Andstæð stjórnkerfi

Mannkynið hefur séð margs konar stjórnkerfi fyrir þjóðfélögin koma og fara og fyrir um aldarfjórðungi hvarf eitt þeirra, sovézki kommúnisminn, í aldanna skaut.  Þá hafði þetta eins flokks miðstýrða kúgunarkerfi gengið sér siðferðislega og fjárhagslega gjörsamlega til húðar. Í kjölfarið urðu til nokkur sjálfstæð ríki, sem í Mið-Evrópu tóku upp þingræðisstjórn að hætti Vesturlanda og gengu Evrópusambandinu og NATO á hönd. Segja má, að fullreynt sé með miðstýrt þjóðfélag eins flokks, þar sem öll helztu atvinnutæki og fjármálastofnanir eru á höndum ríkisins að hætti hagfræðingsins Karls Marx. Siðferðislegt og fjárhagslegt gjaldþrot Venezúela nú eftir um 15 ára vinstri stjórn sannar, að daufari útgáfur af Karli Marx en ráðstjórnin virka ekki heldur.

Kínverjar hafa þróað sérútgáfu af einræði kommúnistaflokks, þar sem þeir hafa virkjað auðhyggjuna, kapítalismann, í atvinnulífinu, til að knýja fram mikinn hagvöxt með miklum lántökum og bætt lífskjör allra, og þá hafa auðvitað orðið til allmargir auðmenn um leið. Kínverska kerfið er líklega komið á endastöð núna, því að fjölmennasta miðstétt heims, sem orðið hefur til frá þessari umbyltingu Li Hsiao Pin fyrir aldarfjórðungi, krefst nú meira andlegs frelsis og valds yfir eigin lífi og stjórnun nærumhverfis og ríkis en kommúnistaflokkurinn er reiðubúinn til að láta af hendi. 

Í ágúst 2015 tók hlutabréfavísitalan í Shanghai að falla og þar með orðstír kínversku ríkisstjórnarinnar sem stjórnvald rökhyggju, hæfileika og jafnvel heilbrigðrar skynsemi, sem hún hafði innprentað lýðnum.  Það, sem verra var: vonlaus viðbrögð stjórnvalda, þegar loftið fór úr hlutabréfablöðrunni, sem þau höfðu með áróðri sínum átt þátt í að þenja út, voru aðeins ein af mörgum mistökum valdhafanna.  Miklum fjármagnsfótta frá Kína í kjölfarið hefur fylgt gengissig kínverska gjaldmiðilsins, yuan (renminbi), og stjórnvöldum hefur ekki tekizt vel upp við að ná tökum á þessari neikvæðu þróun kínverskra fjármála, sem endað getur með ósköpum.  Hún leiðir til kjaraskerðingar almennings og vaxandi atvinnuleysis, þó að stjórnvöld reyni nú að söðla um frá gegndarlausri og víða glórulausri iðnaðaruppbyggingu flokkspótintáta í héruðum landsins til þjónustustarfsemi.  Flokksforkólfarnir hafa verið metnir eftir framleiðsluaukningu, en ekkert verið hugað að arðseminni, og nú er skuldabyrðin tekin að sliga efnahaginn. 

Grafalvarleg sprenging í hinni norðlægu borg Tianjin leiddi í ljós ógnvekjandi óstjórn.  Allar ríkisstjórnir gera mistök, en sú kínverska reisir tilverurétt sinn á færni sinni fremur en umboði frá íbúunum.  Nú spyrja útlendingar og kínverskir borgarar sig þeirrar spurningar, hvort ríkisstjórnin hafi misst taumhaldið á þróun ríkisins ? 

Fáeinar slæmar vikur eiga þó ekki að verða allsráðandi um um mat á kínverska kerfinu, sem hefur náð ágætum efnahagslegum árangri undandarin 25 ár.  Það sem réttlæta á þetta valdboðna eins flokks kerfi er röð og regla í þjóðfélaginu og vitur forysta, sem tryggi hagvöxt og almenna velmegun.  Stuðningsmenn þessa kerfis bera gjarna saman feril kínverskra leiðtoga og leiðtoga lýðræðisríkjanna, t.d. Bandaríkjanna, BNA.  Barack Obama segja þeir hafa orðið forseta út á lítið annað en hrífandi mælskulist og getu til að safna í kosningasjóð. Eftir á að hyggja er erfitt að andmæla því. Andstætt þessu hafi Xi Jinping, þegar hann varð flokksformaður 2012, unnið sig upp eftir metorðastiga flokks og ríkisstjórnar og hafi unnið bæði í miðlægri stjórnsýslu flokksins og í 4 fylkjum, sem hvert um sig er stærra en mörg ríki heims.

Aðdáendum Kommúnistaflokksins finnst, að Hr Xi sitji á toppi pýramída, þar sem prelátar hljóta framgang á grundvelli eigin verðleika við að leysa verkefni og próf.  Þetta sé kerfi, sem verðlaunar hæfileika og hafi marga kosti umfram lýðræðislegar kosningar.  Kerfið verði ekki fórnarlamb skammtíma lýðskrumsfreistinga, þegar nálgist næstu kosningar.  Þá hafi kerfið enga hagsmuni af að fiska í gruggugu vatni þjóðfélagslegrar spennu til að afla atkvæða.  Það hafi heldur ekki tilhneigingu til að verða andsnúið þeim, sem ekki hafa kosningarétt, t.d. framtíðarkynslóðum og útlendingum.  Um þetta er fjallað í nýútgefinni bók eftir Daniel Bell, kanadískan háskólamann, sem kennir við Tsinghua háskólann í Beijing ("The China Model: Political Meritocracy and the Limits of Democracy").  Kínverska líkanið kann að henta Kínverjum um takmarkaðan tíma, en það á áreiðanlega ekki erindi við Vesturlönd.

Ef áfram heldur að fjara undan efnahag Kínverja allt þetta ár og jafnvel inn í næsta, þá mun molna undan kínverska stjórnkerfinu, því að það mun þá renna upp fyrir fólki, að stjórnendur ríkisins eru ekki starfi sínu vaxnir, þó að höfuðáherzla hafi verið lögð á að telja almenningi trú um hið gagnstæða.  Af þessum ástæðum má búast við vaxandi hernaðarbrölti Kínverja, eins og merki sjást nú þegar um á Suður-Kínahafi, í tilraun til að beina athygli almennings að málefnum, sem líkleg eru til að þjappa þjóðum Kína saman að baki valdhöfunum.  

Vesturlönd, Japan, Eyjaálfa o.fl. búa við mismunandi útgáfur af þingræðisfyrirkomulagi.  Í BNA er valdamikill forseti, forsetaræði, þar sem meirihluti þingsins getur þó sett honum stólinn fyrir dyrnar. Á Íslandi situr tiltölulega valdalítill, þjóðkjörinn forseti, og Stjórnarskráin er of loðin um valdsvið hans.  Þess vegna er nauðsynlegt að taka öll ákvæði hennar, er varða forsetann til endurskoðunar, og þar sem hann er og væntanlega verður þjóðkjörinn, er eðlilegt að fela honum veigameiri hlutverk en hann hefur nú.  Þau geta t.d. verið á sviði öryggismála ríkisins, utanríkismála, og hægt er að búa svo um hnútana, að ríkisstjórnin starfi í raun á pólitíska ábyrgð forsetans, eins og í Frakklandi. 

Á Norðurlöndunum ríkir hefð um þingbundnar ríkisstjórnir, en forseti Finnlands hefur samt nokkur völd, einkum á sviði utanríkismála, þó að hluti þeirra hafi síðar verið færður til þingsins.  Á Íslandi er eðlilegt að fela valinkunnum stjórnlagafræðingum að taka til í Stjórnarskránni, þegar forsetaembættið er annars vegar, og kveða skýrt á um valdsvið og valdmörk embættisins.  Forseti á að fela þeim, sem hann telur njóta mests stuðnings kjósenda að afloknum Alþingiskosningum, ríkisstjórnarmyndun, og forseti lýðveldisins ætti einn að hafa þingrofsheimildina.  Nýleg tilraun til misbeitingar á þessari heimild til skylminga á þinginu styður þessa skoðun. 

Forsetinn á að vera verndari Stjórnarskráarinnar, og með undirskrift sinni við ný lög á hann að staðfesta, að lagasetning sé í samræmi við Stjórnarskrá.  Sé hann í vafa, á hann að geta vísað lögum, fyrir undirritun sína, til úrskurðar Hæstaréttar , en hann á ekki að geta synjað lögum staðfestingar, ef Hæstiréttur telur þau í lagi, nema 40 % þingmanna fari fram á það. Ef forseti synjar lögum staðfestingar að beiðni þessa drjúga minnihluta þingheims, sem skal þó vera hans val, verður að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um þessi lög, nema meirihluti Alþingis afturkalli þau. 

Ennfremur er rétt að þróa hérlendis annars konar beint lýðræði og setja ákvæði þar að lútandi í Stjórnarskrá að fengnum tillögum stjórnlagafræðinga.  Þannig geti ákveðinn fjöldi kjósenda farið fram á við forseta lýðveldisins, að haldin verði ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla, og annað hærra hlutfall kjósenda geti farið fram á, að haldin verði ákvarðandi atkvæðagreiðsla um tiltekið mál.  Til að draga úr kostnaði er rétt að taka tölvutæknina í þjónustu lýðræðisins. 

Frelsi eintaklinganna fer alltaf til lengdar saman við lífskjör þeirra. Það hefur verið sýnt fram á skýra fylgni á milli frelsis í þjóðfélögum og velmegunar þar. Hluti af frelsinu felst í að ráðstafa tekjum sínum að vild.  Þess vegna er sjálfsagt stefnumál, að launþegar haldi sem mestu af tekjum sínum til eigin ráðstöfunar og rekstur og umsvif hins opinbera sé að sama skapi í lágmarki.  Samt hefur gefizt illa, t.d. í Kaliforníu, að kjósendur megi kjósa um tekjuöflun ríkisins, en það mætti íhuga að veita þeim rétt til að kjósa á milli einkarekstrar og opinbers rekstrar, einkafjármögnunar framkvæmda hins opinbera o.s.frv.  Allar tilraunir með Stjórnarskrárbreytingar verður þó að framkvæma af varfærni og að beztu manna yfirsýn.   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband