Kolefnissektir, kolefnisbinding og rafbílavæðing

Það er mikið fjasað um loftslagsmál, og Katrín Jakobsdóttir talaði um þau sem eitt aðalmála væntanlegrar ríkisstjórnar hennar, Framsóknar, Samfylkingar og pírata, sem aldrei kom þó undir í byrjun nóvember 2017, þótt eggjahljóð heyrðist vissulega úr ýmsum hornum. Það er þó alls ekki sama, hvernig á þessum loftslagsmálum er haldið fyrir hönd Íslendinga, og landsmönnum hefur nú þegar verið komið í alveg afleita stöðu í þessum efnum með óraunsærri áætlanagerð um losun CO2 og lítilli eftirfylgni með sparnaðar- og mótvægisaðgerðum. Vonandi breytir komandi ríkisstjórn um takt í þessum efnum, þannig að fé verði beint til mótvægisaðgerða innanlands í stað sektargreiðslna til útlanda.  

Afleiðing óstjórnarinnar á þessum vettvanfi er sú, að búið er að skuldbinda landsmenn til stórfelldra sektargreiðslna til útlanda vegna framúrkeyrslu á koltvíildiskvótanum, sem yfirvöldin hafa undirgengizt.  Þessi kvóti spannar 8 ár, 2013-2020. 

Íslenzk yfirvöld hafa samþykkt, að Íslendingar mundu losa að hámarki 15,327 Mt (M=milljón) af koltvíildi, CO2, á þessu tímabili með þeim hætti, sem skilgreind er í Kyoto-bókuninni.  Þetta var frá upphafi gjörsamlega óraunhæft, enda nam losunin á 3 fyrstu árunum, 2013-2015, 8,093 Mt, þ.e. 53 % kvótans á 38 % tímabilsins.

  Vegna mikils hagvaxtar á tímabilinu 2016-2020 og hægrar framvindu mótvægisaðgerða má búast við árlegri aukningu á þessu tímabili þrátt fyrir 3,5 %/ár sparneytnari bílvélar og jafnvel 5 %/ár nýtniaukningu eldsneytis á fiskiskipaflotanum, svo að losunin verði þá 14,2 Mt árin 2016-2020.  Heildarlosunin 2013-2020 gæti þá numið 22,3 Mt, en yfirvöldin eru við sama heygarðshornið og áætla aðeins 21,6 Mt.  Hvar eru samsvarandi mótvægisaðgerðir stjórnvalda ?  Skrifborðsæfingar búrókrata af þessu tagi eru landsmönnum of dýrkeyptar.

Það er jafnframt útlit fyrir, að skipuleg binding koltvíildis með skógrækt og landgræðslu á þessu seinna Kyoto-tímabili verði minni en stjórnvöld settu fram í aðgerðaáætlun árið 2010. Það er einkennilegur doði, sem gefur til kynna, að of mikið er af fögrum fyrirheitum og blaðri í kringum þessa loftslagsvá og of lítið af beinum aðgerðum, t.d. til að stemma stigu við afleiðingum óhjákvæmilegrar hlýnunar, s.s. hækkandi sjávarborðs. Það er ekki ráð, nema í tíma sé tekið, þegar kemur að varúðarráðstöfunum.  Það þarf strax að ráðstafa fé í sjóð til þessara verkefna.

Ein talsvert mikið rædd aðgerð til að draga úr losun CO2 er að moka ofan í skurði til að stöðva rotnunarferli í þornandi mýrum, sem losar í meiri mæli um gróðurhúsalofttegundir en mýrarnar.  Áður var talið, að þurrkun ylli losun, sem næmi 27,6 t/ha á ári, og þar sem framræst land næmi 0,42 Mha (=4200 km2), væri árleg losun framræsts lands 11,6 Mt/ár CO2.

Nú hafa nýjar mælingar starfsmanna Landbúnaðarháskóla Íslands sýnt, að þessi einingarlosun er tæplega 30 % minni um þessar mundir en áður var áætlað eða 19,5 t/ha koltvíildisjafngilda, eins og fram kemur í Bændablaðinu, bls. 2, 2. nóvember 2017. 

Losun Íslendinga á koltvíldi vegna orkunotkunar, úrgangs, mýrarþurrkunar og annars árið 2016, var þá þannig:

Losun Íslendinga á koltvíildi, CO2, árið 2017:

  • Millilandaflug:        7,1 Mt   35 %
  • Iðnaður:               2,3 Mt   11 %
  • Samgöngur innanlands:  0,9 Mt    4 %
  • Landbúnaður:           0,7 Mt    3 %
  • Millilandaskip:        0,6 Mt    3 %
  • Fiskiskip:             0,4 Mt    2 %
  • Úrgangur:              0,3 Mt    1 %
  • Orkuvinnsla:           0,2 Mt    1 %
  • Ýmislegt:              0,1 Mt    0 %
  • Framræst land:         8,2 Mt   40 %
  • Heildarlosun:         20,8 Mt  100 %

 

 Til að nýta fjármuni sem bezt við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi Íslendinga er skilvirkast að beina fé í stærstu losunarþættina. 

Framræst land vegur þyngst, 40 %.  Moka þarf ofan í skurði óræktaðs lands, sem ekki er ætlunin að rækta í fyrirsjáanlegri framtíð, og samtímis að planta þar skógarhríslum til mótvægis við losun, sem ekki er tæknilega unnt að minnka að svo stöddu.  Þar vegur millilandaflugið og iðnaðurinn þyngst.  Þessir aðilar eru örugglega fúsir til að fjárfesta í slíkri bindingu á Íslandi fremur en að greiða stórfé fyrir losun umfram kvóta til útlanda, enda er slík ráðstöfun fjár hagstæð fyrir þá, eins og sýnt verður fram á hér að neðan.  

Mismunur á áætlaðri heildarlosun Íslendinga tímabilið 2013-2020 og úthlutuðum losunarheimildum til þeirra er:

ML= 22,3 Mt-15,3 Mt = 7,0 Mt

Meðaleiningarverð yfir þetta "seinna Kyoto-tímabil" verður e.t.v. 5 EUR/t CO2, en það ríkir þó enn mikil óvissa um þetta verð.  Hitt eru menn sammála um, að það verður hærra á tímabilinu 2021-2030, e.t.v. 30 EUR/t. 

Líkleg kaupskylda á kvóta árið 2021 fyrir tímabilið 2013-2020 er þannig:

K=7 Mt x 5 EUR/t = MEUR 35  = miaISK 4,4.

Nú er áhugavert að finna út, hversu miklu framræstu landi er hægt að bleyta í (með því að moka ofan í skurði) og síðan að planta hríslum í sama landið fyrir þessa upphæð (og verður þá engin mýri til aftur), og síðan hver einingarkostnaðurinn er á koltvíildinu í þessum tvenns konar mótvægisaðgerðum, þ.e. samdrætti losunar og með bindingu. Svarið verður ákvarðandi um hagkvæmni þess fyrir ríkissjóð og einkafyrirtæki að fjárfesta fremur innanlands en erlendis í koltvíildiskvótum.

Samkvæmt Umhverfisráðgjög Íslands, 2.11.2017, eru afköst og einingarkostnaður við þrenns konar ræktunarlegar mótvægisaðgerðir eftirfarandi:

  • Landgræðsla:  2,1 t/ha/ár og 167 kkr/ha
  • Skógrækt:     6,2 t/ha/ár og 355 kkr/ha
  • Bleyting:    19,5 t/ha/ár og  25 kkr/ha

Þá er hægt að reikna út, hversu mörgum hekturum þurrkaðs lands, A, er hægt að bleyta í og planta í  hríslum fyrir miaISK 4,4:

A x (355+25) = 4,4;  A = 11,6 kha = 116 km2

Skógræktin bindur CO2: mBI=6,2 x 11,6k=72  kt/ár.

Bleyting minnkar losun:mBL=19,5x 11,6k=226 kt/ár.

Alls nema þessar mótvægisaðgerðir: 298 kt/ár.

Eftir 25 ár hefur þessi bleyting minnkað losun um 5650 kt CO2 og skógrækt bundið (í 20 ár) um 1440 kt CO2.

Alls hefur þá miaISK 4,4 fjárfesting skapað 7090 kt kvóta á einingarkostnaði 621 ISK/t = 5,0 EUR/t.  

Sé reiknað með, að skógurinn standi sjálfur undir rekstrarkostnaði með grisjunarviði, þá virðast mótvægisaðgerðir innanlands nú þegar vera samkeppnishæfar á viðskiptalegum forsendum, svo að ekki sé nú minnzt á þjóðhagslegu hagkvæmnina, þar sem um verðmætasköpun innanlands, ný störf og aukningu landsframleiðslu er að ræða.  Það er engum vafa undirorpið, að stjórnvöld og fyrirtæki á borð við millilandaflugfélögin, skipafélögin og stóriðjufyrirtækin eiga að semja við bændur og Skógrækt ríkisins um þessa leið.  

Er nóg landrými ?  

Framræst land er um 4200 km2 að flatarmáli og óræktað land er 85 % af því, þ.e. 3570 km2.  Sé helmingur af því tiltækur til þessara nota, þarf téð miaISK 4,4 fjárfesting þá aðeins 6,5 % af tiltæku, óræktuðu og framræstu landi, og það verður vafalaust til reiðu, ef samningar takast.  

 

 

 


Bloggfærslur 11. nóvember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband