Af manna í boði borgar

"Berum ábyrgð á eigin heilsu" er slagorð NLFÍ (Náttúrulækningafélags Íslands), og félagið hefur mikið til síns máls með slíkum boðskapi, en hvernig á almenningur að bera ábyrgð á eigin heilsu í höfuðborginni, þegar þvílík endemis leyndarhyggja yfirvalda þar hvílir á óþægilegum mengunarmálum, að almenningur stendur í raun berskjaldaður ?

Í forystugrein Þorbjarnar Þórðarsonar í Fréttablaðinu 11. júlí 2017, "Þagað um mengun", kemur kemur í upphafi fram, að "skólp hafði runnið út í sjó við Faxaskjól í Reykjavík í 3 vikur, þegar almenningur fékk fyrst upplýsingar um bilun í dælustöð og mengun, sem henni fylgdi."

Miðað við uppgefið rennsli 750 l/s þá hefur óhreinsað skolp út í sjó numið 65 kt/sólarhring (k=þúsund) eða 1,4 Mt (M=milljón) tonnum á umræddum 3 vikum.  Hér er um fáheyrðan atburð að ræða, sem hefur 2 hliðar.  Annars vegar hvílir skýlaus lagaleg tilkynningarskylda á stjórnvöldum (stjórnvaldið er hér Reykjavíkurborg-Veitur og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur), þegar hvers konar mengunarslys verða, og hins vegar sýnir hinn langi viðgerðartími fram á, að nauðsynlegar viðbragðsáætlanir Veitna, dótturfyrirtækis OR-Orkuveitu Reykjavíkur, eru annaðhvort ekki til, verklagsreglur vantar, þær eru meingallaðar eða þjálfun og þekkingu starfsfólks er mjög ábótavant.  Þetta er nauðsynlegt að rannsaka, en er núverandi meirihluta borgarstjórnar treystandi til þess ?  Samkvæmt viðbrögðum helztu talsmanna hans eru forkólfar meirihlutans gjörsamlega úti að aka um mikilvæg atriði í borgarrekstrinum og ekki þykir taka því að upplýsa þá um stórbilanir í innviðum borgarinnar.  Þar leiðir blindur haltan. 

Skoðum fyrst tilkynningarskylduna.  Held áfram að vitna í ÞÞ:

"Ákvæði um skyldu stjórnvalda til að veita upplýsingar um mengun að eigin frumkvæði kom inn í lög um upplýsingarétt um umhverfismál árið 2012.  Þar segir, að stjórnvöldum sé "ævinlega skylt að hafa frumkvæði að upplýsingagjöf, sé ástæða til að ætla, að frávik vegna mengandi efna í umhverfi geti haft í för með sér hættu eða skaðleg áhrif á umhverfi eða heilsu fólks eða dýra."  Þegar Reykjavíkurborg er annars vegar, hvílir upplýsingaskyldan samkvæmt lögunum á borginni sjálfri, stofnunum borgarinnar og fyrirtækjum í hennar eigu."

Það er skýlaust, að Veitur brutu þessi lög með því að tilkynna ekki almenningi strax um, að fyrirtækið hefði ekki lengur stjórn á mengunarvörnum, sem skolphreinsistöðinni við Faxaskjól væri ætlað að sinna, af því að ekki tækist að loka neyðarlúgu fyrir skolp út í sjó.  Veitur hafa ekki gert tilraun til að útskýra þessa bilun eða langa viðgerðartíma.  Hvernig er fyrirbyggjandi viðhaldi háttað ?  Er varahlutahald fyrir lykilþætti starfseminnar í skötulíki.  Á meðan ekkert er upplýst, er tilhneiging til að halda, að sannleikurinn þoli ekki dagsljósið.

Áfram með ÞÞ:

"Greint hefur verið frá því, að stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hafi fengið minnisblað um bilun í dælustöðinni í Faxaskjóli hinn 15. júní og hún hafi verið rædd á stjórnarfundi hinn 19. júní síðastliðinn.  Þegar RÚV sagði frá saurmengun í sjónum við Faxaskjól hinn 5. júlí, hafði skólp runnið út í sjó í 21 dag í 3,5 km fjarlægð frá Nauthólsvík, vinsælum baðstað Reykvíkinga, án þess að borgarbúar væru látnir vita."

Að framkvæmdastjóri Veitna skyldi sjá ástæðu til að senda stjórn móðurfyrirtækisins, e.t.v. með milligöngu forstjóra OR, minnisblað um bilunina nánast strax og hennar varð vart, sýnir, að hjá Veitum (og OR) hafa menn þegar í upphafi litið bilunina á umræddri neyðarlúgu alvarlegum augum.  Það hlýtur að hafa verið vegna þess, að framkvæmdastjóri Veitna, Inga Dóra Hrólfsdóttir, og/eða forstjóri OR, Bjarni Bjarnason, hafa gert sér grein fyrir afleiðingunum, þ.e. styrk saurgerla langt yfir leyfilegum mörkum fyrir fólk og fénað í fjöru eða að synda úti fyrir. 

Þá brennur sú spurning á, hvers vegna var ekki strax uppfyllt tilkynningarskyldan um mengunarslys til almennings ?  Úr því að henni hafði ekki verið fullnægt, þegar stjórnarfundur OR fór fram þann 19. júní 2017, þar sem minnisblað Veitna um mengunarslysið var til umræðu, hvers vegna í ósköpunum tók þá þessi stjórn ekki af skarið og samþykkti opinbera tilkynningu, sem gefa skyldi út samdægurs almenningi til viðvörunar, enda heilsuvá á ferðinni.  Hvað skyldi mikil ógn þurfa að steðja að almenningi, til að þessi sama stjórn telji ástæðu til að upplýsa um hana ?  Þessi stjórn er lögbrjótur, og ætti að lýsa vantrausti á hana strax.  Í henni sitja samkvæmt vefsetri OR 12.07.2017:

Brynhildur Davíðsdóttir, formaður, Gylfi Magnússon, varaformaður, Sigríður Rut Júlíusdóttir, Kjartan Magnússon, Áslaug Friðriksdóttir, Rakel Óskarsdóttir

Þessi stjórn er nú með allt á hælunum, er orðin ber að of takmarkaðri og þröngri þekkingu á veiturekstri og gefur skít í lýðheilsu.  Er þjónusta slíks fólks í opinberu fyrirtæki einhvers virði fyrir almannahag ?  Hvar er virðisaukinn af störfum þessa fólks á téðum vettvangi ? 

Enn skal halda áfram að vitna til forystugreinar ÞÞ:

"S. Björn Blöndal, formaður Borgarráðs, hefur vísað til þess, að það sé Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að meta, hvort mengun sé skaðleg, þannig að skylt sé að tilkynna um hana að eigin frumkvæði.  Veitur o.h.f. greina frá því á heimasíðu sinni, að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi farið og kannað magn saurgerla í fjörunni við dælustöðina í Faxaskjóli hinn 6. júlí og frumniðurstöður mælinga hafi legið fyrir daginn eftir.  Hvernig gat Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vitað, að magn saurgerla í sjó væri ekki skaðlegt almenningi [þ.e. væri undir 100 talsins/ml - innsk. BJo], þegar engar mælingar höfðu farið fram í sjónum við dælustöðina ?  Töldu embættismenn borgarinnar og starfsmenn Veitna, að það væri bara bezt að sleppa því að segja frá biluninni, sleppa því að óska eftir saurgerlamælingum og vona það bezta ?"

Hér eru gríðarlegar ávirðingar á hendur stjórnmálamönnum og embættismönnum borgarinnar á ferð.  S. Björn er, eins og vanalega, algerlega úti á túni, alla vega ekki niðri í fjöru, þegar hann fríar sjálfan sig og embættismennina utan Heilbrigðiseftirlitsins ábyrgð á tilkynningarskyldunni.  Það er svo kapítuli út af fyrir sig, hvers vegna Kjartan Magnússon, stjórnarmaður í OR, vissi ekkert um atburðinn fyrr en sagt var frá honum í seinni kvöldfréttatíma Sjónvarps RÚV 5. júlí 2017.

Talsmaður Veitna segir, að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi fengið tilkynningu strax um atburðinn.  Það er þess vegna óskiljanlegt, hvers vegna sú stofnun hélt ekki uppi daglegum mælingum við ströndina sitt hvorum megin við úthlaupið alla þá  daga, 21 talsins, sem lúgan var samfellt opin, og upplýsti um öll mæligildi á vefsetri sínu.  Þessi stofnun borgarinnar virðist hafa verið stungin líkþorni við þennan atburð og gjörsamlega gleymt skyldum sínum.  

Það guðdómlega við alla þessa óhæfni er, að engin teikn eru enn á lofti um, að hún muni hafa neinar afleiðingar fyrir stöðu nokkurs manns.  Það er eins og engar kröfur séu gerðar til neins í þessu skelfilega borgarapparati.  Þannig er eftirfarandi haft eftir Ingu Dóru Hrólfsdóttur, framkvæmdastjóra Veitna í Morgunblaðinu, bls. 2, þegar hún er spurð, hvort hún telji, að draga þurfi einhvern til ábyrgðar vegna málsins:

"Veitur hafa sinnt upplýsingaskyldu sinni, sem felst í því að upplýsa Heilbrigðiseftirlitið um opnun neyðarlúgunnar.  Heilbrigðiseftirlitið hefur brugðizt við með því að taka sýni samkvæmt lögum og reglugerðum.  Í framhaldi af þessu máli munum við endurskoða verkferla hjá okkur varðandi upplýsingagjöf til almennings í þeim tilgangi að bæta hana."

Það er alrangt, að Veitur hafi sinnt upplýsingaskyldu sinni, því að samkvæmt lögum ber Veitum að tilkynna almenningi tafa- og vafningalaust um öll mengunarslys, sem hljótast af starfsemi þeirra.  Heilbrigðiseftirlitið brást algerlega líka.  Að draga fram ónothæfa verkferla, sem hún, framkvæmdastjórinn, ber sjálf ábyrgð á, sem sökudólga í málinu, er aumlegt yfirklór.  Viðbrögð þessa framkvæmdastjóra Veitna í öllu þessu ferli sýna, að lýðheilsusjónarmið lúta í lægra haldi fyrir einhverjum öðrum hagsmunum, þegar á reynir.  

Þann 11. júlí 2017 birti ritstjórn Morgunblaðsins forystugrein, sem bar heitið:"Brugðust borgarbúum":

Hún hófst þannig:

"Formaður borgarráðs Reykjavíkur tjáði sig seint og illa um viðbjóðinn, sem bíað hafði út strandlengjur höfuðborgarinnar vikum saman, án þess að fólkið, borgarbúarnir, væri látið vita og gæti gætt sín og barna sinna.  Fjöldi starfsmanna borgarinnar á veitusviði og heilbrigðissviði vissi um vandræðin og um ógnina, sem af þeim stafaði."

Það er með ólíkindum, að þetta skuli vera atburðalýsing, sem eigi við höfuðborg Íslands árið 2017.  Sú staðreynd undirstrikar málsháttinn, að því ver gefast heimskra manna ráð sem þeir koma fleiri saman.

Seinna í greininni skrifar ritstjórinn:

"Þeir, sem sendir voru til svara, voru ekki borgaryfirvöldin, sem glenna sig meira en góðu hófu gegnir við öll önnur tækifæri.  Það voru embættismenn, sem enginn kannast við að hafa heyrt eða séð nokkru sinni áður, sem voru látnir taka skömmustulegir við hrópandi spurningum.  Þeir komust ekki vel frá því.  Að mati embættismannanna voru það "verkferlar", sem brugðust vikum saman.  Þessir verkferlar hafa ekki sézt eða heyrzt áður.  En embættismennirnir sögðust búnir að gera upp við sig að skoða þessa verkferla.  Hvaða óráðshjal er þetta eiginlega ?"

Viðbrögð allra stjórnmálamanna og embættismanna Reykjavíkurborgar, sem birzt hafa opinberlega, eru eitt samfellt óráðshjal.  Englendingar mundu segja:"They are covering their ass", sem útleggst, að þeir skýli eigin boru.  Þeir láta hins vegar hagsmuni umbjóðenda sinna lönd og leið, og það er dauðasök fyrir pólitískan og embættislegan feril.

Davíð Oddsson lýkur forystugreininni þannig, að ekki þarf um að binda:

"Hneykslið, sem borgarbúar hafa þurft að horfa upp á og fundið fnykinn af að undanförnu, er til komið vegna þess, að yfirvöldin í borginni þekkja hvorki verkefni sitt né vitjunartíma og myndu ekki valda því, þótt hin einfalda mynd rynni upp fyrir þeim.

Slíka menn þarf að finna í fjöru sem fyrst.  Það er ekki kræsilegt, en hjá því verður ekki komizt." 

 

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 13. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband