Náttúruauðlind í nauðum

Fiskistofnar í höfum og vötnum heimsins hafa um áratuga skeið látið undan síga vegna of mikillar sóknar og ofveiði, en einnig vegna mengunar.  Hér er um að kenna því, sem enskumælandi kalla "tragedy of the commons" og nefna mætti "harmleik almenningsins", og sannast þar, að það sem allir eiga, það á enginn. 

Í lok síðustu aldar námu veiðar hvers konar fiska og skeldýra yfir 100 Mt/ár (Mt=milljón tonn), en árið 2012 nam aflinn aðeins tæplega 80 Mt.  Var hann úr stofnum, sem metnir voru tæplega 215 Mt, þ.e. afrán veiðimanna var 37 %, sem er mjög hátt m.v. sjálfbæran veiðistuðul, sem fyrir margar tegundir er talinn vera á bilinu 15 % - 25 %.

Vegna rányrkju af völdum allt of mikillar sóknar eru veiðarnar fyrir löngu orðnar óhagkvæmar á heimsvísu.  Þetta eru algeng örlög almenninga.  Lausnarorðið er einkaeignarréttur á auðlindinni eða á afnotarétti hennar.  Þá verða til hagsmunir af að draga úr heildarsókninni til að byggja upp lífmassann og hámarka afraksturinn. 

Stjórnvöld geta hér leikið lykilhlutverk með því að ákvarða aflamark á grundvelli beztu fáanlegu þekkingar.  Varðandi úthöfin vandast málið, því að engin stjórnvöld eiga enn lögsögu þar.  Þá reynir mjög á alþjóðasamstarf og hefur gengið brösuglega. Það er hægt að sýna fram á línulegt samband á milli þess, hversu vel eignarrétturinn er verndaður í mismunandi löndum og hversu vel umhverfið er verndað í sömu löndum. 

Prófessor við Háskóla Íslands, Ragnar Árnason, hagfræðingur, hefur þróað fiskihagfræði og unnið að rannsókn á því fyrir Alþjóðabankann, hvað hægt væri að auka verðmætasköpunina mikið úr fiskistofnum heimshafanna.

Prófessor Ragnar ráðleggur að draga úr sókninni um 44 %, og þá muni lífmassi fiskistofnanna 2,7-faldast upp í tæplega 580 Mt, sem sé hagkvæmasta sjálfbæra staða þeirra.  Hann ráðleggur 16 % nýtingarhlutfall á ári eða hámark sjálfbærs afla tæplega 90 Mt/ár, sem er tæplega 13 % aukning frá núverandi afla.

Mestu umskiptin með þessari breytingu eru í nettó arðsemi veiðanna.  Nú er tap á veiðunum, en þær njóta opinberra styrkja, svo að útgerðirnar sýna 3,0 MUSD/ár í nettó arðsemi á kostnað skattborgara.  Ef fylgt yrði ráðleggingum prófessors Ragnars, telur hann, að nettó arðsemin mundi tæplega þrítugfaldast og verða rúmlega 86 MUSD/ár án niðurgreiðslna. Fyrsta ráðið til að draga úr ofveiði er að stöðva niðurgreiðslur til útgerðanna. Hið opinbera er oft helzti skaðvaldurinn.

Í Morgunblaðinu 9. marz 2017 birtist viðtal við Ragnar Árnason, en þess má geta, að hann var stjórnvöldum hérlendis innan handar við mótun íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfisins á sínum tíma, svo að þar réði engin happa og glappa aðferð.  Það leikur ekki á tveimur tungum, að íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar fyrir sjálfbærni og skilvirkni, en að auki hefur verið sýnt fram á, að við innleiðingu þess var sýnd sanngirni og meðalhófsreglu var gætt, því að stjórnvöld ýttu þá engum út af miðunum, heldur miðuðu aflahlutdeild við veiðireynslu, eins og er algengast við slíka innleiðingu nú á dögum. 

Grundvöllur að velgengni sjávarútvegsins undir þessu kerfi er sjálfur eignarrétturinn, þ.e.a.s. varanlegur afnotaréttur takmarkaðrar auðlindar.  Útgerðarmenn, sem kaupa sér aflahlutdeild, mega þá eignfæra hann, og hann verður veðsetjanlegur, sem eflir fjárhagslegt sjálfstæði útgerðanna. Reynslan hefur einfaldlega dæmt önnur kerfi, sem komið hafa fram á sjónarsviðið, úr leik. Er það ýmist vegna ofveiði eða slæmrar fjárhagslegrar afkomu útgerðanna. Vítin eru til að varast þau, og stjórnmálamenn ættu að forðast íþyngjandi inngrip í atvinnugrein, sem gengur vel.  Þeir hafa ekki leyfi til að setja grundvallaratvinnugrein í uppnám með því að troða sérsinnaðri og vanhugsaðri hugmyndafræði sinni upp á hana.  Þeir hafa nóg annað þarfara að gera.  Að ýja að því að taka aflóga góss upp hér með stjórnvaldsákvörðun að einhverju leyti stappar nærri sjálfseyðingarhvöt, og verður nú vitnað í prófessor Ragnar: 

"Ég var vísindamaðurinn í þessu verki, en starfsmenn Alþjóðabankans settu skýrsluna í þann endanlega búning, sem Alþjóðabankinn vill hafa á svona vinnu. 

Í framhaldinu hafa forráðamenn Alþjóðabankans kynnt skýrsluna víða um heim.  Þeir eru að berjast fyrir því, að fiskveiðiþjóðir heimsins bæti sína fiskveiðistjórnun.  Með því sé hægt að ná umtalsverðum hluta af þessum miaUSD 83 [hagnaði], sem glatast á hverju ári [samkvæmt niðurstöðu Ragnars].  Það verður ekki gert, nema með því að bæta fiskveiðistjórnun í heiminum, og þar næst ekki umtalsverður árangur, nema með því að taka upp einhvers konar veiðiréttarkerfi.  Á sumum stöðum er hægt að taka upp aflakvótakerfi í líkingu við það, sem við höfum á Íslandi.  Á öðrum stöðum þarf að byggja fiskveiðistjórnun á því, sem kalla mætti sameiginlegan veiðirétt hópa eða byggðarlagarétt.  Slíkur sameiginlegur réttur gæti t.d. verið réttur einstakra fiskiþorpa til að nýta fiskistofna á sínu svæði.  Það er líklegt, að þetta fyrirkomulag geti nýtzt vel í þróunarlöndunum, þar sem erfitt er að koma við aflakvótakerfum, en fiskveiðiþorpin eru hins vegar oft í góðri stöðu til þess að stýra fiskveiðum á sínum svæðum og ráðstafa kvótum úr sameiginlegum fiskistofnum.  Aðalatriðið er, að það þarf að byggja á sterkum réttindum viðkomandi aðila, hvort sem það eru einstaklingar, fyrirtæki eða hópur fiskimanna."

Hér á landi tíðkast byggðakvóti, sem árlega er á valdi hins opinbera. Ráðstöfun hans þarfnast endurskoðunar. Úthlutun hans á báta orkar oft tvímælis veldur þá deilum í byggðarlögum, og það er tímabært að minnka byggðakvótann, þótt 5,3 % hlutfalli heildaraflamarks sé haldið fyrir hina ýmsu "potta", og einskorða byggðakvótann við tímabundnar mótvægisaðgerðir við atvinnulegum áföllum í byggðarlagi, og að byggðakvóti sé einvörðungu til stuðnings "brothættum byggðum", sem Byggðastofnun skilgreinir. 

Nú hefur þeim fækkað, og eru jafnvel teljandi á fingrum annarrar handar, þökk sé gríðarlegri eflingu fiskeldis á Vestfjörðum og Austfjörðum, sem er að snúa til betri vegar öfugþróun byggða, t.d. á sunnanverðum Vestfjörðum.  Ef allt gengur að óskum hjá þessari atvinnugrein, mun hún, ásamt ferðaþjónustu, verða kjölfesta að fjölgun fólks á Vestfjörðum.  Þetta þýðir, að Vestfirðir munu enn á ný bjóða upp á fjölbreytt og samkeppnishæft atvinnulíf og húsnæði verður auðseljanlegt á viðunandi verði. 

Úti fyrir Vestfjörðum eru einnig gjöful fiskimið, svo að þaðan hefur alltaf verið hagstætt að gera út, og svo mun áfram verða.  Á Ísafirði er öflugt tæknisamfélag, svo að framtíð heilbrigðs og fjölbreytts athafnalífs blasir við á Vestfjörðum. Tímabili brothættra byggða lýkur þar sennilega með gagngerum samgöngubótum.

Í lok téðs viðtals við Ragnar Árnason hafði hann þetta að segja um hagkvæmni fiskveiða:

""Síðan gerist það líka, sem er e.t.v. ekki eins augljóst, að ef fiskistofnum er leyft að stækka, verður fiskurinn að meðaltali stærri og yfirleitt verðmætari.  Ofnýttustu stofnarnir í heiminum eru þeir verðmætustu.  Heimsfiskveiðarnar hafa farið úr verðmætum stofnum yfir í síður verðmæta stofna, úr dýrum botnfiskum í uppsjávarfiska, sem eru fæða fyrir botnfiska.  Því er áætlað í skýrslunni, að meðalverð af lönduðum afla muni hækka um 24 %", segir Ragnar [úr 1,26 USD/kg í 1,57 USD/kg].  Um leið geti kostnaður lækkað um 44 %.  Það sé fyrst og fremst vegna þess, að fiskveiðiskipum fækki.  Ragnar segir opinbera styrki til sjávarútvegs eiga verulegan þátt í ofveiði."

 


Bloggfærslur 26. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband