Fánýti eða framfarir

Alþingiskosningar eru í vændum, ótímabærar að margra mati.  Kjósendur geta virt fyrir sér störf núverandi þingmeirihluta, 2013-2016, og borið þau saman við störf fyrrverandi þingmeirihluta, 2009-2013. Þá blasir við skýr munur og stökk fram á við í lífskjörum og eignastöðu allra tekjuhópa samfélagsins á seinna tímabilinu.  Nægir að nefna samkeppnishæfni landsins og lánshæfismat, skuldastöðu ríkis og sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga, atvinnuþátttöku, atvinnustig og kaupmátt. 

Einnig hljóta kjósendur að hlusta eftir því, sem frambjóðendur til Alþingis hafa fram að færa.  Ekki verður orðum eytt að hinu undirfurðulega loforði Oddnýjar Harðardóttur fyrir hönd Samfylkingarinnar, að ríkissjóður fari nú inn á þá nýstárlegu braut bótagreiðslna að greiða þær fyrirfram.  Líklega tíðkast það hvergi, að fólk fái bætur frá hinu opinbera áður en það öðlast rétt til þeirra.  Hér áttu vaxtabætur í hlut, en hvers vegna ekki ýmsar aðrar bætur og styrki fyrirfram ?  Tíminn er peningar, og það er dýrt að bíða. Þetta er yfirborðslegt og illa ígrundað lýðskrumsloforð, þar sem Samfylkingin sýnir skattgreiðendum lítilsvirðingu.  Þeir hafa komið auga á þann kæk Samfylkingarinnar og ætla að jarðsetja hana án viðhafnar.

Katrín Jakobsdóttir hefur gert traust að einkennismáli sínu fyrir þessar kosningar.  Það er merkilegt, því að hún gengur þar að fiskaminni kjósenda sem gefnu.  Hún varð uppvís að mestu svikum lýðveldissögunnar við kjósendur á síðasta kjörtímabili, þegar hún gegndi stöðu mennta- og menningarmálaráðherra við lítinn orðstír.  Hún hafði fyrir kosningar 2009, þá varaformaður VG, lofað kjósendum því, að hún mundi berjast gegn umsókn um aðild Íslands að ESB. Á meðan hún var með þá lygi á vörunum, voru hún og Steingrímur, þá formaður VG, að semja við SF um ríkisstjórnarmyndun, þar sem kjarninn í samstarfinu var umsókn Íslands með hraðpósti til Brüssel.  Svikahrappurinn er svo ósvífinn að reyna nú að hylja pólitíska nekt sína með voðum, sem á stendur "TRAUST".  Dr Josef Göbbels hefði ekki lagt í jafn mikil öfugmæli í áróðri sínum og þessi, enda koma þau nú sem bjúgverpill í kjöltu Teflon-Kötu.  Dugar teflonhúðin lengur ? Komi á hana rispa, er hún fljót að flagna af.

Þá verður að minnast á haturs-ástarsamband VG-forystunnar við AGS-Alþjóða gjaldeyrissjóðinn.  Fyrir téðar kosningar gerði hún sig breiða og vildi ekkert af AGS vita við stjórn íslenzkra málefna.  Eftir kosningar leiddi hún AGS til öndvegis á Íslandi og reif niður innviði íslenzks samfélags til að þóknast AGS.  Er til nokkuð ómerkilegra í pólitík en Vinstri hreyfingin grænt framboð ?

Teflon-Kata hefur markað sér stefnu fyrir þessar kosningar, sem hún ætlar að framfylgja eftir kosningar, taki hún sæti í ríkisstjórn, sem vonandi verður bið á. Hún fullyrðir, að ójöfnuður hafi aukizt í þjóðfélaginu, og hennar ráð við því er að hækka skatta, líklega bæði beina og óbeina. Þetta er skaðleg aðgerð fyrir almenning, af því að landið verður þá síður samkeppnishæft um dýrt vinnuafl, t.d. háskólafólk og iðnmeistara, hagvöxtur minnkar og þar með vinnuframboð.  Teflon-Kata áformar sem sagt að kasta barninu út með baðvatninu. 

Það sýnir hins vegar vel málefnafátækt VG/Katrínar, að hún hefur tekið alrangan pól í hæðina og að það er hreinn tilbúningur hjá henni eða ímyndun vegna almennrar hagsældar, að ójöfnuður hafi aukizt á meðal landsins barna.  Um þetta eru orð Hagstofu Íslands órækust:

"Litlar breytingar urðu á dreifingu ráðstöfunartekna á milli áranna 2014 og 2015 samkvæmt lífskjararannsókn Hagstofunnar (tekjuárin 2013 og 2014). Gini-stuðullinn hækkaði lítillega á milli ára, úr 22,7 í 23,6.  Þessi breyting er þó vel innan vikmarka og því ekki hægt að draga þá ályktun, að ójöfnuður hafi aukizt á milli ára. [Téður Gini-stuðull hækkar með auknum tekjuójöfnuði - innsk. höf.]"

Katrín, formaður VG, ætlar samt að nota þessa ómarktæku hækkun Gini sem átyllu til skattahækkana, komist hún til valda.  Ef að líkum lætur, mun slíkt koma niður á framkvæmdum, atvinnutækifærum og verðstöðugleika, því að hún mun ráðast til atlögu við fyrirtækin í landinu, vinnuveitendur, sem þá munu draga úr fjárfestingum, fækka hjá sér fólki og neyðast til að velta kostnaðaraukanum út í verðlagið. Fjandsemi nýrra valdhafa við atvinnulífið getur hæglega valdið verulegri lækkun á gengi ISK, og þar með er verðhækkanaspírallinn, "landsins forni fjandi", kominn í gang, sem allir tapa á, hinir lakast settu mest.

Um afleiðingar skattheimtu ritar Jóhannes Loftsson, verkfræðingur og frumkvöðull, góða grein í Morgunblaðið 14. október 2016:

"Hádegismaturinn er aldrei ókeypis":

"Flestir fyrirtækjaskattar eru síðan ákveðinn blekkingarleikur, því að fyrirtæki eru bara milliliðir, sem fjármagna skattborgunina í gegnum þá vöru, sem þau eru að selja og neytandinn borgar á endanum fyrir.  Þannig er bankaskatturinn fjármagnaður með hærri útlánsvöxtum, skattur á leigusala er fjármagnaður með hærra leiguverði, og almennur tekjuskattur á fyrirtæki er fjármagnaður með með dýrari þjónustu, á sama tíma og svigrúm atvinnurekandans til að þróa þjónustuna og borga starfsmönnum hærri laun minnkar. 

Á einn eða annan hátt þá endar reikningurinn fyrir örlæti stjórnmálamanna alltaf á launþeganum.  Þegar fjárlögum 2016 er skipt niður á fjölda launþega (191 þúsund), þá blasir við allhrikaleg sviðsmynd:

Í dag kostar hinn "ókeypis" hluti heilbrigðisþjónustunnar okkur um 860 þúsund kr á ári til viðbótar við 20 % eiginframlagið.  762 þúsund kr fara síðan í "ókeypis" almannatryggingar og velferðarmál, og 380 þúsund kr fara síðan í vaxtagjöld fyrir lán, sem stjórnmálamenn hafa tekið."

Gjalda verður varhug við stjórnmálamönnum, sem hafa fátt annað fram að færa en loforð um, að hið opinbera greiði alls kyns kostnað fyrir skattborgarann.  Þá fyrst er efnahag hans hætta búin. Reikningarnir fyrir örlætisgjörninga stjórnmálamanna lenda allir hjá launafólki og öðrum neytendum. Að styðja stjórnmálaflokka örlætisgjörninganna í kosningum mun von bráðar lenda sem bjúgverpill í kjöltu kjósenda.

 

Samkvæmt lífskjararannsóknum Hagstofunnar er jöfnuður lífskjara hvergi meiri innan OECD en á Íslandi.  Hagfræðingar hafa varað við afleiðingum þess að auka hann meira, því að slíkt getur eyðilagt hvata einstaklinga til að sækja fram til bættra lífskjara, t.d. með því að afla sér menntunar.  Ef það er ekki fjárhagslega eftirsóknarvert að afla sér aukinnar þekkingar eftir grunnskólanám, þá mun Ísland dragast aftur úr í lífskjörum, og hér magnast enn skortur á iðnaðarmönnum og háskólamenntuðum sérfræðingum. 

Tveir mælikvarðar á tekjujöfnuð eða öllu heldur ójöfnuð eru Gini-stuðullinn og Fimmtungsstuðullinn.  Sá fyrr nefndi er 0, þegar allir fá sömu tekjur.  Það er hvorki eftirsóknarvert né raunhæft að reyna að koma slíku á, þótt æstustu vinstri sinnar telji það e.t.v. Gini er 100 %, ef einn fær allar tekjur þjóðfélagsins.  Það er argasta ósanngirni og sjúkt samfélag, sem leyfir slíkt.  Margt bendir til, að Gini á bilinu 22 %-25 % henti íslenzka samfélaginu. 

Fimmtungsstuðull, FS, er hlutfall á milli meðaltekna í efsta og neðsta tekjufimmtungi.  Hann er jafnframt lægri á Íslandi en í öðrum löndum (eins og Gini): 

  • Ár      Gini      FS
  • 2009    29,6 %    4,2
  • 2010    25,7 %    3,6
  • 2011    23,6 %    3,3
  • 2012    24,0 %    3,4
  • 2013    24,0 %    3,4
  • 2014    22,7 %    3,1
  • 2015    23,6 %    3,4 

Á samdráttarárinu mikla, 2009, jókst tekjuójafnrétti mikið.  Á hagvaxtarárinu 2015 er tekjujöfnuðurinn jafn eða meiri en á stöðnunartímanum 2010-2013.  Á hagvaxtarskeiðum bera allir meira úr býtum en áður, og á núverandi hagvaxtarskeiði á Íslandi hefur lífskjarabati lægri tekjuhópanna verið hlutfallslega meiri en hinna. 

Viðskiptablaðið birti þann 6. október 2016 yfirlitsgrein um þróun eignastöðu mismunandi þjóðfélagshópa:

"Eignastaðan batnar",

og þar kemur fram, að eignastaða hinna lakar settu hefur tekið stakkaskiptum á þessu kjörtímabili, sem færir sönnur á, að eignajöfnuður eykst í góðæri:

"Hagstofan birtir einnig tölur um eiginfjárstöðu, flokkaða eftir tíundarhlutum.  Árið 2010 voru 4/10 hlutar þjóðarinnar með neikvætt eigið fé, en í árslok 2015 voru 2/10 hlutar þjóðarinnar með neikvætt eigið fé.  Þriðja tíundin komst ekki í jákvæða eiginfjárstöðu fyrr en í fyrra. 

Á tímabilinu 2010-2015 hefur hagur fjórðu tíundarinnar vænkazt mest, hlutfallslega.  Hún var með neikvæða eiginfjárstöðu um MISK 613 árið 2010, en var komin í jákvæða eiginfjárstöðu upp á miaISK 6,1 í fyrra. Hlutfallslega hefur eiginfjárstaða tíunda hlutarins, þ.e.a.s. þess hluta þjóðarinnar, sem mest eigið fé á, aukizt minnst, eða um 39 % á tímabilinu.  Árið 2010 átti þessi hópur fólks um 86,4 % af heildareiginfé landsmanna, en árið 2015 var hlutfallið komið í 63,7 %."

Þarf frekari vitnana við um það, að jöfnuður hefur vaxið í góðærinu á þessu kjörtímabili ?  Að halda öðru fram, eins og Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, gerir purkunarlaust, er ekkert annað en bölmóður og ósannindavaðall.  Hún á ekki að komast upp með það að hefja eftir kosningar tangarsókn gegn lífskjörum almennings undir því yfirskyni, að nauðsynlegt sé að auka samneyzluna til að auka aftur jöfnuðinn í samfélaginu.  Slíkt tal er uppspuni og þvættingur.

Síðan stóð í téðri grein í Viðskiptablaðinu um efnahagshorfurnar:

"Greiningardeild Arion-banka sagði í síðustu hagspá sinni, að aðstæður í efnahagslífinu væru til þess fallnar að auka bjartsýni, atvinnuleysi væri með minnsta móti, afnám hafta væri komið vel á veg og hagvaxtarhorfur væru betri en í flestum þróuðum ríkjum. Af þeim 35 ríkjum, sem mynda OECD, voru aðeins 3 ríki, sem gátu státað af meiri hagvexti en Ísland á fyrsta fjórðungi ársins [2016]."

Það er ljóst, að núverandi ríkisstjórn og þingmeirihluta hennar hefur um allt það, er mestu máli skiptir, tekizt svo vel upp við stjórnun landsins, að viðkomandi stjórnmálaflokkar eiga hrós skilið og rós í hnappagatið frá kjósendum í næstu Alþingiskosningum, enda er hinn valkosturinn alveg skelfilegur. 

Ríkisstjórnin hefur reynzt róttæk umbótastjórn í þeim skilningi, að hún hefur reynzt þess umkomin að framkvæma kerfisbreytingar, sem sveimhugar stjórnarandstöðunnar láta sig ekki einu sinni dreyma um, því að þar á bæ fer allt púðrið í vangaveltur um fánýti á borð við nýja stjórnarskrá, eins og Ísland væri Þriðja heims land, fjárhagslega aftöku útgerðarmanna, sem engum hérlendis gagnast, fyrirfram greiddar bætur, sem eru hlægileg vitleysa, gælur við skattahækkanir og þjóðaratkvæðagreiðslu um það, hvort Ísland eigi að taka upp slitinn þráð í viðræðum um inngöngu Íslands í ESB.  Hið síðast nefnda mundi gera Íslendinga að athlægi um alla Evrópu, en til samkomulags við blinda aðdáendur ESB mætti þó spyrja þjóðina, hvort hún vilji ganga í ESB, en það er reyndar ekki kostnaðarins virði að spyrja, þegar svarið er löngu vitað með vissu. 

Ríkisstjórnin hélt svo vel á spilunum gagnvart slitabúum föllnu bankanna, að ríkissjóður hreppti frá þeim eignir, sem eru hærri en tap ríkissjóðs á gjaldþroti sömu banka.  Hún hefur jafnframt létt á "snjóhengju aflandskróna", svo að haftaafnám er mögulegt og þegar framkvæmt að nokkru leyti.  Þetta hafði stjórnarandstaðan hvorki hugmyndaflug né getu til að gera, enda voru vinstri flokkarnir handbendi fjármálaafla á valdatíma sínum 2009-2013, sem hámarki náði með því að færa kröfuhöfunum nýju bankana tvo á silfurfati.  Þvílík endemis stjórnsýsla. 

Af öðrum umbótamálum ríkisstjórnarinnar má nefna menntamálin.  Þar lá Teflon-Kata á fleti fyrir árin 2009-2013 og var óttalega framkvæmdalítil, enda í heljargreipum sérhagsmuna innan þessa málaflokks, þar sem VG á hauka í horni stéttarfélaga kennara.  Helzt vann hún sér það til frægðar að henda peningum í LÍN til að lána stúdentum erlendis algerlega án þarfagreiningar fyrir hvern stað.  Á síðustu dögum haustþingsins 2016 þvældist hún síðan fyrir merku umbótafrumvarpi Illuga Gunnarssonar, arftaka sínum á stóli menntamálaráðherra, um LÍN, þar sem átti að færa sjóðinn til nútímahorfs og þess, sem þekkt er með hliðstæða sjóði á hinum Norðurlöndunum.  Stúdentahreyfingar á Íslandi hvöttu Alþingi eindregið til að samþykkja frumvarp Illuga, en andstaðan við róttækar umbætur var svo rík á meðal stjórnarandstöðunnar, að henni tókst að draga málið svo á langinn, að ekki vannst tími til að afgreiða umbótafrumvarp Illuga sem lög frá Alþingi.  Þessi mistök þingsins verður að skrifa mest á Teflon-Kötu, formann VG, sem hefði getað greitt leið þessa umbótafrumvarps.  Nú er meðalaldur háskólastúdenta við útskrift með BA eða BSc gráðu 31 árs, sem er mun hærri aldur en annars staðar tíðkast.  Í frumvarpi Illuga var fólginn árangurshvati, og slíkt er eitur í beinum afturhaldsins. 

Annað afar tímabært umbótamál er jöfnun lífeyrisréttinda allra landsmanna.  Nú hafa sérhagsmunahópar í röðum opinberra starfsmanna, sem augsýnilega hafa asklok fyrir himin, stöðvað framgang þessa mikla réttlætismáls, þótt ríkisstjórnin hafi útvegað stórfé til að fullfjármagna lífeyrissjóði opinberra starfsmanna, sem eru einu lífeyrissjóðir landsins, sem ekki eiga fyrir skuldbindingum sínum í framtíðinni, eins og nú standa sakir.  Ríkissjóður stendur þar reyndar í ábyrgð, og með fullfjármögnun átti að taka það sjálfsagða skref að afnema þessa ríkisábyrgð.  Á öllum sviðum á að draga úr ríkisábyrgð til að draga úr hættunni á ríkisgjaldþroti, þegar næsti brotsjór ríður yfir íslenzka hagkerfið. Jöfnun lífeyrisréttinda í einkageira og hinum opinbera geira atvinnulífsins er stórfellt réttlætismál, og auðvitað dregur afturhaldið lappirnar í slíku máli.  Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá.    

 

 


Bloggfærslur 19. október 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband