Snarazt hefur á meri orkuhlutdeildarinnar

Það hefur heldur betur snarazt á merinni, hvað hlutdeild jarðefnaeldsneytis í heildarorkunotkun landsmanna varðar. Hlutdeild fljótandi jarðefnaeldsneytis, svartolíu, flotaolíu, dísilolíu og benzíns, gasefna, própangass og kósangass, og fastra efna, kola og koks, hefur lengi vel verið undir 15 % af heildarorkunotkun landsmanna, en árið 2016 var svo komið, að hlutdeild þessa kolefniseldsneytis nam tæpum fjórðungi eða 24,4 %. Lítið hefur farið fyrir kynningu á þessari breytingu og ekki úr vegi að fjalla lítillega um hana hér.  Hvernig stendur á þessari einstæðu öfugþróun ?

Svar við þessari áleitnu spurningu fæst með því að virða fyrir sér neðangreinda töflu um skiptingu olíunotkunar landsmanna (benzín hér talið til olívara) árið 2016 (Mt=milljón tonn):

  1. Flugvélar og flutningaskip:  0,980 Mt eða 68 %
  2.  Samgöngur á landi:          0,295 Mt eða 20 %
  3. Fiskiskip:                   0,135 Mt eða  9 %
  4. Iðnaður:                     0,050 Mt eða  3 %

_____________________________________________________

 

Heildarnotkun á fljótandi eldsneyti 2016: 1,46 Mt

Af þessu mikla magni nam innlend notkun, þ.e. sú, sem Parísarsamkomulagið frá 2015 spannar, aðeins 0,48 Mt eða 33 %.  

2/3 hlutar falla undir ETS-viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, og þar af eru á að gizka 80 % notkun flugfélaganna eða 0,79 Mt.  Þeir aðilar munu þurfa að greiða hundruði milljóna ISK á ári úr þessu fyrir alla sína losun gróðurhúsalofttegunda utan heimilda.  Þetta mun bitna sérstaklega harkalega á fyrirtækjum í miklum vexti, eins og t.d. Icelandair og VOW-air. 

Ef eitthvað væri spunnið í íslenzka umhverfisráðherrann, mundi hún beita sér fyrir því, að drjúgur hluti af þessu mikla fé fengi að renna til landgræðslu á Íslandi, þar sem er stærsta samfellda eyðimörk í Evrópu.  Annað heyrist varla frá henni en hnjóðsyrði í garð íslenzkra stóriðjufyrirtækja.  Nú síðast gelti hún í átt að PCC-kísilverinu á Bakka við Húsavík, sem Þjóðverjar reisa nú með Íslendingum og sem farið hefur fram á 2 ára aðlögunartíma að nýákvörðuðum ströngum rykkröfum.  Alls staðar tíðkast, að fyrirtækjum er gefinn slíkur umþóttunartími, á meðan verksmiðjur eru teknar í notkun, framleiðslubúnaður beztaður, mælitæki stillt og kvörðuð og mannskapur þjálfaður.  Téður þingmaður og núverandi ráðherra tjáir sig iðulega áður en hún hugsar, og þá vella upp úr henni löngu áunnir fordómarnir.  Vinnubrögðin við friðlýsingu Breiðamerkurlóns og grenndar voru sama flaustursmarkinu brennd.  

 Hún hefur líklega ekki gert sér grein fyrir því, hver mesti mengunarvaldurinn af íslenzkri starfsemi er nú um stundir.  Það er flugið, sem losar yfir 7,1 Mt/ár af kolefnisígildum.  Það, sem losað er í háloftunum hefur tæplega 3 sinnum meiri gróðurhúsaáhrif en það sem losað er á jörðu niðri á hvert tonn eldsneytis, sem brennt er.  Flugið hefur 45 % meiri gróðurhúsaáhrif en öll önnur starfsemi á Íslandi að millilandasiglingum meðtöldum.

Eldsneytisnýtni hefur batnað mikið í öllum geirum, einna mest í samgöngutækjum á landi.  Árið 2016 var umferðin 21 % meiri en árið 2008.  Samt nam eldsneytisnotkun umferðarinnar aðeins 95 % árið 2016 af notkuninni 2008.  Þetta þýðir, að eldsneytisnotkun per km hefur minnkað um 27 % á 8 árum. Eldsneytisnotkun ökutækja hefur vaxið um 54 % frá viðmiðunarárinu 1990 og nam árið 2016 62 % af notkun fljótandi eldsneytis innanlands.  Árið 1990 nam eldsneytisnotkun ökutækja um 192 kt, og markmiðið um 40 % samdrátt þeirrar notkunar árið 2030 þýðir, að þessi eldsneytisnotkun þarf þá að hafa minnkað niður í 115 kt, sem aftur á móti þýðir minnkun frá núverandi gildi um a.m.k. 180 kt/ár eða yfir 60 %.  

Þetta jafngildir fækkun jarðefnaeldsneytisknúinna ökutækja um 225´000 (225 k) á næstu 13 árum.    

Er raunhæft, að unnt verði að ná þessu markmiði ?  Nei, það er útilokað, þegar þess er gætt, að ný umhverfisvæn ökutæki í ár verða aðeins um 1/10 af þeim fjölda, sem þau þurfa að verða árlega að meðaltali fram til 2030.  Það hefur of miklum tíma verið sóað, og nauðsynlegar forsendur, sem eru innviðauppbygging, eru allt of sein á ferð.  Yfirvöld verða að venja sig af því að setja markmið út í loftið. Það hafa oft verið sett erfið markmið, en hafi þeim verið náð, hefur undantekningarlaust þegar verið hafizt handa kerfisbundið við að ná þeim.   

Það á alls ekki að reyna að þvinga fram meiri hraða á orkuskiptum með vanbúna innviði með illa ígrunduðum og íþyngjandi aðgerðum, t.d. með hækkun kolefnisgjalds.  Fjölskyldubíllinn er þarfaþing, og sumir eru á mörkunum að hafa ráð á honum.  Það er ósæmilegt að gera þessu og öðru fólki lífsbaráttuna enn erfiðari með því hagfræðilega glapræði að hækka enn opinberar álögur á eldsneyti, sem þegar eru um helmingur af söluverðinu til neytenda, þótt aðeins helmingur skattteknanna skili sér til Vegagerðarinnar.  Vegagerðin þarf þegar í stað um helming af því, sem ríkissjóður fær ekki af bílakaupum landsmanna og rekstri bílaflotans eða um 15 miaISK/ár í viðbótar framlög frá ríkissjóði til að koma vegakerfinu í mannsæmandi horf á einum áratugi.  

Til að flýta fyrir orkuskiptum í umferðinni er hins vegar ráð að efla enn innviðina, t.d. að gera öllum bíleigendum kleift að hlaða rafgeyma við sín heimahús og á viðkomustöðum á ferðum um landið, t.d. við hótel og gististaði og á tjaldsvæðum.  Auðvitað þarf jafnframt að virkja og að efla stofn- og dreifikerfi raforku til að anna aukinni raforkuþörf. Hér er um stórfelldar fjárfestingar að ræða, en þær eru þjóðhagslega hagkvæmar vegna gjaldeyrissparnaðar, og þær eru hagkvæmar fyrir bíleigandann, því að rekstrarkostnaður bílsins lækkar um allt að 75 % m.v. núverandi orkuverð, sé bíllinn alfarið knúinn rafmagni. 

Það er tæknilega og fjárhagslega raunhæft, að íslenzka vegaumferðin verði orðin kolefnisfrí árið 2050, en til þess þurfa forsendur að vera í lagi, og það þarf enn meiri tímabundna hvata, t.d. skattaafslátt við kaup á nýjum umhverfisvænum bíl, fasta upphæð á bilinu MISK 1,0-2,0.  Það kostar klof að ríða röftum.  

Næst mesti jarðefnaeldsneytisnotandinn innanlands eru útgerðirnar, stórar og smáar, með sín fiskiskip. Á þeim vettvangi hefur einnig orðið mikil orkunýtniaukning frá viðmiðunarárinu 1990, er olíunotkun útgerðanna var nánast sú sama og ökutækjanna eða um 200 kt.  Árið 2016 nam hún aðeins um 135 kt, og höfðu útgerðirnar þá sparað 95 kt/ár eða 33 %.  Þetta hafa þær aðallega gert með fækkun togskipa og endurnýjun þeirra, þar sem nýju skipin eru hönnuð m.v. hámarks orkusparnað.  Það er líka þróun í hönnun veiðarfæra m.a. til að minnka orkunotkun skipanna við togið. Þar sem "veiðanleiki" hefur vaxið með aukinni fiskigengd í lögsögu Íslands, tekur styttri tíma en áður að sækja hvert tonn.  Allt hefur þetta leitt til þess, að flotinn notar nú minni olíu en áður til að sækja hvert tonn sjávarafla.  

Það er eldsneytiskostnaður, sem áður knúði á um orkusparnað, og nú hafa aukin umhverfisvitund og skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum bætzt við.  Útgerðarmönnum mun alveg áreiðanlega takast með frekari fjárfestingum að draga úr olíunotkun sinni um 40 % frá 1990 og komast niður í 125 kt árið 2030 og losna þar með við kolefnisrefsingu Rannsóknarréttarins nýja.  Þar að auki hafa útgerðarmenn verið í viðræðum við Skógrækt ríkisins um bindingu koltvíildis með trjárækt.  Hver veit, nema útgerðarmenn muni selja koltvíildiskvóta áður en yfir lýkur ?

Það, sem stjórnvöld hérlendis þurfa að gera núna, er að rafvæða hafnirnar rækilega, svo að útgerðir þurfi ekki að brenna olíu, þegar skipin eru bundin við bryggju.  Þá er þegar orðið raunhæft að knýja báta með rafmagni, svo að brýnt er að fá rafmagn úr landi.  Um borð er þá lítil dísil-ljósavél til að hlaða rafgeymana, ef þörf krefur.  Þetta krefst háspennts dreifikerfis um helztu hafnir landsins.  Hönnun á því þarf að hefjast strax, og ríkið þarf að leggja fram jákvæða hvata fyrir dreifiveiturnar til þessara verkefna.  Lítið hefur heyrzt af slíku frumkvæði að hálfu ríkisvaldsins, þótt ekki skorti nú fimbulfambið um orkuskipti. 

Stærri skipin geta brennt blöndu af lífdíselolíu og skipaolíu allt upp í 20 % af lífdísel og meir með breytingum á vél.  Nota má repjuolíu sem lífdísel.  Repju er hægt að framleiða hérlendis, svo að reisa þarf verksmiðju fyrir olíuvinnslu og mjölvinnslu.  Ef hægt verður að selja mjölið á 100 ISK/kg, t.d. til innlends laxeldis, þá verður þessi olíuvinnsla hagkvæm við olíuverðið 1100 USD/t, CIF. Hér gæti ríkisvaldið einnig komið að með fjárhagslega hvata, svo að hægt væri að hefjast handa strax.  Sem dæmi má nefna að veita tímabundinn afslátt á skattheimtu af rafmagni til slíkrar verksmiðju.  Um miðja þessa öld verður íslenzki sjávarútvegurinn vafalaust orðinn kolefnisfrír.

Iðnaðurinn hefur einnig staðið sig mjög vel, því að árið 2016 hafði hann dregið úr olíubrennslu sinni um 44 kt/ár frá viðmiðunarárinu.  Þetta hefur hann gert með því að rafvæða kyndingu hjá sér.  Sem dæmi má taka ISAL.  Fyrirtækið hefur ekki aðgang að jarðhitaveituvatni, svo að fyrstu tvo áratugina voru notaðir tveir olíukyntir gufukatlar, en í lok 9. áratugarins var keyptur 5,0 MW, 11 kV, rafhitaður gufuketill af innlendum framleiðanda, sem um þær mundir leysti fjölda olíukatla af hólmi hérlendis með framleiðslu sinni.

Heildarlosun mannkyns á koltvíildi, CO2, nam árið 2016 um 34 milljörðum tonna.  Heildarlosun Íslendinga er sem dropi í hafið, og það skiptir engu máli fyrir hlýnun jarðar, hvort markmiðið um minnkun losun landumferðar á Íslandi um 40 % árið 2030 m.v. 1990 næst eða ekki.  Aðalatriðið í þessu samhengi er, að landið verði orðið kolefnisfrítt árið 2050 að meðreiknuðum mótvægisaðgerðum á sviðum, þar sem tæknin býður þá enn ekki upp á kolefnisfríar lausnir.  Það er þess vegna með öllu óþarft af stjórnvöldum að leggja íþyngjandi álögur á landsmenn í einhvers konar tímahraki, sem stjórnvöld eiga sjálf sök á með sinnuleysi.   

 

 

 

 


Dýrkeypt markmið

"Útlit er fyrir, að íslenzka ríkið muni þurfa að verja milljörðum [ISK] til kaupa á kolefniskvóta á næsta áratug. Ástæðan er aukning í losun gróðurhúsalofttegunda þvert á það markmið stjórnvalda, að hún verði um 20 % minni árið 2020 en 2005."

Þetta kom fram í frétt Baldurs Arnarsonar,

"Losunin eykst þvert á markmiðin",

sem Morgunblaðið birti 21. júlí 2017.  Ekki er víst, að allir landsmenn hafi verið meðvitaðir um skuldbindandi markmið landsins fram til 2020. Fram kom í fréttinni, að sá þáttur losunarinnar, sem yfirvöld hérlendis hafa skuldbundið sig til að minnka, nemur um þessar mundir aðeins um 40 % af heildarlosun Íslendinga, en 60 % falla undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins, ESB, með losunarheimildir, s.k. ETS-kerfi. 

Þar undir eru fyrirtæki á sviði orkukræfs iðnaðar, skipafélögin og flugfélögin, sem munu fá síminnkandi árlegan losunarkvóta úthlutaðan og verða að kaupa sér losunarheimildir á markaði, ef þau ekki draga úr losun sinni að sama skapi.  Verðið er um þessar mundir um 5 EUR/t CO2, en gæti farið yfir 30 EUR/t CO2 fljótlega á næsta áratugi til þessara fyrirtækja, en kannski fá ríkisstjórnir afslátt.  Þeir, sem minnkað hafa sína losun, eru aflögufærir, og sé hagnaður sáralítill af starfsemi, getur borgað sig hreinlega að loka og selja losunarkvóta sinn á hverju ári.  Ekki er ólíklegt, að íslenzkar útgerðir og iðnaður (utan stóriðju) muni geta selt losunarheimildir, því að losun þeirra frá 1990 hafði árið 2016 minnkað um 35 % og 47 % (í sömu röð).

Síðan segir í fréttinni:

"Fram kom í Viðskipta-Mogganum í gær, að Icelandair hefði keypt kolefniskvóta fyrir tæpan milljarð [ISK] frá ársbyrjun 2012 [í 5 ár-innsk. BJo].  Hugi [Ólafsson, skrifstofustjóri í Umhverfisráðuneytinu] segir, aðspurður, að kaup ríkisins gætu orðið af þeirri stærðargráðu vegna tímabilsins 2013-2020 [8 ár].  Síðan kunni að taka við frekari kvótakaup."

Fram kemur í fréttinni, að upphafshugmyndir um áform á brauðfótum hafi komið fram í aðgerðaráætlun Umhverfisráðuneytisins árið 2010 um loftslagsmál.  Þar var þá ráðherra Svandís nokkur Svavarsdóttir og virðist téð "aðgerðaáætlun" að mestu hafa verið innantómt plagg, þ.e. nánast engin eftirfylgni virðist hafa átt sér stað.  Samt mátti hún vita, að hún var að skuldbinda ríkissjóð til fjárútláta út fyrir landsteinana með þessari illa ígrunduðu áætlun. Þetta kallast fjármálalegt ábyrgðarleysi.   

Þessi "aðgerðaáætlun" virðist vera upphafið að þeim vítaverðu skuldbindingum, sem nú eru að binda ríkissjóði milljarða íslenzkra króna (ISK) bagga.  Þetta er algerlega ábyrgðarlaust atferli embættismanna, sem gera áætlanir, reistar á sandi (kolröngum forsendum, sem þeir gefa sér út í loftið) og gera litlar eða alls ófullnægjandi ráðstafanir til, að þróun eldsneytisnotkunar verði, eins og þeir láta sig dreyma um.  Þar liggur ábyrgðarleysið.  Umhverfisráðherrarnir skrifa svo undir vitleysuna og botna ekkert í því, að það eru allt aðrir kraftar að verki úti í þjóðfélaginu en í fundarherberginu, þar sem fallegu glærurnar eru til sýnis.

Þegar aðgerðaráætlunin um losun frá landumferð var samin fyrir áratuginn 2011-2020, þá ríkti enn samdráttur í hagkerfinu.  Það er vel þekkt, að jákvætt samband ríkir á milli umferðarþróunar og breytinga á vergri landsframleiðslu.  Það dæmalausa fólk, sem árið 2010 gerði áætlun um 23 % minni losun koltvíildis frá landfartækjum árið 2020 en árið 2008, þ.e. úr 974 kt í 750 kt, hlýtur að hafa reiknað með efnahagsstöðnun langleiðina til 2020.  Hvílík framtíðarsýn þessa starfsfólks vinstri stjórnarinnar, sálugu.  (Vinstri grænir eru reyndar á móti hagvexti.)

Stjórnvöld 2009-2013 lögðu reyndar lóð sín á vogarskálar samdráttar og síðar stöðnunar með gegndarlausum skattahækkunum, og það hefði vafalaust verið haldið áfram á sömu braut á síðasta kjörtímabili, ef kjósendur hefðu ekki fleygt yfirlýstum andstæðingum hagvaxtar út úr Stjórnarráðinu vorið 2013.  Tekjuakattur var í kjölfarið lækkaður hjá flestum, og almenn vörugjöld og tollar afnumin, auk þess sem virðisaukaskattkerfið var lagfært.  Skattar eru samt í hæstu hæðum á Íslandi.  Byrja mætti með að lækka fjármagnstekjuskatt niður í 15 % til að efla sparnað, hækka frítekjumarkið til jöfnunar og lækka tekjuskatt fyrirtækja niður í 15 % til að styrkja samkeppnisstöðu atvinnulífsins á Íslandi.   

Þróun umferðar varð sú, að strax árið 2013 varð viðsnúningur, og hún tók þá að aukast.  Losun jókst þó ekki árið 2013, þegar hún nam 851 kt CO2, sennilega vegna sparneytnari ökutækja, en strax árið eftir tók losun frá umferð að aukast, og árið 2016 var svo komið, að hún nam um 932 kt CO2 og var þá um 115 kt meiri en embættismenn höfðu gert ráð fyrir árið 2010.

Það er til merkis um bætta eldsneytisnýtni bílvéla á 8 ára tímabilinu 2008-2016, að þótt umferðin væri 21 % meiri í lok tímabilsins en í upphafi þess, hafði eldsneytisnotkunin samt dregizt saman um 5 %. Þetta þýðir, að eldsneytisnotkun á hvern ekinn km hefur minnkað um 27 %.  

 

Ef gert er ráð fyrir, að umferðin verði 15 % meiri árið 2020 en árið 2016 og bætt eldsneytisnýtni og umhverfisvænar vélar leiði af sér aðeins 10 % elsneytisaukningu á þessu 4 ára tímabili, mun losun landumferðar nema 1,0 Mt CO2 árið 2020, sem er 0,25 Mt eða þriðjungi meira en "aðgerðaáætlun" embættismanna hljóðaði upp á árið 2010. Þetta er stór og dýr villa við áætlanagerð.   

Sú vitlausa áætlun var nefnilega skuldbindandi gagnvart ESB, svo að losun umfram áætlun þarf að greiða kolefnisskatt af.  Ef ríkissjóður þarf að greiða fyrir þennan kvóta núgildandi verð í Evrópu, um 5 EUR/t CO2, þýðir það útgjöld vegna heimskulegrar "aðgerðaáætlunar" íslenzkra embættismanna og ráðherra upp á MEUR 1,3 = MISK 150 fyrir árið 2020 og sennilega 3,0 MEUR = MISK 370 vegna áranna á undan, þegar losunin var meiri en samkvæmt áætluninni. Uppsafnaður kolefnisskattur á Íslendinga til ESB fram til 2020 vegna illa kynntrar og illa unninnar áætlunar íslenzkra embættismanna mun nema a.m.k. hálfum milljarði ISK.  Þetta nær engri átt, nema fénu verði öllu veitt til landgræðslu á Íslandi til mótvægis.  

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, er með lausn á takteinum, sem felur í sér "neikvæðan hvata" fyrir kaupendur nýrra bíla til að kaupa jarðefnaeldsneytisknúna bíla.  Hann sagði í viðtali við Baldur Arnarson, sem birtist í frétt í Morgunblaðinu 18. júlí 2017 undir fyrirsögninni:

"Loftslagsstefna í hættu":

 "Síðasta ríkisstjórn byrjaði á því að lækka skatta á kolefni og gaf þau skilaboð, að ekki stæði til að draga úr umferð [það var verið að koma hjólum atvinnulífsins í gang, eftir að vinstri stjórnin hafði sett skít í tannhjólin með miklum skattahækkunum - innsk. BJo].  Árið 2013 tók bílasala kipp, og hefur hún aukizt síðan.  Stór hluti af þeirri aukningu er vegna ferðaþjónustu.  Þessi stjórn hefði þurft að hækka gjöld á losun kolefnis frá samgöngum og annarri starfsemi."

Þetta er aðferð vinstri aflanna við neyzlustýringu.  Hún er ekki vænleg til árangurs, og hún hefur neikvæð aukaáhrif, eins og hækkun verðlags og dregur úr hagvexti.  Hún kemur illa við bíleigendur, sem reka bíl af litlum efnum og ná vart endum saman. 

Miklu vænlegra er að fara leið jákvæðra hvata til að kaupa bíla, sem alls engu jarðefnaeldsneyti brenna, þ.e. rafbíla og vetnisbíla.  Þegar hafa verið felld niður vörugjöld og virðisaukaskattur á þessi ökutæki.  Nú er brýnt að hraða uppsetningu hleðsluaðstöðu rafbíla á bílastæðum í þéttbýli og dreifbýli, einkum við íbúðarhús.  

Þegar almenningur metur innviði fyrir umhverfisvæna bíla fullnægjandi fyrir sig, mun hann vafalaust í auknum mæli velja þá frekar en hina, því að rekstrarkostnaður þeirra er allt að 75 % lægri en hinna.  Þá þarf að láta kné fylgja kviði og veita skattaafslátt við slík kaup.  Er ekki vitlegra að leyfa fólki og fyrirtækjum að draga MISK 1,0-2,0 frá skattskyldum tekjum sínum við kaup á nýjum rafbíl eða vetnisbíl til að flýta fyrir orkuskiptunum en að greiða hundruði milljóna ISK á ári í refsingu til ESB á hverju ári ?  Hvað verður eiginlega um allt þetta refsigjald ?  Mun vitlegra væri að beina þessu fé til landgræðslu á Íslandi til bindingar á kolefni úr andrúmsloftinu en að senda það í einhverja svikamyllu niðri í Evrópu.  

 

   

 


Flaustursleg reglugerð

Sjávarútvegsráðherra setti þann 13. júlí 2017 reglugerð um álagningaraðferð og innheimtu veiðigjalds fyrir fiskveiðiárið 2017/2018.  Reglugerðin er m.a. reist á lögum frá 2012 um veiðigjöld.  Segja má, að ráðherra þessi hafi hrakizt frá einu axarskaptinu til annars, síðan hún tók við þessu embætti.  Hún glutraði hér niður gullnu tækifæri til að sýna, að hún hefði loks náð tökum á þessu vandasama starfi, sem ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála gegnir.  Þar sem hún kaus að sveigja hvergi af leið, þótt allar aðstæður í sjávarútvegi byðu svo á að horfa, stefnir hún nú á að magna ósanngirnina, sem í þessari endemis skattheimtu, veiðigjöldum, felst.  Verður hér reifað í hverju þessi ósanngirni felst.  Ráðherra þessi ber kápuna á báðum öxlum í samskiptum sínum við hagsmunaaðila, sem til ráðuneytis hennar leita, eins og nýjustu fréttir af viðskiptum hennar við bændaforystuna benda til.

Fyrst verður vitnað í lok forystugreinar Morgunblaðsins 14. júlí 2017, 

"Afkáralegir ofurskattar":

"Allt frá því að vinstri stjórnin setti ný lög um veiðigjöld sem hluta af umfangsmikilli skattahækkunarstefnu sinni, hefur verið varað við því, að gjöldin væru allt of há og að afleiðingarnar gætu orðið þær, sem nú hefur komið í ljós.  Það blasir við, að ekki er hægt að bjóða undirstöðu atvinnuvegi þjóðarinnar upp á slíka ofurskatta, sem að auki eru svo afkáralegir í framkvæmd."

Það er enn látið viðgangast, að sjávarútvegurinn, einn allra, greiði fyrir aðganginn að náttúruauðlind allra landsmanna, en þær eru þónokkrar, eins og kunnugt er.  Þetta veikir samkeppnisstöðu sjávarútvegsins bæði innanlands og utan og er hrópandi óréttlæti til lengdar.  Dæmi um greinar, sem nýta náttúruauðlindir í almannaeign, eru fjarskiptafyrirtækin, ferðaþjónustustarfsemi í þjóðlendum, virkjunarfyrirtækin og fyrirtæki með fiskeldi í sjókvíum.  Það er óskiljanlegt, að ekki skuli enn vera gerður reki að samræmdu nýtingargjaldi náttúruauðlinda.  Halda ráðherrar, að nóg sé að sýna myndavélum tanngarðinn ?

Í ljósi þess, að staða útgerðanna tók stakkaskiptum til hins betra eftir að full innleiðing fiskveiðistjórnunarkerfisins frá 1984 var farin að virka á hag útgerðanna, þá er ekki óeðlilegt, að útgerðirnar greiði af auðlindarentunni, en það stríðir gegn Stjórnarskrá ríkisins að heimta ekki að sama skapi auðlindagjald af öllum nýtingaraðilum á landi, í lofti og á sjó, með sömu útreikningsaðferðum, svo að jafnræðis atvinnustarfsemi sé gætt.  Sýnir það mikið döngunarleysi stjórnvalda að hafa enga sýnilega tilburði uppi í þessa átt.

 Hallveig Ólafsdóttir, hagfræðingur Samtaka fyrirtækja í Sjávarútvegi, SÍF, hafði þetta að segja við Kjartan Stefánsson hjá Fiskifréttum, 11. maí 2017, um tekjurýrnun sjávarútvegsins árið 2017 m.v. 2015, sem er viðmiðunarár veiðigjaldanna fiskveiðiárið 2017/2018:

"Ef tekið er tillit til gengis og verðvísitölu sjávarútvegsins, þá má áætla, að tekjur vegna bolfiskafurða, svo að dæmi sé tekið, verði um miaISK 25-30 lægri árið 2017 en þær voru árið 2015."

Þetta er meira en fjórðungslækkun tekna í þessari grein, enda hefur gengið styrkzt um 26 % frá upphafi árs 2014.  Á kostnaðarhlið hefur orðið lækkun á olíuverði um 20 %-30 % 2015-2017 og hækkun á launalið, þar sem launavísitala gagnvart sjávarútvegi hefur hækkað um 27 % á sama tíma (laun í landvinnslu hafa hækkað um 25 % - 30 %). 

Heildaráhrif þessara breytinga eru mikil á framlegðina, sem er það, sem eftir er, þegar rekstrarkostnaður hefur verið dreginn frá tekjunum, og verður þá til skiptanna til að greiða afborganir og vexti, skatta, veiðigjöld, arð og að fjárfesta fyrir.  Þessi mismunur þarf að vera yfir 20 % af tekjum, svo að vel sé, ella er út í hött að tala um auðlindarentu í sjávarútvegi, sem myndi andlag veiðigjalds.  Framtíðarkerfi ætti þess vegna að miða við, að falli framlegð undir 20 %, þá falli auðlindagjald á viðkomandi fyrirtæki niður fyrir sama tímabil. 

Árið 2015 áraði vel í sjávarútvegi, enda nam vegið meðaltal framlegðar botnfiskveiða og botnfiskvinnslu þá um 27 %.  Áætlun SFS um framlegð sömu aðila árið 2017 er aðeins 16 %.  Af þessum ástæðum er nýsett reglugerð sjávarútvegsráðherra um forsendur veiðigjalds fiskveiðiárið 2017/2018 óskiljanleg, og engu er líkara en þar fari efnahagslegur blindingi með völdin.  Þessi ákvörðun mun hækka veiðigjöldin upp í um miaISK 11, sem er meira en tvöföldun frá fiskveiðiárinu 2016/2017 og mun ríða allmörgum útgerðum að fullu og skerða getu hinna til nýsköpunar.  

Ráðherrann lét hjá líða að taka tillit til mikillar lækkunar fiskverðs við ákvörðun sína og á þeim grundvelli að framlengja áður gildandi afslátt á veiðigjöldum til skuldsettra fyrirtækja.  Þetta er óafsakanlegt í ljósi stöðunnar.  Þá hefði hún átt að gera ráðstafanir til að taka tillit til minni framlegðar lögaðila, sem veiðigjöld eru lögð á.   Hlutfall ofangreindra heildarframlegða er 16/27=59 %.  Ef því væri beitt á útreiknað veiðigjald og síðan veittur hefðbundinn afsláttur vegna skuldsetningar fyrirtækis, þá yrði sennilega lítil breyting á upphæð veiðigjalda nú á milli fiskveiðiára. Óbreytt veiðigjöld á næsta fiskveiðiári m.v. núverandi er hámark þess, sem sanngjarnt getur talizt.  Sjávarútvegsráðherra er ekki að vinna vinnuna sína.  Hverra erinda gengur hún eiginlega ?

Sjávarútvegsráðherra segir nú, að hún hafi lengi verið talsmaður breytinga á veiðigjöldum.  Talsmáti hennar hingað til hefur hins vegar allur verið til hækkunar á þeim, og opinberar hún þannig skilningsleysi sitt á sambandi skattheimtu, nýsköpunar og fjárfestinga.  Það er mjög bagalegt að sitja uppi með slíkan sjávarútvegsráðherra.

Í þessu sambandi skal vitna til niðurlags téðs viðtals Fiskifrétta við Hallveigu Ólafsdóttur:  

"Að lokum verður ekki hjá því komizt að nefna umræðu um að auka gjaldtöku í sjávarútvegi.  Sérstakar álögur eru nú þegar fyrir hendi í formi veiðigjalda, og heildarfjárhæð þeirra hefur á umliðnum árum verið áþekk þeim tekjuskatti, sem sjávarútvegur greiðir.  Það er því mikilvægt, þegar kallað er eftir auknum sérstökum álögum á atvinnugreinina, að stjórnmálamenn horfi bæði á þau rekstrarskilyrði, sem fyrirtæki standa frammi fyrir, og taki tillit til þeirrar fjölbreyttu flóru íslenzkra sjávarútvegsfyrirtækja, sem nú er raunin. Sjávarútvegsfyrirtæki eru jafnmisjöfn og þau eru mörg, bæði að því er stærð og fjárhagslega stöðu varðar.  Þau eru því mjög misjafnlega í stakk búin til að takast á við auknar gjaldtökur.  

Fjölbreytileiki er einn af styrkleikum íslenzks sjávarútvegs og lykill að samkeppnishæfni greinarinnar.  Það er mikilvægt að gleyma ekki þessari staðreynd, þegar rætt er um aukna gjaldtöku."

Sjávarútvegsráðherra gerir sig nú líklega til að vega að sjávarútveginum, eins og rakið hefur verið.  (Það, sem sauðfjárbændur hafa til málanna að leggja við hana varðandi markaðsstöðu lambakjötsins erlendis og mótvægisaðgerðir fer inn um annað eyrað og út um hitt.) Hún mun þar með draga úr þeim styrkleika, sem hagfræðingur SFS nefnir og er fjölbreytni fyrirtækjanna.  Nú reka um 1000 lögaðilar útgerð í landinu.  Ætlar sjávarútvegsráðherra með sinni hugsunarlausu reglugerð meðvitað með atbeina skattheimtuvalds ríkisins að fækka þeim ?  Að óreyndu hefði maður haldið, að ríkisvaldið, ráðherra, myndi forðast að gera erfitt ástand útgerðanna enn verra og verða þar með valdur að óþarfa fækkun útgerðanna. Ráðherra, sem vinnur gegn hagsmunum útgerðanna í landinu, vinnur gegn hagsmunum hagkerfisins og þar með heildarinnar.  

Sjávarútvegsráðherra skýtur sér gjarna á bak við nefnd, sem hún skipaði í byrjun maí 2017 undir formennsku Þorsteins Pálssonar, flokksbróður síns og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra.  Nefnd þessi á að skila af sér drögum að lagafrumvarpi eigi síðar en 1. desember 2017.  Við því er ekki að búast, að lög, sem reist yrðu á vinnu þessarar nefndar, taki gildi fyrr en á fiskveiðiárinu 2018/2019, og þess vegna hefði ráðherrann átt að gera bráðabirgða bragarbót á reiknireglum veiðigjalds í nýju reglugerðinni, sbr það, sem sett er fram hér að ofan.

Ráðherrann hefur hreykt sér af því að hafa skipað "þverpólitíska" nefnd, sem leita eigi sátta um sjávarútvegsmál.  Ráðherrann fór þó illa að ráði sínu við samsetningu þessarar nefndar.  Ef hún á annað borð átti að vera "þverpólitísk", þá þurfti hún auðvitað að endurspegla styrkleikahlutföllin á þingi.  Því fer hins vegar víðs fjarri, og getur hún vart kallast lýðræðislega valin.  

Það er svo önnur saga, að þessi aðferðarfræði ráðherrans er ólíkleg til árangurs, hvað þá að ná sáttum á pólitískum forsendum í þessu mikla hagsmunamáli þjóðarinnar.  Miklu nær hefði verið að leita til fiskihagfræðinga, innlendra og jafnvel erlendra, og hagsmunaaðilanna í greininni, sem í sameiningu mundu reyna að finna þjóðhagslega hagkvæmustu stjórnunaraðferðina í ljósi reynslunnar bæði innan lands og utan.  Samkvæmt því, sem gerst er vitað nú, er slíkt framtíðarstjórnkerfi fiskveiða keimlíkt núverandi kerfi.  

Útgerðarfyrirtækin, stór og smá, eru kjölfesta byggðarinnar við strandlengju landsins.  Þau standa í harðri samkeppni innanlands og utan og þurfa svigrúm til hagræðingar til að standast samkeppnina.  Í fordómafullri umræðu í garð þessara fyrirtækja, sem gjarna gýs upp, þegar hagrætt er, og ráðherrann er ekki saklaus þar, gleymist oft, að ekki er allt sem sýnist; fyrir tilverknað útgerðarfélaga hefur vaxið upp klasi sprotafyrirtækja, sem allmörgum hefur vaxið fiskur um hrygg með auknum fjárfestingum útgerða og fiskvinnslufyrirtækja.  Þetta gerði Jens Garðar Helgason, formaður SFS, að umræðuefni á ársfundi samtakanna 19. maí 2017:

"Á Akranesi hefur byggzt upp þekkingarfyrirtækið Skaginn með 170 starfsmenn, sem einmitt byggir á því, að íslenzkur sjávarútvegur er að fjárfesta til framtíðar og í framtíðinni.

Sumir hafa jafnvel gengið svo langt að úthrópa HB Granda fyrir að standa ekki við samfélagslegar skuldbindingar og stuðla ekki að byggðafestu.  Hvernig í ósköpunum er hægt að komast að þessari niðurstöðu, þegar fyrirtækið er að fækka úr 270 starfsmönnum á Akranesi í 185, og fyrirheit eru um að reyna að finna sem flestum vinnu annars staðar hjá fyrirtækinu - annaðhvort á Akranesi eða í Reykjavík ?  Akranes er 6´800 manna samfélag í hálftíma akstri frá Reykjavík.  Á sama tíma hefur HB Grandi fjárfest fyrir 10 milljarða í atvinnutækjum og kvóta til að styrkja 600 manna byggðarlag austur á fjörðum.  Tíu milljarðar, sem hafa tryggt starfsöryggi og byggðafestu Vopnafjarðar til framtíðar.  Samfélag, sem er einn tíundihluti Akraness í 700 km fjarlægð frá Reykjavík.  Að halda því fram, að stefna HB Granda sé ekki samfélagslega ábyrg, er í einu orði sagt "galið"."

Á þessum sama ársfundi benti Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við HÍ, á, að íslenzkur sjávarútvegur hefði ekki orðið arðbær fyrr en á 21. öldinni.  Þessi staðreynd er nauðsynlegt skilyrði, en ekki nægilegt, fyrir því að álykta, að haldið hafi verið inn á rétta braut með innleiðingu íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfisins árin 1984 og 1990.  Þessi hagnaður er undirstaða velmegunar í flestum íslenzkum sjávarplássum, sem er þá algerlega háð núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, frjálsu framsali aflaheimilda og frjálsri ráðstöfun aflans, eins og téður Ásgeir hélt fram. Jafnframt sagði hann, "að það væri mýta [goðsögn], að kvótakerfið hefði komið landsbyggðinni á kaldan klaka.  Samkeppnishæfur sjávarútvegur væri forsenda fyrir samkeppnishæfum lífskjörum úti á landi".  

Stjórnmálafólk, sem ekki áttar sig á þessum staðreyndum, á vart erindi á Alþingi Íslendinga, hvað þá í ríkisstjórn.  

Hitt skilyrðið, sem með arðsemisþættinum leyfir að álykta sem svo, að haldið hafi verið inn á rétta braut við innleiðingu núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis, er, að það felur í sér hvata til sjálfbærrar nýtingar veiðistofnanna og að það hefur í raun umbylt veiðunum við Ísland úr ósjálfbærri nýtingu auðlindarinnar í sjálfbæra nýtingu, eins og viðsnúningur þorskstofnsins til hins betra er gleggsta dæmið um. 

 

 

 

 

 

 


Lýðheilsu á hærri stall

Það varð lýðum ljóst, er loks fréttist af bilun í skolphreinsistöð þremur vikum eftir að farið var að hleypa óhreinsuðu klóaki út um neyðarlúgu stöðvar OR/Veitna við Faxaskjól, að sumir stjórnmálamenn og embættismenn láta sér í léttu rúmi liggja, þótt kólíbakteríur og saurgerlar séu vikum saman í margföldum leyfilegum styrk m.v. heilsuverndarmörk úti fyrir strönd, sem er vinsælt útivistarsvæði og sjóbaðstaður, Nauthólsvík.  Framferði OR/Veitna var tillitslaust við íbúana, sem syntu í sjónum og stunduðu fjöruferðir í góðri trú um, að hreinsikerfið væri fullnægjandi, enda hefur stjórn OR nú beðið fólk afsökunar fyrir sína hönd og hlutaðeigandi starfsmanna.  

Af þessu má þó ráða, að lýðheilsa sé ekki hátt skrifuð á þeim bænum.  Það er hið versta mál, því að lýðheilsa hefur versnað á þessari öld með alls konar lífstílssjúkdómum, sem rýra lífsgæðin og valda hinu opinbera gríðarlegum kostnaði.  Hugarfarsbreytingar er þörf, og hún hefur þegar átt sér stað hjá nokkrum, á að gizka 20 % fólks, en um 80 % fólks er enn of kærulaust um heilsu sína.  

Frá 5. júlí 1937 hefur Náttúrulækningafélag Íslands (NLFÍ) verið starfandi í landinu.  Félagið varð þannig nýlega áttrætt og er í fullu fjöri, t.d. með starfsemi sína á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði, HNLFÍ, enda hefur aldrei verið jafngóður jarðvegur fyrir félagið í þjóðfélaginu og nú.  Það hefur heldur aldrei verið jafnmikil þörf fyrir starfsemi þess og nú um stundir. Munaðarlíf og rangt fæðuval er enn meira áberandi en áður var.   

Þann 5. júlí 2017 birtist grein í Morgunblaðinu eftir Gunnlaug K. Jónsson, forseta NLFÍ og formann rekstrarstjórnar HNLFÍ, undir hinu sígilda heiti,

"Berum ábyrgð á eigin heilsu !".

Þar sagði um um NLFÍ:

"Tilgangurinn var að stofna félag, sem hefði það að markmiði að efla og útbreiða þekkingu á lögmálum heilbrigðs lífs og heilsusamlegum lifnaðarháttum.  Áherzla var lögð á nauðsyn þess og mikilvægi, að einstaklingurinn bæri ábyrgð á eigin heilsu og velferð.  Sérstaklega var höfðað til foreldra, hvað börnin áhrærir.  Allt frá stofnun hafa einkunnarorð NLFÍ verið:"Berum ábyrgð á eigin heilsu.""

Þessi einkunnarorð eiga einkar vel við nú á dögum, þegar hið svo kallaða öryggisnet heilbrigðiskerfisins grípur þann, sem missir heilsuna, hvort sem það er fyrirsjáanlegt sjálfskaparvíti vegna óhollustusamlegs lífernis eða af öðrum orsökum.  Þó að það hafi ekki verið hugmyndin með hinum ríkisfjármögnuðu sjúkratryggingum, þá hafa þær leitt til þess, að margir segja einfaldlega við sjálfa sig: "den tid, den sorg", ríkið mun sjá um að færa mér heilsuna á ný, ef/þegar ég missi hana, og þess vegna get ég étið, drukkið, reykt og dópað, eins og mér sýnist, og ég nenni ekki að stunda neina líkamsrækt.  

Þetta er eins skammsýnt, skaðlegt og ábyrgðarlaust sjónarmið og hugsazt getur.  Góð heilsa, sem fer forgörðum, kemur einfaldlega aldrei aftur.  Það er hægt að lappa í fólk golunni, en heilsufarið verður aldrei, nema svipur hjá sjón.  Að halda góðri heilsu í nútímaþjóðfélagi er að hugsa vel um líkamann með hollu matarræði og hæfilegri blöndu af áreynslu og hvíld.  

Þetta er loðin uppskrift, því að hvað er hollt, og hvað er hæfilegt ?  Það er einmitt hlutverk NLFÍ að fræða fólk um þetta, en til að sjá dæmi um hollan og góðan mat og smakka hann, er hægt að gera sér leið í HNLFÍ í Hveragerði í hádegi (kl. 1145) eða að kvöldi dags (kl. 1800), panta sér mat og snæða á staðnum.  

Meira um NLFÍ úr téðri grein Gunnlaugs:

"Stefna NLFÍ hefur ávallt verið sú að auka og efla þátt hugtakanna heilbrigði og heilsuvernd í umræðu og verkum og að víkja frá hinni einlitu sjúkdómaumræðu.  NLFÍ forðast kennisetningar, sem ekki standast vísindalega gagnrýni.  

Hófsemi í líferni og skilningur á heildstæðum lausnum læknisfræðinnar, heilbrigt líferni í víðum skilningi, verður um ókomna framtíð meginhlutverk félagsins auk umhverfisverndar." 

Síðan rekur hann innreið lífsstílssjúkdómanna og gagnrýnir heilbrigðisstefnu stjórnvalda, sem með fjárveitingum sínum leggja höfuðáherzlu á "viðgerðarþjónustu og skyndilausnir í stað þess að fjárfesta til framtíðar m.a. á þann hátt að stórauka fjárframlög í fyrirbyggjandi aðgerðir, t.a.m. með stóraukinni fræðslu í grunnskólum."

Núverandi léttúð um þau atriði, sem bætt geta lýðheilsuna, hvað þá þættina, sem eru henni beinlínis skaðlegir, mun leiða til stjórnlausrar kostnaðaraukningar hins opinbera við "viðgerðarþjónustu og skyndilausnir" á næstu árum samfara fjölgun eldri borgara.  Áherzla á lýðheilsuna í öllum aldursflokkum, mest á meðal æskunnar, er eitt þeirra ráða, sem dregið geta úr aukningu á lækningaþörf á Háskólasjúkrahúsinu, bætt lífsgæðin og í sumum tilvikum lengt ævina, sem ekki þarf þó endilega verða til kostnaðarauka hjá ríkissjóði í þjóðfélagi sívaxandi lífeyrissjóða.  Nú nema eignir íslenzku lífeyrissjóðanna um 1,5 landsframleiðslu og munu að 10-20 árum liðnum líklega nema þrefaldri landsframleiðslu og verða tiltölulega sterkustu lífeyrissjóðir heims, ef ekki verða stórfelld fjárfestingarslys, eins og henti fyrir Hrunið. 

Árið 1946 skrifaði Jónas Kristjánsson, læknir, frumkvöðull að HNLFÍ, sígilda hugvekju í 1. tbl. Heilsuverndar, sem var tímarit Náttúrulækningamanna:

"Til að skapa heilbrigt og dugandi þjóðfélag þarf andlega og líkamlega heilbrigða þegna.  Undirstaða heilbrigðinnar eru réttir lifnaðarhættir og rétt fræðsla.  En heilsurækt og heilsuvernd þarf að byrja áður en til sjúkdóms kemur; áður en menn verða veikir.  Í þessu starfi þurfa allir hugsandi menn að taka þátt, allir góðir synir og dætur fósturjarðar vorrar verða að telja það sína helgustu skyldu að vernda heilsu sína ættjörðinni til handa.  Og takmark allra þarf að vera það að deyja frá betri heimi en þeir fæddust í."

Þann 21. júní 2017 birti Agnes Bragadóttir fréttaskýringu í Morgunblaðinu um samanburð stofnunarinnar "Social Progress Imperative" á "félagslegum framförum" í 128 ríkjum heims.  Þar eru metnir einir 12 þættir, og eru heilsa og heilbrigði og umhverfisgæði þeirra á meðal.  Ísland lenti í 3. sæti, og voru Danmörk og Finnland rétt fyrir ofan.  Það er þannig ljóst, að lífsgæði eru tiltölulega mikil á Íslandi, þótt okkur þyki þeim enn vera ábótavant, en þó vekur furðu og er umhugsunarvert, að Ísland lenti aðeins í 25. sæti, þegar umhverfisgæði voru metin.  Við höfum gjarna staðið í þeirri trú, að Ísland væri í fremstu röð varðandi loftgæði, vatnsgæði og hreinleika lands, en hreinsun skolps vítt og breitt um landið er vissulega ábótavant og mikil plastnotkun er hér á hvern íbúa. Mikið af plastleifum lendir í hafinu og hafnar í lífkeðjunni.  

Þann 30. maí 2017 skrifaði forseti "Eat Foundation", Gunhild A. Stordalen, grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:,

"Getur norrænn matur orðið meðal heimsins ?"

Greinin hófst þannig:

""Notum matinn sem meðal" sagði gríski læknirinn Hippokrates fyrir meira en 2000 árum.  Hann hafði rétt fyrir sér.  Hollur og kraftmikill matur er forsenda betri heilsu okkar allra, betra lífs og betri plánetu. ... Norðurlöndin raða sér í efstu sæti á listum heimsins, hvað varðar heilsu, sjálfbærni, jafnrétti og hamingju.  En er það vegna þess eða þrátt fyrir það, sem við leggjum okkur til munns ?  Tíðni offitu og sjúkdóma, sem rekja má til mataræðis, eykst.  Óhollt mataræði er orðið stærra heilbrigðisvandamál en reykingar.  Þótt við séum "grænni" en margir aðrir, er loftslags og umhverfisfótspor fæðunnar, sem við neytum og hendum, enn stórt."

Hippokrates hitti naglann á höfuðið, en nútímamaðurinn hefur afvegaleiðzt.  Matvælaiðnaðurinn á nokkra sök á þessu, og afurðir sælgætisiðnaðarins eru stórvarasamar, og margt bakkelsi er skaðræði, nema í litlu magni sé. Þróun neyzlunnar hlýtur að verða frá mat úr dýraríkinu og að jurtaríkinu.  Það er bæði vegna hollustunnar, þ.e. áhrifa fæðunnar á mannslíkamann, og vegna mikils álags á náttúruna af völdum landbúnaðarins við kjötframleiðsluna, eins og hann er nú rekinn í heiminum.  Kolefnisfótspor hans er t.d. helmingi (50 %) stærra en af völdum allrar umferðar á landi.  Losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði heimsins nemur nú 18 % af heild.  

Gunhild A. Stordalen nefnir í grein sinni, að Norðmenn gætu sparað meira en 150 miaISK/ár í heilbrigðisútgjöld, ef þeir mundu fylgja leiðbeiningum norrænu ráðherranefndarinnar um mataræði, sem reistar eru á hugmyndum um sjálfbæra neyzlu.  Fært yfir á Ísland nemur þessi sparnaður 10 miaISK/ár, 6 % af heildar opinberum kostnaði til heilbrigðismála, en hérlendis eru sparnaðarmöguleikarnir fyrir opinber heilbrigðisútgjöld með heilbrigðari lífstíl líklega a.m.k. tvöfalt meiri.  Það er eftir miklu að slægjast.

 

 


Of háreistar hugmyndir

Velgengni fiskeldis hér við land og á landi er fagnaðarefni.  Á tækni- og rekstrarsviði starfseminnar má þakka velgengnina beinni norskri fjárfestingu í 4 fyrirtækjanna, sem hefur gert þeim kleift að fjárfesta fyrir um 10 miaISK/ár að undanförnu, og á næstu árum er búizt við fjárfestingu í fiskeldi um 5 miaISK/ár  Nánast allt er þetta bein norsk fjárfesting, sem eflir íslenzka hagkerfið. 

Nemur hinn norski eignarhlutur á bilinu 34 %-60 % í þessum fyrirtækjum. Framlegð fyrirtækjanna hefur jafnframt verið góð eða yfir 20 % af söluandvirði afurðanna.  Há framlegð helgast af skorti á heimsmarkaði fyrir lax vegna framboðsbrests um 7 % af völdum fiskisjúkdóma, m.a. í Noregi.  Markaðsáhrifin hafa orðið 50 % hækkun á laxi upp í um 1000 ISK/kg, sem tæpast verður þó varanleg.

Það er engum blöðum að fletta um byggðalegt mikilvægi fiskeldisins, þar sem það er stundað, enda hefur það sums staðar snúið fólksfækkun upp í fólksfjölgun, og sömuleiðis um þjóðhagslegt mikilvægi þess.  Um þessar mundir er hallinn mjög mikill á vöruviðskiptum við útlönd eða um 150 miaISK/ár.  Hluti af þessu er vegna fjárfestinga, en megnið eru neyzlu- og rekstrarvörur.  Þetta gengur ekki til frambúðar og brýn þörf á að auka tekjur af vöruútflutningi, því að endi þetta með halla á viðskiptajöfnuði (þjónustujöfnuður (ferðamennskan) meðtalin), eins og stefnir í nú, þá hefst skuldasöfnun við útlönd og ISK hrynur.

Ef laxeldið fær að tífaldast m.v. núverandi framleiðslu og vaxa upp í 100 kt/ár, munu gjaldeyristekjur aukast um 90 miaISK/ár m.v. núverandi verðlag á laxi, en á móti kemur innflutningskostnaður aðfanga.  Þar vegur fóðrið mest, og það er óskandi, að innlend hlutdeild í fóðrinu margfaldist, t.d. með framleiðslu repjumjöls og sérverkaðs fiskimjöls fyrir laxinn.  

Það þarf greinilega mun meiri viðbót við vöruútflutninginn en laxeldið, og þar mun væntanlegur kísilútflutningur vega þungt, en starfsemi eins kísilframleiðandans af 4, sem orðaðir hafa verið við þessa starfsemi hérlendis, PCC á Bakka við Húsavík, mun hefjast í desember 2017, ef áætlanir ganga eftir.

Þótt mikil þörf sé á auknum gjaldeyri inn í landið á næstu árum, þá ber að gjalda varhug við stórkarlalegum hugmyndum um vaxtarhraða og lokaumfang laxeldis í sjókvíum við Ísland.  Þessir villtu draumar komu fram í viðtali við Knut Erik Lövstad hjá Beringer Finance í sjávarútvegsblaði Morgunblaðsins 6. júlí 2017:

""Eldisfyrirtækin hafa fengið leyfi fyrir framleiðslu á 40 kt/ár af laxi, og þau hafa lagt inn umsóknir fyrir 130 kt/ár [til viðbótar].  Ef umsóknirnar verða samþykktar, gæti framleiðslan orðið 170 kt/ár", segir hann."

Það er ljóst, að Lövstad býst við mjög örum vexti, því að hann nefnir tvöföldun árið 2018 upp í 21 kt, og að árið 2020 muni hún verða 66 kt, þ.e. meira en sexföldun á þremur árum.  Þetta jafngildir árlegum meðalvexti um 87 %.  Ef sá vöxtur héldi áfram upp í 170 kt/ár, næðist sú framleiðsla árið 2022.  Hér er allt of geist farið og öllu nær að reikna með, að árið 2022 hafi framleiðslan náð 60 kt/ár, verði um miðbik næsta áratugar 75 kt/ár og nálgist e.t.v. 100 kt/ár undir 2030 í sjókvíum, en þá því aðeins, að reynslan gefi tilefni til 30 kt/ár aukningar á starfsleyfum m.v. frumráðleggingu Hafrannsóknarstofnunar.  

Rökin fyrir þessum varúðarsjónarmiðum eru í fyrsta lagi umhverfisverndarlegs eðlis, og í öðru lagi þurfa innviðir þessarar atvinnugreinar tíma til að þroskast og laga sig að þörfum greinarinnar.  

Það er enn ekki komin nein teljandi reynsla af hinni nýju tækni fiskeldisfyrirtækjanna, þ.á.m. nýrri hönnun eldiskvíanna.  Við þurfum haldfastar tölur um stroktíðnina úr hinum nýju eldiskerum til að unnt sé að leggja mat á, hversu marga fiska má leyfa í hverjum firði Vestfjarða og Austfjarða auk Eyjafjarðar.  Slík reynsla fæst tæpast fyrr en árið 2022, og þangað til er ekki ráðlegt að leyfa yfir 50 kt/ár á Vestfjörðum og 20 kt/ár á Austfjörðum, alls 70 kt/ár samkvæmt frumáhættumati Hafró.  Þetta frummat vísindamanna stofnunarinnar kemur blekbónda ekki mikið á óvart, þótt talan fyrir Austfirði virki nokkuð lág. 

Ef fyrirtækin vilja meira, eiga þau kost á að fara út í laxeldi í landkerum og losna þannig við áhættu stroks og lúsar, en á móti kemur aukinn orkukostnaður vegna nýtingar hitaveitu til upphitunar á sjó, sem  getur gefið meiri vaxtarhraða en í sjó.  Þá þarf öflugt hreinsikerfi. Rafmagnskostnaður er einnig meiri vegna dælingar, en þetta virðist samt álitlegur kostur, þegar skortur er á laxi á markaðina.

Það er mikil verðmætasköpun per tonn í laxeldi um þessar mundir, jafnvel meiri en í íslenzka sjávarútveginum, sem á þó heimsmet í verðmætasköpun sjávarútvegs.  Þannig segir Daði Már Kristófersson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, að samkvæmt mati Norðmanna skapi hvert ársverk í laxeldi MNOK 2,7 eða um MISK 33.  Þá hafi fjöldi ársverka í greininni í Noregi árið 2014 við eldi, slátrun, vinnslu og markaðssetningu verið 9´500, og afleidd störf hafi þá reynzt vera 19´000, eða tvö fyrir hvert beint starf, svo að heildarfjöldi ársverka var 28´500.

Þar sem Norðmenn framleiddu um 1,3 Mt árið 2014 af laxi í sjóeldiskvíum við Noreg, þýðir þetta, að framleiðsla á 1,0 kt útheimtir 22 ársverk (mannár).  Þetta þýðir, að til að framleiða 40 kt/ár, sem ætla má, að verði raunin hér árið 2020, þarf tæplega 900 ársverk, þar af tæplega 300 bein störf.  Allir sjá, hvílíkur búhnykkur hér er á ferðinni.

Hins vegar sér prófessor Daði Már ástæðu, eins og blekbóndi, til að slá varnagla við vaxtarhugmyndum, sem uppi eru:

""Þetta er lyftistöng fyrir þessi samfélög [fiskeldis].  Og það er í sjálfu sér ástæða til að vera jákvæður gagnvart fiskeldi sem grundvallar atvinnugrein á Íslandi, eins og annars staðar."

Hins vegar þurfi fiskeldismenn og stjórnvöld að stíga varlega til jarðar.  Ýmis þjóðhagslegur kostnaður fylgi atvinnugreininni.

"Umhverfisáhrifin af fiskeldi eru umtalsverð.  Þau eru mjög vandlega staðfest í nágrannalöndunum, og það er einnig vandlega staðfest, að þeir, sem hafa slakað verulega á kröfum í umhverfismálum, hafa iðulega séð eftir því til lengri tíma litið.  Við ættum að láta það verða lexíu fyrir okkur.""

Það er ekki sanngjarnt að velta laxeldisfyrirtækjum á Íslandi upp úr mengunarsögu laxeldisfyrirtækja í öðrum löndum.  Það er vegna þess, að íslenzku fyrirtækin hafa lært af áföllum annars staðar og innleitt nýjustu tækni og aðferðir við eldið.  Þar má nefna traustari sjóeldiskvíar, myndavélavætt eftirlit í kringum þær og með fóðruninni, svo að hún er stöðvuð, þegar græðgin minnkar í fiskinum.  Þá ætla fiskeldisfyrirtækin hér að hvíla eldissvæðin í eitt ár af þremur til að leyfa svæðinu að hreinsast.  Allt er þetta til fyrirmyndar. Stroktíðnin er lykilstærð fyrir ákvörðun um hámark starfsleyfa.  Enn tröllríður húsum sú úrelta stroktíðni, að einn lax sleppi upp í árnar úr hverju tonni í sjóeldiskvíum.  Hafi einhvern tímann verið eitthvað hæft í því hlutfalli, er alveg víst, að það á ekki við laxeldi við strendur Íslands nú, enda mundi það jafngilda stroklíkindum 0,5 %/ár=5000 ppm, en fyrir nokkrum árum voru stroklíkindi í sjókvíaeldi við Noreg 20 ppm.  Nýjar rauntölur vantar, en ef vel á að vera, þurfa þessi líkindi við Íslandsstrendur að minnka um eina stærðargráðu og verða 2 ppm.  Það mundi þýða, að með 70 kt í sjóeldiskvíum, mundu 70 laxar sleppa á ári upp í árnar.  Það gæti numið 1 % af íslenzku hrygningarstofnunum í ánum, sem falla í firði, þar sem sjókvíaeldi er leyft.  Erfðafræðingar þurfa að meta hættuna á úrkynjun íslenzku laxastofnana við þessar aðstæður, en ágizkun leikmanns er, að hún sé hverfandi.  

Niðurstaðan er þessi: Fiskeldið, einkum laxeldið, er hvalreki fyrir byggðir Vestfjarða og Austfjarða, sem staðið hafa höllum fæti.  Mikil verðmætasköpun á sér stað, og 2 óbein störf fylgja hverju starfi beint við eldið. 

Stefnumörkun skortir að hálfu stjórnvalda um útreikning og töku sanngjarns auðlindagjalds af greininni og um vaxtarhraða hennar.  Stjórnvöld verða að leyfa henni að ná lágmarks hagkvæmni stærðarinnar sem fyrst, t.d. árið 2022, s.s. 60 kt/ár til slátrunar, en eftir það ber að hægja á framleiðsluaukningu á meðan frekari reynslu af starfseminni er safnað.  Ólíklegt er, að verjandi þyki nokkurn tíma að taka áhættu af meira en 100 kt/ár sjókvíaeldi, en fyrirtækin gætu aftur á móti fljótlega fært út kvíarnar með verulegu eldi í landkerum.  

 

 

 

 

 


Efling á réttum tíma

Hröð þróun á sér nú stað í sjávarútvegi til að treysta samkeppnistöðu greinarinnar á tímum lækkandi fiskverðs, a.m.k. í krónum (ISK) talið.  Gríðarlegar og tímabærar fjárfestingar eiga sér nú stað í nýjum fiskiskipum, sem leiða munu til mikillar hagræðingar, því að í mörgum tilvikum kemur eitt skip í stað tveggja.  Þetta mun lækka sóknarkostnað á hverja veidda einingu vegna minna mannahalds og gríðarlegs olíusparnaðar.  Einnig styttist úthaldstími, en það er þó aðallega vegna gjöfulli miða, sem eru beinn afrakstur af fórnum fyrri ára við uppbyggingu veiðistofnanna. Að sjálfsögðu eiga hinir sömu nú að njóta eldanna, sem kveiktu þá.  

Fjöldi launþega í sjávarútvegi náði hámarki þessarar aldar árið 2013 og nam þá 10´200 manns, en árið 2017 er búizt við, að meðalfjöldi launþega verði 8´500 í sjávarútvegi.  Launþegum í greininni fækkaði um 600 á 12 mánaða skeiði á milli aprílmánaða 2016 og 2017. Þetta sýnir hraða breytinganna, sem nú ganga yfir.

Sem dæmi um tækniþróun togskipanna má taka frásögn Baksviðs Guðna Einarssonar á bls. 18 í Morgunblaðinu, 17. júní 2017, af nýjum skipum Vinnslustöðvarinnar:

"Skrokklag nýju togaranna er með nýju sniði og skrúfurnar þær stærstu, sem þekkjast, miðað við vélarafl.  Skrúfan er 4,7 m í þvermál.  Með því á að stytta togtímann og nýta vélaraflið til hins ýtrasta.  Áætlað er, að eldsneytissparnaður verði allt að 40 % m.v. hefðbundna togara.  Togararnir geta dregið tvö troll samtímis og hafa þannig 60 % meiri veiðigetu en togari með eitt troll.  Ganghraði Breka í reynslusiglingu var 14 sjómílur."

Þetta eru byltingarkenndar breytingar, og við þessar aðstæður fyllir fiskeldi nú upp í skarð, sem myndast við hagræðingu í sjávarútvegi, heldur uppi atvinnustigi og snýr jafnvel við óheillavænlegri margra ára íbúaþróun, eins og á Vestfjörðum.  Atvinnugreinin er þó ekki gallalaus frekar en önnur atvinnustarfsemi.  Mestar áhyggjur stafa af stroki laxa úr sjókvíaeldiskerum.  Hafrannsóknarstofnun hefur nú lagt fram sínar ráðleggingar um stefnumörkun í greininni, og eru þær nauðsynlegt vegarnesti.  Þar gætir eðlilegrar varfærni nú á byrjunarstigum mikils vaxtarhraða, þar sem ráðlagt hámarkseldi á Vestfjörðum er 50 kt/ár og 20 kt/ár á Austfjörðum.  Með meiri reynslu af sjókvíaeldinu og aukinni þekkingu á starfseminni og umhverfisáhrifum hennar verður grundvöllur til endurskoðunar á þessum tillögum.  Þær fela í sér talsvert vaxtarsvigrúm fyrir sjókvíaeldi á laxi eða sjöföldun m.v. núverandi framleiðslustig.  

Almenningur hefur of lítið verið fræddur um líkindi seiðastroks úr nýrri gerð sjóeldiskvía og afleiðingar þess af vísindamönnum, og upphrópanir og staðleysur hafa sett of mikinn svip á umræðuna.  Þess vegna var grein Arnars Pálssonar, erfðafræðings, í Fréttablaðinu 8. júní 2017, vel þegin.  Hann nefndi hana:

"Áhrif erfðamengunar á villta laxastofna"

og henni lauk þannig:

"Niðurstöður Bolstad [Geir Bolstad er norskur vísindamaður á sviði erfðafræði - innsk. BJo] og félaga eru óvissu háðar, eins og allar rannsóknir á náttúrunni.  En spurningin er ekki lengur, hvort gen frá eldisfiski hafi áhrif á villta laxastofna, heldur hversu mikil og hvers eðlis þau eru.  Stóra spurningin er: leiðir erfðablöndunin til hnignunar og útdauða villtra stofna ? [Það er nánast útilokað, að slíkt geti gerzt hérlendis, því að laxeldi í sjókvíum er bannað meðfram ströndinni, þar sem helztu laxveiðiár landsins renna í sjó fram. - innsk. BJo]  

Það er full ástæða til að endurskoða laxeldi í sjókvíum hérlendis.  Sérstaklega þar sem íslenzkir laxar eru fjarskyldir eldislaxi.  Ástæðan er sú, að flæði gena frá eldisfiskum getur breytt eiginleikum villtra íslenzkra laxastofna, gert þá minna hæfa í lífsbaráttunni og dregið úr getu þeirra til að þróast í framtíðinni.  

Frændur vorir í Noregi og vinir í Síle hafa brennt sig á flestu, sem hægt er í laxeldi.  Vonandi berum við gæfu til að læra af mistökum þeirra og fórna ekki lífríki vatna og hafs fyrir ódýrar og skammsýnar lausnir í laxeldi."

Það vildi okkur Íslendingum til happs, að iðnaði óx ekki fiskur um hrygg hérlendis fyrr en tækniþróunin var komin svo langt, að hægt var að koma við árangursríkum mengunarvörnum.  Hið sama á við um laxeldið.  Þar er nú að ryðja sér til rúms norsk hönnun sjókvía, sem mjög (a.m.k. um eina stærðargráðu)hefur dregið úr stroki laxa þar.  Jafnframt eru settar upp neðansjávareftirlitsmyndavélar, og fylgzt er með myndum frá þeim allan sólarhringinn.  Þannig er hægt að bregðast strax við stroki og fanga laxinn áður en hann sleppur upp í árnar. 

Með innleiðingu nýrrar tækni á þessu sviði er búið að draga úr líkum á stroki laxaseiða, sem eru reyndar ekki orðin kynþroska, og jafnframt búið að innleiða mótvægisaðgerðir við stroki.  Allt þetta hefur minnkað líkur á stroki upp í árnar, sem blekbóndi mundi ætla, að sé nálægt 1 ppm við eldi samkvæmt gildandi norskum staðli um sjókvíaeldi, þ.e. með 95 % vissu má ætla, að af einni milljón seiða á einu eldissvæði sleppi að jafnaði eitt upp í árnar í viðkomandi firði á ári.  Slíkt sleppihlutfall er skaðlaust fyrir íslenzka náttúru.  Reynslutölur og/eða áætluð gildi um þetta þurfa endilega að birtast frá eldisfyrirtækjunum, samtökum þeirra eða eftirlitsaðilunum, því að framtíð fyrirtækjanna veltur á frammistöðu þeirra í þessum efnum.  

Hins vegar á sér stað annars konar og afar markverð þróun á sviði fiskeldis, sem nánast útilokar þessa áhættu.  Þar er átt við fiskeldi í landkerum.  Á Íslandi njóta þau jarðhita, jafnvel affallsvatns, en raforkunotkun er talsverð vegna dælingar, og þurfa slík fyrirtæki langtímasamning um heildsöluverð á raforku.  Virðisaukaskattur af jarðvarma og raforku er endurgreiddur til útflutningsiðnaðar.  

Matorka hefur hefur hafið eldi á bleikju og laxi á Reykjanesi og áformar að framleiða 3,0 kt/ár f.o.m. 2018.  Fyrirtækið rekur seiðaeldisstöð að Fellsmúla í Landssveit.  Framleiðslugetan þar er 1,0 M (milljón) seiði á ári.  Fyrri áfangi Reykjanesstöðvarinnar getur framleitt 1,5 kt/ár af sláturfiski í 6 kerum.  

Afurðaverðið á slægðri bleikju um þessar mundir er um 800 ISK/kg og um 1710 ISK/kg af flökum.  Fyrir laxinn fæst enn hærra verð.  

Árni Páll Einarsson, framkvæmdastjóri Matorku, sagði eftirfarandi í samtali við Guðjón Guðmundsson hjá Fiskifréttum á bls. 5, fimmtudaginn 22. júní 2017,:

"Við erum með samning við HS Orku um nýtingu á affallsvarma, sem gerir eldisstöðina hérna einstaka á heimsvísu, og erum aðilar að Auðlindagarðinum [það er fjölnýting á jarðgufu, sem HS Orka aflar í Svartsengi og víðar og er til stakrar fyrirmyndar - innsk. BJo].  Íslendingar eru með einstaka möguleika á landeldi, sem til að mynda bjóðast ekki í öðrum löndum [undirstr. BJo]."

Laxeldi í sjókvíum er þröngur stakkur skorinn, þar sem Suðurströndin hentar ekki, Vesturströndin sunnan Látrabjargs er lokuð laxeldi í sjó og sömuleiðis Norðurströndin, nema Eyjafjörður. Nýleg ráðlegging Hafrannsóknarstofnunar útilokar líka Ísafjarðardjúp, og Stöðvarfjörð frá laxeldi og leggst gegn aukningu í Berufirði. Þótt burðarþol Vestfjarða, Eyjafjarðar og Austfjarða hafi áður verið lauslega áætlað 200 kt/ár af fiskmassa í sjókvíum, er ólíklegt, að sláturmassinn úr sjókvíum fari nokkurn tíma yfir 100 kt/ár hérlendis af umhverfisverndarástæðum, og frumráðlegging Hafró er 70 kt/ár í sjóeldiskvíum.  Þetta verður þó hægt að bæta upp hringinn í kringum landið, þar sem jarðhita og hagstætt rafmagn er að hafa, með fiskeldi í landkerum.  Líklegt er, að téð frumráðlegging Hafró um starfsleyfi fyrir aðeins helmingi þeirrar framleiðslugetu, sem þegar hefur verið sótt um, muni flýta fyrir þróun landkereldis hérlendis.   

Til að ná framleiðslugetu sláturfisks 100 kt/ár á landi þarf 400 framleiðsluker á stærð við kerin, sem Matorka notar nú.  

Á Austfjörðum fer nú fram ánægjuleg uppbygging laxeldis, sem kemur sér vel fyrir byggðir þar, sem stóðu höllum fæti vegna hagræðingar innan sjávarútvegsins, sem talin var nauðsynleg til að halda velli í samkeppninni.  Þann 20. júní 2017 birtist um þetta frétt Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu,

"10 þúsund tonna laxaframleiðsla hafin":

"Áfangar nást þessa dagana hjá austfirzku laxeldisfyrirtækjunum.  Nýjar og öflugar sjókvíar hafa verið settar upp í Berufirði og Reyðarfirði og norskt leiguskip, svokallaður brunnbátur, er að flytja laxaseiði frá seiðastöðvum fyrirtækjanna í Þorlákshöfn.  Á bilinu 1800 - 1900 þúsund seiði eru sett út þessa dagana, og mun það skila um 10 þúsund tonnum af laxi í fyllingu tímans."

Þó að hér sé um dágott magn að ræða, er það samt of lítið fyrir hagkvæman rekstur.  Einingarkostnaður verður of hár fyrir samkeppnishæfni á alþjóðlegum markaði, nema hagkvæmni stærðarinnar fái að njóta sín.  Þess vegna sækjast laxeldisfyrirtækin eftir starfsleyfi og rekstrarleyfi fyrir auknu magni.  Má ætla, að stærð eldisfyrirtækjanna hérlendis nái nauðsynlegu lágmarki um 2020 og verði þá slátrað a.m.k. 40 kt.  Stjórnvöld verða að átta sig á þessu, þ.e. nauðsyn á að ná hagkvæmni stærðarinnar, og það eru ábyrgðarlausar úrtölur hjá sjávarútvegs- og landúnaðarráðherra, að nú þurfi að hægja á leyfisveitingaferlinu, enda væru slík stjórnvaldsinngrip óleyfileg samkvæmt núgildandi lögum.  Væri ráðherranum nær að leggja hönd á plóg við þróun sanngjarns afgjaldskerfis fyrir afnot af náttúruauðlind við strendur landsins, eða ætlar hún kannski að innleiða uppboð á téðri auðlind ? 

Eftir að "krítískum massa" er náð hérlendis, e.t.v. um 60 kt/ár í slátrun hjá öllum sjókvía eldisfyrirtækjunum, má þó segja, að 5 %- 15 % árlegur vöxtur sé eðlilegur upp í það gildi, sem talið verður verjanlegt út frá rekstrarreynslunni, stroklíkindum og metnu burðarþoli fjarða.  Þetta gildi verður líklega 70 - 100 kt/ár í sjókvíum hérlendis.

"Bæði fyrirtækin [Fiskeldi Austfjarða og Laxar fiskeldi - innsk. BJo] hafa verið að byggja sig upp, tæknilega.  Hafa [þau] keypt stóra fóðurpramma og þjónustubáta.  

Fiskeldi Austfjarða er með aðstöðu á Djúpavogi og slátrar þar sínum laxi.  Laxar hafa komið sér upp starfsstöð á Eskifirði.  Ekki hefur verið ákveðið, hvar fiskinum verður slátrað.  Laxar hafa leyfi til framleiðslu á 6 þúsund tonnum í Reyðarfirði og fullnýta það leyfi í ár.  Einar Örn Gunnarsson, stjórnarmaður og einn stofnenda, segir, að sótt hafi verið um leyfi til stækkunar, og vonast hann til þess, að það fáist, þannig að hægt verði að halda áfram uppbyggingunni á næsta ári."

Það er brýnt, að stjórnvöld virki ekki sem dragbítar á þessa mikilvægu starfsemi fyrir byggðirnar og þjóðarhag.  Fyrirtækin þurfa sem fyrst að fá vitneskju um það magn, sem í byrjun er ætlunin að leyfa á hverjum stað ásamt fyrirhugaðri aukningu, og þau skilyrði, sem leyfunum fylgja, ásamt auðlindagjaldinu, sem þau mega búast við að greiða, að mestu til viðkomandi sveitarfélaga, vonandi. 

Frétt Helga Bjarnasonar um Fiskeldi Austfjarða, sem birtist á bls. 26 í Morgunblaðinu, 30. júní 2017, lauk þannig:

"Fiskeldi Austfjarða er tilbúið til áframhaldandi stækkunar.  [Fyrirtækið] er vel fjármagnað og hefur aðgang að nauðsynlegri þekkingu, að sögn Guðmundar, og markaður fyrir laxaafurðir er mjög góður.  "Við viljum halda áfram fjárfestingum, ráða fleira fólk og byggja fyrirtækið frekar upp.  Til þess þurfum við skýra framtíðarsýn [stjórnvalda].  Allir, sem að fiskeldi koma, þurfa að ganga í takti", segir Guðmundur Gíslason."

Nú er framtíðarsýn stjórnvalda hérlendis á laxeldi í sjó að fæðast.  Sumir hafa gagnrýnt erlenda hlutdeild í fiskeldi á Íslandi.  Afstaða þeirra einkennist af þröngsýni fremur en þekkingu á gildi beinna erlendra fjárfestinga.  Þeir hafa ekki gert sér grein fyrir mikilvægi nýrrar tækni- og stjórnunarþekkingar, sem jafnan berst með erlendum fjárfestum, auk fjölþættra markaðssambanda þeirra á birgja- og söluhlið viðskiptanna.  Það er hörmung að hlýða á steinrunninn málflutning um brottflutning arðs erlendra hluthafa.  Þá gleymist, að allt fé kostar og það er sanngjarnt, að sá, sem hættir fé sínu til atvinnustarfsemi hér, njóti eðlilegrar ávöxtunar á sínu fé, ekki síður en aðrir.  Í áhættustarfsemi á borð við laxeldi er allt að 15 %/ár eðlileg ávöxtunarkrafa af eigin fé, en á uppbyggingarskeiði verður ávöxtunin mun minni eða engin, af því að fiskeldi er fjármagnsfrek starfsemi.  Íslenzkar lánastofnanir voru ófúsar að lána innlendum aðilum til uppbyggingar fiskeldis eftir Hrun fjármálakerfisins, og þá var eðlilegt og líklega affarasælt að leita út fyrir landsteinana, enda er þar jafnframt tækniþekkingu á starfseminni að finna.  

Ætli sé á nokkurn hallað, þótt sagt sé, að Arnarlax sé leiðandi fiskeldisfélag á Vestfjörðum.  Í 200 mílum Morgunblaðsins, 31. maí 2017, gat að líta eftirfarandi frásögn Skúla Halldórssonar:

"Fiskeldisfyrirtækið Arnarlax hefur tekið í notkun nýjan og öflugan fóðurpramma, sem borið getur 650 t af fóðri.  Til samanburðar geta hinir tveir prammarnir í eldinu, sem fyrir voru, aðeins borið 300 t hvor.

Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax, segir í samtali við Morgunblaðið, að kaupin á prammanum séu liður í öruggri sókn fyrirtækisins, sem stofnað var árið 2009.  

"Þetta er merki um, hvað íslenzkt fiskeldi er orðið faglegt og er að nota nýjustu tækni og tól til uppbyggingar á greininni hér á Íslandi", segir Víkingur.

Pramminn var smíðaður í Eistlandi og kostaði MISK 300 að sögn Víkings.  Allt er til alls þar um borð, eldhús og káetur auk stjórnstöðvar með kraftmiklar ljósavélar. [Starfsemi á borð við þessa er alveg kjörið að rafvæða og jafnvel að vera með rafstreng úr landi. - innsk. BJo]

Arnarlax mun þó ekki láta þar staðar numið. "Við reiknum með, að við smíðum annan pramma af svipaðri stærð.  Það sýnir bara, hversu mikil uppbygging er í þessum geira, sem er í raun orðinn stór iðnaður hér á landi", segir Víkingur.

Pramminn verður settur niður í Tálknafirði síðar í vikunni af sérútbúnu skipi, sem Arnarlax leigir að utan til verksins.

"Það er mjög öflugur vinnubátur, sem er m.a. með kafbát til að skoða allar festingar.  Allt er þetta gert eftir ströngustu kröfum, því að það er það, sem við viljum gera til að koma í veg fyrir hvers kyns óhöpp og slys."

Hérlendis eru hannaðir og smíðaðir fjarstýrðir dvergkafbátar.  Það er ekki ólíklegt, að það muni þykja hagkvæmt að fá slíkan dvergkafbát til eftirlits með eldiskvíum í sjó.  Viðurlög við stroki ógeldra eldislaxa úr sjókvíum þurfa að vera þungbær rekstraraðilum, svo að þeir sjái sér augljósan hag í að fjárfesta í traustasta búnaðinum og að hafa með honum reglubundið, strangt eftirlit, þar sem beitt sé tækni, sem gefur kost á aukinni nákvæmni við eftirlitið.  

""Við [hjá Arnarlaxi] slátrum 10 kt á þessu ári.  Héðan frá Bíldudal flytjum við því 10 kt af ferskum laxi út um allan heim."

Stór hluti laxins fer út til Bandaríkjanna og er seldur í Whole Foods-verzlunum þar í landi, en sömuleiðis er hann fluttur út til Evrópu og Asíu."

Þessi markaðssetning gefur væntanlega hæsta mögulega verðið.  Það hefur undanfarið verið um 1000 ISK/kg, en verðið hefur ekki alltaf verið svona hátt.  Árið 2015 fór að gæta minnkandi framboðs af völdum sjúkdóma í laxeldi í Noregi og í Síle, og árið 2016 nam samdráttur framboðs 7 % frá hámarkinu.  Afleiðingin var 50 % hærra verð en 2014 í USD talið.  Venjulegt verð hafði með öðrum orðum verið undir 700 ISK/kg að núviðri lengst af.  Framlegðin er af þessum sökum há um þessar mundir, og það kemur sér vel fyrir laxeldisfyrirtækin á Íslandi, sem standa í miklum fjárfestingum við uppbygginguna eða fyrir a.m.k. 4,0 miaISK/ár. 

Sjórinn við Ísland er kaldari en víðast hvar, þar sem laxeldi í sjó er stundað, svo að fiskurinn verður hægvaxnari en ella, en á móti kemur, að hann er hraustari og þarf jafnvel ekki lyfjagjöf.  Takmörkuð eða engin lyfjagjöf ætti að verða eitt af skilyrðum starfsleyfis.  

Hérlendis hlýtur að verða þróun í þá átt, að innlendir framleiðendur til sjós og lands anni þörfum innlends fiskeldis fyrir fóður.  Úr repjuræktun hérlendis á að verða unnt að vinna 50 kt/ár af laxafóðri sem aukaafurð við repjuolíuvinnslu, en fiskeldið hérlendis gæti þurft á að halda 200 kt/ár af fóðri í sjókvíum og landkerum.  Hér er kominn traustur markaður fyrir íslenzka fiskimjölsframleiðendur, ef þeir fara í ákveðið þróunarstarf fyrir þennan markað:

"Fóðrið er allt fengið að utan að sögn Víkings, þar sem enga fóðurverksmiðju er að finna á Íslandi, sem búið getur til fóður af réttum gæðum.  

Styrking ISK hefur því ekki haft jafnslæm áhrif á eldið og raun ber vitni hjá útgerðunum.

"Fóðrið er náttúrulega stærsti kostnaðarliðurinn, og þetta kemur ekki eins hart niður á okkur og öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum.  En þetta [gengið] hefur samt talsvert að segja.""

 

Kjartan Ólafsson er stjórnarformaður Arnarlax. Eftir honum er haft í Markaði Fréttablaðsins, 29. júní 2017, að framlegð, EBITDA, árið 2017 sé áætluð um MEUR 20 eða um miaISK 2,3.  Ætla má, að þetta jafngildi ríflega 20 % af söluandvirði framleiðslunnar, sem er dágóð framlegð, sem gæti staðið undir auðlindagjaldi, t.d. allt að 5 % af framlegð. 

Hins vegar þurrkast framlegðin með öllu út og myndast tap af rekstrinum, ef afurðaverðið lækkar um 12 %.  Í ljósi þess, að nú er tímabundið yfirverð á markaðinum vegna skorts á laxi, þá er bráðnauðsynlegt fyrir þetta fyrirtæki, og önnur í greininni, að lækka hjá sér einingarkostnað, þ.e. að auka framleiðnina.  Mest munar þá um framleiðsluaukningu, eins og vant er: 

"Kjartan segir fyrirtækið stefna að því að auka framleiðsluna í 12,5 kt/ár á næstu tveimur árum.  Leyfamálin séu þó þröskuldur.  Til þess að hægt sé að byggja upp meiri afkastagetu í seiðaframleiðslu, þurfi stjórnvöld að skýra stöðu leyfamála og útgáfu nýrra leyfa til eldis."

Það er ótímabært og beinlínis skaðlegt að hægja sérstaklega á útgáfu laxeldisleyfa fyrr en þau nema um 60 kt/ár til slátrunar.  Hámarkslífmassi í kvíum er meiri en sláturmassinn.  Það er jafnframt ljóst, að leyfi fyrir 60 kt/ár-100 kt/ár ætti ekki að veita fyrr en á tímabilinu 2020-2025, að öðru óbreyttu, þegar reynsla hefur fengizt við íslenzkar aðstæður af hinni nýju tækni við sjókvíaeldið, sem nú er verið að innleiða, og þegar haldgóð tölfræði er fyrir hendi um umhverfisáhrifin, þ.á.m. strokin úr kvíunum.  

 

 

  

 

 

 

 

 


Af manna í boði borgar

"Berum ábyrgð á eigin heilsu" er slagorð NLFÍ (Náttúrulækningafélags Íslands), og félagið hefur mikið til síns máls með slíkum boðskapi, en hvernig á almenningur að bera ábyrgð á eigin heilsu í höfuðborginni, þegar þvílík endemis leyndarhyggja yfirvalda þar hvílir á óþægilegum mengunarmálum, að almenningur stendur í raun berskjaldaður ?

Í forystugrein Þorbjarnar Þórðarsonar í Fréttablaðinu 11. júlí 2017, "Þagað um mengun", kemur kemur í upphafi fram, að "skólp hafði runnið út í sjó við Faxaskjól í Reykjavík í 3 vikur, þegar almenningur fékk fyrst upplýsingar um bilun í dælustöð og mengun, sem henni fylgdi."

Miðað við uppgefið rennsli 750 l/s þá hefur óhreinsað skolp út í sjó numið 65 kt/sólarhring (k=þúsund) eða 1,4 Mt (M=milljón) tonnum á umræddum 3 vikum.  Hér er um fáheyrðan atburð að ræða, sem hefur 2 hliðar.  Annars vegar hvílir skýlaus lagaleg tilkynningarskylda á stjórnvöldum (stjórnvaldið er hér Reykjavíkurborg-Veitur og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur), þegar hvers konar mengunarslys verða, og hins vegar sýnir hinn langi viðgerðartími fram á, að nauðsynlegar viðbragðsáætlanir Veitna, dótturfyrirtækis OR-Orkuveitu Reykjavíkur, eru annaðhvort ekki til, verklagsreglur vantar, þær eru meingallaðar eða þjálfun og þekkingu starfsfólks er mjög ábótavant.  Þetta er nauðsynlegt að rannsaka, en er núverandi meirihluta borgarstjórnar treystandi til þess ?  Samkvæmt viðbrögðum helztu talsmanna hans eru forkólfar meirihlutans gjörsamlega úti að aka um mikilvæg atriði í borgarrekstrinum og ekki þykir taka því að upplýsa þá um stórbilanir í innviðum borgarinnar.  Þar leiðir blindur haltan. 

Skoðum fyrst tilkynningarskylduna.  Held áfram að vitna í ÞÞ:

"Ákvæði um skyldu stjórnvalda til að veita upplýsingar um mengun að eigin frumkvæði kom inn í lög um upplýsingarétt um umhverfismál árið 2012.  Þar segir, að stjórnvöldum sé "ævinlega skylt að hafa frumkvæði að upplýsingagjöf, sé ástæða til að ætla, að frávik vegna mengandi efna í umhverfi geti haft í för með sér hættu eða skaðleg áhrif á umhverfi eða heilsu fólks eða dýra."  Þegar Reykjavíkurborg er annars vegar, hvílir upplýsingaskyldan samkvæmt lögunum á borginni sjálfri, stofnunum borgarinnar og fyrirtækjum í hennar eigu."

Það er skýlaust, að Veitur brutu þessi lög með því að tilkynna ekki almenningi strax um, að fyrirtækið hefði ekki lengur stjórn á mengunarvörnum, sem skolphreinsistöðinni við Faxaskjól væri ætlað að sinna, af því að ekki tækist að loka neyðarlúgu fyrir skolp út í sjó.  Veitur hafa ekki gert tilraun til að útskýra þessa bilun eða langa viðgerðartíma.  Hvernig er fyrirbyggjandi viðhaldi háttað ?  Er varahlutahald fyrir lykilþætti starfseminnar í skötulíki.  Á meðan ekkert er upplýst, er tilhneiging til að halda, að sannleikurinn þoli ekki dagsljósið.

Áfram með ÞÞ:

"Greint hefur verið frá því, að stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hafi fengið minnisblað um bilun í dælustöðinni í Faxaskjóli hinn 15. júní og hún hafi verið rædd á stjórnarfundi hinn 19. júní síðastliðinn.  Þegar RÚV sagði frá saurmengun í sjónum við Faxaskjól hinn 5. júlí, hafði skólp runnið út í sjó í 21 dag í 3,5 km fjarlægð frá Nauthólsvík, vinsælum baðstað Reykvíkinga, án þess að borgarbúar væru látnir vita."

Að framkvæmdastjóri Veitna skyldi sjá ástæðu til að senda stjórn móðurfyrirtækisins, e.t.v. með milligöngu forstjóra OR, minnisblað um bilunina nánast strax og hennar varð vart, sýnir, að hjá Veitum (og OR) hafa menn þegar í upphafi litið bilunina á umræddri neyðarlúgu alvarlegum augum.  Það hlýtur að hafa verið vegna þess, að framkvæmdastjóri Veitna, Inga Dóra Hrólfsdóttir, og/eða forstjóri OR, Bjarni Bjarnason, hafa gert sér grein fyrir afleiðingunum, þ.e. styrk saurgerla langt yfir leyfilegum mörkum fyrir fólk og fénað í fjöru eða að synda úti fyrir. 

Þá brennur sú spurning á, hvers vegna var ekki strax uppfyllt tilkynningarskyldan um mengunarslys til almennings ?  Úr því að henni hafði ekki verið fullnægt, þegar stjórnarfundur OR fór fram þann 19. júní 2017, þar sem minnisblað Veitna um mengunarslysið var til umræðu, hvers vegna í ósköpunum tók þá þessi stjórn ekki af skarið og samþykkti opinbera tilkynningu, sem gefa skyldi út samdægurs almenningi til viðvörunar, enda heilsuvá á ferðinni.  Hvað skyldi mikil ógn þurfa að steðja að almenningi, til að þessi sama stjórn telji ástæðu til að upplýsa um hana ?  Þessi stjórn er lögbrjótur, og ætti að lýsa vantrausti á hana strax.  Í henni sitja samkvæmt vefsetri OR 12.07.2017:

Brynhildur Davíðsdóttir, formaður, Gylfi Magnússon, varaformaður, Sigríður Rut Júlíusdóttir, Kjartan Magnússon, Áslaug Friðriksdóttir, Rakel Óskarsdóttir

Þessi stjórn er nú með allt á hælunum, er orðin ber að of takmarkaðri og þröngri þekkingu á veiturekstri og gefur skít í lýðheilsu.  Er þjónusta slíks fólks í opinberu fyrirtæki einhvers virði fyrir almannahag ?  Hvar er virðisaukinn af störfum þessa fólks á téðum vettvangi ? 

Enn skal halda áfram að vitna til forystugreinar ÞÞ:

"S. Björn Blöndal, formaður Borgarráðs, hefur vísað til þess, að það sé Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að meta, hvort mengun sé skaðleg, þannig að skylt sé að tilkynna um hana að eigin frumkvæði.  Veitur o.h.f. greina frá því á heimasíðu sinni, að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi farið og kannað magn saurgerla í fjörunni við dælustöðina í Faxaskjóli hinn 6. júlí og frumniðurstöður mælinga hafi legið fyrir daginn eftir.  Hvernig gat Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vitað, að magn saurgerla í sjó væri ekki skaðlegt almenningi [þ.e. væri undir 100 talsins/ml - innsk. BJo], þegar engar mælingar höfðu farið fram í sjónum við dælustöðina ?  Töldu embættismenn borgarinnar og starfsmenn Veitna, að það væri bara bezt að sleppa því að segja frá biluninni, sleppa því að óska eftir saurgerlamælingum og vona það bezta ?"

Hér eru gríðarlegar ávirðingar á hendur stjórnmálamönnum og embættismönnum borgarinnar á ferð.  S. Björn er, eins og vanalega, algerlega úti á túni, alla vega ekki niðri í fjöru, þegar hann fríar sjálfan sig og embættismennina utan Heilbrigðiseftirlitsins ábyrgð á tilkynningarskyldunni.  Það er svo kapítuli út af fyrir sig, hvers vegna Kjartan Magnússon, stjórnarmaður í OR, vissi ekkert um atburðinn fyrr en sagt var frá honum í seinni kvöldfréttatíma Sjónvarps RÚV 5. júlí 2017.

Talsmaður Veitna segir, að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi fengið tilkynningu strax um atburðinn.  Það er þess vegna óskiljanlegt, hvers vegna sú stofnun hélt ekki uppi daglegum mælingum við ströndina sitt hvorum megin við úthlaupið alla þá  daga, 21 talsins, sem lúgan var samfellt opin, og upplýsti um öll mæligildi á vefsetri sínu.  Þessi stofnun borgarinnar virðist hafa verið stungin líkþorni við þennan atburð og gjörsamlega gleymt skyldum sínum.  

Það guðdómlega við alla þessa óhæfni er, að engin teikn eru enn á lofti um, að hún muni hafa neinar afleiðingar fyrir stöðu nokkurs manns.  Það er eins og engar kröfur séu gerðar til neins í þessu skelfilega borgarapparati.  Þannig er eftirfarandi haft eftir Ingu Dóru Hrólfsdóttur, framkvæmdastjóra Veitna í Morgunblaðinu, bls. 2, þegar hún er spurð, hvort hún telji, að draga þurfi einhvern til ábyrgðar vegna málsins:

"Veitur hafa sinnt upplýsingaskyldu sinni, sem felst í því að upplýsa Heilbrigðiseftirlitið um opnun neyðarlúgunnar.  Heilbrigðiseftirlitið hefur brugðizt við með því að taka sýni samkvæmt lögum og reglugerðum.  Í framhaldi af þessu máli munum við endurskoða verkferla hjá okkur varðandi upplýsingagjöf til almennings í þeim tilgangi að bæta hana."

Það er alrangt, að Veitur hafi sinnt upplýsingaskyldu sinni, því að samkvæmt lögum ber Veitum að tilkynna almenningi tafa- og vafningalaust um öll mengunarslys, sem hljótast af starfsemi þeirra.  Heilbrigðiseftirlitið brást algerlega líka.  Að draga fram ónothæfa verkferla, sem hún, framkvæmdastjórinn, ber sjálf ábyrgð á, sem sökudólga í málinu, er aumlegt yfirklór.  Viðbrögð þessa framkvæmdastjóra Veitna í öllu þessu ferli sýna, að lýðheilsusjónarmið lúta í lægra haldi fyrir einhverjum öðrum hagsmunum, þegar á reynir.  

Þann 11. júlí 2017 birti ritstjórn Morgunblaðsins forystugrein, sem bar heitið:"Brugðust borgarbúum":

Hún hófst þannig:

"Formaður borgarráðs Reykjavíkur tjáði sig seint og illa um viðbjóðinn, sem bíað hafði út strandlengjur höfuðborgarinnar vikum saman, án þess að fólkið, borgarbúarnir, væri látið vita og gæti gætt sín og barna sinna.  Fjöldi starfsmanna borgarinnar á veitusviði og heilbrigðissviði vissi um vandræðin og um ógnina, sem af þeim stafaði."

Það er með ólíkindum, að þetta skuli vera atburðalýsing, sem eigi við höfuðborg Íslands árið 2017.  Sú staðreynd undirstrikar málsháttinn, að því ver gefast heimskra manna ráð sem þeir koma fleiri saman.

Seinna í greininni skrifar ritstjórinn:

"Þeir, sem sendir voru til svara, voru ekki borgaryfirvöldin, sem glenna sig meira en góðu hófu gegnir við öll önnur tækifæri.  Það voru embættismenn, sem enginn kannast við að hafa heyrt eða séð nokkru sinni áður, sem voru látnir taka skömmustulegir við hrópandi spurningum.  Þeir komust ekki vel frá því.  Að mati embættismannanna voru það "verkferlar", sem brugðust vikum saman.  Þessir verkferlar hafa ekki sézt eða heyrzt áður.  En embættismennirnir sögðust búnir að gera upp við sig að skoða þessa verkferla.  Hvaða óráðshjal er þetta eiginlega ?"

Viðbrögð allra stjórnmálamanna og embættismanna Reykjavíkurborgar, sem birzt hafa opinberlega, eru eitt samfellt óráðshjal.  Englendingar mundu segja:"They are covering their ass", sem útleggst, að þeir skýli eigin boru.  Þeir láta hins vegar hagsmuni umbjóðenda sinna lönd og leið, og það er dauðasök fyrir pólitískan og embættislegan feril.

Davíð Oddsson lýkur forystugreininni þannig, að ekki þarf um að binda:

"Hneykslið, sem borgarbúar hafa þurft að horfa upp á og fundið fnykinn af að undanförnu, er til komið vegna þess, að yfirvöldin í borginni þekkja hvorki verkefni sitt né vitjunartíma og myndu ekki valda því, þótt hin einfalda mynd rynni upp fyrir þeim.

Slíka menn þarf að finna í fjöru sem fyrst.  Það er ekki kræsilegt, en hjá því verður ekki komizt." 

 

 

 

 

 

 


Kolröng ályktun og dýr

Það hefur komið fram, að hlutdeild Strætó í umferð fólks á götum höfuðborgarsvæðisins árið 2011 sé talin hafa numið 4,5 % og hafi hækkað upp í 4,8 % árið 2015 á 4 árum.  Árið 2011 var jafnframt í samráði við ríkisstjórnina og með framlögum úr ríkissjóði af vegafé sett markmið um tvöföldun hlutdeildar almenningssamgangna árið 2021 upp í 9,0 %. 

Með sama framhaldi og hingað til verður þessi hlutdeild hins vegar 5,3 % árið 2021, þó að fjárveitingar hins opinbera, sveitarfélaganna og ríkisins, hafi á þessu fjagra ára tímabili aukizt um tæplega miaISK 1,4 eða tæp 60 % og aksturinn aukizt um 42 % í km talið.  Meiri fjárveitingar og aukið framboð þjónustu hrífa ekki á almenning, af því að hann hefur ekki hug á þessum samgöngumáta, ef hann á kost á fjölskyldubíl.

Þessi aukning opinbers kostnaðar til almenningssamgangna er þó hjóm eitt í samanburði við það, sem koma skal með Borgarlínu, eins og leitt verður í ljós í þessari vefgrein.

Ályktunin, sem rökrétt er að draga af þessum staðreyndum, er, að íbúar höfuðborgarsvæðisins verða ekki lokkaðir úr fjölskyldubílnum og í strætó með auknum akstri almenningsvagnanna og forgangsakreinum fyrir þá, sem sums staðar er búið að koma upp og óneitanlega hefur þrengt að annarri umferð. Tilraunin undanfarin ár sýnir þetta svart á hvítu. Það er algerlega öndvert við heilbrigða skynsemi að halda, að stórfelldar fjárfestingar nú í þágu almenningssamgangna og margfaldur rekstrarkostnaður þeirra muni einhverju breyta í þessum efnum.  Það er hins vegar dæmigerður forsjárhyggjuhugsunarháttur, að hið opinbera geti haft stakkaskipti á hegðunarmynztri fólks og minnir mjög á tíðindi af slíku í hinum föllnu Ráðstjórnarríkjum.  Það er þá ekki leiðum að líkjast fyrir ráðstjórnina í Reykjavík, eða hitt þó heldur. 

 Geta verið einhver rök dulin fyrir því að stofna nú til fjárfestinga í áföngum, sem að byrjunargildi nema um miaISK 70, en vegna óvissu geta farið vel á annað hundrað milljarða króna, þegar upp verður staðið ?  Reynum að kryfja málið:

Umhverfismál:

Tvenns konar umhverfisvá stafar af umferð vélknúinna farartækja. 

Í fyrsta lagi er það útblástur gróðurhúsalofttegunda og skaðlegra gastegunda og fastra efna fyrir öndunarfærin.  Þar eru t.d. ýmis brennisteinssambönd, aðallega frá dísilvélum, og sótagnir, sem einnig koma aðallega frá dísilvélum.  Af þessum sökum kunna dísilvélar að verða bannaðar í fólksbílum á næsta áratugi.  Til langs tíma mun þessi tegund mengunar hverfa bæði frá strætisvögnum og fólksbílum, því fyrr þeim mun betra.  Frá strætisvögnum sennilega um 2025 og frá fólksbílum 15 árum seinna.  Útblástursvandamál eru þess vegna ekki rök fyrir öflugri almenningssamgöngum.  

Í öðru lagi er það rykmengun í lofti vegna vegslits.  Árlega deyja 50-100 manns ótímabærum dauða á höfuðborgarsvæðinu vegna loftmengunar, sem að töluverðu leyti kemur frá snertingu dekkja við vegyfirborð, og það er ótrúlegt, hvað borgaryfirvöld og Umhverfisstofnun taka mótvægisaðgerðir gegn rykvánni miklum lausatökum.  Rykbinding er ekki stunduð og sópun er mjög strjál.  Sóðaskapur einkennir stjórnarfarið í borginni. Fínagnir undir 2,5 míkrón eru ekki einu sinni mældar, og engar reglur gilda um leyfilegan hámarksstyrkleika þeirra í andrúmslofti. Bandaríkjamenn hafa þó lengi vitað, að þær eru hættulegastar allra borgarrykagna fyrir lungun.  Slen þetta og doði yfirvalda á öllum sviðum mengunarvarna í borginni er vítavert og í raun brottrekstrarsök úr valdastólunum.

Það er hægt að leggja mat á það, hvort almenningsvagnar eða fólksbílar valda meiri rykmyndun út frá vegsliti.  Strætisvagn, 20 t, veldur 8000 sinnum meira vegsliti per km en fólksbíll, sem vegur 1 t.  Fólksbílarnir á höfuðborgarsvæðinu leggja líklega að baki 133 sinnum lengri vegaleng en strætisvagnarnir á ári (160k x 7,5k = 1200 Mkm/ár og strætisvagnar 9,0 Mkm árið 2015).  Af þessu leiðir, að strætisvagnarnir valda 60 sinnum meiri rykmyndun og kostnaði við viðhald gatna en fólksbílarnir.  Út frá þessari niðurstöðu ætti fremur að létta vagnana og draga úr akstri almenningsvagna en að þyngja þá og auka aksturinn, eins og þó er áformað.  

Fjárhagsmál:

Nú nemur kostnaður á hvern farþega Strætó alls ISK 506 (per ferð).  Ætla má, að helmingur aksturs hvers fólksbíls, 15000 km/ár, sé á höfuðborgarsvæðinu, og að farnar séu 1000 ferðir á ári og í bílnum sé að meðaltali 1,5 maður.  Þá fæst meðalkostnaður ferðar í fólksbíl 233 ISK/mann.  Einingarkostnaður Strætó er þá meira en tvöfalt hærri en fólksbílsins, svo að þjóðhagslega borgar sig ekki að efla almenningssamgöngur, þó að sérstakir áhugamenn um þær haldi öðru fram.  

Niðurstaða þessarar greiningar er sú, að núverandi almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu valdi margfalt meira vegsliti og rykmengun af völdum þess en fólksbílarnir og að almenningssamgöngur séu þjóðhagslega óhagkvæmar, enda er ferðakostnaður á mann meira en tvöfaldur m.v. fjölskyldubílinn.  Hvers konar fordild og botnlaus sérvizka býr eiginlega að baki þessu opinbera dekri við almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu ?

Nú ætla borgaryfirvöld og skipulagspáfar höfuðborgarsvæðisins að halda enn lengra út í ófæruna.  Þessir aðilar ætla að leggja út í a.m.k. miaISK 70 fjárfestingu vegna Borgarlínu, sem ætlað er að ná því markmiði að auka hlutdeild almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu úr núverandi 4,8 % í 12 % árið 2040.  Þetta þýðir, ef áætlanir ná fram að ganga, að þá mun Strætó flytja um 36 M (milljón) farþega (árið 2040).  Ef gert er ráð fyrir, að hlutdeild hins opinbera í kostnaði við flutning hvers farþega verði þá sú sama og árið 2015, þ.e. 351 ISK/fþ (=70 % af heild nú), sem mun þýða mikla hækkun fargjalda þá, þá mun rekstrarlegur kostnaðarauki hins opinbera, sem þá verða væntanlega aðeins sveitarfélögin, sem að Strætó standa (ef ríkið hættir niðurgreiðslum), nema 9 miaISK/ár !  

Þá er eftir að taka með í reikninginn fjármagnskostnað Borgarlínu, en hann mun vægt reiknað (5 %/ár vextir og 30 ára afskriftatími) nema 5 miaISK/ár (afborganir og vextir). 

Heildarkostnaðarauki þessara sveitarfélaga vegna Borgarlínu mun þannig nema 9+5=14 miaISK/ár.  Þetta mun bætast ofan á núverandi kostnað, 3,8 miaISK/ár, hins opinbera af Strætó, og verður heildarkostnaður hins opinbera þá a.m.k. 17,8 miaISK/ár. 

Afleiðing Borgarlínu fyrir fjárhag sveitarfélaganna á höfuðborgarsbæðinu verður grafalvarlegur, því að kostnaður við Strætó tæplega fimmfaldast að raunvirði m.v. 2015, og ávinningurinn er neikvæður í öllu tilliti.  Þetta er með öðrum orðum algerlega glórulaust gæluverkefni. 

Það er full ástæða fyrir fulltrúa á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins, sem boðaður hefur verið í nóvember 2017, að stilla saman strengi á höfuðborgarsvæðinu gegn vinstri sinnuðu þokuráfi, sem leitt er af núverandi meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur.  Það er jafnframt ástæða fyrir fulltrúa utan höfuðborgarsvæðisins að gjalda varhug við þessu, því að Reykjavík er á hausnum og hefur enga fjárhagslega burði í þetta verkefni.  Það mun verða leitað eftir framlögum úr ríkissjóði í þetta óþurftarverkefni og ríkisábyrgðum, sem ber að hafna.  Framlög til Borgarlínu úr ríkissjóði mundu verða tekin frá öðrum verkefnum á Vegaáætlun, sem flest, ef ekki öll, eru bráðnauðsynleg og hafa dregizt úr hömlu.

Það eru fleiri en þessi blekbóndi hér, sem hafa komizt með sínu lagi að þeirri efnislegu niðurstöðu, sem hér hefur verið kynnt.  Má þar fyrst nefna ritstjórn Morgunblaðsins, sem þann 30. júní 2017 sendi frá sér forystugreinina,

"Íbúarnir hafa hafnað stefnunni":

"Það er með miklum ólíkindum að sjá, hvernig þeir, sem ákvarðanir taka um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu, hundsa skýr skilaboð almennings.  Ekki þarf að bíða til 2022 til að sjá, að niðurstaða tilraunar um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu er, að almenningur vill ekki stórauknar almenningssamgöngur  á kostnað fjölskyldubílsins.  Komið hefur í ljós, að þó að þrengt hafi verið að fjölskyldubílnum, en ýtt undir annan ferðamáta, vill langstærstur hluti almennings ferðast um á eigin bílum.  Er ekki sjálfsagt að virða það val og hætta að þrengja að almennri umferð ?"

Sú ákvörðun vinstri ríkisstjórnarinnar 2011 að setja hátt í einn milljarð króna í að efla almenningssamgöngur á og að höfuðborgarsvæðinu gegn því að fjárfesta ekkert í samgöngubótum á stofnæðum höfuðborgarsvæðisins var stórskaðleg fyrir umferðaröryggi þar og heilsufar íbúanna og var þar að auki þjóðhagslega skaðleg, eins og sýnt hefur verið fram á í þessari vefgrein. Téður samningur hefur nú í meðförum borgaryfirvalda framkallað skrímsli, sem kallað er Borgarlína. Þetta samkomulag ríkis og borgar á sinni tíð ber að afturkalla strax og báðir aðilar verða um það sammála, en það verður ekki, nema núverandi meirihluti í Reykjavík verði felldur, helzt kolfelldur.  Líkja má hinum ófrýnilega meirihluta við dreka, og nú er beðið riddarans hugumprúða á hvítum hesti, sem stingur dreka þennan á hol með spjóti sínu, eins og vel þekkt er úr sagnaarfleifðinni.  

Í annan stað má nefna prófessor emeritus við Verkfræðideild HÍ, sem 28. júní 2017 ritaði í Morgunblaðið greinina, 

"Borgarlínurugl í Reykjavík":

"Almenningssamgöngum verður að sjálfsögðu að halda uppi [blekbóndi er sammála], en í stað þess að gera þennan mikilvæga valkost margfalt dýrari í rekstri en nú er [blekbóndi fékk út, að árlegur kostnaður mundi 4,7 faldast], hlýtur að standa borgaryfirvöldum öllu nær að leita hagkvæmari og ódýrari lausna [t.d. með minni, rafknúnum vögnum utan annatíma - innsk. BJo].   Þess má svo geta, að borgarstjóri og skipulagshetjur hans ættu í raun að vera borgarbúum þakklátir fyrir yfirburðastöðu einkabílsins, þar sem það gefur Reykjavíkurborg kost á að veita margfalt einfaldari,  ódýrari og hagkvæmari þjónustu en ella [bílaeign er almennari á Íslandi en í öðrum löndum, um 0,72 fólksbílar á íbúa, og skipulagsyfirvöld komast ekki með góðu móti hjá að taka mið af því.  Fjölskyldubíllinn er auðvitað nýttur árið um kring, einnig til ferðalaga utan höfuðborgarsvæðisins. - innsk. BJo].  

Síðan setur Jónas fram þá skoðun, að hin annarlega Borgarlínuhugmynd sé sótt til Kaupmannahafnar, enda sé ráðgjafinn danskur.  Þetta setur fáránleika hugmyndarinnar í nýtt ljós.  Danskir ráðgjafar eru á launum (hver borgar þau laun ?) við að troða þekktum og gildum dönskum lausnum inn í framandi umhverfi, þar sem engin þörf er fyrir svo stórtæk og dýr úrræði:

"Það er einfalt, afköst vegakerfis [Kaupmannahafnar] eru ekki næg, og þess vegna þarf Kaupmannahöfn og nágrenni lestarkerfi.  Reykjavík og nágrenni þarf ekki lestarkerfi, ofurstrætókerfi eða því um líkt.  Það, sem þarf, er borgarstjórn, sem kann eitthvað fyrir sér í borgarskipulagningu, borgarrekstri og umhverfismálum borga og hættir að safna skuldum."

Það er nauðsynlegt, að þetta ljós renni upp fyrir meirihluta Reykvíkinga eigi síðar en á vori komanda.  Vinstri flokkarnir og Píratar bjóða aðeins upp á glópa í fjármálum og rata í skipulags- og rekstrarmálum, eins og dæmin sanna.  Þetta lið er sneytt dómgreind og heilbrigðri skynsemi, og þess vegna verða þau auðveld bráð stórra hugmynda, sem ekkert erindi eiga inn í íslenzkt umhverfi:  

"Afleiðingar þessa, verði þessi umhverfisdraumur að veruleika, eru ekki uppörvandi.  Svo að strætó fái meira pláss til að aka næstum galtómur um, stendur til að þrengja götur enn frekar og hægja þar með enn meira á umferðinni.  Verri og lengri umferðarstíflur ættu jafnframt að "hvetja" fólk til að taka frekar strætó, svo að þarna telur borgarstjórn sig líklega slá tvær flugur í einu höggi.  Gallinn er bara sá, að Reykjavík er ekki nægilega stór og fjölmenn borg, til þess að slíkar aðgerðir fái einar og sér hrakið fólk út úr einkabílnum og upp í strætó.  

Vissulega mun þetta tefja og lengja enn frekar biðraðirnar, líklega um 20 mínútur eða svo [sem jafngildir meira en tvöföldun á algengasta núverandi biðtíma í ös - innsk. BJo], sem mun þá auka mengunina af kyrrstæðum bílum sem því nemur."

Sýnt hefur verið fram á það í þessari vefgrein, að sú ráðstöfun borgaryfirvalda og annarra að auka umferð stórra og þungra strætisvagna verulega síðan 2011, hefur aukið mengun á höfuðborgarsvæðinu, aðallega í Reykjavík, gríðarlega og þannig valdið fjölda manns aukinni vanlíðan og fjölgað ótímabærum dauðsföllum um nokkra tugi á ári.  Nú á sem sagt með Borgarlínu að höggva í sama knérunn með dæmalausu falsi og blekkingum, því að það er gert í nafni umhverfisverndar.  Það er ekki öll vitleysan eins.

 

 

 

 


Loksins heyrðist hljóð úr horni

Útgjöld ríkissjóðs til heilbrigðismála á árinu 2016 námu miaISK 171,2 og jukust um miaISK 38,2 frá árinu 2012 eða tæplega 29 % á 4 árum.  Þetta var meiri aukning í fjármunum talið en til nokkurs annars málaflokks á snærum ríkissjóðs, þar sem  meðalaukningin nam rúmlega 19 % á þessu tímabili, þegar fjármagns -og lífeyrisskuldbindingar og niðurgreiðslur húsnæðisskulda einstaklinga eru frátaldar. Samt þykir sumum ekki nóg að gert, en þá er lausnin ekki að hella enn meira fé í málaflokkinn, heldur að freista þess að draga úr aðsókn með forvarnaraðgerðum og að fá meira fyrir minna.

Hér er einvörðungu um rekstrarkostnað að ræða, en ríkissjóður fjármagnar einnig stofnkostnað sjúkrahúsa, heilsugæzlu, hjúkrunar- og endurhæfingarstofnanir.  Þannig er nú í vændum gjörbylting á aðstöðu sjúklinga og starfsfólks LSH, þegar flutt verður í nýtt a.m.k. miaISK 70 húsnæði við Hringbraut í Reykjavíkeigi síðar en árið 2022, og má ekki seinna vera.  

Það verður að taka á kostnaðarmynztri heilbrigðisgeirans, ef hann á ekki að vaxa ríkissjóði yfir höfuð, draga úr getu hans til framkvæmda og rekstrar á öðrum mikilvægum sviðum og sliga efnahag þjóðarinnar, svo að hagvöxtur eigi sér ekki viðreisnar von.  Þetta er brýnt, því að lífeyrisþegum, bótaþegum hvers konar og sjúklingum fjölgar hraðar en vinnandi fólki, og hraði þeirrar öfugþróunar mun fara vaxandi á næstu árum.

Hér verður aðeins stiklað á stóru, en þrjár ástæður þessarar óheillaþróunar, sem snúa verður ofan af, má nefna:

Öldruðum, 67 ára og eldri, fjölgar meira en tvöfalt hraðar en þjóðinni í heild.  Hvert hjúkrunarrými kostar að jafnaði 10 MISK/ár, en kostnaður við heimahjúkrun og félagslega aðstoð heima við nemur aðeins 1/10 af þessu.  Það borgar sig vel að setja aukið fé í heimahjúkrun til að gera fleiri gamalmennum kleift að dvelja lengur heima hjá sér, eins og flest þeirra kjósa.  Það sparar líka stórfé að byggja fleiri dvalar- og hjúkrunarheimili, svo að þau tæplega hundrað gamalmenni, sem nú eru vistuð með of dýrum hætti á LSH að lokinni læknismeðferð, en teppa sjúkrarúm fyrir þurfandi fólk á biðlistum, geti flutt í hentugt og ódýrara húsnæði.  Byggingarsjóður aldraðra er misnotaður, því að 70 % ráðstöfunarfjár hans er nú varið til rekstrar og viðhalds, en allt ráðstöfunarfé hans á og þarf að fara í nýbyggingar.  

Heilsufar þjóðarinnar er verra en eðlilegt getur talizt, eins og veikindafjarverur úr vinnu gefa til kynna.  Of margir missa heilsuna of fljótt vegna óhollustusamlegs lífernis, rangs mataræðis, ofáts, ofdrykkju og hreyfingarleysis.  Þetta blasir víða við, t.d. á endurhæfingarstöðum á borð við Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Ísland, HNLFÍ, í Hveragerði, en sú starfsemi er til stakrar fyrirmyndar og hefur verið frá stofnun, 1955.  Þar fá vistmenn innsýn í, hvað hollt mataræði og hollir lifnaðarhættir fela í sér, en því miður er það of seint fyrir marga til að njóta til fullnustu.  Það borgar sig að efla lýðheilsu og forvarnir á meðal æskunnar, og það er margt óþarfara kennt í grunnskóla en undirstöðuþættir hollra lífshátta.  Þar þarf að hamra á því, að líkaminn er ekki vél, sem hægt er að misbjóða endalaust með ruslfæði, sætindum og vímuefnum, og fara svo með hann á verkstæði til sérfræðinga til viðgerðar, þegar þrekið er farið og ónæmiskerfið veiklað.  Þannig gerast einfaldlega ekki kaupin á eyrinni með lífverur. Vítiskvalir og mikið böl bíður þeirra, sem éta sig í hel og hreyfa sig sáralítið.  Það ætti ekki að vera nauðsynlegt að skattleggja þá sérstaklega í ofanálag, en það gera þó sumar ríkisstjórnir í fælingarskyni, einnig hér í Evrópu.

Þróun nýrra lyfja verður sífellt dýrari, og lyfjaiðnaðurinn er orðinn gríðarlega umfangsmikill og aðsópsmikill í þjóðfélaginu.  Markaðssetning lyfja er að sama skapi markviss og öflug, og margir foreldrar gera þá reginskyssu að hrúga lyfjum í börnin, þegar nauðsynlegt er að efla og þjálfa ónæmiskerfi þeirra með því að ráða niðurlögum sjúkdóma.  Inntaka ofnæmislyfja er í mörgum tilvikum óþörf og getur stórskaðað lifrina í börnum, sé hún óhófleg.

Lyfin eru ekki bara blessun, heldur jafnframt bölvun, því að þau hafa flest einhver neikvæð áhrif á líkamann, sum grafalvarleg, en önnur trufla starfsemi hans, þótt þau bæti meinið, og sum þeirra eru ávanabindandi. Lyfjanotkun getur hæglega orðið vítahringur, og um það eru dæmi, að gamlingjar séu komnir með lyfjapakka upp á ein 10 lyf, þar sem eitt á að vinna gegn aukaverkunum annars.  Fyrsta lyfið veldur þannig vítahring, og þess vegna þurfa að vera mjög ríkar ástæður fyrir lyfjagjöf.  Það er hægt að missa heilsuna með minni misnotkun á líkama og sál en þessu. 

Sjúklingar eru reyndar sumir aðgangsharðir við lækna til að fá lyfjaávísun, þótt vafi leiki á um þörfina og gagnsemina, enda eru sum lyf ávanabindandi.  Útgjöld ríkissjóðs til málaflokksins "Lyf og lækningavörur" námu miaISK 20,1 árið 2016.  Loksins er verið að taka í notkun sameiginlegan gagnagrunn fyrir landið allt, þar sem Landlæknir o.fl. geta fylgzt með lyfjaávísunum einstakra lækna, og þeir geta skoðað ávísanasögu sjúklinga áður en þeir gefa út lyfseðil.  Þetta mun auka aðhaldið.  Ef lyfjanotkun á mann á Íslandi minnkar niður í meðaltal hinna Norðurlandanna, munu sparast milljarðar ISK, án þess að heilsufarið versni, nema síður sé.  

Sjúkrahúsaþjónusta kostaði ríkissjóð miaISK 70,4 árið 2016 og hafði hækkað um miaISK 15,0 frá árinu 2012 á verðlagi 2016.  Bróðurparturinn fer til rekstrar LSH (Landsspítala háskólasjúkrahúss), og þar er þess vegna mikilvægt að bæta stöðugt nýtingu fjármagnsins.  LSH er á föstu fjárframlagi úr ríkissjóði, en eðlilegra væri, að hann fengi greiðslur fyrir aðgerðir á hverjum sjúklingi, háð eðli umönnunar og veikindum. Slík einingarverð eru þekkt.  Upptaka slíkrar fjármögnunar gerir verkkaupa auðveldara um vik að velja á milli birgja, þjónustuveitendanna, þar sem samkeppni kann að vera fyrir hendi, og hægt er auka kostnaðarvitund veitenda og þiggjenda með þessu móti. 

Það mun koma að því, að umræða um fyrirkomulag líknardauða verður meiri hérlendis og annars staðar á Vesturlöndum en verið hefur.  Læknavísindin geta í mörgum tilvikum hjálpað sjúklingum við að draga fram lífið, en þegar vitund sjúklings er horfin eða lífið þrautir einar, á líknardauði að vera möguleiki. 

Þann 26. júní 2017 skrifuðu 6 læknaprófessorar góða grein í Morgunblaðið um stjórnarhætti og stjórnkerfi LSH.  Þau vilja bæta stjórnun spítalans með því að setja yfir forstjórann lýðræðislega valda stjórn.  Þar með megi vænta betri starfsanda og aukins sjálfstæðis LSH gagnvart velferðarráðuneytinu.  Það er hægt að taka undir málflutning læknanna 6, Björns Rúnars Lúðvíkssonar, Guðmundar Þorgeirssonar, Helgu Ágústu Sigurjónsdóttur, Pálma V. Jónssonar, Sigurðar Guðmundssonar og Steins Jónssonar, í greininni:

"Styrkjum stjórn Landspítala":

"Árangur íslenzkrar heilbrigðisþjónustu hefur verið góður á alþjóðlegan mælikvarða, eins og nýlega kom fram í brezka læknatímaritinu Lancet.  Ísland býr að vel menntuðu starfsfólki, sem hefur sótt menntun til fremstu háskólasjúkrahúsa á Vesturlöndum.  

Líklegt er, að sameining sérgreina lækninga með stækkun sérdeilda og auknum möguleikum til sérhæfingar eigi þátt í þessum árangri.  Sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík hefur þannig skilað faglegum árangri.  

Lykillinn að enn betri árangri er sameining starfsemi Landspítala í einu húsi, þar sem sérgreinar geta unnið saman með viðunandi hætti og við eðlileg húsnæðisskilyrði."

Hér er mikilsverður vitnisburður á ferðinni um gæði hérlendrar sjúkrahúsþjónustu í samanburði við önnur lönd.  Er mat prófessoranna vissulega ánægjuefni í ljósi úrtöluradda um íslenzka heilbrigðiskerfið og eilífra kvartana um fjárskort, þótt málaflokkurinn hafi verið að undanförnu og sé í forgangi hjá fjárveitingarvaldinu.  Fjölmörg tækifæri opnast starfsfólki LSH með gríðarlegum fjárfestingum í nýju húsnæði og tækjabúnaði til betri og skilvirkari þjónustu, en það eru einnig tækifæri fólgin í bættu stjórnkerfi LSH, sem prófessorunum er hugleikið í tilvitnaðri grein:

"Sterk stjórn talar máli sjúkrahússins út á við, en beinir einnig áhrifum sínum inn á við og stuðlar að því, að allir lykilþættir starfseminnar njóti sín; þjónusta, menntun og vísindi.

Eftir sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík árið 2000 varð grundvallarbreyting á þessari skipan, en þá færðist öll stjórnunarábyrgð til framkvæmdastjórnar og forstjóra.  Síðan þá hafa fagstéttirnar á spítalanum í reynd ekki átt neina beina aðkomu að yfirstjórn spítalans, en öll ákvarðanataka og ábyrgð var færð í hendur forstjóra, sem er ráðinn af heilbrigðisráðherra.  Forstjóranum er falið að skipa alla sína næstu stjórnendur í framkvæmdastjórn, sem hefur bæði stefnumótandi, eftirlits-, framkvæmdar- og rekstrarhlutverki að gegna.  Undirrituð hafa ekki vitneskju um, að nokkrum forstjóra eða framkvæmdastjórn sé falið svo margþætt og valdamikið hlutverk á háskólasjúkrahúsum í nágrannalöndum okkar."

Það leynir sér ekki í þessum texta, að þykkja og jafnvel beizkja í garð núverandi yfirstjórnar LSH býr í brjósti höfundanna.  LSH er stærsta stofnun landsins og fjölmennasti vinnustaður.  Þetta stjórnkerfi er einstakt fyrir stór fyrirtæki eða stofnanir og virðist sniðið að þörfum ráðuneytisins um að eiga síðasta orðið um stærstu málin án þess að verða of innblandað í daglegan rekstur.  Þetta er meingallað kerfi, sem ber að afnema með lögum.  Velferðarráðuneytinu ber að leggja frumvarp fyrir Alþingi um nýja tilhögun, þar sem stjórn er sett yfir LSH, sem yfirtaki stefnumótunar-, eftirlits- og framkvæmdahlutverk (fjárfestingarákvarðanir hjá stjórn, en verkefnastjórnun í höndum annarra, sbr nýbyggingar LSH, og allar fjárveitingar auðvitað í höndum Alþingis) núverandi embættis forstjóra og framkvæmdastjórnar hans, en hjá þeim sitji eftir ábyrgð á rekstri og viðhaldi LSH. Það er ærið hlutverk á svo stórri og viðkvæmri stofnun sem LSH. 

Nýja stjórnin ráði forstjórann, sem aftur velur sitt nánasta samstarfsfólk í framkvæmdastjórn og skipar þeim til verka.  Það er áreiðanlega ekki vanþörf á þessari breytingu, enda skrifa téðir læknaprófessorar um þörfina þannig:

"Í umfangsmiklum starfsumhverfiskönnunum hefur komið fram mikil almenn óánægja með stjórnkerfi Landspítalans á meðal allra starfsstétta hans.  Fagfólkið upplifir sig langt frá stjórnendum og jafnvel forstöðumenn fræðigreina hafa litla aðkomu að stefnumótandi ákvarðanatöku.  Því teljum við ljóst, að núverandi stjórnkerfi Landspítala hafi ekki reynzt vel og að brýnna úrbóta sé þörf."

Það er ekki kyn, þó að keraldið leki, þegar svona ambögulegt stjórnkerfi er við lýði. Það þjónar augljóslega ekki sínu hlutverki, og óþarfi að bera brigður á það, sem 6 virtir læknaprófessorar leggja nafn sitt við.  Það er sjálfsagt, að skipa Landsspítalanum stjórn með lýðræðislegum hætti um leið og fjármögnun hans verði reist á einingarkostnaði og fjölda eininga, sem inntar eru af hendi á spítalanum af hverju tagi, í stað fasts árlegs framlags, sem aldrei stenzt, því að ómögulegt er að sjá aðsóknina nákvæmlega fyrir.  

Tengsl spítalans við velferðarráðuneytið þurfa áfram að vera traust, og þess vegna er eðlilegt, að heilbrigðisráðherra skipi formann stjórnar án tilnefningar.

Í anda vinnustaðalýðræðis væri, að starfsmenn kysu 4 í stjórn, 1 úr hópi lækna, 1 úr hópi hjúkrunarfræðinga og 2 úr starfsmannaráði.  Til að tryggja tengsl háskólasjúkrahússins við háskólasamfélagið, þá velji rektor HÍ einn eftir tilnefningu læknadeildar, rektor HR annan með verkfræðimenntun (hátæknisjúkrahús) og rektor HA þann þriðja af lögfræðisviði. Þarna er þá komin 8 manna starfandi stjórn, og sé formaður oddamaður, ef atkvæði falla jöfn. Þessi skipan fellur vel að hugmynd greinarhöfundanna, sem hér er vitnað í:

"Við leggjum til, að æðsta vald innan Landspítala verði í höndum fjölskipaðrar stjórnar með sterkri aðkomu fagstéttanna.  Stjórnin hafi eftirfarandi þrjú hlutverk: 

(a) að ráða forstjóra

(b) að hafa eftirlit með störfum forstjóra og 

(c) að móta heildarstefnu fyrir stofnunina

[Undir heildarstefnu ætti að heyra fjárfestingarstefna LSH, þ.e. forgangsröðun verkefna og tímasetning þeirra í samráði við heilbrigðisráðherra og fjárveitinganefnd Alþingis - innsk. BJo].  Tillaga þessi er í anda góðra stjórnarhátta í rekstri fyrirtækja og stofnana, þar sem áherzla er lögð á aðgreiningu á stefnumótunarvaldi og framkvæmdavaldi."

Samkeppni er holl á öllum sviðum, og er heilbrigðissviðið þar engin undantekning.  LSH er og verður risinn á sviði þjónustu við sjúklinga á Íslandi.  Enginn getur skaðazt við það, að styttir verði langir biðlistar eftir brýnum aðgerðum.  Bið fylgir böl og samfélagslegt tjón.  Þess vegna er alveg sjálfsagt að auka fjölbreytni rekstrarforma sjúkrahúsþjónustu að uppfylltum gæðakröfum Landlæknisembættisins.  Þetta á t.d. við um Klíníkina Ármúla, en Sjúkratryggingar Íslands hafa þó ekki enn fengið leyfi ráðherra til að semja við þær.  Samt hefur verið upplýst, að skattgreiðendur mundu spara 5 % á hverri aðgerð, sem Klíníkinni yrði greitt fyrir m.v. kostnað sömu aðgerðar á LSH og a.m.k. 50 % m.v. kostnað af að senda sjúklinginn í sams konar aðgerð til útlanda, ef hann velur þá leið, sem hann á rétt á eftir 3 mánuði á biðlista.  Kostnaðarlega og siðferðislega er þetta ófremdarástand, sem heilbrigðisráðherra getur leyst úr og ber að bæta úr vafningalaust. 

Í stað einokunaraðstöðu þurfa stjórnendur LSH nú að fara að sætta sig við samkeppnisstöðu, þótt yfirburðir LSH á markaði heilbrigðisþjónustu á Íslandi verði alltaf miklir.  Forstjóri LSH hefur varað við samkeppni af þessu tagi, en hann er auðvitað vanhæfur til að tjá sig um málið, þar sem hann vill ríghalda í einokunarstöðu sinnar stofnunar.  Ef nýtt fyrirkomulag við stjórnun LSH sér dagsins ljós, eins og hér hefur verið lýst, mun það verða í verkahring stjórnarformannsins að tjá afstöðu stjórnar LSH til stefnumarkandi þátta, eins og þessa, og það má vænta þess, að þar muni ríkja viðskiptasinnaðri viðhorf til samkeppni en afstaða núverandi forstjóra LSH og reyndar Landlæknis hafa gefið til kynna að undanförnu.  

 

 

 

 

 

 

 


Forstjóri gripinn glóðvolgur

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að ötulasti boðberi fagnaðarerindisins um gull og græna skóga Íslendingum til handa, ef þeir bara ganga draumsýninni á hönd um að selja hluta af orku landsins beint um sæstreng til Bretlands, hefur jafnan haldið þeirri firru blákalt að landsmönnum, að ekki þyrfti að virkja mikið af nýjum vatnsvirkjunum til að fullnægja hugsanlegum orkusölusamningi við Breta.  Slíkur samningur fyrir 1000 MW sæstreng gæti þó numið 8,0 TWh/ár, sem er um 40 % aukning á núverandi raforkuvinnslugetu landsins.  

Téður boðberi, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, hefur haldið því blákalt fram, að sæstrengsviðskiptin mundu gera kleift að auka nýtingu íslenzka vatnsorkukerfisins umtalsvert.  Hvernig honum gat dottið það í hug án þess að auka miðlunargetuna, þ.e. að stækka núverandi miðlunarlón og/eða taka ný í notkun, hefur alltaf verið þeim blekbónda, er þetta ritar, hulin ráðgáta, og það hefur margoft komið fram á þessu vefsetri.  Nú hefur galdrakarlinn verið afhjúpaður opinberlega.  Það gerði rækilega Skúli Jóhannsson, verkfræðingur, í ágætri grein í Morgunblaðinu 20. júní 2017,

"Aflaukning í vatnsaflsvirkjunum". 

Lítum fyrst á firrur forstjórans.  Þær komu t.d. fram í viðtali við hann í Fréttablaðinu, 14. júlí 2016, 

"Þarf ekki stórvirkjun fyrir sæstrenginn":

"Orkuþörf sæstrengs frá Íslandi til Bretlands verður að miklu leyti uppfyllt með bættri nýtingu á núverandi kerfum.  [Þessi fullyrðing forstjórans er ótrúlega bíræfin, og hann hefur aldrei borið það við að rökstyðja hana, enda er hún bull, eins og Skúli Jóhannsson, verkfræðingur, sýndi fram á í tilvitnaðri grein sinni - innsk. BJo.]  

Gert er ráð fyrir, að einungis komi 250 MW úr hefðbundnum virkjanakostum [væntanlega vatnsafls- og jarðgufuvirkjanir - innsk. BJo], ígildi innan við helmings Kárahnjúkavirkjunar."

Aflinu, 250 MW, má umbreyta í líklega orkuvinnslugetu á ári með því að reikna með nýtingartíma toppsins 90 % [=hlutfall meðalafls og toppafls].  Þá fæst, að 250 MW hefðbundnar virkjanir geta framleitt 2,0 TWh/ár eða fjórðung þess, sem sæstrengsorkusamningur væntanlega krefst af forgangsorku.  

"Hörður segir, að orkuþörfin fyrir sæstreng komi að mjög miklu leyti út úr nýjum smærri kostum, eins og litlum vatnsaflsvirkjunum, vindorku og lághita jarðhita, sem ekki er verið að nýta í dag.  "Þetta er ekki fyrst og fremst stór virkjanaframkvæmd.""

Þetta er alveg stórfurðulegur málflutningur, enda órökstuddur og þess vegna óboðlegur.  Niðurstaða Skúla, sem rakin verður hér á eftir, er, að svo kölluð bætt nýting á núverandi vatnsorkuverum muni þýða innan við 0,1 TWh/ár (< 100 GWh/ár) í viðbótar orkuvinnslugetu landskerfisins, og í núverandi jarðgufuver er ekkert að sækja; þvert á móti þyrfti að létta á þeim sumum, t.d. hinni stærstu, Hellisheiðarvirkjun, til að stöðva hraðan niðurdrátt í jarðgufugeyminum og ná nokkurn veginn sjálfbærum rekstri.  

Samtíningur smávirkjana, þ.m.t. vindrafstöðva, þarf þá að gefa orkuna E=8,0-2,0-0,1=5,9 TWh/ár.  Er manninum ekki sjálfrátt ?

Til að vinna þessa orku úr vindi í slitróttum rekstri á Íslandi þarf eigi færri en 350 stk 5,0 MW vindmyllur, og slíkur vindmyllureitur mundi þekja um 10 km2.  Hvar á að finna þeim vindmyllum stað ?  Fyrirhugaður vindmyllulundur á Hafinu ofan Búrfells var Skipulagsstofnun ekki þóknanlegur, þegar hann og umhverfisáhrif hans voru kynnt, og var hann þó aðeins fjórðungur af þessum ósköpum.  Setjum svo, að ákveðið verði að þriðjungur af 5,9 TWh/ár verði látinn koma frá vindmyllum, eða 2,0 TWh/ár.  Þar sem vindmyllur geta ekki látið í té forgangsorku af veðurfarslegum ástæðum, verður að setja upp varaafl fyrir þær, 250 MW.  Virkjanir af hefðbundna taginu verða þá að vera að uppsettu afli 750 MW.  

Forstjórinn ætlar reyndar ekki að láta vindmyllur fylla alfarið upp í skarðið, heldur verða þær þá eitthvað færri, en í staðinn koma smávirkjanir. Þær þurfa þá ekki aðeins að framleiða upp í samning, þegar vindar blása og gefa fullt afl, heldur einnig, þegar lygnt er, og fylla þá í skarð vindmyllnanna. Varla hefur téðum forstjóra þó komið til hugar að leita eftir virkjunarleyfi í bæjarlæknum hjá bændum landsins, en hann hefur e.t.v. í huga virkjanir 50-100 MW að stærð.  Sá er hængurinn á, að þar er um rennslisvirkjanir að ræða, nema hann ætli í meiri háttar rask með gerð fjölda miðlunarlóna, eitt fyrir hverja litla virkjun. 

Það er meiriháttar annmarki á bæði rennslisvirkjunum og vindmyllum.  Á hvorugri virkjanagerðinni er unnt að grundvalla samning um sölu á forgangsorku vegna slitrótts rekstrar, og það hefur komið fram, að öðru hafa Englendingar ekki hug á frá Íslandsstreng, enda dettur engum vitibornum manni í hug að leggja 1300 km sæstreng án þess að ætla að nýta hann til fullnustu.  Bilanir setja svo strik í reikninginn, eins og dæmin sanna.

Það rekur sig hvað á annars horn í málflutningi forstjóra Landsvirkjunar um sæstreng til Skotlands, og orkuöflunarhugmyndir hans fyrir strenginn ganga engan veginn upp.  Það er ekki nóg fyrir hann að segja, að talsmenn stóriðju hafi rétt á að setja fram gagnrýni sína.  Það er tímabært, að hann setji fram haldbæra röksemdafærslu, tæknilega, umhverfislega og viðskiptalega. Að íslenzk raforkufyrirtæki leggi í risafjárfestingar fyrir sölu um sæstreng, sem getur ekki borið sig án mikilla niðurgreiðslna úr brezka ríkissjóðnum, er algerlega fjarstæðukennd hugdetta.

Þá að grein Skúla Jóhannssonar, verkfræðings.  Hann hefur greinina þannig:

"Komið hafa fram upplýsingar um, að með aflaukningu í núverandi vatnsaflsvirkjunum væri hægt að auka orkugetu landskerfisins um samtals 840-960 GWh/ár.  Óhætt er að fullyrða, að stækkun Búrfellsvirkjunar er ekki hluti af þessu mati."

Hér á hann sennilega við ósundurliðaðar upplýsingar frá Landsvirkjun um 900 GWh/ár +/- 60 GWh/ár = 0,9 TWh/ár.  Þetta á sennilega að vera eitt af því, sem fyllir upp í 6,0 TWh/ár skarð í orkusölusamningi inn á sæstreng, en er það raunhæft ?: 

"230 MW uppsett afl í Kárahnjúkavirkjun II [til að  hindra yfirfall á Kárahnjúkastíflu í fossinn Hverfanda ofan í árfarveg Jöklu, Kárahnjúkavirkjun I er 690 MW - innsk. BJo] mundi auka orkugetu kerfisins um 50 GWh/ár.  Aukning á afli Kárahnjúkavirkjunar um 33 % eykur því orkugetu virkjunarinnar aðeins um 1 %. Nýtingartími uppsetts afls í stækkuninni verður aðeins 220 klst/ár og nýting á aflinu því aðeins um 2,5 %.  Hin lága nýting mundi örugglega leiða til þess, að stækkunin væri langt frá því að vera hagkvæm.  Ekki eru tök á að fara nánar út í þá sálma hér, enda þyrfti að hanna útfærslu á hinni nýju virkjun og reikna stofnkostnað."

Að óreyndu gætu menn haldið, að mestu mundi muna um aflaukningu Kárahnjúkavirkjunar, og það er sennilega rétt, en bæði er, að um hana munar sáralítið, og hún er svo dýr, að kostnaður við hverja unna orkueiningu verður svo hár, að valkosturinn er ósamkeppnishæfur.  Ekki verður því að óreyndu trúað, að sérfræðingar Landsvirkjunar og ráðgjafar hennar hafi ekki fyrir löngu gert sér grein fyrir þessu.  Samt hamrar forstjóri fyrirtækisins á því sem viðskiptaávinningi sæstrengsins, að hann geri kleift að bæta nýtingu þeirra orkulinda, sem þegar eru virkjaðar í landinu.  Þessa meinloku virðist hann hafa borið með sér inn í Landsvirkjun, nýgræðingur á orkusviði, og sennilega reynt að selja stjórn fyrirtækisins sæstrengshugmyndina út á þessa vitleysu.  Það er löngu kominn tími til, að stjórn fyrirtækisins ásamt ráðherrum ríkisstjórnarinnar, iðnaðar-, ferðamála- og nýsköpunar og fjármála- og efnahagsráðherra, sem fer með hlut ríkisins í fyrirtækinu, kveði skýrt upp úr um afstöðu sína til þessa máls.  Málið hefur allt of lengi valdið óþarfa misklíð í þjóðfélaginu og óvissu um, hvert yfirvöld stefna með íslenzkar orkulindir.

"Hugmyndir um Kárahnjúkavirkjun II geta enn þá varla talizt meira en létt hjal.  Niðurstöðurnar hér að framan benda eindregið til þess, að borin von sé að koma þarna upp hagkvæmum virkjunarkosti.

Aukning á uppsettu afli í öðrum vatnsaflsvirkjunum skilar sáralítilli aukningu í orkugetu fyrir hina hefðbundnu markaði, sem eru í gangi allt árið. Hér er átt við Sogsvirkjanir, Sultartangavirkjun, Búðarhálsvirkjun, Hrauneyjafossvirkjun, Sigölduvirkjun, Vatnsfellsvirkjun og Blönduvirkjun.

Sæmileg stækkun á afli hverrar virkjunar fyrir sig mun leiða til aukningar í orkugetu kerfisins á bilinu 0-10 GWh/ár, í flestum tilvikum nær núllinu.  Það vantar vatn til að knýja viðbótaraflið, þegar þess er þörf.  

Eins og vikið hefur verið að í greininni, er fjarstæða að halda því fram, að hægt sé að fá aukningu í orkugetu upp á 840-960 GWh/ár með aflaukningu í núverandi vatnsaflsvirkjunum.

Engu að síður hefur þessi orka verið í boði bæði fyrir orkuskipti á bílaflota og í fiskimjölsverksmiðjum og fyrir sæstreng til Bretlands.

Er ekki þarna verið tvíbjóða einhverja orku, sem því miður er bara ekki til ?"

Það er með ólíkindum, að þessi umræða skuli vera uppi.  Það er vel rökstutt, að talsmaður Landsvirkjunar fer með fleipur eitt og hefur með óvönduðum málatilbúnaði tekizt að rugla umræðuna um hinn mikilvæga málaflokk, orkumál.  Það er brýnt, að stjórnvöld rétti kúrsinn af, komist út úr þoku sæstrengsumræðunnar og móti landinu orkustefnu til langs tíma, sem setji orkuskipti á oddinn og innlenda notendur, fjölskyldur og fyrirtæki hérlendis, í forgang.  Það hefur verið sýnt fram á, t.d. á þessu vefsetri, að vegna verndunarsjónarmiða og umhverfisverndar verða orkulindirnar ekki til skiptanna á milli innanlandsnotkunar og orkuútflutnings um sæstreng, nema til Færeyja, ef Færeyingar telja sér hag í að kaupa raforku á því verði héðan, sem spannar kostnað allra mannvirkjanna að sæstreng meðtöldum.  Það er hins vegar líklegt, að hagkvæmara verði fyrir þá að setja upp lítil þóríum-kjarnorkuver á eyjunum á næsta áratugi.  

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband