Seðlabankinn og samkeppnin

Engum blöðum er lengur um það að fletta, að Seðlabankann hefur sett verulega niður undir stjórn núverandi Seðlabankastjóra. Þar virðist verkstjórn vera verulega ábótavant, því að ekki er gætt nægilega að lögum, t.d. um gjaldeyrismál, og lagaheimildum bankans, þegar gerð er atlaga að einstökum fyrirtækjum, heldur virðist ríkja innan veggja Svörtulofta miðaldahugarfar um óskoraðan rétt yfirvalda til að fara sínu fram gegn þegnunum, og refsigleði Seðlabankans hefur nú farið yfir mörk réttarheimilda hans. Ítarleg rannsókn á gögnum Seðlabankans um gjaldeyrisskil Samherja-samstæðunnar leiddi ekki í ljós nein lögbrot þvert ofan í niðurstöðu Seðlabankans. 

Hér hagar Seðlabankinn sér eins og fíll í postulínsbúð, og framferði hans hefur kostað fyrirtæki stórfé og álitshnekki, heima og erlendis, þó að Sérstakur saksóknari hafi látið kærur bankans niður falla, af því að lagastoð til sakfellingar skorti.  Niðurlægingin verður þess vegna Seðlabanka Íslands á endanum.  Þetta er svo alvarlegur áfellisdómur yfir æðsta handhafa peningamálastjórnar landsins, þar sem helzt engan skugga má á bera, að engan veginn verður við unað. Hinir seku á Svörtuloftum, sem valdið hafa fyrirtækjum og einstaklingum stórtjóni, skulu sæta ábyrgð. Annars leggur bankaráðið blessun sína yfir lagatæknilegt klúður á klúður ofan, sem er svo ófaglegt, að jafna verður við hreinræktað fúsk, og bankaráðið væri þá að bregðast skyldum sínum. Niðurlæging bankans yrði þá djúpstæð fyrir aðra starfsemi og hlutverk bankans líka og gæti orðið langvinn. Það verður að taka á þessu máli strax í haust, enda er mikið í húfi núna, að í stafni Seðlabankans sé aðeins fólk, sem hafið er yfir allan vafa í siðferðislegum og faglegum efnum.  

Seðlabankinn hefur og sætt harðri gagnrýni fyrir meðferð sína á svo kölluðu Sjóvármáli, sem einnig er kennt við Úrsus ehf.  Baldur Arnarson, blaðamaður, skrifar baksviðsumfjöllun í Morgunblaðið 7. október 2015 undir fyrirsögninni:

"Starfsmennina skorti þekkingu"

og hefur eftir Birgi Tjörva Péturssyni, héraðsdómslögmanni, um alvarlegar athugasemdir Umboðsmanns Alþingis við embættisfærsluna í Seðlabankanum:

"Þannig sé ekki fjallað nægjanlega um, að æðstu yfirmenn bankans hafi flutt trúnaðarupplýsingar úr gjaldeyriseftirlitinu í einkahlutafélagið Eignasafn Seðlabanka Íslands [ESÍ] og látið hafa áhrif á ákvörðun um viðskipti með bréf í Sjóvá, sem Úrsus hafði samið um að kaupa, í félagi við aðra fjárfesta, um haustið 2010. 

"Umboðsmaður gerði hins vegar athugasemd við meðferð trúnaðarupplýsinga í máli Úrsusar.  Félagið hafi þannig þurft að sæta því, eftir að hafa fengið veður af rannsókn máls í fjölmiðlum og haft samband við aðallögfræðing bankans til að skýra sína hlið vegna viðskiptanna með bréfin í Sjóvá, að upplýsingarnar urðu hluti rannsóknar málsins og voru notaðar gegn félaginu.""

""Seðlabankinn fór með þessar trúnaðarupplýsingar í hring.  Því var þannig haldið fram, að einkahlutafélag bankans gæti ekki átt viðskipti við Úrsus [með bréfin í Sjóvá], af því að Úrsus væri til rannsóknar.  Fyrirsvarsmaður Úrsusar taldi félagið í fullum rétti og veitti upplýsingar í tengslum við viðskiptin.  Þær voru þá notaðar gegn félaginu við rannsókn máls hjá gjaldeyriseftirlitinu og svo aftur sem frekari rök fyrir því að eiga ekki viðskiptin.  Við teljum, að þetta hafi verið forkastanleg málsmeðferð",

segir Birgir Tjörvi."

Það er fyllilega hægt að taka undir það, að þessi lýsing sýnir fram á forkastanleg vinnubrögð og siðferðisbrest í Svörtuloftum, sem engum Seðlabanka í lýðræðisríki, sem virðir þrígreiningu ríkisvalds og nútímalega stjórnsýsluhætti, er sæmandi.  Þetta er eins og lýsing úr bananalýðveldi eða ráðstjórnarríki, en er langt fyrir neðan virðingu Seðlabanka í réttarríki. 

Líklegt er, að aðallögfræðingur Seðlabankans beri hér ábyrgðina, og hann (hún) verður þá skilyrðislaust að víkja, og Seðlabankinn verður að læra sína lexíu um grundvallarreglur réttarríkisins.

 Húsrannsókn í höfuðstöðvum Samherja á Akureyri og í Reykjavík, haldlagning bókhalds og tölvugagna og harkaleg framganga og langdregin rannsókn á gjaldeyrismeðferð Samherja-samstæðunnar skilaði engu öðru en miklum kostnaði fyrir Seðlabankann og ekki síður fórnarlambið, sem allt of lengi mátti liggja undir grun um gjaldeyrissvik og lögbrot án þess þó, að Sérstakur saksóknari kæmi auga á neitt refsivert, þegar hann fékk málatilbúnaðinn frá bankanum. Þegar Sérstakur saksóknari fann engin sakarefni í garð fyrirtækisins, reyndi Seðlabankinn að koma sök á einstaklinga innan fyrirtækisins. Til slíks stóðu þó engar sakir og lagaheimildir til slíkrar sakfellingar voru ekki fyrir hendi. 

Þetta eru algerlega ótæk vinnubrögð stjórnvalds, sem valdið geta fyrirtækjum, stórum og smáum, í harðri samkeppni markaðsmissi og skekkt samkeppnisstöðu þeirra. Í Samherjamálinu er eins og refsigleði miðalda tröllríði húsum, því að gengið er fram með offorsi í húsrannsókn hjá félaginu og ekki hikað við að setja orðstýr þessa mikilvæga útflutningsfyrirtækis bæði innanlands og utan í uppnám.  Síðan er refsivöndurinn reiddur hátt til lofts af Gjaldeyriseftirliti bankans án þess, að það hafi til þess nokkra lagaheimild.  Hlýtur framkvæmdastjóri Gjaldeyriseftirlits Seðlabankans að bera á þessu verklagi ábyrgð og þurfa að taka afleiðingum gjörða sinna. Að bera ábyrgð merkir einmitt að taka afleiðingum gjörða sinna, fá umbun, ef vel er gert, og refsingu, ef illa tekst til.  Hér eru svo stórfelld brot á ferð, að líklegt er, að leiði til málaferla, og stöðumissir er viðeigandi refsing að hálfu bankaráðsins. Öðru vísi verður ekki traust til bankans endurreist. 

Nú hefur Umboðsmaður Alþingis kveðið upp svo þungan áfellisdóm yfir stjórnun Seðlabankans, að af þeirri ástæðu einni saman verður einhver að axla ábyrgð af mistökunum, hvort sem það verður bankastjórinn, yfirlögfræðingurinn, yfirmaður gjaldeyriseftirlitsins eða öll þessi þrenning.  Ef bankaráð Seðlabankans ætlar að skrifa undir þau ótæku vinnubrögð, sem viðgengizt hafa hjá Seðlabankanum, þá missir það allan trúverðugleika, og þar með rýkur traustið á Seðlabankanum og peningastefnu hans út í veður og vind. 

Embættisfærsla Árna Páls Árnasonar, fyrrverandi ráðherra, í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, hefur komið við sögu þessara alræmdu mála Seðlabankans og hefur einnig orðið fyrir gagnrýni Umboðsmanns Alþingis, og má segja, að losarabragur Árna sem ráðherra sé upphafið að umboðsleysi Seðlabankans við rannsókn og álagningu refsinga vegna brota á lögum og reglum um gjaldeyrismál. Samkvæmt lögum varð ráðherra bankamála að staðfesta reglugerð um gjaldeyrisbrot og refsingu við þeim, en engin gögn finnast í ráðuneyti né í Seðlabanka um þessa staðfestingu ráðherra. Umboðsmaður kvartar undan röngum upplýsingum frá þessum aðilum í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur til sín, og það er auðvitað önnur grafalvarleg hlið þessa máls.   

Baldur Arnarson, blaðamaður, ritar baksviðs í Morgunblaðið 8. október 2015 greinina:

"Ráðuneyti afhenti ekki umbeðin gögn". 

Hún hefst þannig:

"Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, gerir athugasemdir við, að efnahags- og viðskiptaráðuneytið hafi í ársbyrjun 2011 ekki veitt honum réttar upplýsingar um, hvort ráðherra hafi samþykkt reglur Seðlabanka Íslands (SÍ) um gjaldeyrismál, þegar hann leitaði eftir þeim. 

Seðlabankinn lét rannsaka meint brot fjölda aðila á þessum reglum, og úrskurðaði ákæruvaldið síðar, að þær teldust ekki gild refsiheimild." 

Umboðsmaður Alþingis bendir á, að Seðlabankinn hafi tekið sér vald til rannsóknar á gjaldeyrisbrotum og ákvörðunar viðurlaga, sem hann hafði enga lagaheimild til án þess að afla sér staðfestingar ráðherra. Viðkomandi ráðherra, Árni Páll Árnason, gaf aldrei nauðsynlegt samþykki sitt. 

Þetta er grafalvarlegt glappaskot Seðlabanka, sem Seðlabankastjóri sjálfur verður að taka ábyrgð á og taka hatt sinn og staf fyrir.  Mundi þá einhver segja, að farið hafi fé betra.

Baldur Árnason vitnar enn í Tryggva, umboðsmann, í téðri grein:

""Þegar reglur um gjaldeyrishöft voru lögfestar í nóvember 2008 með lögum nr 184/2008 um breytingu á lögum nr 87/1992, um gjaldeyrismál, var ekki tilgreint með beinum ákvæðum í lögunum, hvaða skorður væru settar við fjármagnshreyfingum og gjaldeyrisviðskiptum."

Á grundvelli þessara lagabreytinga hafi Seðlabankinn gefið út reglur um gjaldeyrismál nr 1082/2008.  Telur umboðsmaður leika vafa á því, að þetta uppfylli kröfur, sem leiða af reglum um lögbundnar refsiheimildir." 

Að gæta sín ekki á því áður en látið er með viðurhlutamiklum hætti til skarar skríða gegn einstaklingum og lögaðilum að afla sér fyrst til þess traustra lagaheimilda er full ástæða brottvikningar.

Yfirgangur og jafnvel ofsóknir yfirvalda gagnvart borgurum og einkafyrirtækjum er vandamál, sem ógnar samkeppnisstöðu og réttarstöðu þeirra.  Þetta gerði Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, að umræðuefni í miðvikudagsgrein sinni í Morgunblaðinu, 7. október 2015:

"Hvað er ríkið alltaf að vasast". 

Greinin hefst þannig, og eru þau orð verðug niðurlagsorð þessarar vefgreinar:

"Engu er líkara en við Íslendingar séum búnir að missa sjónar á hlutverki ríkisins, markmiðum, skyldum og verkefnum þess.  Afleiðingin er sú, að ríkið, stofnanir þess og fyrirtæki, eru stöðugt að vasast í hlutum og verkefnum, sem þau eiga ekki að koma nálægt, og það sem verra er; skipulega er sótt að einstaklingum og einkafyrirtækjum í skjóli ríkisrekstrar.

Í orði hefur löggjafinn reynt að koma málum þannig fyrir, að leikreglur á samkeppnismarkaði séu skýrar, gagnsæjar og stuðli að jafnri og heiðarlegri samkeppni.  Í reynd blasir önnur mynd við.  Samkeppnishindrunum hefur verið komið upp.  Regluverkið hyglar fremur þeim stóru í stað þess að tryggja samkeppni, stöðu lítilla fyrirtækja og hagsmuni neytenda.  Undan verndarvæng ríkisins herja ríkisfyrirtæki á einkafyrirtæki í viðleitni sinni til að vinna nýja markaði og afla sér aukinna tekna."

Takmörkuð samkeppni í hagkerfinu er alvarleg meinsemd í þjóðfélaginu, sem kemur hart niður á hagsmunum almennings. Kröftum, sem varið er til að jafna samkeppnisstöðu og efla samkeppni á markaði, er vel varið.  Það fer allt of mikil orka í hið mótsetta hjá hinu opinbera og einokunarfyrirtækjum, þ.e. að kæfa samkeppni og jafnvel að klekkja á einkaframtakinu, óháð stærð fyrirtækjanna, eins og lýst er í frásögn af tveimur málum Seðlabanka Íslands hér að ofan.  Þau bera vitni um þekkingarleysi og/eða dómgreindarskort, sem verður að bæta úr nú þegar í æðstu peningamálastofnun landsins.   

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband