Færsluflokkur: Matur og drykkur

Stríðið veldur hungursneyð

Árásarstríð Kremlarstjórnar á hendur Úkraínu hefur snúizt upp í niðurlægingu hennar og Rússahers.  Þar með er ljóst, að zarinn er ekki í neinu, þegar hann gortar af sögulegum "mikilleik Rússlands".  Hernaður Rússa í Úkraínu er ömurlegur og frammistaða þeirra hræðileg, bæði á vígvöllunum sjálfum og gagnvart almennum borgurum, sem þeir níðast á.  Engu er líkara en villimannlegum hernaði forseta Rússlands á hendur fullvalda, lýðræðislegu menningarríki vestan Rússlands sé ætlað að valda sem mestu tjóni á nútímalegum innviðum Úkraínu og menningarverðmætum og drepa fjölda almennra borgara.  Allar hliðar þessa hernaðar Rússlands eru viðbjóðslegar og óverjandi og sýna, að engin friðsamleg samskipti eru hugsanleg við hrokafull og grimm yfirvöld þessa ríkis. Herstjórn Rússa er í skötulíki, eins og hún hefur oftast verið í sögulegu ljósi, sbr Fyrri heimsstyrjöld, þegar Austurríksmenn og Þjóðverjar unnu hvern sigurinn á fætur öðrum, en alltaf sendi keisarinn nýtt herútboð, og nýliðunum var skipað á vígvöllinn og leiddir þar til slátrunar.  Þetta endaði reyndar með stjórnarbyltingu.  

  Það er liður í hernaði Rússlands að loka fyrir aðgengi Úkraínu að Svartahafi fyrir útflutningsvörur sínar, aðallega landbúnaðrvörur. Rússar hafa goldið þetta dýru verði, því að Úkraínumönnum hefur tekizt að sökkva nokkrum rússneskum herskipum á Svartahafi, þótt þeir eigi engan flota sjálfir, þ.á.m. forystuskipi Svartahafsflotans, Moskvu, með tveimur eldflaugum. Rússar beita þessu lúalega bragði í því skyni að koma höggi á Úkraínu, sem verður af útflutningstekjum, og á Vesturlönd, bandamenn Úkraínumanna, sem verða fyrir barðinu á miklum verðhækkunum. Nú er Royal Navy hennar hátignar, Bretadrottningar, á leiðinni inn á Svarthahafið til að rjúfa þetta svívirðilega, rússneska hafnbann. Verður ruddinn að gjalti, þegar stór strákur kemur til að skakka leikinn ?

Upplýst hefur verið, að í heiminum séu nú aðeins til hveitibirgðir, sem endast til júlíloka 2022, og verð birgðanna mun væntanlega stöðugt hækka, þar til framboð eykst að nýju. Nokkrar þjóðir munu ekki hafa ráð á lífsnauðsynlegum lanbúnaðarvörum á núverandi verði, hvað þá sumarverðinu 2022, og verðinu 2023, og þar mun fjölga í hópi þeirra, sem verða hungursneyð að bráð, um tugi milljóna á ári vegna þessa viðurstyggilega stríðs. Rússnesku stríðsglæpamennirnir í Kreml hafa framkallað þennan vanda og neita að létta á honum með því að hleypa kornflutningum frá Úkraínu um Svartahaf.  Þetta ábyrgðarlausa framferði Rússa sýnir, að núverandi yfirráð Rússa við Svartahafið eru óviðunandi.  Hrekja verður rússneska herinn austur fyrir landamæri Úkraínu, eins og þau voru staðfest með Búdapest samkomulagi Rússa, Úkraínumanna, Bandaríkjamanna og Breta 1994.    

Hveiti hækkaði um 53 % frá ársbyrjun 2022 til 15.05.2022, og 16.05.2022 hækkaði það um 6 %, þegar Indverjar tilkynntu um stöðvun útflutnings á því vegna hitabylgju, sem er líkleg til að skemma uppskeru ársins 2022.  Rússland og Úkraínu hafa samtals selt um 28 % af hveitinu á heimsmarkaðinum og 29 % af byggi, 15 % af maís og 75 % af sólblómaolíunni.  Þessir atburðir ættu að vekja framleiðendur og yfirvöld hérlendis upp til meðvitundar um þörfina á stóraukinni akuryrkju hérlendis vegna fæðuöryggis þjóðarinnar, en einnig er innlend framleiðsla ýmissa korntegunda nú orðin fyllilega samkeppnishæf í verði.  Yfirvöld ættu að steinhætta að hvetja til og greiða fyrir moldarmokstur ofan í skurði, þar sem land hefur verið þurrkað upp, sem ýmist má nýta undir akuryrkju, skógrækt eða aðra ræktun, sem einnig bindur koltvíildi. 

Starfsmenn Landbúnaðarháskólans eru vel meðvitaðir um stöðuna og hafa gert matvælaráðuneytinu viðvart.  Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, ritaði umhugsunarverðan pistil á leiðarasíðu Morgunblaðsins 20.05.2022 undir fyrirsögninni:

"Eflum fæðuöryggi".

Hún endaði þannig:

"Í greinargerð með tillögunum [Landbúnaðarháskóla Íslands] er bent á, að innlend akuryrkja leggi aðeins til um 1 % af því korni, sem nýtt er á Íslandi.  Það er óásættanlegur árangur, þegar það liggur fyrir, að hér er hægt að rækta korn, hvort sem er til manneldis eða til fóðurgerðar. Raunar var stunduð kornrækt á Íslandi um aldir, en vegna breytinga í atvinnuháttum varð hagkvæmara að flytja það eingöngu inn.  Fyrir liggja skýrslur og stefnur um, að auka skuli akuryrkju.  Til staðar eru rannsóknarinnviðir, þekking og reynsla bænda af því, hvernig eigi að rækta korn við norðlægar aðstæður. Það, sem þarf, er aðgerðaáætlun, sem virkjar þann kraft, sem ég tel, að búi í möguleikum akuryrkju.  Greina þarf þá markaðsbresti, sem komið hafa í veg fyrir, að kornrækt eflist af sjálfu sér, þannig að á næstu árum fari af stað metnaðarfull uppbygging í akuryrkju á Íslandi.  Að þessu verður unnið á komandi misserum.  Þannig verði bleikir akrar stærri hluti af landslagi íslenzkra sveita." 

Nú þarf aðgerðir, en ekki meiri skriffinnsku á þessu sviði, þ.e.a.s. bændur þurfa að brjóta nýtt land undir akuryrkju.  Það er of seint núna að sá, en næsta vor þarf að gera það.  Innflutningsverð hefur væntanlega í venjulegu árferði verið lægra en kostnaður hérlendis við akuryrkju og þreskingu o.fl, og þess vegna hefur innlend markaðshlutdeild verið jafnsáralítil og raun ber vitni um, en nú er það væntanlega breytt, ef fræin eru til reiðu. 

Hins vegar kunna bændur að vera hikandi við að taka áhættuna, því að kornrækt getur vissulega brugðizt  vegna tíðarfars, og þar þurfa stjórnvöld að stökkva inn á sviðið núna í nafni fæðuöryggis og veita tryggingar gegn mögulegu tjóni bænda og annarra aðila í þessu framleiðsluferli. Hvers vegna eru engar lausnir kynntar til sögunnar af hálfu ríkisins í þessu greinarkorni matvælaráðherrans ? 

 


Fyrirmyndar fiskeldi

Þann 12. nóvember 2020 birtist stutt frétt í Morgunblaðinu, sem gefur til kynna, að laxeldi við Íslandsstrendur beinist nú í ríkari mæli en áður að framleiðslu hágæðavöru í hæsta verðflokki.  Þetta voru mjög ánægjuleg tíðindi.

Fyrirsögn fréttarinnar var:

"Fá lífræna vottun á lax".

Hún hófst þannig:

"Fiskeldi Austfjarða hefur fengið lífræna vottun samkvæmt reglugerð Evrópusambandsins.  Tryggir þetta fyrirtækinu eftirsóttan markað fyrir hágæða laxaafurðir í Evrópu. 

 

Aðeins 4 önnur fyrirtæki í heiminum standast þessa vottun, enda gilda um hana afar ströng skilyrði að sögn Jónatans Þórðarsonar, þróunarstjóra Fiskeldis Austfjarða.  Þannig má ekki nota lyf eða önnur efni og aðeins hágæða fóður og aðrar vistvænar aðferðir við eldi laxins.  Sem dæmi má nefna, að litarefni fóðursins er framleitt úr brúnþörungum, og er það jafnframt afar öflugt andoxunarefni úr náttúrunni.  Raunar eru öll hráefni í fóðrið lífrænt vottuð.  Jónatan segir, að vissulega sé meiru til kostað en í hefðbundnu sjókvíaeldi, en á móti fáist mun hærra verð fyrir afurðirnar." 

Rík ástæða er til að óska starfsfólki Fiskeldis Austfjarða til hamingju með þessa verðmætu vottun á gæðastjórnunarkerfi fyrirtækisins.  Hún fæst aðeins með gæðameðvituðu hugarfari starfsmanna, ekki sízt stjórnendanna.  Hún útheimtir í aðdragandanum að velta við hverjum steini í rekstri og stefnu fyrirtækisins ásamt skjalfestingu allra ferla fyrirtækisins.  Nú tekur við nýtt tímabil agaðra vinnubragða til að viðhalda þessari gæðavottun, sem vottunarfyrirtækið mun reglubundið rýna. 

Það er markaðurinn, sem knýr fram þessa þróun gæðastjórnunar.  Fiskeldi Austfjarða hefur selt vörur sínar m.a. til heilsuvörukeðjunnar Whole Foods í Bandaríkjunum.  Þar er greitt fyrir skjalfest gæði.  Þessi nýfengna vottun opnar nýjar dyr, þ.e. að hæst greiðandi hluta Evrópumarkaðarins. Í lok fréttarinnar er greint frá því, hvaða hluta starfseminnar þessi vottun spannar:

"Vottunin nær til sjókvíaeldis Fiskeldis Austfjarða í Berufirði og Fáskrúðsfirði og seiðastöðvarinnar Rifóss í Kelduhverfi."

Hagsmunaaðilar á borð við Félag veiðiréttarhafa virðast telja hagsmunum sínum ógnað af sjókvíaeldi þess afbrigðis Norður-Atlantshafslaxins, sem stundað er við Ísland.  Ekki verður betur séð en málflutningurinn einkennist af tröllasögum um sjúkdóma, mengun fjarðanna og dreifingu laxalúsar í villta stofna, og síðast en ekki sízt er skrattinn málaður á vegginn, þegar kemur að erfðabreytingum af völdum sleppilaxa úr kvíunum.  Þetta eru mest ímyndanir og dylgjur án vísunar til staðreynda úr íslenzku umhverfi.  Oft fellur þetta undir "ólyginn sagði mér", að svona væri þetta í útlöndum.  Það eru nánast engar líkur á, að sleppilax úr þessum eldiskvíum geti breytt erfðamengi villtu íslenzku laxastofnanna varanlega.  Til þess þarf stórar sleppingar, meira en 15 % af árstofninum, að ná að eignast lifandi afkvæmi með íslenzkum löxum í mörg ár í röð.  Slíkt gerist einfaldlega ekki með því verklagi, sem nú er viðhaft, og þeim búnaði og eftirliti, sem nú tíðkast við sjókvíaeldi í íslenzkum fjörðum.  Hælbítar þessarar efnilegu atvinnugreinar á Íslandi hafa ástæðu til að hafa meiri áhyggjur af öðru, er varðar laxveiðar í íslenzkum ám, en sjókvíaeldinu.

Teitur Björn Einarsson, lögmaður og 1. varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norð-Vesturkjördæmi, birti athyglisverða lögfræðilega greiningu á því í Morgunblaðinu 11. nóvember 2020, hvaða skilyrði verða að vera fyrir hendi, til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra geti tekið lögmæta ákvörðun um að loka svæði fyrir fiskeldi, en umræða hefur spunnizt um lokun Eyjafjarðar, Jökulfjarða og sunnanverðs Norðfjarðarflóa fyrir laxeldi.  Framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga, Elías Blöndal Guðjónsson, gagnrýndi fyrstu grein Teits á síðum Morgunblaðsins um þetta efni 7. nóvember 2020.  Önnur grein Teits Björns bar fyrirsögnina:

"Um valdheimildir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra".

 

 Nú verður vitnað til þessarar vönduðu greinar:

"Málið, sem hér um ræðir, er nokkuð sértækt, en aðalatriðin snúa að því, hvaða valdheimildir ráðherra hefur til að takmarka eða stöðva lögbundna atvinnustarfsemi og mikilvægi vísinda í allri ákvarðanatöku."  

Teitur Björn boðar, að í stað duttlunga, tilfinninga og annarra ómálefnalegra kennda skuli ráðherra reisa ákvarðanir sínar um leyfilega staðsetningu fiskeldis í sjó á vísindalegum rannsóknum og ályktunum, sem leiða má beint af þeim. Þetta þýðir t.d., að auglýsing ráðherra frá 2004 um leyfileg eldissvæði í sjó við Ísland víkur fyrir nýjum fiskeldislögum og ákvörðunum ráðherra um leyfileg eldissvæði, sem á þeim eru reist. 

"Matskenndar stjórnvaldsákvarðanir og stjórnvaldsfyrirmæli verða samkvæmt lögmætisreglunni að eiga sér næga lagastoð og vera byggð á málefnalegum sjónarmiðum; ella telst ákvörðunin ólögmæt. Að baki sérhverri ákvörðun verða að búa málefnaleg sjónarmið.  Ákvarðanir, sem byggjast á geðþótta, óvild eða öðrum persónulegum sjónarmiðum, eru ólögmætar." 

Bæjarstjórn Akureyrar er stjórnvald.  Engan veginn verður séð, að samþykkt hennar um að beina því til ráðherra að banna laxeldi í Eyjafirði, sé reist á öðru en geðþótta og óvild í garð þessarar atvinnustarfsemi. Margir virðast því miður haldnir sömu kenndum, og það verður lítið við því gert, en stjórnvöld hafa ekki leyfi til að haga sér þannig og alls ekki, þegar um lögmæta starfsemi er að ræða, mikla hagsmuni margra og atvinnufrelsi, sem varið er af Stjórnarskrá.   

"Niðurstaðan er því sú, að leggja verður til grundvallar matskenndri ákvörðun ráðherra þá málefnalegu og lögbundnu aðferðafræði fiskeldislaga, sem felst í burðarþolsmati og áhættumati erfðablöndunar, til að ákvarða, hvort fiskeldisstarfsemi hafi neikvæð áhrif á umhverfið eða lífríki á ákveðnu svæði stafi hætta af starfseminni."

Í raun ætti að leggja þessa aðferðarfræði til grundvallar ákvörðun um nýtingu allra náttúruauðlinda á og við landið, sem ekki eru í einkaeign.  Þetta hefur um árabil verið hornsteinn fiskveiðistjórnunarinnar, og það þarf að festa þetta sjónarmið enn betur í sessi, væntanlega með lagasetningu, um orkunýtingu, flutning orku og vegagerð, svo að sérhagsmunir, sérvizka, geðþótti eða óvild fái ekki dregið nauðsynlegar framkvæmdir í almannaþágu von úr viti eða jafnvel alfarið komið í veg fyrir þær.  Ný verðmætasköpun og atvinnusköpun varðar þjóðarhag, og almenn lífskjör í landinu varða almannahag. 

"Meginregla stjórnsýsluréttar um rannsóknarskyldu, sbr 10. gr. stjórnsýslulaga, sem kveður á um, að stjórnvald skuli sjá til þess, að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin, rennir frekari stoðum undir þá niðurstöðu, að ráðherra beri að afla allra gagna og horfa til lögbundinna rannsókna um burðarþolsmat og áhættumat erfðablöndunar áður en mat er lagt á, hvort tiltekin svæði teljast sérlega viðkvæm fyrir starfsemi fiskeldis.  Meginreglan um meðalhóf kemur hér einnig til álita."

 

 


31 % jarða á Íslandi eru í eigu félaga

Fjölmörg bú á Íslandi eru fjölskyldufyrirtæki í eigu félaga, og við það er ekkert að athuga.  Það má hins vegar furðu gegna, að hérlend yfirvöld rumski ekki við, þegar jarðir hér eru keyptar af félögum, þar sem eignarhaldið er allsendis óljóst.  

Þegar þannig er í pottinn búið, er sú hætta fyrir hendi, að með fjárfestingunni sé stundað peningaþvætti.  Hvernig í ósköpunum má það vera, að Fjármálaeftirlitið, FME, láti hjá líða að rannsaka þess konar eignarhald til að ganga úr skugga um, að allt sé með felldu ?

Það er heldur ekki vanzalaust, að framkvæmdavaldið og löggjafarvaldið hafi enn ekki haft í sér döngun til að stemma stigu við keðjueignarhaldi félaga á jörðum, sem gæti verið til þess eins ætlað að fela eignarhaldið.  Hér hafa yfirvöldin rétt einu sinni flotið sofandi að feigðarósi um borð í EES-skekktunni.  Alls konar ósómi þrífst í skjóli EES-samningsins, af því að yfirvöld ráða ekki við það stórverkefni að standa á rétti landsmanna, þegar búið er að hleypa risaríkjasambandi hér inn á gafl.  Eina rökrétta leiðin út úr þessum ógöngum er að segja EES-samninginum upp, fara að setja lög, eins og fullvalda þjóð getur gert, og hreinsa moðverkið út úr laga- og reglugerðafargani EES-aðildarinnar, atvinnulífi og stjórnkerfi til ómælds léttis.  

Samkvæmt fasteignaskrá eru 7670 jarðir á landinu, og þar af eru 6600 lögbýli.  Hefðbundinn búskapur með sauðfé og/eða nautgripi virðist aðeins vera stundaður á 2218 jörðum eða 34 % lögbýla.  Eðlilegt er að gera meiri kröfur til eignarhalds á jörðum, þar sem hefðbundin matvælaframleiðsla er stunduð en hinna m.t.t. fæðuöryggis og byggðastefnu í landinu.  

Í landinu eru 2378 jarðir í eigu félaga eða fyrirtækja eða 31 %.  Öll jarðeignarfélög með óljósu eignarhaldi þurfa að gera grein fyrir eigendum sínum, og óljóst eignarhald á að verða óleyfilegt.  Fastrar ábúðar meirihlutaeigenda eða kosti á útleigu til ábúanda þarf að krefjast, ef um hefðbundna landbúnaðarjörð er að ræða.

Í landinu eru 384 jarðir eða 5 % að hluta eða að öllu leyti í eigu einstaklinga með lögheimili erlendis, þar af 62 jarðir alfarið í eigu slíkra.  Í sambandi við þetta skiptir tilgangurinn öllu máli.  Að kaupa jörð í söfnunarskyni eða til að afleggja búskap án þess að hefja eigi nokkurn annan atvinnurekstur á jörðinni er  hæpið að samþykkja, og viðkomandi sveitarfélag ætti að fá slíkt til umsagnar.  Hins vegar ber almennt að fagna beinum erlendum fjárfestingum til verðmætasköpunar og atvinnusköpunar. Það hefur verið allt of lítið um slíkt, og þess vegna ber að gjalda varhug við erlendum kaupum á landi og meta í hverju tilviki, hvort kaupin séu líklega til að styrkja sveitarfélagið og byggðina.      

Það verður líklega vaxandi hörgull á matvælum í heiminum í framtíðinni vegna loftslagsbreytinga, fjölgunar fólks og vaxandi vatnsskorts.  Það er þekkt annars staðar frá, að útlendingar hafa fjárfest í landbúnaði til að framleiða matvæli fyrir sitt heimaland, sem annars gæti ekki brauðfætt sig.  Íslenzk löggjöf um matvælaframleiðslu verður að tryggja íbúum landsins forgangsrétt til vatns og lands til matvælaframleiðslu.  

Stjórnvöld verða að toga sig upp á hárinu og setja þá löggjöf, sem dugir í þessum efnum án tillits til gjamms frá ESA, enda fer nú vonandi að styttast í þessari dæmalausu EES-aðild, hverrar alvarlegu ókostir koma nú sífellt betur í ljós á einu sviðinu á fætur öðru.   

 


Sauðfjárræktin-dauði eða dagrenning

Það hafa ýmsir, þ.á.m. fráfarandi landbúnaðarráðherra, farið mikinn út af meintu kjötfjalli af völdum offramleiðslu sauðfjárbænda.  Nú er komið í ljós, að allt er þetta stormur í vatnsglasi; birgðirnar við upphaf sláturtíðar haustið 2017 voru svipaðar og vant er, tæplega tveggja mánaða innanlandsneyzla. Verið er að kenna ferðamönnum hérlendis átið á lambakjöti og útflutningur hefur braggazt.  Kínamarkaður er sagður munu geta tekið við a.m.k. 1 kt/ár af ærkjöti og lambakjöti f.o.m. næsta ári.  Það er bara brot af öllu því lambakjöti, sem kínverska miðstéttin er farin að sporðrenna nú þegar. Það er engin þörf á 20 % fækkun sauðfjárbænda, eins og bullustampurinn á stóli landbúnaðarráðherra hefur slengt fram, ekki einu sinni 10 % - 20 %.  

Í sambandi við matarbirgðir í landinu er rétt að hafa í huga, að jarðvísindamenn eru nú teknir að minna á, að á næstu 50 árum megi búast við stórgosi á Lakagígasvæðinu með svipuðum áhrifum á loft og jörð og í Móðuharðindunum 1783-1786.  Þá eru líka hafðar uppi áhyggjur um, að vegna langs meðgöngutíma Kötlu muni næsta gos hennar verða eitt af hennar stærstu, sem þýðir jafnvel enn meira af gosefnum úr iðrum jarðar en í Móðuharðindunum.  

Við þessar aðstæður munu flugsamgöngur við landið að líkindum lamast og landið verða að reiða sig á flutninga með skipum.  Þá verður ómetanlegt að hafa enn dugmikla og þrautseiga matvælaframleiðendur innanlands sem fjærst ósköpunum, t.d. á Norð-Vesturlandi og á Norð-Austurlandi.  Verulegt matvælaöryggi færi fyrir lítið, ef landbúnaður, þ.m.t. sauðfjárrækt, legðist að mestu af á þessum svæðum, en þau eru líklega á meðal harðbýlustu svæða landsins. 

Á Íslandi voru framleidd um 10,4 kt lambakjöts árið 2016.  Þá nam innanlandsneyzla þess um 6,8 kt, að neyzlu erlendra ferðamanna, um 0,6 kt, meðtalinni.  Mismuninn, 3,6 kt, þarf að afsetja á erlendum mörkuðum.  Evrópskur markaður er yfirfullur af kjöti, eftir að Rússar svöruðu viðskiptaþvingunum BNA og ESB með innflutningsbanni á matvæli og Íslendingum var flækt í þessar viðskiptaþvinganir, sem þeir áttu ekkert erindi í.  Verð fyrir lambakjöt hefur af þessum sökum lækkað erlendis , sem hefur leitt til verðlækkunar hérlendis og tilfinnanlegs tjóns fyrir bændur, sem stefnir lífsafkomu þeirra í voða.

Fráfarandi landbúnaðarráðherra eru mjög mislagðar hendur við að fást við þetta mál, sem og önnur vandamál.  Hennar lausn er fólgin í að fækka bændum með því að kaupa þá burt af búum sínum.  Þetta er mjög óviturleg leið, sem þjónar landinu ekki til lengdar, af því að af henni getur leitt byggðahrun, jafnvel þar, sem landsmönnum ríður á af öryggisástæðum að hafa byggð, eins og áður var drepið á.

Óli Björn Kárason, Alþingismaður í Kraganum, reit tímamótagrein um málefni sauðfjárræktarinnar í Morgunblaðið, 13. september 2017, sem hann nefndi:

"Erum við að pissa í sauðskinnsskóinn ?"

Þar gaf hann landbúnaðarráðherra falleinkunn með eftirfarandi hætti:

"Að sama skapi má færa fyrir því rök, að tillögur ráðherrans til lausnar vandanum séu gamaldags og eigi fremur skylt við að pissa í skóinn en að styrkja heilbrigðar undirstöður byggðar og landbúnaðar."

Fái þessi ráðherra um tvo kosti að velja, skal hún ævinlega velja verri kostinn.  Það þykir bera órækan vott dómgreindarskorts og þekkingarleysis, sem er dauðadómur yfir ráðherra, sem þarf að taka margar mikilvægar ákvarðanir á dag, sem flestar varða þjóðarhag.  

Síðan kemur heilræði frá Óla Birni, sem bændur ættu að íhuga vandlega:

"Margir í bændastétt hljóta að líta í eigin barm og spyrja, af hverju þeir hafi skilgreint sig sem launamenn, en ekki sjálfstæða atvinnurekendur, sem eru burðarstólpar sinna samfélaga.  Þetta viðhorf hefur litað öll samskipti við stjórnvöld."

Það hefur margoft komið fram á stuttum ferli fráfarandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hversu úrræðalaus hún er. Haraldur Benediktsson, Alþingismaður, hefur nefnt úrræði hennar í málefnum sauðfjárbænda "eyðibýlastefnu", og það má bæta um betur og kenna afstöðu hennar við sveitaauðn, því að fyrst gætu ungir bændur flosnað upp og síðan hinir elztu.  Hvað hefur Óli Björn um þetta að segja ?:

"Vera kann, að hugmyndir um 20 % fækkun sauðfjár séu reistar á traustum upplýsingum [Þær eru það ekki, því að kjötbirgðir fyrir haustslátrun 2017 voru venjulegar og eðlilegar. Rétt einu sinni gerði Þorgerður Katrín sig seka um flaustursleg vinnubrögð.  Hún virðist ekki kunna að vinna. - innsk. BJo], en tillögur ráðherra um, hvernig þeirri fækkun skuli ná, fela í sér þá hættu, að það verði fremur yngri bændur en þeir eldri, sem hætti sauðfjárbúskap, hagkvæmari bú hætti, en þau, sem óhagstæðari eru, haldi áfram.  Ekkert í tillögunum gefur tilefni til þess, að bændur geti gert sér vonir um, að hagur þeirra batni á komandi árum."

"Ég óttast, að verið sé að leggja upp í vegferð, sem getur endað illa.  Verið sé að búa til fátæktargildrur til sveita í stað þess að styrkja stoðir undir sjálfstæðan atvinnurekstur."

Þetta gefur tilefni til að ætla, að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sé versta forsending, sem bændur þessa lands hafa fengið á stól landbúnaðarráðherra frá fullveldi.  Flokkur hennar kemst vonandi ekki á blað í nokkru einasta landsbyggðarkjördæmi 28. október 2017.

Í lok greinar sinnar setur Óli Björn Kárason fram tillögu að gjörólíkri stefnu í málefnum sauðfjárbænda, sem næsta ríkisstjórn gerir vonandi að sinni:

"Sett er greiðslumark fyrir beingreiðslur, þ.e. það heildarmagn framleiðslu, sem rétt á á beingreiðslum.  Gæðastýringargreiðslum er hætt.  Beingreiðslur miðast við ákveðið lágmarksbú - a.m.k. 100 kindur - og bundnar því skilyrði, að öll framleiðsla sé samkvæmt viðurkenndum gæðastöðlum - m.a. er varðar velferð dýra og ábyrga meðferð á landi, heilnæmi og heilbrigði framleiðslunnar."

 

Nú eru sauðfjárbændur að aðalstarfi rúmlega 1100 talsins.  Beingreiðslur til þeirra námu árið 2016 miaISK 3,1, þ.e. um 2,8 MISK/bú eða tæplega 300 ISK/kg af lambakjöti.  Í kerfi ÓBK mun þessi heildarupphæð líklega verða svipuð:

  • "Greiðslumarkinu [t] er í upphafi skipt niður á einstök bú/bændur samkvæmt sanngjarnri reglu (t.d. hlutdeild í framleiðslu undangengin 3 ár).
  • Handhafar greiðslumarks eiga rétt á beingreiðslum á hverja einingu framleiðslunnar upp að greiðslumarki sínu.
  • Greiðslumark hvers árs er nokkuð undir áætlaðri innanlandseftirspurn, t.d. 95 %.
  • Framleiðsla umfram greiðslumark er heimil, en nýtur ekki beingreiðslna.  Fyrir framleiðslu umfram greiðslumark fá bændur það verð, sem sláturleyfishafar og/eða aðrir kaupendur eru tilbúnir að greiða. Verðið verður því lægra þeim mun meira, sem framleitt er umfram greiðslumarkið.  Að sama skapi verður verðið hærra eftir því, sem eftirspurn er meiri, ekki sízt, ef vel tekst til á erlendum mörkuðum.
  • Greiðslumark bænda er framseljanlegt bæði varanlega og til skamms tíma.  Þá getur verið rétt að setja inn ákvæði um, að enginn bóndi (sauðfjárbú) geti farið yfir ákveðna hlutdeild af heildargreiðslumarki (líklega undir 1 %).
  • Kerfið er til langs tíma (15-20 ár).

Hér er komin fram heildstæð stefnumörkun í málefnum sauðfjárbænda, sem ber af eins og gull af eyri hrákasmíði fráfarandi landbúnaðarráðherra, sem ekki virðist kunna réttri hendi í rass að taka.  Hvernig skyldu þingmenn á borð við Harald Benediktsson og bændaforystan taka þessum tillögum ?  Þær hefðu helzt þurft nú þegar að vera komnar til framkvæmda.  

 

 

 

 

 

 

 


Lýðheilsu á hærri stall

Það varð lýðum ljóst, er loks fréttist af bilun í skolphreinsistöð þremur vikum eftir að farið var að hleypa óhreinsuðu klóaki út um neyðarlúgu stöðvar OR/Veitna við Faxaskjól, að sumir stjórnmálamenn og embættismenn láta sér í léttu rúmi liggja, þótt kólíbakteríur og saurgerlar séu vikum saman í margföldum leyfilegum styrk m.v. heilsuverndarmörk úti fyrir strönd, sem er vinsælt útivistarsvæði og sjóbaðstaður, Nauthólsvík.  Framferði OR/Veitna var tillitslaust við íbúana, sem syntu í sjónum og stunduðu fjöruferðir í góðri trú um, að hreinsikerfið væri fullnægjandi, enda hefur stjórn OR nú beðið fólk afsökunar fyrir sína hönd og hlutaðeigandi starfsmanna.  

Af þessu má þó ráða, að lýðheilsa sé ekki hátt skrifuð á þeim bænum.  Það er hið versta mál, því að lýðheilsa hefur versnað á þessari öld með alls konar lífstílssjúkdómum, sem rýra lífsgæðin og valda hinu opinbera gríðarlegum kostnaði.  Hugarfarsbreytingar er þörf, og hún hefur þegar átt sér stað hjá nokkrum, á að gizka 20 % fólks, en um 80 % fólks er enn of kærulaust um heilsu sína.  

Frá 5. júlí 1937 hefur Náttúrulækningafélag Íslands (NLFÍ) verið starfandi í landinu.  Félagið varð þannig nýlega áttrætt og er í fullu fjöri, t.d. með starfsemi sína á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði, HNLFÍ, enda hefur aldrei verið jafngóður jarðvegur fyrir félagið í þjóðfélaginu og nú.  Það hefur heldur aldrei verið jafnmikil þörf fyrir starfsemi þess og nú um stundir. Munaðarlíf og rangt fæðuval er enn meira áberandi en áður var.   

Þann 5. júlí 2017 birtist grein í Morgunblaðinu eftir Gunnlaug K. Jónsson, forseta NLFÍ og formann rekstrarstjórnar HNLFÍ, undir hinu sígilda heiti,

"Berum ábyrgð á eigin heilsu !".

Þar sagði um um NLFÍ:

"Tilgangurinn var að stofna félag, sem hefði það að markmiði að efla og útbreiða þekkingu á lögmálum heilbrigðs lífs og heilsusamlegum lifnaðarháttum.  Áherzla var lögð á nauðsyn þess og mikilvægi, að einstaklingurinn bæri ábyrgð á eigin heilsu og velferð.  Sérstaklega var höfðað til foreldra, hvað börnin áhrærir.  Allt frá stofnun hafa einkunnarorð NLFÍ verið:"Berum ábyrgð á eigin heilsu.""

Þessi einkunnarorð eiga einkar vel við nú á dögum, þegar hið svo kallaða öryggisnet heilbrigðiskerfisins grípur þann, sem missir heilsuna, hvort sem það er fyrirsjáanlegt sjálfskaparvíti vegna óhollustusamlegs lífernis eða af öðrum orsökum.  Þó að það hafi ekki verið hugmyndin með hinum ríkisfjármögnuðu sjúkratryggingum, þá hafa þær leitt til þess, að margir segja einfaldlega við sjálfa sig: "den tid, den sorg", ríkið mun sjá um að færa mér heilsuna á ný, ef/þegar ég missi hana, og þess vegna get ég étið, drukkið, reykt og dópað, eins og mér sýnist, og ég nenni ekki að stunda neina líkamsrækt.  

Þetta er eins skammsýnt, skaðlegt og ábyrgðarlaust sjónarmið og hugsazt getur.  Góð heilsa, sem fer forgörðum, kemur einfaldlega aldrei aftur.  Það er hægt að lappa í fólk golunni, en heilsufarið verður aldrei, nema svipur hjá sjón.  Að halda góðri heilsu í nútímaþjóðfélagi er að hugsa vel um líkamann með hollu matarræði og hæfilegri blöndu af áreynslu og hvíld.  

Þetta er loðin uppskrift, því að hvað er hollt, og hvað er hæfilegt ?  Það er einmitt hlutverk NLFÍ að fræða fólk um þetta, en til að sjá dæmi um hollan og góðan mat og smakka hann, er hægt að gera sér leið í HNLFÍ í Hveragerði í hádegi (kl. 1145) eða að kvöldi dags (kl. 1800), panta sér mat og snæða á staðnum.  

Meira um NLFÍ úr téðri grein Gunnlaugs:

"Stefna NLFÍ hefur ávallt verið sú að auka og efla þátt hugtakanna heilbrigði og heilsuvernd í umræðu og verkum og að víkja frá hinni einlitu sjúkdómaumræðu.  NLFÍ forðast kennisetningar, sem ekki standast vísindalega gagnrýni.  

Hófsemi í líferni og skilningur á heildstæðum lausnum læknisfræðinnar, heilbrigt líferni í víðum skilningi, verður um ókomna framtíð meginhlutverk félagsins auk umhverfisverndar." 

Síðan rekur hann innreið lífsstílssjúkdómanna og gagnrýnir heilbrigðisstefnu stjórnvalda, sem með fjárveitingum sínum leggja höfuðáherzlu á "viðgerðarþjónustu og skyndilausnir í stað þess að fjárfesta til framtíðar m.a. á þann hátt að stórauka fjárframlög í fyrirbyggjandi aðgerðir, t.a.m. með stóraukinni fræðslu í grunnskólum."

Núverandi léttúð um þau atriði, sem bætt geta lýðheilsuna, hvað þá þættina, sem eru henni beinlínis skaðlegir, mun leiða til stjórnlausrar kostnaðaraukningar hins opinbera við "viðgerðarþjónustu og skyndilausnir" á næstu árum samfara fjölgun eldri borgara.  Áherzla á lýðheilsuna í öllum aldursflokkum, mest á meðal æskunnar, er eitt þeirra ráða, sem dregið geta úr aukningu á lækningaþörf á Háskólasjúkrahúsinu, bætt lífsgæðin og í sumum tilvikum lengt ævina, sem ekki þarf þó endilega verða til kostnaðarauka hjá ríkissjóði í þjóðfélagi sívaxandi lífeyrissjóða.  Nú nema eignir íslenzku lífeyrissjóðanna um 1,5 landsframleiðslu og munu að 10-20 árum liðnum líklega nema þrefaldri landsframleiðslu og verða tiltölulega sterkustu lífeyrissjóðir heims, ef ekki verða stórfelld fjárfestingarslys, eins og henti fyrir Hrunið. 

Árið 1946 skrifaði Jónas Kristjánsson, læknir, frumkvöðull að HNLFÍ, sígilda hugvekju í 1. tbl. Heilsuverndar, sem var tímarit Náttúrulækningamanna:

"Til að skapa heilbrigt og dugandi þjóðfélag þarf andlega og líkamlega heilbrigða þegna.  Undirstaða heilbrigðinnar eru réttir lifnaðarhættir og rétt fræðsla.  En heilsurækt og heilsuvernd þarf að byrja áður en til sjúkdóms kemur; áður en menn verða veikir.  Í þessu starfi þurfa allir hugsandi menn að taka þátt, allir góðir synir og dætur fósturjarðar vorrar verða að telja það sína helgustu skyldu að vernda heilsu sína ættjörðinni til handa.  Og takmark allra þarf að vera það að deyja frá betri heimi en þeir fæddust í."

Þann 21. júní 2017 birti Agnes Bragadóttir fréttaskýringu í Morgunblaðinu um samanburð stofnunarinnar "Social Progress Imperative" á "félagslegum framförum" í 128 ríkjum heims.  Þar eru metnir einir 12 þættir, og eru heilsa og heilbrigði og umhverfisgæði þeirra á meðal.  Ísland lenti í 3. sæti, og voru Danmörk og Finnland rétt fyrir ofan.  Það er þannig ljóst, að lífsgæði eru tiltölulega mikil á Íslandi, þótt okkur þyki þeim enn vera ábótavant, en þó vekur furðu og er umhugsunarvert, að Ísland lenti aðeins í 25. sæti, þegar umhverfisgæði voru metin.  Við höfum gjarna staðið í þeirri trú, að Ísland væri í fremstu röð varðandi loftgæði, vatnsgæði og hreinleika lands, en hreinsun skolps vítt og breitt um landið er vissulega ábótavant og mikil plastnotkun er hér á hvern íbúa. Mikið af plastleifum lendir í hafinu og hafnar í lífkeðjunni.  

Þann 30. maí 2017 skrifaði forseti "Eat Foundation", Gunhild A. Stordalen, grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:,

"Getur norrænn matur orðið meðal heimsins ?"

Greinin hófst þannig:

""Notum matinn sem meðal" sagði gríski læknirinn Hippokrates fyrir meira en 2000 árum.  Hann hafði rétt fyrir sér.  Hollur og kraftmikill matur er forsenda betri heilsu okkar allra, betra lífs og betri plánetu. ... Norðurlöndin raða sér í efstu sæti á listum heimsins, hvað varðar heilsu, sjálfbærni, jafnrétti og hamingju.  En er það vegna þess eða þrátt fyrir það, sem við leggjum okkur til munns ?  Tíðni offitu og sjúkdóma, sem rekja má til mataræðis, eykst.  Óhollt mataræði er orðið stærra heilbrigðisvandamál en reykingar.  Þótt við séum "grænni" en margir aðrir, er loftslags og umhverfisfótspor fæðunnar, sem við neytum og hendum, enn stórt."

Hippokrates hitti naglann á höfuðið, en nútímamaðurinn hefur afvegaleiðzt.  Matvælaiðnaðurinn á nokkra sök á þessu, og afurðir sælgætisiðnaðarins eru stórvarasamar, og margt bakkelsi er skaðræði, nema í litlu magni sé. Þróun neyzlunnar hlýtur að verða frá mat úr dýraríkinu og að jurtaríkinu.  Það er bæði vegna hollustunnar, þ.e. áhrifa fæðunnar á mannslíkamann, og vegna mikils álags á náttúruna af völdum landbúnaðarins við kjötframleiðsluna, eins og hann er nú rekinn í heiminum.  Kolefnisfótspor hans er t.d. helmingi (50 %) stærra en af völdum allrar umferðar á landi.  Losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði heimsins nemur nú 18 % af heild.  

Gunhild A. Stordalen nefnir í grein sinni, að Norðmenn gætu sparað meira en 150 miaISK/ár í heilbrigðisútgjöld, ef þeir mundu fylgja leiðbeiningum norrænu ráðherranefndarinnar um mataræði, sem reistar eru á hugmyndum um sjálfbæra neyzlu.  Fært yfir á Ísland nemur þessi sparnaður 10 miaISK/ár, 6 % af heildar opinberum kostnaði til heilbrigðismála, en hérlendis eru sparnaðarmöguleikarnir fyrir opinber heilbrigðisútgjöld með heilbrigðari lífstíl líklega a.m.k. tvöfalt meiri.  Það er eftir miklu að slægjast.

 

 


Heilbrigðiskerfi á villigötum

Á Vesturlöndum vex kostnaður við heilbrigðiskerfin linnulaust, svo að stefnir í algert óefni.  Meginástæðan eru rangir lifnaðarhættir miðað við það, sem bezt þjónar góðu heilsufari og lengra æviskeið.  Forsætisráðherra minntist á í ágætri þjóðhátíðarræðu 17. júní 2017, að meðalævi Íslendinga hefði á lýðveldistímanum lengzt um 15 ár, en hann gat eðlilega ekki um, hvernig háttað er lífsgæðunum á þessu 15 ára ævilengingartímabili.  Þau eru mjög misjöfn.  Algengt er, að lyf séu notuð í skaðlegum mæli, og margir eldri borgarar nota allt of mikið af lyfjum og eru þar staddir í vítahring.  Vitund almennings um kostnað við læknisþjónustu og sjúkrahúsþjónustu er ábótavant.  Þar sem miklar opinberar niðurgreiðslur eiga sér stað, þar myndast venjulega langar biðraðir.  Eftirspurnin vex meir en opinbert framboð getur annað.  Þetta er alls staðar vandamál í heilbrigðisgeiranum.  Það verður að fækka sjúklingum með því að efla ábyrgðartilfinningu almennings gagnvart eigin heilsu til að komast út úr vítahring versnandi heilsufars þjóðarinnar og sívaxandi kostnaðar við heilbrigðiskerfið.   

Þann 16. júní 2017 birtist í Morgunblaðinu hugvekja í þessa veru, þar sem var viðtal við bandarískan lækni, Gilbert Welch, prófessor við Dartmouth-stofnun í BNA. Viðtal Guðrúnar Erlingsdóttur bar fyrirsögnina, "Prófessor hræddur um ofnotkun lækninga":

"Ég er hræddur um, að það sé verið að draga okkur inn í of mikla "lækningavæðingu" [hefur einnig verið nefnt "sjúklingavæðing" heilbrigðra hérlendis - innsk. BJo]. Læknar geta gert margt gott fyrir fólk, sem er veikt eða slasað.  Þeir geta þó gert illt verra, þegar þeir meðhöndla fólk, sem er ekki veikt."

Þessi gagnrýni hefur einnig heyrzt úr læknastétt hérlendis, að leit að sjúkdómum sé hér orðin of umfangsmikil.  Betra sé fyrir skjólstæðinga lækna og hagkvæmara fyrir þjóðfélagið og skjólstæðingana sjálfa, að þeir taki ábyrgð á eigin heilsufari með heilbrigðu líferni og leiti ekki til læknis fyrr en einkenni koma í ljós.

"Ég óttast, að við séum að ofnota lækningar í stað þess að horfa á það, sem einstaklingarnir sjálfir geta gert."

Máttur tækninnar er eitt, en annað er, hvernig við nýtum hana okkur til framdráttar.  Við megum ekki gleyma því, að mannslíkaminn er enn í grundvallaratriðum sá sami og fyrir meira en 100 þúsund árum, þ.e.a.s. hann hefur alls ekki lagað sig að nútíma umhverfi og lifnaðarháttum, hvað þá tæknilegri getu lyflækninganna.  Heilbrigt líferni er bezta vörnin gegn sjúkdómum, en það er vissulega vandratað í öllu upplýsingaflóðinu og skruminu og erfitt að greina hismið frá kjarnanum. 

Síðar í viðtalinu víkur prófessor Welch að sjúkdómaskimunum, sem verða æ meira áberandi nú um stundir:

"Það getur orkað tvímælis að skima fyrir brjóstakrabbameini.  Það er hægt að finna hnúta, sem ekki eru og verða aldrei krabbamein.  Stundum er verið að leggja óþarfa aukaverkanir og óþægindi á fólk."

Segja má, að ver sé af stað farið en heima setið, þegar alls kyns aukaverkanir leiða af skimunum og lyfjagjöf.  Slíkt má kalla misnotkun á tækninni, og að gert sé út á ótta fólks.  Það er vandfundið, meðalhófið. 

"Stór hluti karlmanna, kominn á minn aldur, er með meinið [blöðruhálskirtilskrabbamein] án þess, að af því stafi nokkur hætta.  Ristilkrabbamein er hins vegar ekki ofgreint, og af völdum þess fer dauðsföllum fjölgandi.  Það er hætta á, að ofgreining færist yfir á aðra sjúkdóma, og þar skiptir ástin á tölfræði miklu máli."

Það eru feiknarlegir hagsmunir undir, sem þrýsta á um óþarfar greiningar og meðferðir, sem skjólstæðingarnir verða auðveld fórnarlömb fyrir og tryggingar taka þátt í.  Boðskapur Gilberts Welch er sá, að þessi þróun læknisfræðinnar þjóni ekki hugsjóninni um betra líf, og varla heldur hugmyndum um lengra líf.

"Ég hef ekki orðið fyrir líkamlegri áreitni að hálfu hagsmunaaðila, en það hafa verið gerðar tilraunir til þess að láta reka mig úr starfi.  Peningarnir tala alltaf.  Lækningaiðnaðurinn er stór hluti efnahagskerfisins, sem vill endalaust stækka og þróa nýja hluti.  Hjálpar það raunverulega fólki, eða verður það taugaveiklaðra, kvíðnara og hræddara ?  

Ekki leita til læknis, ef þú ert ekki veikur.  Verið efagjörn, spyrjið spurninga.  Hverjir eru valkostirnir, hvað getur farið úrskeiðis ?  Gefið ykkur tíma til þess að melta upplýsingarnar, nema um sé að ræða miklar blæðingar eða hjartaáfall.  Heilsan er á ykkar ábyrgð, læknar geta ekki tryggt hana."

Hér er á ferð nýstárlegur málflutningur frá hendi reynds læknis og háskólakennara.  Þessi boðskapur á fullan rétt á sér og eru orð í tíma töluð.  Læknar hafa verið hafnir á stall töframanna fyrri tíðar, og töfralæknirinn hafði líklega svipaða stöðu og presturinn í fornum samfélögum, þ.e. hann var tengiliður við almættið eða andaheiminn. Það er engu líkara en fjöldi fólks treysti nú á getu læknavísindanna til að lappa upp á bágborið heilsufar, sem oftast er algert sjálfskaparvíti.  Slík afstaða er misnotkun á læknavísindunum og á almannatryggingakerfinu.  

Dæmi um sjálfskaparvíti er offita.  Rangt fæðuval, ofát og hreyfingarleysi, eru oftast sökudólgarnir.  Yfirdrifið kjötát, saltur matur, brauðmeti úr hvítu hveiti, kökur og önnur sætindi, áfengisneyzla og neyzla orkudrykkja eru sökudólgarnir í mörgum tilvikum.  Matvælaiðnaðurinn lætur frá sér fara of mikið af varasömum matvælum, sem innihalda óholl efni, litarefni, rotvarnarefni, salt, hvítan sykur o.s.frv.

Í Evrópu er ástandið verst í þessum efnum í Ungverjalandi, en þar voru árið 2015 yfir 30 % fullorðinna of feitir eða með BMI>30,0.  (BMI stuðull er reiknaður út frá hæð og þyngd líkamans, og er talið eðlilegt að vera á bilinu 18,5-24,9.)  Í Ungverjalandi voru þá 2/3 fullorðinna of þungir með BMI 25,0-29,9. Þetta þýðir, að sárafáir fullorðinna voru með eðlilega líkamsþyngd m.v. hæð.  Það er ótrúlegt, ef satt er.  Ungverjar borða minna af grænmeti en flestir í velmegunarlöndum og meira af salti en aðrir í ESB.  Fyrir vikið eru lífslíkur Ungverja 5 árum styttri en meðaltal íbúa í ESB eða 76 ár.

Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, tilkynnti árið 2011, að þeir, sem lifa "óheilsusamlegu lífi, yrðu að greiða hærri skatt".  Fyrir 3 árum var innleiddur neyzluskattur á sykur, salt, fitu, áfengi og orkudrykki.  Skattur þessi nemur rúmlega 90 ISK/l af orkudrykk og 180 ISK/kg af sultu.  Árangur hefur orðið nokkur við að beina fólki til hollustusamlegri neyzluhátta.  Um 40 % matvæla- og sælgætisframleiðenda hafa fækkað eða minnkað magn óhollra efna í vörum sínum, og neytendur hafa dálítið breytt neyzluvenjum sínum.  Neyzla sykraðra drykkja hefur minnkað um 10 %.  Tekjum af þessari skattheimtu er beint til heilbrigðisþjónustunnar.  

Á Íslandi var á vinstristjórnarárunum síðustu við lýði neyzlustýring með skattheimtu, s.k. sykurskattur, en hann hafði lítil önnur áhrif en að hækka neyzluverðsvísitöluna.  Þessi aðferð við neyzlustýringu sætti gagnrýni, enda kom hún afkáralega út í sumum tilvikum, þar sem illskiljanlegt var, hvers vegna sumt var sérskattað, en annað ekki.  Þá er í raun of mikil forræðishyggja fólgin í neyzlustýringu af þessu tagi, sem litlu skilaði, þegar upp var staðið, öðru en aukinni dýrtíð og vísitöluhækkun neyzluverðs. Líklega eru aðrar leiðir skilvirkari, strangari reglur um vörumerkingar og að auðkenna innihald varasamra efna, og almenn fræðsla um afleiðingar óhollrar neyzlu fyrir líkamann, sem hefja ætti þegar í grunnskóla.      

 

 

 

 

 


Heilnæmi landbúnaðarafurða

Þótt ótrúlegt megi virðast, er nú sótt að fæðuöryggi og fæðuhollustu landsmanna.  ESA-Eftirlitsnefnd EFTA mun hafa úrskurðað, að Íslendingum beri sem aðilum að Innri markaði ESB (Evrópusambandsins) að láta niður falla allar helztu varnir sínar gegn sjúkdómum, sem hæglega geta herjað hér á búfénað og grænmeti landsmanna, af því að mótstöðuefni eru ekki fyrir hendi í einangruðum stofnum. 

Þeir, sem einhver skil kunna á sögunni, skilja, að hér eru firn mikil á ferð.  Að vera laus við marga alvarlega sjúkdóma í mönnum, dýrum og jurtum, eru ómetanleg lífsgæði, sem landsmenn geta talið landi sínu til tekna. 

Hér er ekki um að ræða einfalda viðskiptalega hindrun, heldur stórfellt heilbrigðismál fyrir fólk og fénað.  Ef einhver glóra er í EFTA-dómstólinum, þá lætur hann ekki meiri hagsmuni víkja fyrir minni.  Hinir meiri hagsmunir eru viðhald og viðgangur landbúnaðar á Íslandi og lýðheilsa hérlendis, en hinir minni hagsmunir eru frjáls viðskipti með hrátt kjöt, dýr á fæti og grænmeti, á meðan nóg er af því í landinu. 

Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra og höfðingi margra Sunnlendinga, ritaði laugardaginn 4. marz 2017 grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni: "Húsfyllir í Iðnó eins og Mamma Mía væri mætt".  Sannleikurinn er sá, að það er full ástæða fyrir Íslendinga til að hrópa "mamma mia" að hætti Ítala, ef stjórnvöld hér gera sig sek um það glapræði að láta undan þjóðhættulegri  kröfu ESA í þessu máli.  Guðni vitnar í Margréti Guðnadóttur, heiðursdoktor við Læknadeild Háskóla Íslands:

""Mér finnst það ræfildómur að reyna ekki að halda landinu hreinu, þegar við höfum þessa gömlu búfjárstofna og höfum lagt mikið á okkur til að halda þeim hreinum og gefum þeim ekki sýklalyf í fóðri." 

Hún sagði í viðtalinu [við Morgunblaðið - innsk. BJo], að hún teldi EES-samninginn lífshættulegan, þar sem ekki væri hægt að reiða sig á heilbrigðisvottorð matvöru."

Það þarf enginn að ímynda sér, að hinn virti sérfræðingur um veirusjúkdóma fari með eitthvert fleipur hér, þótt ekki sé skafið utan af hlutunum.  Þvert á móti sýnir tilvitnunin alvarleika málsins.

Það vitna fleiri sérfræðingar á sömu lund, og hefur nokkur sérfræðingur hérlendur mælt gegn röksemdafærslu  þeirra sérfræðinga, sem Guðni teflir fram ?  Einn þeirra er Vilhjálmur Svansson, dýralæknir og veirufræðingur á Tilraunastöð Háskólans að Keldum:

"Vilhjálmur fór faglega yfir þá áhættu, sem heilbrigðir búfjárstofnar okkar byggju við og mælti gegn innflutningi á lifandi dýrum og hráu kjöti.  Hann sagði jafnframt, að við hefðum ekki fengið hingað kúariðu eða gin- og klaufaveiki. Taldi hann, að íslenzkt búfjárkyn og landbúnaður mundu vart verða söm eftir, ef svo alvarlegir sjúkdómar bærust til landsins.  Hann minnti á mikið kæruleysi, þar sem gætu legið smithættur, þar eð klósettmál ferðamanna væru með þeim hætti, að þeir gerðu þarfir sínar úti um mela og móa."    

Íslendingar hafa orðið fyrir hrikalegum áföllum af völdum innfluttra búfjársjúkdóma, og hékk sauðfjárstofninn um tíma á horriminni, en var bjargað með ósýktu vestfirzku sauðfé.  Þeirrar tíðar menn höfðu í sumum tilvikum þekkingarleysi sér til málsbóta fyrir verknaðinum, en nútíðar menn eiga sér engar málsbætur fyrir það að ógna tilveru einstakrar fánu landsins, dýraríkis, sem í eru fólgin ómetanleg söguleg, menningarleg, atvinnuleg og næringarleg verðmæti. 

Nátengt þessu er heilbrigði þjóðarinnar.  Guðni vitnaði í Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlækni á Sýklafræðideild Landspítalans og í Læknadeild H.Í.:

"Karl G. Kristinsson, prófessor, ræddi um heilbrigði þjóðarinnar, og að hér væru færri pestir en í öðrum löndum.  Búféð væri heilbrigt, náttúran og fóðrið hreint og notkun sýklalyfja sáralítil ... ."

Á Íslandi er notkun sýklalyfja í landbúnaði einni til tveimur stærðargráðum minni en víðast hvar annars staðar.  Hvers konar gildismat og áhættugreining liggur eiginlega að baki því að vilja breyta verndarákvæðum um innflutning í þá veru, að þessari ómetanlega góðu stöðu verði ógnað ?  Að gefa eftir í þessu máli væri lydduháttur, ótrúleg skammsýni og fæli í sér brenglað gildismat.

Í réttum 2013


Heilnæmi matvæla í mengaðri veröld

Hneyksli í samskiptum eggjaframleiðanda og eftirlitsstofnunar ríkisins með heilnæmi matvæla skók samfélagið um mánaðamótin nóvember-desember 2016. Hneykslið var þríþætt. 

Í fyrsta lagi illur aðbúnaður, a.m.k. hluta hænsna, á eggjabúum tilgreinds fyrirtækis.  Þetta varðar bæði dýravernd og hollustu matvæla. 

Í öðru lagi aðgerðarleysi eftirlitsaðilans, Matvælastofnunar, MAST, eftir að upp komst um óleyfilegan fjölda fugla á flatareiningu og ljóst var, að umtalsverður fjöldi þeirra var vanhaldinn og þreifst illa. Myndskeið norskættaða dýralæknisins talaði sínu máli um það. Hinu brotlega fyrirtæki voru gefnir frestir á fresti ofan og hótað refsiaðgerðum, ef ekki yrði orðið við aðfinnslunum, en yfirstjórn eftirlitsstofnunarinnar heyktist alltaf á að láta kné fylgja kviði. Slíkt viljaleysi á ekki erindi á þann stað, en fúsk embættismanna er því miður landlægt á Íslandi. Er slíkt tekið að reyna á þolrif almennings í landinu, sem þarf að leita til eftirlitsstofnana og er auðvitað háður þeim, t.d. varðandi gæði og heilnæmi matvæla.   

Í þriðja lagi var hjá þessari eftirlitsstofnun ríkisins, Matvælastofnun, látið hjá líða að upplýsa neytendur um það, að eggjabú þessa fyrirtækis uppfylltu ekki lágmarks gæðakröfur varðandi alifuglarækt og að merking á vöru fyrirtækisins um "vistvæna framleiðslu" væri þess vegna afar villandi og í hróplegu ósamræmi við veruleikann. Með þessu háttarlagi var grafið undan bændum með metnað og dug, sem lagt hafa í talsverðan fórnarkostnað til að þjóna neytendum og dýrum sínum af trúmennsku.  Þeir, sem lengst eru komnir þar á bæ, hafa náð erfiðum hjalla, sem er alþjóðlega faggilt vottun um lífrænan búskap.   

Hér er ekki við starfsfólk eftirlitsstofnunarinnar að sakast, því að viðkomandi dýralæknar gerðu drög að fréttatilkynningu til fjölmiðla á grundvelli athugana og athugasemda sinna, og hefur annar dýralæknirinn gert grein fyrir afstöðu sinni í viðtali við RÚV frá Noregi á lýtalausri íslenzku með hugljúfum, syngjandi norskum hreim, sem unun var á að hlýða, þótt málefnið væri óskemmtilegt. 

Forstjóri MAST hefur tekið á sig ábyrgðina á að banna birtingu þessarar sjálfsögðu tilkynningar til almennings um heilnæmi matvæla, sem neytendur leggja sér til munns í góðri trú. Eru þar hafðar uppi hæpnar lagarefjar.  Forstjórinn segist  þó vilja læra af margítrekuðum mistökum sínum, en rígfullorðnir menn læra ekki dómgreind.  Af dómgreindarleysi var leyndarhjúpi sveipað yfir stofnunina í hverju málinu á fætur öðru.  Almenningur, sem að miklu leyti fjármagnar þessa stofnun, á rétt á öllum upplýsingum án tafar, sem áhrif geta haft á líðan hans og heilsufar, svo og um blekkingariðju gagnvart neytendum. Efnisatriði málsins eru svo alvarleg, að rökréttast er fyrir þennan forstjóra að axla sína ábyrgð í verki og rétta þar með hlut stofnunar sinnar.  Annað er óviðunandi fyrir bæði heiðvirða framleiðendur og alla neytendur.

Hið sama á við um hefðbundin bændabýli og stórvaxinn búskap.  Það er hreinn fyrirsláttur hjá yfirstjórn MAST, að vegna ákvæða í persónuverndarlögum megi hún ekki upplýsa opinberlega um slæma meðferð dýra á almennum búum.  Hvert bú er í raun lögaðili, sem haft getur fjölbreytilegt eignarhald, en einkaeign eins bónda eða sameign hjóna eða fjölskyldu er algengast.  Að opinber stofnun, að miklu leyti á framfæri almennings, haldi því fram, að aðfinnslur um búfjárhald eigi ekki erindi til almennings, er fásinna á 21. öld.  Almenningur á hér hagsmuna að gæta, af því að slæm meðferð dýra hefur óhjákvæmilega neikvæð áhrif á gæði afurða þeirra. Sjónarmið forstjórans er úrelt og á skjön við nútímakröfur um dýravernd og neytendavernd. 

Skilyrði eindregins stuðnings íslenzkra neytenda við íslenzka matvælaframleiðendur er, að allt sé uppi á borðum hjá bændum, er varðar hvaðeina, sem haft getur áhrif á gæði framleiðslu þeirra.  Þarna þarf fullkomið gegnsæi að ríkja og þeir, sem skyggja á það eða hindra, grafa um leið undan trausti á íslenzkum bændum.  Sterkasta tromp bændanna er heilbrigður gróður og vel haldnir og heilbrigðir dýrastofnar, sem fá minnst allra bústofna og nytjajurta Vesturlanda af sýklalyfjum, skordýraeitri og tilbúnum áburði og fá jafnframt hreinasta vatnið og lifa á minnst mengaðri jörð.  Þess vegna kjósa flestir landsmenn íslenzka bændur, þegar þeir verzla í matinn, enda er vistspor þeirra minna en samkeppnisaðila þeirra erlendis. 

Í Fréttablaðinu, 3. desember 2016, á bls. 6 er frétt um dýravernd undir fyrirsögninni,

"Ekki upplýst um aðbúnað hjá bændum":

"Matvælastofnun neitar að afhenda Fréttablaðinu upplýsingar um aðfinnslur héraðsdýralækna stofnunarinnar varðandi aðbúnað og umhirðu dýra á lögbýli á Vesturlandi.

Neitun Matvælastofnunar barst Fréttablaðinu sama dag og forstjóri stofnunarinnar lofaði bót og betrun og ríkari upplýsingagjöf til almennings í Kastljósviðtali.  MAST mun ekki veita upplýsingar um dýravelferð hjá íslenzkum bændum."

Matvælastofnun starfar undir stjórn atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.  Ráðherra ber pólitíska ábyrgð á starfseminni.  Umburðarlyndi landsmanna gagnvart hegðun yfirstjórnar MAST er þrotin.  Stjórnmálaflokkunum er hollt að hugleiða þetta, bæði núverandi valdhöfum og komandi, og leggja fram og samþykkja frumvarp um lagabreytingar, ef þær eru taldar nauðsynlegar til að ná fram ásættanlegri stöðu þessara mála. Skemmd epli mega ekki fá að skemma meira út frá sér.

"Hallgerður Hauksdóttir, formaður Dýraverndarsambands Íslands, segir mikilvægt, að upplýsingum sé ekki haldið leyndum.  "Það skiptir gríðarlega miklu máli, að gögn um illa meðferð búfjár séu opinber almenningi, svo að neytendur geti valið og hafnað", segir Hallgerður.  "Mér sýnist, miðað við þessa neitun, að Matvælastofnun ætli sér ekki að bæta ráð sitt varðandi upplýsingagjöf til almennings"."

Auðvitað er illmannleg meðferð dýra ein hliðin á þessu máli.  Óheft upplýsingagjöf opinberrar eftirlitsstofnunar til almennings er sjálfsagt og beitt vopn í baráttunni gegn dýraníði.  Það er tilhneiging til meðvirkni fólgin í að þegja í hel pervisalegt og skaðlegt framferði manna gegn öðrum mönnum og málleysingjum. Svipta ber hulunni miskunnarlaust ofan af því öllu og refsa harðlega. 

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifaði frétt í Fréttatímann á fullveldisdaginn, 1. desember 2016, og birti viðtal við mann, sem skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, fyrrverandi yfirdýralæknir, fól afgreiðslu erindis um hið alræmda eggjabú, með fyrirsögninni:

"Stóreinkennileg framkoma ráðuneytis": 

"Það er stórkostlegt, að ráðherra skuli draga mig upp úr hattinum til að vísa frá sér ábyrgð í málinu", segir Kristinn Hugason, búfjárkynbóta- og stjórnsýslufræðingur og fyrrverandi starfsmaður atvinnuvegaráðuneytisins, en ráðherra hefur sagt brotthvarf hans úr ráðuneytinu ástæðu þess, að mál Brúneggja sofnaði í ráðuneytinu.  .....

Hann segir málið allt fyrir neðan allar hellur, og málsmeðferð Matvælastofnunar í þessu máli í gegnum árin sé mjög ámælisverð og viðbrögð ráðuneytisins stóreinkennileg.  "Ill meðferð á varphænum hjá Brúneggjum kom aldrei inn á borð til mín í ráðuneytinu.  Þetta mál, sem barst þangað í desember 2013, snýst um vistvæna vottun.  ....

Það er ákaflega miður að horfa upp á þetta klúður; það er til að mynda fráleitt að nema reglugerð um vistvænar merkingar úr gildi án þess að tryggja, að slíkar merkingar séu ekki leyfðar á neytendaumbúðum.  Það er algerlega ljóst, að þar bar Matvælastofnun að grípa strax til aðgerða, þar sem hún fylgist með löglegum merkingum matvæla"."

Það virðist vera fullt tilefni til að framkvæma stjórnsýslurannsókn á þessu ráðuneyti, því að axarsköpt þess eru legío.  Að fyrirspurn undirstofnunar ráðuneytisins til ráðuneytisins skuli ekki vera skráð á framvinduskrá þess og henni fylgt eftir af ráðuneytisstjóra eða skrifstofustjóra, vitnar um stjórnsýslulega óreiðu í ráðuneytinu. Fróðlegt væri að vita, hverjum stjórnendur þessa ráðuneytis telja sig í raun vera að þjóna.  Stjórnunarlegt fúsk kemur upp í hugann í þessu sambandi. Nú er að sjá, hvort nýr ráðherra gerir gangskör að brýnum úrbótum á vinnubrögðum.

Þegar gæðatryggð vottun um lífræna ræktun með rekjanleika til alþjóðlegra staðla var tekin upp á Íslandi, mátti ráðuneytinu vera það ljóst, að leyfilegar fúskmerkingar á neytendaumbúðum matvæla, sem voru til þess fallnar að afvegaleiða neytendur, mundu grafa undan framleiðendum, með fagtryggða vottun um lífræna framleiðslu, vegna þess að fjöldi neytenda mundi ekki átta sig á, að í öðru tilvikinu er um raunverulega og kostnaðarsama hollustu að ræða, en í hinu tilvikinu getur hæglega verið um vörusvik að ræða, eins og reyndin var í téðu eggjamáli.  Að láta duga að nema reglugerð úr gildi um vistvæna framleiðslu var hálfkák eitt og vitnar um ófagleg vinnubrögð. Mál er, að linni.

 


Matvælaframleiðsla í breyttu umhverfi

Það er engum blöðum um það að fletta, að matvælaframleiðendur starfa nú í náttúru á óvenju miklu breytingaskeiði. Víðast hvar virðast breytingarnar vera til hins verra, en á Íslandi virðast þó framleiðsluskilyrðin í heildina séð hafa batnað með hækkandi ársmeðalhitastigi. Vaxtarhraði vex og jaðarstarfsemi á borð við kornrækt verður arðsöm, svo að nokkuð sé nefnt. 

Þó eru áhöld með lífríki hafsins, eins og innreið makríls og meint brotthvarf loðnu eru dæmi um.  Hækkandi sýrustig hafsins (lægra PH-gildi) með upptöku um 2/3 hluta losaðs koltvíildis á landi hefur slæm áhrif á skeldýr og aðrar kalkmyndandi lífverur, og sjávarstaðan hækkar um nokkra mm á ári hér norðurfrá vegna jöklabráðnunar og aukins rúmtaks við hlýnun.   

Eitt skæðasta einkenni loftslagsbreytinganna er misskipting úrkomu á jörðunni, sem leitt hefur til staðbundinna þurrka sums staðar og úrhellis annars staðar.  Á Íslandi er líklegt, að meðalúrkoma á landinu fari vaxandi með hækkandi hitastigi sjávar og neðstu laga lofthjúpsins. Ákoma jökla í tonnum vex þá, þó að flatarmál þeirra minnki.  Allt eykur þetta við vatnsbúskap virkjanafyrirtækjanna, sem eykur vinnslugetuna að öðru jöfnu, ef miðlunarlónin eru stækkuð til að taka við vaxandi vatnsmagni. 

Þótt ekki kæmi til þessarar aukningar, er leitun að landi í heiminum, og sannarlega á Vesturlöndum, þar sem jafnmiklar birgðir eru ferskvatns, svo að ekki sé minnzt á jökulvatn, á hvern íbúa og hér á Íslandi.  Við erum vel aflögufær um vatn, og markaður fyrir vatn á brúsum eða tönkum mun fyrirsjáanlega vaxa stórlega á næstu áratugum.  Fer vel á því, að vatnskræf iðnaðarferli á borð við áliðnað eru staðsett á Íslandi, en í kæliferlum áliðnaðarins, að úrvinnslu í steypuskála meðtalinni, eru notuð um 50 t ferskvatns/t áls, nema sjór eða loft séu nýtt í varmaskiptum, sem hefur ýmsa ókosti í för með sér. 

Ekki þarf að orðlengja, að rafmagn álveranna hérlendis kemur mestallt úr fallorku jökulvatna, en að öðru leyti úr jarðgufu. Ekki eru áhöld um hagkvæmni og sjálfbærni fallvatnanna, en hins vegar orkar nýting jarðgufu til raforkuvinnslu einvörðungu tvímælis, og sjálfbærnin er þar ekki fyrir hendi, eins og oflestun gufuforða Hellisheiðarvirkjunar er víti til varnaðar um.   

Frá sjónarmiði sjálfbærrar auðlindanýtingar er nauðsynlegt að greiða gjald fyrir vatnsnotkunina, en margir eiga erfitt með að sætta sig við þá tilhugsun og telja, að aðgangur að vatni, sem fellur af himnum ofan, sé sjálfsagður réttur hvers og eins.  Þar sem um hörgulauðlind er að ræða, í mótsetningu við andrúmsloftið, felur gjaldtaka vatns í sér ráðstöfun þess með hagkvæmari hætti og minni sóun. Um þetta eru auðlindahagfræðingar heimsins sammála, og hérlendis er ósiðlegt annað en fara vel með þessa gjöf náttúrunnar, þótt ríkulega sé útdeilt af sköpunarverkinu. 

Hæstiréttur Íslands hefur mótað réttindi sveitarfélaga til álagningar fasteignagjalds á vatnsréttindi virkjunaraðila, og er það vel. Ættu sveitarfélög að gera gangskör að innleiðingu gjaldtöku af vatnsréttindum af virkjunarfélögum, nema um bæjarlæki í einkaeign sé að ræða. 

Í stað þess, að vatnsskattur sé hluti af fasteignagjöldum sveitarfélaga af húsnæði, ætti að selja ferskvatn samkvæmt mældri notkun hvers og eins með svipuðum hætti og hitaveituvatn til að auka meðvitund notenda um þessa dýrmætu auðlind.  Verðið þarf að endurspegla jaðarkostnað við öflun viðbótar vatns og dreifingu þess ásamt vatnsvernd, sem vex að mikilvægi með auknu þéttbýli og aukinni landnýtingu. Gjaldtakan á hins vegar ekki að vera tekjustofn til óskyldra útgjalda að hálfu sveitarfélagsins.  

Gjaldtaka flestra hitaveitna er reyndar gölluð og felur í sér hættu á mismunun viðskiptavina, því að inntakshitastigið er mismunandi, og þess vegna ættu þær að selja samkvæmt orkumæli eða metinni orkunotkun samkvæmt hitamæli og magnmæli, en ekki einvörðungu samkvæmt magnmæli (vatnsmassa í kg). Sá, sem fær 60°C heitt vatn að inntaki sínu, þarf um þriðjungi meira vatn til að hita upp sams konar húsnæði en sá, sem fær 70°C, að öðru jöfnu. 

Vatn þekur 2/3 yfirborðs jarðar, og það eyðist sjaldnast við notkun, heldur fer í hringrás.  Þess vegna vekur undrun, að vísindamenn við Tækniháskólann í Massachusetts, MIT, spá því, að um miðja 21. öldina muni meira en helmingur mannkyns búa við vatnsskort eða yfirvofandi ferskvatnsþurrð. 

Ein skýring er sú, að við fjölgun manna og bættan hag eykst vatnsnotkun.  Önnur skýring eru loftslagsbreytingar, sem auka öfgar í veðurfari, bæði þurrka og úrfelli.  Hugveitan WRI, The World Resources Institute, raðaði upp 167 löndum og fann út, að 33 (20 %) þeirra muni standa frammi fyrir grafalvarlegri þurrkatíð árið 2040.  Þau eru í Norður-Afríku og Mið-Asíu, og þaðan er flóttamannastraumur þegar hafinn.

Hins vegar stafar hluti vandamálsins af lélegri stjórnun á vatnsnýtingunni, og ráðstefnuþátttakendum á árlegri loftslagsráðstefnu SÞ í rykugri Marrakesh-borg í byrjun nóvember 2016 hefði verið nær að nota tímann til að þróa gagnlegt vatnsstjórnunarkerfi, sjálfbæra auðlindastýringu, en blaðra hver upp í annan um loftslagsmál. Mikilvægur þáttur í að aðlaga sig hlýrra loftslagi er að þróa haldbærar aðferðir við úthlutun vatnsréttinda. 

Hver fullorðinn þarf aðeins á að halda fáeinum lítrum á sólarhring, en til að framleiða næg matvæli ofan í hvern fullorðinn þarf hins vegar hundruði lítra á sólarhring, og ef sá fullorðni ætlar að leggja sér naut eða svín til munns, þá þarf í máltíðir þess dags þúsundir lítra vatns á sólarhring.

Á heimsvísu fer mest af vatnsnotkuninni til landbúnaðar, eða 70 %, og iðnaðurinn notar um 25 % og 5 % fara í annað. Þessu er reyndar ekki þannig  farið á Íslandi, af því að minni þörf er á vökvun ræktarlands, nema vökvun grænmetis í beðum utan og innan gróðurhúsa, og af því að iðnaðurinn er stórtækur á vatnslindir hérlendis.

Sökum þess, að bændur og iðnjöfrar hafa í mörgum löndum umtalsverð áhrif á embættis- og stjórnmálamenn, borga þeir yfirleitt allt of lítið fyrir vatnið m.v. raunkostnað til lengdar og líklegt verð á frjálsum markaði.  Sums staðar er aðeins greitt fyrir rekstrarkostnað vatnsöflunar og dreifingar, en ekki fyrir fjárfestingar í viðkomandi innviðum. Slíkt er auðvitað of lág og ósanngjörn verðlagning gagnvart komandi kynslóðum. Víða er ekkert greitt fyrir ósjálfbæra nýtingu á vatnsforða neðanjarðar. Slíkt má nefna spillingu. T.d. eru 2/3 af vökvunarvatni Indlands dælt upp þannig. 

Það er segin saga, að þegar eitthvað er of ódýrt, þá er bruðlað með það. Í auðvalds-kommúnistaríkinu Kína er notað tífalt magn vatns á hverja framleiðslueiningu á við það, sem tíðkast í þróuðum (ríkum) ríkjum, svo að dæmi sé tekið. Bændur á þurrkahrjáðum svæðum Kaliforníu rækta vatnsfrekt grænmeti og ávexti á borð við lárperur, sem Kalifornía gæti hæglega flutt inn frá vatnsríkari héruðum og aukið þannig vatn til sparneytnari ráðstöfunar.  Lykilatriði til bættrar vatnsnýtingar er að verðleggja vatnið almennilega, þannig að notendur fari vel með það og fjárfestar láti hanna og setja upp viðeigandi mannvirki til öflunar, hreinsunar (verndar) og dreifingar.  

Þörf er á gríðarlegum upphæðum: yfir 26 trilljón bandaríkjadölum (TUSD 26) árin 2010-2030 samkvæmt einni áætlun á heimsvísu.  Áður en hægt verður að verðleggja vatnið almennilega verður á hinn bóginn að ákvarða eignarhaldið eða nánar tiltekið, hver á rétt til nýtingar á tilgreindu magni úr ám, lindum neðanjarðar o.frv.  Ástralía hefur haft forystu um að búa til slíkt hlutdeildarkerfi (kvótakerfi) framseljanlegra vatnsréttinda, sem þykir lofa góðu. 

Þetta minnir að mörgu leyti á íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið.  Á Íslandi stóðu menn um 1980 frammi fyrir hruni nytjastofna vegna ofveiði með allt of stórum flota.  Verkefnið var að ákveða, hvernig skipta ætti takmarkaðri og minnkandi auðlind á milli nýtingaraðila.  Alþjóðleg viðurkenning hafði þá nýlega fengizt á 200 sjómílna fiskveiðilögsögu umhverfis Ísland, og það var einhugur í landinu um, að innlendar útgerðir skyldu sitja að nýtingunni.  Þær voru hins vegar illa staddar fjárhagslega árið 1983 vegna offjárfestinga m.v. minnkandi afla.  

Réttlátast og sársaukaminnst þótti við þessar aðstæður, að þeir, sem stundað hefðu veiðar undanfarin 3 ár eða meira, fengju að halda þeim áfram, en í skertum mæli samkvæmt sjálfbæru aflamarki og hlutfallslegri aflaheimild í samræmi við veiðireynslu.  Aflahlutdeild var bundin við skip, og til að nýliðun gæti orðið í greininni var um 1990 heimilað frjálst framsal aflahlutdeilda yfir á önnur skip.  Þar með var komið á markaðskerfi með nýtingarrétt takmarkaðrar auðlindar í hafinu, þótt viðurkennt sé, að enginn eigi né geti átt óveiddan fisk í sjó, hvorki útgerðarmenn, ríkissjóður né þjóðin, enda eru miðin almenningur, eins og verið hefur frá landnámi. 

Þetta er í grundvallaratriðum sama kerfið og færustu auðlindasérfræðingar ráðleggja, að viðhaft sé við ráðstöfun allra takmarkaðra auðlinda heimsins.  Enginn málsmetandi auðlindahagfræðingur hefur ráðlagt ríkisvaldi að taka nýtingarrétt af einkaaðilum með eignarnámi og efna síðan til óskilgreinds uppboðs á hinu ríkistekna þýfi.  Í Íslandi stenzt slíkt eignarnám ekki stjórnarskrárvarinn eignarrétt, því að því fer fjarri, að eignarnám sé eina leiðin til að tryggja almannahagsmuni í þessu tilviki, eins og er eitt af skilyrðunum fyrir veitingu eignarnámsheimildar.  Núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi á Íslandi tryggir almannahagsmuni bezt alls þekkts fyrirkomulags á þessu sviði, því að það framkallar mestu hugsanlegu, sjálfbæru verðmætasköpun á hvert tonn, eins og reynslan sýnir, og þar af leiðandi hámarks skattspor allra hugsanlegra kerfa í þessari grein.        


Gæðastjórnun íslenzks fiskeldis

Eins og Smári Geirsson skilmerkilega rekur í nýlega útgefinni bók sinni um þróun hvalveiða við Ísland, var hvalverkunin í raun fyrsti vélvæddi reksturinn á Íslandi og kom á undan vélbátaútgerð landsmanna.  Að hvalveiðunum stóðu aðallega Norðmenn, en einnig Bandaríkjamenn.  Blómaskeið hvalveiðanna við Ísland var á síðari hluta 19. aldarinnar á Vestfjörðum og Austfjörðum, og segja má, að Íslendingar hafi fyrst komizt í tæri við iðnvæðinguna og þénað umtalsverða peninga á hvalvertíðum. Bók Smára varpar ljósi á þennan upphafsþátt iðnsögu Íslendinga, ef Innréttingar Skúla, fógeta, Magnússonar, í Reykjavík um miðja 18. öldina eru undan skildar.  

Á 21. öldinni endurtekur sagan sig að breyttu breytanda.  Bandaríkjamenn eiga  nú tvö af þremur stærstu stóriðjuverunum, Norðurál á Grundartanga og Fjarðaál á Reyðarfirði, og nú vex fiskeldi mjög fiskur um hrygg undir handarjaðri Norðmanna, aðallega á Vestfjörðum, en þó einnig á Austfjörðum.

Norðmenn framleiða og markaðssetja sennilega mest allra þjóða af eldislaxi, og nemur árleg framleiðsla þeirra um 1,3 Mt (milljón tonnum).  Árið 2016 er á Íslandi áformað að slátra rúmlega 15 kt (k=þúsund) af eldisfiski, þar af 8,0 kt af laxi og um 7,0 kt af bleikju.  Árið 2025 gæti heildarframleiðsla fisks í sjókvíaeldi hafa þrefaldazt hérlendis, og eldi í kerum á landi hafa hafizt fyrir alvöru, svo að heildarframleiðsla eldisfisks verði þá yfir 50 kt/ár.  Andvirði þessarar framleiðslu gæti þá numið yfir 60 miaISK/ár, sem er tæplega fjórðungur af núverandi afurðaandvirði sjávarútvegsins. Engu að síður mun framleiðsla eldisfisks þá hérlendis nema innan við 4 % af framleiðslunni í norskum fjörðum 2025, ef að líkum lætur.  Þessi nýja framleiðslugrein á Íslandi mun skipta verulegu máli fyrir byggðaþróun, gjaldeyrisöflun og þjóðarbúskap hérlendis, en verða alla tíð smár í sniðum á alþjóðlegan mælikvarða.

Sjókvíaeldi við Ísland eru mjög þröngar skorður settar vegna þess, að notazt er við erlenda fiskstofna, sem menn vilja ekki, að gangi upp í íslenzkar ár og blandist þar íslenzka stofninum.  Nýlegar fréttir af regnbogasilungi í Berufirði minntu á þetta, og kvittur um, að eldisfiskur hafi líka sloppið nýlega úr eldiskví fyrir vestan vekur athygli á, að hættan á blöndun við íslenzka laxastofna er fyrir hendi, þó að áhættugreining leiði í ljós, að hún sé svo lítil, að hægt sé að búa við hana.

Í því augnamiði að lágmarka áhættuna  á blöndun stofna með raunhæfum hætti var sett reglugerð árið 2004, þar sem sjóeldi laxfiska á nánast öllum svæðum, sem liggja að vatnasviði villtra laxfiska, var bannað. Þannig er einvörðungu heimilt að stunda sjókvíaeldi laxfiska á Vestfjörðum á milli Látrabjargs og Geirólfsgnúps og við Norð-Austurland á milli Hraunhafnartanga og Glettinganess auk Eyjafjarðar og Axarfjarðar.  Við Suðurland eru aðstæður til sjókvíaeldis ekki fyrir hendi, en eldi í landkerum er þar og víðar mögulegt með því að hita sjó með hitaveituvatni. Er landkeraeldið nýjasta dæmið um samkeppnisforskotið gagnvart útlöndum, sem jarðhiti og nægt vatn veita Íslendingum.   

Sjókvíaeldi hefur átt undir högg að sækja hérlendis m.a. vegna meintra hagsmunaárekstra við veiðiréttareigendur í ám í grennd.  Með áður nefndum svæðistakmörkunum og ströngum gæðakröfum yfirvalda til búnaðar og stjórnkerfa starfs- og rekstrarleyfishafa er þó vel fyrir aðskilnaði laxastofnanna séð. Hefur því m.a. verið haldið fram, að laxeldið útheimti ótæpilega lyfjagjöf og að því fylgi mengun fjarðanna, eins og þekkt er frá slíku eldi í hlýrri sjó.  Hér við land eru þó hvorki við lýði sýklalyf né lúsaeyðir í laxeldinu, og regluverk og eftirlit með starfseminni er tiltölulega strangt. Til að draga úr staðbundinni mengun er áformað að hvíla eldissvæði í eitt ár í senn hérlendis.  Virðist fagmennsku nú gætt í hvívetna í fiskeldinu hérlendis. 

Í Fiskifréttum, 19. maí 2016, er viðtal við Höskuld Steinarsson, framkvæmdastjóra Landssambands fiskeldisstöðva:

"Íslendingar hafa auk þess innleitt stranga, norska staðla um búnað við sjókvíaeldi.  Það var gert á síðasta ári (2015-innsk. BJo).  Norðmenn innleiddu þessa staðla hjá sér árið 2006, og þeir komu til fullra framkvæmda 2008.  Síðan þá hafa tölur um sleppingar á löxum úr sjókvíum í Noregi hríðlækkað. (Fróðlegt væri að fá upplýst, hver þessi tala er núna í Noregi sem hlutfall af árlegum fjölda nýrra seiða í sjókvíum, því að búast má við svipuðu hlutfalli hérlendis - innsk. BJo.)

Ég tel það vera góðs vita, að Íslendingar skuli hafa innleitt þessar ströngu reglur hjá sér svona snemma í laxeldisbylgjunni. Við getum því bæði státað af ströngu eftirliti og góðum búnaði, sem minnkar hættu á, að laxar sleppi úr kvíum.  Ef slysin gerast, þá eru engar sjókvíar nálægt helztu svæðum villtra laxa.  Við höfum því tvöfalt öryggi."

Það er ánægjulegt, að nánu samstarfi skuli hafa verið komið á á milli Íslendinga og Norðmanna um mikla uppbyggingu útflutningsatvinnuvegar á Vestfjörðum, þar sem ládeyða var fyrir í atvinnulífinu. Þar liggja, eins og á 19. öldinni og kom fram hér að ofan, gagnkvæmir hagsmunir til grundvallar.

  Norðmenn hafa nú nýtt megnið af sínum eyrnamerktu svæðum til kvíaeldis við strendur landsins og framleiða þar 1,3 Mt/ár af laxi, en á Íslandi slítur þessi grein nú barnsskónum, ef frá er talin tilraunastarfsemi af vanefnum á síðari hluta 20. aldar. Þrengsli fyrir kvíaeldi við Noregsstrendur hefur leitt til meiri sjúkdóma í stofninum en vænta má hér, þar sem þéttleikinn verður minni og hvíla á hvert svæði í 1 ár af 3.  Fyrirsjáanleg framleiðslugeta við Ísland verður m.a. þess vegna innan við 100 kt/ár eða um 7 % af norskri framleiðslugetu, en Íslendingar geta aukið framleiðsluna mikið með keraeldi á landi með notkun jarðhita til upphitunar á söltu vatni, sem er óhagkvæm í Noregi.  Með þessu móti má ætla, að útflutningsverðmæti kvía- og keraeldis hérlendis muni geta slagað upp í núverandi útflutningsverðmæti íslenzks sjávarútvegs, svo að það er ekkert smáræði, sem hangir á spýtunni. 

Þessi þrengsli í norskum fjörðum hafa leitt til þess, að leyfisgjald yfirvalda nemur nú allt að 0,19 MISK/t, og verð á framsalsmarkaði þessara starfs- og rekstrarleyfa er tífalt hærra. 

Á Íslandi nemur leyfisgjald til fiskeldisstöðva að meðtöldu iðgjaldi ábyrgðartryggingar innan við 2 % af norska gjaldinu, og hér er líka frjálst framsal starfs- og rekstrarleyfa, og markaðsverðið aðeins brot af því norska. Hér er óeðlilega mikið misræmi á ferð á milli nágrannalanda.

Það blasir við, að rentusækni ríkir í sjókvíaeldi bæði í Noregi og á Íslandi.  Hún stafar af því, að yfirvöld úthluta hæfum umsækjendum starfs- og rekstrarleyfum fyrir starfsemi á takmörkuðu svæði, sem annar ekki eftirspurn í Noregi, og mun bráðlega heldur ekki anna eftirspurn á Íslandi.  Á þessum leyfisveitingamarkaði ríkir ekki frjáls samkeppni, og verðlagið á Íslandi er miklu lægra en í Noregi og nánast örugglega langt undir markaðsverði. Vegna miklu lægri gjaldtöku yfirvalda á Íslandi en í Noregi verður mun meiri rentusækni á sviði sjókvíaeldis á Íslandi.

Það má ekki láta við svo búið standa, heldur verður að eyða þessari rentusækni með því að skapa markaðsverð á leyfisveitingunum.  Það er t.d. hægt með því að skipta óúthlutuðum svæðum upp í mismunandi hólf með afkastagetu 100-1000 t/ár, semja útboðslýsingu, þar sem m.a. verði kveðið á um hvíld svæða, gæði búnaðar, gæðastaðla, sem fylgja á í rekstrinum, lágmarkstryggingar, eignarréttindi og framsalsskilyrði. 

Það er eðlilegt, að afrakstur þessarar gjaldtöku skiptist á milli viðkomandi sveitarfélaga og ríkisstofnana, sem hlut eiga að máli.  Þessi kerfisbreyting þarfnast lagasetningar, og ættu þingmenn Norðurkjördæmanna tveggja að hafa frumkvæði að þessu, enda er hér um stórfellt hagsmunamál viðkomandi byggðarlaga og landsins alls að ræða, og ekki er eftir neinu að bíða.  Stöðva þarf allar frekari starfs- og rekstrarleyfisveitingar, þar til ný lagasetning í þessa veru hefur tekið gildi , því að þungi rentusækninnar er mikill. 

Markaðsverð fyrir leyfi til sjókvíaeldis í íslenzkum fjörðum gæti slagað upp í það, sem er við Norður-Noreg eða 160 kISK/t.  Markaðsverðmæti óúthlutaðra leyfa gæti þá numið 12 miaISK (mia=milljarður), og gæti fjármagnað nauðsynlegar fjárfestingar sveitarfélaganna vegna fiskeldisins og rekstrarkostnað ríkisstofnana vegna m.a. eftirlits með því í 10 ár. 

Fyrirtæki, sem fyrir eru í sjókvíaeldi á Íslandi, hafa sín ótímabundnu starfs- og rekstrarleyfi og verða að njóta þess að hafa lagt grunn að að atvinnustarfsemi, sem reist er á faglegum vinnubrögðum og mikilli þekkingu á starfseminni.  Hennar hefur aðallega verið aflað í Noregi, og Norðmenn hafa í vaxandi mæli fjármagnað hana.  Það ríður mikið á fyrir orðstýr þessarar starfsemi og lífríkið í íslenzkum ám að halda fjölda laxfiska, sem sleppa úr eldiskvíum, í algjöru lágmarki.  Ef árlegur slátrunarmassi kemst í 100 kt, þá jafngildir það árlega 25 milljónum nýrra seiða út í kvíarnar.  Árlega ganga um 70 þúsund villtir laxar upp í íslenzkar ár eða 0,3 % af þessum seiðafjölda.  Það er líffræðilegt viðfangsefni að finna og fastsetja efri mörk seiðafjöldans, sem sleppur, án þess að valda merkjanlegum erfðabreytingum á Íslenzka stofninum.  Ef þessi mörk eru t.d. 0,1 % af fjölda göngulaxa, þá má meðalfjöldi seiða, sem sleppa á ári, ekki fara yfir 3 ppm.  Í útboðslýsingu leyfanna skal kveða á um sektir í ríkissjóð, ef fleiri seyði sleppa en talið er nánast skaðlaust fyrir íslenzka stofna.

Til að lágmarka líkur á, að seiði sleppi, og til að tryggja, að gæði framleiðslunnar verði, eins og viðskiptavinum er lofað, hafa fiskeldisfyrirtæki komið sér upp alþjóðlega vottuðum gæðastjórnunarkerfum.  Í fyrrnefndum Fiskifréttum er eftirfarandi frétt:

"Fiskeldisfyrirtækið Arctic Fish hefur hlotið eftirsótta alþjóðlega umhverfisvottun, Aquaculture Stewardship Council (ASC), fyrst íslenzkra fyrirtækja að því, er fram kemur í frétt frá Arctic Fish."

"Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri Arctic Fish, segir umhverfisaðstæður á Vestfjörðum með hreinan sjó, lágt hitastig og lítinn þéttleika í kvíum hindra viðgang sjúkdóma, og því sé engin lyfjanotkun í eldi félagsins ólíkt því, sem gerist í hlýrri sjó."

"Vottun ASC er staðfesting á þeim árangri, sem við höfum náð, og vottunin mun án efa hjálpa okkur í frekari sókn á erlendum mörkuðum, þar sem kröfuharðir neytendur með mikla umhverfisvitund líta til afurða á borð við þær, sem við framleiðum.  Sá markhópur fer sífellt stækkandi, og hann er tilbúinn til að greiða hærra verð fyrir vottaðar afurðir", segir Sigurður.   

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband