Í leit að loðnu

Það er loðnubrestur í ár, og enginn veit af hverju.  Það er þó varla ofveiði um að kenna, og aflamarkið núna, 299 kt, aðeins rúmlega 20 % af því, sem ætla má, að hnúfubakurinn éti, en það gæti verið allt að 1,5 Mt/ár.

Það er of lítil þekking hjá Hafrannsóknarstofnun á þessari mikilvægu tegund okkar Íslendinga, loðnunni, og sú þekking fæst aðeins með rannsóknum. Farnar hafa verið 3 ferðir, og við hverja nýja ferð hækkar aflamarkið. Þekkingarskorturinn kemur berlega fram í ráðgjöfinni.  Reglan er sú, að skilja á eftir 150 kt af kynþroska loðnu í sjónum með 95 % öryggismörkum.  Það eru hins vegar 516 kt skilin eftir, sem eru 3,44 sinnum óskgildið.   Það bendir til stórs staðalfráviks og mikillar óvissu mælinganna.  Aðeins með frekari rannsóknum er unnt að minnka mælingaróvissuna og gera sér vonir um hærra aflamark.

 Rannsóknir kosta skildinginn, því að senda þarf hafrannsóknarskip á miðin.  Slík loðnuleitarferð hafrannsóknarskips kostar um MISK 40, og var ekki við það komandi hjá sjávarútvegsráðherra að útvega Hafrannsóknarstofnun nauðsynlegt fjármagn til að senda rannsóknarskip á miðin.  Lýsir það skilningi á stöðunni og trausti á vísindalegri þekkingu hjá ráðherranum ?  Nei, þvert á móti. Hún vildi heldur sitja með hendur í skauti og láta sitja við 12 kt aflaúthlutun loðnu til Íslendinga.

Dómgreind útgerðanna var betri, og gripu þær til þess ráðs að fjármagna 3. loðnuleitarleiðangurinn á þessu fiskveiðiári, 2016/2017, sjálfar.  Þann 14. febrúar 2017 kom í ljós, að þrátt fyrir varfærna aflareglu, þar sem aðeins er leyft að veiða 37 % af 815 kt af mældri kynþroska loðnu, ráðlagði Hafrannsóknarstofnun 242 kt aukningu aflamarks upp í 299 kt. 

Aflahlutdeild Íslands eykst við þetta úr 12 kt í 208 kt (12+196), sem er meira en 17 földun.  Loðnuvertíðinni er þar með bjargað í hendur Íslendinga, og það er útgerðunum að þakka, en ekki ríkisvaldinu, eins og fiskveiðistjórnunarkerfið þó gerir ráð fyrir og er grundvöllur veiðigjaldsins.    Ríkisvaldið brást, og hlutur sjávarútvegsráðherrans er óskaplega rýr, vegna þess að söluandvirði þess, sem hafðist upp úr krafsinu, ef allt næst, er tæplega miaISK 20, sem er 500_faldur rannsóknarkostnaðurinn.

  Í ljósi þess, að í hlut ríkissjóðs falla um 40 % af andvirðinu, eins og rakið er hér að neðan, veldur það gríðarlegum vonbrigðum, hversu hörmulega lélegan vörð ráðherrann stendur um hagsmuni ríkissjóðs.   

Rannsóknarkostnaðurinn er í þessu tilviki um 0,2 % af tekjuaukningunni, og tekjuaukningin verður reyndar enn meiri, ef hin erlendu skip, sem veiða mega 19 % aukningarinnar, munu leggja upp hérlendis að einhverju leyti. 

Sjávarútvegsráðherra, sem horft hefur aðgerðarlaus upp á miaISK 100 tap þjóðarbúsins af völdum sjómannaverkfalls, ætti að íhuga vandlega að með Hafrannsóknarstofnun að loknu verkfalli, hvort frekari rannsónir séu líklegar til að skila enn meiri aukningu, og fjármögnun Hafrannsóknarstofnunar til lengdar þarf að endurskoða strax.  Eðlilegast er, að andvirði veiðigjaldanna renni í sjávarútvegssjóð, sem m.a. styðji fjárhagslega við Hafrannsóknarstofnun, svo að annar eins vandræðagangur og undanfarið með fjármögnun rannsókna sjáist ekki aftur.  

  Með slíkum rannsóknarleiðangri á þessum árstíma mundu vafalaust fást mikilsverðar upplýsingar um hitastig, átu, torfudreifingu,fisk við ísrönd o.s.frv., þótt ekki finnist meiri loðna.  Verði hægt að minnka óvissu stofnmælingar loðnu, mundi reyndar ríkissjóður fá mest allra aðila í sinn hlut. Tekjuskiptingin verður nokkurn veginn þannig samkvæmt Hagstofu:

  1. Rekstrarkostnaður nemur um 42 %, og rennur sennilega tæpur helmingur af honum til ríkisins á formi skatts af launum af veittri þjónustu og sem virðisaukaskattur, þ.e.a.s 20 % af heild.
  2. Launatekjur 18 % og lífeyrisgreiðslur 4 % nema um 22 % eftir skatta, og þá á ríkið eftir að innheimta tekjuskatt við útgreiðslu lífeyris. Skattspor fyrirtækjanna nemur um 21 %, þar af til sveitarfélaganna 4 %, og ríkissjóðs 17 % af heild. 
  3. Framlegð af þessu aflamarki er um 10 % og fer í afborganir og fjármagnskostnað, um 5 %, og arðgreiðslur til hluthafa. 
  4. Ríkissjóður fær líklega í sinn hlut tæplega 40 % af andvirði aflamarksaukningar á loðnu. Það er ekki gott stjórnvald, sem situr með hendur í skauti og aðhefst ekkert, þegar tækifærin kunna að vera innan seilingar, og fleygir frá sér endurskoðunarrétti sínum á skiptireglu takmarkaðra loðnuheimilda.  Ef lausn sjómannaverkfallsins tengist "egói" sjávarútvegsráðherrans, þá er virkilega illa komið vorum hlut.

Um slæma stöðu Íslendinga á loðnumörkuðunum núna segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson í Fiskifréttum 2. febrúar 2017, "Loðnubrestur í skugga Eurovision":

"Loðna og loðnuveiðar varða ekki einungis hagsmuni samfélagsins, sjávarútvegsins og starfsfólks í sjávarútvegi til skamms tíma, heldur framtíðarhagsmuni á afurðamörkuðum til langs tíma. 

Nú ríkir mikill skortur á frosinni loðnuhrygnu og loðnuhrognum á mörkuðum um allan heim.  Loðnubrestur í ár og hugsanlegur loðnubrestur á næsta ári eyðileggur einfaldlega markaði, þar sem Íslendingar eiga um helmingshlutdeild í frosinni loðnu og nær alla markaðshlutdeild í loðnuhrognum. 

Fari allt þetta forgörðum, verður tjón þjóðarinnar talið í tugum milljarða króna, líkast til það svari til þess, sem kostar að reisa eitt stykki nýjan Landsspítala.  Munar um minna, eða hvað ?"

Í þessu ljósi verður ljóst, hversu arfaslök frammistaða það er hjá sjávarútvegsráðherra að úthluta megninu af upphafsaflamarki loðnunnar, 57 kt, til annarra þjóða, sem við eigum í samkeppni við á mörkuðunum.  Veldur ráðherrann embættinu ?  Um það eru réttmætar efasemdir, og meiri efasemdir hafa vart verið um hæfileika ráðherra síðan á dögum vinstri stjórnar Kötu & Co., sem gerði verstu samninga sögunnar við útlendinga. 

Eftir loðnuleitarleiðangur nr 3 var aflamark loðnu aukið um 242 kt, og af því fá Íslendingar samkvæmt skiptireglunni 196 kt, og ef aflamarkið næst, verður afli íslenzkra skipa um 208 kt eða um 70 % af heildaraflamarkinu.  Íslendingar munu þó markaðssetja meira af loðnu, ef allt gengur upp, vegna erlendra skipa, sem leggja upp hérlendis.

Þórshöfn í Færeyjum 


Bloggfærslur 16. febrúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband