Úr heimi Marxismans

Marxisminn er löngu dauður, en náhirð hans lætur samt öllum illum látum til að láta líta út fyrir annað.  Engu er líkara en hún viti ekki af stjórnmálaþróuninni erlendis. Á Íslandi lýsir þessi fáránlega hegðun sér t.d. með fordæmingu á einkarekstri í heilbrigðisgeiranum og í menntageiranum. 

Verktakar selja ríkinu þjónustu sína á fjölmörgum sviðum.  Hvers vegna umturnast "náhirð Marxismans", þegar verktaki býðst til að létta undir með Landsspítalanum og létta kvöldu fólki lífið með því að bjóða sérhæfða sjúkrahúsþjónustu með bæklunarlækningum og allt að 5 sólarhringa sjúkrahússlegu í kjölfarið með 5 % afslætti m.v. kostnaðinn á þjóðarsjúkrahúsinu ? 

Svandís Svavarsdóttir, Alþingismaður, lýsti því yfir í útvarpsþætti á Gufunni 20.05.2017, að hún vildi ekki, að menn auðguðust af að þjóna sjúklingum.  Hvílík firra og fordómar !  Þar með er hún að lýsa því yfir, að hún vilji ekki, að læknar, hjúkrunarfræðingar og aðrir í sjúkrageiranum hafi góð laun.  Það hefur einmitt komið fram, að þessar stéttir á Íslandi hafa hæstu laun stéttarbræðra og -systra á Norðurlöndunum.  Það hefði aldrei orðið með Marxisma Svandísar í Stjórnarráði Íslands.  Heldur vill hún, að sænskir læknar auðgist á þjónustu við Íslenzka sjúklinga.  Það er ekki heil brú í málflutningi "náhirðar Marxismans" á Íslandi.  Hún er andlega helsjúk. 

Þessi fordómafulla og kaldrifjaða afstaða "náhirðar Marxismans" er enn öfugsnúnari í ljósi þess, að náhirðin yppir öxlum yfir því, að sjúklingar, sem beðið hafa aðgerðar í meira en þrjá mánuði (margir hafa beðið margfalt lengur) neyti réttar síns samkvæmt reglum EES og fari utan í aðgerð á einkasjúkrahúsi með a.m.k. 80 % hærri kostnaði en Sjúkratryggingar Íslands þyrftu að greiða Klíníkinni Ármúla.

Í nýlegum tilvikum af þessu tagi fóru sjúklingarnir til Svíþjóðar, sem einu sinni var vagga jafnaðarstefnunnar, sem er eins konar lýðræðisútgáfa af Marxisma.  Þessi deyfða útgáfa Marxisma reyndist þó hagkerfinu sænska þung í skauti, skattar lömuðu einkaframtakið, enda urðu þeir um tíma hinir hæstu á byggðu bóli, og ríkissjóður sökk í skuldir, svo að lánshæfnin hrundi.  Hagkerfið var stopp, þegar þessum kerfiskörlum og -kerlingum var hent á haugana í kosningum. 

Borgaralegu flokkarnir endurreistu Svíþjóð með sársaukafullum niðurskurði ríkisútgjalda og sparnaði, t.d. með því að leyfa einkaframtak á sviðum, sem ríkið hafði áður einokað, s.s. í heilbrigðisþjónustu og menntun.  Árangurinn af þessari nýbreytni var ljómandi góður, aukin gæði, stytting eða útrýming biðlista og lækkun kostnaðar fyrir ríkissjóð á hvern sjúkling og í heild.  

Það er gjörsamlega óþolandi, að "náhirð Marxismans"  hérlendis komist upp með það að koma í veg fyrir sams konar þróun í átt til fjölbreyttra rekstrarforma á þjónustusviðum ríkisins.  Íslendingar verða að athlægi fyrir fíflaganginn að senda sjúklinga utan í aðgerðir, sem bæði mannskapur og aðstaða er til að framkvæma hér heima.  Það þarf nú á tímum að fara alla leið til Venezúela til að finna jafnviðundurslega stjórnarhætti.  Er ekki réttast að senda Svandísi & Co. til Maduros, eftirmanns Chaves, honum til halds og trausts við að innleiða einræði í Venezúela, en það er endastöð Marxismans. 

Það er engin hætta á því, að Landsspítalinn verði með einhverjum hætti undir í samkeppninni við einkaframtakið.  Hann nýtur forskots sem háskólasjúkrahús, og samkeppnin mun leiða til þess, eins og á öðrum sviðum, að hver gerir það, sem hann er beztur í, þ.e. samkeppnin mun leiða til aukinnar sérhæfingar, sem bæði mun auka gæði og afköst.  Öll sú þróun er sjúklingum og skattborgurum í vil.  

Thomas Piketty heitir Frakki nokkur og falsspámaður, enda átrúnaðargoð "náhirðar Marxisma" allra landa.  Hann skrifaði fyrir nokkrum árum bók, "Fjármagn á 21. öld", sem Hernando de Soto, hagfræðingur frá Perú, hefur tætt í sundur sem bölvaðan bolaskít. 

Helzta kenning bókarinnar er þessi:

"fjármagn "býr til, með sjálfvirkum hætti, ósjálfbæran og órökréttan ójöfnuð", sem óumflýjanlegt er, að leiði yfir heimsbyggðina eymd, ofbeldi og stríðsátök, og mun halda áfram á sömu braut á þessari öld".

Þetta er kenningarlegt hálmstrá "náhirðar Marxismans" á okkar dögum.  Með því eru réttlættir ofurskattar á fyrirtæki og einstaklinga ásamt sívaxandi ríkisumsvifum, m.a. í samkeppni við einkaframtakið, og einokun ríkisins, hvar sem henni verður við komið.  De Soto hefur með vísindalegum rannsóknum sínum afhjúpað Piketty sem lýðskrumara og fúskara.  Almenningur á Vesturlöndum hefur áttað sig á, að tími stéttastríðs er liðinn og jafnaðarstefnan er aðeins fyrir "búrókratana", enda passa þeir jafnan upp á, að "sumir séu jafnari en aðrir".

Hernando de Soto skrifaði 24. ágúst 2015 grein í Morgunblaðið,

"Fátæka fólkið gegn Piketty":

"Hingað til hafa gagnrýnendur Pikettys eingöngu gert tæknilegar aðfinnslur við meðferð hans á talnagögnum, en ekki hrakið þá pólitísku kenningu hans, sem er svo bersýnilega röng, að við stefnum öll til glötunar.  Þetta veit ég, því að á undanförnum árum hafa rannsóknarhópar undir minni stjórn gert vettvangsrannsóknir í löndum, þar sem 21. öldin hefur einkennzt af eymd, ofbeldi og stríðsátökum.  Það, sem við uppgötvuðum, var, að það, sem flest fólk vill í raun, er meira fjármagn frekar en minna, og það vill, að fjármagnið byggi á raunverulegum verðmætum frekar en sýndarauði."

Öfugt við það, sem Marxistar halda fram um meinta heimsveldisstefnu auðmagnsins, hafa vestræn fyrirtæki leyst hundruði milljóna fólks úr fátæktarfjötrum, svo að þetta fólk myndar nú nýja miðstétt, aðallega í austanverðri Asíu, hefur tök á að kosta menntun barna sinna, hefur efni á að ferðast um heiminn og er orðið meðvitað um rétt sinn.  Afleiðingin er sú, að það er ekki lengur ótvírætt hagkvæmt fyrir vestræn fyrirtæki að framleiða vörur í þessum löndum, og þau eru þess vegna farin að flytja starfsemi sína heim.  Þessi þróun hefur verið áberandi í Þýzkalandi undanfarin 5 ár og er ein af ástæðum góðs atvinnuástands þar. Donald Trump er aðeins að fylgja þróuninni, þegar hann hvetur bandarísk fyrirtæki til að flytja framleiðslustarfsemi sína, atvinnu og verðmætasköpun, heim. 

Aftur að Hernando de Soto:  

"Yfir tveggja ára tímabil höfum við tekið viðtöl við um helming þeirra 37 frumkvöðla, sem lifðu af eigin sjálfsmorðstilraunir, og við fjölskyldur þeirra.  Kom í ljós, að allir voru þeir knúnir til að reyna að svipta sig lífi, því að það litla fjármagn, sem þeir áttu, hafði verið hrifsað af þeim. 

Um 300 milljónir Araba búa við þessar sömu aðstæður.  Við getum lært margt af þeim. 

Í fyrsta lagi er fjármagnið ekki uppspretta eymdar og ofbeldis, heldur frekar vöntun á fjármagni.  Versta form ójafnaðar er að eiga ekkert fjármagn. 

Í öðru lagi: fyrir flest okkar, sem búum ekki á Vesturlöndum og erum ekki fangar hins evrópska flokkunarkerfis [við hagskýrslugerð], eru fjármagn og vinnuafl ekki náttúrulegir óvinir, heldur tvær samtvinnaðar hliðar á samfelldu ferli.

Í þriðja lagi er það aðallega vangetan við að afla sér fjármagns og geta varið eign sína, sem stendur í vegi fyrir því, að þeir fátæku geti bætt hag sinn. 

Í fjórða lagi er það ekki eingöngu vestrænn hæfileiki, að einstaklingar bjóði valdamönnum byrginn.  Bouazizi og hver og einn einasti af mönnunum, sem reyndu að svipta sig lífi fyrir málstaðinn, eru engu síður merkilegir en Charlie Hebdo."

Þarna greinir de Soto frá rannsóknum sínum á örlögum "arabíska vorsins", sem hófst í desember 2010 í Túnis og hefur því miður litlu sem engu skilað í auknum mannréttindum og einstaklingsfrelsi í Arabalöndunum, nema þá helzt í Túnis, hinni fornu Karþago. 

Þessi lönd eru í heljarklóm argvítugra stjórnmálalegra trúarbragða, og prelátarnir eru eins konar andlegir fangelsisstjórar með heljartök á fólkinu. Á meðan svo er, mun svartnætti afturhalds, kvennakúgunar og einræðis halda aftur af þróun Arabalandanna. Það er himinn og haf á milli lifnaðarhátta Vesturlandamanna og Araba, þar sem hinir síðar nefndu flestir eru hlekkjaðir við trúarkenningar í miðaldamyrkri fáfræði, fordóma og kúgunar. 

Það hefur fjarað undan efnahag olíuríkjanna í Arabaheiminum við helmingun olíuverðs og aukið framboð annars staðar frá.  Ef samansúrrað einveldi sjeika og trúarhöfðingja grotnar niður, þegar þessi öfl hafa ekki lengur efni á að halda helmingi fólksins í sýndarvinnu með olíupeningum, þá mun eitthvað nýtt ná að rísa úr rústunum, verði eignarrétturinn tryggður.  Hann er alls staðar undirstaða þess, að almenningur komist til bjargálna og að framtaksmenn nái að rífa upp lífskjörin með frumkvæði sínu og dugnaði.   

Óli Björn Kárason (ÓBK) er skeleggasti baráttumaður íslenzka framtaksmannsins á Alþingi um þessar mundir.  Hann er jafnframt óþreytandi á ritvellinum, þar sem hann bregður beittum brandi sínum af vígfimi og gerði t.d. sem fyrrverandi ritstjóri Þjóðmála og Viðskiptablaðsins á þeim vettvöngum.  Óli Björn birti miðvikudaginn 3. maí 2017 eina af sínum betri greinum í Morgunblaðinu,

"Óvild í garð framtaksmannsins".

Hún hófst þannig:

"Sjálfstæði atvinnurekandinn á enn undir högg að sækja.  Það hefur ekki tekizt að hrinda atlögunni, sem staðið hefur yfir linnulítið í mörg ár.  Fjandskapur ríkir gagnvart einkaframtakinu og það gert tortryggilegt.  Árangur í rekstri er litinn hornauga. 

Á Íslandi starfa þúsundir lítilla og meðalstórra fyrirtækja.  Eigendur hafa sett allt sitt undir, en hafa aldrei farið fram á að njóta sérréttinda; aðeins, að sanngirni sé gætt og regluverk ríkis og sveitarfélaga sé stöðugt."

Það vantar mikið upp á, að stöðugleika hafi verið gætt að hálfu yfirvalda undanfarin ár. Yfir 100 skattalagabreytingar á niðurlægingarkjörtímabilinu 2009-2013 og langflestar til hækkunar, t.d. á tekjuskatti fyrirtækja og einstaklinga, fjármagnstekjuskatti og tryggingagjaldi, og núverandi fjármála- og efnahagsráðherra er að heykjast á að standa við handsal forvera síns í starfi um áfangaskiptar lækkanir hins íþyngjandi tryggingagjalds nokkuð jafndreift yfir kjörtímabilið. 

Hagstjórnin hefur ekki ráðið við hömlulausa styrkingu ISK, sem nú er í hæstu hæðum, og skráning hennar þar er gjörsamlega ósjálfbær, því að fyrirtæki, sem háð eru verðlagningu á erlendum mörkuðum, ráða ekki við þetta gengi gjaldmiðilsins.  Það er a.m.k. 20 % of hátt skráð til að útflutningsatvinnuvegirnir séu samkeppnisfærir og skili lágmarksframlegð fyrir vöxt og viðgang sinn.  

Þetta þýðir, að framlegð framtaksmannsins þurrkast upp, þótt stærri fyrirtæki skrimti með um 15 % framlegð, eins og var nálægt meðaltali hjá sjávarútveginum 2016.  Við þær aðstæður er fullkomlega eðlilegt að fella veiðigjöldin niður, en þá er hins vegar hækkun þeirra í farvatninu vegna mikillar afturvirkni reikningsaðferðar veiðigjaldanna og vegna tímabundins afsláttar vegna skulda, sem ekki er lengur við lýði.  Að leggja auðlindagjald á fyrirtæki með undir 20 % framlegð er stórskaðlegt og má líkja við að éta útsæðið.  Svandís Svavarsdóttir er hins vegar jafnkokhraust og áður og segir stjórnmálamenn skorta þrek til að sækja meira fé í ríkissjóð frá þeim, sem verðmætin skapa.  Hver vill strita sem þræll fyrir Svandísi Svavarsdóttur, sem segir í raun við verðmætaskaparana: "allt þitt er mitt", og svo skammtar hún þeim hungurlús til að hanga á horriminni.  Þessi hörmulegi hugsunarháttur lagði ríkt land, Venezúela, í rúst, svo að þar ríkir nú hungursneyð. 

Til að kóróna stjórnleysið hefur sjávarútvegsráðherra, sem ekkert virðist fylgjast með starfsumhverfi greinarinnar, skipað nefnd, sem réttara væri að nefna rammpólitíska en þverpólitíska, sem virðist hafa það hlutverk að finna leiðir til að auka opinbera gjaldtöku af greininni.  Þetta er svo óviðeigandi, að engu tali tekur.  Það, sem er brýnt að gera í þessu sambandi, er að þróa samræmda aðferðarfræði til að meta náttúruauðlindir til fjár og samræmda reikniaðferð fyrir "auðlindagjald", sem runnið getur í ríkissjóð og/eða viðkomandi sveitarsjóð eftir atvikum.  Grunnur að slíkri aðferðarfræði hefur verið kynntur á þessu vefsetri. 

Hvað hefur ÓBK að skrifa um verktöku fyrir Sjúkratryggingar Íslands ?:

"Í þingsal er alið á fjandskap í garð einkarekstrar í heilbrigðiskerfinu.  Margir fjölmiðlungar eru duglegir við að sá fræjum tortryggni og óvildar í garð þeirra, sem hafa haslað sér sjálfstæðan völl í heilbrigðisþjónustu.  Góð reynsla af einkarekstri skiptir litlu, fjölbreyttari og betri þjónusta er aukaatriði, lægri kostnaður ríkisins (skattgreiðenda) er léttvægur.  Stytting biðlista eftir aðgerðum er ekki aðalatriðið, heldur, að komið sé í veg fyrir einkarekstur, jafnvel þótt það leiði til þjóðhagslegrar sóunar og lakari lífskjara einstaklinga, sem þurfa að bíða mánuðum saman eftir úrlausn sinna mála.  Fjandmenn einkarekstrar vilja miklu fremur senda sjúklinga til annarra landa en tryggja aðgengi almennings að nauðsynlegri þjónustu hér á landi.  Í stað þess að tryggja öllum landsmönnum góða og trausta heilbrigðisþjónustu er rekstrarformið mikilvægast - trúaratriði.  Hinir "sanntrúuðu" leiða aldrei hugann að mikilvægi einkarekstrar s.s. á sviði heilsugæzlu, sérfræðiþjónustu, endurhæfingar og hjúkrunarheimila. 

Óvild í garð einkarekinna skóla er sama markinu brennd, og afleiðingar eru minni samkeppni og fábreyttari valkostir.  Kostnaðinn bera nemendur, kennarar og samfélagið allt."

Það er með ólíkindum, að ofangreind lýsing ÓBK af stöðu heilbrigðis- og menntamála á Íslandi árið 2017 skuli vera rétt.  Blekbóndi fullyrðir, að Íslendingar skjóta sig í fótinn með því að láta "náhirð Marxismans", sem ÓBK af sinni skagfirzku hógværð kallar "hina sanntrúuðu", komast upp með að þvælast fyrir sjálfsögðum framfaramálum á sviði ríkisrekstrar á Íslandi. 

Að Ísland skuli vera eftirbátur nágrannalandanna að þessu leyti er ekki lengur viðunandi, og hinn nýi heilbrigðisráðherra verður að setja á sig gula gúmmíhanzkann, sem var áður hans vörumerki, og taka af skarið um þessi mál með því að heimila Sjúkratryggingum Íslands að gera þá samninga við Klíníkina Ármúla og aðra faglega samþykkta aðila, sem duga til að vinna upp samkeppnisforskot nágrannanna að þessu leyti.  Dráttur á því er þjóðfélagslegt sjúkdómseinkenni, molbúaháttur, sem stafar af einangrun landsins, sem er furðu mikil á vissum sviðum, þrátt fyrir allt. 

Á Alþingi 15. maí 2017 tróð Katrín Jakobsdóttir í pontu og brýndi heilbrigðisráðherra að setja meira fé til Landsspítalans til að stytta hina hræðilega löngu biðlista eftir alls konar bæklunaraðgerðum.  Þarna stendur einmitt hnífurinn í kúnni.  Yfirvinna á Landsspítalanum nam í fyrra 15 % af venjulegum vinnustundum.  Það er a.m.k. 10 % of hátt, sem sýnir, að spítalinn er nú þegar yfirlestaður og getur ekki bætt við sig verkefnum með góðu móti.  Öll viðbót kemur væntanlega niður á annarri starfsemi og verður mun dýrari en einkaframtakið getur boðið að arðgreiðslum meðtöldum.  Það er til of mikils mælzt, að marxistar skilji, að allt fjármagn kostar, og arðgreiðslur eru aðeins ávöxtun þess fjár, sem einkaframtakið er búið að festa í aðstöðu til að geta þjónað viðskiptavinunum (sjúklingunum).  Ef banna á arðgreiðslur, hverfa fjárfestingar.  Jafnvel Maduro í Venezúela mun skilja þetta "the hard way" á undan "náhirð Marxismans" á Íslandi.

Blekkingariðja og ófrægingarherferð "náhirðar Marxismans" snýst um að telja fólki trú um þau margafsönnuðu ósannindi, að hagsmunir launþega og framtaksmannsins séu ósamrýmanlegir.  Hið sanna er, að hagur beggja fer saman.  Framtaksmaðurinn er háður góðu og hæfu starfsfólki til að standast samkeppnina við aðra framtaksmenn, svo að ekki sé nú minnzt á samkeppnina við rótgróin stórfyrirtæki á markaðinum.  Framtaksmaðurinn laðar til sín gott og hæft fólk með því að gera vel við það.  Það getur hann aðeins, ef honum vegnar vel. 

Til að þetta gangi allt upp, þarf að ríkja efnahagslegt jafnvægi í landinu og skipting á verðmætasköpun á milli framtaksmannsins og hans fólks þannig, að fyrirtækið skili framlegð til fjárfestinga, afskrifta, arðgreiðslu og skattgreiðslna.  Nauðsynlegt jafnvægi er ekki fyrir hendi nú, því að hið opinbera hrifsar til sín of stóra sneið af kökunni og gengi gjaldmiðilsins er of hátt fyrir getu framtaksmannsins, ef afurðaverð hans er háð verði á erlendum mörkuðum.

Samkvæmt stefnu Sjálfstæðisflokksins fara ekki aðeins saman hagur framtaksmannsins og landsins, heldur er hann aflvaki verðmætasköpunar í landinu. 

ÓBK orðaði þetta vel og eftirminnilega í téðri Morgunblaðsgrein:

"Framtaksmaðurinn er og hefur alltaf verið drifkraftur framfara og þar með bættra lífskjara. Hann er aflvaki breytinga - kemur auga á tækifærin, býður nýja vöru og þjónustu, skapar störf og eykur lífsgæði samferðamanna sinna.  Með nýrri hugsun og nýjum aðferðum ógnar framtaksmaðurinn hinum stóru og knýr hjól samkeppninnar."

Þjóðfélagskerfi, þar sem framtaksmaðurinn þrífst, hafa fyrir löngu sannað gildi sitt og yfirburði gagnvart þjóðfélagskerfi Marxismans og daufari útgáfu hans, jafnaðarstefnunni.  Það er tímaskekkja á Íslandi að ljá eyra við nágauli "náhirðar Marxismans" árið 2017. 

 

  sovetisland

   


Bloggfærslur 20. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband