Arðsemi vatnsaflsvirkjana

Frá Viðreisnarárunum 1959-1971 hefur hugmyndafræðin að baki virkjanastefnu stjórnvalda jafnan verið sú að reisa stórar virkjanir á hagkvæmum virkjunarstöðum og nýta aflgetu þeirra strax að miklu leyti.  Með því að hafa langtímasamning um sölu á megninu af orkugetu viðkomandi stórvirkjunar tilbúinn áður en hún er fjármögnuð, hefur reynzt kleift að lágmarka áhættu og þar með fjármagnskostnað viðkomandi stórvirkjunar, sem skiptir sköpum fyrir raforkuvinnslukostnað virkjunarinnar, en á meginafskriftaskeiðinu nema afskriftir og vaxtakostnaður u.þ.b. 90 % af heildarkostnaði við hverja kílówattstund, kWh. 

Það, sem hékk á spýtunni hjá stjórnvöldum með því að þróa þessa viðskiptahugmynd, var að byggja upp öflugt raforkukerfi og finna leið til að selja almenningi raforku úr þessu kerfi á lágmarksverði og láta virkjunina um leið skila eigendum sínum góðri ávöxtun fjárfestingarinnar.  Þetta hefur tekizt vel með öllum stóru vatnsaflsvirkjununum, þar sem þessari aðferð var beitt, en það virðist hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá sumum, sem síðan verða sér til skammar með því að tjá sig opinberlega um það, sem þeir hafa ekki haft fyrir að kynna sér til hlítar.  Á þessu sviði er allt of algengt, að hver lepji vitleysuna upp eftir öðrum um óarðbærar fjárfestingar og láti eigin fordóma um ráðstöfun orkunnar ráða för.   

Til að tryggja skjóta nýtingu á megninu af fjárfestingunni er nauðsynlegt að semja um raforkusölu við stórnotanda.  Sem dæmi má taka Búrfellsvirkjun #1, sem Landsvirkjun reisti á árabilinu 1966-1972 eftir orkusölusamning við Alusuisse til 45 ára með endurskoðunarákvæðum um raforkusölu til álversins í Straumsvík, ISAL. 

Orkuafhending hófst við frumstæðar aðstæður á miðju ári 1969 frá 2-3 35 MW rafölum um eina 220 kV línu frá Búrfelli til Geitháls og þaðan til höfuðborgarsvæðisins og Straumsvíkur.  Þessi orkuafhending var slitrótt og engan veginn áfallalaus, en hún leysti úr brýnni raforkuþörf almennings á SV-horninu, sem hafði jafnvel mátt búa við skömmtun rafmagns. Álag álversins jókst með fjölgun kera í rekstri, og jafnframt voru fleiri rafalar teknir í notkun í Búrfelli, og árið 1972 varð aflgeta Búrfellsvirkjunar 210 MW og álag ISAL 140 MW.  Afgangurinn fór smám saman allur til almenningsveitna.  Með þessu móti fékkst mjög góð nýting á virkjunina frá upphafi.   

Nú eru bráðum liðin 48 ár frá gangsetningu Búrfellsvirkjunar; lán frá Alþjóðabankanum og öðrum vegna Búrfellsvirkjunar eru fyrir löngu upp greidd, og virkjunin er að mestu afskrifuð, fjárhagslega, en það er samt ekkert lát á orkuvinnslu hennar, og orkuvinnslugetan getur með góðu viðhaldi hæglega haldizt í eina öld. Uppsett afl virkjunarinnar hefur verið aukið í 270 MW, og hún er yfirleitt rekin á fullum afköstum. 

Þar sem vinnslukostnaður raforku í Búrfellsvirkjun er núna nánast einvörðungu fólginn í rekstrarkostnaði virkjunarinnar, má ætla, að hann nemi aðeins um 0,5 kr/kWh.  Ef til einföldunar er gert ráð fyrir, að allar tekjur virkjunarinnar komi frá ISAL, sem nú orðið kaupir um 40 % meiri orku af Landsvirkjun en Búrfell #1 getur framleitt, þá nema tekjur virkjunarinnar um 3,9 kr/kWh, sem þýðir, að hagnaður hennar er 87 % af tekjum, og nemur í peningum 7,5 miaISK/ár.  Lán vegna Búrfellsvirkjunar voru greidd upp á 25-30 árum, og það þýðir, að hún verður hreinræktuð gullmylla í a.m.k. 70 ár, ef svo fer fram sem horfir. 

Þetta er afkomusaga fyrstu stórvirkjunarinnar á íslenzkan mælikvarða, og hið sama gildir um þær allar.  Það er villandi að líta á augnabliksstöðu virkjunarfélagsins, Landsvirkjunar, sem enn stendur í uppbyggingarferli virkjana, og fjargviðrast síðan út af lítilli arðsemi fyrirtækisins. Eiginfjárhlutfallið er þó komið yfir 45 %. Þeir, sem gera sig seka um vanmat á arðsemi raforkukerfisins af þessu tagi, falla í þá gryfju að horfa framhjá eðli vatnsaflsvirkjana.  Þeir hafa sumir horft út fyrir landsteinana og borið afkomuna saman við afkomu orkuvera, þar sem meginvinnslukostnaður er rekstrarkostnaður vegna jarðefnaeldsneytis. Útgjöld slíkra orkuvera eru aðallega háð eldsneytisverði, en nú er tekjuhlið þeirra reyndar í uppnámi vegna offramboðs á raforku og niðurgreiddra vind- og sólarrafstöðva. Líklega er arðsemi eiginfjár Landsvirkjunar af þessum sökum orðin hærri en flestra raforkufyrirtækja innan ESB.

Þessu árangursríka íslenzka viðskiptalíkani á raforkusviðinu er hægt að halda áfram á meðan samið er um nýja raforku til stórnotenda.  Ef ekki er samið við slíka, blasir við, að hagkvæmara verður að ráðast í smærri virkjanir, sennilega 50-100 MW vegna orkuskiptanna, því að dýrast af öllu er að virkja og hafa ekki not fyrir fjárfestingarnar árum saman. Óhjákvæmilega verður að selja orku frá nýjum virkjunum á hærra verði en frá gömlum virkjununum, en heildarvinnslukostnaður kerfisins hækkar ekki vegna mótvægis frá lækkandi kostnaði með lækkandi afskriftum og vaxtakostnaði eldri virkjana, svo að engin raunveruleg þörf er á hækkun raforkuverðs til almennings. 

Jarðgufuvirkjanir eru allt annars eðlis en vatnsaflsvirkjanir, og reynslan hérlendis sýnir, að álagsþol viðkomandi jarðgufuforða er undir hælinn lagt.  Ef afkastagetan fellur hratt eftir gangsetningu virkjunar, situr virkjunareigandinn uppi með offjárfestingu og háan árlegan rekstrarkostnað vegna gufuöflunar og niðurdælingar vökva.  Þetta hefur varanleg og slæm áhrif á afkomu jarðgufuvirkjunar, sem getur aldrei jafnazt á við afkomu vatnsaflsvirkjunar.  Í raun er það einokunarstarfsemi hitaveitunnar, sem bjargar afkomu jarðgufuvirkjunar, sem bæði selur rafmagn og heitt vatn, ef gufutakan reynist ósjálfbær.  Það er nauðsynlegt að fylgja jafnan beztu þekkingu, þegar jarðhitanýting er skipulögð, eins og á öllum öðrum sviðum. 

Elías Elíasson, fyrrverandi sérfræðingur í orkumálum hjá Landsvirkjun, þekkir gjörla viðskiptalíkanið, sem hér hefur verið gjört að umfjöllunarefni.  Hann ritaði 15. marz 2017 grein um þetta viðfangsefni fyrr og nú í Morgunblaðið, "Í leit að vanda":

"Þeir, sem gerðu gömlu stóriðjusamningana, vissu vel, hvað þeir voru að gera.  Þá voru gerðir samningar til 20 ára, sem borguðu upp virkjanir, sem mundu endast í 100 ár.  Þá þótti líka sjálfsagt, vegna minni áhættu, að krefjast minni arðgjafar af vatnsorkuverum en öðrum atvinnurekstri.  Menn sáu fram á það, að þótt arðgjöfin væri lág fyrstu árin, mundi hún hækka, þegar skuldir virkjunarinnar væru horfnar, og stundum haft í flimtingum, að stóriðjan mundi standa undir kerfinu og almenningur fá frítt rafmagn."

Þetta er sama viðskiptahugmynd og blekbóndi lýsti hér að ofan og tók dæmi af Búrfelli #1 til að varpa ljósi á, að hún hefur heppnazt vel og er ekki bara orðin tóm.  Síðar í greininni skrifar Elías:

"Almenningur lítur þannig á orkufyrirtækin, að þau séu stofnuð og rekin til að ná í þessa orku, sem náttúra okkar býður upp á, breyta henni í rafmagn og flytja þannig inn á heimilin.  Orkufyrirtækin eru þannig þjónustufyrirtæki, en þau mega engu að síður vinna meiri orku úr auðlindinni og selja til stóriðju, svo lengi sem þau geta grætt á því og valda ekki hækkun almenns orkuverðs.  Þessa sýn almennings á raforkufyrirtækin og starfsemi þeirra þarf að virða."

Þennan boðskap hefur blekbóndi predikað ótæpilega á þessu vefsetri.  Ætla má, að stór hluti þingheims sé sama sinnis.  Hann ætti að reka af sér slyðruorðið og semja og samþykkja þingsályktun, sem feli iðnaðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra að leggja drögin að eigendastefnu fyrir fyrirtæki ríkisins á þessu sviði, sem stjórnum fyrirtækjanna verði gert að innleiða og framfylgja.  Eins og dæmin sanna, er ekki vanþörf á því. 

Í lok greinarinnar skrifar Elías:

"Á sínum tíma var almenningi sagt, að orkusala til stóriðju mundi skila lægra almennu orkuverði.  Ef svo er gengið á auðlindina, að meiri sala til stóriðju hækkar orkuverð til almennings, þá er komið nóg.  Orkufyrirtækin eiga skilyrðislaust að virkja, þegar almenning vantar rafmagn.  Sé almennt orkuverð of lágt, má nýta auðlindarentuna til fjárfestinga.  Stjórnmálamenn verða síðan að þræða reglugerðafargan ESB; til þess eru þeir ráðnir."

Að nýta auðlindarentuna til orkuöflunar fyrir almenning er sama stefna og blekbóndi boðaði hér að ofan, þ.e. að notfæra sér lágan vinnslukostnað afskrifaðra virkjana til að vega upp á móti hækkunarþörf til almennings vegna hærri orkuvinnslukostnaðar frá nýjum virkjunum. 

Þetta er hins vegar þveröfugt við það, sem núverandi forstjóri Landsvirkjunar hefur gerzt talsmaður fyrir.  Hann hefur boðað auknar arðgreiðslur til eigandans og hækkað raforkuverð til stóriðju og almennings.

Það er engum blöðum um það að fletta, að almenningi á Íslandi, þ.e. heimilum og fyrirtækjum án langtímasamninga, kemur það mun betur, að raforkuverði verði áfram haldið lágu en tugmilljarða ISK arður verði árlega greiddur í ríkissjóð eða í vasa framtíðareigenda.  Þetta er almenningi sérlega mikilvægt á tímum orkuskipta. Um 2025-2030 mun Landsvirkjun geta hvort tveggja; að halda orkuverði lágu og greiða yfir 10 miaISK/ár í "Stöðugleikasjóð". 

Af allt öðru sauðahúsi en téður Elías eru 2  höfundar greinarinnar, "Orkuáhersla ferðamálaráðherra", sem fengu hana birta á sömu blaðsíðu og samdægurs og grein Elíasar.  Þeir hafa allt á hornum sér varðandi raforkugeirann á Íslandi og leiða nú til vitnis danska ráðgjafarfyrirtækið Copenhagen Economics, sem Landsvirkjun fékk nýlega til að skrifa fyrir sig skýrslu í óburðugri tilraun til að skjóta stoðum undir áróður sinn um nauðsyn raforkuverðshækkunar á Íslandi, því að annars mundi enginn nenna að virkja fyrir almenning.

Tvímenningarnir segja dönsku ráðgjafana hafa svarað tveimur spurningum:

"Annars vegar um, hvort orkuöryggi á Íslandi væri tryggt og hins vegar, hvort verðmætasköpun orkugeirans sé nægileg. Svar dönsku ráðgjafanna við síðari spurningunni var á sömu leið og annarra, sem eitthvað hafa rannsakað orkugeirann; arðsemi hans er óásættanleg."

Þarna kveða háskólaprófessorarnir upp sleggjudóm, sem ætti að varða bæði kjóli og kalli, því að sannleiksleit hafa þeir augljóslega ekki að leiðarljósi, heldur sjá þarna færi á að skjóta falsrökum undir fordóma sína gegn vatnsaflsvirkjunum og sölu á orku frá þeim með langtímasamningum til  iðnfyrirtækja. 

Það eru sem sagt ósannindi að halda því fram, að allir, sem kynnt hafa sér raforkugeirann af hlutlægni hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að arðsemi hans sé og hafi verið "óásættanleg".  Er óásættanlegt, að starfsemi skili venjulegri arðsemi, að teknu tilliti til áhættu fjárfestingarinnar, fyrstu 30 ár starfseminnar og um 85 % hagnaði næstu 70 árin ? 

Hvað telja þessir prófessorar óásættanlegt við starfsemi, sem útvegar viðskiptavinum sínum ódýra og nauðsynlega þjónustu á samkeppnishæfu verði m.v. útlönd og skilar eigendum sínum þar að auki bullandi gróða yfir starfstíma sinn ?  Ætla menn ekki að fara að láta af þeim einfeldningslega ósið að lepja bullið hver upp eftir öðrum ?

Téðir prófessorar, sem telja sig eiga erindi við almenning með birtingu greinar í víðlesnu dagblaði, skilja augljóslega ekki þá hugmyndafræði, sem góður árangur íslenzka raforkugeirans er reistur á og lýst er í þessari vefgrein.  Þeir eru algerlega úti að aka með því að tönnlast á skuldum geirans, sbr eftirfarandi tilvitnun í grein þeirra:

"Sú fallvatnsorka, sem seld hefur verið til stóriðju, hefur skilað óverulegum hagnaði og fyrirséð er, að hún mun ekki gera það, nema dregið verði úr skuldsetningu raforkufyrirtækjanna.  Núverandi stórnotendur borga ekki hærra verð, enda ekki skuldbundnir til þess.  Árið 2016 skulduðu Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur og HS Orka miaISK 487,5, sem er nærri hálf önnur milljón á hvert mannsbarn í landinu."

Þarna sést svart á hvítu, að tvímenningarnir botna ekkert í því, sem þeir skrifa um, því að fullyrðingin í fyrstu málsgreininni er algerlega úr lausu lofti gripin, eins og sýnt hefur verið fram á í þessari vefgrein, og til þess eins sett fram að koma níðhöggi á íslenzka raforkugeirann.  Auðvitað er hann skuldsettur.  Það leiðir af eðli máls, en hann stendur mjög vel undir skuldum sínum, enda er framlegð vatnsaflsvirkjana yfir 80 % af tekjum, og greiðslugeta Landsvirkjunar, sem er aðalseljandi orku til iðnaðar, mæld í Skuldir/EBITDA=6,5 árið 2016, sýnir, að fyrirtækið ræður mjög vel við skuldir sínar. 

Tvímenningarnir leggja illt eitt til s.k. stórnotenda raforku, og halda því fram, að samningar við þá séu óhagganlegir.  Það er líka rangt hjá þessum prófessorum, eins og dæmin sanna með ISAL, Norðurál og Elkem (Járnblendifélagið).   

Nú reisir Landsvirkjun tvær virkjanir á sama tíma og greiðsluflæði fyrirtækisins dugar til að fjármagna þær.  Það er þess vegna of seint í rassinn gripið hjá hinum utanveltu prófessorum að boða það hjálpræði Landsvirkjun til handa að hætta að virkja til að skuldirnar lækki.

Í téðri grein tvímenninganna, sem rituð er af miklum vanefnum, eins og sýnt hefur verið fram á, reka þeir hornin í nýjan ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur:   

"Þórdís K.R. Gylfadóttir, ráðherra iðnaðar-, en einnig ferðamála og nýsköpunar, ávarpaði morgunverðarfundinn og sagði: "Í stuttu máli þá verður ekki annað sagt en við leggjum okkur mjög fram við að kanna til hlítar, hvort hægt sé að finna einhverjar ástæður til að virkja ekki."  Ekki er hægt að líta svo á, að þessi orð snúi að þeim orkuskorti, sem blasir við á svæðum utan suðvesturhornsins.  Ef hann er vandinn, þá er hann auðleystur með uppbyggingu dreifikerfis."

Ja, nú setti fjandinn  heldur betur upp á sig skottið.  Í fyrsta lagi blasir orkuskortur við.  Skýrt merki um það er, að verð á ótryggðri orku hefur margfaldazt, sem er fyrsta viðleitni orkuvinnslufyrirtækjanna til að draga úr raforkunotkun.  Í öðru lagi blasir við ný raforkuþörf vegna orkuskiptanna.  Ef fjöldi rafbíla árið 2025 verður 25 % af heildarfjölda fólksbíla og jeppa (í Noregi verður hann þá yfir 50 %), þá munu þeir þurfa tæplega 400 GWh, sem er 10 % aukning á almennri raforkunotkun í landinu.  Til að leysa allan innflutning á jarðefnaeldsneyti af hólmi, 800 kt/ár, þarf 6 TWh/ár af raforku, sem er um þriðjungsaukning á heildarraforkunotkun í landinu.  Að gera lítið úr orðum ráðherrans um hindranir á vegi nýrra virkjana vitnar um skilningsleysi höfundanna á þeim mikilvægu og miklu verkefnum, sem framundan eru í þessum efnum. 

Þeir láta eins og hægt sé að leysa úr orkuskortinum, sem hrjáir flesta landshluta, með einu pennastriki.  Staðreyndin er hins vegar sú, að styrking flutningskerfisins, 66 kV og ofar, er langt á eftir áætlun, Byggðalína er víða fulllestuð, og enginn veit, hvort af bráðnauðsynlegri tengingu Norður- og Suðurlands getur orðið vegna andstöðu við framkvæmdir af þessu tagi.  Þetta stendur þróun atvinnulífs á öllu norðanverðu landinu fyrir þrifum.  Þróun dreifikerfis sveitanna um allt land gengur allt of hægt, en hún felst í því að leysa eins, tveggja og þriggja víra loftlínur af hólmi með þriggja fasa jarðstrengjum.  RARIK ætti að fá heimild til að taka lán fyrir flýtingu framkvæmda og ljúka verkefninu árið 2022, enda er það arðsamt, þar sem orkuviðskiptin munu aukast og rekstrarkostnaður mun lækka við slíka fjárfestingu.   

 

 


Bloggfærslur 22. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband