Flugvöllur í fári

Sú einstæða staða er uppi í samgöngumálum landsins, að borgaryfirvöld þrengja stöðugt að Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýrinni, heimta lokun bráðnauðsynlegrar SV-NA flugbrautar hið snarasta og lokun Fluggarða, þar sem kjarnastarfsemi flugsins fer fram.  Borgarstjórnarflokkur Samfylkingar, Bjartrar Framtíðar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs ganga til borgarstjórnarkosninganna nú í vor undir gunnfána íbúðabyggðar í Vatnsmýrinni í stað flugvallar og flugvallarstarfsemi.  Mörgum finnst ekki heil brú í því, og þeir eiga að veita óánægju sinni farveg í komandi borgarstjórnarkosningum með því að kjósa aðra flokka, sem telja, að varðveita eigi og efla Reykjavíkurflugvöll, þar sem hann er.

Þetta er með öllu óskiljanlegt viðhorf til gríðarlega mikilvægrar starfsemi í borginni, að hún verði hvað sem það kostar að víkja fyrir nýrri byggð, enda er nú svo komið, loksins, að aðrir stjórnmálaflokkar eru að taka við sér í þessu máli.  Betra er seint en aldrei.  Nú ættu Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Dögun að skera upp herör í borginni og hinir tveir fyrst nefndu að láta kné fylgja kviði á Alþingi með löngu tímabærri lagasetningu, sem tryggir Reykjavíkurflugvelli öruggan starfsgrundvöll, svo að þar geti hafizt sómasamleg uppbygging.

Þegar er nóg að gert og meir en nógu fé sóað í "leit" að nýju flugvallarstæði.  Jafngott land og Vatnsmýrin frá flugtæknilegu sjónarmiði hefur ekki fundizt þrátt fyrir áratuga "leit", og nýr flugvöllur gæti kostað 30-50 milljarða kr með öllum sínum mannvirkjum og tækjum.  Það má líta á þann kostnað sem stofnkostnað nýs byggingarlands, og er þá ekki búið að stinga skóflu í jörðu.  Er glóra í slíku ráðslagi ?  Já, ef ekkert annað byggingarland væri fyrir hendi, en í raunveruleikanum nei, því að annars staðar er meira en nóg byggingarland, einnig innan marka Reykjavíkur.  Það er enginn staður jafnvel í sveit settur, m.t.t. þeirrar byggðar og þjónustu, sem farþegarnir þurfa á að halda, og Vatnsmýrin.  Flutningur flugvallarins innan höfuðborgarsvæðisins er þess vegna algerlega óraunhæfur kostur.   

Það segir nokkra sögu í þessum efnum, að í meira en 300 stórum borgum heimsins eru flugvellir.  Það kemst enginn upp með lokun á þessum flugvöllum, þó að minnihlutahópar nöldri, vegna mikilvægis þeirra fyrir samgöngukerfið og öryggismálin.  Segja má, að flugöryggi á Íslandi standi nú um stundir mest ógn af lokun Reykjavíkurflugvallar.  Þetta er staða, sem á sér enga hliðstæðu í Evrópu um háa herrans tíð, og þó víðar væri leitað, að því er bezt er vitað. 

Hörður Guðmundsson, stofnandi flugfélagsins Arna, sagði frá því í viðtali við Morgunblaðið 12. apríl 2014, að þegar þeir flygju með sjúklinga til Stokkhólms, væru þeir beðnir um að lenda á Bromma-flugvelli inni í borginni, af því að þaðan er stytzt á sjúkrahúsið.  Dagur, læknir, sem nú elur með sér drauma um að taka við stöðu borgarstjóra af Gnarrinu eftir komandi kosningar, deilir ekki svipuðum skoðunum með starfsbræðrum sínum í Stokkhólmi fyrir hönd sjúklinga, sem flogið er með til aðgerða í höfuðborg Íslands.  Nei, þar ráða ferðinni einkennileg sjónarmið um byggingarskipulag í Reykjavík, sem útheimti þétta byggð í Vatnsmýrinni, og þess vegna verði flugvöllurinn að víkja.  Það er ekki öll vitleysan eins.  Hvað skyldi þurfa að vera mikilvæg starfsemi í Vatnsmýrinni, svo að hún fengi frið fyrir skipuleggjendum íbúðabyggðar í höfuðborginni ?

Í áðurnefndu viðtali sagði Hörður Guðmundsson ennfremur:

"Reykjavíkurborg þarf að gefa út yfirlýsingu, eins og gert var í Bromma, um, að flugvöllurinn verði hér til næstu 30 ára.  Við, sem rekum þjónustu við byggðir landsins, þurfum að vita til næstu 30 ára, hvað er í gangi.  Bæði við og Flugfélag Íslands erum með áætlunarflug um allt land.  Það er erfitt að byggja upp, ef við vitum ekki, hvað verður á morgun."

Þetta er hverju orði sannara, en slík yfirlýsing úr Ráðhúsinu við Tjörnina er ekki nóg, heldur þarf traustan lagaramma um flugvöllinn í Vatnsmýrinni.  Yfirlýsingar stjórnmálamanna í Reykjavík duga ekki.  Alþingi og landsstjórnin verða að taka af skarið í þessum efnum. 

Margir flugfarþegar hafa furðað sig, hversu óveður og slæmt skyggni á Keflavíkurflugvelli virðist hafa lítil áhrif á áætlun um flugtök.  Ein skýringin á þessu er staðsetning og oftast betri veðurskilyrð Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni, sem er einn af varaflugvöllum Keflavíkurflugvallar.  Um þetta sagði Sölvi Axelsson, flugstjóri hjá EVA Air, í Morgunblaðsviðtali, 12. apríl 2014:

"Eitthvað getur farið úrskeiðis í flugtaki, og þá verður að vera hægt að lenda flugvélinni fljótlega aftur.  Sé um tveggja hreyfla flugvél að ræða, er almenna reglan sú, að það taki minna en eina klukkustund að fljúga á flugtaksvaraflugvöllinn á öðrum hreyflinum.  Aðflugshorn að Akureyrarflugvelli er yfir þeim mörkum, sem yfirleitt er miðað við um flugtaksvaravelli.  Til að mega nota sjálfan flugtaksvöllinn sem flugtaksvaravöll eru almennt gerðar kröfur um lágmarksskyggni upp á 1600 m.  Ef Reykjavíkurvöllur verður ekki lengur til vara, mun þetta geta valdið því, að seinka þurfi brottförum frá Keflavík, sé skyggnið ekki nógu gott, þar til það batnar.  Því er viðbúið, að falli Reykjavíkurflugvöllur út, verði seinkanir á brottförum flugvéla frá Keflavík algengari en nú er með tilheyrandi kostnaði og óþægindum fyrir farþega."

Það má telja víst, að hið gríðarlega óhagræði, sem felst í því fyrir millilandaflugið að missa Reykjavíkurflugvöll og dæmi er nefnt um hér að ofan, muni leiða til hækkunar á flugfargjöldum og minnka samkeppnihæfni flugs, sem stundað er út frá Keflavíkurflugvelli, af því að það verður dýrara og óáreiðanlegra.

Þá hefur verið sýnt fram á kostnaðarauka af ferðalögum innanlands upp á um 7 milljarða kr á ári, verði Reykjavíkurvöllur aflagður, sem er lágmark.  Aukin hætta, kostnaður, óhagræði farþega og verri þjónusta sjúkraflugs vega margfalt þyngra á metaskálunum en þétting byggðar í Reykjavík.  Byggð í Vatnsmýri verður alltaf dýr, og þess vegna ekki sérlega fýsilegur íbúðakostur.  Þá orkar það mjög tvímælis, svo að ekki sé nú fastar að orði kveðið, frá skipulagslegu sjónarmiði séð, að gera ráð fyrir meira en 5000 manna byggð á slíku láglendi sem Vatnsmýrin er, nú á tímum hækkandi sjávarstöðu við landið, eins og bent hefur verið á.  Það ber allt að sama brunni með borgaryfirvöldin; þau fórna öryggi borgaranna fyrir ímyndaða stundarhagsmuni.  Það verður að taka af þeim ráðin.  

Bombardier CRáðhús Reykjavíkur

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hafðu þökk fyrir þessa ágætu úttekt um Reykjavíkurflugvöll.

Á sama tíma og heilbrigðiskerfið er frammi á bjargbrún niðurskurðar, vegir landsins drabbast niður og árið 2016 blasir við hundraða milljarða gat í gjaldeyrisforða landsmanna vegna stórra afborgana af erlendum lánum með hættu á nýju hruni, dunda menn sér við loftkastala um leit að nýju flugvallarstæði upp á tugi milljarða.

Fjöldi tækifæra er til þéttingar byggðar í borginni á svæðum, sem eru nær núverandi þyngdarpunkti íbúðabyggðar en Vatnsmýrin.

Það verður hægt að innheima lóðargjöld alveg eins og í Vatnsmýri, en síðan tala menn um lóðargjöld almennt eins og peninga sem detti af himnum ofan eins og manna í Gamla testamentinu.

Ein einhverjir borga þá peninga og taka þá mestan part frá öðrum. Ekki óraði mig fyrir því að hugsunarháttur þjóðsögunnar sem fólst í setningunni "hesturinn ber ekki það sem ég ber". myndi ganga aftur á jafn stórkostlegan hátt.  

Ómar Ragnarsson, 21.4.2014 kl. 16:06

2 Smámynd: Jónatan Karlsson

Sæll Bjarni.

Ég er algjörlega sammála þér hvað öll þín rök varðar fyrir varðveislu og eðlilegri þróun Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni, en get þó ekki tekið undir áskorun þína til Sjálfstæðisflokks, Dögunar og Framsóknar, einfaldlega vegna þess álit og afstaða margra, ef ekki hreinlega flestra efstu manna þessara framboða er þekkt og því einskis virði þó þeir söðli um fyrir kosningar og því auðvitað með svik í huga.

Minn kosningaseðill í komandi kosningum verður því auður, nema því aðeins að nýtt ómengað framboð sannra flugvallarvina komi fram og álít ég satt best að segja að ég sé ekki einn um þá ákvörðun.

Jónatan Karlsson, 21.4.2014 kl. 16:29

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Ómar;

Staða Reykjavíkurflugvallar er að margra mati stærsta kosningamálið fyrir þessar sveitarstjórnarkosningar, og það hefur þá sérstöðu, að það höfðar til fólks í nánast öllum sveitarfélögum.  Þess vegna á ríkuleg umfjöllun fullan rétt á sér. 

Eins og þú bendir á, er eitthvað bogið við það, að rétt ein nefndin skuli nú vera að störfum með það hlutverk að finna flugvellinum nýjan stað innan borgarmarkanna.  Allir innviðir landsins eru sveltir og hafa verið í 5 ár, og við þær aðstæður eru því gerðir skórnir að færa Reykjavíkurflugvöll.  Þetta er hneyksli, og ætti að leysa nefnd Rögnu Árnadóttur samstundis upp. 

Það hafa auðvitað margir í sögunni gert hlut sinn meiri en ástæða er til, og borgaryfirvöld gera núna, og tekið sér þau orð í munn, beint og óbeint, sem þú vitnar til.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 21.4.2014 kl. 16:45

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jónatan;

Ég skil vel tortryggni þína.  Það á þó eftir að koma betur í ljós í kosningabaráttunni, hversu einarðir flugvallarvinir eru í efstu sætum téðra stjórnmálaflokka.  Þeir munu falla á hálfvelgjunni, því að málið er einfalt.  Spurning, hvort flugvallarframboð kemst á koppinn í tæka tíð.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 21.4.2014 kl. 18:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband