Almannatryggingar - úrbætur

Það er engin hemja, að réttur þegnanna til greiðslu úr almannatryggingakerfi Tryggingastofnunar skuli vera skertar vegna greiðslu, sem sömu þegnar hafa unnið sér inn frá lífeyrissjóði sínum.  Þarna kemur ríkissjóður aftan að félögum í lífeyrissjóðunum og beitir þá misrétti miðað við hina, sem verið hafa á vinnumarkaðinum án þess að spara, t.d. til elliáranna, með inngreiðslum í lífeyrissjóð. 

Þann 19. september 2016 var undirritað samkomulag um jöfnun lífeyrisréttinda á vinnumarkaði á milli opinbera geirans og einkageirans.  Ríkissjóður  og sveitarfélögin brúuðu bilið, sem þurfti til samkomulags, með skuldbindingum um háar fjárhæðir, og samkomulagið er enn ein rósin í hnappagat fjármála- og efnahagsráðherra, því að nú loksins er lífeyriskerfi landsmanna sjálfbært og ríkissjóður ekki í ábyrgð fyrir afkomu lífeyrissjóða opinberra starfsmanna.  Jafnræði hefur náðst á vinnumarkaði varðandi lífeyrisréttindi. 

Þetta er stórt framfaraskref fyrir allt þjóðfélagið, og væri nú verðugt, að ráðherrann léti kné fylgja kviði á sviði lífeyrisréttinda og beitti sér fyrir afnámi téðrar neikvæðu tengingar lífeyrisgreiðslna frá lífeyrissjóðum og ellilífeyris frá Tryggingastofnun. 

Um þetta o. fl. skrifar Halldór Gunnarsson, fyrrverandi sóknarprestur í Holti, í þrælmagnaðri grein,

"Uppgjöf formanns LEB", 

sem birtist í Morgunblaðinu 15. september 2016:

"Vinstri stjórnin skerti kjör öryrkja og eldri borgara miskunnarlaust og kom á skerðingum, langt umfram alla aðra, þannig að eldri borgarar voru skertir, miðað við stöðuna í dag, um 150´000 kr á mánuði."

Þetta leyfði hin hraksmánarlega "norræna velferðarstjórn" sér að gera og þóttist þó hafa "myndað skjaldborg um heimilin".  Annað eins ginnungagap á milli orða og efnda hefur ekki myndazt á nokkru kjörtímabili á lýðveldistímanum, enda eiga viðkomandi tveir stjórnmálaflokkar fremur erfitt uppdráttar um þessar mundir, hvað sem verður.  Það er einfaldlega ekkert að marka vinstri menn. 

Fé Tryggingastofnunar ætti síðast af öllu að skerða, enda ekki feitan gölt að flá, og eitt fyrsta verk núverandi ríkisstjórnar var að afnema skerðingar á grunnlífeyri allra.

Í lok greinar sinnar skrifar Halldór í Holti:

"Um 40 þúsund eldri borgarar gera þá réttmætu kröfu, að lífeyrissjóðsgreiðslur, sem einstaklingar hafa áunnið sér með greiðslum af eigin launum, komi ekki til skerðingar á greiðslum Tryggingastofnunar með ólögum, sem fyrir löngu hefði átt að mæta með lögsókn til að sækja lögvarða eign einstaklinga í lífeyrissjóðum.  Formanni LEB hefði verið meiri sómi að því að beita sér fyrir þeirri lögsókn fremur en að mæla með samþykkt á uppfærðu lífeyriskerfi."

Óli Björn Kárason, sem hlut 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðismanna í "Kraganum", ritar vikulega í Morgunblaðið, og þann 7. september 2016 nefndist hugvekja hans,

"Frítekjumark er réttlætismál".  Þar skrifar þessi pólitíski hugsjóna- og baráttumaður m.a.:

"Frumvarp félagsmálaráðherra gerir ráð fyrir, að grunnlífeyrir, tekjutrygging og sérstök uppbót til framfærslu, verði sameinuð í einn bótaflokk, ellilífeyri.  Fjárhæð sameinaðs bótaflokks verður 212´776 kr á mánuði.  Heimilisuppbót til þeirra, sem búa einir, helzt óbreytt.  Tekjur eldri borgara verða meðhöndlaðar með sama hætti, óháð uppruna (atvinnutekjur, fjármagnstekjur og lífeyrissjóðstekjur).  Frítekjumörk verða afnumin, en fjárhæð ellilífeyris skerðist um 45 % vegna vegna tekna frá öðrum en almannatryggingum, en þó ekki vegna greiðslna séreignarlífeyrissparnaðar."

Þetta er gott og blessað, en þó er nauðsynlegt að gera við þetta 2 athugasemdir, svo að sanngirni sé gætt í garð iðgjaldagreiðenda lífeyrissjóða og þeirra, sem einvörðungu fá ofangreindar 212´776 kr sér til framfærslu.  Er þá vísað til stefnumiðs Sjálfstæðisflokksins um afnám tekjutenginga ellilífeyris. 

  1. Skattleysismarkið er nú 145´000 kr á mánuði.  Þetta þarf að hækka upp í ellilífeyrismörkin eða um 47 %.  Það er engin hemja að skattleggja tekjur eða lífeyri, sem eru undir fátæktarmörkum.  Ef þetta er talið of dýrt fyrir ríkissjóð, verður að flækja þetta með því, að þeir, sem eru með tekjur yfir skilgreindum framfærslumörkum af Hagstofunni, verði með neðri skattleysismörkin, 145 kkr, en hinir með hin efri, 213 kkr. 
  2. Frumvarp félagsmálaráðherra afnemur núverandi frítekjumark, 110´000 kr á mánuði, fyrir greiðslur ellilífeyris frá Tryggingastofnun.  Þetta er ekki í takti við tímann, þegar æ stærri hluti fólks, sem kemst á ellilífeyrisaldur, hefur starfsþrek og áhuga á að vinna sér inn aukatekjur.  Með frumvarpinu er fólk latt til að vinna á efri árum, því að 45 % teknanna dragast frá greiðslum Tryggingastofnunar.  Það er óeðlilegt, að jaðarskattur á aðrar tekjur eldri borgara en greiðslur frá Tryggingastofnun sé 45 %.  Annaðhvort þarf að lækka þennan jaðarskatt, t.d. niður í 25 %, eða að innleiða frítekjumark í nýju lögin, t.d. 110´000 kr.     

Um þetta skrifar Óli Björn í Morgunblaðið í téðri grein:

"Með innleiðingu frítekjumarks verður eldri borgurum gert kleift að bæta sinn hag verulega.  Þetta ættu þingmenn að hafa í huga, þegar þeir ganga til þess verks að afgreiða frumvarp félagsmálaráðherra."

Til að létta undir með ríkissjóði er sjálfsagt að hækka eftirlaunaaldurinn.  Meðalaldur við dauðsfall er um aldarfjórðungi hærri nú á Íslandi en var í Þýzkalandi um 1880, þegar járnkanzlarinn, Otto von Bismarck, lagði til við þýzka þingið, Reichstag, að sameiginlegu tryggingakerfi yrði komið á laggirnar fyrir allt Þýzkaland, sem þá var nýsameinað.  Þetta var svar hans við þjóðfélagsbreytingum, sem af iðnvæðingunni leiddu og bættu hag verkalýðsstéttanna til muna, svo að ekki sé nú minnzt á miðstéttina.  Vaxandi þrýstings um aukin réttindi gætti að hálfu þessara stétta á þá, sem enn höfðu tögl og hagldir í þjóðfélaginu, aðalinn, sem missti ekki tök sín á þjóðfélaginu fyrr en í kjölfar hildarleiksins 1914-1918.  Nú er gerjun í íslenzka þjóðfélaginu, enda lýðfræðilegar breytingar hafnar, sem krefjast framtíðarhugsunar við lagasetningu.

Lýðfræðileg staða Íslands er tekin að snúast á verri veg, eins og tók að gæta annars staðar á Vesturlöndum fyrir síðustu aldamót og í Japan verulega um 1990.  Meðalaldur þjóðanna hækkar vegna lítillar viðkomu.  Það þýðir, að hlutfallslega fækkar þeim, sem eru á aldrinum 18-67 ára, en þeim, sem eru 67 ára og eldri fjölgar hlutfallslega.  Nú eru um fimmfalt fleiri á vinnumarkaðsaldri en nemur fjölda eldri borgara, en eftir tvo áratugi gæti þetta hlutfall hafa helmingazt. Eldri borgarar, 67+, stefna á að verða a.m.k. fjórðungur íslenzku þjóðarinnar, og í mörgum löndum er sú nú þegar orðin raunin.  Þeir eru nú í fjárhagslegri spennitreyju ríkisvaldsins, sem líkja má við fátæktargildru, þar sem þeim eru allar bjargir bannaðar.  Það verður þegar í stað að gera bragarbót á og draga úr þungri refsingu kerfisins fyrir að sýna sjálfsbjargarviðleitni. Slíkar refsingar koma ætíð niður á hagsmunum heildarinnar, en það skilja ekki jafnaðarmenn. 

Almannatryggingakerfið er augljóslega ósjálfbært núna, og þess vegna er brýnt að hækka eftirlaunaaldurinn, þó ekki um 25 ár með vísun í þróunina frá upphafi almannatryggingakerfisins, heldur um t.d. 6 mánuði á ári f.o.m. 2018 þar til 70 árum er náð 2024, og endurskoða þá stigulinn.  Jafnframt ætti að gera aldursmörk fyrir elilífeyri sveigjanleg, svo að t.d. mætti hefja töku 50 % ellilífeyris 65 ára, sem þá mundi lækka réttindin við lögboðinn ellilífeyrisaldur, eins og fresta mætti töku ellilífeyris þá gegn hækkun fram að 75 ára aldri. Í raun og veru þarf að aðlaga vinnumarkaðinn að breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar og mjög mismunandi heilsufari hennar við aldursmörk ellilífeyris. Um þetta o.fl. skrifar Óli Björn í téðri Morgunblaðsgrein.

"Kostnaður við frítekjumarkið er verulegur, en á móti er hægt að ganga rösklegar til verka við hækkun eftirlaunaaldurs.  Frumvarp félagsmálaráðherra gerir ráð fyrir, að eftirlaunaaldurinn hækki í áföngum í 70 ár á næstu 24 árum, og er það í samræmi við tillögur Pétursnefndarinnar. Í bókun með tillögunum undirstrikaði ég, að gengið væri of skammt og að miklu skipti, að hækkun lífeyrisaldurs kæmi til framkvæmda á ekki lengri tíma en næstu 15 árum.  Um leið var bent á, að stjórnvöld yrðu að meta kosti og galla þess að setja inn í lög ákvæði um reglubundna endurskoðun lífeyrisaldurs út frá lífaldri, sem stöðugt verður hærri."

Eldri borgarar eru mjög mismunandi hópur og samtímis mjög stækkandi hópur.  Þessi hópur á, eins og allir aðrir hópar í samfélaginu, rétt á að geta notað krafta sína til að efla sinn hag án þess að verða refsað harðlega fyrir það af ríkisvaldinu, og hinu sama ríkisvaldi ber á sama tíma skylda til að breyta umgjörð tryggingakerfisins til aukins sveigjanleika til að mæta breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu.  Hvaða stjórnmálaflokkur er líklegastur til að taka frumkvæði með ferskri hugsun, sem tekur mið af þróuninni ?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Þó að ég sé alls ekki á móti því að ellilífeyrir hækki þá er einn grundvallarmisskilningur á ferðinni varðandi almannatryggingarbæturnar. Þær voru allt frá upphafi settar á til að allir fengu fullan ellilífeyri. Ekki viðbót við lífeyrisgreiðslur. Þetta er trygging eins og nafnið gefur til kynna. Ef tilgangur almannatrygginga yrði endurskoðaður þannig að allir fengu 200000 út úr tryggingunum + áunnar lífeyrissjóðsgreiðslur væri komið ójafnvægi. Öryrkar fengu minna en allir aðrir vegna þess að þeir eru ekki í aðstöðu til að afla lífeyrisréttinda.

Jósef Smári Ásmundsson, 25.9.2016 kl. 08:08

2 Smámynd: Þórir Kjartansson

,,Hvaða stjórnmálaflokkur er líklegastur til að taka frumkvæði með ferskri hugsun, sem tekur mið af þróuninni " spyrð þú Bjarni og þegar stórt er spurt verður fátt um svör. Augljóst að hvorki Framsókn eða Sjálfstæðisflokkurinn munu bæta hag eldri borgara. Lofuðu báðir fyrir síðustu kosningar að afnema skerðingarnar og sviku báðir. Samfó og VG? Valt að treysta því þó þeim stæði það næst. Þú minnist réttilega á mál sem lítið er talað um í þessari umræðu sem eru skattleysismörkin. Það er auðvitað forkastanlegt að taka skatta af bótum sem viðurkennt er að enginn getur lifað af. Svo er fjallvitlaust og þjóðhagslega óhagkvæmt að gera eldri borgurum sem vilja vinna það ómögulegt. Og flytja svo frekar inn erlent starfsfólk til að vinna þessi störf. Fólk sem að hluta til sendir peningana úr landi. Skýlaus krafa hlýtur að vera sú, að færa eftirlaunin að lægstu löglegum launatöxtum, afnema skerðingarnar algerlega og stórhækka skattleysismörk.

Þórir Kjartansson, 25.9.2016 kl. 09:30

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jósef Smári, og þakka þér fyrir athugasemd þína.

Almannatryggingarnar eru eldri en lífeyrissjóðirnir, og hinir síðar nefndu voru stofnaðir til að verða viðbót við almannatryggingarnar.  Launþegum var síðar gert skylt að greiða iðgjald í lífeyrissjóð, og lífeyrissjóðir urðu þá kjölfestan í sparnaði landsmanna.  Þegar sjóðunum óx fiskur um hrygg, nýtti ríkisvaldið tækifærið til að skerða greiðslur almannatrygginga.  Þetta var óheiðarlegt og sumir telja þetta ólöglega eignaupptöku.  Þessa skerðingu ber að afnema og draga úr öðrum, enda draga þær úr sjálfsbjargarviðleitni, sem er óheilbrigt.  Þetta er eðlilegt sjónarmið í ljósi þess, að ellilífeyririnn er nú langt undir opinberum viðmiðunarmörkum framfærslukostnaðar.  Það er rétt, að fólk aflar mismikilla lífeyrisréttinda, en það á ekki að hamla framgangi réttlætis í þessu máli.  Skattlagning og tekjuskerðing örorkulífeyris á heldur ekki að viðgangast. 

Bjarni Jónsson, 25.9.2016 kl. 11:15

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Þórir;

Sumarið 2013, skömmu eftir valdatöku "Laugarvatnsstjórnarinnar", afnam hún skerðingar á grunnlífeyri, en betur má, ef duga skal, og ný lög, reist á niðurstöðu "Pétursnefndarinnar", verða til bóta.  Það er rangt, að SF og VG standi úrbætur á þessu sviði næst.  Þetta eru flokkar sérvizku og gæluverkefna, sem hafa aðeins áform um skattahækkanir, sem leiða munu til minni hagvaxtar, og lausatök á ríkisfjármálunum munu valda verðbólgu.  Ferill hinnar "tæru" vinstri stjórnar er víti til varnaðar.  Þegar öllu er á botninn hvolft, mun hámörkun hagvaxtar á hvern íbúa verða sú efnahagsstefna, sem líklegust er til að jafna lífskjörin í landinu og gera kleift að koma hér á mannsæmandi almannatryggingakerfi án lamandi skerðinga á afrakstur framtaks skjölstæðinga þess.  Ástæðan fyrir því, að þessi þróun verður knúin fram, ef geta ríkissjóðs leyfir, er sífellt vaxandi fjöldi eldri borgara, og þeir mæta einna bezt allra hópa á kjörstað. 

Bjarni Jónsson, 25.9.2016 kl. 11:31

5 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Vinstri stjórnin tók við 216 milljarða ríkissjóðshalla eftir hrun í boði stjórnarstefnu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarlfokks. Hún var því tilneydd til að bæði hækka skaatta og skera verulega niður í ríkisfjóarmálum. Til að gera það var nauðsynlegt að spara líka í almannatryggingakerfinu vegna þess hversu stór hluti ríkisfjármála sá málaflokkur er. Það var aldrei raunhæfur möguleiki á að ná fram þeim aparnaði sem til þurfti án þess að fafa í það stóran málaflokk. Hins vegar var skorið mun minna niður í þeim málaflokki en öðrum og niðurskurðurinn framkvæmdur þannig að hann bitnaði sem minnst á þeim sem verst stóðu. Það er aðeins Byrgðunum var því ekki dreift flatt á alla eins og gert var í nágrannalöndum okkar sem fóru illa út úr fjármalakreppðuni eins ot til dæmis í Írlandi og hefði án efa verið gert ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði fengið að stýra aðgerðum eftir hrun. 

Það er því þvæla að ekki hafi verið staðið við loforðið um að slá skjaldborg um heimilin. Þeir sem hafa skilið þau orð sem svo að það ætti að bæta kjör heimila með ríkissjóð með meira en 20% halla hafa einfaldlega ekki verið í jarðsambandi.

En hvað varðar söguskýringar hér varðandi tengsl lífeyrssjóða við almannatryggingar þá er það rangt að í upphafi hafi þeir átat að vera viðbót við allar tekjur lífeyrisþega. Þær áttu að vera við grunnlífeyri. En vegna þess að menn vissu að það tæki áratugi áður en fram kæmu ellilífeyrisþegar með mikin rétt úr lífeyrissjóði var ákvdðið að bæta við nýjum bótaflokk sem fékk nafnið tekjutrygging sem átti að brúa bilið þangað til. Það stóð því alltaf til að tekjur úr lífeyrissjóðum ættu að koma í stað tekutryggingar og aðeins vera viðbót við ellilífeyrinn. En á þessum tíma var reyndar ellilífeyririnn hærri en tekjutryggingin en er núna innan við fjórnðungur af upphæð tekjutryggingar og innan við fimmtungur af heildarréttindum tekjulausra lífeyrisþega.

En það hefur margt annað breyst síðan þessi stefna var tekin. Þá sáu menn ekki fyrir þann mikla samdrátt í fæðingartíðni sem breytir til hins verra aldursssamsetningu þjóðarinnar og þar af leiðandi möguleikum skattgreiðenda til að fjármagna lítið eða ekkert tekjutengdar bætur sem þó dugi einar og sér til viðunandi framfæraslu. Vegna þessarar þróunar er staðan sú að við verðum að velja milli þess að greiða ellilífeyri með litlum eða engum tekjutengingum eða að greiða ellilífeyri sem einn og sér dugar til viðunandi framfærslu. Það er að mínu mati fullkomlega órauhnæft að ætla að við getum gert bæði. Þess vegna muni afnám tekjutenginga í almannatryggingakerfinu leiða til aukinnar fátæktar meða ellilífeyrisþega. 

Það er hægt að tala um almannatryggingarkerfi með tekjutengingum og það er einnig hægt að tala um almannatryggingarkerfi sem forgangsraðar í þágu þeirra tekjulægstu. Síðari lýsingin hljómar mun betur en sú fyrri en báðar lýsingarnar eru að lýsa sama fyrirbærinu.

Sigurður M Grétarsson, 25.9.2016 kl. 13:11

6 Smámynd: Þórir Kjartansson

Sæll aftur Bjarni og takk fyrir svarið. Breytingin á sumarþinginu eftir valdatöku ,,Laugarvatnsstjórnarinnar" var alger sýndarmennska sem breytti sáralitlu. Eins og þú sjálfsagt veist eru eftirlaun aldraðra byggð upp af þrem þáttum: Ellilífeyri, tekjutryggingu og framfærsluuppbót. (Sem gera nú samt.kr. 212,776,-) Orðhengilshátturinn var sá að það væru minnkaðar skerðingar á ,,grunnlífeyri" Eftir sem áður skertist framfærsluuppbótin krónu á móti krónu, hvaða tekjur sem fólk hafði, nema framfærslustyrk frá sveitarfélagi. En stundum dettur manni til hugar að þó stjórnmálamenn vilji eitthvað bæta kjör þessa hóps þá sé kerfið svo flókið að erfitt sé að sjá fyrir endanlega útkomu. Þess vegna verður að taka þetta algerlega í gegn frá grunni og sú breyting sem nú liggur fyrir þinginu er bara enn ein skóbótin ofaná allar hinar.

Þórir Kjartansson, 25.9.2016 kl. 13:27

7 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Það má benda á það í samræmi við það sem Þórir segir hér að ogan að afnám tekjutengingar lífeyrissjóðstekna við ellilífeyri hefur engin áhrif á bótarétt þeirra sem eru með undir 350 þúsund. kr. á mán.í tekjur frá öðrum en TR. Það stafar af því að tekjuskerðing ellilífeyris dregst frá tekjuskeringu tekjutryggingar og þess vegna hefur hækkun ellilífeyris vegna þessarar breytingar þá afleiðingu að tekjutryggingin lækkar á móti um sömu krónutölu. Það er því ekki fyrr en tekjur eru orðnar það háar að ekki er til staðar réttur til tekjutryggingar sem þessi aðgerð leiðir til hækkunar á bótagreiðslum í heildina.

Þó vissulega sé tillaga að breyttu kerfi langt frá því að vera fulllkomin þá leiðir slík breyting ef af verður til mikillar einföldunar kerfisin og eyðir krónu á móti krónu tekjuskerðingunum.

Sigurður M Grétarsson, 25.9.2016 kl. 13:37

8 Smámynd: Þórir Kjartansson

Að mínu áliti,Sigurður, hefur hver og einn þjóðfélagsþegn með sínu æfistarfi lagt þjóðfélaginu til þá framlegð að hann eigi þar inni lágmarks framfærslu eftir að vinnudegi lýkur. Þar verður aldrei hægt að meta hver hefur unnið þjóðfélaginu mest gagn og hver minna. Húsmóðir, háskólamaður eða verkamaður. Eitt er þó víst, og nýleg dæmi sanna það, að margur hámenntaður hálaunamaður hefur unnið þjóðfélaginu mikinn skaða sem ómenntaði verkamaðurinn getur aldrei komist í aðstöðu til. Þrátt fyrir fyrirsjáanlega breytingu á aldurssamsetningu er þetta vel hægt. Það eru til nægir peningar í þessu þjóðfélagi, bara spurning um hvernig kökunni er skipt. Það er líka sífellt verið með hræðsluáróður varðandi lífeyrissjóðina vegna þessara breytinga á aldurssamsetningu þjóðarinnar. Í dag kemur u.þ.b. helmingi hærri upphæð inn í lífeyrissjóðina en út úr þeim er greitt. Samt tala menn um að hækka þurfi lífeyrisaldur og fara með inngreiðslur í 15,5% af launum. Þetta kerfi er líklega enn verra en almannatryggingarkerfið og þarfnast algers uppskurðar og endurhönnunar.

Þórir Kjartansson, 25.9.2016 kl. 13:45

9 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Sigurður, og þakka þér fyrir fróðlega athugasemd.  Það er séríslenzk söguskýring, að fall einkabanka hafi verið stjórnmálaflokkum að kenna.  Ef einhver stjórnmálaflokkur er sekur, er það sá í Bandaríkjunum, sem stóð að því að auðvelda fólki þar að eignast húsnæði, sem í raun hafði ekki efni á því, og gjörningurinn var fjármagnaður með s.k. "eitruðum" vafningsskuldabréfum, sem leiddu til falls Lehman Brothers 15.09.2008, og varð þá alger lausafjárþurrð á heimsmörkuðunum, eins og kunnugt er, en íslenzku bankarnir voru með risaskuldir, sem ekki var unnt að standa undir við þessar aðstæður.  Ekki má gleyma, að Samfylkingin sat í ríkisstjórn á Íslandi, er þetta var, og formaður hennar var utanríkisráðherra, ferðaðist um heiminn og bar lof á íslenzku útrásarvíkingana.  Samfylkingin gerði aldrei neina tillögu um að vinda ofan af vitleysunni, sem þá var í gangi, og minnka bankakerfið, og hún var óttalega gagnslítil í Hruninu sjálfu.  Vinstri stjórnin reyndist vera handbendi AGS, eða öllu heldur gólftuska, og þess vegna var ráðizt á innviði samfélagsins með mjög óvægnum hætti, en samt var alltaf ríkissjóðshalli hjá vinstri stjórninni.  Aldrei datt henni í hug að leggja byrðar á þrotabúin og nýju bankana og leysa vanda ríkissjóðs með þeim hætti.  Það gerði aftur á móti "Laugarvatnsstjórnin", og nú er svo komið, að ríkissjóður ber ekki beinlínis skarðan hlut frá borði eftir þá hroðalegu atburði, sem hér urðu 2008.  Þeir voru látnir borga, sem ollu tjóninu.  Þetta hefði AGS aldrei samþykkt, og ESB hefði einnig rekið upp ramakvein á meðan á viðkvæmum aðildarviðræðum stóð. 

Í frumvarpi núverandi félagsmálaráðherra er gert ráð fyrir sameiningu grunnlífeyris, tekjutryggingar og sérstakrar uppbótar til framfærslu í einn bótaflokk, ellilífeyri TR, 213 kkr/mán.  Þetta kostar ríkissjóð um 100 miakr/ár, sem er um 4 % af VLF.  Ég tel, að ríkissjóður muni hafa efni á þessu (um 14 % útgjalda) án skerðinga vegna tekna frá lífeyrissjóðum og að þessi ellilífeyrir eigi jafnframt að vera skattfrjáls. Ekki má gleyma, að hluti af þessu kemur til baka með neyzlusköttum, og gæti þessi bragarbót fylgt einföldun VSK-kerfisins úr 2 í 1 þrep. Þetta þarf þó að gerast í áföngum á u.þ.b. 5 árum og fylgja þannig lækkun á skuldabyrði ríkisins og vaxtagreiðslum hans.  Hækkun lífeyrisaldurs er skilyrði þess, að þetta gangi upp. 

Bjarni Jónsson, 26.9.2016 kl. 10:16

10 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Þórir; ég er sammála þér um það, að uppstokkunar og einföldunar er þörf.  Það er langt síðan ríkisvaldið tók að sér (af hreppunum) að tryggja framfærslu aldraðra.  Lífeyrissjóðirnir komu síðar, og þeir gegna margvíslegu öryggishlutverki.  Vegna þeirra verður ellilífeyrir TR sennilega alltaf undir viðurkenndum framfærslumörkum, en eins og staðan er núna er hrottalega hár jaðarskattur á greiðslur úr lífeyrissjóðum, tekjuskattur + skerðing lífeyris TR, og það er mjög ósanngjarnt, þar sem líta verður á lífeyrissjóðina svipuðum augum og hvern annan sparnað félaganna.

Bjarni Jónsson, 26.9.2016 kl. 10:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband