Eyðandi afleiðingar uppboðsleiðar

Maður hefur gengið undir manns hönd í fræðaheiminum, innlendir sem erlendir, að vara Íslendinga við að taka kollsteypu með fiskveiðistjórnunarkerfi sitt, sem almennt er viðurkennt, að tekizt hafi með ágætum að tryggja líffræðilega og efnahagslega sjálfbærni veiðanna. 

Það fullnægir m.a. eftirfarandi grundvallarskilyrðum:

  • Aflahlutdeildarkerfið hefur í sér hvata fyrir útgerðarmenn og sjómenn til að stunda líffræðilega sjálfbærar veiðar.
  • Frjálst framsal aflahlutdeilda felur í sér hvata fyrir útgerðir til fækkunar skipa, en veiðigeta flotans er enn langt umfram það, sem veiðistofnar þola. 
  • Kerfið felur ekki í sér rentusækni, þ.e.a.s. í því er frjáls samkeppni um veiðiheimildirnar, og það er frjáls samkeppni um sölu afurðanna á mörkuðunum, aðallega erlendis.
  • Aflahlutdeildarkerfi með frjálsu framsali aflaheimilda er þjóðhagslega hagkvæmt.  Þetta felur í sér, að ekkert annað fiskveiðistjórnunarkerfi gagnast almenningi betur fjárhagslega.  Af þessu leiðir, að skattspor sjávarútvegsins verður stærst með þessu kerfi og hóflegum veiðigjöldum á bilinu 2 % - 5 % af verðmæti afla upp úr sjó, háð afkomu veiðanna. 

Dæmi um ytri áhrifaþætti á afkomu sjávarútvegsins er gengi ISK.  Á fyrstu 7 mánuðum 2016 hefur útflutningsverðmæti sjávarafurða minnkað um miaISK 22, m.v. sama tímabil 2015, eða tæplega 14 %. Gefur þá auga leið, að hagnaður dregst saman í greininni. Aðalskýringin á þessu er hækkun íslenzku krónunnar, sem kemur reyndar niður á arðsemi allra útflutningsfyrirtækja hérlendis og ferðaþjónustunni.   Þess vegna mætti stýra veiðigjöldunum á ofangreindu bili eftir gengisvísitölu.

 

Þann 28. september 2016 birtist, eins og skrattinn úr sauðarleggnum m.v. ofangreint, grein í Fréttablaðinu:

"Fyrningar- og uppboðsleið: Málamiðlun í kvótamálum" eftir Bolla Héðinsson, hagfræðing, og Þorkel Helgason, stærðfræðing.  Hún sýnir, að vindmylluriddarar uppboðsleiðarinnar eru ekki af baki dottnir, enda hafa nokkrir stjórnmálaflokkar í landinu gert þessa stefnu að sinni í sjávarútvegsmálum, a.m.k. Píratahreyfingin, Samfylking og Viðreisn, og mælt með henni nú í kosningabaráttunni.  Glefsum í greinina:

"Sú breyting, sem kallað er eftir, þarf ekki og á ekki að valda kollsteypum, eins og sumir óttast og aðrir hræða með."

Það er kolrangt hjá þeim tvímenningum, að uppboðsleiðin mundi ekki valda kollsteypu, ef svo ólíklega skyldi fara, þvert á heilbrigða skynsemi, að hún yrði látin taka hér við af aflahlutdeildarkerfinu. 

Þvert á móti mundi þokkaleg og batnandi eiginfjárstaða útgerðarfélaganna, 32 % eiginfjárhlutfall, hverfa eins og dögg fyrir sólu, og eftir stæðu útgerðir á gjaldþrotsbarmi með neikvæða eiginfjárstöðu upp á miaISK 46. Þetta er ekki hræðsluáróður blekbónda og hans nóta, heldur var þessi sviðsmynd dregin upp í viðtali Kjartans Stefánssonar við Jónas Gest Jónasson, sviðsstjóra viðskiptalausna hjá Deloitte í Fiskifréttum, 29. september 2016:

""Ef ríkið tekur allar aflaheimildir af útgerðinni án þess, að gagngjald komi fyrir [verðmæti a.m.k. miaISK 250 - innsk. BJo], þarf að gjaldfæra þær í ársreikningum útgerðanna, sem þá mundi þýða, að bókfært eigið fé sjávarútvegsfélaga samkvæmt tölum Hagstofunnar myndi lækka um sem nemur bókfærðu verði aflaheimilda, sem er 249 milljarðar kr [í árslok 2014], og til viðbótar lækka aflaheimildir, sem skráðar eru í ársreikningum á formi yfirverðs við kaup á eignarhlutum í sjávarútvegsfyrirtækjum að verðmæti um 25 milljarðar kr, sem eignfærðar eru í áhættufjármunum inni í bókfærðu verði eignahluta í öðrum sjávarútvegsfélögum.  Til hækkunar á móti kemur tekjuskattsskuldbinding vegna aflahlutdeilda, sem er áætluð um 43 milljarðar kr. 

Við áætlum því, að bókfært eigið fé gæti lækkað um 231 milljarð kr [249+25-43=231] og bókfært eigið fé yrði þannig neikvætt um 46 milljarða kr miðað við árslok 2014", sagði Jónas Gestur.  [185-231=-46, þar sem miaISK 185 var bókfært eigið fé sjávarútvegsfélaga í árslok 2014 - innsk. BJo.]

Hér er sem sagt um mikinn viðsnúning að ræða, því að eiginfjárhlutfall útgerðarinnar færi úr 32 % [185/574=0,32] í það að vera neikvætt um 46 milljarða kr [=-13 %].  Ef hluti aflahlutdeildanna yrði settur á uppboð og ekkert gagngjald kæmi fyrir, myndi bókfærð eign lækka um hlutfall þeirra af eignfærðum aflahlutdeildum."

Ef þessi sviðsmynd Deloitte gengur eftir, jafngildir hún vissulega fjárhagslegri kollsteypu sjávarútvegsins, gjaldþroti flestra útgerðarfyrirtækjanna og mikilli veikingu fjármálakerfisins í landinu.  Hér er um að ræða jafngildi klassískrar kommúnistabyltingar, eins og menn sáu síðast raungerast í Venezúela, sem nú er á gjaldþrotsbarmi. Í þessu sambandi má vitna í Lars Christensen, alþjóðahagfræðing, sem í grein sinni í Markaðnum/Fréttablaðinu:

"Þyngdaraflið verður ekki hunsað-Tilfelli Venesúela", skrifaði í lokin:

"Niðurstaðan er sú, að ekki einu sinni sósíalistar geta hunsað hið hagfræðilega þyngdarafl.  Fyrr eða síðar tekur raunveruleikinn við.  Því miður er efnahagslegt og þjóðfélagslegt hrun Venesúela enn einn vitnisburðurinn um, að sósíalismi endar alltaf með hörmungum." 

Téðir tvímenningar halda hins vegar áfram í Fréttablaðinu með sína útgáfu af sósíalisma:

  • "Breytingar hafi eðlilegan aðdraganda."  Hér er sennilega átt við, að "fyrningin" eigi sér stað á tilteknu árabili, og eru 5-10 ár oftast nefnd í því sambandi.  Það hefur engin önnur áhrif á sjávarútveginn en að hægja á dauðastríði fyrirtækjanna.  Er það einhver kostur ?
  • "Nýtt fyrirkomulag feli í sér vissa festu bæði fyrir sjávarútveginn og þjóðina."  Að nefna þetta í samhengi við uppboðsleiðina felur í sér örgustu öfugmæli, því að augljóslega felur uppboðsleið í sér mjög aukna óvissu fyrir útgerðir, fiskvinnslufyrirtæki, starfsmenn og byggðarlögin, þar sem þau hafa starfsemi, svo að ekki sé nú minnzt á viðskiptasamböndin.  Jafnframt er gjaldið, sem ríkissjóður innheimtir með þessum hætti, algerlega undir hælinn lagt, eins og tilraunauppboð Færeyinga sumarið 2016 leiddi í ljós.
  • "Með breyttu kerfi sé stuðlað að auknu aðgengi fyrir nýliða."  Það er órökstutt, hvernig uppboðsleið getur stuðlað að aukinni nýliðun í greininni, og sú varð alls ekki raunin í tilraunauppboðum Færeyinga sumarið 2016, þar sem engin nýliðun varð. 
  • "Fullt gegnsæi í ráðstöfun aflaheimilda."  Vantar eitthvað upp á þetta í núverandi kerfi á Íslandi ?  Fram kom í kjölfar tilraunauppboðs Færeyinga með aflaheimildir á skipti- og/eða deilistofnum í sumar, þar sem fáeinir aðilar hrepptu allt, að grunur léki á um, að sá, sem mest fékk, væri leppur fyrirtækis í Hollandi, sem vantaði fisk.  Ekki var nú gegnsæinu með ráðstöfun aflaheimilda fyrir að fara þar.  Hvernig á að koma í veg fyrir það, að sama verði uppi á teninginum hérlendis, þ.e. leppar fjársterkra aðila bjóði í aflaheimildir ? 
  • "Auðlindaarðurinn skili sér til þjóðarinnar."  Auðlind hefur ekkert gildi út af fyrir sig, nema hún sé nýtt.  Til nýtingar og verðmætasköpunar þarf fólk, fjármagn, tæki og þekkingu, sem saman kemur í fyrirtæki, ásamt markaði. Hér að ofan hefur komið fram, að uppboðsleiðin rústar fjárhag útgerðarfélaganna gjörsamlega.  Þetta hefur óhjákvæmilega neikvæð áhrif á verðmætasköpunina, og hinu sama gegnir þá um "auðlindaarðinn til þjóðarinnar".  Það er samdóma niðurstaða ýmissa hagfræðinga, sem sérfróðir eru í auðlindahagfræði og undirgrein hennar, fiskihagfræði, að hámarks verðmætasköpun í sjávarútvegi næst með núgildandi fiskveiðistjórnunarkerfi, sem reist er á vísindalegu afmörkuðu aflamarki í hverri tegund og aflahlutdeildum úthlutuðum á skip á grundvelli veiðireynslu og frjálsu framsali aflahlutdeilda.  Það, sem skiptir tekjuöflun hins opinbera af greininni meginmáli, er heildarskattsporið, en hvorki veiðigjöldin ein og sér né gjald greitt á uppboði fyrir veiðiheimildir.  Af sjálfu leiðir, að aðferðarfræði, sem framkallar hámarks verðmætasköpun, framkallar um leið stærsta skattsporið.  Það er rökleysa að leggja atvinnugreinina í rúst til að "auðlindaarðurinn skili sér til þjóðarinnar", enda renna hæstu mögulegu tekjur í sameiginlegan sjóð landsmanna til lengdar með núverandi stjórnkerfi fiskveiða.  Að halda öðru fram er órökstuddur blekkingavaðall, settur fram í áróðursskyni fyrir ákveðin stjórnmálaöfl.   

Það þarf furðu mikla glámskyggni til að rembast eins og rjúpan við staurinn við að telja þjóðinni trú um, að þar sem hún sé eigandi sjávarauðlindarinnar, sé það í þágu hennar hagsmuna að umbylta kerfi, sem býr til mestu verðmæti í heimi úr hverri veiddri einingu úr sjó.  Slíkt stangast beinlínis á við heilbrigða skynsemi, svo að eftirfarandi orð Victors Hugo virðast eiga hér bezt við. 

"Þeir, sem illa eru innrættir, tjá einatt öfund sína  og reiði; það er þeirra aðferð til að láta í ljós aðdáun sína."

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steindór Sigurðsson

Hvernig stendur á að vel menntaður maður er að verja miðaldalénsskipulag. Fyrir almenning í þessu landi skiptir ekki nokkru einasta máli hvort lénsherrarnir eru Íslenskir eða frá Brussel. Það er búið að stela fiskimiðunum frá þjóðinni með glæpsamlegum hætti og þú ert að verja það. Eigum við þá ekki líka að mæla með eiturlyfjasölu því hún er svo arðbær og veltir sennilega milljörðum. Svo gætum við fært út kvíarnar og blásið alvöru lífi í klám og vændi, þá eykst veltan enn frekar. Bara hvað viljum við mikla vitleysu, það er af nógu að taka.

Steindór Sigurðsson, 5.10.2016 kl. 14:15

2 Smámynd: Steindór Sigurðsson

Já og ég gleymdi einu, segðu Þorlákshafnarbúum hvað þetta er fínt kerfi. Þeir voru bara núna um daginn að missa endanlega allan rétt á að veiða fisk á Íslandsmiðum. Þetta er glæsilegt. En bara pínulítið dæmi um skaðsemi núverandi kvótakerfis.

Steindór Sigurðsson, 5.10.2016 kl. 14:20

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Steindór;

Ég er nú ekki betur gefinn en svo, að ég botna bara alls ekkert í skrifum þínum.  Mér sýnast þau vera argasta samsuða innihaldslausra gífuryrða. Kannski þú getir vísað á ítarefni, þar sem á heildstæðan hátt er útlistuð sú stefna, sem þú aðhyllist í fiskveiðistjórnarmálum ?  Þar er þá væntanlega sýnt fram á, að "stefnan þín" standi fjær "miðaldalénsskipulagi" og "glæpsamlegum þjófnaði frá þjóðinni" en núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Ég hef grun um, að þú aðhyllist fremur sóknarmarksleið en uppboðsleið, en af því að hér voru til umræðu aflahlutdeildarkerfi á grundvelli veiðireynslu og frjáls framsals annars vegar og hins vegar fyrning aflaheimilda og uppboðsleið og þú nefnir Þorlákshöfn, þá hefur ekki verið útskýrt, hvernig á að hindra, að veiðiheimildir minnki eða jafnvel hverfi frá minni útgerðarstöðum í uppboði eða endurteknum uppboðum. 

Sjómannasambandið o.fl. stéttarfélög hafa varað alvarlega við þessari leið, af því að atvinnuöryggið með uppboðsleið verður enn þá minna en það er núna.   

Bjarni Jónsson, 5.10.2016 kl. 17:07

4 Smámynd: Steindór Sigurðsson

Það sem ég er fyrst og fremst að tala um er að þegar ég byrjaði á árið 1976 þá fór þessi auðlind í gegnum fimm sinnum fleir heimili að minnsta kosti. Nú er auðlindinni dælt upp og arðurinn fer að mestu leiti beint í erlendar lánastofnanir í gegnum Íslenskar lánastofnanir. Það hafa margir aðilar gengið útúr greininni með fleiri milljarða og við höfum með þessu kerfi sett fleiri fyrirtæki á hausinn og sömuleiðis fleiri byggðarlög en með nokkru öðru kerfi í þessu landi. Það sem ég vill er að auðlindin sé notuð í þágu þjóðarinnar en ekki í þágu örfárra kvótagreifa sem hafa aldrei greitt neitt fyrir kvótann. Því hann var bara afskrifaður. Semsagt almenningur ber kostnaðinn en greifarnir hirða hagnaðinn. Vitlausara getur það ekki orðið. Ég ætlast nú ekki til að þú skiljir þetta en það má reyna.

Steindór Sigurðsson, 6.10.2016 kl. 01:54

5 Smámynd: Steindór Sigurðsson

Þú talar um Þorlákshöfn og fólkið þar, eins og það skipti engu máli. Allt er leyfilegt og öllu má fórna á altari "Mammons". Það er þetta sem ég vill ekki ég vil að fólkið lifi á auðlindinni en ekki að fólkinu sé fórnað á altari "Mammons" fyrir örfáa kvótagreifa.

Steindór Sigurðsson, 6.10.2016 kl. 02:19

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það, sem mér sýnist m.a. hrjá þig, Steindór, er, að þú ert haldinn fortíðarþrá eftir veröld, sem var.  Kvótakerfið hefur virkað nákvæmlega, eins og ætlazt var til og nauðsynlegt var, þ.e. það hefur fækkað skipum og mönnum, sem sækja sjóinn, enda var það einmitt vandamálið, að of margir voru um hituna til að útgerðirnar bæru sig.  Hagur þeirra var slæmur, þegar kvótakerfinu var komið á.  Fækkun átti sér ekki stað með valdboði, heldur seldu menn sinn kvóta af fúsum og frjálsum vilja.  Þeir gerðu það auðvitað, af því að þeir sáu sér hag í því, en allir græddu til lengdar, af því að framleiðnin og arðsemin jukust.  Þeir, sem gátu keypt, voru yfirleitt með hagkvæmari rekstur en seljendurnir, og rekstur þeirra varð enn hagkvæmari við kaupin.  Þetta er ósköp einfalt, og þar sem verðmætasköpun íslenzka sjávarútvegsins er, eins og bezt verður á kosið, og er hvergi meiri í heiminum per kg, þá varður skattspor greinarinnar stærra en með nokkru öðru kerfi, þ.e.a.s. ríkissjóður og sveitarsjóðir fá meira en önnur stjórnkerfi fiskveiða geta látið í té.  

Barátta þín gegn kvótakerfinu er álíka viturleg og barátta riddarans sjónumhrygga, don Kíkóta, hér forðum tíð, og hugarheimur þinn er álíka óraunverulegur og ruglingslegur og hans, og ofstækið eigið þið sömuleiðis sameiginlegt.  Þú skalt endilega halda þinni ofstækisfullu baráttu áfram.  Hún getur aðeins aukið stuðninginn við kvótakerfið. 

Bjarni Jónsson, 6.10.2016 kl. 18:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband