Heilnæmi landbúnaðarafurða

Þótt ótrúlegt megi virðast, er nú sótt að fæðuöryggi og fæðuhollustu landsmanna.  ESA-Eftirlitsnefnd EFTA mun hafa úrskurðað, að Íslendingum beri sem aðilum að Innri markaði ESB (Evrópusambandsins) að láta niður falla allar helztu varnir sínar gegn sjúkdómum, sem hæglega geta herjað hér á búfénað og grænmeti landsmanna, af því að mótstöðuefni eru ekki fyrir hendi í einangruðum stofnum. 

Þeir, sem einhver skil kunna á sögunni, skilja, að hér eru firn mikil á ferð.  Að vera laus við marga alvarlega sjúkdóma í mönnum, dýrum og jurtum, eru ómetanleg lífsgæði, sem landsmenn geta talið landi sínu til tekna. 

Hér er ekki um að ræða einfalda viðskiptalega hindrun, heldur stórfellt heilbrigðismál fyrir fólk og fénað.  Ef einhver glóra er í EFTA-dómstólinum, þá lætur hann ekki meiri hagsmuni víkja fyrir minni.  Hinir meiri hagsmunir eru viðhald og viðgangur landbúnaðar á Íslandi og lýðheilsa hérlendis, en hinir minni hagsmunir eru frjáls viðskipti með hrátt kjöt, dýr á fæti og grænmeti, á meðan nóg er af því í landinu. 

Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra og höfðingi margra Sunnlendinga, ritaði laugardaginn 4. marz 2017 grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni: "Húsfyllir í Iðnó eins og Mamma Mía væri mætt".  Sannleikurinn er sá, að það er full ástæða fyrir Íslendinga til að hrópa "mamma mia" að hætti Ítala, ef stjórnvöld hér gera sig sek um það glapræði að láta undan þjóðhættulegri  kröfu ESA í þessu máli.  Guðni vitnar í Margréti Guðnadóttur, heiðursdoktor við Læknadeild Háskóla Íslands:

""Mér finnst það ræfildómur að reyna ekki að halda landinu hreinu, þegar við höfum þessa gömlu búfjárstofna og höfum lagt mikið á okkur til að halda þeim hreinum og gefum þeim ekki sýklalyf í fóðri." 

Hún sagði í viðtalinu [við Morgunblaðið - innsk. BJo], að hún teldi EES-samninginn lífshættulegan, þar sem ekki væri hægt að reiða sig á heilbrigðisvottorð matvöru."

Það þarf enginn að ímynda sér, að hinn virti sérfræðingur um veirusjúkdóma fari með eitthvert fleipur hér, þótt ekki sé skafið utan af hlutunum.  Þvert á móti sýnir tilvitnunin alvarleika málsins.

Það vitna fleiri sérfræðingar á sömu lund, og hefur nokkur sérfræðingur hérlendur mælt gegn röksemdafærslu  þeirra sérfræðinga, sem Guðni teflir fram ?  Einn þeirra er Vilhjálmur Svansson, dýralæknir og veirufræðingur á Tilraunastöð Háskólans að Keldum:

"Vilhjálmur fór faglega yfir þá áhættu, sem heilbrigðir búfjárstofnar okkar byggju við og mælti gegn innflutningi á lifandi dýrum og hráu kjöti.  Hann sagði jafnframt, að við hefðum ekki fengið hingað kúariðu eða gin- og klaufaveiki. Taldi hann, að íslenzkt búfjárkyn og landbúnaður mundu vart verða söm eftir, ef svo alvarlegir sjúkdómar bærust til landsins.  Hann minnti á mikið kæruleysi, þar sem gætu legið smithættur, þar eð klósettmál ferðamanna væru með þeim hætti, að þeir gerðu þarfir sínar úti um mela og móa."    

Íslendingar hafa orðið fyrir hrikalegum áföllum af völdum innfluttra búfjársjúkdóma, og hékk sauðfjárstofninn um tíma á horriminni, en var bjargað með ósýktu vestfirzku sauðfé.  Þeirrar tíðar menn höfðu í sumum tilvikum þekkingarleysi sér til málsbóta fyrir verknaðinum, en nútíðar menn eiga sér engar málsbætur fyrir það að ógna tilveru einstakrar fánu landsins, dýraríkis, sem í eru fólgin ómetanleg söguleg, menningarleg, atvinnuleg og næringarleg verðmæti. 

Nátengt þessu er heilbrigði þjóðarinnar.  Guðni vitnaði í Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlækni á Sýklafræðideild Landspítalans og í Læknadeild H.Í.:

"Karl G. Kristinsson, prófessor, ræddi um heilbrigði þjóðarinnar, og að hér væru færri pestir en í öðrum löndum.  Búféð væri heilbrigt, náttúran og fóðrið hreint og notkun sýklalyfja sáralítil ... ."

Á Íslandi er notkun sýklalyfja í landbúnaði einni til tveimur stærðargráðum minni en víðast hvar annars staðar.  Hvers konar gildismat og áhættugreining liggur eiginlega að baki því að vilja breyta verndarákvæðum um innflutning í þá veru, að þessari ómetanlega góðu stöðu verði ógnað ?  Að gefa eftir í þessu máli væri lydduháttur, ótrúleg skammsýni og fæli í sér brenglað gildismat.

Í réttum 2013


Bloggfærslur 11. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband