Íslenzk og erlend raforkumál

Víða í Evrópu er raforkumarkaðurinn í sárum vegna opinberra niðurgreiðslna á mannvirkjum til raforkuvinnslu úr endurnýjanlegum orkulindum. Rótgróin raforkufyrirtæki, sem áður fyrr voru eftirsóknarverðir fjárfestingarkostir, berjast nú í bökkum. Gríðarlegum upphæðum hefur verið varið í þróun vind- og sólarhlaða, sem sáralítið munar enn um.  Það hefur verið farin Krýsuvíkurleið að því að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi.  Betra hefði verið að setja féð í þróun stórra raforkuvera, sem gengið geta stöðugt.  Orkumál Evrópu eru af þessum sökum í ólestri, og yfirvöldin virðast allsendis ófær um að móta sjálfbæra orkustefnu.   

Raforkukerfi Evrópu er þannig upp byggt, að þegar hillir undir skort á raforkumarkaði, þá hækkar raforkuverðið, sem á endanum verður fyrirtækjum nægur hvati til að reisa nýtt orkuver.  Menn hafa þá valið þess konar raforkuver, sem framleiða með lægstum jaðarkostnaði hverju sinni.  Hefðbundið hefur þetta jafngilt því að velja hagkvæmasta eldsneytið, t.d. að reisa gaskynt raforkuver. Þetta gekk þokkalega vel upp áður en hið opinbera raskaði jafnvæginu á þessum markaði með því að draga taum endurnýjanlegra orkulinda, sem þó geta ekki leyst jarðefnaeldsneytið af hólmi með núverandi tækni.   

Til skjalanna eru komin sól og vindur með miklum opinberum fjárhagslegum stuðningi.  Slík orkuver eru með mjög lágan breytilegan kostnað, því að hvorki kosta sólargeislar né vindgustur fé enn sem komið er.  Fastur kostnaður þeirra er hins vegar svo hár, að slík orkuver hafa hingað til verið ósamkeppnisfær án stórfelldra opinberra niðurgreiðslna.  

Af þessum ástæðum geta orkuver endurnýjanlegrar orku bolað hefðbundnum eldsneytisverum út af markaðinum, þegar byrlega blæs eða sólin skín.  Þeim er samt ekki lokað, af því að rekstur hinna er stopull og háður birtu og lofthraða, eins og kunnugt er.  Þessi breytti rekstrarhamur eldsneytisorkuveranna hefur kippt fótunum undan arðsemi þeirra, og enginn hefur áhuga á að endurnýja þau án opinberra styrkja. Raforkukerfi Evrópu er komið á opinbert framfæri.   

Allt hefur þetta leitt til ofgnóttar raforku á evrópskum orkumarkaði með þeim afleiðingum, að raforkuverð er með lægsta móti nú, enda er hvorki hagvexti né mannfjöldaaukningu til að dreifa yfirleitt í þessum ríkjum.  Í þessu ljósi er eftirfarandi staðhæfing hins fullyrðingasama forstjóra Landsvirkjunar, Harðar Arnarsonar, við Trausta Hafliðason á Viðskiptablaðinu, sem birtist þar 2. marz 2017 undir fyrirsögninni:

"Hillir undir milljarða króna arðgreiðslu",

ankannaleg:

"Ég tel, að álverð sé enn of lágt.  Það hefur líka verið sveifla upp á við annars staðar, eins og t.d. á olíu-, raforku- og stálmarkaði."

Olíuverð hækkaði mun minna en olíusjeikarnir ætluðust til, þegar þeir drógu úr framboði jarðolíu um síðast liðin áramót. Olíuverð fer nú lækkandi með vorinu á norðurhveli.

 Hvar hefur raforkuverð hækkað annars staðar en á Íslandi undanfarið ?  Er forstjórinn hér enn einu sinni að slá um sig með innistæðulitlum fullyrðingum ? 

Sami forstjóri hefur rofið álverðstenginguna í orkusamningi við ISAL, og sama verður líklega uppi á teninginum 2019 hjá Norðuráli, þegar nýr orkusamningur fyrirtækjanna tekur gildi.  Með þessu hefur þessi forstjóri rænt Landsvirkjun ávinningi af hækkuðu álverði, nema með orkusölu til Fjarðaáls.  Jafnframt gerir hann viðkomandi álfyrirtækjum mjög erfitt að standast öðrum snúning, þegar álverð er lágt. Umhyggja hans fyrir álverunum á Íslandi er einskær hræsni.

 Það er til lítils að kaupa skýrslur um íslenzk orkumál frá útlöndum, ef þær þjóna ekki öðru hlutverki en að planta hér staðleysum um eðli íslenzks orkukerfis og að koma hér á framfæri falsboðskap um nauðsyn orkuverðshækkunar hérlendis, sem er algerlega út úr kú við íslenzkar aðstæður.  Það eru kolrangar greiningar á orkukerfinu hérlendis, sem leiða til slíkrar niðurstöðu.  Núverandi forstjóri Landsvirkjunar er búinn að gera margar misheppnaðar atrennur að slíkum tillöguflutningi, en aðeins maurapúkar eru líklegir til að kaupa þær, og er þá mikið sagt.

Nýlega kynnti Landsvirkjun enn eina skrýtnu útlendu skýrsluna og nú frá danska ráðgjafarfyrirtækinu Copenhagen Economics varðandi fyrirkomulag íslenzkra orkumála.  Það var rétt hjá Dönunum, að nauðsynlegt er að setja varnagla í lög um, að hlutlaus aðili á markaði, t.d. Orkustofnun, gæti hagsmuna almennings og aðvari opinberlega um yfirvofandi skort á afli og/eða raforku, og geti sá aðili þá tekið upp viðræður við orkufyrirtækin um, hvernig þjóðhagslega er hagkvæmast að ráða bót á slíkri stöðu. Á þetta hefur áður verið bent, m.a. á þessu vefsetri, svo að þetta er ekki ný hugmynd.

Óbeint er jafnframt lýst stuðningi við auðlindagjaldtöku, sem í tilviki orkufyrirtækjanna íslenzku mundi verða á formi fasteignagjalds fyrir vatnsréttindi og jarðhitaréttindi, en útfærslu á slíku hefur blekbóndi lýst á þessu vefsetri. Stjórnvöld þurfa hins vegar að koma á samræmdu fyrirkomulagi um gjaldtöku af vatnsréttindum, jarðhitaréttindum, vindréttindum o.s.frv.  Þessi mál hafa þegar þroskazt nóg í meðförum hagsmunaaðila og dómstóla til að tímabært sé að reka endahnútinn á þau.    

Landsvirkjun fékk Copenhagen Economics til þessara skýrsluskrifa, en það er eins og fyrri daginn, þegar kemur að skrifum útlendinga um íslenzk orkumál, að þau draga um of dám af venjubundnu umhverfi höfundanna, sem ekki hafa kynnt sér aðstæður hér á landi til hlítar.  Þannig virðast þeir telja, að raforkuverð hérlendis sé of lágt og að það verði að hækka til að orkufyrirtækin fáist til að virkja. Það er kerfið, sem gilt hefur á meginlandi Evrópu og víðar og lýst er hér að ofan.

Raforkuverð virkjunareigenda hérlendra hlýtur að ráðast af vegnum meðalkostnaði orku frá öllum virkjunum þeirra.  Vinnslukostnaðurinn er lægstur í elztu virkjununum og hæstur í nýjustu virkjununum.  Þetta kemur ekki fram í túlkun Dananna á hækkunarþörfinni, sem er eins og búktal frá Herði Arnarsyni, og felur þess vegna ekki í sér nein nýmæli.  

Það eru tvenns konar verðlagskraftar í gangi hérlendis fyrir raforku.  Sá fyrri er, að yfirleitt eru nýir virkjanakostir dýrari í kr/kWh (föstu verðlagi) en hinir eldri.  Þetta virkar til hækkunar á orkuverði til almennings og hækkunar á orkuverði í nýjum langtímasamningum. 

Sá seinni er sá, að vinnslukostnaður í starfræktum virkjunum fer lækkandi eftir því, sem afskriftir þeirra lækka.  Má sem dæmi nefna Búrfell #1, sem er 46 ára gömul virkjun og að mestu fjárhagslega afskrifuð, þó að hún framleiði á fullu með sáralitlum tilkostnaði, eða e.t.v. 0,2 kr/kWh.

Þessi seinni kraftur er að verða öflugri en hinn vegna vaxandi vægis eldri virkjana í heildarsafni virkjana, og þess vegna er engin ástæða til að hækka raforkuverð til almennings, þótt jaðarkostnaður fari hækkandi. Ef nýjar virkjanir þyrfti ekki, ætti orkuverð til almennings að lækka af þessum sökum. 

Á Íslandi hefur sú stefna verið við lýði að selja megnið af raforku frá nýjum virkjunum í heildsölu samkvæmt langtímasamningum á verði, sem standa mundi vel undir kostnaði við þá orkuvinnslu í viðkomandi nýrri virkjun með ákveðinni ávöxtunarkröfu, og almenningur nyti jafnframt góðs af sömu virkjun með lægra orkuverði en ella vegna hagkvæmni stærðarinnar.

Þetta líkan er alls ekki fyrir hendi erlendis og hefur augljóslega ekki verið útskýrt fyrir Dönunum, því að þeir enduróma bara falskan tón verkkaupans, Landsvirkjunar, um hagkvæmni sæstrengs til Bretlands og nauðsyn mikillar raforkuverðhækkunar á Íslandi. Er ekki betri einn fugl í hendi en tveir í skógi, þ.e.a.s. er ekki hagsmunum almennings á Íslandi betur borgið með lágu raforkuverði, eins og hann býr við nú, en háu raforkuverði og fjárhagslega mjög áhættusömum framkvæmdum tengdum aflsæstreng til Bretlands ?

Til fróðleiks og samanburðar við skrýtinn málflutning Landsvirkjunarforystu um framtíðina hérlendis er hér snaraður útdráttur úr grein í The Economics 25. febrúar 2017,

"Clean Energy´s dirty secret":

"Næstum 150 árum eftir frumhönnun ljósrafhlöðunnar (e. photovoltaic cell) og vindrafstöðvar þá framleiða þau enn aðeins 7 % af raforkunotkun heimsins.  Samt er nokkuð eftirtektarvert að gerast í þessum efnum. Þessar orkustöðvar hafa tekið stakkaskiptum á síðast liðnum 10 árum frá því að gegna smávægilegu hlutverki í orkukerfum heimsins yfir í að sýna mesta vöxt allra orkulinda fyrir raforkuvinnslu, og fallandi kostnaður á orkueiningu gerir þær nú samkeppnishæfar við jarðefnaeldsneyti. Olíurisinn BP býst við, að þessar endurnýjanlegu orkulindir muni standa undir helmingi aukningar raforkunotkunar heimsins á næstu 20 árum.  Það er ekki lengur langsótt, að handan við hornið sé hrein, ótakmörkuð og ódýr raforka; og kominn tími til.

Það er þó triUSD 20 hindrun í veginum (triUSD 1=miaUSD 1000), þar sem er fjárfestingaþörf á allra næstu áratugum til að leysa af hólmi reykspúandi orkuver og styrkja orkuflutningskerfið.  Fjárfestar hafa gjarna fjármagnað verkefni í orkugeiranum, af því að þau hafa skilað traustum arði, en græna orkan er með böggum hildar.  Því meira sem fjárfest er í þessari grænu orku, þeim mun meira lækkar verðið frá öllum orkulindunum.  Þetta veldur erfiðleikum við orkuskiptin, því að allar orkulindir þurfa að skila ágóða á meðan á orkuskiptunum stendur, ef hindra á afl- og orkuskort.  Ef þessum markaðsvanda er ekki kippt í liðinn, munu niðurgreiðslurnar fara vaxandi."

Af þessari frásögn af orkumálum heimsins, sem á algerlega við Evrópu, geta Íslendingar dregið 2 mikilvægar ályktanir og samræmist hvorug áróðurstilburðum Landsvirkjunar, sem er á mjög einkennilegri vegferð sem ríkisfyrirtæki:

Í fyrsta lagi er raforkuverð í Evrópu ekki á uppleið, og í öðru lagi verður þar enginn hörgull á umhverfisvænni raforku eftir um 10-20 ár.

Af þessum ástæðum eru það falsspámenn, sem reyna að telja Íslendingum trú um hið gagnstæða.  Sæstrengur er svo dýr, að hann verður ekki fjárhagslega sjálfbær um fyrirsjáanlega framtíð.  Á þetta er margbúið að sýna fram á með útreikningum, m.a. á þessu vefsetri.

Það er svo önnur saga, að m.v. þriðju útgáfu Rammaáætlunar verður engin raforka aflögu til beins útflutnings sem hrávara um sæstreng.  Íslendingar munu þurfa á öllum sínum orkulindum að halda innanlands til að knýja vaxandi atvinnulíf á landi, samgöngutæki og atvinnutæki á láði, lofti og legi. 

Það eru falsspámenn, sem boða, að aðeins þurfi að virkja svo sem 250 MW rafafl fyrir 1300 km sæstreng.  Nauðsynlegri viðbót megi ná út úr kerfi, sem annars er ætlað til innlendrar notkunar.  Það er fífldjörf áhættusækni að ætla að keyra orkukerfið í þrot hér (tæma miðlunarlónin) og ætla síðan að reiða sig á "hund að sunnan".  Bili hann, sem töluverðar líkur eru á, þegar verst gegnir (lögmál Murphys), eins og dæmin annars staðar frá sanna, myrkvast Ísland. 

Það þarf ekki að fjölyrða um það neyðarástand, sem hér mun þá verða. Halda menn, að forstjóri Landsvirkjunar eða einhver stjórnmálamaður, sem þetta glapræði kynni að styðja, sé sá bógur, að hann geti tekið ábyrgð á slíku ástandi ?  Þeir munu þá ekki þurfa að kemba hærurnar.  Það færi bezt á því, að henda öllum sæstrengsáformum á bálið og einbeita sér þess í stað að raunhæfum verkefnum. Nóg hefur verið bullað um ávinning þess að virkja lítils háttar og græða síðan stórkostlega á raforkuútflutningi um sæstreng, sem er svo dýr, að flutningskostnaður einn og sér verður miklu hærri per MWh en fæst fyrir þá MWh (megawattstund) á Englandi. 

Síðan heldur The Economist áfram að lýsa ömurlegri stöðu orkumála í Evrópu.  Er þá ekki við hæfi að fá "sérfræðinga að sunnan" til að kenna oss, fávísum og "jaðarsettum" ?:

"Í fyrsta lagi hafa rausnarlegar opinberar niðurgreiðslur, um miaUSD 800 síðan 2008 (100 miaUSD/ár) afmyndað markaðinn. Þær komu af virðingarverðum ástæðum - til að vinna gegn gróðurhúsaáhrifunum og örva þróun dýrrar tækni, þ.á.m. vindrafstöðvar og sólarhlöður.  Niðurgreiðslurnar fóru að bíta á sama tíma og stöðnun tröllreið raforkumörkuðum þróaðra landa vegna bættrar orkunýtni og fjármálakreppunnar 2008.  Afleiðingin varð offramboð á raforku, sem hefur mjög komið niður á tekjum raforkuframleiðendanna á heildsölumarkaði raforku og fælt þá frá fjárfestingum.

Í öðru lagi er græn orka slitrótt.  Breytileiki vinda og sólskins - sérstaklega í löndum óheppilegs veðurfars fyrir þessar rafstöðvar - hefur í för með sér, að vindmyllur og sólarhlöður framleiða raforku bara stundum.  Til að viðhalda orkuflæði til viðskiptavinanna þarf að reiða sig á hefðbundin orkuver, s.s. kolaver, gasver eða kjarnorkuver, að þau fari í gang, þegar endurnýjanlega orkan bregst. Þar sem þau standa ónotuð í löngum lotum, hafa fjárfestar lítinn áhuga á þeim.  Til að halda þeim við og tiltækum þurfa þau þá opinberan stuðning. 

Allir í orkugeiranum verða fyrir áhrifum af þriðja þættinum: raforkuver endurnýjanlegrar orku hafa hverfandi eða engan rekstrarkostnað - af því að vindur og sólskin kosta ekkert.  Á markaði, sem metur mest raforku, sem framleidd er á lægsta skammtíma kostnaði, taka vind- og sólarorkuver viðskipti frá birgjum með hærri rekstrarkostnað, eins og kolaorkuverum, þrýsta niður raforkuverði og þannig lækka tekjur allra birgjanna á þessum markaði."

Af þessari tilvitnun sést, að staða orkumála í Evrópu er algerlega ósjálfbær.  Í Evrópu eykst losun koltvíildis vegna raforkunotkunar þessi misserin, þótt orkunotkunin vaxi ekkert.  Þetta er vegna misheppnaðrar orkustefnu og ákvörðunar um að draga úr notkun kjarnorkuvera áður en þróaðir hafa verið umhverfisvænir valkostir til að taka við af henni, t.d. "þóríum-kjarnorkuver", en slys af þeirra völdum eru enn ólíklegri en af völdum öruggustu úraníum-vera, og helmingurnartími úrgangsins er aðeins nokkrir áratugir. 

Beitum heilbrigðri skynsemi.  Raforkukerfi landsins á að þjóna atvinnulífinu hérlendis og fólkinu, sem hér býr.  Raforkukerfi landsins á ekki að nota í braski með orku inn og út af um 1200 MW sæstreng til útlanda.  Hvers vegna gefur Alþingi stjórn Landsvirkjunar ekki til kynna, að hún sé á kolrangri braut með tilraunum til að skjóta falsrökum undir áróður fyrir sæstreng og nauðsyn mikillar hækkunar á raforkuverði til almennings ? 

    

 


Bloggfærslur 14. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband