Heilsustofnun og gelísk áhrif

Um páskana dvaldi blekbóndi í góðu yfirlæti á HNLFÍ-Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í hressingarskyni.  Þar var viðamikil sameiginleg dagskrá, sem hver og einn gat spunnið við að vild.  Árangur af slíkri vist næst aðeins með góðum vilja til virkrar þátttöku í því, sem er á boðstólum.  Þá er þar sannarlega ekkert letilíf.

Mataræðið er reist á grænmetishráfæði og baunum, en fiski bregður þó einnig fyrir. Þá eru margs konar grænmetissúpur, grjónagrautur og jafnvel brauðsúpa með þeyttum rjóma á boðstólum.  Á morgnana er boðið upp á frábæran hafragraut ásamt ab-súrmjólk og ávöxtum og alls konar korni og kryddi. 

Ekki er félagslegi þátturinn minnsts virði, en dvalargestur getur kynnzt fjölda manns við matborðið, í dagskráratriðunum og á kvöldvökum, ef hann leggur sig eftir því.  Blekbóndi er þakklátur fyrir góð kynni við alls konar fólk á HNLFÍ, m.a. við samstúdent úr MR, sem hann hefur varla séð í tæpa hálfa öld. 

Fyrsta kvöldvakan, eftir að blekbóndi mætti á svæðið, fólst í átakamiklum sópransöng Bjargar Þórhallsdóttur við píanóundirleik Hilmars Arnar Agnarssonar og fyrirlestri Þorvaldar Friðrikssonar, fornleifafræðings og útvarpsmanns, um gelísk áhrif í íslenzku. 

Þar er fyrst til að taka, að af hálfu Íslenskrar erfðagreiningar hefur verið sýnt fram á, að rúmlega 60 % af kvenfólki í hópi landnámsmanna hefur verið af keltneskum (gelískum) uppruna.  Sagnir eru til um stórhöfðingja í hópi landnámsmanna frá Suðureyjum, og má þar nefna Auði, djúpúðgu, og fjölda höfðingja, sem með henni komu, dreifðust um landið og tóku sér mannaforráð, en hún settist að í Hvammi í Dölum og er ættmóðir Sturlunga. Þannig verður bókmenntaáhugi og snilldartök Sturlunga auðskilinn.   

Fólkið frá Suðureyjum og annars staðar frá Skotlandi var kristið að keltneskum hætti, en kristin trú Kelta var með öðru sniði en rómversk-katólska kristnin, og Keltar viðurkenndu ekki páfann í Róm.  Biskupar Kelta höfðu lítil völd, en valdamest voru ábótar og abbadísir, enda hámenning stunduð í klaustrum Kelta, t.d. á sviði ritlistar.  Fjölmenni frá Skotlandi og Írlandi á Íslandi er skýringin á því, að hérlendis varð ekki borgarastyrjöld við kristnitökuna, eins og á hinum Norðurlöndunum, þar sem lítill minnihluti tróð trú sinni upp á alla hina.  Hérlendis gæti meirihluti íbúanna hafa verið kristinnar trúar eða velviljaður þeim trúarbrögðum áður en kristnitakan var formlega samþykkt á Alþingi vegna offors, hótana og ofbeldis Ólafs, Noregskonungs, Tryggvasonar. 

Ríkur gelískur arfur hérlendis er skýringin á einstæðri bókmenningu, sem hér reis hæst á árunum 1100-1300. Hvers vegna hefði bókmenning átt að rísa hátt á Íslandi afkomenda Norðmanna, þótt engin bókmenntahefð væri þá í Noregi ?  Slíkt er óhugsandi, nema fólk hefði tekið með sér bókmenntaarf.  Það er hins vegar einkennandi fyrir sagnaritarana, t.d. Ara, fróða, að þeir draga fjöður yfir eða gera lítið úr hinum gelíska uppruna þjóðarinnar, þætti Vestmanna, en gera sem mest úr landnámi Austmanna (Norðmanna) og nánum tengslum við Noreg.  Þetta kann að hafa verið gert að undirlagi rómversk-katólsku kirkjunnar, sem stóð þá að því að brjóta fornkirkju Keltanna á bak aftur og innleiða rétttrúnaðinn frá Róm á gelískum áhrifasvæðum. 

Það eru auðvitað mörg spor gelísku í íslenzku og fjöldi orða, sem engar rætur eiga í hinum norrænu málunum, en finna má í gelísku. Þorvaldur Friðriksson gaf mörg dæmi í fyrirlestri sínum á HNLFÍ í dymbilviku 2017 um orð í íslenzku af gelískum uppruna og fjöldamörg örnefni eru af gelískum stofni. T.d. bæjarheitið Saurbær hefur verið reynt að kenna við mýri, en með gelískri skírskotun þýðir það "miklibær", og það er mun nærtækari skýring, því að flestir Saurbæir eru kostajarðir, en mýri einkennir þá ekki umfram aðrar jarðir. 

Þá eru fjöldamörg örnefni kennd við tröllkarla, skessur eða annars óþekkta landnámsmenn.  Mest er það tilbúningur sagnaritara, sem annaðhvort hafa ekki skilið merkingu orða af gelískum uppruna eða viljað breiða yfir hana með skáldskap. 

Verður mikill fengur að bók Þorvaldar um þessi efni, og er löngu tímabært að draga huluna af hinum gelíska þætti í uppruna og menningu Íslendinga. Frá hefðbundnum fræðimönnum á þessu sviði hefur hann ekki hlotið gegnrýni, þegar hann hefur kynnt kenningar sínar, enda eru þær studdar sterkari rökum en þeir sjálfir eru í færum til að styðja sitt mál. 

Í Íslendingabók skrifar Ari Þorgilsson, að hann hafi viljað varpa ljósi á uppruna Íslendinga til að kveða niður illmælgi útlendinga um, að Íslendingar væru af þrælum komnir, og er þá aðallega átt við fólk af gelískum uppruna.  Þetta er fásinna.  Í fyrsta lagi voru fjölmargir frjálsir menn í þeim hópi, sem kaus af pólitískum og öðrum ástæðum að flýja til Íslands eða leita þar betra lífs.  Í öðru lagi var vænn hópur, sem Austmenn hnepptu í þrældóm og höfðu með sér til Íslands sem nauðsynlegt vinnuafl og eru á engan hátt verri fyrir það.  Í þriðja lagi höfðu Austmenn búið á Skotlandi og á skozku eyjunum í eina öld og blandazt Keltunum, er Ísland byggðist.  Það var þannig mestmegnis blandað fólk, sem bjó við kraftmikla menningu, sem hingað kom frá gelískum áhrifasvæðum, og engin skömm að því. Einhvers staðar liggur hér fiskur undir steini. Það er líklegt, að trúarbragðadeilur og yfirgangur Rómarkirkjunnar gagnvart Keltakirkjunni hafi byrgt hérlendum mönnum sýn. 

Blekbóndi óskar lesendum gleðilegs sumars. 


Bloggfærslur 19. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband