Orkumarkaður í heljargreip

Oft hefur furðu vakið, að ríkisstjórnin skuli berjast um á hæl og hnakka við að troða Íslandi inn í Evrópusambandið, ESB. Í raun eru báðir stjórnarflokkarnir langt til vinstri við stefnu ESB í markaðsmálum, peningamálum og ríkisfjármálum, og eiga enga samleið með ESB.  Hvorugur flokkurinn, Samfylking eða Vinstri hreyfingin grænt framboð, er stofutækur í sölum ESB.  Stjórnarflokkarnir á Íslandi núna eru sótsvart afturhald, haldnir ríkri ríkiseinokunarhyggju, sem hvergi er að finna lengur í Evrópu, enda leiðir hún til spillingar, allt of mikilla valda án aðhalds, og fátæktar almennings. Þetta er eðli félagshyggjunnar. 

Dæmin hrannast þar að auki upp um óhæfni forystu Alþingis og ríkisstjórnar við að taka ákvarðanir, þegar atburðir verða.  Morgunblaðið ljóstraði í viku 3/2011 upp um trójuhest, sem fannst í húsnæði Alþingis í febrúar 2010.  Stallsysturnar úr Samfylkingunni, sem nú gegna miklum opinberum ábyrgðarhlutverkum sem forseti Alþingis og forsætisráðherra, brugðust þingi og þjóð algerlega, er þær ákváðu að þegja yfir hlerunarbúnaði, sem fannst tengdur við samskiptanetkerfi Alþingis.  Hlerun af þessu tagi jaðrar við landráð, og að rannsaka ekki málið til hlítar og gera það ekki opinbert hlýtur að kalla á málsmeðferð fyrir Landsdómi. Af hverju þögguðu þær málið niður ?  Var Samfylkingin að njósna um Alþingismenn, Hreyfingin eða Wikileak, en Julian Assange, andfætlingur okkar, mun hafa verið í húsinu í boði Hreyfingarinnar á þeim tíma, er hún var tengd ?  "Gleymdi" hann fartölvunni sinni ?  Þetta mál kemur auðvitað nú sem bjúgverpill (hannaður af frumbyggjum Ástralíu (búmmerang)) í fang kvennanna tveggja, sem hið allra fyrsta þarf nú að sópa af þingi með öllu sínu hyski.     

Um reiðileysið við stjórnvölinn og á þingi má líka taka dæmi af orkumálunum.  Stefna ESB er, að í orkuvinnslunni ríki frjáls samkeppni, og þar þykir það fyrir neðan allar hellur, að við orkuvinnslu ríki fákeppni.  Það er óþolandi aðstöðumismunun og hagsmunir orkukaupenda eru þá næstum örugglega fyrir borð bornir.  Íslenzka ríkisstjórnin er hér sem víðar á öndverðum meiði við ESB.  Stefna hennar er ríkiseinokun á orkuvinnslu.  Þó að ríkið eigi nú yfir 90 % orkuvinnslunnar, ætlar allt af göflunum að ganga, þegar nýr aðili kemur til skjalanna inn á markaðinn.  Kemur þar fram dæmigert ofstæki og ofstopi félagshyggjuflokkanna í garð samkeppni.  Þeir þola ekki samkeppni, enda eru þeir minnipokamenn, sem vilja láta ríkið breyta leikreglunum sér í hag.  

Þarna ríghalda stjórnarflokkarnir í úreltar kennisetningar afdankaðra kredduflokka lengst til vinstri í litrófi stjórnmálanna.  Það er almennt viðurkennt, að afleiðingin af ríkiseinokun er mikil binding skattfjár og minni arðsemi fjárfestinganna en efni standa til.  Ójafnræði seljanda og kaupenda er algerlega óviðunandi að mati ESB og þeirra, sem leggja vilja jafnstöðu á markaði og heilbrigða rekstrarhætti til grundvallar vali á rekstrarformum.  Ríkisstjórnin safnar glóðum elds að höfði sér úr öllum áttum.

Ríkisstjórnin verður að hætta samstundis ofsóknum sínum í garð atvinnulífsins.  Aðförin að Magma er hreinræktað hneyksli í stjórnmála-og atvinnusögu landsins.  Það yrði til að kóróna afdæmingarlega hegðun stjórnvalda, ef þeim, með aðstoð upppoppaðrar geimveru, sem líklegast greiðir skatta erlendis fremur en á Íslandi, tækist að flæma héðan fjárfesti, sem hefur lagt tugi milljarða króna í orkugeirann íslenzka með löglegum hætti og vill starfa að uppbyggingu athafnalífsins á Íslandi.  Þetta er hreinræktað galdrafár, og drýsildjöflar umsnúinnar umhverfisverndar leika þar lausum hala.  Athæfi stjórnvalda sætir meira að segja ámæli að hálfu Umboðsmanns Alþingis, þó að seint komi.  Bragð er að, þá barnið finnur.  Enn ein rík ástæða til að kjósa til þings á ný.

Stjórnsýsla félagshyggjuflokkanna er rotin af spillingu, pukri, yfirhylmingum, frændhygli og flokkshygli, enda ná afurðirnar ekki máli.  Ef ríkisstjórnin leggur þjóðnýtingarfrumvarp um HS-Orku fyrir þingið, þá færir hún landið í einu vetfangi í hóp bananalýðvelda.  Slíkt háttarlag er í samræmi við úrelta hugmyndafræði stjórnarflokkanna, en mun mælast afskaplega illa fyrir í Brüssel, valda kærumálum,  og verða einn af nöglunum í líkkistu ESB-umsóknarinnar, sem þó ekki skal sýta. 

hvdc-kapall-thversnid-2Engu er líkara en ríkisstjórn félagshyggjunnar, trausti og fylginu rúin, sé höktandi í tangarsókn gegn tveimur stoðum atvinnulífsins á Íslandi.  Að ofan hefur verið tæpt á hlerun með vitund forystu Samfylkingarinnar á Alþingi og á svívirðilegri skæruliðastarfsemi ríkisstjórnarinnar gegn erlendum fjárfestingum í orkugeiranum, sem jafnvel opinber nefnd um erlendar fjárfestingar getur ekki stutt. 

Hinn armur tangarsóknarinnar gegn atvinnuvegunum beinist að sjávarútveginum, sem í góðri trú hefur fjárfest í veiðiheimildum, beztu tækni og í öflugri markaðssetningu til að fullnægja kröfum viðskiptavina sinna í Evrópu.  Framsæknustu fyrirtækin veiða og verka, þegar og það, sem viðskiptavinirnir panta af þeim.  Það er beint samband á milli veiðiskips og viðskiptavinar.  Með þessu næst hámarksnýting auðlindarinnar.  Ríkisstjórnin boðar þjóðnýtingu aflaheimildanna.  Með slíkum gjörningi verður sjálfstæðum, nútímalegum íslenzkum sjávarútvegi greitt náðarhöggið, og hann færður marga áratugi aftur í tímann.  Slíkt þýðir hrun hagkerfisins, og að verða valdur að slíku jafngildir landráðum. Hvorki í ESB-ríkjunum né í nokkru öðru vestrænu ríki dettur stjórnvöldum í hug að halda út á aðra eins galeiðu lögleysu, þjóðhagslegs tjóns og markaðseyðileggingar.  Nú er tortímingin forgangsmál félagshyggjunnar á Íslandi. Ábyrgðarleysið er í algleymi.  Það verður að grípa í taumana.   

Á samþættingu þjóðarhagsmuna og nútímalegs og vel rekins sjávarútvegs bera ríkisstjórnarflokkarnir ekkert skynbragð.  Þeir ganga í þeirri dulunni, að útgerð jafngildi að draga bein úr sjó og henda á markað án nokkurrar gæðastjórnunar.  Það er liðin tíð.  Sjávarútvegur Ólínu Þorvarðardóttur, doktors í galdrafári Vestfjarða á 17. öld, nemur aðeins örlitlu broti heildarveiðanna og enn minna broti teknanna.  Illvígur áróður hennar og annars staurblinds og ofstækisfulls félagshyggjufólks er raunveruleikafirrtur og þjóðhættulegur og á heima á báli, þar sem endanlega verður brennd misheppnuð og stórskaðleg hugmyndafræði forræðishyggju 19. og 20. aldarinnar, sem skilið hefur eftir sig eymd og vesöld, hungursneyðir, ofsóknir og styrjaldir.

Nú þarf að spenna kraftaklára þeirra tveggja greina í landinu, sem mest hafa aflið, orkuiðnaðar og sjávarútvegs, fyrir vagninn, sem sekkur æ dýpra ofan í dýið, og rykkja honum upp úr.  Það er enn hægt, en verður ekki gert í samstarfi við brennuvargana, heldur eftir stjórnmálalega jarðsetningu þeirra í Alþingiskosningum.  Þjóðina er tekið að klæja í fingurna eftir að fá að kasta rekunum. 

Hvað gerir ríkisstjórnin við þessar örlagaríku aðstæður ?  Henni má líkja við hrekkjóttan, dyntóttan og úlfúðarfullan strák, sem sendur er út í haga að sækja hross til að spenna fyrir vagn.  Í stað þess að reka hrossin í réttina og leggja við þau, þá hræðir hann þau og fælir, svo að þau stökkva úr girðingunni og hlaupa á fjall og nást ekki í bráð.  Ríkisstjórnin er hreinræktuð hrollvekja fyrir alþýðu þessa lands.  Hún er atvinnutortímandi.  Hún bruðlar með skattfé í gagnslaus gæluverkefni og hendir fé í fyrirtæki í samkeppnisrekstri, hún hunzar efnahagslögmál, og hún grefur undan fyrirtækjum og heimilum í landinu leynt og ljóst. Hún vinnur allt með öfugum klónum og er óalandi og óferjandi.   

MatarverðsþróunRíkisstjórnin er í stríði við bændur, sem hún vill kippa stoðunum undan með hömlulausum innflutningi verksmiðjuframleiddra matvæla frá einu þéttbýlasta og mengaðasta svæði á jörðunni, Evrópu.  Hún bregður fæti fyrir bíleigendur og ferðamennskuna með hárri skattlagningu og koltvíildisskatti á eldsneyti án þess að raunverulegir valkostir standi neytendum til boða. Verktakageirinn í byggingariðnaðinum er í andaslitrunum, af því að afturhaldið á Alþingi og í Stjórnarráðinu froðufellir, ef minnzt er á framfarir í atvinnumálum.  Þar á bæ er hins vegar smjaðrað fyrir hinum alræmdu "skapandi stéttum"; fólki, sem gefið hefur sjálfu sér þetta yfirlætisfulla nafn til að bæta í eyður verðleikanna og er upp til hópa á framfæri skattborgaranna.  Spyrja má: hvar fer ekki fram sköpun á hverjum degi ?

Hér að ofan getur að líta reiðilestur í anda meistara Jóns Vídalíns.  Þá má það verða til mikillar hugarhægðar að fylgjast með landsmönnum vorum berjast af miklum fræknleik á erlendri grundu og geta sér þar góðan orðstýr.  Árangur landsliðs Íslands í handknattleik er hvorki tilviljun né heppni.  Hann er árangur þrotlausrar vinnu hvers einasta manns, sem þessa liðsheild myndar.  Einn fyrir alla og allir fyrir einn.  Árangurinn er sýnidæmi um það, hvað markviss stjórnun stjórnendateymisins, reist á traustri þekkingu og hörðum aga á sjálfum sér og á liðsheildinni, fær áorkað.  Í dag mætast stálin stinn.  Úrslitin munu velta á undirbúninginum, andlegum og líkamlegum.  Þessi keppni er löng vegferð.  Liðið býr yfir aðdáunarverðri seiglu.  Þjóðin veit, að liðið mun leggja sig allt fram, og stendur að baki því, hvernig sem fer.  Beztu árnaðaróskir til landsliðsins í Svíþjóð.  

Skjaldarmerki Íslands

 

      

        


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þetta var flott hjá þér.

Valdimar Samúelsson, 23.1.2011 kl. 02:00

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir innlitið, Valdimar.

Rekinn er sá áróður, að okkur Íslendingum sé í lófa lagið að bæta hag okkar með því að ganga ESB á hönd og að flytja þaðan inn landbúnaðarafurðir. 

Það yrði okkur Phyrrosarsigur, eins og Hannibal forðum á Ítalíu sunnanverðri.  Með vefgreininni hér að ofan birti ég graf, sem sýnir 2,2 földun vísitölu matvælaverðs í heiminum síðan 2003.  Þegar ESB losnar við offramleiðslu sína til Kína, Indlands og víðar, mundum við sitja uppi með aukna gjaldeyrisnotkun, hærra matvælaverð en nú, mun lakari gæði, óvissa aðdrætti á viðsjártímum og sveitir landsins í meiri mæli í auðn og órækt en nú. 

Þetta atferli er kallað að míga í skóinn sinn til að halda á sér hita í frosti.

Með góðri kveðju /  

Bjarni Jónsson, 23.1.2011 kl. 12:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband