Þjoðfélag markaðshagkerfis með félagslegu ívafi

Þjóðverjum gengur mjög vel innan evru-svæðisins eftir að vaxtaverkjum Endursameiningar Þýzkalands l990 linnti upp úr aldamótum, og þeim gekk reyndar líka mjög vel allt frá innleiðingu þýzka marksins í árdaga Sambandslýðveldisins.  Um leið og þýzka markið kom til sögunnar, var efnahagshöftum aflétt á einni nóttu, og stefna Markaðshyggju með félagslegu ívafi var innleidd af Konrad Adenauer, fyrsta kanzlara Sambandslýðveldisins Þýzkalands, og dr Ludwig Erhard, efnahagsráðherra hans og föður þýzka efnahagsundursins (Wirtschaftswunder). 

Margir, þar á meðal bandaríski hernámsstjórinn, efuðust um efnahagslegan stöðugleika Vestur-Þýzkalands í kjölfar þessa, en efnahagsráðherrann í ríkisstjórn Konrads Adenauers réði þessu, og aðgerðin tókst fullkomlega.  Svarti markaðurinn og vöruskorturinn hurfu sem dögg fyrir sólu, og gríðarlega öflugt hagvaxtarskeið tók við á hernámssvæðum Vesturveldanna í Þýzkalandi, m.a. fyrir tilstuðlan Marshall-aðstoðar Bandaríkjamanna og aðkomumanna (Gastarbeiter), því að blóðtaka þjóðarinnar í styrjöldinni 1939-1945 hafði verið geigvænleg.  

Erhard treysti markaðinum til að finna jafnvægi, og það gekk eftir, sem sýnir, að stjórnvöldin í Bonn, höfuðborg Vestur-Þýzkalands, höfðu skapað nauðsynlegar aðstæður til að markaðskerfið gæti virkað.  Flest, sem Erhard tók sér fyrir hendur í efnahagsmálum, gekk upp. Hann ritaði bækur um hagfræðileg hugðarefni sín, m.a. "Hagsæld fyrir alla", þar sem hann lýsir stefnumálum sínum.

Þjóðverjar höfðu slæma reynslu af markaðsráðandi stórfyrirtækjum á árunum fyrir báðar stórstyrjaldir 20. aldarinnar.  Stjórnmálastefnan um Markaðshagkerfi með félagslegu ívafi var mótuð eftir heimsstyrjöldina síðari af Adenauer, Erhard o.fl. til að vera valkostur við óheft auðvaldsskipulag og jafnaðarstefnu/sameignarstefnu.  Þessi stefna varð árið 1949 hryggjarstykkið í efnahagsstefnu hægriflokkanna CDU og CSU.  CDU starfar í öllum fylkjum Sambandslýðveldisins, nema Bæjaralandi, þar sem systurflokkurinn, CSU, starfar á hægri vængnum, og hefur hann oftast verið með meirihluta á fylkisþingi Bæjaralands og farið með forræði fylkisstjórnarinnar frá stofnun Sambandslýðveldisins 1949. Það er skoðun blekbera þessa vefseturs, að kjarni þessarar stefnu mið-hægri flokka Þýzkalands henti Íslandi ágætlega (= á gott), og þess vegna er ekki úr vegi að reifa hana:

"Markaðshyggja með félagslegu ívafi spannar peningastefnu, skattastefnu, lántökustefnu, viðskiptastefnu, tollastefnu, fjárfestingarstefnu og félagsmálastefnu í landsmálum með það fyrir augum að skapa hagsæld handa öllum.  Með því að draga úr fátækt og dreifa auðnum til stórrar millistéttar er búinn til grundvöllur fyrir almenna þátttöku á fjármagnsmarkaðinum.

Frjálst framtak er grunnstoð markaðshagkerfisins, og opinberri stjórnun og ríkisafskiptum skal beita til að tryggja frjálsa samkeppni og til að tryggja jafnvægi á milli hagvaxtar, lágrar verðbólgu, góðra vinnuskilyrða,velferðarkerfis og opinberrar þjónustu." 

Samkvæmt Markaðshyggju með félagslegu ívafi ber ríkisvaldinu að stuðla að frjálsri samkeppni á öllum sviðum samfélagsins, þar sem henni verður við komið, og eins raunverulegri samkeppni og kostur er.  Þetta er mótvægið við frjálsa framtakið, sem eðli máls samkvæmt leitast við að ná undirtökum á markaðinum, en fákeppni eða einokun er sjaldnast hallkvæm neytendum.

Úr íslenzka umhverfinu má nefna nokkur dæmi, er lúta að þessu:

Verðlagsnefnd búvara er barn síns tíma og ætti að afnema með nýrri lagasetningu um verðlagsmál landbúnaðarins.  Nýlega ákvað nefndin hækkun á mjólkurvörum, og fengu bændur þá aðeins fjórðung hækkunarinnar.  Ekki virðist þetta vera sanngjarnt, og ættu bændur að taka afsetningu afurða sinna meir í sínar hendur, enda hefur opinberlega komið fram óánægja úr þeirra röðum með téða hækkun.  

Íslenzkar mjólkurvörur eru í samkeppni við innflutning á alls konar ígildi mjólkur úr soja, hrísgrjónum, möndlum o.fl., og íslenzkt viðbit keppir við jurtasmjör.  Kjöt keppir innbyrðis og við fisk, og grænmetið er í samkeppni við innflutning.  Það er þess vegna mikil samkeppni á matvörumarkaðinum um hylli neytenda, þó að innflutningur kjötvara sé takmarkaður, þegar nóg framboð er af svipuðu innlendu kjöti.  

Upplýsingum til neytenda er hins vegar ábótavant að hálfu kaupmanna.  Merkja þarf uppruna matvæla betur, t.d. í kjötborði, og geta þess, hvort sýklalyf hafi verið gefin sláturdýrunum, og varðandi grænmetið þarf að geta um, hvort skordýraeitur og tilbúinn áburður voru notuð, svo og allt annað, sem máli skiptir fyrir heilnæmi matvörunnar.  Neytandinn á rétt á þessum upplýsingum, og slík upplýsingagjöf er sanngjörn gagnvart framleiðendum. 

Pottur er hins vegar brotinn, þar sem einn aðili er ríkjandi á markaðinum, eins og t.d. MS.  Það er ótækt, að búvörulögin geri MS kleift að starfa með takmörkuðum afskiptum Samkeppniseftirlitsins.  Slík lagaákvæði eru óviðeigandi um hvaða starfsemi sem er.  Stjórnvöld með Markaðshyggju með félagslegu ívafi mundu tryggja með afnámi undanþágulaga, að engin fyrirtækjastarfsemi eða stofnanastarfsemi, þar sem samkeppni verður við komið, sé undanþegin eftirliti með hegðun á markaði, eins og samkeppnislögin reyndar gera ráð fyrir.   

Í Markaðshagkerfi með félagslegu ívafi skakkar ríkisvaldið leikinn og dregur tennurnar úr risanum á markaðinum.  Í þessu tilviki þarf ríkið að sjá til þess, að samkeppnisaðilar MS geti keypt ógerilsneydda og ópakkaða mjólk af MS á sama verði og bændur fá fyrir mjólkina að viðbættum flutningskostnaði.  Verðið til bænda er núna 82,92.  Flutningskostnaður frá bændum er 3,50 kr/l, svo að aðrir vinnsluaðilar, sem ekki kjósa að kaupa af bændum beint, ættu að fá hana hjá MS á 86,42 kr/l, en þurfa að greiða 5,08 kr/l hærra verð, sem er tæplega 6 % hærra en efni standa til. Því fer víðs fjarri, að samkeppni um úrvinnslu vöru frá bændum eða öðrum framleiðendum geti ógnað framleiðendum á einhvern hátt.  Saga MS er þyrnum stráð t.d. varðandi ísframleiðsluna.  Samkeppni er bezta vörn neytandans.

Raforkumarkaðurinn er anzi stífur á Íslandi, enda er yfir 90 % raforkuvinnslunnar í höndum hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga.  Miðað við löggjöfina, sem um þennan markað gildir, er þetta óeðlilega mikil opinber þátttaka á samkeppnismarkaði. Einkum má telja hlut ríkisins of stóran, en hann er rúmlega 70 % vegna 100 % eignarhalds ríkisins á Landsvirkjun.  Landsvirkjun hefur ekki haldið aftur af verðhækkunum á markaðinum.  Þvert á móti hefur risinn á markaðinum gengið á undan með slæmu fordæmi.  Er nú svo komið, að orkuverð Landsvirkjunar til almenningsveitna ætti að lækka um 2,0 kr/kWh, ef sanngirni væri gætt í garð almennings m.v. vinnslukostnað og meðalverð til stóriðju.  Vegna hlutfallslegrar stærðar Landsvirkjunar á markaði er samkeppnisstaðan skökk, og við slíkar aðstæður ber ríkisvaldinu að grípa inn með leiðréttandi aðgerð til varnar neytendum. 

Þrátt fyrir mikla opinbera þátttöku á þessum markaði stefnir nú í orku- og aflskort á næstu misserum vegna fyrirhyggjuleysis við öflun orku og byggingar flutningsmannvirkja. Þetta er sjálfskaparvíti, sem koma mun alvarlega við pyngju notenda og hefur þegar valdið tugmilljarða kr þjóðhagslegu tapi í glötuðum tækifærum til atvinnuuppbyggingar.  Þá kemur jólasveinn ofan af fjöllum um hásumar og kveður næga fyrirhyggju vera að finna hjá Landsvirkjun og næg orka muni verða, því að orkusamningur á milli Landsvirkjunar og Norðuráls verði líklega ekki endurnýjaður.  Hvort á að hlæja eða gráta við uppákomu af þessu tagi ?

Í Markaðshagkerfi með félagslegu ívafi mundi ríkisstjórnin bregðast við þessu óeðlilega ástandi með fyrirmælum til stjórnar fyrirtækisins.  Það er jafnframt æskilegt að draga úr eignarhaldi ríkisins með því að bjóða út um 40 % af eignarhaldi á Landsvirkjun á 4 árum með fororði um forkaupsrétt íslenzku lífeyrissjóðanna, þ.e. að þeir geti gengið inn í hæsta verð.  Væri ekki úr vegi að fjármagna nýjan Landsspítala - háskólasjúkrahús með þessu fé og greiða niður skuldir ríkissjóðs með afganginum.

Sæstrengsverkefni til útlanda er ekki í verkahring Landsvirkjunar samkvæmt lögum, sem um hana gilda.  Ef ríkisstjórnin vill, að haldið verði áfram rannsóknum og undirbúningi þessa verkefnis, ætti að einskorða þann undirbúning við nýtt sjálfstætt fyrirtæki, en Landsvirkjun komi ekki að því. Mundu þá hljóðna gagnrýnisraddir um sæstreng til Bretlands, ef ríkið kæmi ekki nærri því ævintýri, nema með óbeinu eignarhaldi á hluta Landsnets. 

Sömu sögu er að segja um vindmyllulundina.  Sjálfstætt fyrirtæki ætti að sjá um alla þætti þeirrar starfsemi, enda verður ekki séð, hvers vegna ríkið ætti að vera þátttakandi í fjárhagslega óhagkvæmri orkuvinnslu. Það eru engin góð rök fyrir vindmyllum á Íslandi, ef þær eru ekki samkeppnishæfar.  

Kljúfa ætti jarðgufuvirkjanir Landsvirkjunar frá meginfyrirtækinu, sem þá hefði eivörðungu vatnsaflsvirkjanir á sinni könnu.  

Með þessum hætti væri sérhæfing á hverju sviði virkjanastarfseminnar tryggð í hverju fyrirtæki, og þetta væri viðleitni til að stemma stigu við fákeppni á raforkumarkaðinum.

Markaðshyggja með félagslegu ívafi tryggir sjálfstæði Seðlabanka Íslands, sem taki sér peningamálastjórn Bundesbank (eins og hún var á tímum DEM) til fyrirmyndar.  Efnahagsráðherra skipi í bankaráðið til 5 ára samkvæmt tilnefningum ASÍ, SA, HÍ, Alþingis og Efnahagsráðherra skipi þann fimmta, sem verði formaður.  Bankaráðið ræður þrjá í bankastjórn, sem skulu bera allar stefnumarkandi ákvarðanir undir bankaráðið, s.s. vaxtaákvarðanir. Aðalmarkmið bankans sé að halda verðbólgu sambærilegri við verðbólgu í helztu viðskiptalöndum, þ.e. að verðbólga á 12 mánaða tímabili fari í mesta lagi 1,0 % yfir vegið meðaltal verðbólgu sama tímabils samkvæmt viðskiptakörfu landsins.  Bankinn fái völd yfir viðskiptabönkunum til að stjórna peningamagni í umferð og vægi verðtryggingar verði minnkað til að gera vaxtatól bankans beittara.

Þýzki vinnumarkaðurinn er þekktur fyrir samheldni vinnuveitenda og launþega og samstarf um sameiginleg markmið fremur en átök á borð við verkföll og verkbönn, og árangurinn er góður.  Þessi úreltu fyrirbrigði eru þó ekki óþekkt þar í landi. 

Vegna Endursameiningar Þýzkalands varð verðbólga meiri um aldamótin síðustu en annars staðar á evru-svæðinu.  Þá sammæltust aðilar vinnumarkaðarins um stöðvun launahækkana í ein 5 ár.  Þetta dró strax úr verðbólgu, og varð hún lægri en annars staðar á evru-svæðinu.  Þetta, ásamt miklum fjárfestingum í austurhéruðunum, varð undirstaða firnasterkrar samkeppnisstöðu Þýzkalands, sem landið býr enn að.

Hegðun af þessu tagi þurfum við hérlandsmenn að taka okkur til fyrirmyndar.  A.m.k. árlega þurfa  fulltrúar ASÍ, SA og Ríkissáttasemjari ásamt fulltrúa ríkisstjórnarinnar að hittast og bera saman bækur sínar um kaupmáttarþróun, verðlagshorfur, þróun raungengis og samkeppnisstöðu útflutningsatvinnuveganna.  Samstaða þarf að nást á vinnumarkaðinum um, að launabreytingar markist af stöðu útflutningsatvinnuveganna.  Með því að rýna afkomutölur þessara fyrirtækja undir stjórn Ríkissáttasemjanda þarf að nást sameiginleg sýn á það, hvernig verðmætasköpuninni beri að skipta á milli fjármagnseigenda og launþega. Síðan fylgi aðrar greinar í kjölfarið, en auðvitað koma síðan vinnustaðasamningar til skjalanna.  Á stórum vinnustöðum ætti að fylgja fordæmi álveranna um einn kjarasamning per vinnustað fyrir margar stéttir. Það er ekkert óeðlilegt við það, þegar vel gengur, að arðgreiðslur fyrirtækja vaxi, enda vaxi þá jafnframt kaupmáttur launa.  Það er hins vegar óeðlilegt, ef þessar stærðir breytast ekki í takti.

Sérkenni þýzks vinnumarkaðar er "Mitbestimmung", þ.e. fulltrúar launþeganna eiga sæti í stjórnum fyrirtækja yfir ákveðinni stærð og hafa atkvæðisrétt þar.  Hérlendis er vísir að þessu kerfi með eignarhlutdeild lífeyrissjóða í allmörgum fyrirtækjum og stjórnarþátttöku fulltrúa lífeyrissjóða, og þar með launþega, í krafti eignarhlutarins. Þetta er jákvætt, enda samtvinnast með þessu hagsmunir fjármagnseigenda og launþega.  Þetta fyrirkomulag ýtir undir frið á vinnumarkaði, enda er þá góð afkoma fyrirtækisins orðin beintengd fjárhagslegum hagsmunum launþega og snertir ekki einvörðungu atvinnuöryggi þeirra. Þetta er íslenzka útgáfan af "meðákvörðunarrétti" launþega.

Markaðshagkerfi með félagslegu ívafi getur ekki síður gefizt vel á Íslandi en í Þýzkalandi.  Það má reyndar geta sér þess til, að það höfði til margra hérlendis, sem telja sig borgaralega sinnaða, en eru ekki hallir undir sameignarstefnu í einni eða annarri mynd. 

Sjálfstæðisflokkurinn var myndaður árið 1929 við sameiningu Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins.  Hann hefur alla tíð stutt einkaframtakið dyggilega og jafnframt stofnað til og stóreflt almannatryggingar.  Þó að flokkurinn mundi gerast merkisberi Markaðshyggju með félagslegu ívafi hérlendis, væri engrar stefnubreytingar þörf hjá honum, að því er bezt verður séð.  Með slíkum áherzlum mundu hins vegar ýmis vopn verða slegin úr hendi andstæðinga flokksins, og slíkt mundi móta með skýrum hætti valkost við engilsaxneska frjálshyggju og norrænan kratisma. Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru í yfirgripsmiklu og mikilvægu máli, og það er flokksmanna að ræða þessa stefnu og laga að íslenzkum aðstæðum, ef hugur þeirra stendur til þess.   

 

 

 

 

   

 

 

 

 

  

 

   

 


 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband