Við sama heygarðshornið

EIGNARHALDIÐ á atvinnutækjunum og auðlindunum skipta höfuðmáli fyrir arðsemi þeirra. Fyrir því eru haldgóð hagfræðileg rök og reynsla frá dögum Adams Smiths fyrir rúmum 200 árum. Sameignarsinnar hafa þó alla tíð verið á öndverðri skoðun en hafa eftir gjaldþrot sameignarstefnunnar klætt viðhorf sín í dulargervi. Eitt þeirra nefnist þjóðareign og hefur það að breyttu breytanda ratað inn í löggjöf landsins og var jafnvel á tímabili á leið inn í Stjórnarskrá. Á grundvelli þessa lögfræðilega merkingarlausa hugtaks var auðlindagjald lagt á sjávarútveg og verður reynt að troða því á aðrar greinar ef ekki verður spyrnt við fótum. Þetta er skaðleg sérsköttun eins og sýnt var fram á í bókinni Þjóðareign sem Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál og Bókafélagið Ugla gáfu nýlega út.

Þjóðareign

Þjóðlendumálin sanna að ríkið getur hæglega kastað eign sinni á það, sem enginn á, eins og þjóðareign. Í 1. gr. laga nr 116/2006 um stjórnun fiskveiða segir að nytjastofnar Íslandsmiða séu sameign þjóðarinnar. Þegar aflamarkskerfið var innleitt 1984 var hefðbundinn atvinnuréttur lagður til grundvallar og veiðileyfum úthlutað á fiskiskip samkvæmt veiðireynslu þeirra undangengin 3 ár. Að kalla þetta gjafakvóta á sér enga lögmæta stoð. Frá árinu 1990 hefur frjálst framsal aflamarks verið leyfilegt. Síðan þá eru eigendum skipa með aflahlutdeild tryggðar með lögum allar þær eignarheimildir á kvótanum sem máli skipta í réttarlegu tilliti. Aflaheimildir eru þar með viðurkennd séreign en ákvæðið um sameign þjóðarinnar á auðlindinni rýrir hins vegar gildi einkaeignarréttarins af því að ákvæðið getur skapað réttarlega óvissu með ríkisvaldið í höndum sameignarsinna. Með gildum hagfræðilegum rökum er sýnt fram á það í "Þjóðareign", að takmörkun eignarréttar dregur úr arðsemi og verðgildi fyrirtækja. Þannig dróst verðmæti íslenzkra sjávarútvegsfyrirtækja saman árin 2001–2005 og afkoma þeirra versnaði þótt verðmæti aflahlutdeildanna hækkaði. Á sama tíma og virði hlutafjár sjávarútvegsins dróst saman jókst eigið fé banka og margra annarra fyrirtækja gríðarlega. Þessi þróun sjávarútvegsins bendir til að útgerðarfyrirtækin sitji ekki við sama borð og önnur fyrirtæki þegar aðgengi að fjármagni er annars vegar og þetta leiðir til rýrnunar á tekjuskattsstofni ríkisins. Af þessum sökum eiga nýkjörnir alþingismenn í haust að gera gangskör að því að eyða téðri réttaróvissu með því að afnema sameignarákvæðið enda jafngildir það þjóðnýtingu auðlindar. Kveða ber skýrt á um einkaeign aflahlutdeildar á skip enda sé skipið skrásett á Íslandi.

Skattur eða fyrning

Sömu hagfræðilegu lögmál gilda um rekstur sjávarútvegsfyrirtækja og annars konar fyrirtækja í samkeppni. Þó var grundvöllur auðlindagjalds meint "auðlindarenta", sem átti að verða til í sjávarútveginum en finnst hins vegar ekki. Til marks um það er að framlegð útgerða á hvert þorskígildi hefur minnkað á undanförnum árum. "Auðlindarenta" er þar af leiðandi hugarfóstur eitt og röksemdir fyrir auðlindagjaldi roknar út í veður og vind. Ef "auðlindarenta" væri til mundi hún finnast í margs konar fyrirtækjum. Sannleikurinn er sá að álagning auðlindagjalds á fyrirtæki í samkeppni um aðföng sín og um markaði fyrir afurðir sínar er aðför að jafnræðisreglu Stjórnarskrárinnar. Auðlindagjald jafngildir hægfara eignarnámi ríkisins á eignum útgerðanna, eins og eftirfarandi dæmi úr "Þjóðareign" sýnir. Í reiknilíkani var lagt á útgerðirnar "hóflegt" auðlindagjald að upphæð 5,60 kr/þorskígildi á árunum 2001–2005. Minnkaði við það markaðsvirði eigin fjár íslenzkra sjávarútvegsfyrirtækja niður í núll á tímabilinu.

Það þarf enga mannvitsbrekku til að skilja að það er sanngirnikrafa til væntanlegra alþingismanna, að þeir bæti lagasmíðina á næsta Alþingi og afnemi lög um auðlindagjald.

Enn er "fyrningarleið" Samfylkingarinnar í minnum höfð úr aðdraganda alþingiskosninga 2003. Auðlindagjald getur haft sömu skaðvænlegu áhrifin á rekstur fyrirtækjanna. Það er með ólíkindum hversu iðnir við kolann sameignarsinnar eru við að unga út nýjum tilbrigðum við trú sína á sameignarformið. Ef sameignarsinnar fá til þess brautargengi í kosningunum 12. maí 2007 eru þeir til þess líklegir að gera annað tveggja: að hækka auðlindagjaldið eða að fyrna burt frá fyrirtækjunum allt að 10% aflaheimilda á ári og að bjóða "fyrninguna" síðan upp á kvótamarkaði. Aðgerð af þessu tagi mundi leiða til mun hærri ávöxtunarkröfu fjármagnseigenda til útgerðarfyrirtækjanna en ella sem mundi leiða til sligandi fjármagnskostnaðar. Slíkt ástand ýtir undir "skammtímahugsun" stjórnendanna sem er afar óheppilegt fyrir útgerðina þar sem nýting fiskveiðiréttar er í eðli sínu nýting um alla framtíð. Það hefur verið sýnt fram á að "fyrningarleiðin" leiðir til gjaldþrots útgerða á fáeinum árum.

Allar hugmyndir sameignarsinna um markaðsafskipti og jöfnunaraðgerðir hafa reynzt hrein ævintýramennska og þessar mundu hreinlega ganga af mjólkurkúnni dauðri og skilja byggðir landsins eftir í rjúkandi rústum markaðskerfisins.

Höfundur er verkfræðingur og nýting náttúruauðlindanna hugleikin.


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband