Færsluflokkur: Lífstíll

Nýr bóndi að Bessastöðum 2016

Hvernig við verjum atkvæði okkar í forsetakosningum, getur jafnvel orðið afdrifaríkara en listavalið í Alþingiskosningum, því að á Bessastöðum er bara einn öryggisloki samkvæmt Stjórnarskrá, en á listum er fjöldi manns.  Að verja atkvæði sínu að óathuguðu máli samkvæmt einhvers konar tilfinningalegum áhrifum af silkimjúku hjali hönnuðu hjá almannatenglum er óábyrgt.  Það á ekki sízt við um forsetakosningar. 

Við eigum ekki að kjósa reynslulausan mann í stjórnunarlegum efnum í embætti forseta Íslands.  Í tilviki Guðna Th. Jóhannessonar getur slíkt jafnvel reynzt háskalegt, því að dómgreind hans á atburði líðandi stundar virðist ekki vera upp á marga fiska, þegar fyrri ummæli hans í ræðu og riti er skoðuð. 

Þá hefur hann verið svo ístöðulaus, að hann hefur alla kosningabaráttuna verið á harðahlaupum frá þessu fyrra skjalfesta mati sínu, hvort sem um er að ræða atburði í fortíð eða nútíð, t.d. landhelgisdeilurnar, Evrópusambandsaðild Íslands, Neyðarlögin um fjármálakerfið og Icesave, svo að nokkuð sé nefnt úr blómagarði Guðna, sem sumir mundu þó fremur vilja kenna við illgresi. Sýnin er alls staðar brengluð, þar sem hvergi vottar fyrir hlutlægri greiningu á grundvelli fullveldisréttar Íslands.  Það er eins og forneskjulegt nýlenduhugarfar gegnsýri alla afstöðu sagnfræðingsins til manna og málefna.  Það er mjög líklegt, að honum hugnist ekki "Brexit", sem brezka þjóðin ákvað í gær, 23. júní 2016, af því að nánast öll samfelld "elítan", hin ráðandi öfl heimsins, ráku hamslausan hræðsluáróður gegn úrsögn Breta úr Evrópusambandinu, ESB.  ESB hafð þegar steytt á skeri, og brezkur almenningur skynjaði, að aðild Bretlands var orðin landinu baggi og að ESB hefur í raun gengið sér til húðar.  Þvættingur um nauðsyn ESB til varðveizlu friðar í Evrópu er grátlega heimskulegur.  Hver heldur í raun og veru, að Bretar muni nú einangrast viðskiptalega í Evrópu og fara að láta ófriðlega !? 

Nú háttar þannig til, að okkur kjósendum er veittur sá valkostur að velja mann í embætti forseta Íslands, sem hefur alla tíð haft skoðanir á öllum ofangreindum íslenzku málefnum, sem eru á öndverðum meiði við fyrri skoðanir Guðna, og um þennan mann, Davíð Oddsson, ríkir alls engin óvissa.  Enginn þarf að fara í grafgötur um, að hann eða hún er að velja heilsteyptan baráttumann, með skarpa og óbrenglaða dómgreind, fyrir hagsmunum Íslands í hvívetna með því að kjósa Davíð til embættis forseta Íslands. 

Hið sama verður með engu móti sagt um Guðna Th. Jóhannesson, eins og hér og víðar hefur komið fram.  Sitji kjósandinn uppi með eitthvað eftir kosningabaráttu hans, er það óvissa; óvissa um viðsjárverðan persónuleika, sem virðist háll sem áll og ómögulegt að henda reiður á.  Slíkum manni er alls ekki treystandi fyrir æðsta embætti lýðveldisins. Forsetaframbjóðandi verður að vera hreinn og beinn og þora að kannast við verk sín, eigi að vera unnt að treysta honum. Forseti þarf að vera fastur fyrir, og Guðni hefur ekki sýnt það í þessari kosningabaráttu, heldur þvert á móti. Ístöðuleysið skín í gegnum fagurgalann. 

Sagt er, að slíkt ístöðuleysi á Bessastöðum muni ekkert gera til, því að sá ístöðulausi hafi lofað að vísa deilumálum til þjóðarinnar.  Þarna liggur þó einmitt vafinn og hundurinn grafinn.  Hvernig er hægt að treysta því, að ístöðulaus forseti láti ekki undan miklum þrýstingi, eins og dr Ólafur hefur lýst opinberlega, að hann var beittur af innlendum og erlendum valdaöflum varðandi staðfestingu viðurhlutamikilla laga frá Alþingi.  Vindhani snýst aðeins eftir vindátt næst honum, en ekki samkvæmt vindátt utan lóðarmarka. Það skulum við kjósendur hafa í huga, þegar við göngum að kjörborðinu laugardaginn 25. júní 2016, því að hvesst getur á toppinum.

Sagt er, að hluti af valdi forseta sé áhrifavald.  Hér skal fullyrða, að vindhani hefur ekkert áhrifavald á vindstefnuna, hvort sem sá vindur blæs úr Alþingishúsinu, frá Brüssel, London, Berlín, Washington eða Moskvu, ef svo má að orði komast

Það er hins vegar vitað, að það er hlustað á Davíð Oddsson, hvar sem hann kemur, og ekki síður á erlendri grundu en innlendri. Um það vitnar ferill hans allur, og hvers vegna ekki að taka tillit til þess við þá ráðningu, sem hér fer fram til embættis ? 

Davíð Oddsson mun þó örugglega ekki dvelja langdvölum erlendis, enda engin þörf á langdvöl til að tala máli Íslands augliti til auglitis við erlenda ráðamenn.  Til slíks þarf ekki marga daga, hvað þá margar vikur á ári, og margar aðrar og ódýrari leiðir eru til árangursríkra samskipta. 

Davíð Oddsson mun ekki verða skattborgurum dýr á fóðrum á Bessastöðum, taki hann þar við búsforráðum, og hann mun ekki fara fram úr fjárheimildum sínum.  Kostnaður við forsetaembættið mun stórlækka frá því, sem verið hefur um langa hríð, en afrakstur þjóðarinnar sennilega stórhækka, því að peningunum verður varið með skilvirkum hætti og mest hér innanlands, ef marka má orð Davíðs sjálfs, og það hefur hingað til mátt.  Það er skoðun blekbónda þess, er hér ritstýrir, að skattborgarar muni fá mest fyrir peningana sína með Davíð Oddsson sem forseta, allra þeirra níu, er nú bjóða sig fram til þjónustu á Bessastöðum.  Fái hann tækifæri til, mun hann áreiðanlega setja litríkan, farsælan og skemmtilegan svip á þetta annars nokkuð formfasta og hátíðlega æðsta embætti lýðveldisins. 

Verst er, að heimiliskötturinn Franz þyrfti þá að skipta um umhverfi. Kettir eru íhaldssamir, en af lýsingum að dæma er þessu húsdýri margt til lista lagt, og sem fyrrverandi villiketti ætti honum ekki að verða skotaskuld úr búsetu á Bessastöðum, ef því er að skipta.  


Orkan er undirstaðan

Undirstaða ríkjandi lífsgæða á Íslandi eru endurnýjanlegu orkulindirnar jarðvarmi og fallvatnsorka og nýting landsmanna á þessum orkulindum.  Þegar nýting þeirra hófst fyrir um 100 árum, voru lífsgæði í Evrópu einna rýrust á Íslandi mæld í heilsufari, langlífi, kaupmætti og landsframleiðslu á mann.  Nú á árinu 2016 eru lífsgæði einna mest á Íslandi á hvaða mælikvarða sem er. Án jarðvarma og fallvatnsorku væru lífskjör á Íslandi hins vegar lökust af öllum Norðurlöndunum og sennilega undir miðbiki lífskjara í Evrópu.  Hér væri allt öðru vísi umhorfs en nú, og landið væri vart samkeppnishæft við umheiminn. Með orkunni skilur á milli feigs og ófeigs, hvorki meira né minna.  

Til að lýsa raunverulegri stöðu efnahagskerfisins á Íslandi nú um stundir er hægt að tilfæra eftirfarandi úr forystugrein Morgunblaðsins,

"Bjart útlit", þann 25. apríl 2016:  

"En jafnvel vinstri stjórn síðasta kjörtímabils, sem taldi sér rétt að nýta hið óvænta tækifæri til að koma öllum sínum pólitísku áhugamálum í framkvæmd á kostnað efnahagsbatans, tókst ekki að koma í veg fyrir, að efnahagslífið rétti sig við.  Smám saman braggaðist efnahagurinn afar hægt, þegar stjórnvöld voru upptekin af eigin kreddum, en hraðar eftir að kjósendur höfðu rekið vinstristjórnina út úr stjórnarráðinu og kosið breytta stefnu. 

Margar vísbendingar hafa komið um það á síðustu misserum, að efnahagur landsins hefur verið að færast í rétt horf.  Atvinnuleysi er lítið og telst ekki lengur efnahagslegt vandamál, enda innflutningur á erlendu vinnuafli hafinn á nýjan leik.  Verðbólga hefur verið lág, og hagvöxtur er kraftmikill, á sama tíma og og þjóðir Evrusvæðisins búa við skuldavanda og stöðnun. 

Í riti Seðlabankans um fjármálastöðugleika, sem kom út í liðinni viku (v.16/2016 - innsk. BJo), má lesa, að hagur heimilanna hafi sjaldan verið betri en nú og að fjárhagsstaða fyrirtækja haldi áfram að batna.  Kaupmáttaraukning var með allra mesta móti í fyrra, og í ár stefnir í svipaða þróun.  Vísitala kaupmáttar hefur aldrei verið hærri en nú, sem leitt hefur til mikillar aukningar einkaneyzlu.

Skuldastaða heimilanna hefur lækkað mjög, og eru skuldirnar nú svipað hlutfall af ráðstöfunartekjum og þær voru um síðustu aldamót og eru svipaðar eða lægri en í mörgum löndum, sem við berum okkur helzt saman við."

Þetta er glæsilegur árangur í hagstjórn og vert að hafa í huga, að honum er auðvelt að glutra niður, ef eitruð blanda fákunnáttu um hagstjórn og ábyrgðarleysis stjórnlyndra frömuða gæluverkefna og tilraunastarfsemi jafnaðarmanna tæki við í Stjórnarráðinu eftir næstu kosningar, eins og gerðist hér eftir kosningarnar í apríl 2009. 

Því má bæta við tilvitnunina hér að ofan, að atvinnuleysi er nú undir 3,0 % á Íslandi og minnkandi, en t.d. yfir 10 % á evrusvæðinu, og þar ríkir stöðnun, þrátt fyrir stanzlausa peningaprentun síðan fjármálakreppan hélt innreið sína fyrir 9 árum, sem gæti breytzt í glundroða vegna mikils útlánataps banka og vegna hlutabréfalækkunar og neikvæðra vaxta evrubankans í Frankfurt. Gríski harmleikurinn mun bráðlega verða tekinn til sýningar aftur, enda er ástandinu í Grikklandi nú lýst sem nýlenduástandi.  Uppreisn gegn slíkri niðurlægingu getur brotizt út í Grikklandi hvenær sem er með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.   

Kaupmáttur launafólks  á Íslandi er nú í hæstu hæðum og jókst um 11 % á 12 mánaða skeiði til apríl 2016, sem er einsdæmi á Íslandi, og þó að víðar væri leitað. Þetta má þakka lágri verðbólgu, sem á sama tímabili hefur verið undir 2,0 % og um 1,0 %, ef húsnæðisliðnum væri sleppt úr neyzluverðsvísitölunni, eins og margar þjóðir gera. 

Ein af ástæðum lágrar verðbólgu er, að ríkissjóður hefur verið rekinn með afgangi á þessu kjörtímabili og samtímis hafa beinir og óbeinir skattar verið lækkaðir, sem minnkað hefur þrýsting á launa- og vöruhækkanir.  Nefna má lækkun efra þreps virðisaukaskatts úr 25,5 % í 24,0 %, afnám vörugjalda af öllu, nema jarðefnaeldsneyti og farartækjum knúnum því, og tollalækkanir á öðru en matvælum.  Allt er þetta til mikilla hagsbóta fyrir almenning í landinu og styrkir samkeppnisstöðu landsins um fólk og fyrirtæki, enda flykkist fólk nú til landsins, bæði brottfluttir innfæddir og útlendingar í atvinnuleit, sem sumir ílendast og gerast íslenzkir ríkisborgarar. Enn fara þau fleiri innfæddir utan en út, flestir til Norðurlandanna í nám. 

Allt þetta saman tekið sýnir svart á hvítu, að það er grundvallarmunur á gjörðum borgaralegrar ríkisstjórnar og vinstri stjórnar, en þessi glæsilega staða þjóðmála væri þó útilokuð án orkugjafanna í iðrum jarðar og í ánum og án núverandi nýtingar þeirra.  Úrtöluraddirnar hefur þó ekki vantað við hvert eitt hænuskref.  Hefði verið tekið mark á þeim, væri Ísland ekki hreint land og ríkt, heldur sótugt, reykmettað og fremur fátækt á evrópskan mælikvarða.  Þeir, sem lagzt hafa gegn framförum, sem dregið hafa úr fátækt og lyft lífskjörum almúgans, hafa með réttu fengið stimpilinn "afturhaldsöfl".  Með þá einhæfni atvinnugreina, sem stefna afturhaldsins býður upp á, væru kjör landsmanna mun lakari en raunin er nú, atvinnustigið lægra og færri landsmenn sæju sér fært að snúa heim að námi loknu.  Fjölbreytni tryggir farsæld. 

Eitt mesta sameiginlega hagsmunamál landsmanna nú og á næstu árum er að lækka skuldir alls staðar til að auka ráðstöfunarféð og til að efla mótstöðukraftinn, þegar núverandi hagvaxtarskeiði lýkur, því að allt gott tekur enda, eins og kunnugt er, og víða erlendis hefur mjög lítill hagvöxtur orðið frá hruni hins alþjóðlega fjármálakerfis árið 2008. Eignastaða heimilanna hefur ekki verið betri frá aldamótunum síðustu, Landsvirkjun hefur lækkað skuldir sínar um miakr 100 á um hálfum áratug, ríkissjóður lækkaði skuldir sínar um 10 % árið 2015 og mun lækka þær um 10 % í ár.  Jafnvel sveitarfélög eru að lækka skuldir sínar með nokkrum undantekningum, og sker höfuðborgin sig úr fyrir afspyrnu lélega fjármálastjórnun síðan 2010, og er hraði skuldaaukningar borgarsjóðs nú um 13 miakr/ár þrátt fyrir skattheimtu í sögulegu hámarki.  Þetta er engin tilviljun.  Sukk vinstri manna með fjármuni annarra hefur aldrei riðið við einteyming og er innbyggt í hugmyndafræði þeirra. Það er félagshyggjuöflunum siðferðilega um megn að sýna ráðdeildarsemi, þegar umgengni við fé annarra á í hlut.   

Hvað sem ólíkri ráðdeildarsemi líður, er þó eitt víst, að lífskjör á Íslandi væru ekki nema svipur hjá sjón, ef landið væri ekki rigningasamt og hálent eldfjallaland.  Fyrir vikið er hér víða mikill jarðhiti og orkumikil fallvötn, sem landsmenn hafa borið gæfu til að hagnýta í miklum mæli með sjálfbærum og afturvirkum hætti og þannig sparað gríðarlegan gjaldeyri og aflað enn meiri gjaldeyris, svo að ekki sé nú minnzt á, að fyrir vikið er Ísland með hreinasta loft og vatn iðnvæddra ríkja, enda fer hér fram endurnýjanleg og mengunarlítil orkuvinnsla til nánast allrar húshitunar og rafmagnsnotkunar, sem vekur heimsathygli og gæti verið einsdæmi á jörðunni. Ísland nýtur nú þessarar ímyndar við sölu á afurðum og landkynningu fyrir ferðamenn. 

Sem dæmi er aðeins rúmlega þriðjungur raforkuvinnslu Þjóðverja og rúmlega fjórðungur raforkuvinnslu Breta úr endurnýjanlegum orkulindum, en tæplega 100 % á Íslandi.  Raforkuvinnsla Norðmanna er nánast öll, >95 %, í vatnsaflsvirkjunum, og þeir hita hús sín að mestu með rafmagni frá þeim, en raforkuverðið er þar sveiflukennt og fer eftir framboði og eftirspurn, svo að þeir grípa stundum til annarra úrræða við húshitun, t.d. gas- eða viðarkyndingar, sem þá veldur slæmu lofti í þéttbýli. 

Það má gera ráð fyrir, að ein af ástæðum þess, að Ísland er nú vinsæll viðkomustaður erlendra ferðamanna, sé sú staðreynd, að landsmenn eru leiðandi á heimsvísu í nýtingu sjálfbærra orkulinda með þeim afleiðingum í umhverfislegu tilliti, að hér er skyggni betra en annars staðar á björtum degi og loft og vatn heilnæmara. Íslenzk jarðhitafyrirtæki á borð við OR hafa verið leiðandi í heiminum við að fanga koltvíildi og brennisteinsvetni og binda þessar gastegundir í berglögum neðanjarðar.  Fer nú styrkur brennisteinsvetnis frá Hellisheiðarvirkjunum ekki lengur yfir  sett hættumörk.  

Gjaldeyristekjur af ferðamönnum, yfir miakr 400 árið 2015, eru þess vegna að einhverju leyti svo háar sem raun ber vitni vegna orkunýtingarinnar, sem hvarvetna þykir til mikillar fyrirmyndar, og gjaldeyristekjur af stóriðjunni, um miakr 250 á sama ári, eru alfarið vegna orkuvinnslunnar, svo að sjálfbær orkunýting hefur gríðarlega jákvæð áhrif á tekjuhlið þjóðarbúsins.   

Sjávarútvegurinn, hvers útflutningsverðmæti námu miakr 265 (miakr 151 upp úr sjó) árið 2015, nýtir enn þá svartolíu og dísilolíu til að knýja skipin, en orkubylting mun eiga sér stað í sjávarútveginum á næstu 35 árum, sem mun losa hann við jarðefnaeldsneytið.  Þar hefur hins vegar átt sér stað stöðug jákvæð þróun í orkunýtni á síðustu 25 árum, og um þessar mundir vex hraði þeirrar þróunar með miklum fjárfestingum í fiskiskipum.  Frá 1990-2013 minnkaði losun sjávarútvegs á koltvíildi um 181 kt eða 27 %, sem er samdráttur losunar um 7,9 kt/ár að jafnaði, og nægir þessi taktur til til að ná Parísarmarkmiðinu um 40 % minnkun losunar árið 2030 m.v. 1990 án nokkurra viðbótar ráðstafana.  Kvótakerfið hefur knúið þessa jákvæðu þróun áfram með fækkun togara. Losun gróðurhússlofttegunda fiskiskipa hafði í árslok 2014 minnkað um 33 % frá 1990 og nam þá aðeins 10 % af heildarlosun landsmanna, en nam 18 % 1990. Íslenzkur sjávarútvegur er framúrskarandi atvinnuvegur á heimsvísu. 

Sem dæmi um vel heppnaða aðferðarfræði má taka útgerðarfélagið Ramma.  Fyrirtækið er að fá nýjan frystitogara, Sólberg ÓF, með 4640 kW aðalvél.  Það leysir af hólmi tvö skip, hvort með 2000 kW aðalvél.  Við þetta batnar orkunýtnin úr 5,1 MWh/t olíu í 11,1 MWh/t olíu á fullu álagi við veiðarnar, sem er ríflega tvöföldun.  Á árabilinu 1998-2015 hefur orðið 53 % olíusparnaður við að sækja aflaheimildir Ramma eða 3,1 % á ári að jafnaði, og til (og með) ársins 2017 verður 67 % olíusparnaður, sem svarar til 3,5 % olíusparnaðar að meðaltali á ári.  Það er sem sagt mjög góður og stígandi taktur í olíusparnaði útgerðarinnar samfara fjárfestingum hennar. 

Í Fiskifréttum 28. apríl 2016 hafði Guðjón Einarsson þetta eftir Ólafi H. Marteinssyni, framkvæmdastjóra Ramma hf.:

"Það eru ekki tæknibreytingar, sem hafa gert þetta að verkum, heldur kvótakerfið, merkilegasta framlag Íslendinga til umhverfismála.  Árið 2017, þegar nýja skipið hefur verið tekið í notkun, stefnum við að því að nota 5 milljónir lítra til að veiða sömu aflaheimildir og fyrr" (15 Ml árið 1998 - innsk. BJo).

Orkusparnaður um 2/3 á hvert veitt tonn á stóran þátt í að breyta taprekstri útgerða sveitarfélaga, ríkisins og annarra frá því um 1980 í arðsaman rekstur einkafyrirtækja, almenningshlutafélaga í sumum tilvikum, á 21. öldinni. 

Á næstu þremur áratugum munu útgerðarmenn, vinnuvélaeigendur og bíleigendur fjárfesta í nýrri tækni, sem leysa mun jarðefnaeldsneyti alfarið af hólmi. Að mestu leyti verður um að ræða rafala, rafhreyfla og ýmsa orkugjafa til vinnslu rafmagns, t.d. í þóríum-kjarnakljúfum og efnarafölum (fuel cells), en einnig sprengihreyfla, sem brenna tilbúnu innlendu eldsneyti úr koltvíildi og vetni, t.d. metanóli.  Þar með losna útgerðirnar við fjárhagslegan bagga koltvíildisskatts og óvissu vegna verðsveiflna á alþjóðlegum olíumarkaði, og þjóðhagsleg hagkvæmni útgerðanna vex enn, þar sem erlendur tilkostnaður á hvert kg afla snarminnkar. 

Langmesti orkukostnaður íslenzkra heimila er vegna fjölskyldubílsins eða bílanna. Ef reiknað er með, að meðalfjölskyldan aki um 20´000 km/ár og að meðaleldsneytisnotkunin sé lág, 0,07 l/km, hjá fjölskyldum landsins, þá notar "meðalfjölskyldan" 1400 l/ár, sem kosta nú um 280´000 kr/ár. 

Sömu fjölskyldu gefst nú kostur á að kaupa tengiltvinnbíl, þegar hún hyggur á bílakaup.  Raforkunotkun meðalbíls af þeirri gerð er undir 0,26 kWh/km í rafhami við íslenzkar aðstæður mælt inn á hleðslutæki bílrafgeymanna.  Sé bílnum ekið 15´000 km/ár á rafmagni, notar hann 3900 kWh/ár af raforku, sem kosta um 55´000 kr.  Áætla má, að slíkur bíll noti undir 0,05 l/km af eldsneyti þá 5000 km/ár, sem jarðefnaeldsneyti knýr hann, aðallega á langkeyrslu.  Kostnaður þessara 250 l/ár nemur um 50´000 kr/ár.  Þá nemur heildarorkukostnaður þessa tengiltvinnbíls 105´000 kr/ár, sem er tæplega 38 % af orkukostnaði hefðbundins eldsneytisbíls m.v. jarðolíuverðið 50 USD/tunnu, sem er lágt til lengri tíma litið. 

Þar með er orkukostnaður fararskjóta þessarar fjölskyldu orðinn um 70 % af orkukostnaði íbúðarinnar hennar, og hún nær að draga úr heildarorkukostnaði sínum um rúmlega 40 % með því að nýta að mestu innlendar orkulindir. Þessi sparnaður verður að sjálfsögðu enn meiri með hreinum rafmagnsbíl.

Upphitunarkostnaður blekbónda á 193 m2 húsnæði nemur 120 kkr/ár með sköttumÍ alþjóðlegu samhengi er staðan þannig, að meðalverð á orku til húshitunar frá hitaveitu án skatta er 6,5 cEUR/kWh, en á Íslandi 2,0 cEUR/kWh, og er hlutfallið um 3,3.  Meðalupphitunarkostnaður án skatta á íbúð hérlendis með jarðvarma gæti hugsanlega numið 70 kkr/ár, en ef þyrfti að hita sama húsnæði upp með olíu, mundi sá kostnaður nema um 1,0 Mkr/ár eða 14 földum kostnaðinum frá íslenzkri hitaveitu að jafnaði. 

Ráðstöfunartekjur á hverja fjölskyldu hérlendis án hefðbundnu innlendu orkugjafanna mundu vera allt að 30 % minni en raunin er nú, sem mundi gjörbreyta lífskjörum hérlendis til hins verra. 

Andvirði eldsneytisinnflutnings árið 2015 nam um 83 miakr FOB.  Eldsneytiskostnaður þjóðfélagsins væri tvöfaldur að öðru óbreyttu, ef ekki nyti við innlendra orkugjafa til upphitunar húsnæðis, og innflutningskostnaður vöru 2015 hefði þá numið 730 miakr FOB, eða 12 % hærri upphæð en raunin varð.

  Óskuldsettur gjaldeyrisforði Seðlabankans er um þessar mundir um 400 miakr, en alls óvíst er, hver hann væri án endurnýjanlegra orkulinda landsins.  Hér gæti verið viðvarandi fjárhagslegur óstöðugleiki og lakari lífskjör en að meðaltali í Evrópu, en nú eru þau á meðal hinna beztu. 

Það er ekki einvörðungu, að framfærslukostnaðurinn væri miklu hærri án innlendu orkulindanna, heldur væru gjaldeyristekjurnar jafnvel 40 % lægri og þjóðartekjur og tekjur launþega að sama skapi lægri. 

Eftir öllum sólarmerkjum að dæma væri kaupmáttur almennings án innlendu orkulindanna, jarðhita og fallvatna, aðeins helmingur af núverandi kaupmætti, og landsframleiðsla á mann næmi ekki kUSD 55, eins og nú, heldur í hæsta lagi kUSD 35. 

Nú mun einhver segja, að hvað sem jarðhita og vatnsafli líður, hefðum við þó vindinn, og mundum vafalaust hafa nýtt hann í miklum mæli. Það er rétt, en vindorkan hefði ekki laðað hingað erlenda fjárfesta, og raforkuverð á Íslandi væri a.m.k. 5-falt dýrara en það er nú, ef aðeins nyti við endurnýjanlegrar orku frá vindmyllum.  Hlutfall orkukaupa (án bíls) til heimilis í 100 m2 húsnæði af meðallaunum einstaklings er í Evrópu utan Íslands 8,3 %, og er þetta hlutfall á Íslandi aðeins 1/6 af 8,3 % eða 1,4 %.  Án jarðhita og vatnsafls á Íslandi væri þetta hlutfall á meðal hins hæsta í Evrópu vegna legu landsins. 

Af því, sem hér hefur verið tínt til, er ljóst, að jarðhitanýting og virkjun vatnsfalla eru meginskýring þess, að Íslendingum tókst á 20. öldinni að sækja fram úr örbirgð til tiltölulega ágætra lífskjara og mun takast að ná einum beztu lífskjörum í Evrópu fyrir miðja 21. öldina, ef fram heldur sem horfir.

 


Gallað auðlindamat

Verkefnastjórn um Rammaáætlun um verndun og nýtingu náttúruauðlinda skilaði af sér áfangaskýrslu um 3. áfanga Rammaáætlunar 31. marz 2016, og segja má, að um snemmbúið aprílgabb hafi verið að ræða vegna þeirra einhæfu sjónarmiða, sem þar tröllríða húsum. Hér verða leidd að því rök, að skýrsluna skorti vísindalegan trúverðugleika og sé jafnvel meira í ætt við fúsk en vísindi. 

Verkefnastjórn í öngstræti:

Segja má, að Verkefnastjórnin hafi illilega skotið sig í fótinn með skýrslunni og þar með staðfest gagnrýni á tilvistarrétt sinn og það fyrirkomulag, sem nú er við lýði um frummat á auðlindanýtingu á landi hér.  Skýrslan er einhliða mat á "verndargildi" nokkurra staða, en sleppt er í þessum áfanga að leggja mat á samfélagslegt og efnahagslegt gildi nýtingar af öðrum toga en fyrir ferðaþjónustu og útivist. Þá er sleppt frummati á tugum virkjanakosta, sem Orkustofnun lagði fyrir Verkefnastjórn að leggja frummat á. Verkefnastjórn þessi er nú komin í öngstræti, enda getur hún ekki sinnt hlutverki sínu með núverandi aðferðarfræði.

Ný umhverfisógn:

Nú er reyndar komið í ljós, að stærsta ógnin við náttúru landsins er fólgin í skipulagslítilli áníðslu og átroðslu óhefts ferðamannafjölda.  Þessu hefur fráfarandi Landgræðslustjóri, Sveinn Runólfsson, lýst á áhrifamikinn hátt þannig, að ferðageirinn sé nú að ræna framtíðarkynslóðir landinu. Það er ámælisvert, hversu hægt gengur að koma við nægilegum mótvægisaðgerðum gegn landspjöllunum.  

Orkustofnun taki við:

Núverandi aðferðarfræði við frummat á nýtingu landkosta stenzt ekki gagnrýni, og er þess vegna réttast að leggja téða Verkefnastjórn niður og fela t.d. Orkustofnun að gera tillögu til Alþingis um þjóðhagslega hagkvæmustu nýtingu náttúrunnar.  Ein af ástæðum þess, að núverandi fyrirkomulag er ótækt, er sú, að Verkefnastjórn gizkar á virkjunartilhögun, þar sem forhönnun virkjunar er sjaldnast fyrir hendi, þegar Verkefnastjórn þessi fjallar um hana.  Eina raunhæfa matið á jákvæðum og neikvæðum áhrifum virkjunar er mögulegt, eftir að forhönnun hennar hefur farið fram.  Þá á sér reyndar stað umhverfismat, svo að mat Verkefnastjórnar á frumstigum málsins er meira eða minna út í loftið og jafnvel óþarft, en nauðsynlegt og nægjanlegt er téð umhverfismat. 

Með núverandi tækni hafa verkfræðingar yfir að ráða fjölbreytilegum ráðum til að draga úr umhverfisáhrifum mannvirkja og orkubeizlunar.  Að slá virkjanakostum á frest eða jafnvel að slá þá út af borðinu er ótímabært fyrr en verkfræðingar hafa fengið að spreyta sig á því viðfangsefni að hámarka hagkvæmni orkubeizlunar að teknu tilliti til sjálfbærni, afturkræfni og að halda umhverfisraski innan ásættanlegra marka að dómi flestra.

Hið síðast talda er háð huglægu mati.  Nú vill svo til, að nýlega var gerð könnun á meðal ferðamanna, sem ferðazt höfðu um landið, á viðhorfum þeirra til orkunýtingar á Íslandi og flutningi hinnar sjálfbæru orku um landið.  Niðurstaðan var sláandi m.v. áróður, sem haldið hefur verið að fólki hérlendis um, að ekki fari saman að nýta og njóta, heldur muni virkjanir og flutningslínur skaða ferðaþjónustuna.  97 % svarenda töldu orkunýtingu landsmanna vera umhverfisvæna og til fyrirmyndar.  3 % svarenda tók ekki afstöðu, en enginn taldi umhverfisspjöll hafa verið framin á virkjunarstöðum og línuleiðum.  Staðfestir þessi viðhorfskönnun, að það er röng aðferðarfræði að stilla skipulegri nýtingu lands fyrir ferðaþjónustu upp sem andstæðu og ósamrýmanlega virkjunum og flutningslínum.  Þessir tveir þættir eru vel samrýmanlegir, og slík samnýting skilar augljóslega hámarksarði inn í þjóðarbúið.

Ný vinnubrögð: 

Það er brýnt að taka strax upp gjörbreytta aðferðarfræði við undirbúning nýtingar, sem tekur mið af þessu. Hér er um verkfræðilegt og hagfræðilegt úrlausnarefni að ræða, sem aldrei getur orðið barn í brók undir formerkjum fordómafullra verndunarviðhorfa ásamt ofstækislegri afstöðu gegn flestum framkvæmdum.  Þetta er næsta náleg hugmyndafræði í landi, sem er í stöðugri landfræðilegri mótun. 

Í frétt Morgunblaðsins 2. apríl 2016,

"Verðmæti náttúru og minja ræður",

er eftirfarandi haft eftir Stefáni Gíslasyni, formanni Verkefnastjórnar 3. áfanga Rammaáætlunar, og varpar tilvitnunin ljósi á þá meingölluðu aðferðarfræði, sem nú er lögð til grundvallar við frummatshuganir á landnýtingarkostum:

"Forsendurnar fyrir flokkun svæða í vernd eru alltaf verðmæti náttúru og menningarminja, en ekki útfærsla virkjana eða önnur nýting.  Ef hins vegar svæði fer ekki í verndarflokk, er farið að athuga, hvort útfærslur virkjana hafi meiri eða minni áhrif á verðmætin."

Þessi lýsing á starfsháttum Verkefnastjórnar um Rammaáætlun sýnir meinsemdina í hnotskurn.  Það er þegar í upphafi girt fyrir möguleikann á að nálgast skynsamlega og hófsamlega niðurstöðu úr fleiri en einni átt, af því að í upphafi er ekkert þekkt, nema náttúran.  Gróðurfar og náttúrumyndanir er hægt að rannsaka og leggja mat á verndargildi út frá, hversu algeng einkennandi náttúrufyrirbrigði staðarins eru, en þegar kemur að fegurðarskynjuninni, er hins vegar um smekksatriði að ræða.

 Látum það vera, en hin hlið málsins, önnur nýting en að skoða, er jafnvel enginn gaumur gefinn, og sé virkjanakostur íhugaður, þá er ekki fyrir hendi nein vitneskja um hann, sem hægt sé að reisa heildstætt mat á á þessu stigi.  Þessi aðferðarfræði er óþörf og ótæk, af því að önnur betri er til, og þar af leiðandi verða vinnubrögðin allsendis ófullnægjandi, og mega kallast fúsk. 

Þau eru fúsk í samanburði við vinnubrögð, sem vænta má, þar sem grunnforsendan er sú að nálgast viðfangsefnið með hlutlægum hætti víðar að með það að markmiði að ná hámarksverðmætum út úr náttúruauðlindinni á sjálfbæran og afturkræfan hátt.  Í flestum tilvikum fela slík vinnubrögð í sér málamiðlun, þ.e. farin er einhver millileið, allir hagsmunaaðilar slá af ýtrustu kröfum, og bezta þekkta tækni er hagnýtt til að lágmarka umhverfisrask við tiltekna hagnýtingu.

Afleiðing núverandi skelfilegu vinnubragða er sú, sem lesa mátti um í téðri frétt:

"Þrjú stór vatnasvið voru flokkuð í verndarflokk, eins og fram kom í blaðinu í gær, auk vesturkvísla Þjórsár.  Það eru Skjálfandafljót, Héraðsvötn og Skaftá.  Á þessum svæðum var tilkynnt um alls 10 virkjanakosti, sem þá koma ekki til greina, verði þetta niðurstaðan."

Hér er þjóðarhag fórnað á altari hégóma, fordóma og þröngsýni, og hagur Norðlendinga algerlega fyrir borð borinn.  Norðanmenn eru settir í raforkusvelti, því að á Norðurlandi ríkir nú þegar orkuskortur, og Landsnet kemst hvorki lönd né strönd með áform sín um samtengingu Suðurlands og Norðurlands og er reyndar að krebera við að tengja Reykjanes syðra við landskerfið. Þar hefur Hæstiréttur reyndar hafnað eignarnámsheimild ráðherra, af því að undanfarandi rannsóknarskyldu var ekki nægilega vel sinnt, og er það vel. Um allt eru of miklir hagsmunir í húfi til að slá megi af kröfum um beztu faglegu vinnubrögð, og við svo búið má ekki standa.  Fleirum blöskrar nú en blekbónda. 

Ráðherra er óánægður: 

Ein þeirra, sem ekki hefur getað orða bundizt af þessu tilefni, er iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Frá því greindi Fréttablaðið 6. apríl 2016 undir fyrirsögninni:

"Segir verkefnastjórn vaða í villu":

"Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sagði á vorfundi Landsnets í gær, að tillögur verkefnisstjórnar rammaáætlunar í síðustu viku um flokkun virkjanakosta í þriðja áfanga rammaáætlunar væru "ágætt dæmi um skort á skilningi á samspili orkumála og loftslagsmála".

Þessa fullyrðingu byggði Ragnheiður Elín á því, að tillögurnar byggja á niðurstöðum tveggja faghópa af fjórum; þeim, sem fjalla um náttúruverðmæti, menningarminjar auk ferðaþjónustu og hlunninda, en ekki þeim faghópum, sem fjalla um samfélagsleg og efnahagsleg áhrif."

Það má geta sér þess til, að síðast nefndu faghóparnir hafi ekki treyst sér á jafnveikum forsendum og fyrir hendi voru til að gefa út nokkra greinargerð, sem gagn væri að, enda verður ekki séð, eins og áður segir, að unnt sé að meta samfélagsleg og efnahagsleg áhrif virkjana fyrr en forhönnun þeirra er tilbúin.  Þá er hægt að reikna út orkuvinnslugetuna og orkuvinnslukostnaðinn og leggja raunhæft mat á umhverfisrask.  Það er reyndar ekki heldur hægt, svo að nokkurt vit sé í, að meta áhrif á náttúruverðmæti, menningarminjar og ferðaþjónustu, fyrr en virkjanatilhögun er tilbúin til lögformlegs umhverfismats.  Ferlið er gagnslaus hringavitleysa, sem er til þess eins fallin að sóa opinberu fé og afvegaleiða undirbúning að skynsamlegri og fjölþættri nýtingu, svo að ferlið einskorðast við ferðamennsku, jafngæfuleg og slík einhliða nýting hefur nú reynzt á mörgum stöðum.

Púkinn á fjósbitanum: 

Þeir eru auðvitað til, sem fagna ófaglegum og þröngsýnislegum niðurstöðum. Púkinn fitnar á fjósbitanum. Engum þarf að koma á óvart, að þar fór formaður Landverndar, Snorri Baldursson, fremstur í flokki og ritaði laugardaginn 2. apríl 2016 grein í Morgunblaðið, þar sem hann taldi, að þessi vitlausa niðurstaða styddi við draumsýn sína um þjóðgarð á öllu miðhálendinu, þjóðgarð, sem mundi spanna 40 % landsins undir einni miðstjórn, sem yrði vafalaust íþyngjandi fyrirkomulag fyrir ýmiss konar starfsemi, sem er þó jafnrétthá ferðaþjónustunni:

"Góðu tíðindin fyrir Landsvernd og önnur náttúruverndar-, útivistar- og ferðaþjónustusamtök, sem brenna fyrir stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands, eru, að tillaga verkefnisstjórnar staðfestir í raun eindregið mat þessara samtaka, að miðhálendið sé mun verðmætara villt en virkjað."

Hvernig hafa þessi samtök komizt að niðurstöðu, sem engar efnislegar forsendur eru á þessari stundu til að komast að ?  Það eru augljóslega engar vitrænar rannsóknir að baki þessu "mati", heldur er um huglægt mat fólks í þessum samtökum að ræða, sem engum þarf að koma á óvart.  Hér skal ekki ganga svo langt að segja, að þetta "mat" sé einskis virði, en það er alls ekki hjálplegt til að ná fram málamiðlun á grundvelli hlutlægrar aðferðarfræði til að nálgast niðurstöðu úr mörgum áttum til að finna út hagkvæmustu nýtinguna, sem mjög sennilega er fólgin í fjölþættri og hófstilltri nýtingu. 

Téður Snorri hélt enn í burtreiðar að þessu tilefni, og í þetta sinn til að snupra orku- og ferðamálaráðherrann fyrir hóflega gagnrýni hennar á vinnubrögð Verkefnastjórnar.  Nefndist sú grein: "Falskur söngur iðnaðar- og viðskiptaráðherra".  

Hér verða aðeins 3 atriði greinarinnar gerð að umræðuefni:

  1. Snorri skrifar: "Ný kerfisáætlun Landsnets á auk þess að tryggja flutning raforku um allt land".  Staðhæfingin er rétt svo langt sem hún nær, en sá er hængurinn á, að Landsnet er langt á eftir tímaáætlun með veigamikla þætti í framkvæmd þessarar Kerfisáætlunar, m.a. vegna hatrammrar andstöðu Snorra Baldurssonar og skoðanasystkina hans.  Þar af leiðandi er Norðurland í raforkusvelti, og er nú boðið upp á friðun allra helztu óvirkjaðra vatnsfalla Norðurlands. 
  2. Snorri skýtur sjálfan sig í fótinn með þessum skrifum: "Engar rannsóknir liggja fyrir um, að það sé hagfelldara fyrir samfélag og efnahag þjóðarinnar og heimsins að virkja vatnasvið á miðhálendinu en að friða þau í þjóðgarði.  Þess vegna er söngur ráðherrans falskur." Hvernig væri nú að leyfa raunhæfum rannsóknum á þessu að fara fram með beztu aðferðum nútímans í stað þess að setja mikilvægar orkulindir í verndarflokk nánast að óathuguðu máli, og reka síðan skefjalausan áróður fyrir stofnun eins þjóðgarðs á öllu miðhálendinu ?  Það eru nefnilega með sama hætti engar rannsóknir fyrir hendi, sem benda til, að "hagfelldara (sé) fyrir samfélag og efnahag þjóðarinnar og heimsins" að friða vatnasvið á miðhálendinu. 
  3. Snorri Baldursson heldur því fram í téðri Fréttablaðsgrein, að "í orkunýtingarflokki rammaáætlunar verði alls um 1400 MW, gangi tillögur verkefnisstjórnar eftir."  Nú veit enginn, hvort þetta afl er rétt metið eða hvort hagkvæmt verði að virkja það allt, enda drjúgur hluti jarðvarmi, þar sem ekki er á vísan að róa.  Þó að þetta mat væri nærri lagi, þá dugar það hins vegar alls ekki fyrir fyrirsjáanlega rafvæðingu hér innan lands á tímabilinu til 2050, þegar ljúka þarf íslenzku orkubyltingunni með notkun rafmagns úr endurnýjanlegum lindum í stað jarðefnaeldsneytis.  Uppsett afl, 1400 MW, má áætla, að gefi 10 TWh/a (terawattstundir á ári) af orku, sem er um 55 % af núverandi raforkunotkun.  Almenningsnotkunin nemur um þessar mundir tæpum 4 TWh/a, og aukist hún að jafnaði um 2,0 %/ár fram til 2050, verður viðbótar þörf almennings þá 4,0 TWh/a.  Fjögur kísilver munu þurfa um 4,0 TWh/a til viðbótar við það, sem þeim hefur þegar verið tryggt.  Rafvæðing allra farartækja á landi, láði og í lofti, mun ekki þurfa minna en 4,0 TWh/a.  Þarna er komin viðbótar orkuþörf, aðeins næstu 35 árin, upp á 3 x 4 = 12 TWh/a, sem er 20 % yfir því, sem Snorri telur til reiðu.  Þá hefur viðbótar orkuþörf núverandi orkusækins iðnaðar og annarrar orkukræfrar stóriðju, nýrra málmvinnslufyrirtækja o.þ.h., ekki verið tekin með í reikninginn.  Ef brautryðjandi áfangar nást í þróun kjarnorku, klofnings eða samruna, verður væntanlega engin slík viðbótar eftirspurn orku hérlendis, en annars gæti hún hæglega orðið.  Téð uppsett afl Snorra Baldurssonar, formanns Landverndar, hrekkur a.m.k. hvergi til. 

Samantekt:

Stjórnkerfi undirbúnings að nýtingu náttúruauðlinda á landi þarfnast endurskoðunar strax til að koma í veg fyrir tjón af völdum núverandi aðferðarfræði, sem getur ekki gefið góða raun.  Ágæt ríkisstofnun er fyrir hendi á þessu sviði, sem hæglega má fela hlutverk Verkefnastjórnar um Rammaáætlun að breyttu breytanda.  Stefnan á að vera sjálfbær og afturkræf nýting náttúruauðlindanna, sem er líkleg til að hámarka fjárhagslegan hag samfélagsins til langframa af nýtingunni.  Meginstefið verður þá vafalítið fjölþætt nýting, þar sem málamiðlunar hefur verið gætt á milli hagsmunaaðila, t.d. í ferðaþjónustu og í raforkugeiranum.

 


Heilbrigðismál í sviðsljósi

Lífslíkur við fæðingu landsins barna hafa batnað stöðugt á 20. og 21. öldinni og eru nú með þeim albeztu í heimi hér, vel yfir 80 ár. Mannkynið telur drjúga 7 milljarða, og meðallífslíkur þeirra, sem á annað borð komast á legg, munu nú vera tæplega 70 ár.

Langlífi Íslendinga má þakka tiltölulega hreinni náttúru, jörð, vatni og andrúmslofti, tiltölulega heilnæmum matvælum vegna náttúrunnar, strjálbýlis og lítillar notkunar eiturefna og sýklalyfja í landbúnaði, góðum efnahag og góðu heilbrigðiskerfi. 

Hryggjarstykkið í heilbrigðiskerfinu á Íslandi er Landsspítalinn.  Alþingismenn umgengust hann af ónógri varúð, jafnvel af léttúð, á síðasta kjörtímabili, svo að hann drabbaðist niður á flestum sviðum.

Við stjórnarskiptin vorið 2013 varð vendipunktur á öllum sviðum þjóðlífsins, og hefur Landsspítalinn notið góðs af því, og mun gera á næstu árum, þó að fjárveitingar til heilbrigðismála verði ekki tengdar við landsframleiðslu, sem er fráleit hugmynd, því að heilsufar þjóðar og landsframleiðsla eiga fátt sameiginlegt.  Landsframleiðsla á mann er þó yfirleitt til marks um efnahag einstaklinga og getu samfélagsins til innviðauppbyggingar.

Hafnar eru stórfelldar nýbyggingar á Landsspítalalóðinni við Hringbraut, og er það ánægjuefni, enda brýnt.  Deilt var um heppilegustu staðsetningu nýs Landsspítala; niðurstaðan var að velja lóðina við gamla spítalann, og hefur hönnunin, t.o.m. flókin verkhönnun nokkurra áfanga, verið miðuð við Hringbrautarlóðina.  Forysta Landsspítalans og yfirvöld heilbrigðismála mega heita einhuga um þessa niðurstöðu, þó að sitt sýnist hverjum í heilbrigðisgeiranum, og leikmenn verða að treysta á dómgreind manna í þessum efnum, sem daglega "eru með lífið í lúkunum" og hafa sýnt frábæran árangur við lækningar við aðstæður, sem nú standa til bóta. Allt orkar tvímælis, þá gert er. Ekki má draga það lengur að reisa nýjan spítala með vangaveltum um aðrar staðsetningar.

Hvað gerðist skömmu eftir, að heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, tók fyrstu skóflustunguna að sjúkrahótelinu ?  Óð þá ekki þáverandi forsætisráðherra landsins fram á víðan völl og tók til við að sá fræjum efasemda um staðsetninguna ?  Þessi gjörningur var til óþurftar málstað ríkisspítalans og gerir ráðherra málaflokksins og forystu spítalans sízt auðveldara fyrir, og var þó ekki á flækjustig viðfangsefna þessara manna og kvenna bætandi.   

Svona gera menn ekki, þó að þeir hafi mikinn áhuga á skipulagsmálum.  Núverandi forsætisráðherra, dýralæknirinn, hefur ekki höggvið í sama knérunn, og honum hættir sennilega síður til en hinum  að hlaupa út um víðan völl, þegar það á ekki við.

Heilbrigðiskerfinu íslenzka hefur verið hallmælt ótæpilega, og hafa svigurmæli í garð kerfisins og stjórnenda þess fallið.  Alræmdar eru lýsingar Kára Stefánssonar, læknis, á ástandinu og krafa hans um að hella a.m.k. miakr 50 á ári í reksturinn til að ná 11 % af VLF.  Um téðan Kára má segja hið sama og sagt var um Kára Sölmundarson í Njálu, að engum manni er Kári líkur, og skal ósagt látið, hvort um fræknleik eða frekju ræðir í tilviki Stefánssonar.

Til að fá nasaþef af hlutlægu mati á íslenzka heilbrigðiskerfinu í stað sleggjudóma og órökstuddra fullyrðinga æsingaseggja verður hér vitnað til greinar Steins Jónssonar, læknis, í Morgunblaðinu, 12. marz 2016:

"Frá árinu 2005 hefur evrópskt fyrirtæki að nafni "Health Consumer Powerhouse" (HCP) birt árlegan samanburð á heilbrigðiskerfum Evrópulanda, sem byggist á 48 gæðaþáttum.  Þessir mælikvarðar snúa ekki aðeins að hagfræðilega þættinum í rekstri heilbrigðiskerfanna, heldur ekki síður að því, hvernig þau þjóna neytendum eða sjúklingum.  Það vill stundum gleymast, að heilbrigðiskerfin eru fyrir þegnana.  Á þessum fjölþætta skala hefur íslenzka heilbrigðiskerfið yfirleitt verið mjög ofarlega meðal Evrópulanda.  Árið 2012 var Ísland í 3. sæti á eftir Danmörku og Hollandi.  Árið 2014 var Ísland í 7. sæti, rétt fyrir ofan Svíþjóð, Þýzkaland, Bretland og Frakkland.  Þessi staða Íslands má heita nokkuð góð, þegar litið er til þess, að á árunum 2009-2013 átti sér stað mikill niðurskurður á framlögum hins opinbera til heilbrigðismála.  Margvíslegur vandi steðjar nú að íslenzka heilbrigðiskerfinu, og eru hlutastörf lækna á LSH langt frá því að vera með þeim alvarlegri."

Að skera niður fjárveitingar til Landsspítalans án nokkurrar uppstokkunar eða kerfisbreytinga var náttúrulega eins og að míga í skóinn sinn, gjörsamlega vonlaus aðferðarfræði til að draga úr kostnaði til lengdar. Vinstri menn eru eins og námahestar með augnblöðkur.  Þeir mega ekki heyra minnzt á einkarekstur í heilbrigðisgeiranum, þó að reynslan hérlendis og erlendis, t.d. í Svíþjóð, bendi til aukinna afkasta (framleiðni) og gæða þjónustunnar með innleiðingu samkeppni af þessu tagi.  Samkeppni  um sjúklinga er notendum þjónustunnar og skattborgurunum til hagsbóta, enda er þetta eitt af úrræðum núverandi heilbrigðisráðherra, Kristjáns Þórs Júlíussonar, til að fá meira fyrir peningana og að stytta biðlistana.  Hann er jafnframt að setja auknar fjárveitingar til höfuðs biðlistum, og á langtímafjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar er um miakr 60 fjárveiting til nýs Landsspítala við Hringbraut, sem er þegar komin á framkvæmdastig, sem að mestu á að taka enda árið 2022. 

Allt eru þetta ólíkt skynsamlegri ráðstafanir en allsendis ótímabært heljarstökk í fjárveitingum til rekstrar heilbrigðiskerfisins, sem taki mið af 11 % af hratt vaxandi landsframleiðslu. Mikil útgjöld geta aldrei orðið markmið í neins konar rekstri, heldur skilvirkni og gæði.  Stefnan ætti að vera á eitt af þremur efstu sætunum hjá HCP á hverju ári, og markmiðið á að vera skilvirkari Landsspítali frá ári til árs, svo að skilvirkni spítalans árið 2025 mælt í rekstrarkostnaði á íbúa landsins á föstu verðlagi verði a.m.k. 20 % betri en árið 2015. Þetta er verðugt og raunhæft markmið vegna hinna miklu fjárfestinga, sem á næstu árum verða í Landsspítalanum.  

Margvíslegir lífsstílssjúkdómar herja á landsmenn, sem rekja má til óhollra lifnaðarhátta, slæms mataræðis og lítillar útiveru, hreyfingar og áreynslu.  Lyfjanotkun er óhófleg og meiri hér en annars staðar þekkist.  Mörg lyf hafa slæm áhrif á líkamsstarfsemina og þar með á heilsuna. 

Maðurinn var ekki skapaður í Paradís fyrir 6000 árum eða svo til að lifa á landbúnaði, akuryrkju og dýrahaldi, heldur hafa forfeður "homo sapiens" verið á fótum í um 3 milljónir ára, og líkamsstarfsemi hans hefur lítið breytzt á þessu tímabili, þó að lifnaðarhættir hans hafi mikið breytzt frá jurtatínslu og veiðimennsku í upphafi, til akuryrkju og dýrahalds fyrir um 15000 árum, og til iðnvæðingar, þéttbýlisbúsetu og hóglífis nútímans.  Lífstílssjúkdómar, þ.m.t. ofát, ofdrykkja og reykingar, valda bróðurpartinum af kostnaði ríkisins vegna sjúklinga.  Kostnaðarvitund og kostnaðarhlutdeild sjúklinga getur hjálpað þeim við að sjá að sér og bæta lífernið. 

Ruslfæði, skolpdrykkja, sætindi og kyrrsetur brennimerkja nútímamanninn, svo að hann afmyndast og verður heilsuveill.  Allt er það vegna þess, að hann gætir ekki að uppruna sínum.  Um þetta ritaði Pálmi Stefánsson, efnaverkfræðingur, athyglisverða grein í Morgunblaðið 21. marz 2016, "Baráttan við ofsúrnun líkamans":

"Gefum okkur, að jarðvist manna sé orðin 100 þúsund kynslóðir, þá eru ekki nema 500 kynslóðir (0,05 % - innsk. BJo) síðan mjólkur- og kornvörur urðu hluti af mataræðinu sums staðar á hnettinum.  Þótt steinaldarmennirnir hafi neytt fisks og kjöts, þá var fæði þeirra talið mun basískara vegna viðbótar matar úr jurtaríkinu en fæði okkar í dag í iðnaðarlöndunum og víðar. 

Nútímafæði er súrmyndandi og veldur súrnun líkamsvessanna og versnandi heilsu vegna ofáts prótínríks og steinefnasnauðs matar. Sést þetta bezt á því, að líkaminn hefur ekki getað aðlagað sig að gjörbreyttu mataræði (sýrustig) síðustu aldirnar (innan við 10 kynslóðir) án aukaverkana."

Þetta er lærdómsrík lesning, af því að bent er á þá augljósu staðreynd, sem flestir hunza þó, að maðurinn er ekki ruslkvörn, sem hægt er að henda hverju sem er í án þess, að það hafi neinar neikvæðar afleiðingar fyrir líðan og heilsufar.  Þvert á móti er maðurinn að stofni til eins og steinaldarmaðurinn, sem var alls ekki gerður til að vinna úr sætindum, verksmiðjuunnum mat, kornmeti og mjólk (nema ungabörn úr mjólk mæðra sinna), heldur var hann gerður fyrir hrámeti, aðallega úr jurtaríkinu, eins og tanngarður hans ber merki um.

Um þetta skrifar Pálmi:

"Ofát prótínríks matar eins og kjöts, fisks, eggja og mjólkurvara ásamt korni og brauðmeti veldur þessari miklu sýrumyndun eða ofsúrnun líkamans á okkar tímum."

Það er óeðlilegt matarræði, sem er meginbölvaldurinn og veldur offitu, vanlíðan, lélegu ónæmiskerfi og bágu heilsufari nútíma mannsins, sem hefur lítið sem ekkert þróazt líkamlega síðan á steinöld, eins og Pálmi bendir á.  Akuryrkja og landbúnaður voru bjarnargreiði við heilsufar mannsins, og kannski voru stærstu mistökin að stökkva niður úr trjánum, en það er reyndar talið, að forfaðir mannsins hafi neyðzt til þess vegna loftslagsbreytinga. Aðlögunarhæfni mannsins að breyttum aðstæðum er við brugðið, en þróun efnastarfsemi líkamans er afar hæggeng, eins og dæmin sanna.  

Nútíma læknisfræði býr yfir mörgum öflugum úrræðum til að fást við sjúkdóma, og þannig er hægt að bæta árum við lífið lengi, þó að ekki sé unnt að bæta lífi við árin, því að ekki er ráð, nema í tíma sé tekið.  Af þessum ástæðum sitja vestræn þjóðfélög nú uppi með heilbrigðiskerfi, hvers kostnaður er að vaxa þegnunum yfir höfuð og mun, þegar borgarar 67 ára og eldri, verða orðinn yfir þriðjungur íbúanna, reyna mjög á opinbera sjóði.  Til að kerfið hrynji ekki verður strax að verða almenn hugarfarsbreyting varðandi lífernið.  Hugarfarsbreyting á sér þegar stað, en nær enn til of fárra.  "Á skal að ósi stemma."

 

 


Ferðaþjónusta á krossgötum

Öryggismál ferðamanna á Íslandi eru í skötulíki, og þar eru útlendingar auðvitað berskjaldaðri en innfæddir, þar sem aðstæður á Íslandi eru flestum ferðamönnunum framandi. Í fréttum hefur verið greint frá atburðum, þar sem legið hefur við stórslysi, og þá má nærri geta, að heildarfjöldi slíkra hér um bil slysa skiptir hundruðum á árinu 2016.  Þetta er þriðja heims ástand, og má furðu gegna, að ekki skuli hafa verið gerð gangskör að róttækum úrbótum á helztu ferðamannastöðunum enn þá, því að frá árinu 2013 hefur verið ljóst, að róttækra aðgerða er þörf. Ekki vantar nú silkihúfurnar, sem um þessi mál eiga að véla. 

Í Fréttablaðinu, föstudaginn 11. marz 2016, var t.d. frétt um algert aðbúnaðar- og eftirlitsleysi á einum aðalferðamannastað landsins, við Gullfoss.  Þetta er gjörsamlega fyrir neðan allar skriður, og engu er líkara en beðið sé eftir næsta stórslysi áður en þessum vinsæla ferðamannastað verður hreinlega lokað af öryggisástæðum, a.m.k. að vetrarlagi.  Lausnin blasir þó við. 

Gera þarf eiganda/umráðaaðila viðkomandi staðar ábyrgan fyrir öryggi gesta og umgengni þeirra við staðinn, um leið og honum er veitt heimild til að innheimta komugjald af hverjum ferðamanni, enda hafi hann eftirlitsmenn og leiðbeinendur á staðnum og veiti a.m.k. fyrstu hjálpar aðstoð og hreinlætisþjónustu auk þess að koma upp og viðhalda göngustígum og útsýnispöllum, þannig að engum stafi bein hætta af heimsókninni og allir geti notið heimsóknarinnar, kvíðalausir. 

Af þessu komugjaldi þarf síðan að innheimta fullan virðisaukaskatt, og er þar með komið auðlindagjald í ríkissjóð, og sveitarfélagið fær fasteignagjöld af aðstöðusköpun og jafnvel útsvar af starfsmönnum. 

Nú verður vitnað til fréttarinnar um hið hættulega ástand við Gullfoss, sem virðist vera í boði ríkisstofnunar, eins og fram kemur í fréttinni:

"Flughálir svellbunkar liggja bókstaflega yfir öllu við Gullfoss þessa dagana.  Ferðamenn flykkjast að í þúsundatali á hverjum degi, en ekkert er gert til að draga úr hálkunni á leið þeirra að útsýnisstaðnum.  Lögregluborða hefur þó verið komið fyrir til að hindra aðgang að stígnum, sem liggur lokaspottann að fossinum."

"Þessa stund, sem stoppað var við Gullfoss, virtust margir gestir þar komnir vel af léttasta skeiði.  Var með ólíkindum, að þeir skyldu allir hafa staðið í fæturna alla leið að handriðunum, sem hægt var að styðja sig við á meðan fossinn var skoðaður úr fjarska."

"Um árabil hefur verið rætt um, að úrbætur þurfi við Gullfoss.  Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu, segir fossinn í umsjón Umhverfisstofnunar, sem annist þar hálkuvarnir, söltun og söndun.  Ekki var sandkorn að sjá á svæðinu, þegar Fréttablaðið var þar á ferð.  Ekki náðist í fulltrúa Umhverfisstofnunar í gær."

Andvaraleysi og ábyrgðarleysi umsjónaraðila og ábyrgðaraðila staðarins er algert.  Það er vítavert og sætir sennilega refsingu að lögum, ef einhver kærir, svo að ekki sé nú talað um, ef slys verður, er leiðir til tímabundinnar eða varanlegrar örorku, t.d. beinbrots.  Langlundargeð hagsmunaaðila í ferðaþjónustunni sætir tíðindum, því að í raun væri réttast, að sýslumaður mundi loka ferðamannastöðum, þar sem lífi og limum gesta er augljós hætta búin, eins og við Gullfoss við vissar aðstæður.

Ferðamálafulltrúi sýslunnar á svæðinu er greinilega gjörsamlega ráðþrota, en einhver myndi kalla slíkan málflutning holtaþokuvæl í þessari stöðu:

""Þetta er mjög erfið staða að eiga við í alla staði.  Það virðist einhvern veginn ekki vera hægt að landa þessu almennilega", segir Ásborg. "Við í ferðaþjónustunni erum núna í svo nýjum aðstæðum.  Það var ekki svona ofboðslegur fjöldi hér áður fyrr á þessum tíma.""

Þetta er óboðlegur málflutningur, og ef hann er talinn vera gjaldgengur, þá mun þetta ástand vara þar til staðnum verður hreinlega lokað.

Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, velkist ekki í vafa um, hvað er til ráða, og gefur yfirvöldum ráðleggingar í "Kynningarblaði um fjárfestingu í ferðaþjónustu", dagsettu 27. febrúar 2016:

"Framleiðni er lægri í ferðaþjónustu en hjá atvinnulífinu í heild.  Ef greinin heldur áfram að vaxa án þess að það breytist, munum við ekki njóta ávinningsins í formi bættra lífskjara.  Lykilverkefni stjórnvalda er því að styðja við framleiðnivöxt í greininni.  Það verður gert með því að horfa í meiri mæli á verðmæti hvers ferðamanns heldur en fjölda þeirra.  Þar skiptir máli að stýra ferðamannastrauminum og að auka tekjur af hverjum ferðamanni með fjárfestingu í tekjuskapandi verkefnum. 

Viðskiptaráð hefur talað fyrir því, að tekin verði upp aðgangsgjöld á vinsælustu áfangastöðunum.  Það dregur úr átroðningi, dreifir álagi á fleiri ferðamannastaði, eykur tekjur á hvern ferðamann og skapar hvata til að fjárfesta og byggja upp."

Yfirvöld hafa brugðizt í því að skapa nauðsynlega lagaumgjörð til æskilegrar framleiðniaukningar í ferðamannageiranum. Samt eru ágæt fordæmi, og nefnir Björn Brynjúlfur Bláa lónið til sögunnar um vel heppnaða náttúrunýtingu með aðgöngugjaldi fyrir gesti.  Bláa lónið er sem kunnugt er affallsvatn frá jarðgufuvirkjun í Svartsengi og er hluti af auðlindagörðum Hitaveitu Suðurnesja.  Bláa lónið er lýsandi dæmi um það, hversu afskaplega vel orkunýting og ferðaþjónusta geta haldizt í hendur, og þetta fordæmi má vera til eftirbreytni um allt land, þó að mörgum innfæddum blöskri nú aðgangseyririnn. 

Alls staðar, þar sem virkjanir á Íslandi eru opnar ferðamönnum til sýnis og fróðleiks, eru þær vinsælir viðkomustaðir.  Sömu sögu er að segja úr öðrum löndum, t.d. Bandaríkjunum, þar sem stórar vatnsaflsvirkjanir eru á meðal vinsælustu ferðamannastaða, og virkjaðir fossar, t.d. Niagara, hafa engan veginn misst aðdráttarafl sitt, því að um aðalferðamannatímann er um 30 % upprunalegs meðalrennslis hleypt á fossana, og verður upplifunin þá mjög nálægt því, sem væri við upprunalegt meðalrennsli. 

Það væri mikill bjarnargreiði við viðleitnina til aukinnar framleiðni í ferðamannaiðnaðinum, svo að ekki sé nú minnzt á tekjustreymið af auðlindanýtingu landsins almennt, að breyta öllu miðhálendi landsins, 40 % af heildarflatamáli þess, í einn þjóðgarð, ef með þjóðgarði er átt við að útiloka landgræðslu, almennilega vegagerð, virkjanir og loftlínu- og jarðstrengjalagnir, á svæðinu.  Slík tillaga mundi jafngilda því að varpa stríðshanzka að fjölmörgum aðilum, t.d. aðliggjandi sveitarfélögum, sem hafa fjölbreytilegri hugmyndir um sjálfbæra og þjóðhagslega hagkvæma nýtingu hálendisins en hrossatront og skakstur á niðurgröfnu þvottabretti í rykmekki.  Sum þeirra segja farir sínar ekki í sléttar í viðskiptunum við núverandi þjóðgarða.

Það er mun vænlegri leið til sátta að láta markaðinn úrskurða um það, innan marka lögformlegs umhverfismats, í stað einstrengingslegrar forsjárhyggju misviturrar miðstjórnar, hvernig hagnýtingu náttúrunnar verður háttað.  Þegar meiri reynsla kemst á stjórnsýslu og opinberan kostnað af Vatnajökulsþjóðgarði, stærsta þjóðgarði Evrópu, og meiri upplýsingar verða tiltækar um kosti og galla slíkra risaþjóðgarða, mætti hugsa sér þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta stórmál.

Hvað sagði hinn mæti hagfræðingur, Björn Brynjúlfur, um Bláa lónið ?:

""Þar er rukkaður aðgangseyrir, sem skilar sér í hvata til uppbyggingar.  Núna er þar í gangi uppbyggingarverkefni fyrir um miakr 6,0.  Til samanburðar nam fjárfesting ríkissjóðs í ferðaþjónustu í heild sinni Mkr 25 árið 2014 samkvæmt Hagstofunni (sem er 0,4 % af téðri fjárfestingu Bláa lónsins - innskot BJo).  Þetta er stærsta ástæða þess, að fjárfesting í greininni er lág.  Á meðan við rukkum ekki ferðamenn fyrir aðgang að vinsælustu ferðamannastöðunum, fáum við ekki tekjur, sem nýtast til að byggja þá upp.  Við njótum því ekki ávinnings af náttúruauðlindum okkar", útskýrir Björn Brynjúlfur."

Hér er komið að kjarna málsins.  Framleiðnin í ferðamannaiðnaðinum er lág, af því að ferðamaðurinn er ekki rukkaður fyrir aðgang að náttúruperlum, og þar af leiðandi er aðstaðan til móttöku þeirra fyrir neðan allar hellur víðast hvar, jafnvel stórhættuleg, heilsuspillandi og gróðureyðandi.  Það er flotið sofandi að feigðarósi varðandi umhverfisspjöll af völdum of mikils ágangs ferðamanna og fjölda þeirra í viðkvæmum náttúruperlum.  Þegar um slíka "ofnýtingu" náttúruauðlindar er að ræða, er lausnin sú alls staðar að hefta aðgengið og taka skattgjald af þeim, sem inn á svæðið er hleypt, sbr fiskveiðiauðlindina. 

Þegar um er að ræða ágreining um nýtingu á náttúrunni, er hægt að láta markaðinn höggva á hnútinn með því að láta hagsmunaaðilana bjóða í nýtingarréttinn til ákveðins tíma, t.d. 40 ára.  Þannig gætu ferðaþjónustufyrirtæki og virkjunarfyrirtæki t.d. boðið í einhvern virkjunarstað á miðhálendinu, svo að dæmi sé tekið. 

Þjóðhagslega hagkvæmast er þó, að mati blekbónda, að virkja, ef a.m.k. 10 %/ár raunávöxtun er tryggð af fjárfestingunni með orkusölu, og selja ferðamönnum síðan aðgang að virkjuninni og veita þeim þar góðan viðurgjörning.  Dæmin sýna, að slíkur "auðlindagarður" hámarkar afrakstur auðlindarinnar og sjálfbær virkjun og ferðamennska fara ágætlega saman. Að stilla virkjunarfyrirtækjum og ferðaþjónustufyrirtækjum upp sem andstæðingum er bábilja, sprottin út úr hugskoti einsýnna ofstækismanna. 

Það er jafnvel hægt að fara svipaða tilboðsleið með loftlínuleiðir, þar sem landnýtingin er umdeild, t.d. yfir Sprengisand.  Þar gæti Landsnet, ef það hreppir tímabundinn nýtingarrétt á loftlínu- og jarðstrengjaleið, verið með myndarlega sýningu á nýstárlegu mannvirki, spanspóluvirki, sem nauðsynlegt er að setja upp með um 25 km millibili til að unnt sé að reka 220 kV jarðstreng án þess að setja raforkukerfi landsins á hliðina vegna spennusveiflna. Slík mannvirki munu aðeins spanna örlítinn hluta hálendisins og megnið af því verða áfram "ósnortin víðerni". 


Úr myrkviðum vinstri stjórnar

Nú er komið upp úr kafinu, að einhver innan Stjórnarráðsins gaf skipun um að eyða netpóstum ráðuneytisstjóra í Viðskiptaráðuneytinu, ásamt geymsluafritum þeirra, á dögum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.  Þetta er vítavert athæfi.

Nú gæti einhver hugsað sem svo, að þetta væri einfaldlega enn eitt dæmið um lausatökin við stjórnvölinn eða axarsköptin, sem þessi umdeildasta og líklega lélegasta ríkisstjórn allra tíma á Íslandi er alræmd fyrir. 

Málið er hins vegar mun alvarlegra en svo, því að Morgunblaðið hefur fyrir því heimildir, að hér hafi verið um ásetningssynd að ræða og að verknaðurinn tengist Landsdómsréttarhaldinu yfir Geir Hilmari Haarde. 

Þar með er afar líklegt, að verknaðurinn sé saknæmur, og ákæruvaldið verður að kafa til botns í þessu máli.  Landsdómsmálið voru pólitískar ofsóknir villta vinstrisins á Íslandi gegn borgaralegum öflum, og réttarríkið á ekki að sýna meintum sökudólgum í þessu gagnaeyðingarmáli neina linkind.  Málið er í sjálfu sér miklu alvarlegra en "upplýsingalekinn" úr ráðuneyti Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.  Það kostaði hana þó ráðherraembætti og varaformannsembætti í Sjálfstæðisflokkinum og e.t.v. lyktir á þingferli.  Þeir, sem sekir kunna að vera í þessu máli, gegna varla háum embættum lengur, en þeir eiga alls ekki að fá leyfi til að dyljast og e.t.v. ná einhvern tímann opinberu embætti.  Séu hér núverandi þingmenn á ferð, eiga kjósendur þeirra, svo og aðrir kjósendur, heimtingu á útskýringu á þessum vítaverða gerningi.  Forkólfarnir misnotuðu Alþingi og réttarkerfið, og sagan mun fara um þá ómjúkum höndum. 

Vinstri menn eru frægir fyrir að eiga erfitt með að viðurkenna söguleg mistök.  Þeir eru nú teknir til við að endurrita söguna með því að bera í bætifláka fyrir ráðherra téðrar vinstri stjórnar.  Nú er viðkvæðið, þegar talið berst að hrakfallasögu vinstri stjórnarinnar, að ráðherrarnir hafi ekki haft tíma til uppbyggilegra starfa, því að þeir hafi allan tímann verið að slökkva elda.  Þetta er tóm þvæla.  Ríkisstjórn Geirs Hilmars hafði þegar lagt grunn að endurreisn fjármálakerfisins, þegar Samfylkinguna þraut örendið í þessari ríkisstjórn, en það gerðist fljótlega eftir, að boð bárust frá forystu VG um, að hún væri tilbúin að ræða umsókn um aðild að Evrópusambandinu við ríkisstjórnarmyndun.  Þá ákvað Samfylkingin að setja Sjálfstæðisflokkinum stólinn fyrir dyrnar.  Þess vegna var boðað til Landsfundar Sjálfstæðisflokksins í ársbyrjun 2009, en Sjálfstæðisflokkurinn lét ekki undan þar.  Í kjölfarið spannst hrikaleg atburðarás svika og landráða vinstri flokkanna í örvæntingarfullri tilraun til að þröngva landsmönnum í losti inn í ríkjabandalag Evrópu og að taka á sig skuldir bankakerfisins samkvæmt forskrift ESB. Nú virðist annar þessara stjórnmálaflokka vera að líða undir lok, enda er forysta hans fláráð og í engu treystandi.

Í tilefni téðrar sögufölsunar vinstri manna, sem erfitt eiga með að horfa framan í sannleikann, er tímabært að rifja upp nokkur axarsköpt vinstri stjórnarinnar, sem flest voru fallin til að seinka viðreisn hagkerfisins:

  1. Fyrsta verk minnihlutastjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur var að setja af sem formann bankastjórnar Seðlabankans höfuðstjórnmálaandstæðing sinn í tvo áratugi, Davíð Oddsson, fyrrverandi borgarstjóra og forsætisráðherra.  Var það gert með lagabreytingu, og fylgdi öll bankastjórnin.  Var þetta fáheyrð valdníðsla í lýðræðislandi, þar sem Seðlabankinn á að vera sjálfstætt stjórnvald.  Var niðurlægjandi og gegn lögum að fá norskan íhlaupamann úr Verkamannaflokkinum í Noregi í staðinn, og sérlega illa hefur þótt til takast með arftakann, sem ber ábyrgð á lagabrotum og slæmri stjórnsýslu Seðlabankans við framkvæmd eftirlits með gjaldeyrishöftunum, eins og rækilega hafa verið gerð skil í Morgunblaðinu og á þessum vettvangi og víðar.
  2. Vinstri stjórnin fékk Alþingi til að samþykkja vanhugsaðar breytingar á stjórnarráðslögunum, að því er helzt verður skilið, til að samsama sig því, sem hún hélt, að væri Evrópusambandinu þóknanlegt.  Er það afleitur útgangspunktur lagasetningar að apa gagnrýnislaust eftir öðrum.  Slíkt er heimskra manna háttur. 
  3. Vinstri stjórnin setti á svið sirkus um nýja Stjórnarskrá til að koma þar inn nokkrum pólitískum áhugamálum sínum, sem áttu að auðvelda henni að kasta skjóðunni inn um "Gullna hliðið" í Berlaymont og að knésetja einkaframtakið í landinu með þjóðnýtingu sjávarútvegsins.  Þetta var skólabókardæmi um það, hvernig ekki á að standa að stjórnarskrárbreytingum í lýðræðisríkjum, en er við hæfi í bananalýðveldum, og er við hæfi Marxista.  Að láta sirkus semja nýja Stjórnarskrá er auðvitað algerlega fráleit hugmynd í ljósi þess, hvað Stjórnarskrá er, og hefði sett af stað hér réttarfarslega ringulreið.  Stjórnarskrárbreytingar í þróuðu lýðræðisríki er verkefni fyrir sérfræðinga á sviði stjórnskipunar- og stjórnlagaréttar, en ekki sirkusdýra, sem skiptast á banönum og hnetum, svo að hver fái nokkuð fyrir sinn snúð, og taka svo lagið að sínum hætti.  Nú er verið að vinna að afmörkuðum breytingum á Stjórnarskrá lýðveldisins með ólíkt gæfulegri hætti en áður.  Æfingum á borð við lækkun þröskuldar við framsal fullveldis til erlendra stofnana ber þó að taka vara fyrir, enda verður ekki séð, hverjum slíkt ætti að verða til góðs.
  4. Alræmd varð vinstri stjórnin fyrir á annað hundrað skattalagabreytingar, sem allar voru til hækkunar skattheimtu og virkuðu í heildina mjög íþyngjandi á framkvæmdavilja einstaklinga og fyrirtækja og töfðu þess vegna viðsnúning hagkerfisins um 3 ár eftir Hrun fjármálakerfisins haustið 2008.  Að yfirvarpi var höfð fjárþörf hins opinbera, en þegar reynt er að kreista skattstofna, sem nýlega hafa orðið fyrir stórfelldu eignatapi og margir einnig talsverðu tekjutapi, þá gefur auga leið, að afleiðingin verður sú, að enginn nýr safi myndast, heldur skreppur skattstofninn saman, enda var það ekki fyrr en eftir kosningar vorið 2013 og umbætur á skattakerfinu voru boðaðar og hafnar, að hagvaxtar tók að gæta fyrir alvöru og aukinna skatttekna hins opinbera í kjölfarið. Enn hamlar skattkerfið þó samkeppnishæfni Íslands, þó að nokkuð hafi áunnizt, og er Ísland að þessu leyti eftirbátur allra Norðurlandanna, nema Danmerkur. Hugmyndafræði vinstri manna, ef fræði skyldi kalla, snýst um að beita skattkerfinu til að pína heiðarlegt og duglegt fólk til að láta fé sitt og eignir af hendi við hið opinbera, svo að misvitrir stjórnmálamenn geti endurútdeilt verðmætunum í gæluverkefnin sín.  Þetta kalla þeir að "auka réttlætið", en þetta er grunnhyggin afstaða út frá rekstrarsjónarmiði hins opinbera, því að íþyngjandi álögur minnka verðmætasköpun frá því, sem ella væri.  Vinstri menn kæra sig hins vegar kollótta yfir því, af því að þeir eru yfirlýstir andstæðingar hagvaxtar, eða a.m.k. efasemdarmenn um gagnsemi hans og sjálfbærni.  Þetta sýnir í hnotskurn við hvers konar viðvaninga um hagspeki er að fást á vinstri kantinum. Það krystallast algerlega í upphrópunum "litlu hagheilanna" um skaðsemi þess, að ríkið "afsali sér tekjum", þegar álögur eru lækkaðar.  Hugarheimurinn að baki þessu orðalagi er augljóslega sá, að ríkið eigi rétt á öllum tekjum, sem aflað er í þjóðfélaginu.  Þetta er hrein og ómenguð sameignarstefna Karls Marx.  Hið rétta er, að þar sem hið opinbera hefur farið offari við skattheimtuna, virkar lækkun skattheimtu til aukinna skatttekna.  Þetta er ofvaxið skilningi "litlu hagheilanna", þó að auðskilin dæmin blasi við. 
  5. Það væri að æra óstöðugan að telja upp allar skattahækkanir vinstri stjórnarinnar, en minnast má á fjármagnstekjuskattinn, þar sem verðbætur eru skattlagðar, sem er furðulegt og afar sparnaðarhamlandi.  Eitt af stefnumiðum fjármálastjórnar í landinu ætti að vera efling sparnaðar, en há skattlagning á fjármálatekjur dregur stórlega úr hvata til sparnaðar.  Tvöföldun erfðafjárskattheimtu var níðangursleg, enda í flestum tilvikum áður búið að greiða skatt við öflun eignanna.  Tryggingagjaldið dregur úr hvata til mannaráðninga, og þess vegna skýtur skökku við, að það skyldi hækkað, þegar atvinnuleysi jókst.  Nú á að lækka það til mótvægis við hækkun framlags atvinnurekenda í lífeyrissjóð starfsmanna sinna.  Sú hækkun og samræming lífeyrisréttinda í landinu er þarft mál og sanngjarnt á tímum hækkandi meðalaldurs í landinu og lengri tíma á lífeyri. HINGAÐ Geta ríkissjóðs til bótagreiðslna og ellistyrks mun að sama skapi fara minnkandi, eftir því sem færri vinnandi menn eru á móti hverjum landsmanni á ellilífeyrisaldri. 
  6. Afstaða vinstri manna til sjávarútvegsins sýnir, hversu veruleikaskyn þeirra er brenglað og hversu mikil slagsíða er á réttlætistilfinningu þeirra.  Þeir vilja taka eignarréttinn yfir aflahlutdeildunum úr sambandi og bjóða þær upp.  Þetta er eins og að gefa útgerðarmönnum val um að hypja sig af miðunum eða fá þeim í hendur skammbyssu með einu skoti í og skipa þeim að beina henni á höfuð sér og hleypa af.  Rúsnesk rúlletta heitir það og er algerlega óhæf hagstjórnaraðferð.  Þetta sýnir, að hugarfar gömlu bolsanna gengur hér ljósum logum, þegar kemur að afstöðu vinstri manna á Íslandi til atvinnurekstrar. 
  7. Arfavitlaus löggjöf Jóhönnustjórnarinnar, sem skyldar innflytjendur eldsneytis til að blanda brennsluolíuna með lífdísli og bensínið með etanóli, kostar bílrekendur tugi þúsunda á ári per bíl án þess að draga hið minnsta úr koltvíildislosun á heimsvísu, því að lífeldsneytið er unnið úr fóður- eða matjurtum og hækkar verð á þessum lífsnauðsynjum.  Á Íslandi er eina raunhæfa ráðið til að draga úr mengun og losun gróðurhúsalofttegunda við vélabruna að rafvæða farartækin. Íslendingar eru að vakna til meðvitundar um þetta. Þar sem vinstri mönnum er ekki gefin andleg spektin, hafa þeir að sjálfsögðu tekið upp á því að berjast fyrir rafknúnum léttlestum og sporvögnum. 
  8. Húsbyggjendum og -kaupendum var gert lífið leitt af vinstri stjórninni með nýrri byggingarreglugerð, sem talin er hafa í för með sér allt að 15 % hækkun á byggingarkostnaði, og strangt greiðslumat heldur fólki í fjötrum hárrar húsaleigu.  Nú er Kópavogskaupstaður að brjótast út úr þessum vítahring undir forystu sjálfstæðismanna.

Þetta eru nokkur dæmi af handahófi um leikhús fáránleikans í boði Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar, þar sem heilbrigð skynsemi var tekin út fyrir sviga og henni eytt út úr stjórnsýslu ríkisins.  Farsinn heldur áfram á Alþingi undir stjórn Svandísar Svavarsdóttur, lúpínueyðis, og mannvitsbrekkunnar Árna Páls Árnasonar, svo að ganga má að því sem vísu, að nái Samfylkingin og Vinstri hreyfingin grænt framboð völdum á ný í Stjórnarráðinu, þá mun hér öllu verða riðið á slig með heiftrækni og fávísi við stýrið, hvað sem sjóræningjum líður.   

  


Upplýst umhverfisstefna

burfellmgr-7340Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, ritaði gagnmerka grein í Morgunblaðið fimmtudaginn 8. október 2015, sem hann nefndi "Umhverfisvernd: Skynsemi eða ofstæki".

Voru þar orð í tíma töluð og óspart vitnað til Rögnvaldar Hannessonar, sem er höfundur margra ritverka um sjálfbæra nýtingu, m.a. sjávarauðlinda, hefur talað og ritað tæpitungulaust um umhverfisvernd. Rögnvaldur og prófessor Ragnar Árnason hafa lagt mest að mörkum við myndun fiskihagfræðilegs grundvallar að hinni íslenzku fiskveiðistefnu, sem nú nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar og æ fleiri þjóðir tileinka sér, af því að hún virkjar markaðinn til að hámarka afrakstur fiskistofnanna til lengdar.  

Má kalla málflutning Rögnvaldar réttmæli í mótsetningu við réttmælgi, en Þórarinn Eldjárn, skáld, gerir eftirfarandi greinarmun á þessum tveimur hugtökum: Réttmáll mætti nota um þann, sem hiklaust og refjalaust leitar hins rétta og sanna í hverju máli, en réttmálgur um þann, sem lagar kenningar sínar að hefðarspeki dagsins og hagar orðum sínum jafnan, eins og til er ætlazt. Réttmælgi er oft lýðskrum, og því miður er það of áberandi í umræðu um auðlindanýtingu, þar sem stundum er leikið á strengi öfundar í garð handhafa nytjaheimildanna. Þannig hefst grein Hannesar:

"Gegnir menn og góðviljaðir eru vitaskuld hlynntir hreinu og fögru umhverfi.  Þeir vilja vernda það og bæta eftir megni.  Við erum öll umhverfisverndarsinnar í þessum skilningi.  Nú hefur einn kunnasti og virtasti vísindamaður Íslendinga á alþjóðavettvangi, Rögnvaldur Hannesson, prófessor emeritus í auðlindahagfræði í Viðskiptaháskólanum í Björgvin, skrifað bók um umhverfisvernd, Ecofundamentalism, Umhverfisverndarofstæki (Lanham: Lexington books, 2014).  Þar gerir hann greinarmun á skynsamlegri umhverfisvernd (wise use environmentalism) og ofstækisfullri (ecofundamentalism). Sjálfur aðhyllist hann skynsamlega umhverfisvernd, en telur umhverfisverndarofstæki ekki aðeins rangt af fræðilegum ástæðum, heldur líka beinlínis hættulegt.  Þetta sé ný ofsatrú, þar sem Náttúran hafi tekið sess Guðs, en munurinn sé sá, að maðurinn sé ekki lengur talinn syndari, sem geti gert sér von um aflausn, heldur stórhættulegur skaðvaldur, jafnvel meindýr.  Ofstækisfólkið, sem Rögnvaldur andmælir, vilji stöðva hagvöxt, en hann sé þrátt fyrir allt besta ráðið til að vernda umhverfið og bæta." 

Það er ekki seinna vænna að fá slíka fræðilega aðgreiningu á hugtakinu umhverfisvernd í umhverfisvernd, sem reist er á heilbrigðri skynsemi í þágu núlifandi kynslóða og framtíðar kynslóða annars vegar og umhverfisvernd með trúarlegu ívafi, þar sem náttúran jafnan er látin "njóta vafans", og hagsmunir mannsins í bráð og lengd reyndar fyrir borð bornir, af því að hann er í þessum hugmyndaheimi í hlutverki þess með horn, hala og klaufir í kristninni.  Fyrr nefnda hugmyndafræðin er reist á að nýta náttúruna á grundvelli beztu fáanlegu vísindalegu þekkingar um sjálfbærni og afturkræfni í þágu hagvaxtar og bættra lífskjara allrar þjóðarinnar og mannkyns, en hin hugmyndafræðin er reist á tilfinningalegri afstöðu, þar sem náttúran er sett á stall og fólkinu gert að lifa af einhvers konar sjálfsþurftarbúskap, því að hagvöxtur er fallinn engill með sviðna vængi, sem ber að forðast til að varðveita sálarheillina samkvæmt einstrengingslegum umhverfisverndarsinnum. Það er auðvelt að sýna fram á, að dómsdagsspár hagvaxtarandstæðinga hafa verið reistar á þröngsýni og vanþekkingu og að það er einmitt vaxandi auðlegð þjóðanna, sem gerir þeim kleift að fást með beztu tækni við aðsteðjanda vanda og t.d. að draga mjög úr líkindum á stjórnlausri upphitun andrúmsloftsins á heimsvísu og að bæta heilsuspillandi loftgæði í mörgum borgum, t.d. í Kína og á Indlandi. Kína er stórkostlegasta dæmið um, að umhverfisvernd öðlast æðri sess á meðal þjóðar og leiðtoga hennar, þegar henni vex fiskur um hrygg.

Því verður ekki neitað, að málflutningur talsmanna náttúruverndarsamtakanna Landverndar kemur æði vel heim og saman við lýsingarnar á umhverfisverndarofstækinu.  Þetta fyrirbrigði er að sjálfsögðu ekki sjálfbært, því að fái það sess stefnumarkandi nýtingarstefnu, sem er þá ekkert annað en friðunarstefna með þjóðgarða út um allt, þá er borðleggjandi, að komandi kynslóðir verða fátækari en núverandi kynslóðir, því að fólkinu fjölgar (með og) án hagvaxtar, sem þýðir, að minna kemur í hlut hvers og eins, og reyndar miklu minna vegna tiltölulegrar fækkunar vinnandi fólks.

Yrði stefnu Landverndar fylgt, mundi t.d. flutningskerfi raforku ekki verða styrkt, svo að loku yrði skotið fyrir nýja atvinnusköpun, sem þarf 1 MW eða meira, og rafmagn gæti þá ekki leyst olíukyndingu af hólmi hjá hitaveitum, fiskimjölsverksmiðjum og annarri starfsemi utan Suð-Vesturhornsins, þar sem 220 kV flutningskerfi er fyrir hendi. 

Líklega mundi Landvernd ekki endurnýja raforkusamninga við stóriðju, ef hún fengi að ráða, og tómt mál yrði að gæla við ný stóriðjuverkefni. Atvinnulífið yrði mun einhæfara fyrir vikið, og Íslendingar gætu ekki staðið við losunarmarkmið sín á gróðurhúsalofttegundum, nema að skapa hér efnahagskreppu.  Erlendis yrði bæði hlegið og grátið yfir eymd og volæði eyjarskeggjanna á hinni norðlægu eldfjallaeyju, sem rík er af endurnýjanlegum orkulindum, en þar sem sá átrúnaður ríkti, að rask á náttúrunni samfara virkjunum og rafmagnslínum væru helgispjöll, þá hefði blátt bann verið lagt við slíku.   

Segja má, að umhverfisverndarofstækið krystallist í afstöðu Landverndar og sálufélaga til vatnsaflsvirkjana og til flutnings á raforku, t.d. á milli landshluta.  Nýting fallvatna til raforkuvinnslu er alls staðar í heiminum talinn eftirsóknarverður kostur, nema þar sem miðlunarlón hrekja fjölda manns af búsvæðum sínum og stíflumannvirki skapa flóðahættu í þéttbýli, ef þau bresta.  Að öðru jöfnu jafna miðlunarmannvirkin hins vegar rennslið og draga þannig úr flóðahættu.  Þetta síðast nefnda á auðvitað við á Íslandi einnig, eins og Þjórsá er gott dæmi um, en hún hefur verið hamin og rennur nú lygn með nálægt jöfnu rennsli allan ársins hring, en flóð hennar og jakaburður voru veruleg umhverfisógn meðfram farvegi hennar í gamla daga.

Orkumál á Íslandi eru í ákveðinni sjálfheldu núna, raforkuframboð er ónógt og flutningsgeta raforkukerfisins annar ekki núverandi þörf.  Allt stendur þetta atvinnulífinu fyrir þrifum, tugir milljarða í glötuðum fjárfestingum og atvinnutækifærum fara í súginn árlega, og það er auðvelt að heimfæra þetta ófremdarástand upp á umhverfisofstæki, sem er afturhald okkar tíma, sem hamlar atvinnuþróun og verðmætasköpun. 

Þann 12. október 2015 birtist frétt í Morgunblaðinu, sem skrifuð var af Sigurði Boga Sævarssyni og bar fyrirsögnina:

"Markaðurinn kallar á meira rafmagn".

Fréttin hófst þannig:

"Takmarkað framboð á raforku setur atvinnuuppbyggingu úti um land miklar skorður.  Segja má, að Suðurland og svæðið á Bakka við Húsavík séu einu svæðin á landinu, þar sem hægt er að útvega orku í takti við það, sem markaðurinn kallar eftir.  Annars staðar er þröng, enda fáir virkjunarkostir eða þá flutningsmannvirki ekki til staðar.  Þetta segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.  Þar á bæ er margt í deiglunni um þessar mundir, og efst á baugi er stækkun Búrfellsvirkjunar. 

Viðbótar orka frá Búrfelli er ekki eyrnamerkt ákveðnum kaupanda, eins og stundum, þegar nýjar virkjanir eru reistar.  "Eftirspurnin núna er helst hjá viðskiptavinum, sem þurfa kannski 5 til 10 MW af orku [átt er við afl - innsk. höf.], og þar getum við nefnt gagnaver og fiskimjölsverksmiðjur", segir Hörður og heldur áfram:

" Oft byrja nýir kaupendur með samningum um kaup á kannski 1 MW, en þurfa meira síðar. Í dag getum við ekki sinnt slíku, og því þarf að virkja meira.  Á hverjum tíma eru uppi ýmsar hugmyndir um atvinnuuppbyggingu úti á landi.  Fjárfestar skoða möguleika gjarnan í samvinnu við heimamenn, en þegar ekki fæst rafmagn, detta málin upp fyrir."" 

Þessi lýsing forstjóra langstærsta orkufyrirtækis landsins, Landsvirkjunar, sýnir, svo að ekki er um að villast, að raforkumál landsins eru í ólestri, eins og fram kom hér að ofan, og það hefur verið flotið sofandi að feigðarósi.  Arfur vinstri stjórnarinnar er upphaf vandans, en framvindan á þessu kjörtímabili er allt of hæg, af því að það er allt of mikil tregða í stjórnkerfinu vegna áhrifa frá afturhaldinu og jafnvel beygs við "æjatolla" umhverfisverndarofstækisins. 

Þetta ástand opinberar veika stjórnsýslu, þar sem heilbrigð skynsemi og hófsöm nýtingarstefna hefur tímabundið látið í minni pokann fyrir því umhverfisofstæki, sem prófessor emeritus Rögnvaldur Hannesson hefur skilgreint með skarplegum hætti í tímabærri bók sinni. Afleiðingar aðgerðarleysis í orkugeiranum eru, að uppsafnað þjóðhagslegt tap af þessu ófremdarástandi er sennilega komið yfir 5 % af vergri landsframleiðslu (VLF). Framkvæmdadoða raforkugeirans, sem beint og óbeint stafar af "réttmælgi" umhverfisofstækisins, verður að linna strax. 

Ný virkjun í Þjórsá, Búrfell II, er nú á útboðsstigi, og er ráðgert að hefja framkvæmdir í Sámsstaðaklifi í apríl 2016 og að hefja raforkuvinnslu um 30 mánuðum seinna, á árinu 2018.  Það þýðir 3 ár til viðbótar í orkusvelti, sem er ömurlegur minnisvarði um stjórnun orkumálanna í landinu, því að þessi virkjun þarf ekki umhverfismat að dómi Skipulagsstofnunar ríkisins, og hefur ekki verið falin Verkefnisstjórn Rammaáætlunar til einkunnagjafar. Landsvirkjun getur þess vegna ekki skotið sér á bak við það, að leiðin að virkjanaleyfinu hafi verið torsótt. Þvert á móti hefur hún verið greið, og Landsvirkjun hefði betur hafizt handa við Búrfell II árið 2013, þegar framkvæmdum við Búðarhálsvirkjun lauk. 

Frá árinu 2010 má segja, að margt skrýtið sé í kýrhaus Landsvirkjunar, nú síðast mat hennar á orkuvinnslugetu Búrfells II, sem nú verður skoðuð nánar:   

Búrfell II verður staðsett á svipuðum stað og Títanfélag Einars Benediktssonar, sýslumanns og skálds, fyrirhugaði að reisa Búrfellsvirkjun. Í bókinni Vatnsaflsvirkjanir á Íslandi eftir Helga M. Sigurðsson, sem Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen gaf út í Reykjavík árið 2002, stendur eftirfarandi um Fossafélagið Títan á bls. 140:

"Á árunum 1915-1917 var fyrst gerð áætlun um Búrfellsvirkjun.  Þar var á ferð fossafélagið Títan, sem Einar Benediktsson, skáld, hafði haft forgöngu um að stofna.  Gert var ráð fyrir, að mestur hluti orkunnar yrði notaður til stóriðju á Íslandi, áburðarframleiðslu.  Að áliti félagsins var vænlegt að virkja á fimm stöðum í Þjórsá og Tungnaá, en Búrfellsvirkjun yrði stærst. Títan-félagið keypti vatnsréttindin frá ósum Þjórsár til óbyggða.  En ekki varð af framkvæmdum á þeim tíma, meðal annars vegna bágs efnahagsátands í Evrópu upp úr fyrri heimsstyrjöld. Síðan voru sett lög á Alþingi árið 1923, sem torvelduðu erlendum orkufyrirtækjum að starfa í landinu.  Títan-félagið átti þó áfram vatnsréttindin til ársins 1952, þegar ríkissjóður keypti þau af því."

Við sjáum af þessu, að hinir norsku verkfræðingar Títan-félagsins voru á réttri braut með frumhönnun sína og áform um virkjanir í Þjórsá fyrir einni öld m.v. þróunina síðar.  Þeir höfðu fyrir aldamótin 1900 farið að hanna og reisa virkjanir í Noregi, og orkukræfur iðnaður hafði verið starfandi í 70 ár í Noregi, þegar hann loks komst á laggirnar hérlendis.  Hér vantaði fjármagn og innviði fyrir einni öld, og þingmenn óttuðust erlent eignarhald á atvinnutækjunum, sem er skiljanlegt á tímanum um og eftir fullveldissamninginn við Dani 1918.

Virkjunarframkvæmdir Landsvirkjunar við Búrfell hófust árið 1966, og var fyrsti hluti virkjunarinnar tekinn í gagnið haustið 1969 með veikri og áfallasamri tengingu við Íslenzka Álfélagið - ISAL, í Straumsvík.

  Meðalrennsli Þjórsár er 364 m3/s, en virkjað rennsli er 260 m3/s eða 71 % í Búrfelli I samkvæmt fyrrnefndri virkjanabók, sem með fallhæð 115 m jafngildir 270 MW af rafafli.

Búrfell II á að ráða við það, sem út af stendur í rennsli Þjórsár við Búrfell og er hönnuð fyrir rennslið 92 m3/s í 119 m falli. Þetta er tæplega 90 % af meðalrennsli og ætti þess vegna að duga fyrir forgangsorkuvinnslu, en samkvæmt sögulegum rennslisröðum er forgangsorka alltaf tiltæk, en heildarorkan í 27 ár af 30 ára röð. Með 90 % heildarnýtni gefur þetta 860 GWh/a eða meðalaflgetu 100 MW.

Á þessum grundvelli er óskiljanlegt, hvers vegna Landsvirkjun gefur upp vinnslugetu Búrfells II aðeins 300 GWh/a.  Fyrir vikið verður reiknaður vinnslukostnaður á orkueiningu í virkjuninni tiltölulega hár eða rúmlega 33 USD/MWh (4,3 kr/kWh).  Miðað við efri mörk upp gefins stofnkostnaðar, miaISK 16, er líklegur vinnslukostnaður hins vegar rúmlega 12 USD/MWh. 

Samkvæmt upplýsingum Landsvirkjunar er Búrfell II fremur óhagkvæm vatnsaflsvirkjun, því að vinnslukostnaður hennar er talsvert hærri en Búðarhálsvirkjunar, sem er svipuð að afli og var virkjuð síðast á Tungnaár/Þjórsársvæðinu.  Búrfell II ætti hins vegar af öllum sólarmerkjum að dæma að vera tiltölulega hagstæð, því að inntakslónið og frárennslisskurður eru þegar fyrir hendi.  Þess vegna er líklegt, að forgangsorkukostnaður virkjunarinnar sé aðeins rúmlega 12 USD/MWh.

Mengun er ekki huglæg, mengun er mælanleg.  Þannig er t.d. hægt að bera saman brúttó tekjur eða hreinar tekjur af mismunandi atvinnugreinum á hvert losað tonn af gróðurhúsalofttegundum eða öðrum efnum.  Orkukræfur iðnaður hefur löngum verið skotskífa ákafra og einstrengingslegra umhverfisverndarsinna að þessu leyti og er blóraböggull fyrir starfsemi, sem hinir áköfu umhverfisverndarsinnar hafa hælt upp í hástert sem fyrirmyndarstarfsemi og valkost við uppbyggingu raforkukerfisins, sem auðvitað getur ekki farið fram án stórra stofnlína.

Er þá komið að margþvældu hugtaki, sem er sjónmengun, en það er hins vegar algerlega huglægt fyrirbrigði, eins og fegurð og útlit.  Hverjum þykir sinn fugl fagur, eins og þar stendur.  Hin skynsamlega málamiðlun varðandi loftlínur almennt er, að stjórnvöld gefi út markmið um að stytta heildarlengd allra loftlína á landinu (símalínur eru vart sjáanlegar lengur) um a.m.k. 30 % fyrir árið 2030 m.v. árið 2000.  Þetta þýðir, að hinar minni línur í byggð og annars staðar verða þá horfnar og jafnvel allar línur undir 60 kV.  Sá hluti Byggðalínu, sem nú er í grennd við bæi, t.d. í Skagafirði, getur af umhverfislegum, tæknilegum og kostnaðarlegum sökum, hæglega farið í jörð, og sú verður einnig reyndin með 220 kV línur í grennd við þéttbýli, t.d. Hafnarfjörð.

Það er mikið veður gert út af fyrsta valkosti Landsnets um 400 kV stofnlínu á milli Suðurlands og Norðurlands um Sprengisandsleið.  Sú leið er þó flestum ferðamönnum aðeins fær um 3 mánuði á ári, og hvað ætli skyggnið sé yfir 1 km í marga daga á því skeiði, t.d. vegna ryks og misturs ? 

Ferðamenn og bíleigendur þurfa á almennilegum vegi með klæðningu að halda þarna og við akstri utan merktra vega eiga að liggja hamlandi viðurlög.  Það er hægt að verða við óskum um að hafa ekki téða flutningslínu í sjónlínu frá þessum vegi með vali línustæðis og tiltölulega stuttum jarðstreng. Þar að auki eru að koma á markað nýjar gerðir mastra, sem betur falla að umhverfinu en eldri gerðir.

Til að hámarka heildartekjur af þeim auðlindum, sem landið hefur að bjóða, verða hagsmunaaðilar að slá af ýtrustu kröfum og gera málamiðlanir.  Það hefur alla tíð verið háttur siðaðra manna. 

   

 

        

 

 


Heimur án kolefnabrennslu 2050

Á mörkuðum geta menn verið haldnir ranghugmyndum um áhættu, eins og þeir, sem fjárfest höfðu í undirmálshúsnæðisskuldabréfum ("subprime mortgages") 2008, ráku sig á. 

Nú benda markaðsupplýsingar til, að áhættan af "óbrennanlegu kolefni" sé vanmetin.  (Óbrennanlegt kolefni eru þær birgðir af eldsneyti í jörðu kallaðar, sem mundu valda hlýnun andrúmslofts yfir 2,0°C, ef  unnar væru sem eldsneyti.) Hlutabréfavirði olíu-, gas- og kolafyrirtækja er háð þekktum forða í jörðu í þeirra eigu.  Því meira jarðefnaeldsneyti, sem fyrirtæki á, þeim mun verðmætari eru hlutabréf þess.  Hvað gerist, ef sumt af þessum forða getur aldrei verið unnið úr jörðu og brennt (af umhverfislegum orsökum) ?

Ef ríkisstjórnum væri alvara með loftslagsstefnu sinni, þá yrði að skilja mikið af þessum þekkta forða eftir í jörðu.  Í þessu ljósi er einkennilegt, að verið sé með undirbúningsrannsóknir í gangi fyrir olíuboranir á Drekasvæðinu og jafnvel norðar, þar sem vinnslukostnaður er yfir 100 USD/fat og umhverfisslys mundi hafa alvarleg áhrif á lífríkið, því að niðurbrotstími við hið lága sjávarhitastig þar er langur. Allar birgðirnirnar undir Norður- og Suður-Íshafi flokkast sem "óbrennanlegar".

Útreikningar á því, hversu mörg koltvíildisígildi mega fara út í andrúmsloftið miðað við, að aukið magn gróðurhúsalofttegunda valdi ekki meiri hækkun meðalhitastigs við jörðu en 2,0

°C hafa verið gerðir og verður að treysta, þó að sumir rengi þá reyndar.  Of mikið er í húfi til að tímanum megi sóa.  Hámarkið verður frá árinu 2013 1000 Gt CO2 (1 Gt=1 milljarður tonna), og reiknað er með, að það náist árið 2050, þó að stigið verði strax á bremsurnar. 

Þetta þýðir í raun, að mannkynið þarf að draga sífellt úr losun gróðurhúsalofttegunda niður í nánast ekki neitt árið 2050.  Íslendingar geta hæglega sett sér raunhæft markmið um enga nettólosun árið 2050, sem fyrirsjáanlega verður unnt að ná með landgræðslu og stóreflingu skógræktar. Stefnt er að því, að ríki skuldbindi sig í þessa veru á Parísarráðstefnunni um loftslagsmál í desember 2015.

Ef mannkynið hins vegar ætlar að hunza varnaðarorð margra vísindamanna um þessi efni og brenna allt það jarðefnaeldsneyti, sem nú eru til þekktar birgðir af, mundu verða til 2860 Gt CO2, eða næstum þrefalt leyfilegt viðbótar magn koltvíildis í andrúmsloftinu.  Þá kann hitnun gufuhvolfsins að verða óviðráðanleg (irreversible), og á það er ekki hægt að hætta, því að slíkt getur tortímt mestöllu lífi á jörðunni í sinni núverandi mynd.  "So what" segja þeir allra kaldhæðnustu, en þá er þess að gæta, að það mundi gerast með miklum hörmungum.  Mannkynið hefur enn svigrúm til að forðast þær með því að beita þekkingu sinni og útsjónarsemi.  "Vilji er allt, sem þarf", sagði skáldið. 

Ríkisstjórnir ráða um 3/4 af þessum "óbrennanlegu" birgðum og einkafyrirtæki eiga um 1/4 af fastákvörðuðum birgðum, en síðan eiga einkafyrirtæki til viðbótar jafngildi 1541 Gt CO2 af líklegum birgðum.  Ríkisstjórnir ættu þess vegna nú þegar að fara að draga úr nýtingu sinni og leyfa einkafyrirtækjum vaxandi markaðshlutdeild gegn því að hætta leit að nýjum lindum. Það mun auðvelda þeim fjármögnun á "orkuviðsnúninginum" eða orkubyltingunni.  

Núverandi þróun þessara mála stefnir þó í þveröfuga átt.  Ríkisrekin orkufyrirtæki eru að auka markaðshlutdeild sína, og einkafyrirtækin vörðu 5 sinnum meiru, miaUSD 674, í leit og vinnsluundirbúning árið 2012 en í arðgreiðslur til hluthafa, en þær námu þá miaUSD 126.  ExxonMobil ætlar að verja miaUSD 37 á ári í leit að jarðefnaeldsneyti næstu árin. 

Af þessu sést, að það er hræðilegur tvískinnungur á ferðinni í loftslagsmálum í heiminum, og verður spennandi að sjá, hvort þjóðir heims munu ná "mjúkri lendingu" á hinni alþjóðlegu loftslagsráðstefnu í París við árslok 2015.  Fulltrúar Íslands ættu ekki að hika við að sýna dirfsku á þeirri ráðstefnu og miða við 40 % minnkun nettó losunar frá árinu 1990 árið 2030 og 100 % árið 2050 með þeim tveimur skilyrðum, að vísindalega sönnuð binding koltvíildis í nýræktum verði metin til fulls á móti losun og að losun orkukræfs iðnaðar, sem notar raforku, sem unnin er á næstum mengunarlausan og endurnýjanlegan hátt, verði ekki talin með árið 2030, en verði hins vegar meðtalin árið 2050. Ef ekki verður komin ný framleiðslutækni hjá stóriðju og öðrum árið 2030 án koltvíildislosunar, verður hún að kaupa sér koltvíildisbindingu, t.d. með skógrækt, sem nær 100 % eigi síðar en 2050.

Á næstu þremur áratugum mun verða bylting í vinnslu rafmagns, þegar nýjar aðferðir við það munu ryðja sér til rúms.  Vinnslukostnaður vindmylla og sólarhlaða hefur a.m.k. helmingazt síðast liðin 5 ár og er nú um 120 USD/MWh og 100 USD/MWh í sömu röð. Vinnslukostnaður vindmylla á Íslandi er líklega um 90 USD/MWh og er lægri en víða erlendis vegna lengri nýtingartíma á ári (hærri meðalvindstyrks). 

Gestur Pétursson, forstjóri Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, telur hægt að vinna raforku úr glatvarma verksmiðjunnar með lægri kostnaði en í vindmyllum.  Gallinn er sá, að hérlendis er enginn markaður fyrir svo dýra raforku, sem hér um ræðir, og verður sennilega aldrei.  Mun álitlegra er að nota glatvarmann, hvers hitastig mun vera yfir 400°C, ólíkt því, sem tíðkast í hreinsivirkjum álvera (100°C), til að knýja efnaferla í grenndinni eða í hitaveitu, en þar ríkir reyndar samkeppni frá jarðvarmanum. Stundum getur þó verið kostur að hvíla jarðhitasvæði, svo að raunhæfur grundvöllur ætti að vera fyrir nýtingu hans án raforkuvinnslu, jafnvel lághitann, sem fáanlegur er í hreinsivirkjum álvera.  Þar er þó sá hængurinn á, að þau eru ekki hönnuð fyrir slíka nýtingu.

Á Morgunblaðinu gera menn orkumálum hátt undir höfði, eins og vert er, og þar var í september 2015 stór mynd af tveimur forvígismönnum rafbíla, glaðbeittum, Elon Musk, forstjóra Tesla Motors, og Gísla Gíslasyni, framkvæmdastjóra EVEN, í Tesla-verksmiðjunni í Fremont í Kaliforníu, ásamt fleirum. Grein um efnið bar fyrirsögnina:

"Gera leiðina milli Keflavíkur og Reykjavíkur "græna"".  Hún hófst þannig:

"Eitt af því, sem EVEN vinnur að í dag er að gera leiðina milli Keflavíkur og Reykjavíkur "græna", þ.e.a.s. að finna leiðir til að skipta út dísilrútunum fyrir rafrútur og einnig að fá leigubílstjóra, sem fara þessa leið, til að skipta yfir í rafbíla.  Þegar þetta tekst, þá verður hægt að flytja þessa rúmlega milljón ferðamenn á íslenskri orku milli flugvallarins og höfuðborgarinnar."

Hér er umhverfislega verðugt, hagkvæmt og raunhæft verkefni á ferðinni, öfugt við furðuverkið léttlest (hraðlest) á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Umferðarmiðstöðvarinnar í Vatnsmýri með viðkomu í Hafnarfirði, Garðabæ og Mjódd.  Slíkt fyrirbrigði er allt of dýrt að stofna til og reka, enn sem komið er,  og undir hælinn lagt með tekjurnar. 

Nú eru yfir 600 rafbílar á Íslandi, sem er um 0,3 % af fólksbílaflotanum.  Ríkissjóður þarf að fórna vörugjöldum, tollum og fyrst um sinn virðisaukaskatti af bílum án teljandi koltvíildismyndunar við akstur, ef landinu á að takast að standa við skuldbindingar um 40 % minni nettólosun árið 2030 en 1990, svo að ekki sé nú minnzt á "koltvíildissnautt" Ísland 2050. Í staðinn minnkar gjaldeyrisnotkun um allt að miaISK 100 á ári, sem mun virka styrkjandi á gengi ISK og bæta lánshæfismat landsins, svo að vextir geta þá lækkað, ef allt verður með felldu. Þá gætu ráðstöfunartekjur fjölskyldu með 2 bíla í rekstri aukizt um MISK 1,0 á ári vegna minni rekstrar- og viðhaldskostnaðar rafbíla, svo að hér er um stórfellt hagsmunamál fyrir almenning að ræða. Sem millilausn, þar til drægni rafgeyma verður um 500 km og hraðhleðslunet verður komið um landið, eru frá nokkrum framsæknum framleiðendum komnir tvinnbílar á markaðinn með rafhreyfil og bensínhreyfil.  Blekbóndi telur þetta vænlegan kost í stöðunni, enda eru aksturseiginleikar góðir, þar sem afl beggja hreyflanna leggst saman, þegar á miklu afli eða togi þarf á að halda.

Kolefnisgjald á allt eldsneyti þarf að standa undir skógrækt til mótvægis við það, sem út af stendur af 40 % markmiðinu 2030, en árið 2050 verður "orkuvendingin" (þ. die Energiewende) um garð gengin.

Yfirvöld víða hafa að mörgu leyti brugðizt væntingum margra gagnvart hinni meintu umhverfisvá, sem mikil losun gróðurhúsalofttegunda hefur í för með sér.  Þau hafa ekki brugðizt við meintri vá með fullnægjandi hætti hingað til, en æ fleiri, og þar með valdhafar, eru þó þeirrar skoðunar, að kenningar margra vísindamanna, um samhengi styrks koltvíildisígilda í andrúmsloftinu og meðalhitastigs í lofthjúpnum við yfirborð jarðar, eigi við rök að styðjast.  Þá hljóta menn að samþykkja kenningar um afleiðingar hlýnunar og af varúðarsjónarmiðum að setja leyfilegt hámark við hlýnun 2,0°C, eins og vísindamenn ráðleggja. 

Yfirvöld hafa að sumu leyti verið býsna léttúðug í ljósi afleiðinganna, t.d. varðandi hvatningu til bænda um að rækta jurtir, sem síðan eru nýttar til eldsneytisgerðar fyrir fartæki og reikna þetta til mótvægisaðgerða. Í fyrsta lagi hefur þetta leitt til hærra matvælaverðs, sem kemur hinum verst settu í heiminum verst, í öðru lagi hefur þetta leitt til aukins skógarhöggs, þegar nýtt land er brotið undir akra til að framleiða eldsneyti, og í þriðja lagi þarf mikið eldsneyti til að framleiða þessa "lífolíu".  Þegar upp er staðið eru mikil áhöld um, að nettó ávinningur verði af þessari ráðstöfun fyrir lofthjúpinn. Þarna var verr farið en heima setið.

Á Íslandi er sú vafasama krafa við lýði síðan á síðasta kjörtímabili, að seld dísilolía sé að 5 % af slíkum lífrænum uppruna eða framleidd hérlendis með efnafræðilegum aðferðum, t.d. úr afgösum jarðgufuvirkjana.  Þessi "lífdísilolía" til íblöndunar er hins vegar þrefalt dýrari en innkaupsverð dísilolíu úr jarðefnaeldsneyti, og þessi mikli kostnaðarmunur, sem lendir á tækiseigendum/ökumönnum er óréttlætanlegur miðað við hæpinn ávinning. Þetta var vanhugsuð lagasetning á sinni tíð, sem ætti að afnema eða milda að svo miklu leyti, sem það samrýmist kröfum ESB til EES-landanna.

Ríkisstjórnin ætti samhliða að afnema hvata fyrri ríkisstjórnar til kaupa á dísilbílum með því að beita sér fyrir lagasetningu, þar sem hætt er að hygla dísilbílum, en rafmagnsbílum hins vegar hyglað að óbreyttu í a.m.k. áratug.  Jafnframt þarf að endurskoða kolefnisgjaldið af þeim og miða við eldsneytisnotkun, þegar hreinsibúnaður bílanna er virkur, en þá er eldsneytisnotkunin allt að 40 % meiri en framleiðendur gefa upp. 

Ef inngrip ríkisvaldsins skekkja ekki bílamarkaðinn, eins og verið hefur frá misráðnum aðgerðum vinstri stjórnarinnar dísilbílnum í vil, verður dísilbíll dýrari í innkaupum og með svipaðan rekstrarkostnað og sambærilegur bensínbíll.  Dísilbíllinn mun þá fyrstur láta undan síga fyrir tvinnbílum og rafmagnsbílum. Stórar dísilvélar munu þó lengi halda velli.   

Í greininni, "Framtíðin í orkugjöfum óræð", sem birtist í orkuúttekt Morgunblaðsins í september 2015, er sagt frá einarðri skoðun Glúms Jóns Björnssonar á eldsneytismálum umferðarinnar:

"Glúmur Jón Björnsson, efnafræðingur og framkvæmdastjóri efnarannsóknarstofunnar Fjölvers, segir þá þróun, sem hefur orðið í aukningu markaðshlutdeildar dísilbíla varhugaverða.  Pólitísk stefnumótun hafi orðið til þess að hluta, þar sem minni útblástur koltvísýrings komi frá dísilvélunum.  Sá ávinningur, sem verði af því, sé fyrir bí, þegar tekið sé tillit til þess, hve mikið meira af sóti og heilsuspillandi efnum komi frá dísilvélum en bensínvélum. 

Glúmur segir þó talsvert hafa áunnist í framleiðslu jarðefnaeldsneytis á síðustu áratugum.  "Það hafa orðið stórstígar framfarir, m.a. þegar blý hvarf úr bensíninu, og brennisteinninn er nánast horfinn úr bæði bensíni og dísilolíu. Bensín hefur líka léttst mikið; það er minna af þungum efnum í því, sem leiðir til minni sótmyndunar.  Á sama tíma hefur tekist að halda gufuþrýstingi niðri, svo að minna sleppur út í andrúmsloftið.  Það hefur náðst mikill árangur á síðustu áratugum, og almennt miðar þessum málum í rétta átt."" 

        

  

    

 


Múhameðstrú og Vesturlönd

Múhameðstrúarmenn, Islamistar, hafa eldað grátt silfur við kristna Evrópumenn síðan Márar réðust inn í Spán og lögðu megnið af Pýreneaskaganum undir sig á árunum 711-718.  Kristnir höfðingjar náðu ekki að jafna hlut sinn þar fyrr en á 13. öld, og nokkru lengur héldu Márar nokkrum borgum í Andalúsíu.

Á 8. öld og lengur má hiklaust telja, að Márarnir hafi haft á valdi sínu meiri þekkingu en kristnir Evrópumenn.  Ástæðan er sú, að þeir höfðu í herförum sínum, t.d. í Norður-Afríku, tekið menningarborgir herskildi og slegið eign sinni á forn bókasöfn og tileinkað sér speki fornaldar, sem þar var að finna, þ.á.m. um byggingarlist. 

Afrakstur þessa var meiri þekking á stærðfræði, eðlisfræði, stjörnufræði og verkfræði en þá var fyrir hendi í Evrópu.  Áhrifaríkt dæmi um þetta er kastalinn, Alhambra-Rauði kastalinn, í Granada, sem engan lætur ósnortinn, sem áhuga hefur á húsagerðarlist og verkfræði.  Þar var og er rennandi vatn notað á snilldarlegan hátt til loftkælingar.

Á miðöldum stóð kristinni Evrópu mikil ógn af Ottomanaveldinu, tyrkneska, sem stundaði útþenslustefnu og gerði usla á Balkanskaga, þar sem leifar áhrifa þeirra eru enn. Hluti af illindunum á milli þjóða og þjóðabrota þar stafar af því, að þeir, sem gengu á mála hjá Tyrkjum tóku upp trú þeirra, og voru hataðir sem svikarar eftir það af öðrum íbúum svæðisins.   

Eftir Heimsstyrjöldina síðari hófst mikill straumur Múhameðstrúarmanna til Evrópu, t.d. sem "Gastarbeiter" (farandverkamenn) til Vestur-Þýzkalands frá Tyrklandi og frá frönskum áhrifasvæðum í Austurlöndum nær og Norður-Afríku til Frakklands.  Er nú svo komið, að fjöldi Múslima í nokkrum ríkjum Evrópu er eins og að neðan greinir sem hlutfall af íbúatölu viðkomandi lands.  Í svigum er hlutfallið, sem aðrir íbúar landanna telja, að eigi við fjölda Íslamista í sínu heimalandi:

  • Frakkland    8 % (31 %)
  • Belgía       6 % (29 %)
  • Þýzkaland    6 % (19 %)
  • Bretland     5 % (21 %)
  • Svíþjóð      5 % (17 %)
  • Ítalía       4 % (20 %)
  • Spánn        2 % (16 %)

Tvennt vekur athygli við þessa töflu.  Annars vegar gríðarlegur fjöldi múhameðstrúarmanna í fjölmennustu löndum álfunnar og hins vegar, hversu gríðarlegt ofmat ríkir í öllum þessum löndum, og reyndar, þar sem mælt hefur verið, á fjölda múhameðstrúarmanna í viðkomandi landi.  Aðrir íbúar telja múslima í sínu landi vera þrefalt til áttfalt fleiri en þeir þó enn eru, en það ber að hafa í huga, að fæstir tileinka þeir sér vestræna siði alfarið, og sumir alls ekki, svo að þeim fjölgar margfalt hraðar en kristnum frumbyggjum landanna. Þetta vekur mörgum ugg í brjósti, og er PEGIDA-hreyfingin í Evrópu skilgetið afkvæmi islamvæðingar Evrópu.  Hugmyndin er sú, að það sem herjum soldánsins í Miklagarði ekki tókst með innrás í Evrópu, það eigi nú að raungera með því að taka völdin innanfrá.

Þetta ofmat á núverandi fjölda islamista í Evrópu má þannig skýra með almennri tortryggni íbúanna í garð fólks með framandi og í augum margra Vesturlandabúa frumstæða trúarsiði.  Evrópumenn finna sig í varnarstöðu gagnvart ágengum trúarbrögðum, sem beita miskunnarlausu ofbeldi í baráttu sinni við vestræna menn og vestræna menningu, sem þeim þykir einkennast af trúleysi. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga, að íslam eru engin venjuleg trúarbrögð, heldur blanda af stjórnkerfi heimilis og þjóðfélags með fastmótuðum siðum, t.d. um klæðaburð, og trúarsiðum.  Þetta veldur því, að í ríkjum múslima eru engin skil á milli ríkis og trúarbragða, nema helzt í Tyrklandi.  Þetta stendur þessum ríkjum fyrir þrifum, því að fyrir vikið verða þau auðveldlega fórnarlömb afturhalds og ofstækis, sem hamlar þróun í anda Vesturlanda eða Kína. Stjórnmál og trúmál eru eldfim blanda.

Bretar voru spurðir að því árið 2003 og aftur árið 2013, hvort Bretar mundu glata þjóðareinkennum sínum, ef fleiri múhameðstrúarmenn flyttust til landsins.  Í fyrra skiptið svöruðu 48 % þessu játandi og í seinna skiptið 62 %.  Þetta undirstrikar gríðarlega samskiptaörðugleika "frumbyggja" við þetta aðkomufólk, sem heldur fast í sína trúarsiði og neitar að laga sig að almennum siðum innfæddra, t.d. klæðaburði, svo að áberandi einkenni sé nefnt. 

Það, sem alvarlegast er við skort á aðlögun múhameðstrúarmanna að háttum, siðum og löggjöf Vesturlanda, er að viðhalda forneskjulegum lögum Kóransins, s.k. sjaría-lögum.  Beiting þeirra er grimmdarleg, í mörgum tilvikum níðingsleg, og felur í sér mannréttindabrot af grófasta tagi.  Það er algerlega óásættanlegt, að einhver trúarhópur taki upp á því að stunda lögbrot og mannréttindabrot að því er virðist vegna sjúklegrar kúgunarþarfar og ofbeldishneigðar gagnvart safnaðarmeðlimum. Það er enn í fullu gildi, sem Þorgeir, Ljósvetningagoði, kvað upp úr með á þingi forðum, að ef við slítum í sundur lögin, þá munum við og friðinn í sundur slíta.  Þarna ættu Vesturlönd að draga línu í sandinn, og einfaldlega að vísa þeim til föðurhúsanna, sem ekki vilja þíðast þessi skilyrði.

Í Evrópu hafa stjórnmálaleiðtogar, margir hverjir, lagt sig í framkróka við að breiða yfir það ginnungagap, sem skilur að gildismat múhameðstrúarmanna og flestra annarra íbúa Evrópu, hvort sem þeir telja sig kristna eður ei. Dæmi um slíkt eru ummæli fyrrverandi forseta Sambandslýðveldisins Þýzkalands, Christian Wulff, árið 2010, nokkru áður en hann hrökklaðist úr embætti sökum spillingarmála á meðan hann var forsætisráðherra eins þýzka fylkisins.  Wulff sagði í ræðu:

"Íslam er hluti af Þýzkalandi".

Margir Þjóðverjar eru ósammála þessari fullyrðingu, og til marks um það er hin sjálfsprottna grasrótarhreyfing, PEGIDA - Patriotische Europäer gegen die Islamisierung des Abendlandes - Föðurlandsvinir í Evrópu gegn Íslamsvæðingu Vesturlanda.  Síðan í október 2014 hefur hún nánast á hverjum mánudegi staðið fyrir fjöldagöngum og útifundum í mörgum borgum Þýzkalands, þar sem lýst er áhyggjum af Íslam sem ríki í ríkinu, þar sem íbúunum fjölgar mun hraðar en öðrum hópum Þýzkalands. PEGIDA leggur áherzlu á friðsamleg mótmæli.  Það er ekki hægt með hlutlægum hætti að kalla þetta öfgahreyfingu, þó að hún tjái þá skoðun með áberandi hætti, að islamistum ætti ekki að líðast að mynda ríki í ríkinu, heldur verði að gera þá kröfu til þeirra, að þeir lagi sig að lögum og rétti Vesturlanda og afleggi þá kvennakúgun og karlaharðræði, sem nú viðgengst í "gettóum" islamista í Evrópu.

Kanzlari Þýzkalands, Angela Merkel, ávarpaði þjóðina 11. janúar 2015, þegar hún var í losti eftir hryðjuverkin í París, sem framin voru sem hefndarráðstöfun i nafni Allah fyrir skopteikningar, sem islamistar tóku ákaflega nærri sér. Þar rákust illilega saman vestrænar hugmyndir um tjáningarfrelsi og trúartilfingar múhameðstrúarmanna og sú hefð þeirra, að láta vera að gera hvers konar myndir eða eftirlíkingar af Múhameð spámanni og Allah. 

Eðlilega vissu Evrópumenn ekki í kjölfar hryðjuverkanna, hvaðan á þá stóð veðrið, og ótti greip um sig. Frú Merkel sagði við það tækifæri: 

"Ég er kanzlari allra Þjóðverja"     

og átti þar greinilega við islamista, búsetta í Þýzkalandi, 4-5 milljónir talsins.  Samt gætir ótta og haturs i garð islamista í Evrópu, en það er einmitt keppikefli jihadistana, sem eru i heilögu stríði gegn kristnu fólki og vestrænum gildum, að skapa andrúmsloft tortryggni og heiftar. Það verður að sigla á milli skers og báru, ef ekki á að sjóða illilega upp úr, og þess vegna er ástæðulaust að storka islamistunum á trúarsviðinu, en standa þeim mun keikari á kröfum um jafnræði kynjanna, almenn mannréttindi öllum til handa og, að allir séu jafnir fyrir lögunum. 

Það hefur vakið furðu margra i Evrópu, hversu margt ungt fólk, fætt og uppalið í Evrópu af kristnum eða trúlausum foreldrum, hefur gengið til liðs við ISIS, hryðjuverkasamtök, sem fremja hryllilega glæpi og skemmdarverk á fornum menningarverðmætum í nafni Múhameðstrúarinnar, og styður baráttu þessa hryllingsanga jihadistanna með vopnavaldi við að koma á kalífadæmi í Írak, Sýrlandi og víðar.  Hvernig í ósköpunum má þetta vera ?

Böndin berast að trúboði islamistanna og þeim heilaþvotti, sem fram fer í sumum moskum Evrópu. Það setur óneitanlega að manni ugg varðandi fyrirhugaða mosku í Reykjavík, að frétzt hefur, að hún verði fjármögnuð af Saudi-Aröbum, en í Saudi-Arabíu hefur ofstækisfullur islamista-söfnuður töglin og hagldirnar í trúarlegum og veraldlegum efnum. Sjeikarnir óttast þennan söfnuð og stunda grimmdarstjórnun í anda Kóransins, eins og margoft hefur komið fram varðandi refsingar fyrir meint afbrot. Má þá geta nærri, hvers konar boðskapur kann að verða fram reiddur í téðri Reykjavíkur-mosku. Það er furðulega grunnfærið af borgaryfirvöldum Reykjavíkur að setja, að því er virðist, engin skilyrði fyrir byggingu þessarar mosku, önnur en hefðbundna lóðaskilmála og byggingarreglugerð.  Þetta er alvarlegt mál, því að vitað er, að moskur eru bæði andlegar og veraldlegar miðstöðvar múhameðsmanna og hættan er sú, að þetta verði einhvers konar útungunarstöð ofbeldis og ofstækis, eins og dæmin um stuðninginn við ISIS á hinum Norðurlöndunum, á Bretlandi og víðar, sanna.

Þann 22. apríl 2015 birtist í Morgunblaðinu fréttaskýring eftir Boga Þór Arason, sem varpar ljósi á, að jihadistar islamistanna eru í útrýmingarherferferð gegn kristnu fólki.  Þeir myrða fólkið og eyðileggja kirkjurnar.  Það þarf ekki að hafa mörg orð um það, að islamistar samþykkja ekki, að kristnir söfnuðir reisi kirkjur í löndum islamista, svo að engin gagnkvæmni á sér stað varðandi það að veita leyfi fyrir tilbeiðslubyggingum.  Það ætti að gjalda mikinn varhug við moskum á Vesturlöndum um þessar mundir.  Verður nú vitnað í frétt Boga Þórs:

"Óttast að samfélög kristinna hverfi".

"Milljónir manna hafa þurft að flýja heimkynni sín í Sýrlandi, þeirra á meðal hundruð þúsunda kristinna manna, sem hafa flúið stríðshörmungar og árásir liðsmanna Ríkis islams, samtaka islamista, sem hafa náð svæðum í Sýrlandi og Írak á sitt vald.  Óttast er, að samfélög kristinna manna hverfi í löndunum tveimur, m.a. trúarhópar, sem tóku kristni á fyrstu öld eftir Krist og eiga sér því um 2000 ára sögu.  Á meðal þeirra er hópur, sem talar aramísku, forna tungumálið, sem kristur talaði.

Á yfirráðasvæðum islamistanna hafa vígamenn samtakanna drepið kristna íbúa, sem hafa neitað að snúast til islamskrar trúar.  Óttast er, að vígamennirnir hafi rænt hundruðum kristinna manna í árásum í norðurhluta landsins [Írak] í febrúar [2015].  Önnur samtök islamista, Nusra-fylkingin, er einnig talin hafa rænt kristnum prestum í Sýrlandi."

Það dylst engum, sem horfir yfir sviðið, að islamistar eru nú í jihad-hami, heilögu stríði gegn kristnum mönnum hvarvetna um heim.  Islamistaríki hafa ekki lyft litla fingri til að stöðva þessar vitfyrringslegu ofbeldisaðgerðir trúbræðra sinna, hafa ekki heyrzt fordæma þær heldur og virðast þar með styðja þær.

Aftur á móti stóð ekki á súnnítunum í Sádi-Arabíu að beita hervaldi í Jemen nú um daginn, þegar önnur grein islamista, sótti þar fram til áhrifa með hervaldi, sjítar, studdir af ajatollum í Íran. 

Í þessu ljósi ber að skoða gjörninginn í Feneyjum, þar sem íslenzka ríkið tók þátt í fjármögnun á uppsetningu mosku í afhelgaðri kirkju í þessari sökkvandi borg.  Þetta var gert í trássi við vilja borgaryfirvalda þar, sem ásamt kaþólsku kirkjunni höfðu sett skilyrði fyrir afnotum kirkjubyggingarinnar, sem þarna voru brotin. Endaði þetta með þeirri hneisu, að íslenzka sýningarskálanum í Feneyjum var lokað af yfirvöldum með skömm.

 Það er alveg dæmalaust, að íslenzka ríkið skuli með þessum hætti taka þátt í að storka kirkjunni og Feneyingum, sem um aldir bárust á banaspjótum við Ottómanaveldið, og urðu iðulega fyrir blóðsúthellingum af völdum hins ottómanska ríkis Tyrkja. 

Við þessar aðstæður eru Ísraelsmenn, þótt mannfræðilega séu skyldir aröbum, einu bandamenn vestrænna þjóða í Austurlöndum nær.  Á sama tíma hefur kastazt í kekki á milli Bandaríkjamanna, hefðbundinna bakjarla Gyðinga, og Ísraelsmanna.  Staðan í samskiptum kristinna og frjálslyndra Vesturlanda annars vegar og forstokkaðra islamista í miðaldamyrkri er einstaklega viðkvæm og flókin.  Þá er rétt af Vesturlandamönnum að átta sig á því, að yfirleitt greina islamistar ekki á milli ríkis og trúarbragða (Kemal Ataturk reyndi þó að koma á þessum aðskilnaði í Tyrklandi), og þess vegna birtist útþenslustefna islamista sem heimsyfirráðastefna, sem Vesturlandamönnum er nauðugur einn kostur að andæfa á heimavelli og alls staðar annars staðar.  

 

  

       

       

 

 

 


Auðvaldsskipulagið hefst heima

Joseph Schumpeter hélt því fram, að kraftaverk kapítalismans væri fólgið í lýðvæðingu auðsins (democratising wealth), þ.e. auðdreifingu um samfélagið.  Elizabeth I átti silkisokka, tók Schumpeter sem dæmi, en "framlag auðvaldskerfisins er ekki fólgið í að framleiða meira af silkisokkum fyrir drottningarnar, heldur að færa silkisokkana innan seilingar verksmiðjustúlknanna".  Þetta dæmi Joseph Schumpeters sýnir í hnotskurn um hvað markaðshagkerfi með félagslegu ívafi snýst. Það felst alls ekki í að gera hina ríku ríkari, heldur í að veita öllum, sem vettlingi geta valdið, kost á að bæta hag sinn, þ.e. að allir geti veitt sér silkisokka.  Þetta gerist með ávinningi af framleiðniaukningu, sem skipt er á milli launþeganna og fjármagnseigenda, þannig að hvati sé hjá launþegunum að leggja meira af mörkum og hjá fjármagnseigendum að fjárfesta.  Á Íslandi fer hærra hlutfall verðmætasköpunar til launþega en annars staðar.

Á flestum sviðum mannlífsins hefur einmitt þetta átt sér stað.  Það, sem áður var aðeins á færi auðmanna, er nú á almannafæri.  Í Bandaríkjunum (BNA) hefur sá vinnustundafjöldi, sem þarf til að vinna sér fyrir meðalbíl eða fullum fataskápi, helmingazt á einni kynslóð (30 árum).  Á þremur sviðum hefur auðvaldskerfið hins vegar ekki enn þá náð fram hagræðingu, eins og skyldi, aðallega vegna afskipta stjórnmálamanna, sem hallir eru undir forræðishyggjuna.  Þessi svið eru  heilbrigðisþjónusta, menntakerfi og húsbyggingar.  Þarna er þó ekki alfarið við markaðshagkerfið að sakast, heldur, eins og áður segir, hafa stjórnmálamenn verið með fingurinn á þessum málaflokkum og tafið fyrir framförum. 

Í algert óefni stefnir með heilbrigðisþjónustu Vesturlanda, því að gamlingjum fjölgar mikið hlutfallslega, og heilsufar þeirra verður bágbornara eftir því, sem aldurinn færist yfir.  Einn möguleikinn til að draga úr kostnaðinum er að nýta erfðatæknina.  Hún gerir nú þegar kleift að leiða góðar líkur að sjúkdómum, sem vænta má síðar á ævinni.  Vilji einstaklingurinn ekki fara í markvissar fyrirbyggjandi aðgerðir eða nýta sér önnur úrræði heilbrigðiskerfisins áður en allt er komið í óefni, ætti að láta þann einstakling sjálfan um kostnaðinn, ef/þegar hann leitar til kerfisins með einkenni, sem búið var að vara hann við.  Hið sama ætti að gilda, hafi hann hafnað erfðagreiningu eða hafnað því að verða upplýstur um niðurstöðu rannsókna.  Nú þegar er tækni fyrir hendi á sumum sjúkdómasviðum til að fara inn á þessar brautir og ber hiklaust að nýta hana öllum til hagsbóta.

Það er auðvitað óverjandi forstokkun að vilja ekki leyfa ólíkum rekstrarformum að þrífast hlið við hlið, t.d. á sviði heilsugæzlustöðva, endurhæfingarstofnana, skurðstofa og sjúkraþjónustu almennt.  Öryggi og þjónusta við sjúklinga á að vera í forgangi, og gefur auga leið, að það verður því meira þeim mun fjölbreyttari, sem rekstrarformin eru, t.d. í verkfallsástandi.  Það verður tæplega hægt að lama allar sjúkrastofnanir í einu, ef vinnuveitendur eru fjölbreytilegir, því að starfsfólkið mun búa við vinnustaðasamninga, þar sem væntanlega verða launahvatar til afkasta og gæða.  Þetta er gríðarlegur kostur í þjóðfélagi, sem má búa við óbilgirni og ófrið í stað skynsamlegra samninga á vinnustöðum heilbrigðisstarfsfólks, þannig að líf skjólstæðinganna, svo að ekki sé nú minnzt á lífsgæðin, er í uppnámi. Tekur engu tali, hvernig sjúkrastofnanir verða hvað eftir annað fyrir barðinu á ófyrirleitnum verkfallsskipuleggjendum, sem sjást ekki fyrir, heldur taka veikt fólk og starfsfólkið, sem reynir að halda starfseminni á floti, í gíslingu.

Upphrópanir á borð við þá, að ekki megi græða á sjúklingum, eru innihaldslausar, því að sjúkratryggingar sjá til þess, að sjúklingur beri ekki skarðan hlut frá borði, og allir eiga rétt á arði af eigin fé, sem fram er reitt til starfsemi, enda er slíkt grundvöllur arðsamra fjárfestinga.  Annars þarf að seilast í vasa skattborgaranna, og þar er sviðin jörð eftir síðustu vinstri stjórn.  Þá eru það kostulegir fordómar, að þeir, sem vilja reiða fram úr eigin vasa til að fá þjónustu, betri þjónustu en ella að eigin mati, megi það ekki.  Með þessu er skattfé sparað og biðlistar styttir.  Hvað er ósiðlegt við það ?  Fólk á að eiga möguleika á að forgangsraða fjárnotkun sinni að eigin vild án hindrana forstokkaðrar forræðishyggju.

Í menntageiranum hefur alnetið þegar aukið hagræðinguna, og vafalaust liggja enn ónýtt tækifæri í að búa skólana betri búnaði og í fjarkennslu.  Það er áreiðanlega enn unnt að auka framleiðni menntageirans, en vandinn er að mæla þessa framleiðni, af því að hætt er við, að framleiðniaukning verði á kostnað gæða.  ISK/stúdent er t.d. afleitur mælikvarði, ekki sízt í ljósi þess, að rökstuddur grunur er fyrir hendi um, að almennri þekkingu stúdenta hraki, en hugsanlega eykst sértæk þekking á móti.  (PISA árangur)/(ISK per grunnskólanemanda) er einn mælikvarði, og hann hefur verið óviðunandi fyrir Ísland að undanförnu, þ.e. slakur árangur og hár kostnaður.  Alvarlegast er, hversu lestrarkunnáttu fer hrakandi.  Þar á alnetið sennilega sína sök, þar sem ungviðið les minna í frístundum en áður.  Ótrúlega stór hluti æskunnar er ólæs, og það er ávísun á fátækt og óhamingju. Orðaforða, málfræðikunnáttu og framburði nemenda við lok grunnskóla hefur hrakað hræðilega síðast liðna hálfa öld. Hér sem á fleiri sviðum eru foreldrarnir aðalsökudólgarnir, þó að skólarnir verði nú að sýna öflugt frumkvæði til úrbóta.

Framleiðni á sviði húsbygginga hefur sums staðar hrakað, t.d. í BNA, þar sem framleiðni vinnuafls hefur fallið um 22 % á 20 ára tímabilinu 1989-2009, þó að framleiðni vinnuafls í öðrum geirum athafnalífsins hafi á sama tíma vaxið um 45 %.  Í þróuðum ríkjum notar 60 milljón manns meira en 30 % af tekjum sínum í húsnæðið, og 200 milljón manns eru talin búa í hreysum. Húsnæðismálin þarfnast umbóta, og þar geta yfirvöldin lagt lóð á vogarskálarnar, því að þau skipuleggja og útvega lóðirnar og setja fram tækniskilmála og útfærslukröfur.  

Stærsta hagsmunamál ungs fólks er að kljúfa það fjárhagslega að eignast sitt fyrsta húsnæði.  Það hefur alltaf erfitt verið, en vegna kostnaðarhækkana, t.d. á lóðum, sem framleiðniaukningin hefur ekki náð að hamla gegn, ásamt greiðslugetumati lánastofnana, sem er orðið ungu fólki þyngra í skauti eftir bankahrunið, er þetta jafnvel erfiðara en áður. 

Að eignast þak yfir höfuðið, eins og sagt er, er mjög eftirsóknarvert fyrir fjölskyldurnar og samfélagið, af því að húsnæði er aðalsparnaðarformið yfir ævina og veitir afkomutryggingu, þegar kemur fram á ævikvöldið og tímabært er að minnka við sig.  Samfélagslega er það auðvitað að sama skapi æskilegt, að sem flestir séu fjárhagslega sjálfstæðir að afloknum vinnuferli. Eigið húsnæði hefur verið hryggjarstykkið í eignamyndun miðstéttarinnar víðast á Vesturlöndum og afdráttarlaust á Íslandi, þar sem það hefur lengi þótt öruggasti fjárfestingarkosturinn.   

Nýlega upplýstu Samtök iðnaðarins um kostnaðargreiningu á byggingarkostnaði, sem fram hafði farið á þeirra vegum á hreinum byggingarkostnaði annars vegar og hins vegar opinberum gjöldum og kostnaði, sem af leyfisveitingum og reglugerðum leiðir.  Tekið var dæmi af kostnaði vegna 115 m2 íbúðar í þriggja til fjagra hæða fjölbýlishúsi á höfuðborgarsvæðinu:

  • Heildarkostnaður: MISK 37, þ.e. 313 kISK/m2
    • hreinn byggingarkostnaður: MISK 26, þ.e 70 %
    • lóðarverð: MISK 4,5, þ.e. 13 %
    • ný byggingarreglugerð: MISK 2,0, þ.e. 6 %
    • annar kostnaður hins opinbera: MISK 4,0, þ.e. 11 % 
  • Þarna nemur kostnaður af völdum hins opinbera, sveitarfélags og ríkis, um MISK 11 eða 30 % á þessari litlu íbúð.  Það er sanngjarnt að gefa hluta af þessum opinberu tekjum eftir gegnum skattkerfið, þegar um er að ræða kaup á fyrsta húsnæði einstaklinga eða fjölskyldna, t.d. þannig, að draga megi 5 % íbúðarkostnaðar frá skattskyldum tekjum í 5 ár og fasteignagjöld verði felld niður í 5 ár.  Á móti yrðu vaxtabætur úr ríkissjóði felldar niður, enda er ekki ástæða til þess af ríkisins hálfu að greiða niður vexti bankanna, enda hillast þeir þá frekar til vaxtahækkana.  Hér er um umtalsverðan stuðning við markhóp að ræða, sem á venjulega erfitt með að ná endum saman vegna hárrar skuldsetningar, ómegðar og fremur lágra tekna vegna reynsluleysis á vinnumarkaði, þó að reynt sé að bæta slíkt upp með yfirvinnu. 

Það ætti að vera forgangsmál borgaralegrar ríkisstjórnar að fjölga hlutfallslega íbúðareigendum, en þeim hefur fækkað frá Hruni. Margir fjárfestar telja íbúðarhúsnæði til vænlegustu fjárfestingarkosta, og það ætti að vera markmið, að 80 % landsmanna búi í eigin húsnæði árið 2020, en um þessar mundir er hlutfallið um 75 % og var um 77 % fyrir Hrun.  Um 25 % fjölskyldna býr nú í leiguhúsnæði.   Ríkisstjórnin áformar að létta undir með þeim.  Slíkt er vandmeðfarið, svo að komi að sem beztum notum, en renni ekki að mestu í vasa leigusalanna. Reyna ætti að ná hluta af þessu fólki inn í hóp íbúðareigenda með því að létta undir í gegnum skattkerfið, eins og áður er minnzt á, og auka framboð á félagslegu leiguhúsnæði fyrir þá, sem erfiðast eiga uppdráttar. Borgaraleg ríkisstjórn getur ekki verið þekkt fyrir að festa fólk í fatæktargildru með hækkun husaleigubota, sem hætt er við, að lendi að mestu í vasa leigusalanna. Miklu nær er að stuðla að auknu framboði íbúða á bilinu 80-110 m2, t.d. með byggingu félagslegs húsnæðis. Þá mun leiguverð á almenna markaðnum lækka að öðru jöfnu.       

             

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband