Haltrandi rafvæðing

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að Landsnet er á eftir tímaáætlunum sínum um uppbyggingu raforkuflutningskerfis landsins.  Fyrir vikið er 132 kV flutningskerfið oflestað (Byggðalínuhringurinn), og viðskiptavinir fyrirtækisins, dreifiveitur og endanlegir rafmagnsnotendur líða fyrir þessa stöðu.  Þetta hefur komið niður á atvinnuþróun í landinu, t.d. í Eyjafirði, og hefur tafið rafkatlavæðingu fiskimjölsverksmiðja. Málið er í öngstræti og þarfnast atbeina stjórnmálamanna til að uppræta það samfélagslega tjón, sem af þessu hlýzt.

 Ástandið verður verra með hverju árinu, sem líður, og kerfið er orðið mjög veikt, þegar það annar ekki toppálagi og hrynur við eina truflun á kerfinu, sem orðið getur fyrirvaralaust vegna atburða í rekstri stórra iðnfyrirtækja, eins og dæmin sanna, eða vegna veðurs.  Til að afnema flöskuhálsana, verður að veita áætlunum fyrirtækisins brautargengi strax, enda eru framkvæmdir þess afturkræfar, ef seinni kynslóðir sætta sig ekki við mannvirkin.

Nú eru stjórnarskipti framundan og samkvæmt skoðanakönnunum frá því síðla í september 2017 verður Vinstri hreyfingin grænt framboð forystuafl innan næstu ríkisstjórnar.  Vegna hefðbundinnar andstöðu þessa stjórnmálaflokks við nýjar virkjanir og flutningslínur blæs ekki byrlega fyrir raforkumálum landsins næstu árin.  Landið, sérstaklega landsbyggðin, má ekki við frekari stöðnun á þessu sviði.  Hér er um að ræða stórfellt hagsmunamál byggðanna.  Það skyldu landsbyggðarmenn hafa ríkulega í huga, þegar þeir ganga að kjörborðinu 28. október 2017.

Það blasir við, að flokkur, sem í orði kveðnu styður hröð orkuskipti, leggur í raun stein í götu þeirra með andstöðu sinni við nýjar virkjanir og styrkingu flutningskerfisins.  Það er fráleitt, sem t.d. Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, hefur haldið opinberlega fram, að rafbílavæðing jafngildi aðeins 1-2 % aukningu raforkunotkunar í landinu.  Gnýr Guðmundsson, rafmagnsverkfræðingur, hefur komizt að þeirri niðurstöðu í lokaritgerð sinni til meistaraprófs í rafmagnsverkfræði vorið 2017, að árið 2030 verði rafmagnsþörf rafmagnsfartækja á vegum landsins 769 GWh (rúmlega 4 % af núverandi notkun) og aflþörfin 172 MW (rúmlega 8 % af núverandi meðalafli) og að á árinu 2040 verði þessar tölur 1276 GWh (tæplega 7 %) og 324 MW (rúmlega 15 %).  Við þetta má bæta 62 MW árið 2030 vegna rafvæðingar fiskimjölsverksmiðja, yfir 100 MW vegna rafvæðingar hafnanna og 87 MW vegna aukningar almennrar notkunar árið 2030 frá 2016, alls a.m.k. 420 MW (20 %) viðbótar aflþörf án stóriðju árið 2030. Að stinga hausnum í sandinn gagnvart þessum staðreyndum jafngildir því að grafa undan orkuskiptunum. Það er þó "system í galskapet" hjá vinstri grænum, því að þeirra háttur er einmitt að stinga hausnum í sandinn, þegar raunveruleikinn knýr dyra í gerviveröld þeirra.

Ef orkuskiptin eiga að verða barn í brók, verður þegar í stað að hefja undirbúning að orkuöflun og orkuflutningi fyrir þau.  Treysta menn Vinstri hreyfingunni grænu framboði til að hafa forystu um þessi mál ?  Ef sú forysta á að verða öðru vísi en í skötulíki, verður sá flokkur að söðla um, og það eru litlar líkur á, að hugmyndafræðilega gaddfreðnir tréhestar sjái þörf á því eða geti það yfirleitt.

Það má gera því skóna, að kínversk stjórnvöld ætli að leiða Kína til forystu á mörgum tæknisviðum og í heimsviðskiptum og -stjórnmálum, en þau eru ekki gaddfreðnir tréhestar, þótt þau aðhyllist sína eigin útgáfu af kommúnisma. Í Kína er nú stærsti rafbílamarkaður heims, og stjórnvöld í Peking áforma að banna sölu á nýjum bílum, sem einvörðungu eru knúnir jarðefnaeldsneyti, til að draga úr mengun í kínverskum borgum, sem fyrir löngu er orðin háskaleg heilsu manna.  Norðmenn eru að íhuga að setja á slíkt bann hjá sér árið 2025 og Frakkar og Bretar 2040. Við hérlendis höfum gullin tækifæri í þessum efnum vegna endurnýjanlegrar og mengunarlítillar raforkuvinnslu og verðum að taka þessi mál föstum tökum, ef við eigum ekki að verða eftirbátar annarra á þessu sviði.  Er vinstri grænum treystandi til forystu í þessum efnum ?  Stefna þeirra og málflutningur bendir í aðra átt. Þetta og önnur innviðauppbygging mun sitja á hakanum, því að öllum viðbótar skatttekjum mun verða sóað í rekstur, sbr loforðaflaum upp á 200 miaISK/ár.  

Nú eru framleiddar um 1,2 M rafbíla á ári í heiminum, en árið 2025 er búizt við, að fjöldi þeirra hafi a.m.k. tífaldazt í 12 M og nemi þá um 10 % markaðarins.  Á Íslandi gengur rafbílavæðing óþarflega hægt, og er það vegna vanburðugrar hleðsluaðstöðu. Það er átaks þörf við fjölbýlishús og gististaði. 

Um 46 % nýrra bíla fara til bílaleiganna, og þær telja sér enn ekki fært að rafvæða flota sinn af ofangreindum orsökum.  Hlutfall tengiltvinnbíla og alrafbíla af heildarsölu nýrra bíla er þess vegna aðeins 9,0 % í ár, þótt hlutfallið til almennra nota sé 16,6 %.  Það væri ráð til að hraða þessari þróun að forgangsraða uppsetningu hleðslustöðva í samráði við samtök bílaleiganna.

Hafnir landsins hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til eflingar rafkerfis síns fyrir landtengingu allra skipa í höfn, þ.á.m. skemmtiferðaskipa.  Þar af leiðandi þarf ríkissjóður að efla orkusjóð, svo að hann geti veitt höfnunum styrki til að fara af stað með hönnun og háspennulagnir í samvinnu við dreifiveiturnar. Ríkissjóður mun síðan fá til baka virðisaukaskatt af raforkusölunni.     

  

 


Bloggfærslur 12. október 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband