Óánægja með auðvaldið

Hvað sem öðru líður, hefur auðhyggjan (kapítalisminn) reynzt öflugasti drifkraftur nýbreytni, framþróunar, lífskjarabóta og hagvaxtar af öllum þjóðfélagskerfum, sem fram hafa komið og reynd hafa verið í mannheimum. Dreifing lífsgæðanna á meðal þegnanna, þ.e. sköpun fjölmenns hóps öflugra neytenda, hefur einnig reynzt öflugust og sums staðar jöfnust í markaðshagkerfum frjálsrar samkeppni. Að undanförnu hefur mikil lífskjarasókn átt sér stað á Íslandi, og á sama tíma hefur kjarajöfnuður aukizt á mælikvarða GINI-stuðulsins. Það má þess vegna álykta sem svo, að hérlendis sé nú í grófum dráttum við lýði sjálfbært hagkerfi, sem nefna mætti markaðshagkerfi með félagslegu ívafi. Í þessu kerfi þarf hins vegar tvímælalaust að auka samkeppnina til að knýja fram framleiðniaukningu, sem öllum er hallkvæm.

Sameignarstefnan beið skipbrot og jafnaðarstefnu Norðurlandanna rak upp á sker risavaxinna ríkisútgjalda, sem urðu skattgreiðendum, fyrirtækjum og einstaklingum, þ.e. hagkerfunum, að lokum um megn.  Sparnaði náðu Svíar í ríkisrekstrinum, eftir téð útgjaldafyllerí ríkisins, m.a. með því að leyfa samkeppni með útboðum og einkarekstri á þjónustu, sem hið opinbera þó tekur mestan þátt í að fjármagna. Ofvaxin opinber afskipti af hagkerfinu, þegar umsvif opinbera geirans, ríkis og sveitarfélaga, fara yfir 50 % af landsframleiðslu, leiða skjótlega til fátæktar þegnanna.  Þar sem hið opinbera skilur meira eftir til ráðstöfunar einstaklinga og fyrirtækja, ríkir mun meiri velmegun. 

Vinstri öflin hafa þrátt fyrir lélegan árangur sinn við stjórnvölinn sums staðar fengið byr í seglin nýlega, og er ástæða til að velta vöngum yfir því.    Í Bretlandi hélt Verkamannaflokkurinn fyrsta flokksþing sitt í október 2015 eftir kjör öfgavinstrimannsins Jeremy Corbyn sem formanns flokksins. Þeir, sem kusu Corbyn til forystu, leggja meira upp úr, að flokkurinn leggi rækt við ómengaða vinstri stefnu í flokksstarfinu en hann breyti brezka ríkisvaldinu sem ríkisstjórnarflokkur, því að málflutningur Corbyns og félaga er róttækari en flestum Bretum, einkum Englendingum, fellur í geð.  Reyndar er hægt að falla allur ketill í eld við lestur stefnumála þessa villta vinstris, svo gamaldags og gjörsamlega úreltur er stéttastríðs áróður þessara pólitísku hugsjónamanna og án minnsta jarðsambands.  Kominternmenn hefðu klappað fyrir Corbyn, væru þeir ofar moldu, því að varnarmálin eru sett í skammarkrókinn með sama hætti og vinstri grænir gera á Íslandi, en vinstri græn eru enn á móti NATO og veru Íslands þar. 

Formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs fór af hjörunum, þegar fréttist af tillögu um miaISK 2,7 til fjárlaga 2017 í BNA um breytingar á flugskýli o.fl. á Keflavíkurflugvelli til að hýsa Orion P8A kafbátaleitarflugvél bandaríska sjóhersins.  Þessi nývakti áhugi Pentagons fyrir aðstöðu á Íslandi er þó aðeins fagnaðarefni, þó að tilefnið sé síður en svo fagnaðarefni.  Katrín Jakobsdóttir vill hins vegar, eins og hún er vön, stinga hausnum í sandinn, þegar vandamál koma upp. Það er hin óskrifaða stefna vinstri grænna. 

Á Grikklandi og á Spáni hafa nýir vinstri flokkar komið fram á sjónarsviðið á síðustu árum og skákað þeim vinstri flokkum, sem fyrir voru. Gríska Sýriza vann tvær kosningar í röð 2015, þótt Brüsselvaldið træði stóryrðum flokksforystunnar ofan í kokið á henni, þar sem þau hafa síðan að mestu haldið kyrru fyrir síðan.  Spænska Podemos varð mikið ágengt í landsþingskosningum í desember 2015, og hefur flokkurinn höggvið skarð í fylgi spænska jafnaðarmannaflokksins. 

Í Bandaríkjunum, BNA, hefur Bernie Sanders, sem lýsir sjálfum sér sem óháðum sósíalista, náð góðum árangri í forkosningum Demókrata. Frans, páfi, hefur, ekki alls fyrir löngu, beint Vatíkaninu á nýja braut í pólitíkinni með fordæmandi yfirlýsingu um "ósýnilega harðstjórn markaðarins" og ráðleggur "að beina hagkerfinu að þjónustu við fólk".  Þetta er athygliverð yfirlýsing páfans, sem fer fyrir auðugri stofnun, sem kom m.a. aflátsbréfum í verð forðum tíð og hefur rekið talsvert umfangsmikla bankastarfsemi við misjafnan orðstír um aldaraðir. Sagt er, að batnandi mönnum sé bezt að lifa, en hér er enginn venjulegur maður á ferð, heldur fulltrúi Guðs á jörðu, samkvæmt kaþólskri trú, svo að orð páfa vega meira en annarra í eyrum margra. Kannski er páfi þarna aðeins að predika fyrir "markaðshagkerfi með félagslegu ívafi", sem ýmsir hérlendis aðhyllast og gefizt hefur vel í þýzka Sambandslýðveldinu.

Ríkjandi stétt um allan heim úthlutar sér ríflegum greiðslum án tillits til árangurs, sem hún hefur náð fyrir eigendur fyrirtækis síns. Dæmi um þetta er viðskilnaður Martins Winterkorns, fyrrverandi aðalforstjóra Volkswagen-samstæðunnar, sem tók á sig ábyrgð á hugbúnaði, sem stýrði hreinsun reyks frá vissum dísilvélum og hafði þar með áhrif á eldsneytisnotkun þeirra með sviksamlegum hætti, og beðizt hefur verið afsökunar á fyrir hönd VW-samstæðunnar.   Þetta hefur valdið VW álitslegum og fjárhagslegum hnekki, sem skiptir tugum milljarða evra.  Téður Herr Winterkorn var leystur frá störfum í kjölfar játningar með gjöf frá stjórn fyrirtækisins upp á MEUR 60 (miaISK 8,5).  Minna mátti ekki gagn gera við þann viðskilnað.  Þetta er hneisa og kórónar mistökin. Þessi gerningur hefur vakið hneykslun til hægri og vinstri, og VW-samstæðan er nú í iðrunar-og yfirbótaferli um leið og hlutabréf hennar hafa fallið um tugi af hundraði.  Markaðurinn hefur þó tekið afsökunarbeiðnina góða og gilda ásamt loforði um bót og betrun og lætur yfirsjónina ekki aftra sér frá að fjárfesta áfram í orðlögðum gæðum samsteypunnar.  

Þann 25. september 2015 skrifaði Charles Moore, opinber ævisöguritari Margrétar Thatcher, fyrrverandi formanns brezka Íhaldsflokksins og frægs forsætisráðherra, í Wall Street Journal, að Karl Marx hefði haft mikilsverðan skilning á "misskiptu vægi eignarhalds á auði".  Þegar gallharður íhaldsmaður er farinn að vitna í höfund Kommúnistaávarpsins þannig, að úr penna þessa misheppnaða postula hafi þrátt fyrir allt hrotið algildur vísdómur inn á milli, þá er það merki um mikla þjóðfélagslega gerjun, og hún á sér líklega stað um allan heim þessi misserin án þess, að rætur hennar hafi verið krufnar til mergjar og án fullnægjandi valkosta um nýja þjóðfélagsskipan.  Hver þjóð verður að leita þess fyrirkomulags, sem henni hentar bezt.

Gallup-skoðanakönnun á trausti almennings til bandarískra stofnana sýndi nýlega, að stórfyrirtækin voru þar næstneðst, nokkru ofan við öldungadeild bandaríska þingsins, þar sem aðeins 21 % spurðra lýsti miklu eða þónokkru tausti á stórfyrirtækjum. Það er sem sagt ekki einsdæmi, að þjóðþingið njóti lágmarks trausts.  Þetta er brýnt að laga, og á Íslandi er áfangi á þeirri leið að styrkja agavald forseta þingsins og veita honum meiri völd yfir dagskrá þingsins.  Bættur bragur á þinginu á formi efnislegri umræðna og banns við langlokum og töfum mundi strax bæta úr skák án þess að rýra möguleika stjórnarandstöðu markvert á að koma efnislegum sjónarmiðum sínum á framfæri. 

Á Íslandi ríkir líka tortryggni í garð fyrirtækja, vaxandi með stærð þeirra, og er þetta þjóðfélagslegt sjúkdómseinkenni, sem vert er að gefa gaum, og það er mjög mikilvægt fyrir stjórnmálalegan stöðugleika að vinna bug á þessu.  Ef fólk er fullt vantrausts gagnvart höndinni, sem brauðfæðir það, er voðinn vís.  Eitt ráð við þessu er að gera almenning að beinni þátttakendum í fyrirtækjarekstri með "Mitbestimmung" eða meðákvörðunarrétti launþeganna í stjórnum fyrirtækjanna, að hætti Þjóðverja, og annað að efla mjög eignarhald almennings með almenningshlutafélögum.  Reyndar er almenningur nú þegar stór eignaraðili atvinnulífsins á Íslandi með aðild sinni að lífeyrissjóðum landsins, en ekki er víst, að fólk sé almennt nægilega meðvitað um sameiginlega hagsmuni sína og fyrirtækjanna í landinu. 

Auðhyggjufólk (kapítalistar) vilja gera greinarmun á fyrirtækjahegðun og auðhyggju (kapítalisma). Því miður hefur hegðun stjórnenda sumra fyrirtækja, hvort sem er kennitöluflakk, einokunartilhneigingar, daður við skattaskjól eða annað, svert auðhyggjuna í hugum þónokkuð margra, með svipuðum hætti og rónarnir  hafa komið óorði á brennivínið með misnotkun sinni. Stuðningsmenn auðhyggjunnar segja þá, að bezta ráðið gegn göllum "slæmrar auðhyggju", t.d. einokunar og vinahygli, sé að sleppa lausum kostum "góðrar auðhyggju", þ.e. samkeppni og nýsköpunar. 

Góðu tíðindin fyrir slíka boðbera frjáls markaðar eru, að góða auðhyggjan styrkist nú á dögum.  Sjáið bara, hversu erfitt er núna fyrir stórfyrirtæki og stórforstjóra að tryggja stöðu sína.  Meðaltími fyrirtækis á Fortune 500 listanum hefur stytzt úr 70 árum árið 1930 í um 15 ár nú, og meðaltími forstjóra í starfi hjá fyrirtækjum á Fortune 500 hefur stytzt úr 10 árum árið 2000 í 5 ár árið 2015.

Alþjóðavæðing viðskiptanna og tölvuvæðingin hafa flýtt fyrir hinni skapandi eyðileggingu.  Árangursrík fyrirtæki geta nú sprottið upp á ólíklegustu stöðum, t.d. í Eistlandi (Skype) og í Galisíu (Inditex), og náð heimsútbreiðslu. Tölvutæknin gerir fyrirtækjum kleift að vaxa mjög hratt. "WhattsApp", skilaboðaskjóða fyrir farsíma, fékk 500 milljón notendur á innan við 5 árum frá stofnun. 

Ekki er allt jafnglæst fyrir launþegana hjá þessum sprotum.  Þau eru venjulega létt á fóðrum, hvað fólk og eignir snertir, sumpart af því að tölvuþjónusta er mjög sjálfvirk og sumpart vegna úthýsingar.  Fyrir 10 árum hafði Blockbuster 9000 starfstöðvar í BNA með 83000 starfsmönnum.  Netflix er með 2000 manns í vinnu og leigir tölvukerfi fyrir sitt efnisstreymi af Amazon.  

Gerald Davis við Ross viðskiptadeildina við Háskólann í Michigan hefur reiknað út, að þau 1200 fyrirtæki, sem hafa verið opinberlega skráð á hlutabréfamarkað í BNA síðan 2000 hafi hvert um sig skapað færri en 700 störf að jafnaði á heimsvísu síðan þá. Þar er engin miskunn sýnd; þessi nýju stjörnufyrirtæki standa í stöðugri sjálfsendurnýjun og umbyltingum til að forðast örlög fyrri stjörnufyrirtækja á borð við AOL og Nokia. Hjá "framsæknum" fyrirtækjum á að heita, að starfsmenn geti tekið sér frí að vild, þ.e. þegar þá lystir og svo lengi sem þá fýsir, en í reynd þorir varla nokkur maður að fara í frí, því að þá lendir hann á eftir áætlun með verkefnin sín, og slíkt er afar illa séð.  Það er ekki allt sem sýnist í glansheiminum. 

Þessi fyrirtæki í upplýsingageiranum þurfa aðallega á sérhæfðu fólki að halda, t.d. forriturum.  Þar sem þau hafa verið vaxtarbroddur, t.d. í BNA, hefur fólk án sérfræðimenntunar að miklu leyti legið óbætt hjá garði í þeim skilningi, að störfum við þess hæfi hefur ekki fjölgað mikið, sem hefur valdið stöðnun lífskjara hjá þorra almennings. 

Íslendingar eru sem betur fer í þeirri stöðu, að allt hagkerfið vex hratt, þ.e. það er fjölbreytni í vextinum, og langflestir fá vinnu við hæfi, þó að það geti tekið tíma, enda eru undirstöður atvinnulífsins allfjölbreytilegar.  Hins vegar er Akkilesarhæll atvinnulífsins of lítil framleiðni, og á því viðfangsefni bera stjórnendur höfuðábyrgð.  Lág framleiðni er áfellisdómur yfir viðkomandi stjórnendum, en lág framleiðni er þó alls ekki alls staðar.  T.d. ber há framleiðni sjávarútvegsins af á heimsvísu og einingarverð afurða hans á útflutningsmörkuðum sömuleiðis, og er það vegna gæða vöru hans og þjónustu.

Fylgjendur auðhyggju þurfa að muna tvennt:

Hið fyrra er, að fæstir greina á milli góðrar og slæmrar auðhyggju; flestir sjá heim, þar sem þeir, sem ofan á fljóta, sigurvegararnir, valda flóðbylgju óánægju og réttlátrar reiði, auka þjóðfélagsóróa, um leið og þeir taka frá fyrir sig lúxusrými í björgunarbátunum. 

Hið síðara er, að kraftarnir, sem leika um auðhagkerfið, leika þá einnig um stjórnmálin.  Gömlu flokksvélarnar gefa eftir, og pólitískir framagosar hafa nú meira svigrúm til að yfirtaka gamla stjórnmálaflokka og mynda nýja.  Andauðhyggja er aftur orðið afl, sem fást þarf við, þrátt fyrir gjaldþrot sameignarstefnunnar.   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband