Umsóknin strandaði fyrir löngu

Umsóknin um aðild að Evrópusambandinu (ESB) frá 16. júlí 2009 hefur allt fram að birtingu skýrslu Hagfræðideildar Háskóla Íslands verið hjúpuð blekkingarskýi.  Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra, blekkti meirihluta þingheims árið 2009 til að greiða götu umsóknarinnar gegnum Alþingi með slagorðinu "að kíkja í pakkann", og margar auðtrúa sálir utan þings bitu á agnið. 

Hið undarlega er, að allstór hópur fólks skellir skollaeyrum við þeirri staðreynd hinnar dæmalaust illa undirbúnu umsóknar, að hún strandaði á umsóknarskilmálum Alþingis um landbúnaðar- og sjávarútvegsmál árið 2011, sem höfundar rýniskýrslu stækkunarteymis ESB töldu óaðgengilega sem upphaf aðlögunar þessara málaflokka að stjórnkerfi ESB.  Þjóðaratkvæðagreiðsla, hvernig sem hún færi, fengi engu um þetta breytt.

Ein ástæða þess, að fólk hefur ginið við þessari pakkastaðleysu er, að þannig var inngangsferli ESB fram til ársins 1994, og Norðmenn voru hinir síðustu til að fara í hið nú aflagða inngönguferli Evrópusambandsins.  Norsk stjórnvöld með krata í broddi fylkingar reyndu tvisvar sinnum að semja Noreg inn í ESB, en þjóðin synjaði ákvörðun Stórþingsins samþykkis í bæði skiptin, árið 1972 og árið 1994.  Ein af ástæðunum var ófullnægjandi fullveldisréttur Noregs yfir landbúnaði, sjávarútvegi og orkulindum.  Það er eins og aðdáendur ESB hérlendis hafi ekkert fylgzt með þróun ríkjasambandsins í 20 ár.  

Aðlögunarferlið, sem Ísland var sett í eftir móttöku umsóknar, sem varð til á fölskum forsendum, svo að vægt sé til orða tekið, var sniðið við fyrrverandi kommúnistaríki Mið- og Austur-Evrópu.  Hugmyndin var sú að umsóknarferlið snerist ekki um samningaviðræður umsóknarríkis og stækkunarteymis ESB, heldur um aðlögun stjórnkerfis umsóknarríkisins að stjórnkerfi ESB.  Lykilatriði þar er, að klæðskerasaumur er aflagður, en ein flík skal nú henta öllum.  Flíkin sú er sett saman úr sáttmálum ESB. Það er óneitanlega þannig, að í þessu ferli er það ekki stjórnkerfi ESB, sem er aðlagað stjórnkerfi umsóknarríkisins, eins og skilja má af tali ESB-trúboðanna á Íslandi um "sérlausnir", heldur er umsóknarríkið lagað að ESB, eins og við þekkjum hérlendis nú þegar, með ákveðnum umsömdum umþóttunartíma.  Vandinn með framhaldið nú er, að Alþingi fyrra kjörtímabils setti skilmála um aðlögun, sem ESB-mönnum þóttu óaðgengilegir.  Núverandi Alþingi mun ekki veikja þessa skilmála.  Hvers vegna er ekki umræða á Alþingi núna um þessa skilmála í stað ómálefnalegrar umræðu, jafnvel innantóms gaspurs um "fundarstjórn forseta".  Þessi aðferðarfræði ESB-aðildarsinna er eins vonlaus og hún er heimskuleg.   

Frá því að umsóknin strandaði og þar til Össur þóttist leggja hana á ís (hún hafði þá þegar verið kistulögð af ESB), eða í hátt í tvö ár, mistókst kumpánunum Össuri Skarphéðinssyni og Þorsteini Pálssyni að lokka "sérlausn" út úr ESB, þó að starfsheiður þeirra lægi við.  Það er þess vegna fullreynt og hámark ósvífni og ómerkilegheita þeirra að tala enn um, að hægt sé að finna "sérlausn" fyrir Ísland á formi varanlegrar undanþágu frá sáttmálum ESB.  Þeir þora ekki að viðurkenna, að þeir féllu á þessu prófi, heldur reyna nú að etja öðrum á foraðið með svikabrigzlum og svigurmælum.  

Niðurstaða rýniskýrslu stækkunarteymis ESB um stjórnkerfi Íslands á landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum var sú, að himinn og haf skildi að Ísland og ESB í þessum efnum, og ESB neitaði að ræða um aðlögun þessara málaflokka á grundvelli skilmála frá Utanríkismálanefnd Alþingis, sem Össur Skarphéðinsson og Þorsteinn Pálsson höfðu í farteskinu í Brüssel.  Þar með strönduðu viðræðurnar.  Þjóðaratkvæðagreiðsla getur engu um það breytt.  Það er aðeins formsatriði að slíta þeim, því að þær geta ekki hafizt aftur, nema núverandi Alþingi komi til móts við rýniskýrslu ESB.  Það er hins vegar útilokað m.v. samsetningu þingsins. Aðeins nýir og veikari skilmálar að hálfu Alþingis fá þessu breytt, og ekki einu sinni ríkisstjórnin getur knúið núverandi þing til þess.  Meirihluti þingheims er hollari Stjórnarskránni en svo.  Tal Árna Páls, Róberts Marshal o.fl. um trúnaðarbrest, ef Alþingi dregur umsóknina til baka án þess, "að þjóðin fái að koma að málinu" er fullkomið lýðskrum úr munni þessara bergþursa Icesave-ánauðar og umsóknar að almenningi forspurðum og fullkomlega órökréttur málflutningur.  Við yrðum að athlægi í Brüssel, því að þar vita menn manna bezt, hvernig komið er fyrir umsókninni.   

Þá kumpána, Össur og Þorstein, skorti djörfung og dug til að viðurkenna orðinn hlut í Brüssel fyrir þingi og þjóð, þegar þetta gerðist árið 2011, og það er mjög ámælisvert.  Í framhaldinu mistókst árin 2011-2012 að finna "sérlausn", sem verður að kalla algert klúður hjá þeim m.v. talsmáta þeirra fyrr og nú, og nú reyna þeir að breiða yfir eigið árangursleysi með því að þyrla upp moldviðri um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald "viðræðnanna", sem Björg Thorarensen, varaformaður "viðræðunefndarinnar", sem var, telur stjórnskipulega ótæka aðferð m.v. núverandi Stjórnarskrá, sem kveður á um, að þingmenn séu aðeins bundnir af eigin samvizku, þegar þeir taka afstöðu á þingi.  Þessir tvímenningar eru orðnir ómarktækir. Þorsteinn Pálsson, sem öllu snýr á haus nú orðið, hefur reyndar kveðið upp úr um þá furðulegu lögskýringu, að Stjórnarskráin banni þingmönnum ekki að hlíta ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu.  Hundalógík hefur slíkt jafnan heitið.

Umsóknin strandaði á samningsskilmálum Alþingis frá síðasta kjörtímabili.  Það, sem liggur að baki kröfunni um þjóðaratkvæði núna um framhald "viðræðna", er hin ólýðræðislega og andvana fædda hugmynd um að knýja núverandi Alþingi til að endurskoða skilmála fyrra Alþingis í átt að kröfum stækkunarteymis ESB.  Ef þessi stórbokkalegu og yfirgangssömu áform gengju eftir, mundi niðurstaða síðustu Alþingiskosninga verða höfð að engu, og slíkt mundi jafngilda mestu kosningasvikum sögunnar.  Að sjálfsögðu mundi slík endurskoðun jafngilda endalokum núverandi ríkisstjórnar.

Með öðrum orðum hefur nú auðvaldið í landinu gert bandalag við stjórnarandstöðuna um að splundra rétt kjörnum meirihluta á Alþingi.  Auðvaldið sér inngöngu Íslands í hillingum, sem fyrir það hefur þó einvörðungu bókhaldslega þýðingu, því að það getur gert upp í þeirri mynt, sem því sýnist, og stjórnarandstaðan reynir með undirferli og fláræði að fiska í gruggugu vatni, hver flokkur með sínu lagi og ósamstiga. 

Hér er um andhverfu lýðræðislegra vinnubragða að ræða með lýðræðið á vörunum.  Þarna sést ljóslega, hvernig lýðskrumarar geta afskræmt lýðræðið, þegar þeir reyna að brjóta fulltrúalýðræðið á bak aftur með afskræmingu beins lýðræðis á vörunum.

  Þess vegna hefur prófessor Björg Thorarensen varað alvarlega við því ferli að setja á laggirnar þjóðaratkvæðagreiðslu til að hafa áhrif á starfsemi Alþingis.  Synjun lögfestingar í þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og t.d. í Icesave-málunum, er annars eðlis en að "fjarstýra" stefnumörkun á Alþingi með "Alþingi götunnar" og ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Það á aldrei að halda þjóðaratkvæðagreiðslu, ef niðurstaða hennar getur engu breytt á hvorn veginn, sem hún fer.  Þannig er farið með þá þjóðaratkvæðagreiðslu, sem ESB-áhangendur hérlendis hafa heimtað undanfarið.  Ef meirihluti þátttakenda kýs að staðfesta stöðvun aðlögunar landsins að ESB og slíta viðræðum, er niðurstaðan sú sama og hjá ríkisstjórn og þingmeirihluta hennar.  Ef meirihlutinn kýs áframhaldandi aðlögun með ærnum tilkostnaði, má hugsa sér í kjölfarið eftirfarandi samtal íslenzku viðræðunefndarinnar og stækkunarteymis ESB í Berlaymont:

  •  Füle: Velkomin aftur.  Eruð þið tilbúin með tímasetta áætlun um aðlögun stjórnkerfis landbúnaðar og sjávarútvegs Íslands í samræmi við rýniskýrslu okkar ?  
  • Formaður aðlögunarnefndar Íslands: Íslenzka þjóðin tók ákvörðun um það í þjóðaratkvæðagreiðslu að senda okkur hingað á ykkar fund. 
  • Füle: Hvað ætlið þið að bjóða okkur ?  Við erum fulltrúar 500 milljóna manna, og þið eruð fulltrúar 330 þúsund manns.  Þið getið ekki ætlazt til, að við breytum okkar skipulagi í átt að ykkar, jafnvel þó að ykkar kerfi hafi yfirburði á sumum sviðum.  Við verðum að kemba öllum með einum kambi.
  • Formaður aðlögunarnefndar Íslands: Þingflokkar ríkisstjórnarflokkanna á Íslandi voru ófáanlegir til að hnika til skilmálum Alþingis frá fyrra kjörtímabili.  Við höfum þess vegna ekki umboð til að samþykkja að koma til móts við rýniskýrslu ykkar um landbúnað og sjávarútveg, en við höfum hug á að leita með ykkur að "sérlausnum" fyrir Ísland í þessum málaflokkum. 
  • Füle: Það er þegar fullreynt með herra Skarphéðinssyni og herra Pálssyni, að við höfum ekki umboð frá Framkvæmdastjórn ESB, Leiðtogaráðinu og þinginu til slíkra sérlausna, sem þessir herramenn sóttust eftir.  Andstæðir hagsmunir innan okkar raða eru of miklir, og áhugi þessara aðila á að fá Ísland inn er ekki nægur, til að við viljum leggja í alla þá vinnu.  Herrar mínir og frúr.  Við komumst greinilega ekkert lengra með ykkur en fulltrúa ríkisstjórnar Sigurðardóttur.  Berið Alþingi kveðju okkar og þau skilaboð, að tilslökun að hálfu þingsins sé frumskilyrði þess, að inngönguferli ykkar verði fram haldið.  Góða ferð heim !  

 

 

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Frábær ádrepa. Eftir því sem þetta fólk hamast meira eykur það aðeins á niðurlægingu sína og er þjóðinni um leið til háborinnar skammar.

Þeim tekst seint að sannfæra þjóðina um að í raun sé það ESB sem er að ganga í Ísland en ekki öfugt. Það kemur allavega nógu snemma í ljós hversu rakalaust þetta upphlaup er. Assgoti verð ég feginn.

Jón Steinar Ragnarsson, 10.3.2014 kl. 22:43

2 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

- 82% þjóðarinnar vill fá að kjósa um framhald viðræðna við ESB (18% vill slíta samningum).

- 68% þjóðarinnar mun kjósa með áframhaldandi aðlögum að ESB verði kosið um framhald viðræðnanna (32% vill ekki áframhaldandi aðlögun að ESB).

- Stærstur hluti kjósenda hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort hér eigi að taka upp evru og Ísland að ganga í ESB. Það mun þessi stóri hluti þjóðarinnar gera þegar samningu liggur fyrir. Þær skoðanakannanir sem vitnað er til að meiri hluti er andvígur inngöngu í ESB, þær skoðanakannanir eru því ekki marktækar.

Með þessum mikla áhuga sem þjóðin hefur á að kjósa um þetta mál og það að 68% vill halda núverandi aðlögun að ESB áfram segir okkur bara eitt.

- Við aðildarsinnar munum vinna allar þær kosningar sem haldnar verða um þetta mál.

Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn geta haldið áfram að berja höfðinu við steininn í einhver ár í viðbót en því fyrr sem þessir flokkar sætta sig við þennan kalda pólitíska veruleika og fara að vinna með fólkinu í landinu og hætta að halda á lofti skoðunum lítils minnihluta, þessara 18% sem vilja slíta viðræðum, því betra fyrir þessa flokka, þingmenn þeirra og kjósendur.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 10.3.2014 kl. 23:45

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Aðildarsinnar munu ekki vinna neinar kosningar sem hinn þögli meirihluti tekur þátt í.

Rétt tæplega 194.000 kjósendur mættu á kjörstað í fyrra.  Um 49.000 þeirra eru nú sagðir hafa undirritað bænalista  Já-sinna - eða 25,3%.

Kolbrún Hilmars, 11.3.2014 kl. 15:19

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jón Steinar;

Sagt var: "you ain´t seen nothing yet".  Við erum rétt að fægja byssuhlaupin.  Fari svo ólíklega, að einhvers konar atkvæðagreiðsla verði haldin um, hvort landið eigi að stefna lóðbeint að aðild að ríkjasambandinu ESB, þá verður "Stóra-Berta" dregin fram og hleypt af, eins og þurfa þykir frá hægri og vinstri í takti.  Það getur orðið góður samhljómur, sem vísar veginn.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 11.3.2014 kl. 20:09

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Friðrik Hansen;

Það er varhugavert að hampa þessum tölum, eins og þú gerir, og síðan að draga af þeim ályktanir um, hver úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu um einhver álitaefni tengd ESB yrðu.  Það stafar af því, sem ég hygg, að flestir séu sammála um, að úrslit í kosningum mundu markast mjög af því, hvernig spurningarnar eru settar fram.  Það eru engin augljós rök að baki ályktun þinni um, að "Þær skoðanakannanir sem vitnað er til að meiri hluti er andvígur inngöngu í ESB, þær skoðanakannanir eru því ekki marktækar", heldur væri nær að flokka þetta til broslegrar óskhyggju.  Varðandi fullyrðingu þína: "Við aðildarsinnar munum vinna allar þær kosningar sem haldnar verða um þetta mál" er bezt að segja sem minnst, en fremur taka sér í munn orðtakið: "spyrjum að leikslokum".  Veldur hver á heldur.  Það verða engin vettlingatök viðhöfð, og sjálfsagt mun þá sjást "sniðglíma á lofti". 

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 11.3.2014 kl. 20:24

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Kolbrún Hilmars;

Rök þín eru pottþétt og mér að skapi.  Varðandi fjöldann á "bænalistanum" vil ég spyrja, hvort hann hafi verið kennitölugreindur ?  Ég á bágt með að trúa því, að um 50 000 manns láti teyma sig út í að óska rándýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu, MISK 200 eru nefndar, sem engu gæti breytt, hvernig sem hún færi.  Umsókn með óbreyttum skilyrðum þingsins gengur ekki og hefur þegar verið hafnað af ESB.  Eina ráðið er að breyta skilmálum úmsóknar í átt að rýniskýrslu ESB, en það er borin von aðildarsinna, að núverandi þingmeirihluti geri það.  Líflítill krói er í súrefniskassa.  Réttara er að reyna getnað að nýju á Alþingi, ef/þegar öll skilyrði verða fyrir hendi um farsæla fæðingu og uppeldi í Berlaymont. 

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 11.3.2014 kl. 20:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband