Tveir turnar ?

Sú einkennilega þróun virðist um þessar mundir eiga sér stað á meðal íslenzkra kjósenda að fylkja sér aðallega um 2 stjórnmálaflokka, þegar þeir eru spurðir um afstöðu sína til stjórnmálaflokkanna nú í aðdraganda Alþingiskosninga 28. október 2017.  Þetta er athyglisvert, af því að íslenzka kjördæma- og kosningafyrirkomulagið býður ekki sérstaklega upp á slíkt, eins og t.d. einmenningskjördæmin á Bretlandi gera.  

Systurflokkur íslenzka Sjálfstæðisflokksins á Bretlandi er Íhaldsflokkurinn, þótt þessir 2 stjórnmálaflokkar séu upp runnir úr ólíkum jarðvegi.  Gagnvart Evrópusambandinu, ESB, var tiltölulega meiri stuðningur við veru Bretlands í ESB í röðum Íhaldsmanna, þegar Bretland gekk í ESB undir leiðsögn Edwards Heath, forsætisráðherra og leiðtoga Íhaldsflokksins, en nokkru sinni var við aðildarumsókn Íslands innan Sjálfstæðisflokksins.  Með tímanum fjaraði undan stuðningi Breta við ESB, þegar ESB breyttist úr viðskiptabandalagi í eins konar stórríki, og Íhaldsflokkurinn varð að meirihluta andsnúinn aðild Bretlands að ESB.   

Theresa May, sem tók við af David Cameron eftir BREXIT-þjóðaratkvæðagreiðsluna í júní 2016, var þó enn fylgjandi veru Bretlands í ESB, þegar BREXIT-þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram.  Stefna hennar núna er óljós, en helzt virðist hún hallast að "harðri" útgöngu, enda eru skilmálar ESB gagnvart Bretum óaðgengilegir, sbr gríðarlegar fjárkröfur ESB á hendur Bretum vegna útgöngunnar, sem ESB krefst samkomulags um áður en setzt verður niður við að ræða önnur mál, t.d. viðskiptatengslin.  Væri skynsamlegt af utanríkisráðuneytinu íslenzka að leita hófanna við Breta um fríverzlunarsamning á milli landanna, svo að ekki komi upp óvissutími í viðskiptum landanna í marz 2019, þegar Bretar ganga úr ESB.

Verkamannaflokkurinn brezki gæti komizt til valda eftir næstu þingkosningar, eins og málin horfa núna, því að Theresa May virðist vera jafnvel misheppnaðri leiðtogi en Jeremy Corbyn.  Corbyn hefur lofað mörgum miklu úr veikum ríkissjóði Bretlands, m.a. að greiða skólagjöldin fyrir stúdentana, og hann hefur með loforðaflaumi öðlast stuðning meirihluta ungs fólks undir þrítugu á Bretlandi.  Ef Corbyn kemst til valda á Bretlandi, mun sterlingspundið líklega falla enn meira, verðbólga mun vaxa og Englandsbanki mun hækka vexti ofan í skattahækkanir, sem geta keyrt brezka hagkerfið í stöðnun og atvinnuleysi. Það er nefnilega enginn frír hádegisverður í boði, þegar allt kemur til alls.  Staðan á Íslandi verður keimlík, ef/þegar Vinstri hreyfingin grænt framboð kemst til valda út á kosningaloforð, sem ekki er unnt að efna án stórtjóns fyrir hagkerfið.  Þar á bæ skortir sárlega þekkingu og skilning á efnahagslífinu og lögmálum þess, en þar eru gasprarar, loddarar og lýðskrumarar í hverju rúmi.  Við höfum bara enga þörf fyrir slíkt fólk til að stjórna málefnum ríkisins fyrir okkar hönd.

Verkamannaflokkurinn hefur söðlað um í afstöðunni til ESB og er nú fylgjandi "mjúkri" útgöngu. Undir forystu Jeremys Corbyn hefur flokkurinn færzt mjög til vinstri, svo að segja má, að á íslenzkan mælikvarða standi Vinstri hreyfingin grænt framboð-VG nær Verkamannflokkinum brezka en Samfylkingin, sem Össur Skarphéðinsson þó taldi á velmektardögum sínum vera bræðraflokk Verkamannaflokksins. 

Þó hefur Corbyn lýst því yfir, að flokkurinn sé eindregið fylgjandi aðild Bretlands að NATO, en VG er andvígt aðild Íslands að NATO.  Það yrði saga til næsta bæjar, ef á Íslandi kæmist til valda í forsætisráðuneytinu eða í utanríkisráðuneytinu flokkur, sem vill, að Ísland verði dregið út úr varnarsamstarfi vestrænna ríkja. Viljum við leyfa melódrama innanlands um utanríkisstefnu Íslands ? 

Á vestrænan mælikvarða er VG mjög vinstri sinnaður og þar af leiðandi andmarkaðslega sinnaður stjórnmálaflokkur.  Þingmönnum VG er þjóðnýting atvinnuveganna hugleikin, t.d. hefur Kolbeinn Óttarsson Proppé lýst áformum flokksins með útgerðirnar í þessa veru, þótt í hinni opinberu og loðnu stefnuskrá flokksins sé erfitt að finna þjóðnýtingu stað. 

VG stendur yzt á vinstri væng stjórnmálanna allra flokka Evrópu með 20 % fylgi eða þar yfir (í skoðanakönnunum).  Ef litið er til stjórnmálaflokka Evrópu með 10 % fylgi og meir, er það aðeins arftaki SED-Sozialistische Einheitspartei Deutschlands, die Linke eða Vinstri sinnarnir í Þýzkalandi, sem jafnast á við vinstri mennsku vinstri grænna á Íslandi.  Die Linke eru ekki taldir stjórntækir í Sambandlýðveldinu, en hér sigla þeir undir fölsku flaggi græningja í skjóli orðagjálfurs um jöfnuð.  "Aukinn jöfnuður" var einmitt helzta slagorð Hugos Chavez í Venezúela um síðustu aldamót, þegar hann barðist þar til valda, og flokki hans og arftakans, Nicolas Maduro, hefur tekizt með eignaupptökum, hásköttun og útþenslu ríkisbáknsins undir kjörörðinu, "Aukinn jöfnuður", að leggja efnahag olíuríkisins Venezúela í rúst.

Nokkrar lummur úr stefnuskrá VG (sleppt er hér umfjöllun um þá stefnu VG að veita 500 hælisleitendum á ári alþjóðlega vernd hér og þá holskeflu hælisleitenda, sem slíkt hefði í för með sér): 

Vinstri grænir "berjast gegn alþjóðlegum fríverzlunarsamningum".  Þetta felur í sér forneskjulega einangrunarhyggju og þýðir t.d., að vinstri grænir eru á móti fríverzlunarsamningi Íslands og Kína, sem gerður var undir verkstjórn Össurar Skarphéðinssonar á dögum vinstri stjórnarinnar 2009-2013, sem Katrín Jakobsdóttir, núverandi formaður VG, og Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi formaður VG, sátu bæði í allan tímann.  Samþykktu þau ekki samninginn á Alþingi ?

VG ber kápuna á báðum öxlum í afstöðunni til ESB, eins og sannaðist á dögum téðrar vinstri stjórnar, og það er ekki ljóst, hvort ofangreind andstaða við fríverzlunarsamninga þýðir andstöðu við aðild Íslands að EES og þar með að Innri markaði ESB.  Þessi andstaða VG við fríverzlunarsamninga er dálítið "trumpísk", því að núverandi forseti BNA boðaði í kosningabaráttu sinni að draga BNA út úr fríverzlunarsamningi við Kyrrahafslöndin og Mexíkó/Kanada.  Fríverzlunarsamningur BNA og ESB komst aldrei á koppinn. Langflestir hagfræðingar hérlendis eru þeirrar hyggju, að fríverzlun sé Íslendingum til hagsbóta, þannig að þessi grautur VG er illilega viðbrunninn.  

 Vinstri grænir vilja "réttlátt skattkerfi".  Hver vill það ekki ?  Þeir, sem beita svona óljósu orðalagi í stefnuskrá, vilja ekki kannast við raunverulega fyrirætlun sína fyrir kjósendum.  Það má gjarna leita út fyrir landsteinana að því, hvað sósíalistum finnst "réttlát skattheimta".  Í Frakklandi reyndu 2 sósíalistískir forsetar 5. lýðveldisins að setja á 75 % tekjuskatt sem efsta þrep.  Báðir urðu að hörfa úr þessu vígi sínu eftir skamma hríð, því að samfélagstjón af þessari eignaupptöku sósíalista varð margfalt á við ávinning ríkissjóðs, sem fór þverrandi með tímanum.  Á Íslandi yrði tímabundinn tekjuauki ríkissjóðs aðeins um 5 miaISK/ár, sem nemur innan við 10 % af áformuðum útgjaldaauka VG.  

Hverjir mundu lenda í þessu skattþrepi vinstri grænna ? 

Ungt fólk, sem stritar myrkranna á milli til að fjármagna fyrstu íbúð sína og allt annað, sem ung fjölskylda þarf.

Hámenntaðir sérfræðingar með háa námsskuld á bakinu, oft tiltölulega nýkomnir heim úr námi og miðla af ómetanlegri þekkingu sinni, sem gefur góða ávöxtun,  og þeir spara þjóðfélaginu í mörgum tilvikum stórfé vegna kostnaðar af sérfræðiþekkingu, sem annars þyrfti að kaupa erlendis frá.

Sjómenn á góðum aflaskipum, sem eru eftirsóttir dugnaðarforkar af útgerðunum.

Ef VG stendur við að halda sig við 25 MISK/ár, nær flokkurinn aðeins í um 950 manns.  Hver trúir því, að þeir leggi upp í svo lélegan leiðangur, þegar til stykkisins kemur ?  Það verður leitað víðar. 

Þessi blauti skattheimtudraumur vinstri grænna er í senn óréttlátur og siðlaus, og hver hefur eiginlega þörf fyrir öfugsnúið réttlæti af þessu tagi ? 

Vinstri grænir eru opnir fyrir "uppboðum á aflaheimildum".  Í stefnuskrá þeirra er vísað til Færeyja í þessum efnum, en þar voru uppboðin misheppnuð og aflaheimildir lentu að miklu leyti hjá erlendum útgerðum gegnum leppa.  Hvernig á að koma í veg fyrir hrun einstakra byggða, þegar aflahlutdeild hverfur af skipum, sem leggja upp í byggðalaginu ?  Þetta daður vinstri grænna við stórkapítalið er stórmerkilegt.  Einokun á öllum sviðum virðist vera lífsmottó sósíalistanna.

Það er foráttuvitlaust af einum stjórnmálaflokki að setja í stefnuskrá sína, að "framlög til heilbrigðisþjónustu verði 11 % af VLF/ár".  Þarna kemur berlega fram lýðskrumstilhneiging vinstri grænna.  Hvers eiga allir hinir útgjaldaliðir ríkisins að gjalda, eða skattborgararnir, úr því að tengja á útgjöld til heilbrigðismála við þetta háa hlutfall af tiltölulega mikilli verðmætasköpun í landinu ? 

Það mun óhjákvæmilega koma að þessu háa hlutfalli á Íslandi vegna öldrunar þjóðarinnar, en við erum sem betur fer ekki komin á þennan stað enn, enda íslenzka þjóðin ein sú yngsta í Evrópu, þótt nú sigi hratt á ógæfuhliðina vegna mjög lítillar viðkomu (um 1,4 barn/konu, lægra hlutfall en í Svíþjóð !).

Hér hefur aðeins verið drepið á fáein atriði í stefnuskrá vinstri sinnaðasta stjórnmálaflokks Evrópu af sinni hlutfallslegu stærð.  Allt er það ófélegt og lítt dulbúnar hótanir í garð borgarastéttarinnar, dugandi einstaklinga og atvinnurekstrar, ekki sízt lítilla og meðalstórra fyrirtækja, sem þó veita flestum launþegum vinnu og eru í raun undirstaða borgaralegs samfélags.  Þess vegna er sósíalistunum alveg sérlega uppsigað við þau, og þeir munu beita ríkisvaldinu, læsi þeir klónum í það eftir kosningar, með harðsvíruðum hætti gegn litla atvinnurekandanum.  Landsmenn verða að gera sér grein fyrir, að kross á vitlausum stað á kjördag getur þýtt, að í 4 ár verði þeir tilraunadýr í þjóðfélagstilraunum marxista.  Það verður ógæfulegt, ef undirmálslið kemst til valda hér vegna andvaraleysis, eins og gerzt hefur í Reykjavík.  

 

 


Landsbyggðarskattur

Vinstri hreyfingin grænt framboð er uppruna sínum trú og kýs að vera í stríði við athafnalífið í landinu, ef hún á þess nokkurn kost.  Þess vegna hefur hún boðað hækkun skatta á fyrirtækin í landinu, almennra og sértækra, t.d. verulega hækkun veiðigjalda á sjávarútveginn, sem er sértækasta skattlagning á Íslandi, því að aðrir nýtendur náttúruauðlinda greiða ekki auðlindagjald.  Það er réttlætismál að jafna aðstöðu atvinnugreinana gagnvart skattlagningarvaldinu að þessu leyti. 

Við núverandi aðstæður eru auknar almennar álögur á atvinnulífið hagfræðilegt glapræði, sem leiða mun til efnahagslegrar kollsteypu.  Hækkun auðlindagjalds nú á grein, þar sem engin auðlindarenta er lengur fyrir hendi, jafngildir fólskulegri aðför að viðkomandi fyrirtækjum og setur fjölda starfa í uppnám.  Framlegð (EBITDA) sjávarútvegsins í ár samkvæmt nýrri áætlun Deloitte verður aðeins um 20 % af tekjum hans, en til samanburðar var hún 22,5 % í fyrra og 25,8 % á viðmiðunarári veiðigjalda núverandi fiskveiðiárs, 2015, sem var sjávarútveginum tiltölulega hagfellt. Með aðeins 20 % framlegð, er engin auðlindarenta lengur fyrir hendi, og við þær aðstæður er enginn siðferðilegur grundvöllur fyrir álagningu auðlindagjalds.

Staðan er stórvarasöm í ljósi þess, að líklegt má heita, að vinstri grænir verði stefnumótandi innan næstu ríkisstjórnar, og þeir ganga með böggum hildar, þar sem eru kolröng mynd af raunveruleikanum og bilaður stefnuviti að þjóðhagslega hagkvæmu marki.  Næsta ríkisstjórn gæti orðið undir leiðsögn strandkapteins með biluð siglingatæki. Hættan, sem vofir yfir, er ekki aðallega af völdum loðmullulegrar stefnuskráar, heldur af hinu, að vinstri grænir ætla sér út í alls konar þjóðfélagstilraunir, sem hvergi koma fram í hinni opinberu stefnuskrá og tilgreint verður dæmi um hér á eftir. 

Framundan eru kjarasamningar.  Eftir sögulega einstæða hækkun kaupmáttar ráðstöfunartekna á 4 ára tímabili, 2014-2017, er nú svo komið á 4. ársfjórðungi 2017, að Sviss er eina Evrópulandið með meiri kaupmátt ráðstöfunartekna en Ísland að meðaltali.  Keppikefli landsmanna á að vera að verja þessa stöðu, og það heimskulegasta, sem menn gera við þessar aðstæður, er að boða skattahækkanir á fólk og fyrirtæki, og þá gera blindingjarnir í VG einmitt það.  Heimskinginn velur alltaf vitlausasta möguleikann, sagði kennari nokkur í MR fyrir hálfri öld við nemanda uppi við töflu. Sá var reyndar jafnan illa lesinn í tímum.  

Við þessar aðstæður boðar Sjálfstæðisflokkurinn skattalækkanir.  Hann vill t.d. lækka neðra þrep tekjuskatts einstaklinga niður í 35 %, og formaður flokksins hefur lýst því yfir, að hann telji eðlilegt að stefna að því, að jaðarskatturinn verði ekki hærri en 35 %, sem þýðir væntanlega eitt tekjuskattsþrep á endanum.  Þessi ráðstöfun auk lækkunar tryggingargjalds mundi að sjálfsögðu verða mjög jákvætt innlegg í kjaraviðræður og bæta horfur á sjálfbærum kjarasamningum, sem ekki mundu ógna atvinnuöryggi og ekki yrðu eldsneyti fyrir verðbólgubál.  Stefna vinstri flokkanna passar engan veginn við raunveruleikann; hún hentar einhverju allt öðru þjóðfélagi, þjóðfélagi villuráfandi og illa lesnum vinstri mönnum.  

Þann 12. október 2017 skrifaði Teitur Björn Einarsson, Alþingismaður, sem nú skipar 3. sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í NV-kjördæmi, ötulasti baráttumaður á þingi fyrir hagsmunum Vestfirðinga, sem nú berst tvísýnni baráttu fyrir þingsæti sínu, m.a. við erkiafturhald í atvinnumálum, grein í Morgunblaðið:

"Veiðigjöld eru óréttlátur landsbyggðarskattur":

"Það [ágreiningur stjórnmálaflokka] á t.d við um skatta og sérstaklega þó það, sem viðkemur álögum á atvinnulífið.  Vinstri flokkarnir stefna á að hækka skatta og draga þannig úr athafnasemi fólks [og myndun eigin fjár hjá fólki og fyrirtækjum - innsk. BJo] og þar með þrótt úr allri verðmætasköpun í landinu.  Sjálfstæðisflokkurinn ætlar aftur á móti að lækka skatta og stuðla þannig að sem mestri hagsæld fyrir alla, vegna þess að kröftugt atvinnulíf er forsenda öflugs velferðarsamfélags.  Fyrir okkur öll."

Því hefur verið haldið fram hér á þessu vefsetri, að vinstri grænir séu úlfar í sauðargæru.  Með því er átt við, að komist þeir í aðstöðu til, muni þeir framkvæma róttækari og skaðlegri uppskurð á atvinnulífinu og þar með hagkerfinu en brosmildur formaðurinn lætur í veðri vaka fyrir kosningar og fram kemur í opinberri stefnuskrá flokksins.  Þetta hefur nú einn þingmanna flokksins, Kolbeinn Óttarsson Proppé, staðfest á fundi Ufsa, félags ungs áhugafólks um sjávarútveg, þar sem hann lýsti þeim ásetningi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, sem hvergi kemur þó fram í stefnuskrá flokksins, að þjóðnýta útgerðirnar.  Þar með er gríma kommúnistanna fallin gagnvart sjávarútveginum.  Þetta mun í framkvæmd setja allt á annan endann í þjóðfélaginu, eyðileggja margra ára þróunar- og markaðsstarf og færa sjávarútveginn í hendur stjórnmálamanna, sem aldrei hafa ráðið við slík verkefni, enda eru þau ekki í þeirra verkahring.  Það eru ekki fullnægjandi viðbrögð vinstri grænna að setja upp smeðjusvip við þessum tíðindum.  Það er nákvæmlega ekkert að marka þá, þegar þeir bregða yfir sig sauðargærunni.  Um þessar aðfarir sagði í leiðara Morgunblaðsins, 16. október 2017:

"ANDLITIÐ SEGIR EKKI ALLT; þegar gríman fellur, blasa hætturnar við":

"Kolbeinn Óttarsson Proppé útskýrði nánar, hvernig markaðslögmálin yrðu aftengd í sjávarútvegi og ráðstjórnarkerfi innleitt: þriðjungur fiskveiðiheimilda skyldi fara á leigumarkað [leiguliðar eru uppáhalds skjólstæðingar VG-innsk. BJo] til ákveðins árafjölda.  Þá skyldi þriðjungur renna í byggðafestukvóta [fyrir stjórnmálamenn að ráðskast með-innsk. BJo], sem væri þó ekki sá byggðakvóti, sem nú væri við lýði [fyrir brothættar byggðir-innsk. BJo].  Loks skyldi þriðjungur fara til útgerða gegn hóflegu gjaldi, þar sem sjávarútvegurinn þyrfti að búa við ákveðinn fyrirsjáanleika.

Augljóst er, að þeir sem tala með þessum hætti hafa engan skilning á rekstri sjávarútvegsfyrirtækja eða fyrirtækja yfirleitt.  Það er vitaskuld enginn fyrirsjáanleiki í því fyrir sjávarútvegsfyrirtæki að halda þriðjungi fiskveiðiheimilda.

Það er ástæða fyrir því, að VG felur þessa stefnu sína, en birtir hana ekki í stefnuskránni á heimasíðunni.  Í sjávarútvegsmálum líkt og á öðrum sviðum er huggulega andlitið birt almenningi, en að baki leynist stefna, sem valda mundi uppnámi og efnahagslegu áfalli fyrir þjóðarbúið í heild og landsmenn alla, næði hún fram að ganga."

Nú er komið í ljós, að opinber stefnuskrá VG eru "pótemkíntjöld" til að dylja sýn á þjóðfélagið, sem minnir mest á þjóðfélagssýn Hugos Chavez, sem ásamt arftakanum, strætisvagnabílstjóranum Nicolas Maduro, keyrði auðugasta ríki Suður-Ameríku í fen fátæktar og eymdar "alræðis öreiganna". 

Kjósendur geta með engu móti treyst frambjóðendum VG til Alþingis.  Þeir eru Trójuhestar brenglaðrar þjóðfélagssýnar og heimskulegrar hugmyndafræði, sem þeir vilja beita til að vinna bug á ástandi, sem er ekki fyrir hendi.  Einhver mundi víst segja, að þetta sé kolruglað lið.  

Hin opinbera stefna VG til sjávarútvegsins er að stórhækka veiðigjöld á útgerðirnar.  Sú stefna mun reyndar rústa sjávarútveginum í sinni núverandi mynd, svo að kannski er meiningin að koma honum þannig í þrot, yfirtaka hann síðan með þjóðnýtingu og fara síðan leiðina, sem Kolbeinn Proppé lýsti og tíunduð er hér að ofan.    

Á yfirstandandi fiskveiðiári má búast við tvöföldun veiðigjalda m.v. síðasta fiskveiðiár vegna stórgallaðra reikningsaðferða við álagninguna og brottfalls fjárfestingarafsláttar.  Ef veiðigjöldin ná þannig miaISK 12, munu þau nema um 22 % af áætlaðri framlegð ársins 2017, sem verður allt að miaISK 20 lægri en á viðmiðunarárinu 2015.  Þessi skattheimta er himinhrópandi óréttlát vegna þess, að hlutfall skattgjaldsins af framlegð, EBITDA, jafnast á við hreinræktaða rányrkju, er a.m.k. fjórfalt m.v. fjárhagslega sjálfbær velsæmismörk í þokkalegu árferði, og þetta er í eðli sínu landsbyggðarskattur, sem dregur fjármagn úr sjávarbyggðum hringinn í kringum landið og í ríkissjóð, sem dreifir fénu aðallega til höfuðborgarsvæðisins.  

Ætlar landsbyggðin að draga Trójuhestinn VG, t.d. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur í NV-kjördæmi, sjálfviljug inn fyrir sína "borgarmúra" ?

 

 


Röng ráð við vitlausu stöðumati

Meginviðhorf vinstri grænna í þessari kosningabaráttu eru fallin um koll.  Með öðrum orðum er undirstaða áróðurs Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, VG, fyrir Alþingiskosningarnar 28. október 2017 reist á ósannindum. Það er mikið áhyggjuefni, ef vinstri grænum tekst að tæla fólk um hríð til stuðnings við sig á fölskum forsendum á öld upplýsinganna.  Enn meira áhyggjuefni er, að í sjálfsblekkingu sinni um stöðu samfélagsins mun VG í ríkisstjórn framkvæma, eins og sýndarveruleiki flokksbroddanna sé sannleikur.  Landsmenn eru þá í stöðu skipverja undir stjórn blinds skipstjóra með bilaðan áttavita. Hvað má verða slíkum til bjargar ?

Katrín Jakobsdóttir hefur ásamt öðrum frambjóðendum VG verið eins og biluð plata, sem í síbylju fer með utan að lærðar staðleysur um óréttlætið í íslenzku samfélagi, sem stafi af mjög ójafnri tekjuskiptingu og ójafnri eignadreifingu á meðal íbúanna.  Nú er ekki lengur hægt að hækka skattana undir klisjunni: "Hér varð hrun", heldur sé nú þjóðarnauðsyn að hækka skatta til að jafna tekjuskiptingu og eignadreifingu í íslenzka samfélaginu.  Þessi málflutningur vinstri grænna er illa þefjandi "bolaskítur", hreinræktað bull, reist á samfélagslegum bábiljum vindmylluriddara. 

Það er nákvæmlega engin þörf á að hækka neina skatta núna.  Þvert á móti eru slík heimskupör stórhættuleg við núverandi efnahagsaðstæður og geta framkallað hér "harða lendingu" með "stagflation", þ.e. efnahagslega stöðnun með verðbólgu og atvinnuleysi.  Skipið er dauðadæmt með blindan skipstjóra og biluð siglingatæki í brúnni.  

Bábilja VG #1: Það er svo mikill tekjuójöfnuður á Íslandi, að nauðsynlegt er að þrepskipta tekjuskattinum enn meir og hækka jaðarskattheimtuna:

Þetta er gjörsamlega úr lausu lofti gripið hjá VG, sem sýnir, að meginmálflutningur flokksins eru lygar einar, og ráðstafanirnar verða þess vegna stórskaðlegar fyrir hagkerfið.  Flokkurinn er algerlega ótrúverðugur, því að hann reisir ekki málflutning sinn á staðreyndum, heldur hugarórum, og  flokksmenn VG stunda hreint lýðskrum.

Samkvæmt nýjustu gögnum frá OECD, Efnahags- og framfarastofnuninni, er Ísland í langneðsta sæti ójafnaðarlistans, GINI, um ójafna tekjuskiptingu, þar sem efst tróna Síle - með 47 stig, Mexíkó-46 og Bandaríkin-39, en neðst eru Ísland-23, Noregur-25 og  Danmörk-25.  Það er 10 % munur á Íslandi og Noregi.  Þetta er heilbrigðisvottorð fyrir íslenzka þjóðfélagið, og því ber að fagna, að jöfnuðurinn hefur farið vaxandi á undanförnum árum vegna þeirrar stefnu í kjarasamningum að hækka lægstu laun tiltölulega mest.  Það er hins vegar hægt að ganga svo langt í jöfnun ráðstöfunartekna, að nauðsynlegur hvati til að klífa upp tekjustigann verði of veikur.  Þá tapar allt samfélagið, af því að slíkt kemur niður á landsframleiðslunni.  

Bábilja VG #2: Eignadreifingin er svo ójöfn á Íslandi, að nauðsynlegt er að taka upp eignaskatt, sem lygalaupar VG nefna auðlegðarskatt:

Samkvæmt gögnum frá Credit Suisse, sem Halldór Benjamín Þorbergsson vitnar til í ágætri Morgunblaðsgrein sinni 12. október 2017:

"Bábiljur og staðreyndir um ójöfnuð tekna og eigna á Íslandi":

"Þar kemur fram, að eignajöfnuður á Norðurlöndum er hvergi meiri en á Íslandi.  Í heildarsamanburði Credit Suisse er fjöldi ríkja með minni eignaójöfnuð en Ísland, en þau eiga það sammerkt að vera mun fátækari ríki.  Það er jákvæð fylgni á milli eignaójöfnuðar ríkja og ríkidæmis þeirra.  Lægra menntunarstig dregur úr [eigna] ójöfnuði.  Aukið ríkidæmi þjóða eykur hlutfallslegan [eigna] ójöfnuð vegna dreifingar fjármagns og framleiðslutækja.  Jöfn dreifing fjármagns og fjármuna hefur verið reynd; sú tilraun gekk ekki vel." 

Blautlegir draumar VG-forkólfa fjalla um þetta síðast nefnda, þ.e. að ná fram hérlendis á endanum jafnri dreifingu fjármagns og fjármuna, en það er ekki hægt, nema skapa hér fátæktarríki, alræði öreiganna.  Vinstri grænir eru úlfar í sauðargæru.  Þeir koma óheiðarlega fram, breiðandi yfir nafn og númer.

Það er þess vegna ákveðið hagstjórnarlegt afrek á Íslandi að ná einu mesta ríkidæmi heims sem þjóð og á sama tíma að vera með mesta eignajöfnuð ríkra þjóða. 

Loddarar vinstrisins halda því líka fram í þessari kosningabaráttu, þar sem hvorki er skeytt um skömm né heiður, að eignaójöfnuður fari vaxandi á Íslandi.  Þetta er rétt ein bábiljan, fullyrðing, sem er algerlega úr lausu lofti gripin.  Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands voru 62 % eigin fjár á Íslandi í eigu þeirra 10 % heimila, sem mest áttu eigið fé árið 2016.  Á velmektardögum Samfylkingar og VG, var hlutfallið hæst og náði þá 86 %, en hefur farið stöðugt lækkandi síðan. Að meðaltali tímabilið 1997-2016, 20 ára skeið, er hlutfall 10 % heimila með mest eigið fé 64 % af heildar eiginfé, svo að hlutfallið er núna undir meðaltali. 

Hvaðan hafa bullustampar Samfylkingar og VG þá vizku sína, að eignaójöfnuður á Íslandi hafi farið vaxandi að undanförnu ?  Þetta er fullkomlega ómarktækt fólk.  Málflutningur þess er reistur á sandi !

 Merki Sjálfstæðisflokksins

 

 

 


Reykjavíkurflugvöllur á næsta kjörtímabili

Allir þekkja hug núverandi vinstri meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur til Reykjavíkurflugvallar.  Meirihluti Samfylkingar, Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og Pírataflokksins vill eindregið loka þessari samgöngumiðstöð landsins alls árið 2024.  Enginn þarf heldur að velkjast í vafa um, að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni á hauk í horni, þar sem er núverandi samgönguráðherra, Jón Gunnarsson, enda hefur hann hvatt til byggingar nýrrar flugstöðvar við Reykjavíkurflugvöll. 

Ef sams konar meirihluti og nú er í borgarstjórninni, nær völdum í Stjórnarráðinu eftir næstu Alþingiskosningar, verður sótt að starfsemi flugvallarins úr tveimur áttum, gerð að honum tangarsókn, og kraftaverk þarf þá til að bjarga honum úr þeirri kló.  Þetta ættu þeir, sem annt er um áframhald flugvallarstarfsemi í Vatnsmýrinni að hafa ofarlega í huga, þegar þeir ganga að kjörborðinu 28. október 2017, hvar sem er á landinu.  

Flugvöllur verður aldrei byggður í Hvassahrauni.  Staðsetning innanlands- og varaflugvallar þar er glórulaus af tveimur ástæðum.  Önnur er sú, að umrætt flugvallarstæði er á vatnsverndarsvæði Suðurnesjamanna, og hin er sú, að það er á virku jarðeldasvæði. Um fyrra atriðið sagði Ólafur Þór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Sandgerðis og formaður Svæðisskipulags Suðurnesja í viðtali við Baldur Arnarson, sem birtist í baksviðsgrein hans í Morgunblaðinu, 27. maí 2017,

"Flugvöllur gæti ógnað vatnsbóli í Hvassahrauni":

"Það eru skilgreind vatnsverndarsvæði í Svæðisskipulagi Suðurnesja.  Hvassahraunið liggur á vatnsverndarsvæði á svo kölluðu fjarsvæði vatnsverndar.  Það eru takmarkanir á því, hvers konar starfsemi má fara fram á vatnsverndarsvæði.  Væntanlega þyrfti skipulagsbreytingar, ef eitthvað ætti að hreyfa það svæði."

Það er alveg áreiðanlegt, að flugvallarstarfsemi og vatnsverndarsvæði, nær eða fjær, fara ekki saman.  Það er alltof mikil mengunaráhætta á byggingartíma og á rekstrartíma flugvalla til að mótvægisaðgerðir geti lækkað áhættuna niður fyrir ásættanleg mörk. 

Það er stórfurðulegt, að tillaga um jafnilla reifaða hugmynd skyldi koma frá "Rögnunefndinni" á sinni tíð og að slíkt skyldi flögra að meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur, því að flokksfélagar þar á bæ eru stöðugt með náttúruvernd á vörunum í öðru samhengi, þar sem hún þó orkar mjög tvímælis m.t.t. hagsmuna, sem víða eru af náttúruauðlindanýtingu. Hugmyndir vinstri grænna um umhverfisvernd eru greinilega afstæðar. Þar sem flugvöllurinn í Vatnsmýrinni þjónar ágætlega sínu hlutverki fyrir landið allt með þremur flugbrautum, er engin brýn þörf á að leggja út í áhættusamt og rándýrt verkefni í Hvassahrauni.  

Það er fullkomlega fráleitt, í ljósi eftirfarandi ummæla Ólafs Þórs, að eyða meira púðri á Hvassahraun sem flugvallarstæði:

"Fyrir utan að grunnvatnsstraumar, sem liggja undan Reykjanesinu og til vesturs, renna allir eftir þessum leiðum [áhrifasvæði flugvallar - innsk. BJo]. Heilbrigðiseftirlitið segir, að á fjarsvæðum skuli gæta fyllstu varúðar í meðferð efna.   Stærri geymsluhylki eru t.d. bönnuð á slíku svæði.  Síðan getur Heilbrigðisnefnd Suðurnesja gefið frekari fyrirmæli um takmarkanir á umferð og byggingu mannvirkja á slíku svæði."  

Það þarf enginn að velkjast í vafa um það eftir þennan lestur, að flugvöllur verður aldrei leyfður í Hvassahrauni.  Þeir, sem halda því fram, að Hvassahraun sé raunhæfur kostur fyrir flugvöll, eru annað hvort einfeldningar eða blekkingameistarar.  

"Allt neyzluvatn á Suðurnesjum rennur þarna undir [flugvallarstæðið], og við hér suður frá hljótum að fara vandlega yfir það, hvaða mannvirki geta risið á slíku svæði.  Þá, hvort sem það er sveitarfélagið Vogar, sem hefur skipulagsvaldið, eða við hjá Samtökum sveitarfélaga á Suðurnesjum um svæðisskipulagið."

Drykkjarhæft vatn beint úr náttúrunni hefur verið nefnt "olía 21. aldarinnar".  Nú þegar er tæplega 60 % meiri spurn eftir henni en framboð á markaði, og með loftslagsbreytingum, fjölgun mannkyns og vaxandi kaupmætti þorra fólks í heiminum er líklegt, að eftirspurnin vaxi mikið á næstu áratugum.  Til Íslands gætu siglt risatankskip til að sækja vatn á verði, sem gæti verið um 1 kUSD/t til seljanda hérlendis.  Með þeim hætti yrðu Íslendingar "olíusjeikar norðursins" á 21. öld. 

Á Suðurnesjum er neyzluvatnið tandurhreint, síað í gegnum hraunlög.  Það er makalaust, að nokkur skuli halda því til streitu nú með þessar upplýsingar í höndunum að flytja Vatnsmýrarvöllinn suður í Hvassahraun, en vinstri grænir, samfylkingar og píratar standa enn á því fastar en fótunum og þrengja stöðugt að flugvellinum með lóðaskipulagningu og lóðaúthlutun.  Þar með sannast, að hugtakið náttúruvernd er ekki hugsjón þeirra, heldur yfirvarp til að breiða yfir "óhreinu börnin hennar Evu", forræðishyggju og ríkisrekna einokun, sem á ekki upp á pallborðið hjá mörgum, hvorki hérlendis né annars staðar.  

Á fundi borgarstjórnar 19. september 2017 var til umræðu skýrsla Þorgeirs Pálssonar, fyrrverandi flugmálastjóra og kennara blekbónda í stærðfræði Laplace við Verkfræðideild HÍ, um hlutverk Reykjavíkurflugvallar í öryggiskerfi landsins.  Þar kemur fram, að Vatnsmýrarvöllurinn hefur þjónað öryggishlutverki sínu afar vel og að nauðsynlegt er, að á SV-horni landsins séu hið minnsta 2 flugvellir.   Þar með hefur ábyrgðarleysi vinstri grænna, samfylkinga og pírata gagnvart flugfarþegum og flugáhöfnum verið afhjúpað, því að þessir blindingjar berjast um á hæl og hnakka til að fá Reykjavíkurflugvelli lokað árið 2024, hvað sem flugvelli í Hvassahrauni líður.  Þetta vinstra lið vinnur þannig að gríðarlegri sóun skattfjár og spilar rússneska rúllettu með líf og limi flugfarþega og áhafna, svo að ekki sé nú minnzt á bráðveika sjúklinga.  Er hægt sökkva öllu dýpra í pólitíska eymd ? 

Hvernig halda menn, að verði fyrir velunnara flugvallarins að halda merkjum hans á lofti, ef vinstri grænir munu ráða ferðinni í Stjórnarráðinu og í Ráðhúsinu við Reykjavíkurtjörn á sama tíma ?

Njáll Trausti Friðbertsson, Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins fyrir NA-kjördæmi og flugumferðarstjóri, hefur kynnt sér lokunarmál Neyðarflugbrautarinnar, 06/24, rækilega, og bent á faglega veikleika ferlisins, sem leiddi til lokunar flugbrautarinnar, sem séu svo alvarlegir, að lokun brautarinnar sé í raun ólögmæt.  Njáll Trausti sat í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis á síðasta kjörtímabili.  Þessi nefnd hefur óskað eftir því, að gerð verði stjórnsýsluúttekt á aðdraganda þess, að Neyðarbrautinni var lokað eftir dóm Hæstaréttar í máli nr 268/2016. Ekki var vanþörf á því.

Áhættugreiningin fyrir Reykjavíkurflugvöll, sem lokun Neyðarbrautarinnar var reist á, hefur verið harðlega gagnrýnd af Félagi íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) og öryggisnefnd félagsins (ÖFÍA).  Gagnrýnin er reist á faglegum rökum, þar sem sýnt er fram á, að útreikningur nothæfisstuðuls flugvallarins án Neyðarbrautarinnar gefi of háa niðurstöðu í téðri áhættugreiningu, og þar af leiðandi sé óverjandi að loka neyðarbrautinni út frá öryggissjónarmiðum.  Ef starfrækja á Reykjavíkurflugvöll sem miðstöð innanlandsflugs, sjúkraflugs, kennsluflugs og sem neyðarflugvöll fyrir millilandaflugið, verður hann að hafa 3 flugbrautir áfram.  

Í baksviðsgrein Baldurs Arnarsonar í Morgunblaðinu 5. júlí 2017, Flugvallarmálið sé rannsakað, segir um þátt Samgöngustofu í þessu máli:

"Þá segir Njáll Trausti, að nefndin telji rétt, að úttektin nái til umsagnar Samgöngustofu um áhættumat Isavia vegna lokunar á Neyðarbrautinni.  Í umsögn Samgöngustofu komi m.a. fram, að áhættumatið nái ekki til áhrifa á flugvallakerfið í landinu í heild sinni né til neyðarskipulags Almannavarna eða áhrifa á sjúkraflutninga.  Þá nái það ekki til fjárhagslegra áhrifa á flugrekstur.  Jafnframt hafi Samgöngustofa rifjað upp, að gera þurfi sérstakt áhættumat, komi til þess, að Neyðarbrautinni verði lokað.  Í ljósi þessa telji nefndin spurningar vakna um, hvort íslenzka ríkið hafi aflað sér gagna eða unnið gögn, sem snúa að umræddum öryggishagsmunum.  Skoða þurfi stjórnvaldsákvarðanir í þessu ferli."

Það hefur verið skoðun blekbónda, að hrapað hafi verið að lokun flugbrautar 06/24, og Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis virðist að meirihluta til vera sama sinnis.  Vonandi leiðir úttekt Ríkisendurskoðunar til þess, að flugbrautin verði opnuð á ný, enda muni Reykjavíkurflugvöllur gegna mikilvægu hlutverki fyrir flugsamgöngur landsins um ófyrirsjáanlega framtíð.  

Það getur verið fróðlegt að bera saman gerðir annarra þjóða í málum af svipuðu tagi.  London City Airport er ekki á förum, þótt á döfinni hafi verið að bæta við einni flugbraut á Heathrow. Í Berlín er enn verið að byggja nýjan flugvöll.  Hvorki tíma- né kostnaðaráætlanir fyrir nýja Berlínarflugvöllinn hafa staðizt og skeikar þar miklu.  Hæðast Suður-Þjóðverjar að hrakförum þessa verkefnis Prússanna, þótt þeim sé ekki hlátur í hug vegna mikilla tafa og kostnaðar við þennan nýja þjóðarflugvöll. Berlínarbúar voru nýlega spurðir, hvort þeir mundu vilja leggja niður hinn sögugræga Tempelhof flugvöll í Berlín, þegar hinn loksins kæmist í notkun.  Það vildu þeir ekki, heldur vilja þeir halda starfrækslu gamla Tempelhofs áfram.  

Njáll Trausti sagði í viðtalinu eftirfarandi um landsölu ríkisins eftir téðan Hæstaréttardóm:

"Við teljum rétt, að úttektin nái til þess, hvort eðlilega hafi verið staðið að sölu lands í eigu ríkisins m.t.t. þeirra nýju upplýsinga, sem komið hafa fram á undanförnum vikum, að flugbraut 06/24 hafi ekki verið varanlega lokað síðast liðið sumar, heldur hafi verið um tímabundna lokun að ræða, enda hafi samþykki Samgöngustofu um lokun ekki legið fyrir."

Þétting byggðar í Vatnsmýri er vanhugsuð út frá umhverfisverndarsjónarmiðum og af umferðartæknilegum ástæðum.  Það er eins og strútar ráði ferðinni í skipulagsmálum borgarinnar, sem stinga bara hausnum í sandinn, þegar þeim er bent á, að aðeins lítið brot af væntanlegum íbúum í þessu dýra hverfi mun nota almenningssamgöngutæki, reiðhjól eða tvo jafnfljóta, til að komast leiðar sinnar.  Þetta er eftir öðru í sýndarveruleika sossanna.

 


Haltrandi rafvæðing

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að Landsnet er á eftir tímaáætlunum sínum um uppbyggingu raforkuflutningskerfis landsins.  Fyrir vikið er 132 kV flutningskerfið oflestað (Byggðalínuhringurinn), og viðskiptavinir fyrirtækisins, dreifiveitur og endanlegir rafmagnsnotendur líða fyrir þessa stöðu.  Þetta hefur komið niður á atvinnuþróun í landinu, t.d. í Eyjafirði, og hefur tafið rafkatlavæðingu fiskimjölsverksmiðja. Málið er í öngstræti og þarfnast atbeina stjórnmálamanna til að uppræta það samfélagslega tjón, sem af þessu hlýzt.

 Ástandið verður verra með hverju árinu, sem líður, og kerfið er orðið mjög veikt, þegar það annar ekki toppálagi og hrynur við eina truflun á kerfinu, sem orðið getur fyrirvaralaust vegna atburða í rekstri stórra iðnfyrirtækja, eins og dæmin sanna, eða vegna veðurs.  Til að afnema flöskuhálsana, verður að veita áætlunum fyrirtækisins brautargengi strax, enda eru framkvæmdir þess afturkræfar, ef seinni kynslóðir sætta sig ekki við mannvirkin.

Nú eru stjórnarskipti framundan og samkvæmt skoðanakönnunum frá því síðla í september 2017 verður Vinstri hreyfingin grænt framboð forystuafl innan næstu ríkisstjórnar.  Vegna hefðbundinnar andstöðu þessa stjórnmálaflokks við nýjar virkjanir og flutningslínur blæs ekki byrlega fyrir raforkumálum landsins næstu árin.  Landið, sérstaklega landsbyggðin, má ekki við frekari stöðnun á þessu sviði.  Hér er um að ræða stórfellt hagsmunamál byggðanna.  Það skyldu landsbyggðarmenn hafa ríkulega í huga, þegar þeir ganga að kjörborðinu 28. október 2017.

Það blasir við, að flokkur, sem í orði kveðnu styður hröð orkuskipti, leggur í raun stein í götu þeirra með andstöðu sinni við nýjar virkjanir og styrkingu flutningskerfisins.  Það er fráleitt, sem t.d. Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, hefur haldið opinberlega fram, að rafbílavæðing jafngildi aðeins 1-2 % aukningu raforkunotkunar í landinu.  Gnýr Guðmundsson, rafmagnsverkfræðingur, hefur komizt að þeirri niðurstöðu í lokaritgerð sinni til meistaraprófs í rafmagnsverkfræði vorið 2017, að árið 2030 verði rafmagnsþörf rafmagnsfartækja á vegum landsins 769 GWh (rúmlega 4 % af núverandi notkun) og aflþörfin 172 MW (rúmlega 8 % af núverandi meðalafli) og að á árinu 2040 verði þessar tölur 1276 GWh (tæplega 7 %) og 324 MW (rúmlega 15 %).  Við þetta má bæta 62 MW árið 2030 vegna rafvæðingar fiskimjölsverksmiðja, yfir 100 MW vegna rafvæðingar hafnanna og 87 MW vegna aukningar almennrar notkunar árið 2030 frá 2016, alls a.m.k. 420 MW (20 %) viðbótar aflþörf án stóriðju árið 2030. Að stinga hausnum í sandinn gagnvart þessum staðreyndum jafngildir því að grafa undan orkuskiptunum. Það er þó "system í galskapet" hjá vinstri grænum, því að þeirra háttur er einmitt að stinga hausnum í sandinn, þegar raunveruleikinn knýr dyra í gerviveröld þeirra.

Ef orkuskiptin eiga að verða barn í brók, verður þegar í stað að hefja undirbúning að orkuöflun og orkuflutningi fyrir þau.  Treysta menn Vinstri hreyfingunni grænu framboði til að hafa forystu um þessi mál ?  Ef sú forysta á að verða öðru vísi en í skötulíki, verður sá flokkur að söðla um, og það eru litlar líkur á, að hugmyndafræðilega gaddfreðnir tréhestar sjái þörf á því eða geti það yfirleitt.

Það má gera því skóna, að kínversk stjórnvöld ætli að leiða Kína til forystu á mörgum tæknisviðum og í heimsviðskiptum og -stjórnmálum, en þau eru ekki gaddfreðnir tréhestar, þótt þau aðhyllist sína eigin útgáfu af kommúnisma. Í Kína er nú stærsti rafbílamarkaður heims, og stjórnvöld í Peking áforma að banna sölu á nýjum bílum, sem einvörðungu eru knúnir jarðefnaeldsneyti, til að draga úr mengun í kínverskum borgum, sem fyrir löngu er orðin háskaleg heilsu manna.  Norðmenn eru að íhuga að setja á slíkt bann hjá sér árið 2025 og Frakkar og Bretar 2040. Við hérlendis höfum gullin tækifæri í þessum efnum vegna endurnýjanlegrar og mengunarlítillar raforkuvinnslu og verðum að taka þessi mál föstum tökum, ef við eigum ekki að verða eftirbátar annarra á þessu sviði.  Er vinstri grænum treystandi til forystu í þessum efnum ?  Stefna þeirra og málflutningur bendir í aðra átt. Þetta og önnur innviðauppbygging mun sitja á hakanum, því að öllum viðbótar skatttekjum mun verða sóað í rekstur, sbr loforðaflaum upp á 200 miaISK/ár.  

Nú eru framleiddar um 1,2 M rafbíla á ári í heiminum, en árið 2025 er búizt við, að fjöldi þeirra hafi a.m.k. tífaldazt í 12 M og nemi þá um 10 % markaðarins.  Á Íslandi gengur rafbílavæðing óþarflega hægt, og er það vegna vanburðugrar hleðsluaðstöðu. Það er átaks þörf við fjölbýlishús og gististaði. 

Um 46 % nýrra bíla fara til bílaleiganna, og þær telja sér enn ekki fært að rafvæða flota sinn af ofangreindum orsökum.  Hlutfall tengiltvinnbíla og alrafbíla af heildarsölu nýrra bíla er þess vegna aðeins 9,0 % í ár, þótt hlutfallið til almennra nota sé 16,6 %.  Það væri ráð til að hraða þessari þróun að forgangsraða uppsetningu hleðslustöðva í samráði við samtök bílaleiganna.

Hafnir landsins hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til eflingar rafkerfis síns fyrir landtengingu allra skipa í höfn, þ.á.m. skemmtiferðaskipa.  Þar af leiðandi þarf ríkissjóður að efla orkusjóð, svo að hann geti veitt höfnunum styrki til að fara af stað með hönnun og háspennulagnir í samvinnu við dreifiveiturnar. Ríkissjóður mun síðan fá til baka virðisaukaskatt af raforkusölunni.     

  

 


Landshlutahagsmunir og fiskeldi

Samkvæmt athugunum bandarískra fræðimanna (Fiskifréttir 14.09.2017) er fræðilega mögulegt að ala 15 mia t (milljarða tonna) af fiski í heimshöfunum.  Þetta er 100 falt núverandi eldi, svo að nægt próteinframboð á að verða í framtíðinni fyrir vaxandi mannkyn að því tilskildu, að höfin verði ekki of menguð fyrir allt þetta eldi.  Það horfir óbjörgulega með höfin núna, t.d. vegna plastagna, sem sleppt er í gegnum síur fráveitukerfa út í hafið, og vegna plasts á reki í höfunum, og brotnar þar niður.  Plast í vefjum líkama dýra og manna er þeim hættulegt. Íslenzk heilbrigðis- og umhverfisverndaryfirvöld eru svo aftarlega á merinni, að þau hafa ekki hugmynd um, hvort þetta er vandamál í hafinu við Ísland eða í íslenzkum vatnsveitum.  Þau hafa sofið á verðinum og ekki í fyrsta sinn. 

Að færa út kvíarnar frá landeldi og strandeldi til opinna hafsvæða er mögulegt vegna hönnunar öflugra sjókvía, sem reist er á hönnun olíuborpalla og olíuvinnslupalla.  Norðmenn eru þar í fararbroddi, og á þessu ári munu þeir koma fyrir fyrstu eldiskvíum þessarar gerðar á norsku hafsvæði.  Strandeldi þeirra við Noreg hefur framleiðslugetu um 1,3 Mt/ár (M=milljón) af laxi, en stjórnvöld áforma tvöföldun á næstu 10 árum og fimmföldun, þegar full tök hafa náðst á starfseminni.  Aukningin verður langmest í hafeldinu. 

Þá er ekki útilokað, að íslenzk stjórnvöld muni heimila slíkt hafeldi við Ísland, þegar strandeldið hefur náð viðurkenndum burðarþolsmörkum, sem nú er aðeins 71 kt/ár (k=þúsund).  Þetta kann að aukast í tímans ráð, og framleiðslan að ná 100 kt/ár árið 2040 með eldi í landkerum líka. Það verður áhugavert fyrir hérlandsmenn að fylgjast með hinu nýja hafeldi Norðmanna, arðsemi þess og rekstrarlegu öryggi, t.d. meðal strokhlutfalli á ári úr kvíunum.

Með núverandi burðarþolsmati var Austfirðingum úthlutað 21 kt laxeldis og Vestfirðingum 50 kt.  Einkum var lágt burðarþolsmat fyrir Austfirði gagnrýnt og þótti hæpið, að suðurfirðirnir, t.d. Berufjörður, þyldu ekki meira en metið var.  Á Austfjörðum er atvinnuástand gott og fjölbreytilega atvinnu að finna, sem tengist landbúnaði, sjávarútvegi, ferðaþjónustu, samgöngum og iðnaði.  Svo er t.d. kjölfestufyrirtækinu í fjórðunginum, Fjarðaáli á Reyðarfirði, fyrir að þakka. 

Því fer fjarri, að jafnöflugt atvinnulíf sé fyrir hendi á Vestfjörðum.  Af þessum sökum ríður Vestfirðingum á, að eldisfyrirtæki, sem sótt hafa um starfsleyfi, fái þau sem fyrst.  Þar er stærsti hængurinn á, að Hafrannsóknarstofnun telur ekki þorandi að hefja starfsleyfisúthlutanir í Ísafjarðardjúpi og á Jökulfjörðum.  

Hvers vegna er þetta ekki réttlætanleg niðurstaða Setjum sem svo, að sú málamiðlun verði gerð sökum hagsmunaárekstra, við t.d. ferðaþjónustu, að leyfa ekki starfrækslu eldiskvía í Jökulfjörðum.  Þá standa eftir um 25 kt í Ísafjarðardjúpi samkvæmt núverandi burðarþolsmati.  Í ljósi þess, að árin 2016-2017 hefur ekki verið tilkynnt um neitt strok úr laxeldiskvíum á Vestfjörðum og enginn eldislax hefur veiðzt þar, sem ætla megi, að sloppið hafi á þessu tímabili, má álykta, að gjörbylting til hins betra hafi orðið í rekstri laxeldiskvíanna með nýrri hönnun þeirra og vinnu við þau samkvæmt ströngum norskum staðli.  

Ef gert er ráð fyrir meðalfjölda eldislaxa í kvíum í Ísafjarðardjúpi 10 M m.v. 25 kt og hámarks leyfilega blöndun 4 % við villta stofna þar í ám, þá verður hámarks leyfilegt sleppihlutfall úr kvíunum og upp í árnar 4 ppm/ár.  Það eru meiri líkur en minni á, að laxeldisfyrirtækin á Vestfjörðum hafi þegar náð þessu, og rekstraröryggið mun bara vaxa með tímanum.  

Það er almennur vilji fyrir því á Vestfjörðum, að strax verði veitt starfsleyfi í Ísafjarðardjúpi upp að burðarþolsmörkum. Til marks um það var samþykkt fjölsótts fundar á vegum Fjórðungssambands Vestfjarða 24. september 2017 með 4 ráðherrum um að leyfa laxeldi í Ísafjarðardjúpi.  Í ljósi atvinnumála á norðanverðum Vestfjörðum er nú rétt að snúa við slagorði vinstri grænna og taka ákvörðun á grundvelli mikils rekstraröryggis strandkvíanna og þeirrar afstöðu "að leyfa íbúunum (homo sapiens) að njóta vafans".

Hvað gæti í versta tilviki tapazt ?  

Ekki líffræðileg fjölbreytni, því að ólíkt laxastofnunum á Suðurfjörðunum eru laxarnir í ánum, sem renna út í Ísafjarðardjúp, ekki af gamalgrónum vestfirzkum stofnum, mynda ekki sjálfstæðan erfðahóp, heldur hafa verið ræktaðir tiltölulega nýlega í ánum.  Það verður þar af leiðandi enginn óafturkræfur erfðafræðilegur missir, þótt meira en 4 % laxanna í ánum verði eldislaxar.

Á Suðurfjörðunum hefur þetta (eldislaxar í ám > 4 % af villtum löxum) að líkindum gerzt á fyrri árum í einhverjum tilvikum, en það hefur samt ekki verið sýnt fram á skaðlegar erfðabreytingar eða úrkynjun laxastofnanna þar, sem eru hins vegar upprunalegir og mynda sjálfstæðan erfðahóp.  Eldislaxinn hefur blandazt urriða þar, en afkvæmin eru ófrjó.

Nú hefur Arnarlax starfsleyfi fyrir 14,5 kt af laxi í Patreksfirði, Tálknafirði og Arnarfirði og hefur sótt um leyfi fyrir 10 kt í Ísafjarðardjúpi og sama í Jökulfjörðum.  Það verður að gæta samræmis við áhættumatið og nýta nýjustu gögn hvers tíma. 

Það eru gríðarlegir hagsmunir í húfi á Vestfjörðum, og þess vegna er ekki verjanlegt að draga lappirnar að óþörfu.  KPMG metur það svo, að á Vestfjörðum verði til 16 ný störf fyrir hvert framleitt kt.  Ef leyft verður að hafa 25 kt í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi, eins og eðlilegt má telja, e.t.v. í áföngum, þá munu verða til 400 ný störf á Vestfjörðum (um 13 % aukning) og allt að 150 ný störf annars staðar á landinu (samkvæmt norskum rannsóknum verða til alls 22 ný störf per kt laxeldis). 

Samkvæmt KPMG mun veltan nema 57,5 MISK/starf, en betri mælikvarði er verðmætasköpunin sjálf, sem styður við hagvöxtinn í landinu.  Samkvæmt norskum rannsóknum nemur hún 2,7 MNOK/starf eða 37 MISK/starf. Þetta gefur tæplega 15 miaISK/ár aukna verðmætasköpun á Vestfjörðum og gæti aukið verga landsframleiðslu Íslands um tæplega 1 %, svo að hér er um hagsmunamál landsins alls að ræða.  

Vestfirðingar hafa mátt búa við þá slæmu stöðu áður en fiskeldið kom til skjalanna, að íbúum í landshlutanum hefur fækkað.  Ef stjórnvöld setja ekki óþarfar hömlur á vöxt og viðgang laxeldisins upp að metnu burðarþoli fjarðanna, þá mun fólksfækkun verða snúið í fólksfjölgun, svo að árið 2040 gæti hafa orðið 5000 manna fjölgun þar eða 100 %. Þótt þessi jákvæða þróun Vestfjarða verði knúin áfram af einkaframtakinu, eins og eðlilegt er, setja stjórnvöld starfseminni umgjörð með leyfisveitingum og innviðauppbyggingu og geta hæglega kastað skít í tannhjólin.  Þetta ættu Vestfirðingar að hafa ofarlega í huga, þegar þeir ganga að kjörborðinu 28. október 2017, og huga að því, hvaða stjórnmálaflokkur er líklegastur til að styðja við bakið á þeim í þeirri merkilegu atvinnu- og þyggðaþróun, sem getur nú verið framundan á Vestfjörðum.  

Til þess að tækifærin verði nýtanleg, verða stjórnvöld nefnilega að hjálpa til við uppbyggingu nauðsynlegra innviða.  Þau mega ekki leggja stein í götu Hvalárvirkjunar, og þau verða að flýta áætlunum Landsnets um að reisa aðveitustöð á Nauteyri, sem verður lykillinn að langþráðri hringtengingu Vestfjarða um Ísafjörð og aðveitustöð Mjólká á traustu 132 kV/66 kV flutningskerfi.

Upphleyptur og klæddur vegur á láglendi frá Ísafirði suður til Patreksfjarðar og þaðan austur í Þorskafjörð er annað skilyrði fyrir því, að mannlífið fái að blómstra með þessum hætti á Vestfjörðum, sbr slagorðið: "Ísland allt blómstri".  Af því, sem fram kemur hér að ofan, yrðu fjárveitingar ríkissjóðs til þessara verkefna þjóðhagslega arðbærar, og ber að einhenda sér í þær tafarlaust.  

Hvaða stjórnmálaflokkum er trúandi fyrir þessu verkefni ? 

Alls ekki vinstri grænum, af því að þessi atvinnuuppbygging stríðir gegn grundvallar stefnu þeirra í atvinnumálum, þar sem hér er um beinar erlendar fjárfestingar að ræða og aukna nýtingu á náttúruauðlindum öðru vísi en með tronti ferðamanna um landið.  (Undantekning við stefnu VG er ráðstöfun ríkisins vegna PCC-kísilversins á Bakka.) Alræmt og heimskulegt slagorð þeirra, "látum náttúruna njóta vafans", getur bæði beinzt gegn auknu laxeldi og nýjum vatnsaflsvirkjunum á borð við Hvalárvirkjun.  Vinstri grænum er ekki treystandi til að styðja nein atvinnutengd framfaramál, sem tengjast náttúruauðlindum.  Þeirra hjartans mál er stofnun þjóðgarða með ærnum kostnaði fyrir ríkissjóð, og mundu þeir áreiðanlega gjarna vilja breyta Vestfjörðum í einn samfelldan þjóðgarð, þar sem íbúarnir væru hluti af verndaðri náttúru svæðisins.  Þetta vilja íbúarnir einmitt alls ekki, og skyldi engan undra.

Framsóknarflokkurinn verður vísast ekki til stórræðanna eftir kosningarnar 28. október 2017 og mun þurfa langan tíma til að sleikja sár sín, ef þau þá leiða hann ekki til ólífis. Hjaðningavígin á miðjunni verða henni vart til framdráttar. 

Píratar hafa engan áhuga fyrir atvinnumálum og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, enda nenna þeir ekki að ýja einni hugsun að þessum málum.  Frítt niðurhal af netinu og ný Stjórnarskrá eru þeirra mál.  Af fyrra málinu hafa þeir sjálfsagt margháttaða reynslu, en á seinna málinu hafa þeir ekkert vit, enda um margbrotið mál að ræða, sem stjórnlagafræðingar þurfa að véla um. Það er hins vegar hægt endalaust að túðra af takmarkaðri þekkingu um flókið og fjarlægt mál eins og nýja Stjórnarskrá.   

Um aðra flokka þarf varla að véla og lítið vitað um.  Afl þeirra verður annaðhvort ekkert eða sáralítið á Alþingi, ef svo fer fram sem horfir.  Dreifbýlisfólk má ekki við því að dreifa kröftunum um of eina ferðina enn.  

 

 


Mikilvæg fundarsókn á Ísafirði

Sunnudaginn 24. september 2017 var haldinn fjölsóttur fundur á Ísafirði um lífshagsmuni Vestfirðinga.  Athygli vakti, að 4 ráðherrar sóttu fundinn.  Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var þar, en hún hefur reynzt hagsmunum Vestfirðinga hinn versti dragbítur, kallað stöðu fiskeldismála á Vestfjörðum ítrekað "villta vestrið" og reynt að troða upp á þá steinbarni sínu, sem er uppboð á starfsleyfum laxeldis, þótt í samráðsnefnd ráðuneytisins með hagsmunaaðilum hafi verið sætzt á árlega greiðslu auðlindargjalds 6 árum frá fyrstu slátrun. Það er ofsköttun dauðans á eina atvinnugrein að beita báðum aðferðunum við að hafa fé af henni.   

Þá mætti eðlilega á fundinn þingmaður kjósenda í Norð-Vestur kjördæmi, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamaála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.  Vestfirðir eru að miklu leyti óplægður akur fyrir ferðaþjónustu, þótt þeir hafi upp á fjölmargt að bjóða í þeim efnum, bæði öðrum landsmönnum og útlendingum.  Þá stendur fyrir dyrum að umbylta raforkumálum Vestfirðinga, reisa hryggjarstykkið í framtíðar orkuöflun landshlutans, Hvalárvirkjun, sem tengja á aðveitustöð á Nauteyri í Ísafjarðardjúpi, en hún verður miðpunkturinn í hringtengingu Vestfjarða með 132 kV og 66 kV loftlínum, sæstrengjum og jarðstrengjum norðvestur til Ísafjarðarkaupstaðar og suðvestur til Mjólkárvirkjunar.  Þessar framkvæmdir ásamt styrkingu flutningskerfis og dreifikerfis Vestfjarða, Mjólkárveitu, munu færa raforkumál Vestfirðinga inn í nútímann, og er löngu kominn tími til. 

Þetta er í raun skilyrði fyrir uppbyggingu öflugs atvinnulífs og lífsnauðsynlegri fjölgun íbúa á Vestfjörðum.  Þó að virkjunaraðilinn sé ekki ríkisfyrirtæki, sem betur fer, og Landsnet ekki heldur, nema óbeint að hluta sem dótturfyrirtæki Landsvirkjunar o.fl., þá er stuðningur "Iðnaðarráðuneytisins" þó afar mikilvægur fyrir framgang þessa þjóðþrifamáls, þrífösunar sveitanna og orkuskiptanna.

Sjálfstæðisflokkurinn stendur nú frammi fyrir gullnu tækifæri í Norðurlandskjördæmi vestra að sameina öll borgaraleg öfl í kjördæminu vegna sundrungarinnar í Framsóknarflokkinum.  Sjálfstæðisflokkurinn er með háspil á hendi sem eini bakhjarl "litla atvinnurekandans", framkvæmdamannsins og frumkvöðulsins, hvort sem hann stundar landbúnað, sækir sjóinn, þjónustar ferðamenn eða stundar verktakastarfsemi fyrir Vegagerðina, Orkubúið eða Arnarlax, svo að eitthvað sé nefnt.  Sjálfstæðisflokkurinn styður framfarasókn Vestfirðinga í atvinnumálum, orkumálum og samgöngumálum afdráttarlaust.  

 Á téðan fund voru einnig mættir tveir aðrir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, báðir úr Kraganum.  Annar var samgöngu- og sveitarstjórnaráðherrann, Jón Gunnarsson,  og fór vel á því, af því að samgöngumál Vestfjarða hafa dregizt langt aftur úr öðrum héruðum og eru óviðunandi.  Heiðarvegirnir vestan Þorskafjarðar eru stórhættulegir, og malarslóðarnir þola ekki þungaumferð, sem fer þó vaxandi.  Það ríður á fyrir íbúana á Vestfjörðum og athafnalífið þar að fá almennilegan upphleyptan og klæddan veg á láglendi frá Þorskafirði til Patreksfjarðar og sömuleiðis varanlega tengingu frá Patreksfirði og alla leið norður í Ísafjarðardjúp. Áfangi í hinu síðar nefnda er þegar hafinn með Dýrafjarðargöngum.  Þau verða líka notuð fyrir jarðstrengi í stað loftlínu yfir illviðrasama heiði fyrir 60 kV tengingu til Önundarfjarðar. Dýrafjarðargöng munu bæta samgöngur og raforkukerfi Vestfjarða og verða atvinnulífi og mannlífi öllu lyftistöng. Samgönguráðherra hefur stutt þessa framkvæmd með ráðum og dáð.  

Síðastan en ekki síztan skal nefna forsætisráðherrann, Bjarna Benediktsson, sem 4. ráðherrann á téðum fundi.  Mæting hans á fundinn geta Vestfirðingar túlkað sem siðferðilegan og stjórnmálalegan stuðning Sjálfstæðisflokksins við þann réttmæta baráttuhug, sem nú hefur orðið til á meðal Vestfirðinga fyrir framgangi lífshagsmunamála þeirra, sem helzt hafa verið í sviðsljósinu að undanförnu á sviði orkumála, samgöngumála og atvinnumála.  Af öllum sólarmerkjum að dæma, málflutningi og sterkri viðveru ráðherra flokksins, mun Sjálfstæðisflokkurinn á komandi kjörtímabili beita öllu afli sínu, hvort sem hann verður í stjórn eða stjórnarandstöðu, til að jafna aðstöðu Vestfirðinga á við aðra landsmenn á öllum þessum sviðum.

Vestfirðingar skyldu nú í aðdraganda kosninganna 28. október 2017 gjalda alveg sérstaklega varhug við smjaðri þingmanna á borð við Lilju Rafneyju Magnúsdóttur.  Hún ber kápuna á báðum öxlum og er vís til að svíkja málstað Vestfirðinga á þingi, þegar kemur að atvinnumálum og orkumálum.  Hér skal tilfæra, hvers vegna:

  1. Eitt aðalslagorða Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs er "látum náttúruna njóta vafans".  Þetta sama skín í gegn um skýrslu Hafrannsóknarstofnunar sumarið 2017, þar sem lagt var til að veita ekki starfsleyfi til laxeldis í Ísafjarðardjúpi og í Jökulfjörðum að svo stöddu.  Ef málið kemur til kasta Alþingis, er þetta alveg nóg, til að vinstri grænir muni greiða atkvæði gegn starfsleyfisveitingu fyrir laxeldi í Ísafjarðardjúpi og í Jökulfjörðum.  
  2. Laxeldi á Vestfjörðum eflist nú fyrir tilstyrk beinna erlendra fjárfestinga, nánar tiltekið stórra norskra laxeldisfyrirtækja.  Eignarhald útlendinga á íslenzkum fyrirtækjum hefur alla tíð verið eitur í beinum vinstri grænna og forvera þeirra í Alþýðubandalaginu.  Þetta er viðbótar ástæða fyrir vinstri græna til að greiða á Alþingi atkvæði gegn veitingu starfsleyfa fyrir laxeldi í Ísafjarðardjúpi.  
  3. Vinstri hreyfingin grænt framboð er afturhaldsflokkur í atvinnumálum, sem hengir sig í forneskjulega fordóma og furðulegar kennisetningar, sem oftar en ekki stríða algerlega gegn hagsmunum almennings.  Þess vegna er þingmönnum flokksins engan veginn treystandi.
  4. Það er mikill andróður núna rekinn í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum gegn hagsmunum Vestfirðinga á raforkusviðinu.  Læknirinn, Tómas Guðbjartsson, hefur þar farið mikinn gegn Hvalárvirkjun, sem þó er nauðsynleg, til að Vestfirðingar verði sjálfum sér nógir með rafmagn, en öðru vísi verður afhendingaröryggi raforku ekki tryggt á Vestfjörðum með góðu móti, því að Vesturlínan er vangæf, einkum á vetrum.  Tómas hefur haldið því fram, að Vestfirðingar hafi ekkert með virkjun af þessari stærð að gera.  Það er kolrangt. Ef laxeldið fær að dafna á Vestfjörðum, eins og náttúrulegar og markaðslegar forsendur leyfa, gæti mannfjöldaaukning þar árið 2040 numið 5 k (k=þúsund).  Þessi viðbótar mannfjöldi þarf 20 MW afl; viðbótar aflþörf fiskeldis o.fl. verður þá 30 MW, repjuvinnsla fyrir fiskeldið gæti þurft 6 MW og orkuskipti við hafnir og í landumferð þarf 24 MW árið 2040.  Alls er þetta 80 MW aflþörf til viðbótar við núverandi 42 MW aflþörf, og á Vestfjörðum er aðeins 19 MW uppsett afl í sjálfbærum virkjunum. Það er þess vegna ekki vanþörf á 50 MW Hvalárvirkjun fyrir Vestfirði. Það er líklegt, að afturhaldsflokkurinn Vinstri hreyfingin grænt framboð, með litlu borgarstúlkuna með eldspýturnar í broddi fylkingar, leggist gegn Hvalárvirkjun með vísun til sams konar mannvistarfjandsamlegu klisju og Tómas Guðbjartsson um, "að náttúran verði að njóta vafans", en fólkið geti setið í myrkri og kulda, þegar verst gegnir, eða brennt olíu í 16 MW neyðarrafstöðvum á Vestfjörðum.  
  5. Um sorgarsögu undirbúnings vegagerðar vestan Þorskafjarðar skal ekki fjölyrða hér, en minna á, að það eru einmitt umhverfisverndarleg rök (verndun birkikvæmis), sem teflt er fram nú og tafið hefur Vegagerðina.  Af þessu sést, að Vestfirðingar væru að kaupa köttinn í sekknum, ef þeir kjósa vinstri græna, og vinstri grænir eiga ekkert traust skilið á Vestfjörðum. Lífshættir og athafnalíf á Vestfjörðum falla engan veginn að VG-101. Svipuðu máli gegnir um pírata í Norðurlandskjördæmi vestra.  Píratar eru pólitísk viðrini, ákvarðanafælnir með afbrigðum, enda að mestu samsafn firrtra borgarbarna með frítt niðurhal og nýja stjórnarskrá efst á stefnuskránni, sem enga samleið eiga með landsbyggðinni. Þeir hafa engan áhuga á atvinnumálum, en þeim mun meiri á borgaralaunum fyrir það eitt að vera til. Atkvæði greitt þeim, er atkvæði á glæ kastað.   

 

 


Lausbeizlaður ríkissjóður eða aðhaldsstefna

Formaður Sjálfstæðisflokksins lýsti því yfir á ræsfundi (kick-off meeting) kosningabaráttu flokksins á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu laugardaginn 23. september 2017, að hann vildi móta landinu nýja heilbrigðisstefnu, þar sem skilgreint væri, hver ætti að gera hvað, og þar með væri unnið samkvæmt markmiðum (management by objectives).  Hann lýsti því líka yfir, að hann vildi tvöfalda persónuafsláttinn upp í 100 kISK/mán á næsta kjörtímabili.  Það hefur komið fram, að umtalsvert meiri hækkun frítekjumarks yrði ríkissjóði mjög dýr.  Það er nauðsynlegt vegna jafnræðissjónarmiða, að þessi hækkun spanni allar tekjur, hvaða nafni sem þær nefnast.

Umsvif hins opinbera eru nú þegar mjög mikil á Íslandi og á meðal þess hæsta, sem gerist innan OECD. Það er ljóst, að forkólfar Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, Samfylgingar, Píratahreyfingarinnar og annarra, sem hækka vilja skattabyrðarnar enn meir, gera sér enga grein fyrir, hvað það þýðir að hafa skattheimtuna hér í hæstu hæðum.  Þau munu spenna bogann um of, þar til bogstrengurinn brestur. Landið er stórt og þjóðin fámenn, og þar af leiðandi er dýrt að halda hér uppi nútímaþjóðfélagi.  Það er þess vegna mjög auðvelt að fara offari á útgjaldahlið.  Öllu verra er, að þessir flokkar hafa ekki minnsta skilning á nauðsyn þess að afla fyrst og eyða svo, þ.e. fyrst að skapa aukin verðmæti í einkageiranum áður en hið opinbera tekur til við að útdeila gæðunum. Það er fyrirkvíðanlegt, að flokkar, sem nú virðast stefna í meirihluta á Alþingi, hafa nánast engan skilning á atvinnurekstri, heldur virðast frambjóðendur flestir  vera úr opinbera geiranum eða vinna fyrir hann.  Það kann ekki góðri lukku að stýra.

Það skín í gegn um allan málflutning Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, að fólk í þeim flokki hefur engan áhuga á skilvirkni í rekstri opinberra stofnana, hvorki m.t.t. þjónustugæða né kostnaðar, heldur er formið fyrir þeim aðalatriðið, þ.e.a.s. að að hið opinbera bæði kaupi þjónustuna og sjái um reksturinn.  Þetta heftir framþróun á viðkomandi sviðum, tefur fyrir tækniþróun, kemur í veg fyrir samkeppni og girðir fyrir aukna skilvirkni og bætt gæði, sem samkeppni tryggir.  Þetta er mjög slæmt fyrir starfsfólkið, því að það hefur þá aðeins einn vinnuveitanda á sínu fagsviði, sem er sjaldnast hollt fyrir starfsánægju og laun.  

Það virðist vera, að þeir, sem festast í þessu fari hinnar sívaxandi opinberu þjónustu, verði hallir undir þá stjórnmálaflokka, sem boða útþenslu ríkisbáknsins og sem mesta einokun.  Þetta er vítahringur, sem nauðsynlegt er að rjúfa, því að þetta rekstrarform er þjóðhagslega óhagkvæmt. 

Þegar nánar er að gætt, kemur í ljós, að opinberi geirinn hérlendis notfærir sér í minni mæli þjónustu einkaframtaksins en annars staðar tíðkast.  Þetta á við um báða stóru geirana, heilbrigðisgeirann og menntageirann.  Það hefur gefizt vel annars staðar, t.d. á hinum Norðurlöndunum, að úthýsa þjónustu til einkaaðila, t.d. á sviði heilsugæzlu og skóla.  Hið opinbera greiðir hið sama fyrir veitta þjónustu, óháð rekstrarformi, en rekstraraðilarnir keppa sín á milli um "viðskiptavini".  Þetta hefur gefizt vel á sviði heilsugæzlu hérlendis, þar sem einkareknar heilsugæzlustöðvar hafa reynzt vera vinsælar á meðal "viðskiptavina" og hafa staðið sig vel í samkeppninni.

Hér er sem sagt leið til að slá tvær flugur í einu höggi, bæta þjónustuna og halda kostnaðaraukningu við þjónustu hins opinbera í skefjum.  Hið sama er uppi á teninginum með sérfræðilæknana.  Þjónusta þeirra utan spítalanna er sjálfsögð og dregur úr álagi á yfirlestuð sjúkrahús.  Að leyfa einkareknum lækningasofum að stunda aðgerðir, sem krefjast legu í kjölfarið, ætti að vera sjálfsagt mál, ef öllum gæða- og kostnaðarkröfum hins opinbera er fullnægt.  

Að fordómafullir og í sumum tilvikum ofstækisfullir stjórnmálamenn nái að leggja stein í götu sjálfsagðrar frelsisþróunar í atvinnulegu tilliti, sem einnig sparar skattfé, er gjörsamlega ólíðandi, en nú stefnir í, að slíkir hafi sitt fram um skeið.  Það verður áreiðanlega ekki lengi, því að gallar kerfisins þeirra eru svo yfirþyrmandi, að það mun fljótlega ganga sér til húðar.  

 


Skýr og yfirvofandi hætta

Gekk ekki amerísk bíómynd hér fyrir allmörgum árum undir heitinu, "Clear and present danger" ?  Nú vofir yfir landsmönnum augljós hætta á, að við ríkisstjórnarborðið muni bráðlega eftir Alþingiskosningar 28. október 2017 ríkja sams konar óstjórn og í Ráðhúsi Reykjavíkur.  Munurinn verður sá einn, að í Ráðhúsinu er Samfylkingarmaðurinn Dagur B. Eggertsson í oddvitasætinu, en við enda ríkisstjórnarborðsins mun sitja "litla stúlkan með eldspýturnar", Katrín Jakobsdóttir, ef fer fram sem horfir. Ef kjósendur fá henni eldfæri í hendurnar, þá mun hún setja púðurtunnu undir ríkiskassann og kveikja í öllu saman.  Þetta sést af tillögum vinstri grænna um hrikalegar útgjaldahækkanir ríkissjóðs tímabilið 2018-2022. 

Reykjavík stefnir á að lenda í höndum fjárhagslegs tilsjónarmanns vegna skuldasöfnunar. Ekkert sýnir betur ábyrgðarleysi vinstri grænna, samfylkinga og pírata við meðferð annarra manna fjár. Með hliðsjón af tillögum VG við gerð fjárhagsáætlunar ríkisins í vor munu matsfyrirtækin neyðast til að lækka lánstraustsmatið á ríkissjóði, og Seðlabankinn mun sjá sig knúinn til að hamla gegn lausung ríkisfjármálanna með hækkun stýrivaxtanna.  Afleiðing lausungarinnar verður vaxtastökk á verðtryggðum og á óverðtryggðum lánum.  Að sukka er alltaf dýrkeypt, og aðalfórnarlömb vinstri vingulsháttarins verða þeir, sem sízt skyldi.

Þegar rúmlega 900 manns höfðu í skoðanakönnun, sem upplýst var um 23. september 2017, svarað efnislega, hvaða stjórnmálaflokk þau hygðust kjósa í komandi Alþingiskosningum og 30 % þeirra lýstu yfir stuðningi sínum við Vinstri hreyfinguna grænt framboð, þá var "litla stúlkan með eldspýturnar" strax tilbúin að stjórna íkveikju ríkissjóðs.  Hún lýsti því yfir, að hún vildi leiða vinstri stjórn, sem nyti meirihluta á Alþingi.  Fyrir hana er þó ekki sopið kálið, þótt í ausuna sé komið, því að það á eftir að renna upp fyrir mörgum, að hag þeirra verður verst komið undir vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur.  

Þegar ólánsferill vinstri stjórnarinnar 2009-2013 er hafður í huga og með hliðsjón af óstjórninni á öllum sviðum í Reykjavík, má gera því skóna, að vinstri grænka við stjórnvölinn í Stjórnarráðinu muni:

  1. gera fyrirtækjum landsins erfiðara fyrir með aukinni skattheimtu.  Nú er kólnun hagkerfisins hafin, sem þýðir minnkandi þörf á að fjölga starfsfólki.  Ef skattbyrði fyrirtækja verður á sama tíma aukin, þá munu þau flest neyðast til að fækka hjá sér starfsfólki.  Fyrirtækin verða að bregðast við með tvenns konar hætti:               Á sviðum takmarkaðrar samkeppni, verður kostnaðaraukningunni velt út í verðlagið, sem er ávísun á versnandi lífskjör almennings, því að verðbólga er næstversti óvinur launamannsins.  Annars neyðast fyrirtækin til að draga saman seglin og fækka starfsfólki, og atvinnuleysi er versti óvinur launamannsins.  Af þessu má draga þá ályktun, að skattbyrði fyrirtækjanna kemur harðlega niður á lífshagsmunum launþega.  Við kólnun hagkerfa ber að forðast "harða lendingu" með því að létta skattbyrðina.  Vinstri grænir eru í senn fúskarar á sviði hagfræði og gösslarar á sviði stjórnsýslu, því að þeir lifa í eigin veruleikafirrta heimi, þar sem kenningar Marx og Leníns eru öllu ofar.
  2. hækka beina skatta á einstaklinga með því að hækka skattheimtuna í núverandi hærra þrepi (46 %) og jafnvel með því að stofna til þriðja þrepsins þar fyrir ofan.  Leiða má þá hugann til frönsku sossanna, sem bjuggu til 75 % tekjuskattsþrep. Þetta mun hafa afar slæm áhrif á kjör ungs fólks, sem leggur mikið á sig í vinnu og er með há útgjöld vegna fjárfestinga og ómegðar.  Þetta bitnar líka hart á sérfræðingum, í mörgum tilvikum nýkomnum að utan með háa námsskuld á bakinu. Gæti leitt til gjaldþrota, ef hrun verður á húsnæðismarkaði vegna samdráttar í hagkerfinu. 
  3. valda gríðarlegu verðmætatjóni í samfélaginu og glötuðum tækifærum, þar sem nýsköpun stöðvast. Þegar hefur markaðsvirði fyrirtækja lækkað um a.m.k. miaISK 50 frá stjórnarslitum og tækifæri fara í súginn vegna færri og minni fjárfestinga.  Ísland verður ekki lengur jafnaðlaðandi til búsetu og áður fyrir unga og vel menntaða Íslendinga.  Að kasta frá sér gullnum tækifærum með óvissu og öngþveiti í stjórnmálum í stað stöðugra og örvandi stjórnarhátta fyrir atvinnulífið yrði þjóðarhneisa.
  4. setja innflytjendamálin í algert öngþveiti, þar sem þúsundir innflytjenda frá "öruggum" löndum lenda á framfæri ríkisins.  VG hefur á stefnuskrá sinni að taka árlega við 500 hælisleitendum.  Slíkt mun leiða til öngþveitis á Íslandi. Nægur er húsnæðisskorturinn fyrir og vöntun á fé í þarfari málaflokka.  Árlegur kostnaður hins opinbera af straumi fákunnandi fólks úr framandi umhverfi, oft í miðaldamyrkri múhameðstrúar, sem getur í fæstum tilvikum aðlagazt almennilega íslenzka þjóðfélaginu, gæti þrefaldazt m.v. núverandi kostnað og farið að nálgast miaISK 20.  Á þremur árum væri búið að sóa jafnvirði nýs Landsspítala með einfeldningshætti og trúgirni um glæpsamlegt eðli innflytjendastraumsins (mansal, smygl á fólki), sem kemur hart niður á alþýðu manna.  Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera eini flokkurinn á Alþingi með bein í nefinu til að stemma stigu við stjórnlausu innflæði fólks, sem er þungur baggi á öllu velferðarkerfinu. 
  5. vinna gegn öllum tilraunum til aukinnar samkeppni í opinbera geiranum. Vinstri stjórn mun grafa undan einkaframtaki á öllum sviðum, sem einfaldlega mun leiða til minna valfrelsis fyrir almenning, dýrari og verri þjónustu, sem einokun ætíð hefur í för með sér.  Góður árangur einkaframtaksins í opinberri þjónustu sást nýlega í heilsugæzlugeiranum á höfuðborgarsvæðinu, þar sem fólk flykktist til nýstofnaðrar einkarekinnar stöðvar, en flúði opinberar stöðvar.  Þjónusta batnar og kostnaður hins opinbera lækkar, þegar dauð stjórnsýsluhönd er tekin af mikilvægri, flókinni og viðkvæmri starfsemi.  (FRÚ kom með lygafrétt um kostnaðarhækkun hins opinbera í Svíþjóð vegna þjónustukaupa af heilbrigðisstarfsfólki í einkarekstri, eins og 2 læknar bentu á í aðsendri grein í Morgunblaðinu 05.10.2017.) Hugmyndafræði sósíalista yfirtrompar heilbrigða skynsemi í huga þeirra, þegar þeir komast til valda. Fólk er tilraunadýr í þjóðfélagstilraun sósíalista, sem alls staðar og alltaf hefur mistekizt, þar sem hún hefur verið reynd.  
  6. iðka leyndarhyggju sem aldrei fyrr.  Kommúnistar og arftakar þeirra, sósíalistar, hafa stundað það frá upphafi að ljúga eigin ávirðingum upp á pólitíska andstæðinga sína.  Þegar kemur að leyndarhyggjunni, kasta þeir heldur betur steinum úr glerhúsi.  Hver man ekki eftir leyndarmeðferðinni á fyrsta Icesave-samninginum, misheppnuðustu samningsniðurstöðu í þjóðarsögunni, þar sem sósíalistinn Svavar Gestsson stýrði för án þess að geta það.  Samningurinn var lokaður inni í herbergi í Alþingishúsinu, sem þingmenn höfðu aðgang að í einrúmi, og þessu óbermi átti að þröngva gegnum þingið svo að segja ólesnu.  Þetta var ekki aðeins hámark leyndarhyggjunnar, heldur nauðgun þingræðisins.  Sem betur fór sat þá forseti á Bessastöðum með nægt bein í nefinu og taugar til þjóðarinnar til að synja Icesave-ólögunum samþykkis, og eftirleikurinn er kunnur.
  7. skapa úlfuð um utanríkismálastefnu landsins.  Vinstri hreyfingin grænt framboð er andsnúin veru Íslands í varnarsamtökum vestrænna þjóða, NATO, og telja þau vera tímaskekkju, eftir að Varsjárbandalagið leið undir lok.  Vilja Íslendingar, að stjórnvöld sái fræjum efasemda um heilindi okkar í vestrænu öryggissamstarfi ?  Ekki nóg með þetta, heldur er Vinstri hreyfingin grænt framboð andsnúin fríverzlunarsamningum á milli ríkja, sem flestir hagfræðingar telja þó almenningi vera til hagsbóta.  Er skemmst að minnast fríverzlunarsamnings Íslands og Kína, sem gerður var undir handarjaðri Össurar Skarphéðinssonar, þáverandi utanríkisráðherra, í vinstri stjórninni 2009-2013.  Var VG á móti þessum samningi, eða er ekkert að marka stefnuskrá VG ?  Má þá ekki gera fríverzlunarsamning við Breta, þegar þeir ganga úr ESB ?  Þá veit nú enginn upp á hverju ný vinstri stjórn tæki gagnvart Evrópusambandinu.  Sú síðasta sendi inn formlega umsókn um aðildarviðræður, en lagði umsóknina á ís, þegar í ljós kom, að engar undanþágur voru í boði frá sameiginlegri fiskveiði- og landbúnaðarstefnu ESB, eins og Össur hafði þó alltaf haldið fram hér heima.  Þessi umsókn er enn ofan í skúffu í Berlaymont.  Mun ný vinstri stjórn blása í glæðurnar og gera okkur að athlægi, á sama tíma og aðalviðskiptaþjóð okkar er á leið út úr sambandinu ?  Utanríkismálin undir "leiðsögn" vinstri grænna, þar sem blindur leiðir haltan, gætu lent í algeru uppnámi og stórskaðað orðspor okkar.  

Verðmætasköpun og draumóramenn

Öll verðmætasköpun samfélagsins á sér stað í fyrirtækjum landsins.  Stjórnmálamenn, ríkisvald, embættismenn og sveitarstjórnir, sjá svo um að eyða jafngildi tæplega helmings vergrar landsframleiðslu af verðmætasköpun fyrirtækjanna. 

Skýjaglópar og harðsvíraðir vinstri menn virðast enga grein gera sér fyrir því, hvernig verðmæti verða til.  Verknaðir og umræður sýna þetta ljóslega.  Þeir slátra  mjólkurkúnni og éta útsæðið, ef þeir komast í aðstöðu til þess.  Þetta lá í augum uppi á dögum vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, og málflutningur ríkisstarfsmannsins, Tómasar Guðbjartssonar, læknis á Landsspítalanum, ber dálítið keim af blindu á það, hvernig verðmæti verða til, og þeirri rörsýn, að eitt útiloki annað, þegar mismunandi verðmætasköpun er annars vegar.  Þetta hefur einnig verið nefnt naumhyggja.  Sem dæmi þá finnast engin tilvik um það í heiminum, að vatnsaflsvirkjanir hafi haft neikvæð áhrif á ferðaþjónustu; þvert á móti, vatnsaflsvirkjanir hafa verið aðdráttarafl fyrir ferðamenn, enda hefur vegalagning fyrir virkjanir víða auðveldað ferðamönnum að komast leiðar sinnar. 

Tómas, læknir, skrifar enn eina tilfinningaþrungnu greinina í Fréttablaðið, 21. september 2017.  Ber þessi grein heitið:

"Þarfnast móðir náttúra umboðsmanns ?

Í greininni svarar ríkisstarfsmaðurinn spurningu sinni játandi; það sé þörf á að bæta í báknið og auka ríkisútgjöldin til þess eins að auka tvíverknað í kerfinu og skörun embætta.  Blekbóndi vill aftur á móti halda því fram, að fyrir sé meira en nóg af silkihúfum á ríkisjötunni, sem geri fátt gagnlegt til að létta landanum lífsbaráttuna, en verji of miklum tíma í að fægja á sér klærnar.  

Téð grein Tómasar hefst þannig:

"Það er flestum ljóst, sem fylgzt hafa með umræðunni um fyrirhugaða Hvalárvirkjun og stóriðju í Helguvík, að náttúra Íslands á undir högg að sækja.  Orkufyrirtæki og erlend stóriðja ásælast vatnsföll okkar og jarðhitasvæði til raforkuframleiðslu."

Hér er gamalkunnug klisja á ferð, fimmtug afturganga frá orðafari Einars, heitins, Olgeirssonar, kommúnistaforingja, í eldheitri umræðu á Alþingi um Búrfellsvirkjun og Alusuisse, fyrsta eiganda ISAL í Straumsvík.  Þá var málið samsæri erlends auðvalds og innlendrar borgarastéttar gegn verkalýð landsins um að ræna hann arðinum af orkulindunum á "hausaskeljastað". 

Þessi áróður læknisins er alger tímaskekkja, því að nú erum við reynslunni ríkari og vitum, að vatnsaflsvirkjanirnar mala alþýðu landsins gull og knýja fyrirmyndar vinnustaði, hvað aðbúnað starfsmanna, launakjör og mengunarvarnir snertir.  Svartagallsraus af þessu tagi sæmir illa háskólaborgara.  Honum væri nær að vara við mestu umhverfisvá nútímans, ferðamanninum, og taka upp baráttu til eflingar gróðurþekju lands með stærstu eyðimörk Evrópu.  Það gerir hann ekki; þvert á móti ráðleggur hann Vestfirðingum að hætta við Hvalárvirkjun, sem þó verður grundvöllur að uppbyggingu fjölbreytilegs atvinnulífs og orkuskiptum á Vestfjörðum, og einbeita sér að ferðaþjónustu.  Það hefur aldrei þótt ráðlegt að setja öll eggin í eina körfu.  Þetta er afleit ráðgjöf læknis í Reykjavík til Vestfirðinga.

"Nú eru á teikniborðinu 8 stórvirkjanir á Íslandi.  Þær eiga alls að framleiða 419 MW af orku (sic), sem að langmestu leyti (80 %) er hugsuð til stóriðju, ekki sízt kísilvera í Helguvík.  Þessar virkjanir kosta gríðarlegt fé, og arðsemi þeirra er umdeild, enda virðist hagnaður af starfseminni, sem þær þjóna, oft á tíðum færður með bókfærslubrögðum til útlanda."

Þessi málflutningur læknisins orkar tvímælis og þarfnast skoðunar:

Á Íslandi er það Verkefnisstjórn Rammaáætlunar, sem gerir tillögu til Alþingis um flokkun orkunýtingarkosta í nýtingu, bið eða vernd.  Samkvæmt gildandi Rammaáætlun eru 18 virkjanakostir í nýtingarflokki að aflgetu alls 1421 MW.  Þar af eru 6 virkjanir yfir 100 MW og mega e.t.v. kallast stórvirkjanir á íslenzkan mælikvarða.  Þær eru (JG=jarðgufa, VA=vatnsafl, VM=vindmyllur):

  • Kröfluvirkjun, JG, 150 MW
  • Austurengjar,  JG, 100 MW
  • Sandfell,      JG, 100 MW
  • Sveifluháls,   JG, 100 MW
  • Urriðafoss,    VA, 140 MW
  • Blöndulundur,  VM, 100 MW
  • Alls               690 MW

Það er áreiðanlega ofsögum sagt, að 4 þessara stórvirkjana séu á hönnunarstigi, hvað þá að búið sé að semja um orkusölu frá 4 stórvirkjunum.  Hvaðan í ósköpunum kemur þá lækninum sú vizka, að "arðsemi þeirra [sé] umdeild" ?  Hagkvæmniathugun fer ekki fram fyrr en verkhönnun er langt komin og söluverð orku er ljóst.

Lækninum verður tíðrætt um stóriðju og ætíð í niðrandi tóni.  Hér skal benda þessum lækni á tvær staðreyndir í sambandi við stóriðju og raforkufyrirtæki á Íslandi:

  1. Raforkukerfi landsins væri aðeins svipur hjá sjón án stóriðjunnar, enda mundi þá einingarkostnaður (ISK/kWh eða ISK/MW) vera mun hærri en nú er.
  2. Íslendingar búa við eitt lægsta raforkuverð í heimi.  Það stafar af því, að markaður var í landinu fyrir raforkuvinnslu og raforkuflutning í stórum stíl.  Stóriðjan hefur gert meira en greiða fyrir sína hlutdeild í raforkukerfiskostnaðinum.  Með öðrum orðum: lægsta raforkuverð í heimi væri ekki mögulegt á Íslandi án mikillar raforkusölu samkvæmt langtímasamningum við öflug fyrirtæki, sem njóta trausts lánastofnana, og þar með getur virkjunarfyrirtækið notið hagstæðari lánakjara.   

Dylgjur læknisins um bókhaldssvindl og skattaundanskot alþjóðlegra fyrirtækja hér eru í anda annarra einangrunarsinna, sem horn hafa í síðu erlendra fjárfesta hérlendis.  Allar vestrænar þjóðir keppast þó um að laða til sín beinar erlendar fjárfestingar, því að þær hafa góð áhrif á hagvöxt og þekkingarstig í þjóðfélaginu og draga úr lánsfjárþörf atvinnulífsins.  Viðurkennd endurskoðunarfyrirtæki rýna og árita bókhald þessara fyrirtækja, og það er ótrúlegur barnaskapur hjá lækninum að væna öll þessi fyrirtæki um svindl og svínarí.  Gengur hann heill til skógar ? 

Að einu leyti hefur blekbóndi samúð með sjónarmiðum læknisins, en það er, þegar hann gagnrýnir hugmyndina um sæstreng á milli Íslands og Skotlands.  Hann virðist þó halda, að viðskiptahugmyndin sé sú að senda Skotum "græna orku" til notkunar í Skotlandi.  Það er engin þörf á því.  Skotar eiga nóg af endurnýjanlegum orkulindum.  Hugmyndin er að selja Englendingum íslenzka orku og kaupa af þeim raforku, þegar þörf krefst hérlendis.  Slík tenging mun óhjákvæmilega hækka raforkuverðið hérlendis, og íslenzkar orkulindir hrökkva fyrirsjáanlega ekki til fyrir vaxandi þjóð, orkuskipti og sæstreng. Þessi rök nefnir læknirinn þó ekki.  

Það slær hins vegar alveg út í fyrir lækninum, þegar hann kveður "tímabært að setja á stofn nýtt embætti; Umboðsmann náttúrunnar, sem gjarna mætti vera kona, því að þær virðast iðulega víðsýnni en karlar, þegar kemur að náttúruvernd."                                Það væri augljóst brot á jafnréttislögum að auglýsa eftir öðru kyninu í þessa stöðu, en aðalatriðið er, að stöðunni yrði algerlega ofaukið í íslenzku stjórnsýslunni við hliðina á Umhverfisstofnun og Umhverfisráðuneytinu, og að stofnsetja það væri aðeins til að þenja út báknið og að fjölga silkihúfunum.  Hver veit, nema það verði eitt af gæluverkefnum nýrrar vinstri stjórnar að stofna þetta þarflausa embætti til þess eins að koma skattpeningum í lóg.  Samkvæmt lögmáli Parkinsons yrði þarna komið 10 manna starfslið innan tíðar, sem mundi ekkert annað gera en að tefja afgreiðslu stjórnsýslunnar, og er hún þó nógu hæg fyrir.

                                                Læknirinn gerist skáldlegur á köflum, en þó flækist alltaf rörsýnin fyrir honum, sem t.d. fyrirmunar honum að skilja slagorðið:"nýtum og njótum":                 "Ég tel ljóst, að unaðsstundir í náttúru Íslands séu í huga flestra Íslendinga og erlendra gesta dýrmætari en kílovattstundir." 

Þetta á ekki að vera spurning um annaðhvort eða, heldur hvort tveggja.  Tæknin leyfir slíkt nú á dögum.  Sjálfbær kílowattstund er unaðsleg í heimi rafmagnslegrar ósjálfbærni, og hún fer vel með unaðsstundum í faðmi náttúrunnar.    

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband