Skaðlegar kröfur

Mikil óþreyja virðist hafa gripið um sig á meðal þeirra, sem móta kröfugerð verkalýðsfélaga. Þetta er gjörsamlega úrelt nálgun á viðfangsefninu, sem er að auka ráðstöfunartekjur félagsmannanna og að lækka verðlag í landinu.

Sú nálgun á þessu viðfangsefni að hækka taxta um meira en nemur framleiðniaukningu er gjörsamlega vonlaus og leiðir ekki til annars en verðbólgu og hræðilegrar kjararýrnunar í kjölfarið. 

Launasamanburður við aðrar þjóðir missir algerlega marks, því að þá verður vitaskuld að taka tillit til landsframleiðslu á íbúa viðkomandi lands, VLF/íb.  Ofspenntar launahækkanir leiða ekki til annars en lækkunar á þessu hlutfalli, því að samkeppnistaða viðkomandi greinar og jafnvel landsins alls versnar, og þar með minnka tekjurnar. Hér að neðan gefur að líta verga landsframleiðslu í kEUR (EUR 000) á íbúa 2012 ásamt meðalhagvexti 2003-2013 og hagvexti 2013 (í sviga er hlutfall framleiðsluverðmætis m.v. Ísland) á  Norðurlöndunum, nema Færeyjum, og að meðaltali í Evrópusambandinu : 

   Land   kEUR/íb Hagvöxtur                  

  • Noregur: 49,9 :1,5 % og 0,6 % (1,74)
  • Svíþjóð: 32,8 :2,1 % og 1,5 % (1,14)
  • Danmörk: 32,0 :0,6 % og 0,4 % (1,11)
  • Finnland:29,1 :1,3 % & -1,4 % (1,01)
  • Ísland:  28,7 :2,4 % og 3,3 % (1,00)
  • ESB 27:  25,6 :2,2 % og 1,5 % (0,89)

Þessi tafla gefur til kynna, hvílíka sérstöðu Noregur hefur varðandi landsframleiðsluverðmæti á íbúa, sem er t.d. 74 % hærri en á Íslandi.  Tekjudreifingin í Noregi væri einkennileg, ef allar stéttir væru ekki mun launahærri þar en á Íslandi. Af þessum ástæðum er algerlega út í hött í launabaráttunni hérlendis að bera laun hérlendis saman við laun í Noregi. Miklu nær er að ræða leiðir og aðferðir til auka landsframleiðslu Íslendinga.

Annað mál er, að í Noregi eru beinir skattar hærri en hérlendis, og eftir að núverandi fjárlagafrumvarp hefur hlotið gildistöku með þeim endurbótum á óbeina skattkerfinu, sem þar er að finna, þá verða óbeinu skattarnir á Íslandi svipaðir og í Noregi. 

Orka af öllu tagi er mun dýrari í Noregi en á Íslandi, húsnæðisverð hefur í Noregi hækkað upp úr öllu valdi og er komið að þanmörkum, og t.d. bílar eru þar mun dýrari en á Íslandi. Norska hagkerfið stendur frammi fyrir vandræðum, því að hagkerfi Noregs er ósamkeppnihæft vegna hás kostnaðar, þ.m.t. olíuiðnaðurinn m.v. markaðsverðið 80 USD/tunna. Kaupmáttur á Íslandi getur orðið hærri en í Noregi á næsta áratug, ef hér verður rétt haldið á spilunum í anda stöðugleika og engar kollsteypur teknar. 

Hagvexti á Íslandi árið 2014 er spáð verða 3,5 %, en í hinum löndunum í töflunni verður hann líklega á bilinu -1,0 % til +1,0 %.  Ef áætlaðar fjárfestingar næstu ára ganga eftir, gæti hagvöxtur á Íslandi orðið 3,0 % hærri að jafnaði á ári en í hinum löndunum í töflunni.  Þá náum við öllum, nema Noregi, á 5 árum í VLF/íb.

Þetta þýðir þó ekki, að laun hér geti almennt náð sænskum launum á 5 árum.  Það er vegna þess, að ríkissjóður, sveitarfélög og fyrirtæki hérlendis, eru skuldsettari en í Svíþjóð, og vaxtastigið hérlendis er hærra en annars staðar í Evrópu, og þar af leiðandi er fjármagnskostnaður mun meiri á Íslandi en í Svíþjóð. Nú hillir undir snögglega minnkun skuldsetningar almennings, og er vonandi, að hún minnki áfram hægt og bítandi, þó að vextir fari nú lækkandi. Fjármagnskostnaður ríkissjóðs, aðallega í gjaldeyri, er t.d. um ISK 70 mia/ár, og gefur auga leið, hvílíkur léttir það verður fyrir þjóðfélagið að t.d. helminga skuldirnar. Slíkt tekur a.m.k. 5 ár,þó að hagkerfið fái frið og jafnvægi.

Á þessu ári verður kaupmáttaraukning á Íslandi að jafnaði um 4 %, og eftir síðustu vaxtalækkun Seðlabankans stefnir í lækkun fjármagnskostnaðar um 4 % hjá skuldugu fólki. 

Líklega þekkjast hvergi á byggðu bóli aðrar eins almennar kjarabætur um þessar mundir og á Íslandi.  Allan þennan mikla ávinning er þó í sviphendingu hægt að eyðileggja með offorsi og óhóflegri kröfugerð um launahækkanir. Seðlabankastjóri hefur t.d. lýst því yfir, að verði launahækkanir almennt yfir þeim mörkum, sem hann telji hagkerfið ráða við, þá verði Seðlabankanum beitt til hækkunar vaxta, og þeir geta þá hæglega hækkað yfir þau 6,0 %, sem þeir voru í fyrir síðustu lækkun.  Þar með stæðu flestar fjölskyldur uppi með lækkaðan kaupmátt, þegar fjármagnskostnaður hefur verið greiddur. Öllum launþegum má ljóst vera, að þróun hagkerfisins er lykilstærð fyrir hag almennings í landinu.

Læknastéttin er nú í verkfallsbaráttu fyrir hækkun launa langt umfram það, sem aðrar stéttir hafa samið um frá 2006. Læknar hafa um tvöföld laun á við hjúkrunarfræðinga og um tvöföld meðallaun á Íslandi. Hér skal ekki leggja dóm á það, hvort þetta hlutfall er eðlilegt eður ei, né gera því skóna, að læknar séu ofsælir af sínum launum. Þvert á móti hafa þeir aflað sér þjóðfélagslega mikilvægrar þekkingar, og margir þeirra hafa náð mikilli færni á sínu sviði, þó að innan um séu svartir sauðir, eins og í öllum stéttum.  Nægir þar að nefna, að Íslendingar eru sagðir mestu lyfjaætur í heimi, og eru þó flest þessi lyf lyfseðilsskyld. Læknar eiga þess vegna skyldar háar tekjur, enda er starfsævi þeirra í styttra lagi.

Það er röskun á téðu hlutfalli launa, sem er hins vegar vandamálið hér og nú. Að ganga að kröfum lækna í yfirstandandi vinnudeilu hefði í fyrsta lagi í för með sér útgjaldaauka fyrir ríkissjóð, sem nemur yfir 1 % af veltu hans, og til þess er enn ekki svigrúm, þó að það muni koma, og hins vegar mundu samningar á þessum nótum þrýsta sér niður allan launastigann og sprengja hagkerfið í loft upp með útgjaldauka launagreiðenda um allt að 50 %.  Verðstöðugleikinn hyrfi þá upp í gasbláma, fjármagnskostnaður skuldara ryki upp í himinhæðir, krónan félli býsna djúpt og ráðstöfunartekjur almennings mundu í raun lækka mikið, svo að hagur allra mundi versna hræðilega.

Það verður að vona í lengstu lög, að læknar láti strax af vinnustöðvunum sínum, sem eru fordæmalausar, enda verður ekki séð, hvernig þær samrýmast Hippokratesareið lækna. Fórnarlömbin í þessari kjaradeilu er fólk í nauðum statt, fólk, sem ekki hefur valið sér það hlutskipti að þurfa að leita á náðir lækna, fólk, sem ekki getur borið hönd yfir höfuð sér.

Samfélagslega eru slíkar kjaradeilur í raun óviðunandi.  Þess vegna væri bezt, að aðilar þessarar deilu samþykktu að vísa henni til úrskurðar Kjaradóms. Hann mundi líklega taka tillit til þess, að læknar á launaskrá ríkisins hafa dregizt aftur úr öðrum ríkisstarfsmönnum og dæma þeim kjarabætur samkvæmt því í einhverjum áföngum. 

Annað mál er aðbúnaður á ríkissjúkrahúsinu við Barónsstíg að starfsfólkinu þar og skjólstæðingum þess.  Það er brýn þörf á byltingu í þeim efnum, og að færa Háskólasjúkrahúsið inn í nútímann, og er þá engri rýrð kastað á færni þess fólks, sem þar starfar nú. Líklega vinnur það kraftaverk á hverjum degi við misjafnar, og í sumum tilvikum, dapurlegar aðstæður. Það ber að selja ríkiseignir til að afla fjár til þessa verkefnis. Er þá litlum vafa undirorpið, að sjúklingar munu senn njóta sambærilegs atlætis og á hinum Norðurlöndunum og íslenzkir læknar sjá hag sínum vel borgið við störf hérlendis, ef hagkerfið fær að vaxa og dafna, eins og efni standa til.          

 Rikshospitalet 

        

    

  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Þú nefnir hagvaxtartölur Bjarni Jónsson.

Þarna virðist Noregur með allan „hagvöxtinn“ vera búinn að missa alla samkeppnishæfni.

Í Noregi er upphitun húsa 12 sinnum dýrari en á Íslandi.

Það er vegna þess að á Íslandi kemur gróðinn vegna góðrar stjórnsýslu á orkufyrirtækjunum, til notenda, það er heimila og fyrirtækja.

Fyrir okkur ófróða væri fróðlegt að vita hvort þetta spilar inn í hagtölurnar.

Í Noregi selja orkufyrirtækin orkuna úr landi fyrir uppsprengt verð, verð sem er að sliga Evrópu.

Það þarf að greina hagtöluna og tekjur á íbúa í tekjur og gjöld á íbúa.

Það yrði þá kaupmáttar tala.

Einnig verður að athuga um hvort viðkomandi land er rekið með halla.

Egilsstaðir, 16.10.2014  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 17.11.2014 kl. 14:26

2 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Launakröfur lækna.

Athuga um kaupmátt launa í Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og á Íslandi.

Þá er hægt að finna út hvað er sanngjarnt  og mögulegt.

ooo

Athuga um þrjá staði á höfuðborgarsvæðinu með 10 til 20  km millibili

til að reisa Heilsugæslu, Sjúkrahús.

Þarna velji eldfjalla, jarðskjálfta, jarð, veður og landfræðingar álitlega staðsetningu.

Alþingi eigi loka orðið.

ooo

Byrjað verði á einni þyrpingu  og endurnýjun.

Boðið verði upp á raunhæfa, nýjustu tækni og aðstöðu, vegna sjúklinga, og til að laða að starfsfólk.

ooo

Fjármögnun.

Fjárfestar skili aftur „ÖLLU“ sem þeir hirtu.

Egilsstaðir, 17.111.2014 Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 17.11.2014 kl. 18:51

3 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

„Að selja Ríkiseignir.“

 

Fjárfestarnir tróðu sínum skuldum á Ríkið.

Fjárfestarnir þóttust lána okkur til að borga, þeirra eigin skuldir.

Nú þykjast fjárfestarnir ætla að kaupa eignir til að við getum borgað

þessa skuldafléttu þeirra.

 

Viljum við alltaf láta spila með okkur.

 

Þetta verðum við að skoða mjög vel.

Þegar við seldum Bankana, þá fengu einka fjármálafyrirtækin leifi

til að búa til peninga fyrir Ísland.

 

Síðan settu þeir á okkur „KREPPUFLÉTTUNA“ og hirtu flestar eignir á Íslandi.

 

Við vorum svo heppnir að okkur tókst að halda eignarhaldi á flestum hitaveitunum og raforku fyrirtækjunum.

Nú er reynt að ná þessum orkufyrirtækjum frá okkur.

Þegar fjárfestarnir náðu íslensku fisksölufyrirtækjunum enduðu þeir oft á því,

að selja þau til útlanda.

 

Egilsstaðir, 18.11.2014  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 18.11.2014 kl. 07:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband