Ágústus og ellilífeyririnn

Ottó von Bismarck var stjórnmálamaður, sem lét verkin tala, enda sameinaði hann þýzku ríkin "með járni og blóði". Hann hirti Frakka og sameinaði Þjóðverja undir stjórn Prússa í Berlín 1871. Hann var stjórnskörungur, og lengi hefur til hans verið vitnað sem höfundar lífeyriskerfis í Evrópu.

Nýlega rakst blekbóndi hins vegar á greinina:

"Fade to grey", sem birtist í The Economist, dags. 24. september 2016, og verður gripið niður í upphaf hennar með lauslegri þýðingu:

"Ágústus, keisari, komst til valda í krafti einkahers síns.  Að fengnum völdunum var honum skiljanlega mikið í mun að tryggja tryggð hermanna sinna við rómverska ríkið.  Hann fékk þá ljómandi góðu hugmynd að bjóða þeim eftirlaun, sem þjónað höfðu í hernum lengur en 16 ár (seinna 20 ár) að andvirði 12 árslauna hermannanna í reiðufé eða landareign. 

Eins og Mary Beard, sagnfræðingur, útskýrir í Rómverjasögu sinni, "SPQR", var þetta loforð gríðarlega dýrt.  Hernaðarútgjöld og lífeyrir hermanna soguðu til sín helminginn af skatttekjum rómverska ríkisins. 

Keisarinn var ekki sá síðasti til að vanmeta kostnaðinn við eftirlaun. Nú eru um allan heim að koma upp vandamál við fjármögnun ellilífeyris.  Rahm Emanuel, borgarstjóri Chicago-borgar, berst í bökkum við að bjarga lífeyriskerfi borgarinnar, en nú stefnir kerfið í þrot innan 10 ára.  Sömu sögu er að segja af fleiri borgum Bandaríkjanna, BNA, og sömu sögu er að segja af stórum fyrirtækjum í BNA og á Bretlandi og víðar, sem ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar hvíla á. Nú eru að jafnaði aðeins 75 % lífeyrisskuldbindinga brezkra fyrirtækja fjármögnuð." 

Í þessu samhengi mega Íslendingar hrósa happi, en lífeyriskerfi Íslendinga er einstaklega sterkt, og eftir fullnustu SALEK-samkomulagsins hefur ríkisstjórn Íslands nú stigið það framfaraspor að samræma iðgjöld og réttindi allra landsmanna, óháð vinnuveitanda, og loksins fullfjármagnað lífeyriskerfi opinberra starfsmanna með um miaISK 100 framlagi.  

Eignir íslenzkra lífeyrissjóða nema nú um miaISK 3500, sem er um 1,5 x VLF(is).  Holland er bezt statt í þessum efnum allra Evrópulanda, ef olíusjóður Norðmanna er undanskilinn, enda er hann ekki lífeyrissjóður.  Eignir hollenzkra lífeyrissjóða nema 2,0 x VLF(ho), en með miklum hækkunum iðgjalda, sem urðu til lífeyrissjóða starfsmanna á almenna vinnumarkaðinum innan ramma SALEK-samkomulagsins í sumar, þá gæti þetta mark, 2,0 x VLF, náðst á áratug. 

Með haftalosun opnast fjárfestingarmöguleikar erlendis fyrir lífeyrissjóðina og aðra hérlendis, en það eru fáir fjárfestingarkostir girnilegir erlendis, eins og nú standa sakir með stýrivexti um og undir núlli og hlutabréf á fallanda fæti í stöðnuðum hagkerfum.  Skuldabréfaávöxtun er með allægsta móti í Evrópu nú um stundir. Þá verður enn vandasamara að stjórna fjárfestingum sjóðanna innanlands, svo að þeir verði ekki allt of fyrirferðarmiklir.  

Lífeyrissjóðirnir hafa verið orðaðir við kaup á hlutum í ríkisbönkunum.  Það er afspyrnu slæm hugmynd að láta lífeyrissjóði fjárfesta í svo áhættusömum rekstri sem bankastarfsemi er, og þar með sætu lífeyrissjóðir beggja vegna borðs, því að þeir eiga í stórum hluta íslenzks atvinnulífs. 

Hins vegar eru orkufyrirtæki landsins kjörinn fjárfestingarkostur (þó ekki olíuleitarfyrirtæki) fyrir lífeyrissjóði, sem þurfa áreiðanlega og jafna ávöxtun yfir langt tímabil.  Þeir gætu hæglega keypt allt að 25 % hlut í raforkuvinnslufyrirtækjum ríkisins.   

Lífeyriskerfið er ómetanleg trygging fyrir félagsmenn lífeyrissjóðanna, og fjárfestingar þeirra mega aldrei bera einkenni áhættusækni. Það hefur því miður stundum skort ábyrgðartilfinningu og/eða fjármálavit, hvað fjárfestingar lífeyrissjóðanna áhrærir. 

Lífeyrir sjóðanna er viðbót við lífeyri Tryggingastofnunar (TR), og greiðslur úr lífeyrissjóðunum eiga alls ekki að valda skerðingu á greiðslum TR, sem líta verður á sem jöfn borgaraleg réttindi allra hérlandsmanna. Síðasta samþykkt ríkisstjórnarinnar um 280 kkr ellilífeyri til einstaklinga frá TR og 25 kkr frítekjumark á allar viðbótar tekjur við greiðslur úr TR er gott skref í rétta átt, en frítekjumarkið þarf að verða fjórfalt hærra á næsta kjörtímabili. Frumvarp ríkisstjórnarinnar um umbætur á ellilífeyriskerfinu mun þýða 10 miakr aukningu í útlögðum kostnaði ríkissjóðs, en vegna beinna og óbeinna skatta fær hann líklega 4 miakr til baka á sama árinu.

Á meðan summa greiðslna úr TR og úr lífeyrissjóði er undir dæmigerðum viðmiðunarmörkum framfærslukostnaðar frá Velferðarráðuneytinu, sem nú nema 402,3 kkr, er siðferðislega rangt og í andstöðu við hugmyndafræðina um einkasparnað í lífeyrissjóðunum að skerða greiðslur TR.  Nú nema þessar skerðingar á greiðslum frá TR 45 % af greiðslum úr sameignarsjóðum lífeyrissjóðanna, en greiðslur úr séreignasjóðum þeirra koma að vísu ekki til frádráttar.  Þó það nú væri. Af þessum ástæðum þarf frítekjumarkið að hækka úr 25 kkrí 100 kkr á mánuði. 

Jaðarskattáhrif þessarar 45 % skerðingar hafa lítið komið til umræðu, en þau eru gríðarleg, eiginlega skelfileg, því að skerðingin bætist við tekjuskattheimtu 37,13 % af fyrstu 336 kkr, að teknu tilliti til persónuafsláttar, og 38,35 % af næstu 501 kkr.  Þetta milliþrep tekjuskattsins verður að vísu afnumið um áramótin 2016/2017, ef áform núverandi ríkisstjórnar ná fram að ganga, sem eru óvissu undirorpin vegna Alþingiskosninga, sem fram fara 29. október 2016, og hugsanlegra nýrra valdhafa í kjölfarið, sem engan skilning hafa á nauðsyn þess að draga úr jarðarskattaáhrifum.   

Hver er jaðarskattur af lífeyri, X, frá lífeyrissjóði ?: [0,3713*X + 0,45*0,6287*X > 0,65*X], þ.e. meira en 65 %. Þetta er reginhneyksli og þekkist vart nokkurs staðar  annars staðar á byggðu bóli. Engar skerðingar á greiðslum TR ættu að tíðkast fyrir aðrar tekjur upp að heildartekjum rúmlega 400 kkr (framfærsluviðmið Velferðarráðuneytis), og hætta ætti tekjuskattsálagningu á greiðslur frá TR. 

Slíkt afnám skattheimtu mundi ekki sízt gagnast þeim, sem litlar sem engar tekjur hafa annars staðar frá.  Þetta mundi lítil áhrif hafa á tekjustreymið til ríkissjóðs, en um 10 þúsund manns mundi muna mikið um þetta "skattaafsal", og fyrir rúmlega 40 þúsund manns er þetta sjálfsagt réttlætismál. 

Það er svipaða sögu að segja um afnám skerðinga frá TR upp að heildartekjum rúmlega 400 kkr.  Þær mundu hafa lítil áhrif á tekjustreymið til ríkissjóðs.  "Tekjuafsal" ríkisins (orðalag vinstri manna) eru tiltölulega lágar upphæðir á mælikvarða ríkissjóðs, og þær mundu að miklu leyti skila sér til baka til hins opinbera á formi annarrar skattheimtu. 

Tryggingamál ríkisins, almannatryggingar, gagnvart borgurunum hafa verið í ólestri, en standa nú til bóta.  Núverandi ríkisstjórn hefur gert góða atlögu að einföldun og umbótum á ellilífeyriskerfinu, en betur má, ef duga skal.  Það eru sjálfsagðar umbætur á þessu kerfi að afnema beina skattheimtu af greiðslum TR og að innleiða frítekjumark skerðinga TR um 100 kkr, þannig að skerðing á tekjum, sem eru undir framfærsluviðmiði Velferðarráðuneytisins á hverjum tíma, sem nú jafngildir rúmlega 400 kkr, verði liðin tíð.  Með þetta fyrirkomulag mættu eldri borgarar þessa þjóðfélags vel við una, og þyrftu yfirleitt hvorki að bera kvíðboga fyrir fjárhag elliáranna né að hafa samvizkubit gagnvart fjárhagsbyrði á TR.  

 


Bloggfærslur 9. október 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband