atburðum, mönnum og málefnum, innanlands og utan ?  Í tilviki nýafstaðinna kosninga í Bandaríkjunum hefur keyrt um þverbak á RÚV og fréttastofan sett nýtt met í ófaglegri umfjöllun, sem er lituð af persónulegum viðhorfum fréttamanna og valinna álitsgjafa þeirra, sem hunza gjörsamlega hugtakið hlutlægni, eins og þeir eigi fjölmiðilinn sjálfir.

Miðvikudagsútgáfa Morgunblaðsins, daginn eftir, var enn undir áhrifum stjórnmálafræðinga og fréttastofa, sem lagt höfðu allt sitt traust á viðhorfsmælingar, sem látið var í veðri vaka, að með 85 %-95 % öryggi ("confidence level") bentu til, að frambjóðandi demókrata mundi bera sigur úr býtum.  Jafnan var farið með tugguna um, að Hillary Clinton (HC) nyti svo og svo mikils stuðnings umfram frambjóðanda repúblikana í forsetakjörinu, oft meira en 5 %, þótt þetta væru augljóslega villandi upplýsingar, því að 538 kjörmenn allra ríkjanna velja forseta og til að fá stuðning þeirra allra dugar í flestum tilvikum að fá meirihluta greiddra atkvæða, og HC naut stuðnings drjúgs meirihluta í fjölmennustu ríkjunum. Þess vegna endaði hún með fleiri atkvæði í heild, en færri kjörmenn.

Það var mikið fimbulfambað á fréttastofum og á meðal álitsgjafa um meiri stuðning rómansks fólks við HC, en þessir aðilar hefðu átt að staldra við könnun, sem sýndi Donald J. Trump (DJT) með meirihluta á meðal kaþólskra, og reyndar einnig á meðal evangelískra.  Fréttum, sem vilhallar fréttastofur mátu í hag repúblíkananum, var einfaldlega ekki hampað.  Á fréttastofum er vitað, að fréttaflutningur getur verið skoðanamyndandi, og demókratar í Bandaríkjunum, sem ráða yfir flestum fjölmiðlum og fréttastofum í BNA, hafa iðulega unnið dyggilega í þágu málstaðarins, þó að þeir þar með hafi gert sig seka um þöggun og að þegja óþægilegar staðreyndir í hel. Kannast einhver við þessa lýsingu úr heimahögunum ?  Vinstri slagsíða á fréttastofum ríður ekki við einteyming. 

Þótt undarlega hljómi í Evrópu, þá má ætla, að flestir Bandaríkjamenn séu þeirrar skoðunar nú, að "litli maðurinn", sem útblásinn stjórnmálafræðiprófessor við HÍ kallar "taparann", hrósi nú happi í BNA yfir því, að auðjöfurinn, auðvaldsseggurinn Donald J. Trump, skyldi bera sigur úr býtum í nýafstöðnum forsetakosningum í Bandaríkjunum. 

Það er m.a. vegna þess, að hann var algerlega upp á kant við kerfið, "The Establishment", hin ráðandi öfl alls staðar í þjóðfélaginu, sem mótað hafa umræðuna, ráðið ferðinni, sett fram og varið "rétttrúnaðarstefnu" fjármagnsins á "Wall Street", sem svælt hefur undir sig samfélagið á kostnað hins vinnandi manns, sem vill geta aflað sér og sínum tekna á heiðarlegan hátt og gat það, þar til hann var rændur lífsviðurværinu með því að flytja framleiðsluna á ódýrari staði. 

Meirihluta Bandaríkjamanna þykir líklega, sem "landi tækifæranna-Guðs eigin landi" hafi verið rænt í dagsbirtu rétt framan við nefið á þeim.  "Litli maðurinn", sem stjórnmálafræðiprófessorinn Ólafur Þ. Harðarson, svo ósmekklega kallar "taparann", af því að hann missti starfið sitt, veit, að það er ekki hægt að kaupa Donald J. Trump.  Hið sama varð hins vegar ekki sagt um mótherjann.  Hún var undirlægja fjármálaaflanna. Það sýnir mátt lýðræðisins í BNA, að meirihluti kjósenda þar (það voru mun fleiri en HC og DJT í kjöri) skuli hafa þrek til að andæfa þessu ofurvaldi.  HC hefur nú kennt yfirmanni FBI, Comey, um ósigur sinn.  Það er ódrengilegt, því að hann hélt augljóslega yfir henni hlífiskildi, þó að hún hefði gerzt sek um athæfi, sem stofnaði öryggishagsmunum Bandaríkjanna í hættu.  Það er sjaldgæft, að tapari í forsetakjöri tilnefni blóraböggul fyrir sig.

Nú verður vitnað í 3 forystugreinar Morgunblaðsins í kjölfar kosninganna og í Hjörleif Guttormsson, náttúrufræðing og fyrrverandi iðnaðarráðherra:

Forystugreinin "Loksins lokið", 9. nóvember 2016:

"Fjölmiðlar á Vesturlöndum eru langflestir yfirmannaðir af vinstri sinnuðum blaðamönnum.  Hlutfallið er allt annað en almennt gerist í löndunum sjálfum."

Almenningur á Vesturlöndum hefur gert sér grein fyrir þessu og sprautað sig með móteitri gegn einhliða og oft einfeldningslegum frásögnum blaðamanna af mönnum og málefnum.  Það er hægt að skynja vinnustaðaleiðann, sem fæðir af sér óánægju með hlutskipti sitt, mikla gagnrýnisþörf á þjóðfélagið vegna eigin stöðu og öfund gagnvart öllum, sem betur vegnar. 

Í forystugreininni, "Það óvænta gerðist", 10. nóvember 2016, stóð m.a. þetta:

"Kannanir helztu fyrirtækja á þessu sviði sögðu hana [Hillary] hafa 4 % - 7 % stiga forskot á andstæðinginn, utan við öll vikmörk.  Örstutt var til kjördags og óákveðnir fáir.  Á það var bent hér, að þessar kannanir á landsvísu segðu ekki allt.  Ríkin, þar sem minnstu munaði á milli frambjóðenda, segðu aðra sögu."

Vinnubrögð fyrirtækjanna, sem leggja fyrir sig að leggja mælistiku á fylgi kjósenda við fólk og flokka, sæta furðu, því að augljóslega áttu þau að einbeita sér að mælingum í vafaríkjunum, því að fylgi á landsvísu skiptir engu máli.  Allt fylgi umfram 50,01 % kjósenda fellur víðast hvar dautt.  Því verður ekki trúað, að "fagfólkið" hafi ekki gert sér grein fyrir þessu.  Var verið að afvegaleiða almenning og umheiminn með því að gefa í skyn, að HC hefði, þrátt fyrir einkanetþjóna og fleiri "svín á skóginum", byr í seglin ?

"Sérfræðingar sögðu, að "latinos" bæru þungan hug til Trumps eftir glannaleg ummæli hans um innflytjendur (ólöglega) frá Mexikó og öðrum nágrannaríkjum í suðri.  Útgöngukannanir sýndu hins vegar, að Trump fékk yfir 29 % atkvæða í þessum hópi, hærra hlutfall en Romney í baráttunni við Obama.

Ljóst þótti, að Hillary hefði forskot á meðal kvenna.  Nú sýna fyrrnefndar athuganir, að 53 % hvítra kvenna kusu Trump, en aðeins 44 % þeirra Hillary. 

Ýmsar mýtur kosninganna stóðust illa.  Oft er nefnt réttilega, að Trump sé milljarðamæringur.  En fyrir liggur, að demókratar eyddu margfalt hærri fjárhæðum í kosningarnar en Trump gerði.  Fullyrt var, að fjöldafundir, sem Trump hélt með tugþúsundum í hvert sinn, skiluðu sér sjaldnast í kjörklefana.  Raunin varð önnur."

Demókratar virðast hafa rekið lyga- og ófrægingarherferð á hendur Trump og reynt að breiða yfir það, hversu veikur frambjóðandi HC í raun var, hvort sem hún er með Parkinson-veikina, sem kölluð var lungnabólga, eður ei.  Veikleiki hennar lýsti sér t.d. í því, hversu illa henni gekk að við að yfirbuga hinn "róttæka" Sanders.  Að meirihluti hvítra kvenna skyldi hafna henni, kórónar getuleysið.  Í örvæntingu sinni gripu demókratar til þess ráðs að birta klúrt myndband og leiða fram konur, sem Trump átti að hafa "káfað" á.  Allt var þetta fremur klént og ekki eins krassandi og sögurnar af Bill, eiginmanni frambjóðandans og hjálparhellu, en þessi áburður leiddi óneitanlega hugann að lærlingnum í Hvíta húsinu og Miss Jones. 

Nú víkur sögunni að rannsóknum á viðhorfum fólks og atferlisrannsóknum, sem auðvitað eru mikla lengra komnar en misheppnaðar viðhorfskannanir fyrir kosningarnar í BNA gefa til kynna.  Fyrirtækin, sem að þeim stóðu, eru rúin trausti, enda virðast þau bara hafa verið að dreifa boðskap, sem þeim var þóknanlegur, svo að ekki sé nú minnzt á garmana, álitsgjafana:

"Einn af fréttamönnum sjónvarpsstöðvarinnar CBS sagði um kosninganóttina, að í herbúðum Trumps hefði verið stuðzt við rannsóknir brezks fyrirtækis að nafni "Cambridge Analytica" og það hefði nokkurn veginn greint, hvernig landið lægi.

Í frétt í blaðinu Chicago Tribune segir, að Cambridge Analytica segist geta sagt fyrir um það, hvernig flestir kjósendur muni verja atkvæði sínu með því að greina margvíslegar upplýsingar um hvern kjósanda.  Í greininni segir, að fyrirtækið skoði 5 þúsund atriði um hvern og einn og keyri saman við mörg hundruð þúsund persónuleika- og atferliskannanir til að bera kennsl á milljónir kjósenda, sem lítið þurfi til að telja á að kjósa skjólstæðinga þess, í þessu tilviki Trump.  Segir fyrirtækið, að grundvallarmunur sé á þessu og algengustu aðferðunum, sem felast í að nota lýðfræðileg gögn og keyra saman við upplýsingar á borð við áskriftir að tímaritum og aðild að samtökum til að átta sig á pólitískum tilhneigingum fólks."

"Now you are talking, man."  Það er auðvitað búið að þróa tækni fyrir kosningaherferðir, sem eru mun lengra komnar og nákvæmari en skoðanakannanir, sem okkur eru birtar.  Donald Trump virðist einfaldlega hafa varið fé sínu mun betur en forráðamenn kosningasjóða andstæðingsins.  Donald Trump hafði lag á að koma sér í fréttirnar með atferli sínu og fékk þannig ókeypis auglýsingar.  Herfræði hans var úthugsuð, og hann sló gervallri "elítunni" við. Það hlægir blekbónda óneitanlega, að "elítan" skilur ekki enn, að hún hefur orðið að athlægi.

Hjörleifur Guttormsson átti að vanda góða grein í Morgunblaðinu, og að þessu sinni þann 10. nóvember 2016 um téðar kosningar, þar sem hann greinir stöðuna að sínum hætti í greininni:

"Bandarísku kosningarnar snerust um afleiðingar hnattvæðingar":

"Ástæður stóryrtari umræðu nú en áður eru margþættar og endurspegla djúpstæðari klofning í bandarísku samfélagi en dæmi eru um frá lokum Víetnamstríðsins.  Meginorsökin er að margra mati nýfrjálshyggja og hnattvæðing efnahagslífsins, sem mjög var hert á með frjálsum fjármagnsflutningum fyrir aldarfjórðungi.  Verkafólk og millistéttir, sem urðu bjargálna á eftirstríðsárunum, hafa mátt þola ört dvínandi tekjur og atvinnumissi á stórum svæðum þar vestra án þess að eiga sér öfluga málsvara.  Lengi vel voru demókratar í því hlutverki, en í forsetatíð Bill Clintons eftir 1992 var það merki fellt, og forysta demókrata gekk til liðs við peningaöflin á Wall Street."

Sé þetta rétt greining hjá Hjörleifi, sem vart þarf að efast um, þá er ei kyn, þó að keraldið leki, þ.e. þó að meirihluti ríkjanna og kjörmanna þeirra hafi hafnað frú Clinton.  Staðan er þó skrýtin frá evrópsku sjónarhorni séð.  Auðjöfur tekur upp hanzkann fyrir lítilmagnann og lofar að berjast fyrir málstað hans. Auðjöfurinn lofar að færa launamanninum aftur sjálfsvirðingu hans og vinnu með því að byggja upp innviði landsins að nýju og endurheimta störfin.  Auðjöfrinum er treyst til að fást við hin geysivaldamiklu fjárplógsöfl og rétta við hag "litla mannsins".  Þetta er klassísk uppskrift.  Hvorum megin skyldi sá með horn, klaufir og hala halda sig í þessum hildarleik ? 

 

 


Váboðar á bæði borð

Að ofmetnast er dauðasynd.  Íslendingar hafa tilefni til að líta til baka yfir tímabil síðustu 8 ára með velþóknun, enda hefur þjóðin á þessu tímabili risið úr öskustó eins og fuglinn Fönix.

Þjóðin varð að standa á eigin fótum í hinni alþjóðlegu fjármálakreppu, sem hámarki náði á Íslandi í október 2008.  Það var lán í óláni, að allar lánalínur lokuðust og rotið fjármálakerfi hrundi til grunna.  Við þurftum ekki einu sinni á að halda lánum frá Alþjóða gjaldeyrissjóðinum, sem þó voru tekin með harmkvælum og háum vöxtum.  Þau hafa nú öll verið endurgreidd og gott betur.  Nettó fjárhagsstaða hins opinbera hefur ekki verið betri frá því í lok Heimsstyrjaldarinnar síðari.  Þeim auði var sólundað, svo að Íslendingar komust á vonarvöl og voru taldir verðskulda Marshall-aðstoð.  Það verður engin Marshall-aðstoð í boði, ef illa tekst að spila úr núverandi góðu stöðu og sjóðum verður sólundað, eins og veruleg ástæða er til að bera kvíðboga fyrir.

Náttúruöflin eru virkari á Íslandi en víðast hvar og náttúran er hér síkvik.  Það á einnig við um hafið í kringum landið, sem á síðustu árum hefur verið að hlýna og lífríki þess að breytast samkvæmt því.  Sunnudaginn 6. nóvember 2016 fengu landsmenn t.d. þær ískyggilegu fréttir frá sérfræðingum á þessu sviði, að nú væri svo komið, að loðnan veigraði sér við að ganga vestur með Suðurströndinni til hrygninga vegna hlýsjávar.

Ef þetta gengur eftir, mun það ekki aðeins hafa neikvæð áhrif á loðnuveiði innan íslenzkrar fiskveiðilögsögu, heldur líka neikvæð áhrif á fæðuframboð þorskinum til vaxtar og viðurværis, þannig að jafnvel yrði þorskveiðibrestur í lögsögunni, og fleiri tegundir mundu kunna að forða sér í kjölfarið. 

Sem betur fer eru þetta enn aðeins vangaveltur á rannsóknarstigi eða tilgáta um það, sem líklegt er, að gerist, ef svo fer fram sem horfir um hlýnun sjávar.  Til mótvægis þessari hlýnun af völdum vaxandi lofthita hlýtur að koma um sinn bráðnun Norðurskautsíssins og Grænlandsjökuls.  Er á meðan er.  Vísindamenn eiga þakkir skildar fyrir að upplýsa almenning um vísbendingar, sem þeir komast á snoðir um, þótt óþægilegar séu. 

Það, sem varð Íslendingum til bjargar í áður nefndu hruni var, að þeir stóðu á rétti sínum sem fullvalda þjóð og neituðu að láta Breta og Hollendinga með fulltingi Evrópusambandsins troða öfugum ofan í kokið á sér skuldum "óreiðumanna", sem almenningur hérlendis bar enga ábyrgð á.  Þetta var sögulegur varnarsigur, því að þjóðin var þá sem næst á hnjánum, er þarna var komið, umkomulaus í áfalli og án ytri stuðnings frá öðrum en sínum ágætu nágrönnum og frændum, Færeyingum.  Sem betur fór áttum við þá sem fyrr nokkra kappa, sem ekki lágu á liði sínu, heldur sneru vörn í sókn með meistaralegum hætti. 

Þjóðin var með sína eigin mynt, og hún hrapaði að verðgildi í takti við ástand hagkerfisins.  Þetta skóp landinu viðspyrnu, því að samkeppnishæfnin á erlendum mörkuðum batnaði að sama skapi, og sjávarútvegurinn blómstraði við þessar aðstæður og ól af sér alls konar hliðargreinar og sprota, sem ásamt miklum fjárfestingum hjá ISAL í Straumsvík vegna endurnýjunar og stækkunar, og þar af leiðandi um saminni nýrri vatnsaflsvirkjun Landsvirkjunar við Búðarháls á milli Tungnaár og Þjórsár, áttu þátt í að snúa við óheillaþróun á vinnumarkaði. Þetta ásamt landflótta hélt atvinnuleysi langt undir þeim tölum, sem illa leiknar þjóðir með fastgengisstefnu, t.d. evruna, máttu glíma við.   

Það, sem þó réði úrslitum um viðsnúning á vinnumarkaði, var gosið á Fimmvörðuhálsi og undir Eyjafjallajökli, sem lamaði innanlandsflug og millilandaflug víða í Evrópu og á milli heimsálfa vikum saman.  Þetta kom Íslandi rækilega á kortið á sama tíma og vinsælir ferðamannastaðir lokuðust vegna blóðugra árása ofstækisfullra trúmanna í miðaldamyrkri eyðimarkanna, og af því að hugur margra stóð til Norðurslóða vegna afleiðinga hlýnunar jarðar, sem þar eru áberandi.

Fjöldi erlendra ferðamanna stóð í 0,5 M manns 2008-2010, en strax árið 2011 hófst aukningin, sem hefur verið veldisaukning síðan, þ.e. sívaxandi fjölgun ár frá ári.  Árið 2016 er búizt við 1,8 M manns með flugi til landsins, og sjóleiðina koma líklega 0,1-0,2 M, svo að farþegafjöldinn slagar í 2,0 M í ár.  Arion-banki og Íslandsbanki spá 2,2-2,4 M manns 2017, og er þá ótalinn sægur, sem aðeins millilendir og dvelur um skamma hríð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.  

Hér er um að ræða meðalstigul 0,3 M/ár 2011-2017, og þar sem hann kom algerlega flatt upp á landsmenn, hefur þeim ekki veitzt neitt ráðrúm til að undirbúa sig.  Fyrir vikið eru allir innviðir vanbúnir til að taka við aukningunni, sem hefur neikvæð áhrif á ímynd landsins.  Grunnþörfum hreinlætis hefur ekki einu sinni verið fullnægt með hræðilegum sóðaskap,  sóttkveikjuhættu, vanlíðan og álitshnekki sem afleiðingu. 

Sem dæmi stendur þetta í fréttaskýringu Morgunblaðsins,

"Innviðauppbygging heldur ekki í við fjölgun ferðamanna",

þann 22. september 2016:

"Í annarri skýrslunni, sem EFLA skilaði af sér, kom í ljós, að þörf er á allt að 200 salernum á fjölsóttustu ferðamannastöðum landsins.  Þörfin er að vísu miðuð við fjölda ferðamanna á stöðunum árið 2015 [sem er furðulegt, því að enginn spáði stöðvun fölgunar það ár - innsk. BJo], og því má gera ráð fyrir því, gangi fjöldaspár eftir [5,0 M árið 2035-innsk. BJo], að þörfin muni sízt minnka á komandi árum.  Telur verkfræðistofan, að það muni kosta miaISK 1,4-2,1 að koma salernunum 200 í gagnið."

Aðeins salernisvæðingin fyrir spáðan fjölda 2017 mun þá kosta allt að miaISK 2,8.  Úthlutað hefur verið 512 styrkjum úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða árin 2012-2016 að upphæð alls miaISK 2,9, dreift á alls konar verkefni, og árið 2016 aðeins miaISK 0,6.  Salernismálin verða þannig fyrirsjáanlega enn í ólestri á næsta ári.  Ef forðast á öngþveiti á vinsælustu ferðamannastöðunum og/eða meiriháttar náttúruspjöll, þá verður að skammta fjöldann inn á þessi svæði með svipuðum hætti og gert er erlendis. Mótvægisaðgerð er að stofna til nýrra áfangastaða.  Brýnt er að lækka opinber gjöld af innanlandsflugi og freista þess þannig að draga úr álagi á vegakerfið, einkum á leiðum út frá Reykjavík.

Margt getur orðið til að stöðva aukningu ferðamannafjöldans og jafnvel að snúa þróuninni á verri veg:

Dýrtíð á Íslandi:

Gengi sterlingspunds gagnvart USD hefur dalað um ríflega 20 % síðan Brexit-var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu og er spáð lækkun um 3 % þar til í marz 2017, þegar Theresa May ætlar að hefja úrsagnarferlið.  Þetta og meira fall pundsins gagnvart ISK en líklega öllum öðrum myntum árið 2016 gæti farið að hafa áhrif á kauphegðun Breta, fjölmennasta þjóðernis ferðamanna á Íslandi.  Kaupmáttur þeirra fer nú hratt þverrandi, hagvöxtur er lítill, þótt hann sé meiri en á evrusvæðinu, og atvinnuleysi gæti farið stígandi. 

Íslenzk peningamálayfirvöld fljóta því miður sofandi að feigðarósi og láta enn hjá líða að grípa til nauðsynlegra mótvægisaðgerða til að snúa þessari óheillaþróun við.  Ísland er þess vegna á góðri leið með að verða dýrasta land heims fyrir útlendinga, og slíkt land getur ekki samtímis verið mesta ferðamannaland heims talið í fjölda erlendra ferðamanna per íbúa.  Staða fiskútflytjenda á mörkuðum er í uppnámi og samkeppnishæfni landsins er í voða.

Mettun landsins af ferðamönnum:

Það er engin launung á því, að svo mikil árleg aukning í fjölda erlendra ferðamanna býður hættunni heim, af því að landsmönnum gefst þá ekki kostur á nægum undirbúningi til að taka vel á móti þeim og án þess, að náttúran bíði tjón af. Það verður hörgull á öllu, sem við á að éta, og þjónustan versnar til muna, af því að landsmenn anna ekki fjöldanum.  Þetta skaðar orðsporið, sem strax mun hafa neikvæð áhrif á eftirspurnina.

Náttúruhamfarir:

Katla hefur bært á sér undanfarið og gæti farið í gang "hvenær sem er", ef gostíðni er skoðuð í sögulegu ljósi.  Vonandi er viðbúnaður við Kötlugosi nægur til að hindra manntjón af völdum Kötlugoss í þetta skiptið, en það mun valda tugmilljarðatjóni á mannvirkjum, kvikfé, landi og löskuðu tekjustreymi af völdum rafmagnstruflana og samgöngutruflana. 

Íslenzk náttúra er í sífelldri mótun, og hún er breytingum undirorpin á landi og í sæ.  Íbúarnir á landinu lifa að langmestu leyti á því að nýta þessa síkviku náttúru með einum eða öðrum hætti, og sú staðreynd skapar óstöðugleika í atvinnuumhverfinu.  Hér má þess vegna alltaf búast við sveiflukenndum búskap.  Við slíkar aðstæður er mikilvægt að nota "feitu árin" til að safna í sjóði til "mögru áranna" og auðvitað til að greiða niður skuldir, þannig að svigrúm verði til lántöku, þegar að herðir og nauðsyn krefur. 

 

 

 

 


Sterkt gengi ISK ógnar stöðugleika

Gengisvísitalan er nú komin undir 164 vegna mjög hagstæðs viðskiptajafnaðar og of hárra vaxta í landinu.  Greiningardeildir bankanna hafa varað við því, að framleiðnin í landinu aukist ekki í takti við gengishækkunina og að hún sé þess vegna ósjálfbær.  Krónan (ISK) þarf að lækka strax aftur og Seðlabankinn þarf að halda gengisvísitölunni á bilinu 175-185 til að tryggja jafnvægi í hagkerfinu til lengdar. Til þess að Seðlabankinn bregðist almennilega við þeirri ógn, sem að landinu stafar vegna tímabundinnar styrkingar krónunnar þarf að breyta lögum um Seðlabankann, svo að Peningastefnunefnd hans taki tillit til fleiri þátta en nú og horfi til lengri tíma en nú virðist raunin.  Nú dugar ekki að horfa í baksýnisspegilinn, því að þjóðfélagið er á nýju breytingaskeiði.

Þetta þýðir, að gengisskráningin er farin að ógna samkeppnishæfni útflutningsatvinnuveganna, að ferðaþjónustunni meðtalinni, og ýta undir gjaldeyrisnotkun landsmanna í meiri mæli en góðu hófi gegnir.  Ef ekkert verður að gert, stefnir í, að Ísland verði dýrasta land í heimi, erlendum ferðamönnum fækki, útflutningsfyrirtæki leggi upp laupana og viðskiptajöfnuður verði neikvæður árin 2018-2019.  Þá mun gengið hrapa og valda hér verðbólgu yfir efri þolmörkum Seðabankans, 4,0 %, með öllum þeim neikvæðu keðjuáhrifum, sem há verðbólga hefur í verðtryggingarsamfélagi skulda. 

Nú er starfsstjórn við völd, sem ekkert frumkvæði tekur í stefnumarkandi málum, enda skortir hana þinglegan stuðning.  Seðlabankinn hefur hins vegar frelsi til athafna, eins og áður, og hann verður að taka nú niður námuhesta blöðkurnar, sem hann sjálfur hefur sett upp, og lækka stýrivextina í 0,5 % skrefum þar til gengishækkunin stöðvast í nafni stöðugleika til lengri tíma litið.  Það er ólíklegt við núverandi aðstæður, þrátt fyrir fulla nýtingu tiltæks vinnuafls, að vaxtalækkun muni valda verðlagshækkun.  Þvert á móti lækkar hún tilkostnað fyrirtækjanna, sem hafa þá minni tilhneigingu til að ýta hækkunarþörf sinni út í verðlagið.  Aðstreymi erlends vinnuafls dregur úr þenslu á vinnumarkaði. 

Hættulega hátt verðlag:

Samkvæmt Hagspá Greiningardeildar Arion-banka frá 1. nóvember 2016 var gengi íslenzku krónunnar þá þegar orðið 8 % - 10 % hærra en sjálfbært má telja fyrir hagkerfi landsins.  Þetta þýðir, að nú er grafið undan arðsemi útflutningsatvinnuveganna og viðskiptajöfnuðinum.  Með sama áframhaldi er hætta á því, að viðskiptajöfnuðurinn verði neikvæður á árunum 2018-2019, ef ekki verður þegar gripið í taumana.  Afleiðingin verður fjöldagjaldþrot, atvinnuleysi og há verðbólga, og allt verður vitlaust á vinnumarkaði.  Þar sem við erum nú þegar á feigðarsiglingu, hlýtur Stöðugleikaráð að verða að koma þegar saman og snúa þjóðarskútunni við á þessari siglingu.

Sem dæmi um óefnið, sem verðlagið hér séð frá buddu útlendinga er komið í, má nefna, að það er orðið hærra en í Noregi, sem lengi var dýrasta land í heimi.  Það var ósjálfbært ástand þar, af því að hátt olíuverð gaf Norðmönnum gríðarlegar útflutningstekjur, en aðrir atvinnuvegir landsins dröbbuðust niður. Olían tekur enda. Sem dæmi um ósjálfbærnina er, að útflutningur norska sjávarútvegsins er niðurgreiddur þrátt fyrir gjöful fiskimið úti fyrir langri ströndu. Hér má ekki verða "norskt ástand", sem lýsir sér með 30 % falli gjaldmiðilsins, m.v. stærstu myntir, og verðbólgu, sem gæti orðið enn meiri hér en í Noregi, ef samtímis verður uppsveifla í heimshagkerfinu.

Nú munar aðeins 7 % á verðlagi Íslands og Sviss, sem er dýrasta land í heimi, en þar er framleiðnin hærri en á Íslandi, enda eru ríkisumsvifin þar mun minni en hér þrátt fyrir svissneska herinn. 

Konráð Guðjónsson hjá Greiningardeild Arion leggur til, að hluti gjaldeyrisinnflæðisins verði settur í "sérstakan auðlegðarsjóð":

"Það eru dæmi um, að ríki hafi safnað í stóran gjaldeyrisforða til að halda aftur af styrkingu gjaldmiðilsins og lagt í sérstakan sjóð.  Þessi aðferð er vissulega umdeild, en í löndum eins og Singapúr hefur safnazt upp andvirði MISK 6-7 á mann í slíkan sjóð.  Sú fjárhæð hefur að megninu til komið í gegnum gjaldeyriskaup Seðlabankans."

Á Íslandi mundi þessi sérstaki auðlegðarsjóður svara til miaISK 2100, sem er 2/3 af núverandi stærð lífeyrissjóðanna.  Nú er spurningin, hvort stjórnmálamennirnir hafa bein í nefinu til slíkra heilbrigðra aðhaldsaðgerða, eða hvort þeir ætla að verða jólasveinar án búnings og hleypa þessu fé lausu, þannig að það kveiki í púðurtunnu hagkerfisins. 

Vöruútflutningurinn:

Það er nú þegar dúndrandi halli eða miaISK 120/ár á vöruskiptum við útlönd, ef fyrstu 9 mánuðir 2016 eru framreiknaðir til áramóta.  Þetta er 22 % af útflutningsverðmætum, sem er hættulega hátt.  

Alþjóðabankinn spáir versnandi viðskiptakjörum, t.d. 28 % verðhækkun á olíu árið 2017, og hækkun á verði hrávöru og matar.  Jákvætt er fyrir íslenzkar útflutningstekjur, að verð á málmum er nú tekið að þokast upp á við úr langvinnri, djúpri lægð, og er t.d. álverð komið upp fyrir 1700 USD/t Al og hefur þá hækkað á einum mánuði um a.m.k. 5 %, en það er ekki fyrr en við a.m.k. 1850 USD/t Al, sem allur íslenzki áliðnaðurinn fer að skila hagnaði. Þangað til eiga álframleiðendur án orkuverðstengingar við álverð mjög undir högg að sækja.

Framlegð sjávarútvegsins árið 2015 var viðunandi m.v. íslenzk fyrirtæki almennt.  Hún nam þá miaISK 71, og opinber gjöld hans námu þá miaISK 28, sem er 39 % af framlegð, sem er tiltölulega hátt hlutfall og afsannar með öllu, að sjávarútvegurinn skili óeðlilega lágum upphæðum til samfélagsins.  Þvert á móti skilar hann mestu í sameiginlega sjóði allra atvinnugreina, og ofangreind upphæð er t.d. ferföld opinber gjöld áliðnaðarins í landinu 2014, en þá áraði reyndar ekki vel á álmörkuðum. 

Skattlagningarvaldinu er reyndar beitt gegn útgerðinni á fölskum forsendum, eins og þar sé auðlindarenta í starfseminni, en því fer fjarri, þar sem aflahlutdeildir ganga kaupum og sölum á frjálsum markaði og íslenzki sjávarútvegurinn á í harðvítugri samkeppni á alþjóðlegum mörkuðum við sumpart niðurgreiddan sjávarútveg, þar sem engum dettur í hug að leggja á veiðigjöld, svo að ekki sé nú minnzt á fyrningarhörmungina og uppboð fyrntra eigna, sem dæmd hefur verið ónothæf aðferð til skattheimtu á þeim fáu stöðum, þar sem tilraunir með hana hafa verið gerðar. 

Nú eru blikur á lofti hjá sjávarútveginum vegna loðnubrests, verðlækkunar á makríl og gengishækkunar ISK og mikillar lækkunar sterlingspundsins, en frá Englendingum hefur fimmtungur tekna sjávarútvegsins  komið.  Spáð er 30 % minni framlegð sjávarútvegs árið 2016 en árið á undan m.v. gengið 1.11.2016.  Þetta jafngildir rúmlega miaISK 20 tekjutapi eða rúmlega 8 % m.v. árið á undan.  Ef gengið styrkist um 10 % til viðbótar, þá verður framlegðin aðeins 54 % af því, sem hún var 2015, og fer niður í miaISK 38.  Þetta er svo lítil framlegð, að fjárfestingargeta sjávarútvegsins og opinber gjöld hans munu stórlækka.  Skuldalækkun hans mun stöðvast, og fjárhagsafkomu veikburða fyrirtækja verður stefnt í voða.  Þessa óheillaþróun verða stjórnvöld að stöðva og snúa henni við í tæka tíð. Slíkt mun gagnast samkeppnishæfni landsins almennt.

Ferðaþjónustan:

Stigullinn í straumi erlendra ferðamanna til Íslands hefur komið öllum í opna skjöldu eða sem "julen på kjerringa", eins og Norðmenn orða það.  Á 4 árum hefur fjöldinn tvöfaldazt og nær líkla 2 milljóna markinu árið 2017.  Ísland er nú þegar mesta ferðamannaland Evrópu að tiltölu með yfir 5 erlenda ferðamenn á íbúa. Þessi snöggi vöxtur hefur valdið alls konar vandkvæðum, sem landsmenn hafa enn ekki náð tökum á, og hann veldur hér óstöðugleika og áhættu, því að það sem vex hratt, getur yfirleitt líka fallið hratt með alvarlegum afleiðingum:

Hagræn áhrif:

Mjög jákvætt er, að gjaldeyrisvarasjóðurinn skuli nú nema miaISK 800 eða þriðjungi af VLF/ár. Á sama tíma og erlendur gjaldeyrir streymir til landsins að mestu frá ferðamönnum, magnar Seðlabankinn vandann, sem af þessu leiðir, með því að halda hér uppi himinháum vöxtum í samanburði við viðskiptalönd okkar, svo að útstreymi gjaldeyris til fjárfestinga er lítið, en of mikil hækkun gengisins hefur þrefaldað vöruskiptahallann síðan 2015 og auðvitað aukið ferðagleði landans til útlanda.  Brýnt er að stöðva gengishækkun og lækka gengið niður í það, sem talið er langtíma jafnvægisgengi í kringum USD/ISK = 125. Þetta er t.d. gert með mikilli vaxtalækkun og fjárbindingu í jöfnunarsjóð, sem þá mætti líkja við s.k. olíusjóð Norðmanna, sem reyndar er þeirra framtíðar lífeyrissjóður, því að þeir eiga ekki söfnunarsjóði, eins og við. 

Álag á ferðamannastaði:

Sigurður Sigurðsson, byggingaverkfræðingur, ritaði greinina:

"Hrollkaldur veruleiki ferðaþjónustunnar á Íslandi"

í Morgunblaðið 13. október 2016.  Þar segir m.a. af varnaðarorðum Önnu Dóru Sæþórsdóttur, ferðamálafræðings við Háskóla Íslands í viðamiklum skýrslum og sorglega litlum viðbrögðum við þeim.  Hvers vegna hafa yfirvöld stungið hausnum í sandinn að hætti strútsins varðandi ferðaþjónustuna ?  Líklega er hún, eins og ýmislegt annað, dreifð um smákóngaveldi embættismannakerfisins, báknsins, og full þörf á að sameina málefni stærstu atvinnugreinar landsins í eitt ráðuneyti:

"Að lokum kom yfir 200 bls. skýrsla fræðimannsins á vegum Háskóla Íslands og Ferðamálastofu um allt þetta efni saman tekið.  Tugir eða hundruð skýrslna um þessi ferðamál hafa verið birt án þess, að það hafi borið neinn árangur til úrbóta.  Ragnheiður Elín Árnadóttir, ferðamálaráðherra, gat þess á þingi Samtaka atvinnulífsins nú í september, að skúffur hennar væru fullar af skýrslum um ferðaþjónustuna. 

Niðurstöður í skýrslum Önnu Dóru Sæþórsdóttur eru mjög sláandi.  Ráðamenn hafa ekki hlustað á vísindalegar ábendingar um það í hvað stefndi, eins og fagleg rannsóknarvinna og skýrslur þessa fræðimanns og Háskóla Íslands hafa bent á ár eftir ár og Ferðamálastofa hefur gefið út á undanförnum árum."

Það hefnir sín alltaf að hunza beztu þekkingu á hverju sviði, og við svo búið má alls ekki standa.  Það eru gríðarlegir hagsmunir í húfi, og undirstöður stærstu tekjulindarinnar geta hæglega hrunið vegna vanrækslu og skipulagsleysis.  Hvorki þessi né önnur starfsemi má einkennast af gullgrafaraæði. 

Samgöngumál:

Fólksbílafjöldinn eykst um yfir 2 % á ári, og fjöldi bílaleigubíla og langferðabíla enn meira, og er nú fjöldi hinna fyrr nefndu um 20´000 í landinu.  Umferðin eykst hlutfallslega enn meir en bílafjöldinn vegna mikils hagvaxtar, 4 %-5 %, gríðarlegrar aukningar ráðstöfunartekna heimilanna, um 10 %/ár þessi misserin, og lágs eldsneytisverðs. Á höfuðborgarsvæðinu hefur umferðin aukizt 6,5 % fyrstu 10 mánuði ársins 2016 m.v. sama tímabil 2015. Nú ríkir "framkvæmdastopp" stórframkvæmda til gatnakerfisbóta í Reykjavík eftir samning Reykjavíkurborgar og Vegagerðar um, að Vegagerðin setti í staðinn "stórfé" í strætisvagnasamgöngur á milli Reykjavíkur og fjarlægra staða.  Rafvæðing bílaflotans mun framkalla aukningu á umferð, af því að orkukostnaður á hvern ekinn km minnkar um 2/3 m.v. núverandi orkuverð. 

Við þessari þróun er bráðnauðsynlegt að bregðast við af myndarskap, en þá vill svo óheppilega til, að í Reykjavík ræður afturhald ríkjum, sem vill synda á móti straumnum og er með kenningar um, að yfirvöld eigi að vinna gegn umferðaraukningu af völdum einkabílsins með því að halda nýjum umferðarmannvirkjum í lágmarki og tefja för vegfarenda með þrengingum gatna og öðru ámóta. Á sama tíma eru gælur gerðar við "Borgarlínu".  Þetta nær engri átt. 

Höggva þarf á þennan hnút og setja nú þegar í gang verkefni við Sundabraut og tvöföldun Hvalfjarðarganga. Spölur mun afhenda Vegagerðinni Hvalfjarðargöngin í árslok 2018, og allt bendir til, að árið 2019 verði meðalumferð þar í gegn yfir 8000 farartæki á sólarhring, sem er viðmiðunar hámark.  Strax þarf að hefja undirbúning tvöföldunar, og þessi 2 nefndu verkefni eru upplögð í einkaframkvæmd og vegtollheimtu, af því að leiðirnar verða valfrjálsar.  Fjárveitingu til Vegagerðarinnar þarf jafnframt að auka um 40 % upp í a.m.k. 35 miaISK/ár.

Fjármögnun innviðaframkvæmda:

Ferðamennskan hefur ekki aðeins valdið auknu álagi á vegakerfið, heldur líka á heilbrigðiskerfið og löggæzluna, svo að eitthvað sé nefnt.  Hér gæti verið um 10 % aukningu álags að ræða af völdum ferðamanna, sem bregðast verður við með auknum fjárveitingum úr ríkissjóði að sama skapi.  

Þetta kallar á nýja fjármögnun, og er álagning gistiskatts í stað gistináttagjalds, e.t.v. 1000 kr/fullorðinn per nótt, og hækkun virðisaukaskatts upp í 24 % og afnám undanþága, leið til að fjármagna hin auknu útgjöld. 

Jafnframt þarf að fara að huga að útjöfnun hinna gríðarlegu gróðurhúsaáhrifa af völdum flugsins, sem fyrir 2,0 milljónir gesta til Íslands gæti numið 2,3 Mt, sem er helmingur af allri losun  á landi og sjó hérlendis.  Til þess mætti leggja á hóflegt komugjald, t.d. 2´000 kr á hvern fullorðinn, og leggja þetta fé til skógræktar og landgræðslu. 

Náttúruhamfarir:

Ferðaþjónustan getur beðið mikinn hnekki af völdum goss undir jökli, eins og dæmin sanna.  Flutningar í lofti að og frá landinu geta teppzt um tíma, og jökulflóð geta rofið hringveginn, og verulegar truflanir geta orðið á afhendingu rafmagns.  Aðrar atvinnugreinar en ferðaþjónustan munu að vísu verða fyrir meira tjóni af völdum rafmagnsleysis, en hætt er við stóráfalli í ferðaþjónustunni, því meiru þeim mun fleiri ferðamenn, sem eru staddir á landinu, þegar ósköpin dynja yfir, fyrirvaralítið.  Þess vegna er bráðnauðsynlegt að fjölga áfangastöðum erlendra ferðamanna utan gosbeltisins, t.d. á Snæfellsnesi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Austurlandi. 

Samantekt:

Ferðaþjónustan stendur að baki núverandi hagvexti og velmegun á Íslandi að miklu leyti.  Hún er hins vegar afar viðkvæm atvinnugrein, og með afturkippi í henni er efnahagsstöðugleika á Íslandi ógnað.  Veldisvöxtur greinarinnar er ekki einvörðungu blessun, heldur getur hann leitt til hruns þessarar stærstu atvinnugreinar landsins með fjöldagjaldþrotum og fjöldaatvinnuleysi sem afleiðingu.  Sumu er hægt að stemma stigu við, en öðru ekki með góðu móti.

 

 

 

 


Maðkur í mysunni hjá OR

Viðskiptablaðið (Vb) hefur fjallað ítarlega um fjárhagslegan rekstur Orkuveitu Reykjavíkur, OR, sem samanstendur af orkuvinnsluþættinum innan vébanda Orku náttúrunnar, ON, og deifingarþættinum innan vébanda Veitna. Fengizt er við öflun og dreifingu á heitu og köldu vatni, flutning og hreinsun frárennslis, gagnadreifingu, vinnslu og dreifingu rafmagns.  Tekjustoðirnar eru þannig margar undir fyrirtækinu, og áhöld um aðskilnað tekjulinda.  Það liggur t.d. ekki í augum uppi, að komið sé í veg fyrir flutning fjármagns frá hitaveituhlutanum, sem í eðli sínu er einokunarstarfsemi, til rafmagnsvinnslunnar, sem er á samkeppnismarkaði með almenning og orkufrekan iðnað sem viðskiptavini.

Boðskapur Vb er sá, að tekjur af raforkusölu ON til álvers Norðuráls á Grundartanga, NÁ, séu óeðlilega lágar m.v. kostnað raforkuvinnslu í jarðgufuverum ON og tekjur af orkusölu ON til almennings. Eins og staðan er núna, er rétt hjá Vb, að raforkuverðið til NÁ er of lágt til að það geti staðið undir kostnaðinum af raforkuöflun fyrir fyrirtækið í jarðgufuverum ON.  Núverandi raforkuverð til NÁ er ennfremur allt of lágt m.v. meðalraforkuverð til almennra viðskiptavina ON samkvæmt upplýsingum Vb úr gögnum OR og OS (Orkustofnunar). Þetta er grafalvarlegt fjárhagsmál og sanngirnismál, og spjótin beinast óneitanlega að borgarstjóranum í Reykjavík og borgarstjórnarmeirihluta hans, sem virðist döngunarlaus, þó að almannahagsmunir séu í húfi. 

Orkuverð til NÁ 2015, PNÁ:

Samkvæmt Vb 20. október 2016 voru orkusölutekjur ON árið 2015 af viðskiptum með raforku við NÁ MUSD 37,4, sem á meðalgengi ársins 2015, 131 ISK/USD, jafngildir miaISK 4,9. Samkvæmt upplýsingum forstjóra Norðuráls í Vb 27. október 2016, þar sem hann skýrir frá því, að greiðslur NÁ til OR hafi árið 2015 losað mia ISK 6, má ætla, að sú upphæð spanni flutningsgjald frá virkjunum til Grundartanga og andvirði raforkusölu frá jarðgufuvirkjunum ON, Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun, ásamt raforku frá Landsvirkjun, LV, sem ON kaupir og selur. Raforkan frá jarðgufuverunum nam hins vegar 2277 GWh (2476-199=2277, þar sem 199 GWh er orka keypt af LV og seld til NÁ).

Þá er hægt að reikna út meðalverð raforku 2015 frá jarðgufuvirkjunum ON til NÁ:

PNÁ = 37,4/2,277 = 16,4 USD/MWh, jafngildi 2,1 ISK/kWh

Er þetta verð of lágt, eðlilegt eða of hátt ?

Til að svara þessari spurningu, þarf að bera þetta verð saman við endurnýjunarverð jarðgufuvirkjananna, sem í hlut eiga, og raforkuverð til almennings frá sömu virkjunum.

Vinnslukostnaður í jarðgufuvirkjun, KJG:

Hægt er að miða við einingarkostnað Þeistareykjavirkjunar, 2,1 MUSD/MW, og verður þá stofnkostnaður við þann hluta virkjunarinnar, sem NÁ nýtir, þ.e. 265 MW, tæplega MUSD 560. 

Ef reiknað með árlegum viðhaldskostnaði og kostnaði við gufuöflun til mótvægis við glataða gufu í gufuforðabúri virkjunar, 5 % af stofnkostnaði, fæst  upphæðina MUSD 28, sem er varlega áætlaður jafnaðarlegur árlegur rekstrar- og viðhaldskostnaður ON við sínar jarðgufuvirkjanir. Hann er fremur hár, t.d. MUSD 62 árið 2015, vegna þess, að gufuforðabúrið, sem Hellisheiðarvirkjun nýtir, hefur ekki staðið undir fullu álagi virkjunarinnar. Með öðrum orðum var rennt blint í sjóinn á sínum tíma með sjálfbæra álagsgetu Hellisheiðarvirkjunar, þegar samið var um raforkusölu þaðan. Með 8,0 %/ár ávöxtunarkröfu fjármagns og 30 ára afskriftartíma virkjunar, gefa þessar kostnaðartölur árlegan fjármagnskostnað MUSD 49 og rekstrarkostnað MUSD 28, alls MUSD 77. Raforka frá jarðgufuverunum til NÁ var 2277 GWh árið 2015. Þá fæst einingarkostnaður raforku, sem vinna þarf með jarðgufu fyrir NÁ:

KJG = 77/2,277 = 34 USD/MWh

Samanburður raunverðs NÁ og vinnslukostnaðar raforku:

PNÁ/KJG = 16,4/34 = 0,48 = 48 %

Þetta lága hlutfall gengur ekki til lengdar, enda kemur það þunglega niður á hagsmunum eigenda OR og viðskiptavina dótturfyrirtækja hennar. Ábyrgðin hvílir þyngst á borgarstjórn Reykjavíkur, enda ekki vitað til, að OR hafi óskað eftir viðræðum við NÁ um endurskoðun rafmagnssamnings að hætti Landsvirkjunar, LV, þó að enn ríkari ástæða sé til að bregðast við forsendubresti fyrir OR en LV.

Raunverðið 2015 var aðeins 48 % af nauðsynlegu jafnaðarverði fyrir orku frá jarðgufuvirkjunum ON.  Ætla má reyndar, að raunverðið 2015 hafi verið nálægt lágmarki í rafmagnssamningi, af því að raforkuverðið  til NÁ er tengt álverði.  Það er afar ólíklegt, að þetta raforkuverð sveiflist nokkurn tímann upp í vinnslukostnaðinn frá nýjum, sams konar virkjunum, 34 USD/MWh, og þess vegna getur andvirði orkusölunnar frá NÁ ekki staðið undir endurnýjun eða stækkun kerfisins.  Það er ekki þar með sagt, að tap verði allt samningstímabilið á þessari orkusölu.  Svo verður þó líklega á meðan á mikilli gufuöflun stendur til að viðhalda afli Hellisheiðarvirkjunar, sbr Vb 20.10.2016:

"Heildarrekstrarkostnaður ON í fyrra [2015] nam tæpum MUSD 62 eða miöISK 8,1, þar af fóru miaISK 1,3 [16 %] í viðhald."

Raforkuverð til almennings frá jarðgufuvirkjunum OR:

NÁ notar um 265 MW/423 MW = 63 % af afkastagetu jarðgufuvirkjananna og 2277 GWh/3211 = 71 % af orkuvinnslunni 2015 og borgaði fyrir þá orku aðeins sem nemur 60 % af rekstrarkostnaði þess árs, miaISK 4,9/miaISK 8,1 = 0,6.  Allur fjármagnskostnaður og 40 % af rekstrarkostnaði lendir þá á almenningi, sem nýtir 37 % af afkastagetu virkjananna og 29 % orkuvinnslunnar, og á efnahagsreikningi (skuldsetningu) ON.  Þessi misserin er fjárhagurinn bágborinn, en lítum á, hvernig fjárhagsmálin líta út frá bæjardyrum almennra raforkukaupenda af ON:

Samkvæmt Vb 20.10.2016 námu heildar raforkusölutekjur ON 2015 MUSD 91,8, jafngildi miaISK 12,0.  Til að finna út söluandvirði raforku til almennings þarf að draga frá heildinni andvirði raforkusölu til NÁ frá jarðgufuverum og söluandvirði raforku frá LV:

SGA = 91,8 - 37,4 - 3,3 = MUSD 51,1 = miaISK 6,7

Raforkan frá jarðgufuvirkjununum til almenningsveitna:

EGA = 3211 - 2277 = 934 GWh/ár

Meðalraforkuverð frá jarðgufuverum til almennings:

PAL = 51,1/0,934 = 54,7 USD/MWh = 7,2 kr/kWh

Samanburður raforkuverðs til NÁ og til almennings:

PNA/PAL = 16,4/54,7 = 0,3 = 30 % 

Hægt er að sýna fram á út frá því, sem að ofan er skráð, að eðlilegt hlutfall PNAe/PALe=0,66 (0,64*0,63 + 0,36*0,71 = 0,66), þ.e. núverandi verðhlutfall þarf að tvöfaldast, ef almenningur á ekki að verða hlunnfarinn til lengdar.

Hvaða verðbreytingar á raforku eru sanngjarnar:

 Ef miðað er við núverandi verð til almennings, þarf meðalverðið fyrir raforku jarðgufuveranna til Norðuráls, PNA´að verða PNA´= 36 USD/MWh. Annars greiðir almenningur niður raforkuverðið til Norðuráls. 

Málið er þó enn verra, því að samkvæmt Vb hefur verð á raforku og dreifingu hækkað um 55 % á tímabilinu 2010-2016, á meðan vísitala neyzluverðs hefur aðeins hækkað um 23 %.  Þetta er óásættanleg staða mála, og er nauðsynlegra að leiðrétta þetta með 20 % lækkun raforkuverðs ON en OR fari að greiða Reykjavíkurborg og öðrum eigendum sínum nokkra milljarða ISK í arð, eins og ætlunin er á næstunni.

Þá verður verðið til almennings: 0,794*7,2=5,7 kr/kWh = 43,5 USD/MWh.  Til að verðhlutfallið endurspegli hlutfall kostnaðar í jarðgufuvirkjunum fyrir þessa tvo notendahópa, 0,66, þá þarf verðið til NÁ að hækka upp í 29 USD/MWh við þessar aðstæður.  Með þessum breytingum næst sanngjörn tekjuskipting fyrir orkuna og hæfileg arðsemi jarðgufuveranna.   

Þetta er eðlilegt verð til stóriðjufyrirtækis á Íslandi á tímum eðlilegs afurðaverðs, sem er reyndar ekki um þessar mundir.  Álverðið er núna 20 % undir eðlilegu botnverði.  Raforkuverð til ISAL án flutningsgjalds er núna um 35 USD/MWh, enda er það ótengt álverði, en er hins vegar tengt neyzluverðsvísitölu í Bandaríkjunum.  Þetta verð er of hátt fyrir fjárhag minni álverksmiðju en NÁ við núverandi óvenjulegu markaðsaðstæður, og þyrfti það að lækka til bráðabirgða, þar til LME-álverð verð nær 1850 USD/t (er nú um 1700 USD/t og hækkandi) um 5-10 USD/MWh.

Um gjaldskrárbreytingar OR skrifar Trausti Hafliðason eftirfarandi í Vb 20. október 2016:

"Í haust hefur hækkun gjaldskrárinnar komið inn á borð borgarstjórnar og borgarráðs.  Hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lagt til, að því yrði beint til "Orkuveitu Reykjavíkur að skoða og gera áætlun um, hvernig og hvenær lækka megi orkugjöld á heimili". 

Í bókun Sjálfstæðismanna kemur fram, að þeir telji sanngjarnt, að almenningur, sem tók á sig hækkanir, fái að njóta árangurs fyrirtækisins.  Hafa fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata, sem mynda meirihluta í borginni, í tvígang fellt tillöguna og í bókun sagt ótímabært að skoða gjaldskrárlækkanir."

Það felst mikill áfellisdómur yfir vinstri meirihlutanum í borgarstjórn Reykjavíkur í þessu að neita að horfast í augu við þær staðreyndir, sem í Vb hafa verið dregnar fram í dagsljósið og rökstuddar eru enn ítarlegar hér að ofan með arðsemisútreikningum og sanngirnisrökum.  Með óyggjandi rökum er hér sýnt fram á, að með ósanngjörnum hætti m.v. notkunarmynztur og vinnslukostnað hafa of þungar byrðar verið lagðar á almenna viðskiptavini OR og of litlar á aðalviðskiptavininn, sem fær yfir 70 % raforkunnar frá jarðgufuvirkjunum OR, en önnur þeirra, Hellisheiðarvirkjun, er aðalorsök þess alvarlega skuldavanda, sem herjaði á OR 2009-2014.

Síðan er haldið áfram í Vb:

"Í byrjun mánaðarins [október 2016] birti Orkuveita Reykjavíkur skýrslu, þar sem farið er yfir fjárhagsstöðu fyrirtækisins og langtímaspá. Í skýrslunni segir, að á tímabilinu frá 2018-2022 sé gert ráð fyrir miaISK 5 arðgreiðslu til eigenda.  Reykjavíkurborg á 93,5 % hlut í OR, Akraneskaupstaður 5,5 % og Borgarbyggð 1,0 %."

Af þessu er ljóst, að þegar á næsta ári verður borð fyrir báru í fjárhagslegum rekstri OR þrátt fyrir nauðsynlegt og kostnaðarsamt gufuöflunarátak fyrir Hellisheiðarvirkjun ásamt þróun niðurdælingar m.a. til að losa íbúa á höfuðborgarsvæðinu, í Hveragerði og nærsveitum við skaðlegar lofttegundir úr iðrum jarðar.  Þess vegna ætti nú þegar að taka ákvörðun um 20 % lækkun orkuverðs og dreifingargjalds í gjaldskrá OR (ON og Veitna) með virkni frá 1. janúar 2017 til að samræma verðbreytingar OR við vísitölu neyzluverðs frá 2009.

Jafnframt ætti OR nú þegar að leita hófanna við NÁ um stigvaxandi hækkun á raforkuverði til fyrirtækisins upp í a.m.k. 29 USD/MWh, enda virðist heimsmarkaðsverð áls nú vera komið á hækkunarbraut.  Forsendur OR fyrir orkusamninginum á sínum tíma eru brostnar, þar sem meðalálverð á tímabilinu 1997-2016 hefur verið mun lægra en búizt var við vegna óvæntrar markaðsþróunar í Kína og ládeyðu í heimshagkerfinu 2008-2016, og af því að rekstrarkostnaður jarðgufuvirkjunarinnar á Hellisheiði hefur reynzt hærri en reiknað var með vegna ónógra undirbúningsrannsókna á jarðgufuforðanum.  Tímaskorturinn var aðallega vegna raforkusamningsins við NÁ, þar sem leitast var við að verða við óskum fyrirtækisins um snemmbúna orkuafhendingu til fyrirtækisins. 

Það eru ágætisrök, sem liggja til grundvallar raforkuverðlækkun OR til almennings og raforkuverðhækkun til NÁ, eins og hér hafa verið rakin. Hvað dvelur orminn langa í ormagryfju borgarstjórnar Reykjavíkur, þar sem duglausir jafnaðarmenn því miður enn ráða ríkjum ?  Hvers vegna draga þeir lappirnar í stjórn OR og láta hagsmuni almennings lönd og leið ? 

 


Hrakfarir uppboðsleiðar

Það er sláandi, að stjórnmálaflokkarnir, sem nú vilja biðja þjóðina um leyfi til að senda inn öðru sinni umsóknarbeiðni til Evrópusambandsins, ESB, hafa allir boðað, að þeir muni á nýhöfnu kjörtímabili berjast fyrir byltingu á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Ætla þeir að kasta fyrir róða núverandi aflahlutdeildarkerfi með frjálsu framsali, sem þó hefur umbylt stöðu sjávarútvegs til hins betra, skiljanlega þó ekki án fórna, fyrna, þ.e. þjóðnýta aflahlutdeildir, og bjóða þær upp. 

ESB hefur að vísu ekki tekið upp þetta kerfi, en sjávarútvegurinn hér mun komast á vonarvöl, þ.e. á ríkisframfæri, eins og hann er í ESB-löndunum, með þessari fáránlegu þjóðnýtingu, sem er bylting í anda bolsévismans. Í Færeyjum yrði engin þjóðnýting, þótt Færeyingar mundu innleiða uppboðsleið, því að aflahlutdeildir útgerðanna renna úr gildi þar á næsta ári samkvæmt ákvörðun, sem mun hafa verið tekin af Lögþinginu árið 2008.  Í Færeyjum má þó vænta harðra deilna um það, hvort fara á "íslenzku leiðina", "uppboðsleiðina" eða einhverja aðra leið en sóknardagaleið, sem þeir hafa gefizt upp á, ef rétt er skilið.

Á Íslandi virðist "uppboðsleið" aðallega njóta fylgis í pósthólfi 101, á meðal stjórnmálaforkólfa á höfuðborgarsvæðinu og á meðal fáeinna fræðimanna, sem þó eru hvorki sérfræðingar í sjávarútvegsfræðum né í fiskihagfræði. 

Á meðal fólks, sem vinnur í sjávarútvegi, virðist enginn stuðningur vera við "uppboðsleið", hvorki á meðal sjómanna, fiskvinnslufólks né útgerðarmanna.  Þannig hafa forystumenn sjómanna tjáð verulegar áhyggjur sínar af hag umbjóðenda sinna, verði þessari allsendis óþörfu félagslegu tilraunastarfsemi hleypt af stokkunum.  Þeir, sem íhuga afleiðingar "uppboðsleiðar", gera sér glögga grein fyrir því, að atvinnuöryggi í sjávarútvegi getur aðeins versnað við að hverfa frá aflahlutdeildarkerfi til "uppboðsleiðar".  Fyrirtæki, sem annars eru grunnstoðir hinna dreifðu byggða, munu veikjast, og þar með munu mörg sveitarfélög óhjákvæmilega veiklast.  "Uppboðsleið" er þannig aðför að íslenzkum sjávarútvegi og hinum dreifðu byggðum landsins.

Það þarf hins vegar ekki að ímynda sér neitt í þessum efnum, því að það vill svo til, að nokkur reynsla er þegar komin á "uppboðsleið", og hún er svo neikvæð, að með endemum er, að nokkur heilvita maður skuli mæla með innleiðingu hennar á Íslandi og að þar í bendu skuli vera a.m.k. 4 stjórnmálaflokkar, þ.e. Píratahreyfingin, Samfylking, Björt framtíð og Viðreisn. Er það tilviljun, að þetta eru sömu stjórnmálaflokkarnir og stefna leynt og ljóst að innlimun Íslands í Evrópusambandið ?

Þann 13. október 2016 birtist í Fiskifréttum afar fróðleg grein aftir Sigurð Stein Einarsson,

"Er uppboðsleiðin raunhæf ?".  Þar greinir hann frá tilraunum nokkurra þjóða með "uppboðsleið", sem allar eru á eina lund:

eftir skamma hríð hurfu þær frá "uppboðsleiðinni".  Hér verður gripið niður í greininni:

"Eistar buðu upp 10 % aflaheimilda á árunum 2001-2003.  Árið 2003 var árangurinn af uppboðskerfinu metinn, og var niðurstaðan fjarri því að vera jákvæð.  Uppboðskerfið var talið hafa leitt til sóunar á auðlindinni, orðið til þess, að smærri fyrirtæki urðu gjaldþrota og leitt til stórminnkandi starfsöryggis sjómanna.  Fyrst og fremst af þessum ástæðum var ákveðið að hætta uppboðum á aflaheimildum."

Þetta er nákvæmlega það, sem andstæðingar "uppboðsleiðar" hérlendis hafa varað við, að gerast mundi.  Það er í raun borðleggjandi, og reynsla Eista staðfestir það.  Hérlendis eru samt "spekingar", sem fullyrða á grundvelli skrifborðsvinnu sinnar einvörðungu, að "uppboðsleið" sé bezta leiðin til að hámarka skatttekjur ríkissjóðs af sjávarafla.  Þetta stenzt ekki í raun:

"Í austurhluta Rússlands stóð einnig yfir uppboð á aflaheimildum 2001 til 2003.  Vonir stóðu til, að leiðin myndi auka hlut ríkisins í auðlindarentunni, auka gagnsæi varðandi úthlutun á fiskveiðiheimildum og gera atvinnugreinina arðbærari, t.d. með fækkun fiskiskipa.

Aflaheimildirnar, sem boðnar voru út, voru í Austur-Rússlandi og Barentshafi.  Í austurhluta Rússlands störfuðu 160´000 manns við sjávarútveg hjá 1´500 fyrirtækjum.  Mikilvægi sjávarútvegsins í þessum hluta landsins var ótvíræður, og stóð hann undir 27 % allrar framleiðslu á Primorsky-skaga og 55 % framleiðslu á Kamtsjatka.

Árið 2001 var boðin upp 1,0 milljón tonna og 1,2 milljónir tonna árið 2002.  Ekki seldist allt, sem fór á uppboð, en tilboðin í heimildirnar reyndust mun hærri en gert hafði verið ráð fyrir.  Ríkið fékk í sinn hlut miaISK 20,3 árið 2001, miaISK 29,6 2002 og miaISK 38,6 2003.  Bar þetta ekki vitni um stórkostlegan árangur ?

Hér heima hefur samfélagslegum áhrifum uppboðsleiðarinnar lítill gaumur verið gefinn.  Einblínt er á aukinn hlut ríkisins í auðlindarentunni, en ótrúlega lítið er fjallað um áhrif uppboðsleiðarinnar á sjávarbyggðir. Hafa verður í huga, að sjávarútvegsfyrirtæki eru meginstoðir atvinnulífs víða á landsbyggðinni og starfsmenn þeirra á sjó og í landi drjúgur hluti íbúa.  Starfsgrundvöllur fyrirtækjanna skiptir því samfélögin afar miklu máli, en aflaheimildunum byggja þau tilvist sína á. 

Sjávarútvegur í austurhluta Rússlands skilaði miaISK 6 hagnaði árið 2000.  Dramatískur viðsnúningur átti sér hins vegar stað 2001; tap varð af rekstri sjávarútvegsfyrirtækja á svæðinu, sem nam miöISK 6.  Upplýst var, að árið 2001 væru 90 % sjávarútvegsfyrirtækja á umræddu svæði þegar illa stödd og jafnvel á barmi gjaldþrots.  Þá hófu sveitarfélög á uppboðssvæðinu strax 2001 að kvarta sáran, því að uppboðskerfið leiddi til þess, að 96 % af skatttekjum af sjávarútvegi runnu til ríkisins, en einungis 4 % til sveitarfélaga.  Áður höfðu 34 % af skatttekjum af sjávarútvegi runnið til sveitarfélaga. 

Skuldir sjávarútvegsins á svæðinu fóru úr 30 % af framleiðsluverðmæti ársins 2000 í 66 % af framleiðsluverðmæti ársins 2002, en sú þróun bendir ótvírætt til þess, að sjávarútvegsfyrirtækin hafi boðið of hátt verð í þær heimildir, sem boðnar voru upp.  Fyrir lá, að kvótakaupin voru fjármögnuð með lánsfé, og skuldsetning fyrirtækjanna jókst því hratt.  Fyrir félögin skipti öllu að verða sér úti um kvóta, og sum þeirra gripu til þess ráðs að selja eignir til að fjármagna kvótakaup."

"Uppboðsleiðin" á Íslandi hefur ekki verið útfærð til hlítar, en það má gera því skóna, að þessar lýsingar frá útlöndum megi í miklum mæli heimfæra á Ísland.  Aflahlutdeildarhafar, sem missa kvóta, munu í örvæntingu teygja sig upp í rjáfur á uppboðsmarkaði til að afla sér og sínu fólki lífsviðurværis.  Minni fyrirtækin munu þurfa að skuldsetja sig, og þau munu sennilega fara á hausinn, hvort sem þau hreppa rándýrar aflaheimildir eða sitja eftir slyppar og snauðar.  Útgerðum mun þess vegna á skömmum tíma fækka um nokkur hundruð, e.t.v. 400. 

Eignastaða útgerðanna stórversnar vegna afskrifta aflahlutdeilda og skuldsetningar við kaup aflahlutdeilda, sem rifnar voru af þeim.  Tekjur rýrna með minnkandi aflaheimildum.  Atvinnuöryggi á sjó og í landi fellur undir velsæmismörk.  Mörg minni sjávarplássin munu sjá skriftina á veggnum, og kvótatilflutningur í fortíðinni verður hjóm eitt hjá hörmungunum, sem "uppboðsleiðin" leiðir af sér.  Fræðimenn hafa reyndar sýnt fram á, að kvótakerfið sjálft hafi haft óveruleg áhrif á byggðaþróun Íslands umfram þau áhrif, sem gríðarlegur aflasamdráttur hafði að ráði Hafrannsóknarstofnunar. 

Veiðiheimildir ganga kaupum og sölum og hafa gert frá 1990.  Íslenzkur sjávarútvegur berst nú í bökkum á erlendum fiskmörkuðum í argvítugri samkeppni við niðurgreiddan sjávarútveg, sem yfirleitt greiðir engin veiðigjöld. Hátt gengi ISK fækkar krónum í kassann og dregur mjög úr hagnaði. 

Núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi hefur skapað umgjörð góðrar umgengni við auðlindina, betri en önnur fiskveiðistjórnunarkerfi megna.  "Uppboðsleiðin" felur ekki í sér sambærilega hvata til góðrar umgengni um veiðistofnana og aflahlutdeildarkerfið.  Verðmætasköpun aflahlutdeildarkerfis og vísindalega ákvarðaðs aflamarks í hverri tegund er meiri en nokkurra annarra þekktra fiskveiðistjórnunarkerfa, og þess vegna er skattsporið stærst með aflahlutdeildarkerfinu, og þar af leiðandi innbyrðir samfélagið mest í sameiginlega sjóði með aflahlutdeildarkerfi og frjálsu framsali aflahlutdeilda á skip.  Hvers vegna að umbylta kerfi, sem gefur mest ?  Ráðgjafarfyrirtækið McKinsey sá enga ástæðu til þess í viðamikilli úttekt á stjórnarháttum og hagkerfi fyrir örfáum árum, og slíkt er í raun ekki tilraunarinnar virði og væri hið versta glapræði, eins og hér hefur verið rakið. Ný tegund í lögsögu Íslands, makríll

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband