Verðmæti jarðgufu- og vindorkuréttinda

Stjórnvöldum á Íslandi er falið af Eftirlitsstofnun EFTA-ESA, líklega til að jafna samkeppnisstöðu, að koma því í kring, að öll fyrirtæki, sem stunda raforkuvinnslu úr orkulindum á landi í opinberri eigu eða umsjón, skuli greiða markaðstengt afnotagjald fyrir aðgang að þessum orkulindum. Þetta er væntanlega til að hindra rentusækni og jafna samkeppnisstöðu og á einnig við um nýtingu, sem þegar er hafin, og skal gilda allt til loka nýtingar. 

Það getur verið fróðlegt að kanna, hvaða upphæðir, væntanlega í sveitarsjóði, gæti hér verið um að ræða, og þá er auðvitað nauðsynlegt fyrst að verðmeta þessar orkulindir.  Það er hægt að gera á grundvelli lágmarksverðs, sem fá þarf fyrir raforkuna frá tiltekinni virkjun, með ávöxtunarkröfu, sem svipar til arðsemi annarra fjárfestinga með svipaðri áhættu.

Sem dæmi um jarðgufunýtingu til raforkuvinnslu má taka Þeistareykjavirkjun, sem nú er í byggingu.  Áætluð fjárfesting er MUSD 185.  Gera verður hærri ávöxtunarkröfu til jarðgufuvirkjana en til vatnsorkuvera vegna meiri rekstraráhættu, hér 9,0 %, og afskriftartíminn er styttri vegna óvissu um endingu jarðgufuforðans á staðnum, hér valinn 30 ár.  Rekstrarkostnaður er tiltölulega hár vegna meiri viðhaldsþarfar af völdum útfellinga, tæringar og gufuöflunar, hér valinn 5,0 %/ár af stofnkostnaði.  Þá fæst "kostnaðarverð" raforku frá Þeistareykjum 38 USD/MWh (=4,3 ISK/kWh), framlegð 66 % og rekstrarkostnaður 34 %. Sé umsamið raforkuverð lægra, er arðsemin óviðunandi í þessu ljósi.

Með þessu móti mun árleg framlegð virkjunarinnar nema 18 MUSD.  Til að leggja mat á verðmæti orkulindarinnar er nú ráð að núvirða þessar árlegu greiðslur í 25 ár, og fæst þá upphæðin MUSD 175 = miaISK 20,2. 

Ef gert er ráð fyrir, að eðli jarðgufuréttinda og vatnsréttinda sé hið sama í lagalegum skilningi, þá gildir dómur Hæstaréttar um, að Þjóðskrá Íslands skuli færa þessi verðmæti í fasteignaskrá, og þar með mega viðkomandi sveitarfélög innheimta af þeim fasteignagjald: FG=0,005 x 20,2 = 101 MISK/ár.  Jarðfræðingar hafa hugmynd um umfang nýtingarsvæðis fyrir gufuforða virkjunarinnar, og út frá því getur skipting þessa afnotagjalds farið fram á milli sveitarfélaganna. Annað mál er, hvað Alþingi ákvarðar, að stór hluti af slíku afnotagjaldi renni í jöfnunarsjóð sveitarfélaganna, því að jarðhiti er æði misjafn eftir sveitarfélögum, eða jafnvel í væntanlegan auðlindasjóð. 

Er meðalhófs gætt við þessa skattheimtu jarðgufuréttinda ?  Svarið er jákvætt, því að upphæð afnotagjaldsins nemur 4,9 % af árlegri framlegð virkjunarinnar, sem má kalla hófstillt, þegar litið er t.d. til álagningar svo kallaðra veiðigjalda, þar sem aðferðarfræðin er illa ígrunduð. 

Næst má snúa sér að vindmyllulundum og spyrja, hvort einhver glóra sé í því að taka gjald af fyrirtækjum fyrir að breyta vindorku í raforku ?  Því er til að svara, að í nafni jafnræðis á markaði er það nauðsynlegt, því að annars væru stjórnvöld að mynda fjárhagslegan hvata fyrir raforkuvinnslu úr vindorku, sem er skiljanlegt af umhverfisástæðum erlendis, en er algerlega ástæðulaust á Íslandi.  Vindorkan er enn þá dýrust í vinnslu á Íslandi af hefðbundnu orkuformunum þremur, fallvatnsorku, jarðgufuorku og vindorku, en kostnaðarbilið á milli hennar og hinna tveggja fer minnkandi með árunum. 

Það er engu að síður enn svo, að vinnslukostnaður raforku með vindmyllum á Íslandi ásamt kostnaði við að koma raforkunni inn í aðveitustöð fyrir stofnkerfistengingu, m.v. 7,0 %/ár ávöxtunarkröfu fjármagns og 30 ára afskriftatíma fjárfestingar, nemur 60 USD/MWh (=6,9 ISK/MWh), sem er hærra orkugjald en flestir neytendur þurfa að greiða um þessar mundir.  Fjárhagsleg réttlæting gæti þá einvörðungu falizt í að spara vatn í miðlunarlónum til að forða vatnsskorti, t.d. í Þórisvatni í tilviki Búrfellslundar. 

Er eitthvert vit í því ? Orkuvinnslugeta Búrfellslundar mun verða innan við 700 GWh/ár, sem er um 5 % af orkuvinnslugetu Landsvirkjunar um þessar mundir, svo að eftir litlu er að slægjast, sérstaklega í ljósi yfirstandandi loftslagsbreytinga. 

Með hækkandi meðalhitastigi í lofti yfir Íslandi má búast við meiri ársúrkomu og mildari vetrum, svo að innrennsli miðlunarlóna mun vaxa og árstíðasveifla álags raforkukerfisins minnka.  Allt virkar þetta í þá átt að draga úr líkum á "þurrum árum", þegar vænta má raforkuskorts vegna vatnsleysis. Betri vatnsbúskapur af þessum völdum mun sennilega jafngilda meiri orkuvinnslugetu vatnsorkukerfisins en áformaðri vinnslugetu Búrfellslundar nemur. 

Búrfellslundur eða aðrir vindmyllulundir verður þess vegna ekki hagrænt gagnlegur fyrr en meir hefur dregið saman með raforkukostnaði frá vindmyllum og öðrum virkjunum, t.d. þegar vinnslukostnaður vindmylla hefur lækkað um 20 % frá því, sem nú er. Það gæti orðið upp úr 2020.

Ef/þegar vindmyllulundur verður reistur á Hafinu norðan Búrfells, mun arðsemi þess fjármagns, sem þar verður bundið, verða innan við 5,0 % m.v. núverandi raforkuverð í landinu og fjárfestingarþörf 2,0 MUSD/MW.  Ef hins vegar Landsvirkjun skyldi takast að fá 6,9 ISK/kWh, þá verður framlegðin 80 % eða 3,9 miaISK/ár. 

Til þess að meta verðmæti þessarar staðsetningar til að nýta vindorku til að framleiða rafmagn án tillits til "umhverfiskostnaðarins", sem sumir telja frágangssök, en þarfnast vandaðs mats, þarf, eins og áður, að  núvirða framlegðina yfir 25 ár, og fæst þannig upphæðin 392 MUSD = miaISK 45,1, sem þá eru verðmæti vindorkuréttindanna á þessum stað. 

Árlegt fasteignagjald af þessari upphæð: FG = 0,005 x 45,1 = MISK 226, sem eru 5,8 % af árlegri framlegð vindmyllanna við 6,9 ISK/kWh. 

Ef umsamið orkuverð frá vindmyllunum verður lægra, verður framlegðin og þar með verðmæti virkjunarréttindanna að sama skapi lægri. 

Kjarni málsins er, að auðvelt er að þróa almenna aðferð til að leggja mat á virkjunarréttindi, hvaða nafni, sem þau nefnast, og reyndar má beita henni á hvers konar arðgæfar náttúruauðlindir og vega á móti ávinninginum af að aðhafast ekki.  Það er brýnt, réttlætisins vegna, að látið verði af uppteknum hætti að bleyta þumalfingurinn og stinga honum upp í loftið til að slá á verðmæti náttúruauðlinda. 

Þrýstingur er nú þegar á stjórnvöld að hálfu sveitarfélaganna og ESA hjá EFTA að leggja fram frumvarp, sem taki mið af markaðinum, mismuni engum á markaðinum og gæti meðalhófs við álagningu afnotagjalds af orkulindunum. Boltinn er hjá ráðuneyti og Alþingi.

 


Bloggfærslur 10. febrúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband