Vaxandi spenna í Evrópu

Niðurstöður nýlegra fylkiskosninga í Þýzkalandi sýna, að geð kjósenda er verulega tekið að grána.  Ein ástæðan er hár kostnaður við móttöku framandi hælisleitenda, frumstæð hegðun þeirra og slæmt heilsufar margra flóttamanna frá Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, en einnig er mjög vaxandi óánægja með ofurlága vexti, sem margir Þjóðverjar, Austurríkismenn, Hollendingar o.fl. telja til þess fallna að flytja mikla fjármuni frá sparendum í norðri til skuldara í suðri.

Vaxandi fylgi hægri flokksins, AfD - Alternative für Deutschland, er engin tilviljun, heldur viðbragð kjósenda við þeirri þrúgandi stöðu, að hælisleitendur leggjast af miklum þunga á innviði Þýzkalands, húsnæðisframboð minnkar, og lágir vextir valda óeðlilegum hækkunum á húsnæði í þokkabót, álag á sjúkrahúsin eykst m.a. vegna framandi sjúkdóma, sem fylgt hafa hælisleitendum, og fjöldi atvinnulausra vex úr 2,5 milljónum vegna innflæðis fólks og stöðnunar atvinnulífs, sem lágir vextir og peningaprentun hafa ekki hrinið á. 

Því miður versnar ástandið stöðugt í Sýrlandi, og þurrkar í Norður-Afríku valda uppskerubresti, svo að ekki hillir undir, að hælisleitendur verði fluttir til baka, eins og Angela Merkel þó hefur talað um, að stefnt væri að.  Um hrikalega hegðun hælisleitenda og stórfelld samskiptavandamál er yfirleitt þagað þunnu hljóði enn sem komið er.  Óánægjan fær útrás m.a. með því að kjósa AfD, enda lofast þau til að taka innflytjendamál og "islamvæðingu Evrópu" föstum tökum.   

Víkjum nú að efnahags- og peningamálum ESB með því að styðjast við grein í "The Economist", 30. apríl 2016, "Mario battles the Wutsparer" (Mario [Draghi] berst við reiða sparendur (innistæðueigendur)):

"Þjóðverjar njóta þess að spara.  Þeim finnst siðferðislega rangt að taka lán", segir Reint Gropp, þýzkur hagfræðingur.  Á þýzku og hollenzku þýðir skuld sekt, "Schuld".

Germanskar þjóðir á borð við Þjóðverja, Austurríkismenn og Hollendinga, eiga háar upphæðir á bankareikningum sínum.  Þeir högnuðust þess vegna á háum vöxtum.  Á síðustu árum hafa vextir fallið niður að núlli, og við þessar aðstæður hefur magnazt óánægja í þessum löndum, af því að íbúunum er ekki umbunað fyrir ábyrga fjármálahegðun, og þeir hafa nú fundið blóraböggul: Evrubankinn, ECB, og hans grunsamlegi ítalski formaður bankastjórnar, Mario Draghi. 

Í apríl 2016 réðist þýzki fjármálaráðherrann, Wolfgang Schäuble, á ECB fyrir neikvæða stýrivexti og peningaprentun og sakaði Mario Draghi um að bera ábyrgð á uppgangi, AfD, sem í fylkiskosningum í sumar stórjók fylgi sitt á kostnað flokks fjármálaráðherrans og kanzlarans, CDU. 

Sannleikurinn er sá, að lágvaxtastefna ECB veldur bönkum á evrusvæðinu mjög miklum erfiðleikum.  Nú hafa t.d. borizt fregnir af veikri stöðu eins stærsta banka Þýzkalands, fjárfestingarbankans Deutsche Bank-DB.  DB stendur í alþjóðlegum viðskiptum, hefur tapað stórum fjárhæðum á þeim og verið ákærður fyrir sviksamlega viðskiptahætti í Bandaríkjunum-BNA, sem geta kostað hann um miaUSD 10 í sektum.  Virði hlutabréfa bankans hefur fallið um meira en helming á rúmu ári, sem þýðir, að ótti hefur grafið um sig um afdrif bankans. 

Upplýsingar um of veika eiginfjárstöðu banka í BNA bætast við fregnir af tæpri stöðu ítalskra banka.  Þetta eru allt aðvörunarmerki um það, að bankakerfi heimsins þoli ekki lágvaxtastefnu stærstu seðlabanka heimsins, og þess vegna gæti orðið nýtt alþjóðlegt bankahrun innan tíðar.  Angela Merkel þorir ekki að koma DB til bjargar af ótta við þýzka kjósendur í kosningum til Bundestag að ári liðnu.  Þetta ástand getur leitt til fyrirvaralauss áhlaups á sparibanka Evrópu, sem leitt getur af sér bankahrun.  Ríkissjóðir flestra ríkja Evrópu eru ekki lengur í stakkinn búnir að hlaupa undir bagga með bönkum, svo að væntanleg bankakreppa verður öðruvísi og víðast líklega enn alvarlegri en 2007-2008. 

Á Íslandi er eiginfjárstaða stærstu bankanna þriggja með traustasta móti, en ef ratar sitja í Stjórnarráðinu, þegar ósköpin dynja yfir, munu þeir örugglega ekki rata á beztu lausnirnar, heldur gætu þeir hæglega magnað vandann með aðgerðarleysi eða örvæntingarfullu fáti með grafalvarlegum afleiðingum fyrir ríkissjóð, sparifjáreigendur og alla landsmenn. Það er vert að hafa þetta sjónarmið ofarlega í huga, þegar gengið verður til kosningu 29. október 2016.

 

 

 

 


Húsnæðismarkaðurinn hér og þar

Það skiptir máli, hvaða stjórnmálaflokkar fara með völd í landinu.  Ef fólk heldur, að glæsileg staða efnahags landsins sé tilviljun, þá er það misskilningur.  Verðmætasköpun atvinnulífsins er undirstaða lífskjara almennings, og þess vegna skiptir rekstrarumhverfið miklu máli, og stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga hafa á þetta mikil áhrif.  Við göngum senn til kosninga, og þá er mikilvægt fyrir buddu hvers og eins að taka ekki áhættu með vonarpening og að varast vinstri slysin. Þau hafa alltaf orðið dýrkeypt. Alþingismenn, sem hafa sjónarmið hinnar "hagsýnu húsmóður" að leiðarljósi, eru líklegastir til að ráðstafa sameiginlegu fé kjósenda af skynsamlegustu viti, en stjórnmálamenn, sem lofa öllum öllu eru líklegir til að eyða sameiginlegu fé áður en þeir afla þess og valda hér verðbólgu. Skuldsetning og verðbólga eru fylgifiskar óráðsíu í ríkisfjármálum. 

Húsnæðismálin skipta alla máli, unga sem aldna.  Það er kunnara en frá þurfi að segja, hversu mikilvægt er fyrir fjárhag og velferð fjölskyldna að eiga húsnæðið, sem þær búa í.  Að eignast húsnæði hefur alltaf verið erfitt, enda eru húsnæðisbyggingar eða húsnæðiskaup langstærsta fjárfesting flestra yfir ævina.  Fyrir aldraða, sem látið hafa af störfum, er það í raun skilyrði fyrir sæmilegri afkomu að eiga skuldlausa húseign.  Af þessum ástæðum er séreignarstefnan á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins, en blekbónda er til efs, að forysta annarra stjórnmálaflokka sé sama sinnis. Vinstri menn hafa horn í síðu eignamyndunar einstaklinga, af því að þeir telja fjárhagslegt sjálfstæði ekki keppikefli, heldur skuli sem flestir þurfa að reiða sig á sameiginlega forsjá hins opinbera.  Slíka telja þeir líklegasta til fylgilags við sameignarstefnuna.   

Óðinn gerði

"Norðurlöndin og staðreyndir um húsnæðisvexti"

að umfjöllunarefni í Viðskiptablaðinu 15. september 2016:

"Það er líklegt, að eitt stærsta málið fyrir þingkosningarnar, sem fara fram 29. október [2016], verði húsnæðismál, ekki sízt erfiðleikar ungs fólks við að koma sér upp þaki yfir höfuðið."

Þetta á sér t.d. þær skýringar, að frá aldamótaárinu 2000 til 2013 hækkaði byggingarkostnaður án lóðagjalda um tæplega 20 % á föstu verðlagi.  Skúrkarnir, sem þessu valda, eru hvorki efnissalar né byggingameistarar, heldur aðallega hið opinbera, ríki og sveitarfélög.  Ríkið með hækkun skatta á tímum vinstri stjórnarinnar, en nánast allar skattahækkanir leiða til hækkunar byggingarkostnaðar, ekki sízt hækkun virðisaukaskatts.  Á núverandi kjörtímabili var efra þrep hans hins vegar lækkað úr 25,5 % í 24,0 %, og nefnd stjórnvalda hefur lagt til eitt VSK-þrep, 19 %.  Undir vinstri stjórn verður það áreiðanlega ekki lækkað.  Á núverandi kjörtímabili hafa vörugjöld verið afnumin, sem virkar til lækkunar á byggingarkostnaði.

Þá var sett ný löggjöf af vinstri stjórninni, sem leiddi til breytinga á byggingarreglugerð, sem orsökuðu hækkun byggingarkostnaðar.  Þannig vann vinstri stjórnin að því bæði leynt og ljóst að leggja stein í götu þeirra, sem eignast vildu eigið húsnæði. Ofan af þessu hefur nú verið undið að mestu. 

Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar, sagði við Vilhjálm A. Kjartansson, blaðamann á Morgunblaðinu, í grein VAK,

"Lóðaverð hækkar byggingarkostnað",

þann 9. september 2016,

"að skipulagsstefnur sveitarfélaga geti haft töluvert að segja um byggingarkostnað". 

Sveitarfélögin, sum hver, eru nú Svarti-Pétur húsnæðiskostnaðarins. Björn bar saman kostnað 100 m2 íbúðar í lyftuhúsi á Akureyri og 115 m2 íbúð í lyftuhúsi í Reykjavík.  Í Reykjavík er kvöð um bílageymslu í bílakjallara, en á Akureyri eru bílastæði leyfð á lóð. 

"Fermetraverð íbúðarinnar á Akureyri er 314 kkr, en 562 kkr í Reykjavík." 

Einingarverðið í Reykjavík er tæplega 80 % hærra en á Akureyri.  Björn Karlsson segir, að bílakjallarinn geti hækkað verð á slíkri íbúð um allt að 5 Mkr.  Hann segir ennfremur, að lóðaverð (tilgreinir ekki hvar) hafi hækkað um 500 % á síðustu 12 árum. Þarna er skúrkurinn fundinn.   

Þessi framkoma yfirvalda við húsbyggjendur er fyrir neðan allar hellur.  Markaðsverð á hvern m2 hækkaði um þriðjung frá árinu 2000-2013, og meginsökudólgarnir eru sveitarfélög (ekki öll) og ríkið, þó að það hafi bætt sig, sbr hér að ofan. Þarna er meðvitað með sérvizkulegri kröfu skipulagsyfirvalda verið að leggja stein í götu húsbyggjenda, sem harðast kemur niður á þeim, sem eru að eignast sitt fyrsta þak yfir höfuðið. Vinstri stefna í hnotskurn. 

 

Sum sveitarfélög, t.d. á höfuðborgarsvæðinu, hreint og beint okra á lóðaúthlutunum.  Þetta er forkastanleg hegðun, sem verst kemur niður á unga fólkinu, sem er að hefja búskap og/eða hefur hug á "að koma sér þaki yfir höfuðið", ætlar með einum eða öðrum hætti að fjárfesta í sínu fyrsta húsnæði. 

Sveitarfélög, sem lóðaokur stunda, gera það með þeim hætti að mynda lóðaskort.  Síðan t.d. bjóða þau út lóðir og selja hæstbjóðanda.  Í Viðskipta-Mogganum 22. september 2016 var t.d. greint frá því, að sami verktakinn hefði hreppt allar lóðirnar í einu útboði og greitt fyrir þær verð, sem svarar til 4,9 Mkr að meðaltali á íbúð.  Þetta er óhæfa. 

Þegar Davíð Oddsson varð borgarstjóri í Reykjavík, lét hann það verða eitt af sínum fyrstu verkum að afnema lóðaskortinn, sem vinstri meirihlutinn þar hafði framkallað, enda er lóðaskortur óþarfi, þar sem nægt er byggingarland.  Í Reykjavík var þess þá einfaldlega gætt, að framboðið annaði eftirspurninni, og lóðirnar voru boðnar til kaups á verði, sem endurspeglaði kostnað við uppbyggingu hverfis án álagningar. Fyrstur kom, og fyrstur fékk. Þannig eiga sýslumenn að vera, og með þessari stefnu stuðla sveitarfélög að lækkun byggingarkostnaðar, sem er brýnt hagsmunamál almennings í landinu. Það sýnir sig oft, að hagsmunir vinstri flokkanna fara ekki saman við hagsmuni almennings.   

Byggingarkostnaður skiptist nú þannig samkvæmt Hannari og Samtökum iðnaðarins:

  • Framkvæmdarkostnaður       60 %
  • Lóðarkaup                  20 %
  • Fjármagnskostnaður         12 %
  • Hönnunarkostnaður           3 %
  • Annar kostnaður             5 %

Af þessu yfirliti sést, að sveitarfélögin eru í lykilaðstöðu til að lækka byggingarkostnað með því að auka framboð lóða til að mæta eftirspurn og láta lóðirnar af hendi á kostnaðarverði

Fjármagnskostnaðinn er líka unnt að lækka.  Hann markast að nokkru af stýrivöxtum Seðlabankans, sem hefur í 2 ár haldið þeim hærri en peningaleg rök standa til og með því skapað gróðrarstíu spákaupmennsku vaxtamunarviðskipta, sem styrkt hefur gengið enn meir en ella, en gríðarleg gengishækkun í boði Seðlabankans á þessu ári er orðin vandamál fyrir útflutningsatvinnuvegina.  Þess vegna ættu réttu lagi að verða enn frekari vaxtalækkanir á næstu vaxtaákvörðunardögum Seðlabankans. 

Nú verður áfram vitnað í Óðin:
"Viðreisn, stjórnmálaafl Benedikts Jóhannessonar, hefur hamrað mjög á samanburðinum milli vaxta á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum."

Óðinn vitnar síðan í skrif Bjarna Halldórs Janussonar, formanns ungliðahreyfingar Viðreisnar um vexti á Norðurlöndunum, sem Óðinn telur afar villandi.  Staða húsnæðiskaupenda á Íslandi sé í raun traustari en staða húsnæðiskaupenda annars staðar á Norðurlöndunum, þegar til lengri tíma er litið. 

Bjarni Halldór skrifar:

"Lánakjör til fasteignakaupa eru mun hagstæðari á Norðurlöndunum en á Íslandi.  Á Norðurlöndum eru breytilegir vextir á bilinu 1-2 %."

Þetta er augnabliksstaðan, en þegar um lántöku til 25-40 ára með breytilegum vöxtum er að ræða, er út í hött að einblína á núið. Hér er blekking höfð í frammi að hálfu Viðreisnar, sem hefur tilhneigingu til að fegra allt í útlöndum á kostnað Íslands. 

Árið 1995 voru breytilegir vextir í Svíþjóð 8,8 %/ár.  Vextir langtíma húsnæðislána með föstum vöxtum í Danmörku hafa á árabilinu 1998-2016 sveiflazt á bilinu 2,0 %- 8,2 %, og meðaltal þessara vaxta verið 5,2 % í Danmörku.  Meðalvextir húsnæðislána í Danmörku með breytilegum vöxtum eru 2,7 %, en eru nú neikvæðir, -0,23 %, og hafa hæst orðið 6,4 %.  Áfram verður vitnað í Óðin:

"Það, sem ræður vöxtunum í viðkomandi löndum, eru stýrivextir seðlabankanna.  Með töluverðri einföldun má segja, mjög háir og mjög lágir stýrivextir þýði, að eitthvað verulegt sé að efnahagnum á myntsvæði viðkomandi seðlabanka."

Stýrivextir í Danmörku eru núna -0,65 % og í Svíþjóð -0,50 %.  Það er efnahagsstöðnunin í ESB og baráttan við verðhjöðnun í evru-löndunum, sem veldur neikvæðu vaxtastigi í Danmörku og Svíþjóð, en þá þurfa fjármagnseigendur að borga fyrir að setja fé á bankareikninga.  Þeim hefur hingað til verið hlíft við þessu, og þess vegna er afkoma viðskiptabanka í ESB slæm. Á Ítalíu vofir yfir bankahrun.

Þegar flótti fjármagns frá evrunni gerði vart við sig, seldu menn evrur og keyptu danskar og sænskar krónur.  Til að bregðast við þessu og til að vinna gegn stöðnunaráhrifum frá hinum ESB-löndunum lækkuðu seðlabankar Danmerkur og Sviþjóðar stýrivexti meira en dæmi eru um þar.  Hér er Seðlabankinn sem þurs, sem ekki áttar sig á stöðu mála fyrr en um seinan. 

"Þegar að því kemur, að stýrivextir hækka í löndunum tveimur [Danmörku og Svíþjóð], verður til nýtt vandamál.  Þeir, sem hafa keypt húsnæði á svo lágum vöxtum, eins og verið hafa undanfarið, munu sjá greiðslubyrðina snarhækka, enda eru lán með breytilegum vöxtum reglan, en ekki undantekning.  Ekki nóg með það, heldur hefur húsnæðisverð hækkað viðstöðulaust í algjörum takti við lága vexti.  Þetta hefur gerzt víðar í Evrópu."

Það munu alvarlegir timburmenn fylgja í kjölfar hækkunar vaxta á Norðurlöndunum og annars staðar, þar sem þeir eru við núllið núna.  Ástandið núna erlendis er mjög óeðlilegt og mun leiða til fjöldagjaldþrota, þegar vextir hækka á ný.  Að dásama þetta fyrirkomulag ber vitni um heimsku. 

Hvað skrifar Óðinn um afleiðingar óhjákvæmilegra vaxtahækkana ?:


"Eftirspurnin mun minnka, húsnæðisverð lækka, greiðslubyrði hækka, og ástandið gæti orðið ekki ósvipað því, sem var á Íslandi eftir fall viðskiptabankanna haustið 2008.  Seðlabankar Svíþjóðar og Danmerkur hafa eðlilega miklar áhyggjur af þessu.  Það er óðs manns æði að fara inn á fasteignamarkaðinn víða í Evrópu vegna lágra vaxta, því að fyrr eða síðar, og líklega fyrr en seinna, munu vextir hækka."

Síðan kemur rúsínan í pylsuendanum, sem er ályktun Óðins um vitlaus viðmið Viðreisnar og þá um leið annarra evru-hallra stjórnmálaflokka hérlendis, sem allir virðast blindir og heyrnarlausir varðandi það, sem nú er að gerast í Evrópu.

"Það er ábyrgðarmál að segja ungu fólki í dag, að þau muni búa við betri kjör á Norðurlöndunum, þegar staðreyndin er sú, að líklega er hvergi eins bjart fram undan í efnahagsmálum og á Íslandi.  Kaupmátturinn vex hratt, gengi krónunnar styrkist, og atvinnuleysið er horfið.  ...... Það er líka afar sérstakt, að flokkur tryggingastærðfræðingsins Benedikts Jóhannessonar skuli af öllum flokkum halda þessari tálsýn að ungu fólki.  Margur hefði haldið, að hann af öllum mönnum skildi, hvernig umgangast ætti hugtakið vexti.

Nú er reyndar svo komið, að styrking ISK er fremur ógn en tækifæri, því að hún hefur gengið svo langt, að hún er farin að veikja samkeppnishæfni landsins.  Slík veiking mun innan tíðar leiða til minni hagvaxtar, sem kemur niður á lífskjörum og getu ríkissjóðs til að standa undir bættu almannatryggingakerfi, heilbrigðiskerfi, menntakerfi, vegakerfi o.s.frv. 

Þessi neikvæða þróun er í boði Peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands, sem styðst við meingölluð líkön af íslenzka hagkerfinu og virðist skorta hagfræðilegt innsæi og hugrekki til að taka sjálfstæða afstöðu á grundvelli borðleggjandi staðreynda.  Vextirnir eru afkáralega háir m.v. vaxtastigið í heiminum og stöðu íslenzka hagkerfisins.  Þeir þurfa líklega að lækka um 2 %, svo að jafnvægi verði náð.   

Ásalóð (Oslo)

 

   

 


Almannatryggingar - úrbætur

Það er engin hemja, að réttur þegnanna til greiðslu úr almannatryggingakerfi Tryggingastofnunar skuli vera skertar vegna greiðslu, sem sömu þegnar hafa unnið sér inn frá lífeyrissjóði sínum.  Þarna kemur ríkissjóður aftan að félögum í lífeyrissjóðunum og beitir þá misrétti miðað við hina, sem verið hafa á vinnumarkaðinum án þess að spara, t.d. til elliáranna, með inngreiðslum í lífeyrissjóð. 

Þann 19. september 2016 var undirritað samkomulag um jöfnun lífeyrisréttinda á vinnumarkaði á milli opinbera geirans og einkageirans.  Ríkissjóður  og sveitarfélögin brúuðu bilið, sem þurfti til samkomulags, með skuldbindingum um háar fjárhæðir, og samkomulagið er enn ein rósin í hnappagat fjármála- og efnahagsráðherra, því að nú loksins er lífeyriskerfi landsmanna sjálfbært og ríkissjóður ekki í ábyrgð fyrir afkomu lífeyrissjóða opinberra starfsmanna.  Jafnræði hefur náðst á vinnumarkaði varðandi lífeyrisréttindi. 

Þetta er stórt framfaraskref fyrir allt þjóðfélagið, og væri nú verðugt, að ráðherrann léti kné fylgja kviði á sviði lífeyrisréttinda og beitti sér fyrir afnámi téðrar neikvæðu tengingar lífeyrisgreiðslna frá lífeyrissjóðum og ellilífeyris frá Tryggingastofnun. 

Um þetta o. fl. skrifar Halldór Gunnarsson, fyrrverandi sóknarprestur í Holti, í þrælmagnaðri grein,

"Uppgjöf formanns LEB", 

sem birtist í Morgunblaðinu 15. september 2016:

"Vinstri stjórnin skerti kjör öryrkja og eldri borgara miskunnarlaust og kom á skerðingum, langt umfram alla aðra, þannig að eldri borgarar voru skertir, miðað við stöðuna í dag, um 150´000 kr á mánuði."

Þetta leyfði hin hraksmánarlega "norræna velferðarstjórn" sér að gera og þóttist þó hafa "myndað skjaldborg um heimilin".  Annað eins ginnungagap á milli orða og efnda hefur ekki myndazt á nokkru kjörtímabili á lýðveldistímanum, enda eiga viðkomandi tveir stjórnmálaflokkar fremur erfitt uppdráttar um þessar mundir, hvað sem verður.  Það er einfaldlega ekkert að marka vinstri menn. 

Fé Tryggingastofnunar ætti síðast af öllu að skerða, enda ekki feitan gölt að flá, og eitt fyrsta verk núverandi ríkisstjórnar var að afnema skerðingar á grunnlífeyri allra.

Í lok greinar sinnar skrifar Halldór í Holti:

"Um 40 þúsund eldri borgarar gera þá réttmætu kröfu, að lífeyrissjóðsgreiðslur, sem einstaklingar hafa áunnið sér með greiðslum af eigin launum, komi ekki til skerðingar á greiðslum Tryggingastofnunar með ólögum, sem fyrir löngu hefði átt að mæta með lögsókn til að sækja lögvarða eign einstaklinga í lífeyrissjóðum.  Formanni LEB hefði verið meiri sómi að því að beita sér fyrir þeirri lögsókn fremur en að mæla með samþykkt á uppfærðu lífeyriskerfi."

Óli Björn Kárason, sem hlut 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðismanna í "Kraganum", ritar vikulega í Morgunblaðið, og þann 7. september 2016 nefndist hugvekja hans,

"Frítekjumark er réttlætismál".  Þar skrifar þessi pólitíski hugsjóna- og baráttumaður m.a.:

"Frumvarp félagsmálaráðherra gerir ráð fyrir, að grunnlífeyrir, tekjutrygging og sérstök uppbót til framfærslu, verði sameinuð í einn bótaflokk, ellilífeyri.  Fjárhæð sameinaðs bótaflokks verður 212´776 kr á mánuði.  Heimilisuppbót til þeirra, sem búa einir, helzt óbreytt.  Tekjur eldri borgara verða meðhöndlaðar með sama hætti, óháð uppruna (atvinnutekjur, fjármagnstekjur og lífeyrissjóðstekjur).  Frítekjumörk verða afnumin, en fjárhæð ellilífeyris skerðist um 45 % vegna vegna tekna frá öðrum en almannatryggingum, en þó ekki vegna greiðslna séreignarlífeyrissparnaðar."

Þetta er gott og blessað, en þó er nauðsynlegt að gera við þetta 2 athugasemdir, svo að sanngirni sé gætt í garð iðgjaldagreiðenda lífeyrissjóða og þeirra, sem einvörðungu fá ofangreindar 212´776 kr sér til framfærslu.  Er þá vísað til stefnumiðs Sjálfstæðisflokksins um afnám tekjutenginga ellilífeyris. 

  1. Skattleysismarkið er nú 145´000 kr á mánuði.  Þetta þarf að hækka upp í ellilífeyrismörkin eða um 47 %.  Það er engin hemja að skattleggja tekjur eða lífeyri, sem eru undir fátæktarmörkum.  Ef þetta er talið of dýrt fyrir ríkissjóð, verður að flækja þetta með því, að þeir, sem eru með tekjur yfir skilgreindum framfærslumörkum af Hagstofunni, verði með neðri skattleysismörkin, 145 kkr, en hinir með hin efri, 213 kkr. 
  2. Frumvarp félagsmálaráðherra afnemur núverandi frítekjumark, 110´000 kr á mánuði, fyrir greiðslur ellilífeyris frá Tryggingastofnun.  Þetta er ekki í takti við tímann, þegar æ stærri hluti fólks, sem kemst á ellilífeyrisaldur, hefur starfsþrek og áhuga á að vinna sér inn aukatekjur.  Með frumvarpinu er fólk latt til að vinna á efri árum, því að 45 % teknanna dragast frá greiðslum Tryggingastofnunar.  Það er óeðlilegt, að jaðarskattur á aðrar tekjur eldri borgara en greiðslur frá Tryggingastofnun sé 45 %.  Annaðhvort þarf að lækka þennan jaðarskatt, t.d. niður í 25 %, eða að innleiða frítekjumark í nýju lögin, t.d. 110´000 kr.     

Um þetta skrifar Óli Björn í Morgunblaðið í téðri grein:

"Með innleiðingu frítekjumarks verður eldri borgurum gert kleift að bæta sinn hag verulega.  Þetta ættu þingmenn að hafa í huga, þegar þeir ganga til þess verks að afgreiða frumvarp félagsmálaráðherra."

Til að létta undir með ríkissjóði er sjálfsagt að hækka eftirlaunaaldurinn.  Meðalaldur við dauðsfall er um aldarfjórðungi hærri nú á Íslandi en var í Þýzkalandi um 1880, þegar járnkanzlarinn, Otto von Bismarck, lagði til við þýzka þingið, Reichstag, að sameiginlegu tryggingakerfi yrði komið á laggirnar fyrir allt Þýzkaland, sem þá var nýsameinað.  Þetta var svar hans við þjóðfélagsbreytingum, sem af iðnvæðingunni leiddu og bættu hag verkalýðsstéttanna til muna, svo að ekki sé nú minnzt á miðstéttina.  Vaxandi þrýstings um aukin réttindi gætti að hálfu þessara stétta á þá, sem enn höfðu tögl og hagldir í þjóðfélaginu, aðalinn, sem missti ekki tök sín á þjóðfélaginu fyrr en í kjölfar hildarleiksins 1914-1918.  Nú er gerjun í íslenzka þjóðfélaginu, enda lýðfræðilegar breytingar hafnar, sem krefjast framtíðarhugsunar við lagasetningu.

Lýðfræðileg staða Íslands er tekin að snúast á verri veg, eins og tók að gæta annars staðar á Vesturlöndum fyrir síðustu aldamót og í Japan verulega um 1990.  Meðalaldur þjóðanna hækkar vegna lítillar viðkomu.  Það þýðir, að hlutfallslega fækkar þeim, sem eru á aldrinum 18-67 ára, en þeim, sem eru 67 ára og eldri fjölgar hlutfallslega.  Nú eru um fimmfalt fleiri á vinnumarkaðsaldri en nemur fjölda eldri borgara, en eftir tvo áratugi gæti þetta hlutfall hafa helmingazt. Eldri borgarar, 67+, stefna á að verða a.m.k. fjórðungur íslenzku þjóðarinnar, og í mörgum löndum er sú nú þegar orðin raunin.  Þeir eru nú í fjárhagslegri spennitreyju ríkisvaldsins, sem líkja má við fátæktargildru, þar sem þeim eru allar bjargir bannaðar.  Það verður þegar í stað að gera bragarbót á og draga úr þungri refsingu kerfisins fyrir að sýna sjálfsbjargarviðleitni. Slíkar refsingar koma ætíð niður á hagsmunum heildarinnar, en það skilja ekki jafnaðarmenn. 

Almannatryggingakerfið er augljóslega ósjálfbært núna, og þess vegna er brýnt að hækka eftirlaunaaldurinn, þó ekki um 25 ár með vísun í þróunina frá upphafi almannatryggingakerfisins, heldur um t.d. 6 mánuði á ári f.o.m. 2018 þar til 70 árum er náð 2024, og endurskoða þá stigulinn.  Jafnframt ætti að gera aldursmörk fyrir elilífeyri sveigjanleg, svo að t.d. mætti hefja töku 50 % ellilífeyris 65 ára, sem þá mundi lækka réttindin við lögboðinn ellilífeyrisaldur, eins og fresta mætti töku ellilífeyris þá gegn hækkun fram að 75 ára aldri. Í raun og veru þarf að aðlaga vinnumarkaðinn að breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar og mjög mismunandi heilsufari hennar við aldursmörk ellilífeyris. Um þetta o.fl. skrifar Óli Björn í téðri Morgunblaðsgrein.

"Kostnaður við frítekjumarkið er verulegur, en á móti er hægt að ganga rösklegar til verka við hækkun eftirlaunaaldurs.  Frumvarp félagsmálaráðherra gerir ráð fyrir, að eftirlaunaaldurinn hækki í áföngum í 70 ár á næstu 24 árum, og er það í samræmi við tillögur Pétursnefndarinnar. Í bókun með tillögunum undirstrikaði ég, að gengið væri of skammt og að miklu skipti, að hækkun lífeyrisaldurs kæmi til framkvæmda á ekki lengri tíma en næstu 15 árum.  Um leið var bent á, að stjórnvöld yrðu að meta kosti og galla þess að setja inn í lög ákvæði um reglubundna endurskoðun lífeyrisaldurs út frá lífaldri, sem stöðugt verður hærri."

Eldri borgarar eru mjög mismunandi hópur og samtímis mjög stækkandi hópur.  Þessi hópur á, eins og allir aðrir hópar í samfélaginu, rétt á að geta notað krafta sína til að efla sinn hag án þess að verða refsað harðlega fyrir það af ríkisvaldinu, og hinu sama ríkisvaldi ber á sama tíma skylda til að breyta umgjörð tryggingakerfisins til aukins sveigjanleika til að mæta breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu.  Hvaða stjórnmálaflokkur er líklegastur til að taka frumkvæði með ferskri hugsun, sem tekur mið af þróuninni ?

 


Tilraunahagfræðingur tjáir sig

Það er nauðsynlegt að ígrunda vel hvert skref, sem stjórnvöld hyggjast taka og kalla má inngrip í atvinnulífið.  Þau geta hæglega komið niður á afkomu almennings í landinu. Ef slík skref eru í andstöðu við atvinnugreinina, jafnvel bæði vinnuveitendur og launþega í greininni, þá þurfa slíkum inngripum að fylgja pottþétt lagaleg rök og sannfærandi rökstuðningur um, að slík inngrip bæti almannahag frá því, sem núverandi fyrirkomulag er megnugt að veita. 

Málflutningur þeirra, sem kollvarpa vilja íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfinu, en þeirra á meðal eru a.m.k. 3 stjórnmálaflokkar, Samfylking, Viðreisn og Píratahreyfingin, nær ekki máli sem rökstuðningur fyrir kúvendingu, því að eina ástæðan, sem tilfærð hefur verið, er, að samfélaginu öllu, þ.e. ríkissjóði, beri stærri hluti af þeim verðmætum, sem útgerðirnar afla. Þar er ekkert hugað að jafnræði atvinnurekstrar í landinu gagnvart ríkisvaldinu.

Viðfangsefnið hér er m.a. að ákvarða, hvort tekjur ríkisins verði meiri með "uppboðsleið" en með núverandi aflahlutdeildarkerfi.  Þá dugar ekki að skoða ríkistekjur af útgerðunum einvörðungu, heldur verður að skoða skattspor alls sjávarútvegsklasans, enda er hann reistur á útgerðunum. Versnandi hagur útgerða hefur strax neikvæð áhrif á heildarskattsporið, því að fjárfestingar munu minnka. Þetta er verðugt hagfræðilegt verkefni, t.d. fyrir Hagfræðistofnun, HHÍ, eða eitthvert endurskoðunarfyrirtækið, en tilgáta blekbónda er, að skattsporið með hóflegu veiðigjaldi á bilinu 2 % - 5 % af verðmæti afla upp úr sjó sé stærra en búast má við, að skattsporið mundi verða með uppboði aflaheimilda.  

Fyrir þessu eru þau almennu rök, að vaxtarskilyrði skattstofnsins eru því betri, þeim mun minna sem rennur af ráðstöfunarfé fyrirtækja beint til ríkisins.  Þetta verður auðskilið, ef gert er ráð fyrir, að unnt sé að velja á milli þess, að drjúgur hluti hagnaðar renni til fjárfestinga eða skattgreiðslna.  

Það er þannig næsta víst, að ríkisvaldið væri að skjóta sig í tekjufótinn með því að fara inn á braut uppboða í stað núverandi aflahlutdeildarkerfis með hóflegum veiðigjöldum. 

Nú vill svo til, að sérfræðingur um mál af þessu tagi, Charles Plott, CP,tilraunahagfræðingur, tjáði sig um uppboð við Stefán Gunnar Sveinsson í Morgunblaðinu 15. september 2016.  Allt, sem CP segir þar, er sem snýtt út úr nös blekbónda, og verður nú vitnað í viðtalið:

"Charles Plott, prófessor í tilraunahagfræði við Tækniháskólann í Kaliforníu, segir, að uppboð, eins og í sjávarútvegi, geti verið til margra hluta nytsamleg, ef þeim er beitt rétt.  Glapræði sé hins vegar að ætla að nýta þau til þess að endurúthluta gæðum eða breyta kerfi, sem virki vel, og nánast sé öruggt, að eitthvað af verðmætum muni fara forgörðum, verði sú leið farin."

Þessi yfirlýsing hins virta fræðimanns við Caltech sýnir, að hérlendis hafa menn af vanþekkingu hent á lofti fiskveiðistjórnunaraðferð, sem engan veginn á við íslenzkar aðstæður.  Fræðimaður, sem gleggst má vita um virkun og afleiðingar "uppboðsleiðar", CP, telur hana mundu verða til meira tjóns en gagns í íslenzka hagkerfinu.  Þessi varnaðarorð ættu að vega þungt ekki sízt, þar sem eintómir fræðilegir liðléttingar, ef nokkrir fræðimenn, hafa mælt með "uppboðsleiðinni" fyrir veiðiheimildir í íslenzku lögsögunni.

Málflutningur CP felur í sér, að hagvöxtur mundi minnka og þar með drægjust skattstofnar saman, sem hefði í för með sér minni skatttekjur ríkisins en nú.  Þar með væri ver farið en heima setið.  Óráðshjalið um, að "ósanngirni" núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis þurfi að leiðrétta með "fyrningu" og uppboði á andlagi "fyrningarinnar", er helber þvættingur, enda mundi þessi leið skaða ríkissjóð ekki síður en hag almennings í landinu.  Hér er fullkomið fúsk á ferð. 

"Í krafti reynslu sinnar hefur Plott komið að gerð og hönnun ýmissa uppboða á auðlindum, þar á meðal í sjávarútvegi. 

"Ég nefni sem dæmi fiskeldi, þar sem stjórnvöld hafa opnað ný svæði til að koma fyrir fiskeldiskerum, og spurningin verður, hver eigi að fá réttinn. Þetta eru ný gæði, og uppboð verður þá betri leið til að útdeila þessum nýju gæðum en einhver skriffinnskufegurðarsamkeppni, þar sem embættismenn fá að ákveða, hvern þeim lízt bezt á, sem er mjög ósanngjörn leið.  Þú hefur enga leið til að fá að vita, hver rökin á bak við þá ákvörðun verða."" 

Á þessu vefsetri hafa verið færð rök fyrir því, að nauðsynlegt sé að markaðsvæða úthlutun hinnar takmörkuðu nýju auðlindar, sem er hafsvæði í fjörðum Íslands fyrir eldiskvíar, svo að enn er blekbóndi hér algerlega sama sinnis og tilraunahagfræðingurinn Charles Plott.  Sama máli gegnir um orkugeirann, þó að CP nefni hann ekki í þessu viðtali.  

"Hann segir, að svo virðist sem ákvörðunin [Færeyinga um tilraunauppboð] sé byggð á þeirri tilfinningu, að útgerðarmennirnir hafi ekki unnið sér það inn að fá arð af auðlindinni.  "Þetta er tilfinning, sem er reist á skyssu: að auðlindin hafi eitthvert verðgildi utan þess, sem byggt hefur verið upp af eigendum eða rétthöfum.  Þeir byggðu hana upp, hafa sérfræðiþekkinguna, og það að taka hana í burtu og bjóða upp til einhvers annars mun líklega eyðileggja sumt af grunninum að verðmætasköpuninni, sem hefur gert miðin sjálfbær.""

Það á enginn óveiddan fisk í sjónum,  enda miðin almenningur frá fornu fari, þó að ítala hafi verið sett þar árið 1984 af illri nauðsyn. Þessi auðlind hefur ekkert sjálfstætt gildi, frekar en flestar aðrar, heldur markast verðmæti hennar af tæknibúnaði, tækniþekkingu og viðskiptaviti til að sækja aflann, breyta honum í markaðsvöru og afla viðskiptavina. 

Það er þess vegna botnlaus forræðishyggja og virðingarleysi gagnvart útgerðarmönnum, sjómönnum, vinnslunni um borð og í landi og viðskiptavinunum, fólgin í því að rífa grundvöll lifibrauðs fjölda fólks af því og færa hann einhverjum öðrum einvörðungu á tilfinningalegum og hugmyndafræðilegum grunni, en alls engum hagfræðilegum grunni.  Þar er svo sannarlega engri sanngirni fyrir að fara, heldur er þetta ómengaður "sósíalismi andskotans".  Ástæða er til að halda, að sú hugmyndafræði njóti sáralítils stuðnings almennings (utan R-101), þó að þrír ólíkir stjórnmálaflokkar virðist hafa látið ginnast og gert hana að sinni.

"Hann segir, að uppboð á vel starfhæfu kvótakerfi væri  óskiljanlegt.

"Ég skil ekki hvatann á bak við að trufla iðnað, sem gengur upp.  Uppboð mundi vera mjög truflandi fyrir sjávarútveginn.  Það skemmir fyrir hvötum fólks til að sækja sjóinn, það skemmir fyrir stofnunum í útvegi.  Ef það er hægt að kaupa og selja kvóta á opnum markaði [eins og á Íslandi], verður á þeim markaði eðlileg þróun, þar sem kvótinn færist frá þeim óskilvirku til þeirra skilvirku.  Ef frjáls markaður er fyrir hendi, munu lögmál hagfræðinnar sjá um það.""

Umbylting á atvinnugrein með valdboði að ofan hefur alls staðar reynzt vera stórskaðleg, enda á slík hugmyndafræði rætur að rekja til Karls Marx og Friedrichs Engels, svo að það er skiljanlegt, að " botninn sé suður í Borgarfirði" og Bandaríkjamaðurinn Charles Plott skilji ekki, hvað að baki býr slíku fáránleikaleikhúsi á Íslandi 2016.

"Plott segir það því vera nánast einfeldningslegt að trúa því, að hægt sé að taka eignina og gera betur án þess, að eitthvað láti undan.  "Og það mun eitthvað láta undan í aðförunum.""

Plott gengur hér svo langt að gera lítið úr vitsmunum þeirra, sem fara vilja "uppboðsleið" á veiðiheimildum í íslenzkri lögsögu.  Hér skal ekki reyna að leggja mat á greindarvísitölu þeirra, enda með öllu óáhugavert viðfangsefni.  Hitt er annað, að málsvarar og fylgjendur "uppboðsleiðar" eru af manngerð, sem telur tilganginn helga meðalið, "Der Erfolg berechtigt den Mittel". 

Að varpa fyrir róða núverandi árangursríku fiskveiðistjórnunarkerfi með þjóðnýtingu veiðiheimildanna réttlætir í huga gösslara, lýðskrumara og öfundarmanna hins markaðsstýrða íslenzka sjávarútvegs að taka gríðarlega áhættu með hag fólks, sem beina afkomu hefur af sjónum, hag viðkomandi sveitarfélaga, ríkissjóðs og alls hagkerfisins.  Þetta er hið sanna byltingarhugarfar, sem nú gengur ljósum logum á Íslandi í heilu stjórnmálaflokkunum og er afturganga Karls Marx.

 

 


Að hafa asklok (ESB) fyrir himin

Vinstri stjórnin 2009-2013 starfaði eftir hugmyndafræði. Hér verður meginhugmyndafræði hennar gerð að umfjöllunarefni í tilefni af drögum að skýrslu meirihluta fjárlaganefndar Alþingis um einkavæðingu tveggja banka 2009-2010, sem er að finna sem viðhengi á þessari vefsíðu. 

Hugmyndafræði Stjórnarinnar yfirskyggði heilbrigða skynsemi og lá að baki atburðarás við umsóknarferli að Evrópusambandinu (ESB), sem hófst með "kattasmölun" á Alþingi í júlí 2009, réði hreinni uppgjöf Svavars Gestssonar gagnvart harðsvíruðum kröfum Breta og Hollendinga um ríkisábyrgð á greiðslum innistæðutrygginga í föllnum íslenzkum bönkum erlendis, og hún stjórnaði undarlegu og óvæntu einkavæðingarferli tveggja nýju bankanna þriggja, sem átti ekki eftir að hafa heillavænleg áhrif á hag skuldugra viðskiptavina gömlu bankanna, sem voru fluttir yfir í nýju bankana með um 50 % afskriftum, sem innheimtust í miklu hærra hlutfalli.

Einkavæðingu þessa bar brátt að, enda var hvorki gert ráð fyrir henni í Neyðarlögunum né í áætlunum FME (Fjármálaeftirlitsins) haustið 2008. Hvers vegna voru tveir nýir ríkisbankar skyndilega afhentir kröfuhöfum föllnu bankanna á silfurfati ?  Svarið er að finna með því að skoða meginhugmyndafræði Stjórnarinnar, sem var þessi að mati blekbónda:

  • Neyðarlögin, sem Alþingi samþykkti haustið 2008 að tillögu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, munu hvorki halda fyrir íslenzkum né alþjóðlegum dómstólum, enda sat Vinstri hreyfingin-grænt framboð hjá við afgreiðslu þessararar lagasetningar. 
  • Við (Íslendingar) verðum að friðþægja fyrir þessi lög með því að færa kröfuhöfum föllnu bankanna fórnir í þeirri von, að þeir láti hvorki reyna á gildi Neyðarlaganna hérlendis né erlendis.
  • Með þessari friðþægingu mun sérstaða íslenzku leiðarinnar ("við greiðum ekki skuldir óreiðumanna") minnka, en hún var Evrópusambandinu (ESB) mikill þyrnir í augum.  ESB hafði mótað þá stefnu, að ríkissjóðir í Evrópu skyldu hlaupa undir bagga með bönkunum, og tóku ríkissjóðir margra landa stórlán í þessu skyni, sem þeir eru enn að bíta úr nálinni með.  ESB óttaðist áhlaup á bankana og fall bankakerfis Evrópu, ef þetta yrði ekki gert.  Þess vegna voru yfirvöld á Íslandi, bæði ríkisstjórn Geirs Haarde og Jóhönnu Sigurðardóttur, undir miklum þrýstingi frá leiðtogum ESB og Evrópulandanna.  ESB ætlaði að brjóta Íslendinga á bak aftur, svo að þeir ógnuðu ekki fjármálastöðugleika Evrópu. Jafnvel forseti íslenzka lýðveldisins mátti þola aðför að hálfu forsætisráðherra Dana í tilraun Danans til að knýja fram stefnubreytingu, sem dr Ólafur Ragnar Grímsson lagðist harðlega gegn, eins og enn er mönnum í fersku minni.
  • Með friðþægingunni átti að greiða fyrir hraðferð Íslands inn í ESB, en handjárnaðir þingmenn vinstri stjórnarinnar samþykktu umsókn um aðild 16. júlí 2009 og höfnuðu skömmu áður þjóðaratkvæðagreiðslu um umsóknina. Til að kóróna skrípaleikinn vilja þeir núna þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna, sem sigldu í strand 2011.  

Þessi hugmyndafræði er heildstæð og rúmast öll undir askloki Evrópusambandsins, þangað sem vanmáttug vinstri öflin ætluðu að leita skjóls fyrir Ísland í hörðum heimi. Öll var þessi hugmyndafræði afsprengi algers metnaðarleysis fyrir Íslands hönd, enda reist á sandi þekkingarleysis, reynsluleysis, getuleysis, dómgreindarleysis og þjóðhættulegra viðhorfa til fullveldis landsins.   

Þetta er ítarlega rakið í tímabærri skýrslu,

"Einkavæðing bankanna hin síðari",

sem er að finna undir hlekk "skyrsla-12_september_2016.pdf" hér á síðunni, þannig að lesendur geta þar sannreynt, hvort sparðatíningur þeirra, sem nú hafa verið afhjúpaðir, um framsetningu og frágang eigi við rök að styðjast. 

E.t.v. má þó segja, að um drög að skýrslu hafi verið að ræða, þegar hún var upphaflega birt, því að boðuð hefur verið rýni á henni, og hún var síðar kynnt á fundi Fjárlaganefndar.  Hún er samin og gefin út af meirihluta Fjárveitingarnefndar Alþingis, Vigdísi Hauksdóttur, formanni, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, varaformanni, Valgerði Gunnarsdóttur, Páli Jóhanni Pálssyni, Ásmundi Einari Daðasyni og Haraldi Benediktssyni, sem þannig hafa sinnt eftirlitshlutverki sínu, sem oft hefur þó verið vanrækt af nefndum þingsins. 

Meirihlutinn hefur átt á brattann að sækja við efnisöflun, en hefur samt tekizt að leiða fram mikið af nýjum gögnum, svo að nú mun koma til kasta Ríkisendurskoðunar að varpa enn betra fjárhagslegu ljósi á málið, Umboðsmanns Alþingis að kanna lagalegu hliðina á gjörningum vinstri stjórnarinnar og jafnvel Ríkislögmanns. Landsdómur hefur og verið nefndur að gefnu tilefni, en það er ótímabært. 

Líta má á þessa skýrslu sem mikilvæga upplýsingaöflun Alþingis fyrir íbúa þessa lands að mynda sér skoðun um þá dularfullu og að mörgu leyti illskiljanlegu atburði, sem hér urðu í boði ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. 

Reynt hefur verið eftir föngum að þagga þetta mál niður, af því að það varpar ljósi á, hversu vinstri flokkunum á Íslandi eru hroðalega mislagðar hendur við stjórnarathafnir, og að þeim er um megn að gæta hagsmuna Íslands. 

Þrátt fyrir gríðarlega fjárhagslega áhættu, sem þáverandi ríkisstjórn tók í sambandi við nýju bankana, hefur samt á endanum tekizt að sigla fleyinu (ríkissjóði) klakklaust í höfn á þessu kjörtímabili.  Það er þó ekki vinstri stjórninni að þakka, heldur endurreisn efnahagslífsins, sem knúin var áfram af útflutningsatvinnuvegunum í krafti gengisfalls krónunnar og gosi í Eyjafjallajökli 2010, sem vakti heimsathygli á Íslandi sem spennandi orlofsáfangastað í viðsjárverðum heimi. 

Með skattlagningu bankanna og samningum við þrotabú gömlu bankanna um stöðugleikaframlög þeirra til ríkissjóðs Íslands sem forsendu afnáms gjaldeyrishafta, hefur blaðinu algerlega verið snúið við í samskiptum íslenzka ríkisvaldsins við fjármálaöfl heimsins og kröfuhafa föllnu bankanna. 

Í stað fúsks, undirlægjuháttar og annarlegra forgangssjónarmiða um innlimun Íslands í ríkjasamband er nú komin fagmennska, þekking, yfirvegun og metnaður fyrir hönd fullvalda íslenzkrar þjóðar, svo að ríkissjóður ber ekki lengur skarðan hlut frá borði Hrunsins.  Þennan gríðarlega mun á vinnubrögðum og viðhorfum má persónugera í samanburði á tveimur fjármála- og efnahagsráðherrum, hinum tækifærissinnaða, vinstri sinnaða þingmanni, Steingrími Jóhanni Sigfússyni, og hinum trausta, borgaralega sinnaða formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni.

Grípum nú niður í téðri skýrslu:

"Eigendur þessara banka (Aríonbanka og Íslandsbanka) fengu því í hendurnar áhættulausa fjárfestingu, sem skilaði þeim 132,4 miökr á árunum 2009-2012 og 216,0 miökr, sé Landsbankinn tekinn með.  Hagnaður bankanna síðast liðin 7 ár er 468,7 miakr." 

Þetta sýnir svart á hvítu, hvað það var, sem vinstri stjórn J & S færði kröfuhöfum föllnu bankanna, hvað friðþæging ríkisstjórnarinnar kostaði íslenzka ríkissjóðinn í glötuðum tekjum. Þetta hefur ekki verið hrakið. 

"Samtals var ríkissjóður settur í áhættu fyrir 296 miökr við endurreisn bankanna.  Þetta er sama fjárhæð og í upprunalegu áætlunum neyðarlaganna, en þar var miðað við, að ríkið eignaðist alla bankana.  Með því að taka fram fyrir hendurnar á Fjármálaeftirlitinu (FME), glopraði fjármálaráðherra niður gríðarlegum ávinningi. 

Skýrslan sýnir, að samningagerðin gekk alfarið út á að friðþægja kröfuhafana með því að afhenda þeim eignarhaldið á bönkunum, varpa allri ábyrgð á íslenzka skattgreiðendur og falla frá tugmilljarða króna arðgreiðslum, endurgreiðslum og vaxtagreiðslum.  Samningamenn fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans afhentu kröfuhöfunum eignir á silfurfati og afsöluðu meira og minna öllum ávinningi ríkisins af þeirri ábyrgð, sem það tók á sig frá hruni bankanna."

Þetta er lýsing á því, hvernig þáverandi ábyrgðarmaður ríkissjóðs "afsalaði honum tekjum", svo að notað sé orðalag vinstri manna sjálfra, þegar skattalækkun er til umræðu, eða öllu heldur, hvernig þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra hlunnfór ríkissjóð með stórfelldri vanrækslu, þegar honum bar að gæta hagsmuna ríkissjóðs á viðsjárverðum tímum. Var ekki von, að hann þyrfti að skerða kjör öryrkja og aldraðra stórlega 1. júlí 2009 og þyrfti að láta fara fram hvern flata niðurskurðinn á fætur öðrum á Landsspítalanum, sællar minningar ?

Við sjáum af skýrslu meirihluta fjárlaganefndar, sem birt var 12. september 2016 og sem er sem viðhengi með þessum pistli, að vinstri stjórnin með Steingrím J. Sigfússon í broddi fylkingar framdi afglöp.  Þessi afglöp voru engin tilviljun stundarmistaka í hita leiksins, heldur bein afleiðing þjóðníðingslegrar stefnumörkunar á grundvelli hugmyndafræði, sem rakin er í upphafi þessa pistils. Í skýrslunni segir:

"Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem tók við 1. febrúar 2009, kaus að fara þá leið að byggja endurreisn bankanna ekki á neyðarlögunum, heldur ganga til samninga við kröfuhafa." 

Í þessum pistli er gerð tilraun til að útskýra á grundvelli skýrslunnar, hvers vegna atburðarásin tók þessa óvæntu stefnu. 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Skattkerfisumbætur

Þann 6. september 2016 skiluðu "6 sérfræðingar í skattamálum" tillögum til "Samráðsvettvangs um aukna hagsæld" um umbætur á skattkerfinu.  Ekki var vanþörf á því.  Á þessu kjörtímabili hefur reyndar verið gerð gangskör að umbótum til einföldunar á tolla- og vörugjaldafrumskóginum og einnig á óbeinu- (neyzlu) og beinu (tekju) skattheimtunni.  Breytingarnar eru til hagsbóta fyrir skattborgarana og ríkissjóð.  Þetta tvennt fer nefnilega saman, þegar stjórnað er af skynsamlegu viti, en þegar vankunnátta, þröngsýni og ofstæki eru við völd, skaðast allir, eins og skemmst er að minnast frá 2009-2013.

Skattkerfið er flókið, krefst mikillar skriffinnsku, jafnvel í kringum litla atvinnustarfsemi, í um 17 þúsund tilvikum vegna tekna innan við 3 Mkr/ár.  Þarna er líka verið að leggja steina í götu "litla" atvinnurekandans, sem er þó driffjöður atvinnulífsins og kjarni miðstéttarinnar.  Með því að létta "litla" atvinnurekandanum lífið, hvort sem hann er einyrki eða með nokkra í vinnu, mun hagsæld miðstéttarinnar vaxa, og það er gott fyrir þjóðfélagið allt. 

Innheimtudagar ríkissjóðs eru 269 á ári, sem er dæmigert fyrir "bákn", sem vaxið hefur án yfirsýnar nokkurs manns.  Skattkerfið gæti verið mun skilvirkara og verið síður letjandi til tekjuöflunar en nú, ef við hönnun þess væri tekið meira tillit til hagsmuna skattborgaranna en nú er.  Hið opinbera má ekki refsa fólki fyrir frumkvæði í lífsbaráttunni og fyrir að leggja meira á sig.  Ef A bætir við sig tekjum, mun B njóta góðs af því.  Þetta skilur fólk ekki, sem nærist á öfund í garð náungans, þolir ekki velgengni annarra, en nennir sjálft ekki að teygja sig eftir lífsbjörginni.  Kerfið er dugnaðarfólki og ríkissjóði óhagfellt, því að lægri skattheimta á Íslandi mun leiða til hærri skatttekna vegna aukins hagvaxtar og vaxandi skattstofna. 

Það vekur athygli, að nefndin lagði til eitt virðisaukaskattþrep, 19 %, í stað núverandi tveggja, 11 % og 24 %.  Á þessu kjörtímabili var bilið stytt á milli þrepanna með hækkun úr 7 % í 11 % og lækkun úr 25,5 % í 24,0 %.  Jafnframt var skattstofninn breikkaður með fækkun undaþága.  T.d. var ferðaþjónustan felld meira inn í VSK-stofninn en verið hafði.  Þessari grein hafði verið haldið í bómull, og svo er að nokkru leyti enn. Þessi VSK-breyting var gerð í mikilli andstöðu við stjórnarandstöðuna, sem þyrlaði upp miklu moldviðri, og Framsóknarflokkurinn stóð gegn meiri hækkun neðra þreps en upp í 11 % vegna áhrifa frá lýðskruminu.  Tillagan nú gengur út á að fara enn lengra á sömu braut og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins vildi 2014-2015, en það eru litlar líkur á, að hún geti hlotið brautargengi á Alþingi eftir næstu kosningar m.v. afstöðu þingflokkanna á núverandi Alþingi.    

Það er þó spurning, hvort þær gætu hlotið brautargengi með því að undanskilja innlenda matvælaframleiðslu og orku og setja þessa lífsnauðsynlegu framfærsluþætti í núllflokk.  Það ættu að vera nokkuð hreinar línur að fylgja í framkvæmd, þó að ekki sé í samræmi við stefnumiðið um breikkun skattstofnsins.  Þá kann þetta að fela í sér óleyfilega mismunun innlendra og erlendra framleiðenda matvæla, en á móti kemur minnkandi tollvernd. 

Um tekjuskatt einstaklinga leggja sérfræðingarnir til fækkun skattþrepa, og slíkt mun einmitt koma til framkvæmda um áramótin 2016/2017, er miðþrepið, 38,35 %, fellur brott.  Það vekur nokkra furðu, að sérfræðingarnir leggja ekki til eins þreps, heldur tvíþrepa tekjuskattskerfi.  Daði Már Kristófersson, formaður nefndarinnar, segir í viðtali við Vilhjálm A. Kjartansson í Morgunblaðinu 7. september 2016,

"Sérfræðingar leggja til einföldun á skattkerfinu" : 

"Ástæðan fyrir því, að við höfum 2 þrep í stað þess að fara niður í eitt, er reynsla annarra þjóða af tveggja þrepa kerfi.  Það hefur sýnt sig, að tveggja þrepa kerfi er skilvirkara en eitt þrep (sic !) og kemur vel út í rannsóknum."

Hvort það kemur betur út í rannsóknum sem tekjuöflunarkerfi fyrir ríkissjóð en eins þreps kerfi er ekki sagt, og tekjuöflun á að vera eina hlutverk skattkerfis, og um það má efast, því að hvati til vinnu er óneitanlega meiri í eins þreps kerfi en í tveggja þrepa, og hvati til undanskota er meiri í tveggja þrepa kerfi.  Skattstofninn er þess vegna líklegri til vaxtar, ef aðeins er beitt einu þrepi. Hinar neikvæðu hamlandi hliðar tveggja þrepa kerfa magnast við hækkun skattheimtunnar yfir 40 %.  Sérfræðingarnir leggja til 43 %, og þar með verða jaðarskattsáhrifin of há að mati blekbónda.  Betra er, að ekki sé meiri en 10 % munur á milli þrepa, þ.e. efra þrepið verði 35 %, þegar það byrjar að telja við tekjurnar 650 kkr/mán, sem algengar eru á meðal þeirra, sem leggja þurfa hart að sér við kaup á húsnæði og/eða eru að koma út á vinnumarkað klyfjaðir námslánum.  Að taka 43 % af hverri umframkrónu, sem dugnaðarfólk aflar sér, er ótækt, og á að milda þennan jaðarskatt niður í 35 %.

Það fáránlega fyrirkomulag var innleitt á dögum vinstri stjórnar Jóhönnu og Steingríms að tvöfalda skattheimtu af sparnaði og reikna vísitölubætur inn í skattgrunn fjármagnsteknanna.  Hið síðar nefnda leggja sérfræðingarnir að sjálfsögðu til, að verði afnumið, en til að efla sparnað í landinu, sem er undirstaða fjárfestinga, ætti að auki að lækka skattheimtuna úr 20 % í 15 % og hafa bankainnistæður eins eiganda í sama sparnaðarflokki upp í 5 Mkr fríar undan skatti. Þetta mundi örva miðstéttina til sparnaðar.

Tekjuskattur fyrirtækja er nú almennt 20 % hérlendis.  Með því að lækka þessa skattheimtu, hefur þjóðum á borð við Íra, þar sem þessi skattheimta ku vera 12,5 % um þessar mundir (Írska lýðveldið), tekizt að draga til sín fjárfestingar erlendra fyrirtækja, og opinberar tekjur af þeim hafa margfaldlega unnið upp minni ríkistekjur vegna lægra tekjuskattshlutfalls á fyrirtækin.  Reyndar verður tekjutapið sáralítið, því að hvatinn til að auka téðan skattstofn vex með lækkandi skattheimtuhlutfalli. Miklar beinar erlendar fjárfestingar á Írlandi eru meginástæða þess, að Írar eru að rétta úr kútnum eftir fjármálakreppuna 2007-2008, sem kom hart niður á þeim, af því að skuldsetning írska ríkisins jókst mjög við björgunaraðgerðir í bankakerfinu. 

Fjárfestar í ýmsum tiltölulega stórum nývirkjum á Íslandi hafa gert lækkun tekjuskatts af starfsemi þessara fyrirtækja ásamt ýmiss konar öðrum ívilnunum að skilyrði fyrir því að fjárfesta í þessari atvinnustarfsemi.  Það á að steinhætta að verða við þessum skilyrðum þeirra, en láta eitt yfir alla atvinnustarfsemi í landinu ganga og lækka skattheimtu af hagnaði fyrirtækja niður í 15 %. 

Það þarf ekki að taka það fram, að s.k. "þunn eiginfjármögnun" er ekki fremur líðandi en önnur sniðganga skattalaga.  Skatta ber almennt að greiða, þar sem verðmætin verða til, og himinhár fjármagnskostnaður til brúðulands með mun lægri skattheimtu en landið, þar sem fjárfest var, er óeðlilegur.  Evrópusambandið er að reyna að beita sér gegn þessu ásamt OECD, og sömu sögu er að segja um ríkisstjórn Íslands með undirbúningi lagasetningar í samræmi við alþjóðlegar ráðleggingar. 

Sexmanna sérfræðinganefndin telur grunnauðlindanýtingu standa undir 22 % af framleiðslu hagkerfis Íslands.  Þessi tala verður mun hærri, e.t.v. þreföld, þegar allar hliðargreinar og afleiddar greinar auðlindanýtingarinnar eru taldar með. Auðlindirnar eru þess vegna kjölfesta núverandi lífskjara á Íslandi. Sexmenningarnir leggja til, að umhverfis- og auðlindagjöld verði hækkuð og að tekjunum verði varið til að lækka aðra skatta.  Hér eru þeir því miður staddir uppi í fílabeinsturni, og kjörin gerast ekki þannig á eyrinni. Það er t.d. undir hælinn lagt, að stjórnmálamenn lækki skatta, og vinstri menn gera það nánast aldrei, því að þeir skattleggja allt, sem hreyfist, og þeir líta á fjölskyldur og fyrirtæki sem skattstofna fyrir hið opinbera og virðast halda, að starfsemi þessara aðila snúist um að afla hinu opinbera tekna.  Þetta er stórhættulegur misskilningur. 

Gera þarf greinarmun á úthlutun nýrra verðmæta, t.d. svæðum úti fyrir strönd fyrir eldiskvíar, og úthlutun hefðbundinna verðmæta, t.d. fiskveiðiheimilda í lögsögu Íslands:

  1. Er verið að úthluta nýrri auðlind, eða er hefð á nýtingu hennar ?  Ef ný auðlind, þá þarf að kanna, hvort rentusækni er í greininni, þ.e. ásókn í ívilnanir eða meðgjöf að hálfu hins opinbera á kostnað annarra, sem sækjast eftir sama.  Ef rentusækni er fyrir hendi í greininni, þá er þar væntanlega einnig að finna auðlindarentu. 
  2. Ef hefð er fyrir nýtingu, og menn standa frammi fyrir nauðsyn kvótasetningar, þarf að draga fram lögfræðileg rök eða annars konar jafngild rök fyrir annars konar úthlutun en á grundvelli nýtingar í nánustu fortíð. Þó að takmarkaðri auðlind sé úthlutað á grundvelli nýtingarreynslu, þarf samt að kanna, hvort rentusækni hafi myndazt í greininni. Rentusækni þýðir, að líklega hefur myndazt auðlindarenta, annars ekki. 

Dæmi um úthlutun nýrra auðlinda:    

  •  Uppeldissvæði fisks í kvíum við strendur landsins.  Þetta er takmörkuð auðlind, og nánast fullnýtt auðlind í sumum nágrannalöndum okkar, t.d. við strendur Noregs.  Þar eru starfs- og rekstrarleyfi til þessarar viðkvæmu starfsemi margfalt dýrari en hér.  M.a. af þessum ástæðum hafa norsk fyrirtæki í þessari grein fjárfest í fyrirtækjum hérlendis, og því ber að fagna, því að þar með flyzt erlent fjármagn til atvinnu- og verðmætasköpunar á Íslandi.  Norðmenn búa yfir langri reynslu og þekkingu í fremstu röð í þessari grein.  Svæði, þar sem fiskeldi í sjó verður leyft, eru nánast bundin við Vestfirði og Austfirði af ótta við blöndun við íslenzka stofna, en suðurströndin er ekki talin heppileg til þessarar starfsemi vegna brims.  Fyrirtækin kosta að vísu að miklu leyti sjálf rannsóknir og umhverfismat, en engu að síður er ljóst, að verð á starfs- og rekstrarleyfum hérlendis er óeðlilega lágt borið saman við nágrannana, og færri fá þessi leyfi en vilja.  Af þessum ástæðum hefur skýlaust myndazt þarna rentusækni, og gegn slíku ber að beita markaðsráðum, þ.e. útboði á starfsleyfum, t.d. til 25 ára, sem megi ganga kaupum og sölum á tímabilinu með forkaupsrétti hins opinbera. Rekstrarleyfin ættu að þurfa endurnýjunar við árlega í ljósi þess, hversu miklar kröfur er nauðsynlegt að gera til rekstraröryggis eldiskvíanna. 
  • Úthlutun virkjanaleyfa er annað dæmi um úthlutun takmarkaðrar auðlindar, þar sem meiri eftirspurn er en framboð.  Um vatnsorkuver hefur Hæstiréttur nýlega dæmt, að vatnsréttindin myndi andlag fasteignagjalda.  Viðkomandi sveitarfélag vill beita hæsta taxta í gjaldskrá sinni, en virkjunarfyrirtækið móast því miður við.  Með úrskurði dómstóla kemst þannig auðlindarenta vatnsorkuvera á hreint, og mun auðlindagjaldið renna til viðkomandi sveitarfélaga samkvæmt þessu, eins og önnur fasteignagjöld.  Fyrir jarðhita í þjóðlendum eða á öðrum svæðum, sem eru utan einkaeignarlanda, þarf að meta verðmæti jarðgufunnar eða heita vatnsins til að reikna út auðlindarentuna.  Nú er enginn virðisaukaskattur af jarðhita, en raforkan er í lægra þrepinu.  Eðlilegast er að hafa hana í núllflokki VSK til að jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja og mynda mótvægi við hækkanir út af auðlindagjaldi. 

Dæmi um úthlutun hefðbundinna auðlinda:

  • Fiskveiðistjórnunarkerfið hefur verið eitt heitasta umræðuefni stjórnmálanna í heilan mannsaldur hérlendis. Umræðan hófst í kjölfar "Svörtu skýrslunnar" 1977, þar sem Hafrannsóknarstofnun birti varnaðarorð sín um, að sóknin í þorskstofninn væri ósjálfbær.  Fljótlega varð ljóst, að draga yrði úr sókninni til að vernda stofnana, og spurningin var aðeins um, hvernig það yrði gert. Í desember 1983 lagði þáverandi sjávarútvegsráðherra, Halldór Ásgrímssson, fram frumvarp um úthlutun aflahlutdeilda 1984 á skip á grundvelli veiðireynslu síðustu þriggja ára á undan.  Var til einhver sanngjarnari leið til þessarar úthlutunar ? Hún var í eðli sínu þannig, að þó að yfirvöld stæðu frammi fyrir ósjálfbærum sjávarútvegi með miklum taprekstri vegna allt of mikils sóknarþunga í stofna á undanhaldi, þá ýttu þau engum út af miðunum, heldur létu markaðsöflin um það.  Þannig hafa núverandi útgerðarmenn keypt yfir 90 % af sínum aflahlutdeildum, og skiptir þá auðvitað engu, þótt einhverjir hafi fengið skuldalækkun hjá bönkum til að geta haldið starfsemi sinni áfram.  Það ríkir frjáls markaður með aflahlutdeildir á Íslandi, og afurðirnar eru seldar á frjálsum markaði, oftast í harðri samkeppni við niðurgreiddan sjávarútveg á erlendum mörkuðum.  Af þessum sökum er engin rentusækni í íslenzkum sjávarútvegi samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu, og þar af leiðandi er þar enga auðlindarentu að finna. Þetta er hægt að staðfesta hagfræðilega með því að leita til rits Hagstofunnar, "Hagur veiða og vinnslu 2014", sem var sjávarútveginum hagfelldara ár en árin tvö á eftir.  Þar kemur fram, að arðsemi eigin fjár útgerðarinnar nam 13 %, sem að teknu tilliti til áhættu fjárfestingar er sízt meiri en í öðrum atvinnugreinum á Íslandi. Hitt er annað mál, að útgerðarmenn eiga íslenzka ríkinu mikla þökk upp að inna fyrir að hafa gert þeim kleift að reisa starfsemi sína úr öskustó til sjálfbærni með innleiðingu núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis.  Þar af leiðandi er siðferðisgrundvöllur fyrir því, að þeir létti fjárhagslega undir með ríkinu við fjárfestingar stofnana ríkisins, sem aðallega þjóna sjávarútveginum, t.d. Landhelgisgæzlunni, Hafrannsóknarstofnun og Hafnasjóði, með því að stofna sjávarútvegssjóð, og þangað renni 2 %-5 % af verðmætum óslægðs afla upp úr sjó, háð gengisvísitölu. 
  • Annað kerfi, sem reynt hefur verið við úthlutun fiskveiðiheimilda, er s.k. "uppboðsleið".  Hún er fólgin í því, að ríkið aflar sér eignarréttar á hluta veiðiheimildanna og býður þær síðan upp. Ríkið ræður núna yfir rúmlega 5 % allra veiðiheimilda og getur þar af leiðandi gert tilraunir með "uppboðsleiðina", ef sæmileg sátt verður um það á meðal hagsmunaaðilana, en að öðru leyti þyrfti að fara s.k. fyrningarleið. Á Íslandi er þetta mjög torsótt leið, af því að ólíklegt er, að útgerðarmenn vilji láta afnotarétt af miðunum af hendi við ríkið.  Einu gildir, hvort um aukningu aflaheimilda til núverandi útgerðarmanna er að ræða.  Heimildir þeirra hafa áður verið skertar, og þeim ber afnotaréttur á aukningunni líka.  Þessi aðferð, "uppboðsleið", hefur verið reynd í nokkrum löndum, t.d. í Eistlandi, og alls staðar hefur verið horfið frá henni jafnharðan aftur.  Nú eru Færeyingar að gera tilraunir með þessa aðferð, en þar í landi munu allar fiskveiðiheimildir falla til Landsstjórnarinnar 2018 samkvæmt lögum þar í landi frá 2008.  Það eru mjög skiptar skoðanir í Færeyjum um "uppboðsleiðina".  Nýlega var boðinn upp kolmunnakvóti í tvígang án þess, að nokkur byði.  Það var fyrst, eftir að lágmarksverð hafði verið lækkað mjög, að tilboð bárust, og voru þau ekkert umfram veiðigjöldin, sem verið höfðu.  Það er mikil hætta á markaðsmisnotkun í þessu kerfi, t.d. að stórútgerðir bíti fljótlega af sér samkeppni og sammælist að því loknu um lág tilboð.  Röksemdin fyrir þessu "ríkisvædda markaðskerfi" er, að  "fólkið", þ.e. ríkissjóður, fái meira í sinn hlut af verðmætum auðlindarinnar. Þetta er afstyrmislegt sjónarmið, því að með núverandi fyrirkomulagi hefur tekizt að hámarka virði auðlindarinnar með beintengingu markaðar og veiða og gjörnýtingu aflans. Allt þjóðfélagið nýtur góðs af.  Ef á að breyta útgerðarmönnum í leiguliða ríkisins, er það ávísun á gjaldþrot útgerða. Slík þjóðnýting (fyrning aflaheimilda) brýtur í bága við jafnréttissjónarmið til atvinnurekstrar og brýtur á atvinnuréttindum útgerðarmanna og sjómanna, því að atvinna og atvinnutekjur sjómanna munu verða í uppnámi.  Af hverju reyna vinstri menn ekki að móta aðrar einfaldari og löglegri leiðir en þessa meingölluðu "uppboðsleið", sem hvorki á hljómgrunn á meðal sjómanna né útgerðarmanna. 

 


Í kjölfar prófkjörs

Vart er hægt að sökkva dýpra við framkvæmd prófkjörs en Pí-ratar hafa gert að þessu sinni í aðdraganda þingkosninga.  Þeir hafa framkallað endurtekningu prófkjörs til að breyta niðurstöðu fyrri atrennunnar.  Eftir hana var sigurvegari prófkjörsins sakaður um smölun inn í flokkinn, en erfitt er að sjá, að fjölgun flokksfélaga geti verið á skjön við lýðræðið.  Þetta bann við smölun ber vitni um furðulegan púrítanisma, og er tilraun "nómenklatúrunnar", valdaklíkunnar í flokkinum í anda bolsévíka til að viðhalda völdum í þröngum hópi, en þátttakan í prófkjörum pí-rata var alls staðar mjög lítil og í engu samræmi við fylgi, sem þeir hafa hingað til verið að mælast með. 

Það er ekki nóg með þetta, heldur var gerð tilraun til að sanna "smölun" sigurvegara prófkjörsins í NV með því að rekja stuðningsatkvæði hans til afraksturs smölunarinnar.  Sýnir þetta algert dómgreindarleysi Pí-rata, því að með þessu ganga þeir á svig við reglur persónuverndar og lög um leynilegar atkvæðagreiðslur.  Virðingarleysi Pí-rata fyrir lögum og reglum skýtur hvað eftir annað upp kollinum.

Fólk í Pí-ratahreyfingunni hefur vitnað um það, að furðufyrirbærið Birgitta Jónsdóttir hafi ekki linnt látum, heldur hringt og sent skeyti til að reyna að koma gæðingi sínum í efsta sæti listans í NV.  Hafi hún verið með dylgjur í garð sigurvegarans, sem passa við orð Helga Hrafns, þingmanns Pí-rata, um, að hún rægi fólk bæði oft og mikið.  Téð Birgitta þrætir svo fyrir allt saman og kannast ekkert við gjörninga, sem hópur fólks ber upp á hana.  Það er ástæða til, eftir þetta, til að líta á téða Birgittu sem ómerking án nokkurrar félagslegrar færni.  Að hún skuli tróna efst á lista Pí-rata í Reykjavík með 15 % fylgi í það sæti er furðulegt.

Pí-ratahreyfingin hefur nú opinberað sig sem miðstýrt apparat "flokkseigenda", þar sem ekkert mark er tekið á beinu lýðræði, ef niðurstaðan er ekki að skapi "flokkseigenda", þar sem gegnsæi ákvarðanatöku er mjög af skornum skammti og stefnumál eru á reiki.  Þetta er umfjöllunarefni forystugreinar Morgunblaðsins, 12. september 2016,

"Bakherbergi Pírata":

"Prófkjör var haldið, og svo var reynt að fá því breytt eftir kjörið, og loks þvingað fram endurkjör til að losna við óæskilegan frambjóðanda.  Þegar þessu var lokið og gagnrýni kom fram frá fólki í ábyrgðarstöðum í flokknum, var einn gagnrýnandinn lokaður inni í bakherbergi með kapteininum til að útkljá málið. 

Niðurstaðan var sú, að gagnrýnandinn, sem hafði verið afar skýr áður og sagðist hafa vitni að samskiptum sínum við kapteininn, baðst afsökunar á orðum sínum og óskaði flokknum velfarnaðar.  Hann bætti því svo við, að hann hefði lokið afskiptum af stjórnmálum."

"Hvers konar forystumenn eru það, og í hvers konar flokki, sem geta setzt með þessum hætti ofan á gagnrýnendur.  Og hvernig fer þessi atburðarás saman við grunnstafnu flokksins."

Svör blekbónda eru á þann veg, að kapteinninn, Birgitta Jónsdóttir, er uppvakningur úr fjarlægri fortíð flokksræðis, sem minnir mest á bolsévisma.  Forystumennirnir eru siðblindir og kunna þar af leiðandi ekki skil á réttu og röngu.  Í augum heiðarlegs fólks hlýtur þessi hjörð að hafa glatað trausti og trúverðugleika.

Fjölþætt óánægja ríkir innan Samfylkingarinnar eftir prófkjör þar í viku 36/2016.  Aðallega hefur þar borið á óánægju kvenfólksins, þó að RÚV hafi láðst að gera því máli hátt undir höfði í fréttatímum sínum.  Sumar eru konurnar óánægðar með lítið brautargengi og hafa jafnvel í kjölfarið alveg hrokkið úr skaptinu, pólitíska, sbr Ólínu Kjerulv, doktor í göldrum að vestan.  Sumar þeirra eru "hundfúlar" yfir því að hafa verið færðar niður á lista.  Ein sagði ástæðuna þá, að hún væri "gömul kerling", og átti þar við, að Samfylkingin treystir engan veginn hinu beina lýðræði til að velja á lista sína, heldur viðhefur þá forræðishyggju, að listinn verði að endurspegla ákveðna aldursdreifingu og kynjaskiptingu.  Ein þeirra, sem varð fyrir barðinu á þessu, vill nú afnema þessar reglur, af því að þær hafi þegar gert sitt gagn, en geri nú ógagn. 

Prófkjör af þessu tagi eru forneskjulegur skrípaleikur, þar sem "flokksapparatið" telur sig þess umkomið að gefa "grasrótinni" langt nef í kjölfar prófkjörs.  Allt upphafna talið um lýðræðisást og að treysta fólkinu fyrir ákvarðanatöku með beinu lýðræði er innantómur fagurgali.  Það er ekkert að marka  smjaður slíkra stjórnmálaflokka fyrir kjósendum.

Þann 10. september 2016 hélt Sjálfstæðisflokkurinn sín prófkjör á Suðurlandi og í Kraganum.  Sjálfstæðisflokkurinn leyfir "smölun" í flokkinn, en það er hins vegar ómögulegt að rekja atkvæði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins til þeirra, sem atkvæðin greiddu; alveg öndvert við Pí-ratahreyfinguna. 

Það var mikið líf í prófkjörsbaráttunni, enda kom í ljós, að breytingar urðu á listum, sem flokksmenn völdu fólk á þennan dag.  Hefur niðurstaðan fengið fulltrúa Landssambands Sjálfstæðiskvenna til að fara fram á breytingu á skipan lista á Suðurlandi og í Kraganum, væntanlega til að auka líkur kvenna á að hreppa þingsæti í haust.  Hvaða kona eða karl, ef því er að skipta, vill láta færa sér þingsæti á silfurfati ?  

Ef það er leyfilegt að hnika til eftir á röðun á lista á grundvelli kynferðis, þá hefur líka verið leyfilegt fyrir konurnar að sameinast um konur í ákveðin sæti.  Það var t.d. ekki gert í Kraganum, heldur börðust þær þar hver við aðra um sömu sætin.  Þar af leiðandi dreifðust atkvæðin mjög á kvenfólkið, og því fór sem fór gegn öflugum körlum.  Það er fráleitt, að kosið hafi verið gegn konum, flestir hafa væntanlega haft góða blöndu fólks á sínum prófkjörsseðli. Í Kraganum stóð mikið úrval fólks af báðum kynjum flokksmönnum til boða til að velja á milli, og valið var erfitt.  Lögmál tölfræðinnar eru miskunnarlaus, og í næstu atrennu, fyrir kosningar á eftir þessum, getur skipting atkvæða á milli kynja fallið með öðrum hætti. 

Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins skreyta sig með stolnum fjöðrum lýðræðisástar sem iðkendur beins lýðræðis.  Það eru ósannindi, eins og hér hefur verið rakið, og ekki tekur því að minnast á forræðisflokkinn Vinstri hreyfinguna grænt framboð, garminn Viðreisn eða aðra "uppstillingarflokka".  Sjálfstæðisflokkurinn einn ástundar beint lýðræði, þ.e.a.s. meginaðferð hans við val á framboðslista til Alþingis er prófkjör, þar sem dómur flokksmanna hefur verið endanlegur í hvert skipti án tillits til kosningaþátttöku.  Hvernig halda menn, að þátttakan yrði, ef vikið yrði frá þessu ?   

 

 


Mengunarvaldurinn mikli

Mesta bábilja umræðunnar um íslenzku atvinnuvegina sem mengunarvalda er, að ferðaþjónustan sé umhverfisvænst.  Þessu er þveröfugt farið; hún er verst, þegar að er gáð, og kemst upp með það, enn sem komið er, án þess að greiða fyrir tjónið.  Lágmark er, að hún greiði fyrir þær mótvægisaðgerðir, sem tiltækar eru.  Ofurvöxtur í greininni sýnir, að það er borð fyrir báru hjá henni að hækka verðið til að mæta slíkum umhverfiskostnaði, enda er fátt um fína drætti hjá ferðamönnum, þegar kemur að staðkvæmni fyrir Ísland.

Landnotkun ferðaþjónustunnar, eins og hún er nú rekin á Íslandi, má víða kalla áníðslu, sem fer jafnvel ver með landið en ofbeit sauðfjár og hrossa.  Nú mótar loksins fyrir vitrænum tillögum til að stemma stigu við átroðslunni, þ.e. að landeigandi og/eða umráðaaðili lands taki bílastæðagjald, sem standi undir uppbyggingu  aðstöðusköpunar og þjónustu á staðnum.  Þessi aðferð felur í sér möguleika á að stjórna fjöldanum með verðlagningu, eins og víða er gert.

Það er líka eðlilegt að taka gistináttagjald, sem renni að mestu leyti til viðkomandi sveitarfélags, því að meðhöndlun úrgangs, þ.m.t. skólps, frá 2,0 M ferðamönnum, lendir á sveitarfélaginu og útheimtir miklar fjárfestingar, ef vel á að standa að hreinsun, svo að úrgangurinn, sem jafngildir úrgangi frá a.m.k. 50 þúsund manna sveitarfélagi, verði ekki stórskaðlegur umhverfinu. Nýlega hefur komið fram, að meðhöndlun skólps hérlendis nær ekki máli og er til skammar, þegar borið er saman við síun skólps á hinum Norðurlöndunum, sem er 50 sinnum öflugri en hér.   

Akkilesarhæll ferðaþjónustunnar í mengunarmálum er þó loftmengunin. Það eru um 20 k (þúsund) bílaleigubílar í rekstri hér, sem er tæplega 9 % bílaflotans, og erlendir ferðamenn eru stærsti viðskiptamannahópurinn.  Þessum bílum er ekið margfalt meira en öðrum bílum landsmanna að meðaltali, eða líklega um 100 kkm/ár.  Þannig gæti eldsneytisnotkun ferðamannanna á vegum numið um þriðjungi heildareldsneytisnotkunar bílaflotans, sem árið 2015 nam 260 kt, og verið valdur að 6 % losun gróðurhúsalofttegunda án flugs og millilandaskipa. 

Þetta stendur þó til bóta vegna umhverfisvænni bíla, aðallega rafbíla, sem senn munu taka við af bílum knúnum jarðefnaeldsneyti.  Nú (2015) er innlend olíunotkun 523 kt/ár.  Henni er spáð hægt vaxandi fram til 2020, þegar hún gæti numið tæplega 600 kt vegna hagvaxtarins, en eftir það fari hún minnkandi vegna minni eldsneytisnotkunar bílaflotans, fiskiskipaflotans og iðnaðarins. 

Árið 2035 gæti olíunotkun á Íslandi (án millilandaflutninga) hafa minnkað um helming niður í 300 kt, sem skiptist þannig:

  • bílaflotinn              57 % (nú 50 %)
  • fiskiskip                35 % (nú 40 %)
  • landb.& iðn.& innanl.fl.  8 % (nú 10 %)

Þessar tölur eru ágizkun blekbónda, og þróun bílaflotans verður vonandi hraðari en þarna er gert  ráð fyrir. Allt önnur og verri sviðsmynd er uppi á teninginum, þegar eldsneytisnotkun millilandaflugvéla og -skipa er tekin með í reikninginn. 

Árið 2015 nam hún 261 kt eða 33 % af heild.  Árið 2025 er þessari notkun spáð 463 kt, sem jafngildir 77 % aukningu á 10 árum og að hún nemi þá 44 % af heildarnotkun Íslendinga á olíuvörum ættuðum úr iðrum jarðar. 

Árið 2035  verður notkun millilandaflugvéla og millilandaskipa íslenzkra komin upp í 562 kt samkvæmt spá og er þá orðin 2,15-föld á við notkunina 20 árum fyrr og nemur þá 65 % af heildar jarðefnaeldsneytisnotkun landsmanna. 

Megnið af þessu er vegna flugsins og má segja, að þessi mengunarþróun stefni í algert óefni, eins og bezt sést á því, að árið 2035 mun losun gróðurhúsalofttegunda samkvæmt þessari spá nema 100 % af allri núverandi losun Íslands á CO2 jafngildum án millilandaflutninga. 

Millilandafluginu ber sjálfu að mynda mótvægi við þessu.  Það er t.d. hægt að gera með skógrækt.  Setjum sem svo, að millilandafluginu verði gert að mynda mótvægi árið 2035 við allri aukningunni síðan árið 2015, þ.e. mótvægi við 2,7 Mt af CO2 jafngildum.  Til þess þarf skógrækt á um 6000 km2 lands.  Kostnaðurinn er um 30 Mkr/km2, svo að heildarkostnaður nemur 180 miakr eða 9 miakr/ár.  Kostnaðinn má lækka með endurheimt votlendis til að mæta voveiflegri aukningu að hluta, sem er mun ódýrari aðgerð. 

Þetta mundi aðeins jafngilda 2-3 kkr/farmiða fram og tilbaka, ef millilendingarfarþegum er sleppt og farþegaaukningunni vindur fram, eins og ferðaþjónustumenn gera skóna, svo að það er alls engin goðgá að láta flugfarþega útjafna kolefnisspor sitt með þessum hætti.  Augljóslega stendur ferðaþjónustan í mikilli skuld við landsmenn og heimsbyggðina alla, sem verður fyrir barðinu á hlýnandi loftslagi. 

 


Ófullnægjandi mengunarvarnir

Þegar ófullnægjandi mengunarvarnir ber á góma, er yfirleitt mest gert úr meintri vanrækslu einkafyrirtækja.  Yfirvöldin eru þá oftast með svipuna á lofti, þó að eftirlitinu sé oftar en ekki ábótavant. 

Þegar opinber fyrirtæki eða sveitarfélög eiga í hlut, virðist tekið á þeim með silkihönzkum.  Undanfarið hafa frárennslismál, t.d. við Mývatn, verið í brennidepli.  Lengi hefur verið vitað, að fráveitumálum vítt og breitt um landið væri ekki skipap sem skyldi, og síubúnaður í stórum dælustöðvum væri allt of grófgerður. 

Þann 29.ágúst 2016 birtist skelfileg frétt Jóns Birgis Eiríkssonar í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

"Engar hömlur á losun örplasts:

Það hefur lengi verið vitað, að skólphreinsistöðvar á Íslandi standa ekki undir nafni.  Seyran er að vísu skilin frá víðast hvar, en annars eru s.k. "skólphreinsistöðvar" nánast einvörðungu dælustöðvar til að dæla skólpinu út fyrir stórstraumsfjöru.  Þetta er nauðsynlegt, en fjarri því að vera nægjanlegt.  Borizt hafa tíðindi af gríðarlegri mengun hafsins með plastefnum.  Plastið brotnar niður með tímanum og getur þá endað í lífkeðjunni, þar sem maðurinn trónir efstur.  Hér er um afar óeðlileg aðskotaefni í frumum lífvera að ræða, sem haft geta alvarleg áhrif á lífshlaup þeirra og lífsgæði.  Íslenzk matvælaframleiðsla gerir út á hreinleika afurðanna, og þess vegna sætir furðu, að íslenzk mengunarvarnayfirvöld skuli hafa sofið á verðinum með þeim afleiðingum, að "skólphreinsun" hérlendis er undirmálsgrein, hvað gæði varðar, eins og hér verður rakið. 

Hryllilegt er, að síun hérlendis er aðeins um 2 % af því, sem tíðkast á Norðurlöndunum. Þetta er reginhneyksli. Eftirlitsaðilinn hagar sér eins og jólasveinn, sem er að koma til byggða.  Hrönn Jörundsdóttir, verkefnastjóri hjá MATÍS, upplýsti í téðu viðtali við Jón Birgi Eiríksson:

"Við skoðuðum skólphreinsistöðvar, og tókum annars vegar [fyrir] Klettagarðsstöðina og [hins vegar] skólphreinsistöðina í Hafnarfirði [í Straumsvík].  Það, sem við sáum og kom okkur raunar ekki á óvart, var, að eina hreinsunin, sem er framkvæmd á þessum stöðum, er grófsíun.  Þegar maður er að skoða agnir, sem eru minni en millimetri og niður í hundrað míkrómetra [hvað þá 10 míkrómetra, sem þyrfti að vera, ef vel á að vera - innsk. BJo], sjáum við, að stöðvarnar eru ekki að stöðva þessar agnir.  Þær fara í gegnum stöðina og út í umhverfið."

Eftirlitið tiplar á tánum, eins og köttur í kringum heitan graut.  Það kemur ekki fram, hvort íslenzkar reglur eru þarna brotnar, eða hvort þetta væri aðeins "nice to have".  Þetta sleifarleg yfirvalda, veitufyrirtækja og eftirlitsaðila, er með öllu óviðunandi, af því að öragnirnar smjúga í gegnum þarmaveggina, fara út í blóðrásina, og geta hafnað, hvar sem er í líkamanum og valdið heilsuleysi og fjörtjóni.

Þess vegna hafa frændur okkar á Norðurlöndunum staðið mun fagmannlegar að skólphreinsun en hérlendis tíðkast, enn sem komið er.   Að sögn Hrannar geta stærstu skólphreinsistöðvarnar í Svíþjóð fangað yfir 99 % af téðum ögnum, og sleppir stærsta stöðin aðeins út um 120 þúsund ögnum á klukkustund, og sú stærsta í Finnlandi sleppir út tæplega 500 þúsund ögnum á klst. 

Til samanburðar sleppir skólpdælustöðin í Klettagörðum yfir 6 milljón ögnum á klst.  Þarna munur "faktor 50" í hreinsivirkni íslenzku stöðinni í óhag, og við svo búið má ekki standa. Hvernig í ósköpunum dettur mönnum í hug að láta þetta mál bara dankast ?

Ef Reykjavík væri stjórnað af myndarbrag með hagsmuni almennings að leiðarljósi, þá væri borgin fyrir löngu búin að gefa fyrirtæki sínu, OR, fyrirmæli um að hreinsa af sér þennan smánarblett.  Vinstra moðverkið í borgarstjórn snýst hins vegar aðeins í kringum allt of margar silkihúfur, sem hver hefur sitt gæluverkefni, og öll orkan fer í rifrildi um forgangsröðun þessara skrýtnu gæluverkefna. 

Hvers vegna gera eftirlitsaðilar mengunarmála jafnlítið úr sér og þessi lýsing gefur til kynna í stað þess að setja Veitum og öllum öðrum, sem undir þessa sök eru seldir, stólinn fyrir dyrnar með kröfu um tímasettar úrbætur að viðlögðum dagsektum. 

Er það þannig, að opinberum fyrirtækjum er liðið að þverbrjóta reglur, eða eru kröfur yfirvalda hérlendis ósambærilegar við það, sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum ?  Hvort tveggja er grafalvarlegt


Snúið að vera grænn

Nýlega var sagt frá því í fréttum, að tveimur mönnum hefði tekizt að komast á litlum rafbíl frá Reykjavík til Ísafjarðar.  Þeir hraðhlóðu  í Borgarnesi, tóku ferjuna frá Stykkishólmi til Brjánslækjar og hlóðu bílinn um borð.  Síðan héldu þeir fjarðaleiðina (vestari leiðina), en ef þeir hefðu farið hina hefðbundnu leið frá Borgarnesi upp Bröttubrekku, Dalina, Saurbæ, Þröskulda til Hólmavíkur og þaðan yfir Strandaheiði og inn Djúpið alla leið til Ísafjarðarkaupstaðar, er óvíst, að þeir hefðu komizt í mark á rafmagnsbílnum, vandræðalaust. Þessi saga varpar ljósi á það, hversu löturhægt gengur að koma innviðum nýju orkubyltingarinnar á legg hérlendis.  Er það ekki vanzalaust, að við skulum vera eftirbátar Norðmanna, svo að um munar, í þessum efnum.  Átak í þróun innviða fyrir rafvæðingu bílaflotans er þjóðhagslega hagkvæmt. 

Téð orkubylting er skilyrði þess, að unnt verði að hindra meðalhitastig í andrúmslofti jarðar við jörðu í að hækka um meira en 2°C m.v. tímann fyrir iðnbyltingu, þ.e. fyrir 1750.  Þó að þessi viðmiðun hafi verið valin, höfðu athafnir manna löngu fyrr mikil áhrif á andrúmsloftið.  Hér er átt við landbúnaðarbyltinguna fyrir 2000-10000 árum, sem fór fram með því að brenna kjarr og skóga og brjóta sviðna jörð til ræktunar.  Þessi lífsháttabylting fól í sér, að fjölskyldur hættu flækingi á eftir veiðidýrum og setzt var að að mestu á sama stað.  Með akuryrkjunni breyttist líka mataræðið.  Þetta hlýtur að hafa verið mikill léttir fyrir fjölskyldufólk, og einkenni á samlífi "homo sapiens" var einmitt fjölskyldulíf.  Það er mjög líklegt, að konurnar hafi hvatt mjög til lifnaðarhátta, þar sem hægt var að hafa nokkurn veginn fasta búsetu, því að flandrið hefur verið einstaklega erfitt fyrir þær og börnin.

Til að draga úr losun eiturefna og gróðurhúsalofttegunda frá gríðarlegri fartækjaumferð nútímans, þurfa yfirvöld að koma með fjárhagslega hvata til að velja umhverfisvæn farartæki. Þetta er ekki sízt mikilvægt á Íslandi, þar sem raforkuvinnslan er mengunarlítil og að mestu sjálfbær, öfugt við það, sem algengast er erlendis. 

Um 23 % af losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum er frá flutningastarfsemi (flugvélar og millilandaskip eru ekki innifalin) og 17 % frá farartækjum á vegum.  Á Íslandi er þessi tala líka um 17 % af heild, sé losun frá þurrkuðu votlendi ekki meðtalin.   Þetta kann að virðast lágt hlutfall, en ekki má gleyma auknum loftgæðum í þéttbýli við afnám eldsneytisbrennslu í farartækjum.  Eiturefni frá þeim valda hundruðum þúsunda manna fjörtjóni á hverju ári í heiminum.  Hérlendis er loftgæðum iðulega ábótavant í þéttbýli m.v. alþjóðlega staðna.  Ástandið að þessu leyti hefur batnað á Höfuðborgarsvæðinu við hreinsiaðgerðir ON (Orku náttúrunnar) í Hellisheiðarvirkjun. 

Sumar ríkisstjórnir, m.a. hérlendis, hafa hækkað aksturskostnaðinn með því að skattleggja benzín og dísil sérstaklega.  Hérlendis er um að ræða vörugjald á benzín og olíugjald á dísilolíu, koltvíildisgjald og virðisaukaskatt.  Nemur hlutdeild ríkissjóðs í verði við eldsneytisdælu um 50 %.  Sumar ríkisstjórnir hafa hækkað kostnað við að eiga mengandi bíl með því að tengja árlegt skráningargjald, bifreiðagjald, við losun gróðurhúsalofttegunda eða hafa veitt afslætti á opinberum gjöldum umhverfisvænna bíla.  Allt þetta tíðkast á Íslandi.  Þannig eru hvorki vörugjald né virðisaukaskattur innheimt af rafmagnsbílum eða tvinnbílum hérlendis.  Fyrir vikið er þessi "nýja" tækni ekki mikið dýrari en sú gamla (<10 % fyrir sambærilega bíla), og þessi munur mun minnka, einkum með hagkvæmari rafgeymum.  

Í Svisslandi var nýlega gerð rannsókn, sem sýndi, að hvert tonn af CO2, sem sparaðist við kaup á umhverfisvænum bíl þar í landi, kostaði bíleigandann CHF 810 eða USD 815, sem er meira en sjöfaldur sá kostnaður, sem stjórnvöld þar í landi telja, að leiði af aukinni losun hvers tonns CO2. Þessu er ekki þannig háttað hérlendis, því að t.d. kaup á tengiltvinnbíl borga sig hér upp á innan við 4 árum með 5 % ávöxtunarkröfu fjár og hráolíuverð um 40 USD/tunnu.  

Viðbótar kostnaður umhverfisvænna bíla m.v. hefðbundna eldsneytisbíla mun vafalaust lækka með aukinni framleiðslu þeirra og framþróun tækninnar, t.d. á sviði rafgeyma.  Til að efla enn hina hagrænu hvata hinnar nýju orkubyltingar Þegar búið verður að byggja upp innviði á Íslandi fyrir umhverfisvæna bíla, t.d. að koma upp hraðhleðslustöðvum með 100-200 km millibili á fjölförnustu akvegum landsins, og enn meira úrval verður af umhverfisvænum bílum á markaðinum, kemur til greina að hraða orkubyltingu samgöngutækja á vegum með enn öflugri hagrænum hvötum en nú, t.d. með innleiðingu næturtaxta fyrir raforkusölu, sem gæti verið á innan við 50 % af núverandi sólarhringstaxta.  Þetta mundi færa álagsaukningu af völdum orkubyltingar yfir á núverandi lágálagstímabil og þar með draga stórlega úr fjárfestingarþörf hennar vegna.  Hið eina, sem dreifiveitur og sölufyrirtæki þyrftu þá að gera í þessu sambandi er að setja upp aðgangsstýrða tengla og sölumæla með tveimur tímastýrðum teljaraverkum.    

Þann 29. júlí 2016 var risaverksmiðja ("Gigafactory") bandaríska rafbílaframleiðandans Teslu fyrir rafgeyma opnuð.  Þar verður fyrst um sinn um að ræða framleiðslu hefðbundinna Liþíum-jóna rafgeyma.

  Nú hafa hins vegar verið kynntir til sögunnar í tímaritinu "Nature Energy" liþíum-loft rafgeymar, sem á upphafsstigi sínu hafa tvöfaldan orkuþéttleika, kWh/kg, á við rafgeymana frá þessari risaverksmiðju.  Fræðilega getur þessi orkuþéttleiki orðið fjórfaldur í liþíum-loft rafgeymum, en það eru ákveðin framleiðslutengd vandkvæði á að ná honum.  Fyrstu tilraunir með hleðslu og afhleðslu sýndu rýrnun á orkurýmd rafgeymisins um 2 % eftir 130 endurhleðslur.  Þetta gæti þýtt um 2 % rýrnun á ári hjá mörgum notendum, sem er vel ásættanlegt. 

Þessi nýja gerð liþíum rafgeyma fer í fjöldaframleiðslu seint á næsta ári, ef þróun framleiðsluferla gengur vel.  Um 2020 gætu þá borizt hingað rafmagnsbílar með drægni 600 km að sumarlagi og um 500 km að vetrarlagi.  Hraðhleðslutími frá 0-80 % gæti líka orðið styttri en nú eða 10-15 mín.  

Allt eru þetta mikilsverð atriði til að gera rafbíla notendavænni en nú er, og þeir munu vissulega verða eigulegri en bílar með sprengivél.  Kostir tengiltvinnbíla umfram rafbíla munu einnig minnka og á endanum hverfa.   

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband