"Þannig stjórna jafnaðarmenn"

Dómur kjósenda yfir fyrstu villtu vinstri stjórn sögunnar á Íslandi var kveðinn upp laugardaginn 27. apríl 2013.  Kjósendur sýndu enga miskunn, heldur gripu til strangasta dóms í sögunni síðan árið 1931.  Téður nýuppkveðinn dómur var fullkomlega verðskuldaður.  Einkunnin var lægsta falleinkunn lýðveldissögunnar.  Afturhaldsstefnan var jörðuð.

Ferill vinstri stjórnarinnar hefur verið varðaður röð mistaka.  Óþarfi er að tíunda Icesave, Landsdóm, Stjórnlagaþing, -ráð, meðferð þingmeirihlutans á afurð ráðsins, sem kjósendur reyndust engan áhuga hafa á í Alþingiskosningunum, skattaáþján, aðför að atvinnuvegum, hálfvolg umsókn um aðildarferli undir felunafninu "að kíkja í pakkann", o. s. frv.

Meinlokur og mistök við framkvæmd náðu slíkum hæðum á ferli fráfarandi ríkisstjórnar, að segja má, að orðið axarskapt einkenni helzt fráfarandi ríkisstjórn.  Þess vegna væri við hæfi að gefa henni heitið "Axarskaptið". 

Nýr formaður jafnaðarmanna er lítið gæfulegri hinum fyrri og kosningabarátta hans bar merki hins algera dómgreindarleysis, sem hrjáir Árna, beizk.  Hann skapaði ringulreið með því að leyfa þeirri gömlu að sitja áfram í embætti, en eitt af seinni mistökum hennar var að rjúfa ekki þing og boða til kosninga, en sitja fremur eins og lömuð fluga í aðgerðarleysi eftir að meirihlutinn hvarf af þingi með stofnun Bjartrar framtíðar. 

Sá flokkur mun reynast Samfylkingunni skeinuhættur, og Vinstri hreyfingin grænt framboð mun líka sækja inn á lendur Samfylkingarinnar.  Við Samfylkingunni blasir að veslast upp með Árna, beizk, með búrlyklana.

Árni, beizkur, gerði þau reginmistök að árétta veikleika Samfylkingarinnar gagnvart málinu eina, sem öll innanmein íslenzka þjóðfélagsins á að leysa að mati Árna, beizks.  Hann hefur enn ekki gert sér grein fyrir því, að helzta kosningamál Samfylkingarinnar virkar á kjósendur eins og að vera boðið að fara inn í brennandi hús.

Árni, beizkur, tjáir sig með eindæma loðmullulegum hætti, svo að oft er ekki heiglum hent að átta sig á, hvert maðurinn er að fara, eða úr hvaða átt hann er að koma.  Hvers vegna ættu kjósendur að treysta á holtaþokuvæl ? Eftir kosningar hældi hann sér af því að hafa alla kosningabaráttuna staðið dyggan vörð um almannahagsmuni og aldrei fallið í freistni fyrir sérhagsmunum.  Hvernig ber að skilja þetta ?  Setur maðurinn jafnaðarmerki á milli þess að berjast fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu, ESB, og fyrir almannahagsmunum ?  Hvernig er hægt að vera svona barnalegur og vera á sama tíma formaður í stjórnarflokki ?  Ei er kyn, þótt keraldið leki, sagði karlinn.  Stórauðvald Evrópu stendur á bak við Berlaymont.  Skriffinnarnir þar börðust gegn Íslendingum, Grikkjum o.fl. og fyrir fjármálaveldið.  Einn markaður - eitt regluverk - ein mynt.  Þetta er sköpunarverk stórauðvaldsins framar nokkru öðru.  Árni, beizkur, sleikir skósóla þess, e.t.v. ómeðvitað.  Vitið er nú ekki meira en Guð gaf.  Stórauðvaldið er ekki alslæmt, en það er óþarfi að ganga á eftir því með lafandi tunguna.  

Kata Jak, þessi búálfslegi formaður vinstri grænna, reisti kosningabaráttu sína á hreinum hugarórum.  Hún notaði úrelta spá Seðlabankans um 2,0 % hagvöxt í ár til að búa til þá spilaborg, sem er algerlega út í loftið, að svigrúm mundi skapast til að auka ríkisútgjöld um 50 milljarða kr á ári, sem mætti þá setja í heilbrigðiskerfi, menntakerfi og annað.  Búálfur þessi er arfaslakur í reikningi og tekur ekkert tillit til þess, að enn er í raun bullandi halli á ríkissjóði og hagkerfið er að líkindum núna komið í svæsinn samdrátt, ef marka má kortaveltuna í marz 2013.  Enginn virtist telja það ómaksins vert að andmæla þessum rakalausa málflutningi búálfs vinstri grænna, sem varaði sterklega við öllum tilraunum við að snúa hjól hagkerfisins í gang, því að náttúran yrði að njóta vafans.  Þessu höfnuðu kjósendur eftirminnilega.  Vinstri stefnan hefur verið grafin, hálfdauð, og þau mistök að leiða hér til valda loddara og lýðskrumara verða vonandi ekki endurtekin á næstunni.

Kjósendur höfnuðu gjörsamlega afturhaldinu, sem hér hefur verið við völd undanfarin rúm 4 ár.  Kjósendur hafa fengið sig fullsadda á blaðri um Stjórnarskrána, aðför að sjávarútveginum og að vera beðnir um að ganga inn í hið brennandi hús, ESB.  Eyðileggingu áralangrar vinnu sérfræðinga við Rammaáætlun var heldur ekki fagnað.  Illyrmislegustu skattpíningu sögunnar var kastað á öskuhauga sögunnar. Framgöngu, sem jaðrar við landráð að hálfu stjórnarflokkanna í s.k. Icesave-máli, var kvittað fyrir í þessum kosningum.  Tilefni er til Landsdóms. Er einhver hissa á mestu vantraustsyfirlýsingu lýðveldissögunnar að hálfu kjósenda nú ?

Við þessar aðstæður detta af manni allar dauðar lýs við að frétta af því, að aðalsigurvegara kosninganna, manninum með hið loftkennda umboð, skyldi verða það fyrst fyrir að ræða myndun nýrrar ríkisstjórnar við aðaltaparann, Árna, beizk, af ESB.  Það er alger umsnúningur á lýðræðinu, eiginlega er verið að gera lítið úr dómi kjósenda, að ræða við hyskið Árna, beizk, og Kötu Jak, um ríkisstjórnarmyndun, fólk, sem þegar er fullreynt, að ekkert kann og ekkert getur annað en bullað og blaðrað, enda hafa kjósendur hafnað þeim með öllu.                    

  Verðmætarýrnun á heimsvísu  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Ég hef altaf gaman af að lesa pistlana hjá þér.

Við þurfum kennslu frá framkvæmda og tækniliðinu okkar.

Hvaða viðurnefni hefur þú.

Egilsstaðir, 01.05. Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 1.5.2013 kl. 07:55

2 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Ég er nú bæði lesblindur og orðin svo gamall sem á grönum má sjá og veit því að langar greinar hella mig ekki, en mál þitt er alltaf aðgengilegt og skýrt þannig að það er að jöfnuðu lesið.  

En ég veit líka af gamalli reynslu að sjáist kjálkarnir fara að lafa lausbeislaðir á viðmælanda, þá veit hann ekki hvað hann ætlar að segja næst, er að leita, eða að hann veit að hann er að segja ósatt.  Horfið á Árna Pál.   

Hrólfur Þ Hraundal, 1.5.2013 kl. 08:27

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sælir;

Í dag fögnum við degi verkalýðsins.  Því fer fjarri, að hann sé úreltur orðinn.  Barátta íslenzkra launamanna snýst nú um að fá verðuga vinnu og sanngjörn laun fyrir vinnuframlag sitt.  Allar stéttir á Íslandi ættu að snúa bökum saman um að koma landinu úr þeim skuldaviðjum, sem það nú er í, og leggja grunninn að heilbrigðu hagkerfi, sem staðið getur undir bættum kjörum allra launamanna.

Það er gaman að fá kveðju af Héraðinu.  Kunnara er en frá þurfi að segja, að Árni, beizkur, er söguleg persóna.  Það var hann, sem veitti Snorra Sturlusyni, goðorðsmanni og sagnaritara, banahöggið í Reykholti 23. september 1241.  Árni, beizkur, var einn tryggasti fylgisveinn Gissurar, jarls, Þorvaldssonar, sem var öflugur talsmaður þess á Alþingi að ganga Noregskonungi á hönd og fékk vilja sínum framgengt með Gamla sáttmála 1262, sem goðorðsmenn Austurlands undirrituðu þó ekki fyrr en á Alþingi 1264.  Sagan endurtekur sig, og nú er fram kominn talsmaður innlimunar landsins í annað ríkjasamband, og er sá formaður stjórnmálaflokks á fallanda fæti og hefur mikil líkindi með Árna, beizk, sem veginn var í Flugumýrarbrennu árið 1253.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 1.5.2013 kl. 12:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband