Vaxandi spenna í Evrópu

Niðurstöður nýlegra fylkiskosninga í Þýzkalandi sýna, að geð kjósenda er verulega tekið að grána.  Ein ástæðan er hár kostnaður við móttöku framandi hælisleitenda, frumstæð hegðun þeirra og slæmt heilsufar margra flóttamanna frá Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, en einnig er mjög vaxandi óánægja með ofurlága vexti, sem margir Þjóðverjar, Austurríkismenn, Hollendingar o.fl. telja til þess fallna að flytja mikla fjármuni frá sparendum í norðri til skuldara í suðri.

Vaxandi fylgi hægri flokksins, AfD - Alternative für Deutschland, er engin tilviljun, heldur viðbragð kjósenda við þeirri þrúgandi stöðu, að hælisleitendur leggjast af miklum þunga á innviði Þýzkalands, húsnæðisframboð minnkar, og lágir vextir valda óeðlilegum hækkunum á húsnæði í þokkabót, álag á sjúkrahúsin eykst m.a. vegna framandi sjúkdóma, sem fylgt hafa hælisleitendum, og fjöldi atvinnulausra vex úr 2,5 milljónum vegna innflæðis fólks og stöðnunar atvinnulífs, sem lágir vextir og peningaprentun hafa ekki hrinið á. 

Því miður versnar ástandið stöðugt í Sýrlandi, og þurrkar í Norður-Afríku valda uppskerubresti, svo að ekki hillir undir, að hælisleitendur verði fluttir til baka, eins og Angela Merkel þó hefur talað um, að stefnt væri að.  Um hrikalega hegðun hælisleitenda og stórfelld samskiptavandamál er yfirleitt þagað þunnu hljóði enn sem komið er.  Óánægjan fær útrás m.a. með því að kjósa AfD, enda lofast þau til að taka innflytjendamál og "islamvæðingu Evrópu" föstum tökum.   

Víkjum nú að efnahags- og peningamálum ESB með því að styðjast við grein í "The Economist", 30. apríl 2016, "Mario battles the Wutsparer" (Mario [Draghi] berst við reiða sparendur (innistæðueigendur)):

"Þjóðverjar njóta þess að spara.  Þeim finnst siðferðislega rangt að taka lán", segir Reint Gropp, þýzkur hagfræðingur.  Á þýzku og hollenzku þýðir skuld sekt, "Schuld".

Germanskar þjóðir á borð við Þjóðverja, Austurríkismenn og Hollendinga, eiga háar upphæðir á bankareikningum sínum.  Þeir högnuðust þess vegna á háum vöxtum.  Á síðustu árum hafa vextir fallið niður að núlli, og við þessar aðstæður hefur magnazt óánægja í þessum löndum, af því að íbúunum er ekki umbunað fyrir ábyrga fjármálahegðun, og þeir hafa nú fundið blóraböggul: Evrubankinn, ECB, og hans grunsamlegi ítalski formaður bankastjórnar, Mario Draghi. 

Í apríl 2016 réðist þýzki fjármálaráðherrann, Wolfgang Schäuble, á ECB fyrir neikvæða stýrivexti og peningaprentun og sakaði Mario Draghi um að bera ábyrgð á uppgangi, AfD, sem í fylkiskosningum í sumar stórjók fylgi sitt á kostnað flokks fjármálaráðherrans og kanzlarans, CDU. 

Sannleikurinn er sá, að lágvaxtastefna ECB veldur bönkum á evrusvæðinu mjög miklum erfiðleikum.  Nú hafa t.d. borizt fregnir af veikri stöðu eins stærsta banka Þýzkalands, fjárfestingarbankans Deutsche Bank-DB.  DB stendur í alþjóðlegum viðskiptum, hefur tapað stórum fjárhæðum á þeim og verið ákærður fyrir sviksamlega viðskiptahætti í Bandaríkjunum-BNA, sem geta kostað hann um miaUSD 10 í sektum.  Virði hlutabréfa bankans hefur fallið um meira en helming á rúmu ári, sem þýðir, að ótti hefur grafið um sig um afdrif bankans. 

Upplýsingar um of veika eiginfjárstöðu banka í BNA bætast við fregnir af tæpri stöðu ítalskra banka.  Þetta eru allt aðvörunarmerki um það, að bankakerfi heimsins þoli ekki lágvaxtastefnu stærstu seðlabanka heimsins, og þess vegna gæti orðið nýtt alþjóðlegt bankahrun innan tíðar.  Angela Merkel þorir ekki að koma DB til bjargar af ótta við þýzka kjósendur í kosningum til Bundestag að ári liðnu.  Þetta ástand getur leitt til fyrirvaralauss áhlaups á sparibanka Evrópu, sem leitt getur af sér bankahrun.  Ríkissjóðir flestra ríkja Evrópu eru ekki lengur í stakkinn búnir að hlaupa undir bagga með bönkum, svo að væntanleg bankakreppa verður öðruvísi og víðast líklega enn alvarlegri en 2007-2008. 

Á Íslandi er eiginfjárstaða stærstu bankanna þriggja með traustasta móti, en ef ratar sitja í Stjórnarráðinu, þegar ósköpin dynja yfir, munu þeir örugglega ekki rata á beztu lausnirnar, heldur gætu þeir hæglega magnað vandann með aðgerðarleysi eða örvæntingarfullu fáti með grafalvarlegum afleiðingum fyrir ríkissjóð, sparifjáreigendur og alla landsmenn. Það er vert að hafa þetta sjónarmið ofarlega í huga, þegar gengið verður til kosningu 29. október 2016.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband