Um laxeldi í Ísafjarðardjúpi

Nýleg skýrsla Hafrannsóknarstofnunar - Áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar á milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi - olli Vestfirðingum og fleirum gríðarlegum vonbrigðum.  Þetta var þó ekki áhættumat, heldur líkindamat, því að áhættumat fæst bæði við líkindi og afleiðingar atburðar.  Á grundvelli líkinda á, að strokulax úr kvíum nái að æxlast með náttúrulegum laxi í tveimur ám í Ísafjarðardjúpi, lagðist stofnunin gegn sjókvíaeldi á ógeltum norskum laxi í Ísafjarðardjúpi þrátt fyrir, að opinbert burðarþolsmat gæfi til kynna, að lífríki Ísafjarðardjúps mundi þola 30 kt (k=þúsund) af laxi í sjókvíum án tillits til erfðablöndunar.  Hver er áhættan ?  Hér verður litið á afleiðingar þess að leyfa laxeldi í Ísafjarðardjúpi á mannlífið við Djúpið og á laxalífið. 

Þegar vandað er til ákvörðunar, er ávinningur metinn hlutlægt á móti tjóninu.  Hlutlægur mælikvarði er ætlaður fjárhagslegur ávinningur og ætlað fjárhagslegt tap.

Fyrst að meintum ávinningi.  Mikið hefur verið skrifað í blöðin um málefnið og margt tilfinningaþrungið, svo að ljóst er, að mörgum er heitt í hamsi, enda miklir hagsmunir í húfi.  Teitur Björn Einarsson, Alþingismaður, reit ágæta hugvekju í Morgunblaðið, 22. júlí 2017, 

"Frá yztu nesjum samtímans":

"Viðfangsefnið er líka annað, þar sem spurningunni um, hvort hægt sé að lifa af landsins gæðum frá ári til árs, hefur verið skipt út fyrir aðra um, hvernig bæta á lífskjör í landinu án þess að mega nýta frekar auðlindir þess með sjálfbærum hætti."

Þetta er rétt greining hjá þingmanninum á núverandi stöðu atvinnuþróunar í landinu.  Megnið af hagkerfi landsins er reist á hagnýtingu náttúrugæða, og nú er að bætast við þá flóru fiskeldi, sem getur orðið verðmæt stoð, sem hefur tekjuaukandi og sveiflujafnandi áhrif á efnahagslífið.  Fyrir landið allt er þess vegna til mikils að vinna, þar sem fiskeldið jafnar atvinnuréttindi fólks í landinu vegna nýrra og verðmætra tækifæra á landsbyggðinni.  

Vestfirðingum þykir að sér þrengt að hálfu ríkisvaldsins varðandi atvinnuuppbyggingu í sinni heimabyggð, og það er auðskilið.  Teitur Björn tekur dæmi:

"Þrjú brýn framfaramál í deiglunni á Vestfjörðum eru nokkuð lýsandi dæmi fyrir baráttu byggðanna hringinn um landið.  Þetta eru í fyrsta lagi vegur um Barðaströnd í stað vegslóða, í öðru lagi raforkuflutningskerfi, sem slær ekki út við fyrsta snjóstorm hvers vetrar og í þriðja lagi skynsamleg uppbygging á einni umhverfisvænstu matvælaframleiðslu, sem völ er á."

Hvað er "skynsamleg uppbygging" fiskeldis ?  Er hún aðeins fyrir hendi, ef engin staðbundin óafturkræf breyting verður á lífríki náttúrunnar, eða er hægt að samþykkja slíkar breytingar, ef metið fjárhagstjón er t.d. innan við 5 % af metnum fjárhagslegum ávinningi ?

Alþingismaðurinn skrifar síðan, sennilega fyrir hönd langflestra Vestfirðinga, sem nú sjá breytta og bætta tíma innan seilingar, ef ríkisvaldið ekki leggst þversum:

"Þess vegna er það ekki í boði, að sanngjarnri kröfu íbúa á Vestfjörðum um eðlilega uppbyggingu innviða sé nú svarað með skeytingarleysi eða hiki af hálfu ríkisvaldsins og stofnana þess.  Það er líka ótækt, að á lokametrum langs og lögbundins stjórnsýsluferils sé öllu til tjaldað af hálfu þrýstihópa til að stöðva mál og teflt af óbilgirni til að knýja fram sérhagsmuni á kostnað almannahagsmuna."

Það er hægt að taka heils hugar undir það, að ríkisvaldinu ber að veita almannahagsmunum brautargengi.  Ef þeir brjóta á lögvörðum réttindum einstaklinga, komi fullar bætur fyrir að Stjórnarskrá og lögum.  Þetta getur átt við um vegalögn, raflínulögn og fiskeldi úti fyrir strönd og í grennd við árósa. 

Kristín Hálfdánsdóttir, bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ, talar sennilega fyrir munn margra þar.  Hún hóf grein í Morgunblaðinu 15. ágúst 2017,þannig:

"Laxeldi í Djúpinu":

"Fyrir íbúa á norðanverðum Vestfjörðum er ekkert mál stærra eða mikilvægara en, hvort laxeldi í Ísafjarðardjúpi fái brautargengi.  Engin önnur atvinnu- og verðmætasköpun er sjáanleg til að byggja upp nýjar meginstoðir í atvinnulífi á þessu svæði til framtíðar.  Skapað vel launuð og fjölbreytt störf, sem munu hafa úrslitaáhrif á byggðaþróun og snúa áratuga langri hnignun í sókn fyrir íbúana."

Hér er ekki lítið undir, heldur getur ákvörðun um sjókvíaeldi í Djúpinu skipt sköpum um, hvort byggðin fær að blómstra í fjölbreytileika atvinnulífs og mannlífs eða þarf enn að heyja varnarbaráttu.

Hver yrði ávinningurinn af 30 kt/ár sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi ?  

Samkvæmt Pétri G. Markan, sveitarstjóra Súðavíkurhrepps og formanni Fjórðungssambands Vestfirðinga, eru nú "180 bein störf í kringum fiskeldi á Vestfjörðum, skattspor nær milljarði. Í áætlunum fiskeldisfyrirtækja er gert ráð fyrir 700-800 beinum störfum - sé miðað við, að varfærnislegt burðarþol Hafrannsóknarstofnunar verði nýtt.  Í verðmætum má reikna með 60 milljörðum [ISK] í útflutningstekjum."

Burðarþolsmat Hafró fyrir Ísafjarðardjúp hljóðaði upp á 30 kt/ár.  Frumráðlegging stofnunarinnar var um að sleppa sjókvíaeldi norsks lax í Ísafjarðardjúpi, sem gæti hrygnt í tveimur laxveiðiám þar með ósa út í Djúpið, af ótta við kynblöndun og erfðabreytingar.  Þær geta í versta tilviki orðið svo skaðlegar, að laxastofnar þessara tveggja áa deyi út, þ.e. úrkynjist og lifi ekki af veruna í hafinu.  

Hafrannsóknarstofnun ráðleggur að leyfa allt að 50 kt/ár laxeldi í sjókvíum Vestfjarða án Ísafjarðardjúps.  Pétur G. Markan gæti þess vegna átt við, að 700-800 ársverk hjá fiskeldisfyrirtækjunum sinni fiskmassa í sjókvíum að jafnaði 80 kt/ár ásamt skrifstofustörfum og annarri nauðsynlegri þjónustu við framleiðsluna. Þetta þýðir 10 ársverk/kt, þegar fullri framleiðslu verður náð og þar af leiðandi hámarks framleiðni. 

Þetta passar við upplýsingar frá Noregi um 9500 bein ársverk (og 19000 óbein) eða 7,3 bein störf/kt.  Það er reiknað með lægri framleiðni í fiskeldi á Íslandi en í Noregi, af því að framleiðslan verður væntanlega alltaf meira en tíföld í Noregi. Samkvæmt upplýsingum frá Noregi skapar hvert beint ársverk MNOK 2,7, sem er um MISK 36.  Vegna minni framleiðni verða þetta e.t.v. 0,75 x 36 = MISK 27 á Íslandi.  

Heimfært á 30 kt/ár laxeldi í Ísafjarðardjúpi er þar um að ræða 300 bein ársverk og 600 óbein ársverk dreifð um landið, þó trúlega mest á Vestfjörðum. Þetta gæti þýtt fólksfjölgun í Ísafjarðardjúpi um 2400 manns. Verðmætasköpun þessara beinu ársverka verður V=300 x 36 MISK/ár = 11 miaISK/ár.  Þetta er hinn staðbundni fjárhagslegi ávinningur af að leyfa 30 kt/ár laxeldi (í sjókvíum) í Ísafjarðardjúpi.  

Hvert getur hámarks tjónið af að leyfa þetta fiskeldi orðið ?  Það verður væntanlega, ef laxinn hverfur úr Laugardalsá og Langadalsá/Hvannadalsá, en þar hefur meðalveiðin verið um 500 laxar/ár.  Því var haldið fram af Magnúsi Skúlasyni, formanni Veiðifélags Þverár og bónda í Norðtungu í Fréttablaðsgrein 18. júlí 2017, "Að skapa störf með því að eyða þeim annars staðar", að með allri þjónustu skili sala veiðileyfa um 20 miaISK/ár inn í landið.  Ef þessu er deilt á 30´000 fiska/ár, þá skila þessar veiðileyfatekjur 670 kISK/fiskHámarkstjón í Djúpinu er þá 670 kISK/fisk x 500 fiskar/ár = 335 MISK/ár eða 3 % af ávinninginum.  Laxeldisfyrirtækin gætu tryggt sig fyrir þessu tjóni eða lagt brotabrot af sölutekjum sínum í tjónasjóð á hverju ári.  Ef veiðin í ánum tveimur minnkar meira en að meðaltali yfir landið, myndavélar sýna eldislax við ósana og hann veiðist í meira en 4 % magni í ánum, þá verði skylt að bæta tjónið.

Ef gert er ráð fyrir stærð hrygningarstofns 700 löxum í téðum tveimur ám, þá kveður varúðarregla Hafrannsóknarstofnunar á um, að ekki megi fleiri en 0,04 x 700 = 28 eldislaxar ganga í árnar.  Hvert er þá hámarks leyfilegt strokhlutfall upp í árnar til að hrygna, SHmax, af fjölda eldislaxa ?

Áætlaður fjöldi fiska í eldi er 30 kt/2 kg = 15 M fiskar.  15 M x SHmax = 28 ;  SHmax = 1,9 ppm/ár.  Þetta er sá "hámarksleki", sem laxeldisfyrirtækin ættu að keppa að.

Geta laxeldisfyrirtækin sýnt fram á, að þau geti uppfyllt þessa kröfu ?  Á Íslandi er líklega ekki enn til marktækur gagnagrunnur fyrir slíka tölfræði, en hann mun koma, þegar laxeldinu vex fiskur um hrygg.

Fyrst er þess þá að geta, að með tiltækum mótvægisaðgerðum virðist, að í Noregi komist aðeins lítill hluti strokufiska upp í árnar og hrygni þar, e.t.v. innan við 2 %. Það hækkar auðvitað leyfilegt strokhlutfall úr eldiskvíunum, e.t.v. upp í 126 ppm.

Magnús Skúlason skrifar:

"Samkvæmt norskum rannsóknum liggur fyrir, að einn lax sleppur að meðaltali fyrir hvert alið tonn af eldislaxi."  Ef þetta ætti við um Ísafjarðardjúp með 30 kt eldismassa, þá slyppu þar árlega út 30 þúsund laxar, og sleppihlutfallið væri 2000 ppm.  Þetta stenzt ekki skoðun á upplýsingum frá norsku Umhverfisstofnuninni.

Í Fiskifréttum birtist 17. ágúst 2017 fróðleg grein um þetta efni eftir Svavar Hávarðsson, blaðamann,

"Kolsvört skýrsla um villtan lax í Noregi".

Greinin hófst þannig:

"Mikil hætta steðjar að norskum villtum laxastofnum, og allar helztu ástæður hennar eru raktar til laxeldis í sjókvíum.  Erfðablöndun er þegar orðin útbreidd og mikil."

Aðstæður á Íslandi og í Noregi eru ósambærilegar að þessu leyti, því að laxeldið er þar stundað úti fyrir ósum allra helztu laxveiðiáa Noregs, en í tíð Guðna Ágústssonar, landbúnaðarráðherra, var sjókvíaeldi bannað árið 2004 úti fyrir ströndum Vesturlands, Norðurlands (nema Eyjafirði) og Norð-Austurlands, og verður ekki stundað úti fyrir Suðurlandi fyrir opnu hafi. Fjarlægðin er bezta vörnin gegn genaflæði á milli stofna. Fáeinir laxar geta villzt af leið, en það getur engin teljandi áhrif haft á eðli íslenzku laxastofnanna, nema staðbundin í viðkomandi firði. 

Það er lykilatriði við að meta líkur á erfðabreytingum á íslenzkum löxum í Ísafjarðardjúpi, hvað búast má við miklum "fiskaleka" úr kvíunum.  Tölur frá Noregi geta verið leiðbeinandi í þeim efnum, því að unnið er eftir sama stranga staðli báðum löndunum. Af tilvitnaðri Fiskifréttargrein má "slá á laxalekann" í Noregi:

"Norsk fyrirtæki framleiddu 1,2 Mt af eldislaxi árið 2016.  Frá þessum fyrirtækjum var tilkynnt um 131 k laxa, sem sloppið höfðu úr kvíum - samanborið við 212 k laxa að meðaltali áratuginn á undan.  Þessum tölum taka vísindamennirnir með fyrirvara; segja, að rannsóknir sanni, að tvisvar til fjórum sinnum fleiri laxar séu líklegir til að hafa sloppið en tilkynnt er um."

Ef reiknað er með, að 393 k laxar hafi sloppið úr norskum eldiskvíum árið 2016, þá gæti lekahlutfallið hafa verið: LH=393 k/720 M=550 ppm, sem er óviðunandi hátt fyrir íslenzkar aðstæður.  Það mundi t.d. þýða, að 8250 laxar slyppu úr sjókvíum í Ísafjarðardjúpi með 30 kt eldismassa. Þetta er tífaldur hrygningarstofn laxa í Ísafjarðardjúpi, en þess ber að gæta, að með eftirliti og mótvægisaðgerðum er hægt að fanga megnið af þessum fiskum áður en þeir ná að hrygna í ánum.  

Jón Örn Pálsson, sjávarlíffræðingur, hefur sagt, að 6000 eldislaxar á ári hafi leitað í norskar ár árin 2014-2015.  Ef 6 k af 393 k eldislaxar hafa leitað í norskar ár árið 2016, þá er það 1,5 % af þeim, sem sluppu.  Heimfært á Ísafjarðardjúp þýðir það, að 0,015x8250=124 eldislaxar sleppa upp í ár, þar sem stofninn er um 700 fiskar.  Hlutfallið er tæplega 18 %, en varúðarmark Hafrannsóknarstofnunar er 4 %.  Samkvæmt þessu má telja fullvíst, að í umræddum tveimur ám muni verða erfðabreytingar á laxastofnum. Það er hins vegar algerlega háð sleppihlutfallinu og virkum mótvægisaðgerðum.  Það er þess vegna ekki hægt að slá því föstu á þessari stundu, að með því að leyfa 30 kt laxeldi í Ísafjarðardjúpi, verði þar skaðlegar erfðabreytingar á villtum laxastofnum í þeim mæli, að löxum taki þar að fækka. 

Fjárhagslegur ávinningur er svo miklu meiri en hugsanlegt tjón, að réttlætanlegt er að leyfa að fara af stað með lífmassa í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi 15 kt og stunda um leið vísindarannsóknir á lífríkinu og fylgjast náið með "lekanum" og fjölda eldislaxa, sem ná upp í árnar.  Tímabundin rannsóknar- og eftirlitsáætlun væri samin af viðkomandi fiskeldisfyrirtækjum og Umhverfisstofnun og kostuð af hinum fyrrnefndu.  Mótvægisaðgerð gæti líka verið fólgin í fjölgun náttúrulegra laxa í Laugardalsá og Langadalsá/Hvannadalsá.

Nú hefur starfshópur Landssambands fiskeldisfyrirtækja, Veiðiréttarhafa í íslenzkum ám o.fl. skilað skýrslu til ráðherra sjávarútvegs og landbúnaðar, þar sem reifuð er uppstokkun á umgjörð fiskeldis á Íslandi.  Flest stendur þar til bóta, en í ljósi óljósra líkinda á hugsanlegu tjóni af völdum laxeldis í Ísafjarðardjúpi og gríðarlegra hagsmuna íbúanna á svæðinu, sem eru meira en þrítugfaldir hugsanlegt hámarkstjón, er ekki hægt að rökstyðja bann með niðurstöðu "áhættugreiningar".  Rökrétt hefði verið á grundvelli "áhættugreiningar" að leyfa minna laxeldi, með ströngum skilyrðum, en burðarþolsmat Hafrannsóknarstofnunar á Ísafjarðardjúpi skilgreindi.  Hver veit, nema Alþingi komist að slíkri niðurstöðu ? 

 

 

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 24. ágúst 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband