Stjórnmálamaður í sporum Don Kíkóta

Fyrir daga aflahlutdeildarkerfisins, sem Alþingi samþykkti og sett var á laggirnar árið 1984, voru veiðar að mestu leyti frjálsar á Íslandsmiðum.  Endanleg viðurkenning fékkst á 200 sjómílna lögsögu Íslendinga árið 1976, og þá hurfu erlendir togarar að mestu af Íslandsmiðum, og íslenzka ríkið gat farið að stjórna veiðunum að eigin vild.  Mátti það ekki seinna vera, því að 1982-1984 hrundi þorskveiðin  úr 460 kt í 280 kt, líklega vegna ofveiði. 

Það er út af fyrir sig æskilegast að hafa veiðar frjálsar, eins og verið hafði frá alda öðli, en veiðigetan var orðin langt umfram þol veiðistofnanna, og þá var ekki um neitt annað að ræða til að vernda viðgang lífríkis í sjónum og til að bjarga afkomu sjávarútvegsins og þar með lífskjörum í þessu landi en að innleiða stranga takmörkun á veiðunum. 

Hvernig átti að gera þetta ?  Um það urðu heitar umræður á árunum 1979-1983.  Uppboð aflaheimildanna hefði misheppnazt. Vart hefði nokkur útgerðarmaður haft efni á að bjóða í aflaheimildirnar, því að allar útgerðir voru reknar með tapi og skuldastaðan erfið. Staðan á þessum tíma var sú, að aflaheimildirnar voru verðlausar fyrir útgerðirnar, sem hengu á heljarþröm.  Einhverjir aðrir hefðu þó hugsanlega boðið í heimildirnar og leigt þær útgerðarmönnunum.  Hvernig hefðu sjávarbyggðirnar farið út úr því ?  Mörg þorp og bæir gætu þá hafa misst lífsbjörgina. 

Rætt var um innleiðingu sóknarmarks sem aðalstjórnkerfis, en það var horfið frá því, enda meiri hætta og álag á sjómenn og landvinnslufólk fólgið í því og skipulag markaðssetningar illmöguleg af því að aflabrögð voru ófyrirsjáanleg og stöðugleiki vöruafhendingar lítill. Sóknarkerfið hefur leitt til hruns hrygningarstofns þorsks í lögsögu Færeyinga niður í 20 kt, og þeir komast ekki með tærnar, þar sem Íslendingar hafa hælana í verðmætasköpun á hvert aflakg, eins og fram kemur í Morgunblaðsgreininni, "Samhengi hlutanna - af uppboðsraunum Færeyinga",  þann 11. ágúst 2016, eftir Kristján Þórarinsson og Steinar Inga Matthíasson. 

Kerfið, sem ofan á varð hérlendis, aflahlutdeildarkerfi með frjálsu framsali aflahlutdeilda og virðisaukandi keðju frá skipi til markaðar, er þjóðhagslega hagkvæmasta kerfið, sem völ var og er á. Þetta er staðreynd, sem vert er að draga fram í ljósi samanburðar við önnur lönd með annars konar fyrirkomulag. 

Kvótakerfinu var komið á til að bjarga veiðistofnunum og útgerðunum frá hruni. Innleiðingin var fullkomlega málefnaleg, þar sem aflahlutdeild á skip var ákvörðuð á grundvelli veiðireynslu 3 undanfarandi ára.  Engum var gert að hætta veiðum þá, en allir bjuggu þó við skertan kost, því að aflamark í helztu tegundum snarlækkaði samkvæmt ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar.  Útgerðirnar voru allt of margar og veiðiskipin allt of mörg, til að þær gætu allar lifað af við þessar aðstæður, enda var reksturinn mjög misjafn, og margir lögðu upp laupana, einkum eftir að frjálsa framsalið var leyft um 1990. 

Yfir 90 % aflahlutdeildanna hafa frá innleiðingu kvótakerfisins verið seldar og keyptar af öðrum útgerðum, gömlum og nýjum.  Útgerðum og veiðiskipum hefur fækkað mikið, og var það einmitt hlutverk kvótakerfisins frá byrjun að láta markaðinn sjá um fækkunina, því að skip og útgerðir voru einfaldlega allt of margar til að nokkur rekstrargrundvöllur væri í sjávarútveginum á sama tíma og leyft aflamark minnkaði. 

Á árunum fyrir kvótakerfi, 1980-1983, var meðalframlegð þorskveiða aðeins 7 %, þótt þorskaflinn hafi farið í hæstu hæðir, t.d. 450 kt árið 1981.  Á fyrstu árum kvótakerfisins nam framlegðin (EBITDA) 15 % og meðalþorskafli um 330 kt/ár.  Frá upphafsári frjáls framsals aflahlutdeilda, 1991, og til 2007 var meðalframlegðin 20 % og meðalþorskafli um 220 kt/ár, og 2008-2014 náði framlegðin 28 %, og meðalþorskaflinn var um 170 kt/ár.  Þetta sýnir gríðarlega góðan hagrænan árangur kvótakerfisins, sem auðvitað hefur gagnazt þjóðarbúinu öllu og bætt hag almennings. Það hefur ekki verið sýnt fram á það með skilmerkilegum hætti, að nokkurt annað fyrirkomulag við stjórnun fiskveiðanna skili þjóðarbúinu meiri búbót og tryggi um leið sjálfbæra nýtingu veiðistofnanna. 

Nú er verð á aflahlutdeildum (veiðikvótum) hátt, og þess vegna eiga nýliðar vissulega erfitt uppdráttar, og stjórnmálamenn af verri sortinni reyna óspart að sá fræjum öfundar og óánægju með fiskveiðistjórnunarkerfi í þann jarðveg.  Því er haldið fram, að auknar greiðslur útgerðarmanna fyrir veiðiheimildir í ríkissjóð, t.d. með uppboðum, gagnist almenningi betur.  Þetta er tóm vitleysa.  Hvers vegna ætti ofurskattlagning á sjávarútveg að gefast almenningi betur en önnur ofurskattlagning á atvinnurekstur ?   

Nýr formaður Samfylkingarinnar, Oddný Harðardóttir, OH, starfar eftir 130 daga áætlun, sem virðist ætla að koma Samfylkingunni undir 5 % þröskuldinn, enda er hún greinilega harðákveðin í því að eyða kröftum sínum í vonlaus verkefni, sem útilokað er, að bætt geti hag almennings með nokkrum hætti.  Minnir hún að þessu leyti á vindmylluriddarann sjónumhrygga frá 17. öld.  Öðru þessara hugðarefna sinna lýsir hún í Morgunblaðsgrein, "Ávinningur af útboði veiðiheimilda",

þann 6. ágúst 2016.  Hitt vindmyllumálið hennar er, að þjóðin kjósi um aðildarviðræður að ESB.  Vesalings nýi formaðurinn er 7 árum of sein með þessa þjóðaratkvæðagreiðslu, því að sumarið 2009 felldi hún á Alþingi tillögu frá sjálfstæðismönnum um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um, hvort sækja ætti um aðild að ESB eður ei.  Hefði hún betur samþykkt þá tillögu í stað þess að ana út í mestu hrakfallasögu íslenzkra utanríkismála á lýðveldistímanum.  Hverjum dettur það eiginlega í hug, eftir að brezka þjóðin ákvað úrsögn Bretlands úr ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu 23. júní 2016, að Íslendingar hafi minnsta áhuga fyrir samningaviðræðum nú um aðild landsins að Evrópusambandinu ?  Halló, er einhver heima ? Ætli vanti ekki ein 92 % upp á almenna dómgreind þarna á sama tíma og fylgi flokksins mælist 8 % ?

Nú skal vitna í téða grein OH: 

"Samfylkingin hefur lengi barizt fyrir útboði [ekki uppboði ? - innsk. BJo] veiðiheimilda.  Sú aðgerð ein og sér færir samfélaginu réttlátari [1] hlut í auðlindaarðinum og gerir nýliðun [2] í greininni mögulegri.  Í dag er staðan þannig, að eigandi auðlindarinnar, þjóðin sjálf, fær aðeins um 10 % af arðinum, en útgerðarmönnum er leyft að ráðstafa 90 % hlut [3].  Það hallar verulega á okkur eigendur auðlindarinnar, og það mun ekki nást um kerfið, á meðan svo er."

Hér er heldur betur fiskað í gruggugu vatni, og hugtakaruglingurinn er í algleymi:

  1. Hvaða réttlæti felst í því að rífa keyptar aflahlutdeildir af fyrirtækjum með eignarnámi (stríðir gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti) og færa þær "sófaútgerðarmönnum" á silfurfati ?  Þar er sósíalismi andskotans að verki og verður aldrei leyfður af dómstólum.  Þegar af þeirri ástæðu er allt þetta uppboðshjal út í loftið og líkist mest baráttu Don Kíkóta við vindmyllurnar; gjörsamlega gagnslaust.
  2. Nýlega fór fram uppboð á nokkur þúsund tonnum (um 10 %) af veiðiheimildum í Færeyjum,sjá vefgreinina "Misheppnuð uppboðshugmynd" (tengill til hliðar undir "nýjustu færslum) hér á vefsetrinu, frá 3. ágúst 2016. Þar varð alls engin nýliðun, enda hvernig í ósköpunum dettur mönnum í hug, að uppboðsleið sé vel fallin til nýliðunar.  Í Færeyjum hrepptu fjársterkir útlendingar allar veiðiheimildarnar, sem í boði voru. Þetta kerfi er sniðið fyrir auðvaldið á Evrópska efnahagssvæðinu.  Innan þess er mismunun í útboðum eða uppboðum óheimil eftir þjóðernum. Þær reglur ESB er ekki hægt að taka úr sambandi, þegar skylt er að bjóða út á öllu EES, sem er, þegar vænt tilboðsfjárhæð er yfir tilteknum mörkum, og verður þá ekki unnt að beita "salami-aðferðinni" í blekkingarskyni.  Með uppboðskerfinu munu aflaheimildir safnast hratt á fjársterkustu útgerðirnar, og við munum sitja uppi með "nokkrar Þorlákshafnir" eftir hvert uppboð.  Hinir stóru munu verða enn stærri enn hraðar en nú, og hinir minni, einnig þeir, sem nú starfa á heilbrigðum rekstrargrundvelli, munu fljótt missa fótanna vegna skertra aflaheimilda.  Hér er um útfærslu á "fyrningarleiðinni" að ræða, sem svo sannarlega má kenna við "sósíalisma andskotans".
  3. Hvernig í ósköpunum kemst OH að þessari reikningslegu niðurstöðu ?  Samkvæmt Fiskifréttum 15. október 2015 voru arðgreiðslur í sjávarútvegi árið 2014 taldar vera 13,5 miakr, en opinber gjöld, tekjuskattur, veiðigjöld og tryggingagjald, námu þá 22,9 miakr.  Af þessari upphæð námu veiðigjöld 35 %.  Samkvæmt kokkabókum blekbónda skiptast ávöxtun fjármagnseigenda og gjöld til ríkisins í hlutföllunum 37 % : 63 %, en ekki 90 % : 10 %, eins og "reikningskennarinn" fær út.  Hún gerir sig seka um hugtakarugling og slær fram bölvaðri vitleysu til að sá fræjum óánægju og öfundar.

Hvað skyldi nú virtur lögfræðingur hafa um uppboð veiðiheimilda að segja.  Haukur Örn Birgisson, hæstaréttarlögmaður, skrifaði 27. ágúst 2015 á Sjónarhóli Morgunblaðsins, "Sjóræningjar í sjávarútvegi".  Hann kallar aðferðina þar reyndar stefnu pírata, sem kemur heim og saman við mat Össurar Skarphéðinssonar, að enginn munur sé á stefnu pírata og samfylkinga.  Hefur ruglandi stjórnarandstöðunnar þar með náð nýjum hæðum, enda er hún með óframkvæmanlega stefnu skýjaglópa, sem ómögulegt er að fá botn í:

"Aftur að stefnu Pírata.  Meðal annars kveður hún á um, að ríkið eigi að bjóða aflaheimildir til leigu á opnum markaði, og skuli leigugjaldið renna í ríkissjóð.  Þetta felur í sér upptöku núverandi aflaheimilda af hálfu ríkisins, svo að ríkið geti boðið upp heimildirnar til leigu á opnum markaði.  Stefnan ber ekki með sér til hversu langs tíma aðilar á markaði fái heimildirnar leigðar, en líklega er það eitt fiskveiðiár í senn.  Þá er spurningin, hvort jafnræðisregla Pírata feli það í sér, að allir ríkisborgarar á EES-svæðinu, t.d. Spánverjar, megi taka þátt í opnu uppboði aflaheimilda í krafti markaðsforsendna og fái í kjölfarið að veiða fiskinn við strendur landsins. [Ríkið hættir á að verða kært af ESA og dregið fyrir EFTA-dómstólinn fyrir mismunum.  Það hefur þá gert eignarnám hjá íslenzkum fyrirtækjum til að afhenda eignirnar auðvaldinu í ESB.  Er þetta ekki í stíl við lágkúruna og undirlægjuhátt vinstri stjórnarinnar 2009-2013 gagnvart ESB í Icesave-deilunni ? - innsk. BJo] 

Í þessu sambandi er einnig rétt að velta fyrir sér, hver sé reynsla þeirra aðila, sem hafa byggt útgerð sína alfarið á leigu aflaheimilda.  Reynslan hefur sýnt, að ekki er rekstrargrundvöllur fyrir slíkri útgerð, enda hafa viðkomandi aðilar enga tryggingu fyrir því, að þeir hafi aflaheimildir á hverju ári, og á hvaða verði þeir fái þær. [Útgerðir, sem verða undir í uppboðunum og missa kvóta, munu missa rekstrargrundvöll og hin smærri fara fljótlega á hausinn.  Hin munu lækka tilboð sín, þegar þau verða búin að bíta af sér samkeppnina. - innsk. BJo].

Þá má benda á, að þeir, sem alfarið byggja á leigukvóta, hafa ekki sömu hvata til góðrar umgengni um fiskistofnana og þeir, sem hafa fjárfest í aflahlutdeildum.  Sterkur grunur er t.d. fyrir því, að aðilar, sem hafa stundað slíkan rekstur, hafi stundað brottkast á fiski í stórum stíl. [Það er alþjóðlega viðurkennt, að bezta og skilvirkasta leiðin til sjálfbærrar nýtingar á lifandi auðlindum er innleiðing einkaeignarréttar á henni, eins og er kjarninn í íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfinu. - innsk. BJo].

Þá blasir við, að veiking starfandi útgerða, og fjölgun þeirra, sem byggja á ótraustum rekstri með leigu aflaheimilda af ríkinu á frjálsum markaði, styrkir ekki byggð í landinu.  [Eitt helzta ádeiluefnið á kvótakerfið hefur verið frjálst framsal aflaheimilda, þó að ljóst sé, að það hefur stuðlað mest að hagræðingu og þar með treyst afkomu fyrirtækjanna og þar með atvinnuöryggi í flestum tilvikum.  Á frjálsum markaði verða þó sum fyrirtæki undir í samkeppninni, og það hefur komið, a.m.k. tímabundið, niður á ákveðnum þorpum og bæjum, en með "uppboðsleiðinni" á að fjölga fórnarlömbunum til muna, og fyrir hinar dreifðu byggðir landsins þýðir það, að þær munu fara úr öskunni í eldinn.  Nú eru t.d. útgerðir með aflahlutdeild í þorski um 400 talsins.  Þær munu missa spón úr aski sínum til ríkisins samkvæmt "uppboðsleiðinni", e.t.v. 15 % á ári.  Setjum svo, að 10 "uppboð" verði haldin á þessum tæplega 40 kt/ár, þá gætu setið eftir 390 "fórnarlömb" kvótaskerðingar, og 15 % skerðing á einu ári getur riðið sumum þeirra að fullu, hvað þá 30 % á tveimur árum. - innsk. BJo].

Við bætist, að leigukvóti mun engan veginn stuðla að verndun og sjálfbærri nýtingu fiskistofna við Ísland, treysta atvinnu og byggð í landinu, hámarka þjóðhagslegan ávinning af sjávarauðlindinni eða stuðla að því, að sjávarútvegurinn sé arðsamur og búi við hagstætt og stöðugt rekstrar- og lagaumhverfi.  Það má því færa sterk rök fyrir því, að stuðlað sé að miklum skammtímasjónarmiðum með ríkis- eða markaðsleigunni. [OH virðist halda, að almannahagur sé bættari með skammtímaávinning ríkissjóðs af sjávarauðlindinni en hámörkun þjóðhagslegs ávinnings af sömu auðlind til langs tíma litið. Þetta er grundvallarmisskilningur hjá henni, eins og hagfræðingar hafa margsannað, að með hverri krónu, sem fær að fljóta um hagkerfið án viðkomu hjá hinu opinbera, eru sköpuð mun meiri verðmæti, jafnvel tvöföld, en hið opinbera er fært um að gera.  Þar með stækka skattstofnar, og tekjur hins opinbera vaxa með sjálfbærum hætti við tiltölulega lága skattheimtu. - innsk. BJo].

"Uppboðsleiðin" er einhver skaðlegasta hugmynd um fyrirkomulag í athafnalífinu, sem nokkur stjórnmálaflokkur hefur sett á oddinn hérlendis á lýðveldistímanum.  Hún leysir ekkert vandamál, en skapar fjölmörg ný.  Hún felur í sér hrikalegt brot á stjórnarskrárvörðum atvinnuréttindum og eignarréttindum.  OH heldur, að með því að hefja uppboðin með kvótaaukningu, sem t.d. er búizt við í þorski, þá brjóti hún minna af sér gagnvart útgerðum í landinu.  Í þessu sjónarmiði felst í senn mikil ósanngirni gagnvart þeim og mikill misskilningur. 

Ósanngirnin felst í því, að hefðbundnar þorskútgerðir hafa tekið á sig í mörgum tilvikum um 20 % skerðingu aflaheimilda, sem þær keyptu á sínum tíma. Þegar séð er fram á svo góðan árangur verndunarstarfsins, að hægt sé að bæta útgerðunum upp tap aflahlutdeilda sinna, þá hótar OH að þjóðnýta þessar viðbætur frá ári til árs.  Útgerðarmenn eru með öðrum orðum nógu góðir til að taka skellinn, þegar Hafró ráðleggur að draga úr aflamarki, en ekki nógu góðir til að taka við viðbót, þegar aflamark má hækka.  Þetta er jöfnuður OH og sósíalismi andskotans. 

Hún mun ekki komast upp með þetta óréttlæti, því að við hækkun ákvarðaðs aflamarks, þá vex hver aflahlutdeild skips sjálfvirkt að sama skapi.  Að ganga á þennan rétt, er stjórnarskrárbrot. 

Að berjast fyrir "uppboðsleið" er loddaraskapur, þar sem látið er í veðri vaka, að hún gagnist almenningi með því, að ríkissjóður hans fitni.  Langtíma kostnaður ríkisins verður hins vegar margfaldur skammtíma ávinningur ríkissjóðs vegna tjónsins, sem þessi atvinnustefna veldur, eins og rakið hefur verið hér, og eftir stendur, að aflaheimildir hafa safnazt á enn færri hendur en ella væri. Með forsjárhyggju ríkisins að vopni geta stjórnmálamenn komið sjávarútveginum á vonarvöl og tryggjt sér um leið aðstöðu til að deila og drottna að hætti gamla tímans.  Loddarahátturinn felst í að gera þetta undir merkjum markaðshyggju.     

 

     

     

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steindór Sigurðsson

Bjarni minn þessi grein þín er einn mesti þvættingur sem ég hef á ævinni lesið. Ég hef verið sjó frá því áður en kvótakerfið varð til. Þú skautar framhjá fullt að stðreyndum en hyglir öðru sem margt hvert er tómt bull. Þú segir meðal annars: "Mörg þorp og bæjir gætu þá hafa misst lífsbjörgina." Hið rétta er að, "mörg þorp og bæjir hafa nú þegar misst lífsbjörgina."Eingöngu vegna kvótakerfisins. Það vill svo til að ég hef róið á sóknarmarkinu. Og það var miklu mannlegra kerfi en aflamarkið. En því var bara gefinn svo stuttur "séns." En gallin við það var að í því kerfi var ekki hægt að selja aflaheimildir eins og í aflamarkskerfinu. Og þar af leiðandi hefði ekki verið hægt að setja kvótann á örfáar hendur eins og í aflamarkinu.

Það var samtakamáttur Íslensku þjóðarinnar sem færði okkur fyrst 50 mílna og svo 200 mílna fiskveiðilögsögu. En svo á hagnaðurinn að renna í örfáa vasa. Það er alltaf sama sagan, ríkið borgar kostnaðinn en Elítan hirðir hagnaðinn.

Svo segja handhafar kvótans í dag. "Við keyptum 93% af kvótanum, það eru bara 7% hjá þeim sem upphaflega fengu hann úthlutaðan. Þetta er alveg rétt, en það vantar botninn í söguna. Staðreyndin er nefninlega sú að þeir fegu lán til að kaupa kvótann en lánin hafa flest ef ekki öll verið afskrifuð, sem sagt ekkert borgað, bara afskrifað. Þannig að það er handvalið af bankaaElítunni hverji hafa aflaheimildir í dag og þetta kallar þú lýðræði.

Svo get ég sagt frá nýjasta dæminu. Guðmundur vinalausi fékk risaafskriftir fyrir stuttu síðan, það var varla liðinn sólarhringur frá afskrftunum, þegar okkar maður var búinn að kaupa frystitogarann Vígra með kvóta og öllu saman.

En verði það best sem vitlausast.

Steindór Sigurðsson, 16.8.2016 kl. 17:06

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

"Mea Culpa", ó, mig auman, sem virðist með pistli þessum hafa orðið valdur að því, að Steindór, nokkur, Sigurðsson, hefur hrokkið af hjörunum hér að ofan við lestur pistilsins, sem hann hefur lesið, eins og skrattinn Biblíuna.  Stóryrðin og málatilbúnaður téðs Steindórs er með þeim hætti, að hann er hér í bullandi samkeppni um ómálefnalegsta málflutninginn, sem athugasemdir á þessu vefsetri hafa að geyma.   

Auðvitað hafa sum sjávarpláss látið á sjá.  Hvernig átti annað að vera, þegar það, sem var til skiptanna, snarminnkaði ?  Auk þess knýr samkeppnin fyrirtækin til að leita hagræðingar með eflingu sumra staða, sem þá óhjákvæmilega verður á kostnað annarra.  Upp úr þessari  óhjákvæmilegu byggðaþróun hafa risið nokkrir geysiöflugir útgerðar- og vinnslustaðir, sem eru sannkallaðar kjölfestur í sinni sveit og raunar fyrir landið allt. 

Téður Steindór segist hafa "róið á sóknarmarkinu, og það var miklu mannlegra kerfi en aflamarkið".  Þetta er óútskýrt hjá honum.  Hvað var svona "mannlegt" við sóknarkerfið ?  Í sinni verstu mynd leiðir það til baráttu jafnvel æ fleiri sjómanna um æ færri bröndur í sjónum, sem leiðir aðeins til örbirgðar.  Reynsla Færeyinga blasir við.  Þeir gáfu þessu fyrirkomulagi svo langan tíma, að nú er þorskstofninn við Færeyjar kominn niður að hættumörkum.  Ég ætla ekki að fullyrða, að sóknarkerfið þeirra eigi þar alla sök, en það hefur a.m.k. ekki orðið þess valdandi, að Færeyingar hafi spyrnt við fótum áður en í óefni kom. Reynsla Færeyinga af fiskveiðistjórnun er víti til varnaðar, en árangur Íslendinga með sínu kerfi er á heimsmælikvarða. Þess vegna á ekki að rugga aflamarkskerfinu hérlendis.    

Bjarni Jónsson, 16.8.2016 kl. 20:54

3 Smámynd: Steindór Sigurðsson

Sóknarmarkið var þannig þegar ég réri á því að það var þak á þorskveiðunum. Sem þýðir það að þegar við vorum búnir að veiða tiltekið magn af þorski þá máttum við ekki veiða meira af þeirri tegund. Og þú fullyrðir að þannig fyrirkomulag eyði þorskstofninum. Meira að segja þú hlýtur að átta þig á hverslags þvættingur þessi málflutningur þinn er.

Svo gerði þetta kerfi það að verkum að við vorum fleiri daga í landi í hvejum mánuði. Við höfðum sömu laun vegna þess að takmörkuð sókn þýddi minna magn á mörkuðum og þar af leiðandi hærra verð fyrir fiskinn. Mannskapurinn fékk miklu meiri hvíld vegna minni sóknar og það var miklu meiri tími að sinna mannsæmandi viðhaldi á skipunum. Það voru margir fleiri kostir við þetta kerfi. En svo koma svona snillingar eins og þú, með enga reynslu og ekkert vit á málunum og fullyrða einhverja dómadagsþvælu. Eins og það að það sé hagkvæmara að draga nýðþung veiðarfæri á eftir sér með tlheyrandi olíeyðslu í stað þess að taka aflann á línu og í net sem eyðir bara olíu til og frá miðunum. Meira að segja smákrakkar skilja muninn, en þú ekki.

En þú "fattaðir" þetta með eyðingu byggðanna, það er þó góðs viti.

Steindór Sigurðsson, 16.8.2016 kl. 22:30

4 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Steindór,enginn frýr Bjarna Jónssyni vits.- Ég heimsótti byggðarlag mitt á Þingeyri í seinustu viku. Held að strandveiði hafi staðið yfir,annars ekkert frystihús starfrækt eftir að útg.Vísis frá Grindavík fór.En þarna lagði Páll Pálsson eigandi Vísis upp um árabil.Líklega hefur það ekki hentað útgerðinni lengur. Sagt er að synir hans hafi ekki komist upp með að fara þaðan fyrr en Páll var allur.  

Helga Kristjánsdóttir, 17.8.2016 kl. 05:44

5 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Já Páll var alinn upp á Þingeyri og pabbi hans annálaður togara skipstjóri og aflamaður. Mb.Kv. 

Helga Kristjánsdóttir, 17.8.2016 kl. 05:46

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Fiskveiðistjórnunarkerfið, sem þú lýsir, Steindór, virðist vera sóknardagakerfi með þaki á tegund.  Þakið er aflamark, svo að þetta er aflamarkskerfi án aflahlutdeildar á skip, en með leyfilega sóknardaga á skip.  Þetta kerfi er ekki líklegt til að gefa af sér hámarks verðmætasköpun, því að það er þá keppzt við að moka upp fiski þann tíma, sem skipunum er leyft að veiða.  Þetta veldur meiri verðsveiflu á mörkuðum en með aflahlutdeildarkerfinu og alls ekki hærra meðalverði, því að kerfið hvetur ekki til hámörkunar gæða, heldur til hámörkunar á magni per skip.  "Meira að segja þú", sem að eigin sögn ert með langa reynslu af fiskveiðum, ættir fyrir löngu að hafa meðtekið þetta.  Af einhverjum ástæðum hentar þér ekki að viðurkenna yfirburði aflahlutdeildarkerfisins við að hámarka verðmæti auðlindarinnar.  Þetta sést vel við alþjóðlegan samanburð, og afburðagreindur strigakjaftur, eins og þú, ættir ekki að láta hanka þig á þessu.  Þú nefnir einnig orkunýtnina, en bætt orkunýtni er ein helzta skrautfjöður aflahlutdeildarkerfisins og hefur auðvitað leitt af mikilli fækkun fiskiskipa og góðum fiskverndarárangri kerfisins, þannig að aflabrögð hafa batnað, og veiðarnar útheimta þannig minni olíu á hvert veitt tonn. 

Appropro fiskverndarárangur: hvernig væri, að þú, mannvitsbrekkan sjálf um fiskveiðistjórnunarkerfi, mundir nefna dæmi frá öðrum löndum okkur fáfróðum til fróðleiks um góðan árangur sóknarmarkskerfis í verndun og uppbyggingu hrygningarstofna.  Við vitum, hvernig til hefur tekizt í Færeyjum, svo að þú munt þurfa að halda á fjarlægari mið.  Sem aukaspurningu færð þú að svara því, hver framlegðin sé í því fyrirmyndar sóknarmarkskerfi, sem þú nefnir til sögunnar. 

Bjarni Jónsson, 17.8.2016 kl. 11:10

7 Smámynd: Steindór Sigurðsson

Það er erfitt að eiga við þig Bjarni minn. En ég sé að þú ert að tjá þig um mál sem þú hefur ekki hundsvit á nema kannski í gegnum tölur á blöðum. Og ef þér líður eitthvað betur með það, þá máttu hæðast að minni reynslu eins og þú vilt. Ég hef þykkari skráp en það að láta það hafa mikil áhrif á mig. Ég hef verið Skipstjóri í þremur löndum fyri utan Ísland og það er mjög langt mál að rekja fyrirkomulag veiða á öllum þeim stöðum.

En varðandi gæði fisks, þá er það bara þannig að í öllum fiskveiðikerfum skipta gæðin miklu máli fyrir sjómanninn. Helsti munur á gæðum t.d. ísfisktogara í gamla daga annarsvegar og nú hinsvegar, er að í gamla daga voru túrarnir frá 14 til 18 dagar. En nú eru þeir yfirleitt ekki meira en 5 dagar. Þetta hefur ekkert með umgengni sjómannsins við fiskinn að gera. Heldur var og er þetta algerlega ákvörðun útgerðarmannsins.

Já Helga þannig er því farið í flestum byggðarlögum á Íslandi. Farðu bara niður á höfn í Reykjavík, þar eru ekki einusinni strandveiðar. Allir bátarnir bundnir við bryggju. Og ég hreinlega dáist að þeim fáu mönnum sem nenna að stunda strandveiðar, því þeir búa við svo miklar takmarkanir á því hvað má gera. Og ég leyfi mér að fullyrða hvar og hvenær sem er að ef allir aðrir sjómenn byggju við þær takmarkanir sem strandveiðimenn búa við. Þá færu þeir allir lóðbeint á hausinn, nema bestu strandveiðikarlarnir.

Það er sjómanninum alltaf í hag að koma með sem best hráefni að landi.

Að lokum vil ég segja það að með þessum risafrystitogurum er verið að sækja aflann með mikið færri mönnum en með mikið meiri tilkostnaði. Sem þýðir það að með stóru skipunum er aðallega verið að fóðra bankana. En með minni skipum fara verðmætin í gegnum miklu fleiri heimili í landinu. Vegna þess að það krefst fleiri manna á sjó og miklu fleiri afleidd störf í landi.

Þannig að þegar upp er staðið þá er þetta bara spurning um hvort við viljum nota auðlindina til að skapa störf í landinu eða til að fóðra erlenda r bankastofnanir.

Og af hverju búa strandveiðimenn við svona miklar skorður? Jú L.Í.Ú. er búið að telja þingmönnum trú um að smábátarnir valdi ofveiðinni. Trúir þú því virkilega Bjarni.

Steindór Sigurðsson, 17.8.2016 kl. 13:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband