Ísland á öðru róli

Af skoðanakönnunum að dæma og af atburðum og umræðum á Alþingi má ætla, að hérlendis stefni í fjölflokka stjórn til vinstri í hinu pólitíska litrófi.  Það yrði þá sannkölluð óreiðustjórn frá upphafi til enda, sem litast mundi af vandræðagangi stórra egóa, með lítið vit á fjármálum og atvinnumálum, en hafa komizt upp með ábyrgðarlaust gaspur. 

Það er engum vafa undirorpið, að fjárfestar munu hræðast slíka stjórn, og landsmenn munu sjá undir iljar þeirra með fé úr landi.  Þetta mun hægja á hagvexti, veikja krónuna, ISK, og leiða til kjaraskerðingar með einum eða öðrum hætti. Lánshæfismat ríkisins mun fljótt lækka, þegar hætt verður að borga niður skuldir ríkissjóðs og jafnvel tekið til við að safna skuldum á ný.  Vextir í landinu munu þá óhjákvæmilega hækka og rekstur heimila og fyrirtækja verða erfiðari.

Allt er þetta uppskera smáflokksins, sem sleit stjórnarsamstarfinu aðfararnótt 15. september 2017 í flaustri, æsingi og misskilningi, enda algerlega að óathuguðu máli. Að einhver hafi reynt að hylma yfir eitt eða annað, er ímyndun ein og rangtúlkun á þeirri staðreynd, að dómsmálaráðuneytið hefur alltaf talið sig bundið þagnarskyldu að lögum, en benti í þetta skiptið fréttamanni, sem leitaði upplýsinga, á að fá úrskurð "Urskurðarnefndar upplýsingamála" um, hvað væri löglegt að birta.  Samkvæmt úrskurðinum má birta sumt, en annað ekki.  Eftir úrskurðinn var forsætisráðherra ekki lengur bundinn þagnarskyldu og sagði formönnum samstarfsflokkanna í ríkisstjórn frá margumræddri undirskrift föður síns. 

Þetta tvíeyki smáflokkanna í ríkisstjórn gerði hins vegar ekkert með þessar upplýsingar mánudagsins 11.09.2017. Skýtur það rækilega skökku við það, sem gerðist téða örlaganótt. Þá tók fjallið jóðsótt, og fæddist lítil mús. 

Umboðsmaður Alþingis telur að sjálfsögðu enga ástæðu til að gera nokkurn skapaðan hlut með þann músagang.   Annaðhvort lá stjórn BF á því lúasagi að nota þetta mál sem tylliástæðu til að rjúfa bræðralag Óttars Proppés og Benedikts Jóhannessonar, sem hefur verið henni þyrnir í augum, eða þessi sama stjórn BF kann ekki skil á réttu og röngu.  Slíkt ástand er nefnt siðblinda og er viðsjárverð þeim, er fyrir henni verða. 

Upplausnarástand stjórnmálanna hérlendis er hins vegar ekki pólitíska staðan, sem við blasir annars staðar í Evrópu.  Í Noregi eru nýafstaðnar kosningar til Stórþingsins.  Þar héldu stjórnarflokkarnir, Hægri flokkurinn og Framfaraflokkurinn, sem er hægra megin við Hægri flokkinn, nokkurn veginn sínu, svo að þar heldur borgaraleg, tveggja flokka stjórn væntanlega  áfram störfum, hugsanlega með Frjálslynda flokkinum Venstre, innanborðs, þó að sá kristilegi dragi stuðning sinn við ríkisstjórnina til baka. 

Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinnn, Verkamannaflokkurinn, hefðbundinn krataflokkur, tapaði töluverðu fylgi.  Það er í samræmi við þróunina annars staðar í Evrópu.  Fækkun verkamannastarfa og öldrun samfélaganna í Evrópu og víðar virðist valda því, að tími kratanna er liðinn.  Farið hefur fé betra.  Almenningur finnur, að hann hefur hreinlega ekki lengur efni á kratisma, þegar færra og færra vinnandi fólk þarf að framfleyta fleiri og fleiri heilbrigðum og sjúkum gamlingjum.  Þar er ekki lífeyrissjóðakerfi sambærilegt hinu íslenzka, heldur s.k. gegnumstreymiskerfi beint úr ríkissjóðunum.   

Franski jafnaðarmannaflokkurinn er ekki svipur hjá sjón eftir þingkosningar þar í landi í sumar.  Miðjumaður, bankamaður, var kosinn forseti Frakklands nokkrum vikum fyrr, og tók hann við af hinum kvensama jafnaðarmanni, Francois Hollande.  Þótt frambjóðanda Þjóðfylkingarinnar, frönsku, Marine Le Pen, gengi ekki vel í forsetakosningunum, varð samt hægri sveifla í Frakklandi. Þjóðfylkingin veitir forsetanum aðhald og standi hann sig illa, getur Marine Le Pen fellt forsetann í næstu forsetakosningum.  

Í Þýzkalandi var kosið til Sambandsþingsins, sem aðsetur hefur í Reichstag, gamla þinghúsinu í Berlín, þann 24. september 2017.  Úrslitin má túlka sem ótvíræða hægri sveiflu í þýzkum stjórnmálum, þótt CDU/CSU tapaði 8,5 % og fengi aðeins 33 % atkvæðanna.  Fylgistapið var sérstakt áfall fyrir Bæjarana í CSU, sem ráðið hafa lögum og lofum í Bæjaralandi frá endurreisn Þýzkalands á rústum Þriðja ríkisins 1949.  Tap CDU og CSU var aðallega til Alternative für Deutschland, AfD, sem er flokkur evruandstæðinga og fólks, sem geldur mikinn varhug við flaumi flóttamanna úr framandi menningarheimum til Þýzkalands, en einnig gengu FDP, Frjálsir demókratar, í endurnýjun lífdaganna.  Þótt AfD þyki ekki stjórntækur, sem orkar tvímælis út frá lýðræðissjónarmiðum, mun 90 manna þingflokkur þeirra í Reichstag hafa áhrif á stjórnarstefnuna, hvaða stjórn, sem að lokum tekst að berja saman í Berlín.  

Þýzkir jafnaðarmenn, SPD, guldu afhroð og fengu minnsta fylgi í aldarlangri sögu flokksins.  Stefna jafnaðarmanna um háskattastefnu og gríðarlegar millifærslur til alls konar hópa, sem eru þeim þóknanlegir, fellur ekki lengur evrópskum kjósendum í geð.  Þá gæti hrifning jafnaðarmanna í Evrópu af Evrópusambandinu, ESB, átt þátt í minnkandi stuðningi við þá, en mörgum geðjast illa að yfirþjóðlegu valdi í Evrópu, sbr BREXIT.  Það fjarar víðast hvar undan þeim, og það gæti verið óafturkræf atburðarás.  

 

 

Björn Jón Bragason, lögfræðingur og sagnfræðingur, er áhugamaður um þýzk stjórnmál.  Sumarið 2017 var hann staddur í Berlín og kynnti sér starfsemi og kosningabaráttu CDU (Christlich Demokratische Union), sem hann nefnir systurflokk Sjálfstæðisflokksins.  Þann 11. september 2017 ritaði hann grein í Morgunblaðið,

"Frú Merkel og Sjálfstæðisflokkurinn".

Þar kvað hann megininntakið í tali starfsfólks CDU hafa verið eftirfarandi:

""Við erum flokkur allra stétta; við erum flokkur verkamannsins í bifreiðaverksmiðjunni í Stuttgart og kaupsýslumannsins í Hamborg, vínbóndans í Rínardölum og kennarans í Berlín."

Flokkurinn hefur á að skipa öflugum launþegasamtökum, CDA, og þá er innan vébanda hans starfandi hreyfing lítilla og meðalstórra fyrirtækja, en bæði þessi aðildarsamtök hafa mikil áhrif á mótun stefnu flokksins og framkvæmd mála."

Í ljósi þess, að CDU er talinn vera einn af systurflokkum Sjálfstæðisflokksins í Evrópu og að CDU ásamt bandalagsflokki sínum í Bæjaralandi, CSU, hefur tekizt að halda fylgi sínu lengst af frá stofnun á rústum Þriðja ríkisins á bilinu 35 %-45 % í kosningum til neðri deildar þýzka sambandsþingsins, og CSU hefur haft meirihluta í Bæjaralandi, þá er fróðlegt að kynnast megindráttum skipulags og stefnumörkunar CDU.  Í tíð Angelu Merkel hefur reyndar verið uppi óvenjumikill ágreiningur á milli CDU og CSU, sem bendir til, að hún hafi fært CDU til vinstri,  t.d. varðandi lágmarkslaun, kjarnorkuver og flóttamenn, en einnig endurspeglast þar menningarmunur á milli Lúthersmanna norðursins og kaþólikka suðursins. 

Undir lok greinar sinnar dregur Björn Jón eftirfarandi ályktanir um það, hvað sjálfstæðismenn þurfa að gera eftir að hafa leitað í smiðju stjórnmálaflokks, sem stöðugt höfðar til 30 % - 40 % Þjóðverja (utan Bæjaralands).  Það er hægt að taka heils hugar undir með Birni Jóni:

"Eigi Sjálfstæðisflokkurinn að öðlast aftur fyrri stöðu sem 40 % flokkur, er nauðsynlegt að líta til þeirra grundvallaratriða, sem hér eru nefnd.  Flokkurinn hefur fyrir löngu glatað öllum tengslum við verkalýðshreyfinguna og fátt verið gert til að bæta rekstrarstöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja.  Eiginfjármyndun almennings og fyrirtækja eru settar alltof þröngar skorður með óhóflegri skattheimtu og íþyngjandi regluverki. Þá hefur á mörgum sviðum atvinnulífsins orðið óeðlilega mikil samþjöppun og litlir atvinnurekendur átt í vök að verjast."

Til að undirstrika það, hversu hóflaus útþensla ríkisbáknsins hefur verið, er rétt að rifja upp nokkrar staðreyndir, sem annar mikill baráttumaður fyrir kjölfestu borgaralegs samfélags, litla framkvæmdamanninn, og í mörgum tilvikum frumkvöðulinn, Óli Björn Kárason, Alþingismaður, tíundaði í Moggagrein 30. ágúst 2017:

Skatttekjur ríkissjóðs 2016 voru um miaISK 229 hærri að raunvirði en árið 2000 [ÓBK-annað hér á eftir er frá BJo].  Það er MISK 2,7 meira á hverja fjögurra manna fjölskyldu m.v. íbúafjölda í árslok 2016.  Meginskýringarnar á þessari svakalegu hækkun eru meiri vaxtakostnaður og aukin útgjöld til heilbrigðis- og almannatryggingamála.  Vegna öldrunar þjóðarinnar mun mikil aukning ríkisútgjalda rýra lífskjör vinnandi fólks hratt, ef hækkunum er ekki andæft. 

Andófið felst í að greiða niður skuldir, auka skilvirkni heilbrigðiskerfisins með fjölbreytilegum rekstrarformum, sem keppa um fjárveitingar ríkisins (fé fylgir sjúklingi), efla lýðheilsuna með námsefni í skólum um skaðsemi óheilbrigðs lífernis og hækkun lífeyrisaldurs.  Vinstri flokkarnir hafa engan áhuga á að setja ríkisútgjöldum skorður, hvorki í bráð né lengd.  Óráðsstefna þeirra mun leiða ríkissjóð og hag þjóðarinnar í fullkomið óefni, ef hún verður ofan á við ríkisstjórnarborðið.  

 


Vinstra öngþveiti yfirvofandi

Hlutabréfamarkaður og gjaldeyrismarkaður hérlendis tóku fréttum af stjórnaslitum aðfararnótt 15. september 2017 ekki vel.  Um  miaISK 40 af markaðsvirði fyrirtækja hvarf út í buskann fyrstu vikuna eftir stjórnarslitin og miaISK 20 hafa bætzt við tapið síðan. Það er skiljanlegt, og ekki verður útlitið björgulegra fyrir þjóðarhag í kjölfar skoðanakannana, sem birtust 19. september 2017 og benda til, að næsta ríkisstjórn geti orðið fjölflokkastjórn undir forsæti formanns Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, Katrínar Jakobsdóttur, litlu stúlkunnar með eldspýturnar og púðurtunnuna, sem hún ætlar að setja undir ríkiskassann, ef marka má boðskap hennar við gerð fjárlagaáætlunar vorið 2017.   

Það, sem sameinað getur flokkana, sem nú eru á þingi, gegn Sjálfstæðisflokkinum, er eindregin ósk þeirra allra um að auka enn við skattabyrði almennings.  Ríkisútgjöld og ríkisafskipti verða þanin út, komist þeir til valda, eins og téð Katrín boðaði í vor við gerð ríkisfjármálaáætlunar. Sjálfstæðisflokkurinn einn stendur gegn skaðlegum ofvexti ríkisumsvifa, og það auk heilbrigðrar þróunar atvinnulífsins til nauðsynlegrar verðmætasköpunar alþýðu til heilla er meginhlutverk hans í íslenzkum stjórnmálum. Hinir flokkarnir hafa miklu meiri áhuga á eyðslu fjármuna og skattheimtu en eflingu atvinnulífs og verðmætasköpun.

Eftir kosningar mun almenningur sitja vonsvikinn með afleiðingarnar, fái Sjálfstæðisflokkurinn laka útkomu, sem verða veruleg rýrnun kaupmáttar vegna verðminni króna (ISK) af völdum mikillar gengisveikingar og verðbólgu, sem er óumflýjanlegur fylgifiskur efnahagsstefnu vinstri grænna

Katrín Jakobsdóttir þykist geta lofað öllum öllu, eins og ríkisfjárhirzlurnar séu ótæmandi hít, en því fer víðs fjarri í raun. Auðveldast af öllu er að breyta rekstrarafgangi ríkissjóðs Íslands í rekstrarhalla, hækka skatta og samtímis að safna skuldum.  Allt er það ávísun á stöðnun hagkerfisins, atvinnuleysi og lakari lífskjör þorra fólks, einkum hinna lakast settu, eins og dæmin sanna.

Sjálfstæðisflokkurinn, einn flokka á Alþingi, berst fyrir hagsmunum skattgreiðenda.  Annars væru skattgreiðendur algerlega berskjaldaðir.  Þessir hagsmunir eru fólgnir í því, að stjórnmálamenn séu gætnir í meðferð ríkisfjár og gæti þess, að ríkisútgjöld vaxi ekki umfram almennan hagvöxt í landinu.  Meðulin, sem Sjálfstæðisflokkurinn vill beita í þessu skyni, eru, að eignum ríkisins verði ráðstafað á arðsamari hátt en nú er raunin, peningarnir látnir vinna og að styrkur frjálsrar samkeppni verði nýttur til að veita betri og ódýrari opinbera þjónustu, t.d. á sviðum lækninga og kennslu.

  Óli Björn Kárason er einn ötulasti talsmaður einkaframtaks á Alþingi nú um stundir og verður að vona, að hann verði það einnig á næsta þingi.  Hann skrifaði hugvekju í Morgunblaðið 30. ágúst 2017:

"Áskoranir ríkisstjórnir: útgjaldavandi og nýting eigna" . 

Ríkisstjórnin, sem hann skoraði á, var felld með lúalegum hætti aðfararnótt 15. september 2017 af einum samstarfsflokkanna, en áskorunin er í fullu gildi fyrir næstu ríkisstjórn, hvernig sem sú mun nú líta út:

"Í félagi við Brynjar Níelsson og Harald Benediktsson lagði ég í janúar síðastliðnum fram þingsályktunartillögu um sölu ríkiseigna, lækkun skulda ríkissjóðs og fjárfestingu í innviðum.  Tillagan náði ekki fram að ganga, en í greinargerð var m.a. bent á, að með nokkurri einföldun megi segja, að Íslendingar standi frammi fyrir tveimur kostum:

"Annars vegar getur ríkið áfram átt fyrirtæki, hús, jarðir og fleira og búið við þungar vaxtagreiðslur á komandi árum með tilheyrandi lakari þjónustu og hærri sköttum.  Hins vegar er hægt að selja hluta eigna ríkisins og greiða niður skuldir.  Þar með lækka vaxtagreiðslur, og fjármunina, sem sparast, má nýta til að byggja upp heilbrigðis-, mennta- og samgöngukerfi og lækka skatta."

Í greinargerðinni er því haldið fram, að lækkun skulda ríkisins sé eitt brýnasta verkefni samtímans og mikilvæg forsenda bættra lífskjara.  Það sé ekki eftirsóknarvert fyrir almenning að eiga hlut í bönkum eða öðrum fyrirtækjum með sameiginlegu eignarhaldi ríkisins, ef greitt er fyrir eignarhaldið í formi verri lífskjara með hærri sköttum og verri þjónustu hins opinbera."

Hér er í raun bara verið að halda heilbrigðri skynsemi á lofti, og það er alveg dæmigert fyrir núverandi samsetningu Alþingis, að þingmenn skyldu ekki vilja veita þessari tillögu brautargengi.  Hún vísar þó veginn til að bæta nýtingu á fjármunum ríkisins almenningi öllum til hagsbóta.  Sjálfstæðisflokkurinn, einn flokka á Alþingi, er fús til að leyfa heilbrigðri skynsemi að ráða við ráðstöfun ríkiseigna, en pólitískar kreddur hindra aðra flokka í að hoppa á vagninn með Sjálfstæðisflokkinum, og vinstri grænir eru svo gaddfreðnir ríkisafskiptasinnar, að þeir mega ekki heyra minnzt á neitt annað en skattahækkanir til auka þjónustu við almenning.  Í landi einna skattpíndustu þjóðar heims mun skattahækkun ekki skapa neina sjálfbæra tekjuaukningu fyrir ríkissjóð, heldur aðeins rýra lífskjörin og hægja á hagvexti.  

Nú hefur Framsóknarmaddaman tekið til við að snyrta á sér vinstri vangann.  Lilja Alfreðsdóttir Þorsteinssonar lagði 19. september 2017 fram þá tillögu í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, að Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, yrði sviptur formennsku, Viðreisnarmaður flyttist úr varaformennsku í formennsku og Svandís Svavarsdóttir yrði varaformaður.  Tillagan var samþykkt, enda stjórnarmeirihlutinn fallinn, og þar með er hafið samstarf Framsóknarflokksins við vinstri glundroðaöflin að hætti ólánsams R-lista í höfuðborginni, sem gefa mun tóninn í kosningabaráttunni og í viðræðum um myndun ríkisstjórnar að kosningum afloknum 28. október 2017. Síðar gerðist það hins vegar, að Framsóknarflokkurinn klofnaði, og Samvinnuflokkur (?) og Framsóknarflokkur munu eiga erfitt um samstarf á hvaða vettvangi sem er. Þetta mun bæta vígstöðu Sjálfstæðisflokksins í ýmsum kjördæmum og á Alþingi.  

Kjósendur sjá nú skriftina á veggnum.  Það er verið að leggja drögin að harðsvíraðri vinstri stjórn, sem á eftir að koma okkur á kaldan klaka og sennilega að flýta fyrir hruni lífskjaranna í landinu.  Kjósendur geta aðeins andæft hættunni af vinstri stjórn með því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.  Það er sami botninn undir öllu hinu pakkinu; hann er reyndar hjá Bakkabræðrum suður í Borgarfirði og skyldi engan undra.  

 sovetislandh_my_pictures_falkinn

 


Um hvað eiga þingkosningarnar í haust að snúast ?

Landsmenn hafa nú fengið smjörþefinn af því, hvað það getur kostað þá að leiða smáflokka til valda.  Það er enginn veigur í þeim, þeir leggjast marflatir við goluþyt.  Að leiða þá til öndvegis kallar á óstöðugt stjórnarfar í landinu.  

Fyrst lengir það stjórnarmyndunartilraunir, ef fleiri en tvo flokka þarf til að mynda ríkisstjórn, þingstörf smáþingflokka verða í skötulíki við að manna ráðherrastóla, og mannvalið er sjaldnast beysið, eins og dæmin sanna.  Úthaldið í valdastólunum er takmarkað, og baklandið í flokkunum getur fyrirvaralaust á valdi tilfinninganna snúið baki við samstarfsflokkunum með furðulegum og ósvífnum hætti, eins og varð síðustu ríkisstjórn að aldurtila, langt um aldur fram.  

Vilji kjósendur láta tilfinninguna ráða því, hvaða stjórnmálaflokkur hlýtur atkvæði þeirra í komandi Alþingiskosningum, ætti sú tilfinning að vera trauststilfinning.  Hvaða stjórnmálaflokki treystir þú bezt til að sýna festu og ábyrgð við landsstjórnina á næsta kjörtímabili ?  Það er ábyggilegt, að festa og ábyrgð á æðstu stöðum verður í askana látin hjá almenningi, en ákvarðanafælni, upphlaup og sýndarmennska ekki.  

Ef kjósendur vilja láta rökhyggjuna ráða ferð um það við hvern er krossað á kjörseðlinum, má t.d. spyrja sig þeirrar spurningar, hvaða stjórnmálaflokkur er líklegastur til, m.v. reynsluna, að varðveita bezt þau hámarks lífskjör, sem landsmenn njóta nú ?  

Sjálfstæðisflokkurinn hefur langflesta félaga innanborðs, félaga, sem mynda grasrót flokksins um allt land og kjölfestu allra sveitarfélaga á Íslandi.  Þingmenn flokksins gjörþekkja lífsbaráttu íslenzku þjóðarinnar, eru flestir alþýðufólk og vinna í anda hinna gömlu slagorða flokksins:

"Stétt með stétt" og "Eign handa öllum". 

Það er þess vegna engin hætta á öðru en þingmenn og ráðherrar flokksins séu með gott jarðsamband og stjórni með hagsmuni alþýðunnar fyrir augum. Fámenn klíka, 40-50 manns, eins og hjá smáflokkunum í ríkisstjórninni, getur ekki tekið völdin í Sjálfstæðisflokkinum og steypt ríkisstjórninni upp úr þurru, sízt af öllu að næturþeli á valdi tilfinninganna og án þess að ræða ágreiningsefnið við samstarfsflokkana.  Ótrúleg hegðun BF er einstæð, enda lítilmótleg, og verður í annála færð sem slík, því að Umboðsmaður Alþingis hefur lýst því opinberlega yfir, að hann sjái alls ekkert tilefni til rannsóknar á leyndarhyggju, yfirhylmingu eða trúnaðarbresti.  Ekkert af þessu var fyrir hendi í raun og veru, en grasseraði í heilabúum taugaveiklaðs pólitísks smælkis.   

Margir þingmanna Sjálfstæðisflokksins, og má benda á Óla Björn Kárason í kjördæmi blekbónda til vitnis um það, eru þeirrar skoðunar, að "litli atvinnurekandinn" sé kjarninn í sínu byggðarlagi og að þeir saman séu kjölfesta miðstéttarinnar í landinu.  Þetta getur verið Jódýnus, vinnuvélaeigandi og verktaki, Björn, bóndi, Njörður, útgerðarmaður, Eldon, rafvirkjameistari, Smiður, byggingarmeistari, Pétur, prentsmiðjueigandi eða Kristín, tannlæknir, svo að fáein dæmi séu nefnd, sem margir þekkja.  

Lítil og meðalstór fyrirtæki veita langflestum launamönnum vinnu, og þau eru oft í harðri samkeppni við mun stærri fyrirtæki, sem hafa aðgang að ódýru fjármagni á hlutabréfamarkaði, meira að segja frá lífeyrissjóðum.  Sjálfstæðisflokkurinn vill standa vörð um hagsmuni litlu og meðalstóru fyrirtækjanna, launþeganna, sem hjá þeim starfa, og allra neytenda með því að jafna samkeppnisskilyrðin og lækka alla skatta í kjölfar niðurgreiðslu ríkisskulda, jafnt beina sem óbeina. Báðar gerðir skattheimtu hafa verið lækkaðar að tilstuðlan sjálfstæðismanna á undanförnum árum, en með lækkun vaxtakostnaðar og drjúgum hagvexti skapast skilyrði til að gera enn betur.  Sjálfstæðismenn eru einir um þessa skoðun á Alþingi.

Í fjármálaráðherratíð Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili var gerð gangskör að þessu með afnámi tolla og vörugjalda á allt, nema jarðefnaeldsneytisknúna bíla, og með afnámi miðþreps tekjuskatts einstaklinga.  Þá var bilið á milli VSK þrepanna stytt með því að færa þau nær hvort öðru, og ríkisstjórn þessa kjörtímabils ætlaði að lækka efra þrep VSK enn meir eða niður í 22,5 % með breikkun skattstofns. 

Hins vegar setti fjármálaráðherrann, Benedikt Jóhannesson, í fjárlagafrumvarp 2018 inn gríðarlega hækkun á eldsneytisálögum, sem ekki njóta stuðnings allra þingmanna Sjálfstæðisflokksins, þótt honum hafi verið leyft að leggja frumvarpið fram með fyrirvörum um breytingar í meðförum þingsins.  Þannig átti dísilolíuverð að hækka um 18 kr/l + kolefnisgjald + VSK og benzínverð um 8 kr/l + kolefnisgjald + VSK.  Þetta er mjög íþyngjandi hækkun fyrir fjölskyldurnar og atvinnulífið, sem rýrir kaupmáttinn og hlýtur að enda úti í verðlagi vöru og þjónustu.  Hækkanirnar eru skaðlegar og óverjandi með vísun til orkuskipta, því að innviðir orkuskipta eru enn í skötulíki hérlendis og víðast hvar erlendis.  

Það er óheppilegt fyrir stöðugleika stjórnarfarsins að fylgi kjósenda dreifist á marga flokka.  Þriggja flokka stjórnir, hvað þá með fleiri flokka innanborðs, eru veikar, eins og dæmin sanna, og vilji kjósenda birtist ekki sem skyldi í stjórnarstefnunni vegna mikillar útþynningar og málamiðlana.  Í raun og veru spanna 3,5 flokkar öll meginsjónarmið, þ.e. frjálslyndra borgaralegra viðhorfa hægra megin við miðju, xD, einn flokkur, spannar miðjuna, xB, og sá þriðji spannar vinstri stefnu, xV.  Þessi hálfi, xC, með fáfróða ráðgjafarráðið með ranghugmyndir um starfsstjórn o.fl, getur spannað þá, sem eindregið vilja, að Alþingi afsali fullveldi landsins til leiðtogaráðs ESB í Brüssel.

Þeir kjósendur, sem vilja ráðdeild og skilvirkni í ríkisrekstri með fjölbreytni rekstrarforma á þjónustu ríkisins, velja Sjálfstæðisflokkinn.  Þeir, sem vilja háskattastefnu, stöðvun á lækkun skulda ríkissjóðs og hraðfara útþenslu ríkisbáknsins, þeir kjósa vinstri græna.  Síðan ræðst framhaldið af því, sem upp úr kjörkössunum kemur, en verði kaupin þessi á eyrinni, þá verður a.m.k. fræðilega hægt að mynda tveggja flokka ríkisstjórn.  Það er heimskulegt fyrirfram að útiloka nokkurn stjórnmálaflokk til samstarfs, eins og t.d. píratar hafa verið gjarnir á að gera.  Slíkt ber ekki vitni um virðingu fyrir lýðræðinu, enda eru þeir vargar í véum.   

 


Sauðfjárræktin-dauði eða dagrenning

Það hafa ýmsir, þ.á.m. fráfarandi landbúnaðarráðherra, farið mikinn út af meintu kjötfjalli af völdum offramleiðslu sauðfjárbænda.  Nú er komið í ljós, að allt er þetta stormur í vatnsglasi; birgðirnar við upphaf sláturtíðar haustið 2017 voru svipaðar og vant er, tæplega tveggja mánaða innanlandsneyzla. Verið er að kenna ferðamönnum hérlendis átið á lambakjöti og útflutningur hefur braggazt.  Kínamarkaður er sagður munu geta tekið við a.m.k. 1 kt/ár af ærkjöti og lambakjöti f.o.m. næsta ári.  Það er bara brot af öllu því lambakjöti, sem kínverska miðstéttin er farin að sporðrenna nú þegar. Það er engin þörf á 20 % fækkun sauðfjárbænda, eins og bullustampurinn á stóli landbúnaðarráðherra hefur slengt fram, ekki einu sinni 10 % - 20 %.  

Í sambandi við matarbirgðir í landinu er rétt að hafa í huga, að jarðvísindamenn eru nú teknir að minna á, að á næstu 50 árum megi búast við stórgosi á Lakagígasvæðinu með svipuðum áhrifum á loft og jörð og í Móðuharðindunum 1783-1786.  Þá eru líka hafðar uppi áhyggjur um, að vegna langs meðgöngutíma Kötlu muni næsta gos hennar verða eitt af hennar stærstu, sem þýðir jafnvel enn meira af gosefnum úr iðrum jarðar en í Móðuharðindunum.  

Við þessar aðstæður munu flugsamgöngur við landið að líkindum lamast og landið verða að reiða sig á flutninga með skipum.  Þá verður ómetanlegt að hafa enn dugmikla og þrautseiga matvælaframleiðendur innanlands sem fjærst ósköpunum, t.d. á Norð-Vesturlandi og á Norð-Austurlandi.  Verulegt matvælaöryggi færi fyrir lítið, ef landbúnaður, þ.m.t. sauðfjárrækt, legðist að mestu af á þessum svæðum, en þau eru líklega á meðal harðbýlustu svæða landsins. 

Á Íslandi voru framleidd um 10,4 kt lambakjöts árið 2016.  Þá nam innanlandsneyzla þess um 6,8 kt, að neyzlu erlendra ferðamanna, um 0,6 kt, meðtalinni.  Mismuninn, 3,6 kt, þarf að afsetja á erlendum mörkuðum.  Evrópskur markaður er yfirfullur af kjöti, eftir að Rússar svöruðu viðskiptaþvingunum BNA og ESB með innflutningsbanni á matvæli og Íslendingum var flækt í þessar viðskiptaþvinganir, sem þeir áttu ekkert erindi í.  Verð fyrir lambakjöt hefur af þessum sökum lækkað erlendis , sem hefur leitt til verðlækkunar hérlendis og tilfinnanlegs tjóns fyrir bændur, sem stefnir lífsafkomu þeirra í voða.

Fráfarandi landbúnaðarráðherra eru mjög mislagðar hendur við að fást við þetta mál, sem og önnur vandamál.  Hennar lausn er fólgin í að fækka bændum með því að kaupa þá burt af búum sínum.  Þetta er mjög óviturleg leið, sem þjónar landinu ekki til lengdar, af því að af henni getur leitt byggðahrun, jafnvel þar, sem landsmönnum ríður á af öryggisástæðum að hafa byggð, eins og áður var drepið á.

Óli Björn Kárason, Alþingismaður í Kraganum, reit tímamótagrein um málefni sauðfjárræktarinnar í Morgunblaðið, 13. september 2017, sem hann nefndi:

"Erum við að pissa í sauðskinnsskóinn ?"

Þar gaf hann landbúnaðarráðherra falleinkunn með eftirfarandi hætti:

"Að sama skapi má færa fyrir því rök, að tillögur ráðherrans til lausnar vandanum séu gamaldags og eigi fremur skylt við að pissa í skóinn en að styrkja heilbrigðar undirstöður byggðar og landbúnaðar."

Fái þessi ráðherra um tvo kosti að velja, skal hún ævinlega velja verri kostinn.  Það þykir bera órækan vott dómgreindarskorts og þekkingarleysis, sem er dauðadómur yfir ráðherra, sem þarf að taka margar mikilvægar ákvarðanir á dag, sem flestar varða þjóðarhag.  

Síðan kemur heilræði frá Óla Birni, sem bændur ættu að íhuga vandlega:

"Margir í bændastétt hljóta að líta í eigin barm og spyrja, af hverju þeir hafi skilgreint sig sem launamenn, en ekki sjálfstæða atvinnurekendur, sem eru burðarstólpar sinna samfélaga.  Þetta viðhorf hefur litað öll samskipti við stjórnvöld."

Það hefur margoft komið fram á stuttum ferli fráfarandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hversu úrræðalaus hún er. Haraldur Benediktsson, Alþingismaður, hefur nefnt úrræði hennar í málefnum sauðfjárbænda "eyðibýlastefnu", og það má bæta um betur og kenna afstöðu hennar við sveitaauðn, því að fyrst gætu ungir bændur flosnað upp og síðan hinir elztu.  Hvað hefur Óli Björn um þetta að segja ?:

"Vera kann, að hugmyndir um 20 % fækkun sauðfjár séu reistar á traustum upplýsingum [Þær eru það ekki, því að kjötbirgðir fyrir haustslátrun 2017 voru venjulegar og eðlilegar. Rétt einu sinni gerði Þorgerður Katrín sig seka um flaustursleg vinnubrögð.  Hún virðist ekki kunna að vinna. - innsk. BJo], en tillögur ráðherra um, hvernig þeirri fækkun skuli ná, fela í sér þá hættu, að það verði fremur yngri bændur en þeir eldri, sem hætti sauðfjárbúskap, hagkvæmari bú hætti, en þau, sem óhagstæðari eru, haldi áfram.  Ekkert í tillögunum gefur tilefni til þess, að bændur geti gert sér vonir um, að hagur þeirra batni á komandi árum."

"Ég óttast, að verið sé að leggja upp í vegferð, sem getur endað illa.  Verið sé að búa til fátæktargildrur til sveita í stað þess að styrkja stoðir undir sjálfstæðan atvinnurekstur."

Þetta gefur tilefni til að ætla, að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sé versta forsending, sem bændur þessa lands hafa fengið á stól landbúnaðarráðherra frá fullveldi.  Flokkur hennar kemst vonandi ekki á blað í nokkru einasta landsbyggðarkjördæmi 28. október 2017.

Í lok greinar sinnar setur Óli Björn Kárason fram tillögu að gjörólíkri stefnu í málefnum sauðfjárbænda, sem næsta ríkisstjórn gerir vonandi að sinni:

"Sett er greiðslumark fyrir beingreiðslur, þ.e. það heildarmagn framleiðslu, sem rétt á á beingreiðslum.  Gæðastýringargreiðslum er hætt.  Beingreiðslur miðast við ákveðið lágmarksbú - a.m.k. 100 kindur - og bundnar því skilyrði, að öll framleiðsla sé samkvæmt viðurkenndum gæðastöðlum - m.a. er varðar velferð dýra og ábyrga meðferð á landi, heilnæmi og heilbrigði framleiðslunnar."

 

Nú eru sauðfjárbændur að aðalstarfi rúmlega 1100 talsins.  Beingreiðslur til þeirra námu árið 2016 miaISK 3,1, þ.e. um 2,8 MISK/bú eða tæplega 300 ISK/kg af lambakjöti.  Í kerfi ÓBK mun þessi heildarupphæð líklega verða svipuð:

  • "Greiðslumarkinu [t] er í upphafi skipt niður á einstök bú/bændur samkvæmt sanngjarnri reglu (t.d. hlutdeild í framleiðslu undangengin 3 ár).
  • Handhafar greiðslumarks eiga rétt á beingreiðslum á hverja einingu framleiðslunnar upp að greiðslumarki sínu.
  • Greiðslumark hvers árs er nokkuð undir áætlaðri innanlandseftirspurn, t.d. 95 %.
  • Framleiðsla umfram greiðslumark er heimil, en nýtur ekki beingreiðslna.  Fyrir framleiðslu umfram greiðslumark fá bændur það verð, sem sláturleyfishafar og/eða aðrir kaupendur eru tilbúnir að greiða. Verðið verður því lægra þeim mun meira, sem framleitt er umfram greiðslumarkið.  Að sama skapi verður verðið hærra eftir því, sem eftirspurn er meiri, ekki sízt, ef vel tekst til á erlendum mörkuðum.
  • Greiðslumark bænda er framseljanlegt bæði varanlega og til skamms tíma.  Þá getur verið rétt að setja inn ákvæði um, að enginn bóndi (sauðfjárbú) geti farið yfir ákveðna hlutdeild af heildargreiðslumarki (líklega undir 1 %).
  • Kerfið er til langs tíma (15-20 ár).

Hér er komin fram heildstæð stefnumörkun í málefnum sauðfjárbænda, sem ber af eins og gull af eyri hrákasmíði fráfarandi landbúnaðarráðherra, sem ekki virðist kunna réttri hendi í rass að taka.  Hvernig skyldu þingmenn á borð við Harald Benediktsson og bændaforystan taka þessum tillögum ?  Þær hefðu helzt þurft nú þegar að vera komnar til framkvæmda.  

 

 

 

 

 

 

 


Að ganga í endurnýjun lífdaganna

Íslenzka hagkerfið hefur tekið stakkaskiptum á einum áratugi.  Á ytra borði lýsir þetta sér í lengra hagvaxtarskeiði og peningalegu stöðugleikaskeiði en áður, og að eignastaða landsins við útlönd er orðin jákvæð, sem vonandi verður viðvarandi staða.  Sama má segja um viðskiptajöfnuðinn við útlönd.  Hann bætir stöðugt gjaldeyrisstöðu landsins. Skuldir ríkisins eru þó enn þungbærar,  miaISK 900, þótt þær hafi verið lækkaðar um miaISK 600 eða 40 % síðan árið 2012.   

Á innra borði hefur orðið grundvallarbreyting á eignarhaldi fyrirtækja.  Óþarft er að minnast á mikla ríkiseign í fjármálakerfinu, um 400 miaISK, sem er í senn óeðlilegt og óhagkvæmt ástand og breytist vonandi til batnaðar á næsta kjörtímabili, þótt nú um stundir blási ekki byrlega fyrir borgaralegri ríkisstjórn eftir næstu kosningar. Það virðast of margir ætla að renna blint í sjóinn og láta pírata og enn smærri flokka fá atkvæði sitt, svo að ekki sé nú minnzt á ótrúlega mikið fylgi Vinstri hreyfingarinnar græns framboð í mælingum á fylgi flokkanna, en sá flokkur er gaddfreðinn ríkiseinokunarflokkur og háskattaflokkur.

Með andvirði eigna ríkissjóðs í fjármálakerfinu mætti tæplega helminga útistandandi skuldir ríkisins. Auk skuldalækkunar ríkissjóðs hefur sú róttæka breyting orðið á eignamyndun í þjóðfélaginu, að lífeyrissjóðum landsmanna hefur vaxið mjög fiskur um hrygg, og nemur andvirði eignar þeirra um þessar mundir um miaISK 3´500 eða um 1,4 x VLF.

Innflæði iðgjalda er enn mun meira en útflæði lífeyris úr lífeyrissjóðum landsmanna, og mun árleg fjárfestingarþörf þeirra þar af leiðandi vera yfir miaISK 100.  Á haftaárunum eftir hrun fjármálamarkaðarins 2008 fjárfestu lífeyrissjóðirnir gríðarlega innanlands, og enn fjárfesta þeir mikið hér vegna meiri arðsemi og hærra vaxtastigs.  Allur gangur er á skynseminni í þessum fjárfestingum.  Ótrúlega óvandað var af nokkrum sjóðum og banka að leggja lag sitt við ævintýramann í Helguvík, sem ekkert kunni til verka við uppbyggingu iðnaðarfyrirtækis, heldur keypti allt sitt úr hverri áttinni, þar sem ódýrast var.  Hönnunin varð þá í skötulíki og miklir hnökrar reyndust við samtengingar, eins og búast mátti við.  Þetta er dauðadómur yfir verksmiðju nú á dögum, þegar allur búnaður þarf að geta "talað saman" um samskiptakerfi verksmiðjunnar.  Gagnstæð aðferðarfræði er viðhöfð í þýzku kísilverksmiðjunni, PCC, á Bakka við Húsavík, þar sem verksmiðjuhönnun, hönnun búnaðar og innkaup eru á einni hendi, svo að allt framleiðsluferlið verður samhæft.  Þarf ekki annað en að bera saman útlit verksmiðjanna í Helguvík og á Bakka til að átta sig á, að með ólíkum hætti er staðið að hönnun þessara tveggja verksmiðja.  

Niðurstaðan varðandi lífeyrissjóðina í landinu er orðin sú, að þeir eru nú ríki í ríkinu, stærsti eigandinn að íslenzku athafnalífi, þegar litið er á þá sem heild.  Þetta er íslenzk útgáfa af "Mitbestimmungsberechtigkeit" eða meðákvörðunarrétti starfsmanna um stjórnun þýzkra fyrirtækja.  Hagsmunir starfsmanna og eigenda fara saman; í raun og veru í meiri mæli á Íslandi en í Þýzkalandi vegna þess, að íslenzkir starfsmenn eiga orðið stóran hlut í mörgum fyrirtækjum á Íslandi með aðild lífeyrissjóðanna, og fulltrúar starfsmanna og atvinnurekenda skipa stjórnir fyrirtækjanna, en í Þýzkalandi er yfirleitt ekki þessu sterka eignarhaldi starfsmanna til að dreifa. 

Þetta eru sterk rök fyrir friði hér á vinnumarkaði og hófsömum launahækkunum í takti við framleiðniaukningu fyrirtækjanna og samkeppnishæfni útflutningsatvinnuveganna vegna þess, að hagur fyrirtækjanna er nú orðinn hagur launþeganna. Ef fyrirtækjunum gengur illa, þá mun lífeyrir launþeganna skerðast að sama skapi.  Allir eru í sama báti. Þessi þróun er útfærsla á hinum gömlu og góðu slagorðum Sjálfstæðisflokksins, "Eign handa öllum" og "Stétt með stétt".

Sá, sem liggur óbættur hjá garði hér, er þó litli atvinnurekandinn, einyrkinn, sem byrjaði með tvær hendur tómar, og efldi fyrirtæki sitt með elju og þrautseigju, svo að það er e.t.v. komið með 10 manns eða fleiri í vinnu, stundum.  

Þessi maður býr við mjög erfiða samkeppnisstöðu oft og tíðum, og þarf oftar en ekki að berjast við risana, sem t.d. lífeyrissjóðir hafa fjárfest í.  Hér er komið að litlum og meðalstórum fyrirtækjum, eins manns og upp í 80 manna fyrirtæki.  Þau brauðfæða flesta launamenn og standa oft í harðri samkeppni við fyrirtæki með opinberu ívafi og við stórfyrirtæki, sem m.a. lífeyrissjóðirnir eiga.  Það er kominn tími til að létta þessum litlu og meðalstóru fyrirtækjum lífið með minni skriffinnskukröfum að hálfu hins opinbera og skattalækkunum, t.d. þannig, að af fyrstu 20 starfsmönnum hvers fyrirtækis þurfi aðeins að greiða 50 % tryggingagjald.

Ráðdeild þarf almennt að efla í þjóðfélaginu.  Þess vegna þarf að ýta undir sparnað, og það getur hið opinbera gert með því að draga úr skattheimtu á fjármagnstekjur, fara aftur niður í 10 % fjármagsntekjuskatt og hætta að skattleggja verðbætur á sparnað. 

Húsnæði er of dýrt, hvort sem er eignarhúsnæði eða leiguhúsnæði.  Þetta er litlum fyrirtækjum, ungu fólki og eldri borgurum, þungt í skauti.  Alþingi getur sett lög til að stemma stigu við þessu, sem ákvarði hámark heildar fasteignagjalda 0,2 %/ár af verðmæti fasteignar og lóðar (fasteignamati) og afnemi lágmarkið.  Þar með skapast samkeppni á milli sveitarfélaga um íbúa og fyrirtæki, sem er veitir sveitarstjórnum aðhald. 

Sérstaka lagasetningu þarf um auðlindargjald af vatnsréttindum, sem Hæstiréttur hefur úrskurðað, að viðkomandi sveitarfélög megi innheimta af virkjunareiganda sem fasteignagjald af metnu verðmæti vatnsréttindanna. Þar kemur 0,5 %/ár, til greina.

Fartækjaútgerð er töluverður kostnaðarþáttur hjá litlum fyrirtækjum og hjá fjölskyldunum.  Í fjárlagafrumvarpi 2018 er gert ráð fyrir óhóflegri aukningu á gjaldtöku af eldsneyti með 18 kr/l hækkun á dísilolíu og 8 kr/l hækkun á benzíni og tvöföldun kolefnisgjalds til viðbótar, auk VSK.  Sjálfstæðismenn á þingi hafa gert athugasemdir við þessar gríðarlegu hækkanir,  enda ná þær engri átt og ætti að lækka hækkunina á báðum eldsneytistegundunum um 8 kr/l og fresta kolefnishækkuninni.  Stjórnvöld geta enn ekki með réttu réttlætt miklar eldsneytishækkanir og hækkun kolefnisgjalds með þörfinni á að hraða rafbílavæðingu, af því að innviðauppbygging fyrir rafvæðingu bílaflotans er allt of skammt komin til að rafbílavæðing geti orðið almenn. Það stendur enn upp á yfirvöld að hraða styrkingu dreifiveitna og uppsetningu tengla, 1x16 A, 3x16 A, 3x32 A, 3x63 A, við fjölbýlishús og á bílastæðum.   

Í tilefni frumvarps til fjárlaga er mjög virðingarvert, að sjálfstæðismenn velti fyrir sér, hvers vegna er þörf á að styrkja hugmyndafræðilegan grundvöll Sjálfstæðisflokksins, og horfi þá gjarna til "systurflokks", sem stöðugt heldur fylgi sínu í grennd við 40 % þrátt fyrir að leiða ríkisstjórn síðan 2005 ?  Grein Björns Jóns Bragasonar, lögfræðings og sagnfræðings, í Morgunblaðinu, 11. september 2017," Frú Merkel og Sjálfstæðisflokkurinn" , var mjög gott innlegg í þessar hugleiðingar.  Meira um það síðar.

Það er m.a. vegna þess, að nauðsynlegt er að hamla gegn sósíalistunum, sem boða, eins og vant er, algerlega ábyrgðarlausa stefnu í fjármálum ríkisins, sem strax mundi leiða til hallarekstrar, skuldasöfnunar og hárrar verðbólgu.  Sósíalistarnir lifa í hugmyndafræðilegri gerviveröld, í sýndarveruleika, sem afneitar staðreyndum.  Þeir reyna að telja fólki trú um, að þeir muni og geti bætt kjör fólks með því að auka samneyzluna upp úr öllu valdi.  Þeir reyna meira að segja að telja fólki trú um, að afkoma þess hafi verið betri áður.  Samt segja tölur, að samneyzlan hefur aldrei verið hlutfallslega hærri en nú á Íslandi og er á meðal þess hæsta, sem þekkist innan OECD.  Skattheimta hins opinbera er svo há, að hún virkar hamlandi á getu atvinnulífsins til fjárfestinga og kjarabóta launþeganna.  Skattheimtan á Íslandi heggur stórt skarð í kaupmátt almennings, ekki sízt þeirra, sem eru undir miðgildi tekna. 

Dæmi um þennan falsboðskap vinstri manna gat að líta í Morgunblaðinu 11. september 2017 í viðtali Sigurðar Boga Sævarssonar við Kolbein Óttarsson Proppé, þingmann VG:

"Ég hef oft velt fyrir mér, hvort fjölskylda á lágmarkslaunum hafi fyrir 30-40 árum [um 1982-innsk. BJo] hugsanlega haft það betra en nú, að teknu tilliti til margs þess, sem fólk þarf að greiða sjálft fyrir, en var áður samfélagslegt. [Þessi fortíðarþrá er fáránleg.  Þá ríkti hér óðaverðbólga og skortur á fjölbreytilegum atvinnutækifærum, og lífsbaráttan var mun erfiðari en nú er.  Annaðhvort er þessum manni, Proppé, ekki sjálfrátt eða hann er loddari af lökustu sort. - innsk. BJo]  Því miður er ábyrgðin í dag í allt of ríkum mæli sett á hvern og einn, óháð tekjum og stöðu viðkomandi. [Þetta eru ótrúleg öfugmæli forræðishyggjumanns m.v. öryggisnetið, sem velferðarkerfið íslenzka hefur strengt á sviðum menntunar, sjúkdóma og elli, svo að eitthvað sé nefnt. - innsk. BJo] Svo virðist sem skattar og samneyzla séu orðin neikvæð orð, og sjálfur hef ég oft verið snupraður fyrir að segjast vilja samneyzlu, sósíalisma. [Þarna talar maður, sem gefur skít í eignarréttinn og telur, að hið opinbera eigi heilagan rétt á að gera eins stóran hlut af sjálfsaflafé almennings upptækan og því sýnist hverju sinni. - innsk. BJo]  Mér finnst því mjög miður og í raun hættulegt, að sett hafi verið ríkisfjármálaáætlun, þar sem kveðið er á um, að ríkisútgjöld megi aldrei fara yfir 41,5 % af VLF.  Það þýðir í raun, að ekki verði hægt að beita ríkissjóði til jöfnunar, ef harðnar á dalnum.  Þetta er stóra myndin, og henni viljum við í VG breyta."

 

Hámark ríkisútgjalda af VLF á Íslandi, sem Kolbeinn Óttarsson nefnir, er með því hæsta í heimi, og hærra hlutfall er algerlega ósjálfbært og sligandi fyrir hagkerfið.  Það er engum til framdráttar, nema síður sé, að hækka það. Slíkt mundi draga alla niður í sósíalistískt svað. Að nefna aukna jöfnun sem ástæðu  aukinnar skattheimtuer er út í hött í landi, þar sem jöfnuður er þegar sá mesti, sem þekkist samkvæmt alþjóðlegum stuðli, GINI.  Sósíalistar eru blindingjar, sem hugsa mjög skammt fram á veg (og sennilega dauflega, þá sjaldan týrir á þeim), svo að þeir gera sér ekki grein fyrir afleiðingum háskattastefnu sinnar.  Þeir eru þess vegna ómarktækir í þessum efnum.

Menn á borð við téðan Proppé, sem hrópa út um borg og bí, að "samneyzlan sé svelt" í landi, þar sem útgjöld ríkissjóðs til heilbrigðismála 2018 eru áætluð miaISK 201 og útgjöld til félags-, húsnæðis- og tryggingamála, eru áætluð miaISK 208, eru hugmyndafræðilega á sömu vegferð og Hugo Chavez og Nicólas Maduro, sem komust til valda í Venezúela undir slagorðum sósíalismans um aukinn jöfnuð í ríkasta landi Suður-Ameríku, en tókst á 10 árum að koma landinu á vonarvöl hungursneyðar og hruns velferðarkerfisins. 

Gammur vokir yfir hræiVetur á Íslandi

 

 

 

 


Vönduð vinnubrögð eða hitt þó

Stjórnmálafyrirbrigðið Björt framtíð, BF, hefur tönnlazt á slagorði sínu, "Vönduð vinnubrögð", í tíma og ótíma og eiginlega ekki haft neitt annað fram að færa í íslenzk stjórnmál.  

Nú hefur BF opinberað fyrir þjóðinni, að fólkið þar innanborðs hefur ekki einu sinni hugmynd um, hvað vönduð vinnubrögð eru í raun, hvað þá að það stundi þau.  Ráðsmennska ráðherra flokksins var mörkuð ákvarðanafælni annars þeirra og upphlaupum og fljótfærnislegum yfirlýsingum hins, svo að ekki sé nú minnzt á furðufatasýningu hennar í ræðusal Alþingis í auglýsingaskyni fyrir vinkonu sína.  Siðlaust athæfi samkvæmt reglum þingsins. Furðufyrirbrigði smáflokkanna eru reyndar "legíó" (fleiri en tölu verði á komið).

Allt sýndi þetta, að hvorugt þeirra bar nokkurt skynbragð á vönduð vinnubrögð.  Þetta er einkenni margra stjórnmálaflokka, ekki sízt af nýrra taginu, að fólk þar slær um sig með gjörsamlega innihaldslausum frösum og slagorðum.  Þegar til kastanna kemur, verður strax ljóst, að fólkið, sem gaf sig út fyrir að ætla að moka flórinn og sýna gott fordæmi, hefur nákvæmlega ekki nokkurn skapaðan hlut til brunns að bera í leiðsagnarskyni fyrir annað fólk, hvað þá til að veita forystu í neinu, sem máli skiptir, svo að ekki sé nú talað um að halda á fjósrekunni sjálft.  Upphlaup, lýðskrum og loddaraháttur er allt og sumt, sem "andlegir burðir" þeirra hafa upp á að bjóða. Allt er það einskis nýtt.

Ætli ríkisstjórnarslit hafi nokkru sinni orðið með óvandaðri hætti en fimmtudagskvöldið 14. september 2017 ?  Fundur virðist hafa verið boðaður í stjórn BF í skyndingu að kvöldi fimmtudagsins, og þar höfðu augljóslega verið lögð á ráðin um að rjúfa náin pólitísk tengsl á milli formannanna, Óttars Proppé og Benedikts Jóhannessonar.  Undir miðnætti var svo samþykkt að viðhafri netkönnun á meðal flokksmanna að slíta stjórnarsamstarfi án nokkurs pólitísks rökstuðnings eða tilraunar til að leita upplýsinga beint frá forsætisráðherra áður en viðurhlutamikil ákvörðun fyrir þjóðina alla er tekin um að slíta stjórnarsamstarfi.  Þvílíkt sandkassalið ! Þvert á móti er þjóðinni sýndur þumallinn niður, hagsmunir hennar einskis metnir, en ákvörðun tekin í tilfinningavímu að næturlagi.  Þessi framkoma gagnvart samstarfsflokkunum og sér í lagi gagnvart forsætisráðherra landsins er í senn fordæmalaus og forkastanleg.  Þessari flokksnefnu verður vonandi útrýmt sem illgresi í Alþingisgarðinum í komandi Alþingiskosningum.    

Staðreyndir ásteytingarsteinsins eru þær, að forsætisráðherra kom hvergi nálægt málsmeðferð dómsmálaráðuneytisins á þessum viðbjóðslegu málum um uppreista æru, sem auðvitað getur aldrei orðið uppreist í raun eftir viðurstyggilegan glæp.  Það hefur ekki nokkra minnstu pólitíska þýðingu í þessu samhengi, hvað faðir forsætisráðherrans skrifaði undir.  Það viðbjóðsmál hlaut nákvæmlega sömu málsmeðferð og önnur mál af sama toga hjá dómsmálaráðuneytinu.  

Það er ekki annað en sjúkleg samsæriskenning, að gerð hafi verið tilraun til sérmeðhöndlunar á viðbjóðsmálinu, þar sem faðir forsætisráðherra ritaði undir meðmælabréf sem atvinnurekandi.  Forsætisráðherra hefur lýst því yfir, að sjálfur mundi hann aldrei semja og/eða undirrita slíkt bréf. Þannig er flestum farið.  Að reynt hafi verið með nokkrum hætti að hylma yfir þetta mál, á sér enga stoð í raunveruleikanum, en gaggandi hænsni geta þó komizt að þeirri niðurstöðu í skjóli myrkurs og upplýsingaleysis.  

Dómsmálaráðherra veitti forsætisráðherra upplýsingar um téð bréf föður forsætisráðherra strax og hún var upplýst um málið í júlí 2017 í dómsmálaráðuneytinu.  Upplýsingar um uppreista æru hafa alla tíð verið meðhöndlaðar sem trúnaðarupplýsingar í dómsmálaráðuneytinu, og þess vegna fékk forsætisráðherra þessar fregnir sem trúnaðarupplýsingar frá dómsmálaráðherra.  Dómsmálaráðherra og forsætisráðherra landsins verða að geta skipzt á trúnaðarupplýsingum og geta treyst því, að sá trúnaður haldi.  Annars væri landið óstjórnhæft.  Forsætisráðherra var bundinn þessum trúnaði, þar til "Úrskurðarnefnd um upplýsingamál" úrskurðaði á þann veg, að um þau skyldi almennt ekki ríkja leynd, en þó skyldi gæta laga og reglna um persónuvernd.   Leyndarhyggjan var ekki ráðherrans, heldur lagatúlkun og löng hefð innan dómsmálaráðuneytisins. 

Forsætisráðherra greip fyrsta tækifæri, sem honum gafst eftir téðan úrskurð, mánudaginn 11. september 2017, til að upplýsa hina flokksformennina í ríkisstjórninni um þetta mál, en þeir virðast ekki hafa gefið því nokkurn gaum né hirt um að upplýsa samflokksmenn sína um það. Stafar fýlan í flokkum þeirra e.t.v. af þessari bitru staðreynd ?

 


Sveppir og sóun

Kári Stefánsson, læknir, getur ekki fundið neina vísindalega sönnun fyrir tengslum dvalar í húsnæði, þar sem raki er og sveppagróður, og heilsuleysis eða sjúkdómskvilla.  Hann líkir "trúnni" á þessi tengsl við draugatrú Íslendinga og rifjar upp frásögn föður síns, Stefáns Jónssonar, fréttamanns, af för sinni norður að Saurum á Skaga, þar sem fréttist af illvígum draugagangi forðum tíð.  Blekbónda rekur minni til að hafa skemmt sér ótæpilega við að hlýða á Stefán, fréttamann, og viðmælendur hans í þessu Sauramáli á sinni tíð.  

Bezt er að vitna beint í son hins frábæra fréttamanns, í grein hans í Fréttablaðinu, 5. september 2017, 

"Kólumkilli eða sveppasúpa":

"En það breytir því ekki, að þjóðin er enn staðföst í trú sinni á ýmislegt dularfullt og spennandi, sem ekki hefur verið sannað með aðferðum vísindanna [er það ekki "gelíska genið" ?-BJo].  Klárasta dæmið um þessa staðfestu upp á síðkastið er trúin á heilsuspillandi áhrif myglusveppa í húsum.  

Þrátt fyrir vandlega leit í læknisfræðibókmenntum okkar tíma hefur mér ekki tekizt að finna þess merki, að búið sé að sýna fram á, með vísindalegum aðferðum, að myglusveppir í húsum vegi að heilsu manna.  Þrátt fyrir það velkist íslenzk þjóð ekki í vafa um áhrif myglusveppa á heilsu, og má sjá merki þess víða í samfélaginu."

Raki og myglusveppur er ekki séríslenzkt fyrirbæri, heldur hefur sambýli manns og svepps verið við lýði frá fyrstu húsakynnum mannsins, og sveppir eru landlægir erlendis í vistarverum manna. Þótt ekki hafi tekizt að sanna læknisfræðilega sök sveppa á heilsuleysi manna, er þó ekki þar með sagt, að tengslin séu ekki fyrir hendi.  Sumir, sem veikir eru fyrir á ákveðnum sviðum, t.d. í öndunarfærum, kunna að veikjast við þetta nábýli, þótt aðrir, sem sterkari eru fyrir, finni ekki fyrir einkennum. Læknisfræðin hlýtur að taka tillit til mismunandi mótstöðuþreks.  

Kári, læknir, heldur áfram:

"Svo er það hús Orkuveitunnar [OR á reyndar ekki þetta hús lengur, heldur lífeyrissjóðir, þ.á.m. minn, þótt OR beri ábyrgð á rekstri, viðhaldi og opinberum gjöldum af húsinu.  Allt er þetta reginhneyksli. - BJo] og þúsundir annarra húsa víðsvegar um landið, og okkur er sagt, að tjónið af völdum myglusvepps á Íslandi nemi tugum milljarða.  Þetta byrjaði á því, að inn í hús nokkur kom ung kona í kafarabúningi (ghost buster) og fann myglusveppi grimmilega, sem hún lagði með mjaðmahnykk [?!].  Síðan þá hefur baráttan við myglusveppinn orðið mjög stór iðnaður á Íslandi og engin atvinnugrein vaxið meira í landinu, nema ferðaþjónustan."

Ætla má af lestri þessa texta, að læknirinn sé þeirrar skoðunar, að sveppasýkt húsnæði sé óraunverulegt vandamál.  Það sé huglægt fyrirbrygði, eins og trú á tilvist drauga.  Helzt er á honum að skilja, að flokka megi sýkingu mannfólks af völdum húsasvepps til móðursýki.  Hvað segir landlæknir ?  Hvers vegna tekur hann ekki af skarið um, hversu skaðlegur sveppagróðurinn er heilsu manna ?  Hefur hann heldur ekkert í höndunum ?  Er hættan ímyndun ein ? 

Ef frekari rannsókna er þörf, verður að framkvæma þær strax áður en hús, sem kostaði miaISK 11 að núvirði að byggja, og mörg fleiri, eru dæmd svo heilsuskaðleg, að þau verði að rífa vegna myglusvepps.  Um rannsóknarþörfina skrifar Kári:

"Þess vegna væri ekki úr vegi að byrja á því að rannsaka málið áður en hús eru dæmd ónýt og rifin og tugmilljarða króna tjón gert að raunveruleika.  Rannsókn á skaða þeim, sem myglusveppur kann að valda á heilsu manna, verður eingöngu unnin á Íslandi, vegna þess að í öðrum löndum búa maðurinn og sveppurinn í friðsömu sambýli, og hvorugur kvartar undan hinum."

Það er rétt hjá Kára, að myglusveppur viðgengst víða, einnig á hinum Norðurlöndunum.  Hefur þetta sveppafár hérlendis verið reist á ímyndun, eins og Kári Stefánsson, læknir gefur í skyn ?  Læknastéttin skuldar þjóðinni óyggjandi svar við því.  

Orkuveituhúsið var nefnt.  Hvað, sem sveppagróðri í vesturálmu þess líður, er það óbrotgjarn (?) minnisvarði um meðferð R-listans, sáluga, á opinberu fé.  R-listinn var samstarfsvettvangur vinstri manna og Framsóknarmanna.  Til hans var stofnað til höfuðs völdum Sjálfstæðisflokksins í borginni.  Hugarfar fólks, sem ber háskattastefnu fyrir brjósti, er virðingarleysi við einkaeignina, og tekjur fólks eru hluti af henni.  Þetta hefur verið límið í valdastöðu vinstri manna í borginni og hefur aldeilis krystallast í Orkuveitu Reykjavíkur-OR.

Fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar gumaði Dagur B. Eggertsson og fylgifénaður hans af viðsnúningi í rekstri OR.  Hver kom OR í klandur ?  Það var vinstra fólkið og Framsóknarfólkið í borgarstjórn, sem sukkaði og sóaði á báða bóga með allt of stórri Hellisheiðarvirkjun m.v. jarðgufuforðann þar undir og með allt of stóru monthúsi fyrir aðalstöðvar OR.  Stjórnendur OR og hin pólitíska stjórn hennar voru ekki starfi sínu vaxin.  Heimtaður var gjörsamlega óraunhæfur byggingarhraði bæði á OR-húsinu og á Hellisheiðarvirkjun með þeim afleiðingum, að eigendur OR, Reykvíkingar, Skagamenn og íbúar Borgarbyggðar, hafa orðið fyrir svakalegu tjóni, sem þegar getur numið um 1 MISK á hverja 4 manna fjölskyldu í þessum byggðarlögum.  Hér er um opinbert fyrirtæki að ræða, og eigendurnir eru ófærir um að komast til botns í þessu OR-hneyksli.  Þegar borgararnir verða fyrir viðlíka tjóni og hér um ræðir, verður að komast til botns í því, hvar var keyrt út af, og hverjir voru bílstjórar og meðreiðarsveinar í hverju tilviki.  

Hörmungar OR halda hins vegar áfram og munu halda áfram, ef róttækar umbætur á stjórnun verða ekki gerðar.  ON borar hverja holuna á fætur annarri í Hellisheiðina, en sá fjáraustur er eins og að míga í skóinn sinn.  Finna þarf nýjan virkjunarstað til að létta 100-200 MW af Hellisheiðarvirkjun.  Þegar menn eru komnir í foraðið, eiga þeir að hafa vit á að reyna að snúa við.

ON framdi í vor alvarleg mistök við rekstur einu vatnsaflsstöðvar sinnar, þegar gerð var tilraun til að hreinsa botnset úr inntakslóni Andakílsárvirkjunar með því að galopna framhjáhlaup í stíflunni.  Þessi heimskulega ráðstöfun fyllti alla hylji og þakti eirar Andakílsáar af leir með voveiflegum afleiðingum fyrir seiði í ánni og allt annað lífríki.  

Ekki tekur betra við í mengunarmálum hjá Veitum, öðru dótturfélagi OR.  Þar var viðbúnaður við bilun í frárennsliskerfinu fyrir neðan allar hellur í sumar, sem sýndi, að tæknilegri stjórnun er ábótavant.  Hausinn var bitinn af skömminni með því að reyna að þegja málið í hel, þótt heilsuspillandi aðstæður sköpuðust vikum saman í fjörunni og úti fyrir.  Siðferðið er ekki upp á marga fiska.

Gagnaveitan er þriðja dótturfyrirtæki OR.  Þar þverskallast menn, af einhverjum óskiljanlegum ástæðum, við að eiga samráð við Mílu um samnýtingu skurða fyrir lagnir.  Allt er þetta á sömu bókina lært.

Niðurstaðan af þessu öllu er sú, að OR-samsteypan hefur fyrir löngu vaxið borgarstjórn yfir höfuð.  Þar á bæ hafa menn ekki hundsvit á þeirri starfsemi, sem OR-samsteypan fæst við, og eru ekki í neinum færum til að veita henni aðhald, hvorki í borgarráði né í stjórn OR.  Borgarfulltrúarnir eru uppteknir við málefni, sem eru gjörólíks eðlis.  Eina ráðið til úrbóta er að skera á meirihluta aðild borgarinnar að stjórn OR með því að gera dótturfélögin að sjálfstæðum almenningshlutafélögum.  Með þessu móti verður hægt að greiða upp drjúgan hluta af skuldabagga OR-samstæðunnar, og stjórnun dótturfyrirtækjanna ætti að verða viðunandi fyrir eigendur, viðskiptavini og aðra hagsmunaaðila.


Fasteignir, fiskeldi og orkuöflun

Vestfirðingar berjast nú fyrir því að mega nýta landsins gæði alþýðu allri til hagsbóta.  Það er ekki vanþörf á auknum umsvifum athafnalífs á Vestfjörðum, eins og fasteignaverðið er vísbending um, enda er jákvætt samband á milli fasteignaverðs og atvinnuframboðs. 

Þetta má lesa út úr nýlegum upplýsingum Byggðastofnunar, sem fékk Þjóðskrá Íslands til að bera saman fasteignaverð í 31 bæ og þorpi víðs vegar um landið m.v. 161,1 m2 einbýlishús.  Sams konar samanburður hefur átt sér stað undanfarin ár.

Eignin er ódýrust á Bolungarvík, en hefur undanfarin ár verið ódýrust ýmist á Patreksfirði eða á Vopnafirði.  Nú bregður hins vegar svo við, að fasteignamatið hækkaði hlutfallslega mest 2016-2017 á þessum tveimur stöðum.  Er engum blöðum um það að fletta, að meginskýringin eru miklar fjárfestingar í fiskeldi á Suðurfjörðum Vestfjarða undanfarin misseri og miklar fjárfestingar HB Granda á Vopnafirði í atvinnutækjum og kaup á þorskkvóta fyrir skip, sem þaðan eru gerð út.  

Viðmiðunarhúsið á Bolungarvík kostar aðeins MISK 14,4, en miðgildi fasteignaverðsins á samanburðarstöðunum er MISK 26.  Nær það varla kostnaði við slíkt fullfrágengið hús.  Að byggja hús á Bolungarvík er greinilega mjög áhættusamt, því að þurfi húsbyggjandi að selja, fær hann aðeins um helming upp í kostnaðinn.  Þetta er vítahringur fyrir staði í þessari stöðu.  Á Höfn í Hornafirði er sveitarfélagið núna að reyna að rjúfa þennan vítahring með því að stuðla að nýbyggingum íbúðarhúsnæðis fyrir fólk, sem vantar í vinnu þar. Þar sem vinnu vantar, er eina ráðið til að rjúfa þann vítahring að efla framboð fjölbreytilegra starfa.

Nú vill svo til fyrir íbúa við Ísafjarðardjúp, að slík efling athafnalífs er innan seilingar.  Fyrir hendi eru fyrirtæki, sem sækjast eftir að hefja laxeldi í Ísafjarðardjúpi.  Allt bendir til, að umskipti til hins betra hafi átt sér stað við hönnun og rekstur laxeldissjókvía, svo að stroktíðni sé innan marka, sem talizt geta skaðleg fyrir "hreint" kyn villtra laxa í laxám, sem ósa eiga út í Ísafjarðardjúp, hvað þá annars staðar. 

Það er þess vegna fullt tilefni fyrir Hafrannsóknarstofnun að endurskoða fljótlega áhættumat sitt, enda verður árlegt hámarkstjón í Ísafjarðardjúpi innan við 5 % af næsta öruggri árlegri verðmætasköpun 30 kt laxeldis þar.  Raunveruleg áhættugreining vegur saman líkindi tjóns og ávinnings, og niðurstaðan verður þá ótvírætt almannahagsmunum í vil.  

Burðarþolsmat Vestfjarða fyrir laxeldi hljóðar upp á 50 kt.  Það er varfærnislegt og mun sennilega hækka í tímans rás.  Þar við bætist möguleikinn á laxeldi í landkerum.  Í heild gæti laxeldi á Vestfjörðum numið 80 kt árið 2040.  Orkuþörf þess má áætla 160 GWh/ár og aflþörfina 30 MW.

Ef svo vindur fram sem horfir um atvinnuþróun, mun íbúum á Vestfjörðum fjölga um 5 k (k=þúsund) 2017-2040.  Vegna almennrar rafhitunar munu þeir þurfa tiltölulega mikla orku, sem gæti numið 125 GWh/ár og 20 MW.

Rafbílavæðing er framundan á Vestfjörðum, eins og annars staðar á landinu, og gæti þurft 64 GWh/ár og 16 MW að 23 árum liðnum.

Hafnirnar verður að rafvæða með háspenntri dreifingu og gætu stór og smá skip þurft 35 GWh/ár og 8 MW árið 2040 á Vestfjörðum.

Ef spurn verður eftir repjumjöli í fóður fyrir laxinn, gæti vinnsla þess og repjuolíu á skipin þurft 12 GWh/ár og 8 MW.  

Alls eru þetta tæplega 400 GWh/ár og 80 MW.  Það er alveg útilokað fyrir íbúa og atvinnurekstur á Vestfjörðum að reiða sig á tengingu við landskerfið um Vesturlínu fyrir þessa aukningu.  Í fyrsta lagi er þessi orka ekki fyrir hendi í landskerfinu, og eftirspurnin er og verður sennilega umfram framboð á landinu í heild.  Í öðru lagi er afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum algerlega óboðlegt um þessar mundir, og á tímum orkuskipta er óásættanlegt að reiða sig á rafmagn frá dísilknúnum rafölum.  

Þá er enginn annar raunhæfur kostur en að virkja vatnsafl á Vestfjörðum, og samkvæmt gildandi Rammaáætlun, sem er miðlunarleið ríkisins við val á milli nýtingar orkulinda og verndunar, eru Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun í nýtingarflokki á Vestfjörðum.  Líklega er nú verið að vinna að lögformlegu umhverfismati fyrir þá fyrrnefndu að stærð 340 GWh/ár og 55 MW.  Hún mun ein ekki duga fyrir aukninguna næstu 2 áratugina á Vestfjörðum.  Bændavirkjunum mun fjölga, en meira verður að koma til, svo að Vestfirðir verði raforkulega sjálfbærir, og orkulindirnar eru þar fyrir hendi. 

Hægt er að núvirða framlegð Hvalárvirkjunar fyrstu 20 ár starfseminnar, og fæst þá andvirði vatnsréttindanna í ánum, sem leggja virkjuninni til orku.  Andvirðið er þannig reiknað miaISK 14,4.  Hæstiréttur hefur dæmt, að sveitarfélögum sé heimilt að leggja fasteignagjald á andvirði vatnsréttinda.  Sé notað álagningarhlutfallið 0,5 %, fæst árleg upphæð í sveitarsjóð af vatnsréttindum Hvalárvirkjunar 72 MISK/ár.  Soltinn sveitarsjóð munar um minna.

Tómas Guðbjartsson, skurðlæknir, heldur áfram að skrifa greinar í Fréttablaðið með áróðri um það, að "náttúran skuli njóta vafans" og homo sapiens af kvíslinni Vestfirðingar, búsettir á Vestfjörðum, geti étið, það sem úti frýs, hans vegna.  Svo hvimleiður sem þessi málflutningur hans kann að þykja, á hann fullan rétt á að hafa þessa skoðun og tjá hana, þar sem honum sýnist.  Rökin eru samt varla tæk fyrir nokkurt eldhúsborð á Íslandi.  Þann 8. september 2017 birtist eftir téðan lækni grein í Fréttablaðinu:

"Umræða um Hvalárvirkjun á villigötum":

"Ástæðan [fyrir kynningarátaki Tómasar og Ólafs Más Björnssonar, augnlæknis, á landslagi í Árneshreppi] er sú, að okkur hefur fundizt skorta mjög á upplýsingagjöf um framkvæmdina og við teljum, að náttúran á þessu stórkostlega svæði hafi ekki fengið að njóta vafans.  Við erum ekki aðeins að beina spjótum okkar að framkvæmdaaðilum virkjunarinnar, HS Orku og Vesturverki, heldur ekki síður að þeim, sem veitt hafa virkjuninni brautargengi í Rammaáætlun og sveitarstjórn Árneshrepps.

Einnig truflar okkur, að eigandi Eyvindarfjarðarár sé ítalskur huldubarón, sem selt hefur vatnsréttindi sín til kanadísks milljarðamærings, Ross Beaty, sem er eigandi 68 % hlutar í HS Orku - fyrirtæki, sem síðan á 70 % í Vesturverki, framkvæmdaaðila virkjunarinnar.  Því er vandséð, að íslenzkir eða vestfirzkir hagsmunir séu í forgangi."

Hér er hreinn tittlingaskítur á ferðinni, nöldur af lágkúrulegum toga, sem engan veginn verðskuldar flokkun sem rökstudd, málefnaleg gagnrýni.  Síðasta málsgrein læknisins sýnir, að hann er algerlega blindur á hina hlið málsins, sem eru hagsmunir fólksins, sem á Vestfjörðum býr og mun búa þar.  Þetta "sjúkdómseinkenni" hefur verið kallað að hafa rörsýn á málefni.  Það var sýnt fram á það í fyrrihluta þessarar vefgreinar, að nýtt framfaraskeið á Vestfjörðum stendur og fellur með virkjun, sem annað getur þörfum vaxandi fiskeldis, vaxandi íbúafjölda og orkuskiptum á Vestfjörðum.  Að leyfa sér að halda því fram, að slík virkjun þjóni hvorki hagsmunum Vestfirðinga né þjóðarinnar allrar, ber vitni um þjóðfélagslega blindu og tengslaleysi við raunveruleikann, en e.t.v. er einnig um að ræða hroka beturvitans.  

 

 

 

 


"Villta vestrið" ?

Hérlendis hefur því verið haldið fram, að Norðmenn væru komnir að þolmörkum norskra fjarða fyrir laxeldi.  Þeir hafa mest framleitt 1,3 Mt/ár (M=milljón), en í fyrra minnkaði framleiðslan við Noregsstrendur í 1,2 Mt vegna sjúkdóma og laxalúsar. Verðið er hátt um þessar mundir, svo að markaðurinn mun taka við meiru. 

Norðmenn eru ekki af baki dottnir frekar en fyrri daginn.  Nú hafa borpallahönnuðir þeirra hannað risavaxna eldiskví, sem ætlunin er að staðsetja utan fjarða við strendur Noregs.  Þar með hefst nýtt "marnám" fyrir fiskeldi.  Fimm slíkar kvíar eru nú í smíðum í Kína fyrir SalMar, og ein á leiðinni frá Kína til Noregs.  SalMar er hluthafi í Arnarlaxi á Íslandi. 

"Ocean Farm 1" eldisstöð mun líklega samanstanda af 6 slíkum risakvíum.  Með þessum hætti hyggjast Norðmenn tvöfalda framleiðslu sína innan áratugar, og ráðagerð starfsleyfisveitenda í Noregi er, að framleiðsla eldislax við Noreg muni nema 5 Mt/ár innan tveggja áratuga.  Framleiðsla Íslendinga verður þá et.v. 2 % af norsku framleiðslunni, því að tæplega verður staðsetning risakvía leyfð hérlendis utan fjarða.   

Þetta er djarfhuga ráðagerð Norðmanna, sem er reist á beztu tækni á öllum sviðum, sem að þessu koma.  Aðeins 3-7 starfsmenn verða staðsettir við eldisstöðina, og munu þeir fylgjast með 20´000 nemum og sæg myndavéla.  Þarna verður minni hætta á mengun og minni hætta á sjúkdómum og lús vegna sterkari strauma og lægra sjávarhitastigs, en flutningar munu verða kostnaðarsamari.  Framleiðnin verður hins vegar gríðarleg.  

Aflúsunarlyfin eru varasöm, og Hafrannsóknarstofnunin íslenzka telur, að notkun aflúsunarlyfja í fiskeldi geti haft skaðleg áhrif á rækjustofna og lagði eðlilega til bann við notkun þeirra á rækjusvæðum í frummatsskýrslu um laxeldi í Ísafjarðardjúpi.  Ætti það alls staðar að verða við lýði í a.m.k. 5 km fjarlægð frá rækjusvæðum.

Hins vegar er ekki hægt að segja, að áhættugreining á sjókvíaeldi lax í Ísafjarðardjúpi réttlæti ákvörðun um að fresta um óákveðinn tíma leyfisveitingum um þetta eldi í Ísafjarðardjúpi.  Þar vegast einfaldlega á miklir almannahagsmunir og litlir sérhagsmunir.  Það er ósiðlegt að láta almannahagsmunina víkja í ljósi þess, að það er hægt að skilyrða leyfisveitingu við skaðabótaábyrgð, ef illa fer.  Samkvæmt nýjum upplýsingum frá Hafrannsóknarstofnun hafa 59 hnúðlaxar og 8 regnbogasilungar bitið á agn stangsveiðimanna í sumar.  Um þetta hefur Einar Kristinn Guðfinnsson, formaður stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva eftirfarandi að segja samkvæmt Fréttablaðinu, 8. september 2017:

"Þessar tölur gefa það til kynna, að íslenzkt sjókvíaeldi sé ekki vandamál fyrir íslenzkar ár.  Í tölunum er enginn lax úr íslenzku sjókvíaeldi. Einnig eru mjög fá tilvik um veiddan regnbogasilung.  Þessar tölur gefa því vísbendingar um, að vel sé haldið á spöðunum í fiskeldi á Íslandi og slysasleppingar ekki vandamál þar."

Að enginn eldislax skuli veiðast í ánum nú, þegar framleiðslan nemur 10 kt í ár, bendir til, að ný tækni og ný vinnubrögð samkvæmt ströngum norskum staðli, standi undir mestu væntingum, sem til þeirra voru gerðar, þ.e. strokhlutfall undir 5 ppm.  Þar með stafar náttúrulegum löxum í Ísafjarðardjúpi ekki hætta af kynblöndun við eldislaxa í 15 kt laxeldi þar m.v. varúðarreglu Hafrannsóknarstofnunar um hámark 4 % eldislax í laxveiðiá.  

Í ljósi aðstæðna væri rétt að stíga þegar í stað skrefið til hálfs í Ísafjarðardjúpi og veita leyfi fyrir 15 kt sem upphafsmagni fyrir laxeldi í Ísafjarðardjúpi.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra talar digurbarkalega um viðkvæm mál, sem varða lífshagsmuni fólks:

"Með tillögunum [Starfshóps um stefnumörkun í fiskeldi] er leitazt eftir því að að útrýma því villta vesturs ástandi, sem ríkt hefur í greininni",

hafði Fréttablaðið eftir ráðherranum 24. ágúst 2017.  Ekki verður betur séð en þetta sé afar ósanngjarnt orðalag í ljósi þess, að síðasta árið hefur ríkt stöðnun í útgáfu starfsleyfa til laxeldisfyrirtækjanna, sennilega að undirlagi þessa sama ráðherra, því að hún ætlar sjálf að koma á stjórnleysi á þessu sviði, með því að leiða auðvaldið til öndvegis og láta peningana ráða því, hverjir fá starfsleyfi.  Í því felst stjórnunarleg uppgjöf hennar sem fulltrúa almennings, sem á að stjórna með almannahag í fyrirrúmi, en ekki að draga taum ríkustu fyrirtækjanna, sem hug hafa á að færa út kvíarnar við Ísland.  Hvers vegna ekki að leyfa öllum, sem áhuga hafa og fullnægja hæfnisskilyrðum, að stunda laxeldi við Ísland og gera það á landfræðilega skipulegan hátt ?

Mogginn hefur eftir þessum angurgapalega ráðherra, 24. ágúst 2017, að "tillaga um nýtt fyrirkomulag við útgáfu leyfa sé um leið gríðarlega mikilvæg".

"Þetta er svolítið eins og villta vestrið í dag, og við þurfum að koma böndum á það."

Sá ráðherra, sem viðhefur þetta groddalega orðalag um núverandi fyrirkomulag leyfisveitinga, sem óneitanlega hefur verið hægvirkt að undanförnu, ætlar sjálf að koma hér á öngþveiti með því að bjóða starfsleyfin hæstbjóðanda.  Hún mun neyðast til að binda útboðið alls kyns skilyrðum og takmörkunum, svo að því fer fjarri, að frjáls markaður fái að ráða vali á fyrirtækjum.  Hins vegar getur hún endað með kraðak fyrirtækja í sama firði, og það hentar engum. Uppboð starfsleyfa við fiskeldi geta leitt til færri fyrirtækja í þessari starfsemi, sem er ekki hagfellt m.t.t. samkeppni þeirra á milli um starfsfólk og þjónustu, svo og fyrir eftirsóknarverða áhættudreifingu.  Uppboðsleiðin er algerlega vanhugsuð aðferðarfræði á þessu sviði.  

Fjárhagslega er uppboðsleið ofaukið í starfsemi, þar sem aðilar hafa komið sér saman um, að fiskeldisfyrirtækin skuli greiða árlegt auðlindargjald.  Ráðherrann fer offari í skattheimtu af fyrirtækjunum að ætla bæði að bjóða út leyfi og að taka árlegt auðlindargjald.  Hún stórskaðar ekki aðeins starfsemina, heldur einnig starfsfólkið og byggðirnar með þessari skattpíningu.  Þingið verður að koma vitinu fyrir ráðherrann.  Svona gera menn ekki.  

  

 


Auðlindastjórnun í ljósi reynslunnar

Frá öndverðu nýttu Íslendingar aðallega gögn og gæði landsins sér til lífsviðurværis, þótt sjórinn væri ætíð nýttur með. Takmörkuðu vinnuafli var aðallega beint að landbúnaðarstörfum, þótt ungir menn væru sendir í verið.  Sjórinn tók hins vegar ægilegan toll af sjómönnum, allt þar fiskiskipin urðu öflugri undir lok 19. aldar.  Kann hræðilegur fórnarkostnaður að hafa ráðið nokkru um, að sjávarútvegur varð ekki undirstöðuatvinnuvegur hér fyrr en skömmu fyrir aldamótin 1900.

Nú tækni ruddi þá sjávarútvegi brautina.  Þilskipin gjörbreyttu aðstöðu sjómanna, hafnargerð hófst og vélvæðing skipanna hóf innreið sína.  Hvalveiðar Norðmanna upp úr 1870 hér við land og hvalvinnsla á Vestfjörðum og Austfjörðum umbyltu atvinnuháttum og þar með þjóðlífinu öllu.  Árið 1890 námu útflutningstekjur af sjávarafurðum hærri upphæð en útflutningstekjur af landbúnaðarafurðum, sem verið höfðu aðalútflutningsvörur landsmanna frá upphafi, í vöruskiptum og sem gjaldeyrislind. Síðan hefur sjávarútvegur verið undirstöðu atvinnugrein landsmanna.   

Nýlega gaf Ágúst Einarsson, prófessor emeritus við Háskólann á Bifröst, út bókina "Fagur fiskur í sjó".  Að því tilefni birti Guðsteinn Bjarnason viðtal við fræðimanninn í Fiskifréttum, 31. ágúst 2017:

"Það má segja, að hinar hefðbundnu veiðar og vinnsla standi undir 9 %-11 % af landsframleiðslunni, en þegar sjávarútvegurinn er skoðaður í heild, þá skilar hann okkur ríflega 20 %, því að sjávarútvegurinn hér á landi er svo miklu meira en bara veiðar og vinnsla.  Til hans verður líka að telja t.d. veiðarfæragerð og vélsmíði í tengslum við sjávarútveg, en þar erum við með stórfyrirtæki á heimsmælikvarða, eins og Hampiðjuna og Marel og mörg önnur fyrirtæki.  Þarna hefur orðið bylting, og þetta gerir sjávarútveginn að mikilvægustu atvinnugrein landsmanna."

Ekki skal í efa draga, að sjávarútvegurinn skapi landsmönnum mestan auðinn allra atvinnugreina, en reiknað með sama hætti stendur iðnaðurinn undir um 20 % landsframleiðslunnar líka.  Í sambandi við raforkuiðnaðinn í landinu má geta þess, að ef flytja þyrfti inn olíu til að framleiða þær 18,5 TWh/ár af raforku, sem framleiddar eru með vatnsafli og jarðgufu, sem er auðvitað óraunhæft dæmi, þá næmi andvirði þess innflutnings um 280 miaISK/ár um þessar mundir. Orkuvinnslan í landinu lyftir lífskjörunum og gerir landið samkeppnishæft við útlönd um fólk og fyrirtæki.   

Ágúst ræddi einnig um fiskveiðistjórnunina:

"Ástæðan fyrir því, að það hafa verið svo miklar deilur um fiskveiðistjórnina, er sú, að þetta kerfi býr til verðmæti, sem heitir auðlindarenta, og það gerist vegna þess, að aðgangurinn er takmarkaður, en þá vakna spurningar um það, hver á rentuna ?  Á að skattleggja þetta sérstaklega t.d. til að efla byggðir landsins."  

Umrædd skattlagning er veikasti hlekkur fiskveiðistjórnunarkerfisins.  Hún er reist á röngum og úreltum forsendum.  Spyrja má grundvallarspurningar varðandi verðmætasköpun sjávarútvegsins á borð við þá, hvers virði óheftur réttur að miðunum sé, þegar ljóst er, að hann mundi valda tapi allra útgerðanna.  Hann er einskis virði.  Þess vegna er engin ástæða til sérskattlagningar á núverandi útgerðir.  Hins vegar má til sanns vegar færa, að útgerðirnar standa í þakkarskuld við ríkisvaldið fyrir að hafa skapað umgjörð sjálfbærrar nýtingar á sjávarauðlindunum.  Þess vegna er hóflegt auðlindagjald af útgerðunum sanngjarnt, en afraksturinn á ekki að renna í ríkissjóð, heldur í sjávarútvegssjóð til sveiflujöfnunar innan sjávarútvegsins og fjárfestinga tengdum sjávarútveginum, s.s. í nýju hafrannsóknarskipi Hafrannsóknarstofnunar, þyrlum Landhelgisgæzlu, hafnabótum, rafkerfisstyrkingu hafnanna o.s.frv.  

Núverandi afturvirka aðferðarfræði við útreikning auðlindagjalds af sjávarútvegi er ótæk, og mun ganga af litlum og meðalstórum útgerðum dauðum.  Hún getur valdið ofsaskattheimtu, þar sem andvirði skattheimtunnar getur numið þriðjungi framlegðar fyrirtækis. 

Það er algerlega óskiljanlegt, að sjávarútvegsráðherra skuli leggja blessun sína yfir þá ofstopaskattheimtu af einni atvinnugrein, sem núverandi aðferðarfræði felur í sér, og girða fyrir breytingar fiskveiðiárið 2017/2018, sem henni væri þó í lófa lagið að gera.  Reikna ber verðmæti auðlindarinnar, sem er tiltölulega einfalt með núvirðisreikningum meðalframlegðar, deila henni á aflahlutdeildir og taka síðan ákveðna rentu af þessu, allt að 0,5 %/ár, en árleg upphæð mætti aldrei fara yfir 5 % framlegðar á síðasta fiskveiðiári.  

Þann 15. júní 2017 birtist viðtal Ásgeirs Ingvarssonar við Hjört Gíslason í Sjávarútvegi-riti Morgunblaðsins, í tilefni þýðingar Hjartar á nýrri bók Óla Samró, færeysks sjávarútvegsráðgjafa og hagfræðings, um mismunandi fiskveiðistjórnunarkerfi:

"Óli Samró kemst að þeirri niðurstöðu í bókinni, að hvergi sé til fiskveiðistjórnunarkerfi, sem gerir ekkert rangt og allt rétt, en kerfi eins og það íslenzka og nýsjálenzka komist næst því að stýra fiskveiðum með hvað skynsamlegustum hætti."

"Í Lettlandi og á Kamchatka í Rússlandi var sú leið [uppboðsleið] prófuð, og í báðum tilvikum var uppboðstilraununum hætt, því að ávinningurinn var ekki sá, sem vonazt hafði verið eftir.  Í Rússlandi keyptu Kínverjar allan kvótann, sem var í boði, og í Lettlandi voru það Íslendingar."

Hvernig á að koma í veg fyrir, að fjársterkir aðilar, innanlands eða utan, bjóði hæsta verð í fiskveiðiheimildarnar með leppa sem skjöld og landi síðan aflanum, þar sem þeim sýnist ?  Það eru einfeldningar, sem halda, að hægt sé að hafa stjórn á þeim öflum, sem úr læðingi sleppa, þegar slík óþurftar tilraunastarfsemi með grunnatvinnuveg er sett í gang.

Hjörtur ýjar að sjúkdómseinkenni krata og sósíalista, þegar að veiðigjaldaumræðu kemur:

"Það virðist æ algengara, að stjórnmálamenn reyni að afla sér vinsælda með loforðum um að taka enn meira frá sjávarútveginum og nota til ýmissa verkefna.  En hafa verður í huga, að sjávarútvegurinn gerir nú þegar mikið fyrir þjóðarhag með beinum og óbeinum störfum, og tíðkast nánast hvergi annars staðar í heiminum, að útgerðir greiði auðlindagjald.  Þvert á móti skekkir það samkeppnisstöðu íslenzkra sjávarútvegsfyrirtækja, að keppinautar þeirra í öðrum löndum njóta styrkja frá hinu opinbera."

Skipum, sem úthlutað er veiðiheimildum við Íslandsstrendur, fer fækkandi með hverju árinu og útgerðum fækkar einnig.  Hvort tveggja er vísbending um hagræðingu í kerfinu.  Hins vegar leikur ekki á tveimur tungum, að núverandi veiðigjaldakerfi flýtir fyrir þessari þróun, og yfirvöld stuðla þannig með ósanngjörnum gjörðum sínum að hraðari samþjöppun í greininni en ella, alveg sérstaklega við núverandi aðstæður mikils tekjusamdráttar í sjávarútvegi. 

Alþingi samþykkti í óráði árið 2012 reglur, sem hafa afleiðingar, sem enginn stjórnmálaflokkur vill gangast við sem sinni stefnu.  Samt lemur núverandi sjávarútvegsráðherra hausnum við steininn, af því að hún gengur með steinbarn í maganum, sem hefur fengið nafnið "uppboðsleið".  

Orkulindir landsins eru líka takmörkuð auðlind, þótt takmörkunin sé annars eðlis en í sjávarútveginum.  Yfirvöld úthluta fyrirtækjum virkjanaleyfum, og ekki fá þau öll leyfi til að virkja, þar sem þau hafa hug á og hafa jafnvel rannsakað virkjanasvæði, eins og niðurstaða Verkefnisstjórnar um Rammaáætlun er órækt vitni um. 

Þar að auki hefur Hæstiréttur dæmt sveitarfélagi í vil um, að það mætti leggja fasteignaskatt á vatnsréttindi í fljóti, sem rennur um sveitarfélagið, í hlutfalli við lengd fljótsins í viðkomandi sveitarfélagi (Fljótsdalshreppi).  Eina útistandandi ágreiningsefnið við eiganda virkjunarinnar, Landsvirkjun, er, hvaða gjaldflokk megi nota. 

Fulltrúar sveitarstjórna í sveitarfélögum, þar sem virkjuð á rennur um, en fáar eða engar fasteignir virkjunarinnar eru staðsettar, berja lóminn og kvarta undan því, að lítið af auðlindarentunni verði eftir í héraðinu.  Hvers vegna láta þau ekki meta vatnsréttindin til fjár og leggja síðan á fasteignagjald, sem þau hafa nú réttarheimild til samkvæmt dómafordæmi Hæstaréttar ?  Verðmætamatið þarf að vera samkvæmt viðurkenndri reikniaðferð um núvirðingu framtíðarframlegðar allra virkjana í ánni. Fyrir t.d. Þjórsá er ekki um neinar smáupphæðir að ræða og fara vaxandi.

Harðar deilur geisa um laxeldi í sjókvíum hér við land.  Sumpart eiga þær deilur rót að rekja til liðins tíma horfinna vinnubragða við þessa atvinnugrein.  Undanfarar ákvarðanatöku um starfsleyfi og rekstrarleyfi laxeldisstöðva eru tvíþættir.  Í fyrsta lagi burðarþolsmat Hafró á líklegri getu viðkomandi fjarðar til að hreinsa sig af úrgangi og aðskotaefnum frá fiskeldinu og í öðru lagi áhættugreining, þar sem metnar eru líkur á neikvæðum atburðum á borð við eldislaxastrok alla leið upp í nærliggjandi ár, sem leiði til meira en 4 % af eldislaxi í einni á. 

Til að reka endahnútinn á áhættugreininguna þarf hins vegar að meta líklegt fjárhagstjón af neikvæðum fylgifiskum laxeldis á móti samfélagslegum fjárhagsávinningi af laxeldinu. Bæði fólk og náttúra verða að fá að njóta vafans til lengdar.  Einnig má líta svo á, að íbúarnir séu hluti af náttúrunni á viðkomandi svæði. Sé þetta gert, t.d. fyrir Ísafjarðardjúp, mun koma í ljós, ef lausleg athugun blekbónda er rétt, að hámarkstjónið er vel innan við 5 % af líklegum fjárhagsávinningi samfélagsins (verðmætasköpun) á hverju ári.  Slíkt verður að telja, að réttlæti 30 kt/ár leyfisveitingu í Ísafjarðardjúpi, enda sé skaðabótaskylda eldisfyrirtækjanna niður njörvuð.

Í síðari hluta ágústmánaðar 2017 skilaði "Starfshópur um stefnumótun í fiskeldi" skýrslu sinni til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.  Þar var lagt til að bjóða út starfsleyfi til sjókvíaeldis, og fer nú fram vinna við útfærslu þeirra tillagna.  Fyrirtækin eiga að fá 6 ára tímabil frá upphafsslátrun úr kvíunum að fyrstu greiðslu auðlindagjalds.

Hér er farið offari í gjaldtöku af atvinnustarfsemi, sem mun koma niður á fjárfestingum og nýsköpun í greininni og klárlega veikja samkeppnishæfni fyrirtækjanna á erlendum mörkuðum, því að þessi hegðun yfirvalda þekkist ekki annars staðar. Annaðhvort bjóða menn upp eða leggja á árlegt auðlindagjald, en alls ekki hvort tveggja. 

Verðmætamat á laxeldisauðlindinni gæti numið 4,0 MISK/t.  Reksturinn stendur ekki undir svo háu kaupverði, en e.t.v. má vænta tilboðs, sem nær 0,5 MISK/t. Til samanburðar hefur gangverð á þorskkvóta numið 2,5 MISK/t, en þar er yfirleitt um að ræða jaðarverð, þar sem útgerðir eru að bæta við sig kvóta. Ef þessi (0,5 MISK/t) yrði raunin í útboðum, mun kostnaður af leyfiskaupunum, jafnaður á 20 fyrstu rekstrarárin, nema um 6 % af framlegð.  Þetta er hátt og skýrir, hvers vegna hámark árlegs auðlindargjalds var í skýrslu téðs starfshóps sett föst upphæð, 15 ISK/kg af sláturlaxi.  Í heildina verða leyfisgjöld og auðlindargjald þungur baggi á starfseminni fyrstu árin, jafnvel 10 % af framlegð.  Undir núverandi sjávarútvegsráðherra má þó sjávarútvegurinn búa við enn verri kjör, þar sem veiðileyfagjöldin munu nema um miaISK 11 í heildina fiskveiðiárið 2017/2018 samkvæmt reglugerð hennar frá í sumar.  Þetta gæti að meðaltali numið 30 % af framlegð, sem er glórulaus gjaldtaka ríkisins.  

Til að gera sér í hugarlund, hversu gríðarlegar upphæðir kunna að verða greiddar fyrir laxeldisleyfin, er hægt að taka dæmi af Ísafjarðardjúpi, þar sem burðarþolsmatið hljóðar upp á 30 kt.  Ef þetta magn yrði boðið upp, gæti andvirðið numið miaISK 15.  Hvert á það að renna ?  Réttast væri að stofna sjóð, sem veitir fé til uppbyggingar innviða, sem tengjast fiskeldinu beint.  

Ályktunin af öllu þessu er, að það stefnir í ringulreið í auðlindastjórnun landsmanna.  Í sjávarútveginum er við lýði ofurgjaldtaka.  Veiðileyfagjaldið raskar samkeppnisstöðu íslenzkra útgerða við útlönd og við aðrar atvinnugreinar hérlendis.  Samþjöppun í greininni verður svo hröð, að sumar byggðir munu vart fá svigrúm til aðlögunar.  Veiðileyfagjaldið á sjávarútveginn er miskunnarlaus rányrkja ríkisins, sem má ekki standa.

Í orku- og fjarskiptageiranum fer ekki fram útboð á virkjanaleyfum eða fjarskiptarásum.  Gjald fyrir leyfisveitingar er mjög lágt, og ekkert auðlindargjald er innheimt.  

Þetta ósamræmi er óviðunandi og ber vott um afleita stjórnsýslu.  Hóflegt gjald ber að taka fyrir aðgang að náttúruauðlind "í sameign þjóðarinnar" eða afnotaréttinn, en það á ekki að refsa fyrirtækjum fyrir þessa nýtingu með því að rukka fyrir hvort tveggja.  Heildarkostnaður fyrirtækis af aðgangs- og/eða afnotarétti ætti aldrei að fara yfir 5 % af framlegð þess árið á undan.

Uppboðsleiðin er stórgölluð.  Hún getur aldrei farið fram óheft, nema menn sætti sig við, að allur aðgangurinn geti lent hjá öflugasta fyrirtækinu.  Að hafa öll eggin í einni körfu er of áhættusamt fyrir yfirvöldin. Á keyptur aðgangur að vera framseljanlegur hverjum sem er ? Það verður að leggja ýmsar hömlur á bjóðendur.  Það er mun eðlilegra, að raða fyrirtækjunum landfræðilega rökrétt niður á strandsvæðin og leggja síðan á þau hóflegt árlegt auðlindargjald, t.d. 20 ISK/kg, þó að hámarki 5,0 % af framlegð síðasta árs.      

 

 

 

 

 

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband