Efling á réttum tíma

Hröð þróun á sér nú stað í sjávarútvegi til að treysta samkeppnistöðu greinarinnar á tímum lækkandi fiskverðs, a.m.k. í krónum (ISK) talið.  Gríðarlegar og tímabærar fjárfestingar eiga sér nú stað í nýjum fiskiskipum, sem leiða munu til mikillar hagræðingar, því að í mörgum tilvikum kemur eitt skip í stað tveggja.  Þetta mun lækka sóknarkostnað á hverja veidda einingu vegna minna mannahalds og gríðarlegs olíusparnaðar.  Einnig styttist úthaldstími, en það er þó aðallega vegna gjöfulli miða, sem eru beinn afrakstur af fórnum fyrri ára við uppbyggingu veiðistofnanna. Að sjálfsögðu eiga hinir sömu nú að njóta eldanna, sem kveiktu þá.  

Fjöldi launþega í sjávarútvegi náði hámarki þessarar aldar árið 2013 og nam þá 10´200 manns, en árið 2017 er búizt við, að meðalfjöldi launþega verði 8´500 í sjávarútvegi.  Launþegum í greininni fækkaði um 600 á 12 mánaða skeiði á milli aprílmánaða 2016 og 2017. Þetta sýnir hraða breytinganna, sem nú ganga yfir.

Sem dæmi um tækniþróun togskipanna má taka frásögn Baksviðs Guðna Einarssonar á bls. 18 í Morgunblaðinu, 17. júní 2017, af nýjum skipum Vinnslustöðvarinnar:

"Skrokklag nýju togaranna er með nýju sniði og skrúfurnar þær stærstu, sem þekkjast, miðað við vélarafl.  Skrúfan er 4,7 m í þvermál.  Með því á að stytta togtímann og nýta vélaraflið til hins ýtrasta.  Áætlað er, að eldsneytissparnaður verði allt að 40 % m.v. hefðbundna togara.  Togararnir geta dregið tvö troll samtímis og hafa þannig 60 % meiri veiðigetu en togari með eitt troll.  Ganghraði Breka í reynslusiglingu var 14 sjómílur."

Þetta eru byltingarkenndar breytingar, og við þessar aðstæður fyllir fiskeldi nú upp í skarð, sem myndast við hagræðingu í sjávarútvegi, heldur uppi atvinnustigi og snýr jafnvel við óheillavænlegri margra ára íbúaþróun, eins og á Vestfjörðum.  Atvinnugreinin er þó ekki gallalaus frekar en önnur atvinnustarfsemi.  Mestar áhyggjur stafa af stroki laxa úr sjókvíaeldiskerum.  Hafrannsóknarstofnun hefur nú lagt fram sínar ráðleggingar um stefnumörkun í greininni, og eru þær nauðsynlegt vegarnesti.  Þar gætir eðlilegrar varfærni nú á byrjunarstigum mikils vaxtarhraða, þar sem ráðlagt hámarkseldi á Vestfjörðum er 50 kt/ár og 20 kt/ár á Austfjörðum.  Með meiri reynslu af sjókvíaeldinu og aukinni þekkingu á starfseminni og umhverfisáhrifum hennar verður grundvöllur til endurskoðunar á þessum tillögum.  Þær fela í sér talsvert vaxtarsvigrúm fyrir sjókvíaeldi á laxi eða sjöföldun m.v. núverandi framleiðslustig.  

Almenningur hefur of lítið verið fræddur um líkindi seiðastroks úr nýrri gerð sjóeldiskvía og afleiðingar þess af vísindamönnum, og upphrópanir og staðleysur hafa sett of mikinn svip á umræðuna.  Þess vegna var grein Arnars Pálssonar, erfðafræðings, í Fréttablaðinu 8. júní 2017, vel þegin.  Hann nefndi hana:

"Áhrif erfðamengunar á villta laxastofna"

og henni lauk þannig:

"Niðurstöður Bolstad [Geir Bolstad er norskur vísindamaður á sviði erfðafræði - innsk. BJo] og félaga eru óvissu háðar, eins og allar rannsóknir á náttúrunni.  En spurningin er ekki lengur, hvort gen frá eldisfiski hafi áhrif á villta laxastofna, heldur hversu mikil og hvers eðlis þau eru.  Stóra spurningin er: leiðir erfðablöndunin til hnignunar og útdauða villtra stofna ? [Það er nánast útilokað, að slíkt geti gerzt hérlendis, því að laxeldi í sjókvíum er bannað meðfram ströndinni, þar sem helztu laxveiðiár landsins renna í sjó fram. - innsk. BJo]  

Það er full ástæða til að endurskoða laxeldi í sjókvíum hérlendis.  Sérstaklega þar sem íslenzkir laxar eru fjarskyldir eldislaxi.  Ástæðan er sú, að flæði gena frá eldisfiskum getur breytt eiginleikum villtra íslenzkra laxastofna, gert þá minna hæfa í lífsbaráttunni og dregið úr getu þeirra til að þróast í framtíðinni.  

Frændur vorir í Noregi og vinir í Síle hafa brennt sig á flestu, sem hægt er í laxeldi.  Vonandi berum við gæfu til að læra af mistökum þeirra og fórna ekki lífríki vatna og hafs fyrir ódýrar og skammsýnar lausnir í laxeldi."

Það vildi okkur Íslendingum til happs, að iðnaði óx ekki fiskur um hrygg hérlendis fyrr en tækniþróunin var komin svo langt, að hægt var að koma við árangursríkum mengunarvörnum.  Hið sama á við um laxeldið.  Þar er nú að ryðja sér til rúms norsk hönnun sjókvía, sem mjög (a.m.k. um eina stærðargráðu)hefur dregið úr stroki laxa þar.  Jafnframt eru settar upp neðansjávareftirlitsmyndavélar, og fylgzt er með myndum frá þeim allan sólarhringinn.  Þannig er hægt að bregðast strax við stroki og fanga laxinn áður en hann sleppur upp í árnar. 

Með innleiðingu nýrrar tækni á þessu sviði er búið að draga úr líkum á stroki laxaseiða, sem eru reyndar ekki orðin kynþroska, og jafnframt búið að innleiða mótvægisaðgerðir við stroki.  Allt þetta hefur minnkað líkur á stroki upp í árnar, sem blekbóndi mundi ætla, að sé nálægt 1 ppm við eldi samkvæmt gildandi norskum staðli um sjókvíaeldi, þ.e. með 95 % vissu má ætla, að af einni milljón seiða á einu eldissvæði sleppi að jafnaði eitt upp í árnar í viðkomandi firði á ári.  Slíkt sleppihlutfall er skaðlaust fyrir íslenzka náttúru.  Reynslutölur og/eða áætluð gildi um þetta þurfa endilega að birtast frá eldisfyrirtækjunum, samtökum þeirra eða eftirlitsaðilunum, því að framtíð fyrirtækjanna veltur á frammistöðu þeirra í þessum efnum.  

Hins vegar á sér stað annars konar og afar markverð þróun á sviði fiskeldis, sem nánast útilokar þessa áhættu.  Þar er átt við fiskeldi í landkerum.  Á Íslandi njóta þau jarðhita, jafnvel affallsvatns, en raforkunotkun er talsverð vegna dælingar, og þurfa slík fyrirtæki langtímasamning um heildsöluverð á raforku.  Virðisaukaskattur af jarðvarma og raforku er endurgreiddur til útflutningsiðnaðar.  

Matorka hefur hefur hafið eldi á bleikju og laxi á Reykjanesi og áformar að framleiða 3,0 kt/ár f.o.m. 2018.  Fyrirtækið rekur seiðaeldisstöð að Fellsmúla í Landssveit.  Framleiðslugetan þar er 1,0 M (milljón) seiði á ári.  Fyrri áfangi Reykjanesstöðvarinnar getur framleitt 1,5 kt/ár af sláturfiski í 6 kerum.  

Afurðaverðið á slægðri bleikju um þessar mundir er um 800 ISK/kg og um 1710 ISK/kg af flökum.  Fyrir laxinn fæst enn hærra verð.  

Árni Páll Einarsson, framkvæmdastjóri Matorku, sagði eftirfarandi í samtali við Guðjón Guðmundsson hjá Fiskifréttum á bls. 5, fimmtudaginn 22. júní 2017,:

"Við erum með samning við HS Orku um nýtingu á affallsvarma, sem gerir eldisstöðina hérna einstaka á heimsvísu, og erum aðilar að Auðlindagarðinum [það er fjölnýting á jarðgufu, sem HS Orka aflar í Svartsengi og víðar og er til stakrar fyrirmyndar - innsk. BJo].  Íslendingar eru með einstaka möguleika á landeldi, sem til að mynda bjóðast ekki í öðrum löndum [undirstr. BJo]."

Laxeldi í sjókvíum er þröngur stakkur skorinn, þar sem Suðurströndin hentar ekki, Vesturströndin sunnan Látrabjargs er lokuð laxeldi í sjó og sömuleiðis Norðurströndin, nema Eyjafjörður. Nýleg ráðlegging Hafrannsóknarstofnunar útilokar líka Ísafjarðardjúp, og Stöðvarfjörð frá laxeldi og leggst gegn aukningu í Berufirði. Þótt burðarþol Vestfjarða, Eyjafjarðar og Austfjarða hafi áður verið lauslega áætlað 200 kt/ár af fiskmassa í sjókvíum, er ólíklegt, að sláturmassinn úr sjókvíum fari nokkurn tíma yfir 100 kt/ár hérlendis af umhverfisverndarástæðum, og frumráðlegging Hafró er 70 kt/ár í sjóeldiskvíum.  Þetta verður þó hægt að bæta upp hringinn í kringum landið, þar sem jarðhita og hagstætt rafmagn er að hafa, með fiskeldi í landkerum.  Líklegt er, að téð frumráðlegging Hafró um starfsleyfi fyrir aðeins helmingi þeirrar framleiðslugetu, sem þegar hefur verið sótt um, muni flýta fyrir þróun landkereldis hérlendis.   

Til að ná framleiðslugetu sláturfisks 100 kt/ár á landi þarf 400 framleiðsluker á stærð við kerin, sem Matorka notar nú.  

Á Austfjörðum fer nú fram ánægjuleg uppbygging laxeldis, sem kemur sér vel fyrir byggðir þar, sem stóðu höllum fæti vegna hagræðingar innan sjávarútvegsins, sem talin var nauðsynleg til að halda velli í samkeppninni.  Þann 20. júní 2017 birtist um þetta frétt Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu,

"10 þúsund tonna laxaframleiðsla hafin":

"Áfangar nást þessa dagana hjá austfirzku laxeldisfyrirtækjunum.  Nýjar og öflugar sjókvíar hafa verið settar upp í Berufirði og Reyðarfirði og norskt leiguskip, svokallaður brunnbátur, er að flytja laxaseiði frá seiðastöðvum fyrirtækjanna í Þorlákshöfn.  Á bilinu 1800 - 1900 þúsund seiði eru sett út þessa dagana, og mun það skila um 10 þúsund tonnum af laxi í fyllingu tímans."

Þó að hér sé um dágott magn að ræða, er það samt of lítið fyrir hagkvæman rekstur.  Einingarkostnaður verður of hár fyrir samkeppnishæfni á alþjóðlegum markaði, nema hagkvæmni stærðarinnar fái að njóta sín.  Þess vegna sækjast laxeldisfyrirtækin eftir starfsleyfi og rekstrarleyfi fyrir auknu magni.  Má ætla, að stærð eldisfyrirtækjanna hérlendis nái nauðsynlegu lágmarki um 2020 og verði þá slátrað a.m.k. 40 kt.  Stjórnvöld verða að átta sig á þessu, þ.e. nauðsyn á að ná hagkvæmni stærðarinnar, og það eru ábyrgðarlausar úrtölur hjá sjávarútvegs- og landúnaðarráðherra, að nú þurfi að hægja á leyfisveitingaferlinu, enda væru slík stjórnvaldsinngrip óleyfileg samkvæmt núgildandi lögum.  Væri ráðherranum nær að leggja hönd á plóg við þróun sanngjarns afgjaldskerfis fyrir afnot af náttúruauðlind við strendur landsins, eða ætlar hún kannski að innleiða uppboð á téðri auðlind ? 

Eftir að "krítískum massa" er náð hérlendis, e.t.v. um 60 kt/ár í slátrun hjá öllum sjókvía eldisfyrirtækjunum, má þó segja, að 5 %- 15 % árlegur vöxtur sé eðlilegur upp í það gildi, sem talið verður verjanlegt út frá rekstrarreynslunni, stroklíkindum og metnu burðarþoli fjarða.  Þetta gildi verður líklega 70 - 100 kt/ár í sjókvíum hérlendis.

"Bæði fyrirtækin [Fiskeldi Austfjarða og Laxar fiskeldi - innsk. BJo] hafa verið að byggja sig upp, tæknilega.  Hafa [þau] keypt stóra fóðurpramma og þjónustubáta.  

Fiskeldi Austfjarða er með aðstöðu á Djúpavogi og slátrar þar sínum laxi.  Laxar hafa komið sér upp starfsstöð á Eskifirði.  Ekki hefur verið ákveðið, hvar fiskinum verður slátrað.  Laxar hafa leyfi til framleiðslu á 6 þúsund tonnum í Reyðarfirði og fullnýta það leyfi í ár.  Einar Örn Gunnarsson, stjórnarmaður og einn stofnenda, segir, að sótt hafi verið um leyfi til stækkunar, og vonast hann til þess, að það fáist, þannig að hægt verði að halda áfram uppbyggingunni á næsta ári."

Það er brýnt, að stjórnvöld virki ekki sem dragbítar á þessa mikilvægu starfsemi fyrir byggðirnar og þjóðarhag.  Fyrirtækin þurfa sem fyrst að fá vitneskju um það magn, sem í byrjun er ætlunin að leyfa á hverjum stað ásamt fyrirhugaðri aukningu, og þau skilyrði, sem leyfunum fylgja, ásamt auðlindagjaldinu, sem þau mega búast við að greiða, að mestu til viðkomandi sveitarfélaga, vonandi. 

Frétt Helga Bjarnasonar um Fiskeldi Austfjarða, sem birtist á bls. 26 í Morgunblaðinu, 30. júní 2017, lauk þannig:

"Fiskeldi Austfjarða er tilbúið til áframhaldandi stækkunar.  [Fyrirtækið] er vel fjármagnað og hefur aðgang að nauðsynlegri þekkingu, að sögn Guðmundar, og markaður fyrir laxaafurðir er mjög góður.  "Við viljum halda áfram fjárfestingum, ráða fleira fólk og byggja fyrirtækið frekar upp.  Til þess þurfum við skýra framtíðarsýn [stjórnvalda].  Allir, sem að fiskeldi koma, þurfa að ganga í takti", segir Guðmundur Gíslason."

Nú er framtíðarsýn stjórnvalda hérlendis á laxeldi í sjó að fæðast.  Sumir hafa gagnrýnt erlenda hlutdeild í fiskeldi á Íslandi.  Afstaða þeirra einkennist af þröngsýni fremur en þekkingu á gildi beinna erlendra fjárfestinga.  Þeir hafa ekki gert sér grein fyrir mikilvægi nýrrar tækni- og stjórnunarþekkingar, sem jafnan berst með erlendum fjárfestum, auk fjölþættra markaðssambanda þeirra á birgja- og söluhlið viðskiptanna.  Það er hörmung að hlýða á steinrunninn málflutning um brottflutning arðs erlendra hluthafa.  Þá gleymist, að allt fé kostar og það er sanngjarnt, að sá, sem hættir fé sínu til atvinnustarfsemi hér, njóti eðlilegrar ávöxtunar á sínu fé, ekki síður en aðrir.  Í áhættustarfsemi á borð við laxeldi er allt að 15 %/ár eðlileg ávöxtunarkrafa af eigin fé, en á uppbyggingarskeiði verður ávöxtunin mun minni eða engin, af því að fiskeldi er fjármagnsfrek starfsemi.  Íslenzkar lánastofnanir voru ófúsar að lána innlendum aðilum til uppbyggingar fiskeldis eftir Hrun fjármálakerfisins, og þá var eðlilegt og líklega affarasælt að leita út fyrir landsteinana, enda er þar jafnframt tækniþekkingu á starfseminni að finna.  

Ætli sé á nokkurn hallað, þótt sagt sé, að Arnarlax sé leiðandi fiskeldisfélag á Vestfjörðum.  Í 200 mílum Morgunblaðsins, 31. maí 2017, gat að líta eftirfarandi frásögn Skúla Halldórssonar:

"Fiskeldisfyrirtækið Arnarlax hefur tekið í notkun nýjan og öflugan fóðurpramma, sem borið getur 650 t af fóðri.  Til samanburðar geta hinir tveir prammarnir í eldinu, sem fyrir voru, aðeins borið 300 t hvor.

Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax, segir í samtali við Morgunblaðið, að kaupin á prammanum séu liður í öruggri sókn fyrirtækisins, sem stofnað var árið 2009.  

"Þetta er merki um, hvað íslenzkt fiskeldi er orðið faglegt og er að nota nýjustu tækni og tól til uppbyggingar á greininni hér á Íslandi", segir Víkingur.

Pramminn var smíðaður í Eistlandi og kostaði MISK 300 að sögn Víkings.  Allt er til alls þar um borð, eldhús og káetur auk stjórnstöðvar með kraftmiklar ljósavélar. [Starfsemi á borð við þessa er alveg kjörið að rafvæða og jafnvel að vera með rafstreng úr landi. - innsk. BJo]

Arnarlax mun þó ekki láta þar staðar numið. "Við reiknum með, að við smíðum annan pramma af svipaðri stærð.  Það sýnir bara, hversu mikil uppbygging er í þessum geira, sem er í raun orðinn stór iðnaður hér á landi", segir Víkingur.

Pramminn verður settur niður í Tálknafirði síðar í vikunni af sérútbúnu skipi, sem Arnarlax leigir að utan til verksins.

"Það er mjög öflugur vinnubátur, sem er m.a. með kafbát til að skoða allar festingar.  Allt er þetta gert eftir ströngustu kröfum, því að það er það, sem við viljum gera til að koma í veg fyrir hvers kyns óhöpp og slys."

Hérlendis eru hannaðir og smíðaðir fjarstýrðir dvergkafbátar.  Það er ekki ólíklegt, að það muni þykja hagkvæmt að fá slíkan dvergkafbát til eftirlits með eldiskvíum í sjó.  Viðurlög við stroki ógeldra eldislaxa úr sjókvíum þurfa að vera þungbær rekstraraðilum, svo að þeir sjái sér augljósan hag í að fjárfesta í traustasta búnaðinum og að hafa með honum reglubundið, strangt eftirlit, þar sem beitt sé tækni, sem gefur kost á aukinni nákvæmni við eftirlitið.  

""Við [hjá Arnarlaxi] slátrum 10 kt á þessu ári.  Héðan frá Bíldudal flytjum við því 10 kt af ferskum laxi út um allan heim."

Stór hluti laxins fer út til Bandaríkjanna og er seldur í Whole Foods-verzlunum þar í landi, en sömuleiðis er hann fluttur út til Evrópu og Asíu."

Þessi markaðssetning gefur væntanlega hæsta mögulega verðið.  Það hefur undanfarið verið um 1000 ISK/kg, en verðið hefur ekki alltaf verið svona hátt.  Árið 2015 fór að gæta minnkandi framboðs af völdum sjúkdóma í laxeldi í Noregi og í Síle, og árið 2016 nam samdráttur framboðs 7 % frá hámarkinu.  Afleiðingin var 50 % hærra verð en 2014 í USD talið.  Venjulegt verð hafði með öðrum orðum verið undir 700 ISK/kg að núviðri lengst af.  Framlegðin er af þessum sökum há um þessar mundir, og það kemur sér vel fyrir laxeldisfyrirtækin á Íslandi, sem standa í miklum fjárfestingum við uppbygginguna eða fyrir a.m.k. 4,0 miaISK/ár. 

Sjórinn við Ísland er kaldari en víðast hvar, þar sem laxeldi í sjó er stundað, svo að fiskurinn verður hægvaxnari en ella, en á móti kemur, að hann er hraustari og þarf jafnvel ekki lyfjagjöf.  Takmörkuð eða engin lyfjagjöf ætti að verða eitt af skilyrðum starfsleyfis.  

Hérlendis hlýtur að verða þróun í þá átt, að innlendir framleiðendur til sjós og lands anni þörfum innlends fiskeldis fyrir fóður.  Úr repjuræktun hérlendis á að verða unnt að vinna 50 kt/ár af laxafóðri sem aukaafurð við repjuolíuvinnslu, en fiskeldið hérlendis gæti þurft á að halda 200 kt/ár af fóðri í sjókvíum og landkerum.  Hér er kominn traustur markaður fyrir íslenzka fiskimjölsframleiðendur, ef þeir fara í ákveðið þróunarstarf fyrir þennan markað:

"Fóðrið er allt fengið að utan að sögn Víkings, þar sem enga fóðurverksmiðju er að finna á Íslandi, sem búið getur til fóður af réttum gæðum.  

Styrking ISK hefur því ekki haft jafnslæm áhrif á eldið og raun ber vitni hjá útgerðunum.

"Fóðrið er náttúrulega stærsti kostnaðarliðurinn, og þetta kemur ekki eins hart niður á okkur og öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum.  En þetta [gengið] hefur samt talsvert að segja.""

 

Kjartan Ólafsson er stjórnarformaður Arnarlax. Eftir honum er haft í Markaði Fréttablaðsins, 29. júní 2017, að framlegð, EBITDA, árið 2017 sé áætluð um MEUR 20 eða um miaISK 2,3.  Ætla má, að þetta jafngildi ríflega 20 % af söluandvirði framleiðslunnar, sem er dágóð framlegð, sem gæti staðið undir auðlindagjaldi, t.d. allt að 5 % af framlegð. 

Hins vegar þurrkast framlegðin með öllu út og myndast tap af rekstrinum, ef afurðaverðið lækkar um 12 %.  Í ljósi þess, að nú er tímabundið yfirverð á markaðinum vegna skorts á laxi, þá er bráðnauðsynlegt fyrir þetta fyrirtæki, og önnur í greininni, að lækka hjá sér einingarkostnað, þ.e. að auka framleiðnina.  Mest munar þá um framleiðsluaukningu, eins og vant er: 

"Kjartan segir fyrirtækið stefna að því að auka framleiðsluna í 12,5 kt/ár á næstu tveimur árum.  Leyfamálin séu þó þröskuldur.  Til þess að hægt sé að byggja upp meiri afkastagetu í seiðaframleiðslu, þurfi stjórnvöld að skýra stöðu leyfamála og útgáfu nýrra leyfa til eldis."

Það er ótímabært og beinlínis skaðlegt að hægja sérstaklega á útgáfu laxeldisleyfa fyrr en þau nema um 60 kt/ár til slátrunar.  Hámarkslífmassi í kvíum er meiri en sláturmassinn.  Það er jafnframt ljóst, að leyfi fyrir 60 kt/ár-100 kt/ár ætti ekki að veita fyrr en á tímabilinu 2020-2025, að öðru óbreyttu, þegar reynsla hefur fengizt við íslenzkar aðstæður af hinni nýju tækni við sjókvíaeldið, sem nú er verið að innleiða, og þegar haldgóð tölfræði er fyrir hendi um umhverfisáhrifin, þ.á.m. strokin úr kvíunum.  

 

 

  

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 16. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband