Alvarlegar ásakanir

Mjög óþægilegt mál fyrir þjóðina hefur undanfarin misseri grafið um sig varðandi 3. stoð ríkisvaldsins, dómsvaldið, en það eru ásakanir hæstaréttarlögmanns og fyrrverandi dómara við Hæstarétt, Jóns Steinars Gunnlaugssonar, JSG, í garð fyrrverandi meðdómara sinna, sem eftir öllum sólarmerkjum að dæma hafa verið vanhæfir til að dæma um lögbrot fyrrverandi bankamanna og virðast hafa beitt sér með ósæmilegum hætti gegn honum í aðdraganda skipunar hans í stöðu hæstaréttardómara. 

Jón Steinar hefur birt nokkrar greinar í Morgunblaðinu og skrifað bækur um efnivið, sem er þess eðlis, að ekki er hægt að láta liggja í þagnargildi, nema enn meira tjón hljótist af.  Ef Alþingi og Innanríkisráðherra ætla á nýju ári, 2017, að stinga höfðinu í sandinn, þegar jafnalvarlegar ásakanir eru hafðar uppi af fyrrverandi innanbúðarmanni í Hæstarétti í garð nokkurra dómara æðsta dómstigs landsins, einkum þess áhrifamesta og langvarandi forseta réttarins, þá bregðast hinar stoðir ríkisvaldsins líka skyldum sínum.  Er þá fokið í flest skjól, og ekki verður þá önnur ályktun dregin en alvarleg meinsemd (rotnun) hafi náð að grafa um sig á æðstu stöðum.  Það er óhjákvæmilegt að stinga á slíku kýli, þótt sársaukafullt verði,  og fjarlægja gröftinn. 

Grein JSG í Morgunblaðinu 2. janúar 2017:

"Hvað láta Íslendingar bjóða sér ?",

hefst þannig:

"Fráfarandi forseti Hæstaréttar og samdómarar hans hafa brotið gegn lagaskyldum sínum og misfarið með vald sitt.  Þá þarf að kalla til ábyrgðar."

Fram kemur í greininni, að staðfest leyfi rétt bærs aðila til handa hæstaréttardómara að eiga ákveðin hlutabréf og fjalla samtímis um málefni sakborninga í sama eða tengdum félögum (banka), hafi ekki verið lagt fram. Síðan segir:

"Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu, að vísa skyldi ætluðum sökum hinna ákærðu í þessum málum frá dómi í stórum stíl.  Allir sáu, að hér voru á ferðinni úrlausnir, sem engu vatni héldu.  Er gerð grein fyrir þessu á bls. 378-384 í bók minni, "Í krafti sannfæringar", sem út kom á árinu 2014."

Síðan er drepið á málaferli gegn bankamönnum fyrir verknaði, er talið var, að veikt hefðu bankana í Hruninu og e.t.v. átt þátt í því:

"Sumir dómaranna höfðu verið þátttakendur í fjármálaumsvifum á vettvangi bankanna fyrir hrunið, mismiklum þó.  Þar virðist fráfarandi forseti réttarins hafa verið sýnu stórtækari en aðrir.  Þeir urðu svo fyrir umtalsverðu fjártjóni af völdum þess.  Um þetta vissi enginn. 

Þetta aftraði þeim ekki frá að taka sæti í þessum málum og fella þunga dóma yfir hinum ákærðu.  Það hefur vakið athygli, að í mörgum þessara mála hafa hinir ákærðu verið sakfelldir fyrir umboðssvik án þess, að fyrir hafi legið ásetningur þeirra til auðgunar á kostnað viðkomandi banka og án þess að sérstök hætta hafi einu sinni verið á slíku."

Í augum leikmanns eru dómarar við Hæstarétt hér sakaðir um að hafa látið sín viðskiptatengsl við fjármálastofnun hafa veruleg áhrif á úrskurð sinn í mikilsverðum dómsmálum.  Eins og allt er í pottinn búið, gefur augaleið, að ekki verður undan því vikizt að fá botn í málið og leiða það til lykta, svo að þeir axli sín skinn, sem brotið hafa af sér, en hinir verði sýknir saka. 

Síðan skýrir JSG frá illvígri aðför dómara við Hæstarétt að sér í þremur liðum til að hræða hann frá að sækja um embætti hæstaréttardómara 2004 með hótunum um misbeitingu meirihluta dómaranna á umsagnarrétti sínum um umsækjendur.  Þetta er gjörsamlega siðlaust athæfi dómaranna, ef satt er, og rýrir svo mjög traust til þeirra, að Alþingi og Innanríkisráðherra er með engu móti stætt á öðru en að hleypa opinberri rannsókn af stokkunum til að komast til botns í málinu. 

Nú skal ekki fella dóm hér, enda engin efni til þess, en ef samsæri á vinnustað gegn umsækjanda um starf á sama vinnustað kæmist upp og sannaðist, væri það hvarvetna talið ólíðandi óþokkabragð, þar sem vegið væri freklega að borgaralegum réttindum einstaklings og að orðstír hans, og einnig vinnur einelti af þessu tagi augljóslega gegn hagsmunum vinnustaðarins og vinnuveitandans, sem kappkostar að ráða starfsmann með eftirsótta hæfileika, getu og þekkingu, en alls ekki þann, sem líklegastur er til að falla bezt í klíkukramið á vinnustaðnum og láta bezt að stjórn klíkustjórans á hverjum tíma, ef slíkur er á viðkomandi vinnustað.  Ef rökstuddur grunur kemur upp um, að eitthvað þessu líkt viðgangist í Hæstarétti Íslands, eins og nú hefur komið á daginn, eru viðkomandi stjórnvöld, Alþingi og Innanríkisráðherra, að lýsa yfir blessun sinni á slíku ófremdarástandi með aðgerðarleysi. Slíkt hlýtur þá að lokum að hafa stjórnmálalegar afleiðingar.

"Dómarar við Hæstarétt hafa ekki hikað við að brjóta gegn lagaskyldum sínum og misfara með vald sitt til að koma fram niðurstöðum, sem þeim hafa fundizt æskilegar, hvað sem réttum lagareglum líður.  Þeir hafa þá að líkindum treyst því, að þeir gætu farið fram í skjóli leyndar um atriði, sem skipt hafa meginmáli fyrir dómsýslu þeirra." 

Nú stendur svo á, að þetta er líklega harðasta og alvarlegasta gagnrýni, sem komið hefur fram á störf hæstaréttardómara frá stofnun Hæstaréttar Íslands.  Væri þá ekki við hæfi, að yfirvöldin rækju af sér slyðruorðið og gripu til réttmætra aðgerða til að komast til botns í málinu og bæta orðstír Hæstaréttar í bráð og lengd ?

Lokahluti greinar JSG ber einmitt yfirskriftina:

"Glataður orðstír":

"Það er nauðsynlegur þáttur í aðgerðum til að endurvekja traust þjóðarinnar til Hæstaréttar Íslands, að dómarar við réttinn verði, þar sem það á við, látnir bera ábyrgð á afar ámælisverðu háttalagi sínu á undanförnum árum."rosabaugur251px1

 

 


Bloggfærslur 7. janúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband