Færsluflokkur: Evrópumál

Öfugsnúin náttúruvernd

Það tók Orkustofnun 19 mánuði að rýna umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun.  Þetta er meira en eitt ár umfram hefðbundinn afgreiðslutíma.  Orkumálastýran var góð með sig og bar fyrir sig, að vönduð vinnubrögð tækju langan tíma.  Það er þó alls ekki algilt, og nægilega vönduð vinnubrögð reyndust í þessu tilviki alls ekki hafa verið viðhöfð.  Það kom í ljós 15.06.2023, þegar virkjunarleyfi Orkustofnunar var í fyrsta skipti í sögunni fellt úr gildi.  Þetta er líka í fyrsta skipti í sögunni, sem raunvísindalega menntaður maður veitir stofnuninni ekki forstöðu.  Þar hafa verkfræðingar yfirleitt veitt forstöðu og farizt það vel úr hendi.  Það er því óskiljanlegt að taka nú þá áhættu að velja stjórnmálafræðing (með einhver orkumálanámskeið í farteskinu) til að leiða þessa stóru og mikilvægu stofnun. Það kann að koma niður á afköstum og gæðum í starfsemi stofnunar, sem fæst við flókin viðfangsefni. 

Morgunblaðið sagði frá þessum válegu tíðindum fyrir jafnvægið í framboði og eftirspurn raforku í landinu, sem hefur nú þegar verið raskað, strax daginn eftir, 16.06.2023, undir fyrirsögninni:

""Sigur náttúruverndar á Íslandi"".

Fréttin hófst þannig:

"Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi úr gildi virkjunarleyfi Landsvirkjunar fyrir Hvammsvirkjun samkvæmt nýjum úrskurði, sem birtist síðdegis í gær.  Orkustofnun gaf út virkjunarleyfi til Landsvirkjunar í efri hluta Þjórsár [Þetta er rangt orðalag.  Átt er við efri hluta Neðri Þjórsár.] í desember á síðasta ári [2022], sem telst nú ógilt.

Í úrskurðinum eru m.a. gerðar athugasemdir við, að Orkustofnun hafi ekki leitað til rétts stjórnvalds, Umhverfisstofnunar, til að fá frekari leiðbeiningar áður en leyfið var gefið út."

Þetta er alveg dæmalaust sleifarlag af hálfu Orkustofnunar.  Þegar nýr Orkumálastjóri var á sínum tíma gagnrýnd fyrir hangsið yfir þessari leyfisumsókn, bar hún því m.a. við, að leita þyrfti svo margra umsagnaraðila.  Nú kemur í ljós, að stofnunin kunni ekki að spyrja réttu spurninganna.  Þetta hefur aldrei gerzt áður og segir margt um faglega þyngd stofnarinnar núna eða kannski óendanlegan léttleika tilverunnar.  Það er engin afsökun, þótt um sé að ræða innleiðingu á reglu Evrópusambandsins (ESB) um verndun á gæðum vatnsfalla.  Sú regla hefur með góðu eða illu lagagildi á Íslandi, og Landsvirkjun var kunnugt um það, en hefur ekki með fullnægjandi hætti tekizt að sýna fram á, að gæði árinnar verði óröskuð með virkjuninni.  Það getur ekki hafa verið ætlun ESB að koma í veg fyrir nýjar vatnsaflsvirkjanir í EES-löndunum.  Slíkt sjónarmið, ef það er fyrir hendi, verður að víkja fyrir þörfinni á raforku úr endurnýjanlegri orkulind. 

"Í úrskurðinum var tekin afstaða til fjölda kæra. Ein þeirra var borin fram af samtökunum Náttúrugrið, Náttúruverndarsamtökum Íslands og Verndarsjóði villtra laxastofna.  Snæbjörn Guðmundsson er formaður Náttúrugriða og var hæstánægður eftir fyrsta lestur úrskurðarins.  Hann telur þetta vera stærsta sigur náttúruverndar á Íslandi í langan tíma.  Honum þykir úrskurðurinn slá á þær raddir, sem segja, að flýta eigi leyfisferlinu og fækka kæruleiðum.  Meira ríði á að gera bragarbót á stjórnsýslunni í kringum leyfisveitingar.  Úrskurðurinn sýni, að hún sé í miklum ólestri." 

Það eru engin hlutlæg, aðeins huglæg, rök fyrir því, að téður úrskurður, sem er reyndar falleinkunn á vinnubrögð Orkustofnunar, sem nýr forstjóri hennar ber ábyrgð á, eigi nokkuð skylt við náttúruvernd.  Það er kolröng skilgreining á náttúruvernd, að hún skili þá aðeins árangri, ef hún kemur í veg fyrir alla nýtingu auðlinda landsins, t.d. orkulindanna.  Slíkt er útúrsnúningur afturhaldssinna á hugtakinu náttúruvernd. Inngrip í náttúruna við gerð Hvammsvirkjunar verða í algeru lágmarki, þar sem rennsli árinnar breytist aðeins á stuttum kafla, og ekki er þörf á miðlunarlóni, því að Þórisvatn þjónar því hlutverki.  Inntakslónið verður í árfarveginum, svo að umhverfisvænni öflun 95 MW inn á landskerfið fyrirfinnst varla á landinu og þótt víðar væri leitað. 

Úrskurðurinn breytir þannig engu fyrir náttúruna á staðnum, en mun seinka orkuskiptunum í landinu og framlengja orkuskortstímabil, sem leiðir til samdráttar í atvinnustarfsemi, minnkunar útflutningstekna og aukinnar olíunotkunar, m.a. hjá hitaveitum og fiskimjölsverksmiðjuna.  Þegar þessar afleiðingar eru hafðar í huga, sést bezt, hversu öfugsnúin og reyndar glórulaus þau viðhorf eru, að téður úrskurður tákni sigur fyrir vernd íslenzkrar náttúru.  Því er þveröfugt farið. 

Úrskurðurinn er skriffinnskuúrskurður, þar sem aðallega er fundið að því, að ekki hafi verið sýnt fram á, að kröfugerð Evrópusambandsins um framkvæmdir í árfarvegum hafi verið fullnægt, og afturhaldið hefur jafnvel kært leyfisveitinguna til ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA með framfylgd EES-samningsins.  Það verður fróðlegt að sjá úrskurð ESA.  Allt er þetta leikur blýantsnagara að formsatriðum, og þessi leikur verður þjóðarbúinu dýr og mun valda aukinni mengun í nærumhverfi aukinnar olíubrennslu.  Sigur afturhaldsins er ósigur náttúrunnar. Nánast allir "sigrar" þessa afturhalds hafa orðið bjúgverpill fyrir hagsmuni hins vinnandi manns og viðleitnina að draga úr mengun á Íslandi og að auka hreinleika náttúrunnar. 

"Ísland er bundið af vatnatilskipun Evrópusambandsins, sem hafi lagagildi hérlendis.  Þar er kveðið skýrt á um, að ásýnd straumvatns megi ekki raska.  "Orkustofnun rannsakaði ekki þann þátt af neinu viti áður en hún gaf út leyfið.  Landsvirkjun sótti um undanþágu frá þessari meginreglu, en hún er ófrávíkjanleg samkvæmt dómafordæmum erlendis frá.  Leitað er svo til Umhverfisstofnunar löngu síðar um það mál.  Þetta er stjórnsýsla, sem gengur ekki upp.  Á þessu er málið fellt", segir Snæbjörn."  

Það skortir ekki dómhörkuna hjá græningjanum.  Málið er, að umrædd úrskurðarnefnd hefur hér gerzt kaþólskari en páfinn við túlkun ESB-tilskipunar. Bakgrunnur þessarar tilskipunar ESB er skortur á neyzluhæfu gæða ferkvatni í Evrópu vegna súrs regns og mengaðs frárennslis út í ár og stöðuvötn.  Súra regnið er ekki fyrir hendi á Íslandi, en mengun af völdum lítt hreinsaðs eða óhreinsaðs frárennslis er fyrir hendi, en ógnar þó ekki vatnsbólum landsmanna alvarlega.  Um þessa mengunarhættu verður alls ekki að ræða frá Hvammsvirkjun, því að þar verða ýtrustu mengunarvarnir viðhafðar.  Það væri saga til næsta bæjar, ef ESB væri að setja upp girðingar til að koma í veg fyrir gerð sjálfbærra virkjana á Evrópska efnahagssvæðinu. Ásýndarbreyting Þjórsár vegna Hvammsvirkjunar verður í algjöru lágmarki og að mestu til bóta, enda kemur bílvegur á stífluna, svo að ákjósanlegt verður að njóta fegurðar umhverfisins eftir gangsetningu virkjunarinnar. Téð úrskurðarnefnd hefur ekki séð skóginn fyrir trjánum, og rétt yfirvöld ,orkuráðherra og/eða dómstólar, verða að leiðrétta þennan búrókratíska misskilning strax.  

"Snæbjörn segir, að kæra þeirra hefði líka byggzt á því, að virkjunarleyfið hefði verið byggt á 20 ára gömlu umhverfismati, sem teldist samkvæmt almennri skynsemi vera úrelt plagg.  Náttúrugrið og fleiri samtök hafa lagt fram kæru fyrir Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) um virkjunarleyfið.  Ekki hefur enn verið úrskurðað í því máli.  Snæbjörn þorði ekki að fullyrða, hvaða áhrif úrskurðurinn í gær hefði á þann málarekstur.  Hefði leyfið staðið óbreytt, væri Ísland brotlegt við vatnatilskipun Evrópusambandsins að sögn Snæbjarnar."

Óttalega er þessi röksemdafærsla græningjans rýr í roðinu.  Almenna skynsemi er ekki hönd á festandi án afmörkunar.  Svo er vafalaust á meðal félaga Náttúrugriða, þegar það hentar þeim, en tæpast er það almennt viðhorf á Íslandi, því að mörgum ofbýður nú orðið botnlaus skriffinnskan, sem alls konar framkvæmdaleyfi útheimta.  Skriffinnskan skilar ekki árangri, sem meta má meiri en kostnaðinum nemur af henni.  Landsvirkjun hefur lögin sín megin í þessu, og það er eina gilda viðmiðið.  

Það er athyglisvert, að græningjarnir reyna að sækja rétt sinn til ESA.  Úr því sem komið er verður að telja afar æskilegt að fá fram skoðun ESA á því, hvort tilhögun Hvammsvirkjunar brjóti efnislaga í bága við téða vatnatilskipun ESB, eða hvort um hreinan tittlingaskít sé að ræða í röksemdafærslu Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

  


Gengisfelling lýðræðis

Margir mætir menn hafa orðið til þess að andmæla kröftuglega ráðagerð ríkisstjórnarinnar um að innleiða forgangsreglu ESB-réttar á Íslandi og skipa þannig lýðræðislega samþykktum landsrétti á óæðri sess.  Í umræðunni hefur krystallazt, að lögfræðilega er þetta flaustur og flumbrugangur í utanríkisráðuneytinu og pólitískt verður dýrkeypt fyrir stjórnarflokkana að halda þessu til streitu.

  Nú reynir á pólitíska útsjónarsemi utanríkisráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins við að hverfa frá þessum fyrirætlunum. Það hlýtur að vera ankannalegt andrúmsloft í utanríkisráðuneytinu að fara á flot með þau ósköp, sem hér um ræðir, og einkennileg forgangsröðun hjá ríkisstjórninni að hleypa málinu áfram til Alþingis sem stjórnarfrumvarpi.  Slíkt vitnar um óbeysið pólitískt þefskyn nú, þegar stjórnin má illa við pólitískum "bommertum" og gengur hálfhölt fram á vígvöllinn.  

Sá, sem ötulast og mest hefur andæft málinu, er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Kraganum, Arnar Þór Jónsson, lögfræðingur.  Með baráttu sinni hefur hann með vissum hætti bjargað andliti Sjálfstæðisflokksins og dregið úr tjóninu, sem utanríkisráðherra hefði ella getað valdið flokkinum á landsvísu.  Mörgum sjálfstæðismanninum finnst réttilega, að Arnar Þór hafi höfðað til grunngilda Sjálfstæðisflokksins með skrifum sínum og ræðum, og þeir skilja ekki, hvers vegna utanríkisráðherra leggur upp í vegferð, sem þeim þykir einboðið, að endi slysalega.  Arnar Þór Jónsson á þess vegna heiður skilinn fyrir að vekja enn og aftur athygli á þeim málstað, sem Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður um.  Hann var ekki stofnaður til að leiða kratísk viðhorf til öndvegis á Íslandi og þar með að leiða evrópskt "búrókrataræði" til valda á Íslandi í stað hefðbundins lýðræðis, þar sem löggjöfin endurspeglar hagsmuni almennings í landinu samkvæmt mati réttilega kjörinna þingmanna samkvæmt Stjórnarskrá landsins.

Þann 20. apríl 2023 birtist í Morgunblaðinu lærdómsrík grein eftir Arnar Þór Jónsson um þessi mál undir fyrirsögninni:

"Ætlar Alþingi að grafa undan sjálfu sér og gengisfella íslenzkt lýðræði ?"

Þetta er áreiðanlega á meðal róttækustu spurninga, sem sézt hafa á prenti frá varaþingmanni, enda er tilefnið ærið, og höfundi verður hugsað til endaloka þjóðveldisins með Gamla sáttmála.  M.v. "salami" aðferðina, sem fullveldið er beitt á okkar tímum, eru þessi hugrenningatengsl skiljanleg:

"Framangreind atriði [um Íslendinga handgengna Noregskonungi á 13. öld] eru nefnd hér, því [að] líkja má nýju frumvarpi utanríkisráðherra um bókun 35 við nútímaútgáfu af trúnaðareiðum fyrri tíma.  Verði frumvarpið að lögum, er í raun verið að gera lýðveldið Ísland handgengið ESB með því að setja Íslendinga undir ok EES-réttar og festa okkur í viðjum erlends valds. 

Brýnt er, að þingmenn og aðrir skilji þungann og alvöruna, sem að baki býr. Með samþykkt frumvarpsins væri Alþingi gengisfellt til frambúðar og íslenzkt lýðræði þar með líka. 

EES-rétturinn er enn vaxandi að umfangi, teygir sig stöðugt lengra, og regluverkið verður sífellt þyngra í vöfum.  Þetta umhverfi hentar illa íslenzkum fyrirtækjum, sem öll eru lítil/meðalstór á evrópskan mælikvarða.  Frumvarpið miðar að því marki að samstilla réttinn (þ. Gleichschaltung) á öllu EES-svæðinu. Ómögulegt er þó að segja, hvert þetta kann að leiða, því [að] ESB/EES-rétturinn hefur stöðugt verið að þenjast út og verið túlkaður á "dýnamískan" (lesist: pólitískan) hátt af hálfu dómstóls ESB. 

Þrátt fyrir þessi óljósu ytri mörk stöndum við hér frammi fyrir því, að réttur ESB/EES skuli hafa stöðu æðstu laga, m.ö.o. reglna, sem ekki má breyta og ætlað er að þjóna sem rammi utan um alla aðra lagasetningu með því að afmarka, hvað telst leyfilegt og hvað ekki."

Skyldi ekki mörgum sjálfstæðismanninum renna kalt vatn á milli skinns og hörunds við þennan lestur og þeirrar forsögu, að Alþingi hefur fengið þetta mál til umfjöllunar frá ríkisstjórninni, þar sem varaformaður flokksins fer með umráð málaflokksins ? Þetta mál er af slíkri stærðargráðu og getur haft slík áhrif á gengi Sjálfstæðisflokksins á meðal kjósenda, að þingflokkurinn verður að fá leiðsögn frá stofnunum flokksins og þá helzt æðsta vettvangi hans, Landsfundinum.  Þar til sú leiðsögn hefur fengizt, mundi utanríkisráðherra gera réttast í því að draga málið út úr þinginu um sinn.

"Ef Alþingi samþykkir frumvarpið og þar með forgang EES-réttar umfram íslenzk lög, má öllum vera ljóst, að ESB mun eftir það alls ekki sætta sig við, að Alþingi setji sérreglur, sem raska þeirri réttareiningu og þeirri rétthæð lagareglna, sem forgangsreglan miðar að. Með frumvarpinu er stefnt að því, að Alþingi geri Íslendinga ofurselda forgangsrétti EES-reglna, þrátt fyrir að þær eigi uppruna sinn hjá stofnunum ESB og þrátt fyrir að ESB hafi allt tangarhald á túlkunarvaldi um þessar reglur. 

Flutningsmenn og stuðningsmenn frumvarpsins, sem telja, að ESA og EFTA-dómstóllinn muni geta veitt ESB viðnám í því samhengi, sem hér um ræðir, hljóta að hafa óraunsæja sýn á styrk hinnar veiku EFTA-stoðar í EES-samstarfinu.  Annars gætu þau ekki með góðri samvizku stutt frumvarp, sem miðar að því að veikja grundvallarstofnanir og burðarstoðir okkar eigin lýðveldis." 

Eins og prófessor Stefán Már Stefánsson bendir á, er gengið of langt með forgangsréttarfrumvarpi utanríkisráðherra í niðurlægingu Alþingis og ögrun við eða öllu heldur broti á Stjórnarskrá.  Það er tvennt ólíkt að búa við það, eins og verið hefur, að ESA geri athugasemdir og Alþingi breyti þá íslenzkum lögum eftir atvikum til samræmis, enda sé breytingin ekki ögrun við Stjórnarskrá, eða að Alþingi gefi núverandi og framtíðar reglum ESB skefjalausan forgang umfram íslenzk lög. 

Meðal þess, sem einstakt er og óhagstætt fyrir landsmenn við EES-samninginn, er, að hann er undirorpinn stöðugum breytingum, sem ESB tilkynnir EFTA-ríkjunum í EES, að sambandið vilji láta gilda á öllu EES-svæðinu. Aldrei gerist hið gagnstæða. Ójafnræðið á milli ESB og EFTA er sláandi hér. 

EES-samningurinn var hugsaður sem biðleikur og aðlögun EFTA-ríkjanna að Evrópusambandinu áður en þau sæktu um aðild þar. Ekki er vitað til, að Ísland, Noregur og Liechtenstein sækist eftir aðild að ESB, og þess vegna er brýnt að endurskoða EES-samninginn til að auka jafnræði samningsaðila.  

 

   

   

 

 

 

 


Sjálfstæðismál

Sú ráðagerð ríkisstjórnarinnar að gefa Evrópusambandslöggjöf, sem Alþingi hefur innleitt hér vegna fyrri samþykktar sinnar á EES-samninginum (1993), forgang á landsrétt, mun vissulega hafa djúptækar pólitískar og réttarfarslegar afleiðingar og getur jafnvel haft þau áhrif á þjóðarvitundina, að almenningur fái svipaða tilfinningu og ríkti hér fyrir Heimastjórn 1904, að æðsta valdið í landinu sé erlendis, ekki í Kaupmannahöfn, eins og þá, heldur í höfuðstöðvum ESB í Brüssel.  Þetta er óbærileg tilhugsun, ekki sízt fyrir marga sjálfstæðismenn. 

 Um lagalegu ringulreiðina, sem af þessu mun hljótast, hafa fræðimenn á sviði lögfræði fjallað allítarlega og m.a. verið gerð grein fyrir í https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2289692   

Um hinar pólitísku afleiðingar er hægt að velta vöngum, en líklegt er, að innan borgaralegu flokkanna vítt og breitt um landið sé mikil óánægja með þessa ráðagerð, svo mikil, að verði frumvarp utanríkisráðherra "keyrt gegnum þingið", muni ýmsir kjósendur flokkanna, sem eru á móti frumvarpinu, leita annað í næstu kosningum og þá þangað, sem andstaðan við málið er einna skýrust. 

Skeleggastur á opinberum vettvangi gegn því að innleiða forgang ESB-löggjafar á Íslandi hefur verið varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Kraganum, Arnar Þór Jónsson, lögfræðingur.  Hann hefur talað hart gegn þessu á mannamótum og skrifað rökfasta pistla gegn málinu á vefsetri sínu á Moggablogginu. Hann hefur reyndar verið ódeigur við að vara við því, að fullveldið renni smátt og smátt úr greipum okkar vegna veru okkar á Evrópska efnahagssvæðinu - EES og þess ólýðræðislega fyrirkomulags, að þjóðþing landsmanna þurfi að stimpla fyrirferðarmiklar tilskipanir og reglugerðir inn á lagasafn Íslands. 

Hvorki íslenzkir embættismenn né þingmenn eiga aðkomu að þessum málum á mótunarstigum þeirra, og í Sameiginlegu EES-nefndinni, þar sem sitja fulltrúar ESB og EFTA og fjalla um mál, sem ESB vill, að EFTA-ríkin á Innri markaðinum lögleiði, hefur íslenzki fulltrúinn ekki látið að sér kveða, sbr 3. orkupakkann. Þarna er þó möguleiki fyrir Ísland að fá tilhliðranir og jafnvel að beita neitunarvaldi, en fremur slöpp hagsmunagæzla utanríkisráðuneytisins hefur verið reglan þarna.  Nú er spurning, hvað gerist með koltvíildisgjaldið á flug á milli ESB og Íslands, sem hækka mun farmiðann umtalsvert. 

Morgunblaðið hefur tekið einarða afstöðu gegn frumvarpi utanríkisráðherra eftir að hafa vegið kosti þess og galla.  Það hefur verið bent á, að einstaklingar gætu hafa hagnazt í einstökum tilvikum, ef þessi forgangsregla EES-réttar hefði verið í gildi, en aðferðarfræðin við þessa innleiðingu er röng, enda gengur hún í bága við stjórnarskrá lýðveldisins. 

Morgunblaðið birti frétt um málið 27. marz 2023, reista á tilvitnunum í prófesor Stefán Má Stefánsson, sem blaðið kallar "einn helzta sérfræðing Íslands í Evrópurétti", og í Arnald Hjartarson, aðjunkt við lagadeild HÍ.  Ályktun blaðamannsins er, að "réttaröryggi [sé] teflt í tvísýnu með nýrri forgangsreglu":

 "Frumvarp utanríkisráðherra til breytingar á lögum um Evrópska efnahagssvæðið er óheppilegt, þar sem sú breyting hefði í för með sér, að lög, sem Alþingi samþykkir í framtíðinni hefðu ekki í öllum tilvikum tilætluð áhrif að mati Stefáns Más Stefánssonar, prófessors, og Arnaldar Hjartarsonar, aðjunkts við Lagadeild HÍ." 

Þessi ágalli frumvarpsins er nýr af nálinni í sögu Alþingis og löggjafar þess.  Þess vegna verðskuldar frumvarpið einkunnina örverpi (bastarður) og er ótækt með öllu.  

"Í dag gildir sú regla, að skýra skuli lög og reglur til samræmis við EES-samninginn, að svo miklu leyti sem við á.  

Breytingartillagan felur aftur á móti í sér, að bætt verði við nýju ákvæði, sem kveður á um, að EES-reglur sem lögfestar hafa verið eða innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum, skuli ganga framar öðrum almennum lagaákvæðum, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað."

Það skortir stjórnlagalegar forsendur fyrir þessari breytingu.  Ef starfsfólk utanríkisráðuneytis Íslands er þeirrar skoðunar, að Íslendingum sé ekki vandara um en Norðmönnum að innleiða slíkt forgangsákvæði fyrir ESB-réttinn, þá er það misskilningur.  EES-samningurinn var á sinni tíð samþykktur með auknum meirihluta í Stórþinginu, þ.e. meira en 3/4 greiddra atkvæða og 2/3 þingmanna þurftu að mæta til atkvæðagreiðslu hið minnsta.  Í Noregi er þess vegna litið svo á, að EES-samningurinn sé æðri venjulegum lögum, þótt hann jafnist ekki á við stjórnarskrána frá Eiðsvöllum 1814. 

Engu slíku er til að dreifa hérlendis, og þess vegna verða ráðherrar og þingmenn að gæta vel að sér við að semja lagafrumvörp, að þau brjóti ekki í bága við stjórnarskrá Íslands.  Með frumvarpi utanríkisráðherra um forgang ESB-löggjafar í fortíð (?) og framtíð er ráðherrann að leggja til framsal löggjafarvalds til stofnunar, sem Ísland á ekki aðild að.  Það er stjórnarskrárbrot.  Hortitturinn um, að Alþingi geti ákveðið annað, er ógildur kattarþvottur í þessu samhengi. Hvað sagði Stefán Már við Morgunblaðið ?:

""Það er svolítið hallærislegt að segja, að EES-réttur skuli hafa forgang, en svo er eiginlega ekkert að marka þetta, því [að] Alþingi getur alltaf skipt um skoðun og breytt því eftir á", segir Stefán Már í samtali við Morgunblaðið. "Hér er verið að segja eitthvað, sem er ekki alveg rétt.  Við getum ekki lofað forgangi til framtíðar, því [að] þá væri verið að framselja lagasetningarvaldið, og það bryti gegn stjórnarskránni.""

Skýrari getur falleinkunn lagaprófessorsins vart orðið á framlag utanríkisráðherra til þessa máls með örverpi sínu.  Ef ráðherrann dregur ekki málið til baka og skýrir lagahliðina út fyrir ESA, verður Alþingi að grípa til sinna ráða til að hindra framgang þess.  Það er engin nýlunda, að undirlægjuflokkarnir á Alþingi með Samfylkinguna í fararbroddi vilji samþykkja örverpið.  Það sýnir vel innviðina þar á bæ.  Stjórnarflokkarnir mega ekki gefa þessu dómgreindarlitla liði "blod på tanden" með því að traðka á Stjórnarskránni.

"Forsenda frumvarpsins virðist sú, að Alþingi muni taka það sérstaklega fram við síðari lagasetningu, ef til stendur að víkja frá eldri reglum EES-réttar, ella verði yngri reglan að víkja fyrir EES-reglunni.

Arnaldur og Stefán telja, að þessi forsenda fái tæpast staðizt, enda geti hæglega komið til þess, að Alþingi setji skýrar lagareglur í framtíðinni í góðri trú um, að þær standist EES-samninginn, en annað komi svo á daginn.  Við slíkar aðstæður væri vegið að réttaröryggi borgaranna.  "Borgararnir eiga að geta treyst því, sem fram kemur í íslenzkum lögum", segir Stefán Már og bætir við, að regla á borð við þá, sem tillagan boðar, gæti orðið til þess að koma borgaranum  í opna skjöldu, þegar hann heldur, að einhver regla gildi, en í ljós kemur svo, að hún samrýmist ekki EES-reglum. "EES-reglurnar eru mjög matskenndar, og það er ekki alltaf greinilegt, hver EES-reglan er af lestri hennar, heldur byggist reglan oft á túlkun þeim megin.  Atriði, sem voru óljós í gær, geta svo verið orðin skilyrðislaus eftir viku, ef ESB-dómstóllinn segir það."" 

Þetta er hárrétt greining hjá lagaprófessornum, sem sýnir, hversu veikburða hinn lögfræðilegi grundvöllur lagafrumvarps utanríkisráðherra er. Það er vel þekkt í ESB, að dómstóll þess tekur sér víðtækt vald til túlkunar laga í ágreiningsmálum og setur þar með fordæmi.  Dómstóllinn jaðrar við að taka sér lagasetningarvald, og þetta hefur m.a. leitt til þess, að "Rauðhempurnar í Karlsruhe" (Stjórnlagadómstóll Þýzkalands) hafa séð sig knúnar til að taka fram, að Þýzkaland hafi sína stjórnarskrá, sem ESB-dómstóllinn hafi ekki leyfi til að brjóta í bága við, þegar Þjóðverjar eigi í hlut. 

Að lokum sagði í tilvitnaðri frétt:

"Stefán telur, að skoða ætti lögskýringarreglu EES-samningsins upp á nýtt og athuga, hvort það sé ekki fær önnur lausn hér á landi, sem gangi skemmra.  Spurður, hver sé gallinn við núverandi reglu, svarar Stefán Már: "Ég hef ekki sagt, að það sé neinn galli við hana annar en sá, að ESA sættir sig ekki við hana.""

Þarna heyrist í rödd heilbrigðrar skynsemi. 

 

 

 

 


Ætla þingmenn að skapa réttarfarslega ringulreið ?

Vanda verður til verka við lagasetningu, en því hefur ekki alltaf verið að heilsa.  Nú virðist ætla að keyra um þverbak og veldur því óþörf auðsveipni við samræmingarþörf EES, en ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, telur íslenzka dómsstóla ekki hafa nægilega skýr lagaleg fyrirmæli um að láta ESB-réttinn njóta skýlauss forgangs í tilvikum, þar sem landsréttur, vilji Alþingis, kveður öðru vísi á. 

Ef frumvarp utanríkisráðherra, sem eru viðbrögð stjórnvalda við þessari kvörtun ESA, verður leitt í lög, verður Alþingi gert að hálfgerðum ómerkingi, því að frumvarp ráðherrans virðist geta haft afturvirk áhrif á löggerninga, og lög frá Alþingi eftir innleiðingu ESA-kröfunnar, sem sett eru í góðri trú, verður hægt að dæma ómerk, þótt yngri séu og sértækari en sú lagasetning, sem utanríkisráðherra leggur nú til.

Með vissum hætti er verið að slíta í sundur lögin með því að gefa ESB-rétti skýlausan forgang á landsrétt í fortíð og framtíð.  Íslendingar hafa áður lent í svipaðri stöðu.  Í fyrra skiptið var það áratug eftir samþykkt Gamla sáttmála, Magnús, konungur, lagabætir vildi samræma íslenzka löggjöf, Grágás, við norska löggjöf, með Járnsíðu.  Íslendingar sættu sig ekki við þetta, útkoman varð lögbókin Jónsbók, sem Íslendingar mótuðu og sömdu að mestu. Á meðan Ísland er ekki í Evrópusambandinu, hljóta allir ærlegir menn að sjá, að Alþingi Íslendinga verður að eiga síðasta orðið um gildandi lög í landinu.  Ef ríkisstjórn VG, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks ætlar ekki að draga frumvarpið til baka, er lágmark, að þjóðin fái að hafa síðasta orðið í þjóðaratkvæðagreiðslu um það.

Þann 24. apríl 2023 birtist í Morgunblaðinu fréttaskýring Karlottu Lífar Sumarliðadóttur um þetta mál undir fyrirsögninni:

"Ný regla hefði töluverð áhrif hér á landi".

Hún hófst þannig:

"Fyrirhuguð EES-forgangsregla er til þess fallin að hafa töluverð áhrif í íslenzkum rétti og réttarframkvæmd heilt yfir, verði hún að lögum.  

Þetta er [á] meðal þess, sem fram kemur í grein Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst, framkvæmdastjóra Lagastofnunar HÍ og doktorsnema við Lagadeild Háskóla Íslands, og dr Hafsteins Dans Kristjánssonar, lektors við Lagadeild HÍ."

Hér vara þungavigtarmenn á lagasviðinu með varfærnu orðalagi sínu, sem mikil alvara býr þó undir, við afleiðingum innleiðingar skýlauss forgangsréttar ESB-réttar, bæði núgildandi og með öllum framtíðar breytingum og viðbótum, sem Íslendingar eiga enga aðkomu að á mótunarstigum. Hér er flausturslega að verki verið hjá utanríkisráðuneytinu, og það virðist enga lögfræðilega greiningu hafa viðhaft á þeirri réttarstöðu, sem uppi yrði í landinu eftir samþykkt þessa frumvarps.

Eftir að hafa kynnt sér efni þessa máls virðist höfundi þessa pistils, sem er leikmaður á sviði lögfræði, að téð frumvarp utanríkisráðherra verðskuldi einkunnargjöfina "lagatæknilegt örverpi". Slíkt sættu Íslendingar sig ekki við, nýkomnir undir hans hátign Noregskonung, í kjölfar Gamla sáttmála og fengu sína Jónsbók, sem entist vel og lengi.  

"Greinin birtist í vefriti Úlfljóts um helgina [22.-23.04.2023] og ber heitið: "Inntak fyrirhugaðrar EES-forgangsreglu og áhrif hennar í íslenzkum rétti".  Hún er skrifuð í tilefni af frumvarpi utanríkisráðherra til breytinga á lögum um EES-samninginn, sem ætlað er að uppfylla kröfur ESA um forgangsáhrif EES-reglna."

Þessi Úlfljótsgrein gefur utanríkismálanefnd Alþingis tilefni til að kalla fræðimennina, sem eru höfundar hennar, á sinn fund og hlýða vandlega á niðurstöður greiningar þeirra á afleiðingum lögfestingar slíks frumvarps, og hvort samþykkt Alþingis á því muni fela í sér stjórnarskrárbrot. Utanríkismálanefnd kann nú þegar að vera á óheillabraut í umfjöllun sinni, og hún verður að staldra við og kynna sér til hlítar, hvað gagnrýnendur frumvarpsins hafa fram að færa, en ekki að hlýða einvörðungu á þá, sem hengja hatt sinn á, að með slíkri lagasetningu sé borgurum hérlendis færður aukinn réttur.  Það er augljóslega ekki hin almenna ályktun, sem draga má af frumvarpinu, þótt svo kunni að vera í einstaka tilvikum um hríð.

"Af fyrirhugaðri forgangsreglu leiðir, að sett lög, sem innleiða EES-reglur, ganga ætíð framar ósamrýmanlegum settum lögum, og skiptir þá ekki máli, hvort síðar nefndu lögin eru yngri eða sértækari að því, er segir í greininni.  Mun það jafnframt eiga við um samspil laga, sem sett hafa verið fyrir gildistöku forgangsreglunnar til framtíðar litið."

   Þetta er ótæk lagasetning þegar af þeirri ástæðu, að hún skapar ringulreið í réttarframkvæmd.  Utanríkisráðherra hengir hatt sinn á það ákvæði frumvarpsins, að Alþingi geti hnýtt aftan við lög sín, að þau skuli njóta forgangs í landinu.  Við þetta er tvennt að athuga.  Það er lítillækkandi og óviðunandi, að rétt kjörið þjóðþing skuli þurfa að hlíta slíkum afarkostum, til að mark sé takandi á gjörðum þess.  Í öðru lagi gengur þetta í berhögg við síðari hluta bókunar 35 við EES-samninginn, sem ráðherrann þó vill véla Alþingi til að samþykkja.  Þess vegna er ástæða til að spyrja, hvort utanríkisráðuneytið hafi borið þennan hortitt undir ESA.  Eftirlitsstofnunin væri komin í andstöðu við sjálfa sig, ef hún telur þennan hortitt í samræmi við stefnu Evrópusambandsins um einsleitni Innri markaðarins. 

Alþingi getur engan veginn verið þekkt fyrir að samþykkja lagasetningu, sem framselur endanlega löggjafarvaldið á Íslandi til Brüssel.  Það er þyngra en tárum taki, að varaformaður Sjálfstæðisflokksins reki með þessum hætti djúpan fleyg í raðir sjálfstæðismanna.  Heggur hún þar enn í sama knérunn, því að hún sem iðnaðarráðherra studdi dyggilega við Guðlaug Þ. Þórðarson, þegar sá hafði forystu um innleiðingu Þriðja áfanga orkulöggjafar Evrópusambandsins á Íslandi.

"Í viðtali við Morgunblaðið í síðasta mánuði [marz 2023] lýsti Stefán Már Stefánsson, prófessor við lagadeild HÍ, áhyggjum af útvíkkun EES-samningsins, og telur hann frumvarp ráðherra ganga of langt.  Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, utanríkisráðherra, hefur aftur á móti sagt, að hvorki sé vegið að stjórnarskrá né feli frumvarpið í sér framsal á fullveldi."

Þegar margreyndur fræðimaður á sviði laga tjáir sig með þessu móti, ættu minni spámenn á þessu fræðasviði, þótt þeir gegni háum embættum um sinn, ekki að kasta fram öndverðri skoðun án rækilegrar umhugsunar og rökstuðnings.  Hortittur á borð við þann í frumvarpinu, sem kveður á um, að Alþingi geti tekið fram, að einstök lög þess hafi forgang, er hvorki gjaldgengur í fullvalda ríki né samræmist hann kröfugerð ESA um bókun 35.  Þess vegna felur lagasetning um forgang ESB-löggjafar á landslög í sér gróft framsal Alþingis á löggjafarvaldi sínu, og slíkt er skýlaust stjórnarskrárbrot.  Hvernig stendur á því, að varaformaður Sjálfstæðisflokksins er nú svo heillum horfinn að ætla að troða þvílíkum gjörningi ofan í kok þingflokksins og almennra flokksmanna ?  Verði málið keyrt alla leið, mun það hafa í för með sér alvarlegar og þungbærar meltingartruflanir fyrir Sjálfstæðisflokkinn.  Flokksmenn um allt land ættu að láta þingmenn sína heyra sína skoðun á þessu, því að hér er stórmál á ferð.   

    "Í grein Friðriks Árna og Hafsteins Dans eru færð rök fyrir því, að verði forgangsreglan að lögum, muni einstaklingar og lögaðilar njóta ríkari möguleika en áður til að höfða mál fyrir íslenzkum dómstólum og byggja málatilbúnað sinn á því, að íslenzk lagaákvæði skuli víkja fyrir ákvæðum EES-samningsins og öðrum innleiddum EES-reglum að réttarfarsskilyrðum uppfylltum. 

Að sama skapi verði íslenzkum dómstólum skylt að ljá innleiddum EES-reglum aukið vægi í dómsúrlausnum andspænis ósamrýmanlegum settum lögum, sem munu þá víkja fyrir hinum fyrr nefndu á grundvelli forgangsreglunnar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað í síðar nefndu lögunum." 

Íslenzkt réttarfar yrði mjög einkennilegt eftir innleiðingu téðrar forgangsreglu með innlenda löggjafann svífandi í lausu lofti og lagasetningar, sem hægt væri að ómerkja af minnsta tilefni.  Þetta ástand yrði óbærilegt fyrir sjálfstæða þjóð, og hér yrði svipað ástand og var, þegar lagafyrirmæli komu frá kóngsa í Kaupmannahöfn.  Það tekur svo af öll tvímæli um, að forgangsregla þessi felur í sér stjórnarskrárbrot, að Íslendingar hafa sjálfir alls enga aðkomu að samningu og/eða setningu þessara laga á vettvangi Evrópusambandsins. Klíni Alþingi hortitti um forgang einstaka lagasetningar aftan við lögin, mun ESA vísast fetta fingur út í það, enda klárlega verra brot í augum ESA/ESB en núverandi fyrirkomulag. Alþingi verður að fella þetta ótæka og óþinglega frumvarp í atkvæðagreiðslu, ef utanríkisráðherra hefur ekki vit á að draga það til baka.  Verði stjórnarliðar handjárnaðir, mun það vísast hafa alvarlegar flokkslegar afleiðingar. 

Í fréttaskýringunni var réttaróvissan vegna forgangsreglunnar útskýrð.  Eitt dæmi um stórhættulegar afleiðingar forgangsreglunnar er lagasetning ESB um ríkisábyrgð bankareikninga.  Í nýju bankahruni kæmist ríkissjóður í greiðsluþrot við innleiðingu laga ESB um þessar ríkisábyrgðir:

"Jákvæðu áhrifin mundu felast í því, að einstaklingar gætu framfylgt réttindum sínum samkvæmt innleiddum EES-reglum með markvissari hætti fyrir íslenzkum dómstólum en þeir geta nú.  

Neikvæðu áhrifin gætu birzt í því, að einstaklingar og lögaðilar gætu þurft að sæta því, að lagaregla, sem þeir hafa reitt sig á í lögskiptum sínum innbyrðis eða við stjórnvöld, e.t.v. um langa hríð, væri í dómsmáli eða í framkvæmd stjórnvalda vikið fyrirvaralaust til hliðar á þeirri forsendu, að hún samræmdist ekki réttilega innleiddum EES-reglum."

Þessi staða er varhugaverð, því að hún er líkleg til að grafa undan trausti á réttarfari í landinu og fjölga mjög dómsmálum, sem skapar enn meiri tafir þar en nú er reyndin.  Frumvarpið er algerlega vanhugsað. 

Að lokum sagði í þessari ágætu fréttaskýringu:

"Í greininni er því einnig velt upp, hvort forgangsreglan geti haft afturvirk áhrif á úrlausn ágreinings, sem kemur til kasta dómstóla eða annars úrskurðaraðila eftir gildistöku hennar, ef ágreiningurinn er sprottinn af málsatvikum, sem áttu sér stað áður en reglan tók gildi.

Færð eru rök fyrir því, að þótt fyrirliggjandi frumvarp hafi ekki að geyma ráðagerð um bein  afturvirk réttaráhrif forgangsreglunnar, sé ekki útilokað, að hún geti breytt samspili lagareglna, að því er varðar málsatvik til framtíðar litið, þótt þau tengist lögskiptum, sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku hennar."

Frumvarpið mundi innleiða mikinn vafa og rugling í íslenzkan rétt, ef það yrði að lögum, og slíkt ber að forðast eins og heitan eldinn, enda er slíkt einkenni lélegrar lagasetningar.  Frumvarpið er hrákasmíð.

 

  

 

 

 

 

 


Fótalausar hugdettur um föngun og förgun CO2

Hræðsluáróðurinn um heimsendi handan við hornið af völdum hækkandi koltvíildisstyrks í andrúmslofti hefur fætt af sér ýmsar rándýrar viðskiptahugmyndir, sem haldið er lífi í með peningum úr alls konar styrktarsjóðum, m.a. frá Evrópska efnahagssvæðinu (EES).  Samt hafa heimsendaspámenn komið sér undan að svara því, hvað hafi valdið 4 hlýskeiðum á undan núverandi.  Vitað er, að ástæðan var þá ekki hækkandi styrkur koltvíildis í andrúmslofti. Hvað stjórnaði þessum hlýskeiðum þá ? Það er líka vitað, að mælingar og spár IPCC um þróun hitastigs eru mun hærri en vísindamanna, t.d. prófessors dr John Christy, sem vinna gögn úr hitastigsmælingum gervihnatta í veðrahvolfinu frá um 1980.  

Ein hugdettan er að sjúga CO2 úr verksmiðjureyk, en koltvíildisstyrkurinn þar er yfirleitt svo lágur, að þetta sog er rándýrt.  Það er dýrara en nemur bindingu CO2 með skógrækt á Íslandi.  Samt hafa nokkrar verksmiðjustjórnir áhuga á þessu, og er það vegna koltvíildisskattsins í Evrópu, sem fer hækkandi og nálgast 100 EUR/t CO2.  Af þessum sökum hefur Rio Tinto samþykkt að gera tilraun með þetta í Straumsvík, og stendur hún yfir.  

Út yfir allan þjófabálk tekur þó sú "viðskiptahugmynd" hjá "Coda Terminal" að flytja inn CO2 frá útlöndum, blanda það vatni úr Kaldánni, sem rennur út í Straumsvík, og dæla blöndunni síðan niður í bergið þar.  Hvers vegna er þetta út í hött ?  Það er vegna þess, að það er dýrt að einangra CO2 úr afsogi, og sá útlendingur, sem búinn er að því, getur selt það sem hráefni í rafeldsneyti, hvar sem er.  Það mun hann kjósa fremur en að borga undir það flutning til Íslands, dýra meðhöndlun þar og niðurdælingu. 

 Í Bændablaðinu 12. janúar 2023 birtist frétt og mynd af 4 manneskjum að undirrita viljayfirlýsingu í Ráðhúsi Hafnarfjarðar.  Þetta voru Rannveig Rist, Rósa Guðbjartsdóttir, Grettir Haraldsson og Edda Aradóttir.  Höfundur þessa vefpistils mun éta hattinn sinn, ef þessi viljayfirlýsing þróast áfram og raungerist í stórfellda niðurdælingu á innfluttu koltvíildi með ágóða.  Fyrirsögn fréttarinnar var þessi:

"Byggja kolefnismóttöku- og förgunarstöð í Straumsvík".

Hún hófst þannig:

"Carbfix, Coda Terminal, Hafnarfjarðarbær og Rio Tinto á Íslandi undirrituðu fyrir skömmu viljayfirlýsingu um uppbyggingu kolefnismóttöku- og förgunarstöðvar í Straumsvík undir heitinu Coda Terminal.  

Edda Aradóttir, framkvæmdastjóri Carbfix [á Hellisheiði - innsk. BJo], segir, að með verkefninu sé lagður grunnur að nýrri atvinnugrein hérlendis, sem byggir á íslenzku hugviti, sem geti með tímanum orðið að útflutningsgrein. 

"Ráðgert er, að fyrsti áfangi stöðvarinnar taki til starfa 2026 og að hún nái fullum afköstum árið 2031.  Fullbyggð mun stöðin geta tekið á móti og bundið um 3  Mt/ár af CO2, sem samsvarar meira en helmingi af árlegri losun Íslands", segir Edda."

Hér eru hátimbraðar hugmyndir á ferð, sem hætt er við, að aldrei verði barn í brók.  Áætlaður kostnaður er um mrdISK 50, og árið 2022 mun þessu verkefni hafa verið veittur styrkur úr Nýsköpunarsjóði Evrópu upp á um mrdISK 16.  Fyrir þetta fé verður líklega borað fyrir vatni við Straumsvík, því að verkefnið krefst mjög mikillar vatnstöku, og reist móttökustöð fyrir gas við höfnina.  Hér er rennt blint í sjóinn með arðsama nýtingu þessara fjárfestinga, því að varla fæst nokkur til að gera lagalega skuldbindandi samninga um afhendingu CO2 til langs tíma.

Nú hefur Evrópusambandið (ESB) samþykkt að hvetja aðildarlöndin með styrkveitingum til að tífalda framleiðslugetu sína á rafgreiningarbúnaði til vetnisframleiðslu úr vatni.  Innan 3 ára ætlar ESB að tífalda vetnisframleiðslu innan sinna vébanda, og verður hún þá 10 kt/ár.  Til hvers á að nota þetta vetni ?  Aðallega til að framleiða rafeldsneyti, og þar er CO2 hráefni.  Halda menn, að Coda Terminal geti keppt um hlutdeild í aukinni spurn eftir CO2 ?  Fátt styður það.

Nú styttist í, að ESB dragi úr úthlutun ókeypis  koltvíildiskvóta til evrópskra flugfélaga.  Ætlunin er að draga úr spurn eftir flugferðum innan Evrópu, með því að flugmiðinn verði svo dýr, að ferðalangar velji fremur járnbrautarlestir sem samgöngumáta.  Þetta mun bitna hart á flugfarþegum til og frá Íslandi, og verður ferðaþjónustan vafalaust fyrir verulegri fækkun ferðamanna, sem setur alvarlegt strik í íslenzkan þjóðarbúskap og afkomu fyrirtækja, sem gera út á ferðamenn.  Á sama tíma mun koltvíildiskvótinn á markaði hækka í verði vegna aukinnar eftirspurnar. 

Coda Terminal getur ekki orðið til bjargar í þessu máli, því að þá þyrftu flugfélögin að sjúga hundruði þúsunda tonna á ári af CO2 úr andrúmsloftinu, og það er hvorki tæknilega né kostnaðarlega fýsilegt.  Fýsilegra væri að gera samninga við skógarbændur um stóraukna bindingu með skógrækt. 

Hér er um svo mikið hagsmunamál að ræða fyrir Ísland, að utanríkisráðherra verður nú þegar að reka niður hælana á vettvangi EFTA, þar sem boð verði látið út ganga um það, að í Sameiginlegu EES-nefndinni muni Ísland leita eftir undanþágu, en ella hafna innleiðingu þessarar ESB-löggjafar (um skyldu flugfélaga til að kaupa koltvíildiskvóta) í íslenzkan rétt.  Það er tímabært að ræða þetta mál í utanríkismálanefnd Alþingis og móta afstöðu þar. Þar munu "the usual suspects" taka grunnhyggna afstöðu gegn hagsmunum eyríkisins. 

  

 

 


Er valdframsalið til ESA/ACER minni háttar ?

Hér verður áfram haldið með þýðingu á grein Mortens Harper, lögfræðings hjá samtökunum "Nei til EU", NtEU, um dóm Lögmannsréttarins í máli NtEU gegn norska ríkinu:

"Meginviðfangsefnið við mat á því, hvort valdframsal megi samþykkja samkvæmt stjórnarskrárákvæði nr 26.2 með einföldum meirihluta, eða hvort það útheimti 3/4 mættra þingmanna í meirihlutanum samkvæmt stjórnarskrárákvæði nr 115, er, hvort framsalið er minni háttar eða ekki.  Þetta hugtak er þó ekki tilgreint í stjórnarskrá Noregs, heldur hefur það þróazt í tímans rás, og hafa lögspekingar deilt um það.  Lögmannsrétturinn leggur til grundvallar s.k. kenningu um minni háttar valdframsal.  Um vald ESA samkvæmt ACER-reglugerðinni, kafla 8, er eftirfarandi tilfært í dóminum:

"Þegar um er að ræða gerð valdframsals, er til umræðu framkvæmdavald á formi stjórnvaldslegs fyrirskipanavalds gagnvart rekstraraðila. Þetta er takmörkun á völdum framkvæmdavalds.  Það felur í sér, að eftirlits- og stjórnunarmöguleikar ríkisstjórnarinnar eru fjarlægðir.  Þetta hefur líka þýðingu fyrir eftirlit þingsins og ábyrgð gagnvart stjórnarskrá.  Lögmannsrétturinn telur samt sem áður, að þetta sé ekki kjarni formlegs valdframsals, þar sem samþykki norsku stjórnsýslustofnunarinnar RME þarf til að framkvæma og fylgja eftir ákvörðunum ESA gagnvart fyrirtækjum í Noregi.  (...)

Einkenni valdsins í raun leitar í sömu átt, þar sem tilgangurinn er ekki yfirþjóðleg stjórnun, heldur að reglunaryfirvöld landanna reyni að verða samstiga.  Úr þessu er samt dregið með því að fyrirkomulagið virkar næstum eins og kerfi til að skera úr um þrætur á milli reglunarstjórnvalda landanna." (Síður 34-35.) 

Löggmannsrétturinn skrifar enn fremur:

"Orkumarkaðspakki 3 reglar orkusviðið og viðskipti með rafmagn.  Þetta snertir þjóðfélagslega og stjórnmálalega hagsmuni með mjög mikla þýðingu. (...) Í heild hefur Orkumarkaðspakki 3 mikla þýðingu fyrir norska orkustefnu. 

Völd ESA samkvæmt ACER-reglugerðinni eru hins vegar á sviði tæknilegra og faglegra viðfangsefna á rekstrarsviði og takmarkast við notkun innviða á milli landa (sæstrengi til útlanda)." (Síða 35.) 

Ályktunin er, að valdframsal samkvæmt ACER-reglugerðinni, kafla 8, er "minni háttar".  Að sömu niðurstöðu kemst Lögmannsrétturinn um heimild ESA til að fyrirskipa norskum orkufyrirtækjum að afhenda gögn og heimildina til að sekta þau, ef þessu er ekki hlýtt (reglugerðin um viðskipti yfir landamæri, kafli 20 og kafli 22, nr 2):

"Valdramsalið hefur að mati Lögmannsréttarins mjög takmarkað umfang og hefur ekki umtalsverð áhrif á þjóðfélagslegu og stjórnmálalegu hagsmunina, sem eru fyrir hendi á orkusviðinu."  (Síða 37.)

Lögmannsrétturinn telur málið ekki vafa undirorpið:

"Einnig að afloknu heildarmati getur að dómi Lögmannsréttarins ekki leikið vafi á, að það tvenns konar valdframsal, sem er efni þessa máls, er minni háttar." (Síða 37.)

Að loknum lestri þessa tyrfna texta Landsréttarins norska veldur það ekki undrun, að NtEU hafi áfrýjað dómi hans til Hæstaréttar Noregs.  Dæma þarf um, hvort RME (orkulandsreglari ACER) sé norskt stjórnvald samkvæmt norskum lögum og stjórnarskrá.  

 


Norskir dómstólar geta endurskoðað mat Stórþingsins á stjórnarskrárákvæði

Hér verður haldið áfram þýðingu á grein Mortens Harpers, lögfræðings hjá "Nei til EU", NtEU, um dómsorð og greinargerðir Lögmannsréttarins í deilumáli NtEU við norska ríkið um atkvæðagreiðsluna um Orkupakka 3. 

"Málið vekur líka upp spurninguna um það, hversu langt dómstólarnir geti gengið í að yfirfara eigið mat Stórþingsins.  Ríkið hefur lagt þunga áherzlu á eigið stjórnarskrármat Stórþingsins sem röksemd gegn málsókninni.  NtEU hefur hins vegar haldið því fram, að rétturinn verði að framkvæma nákvæma og vandaða rýni á því, hvort skilyrðin til að nota stjórnarskrárgrein nr 26.2 í stað gr. nr 115 séu uppfyllt. 

Lögmannsrétturinn fellst að nokkru leyti á þetta viðhorf NtEU:  

 "Að loknu heildarmati sínu hefur Lögmannsrétturinn - í vafa - komizt að þeirri niðurstöðu, að athugun dómstólanna á því, hvort valdframsal sé léttvægt (lítið inngrípandi í þjóðlífið) eigi að vera nokkuð öflugri en það, sem venjulega á við um stjórnarskrárákvæði, sem stýra vinnulagi annarra greina ríkisvaldsins eða innbyrðis valdsviði. Í ljósi kröfu stjórnarskrárinnar, gr. 115, um aukinn meirihluta, og að hér er um að ræða að gera undantekningu við þá stjórnarskrárbundnu reglu, að framkvæmd valds skal vera á hendi norskra valdstofnana, leggur Lögmannsrétturinn meiri áherzlu á að taka tillit til minnihlutaverndarinnar en á þau raunatriði, sem ríkið hefur vísað til. Með vísun til þrískiptingarinnar er Lögmannsrétturinn þannig þeirrar skoðunar, að sannprófunin (rýnin) verði sambærileg þeirri, sem gildir um málefnaflokkinn efnahagsleg réttindi."  (Síður 23-24.)

RÉTTURINN FINNUR TVENNS KONAR VALDFRAMSAL Í OP3

"Samantekið fól samþykkt Stórþingsins 22. marz 2018 í sér tvenns konar valdframsal", skrifar Lögmannsrétturinn og útlistar:

"Í fyrsta lagi var vald framselt til ESA til að gefa RME (orkulandsreglara ESB í Noregi) fyrirmæli um tæknileg viðfangsefni í sambandi við notkun innviða á milli landa, sbr ACER reglugerðina, kafla 8.

Í öðru lagi var framselt fyrirmæla- og sektarvald til ESA samkvæmt reglugerð um orkuviðskipti á milli landa, kafla 20 og kafla 22, nr 2, og þar með dómsvald til EFTA-dómstólsins." (Síður 33-34.)

Lögmannsrétturinn fjallar nánar um valdframsal í ACER-reglugerðinni þannig:

"Samkvæmt ACER-reglugerðinni, kafla 8, hefur ACER/ESA vald í sambandi við innviði á milli landa til að "taka ákvörðun um stjórnunarviðfangsefni, sem voru á valdsviði innlendra stjórnvalda, þ.á.m. um skilyrði fyrir aðgangi og rekstraröryggi". 

(...)

Lögmannsrétturinn undirstrikar, að kafli 8 veiti ekki heimild til að taka ákvarðanir um t.d. að leggja nýja (sæ)strengi, að reisa orkuver, breyta eignarhaldsreglum eða að gefa út framkvæmda- eða rekstrarleyfi.  (...) Rafmagnsverðið verður til á markaði.  Verðmyndun á markaði verður vitaskuld fyrir áhrifum af þátttöku Noregs í innri orkumarkaði ESB.  NtEU hefur rétt fyrir sér um, að ACER/ESA getur óbeint haft áhrif á rafmagnsverðið með framlagi sínu til þess, að þetta sé skilvirkur markaður með virkum innviðum fyrir orkuflutninga milli landa.  Lögmannsrétturinn getur samt ekki séð, að nokkuð sé hæft í, að formleg völd ACER/ESA til ákvarðanatöku sé áhrifavaldur á rafmagnsverðið."  (Síður 27-28.)

Um orkulandsreglarann (RME) er farið eftirfarandi orðum í dóminum:

"Þar sem endanleg ákvörðun, sem varðar Noreg, er tekin hjá RME, sem er norsk stjórnsýslustofnun, eru völd ESA yfir RME bara af þjóðréttarlegu tagi.  Í samræmi við hefðbundin fræði má þess vegna halda því fram, að ekkert valdframsal hafi orðið til ESA.  Að RME - til að uppfylla kröfur EES-regluverksins - er stofnsett sem óháð stjórnsýslustofnun, sem [ríkið] getur ekki gefið fyrirmæli, samtímis sem ESA eru veitt völd til að taka réttarlega bindandi ákvarðanir um fyrirmæli til RME, veldur hins vegar því, að Lögmannsrétturinn - eins og málsaðilarnir - lítur svo á, að átt hafi sér stað formlegt valdframsal til ESA." (Síða 29.)

Lögmannsrétturinn fjallar þó ekki nánar um hlutverk RME sem orkureglara, sem áhrif hefur á hagsmunaaðila í Noregi.  Lögbundna sjálfstæðið gagnvart valdhöfum ríkisins veldur því, að ekki er unnt að telja RME vera venjulega norska stjórnvaldsstofnun, og meta hefði þurft, hvort völd RME sé viðbótar vídd í valdframsalinu. Fyrirmæla- og sektarvaldið, sem ESA hefur, gildir um að afla gagna beint frá orkufyrirtækjunum, í raun frá Statnett varðandi Noreg [Statnett er norska Landsnet]. 

"Það er óumdeilt, að þetta jafngildir valdframsali til ESA", skrifar Lögmannsrétturinn (síða 30) og bætir við, að enn hafi slíkar ákvarðanir ekki verið teknar."

 Hér verður látið staðar numið í hluta 2 af 3 þýðingum á grein Mortens Harpers um nýlegan dóm á millidómsstigi í Noregi um þá kröfu NtEU að fá úrskurði Stórþingsins um að viðhafa einfalt meirihlutaræði við atkvæðagreiðslu um OP3 hnekkt.  Það má hverjum leikmanni vera ljóst, að ýmislegt í málatilbúnaði samtakanna hlaut hljómgrunn í Lögmannsréttinum, þótt niðurstaða hans yrði, að valdframsalið til ESA/ACER væri lítið inngrípandi í þjóðlífið, heldur væri aðallega þjóðréttarlegs eðlis. Í 3. og lokapistlinum um þetta verður einmitt fjallað um það, hvort valdframsalið hafi verið áhrifalítið á þjóðlífið eða ekki.     


Hvaða þýðingu hefur ACER-dómur lögmannsréttarins norska ?

Hérlendis hefur hlakkað í verjendum innleiðingar orkulöggjafar Evrópusambandsins (ESB) á Íslandi með misviðeigandi hætti yfir dómi Borgarþings Lögmannsréttarins í máli samtakanna "Nei til EU", NtEU, gegn norska ríkinu.  Deilan snýst um, hvort Stórþinginu hafi verið heimilt í marz 2018 að ákveða að láta aðeins einfaldan meirihluta ráða úrslitum atkvæðagreiðslu um Orkupakka 3, OP3, eða hvort þinginu hafi borið samkvæmt Stjórnarskrá Noregs að viðhafa kröfu um aukinn meirihluta, sem jafngildir a.m.k. 75 % stuðningi a.m.k. 2/3 Stórþingsmanna, þ.e. a.m.k. 50 % stuðningi allra þingmannanna.

Morten Harper, lögfræðingur og leiðtogi greininga hjá NtEU, skrifaði um málið á vefsetur samtakanna 8. desember 2022, og þar sem sjónarmið hans og túlkun kunna að vekja áhuga sumra hérlendis, fer hér á eftir þýðing á fyrsta hluta af þremur í grein hans:

"Þann 7. desember [2022] var kveðinn upp dómur í ACER-málinu í Borgarþingi lögmannsrétti.  Í réttinum sátu 3 fagdómarar og 2 leikmenn, og dómurinn var samhljóða.  Tökum niðurstöðuna fyrst:

  "Ályktun Lögmannsréttarins er, að Stórþingið gat veitt heimild til staðfestingar á samþykkt nr 93/2017 frá EES-nefndinni samkvæmt aðferðinni, sem fyrirskrifuð er í Stjórnarskránni, gr. 26, lið 2.  Áfrýjun Nei til EU er þess vegna hafnað." (Dómsorð, s. 37.)

Þótt ríkið hafi hlotið meðbyr, þarf NtEU samt ekki greiða málskostnað ríkisins í þingréttinum og lögmannsréttinum. Lögmannsrétturinn rökstyður þetta með því, að málið hafi fjallað um "umdeild, óútkljáð og grundvallandi lagaspurningar, sem séu verulega samfélagslega áhugaverðar" (síða 38).

RÉTTURINN METUR FORMLEGT VALDAFRAMSAL

Lögmannsrétturinn tekur fram, að það, sem metið er í málinu, er valdaframsal til að taka ákvarðanir, sem eru bindandi í Noregi; ekki umfang orkuregluverks, sem bindur Norðmenn sem þjóð (þjóðréttarlegar skuldbindingar). "Lögmannsrétturinn undirstrikar, að  framkvæmdin sé reist á strangri aðgreiningu á milli formlegs og raunverulegs valdaframsals ...", eins og segir í dóminum (s. 16), þar sem einnig stendur:

   "Spurningin um valdframsal til alþjóðlegra stofnana hefur á síðustu áratugum orðið raunhæfara viðfangsefni, ekki sízt vegna EES-samningsins, sem gekk í gildi 1. janúar 1994. Þetta stendur einkum í sambandi við, að ESB-samvinnan hefur stöðugt færzt í átt til aukinnar samræmingar og stjórnunar með myndun ESB-stofnana með yfirþjóðlegt vald til ákvörðunartöku, sem hefur beina verkun í aðildarlöndunum.  Innan EES-samstarfsins hefur lausnin venjulega verið sú að veita ESA samsvarandi vald til ákvarðanatöku með verkun í EFTA-löndunum að því gefnu, að ákvarðanirnar endurspegli í heild sinni gjörninga ESB.  Um það eru samt dæmi, að vald hafi verið fært til ESB-stofnana.  Vísað er til umfjöllunarinnar í HR-2021-655-P, Greinargerð, atriði 3.3-3.8." (Síða 15.)

 Ennfremur skrifar rétturinn, að EES-samningurinn og norsk samþætting í orkumarkað ESB jafngildi verulegu valdframsali í raun:

"Þátttaka Noregs á Innri orkumarkaði ESB og þjóðréttarlegar skuldbindingar okkar á þessu sviði hefur mikla þýðingu fyrir stjórnun norskra orkumála.  Hún hefur t.d. áhrif bæði á afhendingaröryggið og verðmyndunina á rafmagni í Noregi.  Eins og með EES-samninginn sem slíkan felur þetta í raun í sér verulegt valdframsal.  Þessar áhrifaríku og umfangsmiklu þjóðréttarlegu skuldbindingar eru engu að síður í sjálfum sér án vafa innan samningsvaldsviðs samkvæmt Stjórnarskrá - lið 2, og eru ekki til úrskurðar í þessu máli.  Stjórnarskrárspurningin - lagaeftirlitið - í þessu máli á einungis við formlega valdið, sem var framselt við samþykki Stórþingsins 22. marz 2018, sbr lið 3.1 að ofan." (Síður 25-26.) 

 

UPPSÖFNUN: MARGT SMÁTT GERIR EITT STÓRT

 NtEU hélt því fram, með vísun til greinargerðar Hæstaréttar um 4. járnbrautarpakka ESB (marz 2021), að fullveldisframsalið í málinu verði að meta sem heild með öðru valdframsali á orkusviðinu.  Það spannar nokkrar reglugerðir Framkvæmdastjórnarinnar og 4. orkupakka ESB, sem að efni til var þekktur, þegar Stórþingið tók sína ACER-ákvörðun í marz 2018 (4. orkupakkinn var lagður fram sem tillaga Framkvæmdastjórnarinnar, hann var samþykktur í ESB 2019). Ríkið hefur hins vegar hafnað því að taka tillit til uppsöfnunar, þar sem safnað er saman nokkrum Stórþingssamþykktum til að meta, hversu áhrifaríkt valdframsalið hefur verið.  

NtEU fær að nokkru leyti stuðning við þetta sjónarmið.  Lögmannsrétturinn skrifar:

"Regla um uppsöfnun styður að hafa beri hliðsjón af  raunverulegri og skilvirkri minnihlutavernd. Ef tiltekið valdframsal er einvörðungu metið einangrað og ekki er höfð hliðsjón af fyrra valdframsali, mun í tímans rás - smámsaman - geta átt sér stað valdframsal, sem er langtum meira en lítt áhrifaríkt fyrir þjóðlífið.   (...)   Á grundvelli einróma greinargerðar Hæstaréttar og með tilliti til raunverulegrar og skilvirkrar minnihlutaverndar leggur Lögmannsrétturinn til grundvallar gerðum sínum, að reglan um uppsöfnun sé í gildi við mat. Að mati Lögmannsréttarins nær minnihlutaverndin lengra en bara til að hindra sniðgöngu."(Síða 19.) 

Ennfremur segir í dóminum:

 "Lögmannsrétturinn telur, að varðandi spurninguna um að heimila valdframsal til ESB/EES-stofnana á orkusviðinu verði að hafa í huga valdframsal, sem áður hafi farið fram á þessu sviði. Þar sem áður hefur ekki farið fram valdframsal á orkusviði, hvorki með sjálfum EES-samninginum eða seinni lagagjörðum fram að og með Orkumarkaðspakka 2, fjallar Lögmannsrétturinn ekki nánar um, hvaða sértækari kröfur verður að gera t.d. til málefnalegs og tímanlegs samhengis á milli valdframsala." (Síða 20.)

Hér verður réttinum reyndar á fingurbrjótur.  Það er rangt, að áður hafi ekki átt sér stað valdframsal á orkusviðinu.  Reglugerð (EB) 1228/2003 um viðskipti með rafmagn, sem var hluti af ESB-Orkumarkaðspakka 2 og var innleiddur í EES árið 2007, felur í sér bæði upplýsingaskyldu og og sektarheimild.  Í áliti sínu 8. desember 2004 komst Lagadeild Stórþingsins að þeirri niðurstöðu, að valdið til að sekta "með vafa" væri áhrifalítið (sjá frv. 4 S (2017-12018), síðu 28).

Lögmannsrétturinn styður ekki sjónarmið NtEU um, að einnig síðari tíma valdframsal skuli taka með í reikninginn:

"Að mati Lögmannsréttarins getur uppsöfnunarreglan aðeins virkað "aftur á bak í tíma". Þetta gildir óháð því, hversu sterk málefnaleg eða tímanleg tenging er við framtíðar framsal." (Síða 20.)

Rétturinn telur heldur ekki, að þær 4 reglugerðir Framkvæmdastjórnarinnar, sem eru viðbætur við Orkupakka 3 og voru teknar inn í EES-samninginn 2021, "réttarlega séð varpi ljósi á innihald og umfang valdsins, sem var framselt árið 2018" (síða 33). 

Samt stendur í dóminum, að "vald ESA til að taka ákvarðanir, sem varða RME [orkulandsreglara Noregs] sem óháð stjórnvald [var] aukið" (síða 32)."

Lögmannsrétturinn fellst að sumu leyti á rök NtEU, en það hefur alltaf verið ljóst, að til að snúa við ákvörðun Stórþingsins fyrir rétti í Noregi þyrfti hið pólitíska deilumál að vera hafið yfir lagalegan efa.  Samt verður nú þessi leið reynd til þrautar fyrir Hæstarétti Noregs. Þetta deilumál sýnir, hversu hæpið er að kveða á um það í stjórnarskrá, að þingið geti metið það sjálft, hvers konar kröfur eigi að gera um atkvæðagreiðslu þess, þ.e. hvort einfaldur meirihluti skuli duga eða regla um aukinn meirihluta viðhöfð.  Það hlýtur jafnan að vera freistandi í ágreiningsmálum, þegar einfaldur meirihluti þings vill framselja vald til erlendrar stofnunar, þar sem landið er ekki fullgildur aðili, að láta einfaldan meirihluta duga.  

Annar hluti af þremur þessarar greinar Mortens Harpers verður birtur í næsta pistli hér á vefsetrinu.  

 

 

 

 


ACER herðir tökin á Noregi

Það var gæfa fyrir Ísland, að aflsæstrengurinn, sem búið var að setja á forgangslista orkuverkefna ESB-ACER, var tekinn út af þeim lista að ósk íslenzkra stjórnvalda í aðdraganda lokaumfjöllunar Alþingis á OP3 (þágildandi orkulöggjöf ESB, OP4 er núgildandi) sumarið 2019.  Annars gæti farið að styttast í svipaðar orkuhremmingar á Íslandi og gengið hafa yfir Norðmenn og valdið þeim gríðarlegum kostnaðarauka og aukið hjá þeim verðbólguna.  Þess vegna er fróðlegt fyrir áhugasama hérlendis að kynna sér, hver þróun samskipta Norðurlandanna við ESB-ACER er á orkusviðinu.

Hjá ACER er nú til athugunar tillaga frá kerfisstjórum aðildarlanda EES-Evrópska efnahagssvæðisins, þ.á.m. Statnett í Noregi, um að fella þann hluta Noregs, sem er á áhrifasvæði millilandatenginga fyrir raforku, þ.e. Suður-og Austurlandið, inn í stórt fjölþjóðlegt orkuflutningssvæði, sem ætlað er að einfalda útreikninga með samræmdri aðferðarfræði á orkugetu og orkuflutningsgetu stórsvæðisins. Jöfnunarorkumarkaður verður þá sameiginlegur fyrir stórvæðið. Samhliða þessu vinnur ACER með tillögu að nýjum reglum um orku og flutningsgetu til ráðstöfunar samkvæmt langtíma orkusamningum, en tilhneigingin hefur verið að draga úr umfangi þeirra.  Slíkt hentar Íslandi og Noregi illa. 

Áfangaskipt samræming orkumarkaða Orkusambandsins felur í sér svæðisbundnar lausnir sem bráðabirgða skref í átt að fyrirætluninni um heildarsamræmingu, eins og getið er um í viðkomandi reglugerð í OP4 (Orkupakka 4). Það hlýtur að vera kaldranalegt fyrir Norðmenn að vinna að þessu í ljósi þess, að OP4 hefur ekki lagagildi í Noregi, og flestir gera sér ljóst, til hvers refirnir eru skornir, og ófæran blasir nú þegar við í Noregi. 

Noregi mun verða gert að ráðstafa enn meiri orku- og flutningsgetu til þessa sameiginlega orkumarkaðar.

Núna eru 8 orkuviðskiptasvæði í ESB.  Hjá ACER stendur vilji til, að norsku uppboðs- og verðsvæðin verði á norræna og Hansa-svæðinu, þ.e.a.s. með Þýzkalandi, Hollandi, Póllandi og Lúxemborg auk Svíþjóðar og Danmerkur.  Hjá ACER er því haldið fram, að þessi sameining markaðssvæða Noregs við Hansa-sambandið muni leiða til aukinnar "velferðarþróunar", sem er kaldhæðnisleg ályktun frá norsku sjónarhorni.

Í raun þýðir þessi skipulagsbreyting, að Noregur verður skyldaður til að ráðstafa enn stærri hluta flutningsgetu raforku til útlanda til Innri markaðar ESB og þeirra reglna, sem þar eiga við.  Aðferðarfræðin þar er s.k. flot.  Það þýðir, að þar ræður markaðurinn alfarið ferðinni, en stjórnvöld mega engin afskipti hafa af þeim viðskiptum. 

Að Noregur skuli sogast sífellt sterkar inn á Innri markaðinn, er bein afleiðing af, að sumarið 2021 samþykkti Stórþingið 4 reglugerðir, sem boðaðar voru í OP3 og koma í rökréttu framhaldi af honum.  Þær eru í samræmi við ákvæði í OP4. Alþingi hlýtur að hafa samþykkt þessa nálgun að OP4, úr því að reglugerðirnar hafa tekið gildi í EES.  Um þetta hefur verið undarlega hljótt.  Hvað gengur íslenzkum stjórnvöldum til að hlaupa umsvifalaust til, þegar norskur ráðherra hringir ?  Er þetta eitthvert Gamla sáttmála heilkenni ?

Ein þessara reglugerða er um ráðstöfun flutningsgetu fyrir orku, í orkuflutnings mannvirkjunum, sem samið er um til langs tíma (FCA).  Önnur er reglugerð um ákvörðun flutningsgetu og meðferð flöskuhálsa í flutningskerfinu (CACM).  Það er einkum þessi síðar nefnda reglugerð, sem kerfisstjórarnir og ACER nota sem röksemd fyrir því að samþætta Noreg stærra markaðssvæði. Í einföldu máli inniheldur CACM nákvæmar reglur, sem eiga að tryggja, að markaðurinn, en ekki þörf viðkomandi lands að mati stjórnvalda þess, stjórni aðgengi að millilandatengingunum og flutningum eftir þeim. 

Svíþjóð er skylduð til að ráðstafa 70 % af flutningsgetu sinni á raforku til útlanda til markaðarins.

Rafmagnsverðhækkanirnar hafa valdið örvæntingu í Svíþjóð eins og í Noregi.  Mikill verðmunur hefur verið á milli norður- og suðurhlutans, og kerfisstjórinn, Svenska Kraftnät, hefur átt í vandræðum með yfirálag á flutningskerfinu.  Þess vegna sótti Svenska Kraftnät um leyfi orkulandsreglarans, Energimarknadsinspektionen (EI samsvarar RME í Noregi og Orkumálastjóra á Íslandi), til að takmarka útflutninginn.  EI neitaði kerfisstjóranum um almennt leyfi til útflutningstakmarkana og vísaði til þess, að Svíþjóð er skuldbundin til að ráðstafa 70 % flutningsgetunnar til markaðarins samkvæmt ákvæði í endurskoðuðu rafmagnstilskipuninni í ESB OP4.

Aftur á móti veitti EI bráðabirgða undanþágu fyrir ákveðinni útflutningstakmörkun á flutningslínum og -strengjum til Finnlands og Danmerkur (en ekki til Noregs, Þýzkalands og Póllands) með vísun til afhendingaröryggisins.  Dönsku og finnsku orkulandsreglararnir mótmæltu og kærðu til ACER, sem nú hefur hafnað því, að Svíþjóð geti vikizt undan 70 % reglunni.      

ACER lagði mat á afstöðu sænska kerfisstjórans og orkulandsreglarans og rökstuddi höfnunina þannig:

  1. Undanþágan er ekki nauðsynleg til að viðhalda rekstraröryggi sænska raforkukerfisins.
  2. Í umsókninni var ekki tilgreind hámarkslækkun, sem fyrirhuguð væri.
  3. Í umsókninni var ekki tilgreind sú aðferðarfræði, sem fyrirhugað væri að beita til að koma í veg fyrir mismunun á milli orkuviðskipta innanlands og til útlanda.  

Af þessu má ráða, að ACER væni téð orkuyfirvöld í Svíþjóð óbeint um að ætla að veita notendum innanlands forgang að tiltækri orku. Ef t.d. ætti að helminga flutningana til útlanda, þá yrði að skerða orku til a.m.k. ákveðinna notenda í Svíþjóð um helming.  Þetta er algerlega óviðunandi fyrir sjálfstæðar þjóðir.  Ef Stórþingið og Alþingi ásamt Liechteinsteinum samþykkja OP4, lendir Noregur strax í sömu ófæru og Svíar.  Hið sama varður uppi á teninginum hérlendis, ef Alþingi samþykkir tengingu íslenzka raforkukerfisins við Innri markaðinn, sem yrði fullkomið glapræði. 

Í ESB er ekki sama, hvort í hlut á Jón eða séra Jón.  Í vor bannaði franska ríkisstjórnin tímabundið útflutning á raforku frá Frakklandi til að draga úr verðhækkunum í kjölfar stöðvunar líklega um þriðjungs 56 kjarnakljúfa í frönskum kjarnorkuverum og virtist komast upp með það.   

OP3 er dauður bókstafur á Innri markaði ESB síðan OP4 tók þar við.  OP4 hefur hins vegar ekkert lagagildi í EFTA-löndunum.  Þess vegna verður ekki annað séð en orkulandsreglarar Íslands og Noregs framkvæmi fyrirmæli ESA (frá ACER) í heimildarleysi, og embættismenn og ráðherrar kæra sig kollótta.     

 

 


Meira um þróun orkupakkanna OP3 og OP4

Í Noregi er nú tekizt á um það í dómsölum, hvort OP3 frá ESB sé "lítið inngrípandi" eða ekki, þ.e. hvort sú orkulöggjöf ESB hafi lítil áhrif á líf almennings í Noregi eða ekki.  Þróun orkumálanna í Evrópu frá innleiðingu OP3 í EFTA-löndum EES-samstarfsins er öll í átt til mikilla áhrifa á líf fólks og rekstur fyrirtækjanna í Noregi.  Þar nægir að benda á ofurhátt innflutt raforkuverð til Noregs um millilandatengingarnar. Á Íslandi áskildi Alþingi sér rétt til að samþykkja eða hafna tengingu aflsæstrengs frá útlöndum við íslenzkt raforkukerfi, en þetta skilyrði kann að brjóta í bága við EES-samninginn og er þess vegna veik vörn.

Vegna OP3 er það ekki á færi lýðræðislegra yfirvalda í Noregi að hamla gegn margföldun raforkuverðs á áhrifasvæði sæstrengjanna þar með því að draga úr eða stöðva útflutning raforku og safna þar með vatni í miðlunarlón vatnsaflsvirkjana sunnan Dofrafjalla (í Suður- og Austur-Noregi), eins og norska ríkisstjórnin hafði áform um í sumar áður en Eftirlitsstofnun EFTA-ESA barði á fingurgóma hennar með reglustriku.  

Nú verður haldið áfram með frásögn Mortens Harper, lögfræðings Nei til EU, NtEU, í Klassekampen 5. nóvember 2022, með ívafi höfundar þessa vefseturs:

OP3 er nú aðeins í gildi í EFTA-löndum EES (Noregi, Íslandi og Liechtenstein).  Í ESB hefur OP4 leyst OP3 af hólmi.  Þetta er lagagrunnurinn, sem ACER (Orkustofa ESB) reisir ákvarðanir sínar á, ákvarðanir, sem hafa mikil áhrif á innri markaðinn fyrir orku, sem Noregur er nú samþættur, en Ísland ekki í raun, því að raforkukerfi Íslands er ótengt raforkukerfum annarra landa.

Hvernig ACER beitir ákvörðunarvaldi sínu sást nýlega, þegar ACER fjallaði um tilraun Svía til að hafa stjórn á raforkuútflutninginum (ákvörðun 26.10.2022).  Hin endurskoðaða rafmagnstilskipun frá ESB í OP4 skyldar aðildarþjóðirnar (að innri markaði orku) til að ráðstafa 70 % af flutningsgetunni til útlanda til frjálsra afnota markaðarins.  Sænska Orkumarkaðseftirlitið, þ.e. Orkulandsreglarinn (Orkumálastjóri hérlendis) hafði samþykkt bráðabirgða undanþágu með vísun til afhendingaröryggis raforku í Svíþjóð og heimilað nokkra takmörkun útflutnings.  Þessu mótmæltu orkulandsreglarar Danmerkur og Finnlands, svo að málið barst ACER til úrskurðar.  Niðurstaðan varð sú, að sænsku röksemdirnar lutu í lægra haldi fyrir óheftu orkuflæði á markaðinum innan 70 % markanna. 

Statnett (norska Landsnet) er í norrænum hópi kerfisstjóra, þar sem 3 af 4 (í Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku) eru formlega undir gildandi ESB-regluverki (OP4).  Í raunveruleikanum sést, að Statnett fylgir líka reglum ESB OP4.  Fyrir fáeinum árum náðu norrænu kerfisstjórarnir 4 ekki samkomulagi um aðferðarfræði til að stjórna langtíma flutningsgetu kerfisins, og ACER var falið að kveða upp bindandi úrskurð.  Samþykkt ACER 30.10.2019 er formlega beint til kerfisstjóranna í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi, en úrskurðurinn verður að gilda líka í Noregi fyrir milligöngu ESA og RME (norska orkulandsreglarans). Annað svipað dæmi er ACER-ákvörðun frá 05.08.2020 um jöfnunarorku.  Í báðum málunum er m.a. vísað til nýju ACER-reglugerðarinnar í OP4, sem ekki hefur hlotið samþykki Noregs í EES (og þess vegna ekki Íslands heldur). 

Þetta vekur spurningar um raunverulega vídd orkuskuldbindinga Noregs og Íslands samkvæmt EES-samninginum. Geta þær spannað reglur, sem ekki hafa lagagildi á Íslandi ? Regluverkið, sem farið er eftir á Innri markaði ESB, einnig í löndunum, sem tengjast Noregi með raforkuflutningsmannvirkjum og náinni kerfisstjórnunarsamvinnu, er enn meira inngrípandi en regluverkið, sem Stórþingið og Alþingi hafa innleitt í EES-samninginn. 

ACER vinnur samkvæmt OP4.  Hvernig á Eftirlitsstofnun EFTA ESA og orkulandsreglarinn að gera eitthvað annað gagnvart Noregi, Íslandi og Liechtenstein ?  Er nokkuð raunverulegt í þessu sambandi í formlegri aðgreiningu Noregs og norrænu ESB-landanna ?  Hér mætti bæta Íslandi við í öðrum málum en þeim, sem varða orkuflutninga á milli landa. Sönnunarbyrðin í þessu máli hlýtur að vera hjá þeim, sem enn telja fullveldisframsalið til ESB-ACER vera "lítið inngrípandi". Þetta verður að fást á hreint á Íslandi líka.  Er það í lagi, að veigamiklum þáttum raforkumálanna sé stjórnað á grundvelli reglna ESB, sem ekki hafa lagagildi á Íslandi ?  Frá leikmannssjónarhorni í lögum er slíkt klárt  stjórnarskrárbrot. Öll verk orkulandsreglarans frá gildistöku OP4 sumarið 2019 eru líklega ólögleg í Noregi og á Íslandi.  Það þýðir, að embætti hans og gjörðir frá gildistöku OP3 haustið 2019 á Íslandi eru sennilega ólögleg.  Hvernig stendur á því, að enginn úr fjölmennum hérlendum lögfræðingahópi hefur vakið athygli á þessari alvarlegu lagaóvissu ?  Sú lagaóvissa er alls ekki á förum, á meðan norski Miðflokkurinn situr við "kongens bord" í Ósló. 

Raforkuverðskreppan veldur því, að ekki getur lengur ríkt mikill vafi á því, að ESB OP3 hefur áhrif á atriði með mikla þýðingu fyrir norska þjóðfélagið - afhendingu raforku og raforkuverðið.  Meirihluti Stórþingsins veturinn 2018 vanmat þjóðfélagslegar afleiðingar þessa regluverks, sem hefur slíkan umbúnað, að norsk yfirvöld hafa ekki möguleika á  nauðsynlegum áhrifum á framkvæmd og þróun regluverksins. Hvorki Noregur né Ísland hafa t.d. atkvæðisrétt í ACER. 

Í Stórþingsfrumvarpi nr 100 (1991-92), sem lá til grundvallar samþykktar EES-samningsins, stóð, að með því að ráða síðasta skrefinu, sem taka yrði til að skapa borgurum landsins nýjar skuldbindingar, fælist grundvallarmunur m.v. það að sleppa þessum stjórnunarmöguleika. 

Á orkusviðinu verða til ákvarðanir hjá ACER, sem ESA á síðan að samþykkja óbreyttar að efni til, og orkulandsreglarinn (RME í Noregi og Orkumálastjóri á Íslandi) á síðan að koma á framfæri gagnvart aðilum á orkumarkaði í Noregi og á Íslandi og fylgja því eftir, að þær séu framkvæmdar.  Þessi ákvarðanatökukeðja veldur því, að Noregur og Ísland hafa enga stjórnun á þessum þáttum.  Í álitsgerð sinni um ACER-málið (OP3) skrifaði lagaprófessor Hans Graver, að það "... hafi verið búin til valdastaða í innanlandsrétti fyrir alþjóðlega stofnun til að taka ákvarðanir..." (september 2018).  Síðasta skrefið er í raun ACER.

  Mun lögmannsrétturinn stíga nauðsynleg skref til baka ?  Hvenær skyldi reyna á lagalegan grundvöll OP3 á Íslandi og á lagalegan grundvöll orkulandsreglarans (Orkumálastjóra), sem starfar ekki eftir OP3, heldur eftir OP4, sem hefur ekkert lagalegt gildi á Íslandi. 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband