Verkefnastjórnun hér og þar

Þann 31. október 2016 var með ljósasýningu utan á nýrri tónleikahöll á hafnarbakka í Hamborg við mynni Saxelfar myndað þýzka orðið "fertig" eða tilbúin til merkis um langþráð verklok.  Harpa þeirra Hamborgara heitir "Elbphilharmonie" eftir ánni Elbe, Saxelfi. 

Hamborgarar drógu andann léttar, því að lengi framan af verkefninu sá ekki til lands í þessu ofboðslega metnaðarfulla, nánast ævintýralega verkefni, sem hefur sett alls konar met.  Húsagerðarlistin setti ný verkfræðileg og framleiðsluleg viðmið, og úrlausnirnar urðu dýrari og tímafrekari en dæmi eru um á seinni tímum með tónleikahöll.  Verkefnisstjórnunarlega er hins vegar um hneyksli að ræða, þó að hljómburðurinn þyki framúrskarandi, því að raunkostnaður varð tífaldur áætlaður kostnaður, og verkefnið tók 7 árum lengri tíma en áformað var. Þetta er saga til næsta bæjar í Þýzkalandi.  

Árið 2003 hljóðaði kostnaðaráætlunin upp á MEUR 77, en verkefnið endaði í um MEUR 770 og hafði þá staðið yfir í meira en tvöfalt lengri tíma en áætlun stóð til.  Harpa kostaði um MEUR 250 og er minni að rúmtaki og ekki viðlíka verkfræðilegt undur og Elbphilharmonie, sem er hæsta bygging Hamborgar, og öll áheyrendasæti eru í innan við 30 m fjarlægð frá hljómsveit.  Það er undur. 

Menn hljóta að spyrja sig, hvernig það hafi gerzt, að verkefnið fór svo algerlega úr böndunum, og það er vert að velta vöngum yfir því í ljósi þess, að hægt er að beita alþekktri og þróaðri aðferðarfræði, kerfisbundinni verkefnastjórnun, á öll verkefni, og ráðlegast er að gera það, þegar um háar fjárhæðir er að tefla, tíminn er naumur og/eða flókin úrlausnarefni eru framundan. 

Fræði verkefnastjórnunar eru einmitt samin til að koma í veg fyrir verkefnastjórnunarlegt slys af því tagi, sem að ofan er nefnt.  Það skal taka fram, að ánægja ríkir nú í Hansaborginni Hamborg með nýju tónleikahöllina, enda er hún verkfræðilegt afrek og þegar orðin tákn borgarinnar.  Afrek eru hins vegar oft bæði dýr og tímafrek, og þar sem Hamborg er rík milljónaborg, verður fjárhagsbaggi íbúanna (eigendanna) minni en reyndin varð með Hörpu og eigendur hennar.  Die Elbphilharmonie er nú þegar orðið megintákn Hamborgarar, og hljómgæðin hafa komið öllum þægilega á óvart m.v. byggingarlagið, sem er mjög á hæðina og með sveigða fleti. 

Þann 18. febrúar 2017 rituðu 2 verkfræðingar um verkefnastjórnun almennt í Morgunblaðið og nefndu grein sína:

"Hvernig stjórnun - til að tryggja samkeppnisfærni íslenzks atvinnulífs ?"

Eins og fyrirsögn Helga Þórs Ingasonar og Sigurðar Ragnarssonar á grein þeirra ber með sér, á greinin brýnt erindi og varðar hagsmuni allra:

"Verkefnastjórnun er tæki til að koma breytingum í framkvæmd, og Íslendingar geta tryggt og eflt stöðu sína með eflingu verkefnastjórnunar á öllum stigum samfélagsins."

Ein undirgreina verkefnastjórnunar er reyndar breytingastjórnun, og hún er yfirleitt vanrækt í fyrirtækjum og stofnunum, t.d. þegar fyrirhugað er að skipta um búnað eða að setja upp viðbótarbúnað, eða skipulagsbreyting er á döfinni. Framkvæmd verkefnis getur verið vel heppnuð að öðru leyti en því, að mjög skorti á samráð við húsráðanda og starfsmenn á vinnustaðnum, þar sem breytingin fór fram.  Þá hefur breytingastjórnun mistekizt og hætt við, að innleiðing verði tímafrekari og dýrari en ella, sem gefur annars tæknilega vel heppnuðu verkefni slæman blæ í byrjun. 

"Áherzlan á verkefnastjórnun hefur um langa hríð verið áberandi í mörgum öflugum íslenzkum fyrirtækjum, sem starfa í kröfuhörðu, alþjóðlegu samkeppnisumhverfi. [Þetta á t.d. við um fyrirtæki, sem stofnsett eru hérlendis með beinum erlendum fjárfestingum, og er kerfisbundin verkefnastjórnun dæmi um þekkingu, sem berst hingað og þróast fyrir tilstilli erlendra fyrirtækja - innsk. BJo.] 

En verkefnastjórnun er ekki einungis stjórnunaraðferð fyrirtækja, sem skila virði til viðskiptavina í formi verkefna.  Hún er í raun mikilvægari sem tæki til að bæta árangur, draga úr sóun, bæta skilvirkni, auka nýtni, draga úr orkunotkun [á hverja framleidda einingu - innsk. BJo], innleiða nýja tækni, styrkja innviði og vinna markaði.  Þessi upptalning snýst einmitt um kjarna málsins, um þá hugmyndafræði, sem stjórnendur innleiða, um þá menningu, sem þeir byggja upp innan fyrirtækja sinna. Þeir verða að byggja upp menningu, sem styður við bætta samkeppnisfærni, og þar með getu fyrirtækja sinna til að standa sig betur en samkeppnin, þegar þau bjóða vörur sínar og þjónustu á markaði, hvort heldur sem hann er hér heima eða alþjóðlegur."

Verkefnastjórnun er með öðrum orðum lausnarmiðað verkfæri fyrir hvern sem er til að ná markmiðum sínum, og það er oft árangursríkt að brjóta stórt viðfangsefni upp í undirverkefni með sértækum markmiðum.  Einfalt dæmi um það, er deildaskipt fyrirtæki, sem nær heildarmarkmiði með því, að hver deild setji sér undirmarkmið og setji af stað sín verkefni til að ná þeim. Öll undirmarkmiðin eiga að styðja við heildarmarkmiðið. 

"Til að tryggja samkeppnisfærni íslenzks atvinnulífs dugar ekki að eiga dæmi um nokkur verkefnamiðuð fyrirtæki, sem standa sig vel á alþjóðamarkaði.  Sú menning, sem vísað var til hér á undan, þarf að vera ríkjandi menning í öllum fyrirtækjum og stofnunum.  Við kjósum að kalla þetta verkefnamenningu.  Í slíkri menningu er fyrir hendi getan til að sjá viðfangsefnin fyrir sér sem afmörkuð verkefni með skýr markmið og með upphaf og endi.  Þessi verkefni eru undirbúin, ef þau eru í samræmi við stefnu fyrirtækisins og í sátt við viðhorf helztu hagsmunaaðila."

Af nýrri sögu stórverkefnis frá Hamborg, sem minnzt var á í upphafi, sjáum við, að jafnvel í hinu tæknilega og verkefnalega þróaða og árangursríka samfélagi Þýzkalands er pottur brotinn í þessum efnum.  Það er vert að hafa í huga, að jafnvel þótt fylgt sé formlega stjórnkerfi verkefnastjórnunar, getur verkefni farið í handaskolum, ef hugur fylgir ekki máli hjá aðstandendum verkefnis eða þess er ekki gætt, að rétt fagþekking sé fyrir hendi innan verkefnisstjórnarinnar, eða verkefnisstjórinn gengur með böggum hildar til leiks. 

Líklega eru algengustu mistökin við verkefnastjórnun að kasta höndunum til undirbúningsins. Verkefni, sem eru rækilega undirbúin, eru sögð vera "front end loaded" á ensku eða framhlaðin.  Þar eru 3 undirbúningsáfangar og "hlið" í lok hvers, sem hagsmunaðilar opna eftir vandlega rýni á kynningu verkefnisstjórans, ef þeir samþykkja fjárveitingu til  næsta áfanga. 

Við fyrsta hliðið er hugmyndin kynnt rýnihópi hagsmunaaðila, veikleikar, styrkleikar, ógnanir og tækifæri, metnir ásamt kynningu á grófri kostnaðar- og tímaáætlun.  Við annað hliðið er fýsileikakönnun (e. feasibility study) kynnt ásamt áhættugreiningu og sundurliðaðri kostnaðaráætlun.  Við þriðja hliðið er framkvæmdaáætlun kynnt með nákvæmri kostnaðar- og tímaáætlun, sem reist er á takmarkaðri verkhönnun og viðræðum við verktaka. Ef rýninefndin opnar þetta 3. hlið, hefur þar með kynnt hönnun, kostnaðar- og tímaáætlun, verið samþykkt, og þar með er veitt fé til verkefnisins samkvæmt greiðsluflæði kostnaðaráætlunar.  Þar með getur hönnun til útboðs og gerð verklýsinga hafizt fyrir alvöru. 

Þegar áætlanir verkefnisstjórnar standast jafnilla og í tilviki Elbphilharmonie eða Hörpunnar, hefur undirbúningur verkefnisins örugglega ekki verið sannarlega framhlaðinn.  Það er enn of algengt að samþykkja verkefni á grundvelli ófullnægjandi gagna, þar sem hönnun er svo skammt á veg komin, að slembilukku þarf til að gera kostnaðaráætlun innan +/- 5,0 % skekkjumarka.  Almennileg kostnaðaráætlun verður aðeins gerð, ef forhönnun hefur verið gerð og skýr mynd fengizt af helztu verkþáttum. 

Mesta verkefnisáhættan er fyrir hendi, þar sem um brautryðjendaverk er að ræða.  Ef um hernaðarlegt verkefni er að ræða, gefa menn sér iðulega ekki tíma til vandaðs undirbúnings, heldur eru reikningar greiddir á þeim hraða, sem þeir streyma inn.  Um borgaraleg verkefni gildir hins vegar reglan að hanna fyrst og framkvæma svo, þó að misbrestur verði á að fylgja henni, og þá fer kostnaðurinn nánast alltaf úr böndunum.   

Sum verkefni eru óneitanlega þannig vaxin, að óvænt vandamál er ekki unnt að forðast án mjög kostnaðarsamra rannsókna, sem menn þá eðlilega veigra sér við, láta þá slag standa og hefja verkefnið. Þetta kann t.d. að eiga við um Vaðlaheiðarverkefnið, þótt blekbóndi hafi ekki kannað það sérstaklega.  Óvíst er, að meiri tilraunaboranir hefðu skilað upplýsingum, sem leitt hefðu til annarrar staðsetningar ganganna, og nú munu þau fyrirsjáanlega verða a.m.k. miaISK 3,2 eða  30 % dýrari en kostnaðaráætlun hljóðaði upp á, og tafir af völdum vatnsagans, heits og kalds, nema tveimur árum. 

Afleiðingin af ófyrirséðum vandamálum við framkvæmd þessa verkefnis ætti að verða, að dýrara verði að fara um göngin en áformað var. Ökumenn hafa í þessu tilviki val um aðra leið, Víkurskarð, nema það sé ófært.  Verður í sambandi við gjaldtökuna að benda á, að slit vega fylgir öxulþunga í 4. veldi.  Þetta þýðir, að stór bíll með tífaldan öxulþunga á við lítinn bíl, slítur vegi 10 þúsund sinnum meira en sá litli í hvert sinn, og það ætti að endurspeglast að meira leyti en nú tíðkast í gjaldtöku af umferð og opinberum gjöldum af farartækjum.   

 

 


Slæm lýðheilsa er stærsti bagginn

"Berum ábyrgð á eigin heilsu" var yfirskrift merkrar greinar Gunnlaugs Kristjáns Jónssonar í Morgunblaðinu 16. febrúar 2017.  Er þetta hugvekja, sem vert er að gefa gaum að, af því að þar eru mikilvæg heilsufarsmál reyfuð frá sjónarhorni, sem er of sjaldséð. Gunnlaugur Kristján bendir á leið til að stemma stigu við hóflausum kostnaðarhækkunum læknisfræðilegrar meðhöndlunar á sjúkrahúsum, sem sliga nú þegar ríkissjóð.  Sú leið er þó bæði grýtt og torfarin, því að hún felst í, að einstaklingarnir bæti ráð sitt snemma á ævinni og taki ábyrgð á eigin heilsu.  Margir gera það, en hinir eru æði dýrir á fóðrum fyrir samfélagið.

Á Vesturlöndum er meginbyrði sjúklingameðferðar af völdum svo kallaðra lífstílssjúkdóma, sem stafa af lifnaðarháttum, sem mannslíkaminn er alls ekki gerður fyrir, og hann hættir fyrir aldur fram að starfa eðlilega við þær óeðlilegu aðstæður, sem honum eru búnar í nútímaþjóðfélagi, ef skynsemin er látin lönd leið.  Lífeðlisfræðilega hefur líkaminn sáralítið breytzt á síðast liðnum 10 þúsund árum, en lifnaðarhættirnir hafa hins vegar gjörbreytzt. Þetta kann augljóslega ekki góðri lukku að stýra, enda veldur þetta misræmi sjúkdómum, sem auðveldlega má forðast.  Viðgerðir eru alltaf dýrari og kvalafyllri en fyrirbyggjandi líferni, og "syndararnir" hlunnfara sjálfa sig um lífsgæði.  Kostnaðarlega snýst þetta um þjóðhagslega stórar stærðir, svo að hér er ekki um sérvizkutuð út af smáræði að ræða.   

Jafnframt hefur mannsævin tvöfaldazt vegna bætts aðbúnaðar manna og aukinnar þekkingar, t.d. á mikilvægi hreinlætis, húsakynni eru orðin þurr, björt og hreinleg, og tæknin hefur leyst hið eilífa strit af hólmi. Ekki má vanþakka hlut háskólalæknisfræðinnar í því, að ungbarnadauði og dauði sængurkvenna er hérlendis orðinn afar fátíður, og með læknisfræðilegri greiningarvinnu og skurðaðgerðum er hægt að losa fólk við lífshættuleg mein, t.d. botnlangabólgu, sem mörgum urðu áður fyrr að aldurtila.  Þá má ekki gleyma nánast útrýmingu margra skeinuhættra sjúkdóma, sem áður leiddu til snemmbúins dauðdaga.   

Þessi þróun á umhverfi hins vestræna manns hefur þó sínar dökku hliðar, því að líkaminn hefur lítið þróazt, þó að andinn hafi kannski þróazt eitthvað, en tilfinningalíf homo sapiens er líklega lítið breytt, frá því að hann lagði land undir fót frá Afríku á sinni tíð og lagði undir sig aðrar heimsálfur. 

Þó hafa flestir Vesturlandamenn losað sig við óttann við yfirskilvitleg hindurvitni og reiði guðanna, sem krefjist fórna af mönnum til að blíðkast, en þröngsýni og pólitískt ofstæki hrjáir þó marga, að ógleymdu trúarofstækinu, sem enn er plága, þótt furðulegt megi telja á okkar tímum.  Á Vesturlöndum skiptast menn um of í trúarbragðakenndar fylkingar eftir skoðunum, þótt jarðbundnar séu, t.d. um það, hvernig skynsamlegast er að bregðast við lífstílssjúkdómum. Þó blasa lausnirnar við þeim, sem eru sæmilega sjálfstæðir í hugsun og láta ekki berast með straumum múgsefjunar og áróðursmáttar auglýsinganna.    

Sem skuggahliðar "siðmenningarinnar" má nefna hóglífið, ruslfæði og fíkniefni hvers konar.  Þessar 3 skuggahliðar eru valdar að langflestum sjúkdómum á Vesturlöndum nú á dögum og eru allar sjálfskaparvíti hins viljalitla fórnarlambs "siðmenningarinnar", sem neyzlusamfélagið er hluti af.  Þar er of mikil áherzla á magn og of lítil áherzla á gæði.  Til að átta sig á, hvað er gott og hvað er slæmt fyrir heilsuna, er hollt að hafa uppruna mannsins og líferni við frumstæðar aðstæður í huga, þ.e. að gefa því gaum, sem náttúrulegt er fyrir homo sapiens.  

Það skortir þó hvorki þekkingu í samfélaginu á þessum 3 tegundum skaðvalda nútímamannsins né viðvaranir frá hrópendum í eyðimörkinni, sem hafa bætt 4. skaðvaldinum við, lyfjamisnotkun.  Hún framkallar niðurbrot mótstöðuþreks ónæmiskerfisins og alls kyns neikvæðar aukaverkanir frá vöggu til grafar. Lyf eru vandmeðfarin, og ofnotkun þeirra veldur heilsuleysi og miklum samfélagslegum kostnaði, ekki sízt fyrir ríkiskassann.  Landlæknir þarf að herða eftirlitið með útgáfu lyfseðla með miðlægri skráningu.  Há opinber útgjöld eru ekki einkamál, og persónuvernd á ekki alls kostar við hér.  

Aðrar leiðir en háskólalæknisfræðin boðar eru til, og miða þær að bættri lýðheilsu.  Sem kenningasmið á seinni tímum má t.d. nefna hinn gagnmerka mann, Rudolf Steiner, höfund antroposófíunnar (mannspeki) og Waldorf-skólans.  Hann var fæddur í austurrísk-ungverska keisaradæminu á landsvæði, sem nú er Króatía, árið 1861 og lézt árið 1925.  Eftir hann liggja fjölmörg fræðirit og leiðbeiningar fyrir nútímamanninn, hvernig hann getur hagað líferni sínu í sátt við uppruna sinn og náttúruna, t.d. með lífrænni ræktun matvæla og lífskvikum landbúnaði (e. biodynamic agriculture).  Steiner ritaði líka mikið um hina andlegu hlið mannsins, svo að kenningakerfi mannspekinnar er heildstætt. Í Þýzkalandi og á Norðurlöndunum skutu kenningar Steiners rótum, og þar eru öflugar hreyfingar, sem jafnvel reka sjúkrahús, um starfsemi samkvæmt mannspeki. 

Á Íslandi hefur skyld stefna skotið alltraustum rótum, þótt einfaldari sé í sniðum, en hugsanlega hefur stofnandi Náttúrulækningafélags Íslands, Jónas Kristjánsson, læknir, dáinn 1960, þó komizt í tæri við kenningar Rudolfs Steiners. Um Jónas skrifar Gunnlaugur Kristján:

"Jónas Kristjánsson, læknir (f. 1870) hóf árið 1923 opinberlega að messa yfir landslýð um samspil lifnaðarhátta og heilsu [undirstr. BJo].  Hann stóð í þessari baráttu þar til hann lézt árið 1960.  Yfirleitt í mikilli andstöðu við aðra lækna og samtök þeirra, en flestir kollega Jónasar gerðu lítið úr hugmyndum hans um samspil lifnaðarhátta og heilsu.  Í dag þykir grátbroslegt, að Jónas átti á sínum tíma í harðvítugum deilum við Læknafélag Íslands, sem hann gagnrýndi harðlega fyrir að birta tóbaksauglýsingar í tímariti félagsins."

Það er hald blekbónda, að vaxandi skilningur sé í læknastéttinni á gildi kenninga Jónasar Kristjánssonar og Náttúrulækningafélagsins fyrir heilsufar og heilsueflingu í landinu, og að læknisstörfin snúist ekki einvörðungu um sjúkdómsgreiningar, lyfjagjafir og aðgerðir, heldur einnig um næringarfræðilegar ráðleggingar um að gæta rétts jafnvægis í fæðuvali o.fl., sem snýr að líferni, sem minnkar líkur á sjúkdómum.  Grein sinni lýkur Gunnlaugur Kristján með eftirfarandi rúmlega sjötugu ávarpi Jónasar Kristjánssonar, þáverandi forseta NLFÍ.  Það á erindi til nútímafólks:

"Náttúrulækningastefnan lítur svo á, að flestir sjúkdómar stafi af því, að vér brjótum lögmál þau og skilyrði, sem heilbrigði er háð.  Vísindi framtíðarinnar eiga án nokkurs vafa eftir að sýna fram á þessa staðhæfingu, þegar vísindamönnum þjóðanna ber sú gæfa til að leita orsaka sjúkdóma í stað þess að leita að meinunum sjálfum. 

Til þess að skapa heilbrigt og dugandi þjóðfélag þarf andlega og líkamlega heilbrigða þegna.  Undirstaða heilbrigðinnar eru réttir lifnaðarhættir og rétt fræðsla.  En heilsurækt og heilsuvernd verður að byrja áður en menn verða veikir. 

Æsku landsins á að uppfræða um lögmál heilbrigðs lífs.  Í þessu starfi þurfa allir hugsandi menn að taka þátt; allir góðir synir og dætur fósturjarðar vorrar verða að telja það sína helgustu skyldu að vernda heilsu sína ættjörðinni til handa.  Og takmark allra þarf að vera það að deyja frá betri heimi en þeir fæddust í."

Hver einasta málsgrein í þessu ávarpi helzta lýðheilsufrumkvöðuls Íslands á 20. öldinni á brýnt erindi við landsmenn nú, þegar hallar undan fæti í heilsufarslegum efnum landsmanna, eins og tölur um veikindafjarverur á vinnustöðum sem og álag á heilsugæzlustöðvum og sjúkrahúsum sýna, svo að ekki sé nú minnzt á hrikalegt lyfjaát landsmanna, sem er í hæstu hæðum alþjóðlegs samanburðar.  Vítahringur slæms lífernis og mikils lyfjaáts leiðir til stjórnlauss vaxtar útgjalda við lækningar, sem engin þörf er hins vegar fyrir, ef hugað er að heilsunni í tæka tíð, eins og Jónas Kristjánsson, læknir, o.fl. hafa boðað. Þegar kemur að heilsufarslegum efnum, eru engar skyndilausnir í boði. 

Það stendur þessum málum öllum fyrir þrifum, að læknisfræðin og náttúrulækningastefnan hafa ekki náð að sameina krafta sína.  Hvort tveggja er nauðsynlegt, ef vel á að fara: hollustusamlegir lifnaðarhættir almennings og mikill greiningar- og viðgerðarmáttur háskólalæknisfræðinnar. Þessar 2 greinar þurfa að leiðast hönd í hönd til að tryggja farsæld í landinu.  

Gunnlaugur Kristján kastaði í upphafi greinar sinnar ljósi á umfang afleiðinga rangra lifnaðarhátta:

"Tölur sýna, að u.þ.b. 70 % fjármagns, sem veitt er til heilbrigðisþjónustunnar, fer til meðferðar á lífstílssjúkdómum.  Með öðrum orðum til viðgerða, sem telja má afleiðingar rangra lifnaðarhátta."

Að snúa af braut ofneyzlu, leti og rangs mataræðis, hefur tvöfaldan ávinning í för með sér; það mundi hemja ofvöxt útgjalda til sjúklingakerfisins og bæta lífsgæði almennings til muna.  Hvers vegna hefur sá boðskapur ekki náð eyrum fólks ?  Getur verið, að "viðgerð" lífstílssjúkdóma komi ekki nægilega beint við budduna ? Kostnaðurinn er vissulega fyrir hendi, en hann greiða bæði þeir, sem haga sér vel, kaupa sér jafnvel dýrara fæði af hærri gæðum, vottaðar lífrænar vörur, og hinir, sem litla eða enga forsjálni sýna um heilsufar sitt, heldur láta skeika að sköpuðu og treysta á mátt herra eða frú "Quick Fix".  

"Yfirvöld, að óbreyttu, munu um ókomna tíð kljást við háværar kröfur um meira fjármagn, ekki sízt í viðgerðarþjónustuna, enda fá teikn á lofti um, að almenningur breyti lifnaðarháttum sínum og beri ábyrgð á eigin heilsu." 

Hér er um vaxandi þjóðarmein að ræða, sem enda mun með ósköpum, ef fólk sér ekki að sér í ofgnótt sætinda og megns óþverra, sem að því er haldið. Í samfélagi, þar sem fólki á eftirlaunaaldri fjölgar hlutfallslega meir en fólki á vinnumarkaði, þýðir skefjalaus vöxtur ríkisútgjalda efnahagslega kollsteypu, sem verst mun koma niður á tekjulægstu hópunum.  Gunnlaugur Kristján varpar fram mikilvægum spurningum:

"Tæknin gerir okkur kleift að framlengja lífslíkur umtalsvert.  En er það markmið í sjálfu sér ?  Ættu markmið heilbrigðisþjónustunnar og okkar sjálfra ekki frekar að beinast að auknum gæðum lífsins frekar en lengd þess ?

Í huga blekbónda er svarið við fyrri spurningunni skýlaust neitandi og við hinni seinni játandi.  Spurningarnar beina athyglinni að því, að hið svo kallaða heilbrigðiskerfi hérlendis er á kolrangri braut með sinni forgangsröðun.  Er það ekki gjörsamlega siðlaust að nota peninga annarra til að framlengja eymd og volæði skjólstæðinga svokallaðs heilbrigðiskerfis ?

"Heilbrigðisþjónusta kostar peninga og mikil áherzla er lögð á, að ákveðinn hluti verðmætasköpunar í landinu sé settur í þennan málaflokk.  Líklega er þetta stærsti einstaki liður samfélagsþjónustu okkar.  Kostnaður samfélagsins í framtíðinni mun aukast vegna heilbrigðismála, m.a. vegna aukinna krafna samfélagsins, en ekki síður vegna afleiðinga nútíma lífshátta og oft á tíðum óábyrgrar hegðunar okkar sem einstaklinga."

Með sama áframhaldi stefnir í, að í landinu verði tvær þjóðir; hinir heilbrigðu, heppnu og ábyrgu og hinir sjúku, óheppnu og óábyrgu.  Á endanum mundi það með núverandi þróun útgjalda líklega leiða til uppreisnar hinna fyrr nefndu.  Þess vegna þarf að taka opinbera lýðheilsustefnu heilbrigðisyfirvalda alvarlega í tæka tíð.  Að breyta um lifnaðarhætti, þegar heilsan er farin, er of seint.  Gunnlaugur Kristján skrifar:

"Í október s.l. [2016] samþykkti sérstök ráðherranefnd lýðheilsustefnu ásamt áætlun um aðgerðir, sem eiga að stuðla að heilsueflandi samfélagi.  Í stefnunni er sett fram sú framtíðarsýn, að Íslendingar skuli vera meðvitaðir um, að þeir beri ábyrgð á eigin heilsu og að skólakerfið, vinnustaðir og stofnanir, séu heilsueflandi og vinni stöðugt að því að auka hreyfingu og útivist, bæta mataræði og efla geðrækt, því að slíkt leiði til betri heilsu og aukinnar vellíðunar.  Þá segir, að stefnumótun og ákvarðanir ríkis og sveitarfélaga séu forsenda þess, að lýðheilsusjónarmið séu sett í forgrunn og að heilsueflandi samfélag verði innleitt á landsvísu."

Gunnlaugur telur hér vera eintóman fagurgala á ferð, því að nauðsynlegar fjárveitingar fylgi enn ekki fögrum áformum.  Hann tekur dæmi af nýgerðum búvörusamningi, þar sem lífræn ræktun hljóti sáralítið vægi.  Þó fer fjölbreytni lífrænna landbúnaðarafurða vaxandi á markaðinum, en svo mundi ekki vera, nema vegna vaxandi eftirspurnar frá neytendum.  Þeir eru tilbúnir að greiða hærra verð fyrir vottaðar lífrænar afurðir. 

Það eru fleiri jákvæð teikn á lofti.  Í Fréttablaðinu 16.02.2017 mátti sjá niðurstöðu könnunar, sem kom þægilega á óvart.  Þar sagði, að 76 % eldri borgara stundi líkamsrækt á hverjum degi og að 76 % telji heilsufar sitt vera frekar gott eða jafnvel mjög gott miðað við aldur.  Nú er þetta ekki ítarleg könnun, svo að huglægt er, hvað líkamsrækt getur talizt, og hvort eitthvað muni um hana í heilsufarslegum efnum, eða hvað er frekar gott heilsufar miðað við aldur. 

Þó er jákvætt, að það, sem fólk stundar, þótt e.t.v. lítið sé, er gert daglega, og að það virðist hafa góð áhrif á heilsufarið, því að sama hlutfalli líður, eins og það sé við hestaheilsu, sem er mikils um vert. 

Ef 24 % eldri borgara eru hins vegar ekki við þokkalega heilsu, má gizka á, að ríflega helmingur þeirra eða 15 % eldri borgara búi við heilsuleysi og þurfi að reiða sig í ríkum mæli á þjónustu lækna og hjúkrunarfólks.  Það eru líklega um 7000 manns eða 2,0 % þjóðarinnar.  Þetta er ótrúlega fámennur hópur í ljósi þess, að megnið, yfir 70 % af kostnaði sjúkrahúsanna, er sagt falla, til við þjónustu við eldri borgara, og kostnaður ríkissjóðs af sjúklingum mun í heildina nema um 150 milljörðum króna um þessar mundir.  Það er eitthvað bogið við allan þennan gríðarlega kostnað við að lappa upp á bágborið heilsufar eldri borgara sem annarra borgara.

Ein skuggahlið tilverunnar, sem nefnd var hér að ofan, var neyzla fíkniefna hvers konar.  Áfengið er í þessum hópi, en það er samt lögleg neyzluvara hérlendis og alls staðar á Vesturlöndum.  Hérlendis ríkir samt tvískinnungur um aðgengið, og virðast margir halda, að neyzlunni sé haldið í skefjum með því að selja áfengið í sérverzlunum ríkisins.  Þá staðhæfingu mætti út af fyrir sig prófa með því að leyfa sölu bjórs í matvöruverzlunum eða færa sælgætið þaðan og í ríkisverzlanirnar. Líkast til mundi þetta aðallega breyta því, að keypt yrði minna í einu af vörum, þar sem aðgengið er betra og meira í einu, þar sem aðgengið er verra.  Um heildarneyzluna er áhorfsmál.  Það, sem öllu máli skiptir fyrir neyzluna, er ábyrgðartilfinning neytandans gagnvart eigin heilsu. 

Um hana skrifaði Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður, stutta og hnitmiðaða (knappan texta að hætti góðs lögfræðings) grein í Morgunblaðið, 24. febrúar 2017:

"Edrú í 38 ár" (og átti þar við sjálfan sig):

"Ég tel, að eina ráðið gegn áfengisbölinu sé, að hvert og eitt okkar taki ábyrgð á sjálfu sér.  Ekkert annað ráð hefur sýnt sig í að virka.  Bann eða takmarkanir á sölu eru að mínum dómi máttvana ráð gegn bölinu og siðferðilega röng, ef því er að skipta.  Við höfum engan rétt til að beita valdskotnum ráðum gegn öðru fullburðugu fólki.  Það er reyndar undarlegt, hversu mönnum, sem reynt hafa þetta á sjálfum sér, er gjarnt að telja forsjá og yfirráð yfir öðrum vænlegar leiðir gegn bölinu.  Allt slíkt er hreinn misskilningur."

Þarna skrifar maður, sem reynt hefur á eigin skinni að verða þræll fíknarinnar (í áfengi), en áttaði sig í tæka tíð með hjálp góðra manna og náði stjórn á eigin tilveru.  Hlutverk lýðheilsustefnu hins opinbera og frjálsra félagasamtaka ætti að vera að finna þau ráð, sem bezt duga til að hjálpa fólki til sjálfshjálpar og til að efla hugarfarið, sem leiðir til ábyrgðartilfinningar um heilsufarsleg málefni. 

 

 


Þýzkaland á tímabili Trumps

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, á ættir að rekja til Þýzkalands og Bretlandseyja.  Afi hans, Friedrich Trump, var frá Kallstadt í Pfalz. Nú hafa ummæli ráðamanna í Washington, þar sem köldu hefur blásið til Þýzkalands, NATO og Evrópusambandsins, ESB, valdið Þjóðverjum miklum vonbrigðum, jafnvel hugarangri.  Ástæðan er sú, að auk Þjóðverja sjálfra áttu Bandaríkjamenn mestan þátt í vel heppnaðri endurreisn Vestur-Þýzkalands, Sambandslýðveldisins, eftir heimsátökin og hildarleikinn 1939-1945, og Bandaríkjamenn eiga heiðurinn af traustri staðsetningu þýzku þjóðarinnar í samtökum vestrænna lýðræðisþjóða, þótt Bandaríkjamenn hafi þar auðvitað verið að gæta eigin hagsmuna ekki síður en annarra Vesturlanda í baráttunni við Jósef Stalín og eftirmenn hans í Kreml.  Þjóðverjar hafa síðan vanizt því að njóta skjóls af Bandaríkjamönnum, og nægir að nefna loftbrúna miklu til Vestur-Berlínar og ræðu Johns Fitzgeralds Kennedys við Berlínarmúrinn, "Ich bin ein Berliner", þegar allt ætlaði um koll að keyra af hrifningu í Þýzkalandi.  "Þá var öldin önnur, er Gaukur bjó á Stöng."

Nú hefur efnahagsráðgjafi Trumps, Peter Navarro, ásakað þýzku stjórnina um að möndla ("manipulate") með gengi evrunnar og þannig að misnota Bandaríkin og aðra, af því að evran sé veikari en þýzka markið væri, ef það væri enn í brúki.  Þetta er í raun og veru óboðlegur málflutningur frá æðstu stöðum í BNA.

Þessari gagnrýni úr Hvíta húsinu kunna Þjóðverjar gizka illa, enda er hún afar ósanngjörn.  Þetta kemur í kjölfar hótunar Trumps um að setja 35 % toll á BMW og lítilsvirðandi ummæla um NATO og ESB. Berlín stjórnar brúðuleikhúsinu í Brüssel og hefur undirtökin í Evrópu á öllum sviðum, nema hernaðarsviðinu, en verður nú að hækka framlög sín til varnarmála upp í 2,0 % af VLF eða upp í 60 miaEUR/ár að kröfu Hvíta hússins.  Þetta höfðu aðildarríkin reyndar skuldbundið sig til, þegar ógnin úr austri jókst, en flestir hunzað.  Ef Íslendingar þyrftu að gera hið sama, mundu slík útgjöld ríkissjóðs nema 50 miaISK/ár, sem er talsvert lægra en árlegar vaxtagreiðslur ríkissjóðs. Íslendingar gætu þetta, en það mundi vissulega koma niður á öllu öðru, sem ríkissjóður fjármagnar.   

Þjóðverjar telja, að Trump eigi sjálfur "sök" á hækkun bandaríkjadals með því að lofa skattalækkunum og auknum fjárfestingum í innviðum, sem hafi leitt til vaxtahækkana Seðlabanka BNA og þar af leiðandi styrkingar bandaríkjadals, USD.  Mikill halli er á viðskiptum BNA við útlönd, og ætlar Trump að breyta þeim halla í afgang.  Þá mun bandaríkjadalur styrkjast enn.  Donald Trump siglir hins vegar ekki lygnan sjó, og virðast demókratar stefna á að koma honum frá völdum ("impeachment"), eins og Richard Nixon, en þó strax á fyrra kjörtímabilinu.  Ef þeir ná meirihluta á þingi árið 2018, gætu þeir rekið karlinn frá völdum í kjölfarið. Þá  verður líf í tuskunum. 

Forseti bankastjórnar Seðlabanka evrunnar, Ítalinn Mario Draghi, heldur stýrivöxtum bankans við núllið og kaupir alls konar skuldabréf, rusl segja sumir, til að örva efnahagslífið utan Þýzkalands.  Fjármálaráðherra Þýzkalands, Wolfgang Schäuble, varaði Draghi við að halda út á þessa braut, en af virðingu við sjálfstæði Seðlabankans lofaði hann Draghi því að gagnrýna hann ekki opinberlega fyrir tiltækið.  Það hafa hins vegar mikilsvirtir þýzkir hagfræðingar gert, t.d. einn af hugmyndafræðingum evrunnar, dr Otmar Issing.

Ein af ástæðum andstöðu Þjóðverja við þessa slökun á peningamálastefnunni var einmitt, að þá mundi viðskiptajöfnuður Þjóðverja vaxa mjög. Fyrirsjáanlegt var, að slíkt mundi skapa óstöðugleika í álfunni og óánægju víða. Nú gera Bandaríkjamenn Þjóðverja að blóraböggli fyrir stefnu, sem hinir síðar nefndu eru andsnúnir, þó að þeir virðist hafa grætt mest á henni.  Það er ekki öll vitleysan eins.  Hinir lágu vextir eru eitur í beinum Þjóðverja, því að þá minnkar ávöxtun af sparnaði þeirra hjá bönkum og líftryggingafélögum, sem starfa líka sem lífeyrissjóðir. Fjármögnun ellilífeyris þýzkrar alþýðu er í uppnámi, því að framlög þýzka ríkissjóðsins til sívaxandi fjölda ellibelgja munu líklega lækka, því að þýzkur vinnumarkaður mun senn skreppa saman, af því að Þjóðverjum hefur brugðizt bogalistin við að fjölga sér.

Viðskiptajöfnuður Þjóðverja er stærri en viðskiptajöfnuður Kínverja, og þar með sá mesti í heimi, og nemur 9,0 % af landsframleiðslu þeirra.  Þetta eru um 3375 EUR/íb eða 412 kISK/íb, og til samanburðar nam viðskiptajöfnuður Íslendinga árið 2016 um 7,1 % af landsframleiðslu, en þar sem landsframleiðsla á mann er hér hærri en í Þýzkalandi, þá var viðskiptajöfnuður á mann hér hærri eða 507 kISK/íb. Ísland og Þýzkaland skera sig að þessu leyti úr í Evrópu með jákvæðum hætti, og þótt víðar væri leitað.

Stærðarmunur þjóðanna gerir það hins vegar að verkum, að Íslendingar liggja ekki undir ámæli fyrir sinn góða árangur, en Þjóðverjar hafa mátt sæta gagnrýni fyrir vikið að hálfu Framkvæmdastjórnar ESB í Brüssel, AGS í Washington, fjármálaráðuneyti BNA og OECD síðan árið 2005, er þeir tóku ákvörðun um að bæta samkeppnishæfni Þýzkalands.  Aðilar vinnumarkaðarins beggja vegna borðsins tóku þá ákvörðun um að halda mjög aftur af umsömdum launahækkunum. Vegna þess að laun í öðrum evrulöndum hækkuðu meira en í Þýzkalandi eftir þetta, virkaði ákvörðun verkalýðssambanda og samtaka atvinnurekenda í Þýzkalandi sem gengislækkun á efnahagskerfið, þýzkar vörur hækkuðu minna en aðrar í verði, eða jafnvel ekkert vegna framleiðniaukningar, og atvinna jókst í Þýzkalandi. Árið 2005 var atvinnuleysi í Þýzkalandi 10,3 %, en árið 2015 aðeins 4,3 %.  Stefnan kennd við Peter Hartz undir forystu jafnaðarmanna við stjórnvölinn í Berlín svínvirkaði. Nú hafa laun tekið að hækka í Þýzkalandi á ný, og árið 2016 hækkuðu þau að jafnaði um 2,3 %, sem er þó innan við þriðjungur raunlaunahækkunar á Íslandi í fyrra. 

Þar sem Ísland er orðið eitt dýrasta land Evrópu, er nú höfuðnauðsyn að fylgja fordæmi Þjóðverja og spenna bogann lágt í komandi kjarasamningum, því að annars brestur strengurinn með þeim afleiðingum, að verðbólgan losnar úr læðingi, öllum til tjóns, og veldur þar mestu tjóni, sem minnst borð er fyrir báru nú. 

Það eru váboðar framundan hjá Þjóðverjum, eins og fleirum. Framleiðnin frá árinu 2008 hefur aðeins aukizt um 0,5 % á ári m.v. 3,25 %/ár áður í vöruframleiðslugeiranum. Í flestum þjónustugeirum hefur framleiðniaukning verið svipuð, og í fjármálageiranum og í opinbera geiranum hefur hún minnkað.  Hið sama er uppi á teninginum víðast hvar í OECD, og þar með í aðalviðskiptalöndum Íslands. 

Mikil skuldsetning dregur úr fjárfestingargetu, sem hægir á tækniframförum, sem yfirleitt leiða til aukinnar framleiðni.  Óðinn í Viðskiptablaðinu var hins vegar 9. febrúar 2017 með merkilega kenningu í ljósi stefnu Trumps um "America First" og innvistun framleiðslunnar, sem hefur þegar átt sér stað í Þýzkalandi.  Fylgir Trump bara strauminum ?:

"Annað, sem gerzt hefur á síðustu árum, er, að viðsnúningur hefur orðið í úthýsingu verkefna til annarra ríkja.  Undanfarna áratugi hafa þróaðri ríki, einkum Vesturlönd og Japan, flutt stóra hluta af frumframleiðslu til ríkja á borð við Kína.  Lengi vel var talað um Kína sem vinnustofu heimsins.  Undanfarin ár hefur orðið viðsnúningur á þessari þróun, og töluvert af framleiðsluferlum, sem áður fóru fram erlendis, hafa verið fluttir heim aftur til Þýzkalands [heim ins Reich - gamalt orðalag - innsk. BJo].  Má sem dæmi nefna, að í málmiðnaði jókst hlutur innlendra aðila í vergri virðisaukningu úr 34 % árið 2008 í 37 % í fyrra.  Í framleiðslu á raftækjum hefur hlutfallið aukizt úr 31 % í 34 % á sama tíma.  Þegar afkastaminni þættir í framleiðsluferlinu eru fluttir heim, kemur það niður á framleiðni í geiranum í heild sinni."

Þrátt fyrir hærri launakostnað heima fyrir, taka framleiðendur þetta skref til baka af ótta við þróun stjórnmála og efnahagsmála erlendis.  Kommúnisminn í Kína gæti verið kominn að leiðarlokum.  Mikið er um uppþot í Kína og fjöldamótmæli vegna spillingar og ódugnaðar embættismanna og svakalegrar loft- og vatnsmengunar.  Að lokum skrifaði Óðinn:

"Hér á landi er vandinn vissulega ekki fólginn í of lágum vöxtum, heldur er þvert á móti æskilegt að lækka vexti verulega.  Þetta [lágir vextir - innsk. BJo] undirstrikar hins vegar þann vanda, sem sem evrusvæðið - og reyndar Vesturlönd almennt, standa frammi fyrir.  Skýrsluhöfundar Commerzbank klykkja svo út með því að benda á, að verði ekki gripið inn í þessa þróun, sé hætt við því, að Þýzkaland stefni í japanskar aðstæður - þ.e. mjög lítinn hagvöxt til lengri tíma litið."

Útlitið í Evrópu er óbeysið.  Í Þýzkalandi sparar fólk mjög til elliáranna með því að leggja fyrir á banka.  Þar er mun minna um fjárfestingar fólks í íbúðarhúsnæði til eigin nota.  Neyzlustigið er tiltölulega lágt, enda Þjóðverjar nýtnir og sparneytnir frá fornu fari.  Þar er sparsemi dyggð.  Þegar gamlingjar Þýzkalands verða orðnir enn fleiri en nú eða um 2035, verður þó enn meira tekið út úr þýzkum bönkum en lagt verður fyrir, og þá mun hagkerfi landsins hafa veikzt svo mjög, að nágrannarnir þurfa ekki lengur að kvarta.  Þá verður margt annað líka með öðru móti en nú.  Framtíðin virðist vera ósjálfbær, en hver veit, nema Eyjólfur hressist.     

 

 


Orkuöflun og -flutningar

"Þegar kyndugur kemur til kæns, hefur kænn ekki við", segir máltækið.  Kyndug frásögn birtist í Morgunblaðinu, 7. febrúar 2017, skrifuð af Þorsteini Ásgrímssyni undir fyrirsögninni:

"Aðgerða þörf í orkumálum",

um skýrslu erlendra sérfræðinga fyrir Orkustofnun, Landsvirkjun og Landsnet.  Af frásögninni að dæma spannar skýrslan aðallega "selvfölgeligheder", einföld, vel þekkt sannindi, og meira eða minna hæpnar niðurstöður höfundanna.  Frásögnin hófst þannig:

"Haldi almennur vöxtur í raforkunotkun áfram hér á landi á næstu árum án þess, að fjárfest verði í frekari orkuframleiðslu, munu Íslendingar standa frammi fyrir mögulegum vanda varðandi orkuöryggi á komandi árum.  Þetta kemur fram í skýrslu, sem unnin var af sérfræðingum frá háskólastofnununum MIT í Bandaríkjunum og IIT Comillas á Spáni um orkuöryggi fyrir Orkustofnun, Landsvirkjun og Landsnet."

Það lýsir ótrúlegu ráðleysi og vandræðagangi á raforkumálasviðinu hérlendis, að talin skuli vera þörf á því að semja sennilega rándýra skýrslu í útlöndum um framboð og eftirspurn raforku á Íslandi.  Það blasir við, að vegna rafvæðingar samgöngutækja á landi einvörðungu muni almenn raforkunotkun á Íslandi vaxa um 40 % á næstu 20 árum, og er þá ótalin rafvæðing skipaflotans og flugflotans á árunum 2030-2050.  Þessu til viðbótar blasir við í nánustu framtíð álagsaukning upp á 525 MW vegna rafvæðingar framleiðsluferla og nýrra verksmiðja til kísilframleiðslu. Þetta nýja álag, 525 MW, jafngildir fjórðungsaukningu núverandi vetrarálags.  Á móti þessu virðast aðeins vera á döfinni virkjanir að aflgetu 480 MW (Þeistareykir, Búrfell 2, Tungufljót, Reykjanes, Hvammsvirkjun, Bjarnarflag, Krafla 2, Blönduveita), svo að staðan er óbjörguleg. Þessar viðbætur fela í sér nánast enga aukningu miðlunargetu sunnan heiða. Um það er hægt að vera skýrsluhöfundunum sammála, að orkuskortur blasir við, en dugir ekki heilbrigð skynsemi til að segja mönnum það.  Ef heilbrigð skynsemi hefur ekki hrifið, þá gerir útlend skýrsla það varla heldur. 

Ætlar Landsvirkjun kannski að halda uppteknum hætti og fæla menn frá rafvæðingu, eins og hún hefur hagað sér gagnvart fiskimjölsverksmiðjunum með þreföldun raforkuverðsins ?  

Eigandinn verður að grípa í taumana, þegar viðhaldið er orkuskorti með litlu framboði til þess að spenna upp verðið á ótryggðu rafmagni.  Þessi bolabrögð ná engri átt.  

Ritstjórn Morgunblaðsins hefur áhyggjur af varasamri og viðkvæmri stöðu raforkumálanna, og það er góðra gjalda vert, en áhyggjurnar þurfa að ná til æðstu stjórnar ríkisins og krystallast í raunhæfum viðbrögðum.  Forystugrein Morgunblaðsins,

"Orkuöryggi er forgangsmál",

þann 10. febrúar 2017, endar þannig:

"Sjálfsagt er orðið að leggja ríka áherzlu á að bæta bæði flutningskerfi og framleiðslu orku hér á landi.  Það felur óhjákvæmilega í sér, að leggja þarf línur og byggja virkjanir.  Slíkt þarf að gera, svo að vel fari í umhverfinu, en orkuöryggið verður að vera forgangsmál."

Allt er þetta satt og rétt, og blekbóndi getur auk þess fullyrt, að það er tæknilega mögulegt og fjárhagslega viðráðanlegt að sameina þetta tvennt, þ.e. að sjá öllum landslýð fyrir nægri orku af beztu gæðum án stórkarlalegra inngripa í ásýnd landsins á viðkvæmum stöðum.  Vilji og pólitísk forysta er allt, sem þarf.

Eitt af vandamálunum er, að það er enginn ábyrgur að lögum gagnvart því, að hér verði ekki afl- og orkuskortur.  Það væri engin goðgá að fela stærsta leikaranum á sviðinu, Landsvirkjun, þetta hlutverk með lagasetningu, um leið og fyrirtækinu væri mörkuð eigendastefna, en hana vantar sárlega núna, enda örlar á vindhanahegðun í æðstu stjórn fyrirtækisins.

"Ignacio J. Perez-Arriaga, prófessor við MIT, kynnti skýrsluna og sagði vandamálið hér á landi vera rafmagnskerfi, sem er einangrað og geti þar af leiðandi lent í vandræðum, ef upp koma vandamál við orkuframleiðslu, t.d. ef vetur er hlýr og lítið um vatn til að fylla miðlunarlón.  Sagði hann einnig flutningskerfið hér ekki vera nægilega gott, þar sem stífla gæti myndazt á milli vestur- og austurhlutans." 

Blekbóndi er helzt á því, að téður prófessor við MIT í Boston taki hér rangan pól í hæðina.  Með auknum hlýindum á Norður-Atlantshafi búast flestir við aukinni úrkomu á eyjunum þar.  Ef frá er talin veiking Golfstraumsins, virka loftslagsbreytingarnar til aukinnar vinnslugetu raforku í vatnsaflsvirkjunum og fremur minna álags en hitt vegna hlýinda, þegar lónsstaðan er lægst. 

Öllum var ljóst fyrir útkomu þessarar skýrslu, að Akkilesarhæll íslenzka raforkukerfisins er flutningskerfi Landsnets.  Fyrirtækið kemst hvorki lönd né strönd með nauðsynlegar framkvæmdir sínar, af því að skilningsleysi er of útbreitt í þjóðfélaginu á mikilvægi þeirra og gríðarlegum þjóðhagslegum kostnaði af því, að Byggðalínan skuli vera fulllestuð árum saman og geti þannig ekki flutt afl að viðbótar álagi.   Fyrirtækið ber þó vafalaust sína sök á því framkvæmdaleysi, sem leitt hefur til stórtjóns í samfélaginu.  Kannski hefur það ekki verið í stakkinn búið stjórnkerfislega og fjárhagslega til að leysa málin.  Því verður að breyta strax, enda fer hættan á hagsmunaárekstrum vegna óeðlilegs eignarhalds Landsnets ekkert á milli mála.

 Ef ætti hins vegar að tengja rafkerfið við útlönd, mundi það þýða gríðarlegar línubyggingar frá virkjunum og niður að landtökustað sæstrengs eða sæstrengja. Að koma í veg fyrir orkuskort á Íslandi með því að leggja sæstreng til Skotlands er "overkilling", sem líkja má við að skjóta gæs með eldflaug. Slíkt er algert óráð, og er betur látið ógert. Ef erfitt er að fá leyfi til að styrkja núverandi stofnkerfi fyrir innanlandsnotkun, þá mun nú seint sækjast að fá leyfi fyrir línulögnum þvers og kruss að landtökustað sæstrengs.  Um hann er algerlega tómt mál að tala.  Því fyrr sem stjórnvöld átta sig á því, þeim mun betra. 

Hvað er til ráða með Landsnet ?  Fyrirtækið er á milli steins og sleggju og eiginlega á milli vita, því að það er í eigu 4 stærstu raforkufyrirtækja landsins, Landsvirkjunar (64,7 %), RARIK (22,5 %), OR (6,8 %) og OV (6,0 %), en "stjórn Landsnets skal vera sjálfstæð gagnvart öðrum fyrirtækjum, sem stunda vinnslu, dreifingu eða sölu raforku".  Þessi tvískinnungur hefur verið við lýði frá stofnun fyrirtækisins árið 2005, og gæti hafa staðið því fyrir þrifum. Mál er að linni, enda aldrei ætlað að vara til frambúðar. 

Landsnet starfar samkvæmt sérleyfi á markaði, þar sem engin samkeppni er leyfð.  Við slíkar aðstæður er eðlilegast, að ríkissjóður yfirtaki eignarhaldið hið fyrsta á fyrirtækinu með samningum við gömlu eigendurna um afsal eigna og fjármögnun kaupanna á 10 árum með arðgreiðslum frá orkufyrirtækjum, sem það á eða á hlut í. 

Það þarf að efla fjárhag Landsnets samhliða þessu og veita því jafnframt svigrúm til skuldabréfaútgáfu og lántöku, svo að hægt verði að auka fjárfestingar verulega og borga þær niður á löngum tíma í stað gegndarlausra hækkana á gjaldskrá, eins og verið hafa, sem eiga ekki úr þessu að verða umfram byggingarvísitölu, til almennings.

Með þessum hætti fær fyrirtækið fjárhagslegt svigrúm til að semja við heimamenn um raunhæfar lausnir á flutningaleiðum raforku, sem nú eru meira og minna strandaðar.  Það verður ekki hægt að leysa flutningsvandamálin án meira af jarðstrengjum á 132 kV og 220 kV en verið hafa á döfinni, og slíkt kostar meira fé í bráð, en afhendingaröryggi gæti vaxið í kjölfarið og viðhaldskostnaður minnkað. 

Byggðalínan verður að fara  víða í jörðu í byggð, og tæknilega og fjárhagslega verður hægt að koma á nauðsynlegri tengingu á milli Norður- og Suðurlands með jafnstraumsstreng "undir" hálendið á næsta áratugi.  Leysa má fyrst úr bráðum vanda Eyjafjarðar og Norð-Austurlands með meiri orkuvinnslu í Þingeyjarsýslum og flutningi orku þaðan í vestur, norður og austur með nýjum loftlínum og jarðstrengjum.  Þar með verður létt á flutningsþörf eftir Byggðalínu frá Vesturlandi til Norðurlands. Vestfirðir með hratt vaxandi laxeldi og íbúafjölgun þarfnast hringtengingar innan 5 ára á 132 kV.  

Ennfremur er haft eftir prófessor Perez-Arriaga

""En með vaxandi eftirspurn þurfið þið að framleiða meira rafmagn", segir hann og vísar þar til lítilla og meðalstórra notenda.  [Þetta er eins víst og 2x2=4 og mikils vert að fá staðfestingu á því eða hitt þó-innsk. BJo]  "Vandamálið með uppbygginguna hér er að hans sögn, að það vantar oft frumkvæðið, auk þess sem engin opinber orkustefna er til um, hvert stefna skuli í þessum efnum, þ.e. hvort auka eigi framleiðslu og þá hversu mikið, og hvernig orkuvinnsla eigi að vera í forgangi.""

Þetta er hárrétt athugað hjá skýrsluhöfundum og má þá segja, að glöggt sé gests augað.  Orkustofnun veitir virkjanaleyfi, en ræður ekki tímasetningu virkjunar.  Hún ætti að fá slíka þvingunarheimild gagnvart Landsvirkjun, ef stefnir í óefni með orku- eða afljafnvægið.  Orkustefnu ríkisins er brýnt að móta nú á kjörtímabilinu að beztu manna yfirsýn og í kjölfarið, einnig á kjörtímabilinu, eigendastefnu ríkisins fyrir Landsvirkjun, svo að þeir gríðarlegu fjármunir ríkisins, sem þar eru bundnir, nýtist á þjóðhagslega hagkvæmastan hátt. Er það með sæstrengsdaðri og vindmyllulundum ? 

Það er tvennt af því, sem þarf að leiða til lykta með ofangreindri vinnu.  Þegar orkustefna landsins verður mótuð, er brýnt að taka Verkefnastjórn Rammaáætlunar til endurskoðunar, svo að meira faglegt jafnvægi verði í mati á röðun virkjanakosta.  Orkustofnun gæti hæglega yfirtekið þessa vinnu. 

Prófessor Perez-Arriaga skriplar á skötunni í lok frásagnarinnar:

"Perez-Arriaga segir, að miðað við stöðuna í dag og áætlaða þróun í raforkunotkun ættu Íslendingar að geta stundað "business as usual" áfram til 2020 og að ekki sé hætta á skertu orkuöryggi, nema í algerum undantekningartilvikum, t.d. ef komi mjög hlýir vetur eða þurrir og ef ekki næst að safna nægjanlegu miklu í miðlunarlónin yfir sumartímann."

Þetta er mjög vafasöm framsetning á stöðu raforkuafhendingar og jafnvægis á milli framboðs og eftirspurnar til 2020.  Í fyrsta lagi fara ekki saman hlýir vetur og vatnsskortur, eins og áður er bent á, í öðru lagi er atvinnulífið á öllu norðanverðu landinu nú þegar svelt af völdum flutningsfyrirtækisins og Landsvirkjunar (allt of dýr ótryggð orka) og í þriðja lagi verður afljafnvægið í járnum á veturna eftir að Thorsil kemur inn með fyrri áfanga sinn, 87 MW, þangað til næsta heilsársvirkjun á eftir Þeistareykjum kemst í gagnið. (Búrfell 2 er bara sumarvirkjun.) 

Nýr iðnaðarráðherra og þar með orkuráðherra þarf að láta hendur standa fram úr ermum og brjóta blað að hálfu ríkisvaldsins í málaflokki, þar sem ríkið er beinn gerandi og örlagavaldur um mikla hagsmuni.   

 Aflmestu spennar landsins

 h_my_pictures_falkinn


Í leit að loðnu

Það er loðnubrestur í ár, og enginn veit af hverju.  Það er þó varla ofveiði um að kenna, og aflamarkið núna, 299 kt, aðeins rúmlega 20 % af því, sem ætla má, að hnúfubakurinn éti, en það gæti verið allt að 1,5 Mt/ár.

Það er of lítil þekking hjá Hafrannsóknarstofnun á þessari mikilvægu tegund okkar Íslendinga, loðnunni, og sú þekking fæst aðeins með rannsóknum. Farnar hafa verið 3 ferðir, og við hverja nýja ferð hækkar aflamarkið. Þekkingarskorturinn kemur berlega fram í ráðgjöfinni.  Reglan er sú, að skilja á eftir 150 kt af kynþroska loðnu í sjónum með 95 % öryggismörkum.  Það eru hins vegar 516 kt skilin eftir, sem eru 3,44 sinnum óskgildið.   Það bendir til stórs staðalfráviks og mikillar óvissu mælinganna.  Aðeins með frekari rannsóknum er unnt að minnka mælingaróvissuna og gera sér vonir um hærra aflamark.

 Rannsóknir kosta skildinginn, því að senda þarf hafrannsóknarskip á miðin.  Slík loðnuleitarferð hafrannsóknarskips kostar um MISK 40, og var ekki við það komandi hjá sjávarútvegsráðherra að útvega Hafrannsóknarstofnun nauðsynlegt fjármagn til að senda rannsóknarskip á miðin.  Lýsir það skilningi á stöðunni og trausti á vísindalegri þekkingu hjá ráðherranum ?  Nei, þvert á móti. Hún vildi heldur sitja með hendur í skauti og láta sitja við 12 kt aflaúthlutun loðnu til Íslendinga.

Dómgreind útgerðanna var betri, og gripu þær til þess ráðs að fjármagna 3. loðnuleitarleiðangurinn á þessu fiskveiðiári, 2016/2017, sjálfar.  Þann 14. febrúar 2017 kom í ljós, að þrátt fyrir varfærna aflareglu, þar sem aðeins er leyft að veiða 37 % af 815 kt af mældri kynþroska loðnu, ráðlagði Hafrannsóknarstofnun 242 kt aukningu aflamarks upp í 299 kt. 

Aflahlutdeild Íslands eykst við þetta úr 12 kt í 208 kt (12+196), sem er meira en 17 földun.  Loðnuvertíðinni er þar með bjargað í hendur Íslendinga, og það er útgerðunum að þakka, en ekki ríkisvaldinu, eins og fiskveiðistjórnunarkerfið þó gerir ráð fyrir og er grundvöllur veiðigjaldsins.    Ríkisvaldið brást, og hlutur sjávarútvegsráðherrans er óskaplega rýr, vegna þess að söluandvirði þess, sem hafðist upp úr krafsinu, ef allt næst, er tæplega miaISK 20, sem er 500_faldur rannsóknarkostnaðurinn.

  Í ljósi þess, að í hlut ríkissjóðs falla um 40 % af andvirðinu, eins og rakið er hér að neðan, veldur það gríðarlegum vonbrigðum, hversu hörmulega lélegan vörð ráðherrann stendur um hagsmuni ríkissjóðs.   

Rannsóknarkostnaðurinn er í þessu tilviki um 0,2 % af tekjuaukningunni, og tekjuaukningin verður reyndar enn meiri, ef hin erlendu skip, sem veiða mega 19 % aukningarinnar, munu leggja upp hérlendis að einhverju leyti. 

Sjávarútvegsráðherra, sem horft hefur aðgerðarlaus upp á miaISK 100 tap þjóðarbúsins af völdum sjómannaverkfalls, ætti að íhuga vandlega að með Hafrannsóknarstofnun að loknu verkfalli, hvort frekari rannsónir séu líklegar til að skila enn meiri aukningu, og fjármögnun Hafrannsóknarstofnunar til lengdar þarf að endurskoða strax.  Eðlilegast er, að andvirði veiðigjaldanna renni í sjávarútvegssjóð, sem m.a. styðji fjárhagslega við Hafrannsóknarstofnun, svo að annar eins vandræðagangur og undanfarið með fjármögnun rannsókna sjáist ekki aftur.  

  Með slíkum rannsóknarleiðangri á þessum árstíma mundu vafalaust fást mikilsverðar upplýsingar um hitastig, átu, torfudreifingu,fisk við ísrönd o.s.frv., þótt ekki finnist meiri loðna.  Verði hægt að minnka óvissu stofnmælingar loðnu, mundi reyndar ríkissjóður fá mest allra aðila í sinn hlut. Tekjuskiptingin verður nokkurn veginn þannig samkvæmt Hagstofu:

  1. Rekstrarkostnaður nemur um 42 %, og rennur sennilega tæpur helmingur af honum til ríkisins á formi skatts af launum af veittri þjónustu og sem virðisaukaskattur, þ.e.a.s 20 % af heild.
  2. Launatekjur 18 % og lífeyrisgreiðslur 4 % nema um 22 % eftir skatta, og þá á ríkið eftir að innheimta tekjuskatt við útgreiðslu lífeyris. Skattspor fyrirtækjanna nemur um 21 %, þar af til sveitarfélaganna 4 %, og ríkissjóðs 17 % af heild. 
  3. Framlegð af þessu aflamarki er um 10 % og fer í afborganir og fjármagnskostnað, um 5 %, og arðgreiðslur til hluthafa. 
  4. Ríkissjóður fær líklega í sinn hlut tæplega 40 % af andvirði aflamarksaukningar á loðnu. Það er ekki gott stjórnvald, sem situr með hendur í skauti og aðhefst ekkert, þegar tækifærin kunna að vera innan seilingar, og fleygir frá sér endurskoðunarrétti sínum á skiptireglu takmarkaðra loðnuheimilda.  Ef lausn sjómannaverkfallsins tengist "egói" sjávarútvegsráðherrans, þá er virkilega illa komið vorum hlut.

Um slæma stöðu Íslendinga á loðnumörkuðunum núna segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson í Fiskifréttum 2. febrúar 2017, "Loðnubrestur í skugga Eurovision":

"Loðna og loðnuveiðar varða ekki einungis hagsmuni samfélagsins, sjávarútvegsins og starfsfólks í sjávarútvegi til skamms tíma, heldur framtíðarhagsmuni á afurðamörkuðum til langs tíma. 

Nú ríkir mikill skortur á frosinni loðnuhrygnu og loðnuhrognum á mörkuðum um allan heim.  Loðnubrestur í ár og hugsanlegur loðnubrestur á næsta ári eyðileggur einfaldlega markaði, þar sem Íslendingar eiga um helmingshlutdeild í frosinni loðnu og nær alla markaðshlutdeild í loðnuhrognum. 

Fari allt þetta forgörðum, verður tjón þjóðarinnar talið í tugum milljarða króna, líkast til það svari til þess, sem kostar að reisa eitt stykki nýjan Landsspítala.  Munar um minna, eða hvað ?"

Í þessu ljósi verður ljóst, hversu arfaslök frammistaða það er hjá sjávarútvegsráðherra að úthluta megninu af upphafsaflamarki loðnunnar, 57 kt, til annarra þjóða, sem við eigum í samkeppni við á mörkuðunum.  Veldur ráðherrann embættinu ?  Um það eru réttmætar efasemdir, og meiri efasemdir hafa vart verið um hæfileika ráðherra síðan á dögum vinstri stjórnar Kötu & Co., sem gerði verstu samninga sögunnar við útlendinga. 

Eftir loðnuleitarleiðangur nr 3 var aflamark loðnu aukið um 242 kt, og af því fá Íslendingar samkvæmt skiptireglunni 196 kt, og ef aflamarkið næst, verður afli íslenzkra skipa um 208 kt eða um 70 % af heildaraflamarkinu.  Íslendingar munu þó markaðssetja meira af loðnu, ef allt gengur upp, vegna erlendra skipa, sem leggja upp hérlendis.

Þórshöfn í Færeyjum 


Ráðherra og loðnan

Íslenzkir framleiðendur loðnuafurða hafa átt stóra markaðshlutdeild á loðnumörkuðum, enda hafa íslenzkar útgerðir lengi veitt meira af loðnu en útgerðir annars staðar. Þar af leiðandi eru hagsmunir Íslendinga meiri en annarra þjóða við Norður-Atlantshaf á loðnumörkuðum, og þar með ábyrgð gagnvart viðskiptavinum.

 Nú er svo komið, að íslenzki sjávarútvegsráðherrann hefur fært Norðmönnum frumkvæði á þessu sviði og virðist ekkert frumkvæði ætla sjálf að sýna, þegar miklir hagsmunir landsins eru í húfi.  Það er alvarlegur sofandaháttur að hafa ekki krafizt endurskoðunar á skiptisamningum við Norðmenn um loðnu í landhelgi Íslands og þorsk í Hvítahafinu, þegar gildandi samningar skyndilega veita Norðmönnum yfirburðastöðu á loðnumörkuðunum.  Vegna loðnubrests eru forsendur þessara samninga fallnar, en ráðherrann virðist skorta dug til að reisa burst gagnvart frændum okkar, sem eru harðdrægir sem kunnugt er.  Það verður stundum að berja í borðið til að standa á rétti sínum. Hverra hagsmunum er hún eiginlega að þjóna í sínu háa embætti ?

Það hefur ekki farið ýkja hátt, að í lok janúar 2017 úthlutaði sjávarútvegsráðherra Norðmönnum bróðurpartinum, 70 %, af því litla aflamarki, sem Hafrannsóknarstofnun ráðlagði í fyrstu atrennu á þessu ári, 57 kt, og í hlut Íslendinga koma aðeins 21 % af 81 %, sem er okkar skiptahlutfall í samningum um deilistofna.  Er þessi ráðherra ekki í vinnu hjá okkur ?

  Málið er, að þessi samningur við Norðmenn um 31 kt til þeirra á grundvelli "Smugusamningsins" er meingallaður, því að enginn varnagli er í honum um minni loðnuheimildir til handa Norðmönnum í loðnubresti.  Ráðherrann skilur ekki, að nú eru uppi aðstæður, sem útheimta, að hún stigi á neyðarhemlana, eða hún hreinlega nennir því ekki, en skrifar heldur undir einhverja bölvaða vitleysu í ráðuneytinu, sem að henni er rétt, og vill helzt reka "business as usual"  í stað þess að brjóta blað. Situr illa forritaður róbóti í ráðherrastóli ?

Stefán Friðriksson, forstjóri Ísfélags Vestmannaeyja, sagði eftirfarandi í viðtali við Guðjón Einarsson á Fiskifréttum 2. febrúar 2017:

"Þorskkvóti Íslendinga í Barentshafi minnkar og stækkar í samræmi við ástand þorskstofnsins þar.  Þegar loðnustofninn við Ísland er stór, eru ákvæði Smugusamningsins kannski í lagi, en þegar illa árar í loðnunni, eins og núna, hljóta allir að sjá, að það er ekki eðlilegt, að svona stór hluti af loðnukvóta Íslendinga fari í að borga Norðmönnum veiðiheimildir í Barentshafi.  Enginn, sem er með veiðiréttindi í loðnu, sér vitglóru í því, að svona stór hluti af þeim sé notaður í milliríkjasamningi um tegundir, sem þeir hafa enga aðkomu að.  Það er augljóslega vitlaust gefið."

Sjávarútvegsráðherra er algerlega úti að aka í þessum málum.  Ef hún stæði í ístaðinu, hefði hún sagt við sinn norska starfsbróður, að gagnkvæmniregla yrði að gilda í skiptum á veiðiréttindum í íslenzkri lögsögu og í Hvítahafinu, sem þýðir t.d., að Norðmenn geta ekki fengið meira en sín umsömdu 8 % af aflamarki loðnu, á meðan það er undir 100 kt.  Við aflamark 100 kt fái þeir 10 kt + 8 %, og við 200 kt aflamark loðnu í íslenzkri lögsögu fái þeir sín 31 kt + 8 % gegn umsömdum réttindum Íslendinga í Hvítahafinu.  Hvaða erindi á Þorgerður Katrín í embætti sjávarútvegsráðherra, ef það er ekkert bein í nefinu á henni ?  Nú vill svo vel til, að í dag, 14. febrúar 2017, var aflamarkið hækkað í 299 kt, og verður þá heildarhlutur Íslendinga 208 kt.

Núgildandi skiptiregla á loðnu í íslenzkri lögsögu á milli strandríkja er þessi (tonnafjöldi í sviga m.v. 57 kt (k=1000) aflamark: 

  • Ísland fær 81 % (46,17 kt)
  • Grænland fær 11 % (6,27 kt)
  • Noregur fær 8 % (4,56 kt)
Nú láta Íslendingar frá sér 31,165 kt til Norðmanna og verða að taka því, ef Norðmenn girða fyrir þorskveiðar Íslendinga í Hvítahafi, fái þeir þetta ekki, enda hafa þorskveiðar braggast hér við land, síðan "Smugusamningurinn" var gerður. 
Það er meira virði að hindra Norðmenn í að yfirtaka loðnumarkaðinn.  Norðmenn eru með tangarsókn inn á hann, því að þeir hafa gert samning við ESB um vænan skerf af aflahlutdeild Grænlendinga.  Þannig næstum tífalda Norðmenn skerf sinn af loðnu í íslenzku lögsögunni og standa nú með pálmann í höndunum og um 40 kt, og Íslendingar fá aðeins 21 % í stað 81 % eftir að hafa afhent Færeyingum 2,85 kt.  Það er grátlegt að horfa upp á sjávarútvegsráðherra kissa á vöndinn, og hún virðist ekki einu sinni skilja, að um vönd er að ræða.

 

 


Lömun sjávarútvegs með verkfalli

Verkfall nokkurra sjómannafélaga er eldra en ríkisstjórnin.  Tjónið af því er svo mikið, að það hefur neikvæð áhrif á þjóðhagsstærðir á borð við hagvöxtinn í ár.  Þúsundir saklausra borgara líða fyrir þessi kjaraátök sumra sjómanna og útgerða, og fjárhagur skuldsettra einstaklinga og minni fyrirtækja mun ekki bera sitt barr.  Markaðir og traust viðskiptavina íslenzkra birgja glatast, og það mun kosta fjárhagslegar fórnir að ná mörkuðum aftur, nú þegar mikill fiskneyzlutími fer í hönd á föstunni. Þessu stríðsástandi verður að linna, því að allir hérlandsmenn tapa. Vinnumarkaðsráðherrann getur varla verið stikkfrí.  Liggur hann undir feldi ?

Við þessar aðstæður er hlutur sjávarútvegsráðherrans  einnig einstaklega rýr, og hefði einhvern tímann þótt saga til næsta bæjar, að sjávarútvegsráðherra væri á flótta frá stærsta vandamáli þjóðfélagsins í einu lengsta verkfalli sögunnar hérlendis. Kostnaðarlappinn á þessu verkfalli er nú kominn í miaISK 100, þegar tekið er tillit til viðtekins stuðuls óbeinnar verðmætasköpunar sjávarútvegsins, 2,5. 

"Rannsóknir hafa sýnt, að að framlag sjávarútvegsins til landsframleiðslunnar sé minnst 2,5 sinnum meira en tekjur greinarinnar sjálfrar gefa til kynna",

stendur í Fiskifréttum hjá Guðjóni Einarssyni 9. febrúar 2017.  Hver getur staðið undir þeirri byrði að fá á sig hengdan þennan verðmiða ? 

Tjónið, sem hlýzt af þessu sjómannaverkfalli, er geigvænlegt, hvað sem merkimiðum líður, og það er alveg með ólíkindum langlundargeð landsstjórnenda að láta þessa dæmalausu tortímingaráráttu viðgangast.   Um það skrifar hinn knái fyrrverandi utanríkisráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, í Morgunblaðið 3. febrúar 2017,

"Kæruleysi stjórnvalda":

"Erlendir markaðir eru að glatast, þar sem afhendingaröryggi ferskra sjávarafurða er ekki lengur tryggt.  Samkvæmt greiningu sjávarklasans tapast á hverjum degi MISK 640 í útflutningstekjum [tjónið nemur þá nú tæplega miaISK 40-innsk. BJo], og daglegt heildartap er nærri milljarði króna, ef deilan leysist ekki von bráðar.  Miklir þjóðhagslegir hagsmunir eru í húfi, og tjónið mikið, á meðan fiskveiðiflotinn liggur óhreyfður við bryggju." 

Það er hneyksli, sem um munar, að sjávarútvegsráðherra hefur lýst því yfir, að hún muni ekki koma nálægt lausn þessarar deilu, þótt öllum öðrum en henni sé ljóst, að ríkisvaldið heldur á lyklinum að lausn þessarar deilu sem handhafi skattlagningarvaldsins.  Er sjávarútvegsráðherra búin að stimpla sig út ?  Lilja skrifaði ennfremur: 

"Í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í vikunni kom fram, að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ekki látið meta, hve mikið þjóðhagslegt tjón hlýzt af deilunni [sjávarklasinn gerði það-innsk. BJo].  Það er heldur ekki búið að kanna, hvort þörf sé á mótvægisaðgerðum fyrir þau sveitarfélög, sem koma verst út [kassinn er þegar tómur víða-innsk. BJo].

 Raunar er engu líkara en sjómannaverkfallið komi ráðherra sjávarútvegsmála ekkert við, því að þótt málið hafi ekki verið krufið til mergjar, hefur ráðherra útilokað allar sértækar aðgerðir, sem gætu liðkað fyrir lausn deilunnar.  Slíkt kæruleysi er varasamt og getur valdið meiri þjóðhagslegum skaða af hinu langvinna verkfalli."

Ráðherrann er fallinn á prófi í aðalfaginu sínu. Upptökupróf verður ekki haldið.  Með fjarveru sinni og áhugaleysi er hún orðin meðábyrg fyrir líklega dýrasta verkfalli Íslandssögunnar. 

Þann 9. febrúar 2017 birtist forystugrein í Morgunblaðinu,

"Svigrúm til lausnar",

þar sem bent var á og það rökstutt, að ríkisvaldið getur hjálpað til við lausn deilu, þar sem herzlumuninn vantar.  Vilji er allt, sem þarf.:

"Annað, sem skiptir máli í samanburði á starfsumhverfi sjávarútvegs hér á landi og erlendis, er, að íslenzkur sjávarútvegur er einn í þeirri stöðu að greiða sérstakan auðlindaskatt, svo kallað veiðigjald.  Aðrar þjóðir fara ekki þá leið að skattleggja sjávarútveg sinn sérstaklega; þvert á móti hafa sumar þeirra veitt sjávarútvegi sínum, sem á í beinni samkeppni við okkar sjávarútveg, myndarlega ríkisstyrki. 

Í samanburði við aðrar greinar innanlands, sem nýta náttúruauðlindir, er staðan einnig skökk, sjávarútveginum í óhag.  Hann þarf einn að þola það að vera skattlagður sérstaklega með auðlindaskatti. Óskiljanlegt er, að þeir, sem í ýmsum öðrum málum segjast andvígir allri mismunun, skuli sætta sig við, að undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar sé mismunað svo gróflega. 

Það er ekki að ástæðulausu, að þetta er fært í tal nú, þegar verkfall sjómanna hefur staðið í nær tvo mánuði.  Það skattaumhverfi, sem greininni er búið, á stóran þátt í þeirri óánægju, sem ríkir innan sjómannastéttarinnar.  Þar vegur afnám sjómannaafsláttarins þungt, en fleira hefur verið nefnt, svo sem mismunun gagnvart sjómönnum á meðferð dagpeninga."

Mál er, að linni og að sjávarútvegsráðherra í samráði við flokksbróður sinn, fjármála- og efnahagsráðherra, blandi sér í slaginn með innlegg í málið, sem stillt geti til friðar, svo að ríkissáttasemjari geti síðan hamrað járnið á meðan heitt er, eða, ef enn gengur ekki saman, teflt fram miðlunartillögu, sem ríkisstjórnin er þá tilbúin að lögfesta, ef annar aðilinn, eða báðir, hafna henni.  Við svo búið má ekki standa. Að sitja með hendur í skauti og bíða eftir, að staðir asnar drattist að samningaborðinu og þori að semja, er enginn raunverulegur valkostur nú, þegar loðnuvertíð gæti verið innan seilingar og kaþólikkar ætla að belgja sig út af fiski og meðlæti á í hönd farandi föstu. 

Hitt er það, sem forsætisráðherra hefur ýjað að, að þessi deila sýnir, það sem löngu var vitað, að vinnumarkaðskerfi okkar er veikur hlekkur í þjóðaröryggiskeðjunni, þar sem minnihluti félagsmanna í fáeinum verkalýðsfélögum getur hafið stríðsrekstur gegn byggðarlögum hringinn í kringum landið og valdið þjóðarbúinu tapi, sem nemur meira en 3 % af vergri landsframleiðslu án þess, að ríkissáttasemjari eða aðrir fái rönd við reist.  

Ríkisstjórnin ætti að gangsetja vinnu, sem miðar að endurskoðun kreppulaga um stéttarfélög og vinnudeilur eða a.m.k. að vinna að lagasetningu um vinnudeilur, sem eflir mjög valdsvið og úrræði ríkissáttasemjara í anda hinna Norðurlandanna.  Það er ótækt, að embætti ríkissáttasemjara sé í lamasessi, þegar tilteknar stéttir í vinnudeilum lama starfsemi sjúkrahúsa, skóla eða annarrar stærstu vöruútflutningsgreinarinnar, svo að dæmi sé nefnt.  Þjóðarnauðsyn krefst úrræða ríkisvaldsins til varnar  gegn slíkum stóráföllum.

 


Verðmæti jarðgufu- og vindorkuréttinda

Stjórnvöldum á Íslandi er falið af Eftirlitsstofnun EFTA-ESA, líklega til að jafna samkeppnisstöðu, að koma því í kring, að öll fyrirtæki, sem stunda raforkuvinnslu úr orkulindum á landi í opinberri eigu eða umsjón, skuli greiða markaðstengt afnotagjald fyrir aðgang að þessum orkulindum. Þetta er væntanlega til að hindra rentusækni og jafna samkeppnisstöðu og á einnig við um nýtingu, sem þegar er hafin, og skal gilda allt til loka nýtingar. 

Það getur verið fróðlegt að kanna, hvaða upphæðir, væntanlega í sveitarsjóði, gæti hér verið um að ræða, og þá er auðvitað nauðsynlegt fyrst að verðmeta þessar orkulindir.  Það er hægt að gera á grundvelli lágmarksverðs, sem fá þarf fyrir raforkuna frá tiltekinni virkjun, með ávöxtunarkröfu, sem svipar til arðsemi annarra fjárfestinga með svipaðri áhættu.

Sem dæmi um jarðgufunýtingu til raforkuvinnslu má taka Þeistareykjavirkjun, sem nú er í byggingu.  Áætluð fjárfesting er MUSD 185.  Gera verður hærri ávöxtunarkröfu til jarðgufuvirkjana en til vatnsorkuvera vegna meiri rekstraráhættu, hér 9,0 %, og afskriftartíminn er styttri vegna óvissu um endingu jarðgufuforðans á staðnum, hér valinn 30 ár.  Rekstrarkostnaður er tiltölulega hár vegna meiri viðhaldsþarfar af völdum útfellinga, tæringar og gufuöflunar, hér valinn 5,0 %/ár af stofnkostnaði.  Þá fæst "kostnaðarverð" raforku frá Þeistareykjum 38 USD/MWh (=4,3 ISK/kWh), framlegð 66 % og rekstrarkostnaður 34 %. Sé umsamið raforkuverð lægra, er arðsemin óviðunandi í þessu ljósi.

Með þessu móti mun árleg framlegð virkjunarinnar nema 18 MUSD.  Til að leggja mat á verðmæti orkulindarinnar er nú ráð að núvirða þessar árlegu greiðslur í 25 ár, og fæst þá upphæðin MUSD 175 = miaISK 20,2. 

Ef gert er ráð fyrir, að eðli jarðgufuréttinda og vatnsréttinda sé hið sama í lagalegum skilningi, þá gildir dómur Hæstaréttar um, að Þjóðskrá Íslands skuli færa þessi verðmæti í fasteignaskrá, og þar með mega viðkomandi sveitarfélög innheimta af þeim fasteignagjald: FG=0,005 x 20,2 = 101 MISK/ár.  Jarðfræðingar hafa hugmynd um umfang nýtingarsvæðis fyrir gufuforða virkjunarinnar, og út frá því getur skipting þessa afnotagjalds farið fram á milli sveitarfélaganna. Annað mál er, hvað Alþingi ákvarðar, að stór hluti af slíku afnotagjaldi renni í jöfnunarsjóð sveitarfélaganna, því að jarðhiti er æði misjafn eftir sveitarfélögum, eða jafnvel í væntanlegan auðlindasjóð. 

Er meðalhófs gætt við þessa skattheimtu jarðgufuréttinda ?  Svarið er jákvætt, því að upphæð afnotagjaldsins nemur 4,9 % af árlegri framlegð virkjunarinnar, sem má kalla hófstillt, þegar litið er t.d. til álagningar svo kallaðra veiðigjalda, þar sem aðferðarfræðin er illa ígrunduð. 

Næst má snúa sér að vindmyllulundum og spyrja, hvort einhver glóra sé í því að taka gjald af fyrirtækjum fyrir að breyta vindorku í raforku ?  Því er til að svara, að í nafni jafnræðis á markaði er það nauðsynlegt, því að annars væru stjórnvöld að mynda fjárhagslegan hvata fyrir raforkuvinnslu úr vindorku, sem er skiljanlegt af umhverfisástæðum erlendis, en er algerlega ástæðulaust á Íslandi.  Vindorkan er enn þá dýrust í vinnslu á Íslandi af hefðbundnu orkuformunum þremur, fallvatnsorku, jarðgufuorku og vindorku, en kostnaðarbilið á milli hennar og hinna tveggja fer minnkandi með árunum. 

Það er engu að síður enn svo, að vinnslukostnaður raforku með vindmyllum á Íslandi ásamt kostnaði við að koma raforkunni inn í aðveitustöð fyrir stofnkerfistengingu, m.v. 7,0 %/ár ávöxtunarkröfu fjármagns og 30 ára afskriftatíma fjárfestingar, nemur 60 USD/MWh (=6,9 ISK/MWh), sem er hærra orkugjald en flestir neytendur þurfa að greiða um þessar mundir.  Fjárhagsleg réttlæting gæti þá einvörðungu falizt í að spara vatn í miðlunarlónum til að forða vatnsskorti, t.d. í Þórisvatni í tilviki Búrfellslundar. 

Er eitthvert vit í því ? Orkuvinnslugeta Búrfellslundar mun verða innan við 700 GWh/ár, sem er um 5 % af orkuvinnslugetu Landsvirkjunar um þessar mundir, svo að eftir litlu er að slægjast, sérstaklega í ljósi yfirstandandi loftslagsbreytinga. 

Með hækkandi meðalhitastigi í lofti yfir Íslandi má búast við meiri ársúrkomu og mildari vetrum, svo að innrennsli miðlunarlóna mun vaxa og árstíðasveifla álags raforkukerfisins minnka.  Allt virkar þetta í þá átt að draga úr líkum á "þurrum árum", þegar vænta má raforkuskorts vegna vatnsleysis. Betri vatnsbúskapur af þessum völdum mun sennilega jafngilda meiri orkuvinnslugetu vatnsorkukerfisins en áformaðri vinnslugetu Búrfellslundar nemur. 

Búrfellslundur eða aðrir vindmyllulundir verður þess vegna ekki hagrænt gagnlegur fyrr en meir hefur dregið saman með raforkukostnaði frá vindmyllum og öðrum virkjunum, t.d. þegar vinnslukostnaður vindmylla hefur lækkað um 20 % frá því, sem nú er. Það gæti orðið upp úr 2020.

Ef/þegar vindmyllulundur verður reistur á Hafinu norðan Búrfells, mun arðsemi þess fjármagns, sem þar verður bundið, verða innan við 5,0 % m.v. núverandi raforkuverð í landinu og fjárfestingarþörf 2,0 MUSD/MW.  Ef hins vegar Landsvirkjun skyldi takast að fá 6,9 ISK/kWh, þá verður framlegðin 80 % eða 3,9 miaISK/ár. 

Til þess að meta verðmæti þessarar staðsetningar til að nýta vindorku til að framleiða rafmagn án tillits til "umhverfiskostnaðarins", sem sumir telja frágangssök, en þarfnast vandaðs mats, þarf, eins og áður, að  núvirða framlegðina yfir 25 ár, og fæst þannig upphæðin 392 MUSD = miaISK 45,1, sem þá eru verðmæti vindorkuréttindanna á þessum stað. 

Árlegt fasteignagjald af þessari upphæð: FG = 0,005 x 45,1 = MISK 226, sem eru 5,8 % af árlegri framlegð vindmyllanna við 6,9 ISK/kWh. 

Ef umsamið orkuverð frá vindmyllunum verður lægra, verður framlegðin og þar með verðmæti virkjunarréttindanna að sama skapi lægri. 

Kjarni málsins er, að auðvelt er að þróa almenna aðferð til að leggja mat á virkjunarréttindi, hvaða nafni, sem þau nefnast, og reyndar má beita henni á hvers konar arðgæfar náttúruauðlindir og vega á móti ávinninginum af að aðhafast ekki.  Það er brýnt, réttlætisins vegna, að látið verði af uppteknum hætti að bleyta þumalfingurinn og stinga honum upp í loftið til að slá á verðmæti náttúruauðlinda. 

Þrýstingur er nú þegar á stjórnvöld að hálfu sveitarfélaganna og ESA hjá EFTA að leggja fram frumvarp, sem taki mið af markaðinum, mismuni engum á markaðinum og gæti meðalhófs við álagningu afnotagjalds af orkulindunum. Boltinn er hjá ráðuneyti og Alþingi.

 


Verðmæti náttúruauðlinda

Enn er aðeins innheimt afnotagjald af miðunum við Ísland af öllum náttúruauðlindunum.  Aðferðarfræðin við það er of flókin og afturvirk, og niðurstaðan er rekstri margra útgerða þungbær, af því að afnotagjald fyrir aðgang að miðunum getur skorið væna sneið af framlegð fyrirtækjanna. 

Þessi skattheimta er óréttlát, af því að hún mismunar atvinnugreinum. Afkoma útgerðanna getur snarbreytzt á einu ári, og þess vegna er ótækt að miða afnotagjald við afkomuna fyrir 2-3 árum.  Þar að auki eru engar hömlur á því, hversu stóran hluta framlegðar fyrirtækjanna ríkið haldleggur með afnotagjaldi miðanna.  Setja ætti þak við afnotagjald allra náttúruauðlinda við t.d. 6,0 % af framlegð, og sé afkoma útgerðar svo lakleg, að framlegðin nái ekki 20 % af söluandvirði aflans, þá ætti að fella afnotagjaldið niður á því ári, enda borgar útgerðin að öðru leyti opinber gjöld að jöfnu við önnur fyrirtæki, nema tryggingagjaldið er óvenjuhátt á útgerðirnar, og er brýnt að samræma það, um leið það verður almennt lækkað. 

Hvers vegna býður ríkið ekki fram samræmingu (lækkun) á tryggingagjaldinu sem lokahnykk í sáttaferli, er e.t.v. feli í sér dagpeningagreiðslur og hefðbundna skattameðferð þeirra á móti ásamt ofangreindu þaki á veiðigjöldin ?  

Það hefur dregizt úr hömlu að jafna aðstöðu fyrirtækja í landinu, sem hafa aðgang að náttúruauðlindum í almenningum, þjóðlendum eða í annars konar opinberri umsjá eða eigu.  Sú staðreynd hefur ratað alla leið á borð ESA. Þann 20. apríl 2016 kvað eftirlitsnefnd EFTA, ESA,upp úrskurð þess efnis, að ríkisstjórninni bæri að eiga frumkvæði að lögfestingu aðferðarfræði við að meta verðmæti orkulinda í náttúrunni í opinberri eigu eða umsjá, sem nýttar eru til raforkuvinnslu, í þeim tilvikum, sem markaðsverð hefur ekki þegar myndazt; þessi aðferðarfræði skal vera markaðstengd, þ.e.a.s. rafmagnsframleiðendur skulu borga markaðsverð fyrir afnot náttúruauðlinda, þ.e. vatnsréttinda, jarðgufuréttinda og vindréttinda. Ef hafstraumar, haföldur eða sjávarföll verða nýtt í framtíðinni, mun hið sama gilda um þessar orkulindir.  Fyrir ólíkar orkulindir er nauðsynlegt að þróa heildstæða aðferðarfræði við verðmætamatið. 

Jafnframt ber ríkisstjórninni að sjá til þess með lagafrumvarpi, samkvæmt téðum úrskurði, að öll orkuvinnslufyrirtæki greiði "markaðsverð" fyrir vatnsréttindi, jarðgufuréttindi eða vindréttindi. Þetta á líka við um gildandi orkusamninga, þar til þeir renna út, en ekki afturvirkt.  Það þarf þess vegna að drífa í þessu.  Spurningin er: hvernig ?

Það eru dæmi um afnotagjald vatnsréttinda í landinu fyrir smávirkjanir. Þar virðist yfirleitt miðað við ákveðinn hundraðshluta af sölutekjum virkjunar. Í mörgum tilvikum stærri virkjana er orkuverðið þó óþekkt.  Það er tilgreint í orkusamningi, sem leynd hvílir yfir, og það tengist einhverri annarri breytu, t.d. afurðaverði orkukaupandans eða vísitölu neyzluverðs í Bandaríkjunum, BNA, af því að umsamið raforkuverð er yfirleitt í bandaríkjadölum, BNA. 

Það er ósanngjarnt að taka ekki tillit til rekstrarkostnaðar við að breyta fallorku vatnsins í rafmagn, og þess vegna er eðlilegra að leggja framlegð nýrrar virkjunar af sama tagi með sams konar viðskiptavini til grundvallar álagningu afnotagjalds vatnsréttinda. 

Það hafa gengið dómsmál á milli Landsvirkjunar og sveitarfélaganna, sem eiga hagsmuni af því, hvernig verðmætamati vatnsréttinda fyrir Fljótsdalsvirkjun er háttað.  Hæstiréttur úrskurðaði í október 2015, að sveitarfélög, sem hafa virkjaðar ár í sínu landi og arðgæf vatnsréttindi, geti óskað eftir því við Þjóðskrá Íslands, að hún meti vatnsréttindin til fasteignamats.  Þar með opnast möguleiki fyrir sveitarfélögin að leggja fasteignaskatt á fyrirtækin, sem fénýta þessi vatnsréttindi. 

Deilur á milli hagsmunaaðila hafa einnig risið um í hvaða fasteignaflokk ætti að skrá vatnsréttindin.  Yfirfasteignamatsnefnd kvað upp úrskurð sinn um þetta 15. desember 2016.  Fasteignaskatt vegna vatnsréttinda kærenda í Fljótsdalshreppi skal ákvarða samkvæmt a. lið 3. mgr. 3. gr. laga nr 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga jafnt innan sem utan þjóðlendu. 

Ákvæðið tilgreinir skattheimtu allt að 0,5 % af fasteignamati með 25 % viðbót við sérstakar aðstæður.  Sveitarfélagið hafði krafizt heimildar til skattheimtu samkvæmt c. lið laganna, sem heimilar þrefalt hærri skattheimtu, en úrskurðurinn ætti að vera vel viðunandi fyrir báða aðila. 

Það er hins vegar verðmætamatinu sjálfu, sem er enn þá ábótavant.  Í ágúst 2007 komst matsnefnd að þeirri niðurstöðu, að verðmæti vatnsréttinda, sem nýtt eru í þágu Fljótsdalsvirkjunar, skuli vera miaISK 1,54. Þetta er aðeins 1,0 % af upphæðinni, sem aðferðarfræði blekbónda, sem hér er kynnt til sögunnar, leiðir til. Krafa vatnsréttarhafa hljóðaði hins vegar upp á rúmlega miaISK 25, svo að þar er einnig ginnungagap á milli, sem sýnir, að það bráðvantar heildstæða aðferðarfræði við verðmætamat vatnsréttinda.  Uppgefin viðmiðun handhafa vatnsréttindanna var líka út í hött, þar sem hún virðist hafa verið meðalverð seldrar orku í landinu við stöðvarvegg árið 2006, sem var gefið á bilinu 2,07 kr/kWh-2,18 kr/kWh, sem m.v. gengi á miðju ári 2006, USD/ISK = 67,5, svarar til 31,4 USD/MWh (bandaríkjadala á megawattstund). 

Meðalsöluverð raforku í landinu á ákveðnu ári kemur  hins vegar þessu máli ekki við.  Það, sem er rökrétt að leggja til grundvallar verðmætamati ákveðinna vatnsréttinda, er "kostnaðarverð" raforku frá sambærilegri virkjun með sambærilegt álag og með venjulega ávöxtunarkröfu slíkra fjárfestinga, hér 7,0 %/ár, venjulegan afskriftatíma slíkra mannvirkja, 40 ár, og hefðbundinn rekstrarkostnað slíkra virkjana, hér 1,0 %/ár af stofnkostnaði. Nota mætti uppfærðan stofnkostnað virkjunar, sem í hlut á.  

Síðan skal núvirða árlega framlegð slíkrar virkjunar yfir samningstímabil orkusölunnar, t.d. 25 ár, og fást þá reiknuð verðmæti vatnsréttindanna.  Í tilviki Fljótsdalsvirkjunar er niðurstaða blekbónda MUSD 1329 = miaISK 153 (USD/ISK=115), sem er 6-falt verðmætamat sveitarfélaganna Fljótsdalshrepps og Fljótsdalshéraðs, sem eru hagsmunaaðilar ásamt Landsvirkjun. 

Árlegur fasteignaskattur til viðkomandi sveitarsjóða:  FS=153 miaISK x 0,005=765 MISK, og er eðlilegt, að sveitarfélögin skipti honum á milli sín í hlutfalli við landareignir m.v. hámarks ummál miðlunarlóns og lengd árfarvegar, sem virkjað vatn fer um í viðkomandi sveitarfélagi. 

FS er ívið hærri en fæst samkvæmt tíðkaðri markaðsaðferð um smávirkjanir, en þá ber að hafa í huga, að orkuverðið frá Fljótsdalsvirkjun er í lægri kantinum um þessar mundir vegna lágs álverðs. 

Verður þessi skattheimta íþyngjandi fyrir Landsvirkjun ?  FS mun nema um 5,8 % af árlegri framlegð virkjunarinnar.  Sé litið til afnotagjalda sjávarútvegsins af veiðiheimildunum, þá hafa þau undanfarin ár iðulega numið tvöföldu þessu hlutfalli af framlegð útgerðanna eða yfir 10 %, sem er sannarlega íþyngjandi og skekkir (veikir) samkeppnisstöðu sjávarútvegsins verulega.  Sú skattheimta af fyrirtækjum, sem nýta rennandi vatn til raforkuvinnslu, sem hér er lögð til, jafnar aðstöðu fyrirtækja í landinu, sem nýta náttúruauðlindir, og það er vissulega gætt meðalhófs.  Til að tryggja þetta meðalhóf ætti að setja hámark 6,0 % af framlegð fyrirtækja í afnotagjald af auðlindum náttúrunnar. 

Það er grundvallaratriði, að allar greinar orkuvinnslunnar njóti jafnræðis gagnvart skattheimtu, og sama má segja um allar greinar, sem nýta náttúruauðlindir.  Þar er ferðaþjónustan ekki undan skilin.  Af þessum ástæðum er nauðsynlegt að þróa samræmda og almenna aðferðarfræði við verðmætamat auðlinda, ef markaðurinn hefur ekki nú þegar myndað verð á þeim.

Í næstu vefgrein verður fjallað um verðmætamat jarðgufuréttinda og vindréttinda.

Búðarháls úr lofti 10.07.2012

 


Jafnvægi og framsýni

Fyrrverandi fjármálaráðherra hafði betri tök á starfinu en margir forvera hans.  Hann einfaldaði skatta- og innflutningsgjaldakerfið mikið, til hagsbóta fyrir alla, og umbæturnar virkuðu til verðlagslækkunar, og eru ein skýringin á lágri verðbólgu undanfarin misseri, miklu lægri en í öllum verðlagsspám Seðlabankans, sem eru kapítuli út af fyrir sig. 

Þá lagði hann sem fjármála- og efnahagsráðherra grunn að losun gjaldeyrishaftanna með samningum við þrotabú föllnu bankanna, sem eru almenningi hérlendis mjög hagstæðir, mun hagstæðari en flestir bjuggust við. 

Síðast en ekki sízt hefur hann með aðhaldi í rekstri ríkissjóðs og örvun hagkerfisins náð að rétta hann svo mjög við, að við árslok 2016 námu skuldir A-hluta ríkissjóðs tæplega 40 % af VLF, sem er með því lægsta sem þekkist í Evrópu, og þótt víðar væri leitað, en voru hæstar árið 2010 eða rúmlega 60 % af VLF. 

Þá lagði hann grunninn að fjármálastefnu ríkisins til 5 ára, sem er öflugt stjórntæki til eflingar fjármálastöðugleika. 

Nú er kominn nýr fjármála- og efnahagsráðherra, og fjármálaáætlun hans þykir mörgum vera of laus í reipunum með þeim afleiðingum, að geta ríkissjóðs til að taka á sig efnahagsáföll á gildistíma fjármálaáætlunarinnar verður ófullnægjandi og mun minni en í aðdraganda Hrunsins.  

Í janúar 2017 myndaði Bjarni Benediktsson sína fyrstu ríkisstjórn.  Þann 19. janúar 2017 ritaði hann grein í Morgunblaðið:

"Með jafnvægi og framsýni að leiðarljósi", þar sem hann útlistaði Stjórnarsáttmálann ögn nánar og gaf innsýn í, um hvað ríkisstjórn hans er mynduð:

"Ný ríkisstjórn vill nálgast úrlausn mála undir merkjum frjálslyndis og réttsýni.  Ísland á að vera eftirsóknarvert fyrir alla þá, sem vilja taka þátt í að byggja upp íslenzkt samfélag til framtíðar.  Mannréttindi, jöfn tækifæri, fjölbreytni, frelsi og ábyrgð, ásamt virðingu fyrir ólíkum lífsskoðunum, mynda þar sterkan grunn."

Málefni heilbrigðiskerfisins munu reka oft á fjörur ríkisstjórnarinnar, enda er það að mestu fjármagnað og rekið af ríkissjóði, og þar er við mikil vandkvæði að fást. Að jafnviðkvæm starfsemi skuli vera svo háð duttlungum stjórnmálamanna, er stórgalli og stjórnunarlegur veikleiki. Taka þarf fyrirmyndir frá nágrannalöndunum og stefna á, að veita sjúkrahúsunum fé per sjúkling eftir eðli máls. Reyna þarf að mynda fjárhagshvata til bætts rekstrarárangurs, sem vantar að mestu í núverandi fjármögnunarkerfi.

Við ákvarðanir, sem þarf að taka um þróun heilbrigðiskerfisins á kjörtímabilinu, er ekki ónýtt að hafa ofangreint stefnumið í blaðagreininni að leiðarljósi.  Það á t.d. við um spurninguna, hvort leyfa eigi einkafyrirtæki, sem Landlæknir hefur úrskurðað faglega hæft, að stunda sérhæfðar læknisaðgerðir og umsjá í kjölfarið í takmarkaðan tíma, t.d. 5 sólarhringa, sem meiri spurn er eftir en Landsspítalinn getur annað um þessar mundir með hræðilega löngum biðlistum sem afleiðingu. 

Jákvætt svar ríkisstjórnarinnar við ósk hæfs einkafyrirtækis um að fá að veita slíka þjónustu með sama kostnaði fyrir ríkissjóð og sjúklingana og á Landsspítalanum væri til merkis um frjálslyndi, og réttsýni væri fólgin í að jafna ögn stöðu ríkis og einkafyrirtækja á þessum markaði. Hvers vegna má ekki veita Landsspítalnum örlitla samkeppni ? Núverandi fyrirkomulag annar ekki eftirspurn og er ekki heilög kýr.  Það er hrjáð af göllum einokunar.

Þá mundi jáyrði skapa fleiri sérfræðingum tækifæri til að koma heim til Íslands og "byggja upp íslenzkt samfélag til framtíðar".  Þá mundi jákvæð afstaða ríkisstjórnarinnar falla algerlega að síðustu tilvitnuðu málsgreininni í téðri blaðagrein.  Neikvæð afstaða mundi ekki efla mannréttindi, hér atvinnuréttindi, jöfnun tækifæra, fjölbreytni, frelsi og ábyrgð. Orðum þurfa að fylgja gjörðir, ef traust á að takast að mynda.  Varðhundar kerfisins urra slefandi fyrir utan.  Ráðherra þarf að vera hundatemjari líka.  Grimmir hundar rífa heybrækur á hol.

"Á marga mælikvarða stöndum við Íslendingar vel, þegar borin eru saman lífskjör þjóða.  Frekari sókn mun byggjast á því, að okkur takist að auka samkeppnishæfni landsins, bæta framleiðni og fjölbreytni í atvinnulífinu, skapa ný verðmæti og fjölga vel borgandi störfum.  Þetta mun tryggja getu okkar til að halda áfram að byggja upp heilbrigðisþjónustuna, draga úr kostnaði sjúklinga, efla menntakerfið og bæta samgöngur.  Ný ríkisstjórn hyggst bæta og styrkja heilbrigðisþjónustuna, því að örugg og góð heilbrigðisþjónusta, óháð efnahag og þjóðfélagsstöðu, er forgangsmál."

Mikilvægur mælikvarði á efnahagslega velgengni þjóða er landsframleiðsla á mann (með íslenzkt ríkisfang).  Á þessari öld hefur hún þróazt með jákvæðum hætti, ef undan eru skilin árin 2008-2010.  Að meðaltali hefur þessi vöxtur verið 1,6 %/ár, og árið 2016 var Ísland komið í 10. sæti, hvað þetta varðar, á eftir Lúxemborg, Sviss, Noregi, Qatar, Írlandi, Bandaríkjunum, Singapúr, Danmörku og Ástralíu, og var röðin þessi frá 1-9. 

Þessi röð er þó ekki mælikvarði á kaupmátt launa, því að verðlag er ólíkt frá einu landi til annars.  Samkvæmt Peningamálum Seðlabankans 2016/1 var búizt við hækkun launakostnaðar á framleidda einingu um 9,3 % (8,7 %) 2016, 4,7 % (4,1 %) 2017 og 5,0 % (3,7 %) árið 2018, og, að kaupmáttur ráðstöfunartekna ykist um tölurnar í svigunum.  Það lætur nærri, að launakostnaður á framleidda einingu vaxi tvöfalt meira en landsframleiðslan á mann, og það sýnir, hversu viðkvæm fyrirtækin, sem undir kjarabótunum standa, hljóta að vera gagnvart ágjöf.  Slík ágjöf er t.d. hækkun gengisskráningar, minni hagvöxtur o.s.frv. 

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, bendir á þessa veikleika í viðtali við Snorra Pál Gunnarsson í Viðskiptablaðinu 2. febrúar 2017,

"Óábyrg fjármálastefna",

þar sem hún gagnrýnir þensluhvetjandi fjármálastefnu núverandi fjármála- og efnahagsráðherra.  Hún hefur gert næmnigreiningu á stöðugleika rekstrarafkomu ríkissjóðs og fundið út, að miðað við hagvaxtarspá stjórnvalda verður rekstrarafgangur 1,0 %/ár - 1,6 %/ár af VLF árabilið 2017-2022, en verði hagvöxtur 1,0 %/ár minni en spáin, sem hæglega getur gerzt, þá snarist á merinni og hallinn verði allt að 2,5 %/ár af VLF/ár.

Umsvif hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, eru mjög mikil á Íslandi, og hvorki heilbrigð né sjálfbær, og fjármálastefnan setur þakið við 41,5 % af VLF. 

"Er svo komið, að umfang hins opinbera í hagkerfinu er hvergi meira innan OECD en í háskattalandinu Íslandi, þar sem skatttekjur eru 34 % af VLF, og opinberir aðilar ráðstafa um 42 % af allri verðmætasköpun í landinu." 

Það er alveg öruggt, að þessi gríðarlegu opinberu umsvif á Íslandi virka hamlandi á framleiðniaukningu og sjálfbæran hagvöxt, sem undanfarið hefur verið haldið uppi af ósjálfbærri aukningu ferðamannafjölda hingað til lands.  Uppskurðar og skattalækkunar er þörf til að landið verði samkeppnihæft til lengdar.  Í landinu eru stjórnmálaöfl blindingja allöflug, sem vilja leiða landsmenn fram af bjargbrúninni, eins og læmingja.  Ef/þegar það gerist, er nauðsynlegt, að staða ríkissjóðs sé miklu sterkari en nú.  Um þetta segir Ásdís í viðtalinu:

"Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir afgangi á rekstri hins opinbera í fjármálastefnunni, er þetta lítill afgangur miðað við forsendurnar um áframhaldandi hagvöxt. Áætlaður afgangur miðar við samfelldan hagvöxt næstu 5 árin á grundvelli hagspár Hagstofunnar.  Stefnan treystir þannig á, að núverandi hagvaxtarskeið verði það lengsta í sögu lýðveldisins eða 12 ár.  Ef hagvöxtur verður 1 %/ár minni en gert er ráð fyrir, getur afgangur breytzt í umtalsverðan halla, eins og við sýnum fram á með næmnigreiningu.  Það má því lítið út af bregða. 

Þetta er sérstaklega mikið áhyggjuefni í ljósi alvarlegrar skuldastöðu hins opinbera.  Hið opinbera er meira en tvöfalt skuldsettara nú en í aðdraganda bankakreppunnar árið 2008.  Samkvæmt áætlunum stjórnvalda verða opinberar skuldir áfram meiri en á síðasta þensluskeiði næstu 5 árin, þrátt fyrir að ráðstafa eigi stöðugleikaframlögum og arðgreiðslum til skuldalækkunar.  Að mati SA er því ekki verið að greiða skuldir nógu hratt og ekkert er í hendi með ráðstöfun fjármuna til skuldalækkunar."   

Hér liggur víglínan á milli frjálslyndis með ábyrgðartilfinningu og afturhalds með ábyrgðarlausum yfirboðum í landinu um efnahagsmálin.  Við  misheppnaðar stjórnarmyndunartilraunir Katrínar Jakobsdóttur og Birgittu Jónsdóttur var verið að leggja drög að þveröfugri stefnumörkun en Ásdís leggur áherzlu á.  Það var ætlunin að sprengja hér allt í loft upp, meðvitað eða ómeðvitað, með því að draga úr skuldalækkun ríkissjóðs og hækka skatta á almenning, einstaklinga og fyrirtæki, til að gefa eldsneytisgjöfina í botn hjá hinu opinbera, sem þá hefði á skömmum tíma þanizt upp í 50 % af VLF, stöðnun og óðaverðbólgu ("stagflation"). 

Núverandi ríkisstjórn er á réttri leið, en hún teflir með útgjöldum ríkissjóðs á tæpasta vað og leggur ekki fram nógu framsýna, róttæka og örugga fjármálastefnu til að varðveita stöðugleikann og undirbúa varnir gegn næstu niðursveiflu, sem sennilega verður innan 5 ára. 

"Ásdís segir fjármálastefnuna og áætlanir stjórnvalda í fjármálum hins opinbera einkennast af ábyrgðarleysi auk skorts á framtíðarsýn og forgangsröðun með betri nýtingu fjármuna að leiðarljósi."

Fjármála- og efnahgsráðherra er þar með sendur "back to the drawing desk", hann verður að lesa betur tilvitnaða grein forsætisráðherra: "Með jafnvægi og framsýni að leiðarljósi", koma síðan til baka frá teikniborðinu og kæla hagkerfið áður en sýður uppúr.

""Þess vegna óskum við eftir því, að stjórnvöld sýni ábyrgð og leggi fram langtímaáætlanir um það, hvernig eigi að bæta úr skák og skapa skilyrði til að lækka skatta á einstaklinga og fyrirtæki, t.d. með agaðri forgangsröðun, hagkvæmari nýtingu fjármuna og fjölbreyttari rekstrarformum.  Þar liggja tækifæri t.a.m. á sviði heilbrigðismála og menntamála", segir Ásdís.

"Einhvern tímann mun koma fram aðlögun, og við óttumst, að ekki sé verið að búa í haginn fyrir það, eins og staðan er núna. Ef til bakslags kemur, erum við óundirbúin.""


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband