Rammi á villigötum

 

Orkumál Íslands eru á ótrúlegum villigötum miðað við þau gríðarlegu verðmæti, sem virkjanirnar geta malað úr orkulindunum ár eftir ár, ef rétt er haldið á spöðunum.  Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, 2009-2013, bætti ekki úr skák, þegar hún gróf undan hugmyndafræðinni að baki Rammaáætlun, sem var að fela valinkunnum sérfræðingum uppröðun virkjanakosta eftir hagkvæmni og umhverfisröskun.  Ramminn átti þannig til kominn að verða stjórntæki fyrir Orkustofnun, sveitarfélög og ríkisvald við útgáfu virkjanaleyfa og framkvæmdaleyfa til virkjanafyrirtækjanna.   

Dæmdur umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, umturnaði Rammanum, sem hún hafði fengið í hendur frá sérfræðingunum, í félagi við iðnaðarráðherra Samfylkingarinnar, færði borðleggjandi vatnsaflsvirkjanir í biðflokk og setti vafasamar jarðgufuvirkjanir í nýtingarflokk.  Þetta var auðvitað gert á ómálefnalegum forsendum einvörðungu til að fækka raunhæfum virkjanakostum og draga þá á langinn.  Þessi pólitíski gjörningur dæmds umhverfisráðherra hefur nú haft þær afleiðingar, að orkuskortur blasir við í landi orkugnóttar, jafnvel staðbundinn þegar næsta vetur.  Hluti af skýringunni er, að stærstu jarðgufuvirkjanirnar eru ósjálfbærar og dregur niður í þeim um 2 % árlega. Hver jarðvarmasérfræðingurinn eftir annan kemur nú fram opinberlega og fullyrðir, að óvarlega hafi verið farið fram við nýtingu, t.d. á Hengilssvæðinu, allt of mikil áhætta tekin með of stórum virkjunaráföngum.  Slík áhætta er óverjandi og ber vitni um dómgreindarbrest og flumbruhátt. Er þáttur R-listans sáluga og vinstri meirihlutans í Reykjavík talsverður í þessari sorgarsögu, sem á eftir að reynast eigendum ON dýrkeyptur.  

Enn alvarlegra en biðflokkavitleysa Svandísar með vatnsaflsvirkjanirnar er, að jarðgufukostum hennar er svo þétt skipað, að jarðvísindamenn telja víst, að um ofnýtingu jarðgufuforðans yrði að ræða, ef úr yrði. Þrátt fyrir viðvaranir vísindamanna, láta stjórnmálamenn og virkjanafyrirtækin sér ekki segjast. Er það dæmalaust miðað við, hversu mikið er í húfi. Þetta er grafalvarlegt fyrir framtíðarkynslóðir Íslendinga, því að með þessu ráðslagi lagði Svandís grunn að því að svipta þær jarðvarmanum til upphitunar húsnæðis, sem er verðmætari nýtingarkostur en að framleiða rafmagn með jarðgufu samkvæmt varmafræðilögmáli Carnots.  Ofnýting jarðgufuforðans núna er arðrán kynslóðar Svandísar á auðlindum, sem falla áttu framtíðinni í skaut. Hver japlaði mest á, að náttúran ætti að njóta vafans ?

Um þetta ritar Gunnlaugur H. Jónsson, eðlisfræðingur og fyrrum starfsmaður Orkustofnunar, merka grein í Fréttablaðið 13. ágúst 2015 undir fyrirsögninni:

"Rammaáætlun út af sporinu",

og verður nú vitnað í þessa grein:

"Rammaáætlun um jarðvarma fór út af sporinu, þegar hún skipti litlum landsvæðum, eins og Reykjanesi/Svartsengi annars vegar og Hengli hins vegar, upp í marga virkjunarkosti, en hvort þeirra er í eðli sínu aðeins einn virkjunarkostur.  Þegar kemur að stórfelldri nýtingu jarðvarma, eins og raforkuvinnsla óhjákvæmilega er, með borholum, sem geta teygt sig allt að 3 km niður í jörðina og mörg hundruð eða þúsundir metra til hliðar frá borsvæðunum, þarf hver virkjun helgunarsvæði, sem nær 10 km út frá virkjuninni og sambærilega virkjun mætti ekki setja nær en í 20 km fjarlægð."

Virkjanafyrirtækin HS Orka og Orka Náttúrunnar (ON) eru greinilega ekki sama sinnis og eðlisfræðingurinn um helgunarsvæði virkjana, og Svandís Svavarsdóttir hjó í sama knérunn og virkjanafyrirtækin, þó að í svo viðurhlutamiklu máli og með færa vísindamenn sem bakhjarla sé vissulega þáttur sjálfbærrar nýtingarstefnu að láta náttúruna njóta vafans.  Þegar skynsamlegt var að gera það, gerði téð Svandís það ekki, en þegar rökin fyrir því voru gizka tötraleg, þá gerði hún það.  Þetta er hættan við gildishlaðna mælikvarða stjórnmálanna í stað mælanlegra mælikvarða vísindanna.

Af þessum ástæðum telur Gunnlaugur glórulaust að virkja Eldvörp á milli Reykjaness og Svartsengis, enda sé þetta virkjunarsvæði nú þegar ofnýtt, eins og niðurdráttur í borholum ber með sér. 

Hann telur Hengilssvæðið með Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun einnig nú þegar vera ofnýtt og á Reykjanesi aðeins vera eitt jarðhitasvæði óvirkjað, þ.e. Krýsuvík með eina 50 - 100 MW virkjun.  Það er þess vegna ljóst, að HS Orka er í rauninni ekki í neinum færum til að virkja fyrir álver í Helguvík, og því fyrr, sem sú staðreynd er viðurkennd, þeim mun betra. Fyrir álver ganga í raun aðeins vatnsorkuver, eins og slæm reynsla af allt of hraðri og mikilli nýtingu á Hellisheiði sýnir. Vatnsorkuver og álver falla mjög vel hvort að öðru vegna eðlis álagsins, og vinnslukostnaður vatnsorkuvera verður í lágmarki með álver sem aðalviðskiptavin.  Umræðan sýnir, að ekki hafa allir áttað sig á þessari staðreynd, heldur tala og skrifa, eins og vinnslukostnaður sé einn og sami fyrir alla viðskiptavini. Eðlisfræðingurinn heldur áfram:

"Það er góð orkustefna að framleiða rafmagn með jarðhita sem aukaafurð með lághitanýtingu í hitaveitum, en það er orkusóun að láta raforkuframleiðsluna hafa forgang og stýra álaginu á jarðhitasvæðin.  Þetta á einkum við á svæðum Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja, þar sem orkuþörf til hitunar vex um tugi MW árlega á sama tíma og gengið er á jarðhitann með því að senda árlega meiri varmaorku út í loftið um kæliturna en sem nemur framleiddri raf- og varmaorku og menga andrúmsloftið óhóflega í leiðinni."

Undir þetta allt saman skal hér taka.  Það er þyngra en tárum taki, að misheppnuð stjórnvöld landsins skyldu hvetja til þeirra skammtímalausna, sem fleiri en ein virkjun á hverju jarðgufusvæði felur í sér.  Núverandi stjórnvöld þyrftu að leggja sitt lóð á vogarskálar langtíma sjónarmiða við orkunýtingu, t.d. með þingsályktun um sjálfbæra nýtingu og hámörkun nýtni, og hér þarf Orkustofnun að beita sér og núverandi stýrihópur Rammaáætlunar að taka tillit til reglunnar um aðeins eina jarðgufuvirkjun innan hrings með 20 km þvermáli. Hámarks sjálfbæra stærð slíkrar virkjunar, svo að jarðgufuforðinn endist í a.m.k. 100 ár, er aðeins hægt að ákvarða með hægfara álagsaukningu, 10-50 MW á ári, eftir styrk jarðgufuforðans. Þetta eru einföld sannindi, sem fjármálamönnum dugar ekki að hunza, þó að aðferðarfræðin sé dýrari en virkjun í einum áfanga, sé viðskiptavinur fyrir hendi til að taka strax við allri orkunni.  Þetta gerir að verkum, að jarðgufuvirkjun hentar stóriðju að jafnaði illa.

Hverfa verður af braut sóunar, sem felst í að láta jarðgufu knýja hverfla, sem snúa rafölum með rúmlega 10 % heildarnýtni og brottkasti lághitagufu og varma.  Þetta þýðir, að Alþingi ætti að móta landinu þá auðlindanýtingarstefnu, að með raforkuvinnslunni verði að fylgja lághitanýting til upphitunar húsnæðis eða iðnaðarferla, því að ósjálfbær auðlindanýting komi ekki til greina á tímum auðlegðar núlifandi kynslóða.  Af sjálfu leiðir, að áherzla á vatnsorkuvirkjanir verður að vaxa aftur, hugsanlega í samkeyrslu við vindorkugarða, sem minnkað geta stærðarþörf miðlunarlóna.    

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það voru nákvæmlega sömu öflin sem sóttu af ákefð í jarðvarmaaflið til raforkuframleiðslu og til vatnsorkuframleiðslu. Allar götur frá 1978 hefur verið rekið hart trúboð blekkinga varðandi jarðvarmavirkjanirnar sem loksins núna er að byrja að láta undan vegna þess að það er ekki lengur hægt að berja hausnum við steininn. 

En þá herða menn bara enn frekar takmarkalausa ásókn í að virkja vatnsaflið alls staðar og láta sig engu skipta þau einstæðu náttúruverðmæti og aðdráttarafli þeirra á ferðafólk og virðinug og heiður þjóðarinnar fyrir að bjarga einhverju af þeim frá þeim hrikalegu umhverfisspjöllum sem þau valda flest hver. 

Ómar Ragnarsson, 23.8.2015 kl. 17:28

2 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Er þá nokkuð annað að gera en að setja upp iðnað við hlið þessara virkjana sem nýta varmann sem fer til spillis? Það ætti að vera hægt að fá hann "gefins" gegn því að nýta hann.

Í sinni einföldustu mynd: Tómatar og gúrkur í stað súrsaðs mosa í við Hverahlíðarbrekkuna.

Sindri Karl Sigurðsson, 23.8.2015 kl. 20:32

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Jarðgufuvirkjanir eiga talsvert í land með að geta talizt þróaður virkjanakostur, eins og tæring mannvirkja og skemmdir á gróðri og síðast en ekki sízt á stundum hættulegur styrkur vissra gastegunda í andrúmslofti þéttbýlis í grennd við slíkar virkjanir sýnir.  Á þessu mun verða ráðin bót, en það kostar fé og þangað til verður því miður tjón.  Hvað varð um hugmyndirnar um risagróðurhús við Grindavík ? 

Um vatnsaflsvirkjanir gegnir allt öðru máli.  Þær eru þróaður virkjunarkostur með háa orkunýtni.  Að sjálfsögðu valda þær umhverfisraski,  eins og nánast öll mannanna verk, en það er allt annars eðlis en vegna jarðgufuvirkjana, enda er nýtingin sjálfbær og að mestu afturkræf samkvæmt viðurkenndum alþjóðlegum skilgreiningum á þessum hugtökum. 

Þrátt fyrir ýmsa "skavanka" njóta Íslendingar virðingar á alþjóðavísu fyrir nýtingu sína á orkulindunum og hins hæsta hlutfalls af heildarorku, sem þekkist, á nýtingu "endurnýjanlegrar" orku. Íslendingar eiga raunhæfan kost á að auka þetta hlutfall upp í 90 % á næstu 10-15 árum með rafvæðingu á stórum hluta bílaflotans.    

Bjarni Jónsson, 23.8.2015 kl. 22:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband