Sósíalismi er ekki svarið

Landsmenn standa frammi fyrir langtíma hagvaxtarrýrnun af völdum óhagstæðrar þróunar aldurssamsetningar þjóðarinnar.  Að öðru óbreyttu mun þetta leiða til hægari lífskjarabata þjóðarinnar og að lokum lífskjararýrnunar, ef fer fram sem horfir.

Svo kann að fara af þessum sökum, að landsmenn upplifi aldrei aftur viðlíka hagvöxt og í fyrra, 7,2 %, og að kaupmáttur ráðstöfunartekna vaxi ekki mikið úr þessu. Svona svartsýni styður mannfjöldaspá Hagstofu Íslands.  Á hálfri öld, 2017-2065, mun fjöldi fólks yfir 64 ára aldri 2,4 faldast, hækka úr 50 k í 120 k.  Hið s.k. framfærsluhlutfall, þ.e. fjöldi fólks undir tvítugu og yfir 64 sem hlutfall af fjöldanum 20-64 ára mun á sama tíma hækka úr 51 % í 72 %.  Þetta er mjög íþyngjandi breyting fyrir samfélagið, því að árlegur sjúkrakostnaður fólks yfir 64 ára aldri er að jafnaði ferfaldur á við árlegan sjúkrakostnað yngri borgaranna.

Samkvæmt Sölva Blöndal, hagfræðingi hjá GAMMA Capital Management, í grein í Markaðnum, 23. ágúst 2017, má bást við, að kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu muni rúmlega tvöfaldast sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á tímabilinu 2015-2050 m.v. 3,0 % raunaukningu á ári, fara úr 7,0 % í 15,2 %.  Þetta þýðir með núverandi verðlagi og hlutdeild ríkisins í sjúkrakostnaði yfir 200 miaISK/ár útgjaldaauka ríkisins.  Hvernig í ósköpunum á að fjármagna þetta ?

Hjá OECD hafa menn komizt að því, að meðaltal ríkissjóðsútgjalda til heilbrigðismála muni árið 2060 nema 14 % af VLF og hafa orðið ósjálfbær um miðja öldina, þ.e. eitthvað verður undan að láta á útgjaldahlið ríkisfjármálanna.  Kerfið hrynur. 

Við þessari óheillaþróun þarf að bregðast nú þegar til að draga úr tjóninu, sem blasir við.  Er meiri sósíalismi svarið ?  Nei, áreiðanlega ekki.  Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, talaði á nýlegum flokksráðsfundi eins og Hugo Chavez áður en hann kollsigldi ríkasta landi Suður-Ameríku í gjaldþrot:

"Vaxandi misskipting gæðanna sprettur beinlínis af því efnahagskerfi og þeim pólitísku stefnum, sem hafa verið ráðandi undanfarna áratugi, og nú er svo komið, að sífellt fleira fólk er farið að finna fyrir því."

Stefna Katrínar og hennar nóta birtist við afgreiðslu fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar á síðasta þingi.  Þær fólu í sér svo mikla hækkun ríkisútgjalda á næstu árum, að þær mundu grafa undan getu ríkisins til að takast á við öldrunarvandann, sem við blasir í framtíðinni.  

Það eru aðeins tvær leiðir til að fjármagna útgjaldahugdettur vinstri manna.  Annaðhvort með skuldasöfnun eða skattahækkunum.  Hvort tveggja dregur úr svigrúmi ríkissjóðs til langs tíma og er þannig ávísun á enn stórfelldari kjaraskerðingu barna okkar og barnabarna en ella verða nauðsynlegar.

Skynsamlegustu viðbrögðin núna við aðsteðjandi vanda eru þríþætt:

  1. Reyna að bæta lýðheilsuna með fræðsluátaki í skólum og í fjölmiðlum um skaðsemi óhófsneyzlu, hreyfingarleysis og óholls matarræðis.  Ef þetta leiðir til betri heilsu eldri borgara, sparast opinber útgjöld, þótt langlífi aukist.  
  2. Reyna að lækka einingarkostnað á hvers konar þjónustu hins opinbera.  Til þess hafa aðrar þjóðir nýtt einkaframtakið.  Af hverju er það talið ósiðlegt hér, sem er viðurkennd sparnaðarleið fyrir skattborgarana erlendis ?  Kasta verður kreddum og pólitískum fordómum á haf út, þegar meðferð skattfjár er annars vegar.  Um þetta skrifar Sölvi Blöndal í téðri grein: "Áskorunin felst m.a. í því að tryggja fjármögnun og framboð á heilbrigðisþjónustu og stuðla að hagvaxtarhvetjandi aðgerðum til framtíðar.  Hvað viðvíkur fjármögnun og framboði á heilbrigðisþjónustu þá er mikilvægt að tryggja fjölbreytni. Fleiri geta annast sjálfa þjónustuna, hið opinbera, einkafyrirtæki, einstaklingar, sjálfseignarstofnanir, tryggingafélög o.fl.  Sá, sem aflar fjárins, þarf ekki endilega að hafa yfirumsjón með þjónustunni.  Tvær hagvaxtarhvetjandi aðgerðir, sem vert er að nefna, eru hækkun eftirlaunaaldurs annars vegar og minni hömlur á fólksflutninga til Íslands hins vegar."  Ef innflytjendur eiga að styrkja hagkerfið, þurfa þeir að hafa menntun og þekkingu, sem spurn er eftir hér. Ekki er víst, að afkvæmi þeirra fjölgi sér hraðar en "frumbyggjarnir".
  3. Nýta verður núverandi svigrúm ríkisfjármála til að greiða hratt niður skuldir ríkissjóðs, því að að einum áratug liðnum mun "ellibyrðin" hafa vaxið til muna.   

 Hugmyndafræði vinstri manna er meira í ætt við trúarbrögð en stjórnmálastefnu, því að annars væri hugmyndafræði þeirra löngu dauð vegna slæmrar reynslu af henni á sviði efnahagsmála og á sviði frelsis einstaklinga og félagasamtaka.  Hugmyndafræði vinstri manna á enn verr við á 21. öldinni en áður, því að nú verður að setja aukna verðmætasköpun á oddinn sem aldrei fyrr til að "hinn öfugi aldurspýramídi" hrynji síður.  Um þetta skrifar Óli Björn Kárason, Alþingismaður, í ágætri miðvikudagsgrein í Morgunblaðinu, 23. ágúst 2017,

"Játning: ég mun aldrei skilja sósíalista":

"Hugmyndafræði vinstri manna - sósíalista - gefur ekkert fyrir þjóðfélag frjálsra einstaklinga, sem eru fjárhagslega sjálfstæðir.  Mælikvarði velferðar og réttlætis [þeirra] mælir umsvif ríkisins.  Íslenzkir vinstri menn - líkt og skoðanabræður þeirra í öðrum löndum - byggja á þeirri bjargföstu trú, að ríkið sé upphaf og endir allra lífsgæða.  Aukin umsvif ríkis og annarra opinberra aðila er markmið í sjálfu sér, en [eru] ekki aðeins æskileg."

 

 

 

 


Raforkumál í öngstræti

Í hverri viku ársins verður tjón hjá viðskiptavinum raforkufyrirtækjanna í landinu, sem rekja má til veiks raforkukerfis. Oft er það vegna þess, að notendur eru aðeins tengdir einum legg við stofnkerfið, þ.e. nauðsynlega hringtengingu vantar.

Nýlegt dæmi um þetta varð austur á Breiðdalsvík í viku 34/2017, þar sem stofnstrengur bilaði með þeim afleiðingum, að straumlaust varð í 7 klst.  Auðvitað verður tilfinnanlegt tjón í svo löngu straumleysi, og hurð skall nærri hælum í brugghúsi á staðnum, þar sem mikil framleiðsla hefði getað farið í súginn, ef verr hefði hitzt á.  

Flestar fréttir eru af tjóni hjá almennum notendum, en stórnotendur verða þó fyrir mestu tjóni, því að þar er hver straumleysismínúta dýrust.  Þar, eins og víðar, er líka viðkvæmur rafmagnsbúnaður, sem ekki þolir spennu- og tíðnisveiflur, sem hér verða nokkrum sinnum á ári.  Getur þetta hæglega leitt til framlegðartaps yfir 11 MISK/ár og svipaðrar upphæðar í búnaðartjóni.

Á þessari öld hafa Vestfirðingar orðið harðast fyrir barðinu á raforkutruflunum á stofnkerfi landsins og  straumleysi, enda er landshlutinn háður einum 132 kV legg frá Glerárskógum í Dölum til Mjólkárvirkjunar, og sú virkjun ásamt öðrum minni á Vestfjörðum annar ekki rafmagnsþörf Vestfirðinga.  Hún er aðeins 10,6 MW, 70 GWh/ár eða um þriðjungur af þörfinni um þessar mundir. Þess ber að geta, að talsverður hluti álagsins er rafhitun húsnæðis, sem gerir Vestfirðinga að meiri raforkukaupendum en flesta landsmenn í þéttbýli.

Vestfirðingar verða árlega fyrir meiri truflunum og tjóni á búnaði og framleiðslu en flestir aðrir af völdum ófullnægjandi raforkuframleiðslu og flutningskerfis.  Til úrbóta er brýnt að koma á hringtengingu á Vestfjörðum.  Beinast liggur við að gera það með 132 kV tengingu Mjólkárvirkjunar við nýja virkjun, Hvalárvirkjun, 50 MW, 360 GWh/ár, í Ófeigsfirði á Ströndum.  Þessa nýju virkjun, sem er í nýtingarflokki Rammaáætlunar III, þarf jafnframt að tengja við nýja 132 kV aðveitustöð í Ísafjarðardjúpi, sem Landsnet þarf að reisa og tekið getur við orku frá fleiri vatnsaflsvirkjunum þar í grennd og veitir kost á hringtengingu Ísafjarðarkaupstaðar og allra bæjanna á Norður- og Suðurfjörðunum. Með því jafnframt að leggja allar loftlínur, 60 kV og á lægri spennu, í jörðu, má með þessu móti koma rafmagnsmálum Vestfirðinga í viðunandi horf. Viðunandi hér er hámark 6 straumleysismínútur á ári hjá hverjum notanda að meðaltali vegna óskipulagðs rofs. 

Þegar raforkumál landsins eru reifuð nú á tímum, verður að taka fyrirhuguð orkuskipti í landinu með í reikninginn.  Án mikillar styrkingar raforkukerfisins er tómt mál að tala um orkuskipti. Það er mikil og vaxandi hafnlæg starfsemi á Vestfjörðum, sem verður að rafvæða, ef orkuskipti þar eiga að verða barn í brók.  Aflþörf stærstu hafnanna er svo mikil, að hún kallar á háspennt dreifikerfi þar og álagsaukningu á að gizka 5-20 MW eftir stærð hafnar.  Öll skip í höfn verða að fá rafmagn úr landi og bátarnir munu verða rafvæddir að einum áratug liðnum.

Laxeldinu mun vaxa mjög fiskur um hrygg og e.t.v. nema 80 kt/ár á Vestfjörðum.  Það verður alfarið rafdrifið og mun e.t.v. útheimta 30 MW auk álagsaukningar vegna fólksfjölgunar, sem af því leiðir.  Fólkið á sinn fjölskyldubíl, reyndar 1-2, og rafknúin farartæki á Vestfjörðum munu útheimta 20 MW.  Fólksfjölgun til 2030 gæti þýtt álagsaukningu 10 MW.  Alls gæti álagsaukning á raforkukerfi Vestfjarða á næstu 15-20 árum vegna atvinnuuppbyggingar, fólksfjölgunar og orkuskipta orðið um 100 MW.

Við þessu verður að bregðast með því að efla orkuvinnslu í landshlutanum og hringtengja allar aðveitustöðvar á svæðinu.  Dreifikerfið þarf eflingar við til að mæta þessu aukna álagi, og allar loftlínur 60 kV og á lægri spennu þurfa að fara í jörðu af rekstraröryggislegum og umhverfisverndarlegum ástæðum.  

 

 

 

 


Um laxeldi í Ísafjarðardjúpi

Nýleg skýrsla Hafrannsóknarstofnunar - Áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar á milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi - olli Vestfirðingum og fleirum gríðarlegum vonbrigðum.  Þetta var þó ekki áhættumat, heldur líkindamat, því að áhættumat fæst bæði við líkindi og afleiðingar atburðar.  Á grundvelli líkinda á, að strokulax úr kvíum nái að æxlast með náttúrulegum laxi í tveimur ám í Ísafjarðardjúpi, lagðist stofnunin gegn sjókvíaeldi á ógeltum norskum laxi í Ísafjarðardjúpi þrátt fyrir, að opinbert burðarþolsmat gæfi til kynna, að lífríki Ísafjarðardjúps mundi þola 30 kt (k=þúsund) af laxi í sjókvíum án tillits til erfðablöndunar.  Hver er áhættan ?  Hér verður litið á afleiðingar þess að leyfa laxeldi í Ísafjarðardjúpi á mannlífið við Djúpið og á laxalífið. 

Þegar vandað er til ákvörðunar, er ávinningur metinn hlutlægt á móti tjóninu.  Hlutlægur mælikvarði er ætlaður fjárhagslegur ávinningur og ætlað fjárhagslegt tap.

Fyrst að meintum ávinningi.  Mikið hefur verið skrifað í blöðin um málefnið og margt tilfinningaþrungið, svo að ljóst er, að mörgum er heitt í hamsi, enda miklir hagsmunir í húfi.  Teitur Björn Einarsson, Alþingismaður, reit ágæta hugvekju í Morgunblaðið, 22. júlí 2017, 

"Frá yztu nesjum samtímans":

"Viðfangsefnið er líka annað, þar sem spurningunni um, hvort hægt sé að lifa af landsins gæðum frá ári til árs, hefur verið skipt út fyrir aðra um, hvernig bæta á lífskjör í landinu án þess að mega nýta frekar auðlindir þess með sjálfbærum hætti."

Þetta er rétt greining hjá þingmanninum á núverandi stöðu atvinnuþróunar í landinu.  Megnið af hagkerfi landsins er reist á hagnýtingu náttúrugæða, og nú er að bætast við þá flóru fiskeldi, sem getur orðið verðmæt stoð, sem hefur tekjuaukandi og sveiflujafnandi áhrif á efnahagslífið.  Fyrir landið allt er þess vegna til mikils að vinna, þar sem fiskeldið jafnar atvinnuréttindi fólks í landinu vegna nýrra og verðmætra tækifæra á landsbyggðinni.  

Vestfirðingum þykir að sér þrengt að hálfu ríkisvaldsins varðandi atvinnuuppbyggingu í sinni heimabyggð, og það er auðskilið.  Teitur Björn tekur dæmi:

"Þrjú brýn framfaramál í deiglunni á Vestfjörðum eru nokkuð lýsandi dæmi fyrir baráttu byggðanna hringinn um landið.  Þetta eru í fyrsta lagi vegur um Barðaströnd í stað vegslóða, í öðru lagi raforkuflutningskerfi, sem slær ekki út við fyrsta snjóstorm hvers vetrar og í þriðja lagi skynsamleg uppbygging á einni umhverfisvænstu matvælaframleiðslu, sem völ er á."

Hvað er "skynsamleg uppbygging" fiskeldis ?  Er hún aðeins fyrir hendi, ef engin staðbundin óafturkræf breyting verður á lífríki náttúrunnar, eða er hægt að samþykkja slíkar breytingar, ef metið fjárhagstjón er t.d. innan við 5 % af metnum fjárhagslegum ávinningi ?

Alþingismaðurinn skrifar síðan, sennilega fyrir hönd langflestra Vestfirðinga, sem nú sjá breytta og bætta tíma innan seilingar, ef ríkisvaldið ekki leggst þversum:

"Þess vegna er það ekki í boði, að sanngjarnri kröfu íbúa á Vestfjörðum um eðlilega uppbyggingu innviða sé nú svarað með skeytingarleysi eða hiki af hálfu ríkisvaldsins og stofnana þess.  Það er líka ótækt, að á lokametrum langs og lögbundins stjórnsýsluferils sé öllu til tjaldað af hálfu þrýstihópa til að stöðva mál og teflt af óbilgirni til að knýja fram sérhagsmuni á kostnað almannahagsmuna."

Það er hægt að taka heils hugar undir það, að ríkisvaldinu ber að veita almannahagsmunum brautargengi.  Ef þeir brjóta á lögvörðum réttindum einstaklinga, komi fullar bætur fyrir að Stjórnarskrá og lögum.  Þetta getur átt við um vegalögn, raflínulögn og fiskeldi úti fyrir strönd og í grennd við árósa. 

Kristín Hálfdánsdóttir, bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ, talar sennilega fyrir munn margra þar.  Hún hóf grein í Morgunblaðinu 15. ágúst 2017,þannig:

"Laxeldi í Djúpinu":

"Fyrir íbúa á norðanverðum Vestfjörðum er ekkert mál stærra eða mikilvægara en, hvort laxeldi í Ísafjarðardjúpi fái brautargengi.  Engin önnur atvinnu- og verðmætasköpun er sjáanleg til að byggja upp nýjar meginstoðir í atvinnulífi á þessu svæði til framtíðar.  Skapað vel launuð og fjölbreytt störf, sem munu hafa úrslitaáhrif á byggðaþróun og snúa áratuga langri hnignun í sókn fyrir íbúana."

Hér er ekki lítið undir, heldur getur ákvörðun um sjókvíaeldi í Djúpinu skipt sköpum um, hvort byggðin fær að blómstra í fjölbreytileika atvinnulífs og mannlífs eða þarf enn að heyja varnarbaráttu.

Hver yrði ávinningurinn af 30 kt/ár sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi ?  

Samkvæmt Pétri G. Markan, sveitarstjóra Súðavíkurhrepps og formanni Fjórðungssambands Vestfirðinga, eru nú "180 bein störf í kringum fiskeldi á Vestfjörðum, skattspor nær milljarði. Í áætlunum fiskeldisfyrirtækja er gert ráð fyrir 700-800 beinum störfum - sé miðað við, að varfærnislegt burðarþol Hafrannsóknarstofnunar verði nýtt.  Í verðmætum má reikna með 60 milljörðum [ISK] í útflutningstekjum."

Burðarþolsmat Hafró fyrir Ísafjarðardjúp hljóðaði upp á 30 kt/ár.  Frumráðlegging stofnunarinnar var um að sleppa sjókvíaeldi norsks lax í Ísafjarðardjúpi, sem gæti hrygnt í tveimur laxveiðiám þar með ósa út í Djúpið, af ótta við kynblöndun og erfðabreytingar.  Þær geta í versta tilviki orðið svo skaðlegar, að laxastofnar þessara tveggja áa deyi út, þ.e. úrkynjist og lifi ekki af veruna í hafinu.  

Hafrannsóknarstofnun ráðleggur að leyfa allt að 50 kt/ár laxeldi í sjókvíum Vestfjarða án Ísafjarðardjúps.  Pétur G. Markan gæti þess vegna átt við, að 700-800 ársverk hjá fiskeldisfyrirtækjunum sinni fiskmassa í sjókvíum að jafnaði 80 kt/ár ásamt skrifstofustörfum og annarri nauðsynlegri þjónustu við framleiðsluna. Þetta þýðir 10 ársverk/kt, þegar fullri framleiðslu verður náð og þar af leiðandi hámarks framleiðni. 

Þetta passar við upplýsingar frá Noregi um 9500 bein ársverk (og 19000 óbein) eða 7,3 bein störf/kt.  Það er reiknað með lægri framleiðni í fiskeldi á Íslandi en í Noregi, af því að framleiðslan verður væntanlega alltaf meira en tíföld í Noregi. Samkvæmt upplýsingum frá Noregi skapar hvert beint ársverk MNOK 2,7, sem er um MISK 36.  Vegna minni framleiðni verða þetta e.t.v. 0,75 x 36 = MISK 27 á Íslandi.  

Heimfært á 30 kt/ár laxeldi í Ísafjarðardjúpi er þar um að ræða 300 bein ársverk og 600 óbein ársverk dreifð um landið, þó trúlega mest á Vestfjörðum. Þetta gæti þýtt fólksfjölgun í Ísafjarðardjúpi um 2400 manns. Verðmætasköpun þessara beinu ársverka verður V=300 x 36 MISK/ár = 11 miaISK/ár.  Þetta er hinn staðbundni fjárhagslegi ávinningur af að leyfa 30 kt/ár laxeldi (í sjókvíum) í Ísafjarðardjúpi.  

Hvert getur hámarks tjónið af að leyfa þetta fiskeldi orðið ?  Það verður væntanlega, ef laxinn hverfur úr Laugardalsá og Langadalsá/Hvannadalsá, en þar hefur meðalveiðin verið um 500 laxar/ár.  Því var haldið fram af Magnúsi Skúlasyni, formanni Veiðifélags Þverár og bónda í Norðtungu í Fréttablaðsgrein 18. júlí 2017, "Að skapa störf með því að eyða þeim annars staðar", að með allri þjónustu skili sala veiðileyfa um 20 miaISK/ár inn í landið.  Ef þessu er deilt á 30´000 fiska/ár, þá skila þessar veiðileyfatekjur 670 kISK/fiskHámarkstjón í Djúpinu er þá 670 kISK/fisk x 500 fiskar/ár = 335 MISK/ár eða 3 % af ávinninginum.  Laxeldisfyrirtækin gætu tryggt sig fyrir þessu tjóni eða lagt brotabrot af sölutekjum sínum í tjónasjóð á hverju ári.  Ef veiðin í ánum tveimur minnkar meira en að meðaltali yfir landið, myndavélar sýna eldislax við ósana og hann veiðist í meira en 4 % magni í ánum, þá verði skylt að bæta tjónið.

Ef gert er ráð fyrir stærð hrygningarstofns 700 löxum í téðum tveimur ám, þá kveður varúðarregla Hafrannsóknarstofnunar á um, að ekki megi fleiri en 0,04 x 700 = 28 eldislaxar ganga í árnar.  Hvert er þá hámarks leyfilegt strokhlutfall upp í árnar til að hrygna, SHmax, af fjölda eldislaxa ?

Áætlaður fjöldi fiska í eldi er 30 kt/2 kg = 15 M fiskar.  15 M x SHmax = 28 ;  SHmax = 1,9 ppm/ár.  Þetta er sá "hámarksleki", sem laxeldisfyrirtækin ættu að keppa að.

Geta laxeldisfyrirtækin sýnt fram á, að þau geti uppfyllt þessa kröfu ?  Á Íslandi er líklega ekki enn til marktækur gagnagrunnur fyrir slíka tölfræði, en hann mun koma, þegar laxeldinu vex fiskur um hrygg.

Fyrst er þess þá að geta, að með tiltækum mótvægisaðgerðum virðist, að í Noregi komist aðeins lítill hluti strokufiska upp í árnar og hrygni þar, e.t.v. innan við 2 %. Það hækkar auðvitað leyfilegt strokhlutfall úr eldiskvíunum, e.t.v. upp í 126 ppm.

Magnús Skúlason skrifar:

"Samkvæmt norskum rannsóknum liggur fyrir, að einn lax sleppur að meðaltali fyrir hvert alið tonn af eldislaxi."  Ef þetta ætti við um Ísafjarðardjúp með 30 kt eldismassa, þá slyppu þar árlega út 30 þúsund laxar, og sleppihlutfallið væri 2000 ppm.  Þetta stenzt ekki skoðun á upplýsingum frá norsku Umhverfisstofnuninni.

Í Fiskifréttum birtist 17. ágúst 2017 fróðleg grein um þetta efni eftir Svavar Hávarðsson, blaðamann,

"Kolsvört skýrsla um villtan lax í Noregi".

Greinin hófst þannig:

"Mikil hætta steðjar að norskum villtum laxastofnum, og allar helztu ástæður hennar eru raktar til laxeldis í sjókvíum.  Erfðablöndun er þegar orðin útbreidd og mikil."

Aðstæður á Íslandi og í Noregi eru ósambærilegar að þessu leyti, því að laxeldið er þar stundað úti fyrir ósum allra helztu laxveiðiáa Noregs, en í tíð Guðna Ágústssonar, landbúnaðarráðherra, var sjókvíaeldi bannað árið 2004 úti fyrir ströndum Vesturlands, Norðurlands (nema Eyjafirði) og Norð-Austurlands, og verður ekki stundað úti fyrir Suðurlandi fyrir opnu hafi. Fjarlægðin er bezta vörnin gegn genaflæði á milli stofna. Fáeinir laxar geta villzt af leið, en það getur engin teljandi áhrif haft á eðli íslenzku laxastofnanna, nema staðbundin í viðkomandi firði. 

Það er lykilatriði við að meta líkur á erfðabreytingum á íslenzkum löxum í Ísafjarðardjúpi, hvað búast má við miklum "fiskaleka" úr kvíunum.  Tölur frá Noregi geta verið leiðbeinandi í þeim efnum, því að unnið er eftir sama stranga staðli báðum löndunum. Af tilvitnaðri Fiskifréttargrein má "slá á laxalekann" í Noregi:

"Norsk fyrirtæki framleiddu 1,2 Mt af eldislaxi árið 2016.  Frá þessum fyrirtækjum var tilkynnt um 131 k laxa, sem sloppið höfðu úr kvíum - samanborið við 212 k laxa að meðaltali áratuginn á undan.  Þessum tölum taka vísindamennirnir með fyrirvara; segja, að rannsóknir sanni, að tvisvar til fjórum sinnum fleiri laxar séu líklegir til að hafa sloppið en tilkynnt er um."

Ef reiknað er með, að 393 k laxar hafi sloppið úr norskum eldiskvíum árið 2016, þá gæti lekahlutfallið hafa verið: LH=393 k/720 M=550 ppm, sem er óviðunandi hátt fyrir íslenzkar aðstæður.  Það mundi t.d. þýða, að 8250 laxar slyppu úr sjókvíum í Ísafjarðardjúpi með 30 kt eldismassa. Þetta er tífaldur hrygningarstofn laxa í Ísafjarðardjúpi, en þess ber að gæta, að með eftirliti og mótvægisaðgerðum er hægt að fanga megnið af þessum fiskum áður en þeir ná að hrygna í ánum.  

Jón Örn Pálsson, sjávarlíffræðingur, hefur sagt, að 6000 eldislaxar á ári hafi leitað í norskar ár árin 2014-2015.  Ef 6 k af 393 k eldislaxar hafa leitað í norskar ár árið 2016, þá er það 1,5 % af þeim, sem sluppu.  Heimfært á Ísafjarðardjúp þýðir það, að 0,015x8250=124 eldislaxar sleppa upp í ár, þar sem stofninn er um 700 fiskar.  Hlutfallið er tæplega 18 %, en varúðarmark Hafrannsóknarstofnunar er 4 %.  Samkvæmt þessu má telja fullvíst, að í umræddum tveimur ám muni verða erfðabreytingar á laxastofnum. Það er hins vegar algerlega háð sleppihlutfallinu og virkum mótvægisaðgerðum.  Það er þess vegna ekki hægt að slá því föstu á þessari stundu, að með því að leyfa 30 kt laxeldi í Ísafjarðardjúpi, verði þar skaðlegar erfðabreytingar á villtum laxastofnum í þeim mæli, að löxum taki þar að fækka. 

Fjárhagslegur ávinningur er svo miklu meiri en hugsanlegt tjón, að réttlætanlegt er að leyfa að fara af stað með lífmassa í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi 15 kt og stunda um leið vísindarannsóknir á lífríkinu og fylgjast náið með "lekanum" og fjölda eldislaxa, sem ná upp í árnar.  Tímabundin rannsóknar- og eftirlitsáætlun væri samin af viðkomandi fiskeldisfyrirtækjum og Umhverfisstofnun og kostuð af hinum fyrrnefndu.  Mótvægisaðgerð gæti líka verið fólgin í fjölgun náttúrulegra laxa í Laugardalsá og Langadalsá/Hvannadalsá.

Nú hefur starfshópur Landssambands fiskeldisfyrirtækja, Veiðiréttarhafa í íslenzkum ám o.fl. skilað skýrslu til ráðherra sjávarútvegs og landbúnaðar, þar sem reifuð er uppstokkun á umgjörð fiskeldis á Íslandi.  Flest stendur þar til bóta, en í ljósi óljósra líkinda á hugsanlegu tjóni af völdum laxeldis í Ísafjarðardjúpi og gríðarlegra hagsmuna íbúanna á svæðinu, sem eru meira en þrítugfaldir hugsanlegt hámarkstjón, er ekki hægt að rökstyðja bann með niðurstöðu "áhættugreiningar".  Rökrétt hefði verið á grundvelli "áhættugreiningar" að leyfa minna laxeldi, með ströngum skilyrðum, en burðarþolsmat Hafrannsóknarstofnunar á Ísafjarðardjúpi skilgreindi.  Hver veit, nema Alþingi komist að slíkri niðurstöðu ? 

 

 

 

 

 

 

 


Bílaframleiðendur á krossgötum

Evrópa snýr nú baki við útblástursspúandi bifreiðum, þó helzt dísilbílum.  Þýzkir bílasmiðir standa nú frammi fyrir ásökunum um víðtækt samráð, m.a. um svindl við útblástursmælingar dísilbíla.  Harald Krüger, stjórnarformaður Bayerische Motoren Werke, BMW, hefur hafnað slíkum ásökunum og enn á eftir að leiða hið sanna í ljós. Bílaframleiðsla er nú á óvenjumiklu breytingaskeiði.  

Sala dísilbíla í Evrópu fellur hratt.  Áður en VW-möndlið með mælingar á útblæstrinum komst í hámæli voru dísilbílar helmingur af nýjum bílum í stærstu löndum Evrópu og víðar. Morgan Stanley-bankinn hefur birt nýjar sölumælingar frá júní 2017 í Þýzkalandi.  Þar kom fram, að dísilbílar voru undir 39 % af seldum nýjum fólksbílum.  Annar banki spáir því, að markaðshlutdeild dísilbíla í nýjum fólksbílum verði senn komin niður í 30 % um alla Evrópu.  

Ein ástæða þessa er ímigustur á ótímabærum dauðsföllum af völdum mengunar.  Samkvæmt Umhverfisstofnun Evrópu er mengunarmistur ("smog") orsök að dauða tæplega hálfrar milljónar manna á ári í Evrópu. Líklega er átt við vestan Rússlands. Níturildi frá dísilbílum gengur inn í þetta mengunarmistur. 

Yfirfært á Ísland nemur þetta 400 manns á ári, sem er ferfalt hærri tala en áður hefur komið fram.  Líklega er hlutfall ótímabærs dauðdaga af völdum bílmengunar hærra, þar sem hún bætist ofan á slæmt loft annnars staðar frá, t.d. frá kolaorkuverum.  Á höfuðborgarsvæðinu eru nokkrir dagar á ári yfir hættumörkum H2S, brennisteinsvetnis, sem aðallega kemur þá frá Hellisheiðarvirkjun. Það ku standa til bóta. Þar að auki eru stilludagar fáir hér, svo að tíð loftskipti verða oftast.  Líklegast eru ótímabærir dauðdagar hérlendis hlutfallslega færri en helmingur slíkra dauðdaga í Evrópu. Það er þess vegna ekki þörf á boðum og bönnum á dísilvélinni hérlendis eða sprengihreyflunum yfirleitt, eins og í stórborgum Evrópu.   

Yfirvöld hafa þar reitt hátt til höggs.  Dísilbílar kunna senn að verða bannaðir í nokkrum borgum, t.d. í París,  London, Ósló og jafnvel í heimalandi Rudolfs Diesel. Í Ósló er furðumikil mengun á veturna vegna viðarkyndingar í sparnaðarskyni, og þar eru langvarandi stillur. Heimaborg Daimler Benz, höfuðborg Schwaben, Stuttgart, hefur líka verið nefnd, enda stendur hún í dalverpi, þar sem stillur eru tíðar.

Í sumum löndum, þ.m.t. á Íslandi, er boðuð hækkun á olíugjaldi eða kolefnisgjaldi á dísilolíu, svo að hún hafi ekki lengur kostnaðarforskot á benzínið. Á Íslandi er óviðeigandi að jafna mun á benzín- og dísilolíuverði til neytenda með því að hækka opinber gjöld á dísilolíu, vegna þess að tekjur ríkisins af bifreiðum og notkun þeirra eru óhóflegar m.v. fjárveitingar úr ríkissjóði til vega, brúa og bílferja.  Hlutfall útgjalda ríkisins til vegamála og gjalda bíleigenda af bílum sínum og notkun þeirra, 55 %, mundi lítið hækka, þótt ríkisstjórn og Alþingi mundu lækka álögur sínar á benzínið til að hafa þær svipaðar og af dísilolíu.  Dísilolían knýr flesta atvinnuvegi landsins.  Það mundi létta undir með þeim að lækka verð á henni og draga um leið úr undirliggjandi verðbólguþrýstingi. Þetta mundi ekki tefja merkjanlega fyrir orkuskiptunum.     

Sum lönd hafa kveðið upp dauðadóm yfir sprengihreyflinum í fólksbílum.  Í júlí 2017 kvað franska ríkisstjórnin upp úr með, að sala nýrra benzín- og dísilbíla yrði bönnuð f.o.m. 2040.  Í Bretlandi mun slíkt bann taka gildi árið 2050.  Norðmenn slá alla út á þessu sviði og ætla að banna sprengihreyfla í nýjum bílum árið 2025. Þetta er mögnuð afstaða í ljósi þess, að Norðmenn eru enn þá olíuframleiðsluþjóð.

Skilyrði fyrir svona framúrstefnulegri afstöðu ríkisvalds er, að innviðirnir hafi verið þróaðir fyrir það, sem taka á við.  Í Noregi er fjórðungur nýrra bíla umhverfisvænn, en á Íslandi 8 %.  Skýringin á mismuninum er markvissari stefnumörkun og eftirfylgni á öllum sviðum orkuskiptanna í Noregi. Því fer víðs fjarri, að hérlendis sé raunhæft að setja markmið af þessu tagi, og slíkt er líka óskynsamlegt. Við getum ekki verið á undan tækniþróuninni í heiminum, enda til hvers ?  Losun umferðar á Íslandi af heildarlosun landsmanna nemur aðeins 8 %, þegar tekið hefur verið tillit áhrifa losunar flugvéla í háloftunum.  Vísbending um nægilega þróaða innviði fyrir rafmagnsbílinn verður, að bílaleigurnar sjái sér hag í að kaupa nýja rafmagnsbíla.  Þá fyrst mun komast skriður á rafbílavæðinguna hérlendis.

Talsmaður einnar af stærstu bílaleigunum hér, sem á 25 rafbíla, lét nýlega hafa eftir sér í blaði, að rafmagnsbílar væru versta fjárfesting, sem fyrirtæki hans hefði lagt í.  Ástæðan er léleg nýting á bílunum vegna langs endurhleðslutíma og ónógrar langdrægni.  Mjög margir bílar eru leigðir út frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar, og Isavia verður að sjá sóma sinn í að setja upp viðeigandi tengla við bílastæði bílaleiganna þar og í samráði við þær.  

Slíka tengla (ekki hraðhleðslustöðvar) þarf að setja upp á bílastæðum gististaðanna vítt og breitt um landið, og íbúar fjölbýlishúsanna verða á hverju kvöldi að hafa aðgang að tengli til að tengja hleðslutæki sitt við, sem og aðrir íbúar.  Hraðhleðslustöðvar ættu að vera á hverri eldsneytisstöð, sem ætlar að halda áfram starfrækslu.

  Bílasmiðir skynja vel, hvað til þeirra friðar heyrir og hafa komið fram með loforð um að framleiða aðeins tvinnbíla (sem sagt ekki einvörðungu tengiltvinnbíla) og rafmagnsbíla.  Volvo hefur tekið forystuna með markmiði um þetta f.o.m. 2019.  Daimler og VW hafa uppi áform um fjöldaframleiðslu á rafhlöðuknúnum bílum, en þeir eru nú framleiddir í svo litlum mæli hjá þeim, að sú framleiðsla er með tapi.  Hjá Audi var í fyrra búizt við, að svo mundi verða til 2028, en nú er skammt stórra högga á milli. Nú er búizt til varnar í Evrópu, "Festung Europa", gegn bandarískri innrás fjöldaframleidds rafmagnsbíls frá hinum ótrúlega frumkvöðli, rafmagnsverkfræðinginum Elon Musk. Það verður líf í tuskunum á rafbílamarkaðinum.    

Þýzku risarnir vilja þó enn ekki gefa dísilinn upp á bátinn.  Þeir hafa náð eyrum búrókratanna í Brüssel um, að stríð gegn dísilnum muni draga svo mjög fjárhagslegan þrótt úr þeim, að þá muni skorta fé til að þróa umhverfisvæna og samkeppnishæfa valkosti í tæka tíð.  Elzbieta Bienkowska, "kommissar" iðnaðarmála í Berlaymont, varaði nýlega við því, að bann við notkun dísils gæti valdið hruni á dísilmarkaðinum.  Hún hefur fallizt á röksemdir Þjóðverjanna og boðar þróun án gösslaragangs og boðafalla.  

Í bílablaði Fréttablaðsins var 17. ágúst 2017 undir fyrirsögninni,

"Dísilvélar munu áfram gegna mikilvægu hlutverki í bílasamgöngum", 

vitnað í Harald Krüger, stjórnarformann BMW Group, og hófst fréttin þannig:

"Í ræðu, sem Harald Krüger, stjórnarformaður BMW Group, hélt í síðustu viku [v.32/2017] við upphaf ráðstefnu Innanríkisráðuneytis Þýzkalands, sem bar yfirskriftina "National Diesel Forum", kom m.a. fram, að fyrirtækið ætlaði sér að vera áfram í fremstu röð þýzkra bílaframleiðenda við þróun bíla, sem nota rafmagn sem orkugjafa.  Hann sagði einnig, að BMW myndi halda áfram þróun dísilvéla, sem uppfylla muni alla ströngustu mengunarstaðla heims, þar á meðal Euro 6."

Engum blandast hugur um, að "Bayerische Motoren Werke" er í fremstu röð bílaframleiðenda og nægir að nefna til sögunnar koltrefjar, tengiltvinnbíla og hánýtni sprengihreyfla. Téður Haraldur veit, hvað hann syngur. Dagar dísilvélarinnar eru ekki taldir.  Hérlendis ættu yfirvöld að forðast ótímabær bönn á notkun véla, en láta duga að leggja sitt lóð á vogaskálar nýrra innviða og halda sig eingöngu við jákvæða hvata til markaðarins til að örva orkuskiptin. 

Þegar bílasmiðir hafa náð betri tökum á framleiðslutækni rafmagnsbíla og náð hagkvæmni fjöldans, þá verða rafbílar jafnvel ódýrari í innkaupum, og eru nú þegar sannarlega mun ódýrari í rekstri, þar sem raforkuverð er almenningi hagstætt.  Þá verða innviðirnir hérlendis að verða tilbúnir, þ.á.m. virkjanir, flutningskerfi og dreifikerfi, og mun þá ekki standa á bílkaupendum með orkuskiptin.  Þetta er ekki blúndulagt verkefni, heldur átakaverkefni, þar sem fást þarf við tregðulögmálið á ýmsum sviðum.  Það kostar klof að ríða röftum, segir þar.

 


Syndsamlegt líferni kostar sitt

Það er viðkvæðið, þegar mælt er gegn fíkniefnaneyzlu hvers konar, tóbak og vínandi þar ekki undanskilin, að fíklarnir séu samfélaginu dýrir á fóðrum.  

Fíklarnir eru hins vegar sjálfum sér og sínum nánustu verstir.  Nýleg brezk rannsókn sýnir, að peningalega eru þeir minni samfélagsbyrði í Bretlandi en þeir að líkindum hefðu verið, ef þeir mundu hafa lifað miðlungs heilbrigðu lífi og þannig náð meðalaldri brezku þjóðarinnar.  Líklegt er, að rannsókn hérlendis mundi leiða til svipaðrar niðurstöðu um þetta.  

Höfundurinn Óðinn ritar um þetta í Viðskiptablaðið, 10. ágúst 2017.  Hann vitnar í rannsóknarskýrslu eftir Christofer Snowdon og Mark Tovey, sem gerð var fyrir brezku hugveituna "Institute of Economic Affairs" (IEA). Þar voru reykingamenn og drykkjumenn rannsakaðir. Grófasta nálgun við heimfærslu á Ísland er að deila með hlutfalli íbúafjölda landanna, 185, og að breyta sterlingspundum í ISK. Slík heimfærsla gefur aðeins vísbendingu.  

"Skýrslan er um margt drungaleg vegna þess, að í henni er m.a. reynt að skjóta á þann sparnað, sem ríkið fær, vegna þess að reykingafólk deyr almennt fyrr en þeir, sem ekki reykja.  Eins eru teknar með í reikninginn tekjur brezka ríkisins af tóbaksgjöldum."

Skýrsluhöfundar áætla kostnað ríkissjóðs vegna þjónustu heilbrigðiskerfisins við reykingafólk nema um miaGBP 3,6, sem gróflega heimfært nemur miaISK 2,7.  Til viðbótar kemur miaGBP 1,0 vegna óþrifa af völdum reykinga og eldtjóns af völdum glóðar eftir reykingamenn.  Kostnaður alls miaGBP 4,6 eða gróflega heimfært miaISK 3,4.  

Á tekjuhlið ríkissjóðs í þessum málaflokki eru skattar og gjöld af tóbaksvörum, miaGBP 9,5, eða gróflega heimfært miaISK 7,1. Brezki ríkissjóðurinn er með rekstrarhagnað af reykingafólki, sem nemur GBP 4,9 eða gróflega heimfært miaISK 3,7.  

Það er ekki nóg með þetta, heldur veldur sparar ríkissjóður Bretlands fé á ótímabærum dauðsföllum reykingamanna.  Talið er, að 15,9 % dauðsfalla á Bretlandi hafi mátt rekja til reykinga árið 2015, og þau bar að jafnaði 13,3 árum fyrr að garði en hjá hinum.  Hér er einmitt um þann hluta ævinnar hjá flestum að ræða, þegar fólk þarf mest að leita til hinnar opinberu heilbrigðisþjónustu. Þar að auki verða ellilífeyrisgreiðslur til reykingamanna sáralitlar, en á móti kann að koma örorkulífeyrir.  Þetta telst skýrsluhöfundum til, að spari brezka ríkissjóðinum miaGBP 9,8 á ári, eða gróflega heimfært miaISK 7,3 á á ári.  Þannig má halda því fram, að eymd brezkra reykingamanna spari brezka ríkinu miaGBP 14,7 á ári, sem gróflega heimfært á íslenzka reykingamenn yrðu miaISK 11,0.  Þetta er nöturlega há tala m.v. þá eymd og pínu, sem sjúklingar, t.d. með súrefniskúta, mega þjást af, svo að ekki sé nú minnzt á aðstandendur.  Kaldhæðnir segja tóbakið og nikótínfíknina vera hefnd rauðskinnans, en indíánar voru örugglega ekki með í huga á sínum tíma að styrkja ríkissjóði hvíta mannsins.  

Með svipuðum hætti hefur Snowdon í skýrslunni "Alcohol and the Public Purse", sem gefin var út af IEA árið 2015, afsannað fullyrðingar um kostnað brezka ríkissjóðsins af ofneyzlu áfengis.  Því er einnig iðulega haldið á lofti hérlendis, að áfengissjúklingar séu baggi á ríkissjóði, en ætli það sé svo, þegar upp er staðið ? 

Áfengisbölið er hins vegar þyngra en tárum taki fyrir fjölskyldurnar, sem í hlut eiga.  Slíkt ætti þó ekki að nota sem réttlætingu fyrir áfengiseinkasölu ríkisins, steinrunnu fyrirbrigði, sem bætir sennilega engan veginn úr áfengisbölinu.

Í grunnskólum landsins þarf forvarnaraðgerðir með læknisfræðilegri kynningu á skaðsemi vínanda og annarra fíkniefna á líkama og sál, einkum ungmenna.  Þá er það þekkt, að sumir hafa í sér meiri veikleika en aðrir gagnvart Bakkusi og verða þar af leiðandi auðveld fórnarlömb hans.  Allt þetta þarf að kynna ungu fólki í von um að forða einhverjum frá foraðinu. Vinfengi við Bakkus ætti helzt aldrei að verða, en hóflega drukkið vín (með mat í góðra vina hópi) gleður þó mannsins hjarta, segir máltækið.  

Hvað skrifar Óðinn um opinberan kostnað af áfengisbölinu ?:

"Kostnaður hins opinbera vegna áfengisneyzlu er víðtækur.  Kostnaður vegna áfengistengdra ofbeldisglæpa er metinn á um miaGBP 1,0, og kostnaður vegna annarra glæpa - þar á meðal drukkinna ökumanna - er um miaGBP 0,6.  Kostnaður heilbrigðiskerfisins vegna áfengisdrykkju er metinn á um miaGBP 1,9, og annar kostnaður velferðarkerfisins, t.d. vegna greiðslna til fólks, sem drykkjusýki sinnar vegna er ófært um vinnu, nemur um miaGBP 0,29."

Á Bretlandi er metinn opinber heildarkostnaður vegna ofdrykkju Kod = miaGBP(1,0+0,6+1,9+0,29)=miaGBP 3,8.  Yfirfærður til Íslands með einfaldasta hætti nemur þessi kostnaður miaISK 2,8. Á Bretlandi er þessi kostnaður lægri en af tóbaksbölinu, en blekbóndi mundi halda, að á Íslandi sé opinber kostnaður af áfengisbölinu hærri en af tóbaksbölinu og jafnframt hærri en miaISK 2,8 þrátt fyrir verra aðgengi að áfengisflöskum og -dósum hérlendis, eins og allir vita, sem ferðazt hafa til Bretlands.  Það er barnalegt að ímynda sér, að ríkisverzlanir reisi einhverjar skorður við áfengisfíkninni.  Hún er miklu verri viðfangs en svo.

Tekjur brezka ríkisins af af áfengi á formi skatta og áfengisgjalda eru um miaGBP 10,4. Þar að auki felur skammlífi drykkjusjúkra í sér talsverðan sparnað, sem Óðinn tíundaði þó ekki sérstaklega. Brezka ríkið kemur þannig út með nettótekjur af áfengi, sem nemur a.m.k. miaGBP(10,4-3,8)=miaGBP 6,6.  Brúttotekjur íslenzka ríkisins út frá þessu eru miaISK 7,8, en eru í raun miklu hærri, og nettótekjur þess miaISK 4,9.  Kostnaður íslenzka ríkissjóðsins af áfengisbölinu er gríðarlegur, svo að nettótekjur hans af áfenginu eru sennilega ekki hærri en þessi vísbending gefur til kynna, en samt örugglega yfir núllinu, þegar tekið hefur verið tillit til styttri ævi.  

Undir lokin skrifar Óðinn:

"Það er engu að síður áhugavert að sjá, að þvert á fullyrðingar þeirra, sem berjast gegn reykingum og áfengisneyzlu, þá væri staða brezka ríkissjóðsins verri en ella, ef ekki væri fyrir reykinga- og drykkjufólkið."

Ríkissjóðurinn íslenzki hagnast mikið á ýmsum öðrum hópum, sem sérskattaðir eru.  Þar fara eigendur ökutækja framarlega í flokki.  Tekjur ríkissjóðs af ökutækjum nema um miaISK 45, en fjárveitingar til vegagerðarinnar nema aðeins rúmlega helmingi þessarar upphæðar, og hefur Vegagerðin þó fleira á sinni könnu en vegina, t.d. ferjusiglingar.  Fjárveitingar til Vegagerðarinnar hafa nú í 9 ár verið allt of lágar m.v. ástand vega og umferðarþunga, en frá 2015 hefur keyrt um þverbak.  Af öryggisástæðum verður að auka árlegar fjárveitingar til vegamála hérlendis um a.m.k. miaISK 10.  

Nú hefur fjármála- og efnahagsráðherra boðað hækkun kolefnisgjalds á dísilolíu.  Vinstri stjórnin reyndi fyrir sér á ýmsum sviðum með neyzlustýringu, og eitt asnastrikið var að hvetja til kaupa á dísilbílum fremur en benzínbílum með meiri gjöldum á benzínið.  Hækkun nú kemur sér auðvitað illa fyrir  vinnuvélaeigendur, en vinnuvélar eru flestar dísilknúnar, og þeir eiga ekkert val.  Eigendur annarra dísilknúinna ökutækja eiga val um aðra orkugjafa, t.d. fossaafl og jarðgufu, sem breytt hefur verið í rafmagn.  

Stöðugt hefur fjarað undan þessum tekjustofni ríkisins vegna sparneytnari véla.  Innleiðing rafbíla kallar á allsherjar endurskoðun á skattheimtu af umferðinni.  Strax þarf að hefja undirbúning að því að afleggja gjöld á eldsneytið og eignarhaldið (bifreiðagjöld) og taka þess í stað upp kílómetragjald.  Bílaframleiðendur eru að alnetsvæða bílana og "skattmann" getur fengið rauntímaupplýsingar um aksturinn inn í gagnasafn sitt og sent reikninga í heimabanka bíleigenda mánaðarlega, ef því er að skipta.  Í Bandaríkjunum eru nú gerðar tilraunir með þetta, og er veggjaldið um 1,1 ISK/km.  Þar er reyndar einnig fylgzt með staðsetningu og hærra gjald tekið í borgum, þar sem umferðartafir eru. Á Íslandi yrði meðalgjaldið um 5,1 ISK/km m.v. 35 miaISK/ár framlög ríkisins til vegamála.  

 


Er rörsýn vænleg ?

Fegurðin í samneyti manns og náttúru er fólgin í hógværð og tillitssemi í umgengni við hana, þannig að nýting á gjöfum hennar á hverjum tíma beri glögg merki um beitingu vits og beztu fáanlegu þekkingar (tækni) á hverjum tíma.  Á okkar tímum þýðir þetta lágmörkun á raski í náttúrunni og að fella mannvirki vel að henni eða augljóslega eins vel og unnt er.  

Þetta á t.d. við um orkunýtingarmannvirki og flutningsmannvirki fyrir umferð ökutækja eða raforku.  Á þessari öld og nokkru lengur hefur verið uppi ágreiningur með þjóðinni um mannvirkjagerð utan þéttbýlis og alveg sérstaklega á stöðum, þar sem lítil eða engin bein ummerki eru um manninn, en óbein ummerki um mannvist blasa þó víðast við þeim, sem eru með augun opin, í "stærstu eyðimörk Evrópu", þar sem gróðurfarið er hryggðarmynd mannvistar og búfjárhalds í landinu.  Það er skylda okkar hérlendra nútímamanna og afkomenda að stöðva frekari eyðingu jarðvegs og klæða landið aftur gróðri.  Þetta fellur þeim þó ekki í geð, sem engu vilja breyta.  Slíkir eru ekki íhaldsmenn, því að þeir vilja aðeins halda í það, sem vel hefur gefizt, heldur afturhaldsmenn. Þá kemur ofstækisfull andúð á "erlendum" gróðri á borð við lúpínu og barrtré spánskt fyrir sjónir í landi, sem kalla má gróðurvana.   

Hugmyndin að baki Rammaáætlun var að skapa sáttaferli með kerfisbundnu vali á milli verndunar og orkunýtingar.  Nýtingarhugtakið þyrfti að víkka út, svo að það spanni nýtingu ferðamanna á landinu, nú þegar tala erlendra af því sauðahúsi fer yfir 2,0 milljónir á ári. Iðnaðar-, ferðamála- og nýsköpunarráðherra ýjaði að slíku í Morgunblaðsgrein laugardaginn 12. ágúst 2017.  

Blekbóndi er þó ekki hrifinn af framkvæmdinni á mati Verkefnisstjórnar um Rammaáætlun fyrirkomulaginu, og telur mat á virkjunarkostum vera hlutverk Orkustofnunar, en ekki pólitísks skipaðrar "Verkefnisstjórnar um Rammááætlun" virkjunarkosta, enda hefur iðulega verið slagsíða á þessu mati.  Af einhverjum ástæðum hefur Verkefnisstjórnin ekki tekið neinn vindorkukost til mats, og skýtur það skökku við, því að umhverfisáhrif vindmyllna, hvað þá vindmyllulunda upp á 100 MW eða meir, eru mikil að mati blekbónda, en sínum augum lítur hver á silfrið. Hins vegar hefur Verkefnisstjórn hneigzt til verndunar á vatnsföllum og lausbeizlaðrar flokkunar jarðhitasvæða sem nýtingarstaða.  Ekki er víst, að þetta sjónarmið þjóni umhverfisvernd vel, þegar upp er staðið.   

Engu að síður er hér um lýðræðislegt ferli að ræða, þar sem Alþingi á lokaorðið, og það ber að virða, hver sem skoðun manna er á niðurstöðunni, enda geta frekari rannsóknir og breyttar aðstæður breytt niðurstöðunni.

Þeim, sem hafna niðurstöðu þessa ferlis og andmæla hástöfum virkjunaráformum um valkosti, sem lent hafa í nýtingarflokki Rammaáætlunar, má líkja við mann, sem er of seinn að ná strætisvagni, en hleypur samt á eftir honum, þar sem hann fer af stað, og úr barka hans berast hljóð, sem ólíklegt er, að nái eyrum bílstjóra lokaðs strætisvagnsins.

Þann 8. ágúst 2017 birtist í Fréttablaðinu grein með þeirri fordómafullu fyrirsögn,

"Stóriðju- og virkjanaárátta - stríð á hendur ósnortnum víðernum".  

Greinarhöfundur er þekktur læknir, hér og t.d. á "Karolinska" í Svíþjóð, Tómas Guðbjartsson.  Fyrirsögnin lýsir rörsýn hans á viðfangsefni landsmanna, sem er að skapa öflugt og sem fjölbreytilegast atvinnulíf í landi gjöfullar og viðkvæmrar náttúru, svo að landið verði samkeppnishæft við aðra um fólk með alls konar þekkingu, getu og áhugamál.  Greinin ber með sér sorglega viðleitni til að etja saman atvinnugreinum, og verður ekki hjá því komizt að leiðrétta misskilning og að hrekja rangfærslur höfundarins, eins og nú skal rekja.  Hún hófst þannig:

"Undanfarið hefur skapazt töluverð umræða um fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir á Íslandi, enda virðist sem stjórnvöld ætli áfram að greiða götu mengandi stóriðju."

Læknirinn stóð í sumar sjálfur fyrir umræðu um Hvalárvirkjun, 55 MW, 320 GWh/ár, á Vestfjörðum.  Sagðist hann reyndar sjálfur þá hafa mestar áhyggjur af loftlínum þar í "ósnortnum víðernum" Vestfjarða.  Nú vill svo til, að HS Orka ætlar að hafa allar lagnir neðanjarðar að og frá stöðvarhúsi Hvalárvirkjunar, svo að þetta var tómt píp í lækninum.  Stöðvarhúsið verður lítt áberandi, gott ef það verður ekki sprengt inn í bergið, eins og stærsta stöðvarhús landsins í Fljótsdal.  

Það er enn fremur alveg út í hött hjá téðum Tómasi að tengja þessa miðlungsstóru virkjun við orkukræfa stóriðju.  Hann hlýtur að hafa heyrt um þjóðþrifaverkefnið orkuskipti, og að þau standa fyrir dyrum á Íslandi, þótt hægt fari enn.  Stjórnvöld hafa sem undirmarkmið varðandi Parísarsamkomulagið frá desember 2015, að að meðaltali 40 % af ökutækjaflotanum á Íslandi verði orðinn umhverfisvænn árið 2030.  Það dugar reyndar ekki til að ná markmiðinu um 40 % minni losun umferðar þá en árið 1990, heldur þarf umhverfisvænn ökutækjafloti þá að nema 60 % af heildarfjölda.  Ef 40 % ökutækjaflotans eiga að verða rafknúnir þá, þarf að virkja a.m.k. 170 MW afl og 770 GWh/ár orku fyrir árið 2030 til viðbótar við Búrfell 2 og Þeistareyki 1 og 2.  Orkuskiptin þurfa árið 2030 miklu meiri raforku en þetta, því að það er líka annars konar eldsneytisnotkun, sem þarf að leysa af hólmi, t.d. fiskimjölsverksmiðjur.  Ætla virkjana- og loftlínuféndur að reyna að hindra þessa sjálfsögðu þróun ?  Þá hefur ný víglína verið mynduð í umhverfisvernd á Íslandi.  

Næst fór læknirinn út í "samanburðarfræði".  Fór hann niðrandi orðum um málmframleiðsluiðnað í landinu og reyndi að upphefja ferðaþjónustu á kostnað hans.  Það er ótrúlegt af Tómasi Guðbjartssyni, lækni, að hann skuli ekki upp á eigin spýtur geta gert sér grein fyrir því, að slík skrif eru fleipur eitt, eins og nú skal rekja:

"Aðstæður á Íslandi eru gjörbreyttar, og staðreynd er, að stóriðja fer illa saman við blómstrandi ferðamannaiðnað, sem er orðin sú atvinnugrein, sem skapar langmestar gjaldeyristekjur og veitir miklu fleiri Íslendingum atvinnu en stóriðja."

Þær staðreyndir, sem blekbónda eru tiltækar, styðja það þvert á móti, að stóriðja og ferðaþjónusta fari ágætlega saman.  Árlega kemur fjöldi fólks gestkomandi í álverin og óskar eftir kynningu á starfseminni.  Enn fleiri koma í virkjanir, sem sjá stóriðjunni fyrir raforku, til að kynnast þessari náttúrunýtingu Íslendinga, bæði í jarðgufuverum og fallvatnsorkuverum.  Læknirinn málar hér skrattann á vegginn og býr til vandamál.  Til hvers þennan barnalega meting ?  "Cuo bono" ? Hann er ekki aðeins illa haldinn af rörsýn, heldur undirlagður af ranghugmyndum um grundvallaratvinnuvegi landsins.

Umhverfisálag af völdum erlendra ferðamanna á Íslandi er margfalt á við umhverfisálag orkukræfs iðnaðar á Íslandi.  Hafa menn heyrt um mannasaur og fjúkandi viðbjóð í íslenzkri náttúru af völdum iðnaðarins ?  Úti fyrir strönd Straumsvíkur eru ummerki eftir ISAL ekki mælanleg í lífríkinu.  Halda menn, að 2,0 milljónir erlendra ferðamanna reyni ekki verulega á fráveitur landsins ?  Það er ekkert smáræði af skolpi, þvottaefnum og annarri mengun, úti fyrir ströndum landsins og jafnvel í ám og stöðuvötnum af völdum þessara ferðamanna, sem minna stundum á engisprettufaraldur.  Átroðningar og áníðsla á viðkvæmum gróðri landsins er víða þannig, að stórsér á. 

Álverin búa við ströngustu mengunarkröfur í heimi, og opinbert eftirlit er með því, að þau uppfylli þessar kröfur.  Í grennd við álverið í Straumsvík er flúor í gróðri ekki merkjanlegur nú orðið umfram það, sem hann var fyrir 1969, t.d. vegna eldgosa.  Að láta sér detta það í hug að bera saman hátækni og háborgandi atvinnugrein og lágt borgandi atvinnugrein, sem snýst um að éta og drekka, tronta á náttúrunni og spúa eiturefnum og koltvíildi úr jarðefnaeldsneytisbrennandi ökutækjum, er ósvífni.

Það má tína fleira til, eins og aukna hættu á vegum landsins og sýkingarhættu af völdum erlendra ferðamanna, og eru berklar, lifrarbólga A og nóruveiran fá dæmi úr fúlum flór, en alvarlegasta umhverfisógnunin er af völdum losunar millilandaflugvélanna á gróðurhúsalofttegundum í háloftunum. 

Losun á 1 kg af CO2 í háloftunum er á við losun á tæplega 3 kg af CO2 á jörðu niðri.  Þegar tekið hefur verið tillit til þessa, nam losun íslenzkra flugvéla í millilandaflugi árið 2016 7,1 Mt (milljón tonn), sem var 59 % af heildarlosun landsmanna þá.  Losun iðnaðarins nam þá 2,3 Mt eða innan við þriðjungi af losun millilandaflugsins.  Það kemst engin atvinnugrein í hálfkvisti við ferðaþjónustuna varðandi illa meðferð á náttúrunni.  

Í þessu ljósi er ekki boðlegt að skrifa um "mengandi stóriðju" og dásama um leið ferðaþjónustuna, því að mengun "fjöldaferðamennskunnar" á Íslandi er margföld á við mengun orkukræfs iðnaðar, eins og rökstutt hefur verið:

"Stóriðja er ekki aðeins mengandi, heldur krefst hún mikillar orku, sem fæst með því að virkja vatnsföll og háhitasvæði.  Þessar virkjanir eru nær undantekningarlaust nálægt náttúruperlum, sem bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn laðast að.  Auk þess rjúfa þær ósnortin víðerni, sem hafa minnkað um 70 % á s.l. 70 árum hér á landi."

Stærsta virkjanasvæði landsins er Þjórsár/Tungnaár svæðið.  Þar eru landspjöll hverfandi, en ávinningurinn feiknarlegur fyrir þjóðina.  Þar hefur Landsvirkjun þess vegna tekizt mjög vel upp við að sækja gull í greipar náttúrunni með sjálfbærum og sumir segja afturkræfum hætti.

Það er ástæða til að bera brigður á þessa 70 % rýrnun Tómasar. Mælingin virðist tilfinningablendin, því að sumum dugar að vita af mannvirki utan sjónsviðs til að upplifa truflun af því.  Er það ekki sjúkleg ofurviðkvæmni, sem ekki ætti að hafa áhrif á þetta mat ? Blekbónda rekur minni til að hafa lesið grein eftir fyrrverandi Orkumálastjóra og lærimeistara blekbónda úr Verkfræðideild HÍ, Jakob Björnsson, þar sem hann hélt því fram, að meint rýrnun "ósnortinna víðerna" gæti seint (og ekki á okkar dögum) farið yfir 10 % á Íslandi, svo víðáttumikil væru þau.

Það er engu líkara af ofangreindum orðum Tómasar en hann skilji ekki, að ferðamannaiðnaðurinn er knúinn áfram af gríðarlegri orku, en sú orka kemur hins vegar nánast öll úr jarðolíunni.  Tómas virðist vera þeirrar skoðunar, að slík orkunýting sé vænlegri kostur fyrir mannkynið en að afla orkunnar með endurnýjanlegum hætti úr náttúrunni á Íslandi. Slíkt sjónarmið verðskuldar heitið "rörsýn". 

Árið 2016 brenndu millilandaflugvélar Íslendinga um 0,79 Mt af eldsneyti, sem var 0,17 Mt meira en allir aðrir jarðefnaeldsneytisbrennarar á Íslandi til samans, þ.e. landsamgöngur, fiskiskipaflotinn og millilandaskipin.  Að hampa slíkri starfsemi lýsir afar undarlegu lífsviðhorfi.  Tómas, læknir, hefur fullt leyfi til slíks lífsviðhorfs, en það verður aldrei ofan á á Íslandi. 

Árið 2050, þegar orkuskiptin á láði og legi (ekki í lofti) verða vonandi um garð gengin hérlendis, munu bílaleigubílar, smárútur og langrútur, þurfa 180 MW af rafafli og 626 GWh af raforku frá nýjum virkjunum á Íslandi.  Millilandaflug Íslendinga gæti þurft á tífaldri þessari orku að halda, þegar þar verða orkuskipti. Á að láta afturhaldsmenn komast upp með að þvælast fyrir þeirri sjálfsögðu og eðlilegu þróun, sem orkuskiptin fela í sér ? 

Lokadæmið um hugrenningar læknisins:

"Íslenzk orka er heldur ekki ókeypis, og að baki hverri virkjun er gríðarleg fjárfesting, þar sem tekin hafa verið stór lán - oft í samvinnu við erlend risafyrirtæki.  Stóriðja hefur vissulega skapað störf og tekjur hér á landi, en það hefðu peningarnir líka gert, hefðu þeir verið nýttir til annarrar atvinnustarfsemi."

Hér veður læknirinn reyk, þótt af öðrum toga sé en áður.  Hvað er athugunarvert við að taka lán til atvinnu- og verðmætaskapandi athafna, ef þær eru arðsamar, eins og raforkusala í heildsölu samkvæmt langtímasamningum hefur verið ?  Þessi aðferð hefur reynzt giftudrjúg við að lágmarka raforkuverð til almennings, sem er ólítill þáttur í velferð hér og samkeppnishæfni. Það er hundalógík að halda því fram, að lánsfé, sem eyrnamerkt fékkst til ákveðinnar fjárfestingar, sem reist var á tekjutryggingu að stórum hluta til áratuga frá alþjóðlegum stórfyrirtækjum, hefði fengizt í "eitthvað annað".  Heldur margtéður Tómas, læknir, Guðbjartsson því fram, að lánastofnanir hefðu lánað Íslendingum á sömu kjörum í mengandi áhættufjárfestingu, sem hótelbygging er, svo að dæmi af eftirlæti hans í hópi útflutningsgreinanna sé tekið ?

Að lokum verður ekki hjá því komizt að leiðrétta eina tölulega villu læknisins í tilvitnaðri grein um 3 stærðargráður, þ.e. um er að ræða þúsundfalda villu.  Má draga þá ályktun, að sá, sem gerir sig sekan um svo stóra villu, beri lítið skynbragð á umræðuefnið, sem hann hefur þó sjálfur kosið sér ?  Er þetta allt bara einhvers konar PR eða skrum fyrir galleríið ? Hann heldur því fram, að raforkuvinnsla á hvern íbúa Íslands nemi 54 kWh/íb.  Það er mjög langt síðan, að svo var. Hið rétta er 55 MWh/íb á ári.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Skringilegur ráðherra

Umhverfis- og auðlindaráðherra braut síðareglur Alþingis með því uppátæki sínu að fara í einhvers konar fyrirsætuhlutverk í ræðusal hins háa Alþingis fyrir  kjólahönnuð.  Fyrir vikið fær ráðherrann ekki lengur að njóta vafans, en hún hefur verið með stórkarlalegar  yfirlýsingar um atvinnuvegi landsmanna, t.d. orkukræfan iðnað. Við þetta hefur hún misst allt pólitískt vægi og er orðin þung pólitísk byrði fyrir Bjarta framtíð og er ekki ríkisstjórninni til vegsauka.   

Í kjölfar hinnar alræmdu kjólasýningar í Alþingishúsinu, sem afhjúpaði dómgreindarleysi ráðherrans, birtist hún í fréttaviðtali á sjónvarpsskjám landsmanna með barn sitt á handlegg og lýsti því yfir, að hún vildi, að bílaumferðin væri orðin kolefnisfrí árið 2030 !  Þetta er ómögulegt og er ekki í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar, sem miðar við, að 40 % bílaflotans í heild sinni verði knúinn raforku árið 2030. 

Þetta undirmarkmið ríkisstjórnarinnar dugar þó ekki til þess að ná heildarmarkmiðinu um 40 % minni koltvíildislosun frá innanlandsnotkun jarðefnaeldsneytis utan ETS (viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir).  Til þess verður olíu- og benzínnotkun um 60 kt of mikil árið 2030, sem þýðir, að hækka þarf undirmarkmið ríkisstjórnarinnar úr 40 % í 60 % til að ná yfirmarkmiðinu.  Hröðun á þessu ferli næst hins vegar ekki án íþyngjandi og letjandi aðgerða stjórnvalda gagnvart kaupendum og eigendum eldsneytisbíla og hvetjandi aðgerðum til að kaupa rafknúna bíla, t.d. skattaívilnanir.  Þá verður einnig að flýta allri innviðauppbyggingu.  Allt þetta þarf að vega og meta gagnvart gagnseminni fyrir hitafarið á jörðunni og loftgæðin á Íslandi.  Áhrifin af þessu á hitafarið verða nánast engin. 

Ráðherra umhverfis- og auðlindamála gerði sig enn einu sinni að viðundri með yfirlýsingu, sem er óframkvæmanleg.  Fyrsta undirmarkmið ríkisstjórnar í þessum efnum er frá 2010 og var einnig alveg út í hött, en það var um, að 10 %  ökutækjaflotans yrðu orðin umhverfisvæn árið 2020.  Nú er þetta hlutfall um 1,0 %, og með mikilli bjartsýni má ætla, að 5,0 % náist í árslok 2020.  

Þetta illa ígrundaða undirmarkmið vinstri stjórnarinnar var skuldbindandi gagnvart ESB, og það mun kosta ríkissjóð um miaISK 1,0 í greiðslur koltvíildisskatts, að óbreyttu til ESB, en vonandi verður bróðurparti upphæðarinnar beint til landgræðslu á Íslandi, sem jafnframt bindur koltvíildi úr andrúmsloftinu.  Það er þó í verkahring ríkisstjórnarinnar (téðs umhverfisráðherra ?) að vinna því máli brautargengi innan ESB.

Vegna þess, að koltvíildisgjaldið mun hækka á næsta áratug úr núverandi 5 EUR/t CO2 í a.m.k. 30 EUR/t, þá gætu kolefnisgjöld ríkissjóðs vegna óuppfyllts markmiðs íslenzkra stjórnvalda farið yfir miaISK 5,0 á tímabilinu 2021-2030.  Það er verðugt viðfangsefni íslenzkra stjórnvalda að fá ESB til að samþykkja, að þetta fé renni t.d. til Skógræktarinnar og Landgræðslunnar.  Er ráðherrum á borð við Björt Ólafsdóttur treystandi í slík alvöruverkefni ?

 

 

 


Myntþrefið

Það vakti vissulega athygli í júlí 2017, er fjármála- og efnahagsráðherra Íslands reit greinarstúf í Fréttablaðið, þar sem ráðherra peningamálanna áskildi sér rétt til þess að hafa þá skoðun, að réttast væri að leggja íslenzku myntina, ISK, niður.  Líklegt og eðlilegt er, að þetta sjónarmið ráðherrans hafi fallið í grýttan jarðveg á meðal landsmanna, því að flokkur ráðherrans tók dýfu í skoðanakönnunum í kjölfarið.  Skyldi engan undra, enda er hér um einsdæmi að ræða frá stofnun embættis fjármálaráðherra.  Þótt þessi fjármálaráðherra ynni sér ekkert annað til frægðar, er hann þar með kominn í annála.  Líklega er þessi sprungna blaðra bara til að undirstrika málefnafátækt flokks ráðherrans, sem er eins máls flokkur, og þetta eina mál er nú sem steinbarn í kviði flokksins.

Ráðherrann varði sig með því að vísa til Evrópu, en til höfuðstöðva Evrópusambandsins, ESB, í Brüssel liggja pólitískar taugar ráðherrans, eins og kunnugt er.  Hann hélt því fram, að fjármálaráðherrar evrulandanna hefðu í raun gert það sama og hann, þegar þessi lönd fórnuðu gjaldmiðlum sínum fyrir evruna.  Þetta er röng og óviðeigandi samlíking hjá ráðherranum, enda ber aðildarlöndum ESB, sem uppfylla Maastricht-skilyrðin, að taka upp evru.  

Það er þó vitað, að evran er pólitískt hrúgald, sem hróflað var upp aðallega að ósk Frakka, sem þoldu ekki samanburðinn á milli sterks Deutsche Mark, DEM, og veiks fransks franka.  Misjafn styrkur þessara tveggja gjaldmiðla endurspeglaði þó aðeins muninn á efnahagsstjórn þessara ríkja, skipulagshæfni og dugnaði. Nú heldur Þýzkaland uppi gengi evrunnar, sem t.d. hefur styrkzt um 15 % gagnvart GBP frá Brexit kosningunum í júní 2016.  

Þegar kommúnistastjórnir Austur-Evrópu voru komnar að fótum fram, þá fengu Vestur-Þjóðverjar gullið tækifæri með beitingu DEM gegnvart ráðstjórninni í Moskvu til að láta draum allra Þjóðverja um endursameiningu Þýzkalands rætast.  Enginn veggur, heldur ekki Kremlarmúrar, er svo hár, að asni, klyfjaður gulli, komist ekki yfir hann. Bandaríkjamenn voru hlynntir endursameiningunni, en hin hernámsveldin tvö, Bretar og Frakkar, drógu lappirnar.  Þá ákvað Helmut Kohl, þáverandi kanzlari Vestur-Þýzkalands, að egna fyrir Francois Mitterand, þáverandi forseta Frakklands, með ástfóstri Frakka, evrunni.  Hann lofaði því, að ef Frakkar samþykktu endursameiningu Þýzkalands, þá mundu Þjóðverjar fórna þýzka markinu, DEM, og taka upp evru.  Mitterand gekk að þessu, og þegar Bretar voru einir eftir, samþykktu þeir með semingi endursameiningu Þýzkalands. Það hefur þó frá fyrstu tíð verið þáttur í utanríkisstefnu Englands að halda Þjóðverjum sundruðum.  Þeir tímar eru liðnir, þótt Þjóðverjar hafi tapað gríðarlegum landsvæðum í umróti 20. aldarinnar.  Nú sækir sundrungarhættan Bretana sjálfa heim.   

Síðla vetrar árið 2000, eftir að evran leit dagsins ljós og var komin í veski Evrópumanna, var blekbóndi á ferðinni í vestanverðu Þýzkalandi á bílaleigubíl og ók eftir sveitavegum, sem sumir hverjir voru fyrstu hraðbrautir Þýzkalands (þá Þriðja ríkisins).  Hann mætti þá bændum og búaliði á dráttarvélum með heyvagna í eftirdragi, fulla af glaðbeittum Germönum á leið á Karnival, kjötkveðjuhátíð.  Á einn vagnanna var strengdur borði með ógleymanlegum texta, sem blekbónda fannst stafa beint út úr þýzku þjóðarsálinni:"D-Mark, D-Mark, Schade das du alles vorbei ist".  

Þýzka þjóðin saknaði myntar sinnar, sem vaxið hafði með henni úr rústum heimsstyrjaldarinnar 1939-1945 og  endurspeglaði sparsemi, eljusemi, heiðarleika, kunnáttu og seiglu þýzks almennings, des deutschen Volkes, og hún átti erfitt með að sætta sig við þessa fórn, enda var hún afrakstur pólitískra hrossakaupa.   Die Bundesbank, eða þýzki Seðlabankinn, hafði alla tíð, og hefur enn, miklar efasemdir um grundvöll evrunnar, enda er stöðugur reipdráttur í höfuðstöðvum evrubankans í Frankfurt am Main um peningamálastjórnunina á milli lífsviðhorfa rómanskra og germanskra þjóða.

Í stjórnartíð Tonys Blair, formanns Verkamannaflokksins brezka, sem vildi, að Bretar fórnuðu sterlingspundinu og tækju upp evru, var unnin ítarleg greining á kostum þess og göllum fyrir Breta að taka upp evru.  Þá var Gordon Brown fjármálaráðherra, sá sem varð síðar alræmdur sem forsætisráðherra fyrir að beita hryðjuverkalögum á Íslendinga í Hruninu, sem olli m.a. hruni íslenzkra banka í London.  Þessi greining leiddi í ljós, að frumskilyrði þess, að upptaka evru gæti gagnazt Bretum, en ekki skaðað þá, væri, að hagkerfi Bretlands og Þýzkalands væru í fasa.  Svo var ekki þá og er ekki enn, og þess vegna hafnaði ríkisstjórn Bretlands upptöku evrunnar.  Hægt er að efast um, að til þjóðaratkvæðagreiðslu hefði komið á Bretlandi í júní 2016 um aðildina að ESB, ef GBP hefði verið fórnað á sinni tíð.  

Hvalreka fyrir áhugafólk um myntmál Íslands má nefna fræðandi og röggsamlega samda grein, "Misskilningur um krónuna leiðréttur", sem Viðskiptablaðið birti þann 27. júlí 2017, eftir hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, Ragnar Árnason.  Greinin hófst þannig:

"Baráttumenn fyrir því að leggja íslenzku krónuna niður, byggja mál sitt að verulegu leyti á misskilningi og jafnvel staðleysum.  Þeir halda því fram, að [íslenzka] krónan valdi sveiflum og óstöðugleika í efnahagslífinu.  Þeir fullyrða, að krónan sé orsökin fyrir hærri vöxtum á Íslandi en í nágrannalöndunum.  Hvort tveggja er í grundvallardráttum rangt."

Hér kveður við nýjan tón og allt annan en þann, sem m.a. heyrist nú klifað á í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.  Prófessor Ragnar bendir síðan á 2 raunverulegar orsakir óstöðugleika í íslenzku efnahagslífi hingað til.  Hin fyrri er smæð hagkerfisins, sem veldur því, að færri stoðir eru undir því.  Ef ein stoðin brestur, t.d. af markaðsástæðum, er hætt við, að hinar gefi eftir vegna ofálags, og þá myndast óstöðugleiki með verðbólgu og jafnvel atvinnuleysi.

Hin ástæðan, sem prófessorinn tilgreinir, er, "að grunnatvinnuvegir á Íslandi eru í óvenju ríkum mæli byggðir á náttúrugæðum".  Þetta á við um landbúnað, sjávarútveg og ferðaþjónustuna og að vissu leyti um orkukræfan iðnað, en þessi náttúrugæði, sem landsmenn nýta núorðið, eru af misjöfnum toga, svo að áhættudreifingin er þar með allt öðrum og betri hætti fyrir afkomu hagkerfisins en áður var.  Þetta þýðir, að þótt sveiflur í náttúrunni og á viðkomandi mörkuðum hafi áhrif upp og niður á afkomu hverrar greinar, þá er sveiflan sjaldnast í fasa hjá tveimur, hvað þá öllum.  Náttúrunýtingin er miklu fjölbreyttari en áður, sem þýðir minni hættu á efnahagslegum óstöðugleika af völdum náttúrunnar.  

"Þannig mætti fara yfir hverja hagsveifluna á fætur annarri á Íslandi.  Raunveruleikinn er auðvitað sá, að þær eiga rætur sínar að rekja til breytinga í raunverulegum framleiðslutækifærum og framleiðslugetu, en ekki þess gjaldmiðils, sem notaður hefur verið í landinu."

Þá andmælir prófessor Ragnar með kröftugum hætti þeirri staðhæfingu, að gjaldmiðillinn, ISK, sé orsök hárra vaxta á Íslandi, enda hafi raunvextir alls ekki alltaf verið háir hér á landi.  Hann kveður ástæðu hárra vaxta vera, "að hið opinbera, þ.e. sá armur þess, sem nefnist Seðlabanki Íslands, hefur einfaldlega ákveðið að hafa háa vexti á Íslandi."

"Það er ekki heldur rétt, þótt Seðlabankinn reyni að halda því fram, að háir vextir séu nauðsynlegir vegna þess, hvað krónan er smá.  Þvert á móti má færa að því sterk rök, að það sé einmitt vegna smæðar myntarinnar, sem ófært sé að halda uppi hærri vöxtum á Íslandi en annars staðar."

Myntin endurspeglar aðeins þjóðarbúskapinn og árangur efnahagsstjórnunarinnar.  Hún er ekki sjálfstæður gerandi öðru vísi en þannig, að breytingar á gengi ISK leiða hagkerfið í átt að nýju jafnvægisástandi.  Þannig leiðir góður árangur útflutningsgreina til hækkunar gengis og veikir þar með samkeppnisstöðu þessara greina.  Þetta getur þó haft í för með sér óæskileg ruðningsáhrif, eins og landsmenn hafa orðið áþreifanlega varir við undanfarin misseri.  Það hægir á aukningu ferðamannastraums til landsins vegna styrkingar ISK, en allar aðrar útflutningsgreinar líða fyrir vikið.  Tiltölulega háir stýrivextir Seðlabankans, sem eru dæmi um ranga efnahagsstjórnun við núverandi aðstæður, hafa magnað vandann, því að minna fé leitar úr landi og meira inn en ella.

Niðurlagi greinar Ragnars Árnasonar er vert að gefa góðan gaum:

"Í hagfræði eru til kenningar um hagkvæmustu myntsvæði.  Þar togast á kostir þess að eiga í viðskiptum á milli landsvæða í einni mynt, og ókostir þess að þurfa að hafa sömu peningastjórn í þeim báðum. Eitt af skilyrðunum fyrir því, að hagkvæmt geti verið að sameina myntir tveggja landsvæða, er, að hagsveiflur viðkomandi svæða séu svo samstilltar, að sama peningastjórn henti báðum.  Hvað Ísland og flest nágrannalöndin beggja vegna Atlantshafs snertir, er þessu ekki að heilsa.  Þvert á móti er það eiginlega merkilegt, hversu lítil (og jafnvel neikvæð) fylgni er á milli hagsveiflna á Íslandi og hagsveiflna í Evrópu og Norður-Ameríku.  Því myndi peningastjórn þessara landa að öllum líkindum henta Íslandi afar illa og hugsanlega valda alvarlegum búsifjum.  Efnahagsþróunin í Grikklandi í kjölfar fjármálahrunsins er dæmi um, hversu illa getur farið, þegar sjálfstæðum gjaldmiðli hefur verið varpað fyrir róða."

Ef Þjóðverjar væru enn með DEM, er talið, að það væri nú allt að 40 % sterkara en evran er nú, þ.e.a.s. í stað hlutfallsins EUR/USD=1,17 væri það nú 1,64.  Þetta er merki um gríðarlega samkeppnishæfni þýzka hagkerfisins, vegna þess að framleiðni (tæknistig) Þjóðverja er há, reglubundnar launahækkanir eru lágar (um 2 %/ár), og Þjóðverjar spara hátt hlutfall launa sinna.  Þetta veldur gríðarlegum viðskiptaafgangi hjá Þjóðverjum ár eftir ár, sem nemur um 7 % af VLF  þeirra.  Á Íslandi hefur hann undanfarið verið um 6 % af VLF, en fer minnkandi. Ríkisbúskapur Þjóðverja er í jafnvægi, á meðan rómönsku þjóðirnar safna ríkisskuldum.  Þetta ójafnvægi er tekið út með miklu atvinnuleysi á evrusvæðinu.  Það hefur þó lækkað úr 12 % í kjölfar fjármálakreppunnar og niður í 9,1 % í júní 2017 samkvæmt Eurostat, Hagstofu ESB, aðallega vegna rífandi gangs í Þýzkalandi, sem býr við óeðlilega lága vexti og lágt gengi m.v. stöðu hagkerfisins.  Ef Íslendingar byggju við "fastgengi" EUR, USD, GBP eða annarrar myntar, og hefðu afhent peningamálastjórnunina öðrum, þá mundi hagkerfið sveiflast stjórnlaust á milli hárrar verðbólgu og mikils atvinnuleysis.  Það, sem skiptir landsmenn máli, er ekki heiti myntarinnar, heldur kaupmáttur ráðstöfunartekna.

Af þessum samanburði að dæma má búast við meiri óstöðugleika í hagkerfinu án ISK, þar sem hún er ekki sveifluvaldur sjálf, eins og hver hefur þó hugsunarlaust étið upp eftir öðrum.  Áhrif ISK eru að nokkru sveiflujafnandi, eins og sannaðist eftir Hrunið og er að sannast núna, með því að viðskiptajöfnuður Íslands fer minnkandi, og þróun ISK mun þá fyrr en síðar endurspegla versnandi viðskiptajöfnuð.  

Í raun þarf að kryfja þessi mál ítarlega til að komast til botns í því, hvaða lausn er líklegust til að gefa hæstan kaupmátt, en það virðist einfaldlega alls ekki vera áhættunnar virði fyrir kaupmátt landsmanna til lengdar að fórna íslenzku krónunni.   

 

 

 

 

 


Af hæfni og þjónustulund

Allir hafa mismunandi hæfni til að sinna þeim störfum, sem þeir eru settir til, og þjónustulund og hæfni þurfa ekki endilega að fara saman.  Í samskiptum opinberra stofnana við almenning verður þetta tvennt þó að fara saman, ef vel á að vera, og það er á ábyrgð viðkomandi yfirmanns, að svo sé.  

Í ár, og um þverbak hefur keyrt í sumar, hafa kvartanir vegna þjónustu sumra opinberra stofnana verið sérlega áberandi.  Nefna má Umhverfisstofnun, sem birti athugasemdalaust kolvitlausar mæliniðurstöður frá verktaka, sem sá um mælingar í grennd við nýja kísilverksmiðju í Helguvík.  Mæliniðurstöðurnar voru alveg út úr korti og gáfu Umhverfisstofnun fullt tilefni til að staldra við áður en hún skyti íbúum skelk í bringu og ylli fyrirtækinu  tjóni.  Skiptir þá ekki máli í þessu sambandi, þótt þar hafi allt gengið á afturfótunum frá fyrsta degi. 

Mest hefur þó reykvískum stofnunum og fyrirtækjum Reykjavíkurborgar verið legið á hálsi hæfniskortur og þjónustulundarvöntun, og stingur það í stúf við þá staðreynd, að í Reykjavík ætti mannvalið mest að vera út frá höfðatölunni.  Þetta þarf þó ekki undrun að sæta, þegar haft er í huga, að þjónustukönnun á vegum sveitarfélaganna í fyrra gaf Reykjavík lægstu einkunn.  Viðbrögðin sýndu þá, að eftir höfðinu dansa limirnir.  Í æðstu stjórn borgarinnar var hugarfarið greinilega, eins og hjá einvaldskóngum síðmiðalda í Evrópu: "Vér einir vitum", og Reykjavík var einfaldlega dregin út úr þessari þjónustukönnun, sem var hugsuð sem hjálpartæki fyrir stjórnendur sveitarfélaganna, sem þátt tóku.

Um 12. júní 2017 kom í ljós bilun á neyðarútrásarlúgu skolphreinsistöðvar OR/Veitna við Faxaskjól í vesturbæ Reykjavíkur, sem leiddi til þess, að hún opnaðist og ekki var hægt að loka henni aftur fyrr en málið komst í seinni fréttir sjónvarps RÚV 5. júlí 2017.  Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur var tilkynnt strax um atburðinn, en hvorki því né OR/Veitum þóknaðist að tilkynna Reykvíkingum um atburðinn, sem þó eru hagsmunaaðilar sem eigendur og notendur baðstrandar og fjöru í grennd.  Yfirvöldin gáfu íbúunum langt nef.

Heilbrigðiseftirlitið mun hafa gert eina mælingu í júní á fjölda saurgerla í 100 ml sjávar, sem voru fleiri en heilsuverndarmörk kveða á um, og samt var látið hjá líða að fylgjast grannt með ástandinu, hvað þá að vara fólk við.  Almenningur stóð í þeirri trú, að Heilbrigðiseftirlitið væri starfrækt til verndar lýðheilsu, en með þessu atferli hafa stjórnendur þar á bæ sáð fræjum efasemda um, að svo sé, ef fyrirtæki borgarinnar eiga í hlut.  Jafnvel umhverfisráðherra vill nú yfirtaka yfirstjórn þessa málaflokks af Degi, borgarstjóra.  Bragð er að, þá barnið finnur, eða kannski kjólakynnir í ræðusal Alþingis. 

Ef rennslið gegnum téða neyðarlúgu hefur numið 750 l/s, eins og fréttir hermdu, og rennslið hefur varað í þrjár vikur, þá hefur magn óhreinsaðs skolps út í sjó frá þessari einu stöð numið tæplega 1,4 Mm3 (milljón rúmmetrum).  Að tæknilegur viðbúnaður OR/Veitna sé svo bágborinn, að slík mengun þyrfti að viðgangast, sýnir, að þar á bæ er skipulag viðhalds- og rekstrarmála óviðunandi, og verður að fara fram rótargreining á atburðinum, birta niðurstöðu hennar opinberlega og tilkynna, hvaða hámarks opnunartíma megi búast við í kjölfar úrbóta.  Er búið að gera tæknilegar ráðstafanir til að stytta ótrúlega langan viðbragðstíma, og í hverju eru þær þá fólgnar ?

Upp á síðkastið hefur aðalathyglin á sviði þjónustu borgarinnar beindst að Byggingarfulltrúanum í Reykjavík.  Um þetta skrifaði Baldur Arnarson í Morgunblaðið 25. júlí 2017 undir fyrirsögninni:

"Segja starfsmenn misnota valdið":

"Samtök iðnaðarins hafa komið á framfæri formlegum kvörtunum yfir framgöngu byggingarfulltrúa í Reykjavík.  Fundið er að fjölda atriða varðandi málsmeðferð og framkomu starfsfólks byggingarfulltrúa.  Verktakar og veitingamenn, sem Morgunblaðið ræddi við, sögðu sömu sögu.  Framganga embættismanna hefði kostað fyrirtæki mikið fé.  Fjöldi verkefna hefði tafizt.

Samtök iðnaðarins sendu formlega kvörtun vegna þessa með tölvubréfi til Péturs Ólafssonar, aðstoðarmanns Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra Reykjavíkur, 22. maí s.l.  Niðurstaðan er, að fulltrúum samtakanna verður boðið til fundar um málið í síðari hluta ágústmánaðar eða um einum ársfjórðungi síðar."

Það er sjaldgæft, að heildarsamtök kvarti opinberlega undan þjónustu yfirvalda við félagsmenn sína.  Ljóst er, að bullandi óánægja er með þjónustu þessa gríðarlega mikilvæga embættis.  Hvernig ætli staðan væri, ef byggt væri fimmfalt meira í Reykjavík en reyndin er og full þörf er á ?

"Síðan eru talin upp dæmi: erfiðara sé að ná sambandi við starfsmenn, afgreiðsla mála taki lengri tíma, þjónustulund fari þverrandi, framkoma starfsmanna í garð þeirra, sem þjónustu þurfa, sé neikvæð, flækjustig hafi verið aukið, málum sé frestað vegna óviðeigandi athugasemda, viðvarandi óljós og margræð skilaboð séu gefin, þegar málum er frestað; þar sé jafnvel á ferð breytileg afstaða, sem byggist á persónulegri afstöðu viðkomandi starfsmanns."

Síðan er rakinn fjöldi frestana á afgreiðslu mála, sem viðskiptavinir embættisins telja oft ómálefnalegar og óþarfar.

"Með þetta í huga óskuðu samtökin eftir greiningu borgarinnar á "þessari óásættanlega lélegu skilvirkni".  Í öðru lagi þurfi að leggja mat á, að "hve miklu leyti megi rekja þetta ástand til slakra vinnubragða viðskiptavina embættisins".  Í þriðja lagi þurfi að "krefjast endurskilgreiningar á hlutverki embættisins frá því að vera í regluvörzlu í það að vera þjónustu- og ráðgjafarstofnun í þágu borgaranna".  Í fjórða lagi þurfi að "stórbæta ráðgjöfina og samskiptin, ekki aðeins með útgáfu leiðbeininga, heldur og með námskeiðum og kynningarfundum um það, sem betur má fara.""

Í Morgunblaðinu 27. júlí 2017 birtist síðan viðtal Magnúsar Heimis Jónassonar við byggingarfulltrúann, þar sem hann útskýrir sína hlið málsins:

"Nikulás Úlfar Másson, byggingarfulltrúi Reykjavíkur, er ósammála þeim fullyrðingum frá Samtökum iðnaðarins (SI), að málsmeðferð byggingarleyfa taki of langan tíma vegna vinnubragða embættisins.  "Málsmeðferð hjá okkur er í beinu samræmi við gæði þeirra gagna, sem okkur berast.  Okkur er mjög umhugað um það að afgreiða mál sem fyrst, sem berast okkur, enda erum við með allt að 110 mál á vikulegum afgreiðslufundum og viljum því afgreiða þau og samþykkja sem fyrst.""

Hér virðist vera hjakkað í sama farinu í stað upplýsingagjafar og aðstoðar við viðskiptamenn embættisins til að kenna þeim til hvers er ætlazt af umsækjanda.  Þá ætti að vera óþarfi að leggja venjubundin mál af einfaldara taginu fyrir fund. 

"Aðspurður segir Nikulás, að bezta leið fyrir umsóknaraðila til að stytta málsmeðferðartímann sé að koma með vel undirbúnar umsóknir, en hann segir ýmis gögn og upplýsingar oft vanta."

Gagnvart umsækjanda um byggingarleyfi til borgarinnar þarf að vera ein ásjóna í stað þess að vísa umsækjendum á milli Pontíusar og Pílatusar.  Þetta þýðir, að embætti byggingarfulltrúa á sjálft að sjá um, að aðilar á borð við heilbrigðisfulltrúa og eldvarnarfulltrúa rýni umsóknina.  Embættið á ekki að taka við umsókninni, nema hún sé fullnægjandi, og það á  strax að leiða umsækjanda fyrir sjónir, hvað vantar.  Þannig má flýta fyrir afgreiðslu.  

Í lokin sagði byggingarfulltrúinn í þessari frétt:

"Aðspurður segir hann, að embættið muni hlusta á gagnrýni frá SI, en bendir hins vegar á, að slíkar breytingar gætu þurft aðkomu löggjafans.  

"Að sjálfsögðu ætlum við að hlusta á þessi samtök og ígrunda vel og vandlega þessar tillögur, sem þau koma með, en við teljum okkur vera að vinna mjög góða vinnu hérna.  Við erum hér með vottað gæðakerfi, sem var tekið upp til að tryggja sem faglegustu og beztu afgreiðsluna fyrir okkar viðskiptavini.""

Það er sammerkt öllum gæðastjórnunarkerfum, að þau setja þarfir viðskiptavinanna á oddinn.  Gæðastjórnunarkerfi tryggir viðskiptavininum rekjanlega verkferla hjá birginum, þ.á.m. fyrir kvartanir viðskiptavina.  Ef gæðastjórnunarkerfið virkar rétt, getur viðskiptavinur fengið að sjá slóð umsóknar sinnar til byggingarfulltrúa og einnig slóð kvörtunar.  Birginum, hér byggingarfulltrúa, ber samkvæmt gæðastjórnunarkerfi að mynda umbótaferli, sem á að uppræta gallann, sem kvartað var yfir.  Þetta hefur augljóslega ekki verið gert hjá embætti byggingarfulltrúa, því að það er stöðugt verið að kvarta undan hinu sama, þ.e. skorti á þjónustulund, t.d. leiðbeiningum fyrir umsækjendur um form og innihald umsóknar, seinlæti og duttlungum starfsmanna.

Vegna þrálátra og tíðra kvartana viðskiptavina liggur beint við að álykta, að gæðastjórnunarkerfi byggingarfullrúans í Reykjavík virki alls ekki.  Það þarf greinilega að straumlínulaga þessa starfsemi og einfalda viðskiptavinum hennar lífið, svo að þeir viti nákvæmlega til hvers er ætlazt af þeim, og það á að taka af þeim ómakið að hlaupa á milli embætta Reykjavíkurborgar. 

Embætti byggingarfulltrúa Reykjavíkur virðist í stuttu máli vera illa skipulagt og hafa fallið í þá gryfju gæðastjórnunarkerfa að taka upp mikla skriffinnsku án þess að starfsmönnum þess hafi lánazt að nýta kosti gæðastjórnunarkerfis til sífelldra endurbóta, sem sjánlega gagnist viðskiptavinunum. 

Ein þessara stofnana, sem viðskiptavinir byggingarfulltrúans þurfa að leita til, er Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur.  Í Morgunblaðinu 28. júlí 2017 átti Baldur Arnarson viðtal við Árnýju Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, undir fyrirsögninni:

Mistókst að einfalda kerfið:

"Við getum öll verið sammála um, að lög og reglugerðir, sem Heilbrigðiseftirlitið á að framfylgja, og svo rekstraraðilar og almenningur að fara eftir, geta verið íþyngjandi, og því miður hefur ekki tekizt að einfalda regluverk í raun, eins og vonir stóðu til.  Hins vegar er það svo, að Heilbrigðiseftirlitið hefur ekki heimildir til að gefa afslátt af regluverki; það getur einungis löggjafinn eða ráðuneytin gert.  Síðan er gjarnan kallað eftir auknu eftirliti og kröfum eina stundina, og svo hins vegar minna eftirliti þá næstu."

Þetta er ósannfærandi málflutningur eftir það, sem á undan er gengið.  Hvað hefur Árný Sigurðardóttir gert til að "einfalda regluverkið", og hver stóð gegn því, að svo yrði gert ?  Það er ekki hægt að kasta fram fullyrðingu, eins og hún gerir hér, og síðan að skilja alla enda eftir lausa.  Almenningur á rétt á að vita hið sanna í þessu máli, sérstaklega ef það eru einhverjir stjórnmálamenn, sem vilja gera almenningi óþarflega erfitt fyrir með dýrri og óþarfri skriffinnsku.  

Þá varð stofnun Árnýjar, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, einmitt bert að því í sumar að veita OR/Veitum ekkert aðhald varðandi opnunartíma neyðarlúgu fyrir óhreinsað skolp út í sjó, þótt mengun sjávar væri hátt yfir heilsuverndarmörkum.  Þá gaf þetta Heilbrigðiseftirlit einmitt annarri borgarstofnun verulegan "afslátt af regluverki".  Meira að segja umhverfisráðherra hefur áttað sig á þessu algerlega óviðunandi framferði stofnunar Árnýjar Sigurðardóttur og hefur í kjölfarið heitið því að færa þetta eftirlit frá borg til ríkis.  Verður fróðlegt að fylgjast með efndunum.  

 

 

 

 

 

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband