Landshlutahagsmunir og fiskeldi

Samkvæmt athugunum bandarískra fræðimanna (Fiskifréttir 14.09.2017) er fræðilega mögulegt að ala 15 mia t (milljarða tonna) af fiski í heimshöfunum.  Þetta er 100 falt núverandi eldi, svo að nægt próteinframboð á að verða í framtíðinni fyrir vaxandi mannkyn að því tilskildu, að höfin verði ekki of menguð fyrir allt þetta eldi.  Það horfir óbjörgulega með höfin núna, t.d. vegna plastagna, sem sleppt er í gegnum síur fráveitukerfa út í hafið, og vegna plasts á reki í höfunum, og brotnar þar niður.  Plast í vefjum líkama dýra og manna er þeim hættulegt. Íslenzk heilbrigðis- og umhverfisverndaryfirvöld eru svo aftarlega á merinni, að þau hafa ekki hugmynd um, hvort þetta er vandamál í hafinu við Ísland eða í íslenzkum vatnsveitum.  Þau hafa sofið á verðinum og ekki í fyrsta sinn. 

Að færa út kvíarnar frá landeldi og strandeldi til opinna hafsvæða er mögulegt vegna hönnunar öflugra sjókvía, sem reist er á hönnun olíuborpalla og olíuvinnslupalla.  Norðmenn eru þar í fararbroddi, og á þessu ári munu þeir koma fyrir fyrstu eldiskvíum þessarar gerðar á norsku hafsvæði.  Strandeldi þeirra við Noreg hefur framleiðslugetu um 1,3 Mt/ár (M=milljón) af laxi, en stjórnvöld áforma tvöföldun á næstu 10 árum og fimmföldun, þegar full tök hafa náðst á starfseminni.  Aukningin verður langmest í hafeldinu. 

Þá er ekki útilokað, að íslenzk stjórnvöld muni heimila slíkt hafeldi við Ísland, þegar strandeldið hefur náð viðurkenndum burðarþolsmörkum, sem nú er aðeins 71 kt/ár (k=þúsund).  Þetta kann að aukast í tímans ráð, og framleiðslan að ná 100 kt/ár árið 2040 með eldi í landkerum líka. Það verður áhugavert fyrir hérlandsmenn að fylgjast með hinu nýja hafeldi Norðmanna, arðsemi þess og rekstrarlegu öryggi, t.d. meðal strokhlutfalli á ári úr kvíunum.

Með núverandi burðarþolsmati var Austfirðingum úthlutað 21 kt laxeldis og Vestfirðingum 50 kt.  Einkum var lágt burðarþolsmat fyrir Austfirði gagnrýnt og þótti hæpið, að suðurfirðirnir, t.d. Berufjörður, þyldu ekki meira en metið var.  Á Austfjörðum er atvinnuástand gott og fjölbreytilega atvinnu að finna, sem tengist landbúnaði, sjávarútvegi, ferðaþjónustu, samgöngum og iðnaði.  Svo er t.d. kjölfestufyrirtækinu í fjórðunginum, Fjarðaáli á Reyðarfirði, fyrir að þakka. 

Því fer fjarri, að jafnöflugt atvinnulíf sé fyrir hendi á Vestfjörðum.  Af þessum sökum ríður Vestfirðingum á, að eldisfyrirtæki, sem sótt hafa um starfsleyfi, fái þau sem fyrst.  Þar er stærsti hængurinn á, að Hafrannsóknarstofnun telur ekki þorandi að hefja starfsleyfisúthlutanir í Ísafjarðardjúpi og á Jökulfjörðum.  

Hvers vegna er þetta ekki réttlætanleg niðurstaða Setjum sem svo, að sú málamiðlun verði gerð sökum hagsmunaárekstra, við t.d. ferðaþjónustu, að leyfa ekki starfrækslu eldiskvía í Jökulfjörðum.  Þá standa eftir um 25 kt í Ísafjarðardjúpi samkvæmt núverandi burðarþolsmati.  Í ljósi þess, að árin 2016-2017 hefur ekki verið tilkynnt um neitt strok úr laxeldiskvíum á Vestfjörðum og enginn eldislax hefur veiðzt þar, sem ætla megi, að sloppið hafi á þessu tímabili, má álykta, að gjörbylting til hins betra hafi orðið í rekstri laxeldiskvíanna með nýrri hönnun þeirra og vinnu við þau samkvæmt ströngum norskum staðli.  

Ef gert er ráð fyrir meðalfjölda eldislaxa í kvíum í Ísafjarðardjúpi 10 M m.v. 25 kt og hámarks leyfilega blöndun 4 % við villta stofna þar í ám, þá verður hámarks leyfilegt sleppihlutfall úr kvíunum og upp í árnar 4 ppm/ár.  Það eru meiri líkur en minni á, að laxeldisfyrirtækin á Vestfjörðum hafi þegar náð þessu, og rekstraröryggið mun bara vaxa með tímanum.  

Það er almennur vilji fyrir því á Vestfjörðum, að strax verði veitt starfsleyfi í Ísafjarðardjúpi upp að burðarþolsmörkum. Til marks um það var samþykkt fjölsótts fundar á vegum Fjórðungssambands Vestfjarða 24. september 2017 með 4 ráðherrum um að leyfa laxeldi í Ísafjarðardjúpi.  Í ljósi atvinnumála á norðanverðum Vestfjörðum er nú rétt að snúa við slagorði vinstri grænna og taka ákvörðun á grundvelli mikils rekstraröryggis strandkvíanna og þeirrar afstöðu "að leyfa íbúunum (homo sapiens) að njóta vafans".

Hvað gæti í versta tilviki tapazt ?  

Ekki líffræðileg fjölbreytni, því að ólíkt laxastofnunum á Suðurfjörðunum eru laxarnir í ánum, sem renna út í Ísafjarðardjúp, ekki af gamalgrónum vestfirzkum stofnum, mynda ekki sjálfstæðan erfðahóp, heldur hafa verið ræktaðir tiltölulega nýlega í ánum.  Það verður þar af leiðandi enginn óafturkræfur erfðafræðilegur missir, þótt meira en 4 % laxanna í ánum verði eldislaxar.

Á Suðurfjörðunum hefur þetta (eldislaxar í ám > 4 % af villtum löxum) að líkindum gerzt á fyrri árum í einhverjum tilvikum, en það hefur samt ekki verið sýnt fram á skaðlegar erfðabreytingar eða úrkynjun laxastofnanna þar, sem eru hins vegar upprunalegir og mynda sjálfstæðan erfðahóp.  Eldislaxinn hefur blandazt urriða þar, en afkvæmin eru ófrjó.

Nú hefur Arnarlax starfsleyfi fyrir 14,5 kt af laxi í Patreksfirði, Tálknafirði og Arnarfirði og hefur sótt um leyfi fyrir 10 kt í Ísafjarðardjúpi og sama í Jökulfjörðum.  Það verður að gæta samræmis við áhættumatið og nýta nýjustu gögn hvers tíma. 

Það eru gríðarlegir hagsmunir í húfi á Vestfjörðum, og þess vegna er ekki verjanlegt að draga lappirnar að óþörfu.  KPMG metur það svo, að á Vestfjörðum verði til 16 ný störf fyrir hvert framleitt kt.  Ef leyft verður að hafa 25 kt í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi, eins og eðlilegt má telja, e.t.v. í áföngum, þá munu verða til 400 ný störf á Vestfjörðum (um 13 % aukning) og allt að 150 ný störf annars staðar á landinu (samkvæmt norskum rannsóknum verða til alls 22 ný störf per kt laxeldis). 

Samkvæmt KPMG mun veltan nema 57,5 MISK/starf, en betri mælikvarði er verðmætasköpunin sjálf, sem styður við hagvöxtinn í landinu.  Samkvæmt norskum rannsóknum nemur hún 2,7 MNOK/starf eða 37 MISK/starf. Þetta gefur tæplega 15 miaISK/ár aukna verðmætasköpun á Vestfjörðum og gæti aukið verga landsframleiðslu Íslands um tæplega 1 %, svo að hér er um hagsmunamál landsins alls að ræða.  

Vestfirðingar hafa mátt búa við þá slæmu stöðu áður en fiskeldið kom til skjalanna, að íbúum í landshlutanum hefur fækkað.  Ef stjórnvöld setja ekki óþarfar hömlur á vöxt og viðgang laxeldisins upp að metnu burðarþoli fjarðanna, þá mun fólksfækkun verða snúið í fólksfjölgun, svo að árið 2040 gæti hafa orðið 5000 manna fjölgun þar eða 100 %. Þótt þessi jákvæða þróun Vestfjarða verði knúin áfram af einkaframtakinu, eins og eðlilegt er, setja stjórnvöld starfseminni umgjörð með leyfisveitingum og innviðauppbyggingu og geta hæglega kastað skít í tannhjólin.  Þetta ættu Vestfirðingar að hafa ofarlega í huga, þegar þeir ganga að kjörborðinu 28. október 2017, og huga að því, hvaða stjórnmálaflokkur er líklegastur til að styðja við bakið á þeim í þeirri merkilegu atvinnu- og þyggðaþróun, sem getur nú verið framundan á Vestfjörðum.  

Til þess að tækifærin verði nýtanleg, verða stjórnvöld nefnilega að hjálpa til við uppbyggingu nauðsynlegra innviða.  Þau mega ekki leggja stein í götu Hvalárvirkjunar, og þau verða að flýta áætlunum Landsnets um að reisa aðveitustöð á Nauteyri, sem verður lykillinn að langþráðri hringtengingu Vestfjarða um Ísafjörð og aðveitustöð Mjólká á traustu 132 kV/66 kV flutningskerfi.

Upphleyptur og klæddur vegur á láglendi frá Ísafirði suður til Patreksfjarðar og þaðan austur í Þorskafjörð er annað skilyrði fyrir því, að mannlífið fái að blómstra með þessum hætti á Vestfjörðum, sbr slagorðið: "Ísland allt blómstri".  Af því, sem fram kemur hér að ofan, yrðu fjárveitingar ríkissjóðs til þessara verkefna þjóðhagslega arðbærar, og ber að einhenda sér í þær tafarlaust.  

Hvaða stjórnmálaflokkum er trúandi fyrir þessu verkefni ? 

Alls ekki vinstri grænum, af því að þessi atvinnuuppbygging stríðir gegn grundvallar stefnu þeirra í atvinnumálum, þar sem hér er um beinar erlendar fjárfestingar að ræða og aukna nýtingu á náttúruauðlindum öðru vísi en með tronti ferðamanna um landið.  (Undantekning við stefnu VG er ráðstöfun ríkisins vegna PCC-kísilversins á Bakka.) Alræmt og heimskulegt slagorð þeirra, "látum náttúruna njóta vafans", getur bæði beinzt gegn auknu laxeldi og nýjum vatnsaflsvirkjunum á borð við Hvalárvirkjun.  Vinstri grænum er ekki treystandi til að styðja nein atvinnutengd framfaramál, sem tengjast náttúruauðlindum.  Þeirra hjartans mál er stofnun þjóðgarða með ærnum kostnaði fyrir ríkissjóð, og mundu þeir áreiðanlega gjarna vilja breyta Vestfjörðum í einn samfelldan þjóðgarð, þar sem íbúarnir væru hluti af verndaðri náttúru svæðisins.  Þetta vilja íbúarnir einmitt alls ekki, og skyldi engan undra.

Framsóknarflokkurinn verður vísast ekki til stórræðanna eftir kosningarnar 28. október 2017 og mun þurfa langan tíma til að sleikja sár sín, ef þau þá leiða hann ekki til ólífis. Hjaðningavígin á miðjunni verða henni vart til framdráttar. 

Píratar hafa engan áhuga fyrir atvinnumálum og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, enda nenna þeir ekki að ýja einni hugsun að þessum málum.  Frítt niðurhal af netinu og ný Stjórnarskrá eru þeirra mál.  Af fyrra málinu hafa þeir sjálfsagt margháttaða reynslu, en á seinna málinu hafa þeir ekkert vit, enda um margbrotið mál að ræða, sem stjórnlagafræðingar þurfa að véla um. Það er hins vegar hægt endalaust að túðra af takmarkaðri þekkingu um flókið og fjarlægt mál eins og nýja Stjórnarskrá.   

Um aðra flokka þarf varla að véla og lítið vitað um.  Afl þeirra verður annaðhvort ekkert eða sáralítið á Alþingi, ef svo fer fram sem horfir.  Dreifbýlisfólk má ekki við því að dreifa kröftunum um of eina ferðina enn.  

 

 


Bloggfærslur 10. október 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband