Umhverfissambandið

Innan Evrópusambandsins, ESB, fer gríðarlegur tími í að ræða á háfleygum nótum um umhverfisvernd.  Ímynd ESB er umhverfisvæn, og ESB hefur tekið forystu í að setja háleit markmið, en minna er um efndirnar, og árangurinn er sorglega lítill. Markaðurinn hefur ekki verið virkjaður í sama mæli og t.d. í BNA, Bandaríkjum Norður-Ameríku. 

Samt mun ESB sennilega ná markmiðum sínum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2020, en það verður aðallega vegna ömurlegs efnahagsástands á svæðinu. Framleiðsluöflin eru illa nýtt í 11 % atvinnuleysi að meðaltali fyrir allt svæðið, enda horfir óbjörgulega með hagvöxtinn á þessum áratugi, og víða á svæðinu er samdráttur um þessar mundir og hefur verið lengi sums staðar. Hnignun blasir hvarvetna við, og elli kerling læsir nú klónum í samfélög Evrópu og er líklega megingerandinn á meginlandinu um þessar mundir og skákar þá jafnvel Frau Angelu Merkel, kanzlara.

"Die Energiewende" eða kúvending Þýzkalands í orkumálum með stöðvun kjarnorkuvera og gríðar aukningu á uppsettu afli sólarhlaða og vindrafstöðva er misheppnuð, enda ógnar hún samkeppnigetu Þýzkalands vegna gríðarlega hás orkuverðs og á þátt í doðanum þar núna.  Hið sárgrætilega er, að þetta hefur samt "engu" skilað í umhverfisvernd, því að Þjóðverjar og ESB-löndin almennt brenna nú meiru af kolum í raforkuverum en nokkru sinni fyrr. Þetta er ótrúlegt, en satt.

Þetta stafar af því, að Bandaríkjamenn, sem ekki státa af jafngóðu orðspori í umhverfisvernd og Þjóðverjar, hafa stórdregið úr brennslu kola, því að jarðgasvinnsla Bandaríkjamanna með bergbroti eða setlagasundrun hefur ýtt kolum út af markaðinum, og þar með hefur dregið úr mengun í BNA.  Kolavinnslufyrirtækin hafa þá hrakizt í útflutning með kolin, og Evrópumenn hafa keypt þau á lágu verði og brennt þeim, sem er kaldhæðnislegt í ljósi háleitra umhverfisverndar markmiða.

Á nýjasta toppfundi sínum 23.- 24. október 2014 samþykktu æðstu menn aðildarríkja ESB, að losun ríkja þeirra á gróðurhúsalofttegundum skyldi árið 2030 verða 40 % minni en árið 1990. Þetta eru augljóslega mjög krefjandi markmið. Til að ná þessu markmiði skulu ríkin setja sér lagalega skuldbindandi markmið. Þetta markmið kemur í kjölfar annars, sem sett var árið 2007 um 20 % samdrátt losunar árið 2020.

Nýja markmiðinu er ætlað að ryðja brautina fyrir endanlegt markmið um 80 % - 95 % samdrátt losunar fyrir árið 2050.

Þessi markmið verða mörgum ríkjum þung í skauti, enda var hart tekizt á um þau. Lönd á borð við Pólland, sem framleiða 90 % af raforku sinni með kolum, munu þurfa þjóðarátak til að umbylta orkuvinnslu sinni, og þau hafa vart efnahagslega burði til þess. Írar þurftu undanþágu fyrir kúastofn sinn, sem leysir gas úr læðingi úr meltingarvegi sínum á formi methans, sem er a.m.k. 20 sinnum sterkari gróðurhúsalofttegund en koltvíildi, og svo mætti lengi telja. 

Vegna efnahagsdoðans, sem hrjáð hefur Evrópu frá 2008, hefur hún dregizt afur úr öðrum í framleiðslu og mengar þess vegna tiltölulega minna en ella. Árið 2012 nam losun Evrópu á gróðurhúsalofttegundum aðeins 11 % af heimslosun og fer minnkandi, en losun BNA nam 16 % á meðan Kína stóð fyrir losun 29 %. Mengunarvandamál heimsins heitir Kína, og kínversk stjórnvöld hafa nú viðurkennt vandamálið og sett mikið fé í að þróa Þóríum-kjarnorkuver til að leysa sín kolakyntu raforkuver af hólmi.   

Mikið offramboð er á losunarheimildum koltvíildis í Evrópusambandinu, svo að nú nemur verð þeirra aðeins 6 EUR/t af CO2. Árangurinn af loftslagsstefnu ESB er dapurlegur.  Í Evrópu er nú brennt meiru af kolum en nokkru sinni fyrr, og orkuverðið er hið hæsta í heiminum og er þung byrði á hagkerfinu. Græn orðræða evrópskra embættismanna hefur reyndar nýlega snúizt á sveif með hagvexti; með miklu atvinnuleysi og stöðnun hagkerfisins munu borgararnir taka frekari orkuverðshækkunum þunglega.  Kjósendur í Evrópu eru að missa þolinmæðina gagnvart stjórnmálamönnum, sem móta stefnu, sem kostar þá stórfé án sýnilegs árangurs. Mistekizt hefur að virkja markaðinn til dáða þrátt fyrir gífurlegar niðurgreiðslur á "grænni" raforkuvinnslu. Hérlendis hafa menn fengið þá fáránlegu hugmynd að gera út á þennan vafasama markað með því að hvetja til lagningar sæstrengs á milli Íslands og Skotlands til að selja orku utan. Þykir sumum, að áhættan í islenzka hagkerfinu muni minnka við slíka tengingu, en aðrir sjá henni allt til foráttu, enda virðist áhugi fjárfesta vera af skornum  skammti. Slíkt verkefni er svo dýrt, að slík orkusala getur ekki orðið arðsöm, og þjóðhagslega hagkvæmt verður aldrei að senda raforku úr landi í stað þess að nýta hana innanlands í þágu útflutningsiðnaðar eða gjaldeyrisskapandi athafna.   

Allar þessar fórnir eru færðar til að stöðva hlýnun jarðar.  Nú hefur hún hins vegar þegar stöðvazt af óljósum ástæðum, svo að deginum er ljósara, að líkönum vísindamanna af hegðun gufuhvolfsins er verulega ábótavant. Frá 1950 hefur hitastig þess hækkað um 0,7°C og um 1°C frá 1900, en síðast liðin 15 ár hefur meðalhitastig við yfirborð jarðar staðið í stað.

Á áratuginum 2000-2010 losaði mannkynið um 100 milljarða tonna af koltvíildi út í andrúmsloftið.  Það er u.þ.b. fjórðungur af allri losun mannkyns frá 1750. Samt hækkaði hitastigið ekkert.  Hvers vegna ?  Þekkingu manna á lögmálum, sem stýra hitnun andrúmsloftsins, er greinilega mjög ábótavant.

Koltvíildið sjálft sogar til sín innrautt ljós (hitageisla) í þekktum mæli. Við tvöföldun styrks koltvíildis hækkar hitastigið um 1,0°C.  Fyrir iðnvæðingu, 1750, nam koltvíildisstyrkur andrúmslofts 280 ppm, svo að við 560 ppm ætti þá hitastig við yfirborð jarðar að hækka um 1,0°C, sem er ekki stórhættulegt.  Í raun er hitnunin þó meiri vegna aukaáhrifa af völdum gufu og skýja í andrúmsloftinu, sem aukast með hitastigi.  Sót og önnur efni, t.d. SO2, brennisteinstvíildi, hafa þó áhrif í báðar áttir.  Eldgos senda frá sér óhemju magn af ösku og gösum, t.d. SO2, út í andrúmsloftið. 

Það hefur verið reiknað út, að gosið í Holuhrauni sendi um 2500 t/klst af SO2 út í andrúmsloftið.  Umferðin á Íslandi losar um 2000 t/ár og málmframleiðslan á Íslandi losar um 12000 t/ár af SO2.  Á 6 klst losar Holuhraun jafnmikið og umferð og stóriðja á einu ári.  Standi þetta gos yfir í hálft ár, eins og áætlað hefur verið út frá sighraðanum í Bárðarbungu, mun þetta eina gos losa álíka mikið af SO2 út í andrúmsloftið eins og núverandi umferð og stóriðja á Íslandi á 720 árum. Af þessu sést, hversu lítið munar um mengunaráhrif Íslendinga í samanburði við "mengun" náttúrunnar sjálfrar.

Þrátt fyrir þessa vitneskju er lagt út í gríðarlegar fjárfestingar til að draga úr mengun frá starfsemi mannanna. Þær eru í fæstum tilvikum réttlætanlegar á heimsvísu, en geta hins vegar verið það vegna nærumhverfis og vegna aðbúnaðar á vinnustað. Þetta á t.d. við um hreinsun flúors á gasformi og bundnum rykögnum í kerreyk álveranna. Votvöskun brennisteins á ekki rétt á sér á Íslandi, af því að jarðvegurinn er basískur.  Þess vegna er ólíklegt, að lífríki íslenzkra vatna muni bíða hnekki af súru regni vegna gríðarlegrar SO2 mengunar úr Holuhrauni. 

Lífríki vatna og skóga á hinum Norðurlöndunum og á Bretlandi og víðar beið hins vegar mikinn hnekki á tímabilinu 1960-1980 vegna súrs regns af völdum óheftrar losunar frá kolabrennslu á meginlandi Evrópu og á Bretlandi.  Bylting til hins betra hefur orðið í þessum efnum.  Mikið mengunarvarnarátak á 9. áratugnum gjörbreytti stöðunni til hins betra varðandi brennisteinslosun og losun annarra efna, s.s. flúors. Mengunarvarnatækninni hefur fleygt fram á síðast liðnum 30 árum.       

 

          

  

 

        


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband