Styr um fiskeldi

Efnilegasti sprotinn á meðal útflutningsatvinnugreina landsmanna nú um stundir er fiskeldið. Framleiðslugetan vex með veldishraða.  Þannig var slátrað um 8,3 kt 2015 og áformað að slátra 15,2 kt 2016.  Starfsemin hefur orðið fyrir aðkasti, sem þessum blekbónda hér sýnist vera illa rökstudd og eiginlega reist á hleypidómum og þekkingarleysi.  Hér þarf þó e.t.v. viðbótar rannsóknir til að bæta úr þekkingarleysi.

Nú verður vitnað í dæmigerða gagnrýni á sjókvíaeldi, sem birtist á mbl.is þann 15.10.2016, þar sem var stóryrt viðtal við Hilmar Hansson, stangveiðimann m.m.:

""Norðmenn eru umhverfissóðar - þú mátt hafa það eftir mér", segir Hilmar.  Hann segir fjöldamargar ár í Noregi hafa einfaldlega drepizt vegna kynblöndunar eldislaxins við villta laxastofna í ánum þar. [Þetta er svo viðurhlutamikil fullyrðing, að henni er óviðeigandi að slengja fram án rökstuðnings eða að lágmarki að nefna einhverjar ár og tímasetningar í þessu sambandi. - Innsk. BJo.]  "Það er nefnilega þannig, að í hverri á er einstakur laxastofn.  Þetta er ekki einn villtur laxastofn, sem finnst í ánum og heldur svo á haf út, heldur er þetta einn stofn fyrir hverja á.  Áin er heimasvæði fisksins, og ef hann kynblandast, missir laxinn eiginleika sína og hættir að koma í ána sína til að hrygna."" 

Annaðhvort er hér um að ræða ósvífinn hræðsluáróður gegn sjókvíaeldi á laxi eða hér eru settar fram sannaðar fullyrðingar, sem ástæða er þá til að staldra við.  Hið fyrr nefnda er satt, ef upplýsingar í grein sérfræðings, sem vitnað verður til hér að neðan, standast ekki beztu þekkingu á þessu sviði.  Ef hið síðar nefnda er rétt, hefur sérfræðingurinn rangt fyrir sér.

Framtíð sjókvíaeldis er mjög til umræðu núna, einkum á Vestfjörðum, af því að þar hillir nú undir byltingu til hins betra í atvinnumálum í krafti fiskeldis, sem kemur á sama tíma og efling ferðaþjónustunnar.  Þetta tvennt ásamt hefðbundnum sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði getur skotið traustum stoðum undir afkomu og viðkomu Vestfirðinga til framtíðar. Austfirðingar, sem einnig eiga rétt á að stunda sjókvíaeldi í sínum fjörðum, hafa nú þegar traustar stoðir að standa á í atvinnulegu tilliti í krafti orkunýtingar og sjávarútvegs auk vaxandi landbúnaðar og ferðaþjónustu.

Helzta gagnrýnisefni veiðiréttareigenda, laxveiðimanna og annarra, á sjókvíaeldi á laxi tengist erfðafræðilegum atriðum og genatækni, sem fæstir leikmenn hafa á valdi sínu, en er þó algert lykilatriði að skilja, þegar meta skal, hvort erfðaeiginleikum villtra laxfiska í ám Íslands stafar hætta af genablöndun við norska eldisstofna.  Hvað hafa kunnáttumenn á þessu sviði látið frá sér fara í aðgengilegum ritum ?

Jón Örn Pálsson, sjávarútvegsfræðingur, ritað afar athygliverða og fróðlega grein í Viðskiptablaðið 6. október 2016:

"Erfðablöndun - er raunveruleg hætta af laxeldi ?": 

"Þeim, sem annt er um staðreyndir og vilja hafa sannleikann að leiðarljósi, er ljóst, að engar rannsóknir eða heimildir hafa sýnt, að villtir laxastofnar hafi misst hæfni til að fjölga sér eða lifa af í villtri náttúru vegna erfðablöndunar.  Í Noregi, Skotlandi, Írlandi og öðrum löndum, sem hafa langa sögu í slysasleppingum, hefur enginn laxastofn horfið eða minnkað vegna erfðablöndunar, eins og áróðursmeistarar veiðiréttarhafa hér á landi halda iðulega fram á opinberum vettvangi."

Þessi orð sérfræðingsins Jóns Arnar stinga algerlega í stúf við stóryrði Hilmars Hanssonar o.fl.  Þeir verða að beita röksemdafærslu í stað stóryrðaflaums og órökstuddra fullyrðinga, ef taka á mark á þeim og takmarka stórlega sjókvíaeldi, sem innan örfárra ára getur numið miöISK 50 á Vestfjörðum og miöISK 80, ef/þegar farið verður að framleiða með fyrirsjáanlegum afköstum í Ísafjarðardjúpi. Til samanburðar er velta veiðiréttarhafa sögð vera miaISK 20, en greinin er virðisaukafrí og skilar fremur litlu í opinbera sjóði. 

Rök Jóns Arnar eru m.a. eftirfarandi:

"Það hefur vissulega verið staðfest, að genaflæði getur átt sér stað frá eldislaxi yfir til villtra laxastofna, en það segir sig sjálft, að gen, sem draga úr lífsþrótti eða minnka frjósemi, berast ekki á milli kynslóða.  Eldislax inniheldur öll þau gen, sem villtir stofnar hafa.  Gen hverfa ekki við kynbætur.  Kynbætur hafa aðeins áhrif á breytileika innan einstakra gena.  Þegar erfðablöndun greinist, eykst erfðabreytileiki; það staðfesta allar rannsóknir.  Ratvísi er gott dæmi um erfðafestu í genamengi laxins. Enginn munur er á endurheimtum laxaseiða, sem eru afkvæmi eldislaxa í 10 kynslóðir og villtra foreldra.  Eldislax er hins vegar frábrugðinn villtum stofnum að því leyti, að hann hefur meiri vaxtargetu, hærri kynþroskaaldur og litla óðalahegðun.  Þessir þættir draga úr hæfni eldislaxa til að lifa af í villtri náttúru, en styrkjast í eldi, þegar nóg er af fæðu og afrán er ekki fyrir hendi.  Búast má við því, að af hverjum 4000 hrognum muni aðeins 1 lax skila sér til baka til hrygningar.  Það staðfestir, hvað náttúrulegt úrval er sterkur þáttur í afkomu og erfðum laxastofna. Gríðarlegur úrvalsstyrkur (yfir 99,9 %) er náttúrulegt ferli, sem hefur viðhaldið sérkennum einstakra laxastofna í þúsundir ára, þótt 3 % - 5 % villtra laxa hrygni ekki í sinni heimaá. 

Áhrif frá erfðablöndun vegna einstakra tilviljanakenndra slysasleppinga fjara því hratt út, nema framandi erfðaáhrif auki lífsþrótt.  Engin staðfest dæmi eru um það."

Þarna eru komin erfðafræðileg rök fyrir því, að óhætt sé að leyfa sjókvíaeldi á takmörkuðum svæðum við Ísland að viðhöfðum "ströngustu kröfum Lloyds".  Erfðafræðilega rímar þessi röksemdafærsla við þá erfðafræði, sem blekbóndi lærði fyrir löngu í MR, og það hlýtur að vera unnt að beita beztu nútíma þekkingu og reynslu á þessu sviði til að taka af skarið um það, hvort íslenzkum laxastofnum er einhver hætta búin af sjókvíaeldi í fjörðum Austfjarða og Vestfjarða eða ekki.  Það ber að halda í allan þann líffræðilega fjölbreytileika, sem fyrirfinnst á og við Ísland, og ógnir við hann af mannavöldum eru óviðunandi. Í þessu tilviki skal náttúran njóta vafans, en þeim vafa má hins vegar strax eyða með vísindalegum hætti. Þar leika mótvægisaðgerðir og öryggisráðstafanir rekstrarleyfishafa lykilhlutverk, og um þær segir í téðri grein:

"Árið 2014 hafði Landssamband fiskeldisstöðva frumkvæði að því, að vinna hófst við endurskoðun á lögum og reglum um fiskeldi með það að markmiði að herða kröfurnar.  Nú þurfa fyrirtæki að uppfylla norska staðalinn NS9415, sem hefur skilað miklum árangri við að fyrirbyggja sleppingar í Noregi.  Árin 2014-2015 er áætlað, að 6000 eldislaxar hafi leitað í norskar ár á veiðitímabilinu, http://www.nina.no.  Það eru um 0,002 % [20 ppm - innsk. BJo] af fjölda laxa, sem haldið er í norskum eldiskvíum.  Sé hlutfallið yfirfært til Íslands, má búast við, að um 400 eldislaxar leiti í íslenzkar ár, séu um 100 kt/ár framleidd hér á landi, og ef okkur tækist ekki betur en Norðmönnum að fyrirbyggja strok. Fjöldi eldislaxa, sem reynir hrygningu, gæti því verið um 1 % af hrygningarstofni [villta] íslenzka laxins.  Þessar tölur miðast við, að ekkert veiðiátak færi fram, ef grunur um sleppingu vaknaði. 

Af því, sem hér hefur verið dregið fram, má ljóst vera, að ekki þarf að fórna einum einasta villtum laxastofni til að byggja upp mikilvæg störf við fiskeldi á landsbyggðinni."

Hér er sannfærandi faglegum rökum sjávarútvegsfræðings teflt fram til stuðnings sjálfbæru sjókvíaeldi norsks eldislax við Ísland.  Nú þarf úrskurð líffræðings eða sambærilegs starfsmanns Matvælastofnunar, MAST, um það, að 1 % blöndun norskra eldislaxa við íslenzka laxastofna geti ekki haft nein varanleg áhrif á erfðaeiginleika og hegðun þeirra íslenzku. 

Það þarf líka að fá líklegt sleppihlutfall á hreint.  Téður Hilmar Hansson kveður 1 lax sleppa úr hverju tonni í sjókvíaeldi.  Þetta gefur líkurnar 1/200, sem jafngildir 5000 ppm, samanborið við 20 ppm hjá Jóni Erni Pálssyni.  Hilmar telur líkur á sleppingu vera 250 sinnum meiri en Jón Örn.  Þarna á milli er himinn og haf, sem kann að skilja á milli feigs og ófeigs í þessu máli, og það er hlutverk íslenzkra yfirvalda að fá þetta á hreint áður en ný rekstrarleyfi verða gefin út.

Annað mál er, að fyrirkomulag á útgáfu starfsleyfa fyrir sjókvíaeldi við Ísland þarfnast gagngerrar endurskoðunar. Um stefnumótun stjórnvalda í þessum málaflokki skrifar Höskuldur Steinarsson, framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldisstöðva, í Fiskifréttir 13. október 2016,

"Langþráð stefnumótun í fiskeldi undirbúin":

"Eitt af því, sem við höfum lengi kallað eftir, er heildræn stefnumótun í fiskeldi á Íslandi.  Atvinnuvegaráðherra hefur nú loks tekið undir þessar óskir okkar og boðað, að sú vinna skuli hafin í vetur [2016/2017-bíður nýs ráðherra].  Þennan árangur viljum við m.a. þakka áberandi umræðu um atvinnugreinina.  Það er ljóst, að heildræn stefnumótun í fiskeldi mun, ef vel tekst til, leiða til samhæfðra markmiða fyrir greinina, sem m.a. munu nýtast vel þeim opinberu stofnunum, sem fást við fiskeldisgreinina.  Fyrir atvinnugreinina sjálfa er stefnumótunin afar mikilvæg, því að vaxtarmöguleikar hennar í framtíðinni hafa mikið að segja nú þegar, og þarf því að huga sem fyrst að margvíslegum innviðum, eigi hún að geta vaxið og dafnað áfram.  Í fiskeldinu er nú þegar uppsöfnuð fjárfestingarþörf í undirbúningi verkefna, og mun sú fjárfesting ekki skila sér til baka fyrr en eftir mörg ár.  Fiskeldi er því atvinnugrein, sem þarf mjög á þolinmóðu fjármagni að halda, og svo virðist sem erlendir fjárfestar séu þeir einu, sem tilbúnir eru til að styðja við hana hér á landi."

Það er ljóst, að mikill vaxtarkraftur er í fiskeldi við og á Íslandi, enda er talið, að greinin muni þegar á árinu 2018 framleiða meira af matvælum í tonnum talið en hefðbundinn landbúnaður hérlendis.  Raunhæft er að gera ráð fyrir að hámarki sjöföldun núverandi afkastagetu, en enn meiri aukning hefur verið nefnd.  Væntanleg stefnumörkun yfirvalda mun leggja línurnar í þessum efnum, en afkastagetan verður að ráðast af óskum fjárfestanna, burðarþoli fjarðanna að mati íslenzkra yfirvalda og kröfunni um sjálfbærni starfseminnar. 

Þessi rannsóknarvinna og stefnumótun gæti tekið 2 ár, en það er hins vegar brýnt að taka leyfisveitingarnar strax til endurskoðunar.  Þarna er um nýja starfsemi að ræða, svo að úthlutun leyfa á grundvelli starfsreynslu á viðkomandi stað á ekki við.  Það er jafnframt ljóst, að í þessari grein er auðlindarentu að finna, því að um takmarkaða auðlind er að ræða, sem færri fá úthlutað af yfirvöldum en vilja. 

Viðkomandi sveitarfélög ættu að fá í sinn hlut meirihlutann af andvirði starfsleyfanna, og þar sem ekki er verið að taka nein leyfi af neinum, ætti að úthluta starfsleyfunum til hæstbjóðanda í tilgreindan tíma, sem talinn er duga til að afskrifa fjárfestingarnar á, e.t.v. 25 ár.  Við þessar aðstæður er eðlilegast, að íslenzk yfirvöld framkvæmi lögformlegt umhverfismat og veiti forsögn um áskildar mengunarvarnir og mótvægisaðgerðir. Rekstrarleyfi ætti svo að gefa út til skemmri tíma, e.t.v. 5 ára, og það ætti að vera afturkallanlegt, ef rekstraraðili verður uppvís að broti á rekstrarskilmálum.   

  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Sæll Bjarni. Ég sé að það er himinn og haf á milli þess sem ég predika og aðrir predika. Og það er þetta með laxeldi í kerum á landi, alsto upp á þurru landi og þar í kerum. Ég skrifaðist á við Sandberg fiskimálaráðherra Noregs um akkúrat þetta, laxeldi í kerum á þurru landi. Allir vita um vandamál Norðmanna með lúsina sem er orðin nær ónæm fyrir aðferðum til að losna við hana. Þetta verður núll vandi á landi. Veðurfar má líka vera hvað sem er uppá landi, engar sjókvíar sem slitna og reka eða rifna. Engin stór fjárfesting í skipum og sjómönnum þar sem slysahættan er stór eins og reynslan hefur sannað sig í þessari vinnu. Endalaust er hægt að plússa á þetta, en þess þarf ekki þar sem flest-allir vita um að aðferðin er miklu betri í alla staði. Held ég.

Eyjólfur Jónsson, 22.10.2016 kl. 16:25

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Eyjólfur;

Ég hygg, að greinin sjálf hafi fundið út, að eldi í kerum á strönd sé dýrara en í sjókvíum.  Hitaveitu er sjaldnast fyrir að fara á þeim svæðum, þar sem fiskeldi er stundað núna, en með hitaveitu mætti stýra hitastigi sjávar í landkerunum og halda því við kjörhitastig fyrir hinar mismunandi tegundir, sem aldar eru.  Það gæti hugsanlega borgað sig.  Tæknin hérlendis í laxeldinu er þróuð í Noregi og tekur mið af aðstæðum þar.  Þegar leyfileg eldissvæði úti fyrir ströndinni hér verða fullnýtt, og vonandi verða þau ekki ofnýtt, þá gæti röðin komið að eldi í landkerum. 

Bjarni Jónsson, 22.10.2016 kl. 21:58

3 Smámynd: S Kristján Ingimarsson

Sæll Bjarni.  Þetta eru góð skrif hjá þér.  Ég hef starfað stöðvarstjóri á fiskeldisstöð Scottish Sea Farms í Skotlandi undanfarin tvö ár.  Þessi áróður sem sportveiðimenn og veiðiréttarhafar hafa verið að reka er verulega mikið útblásinn miðað við það sem ég þekki, m.a. þetta með að einn lax sleppi á hvert tonn en tölur Jóns Arnar eru mun nær sannleikanum ef miðað er við tölur frá norska sjávarútvegsraðuneytinu.  Búnaðurinn er alltaf að verða betri og betri og nú er verið að taka upp nýjan gæðastaðal í íslensku fiskeldi og þegar hann er kominn í gagnið og menn farnir að gera hlutina eins og nágrannar okkar á að vera nánast ómögulegt að missa út fisk.  Eldi landi er ekki raunhæfur kostur vegna kostnaðar og geldfiskur er ekki möguleiki eins og er vegna lélegs vaxtar og dýravelferðarsjónarmiða.  

Kveðja, Kristján I.

S Kristján Ingimarsson, 23.10.2016 kl. 07:47

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir athugasemd þína, Kristján.  Það er verulegur fengur að lýsingu kunnáttumanns og innanbúðarmanns í fiskeldi í sjókvíum, og upplýsingar þínar eru í samræmi við það, sem ég hafði smíðað mér um þessa grein.  Ályktunin er þá sú, að með því að beita beztu tækni frá reynslumiklum nágrönnum okkar á þessu sviði, má reka hér laxeldi í sjókvíum með sjálfbærum hætti, þ.e. með umhverfisvænum hætti og sem arðbæra atvinnugrein, sem t.d. verður Vestfirðingum ómetanleg lyftistöng.  Það er sem sagt ekki verið að gera á hlut sportveiðimanna og veiðiréttarhafa, og þeir verða að vanda málflutning sinn betur en verið hefur, ef hann á ekki beinlínis að vera túlkanlegur sem aðför að atvinnuréttindum í fiskeldinu. 

Gaman væri að frétta af umræðu í Skotlandi um þessi mál.  Eru svipaðar áhyggjur uppi þar á meðal sportveiðimanna og veiðiréttareigenda, hvert er sleppihlutfallið við Skotland, og hafa nokkrar ríkjandi erfðabreytingar greinzt í villtum skozkum laxastofnum vegna laxeldis ?

Bjarni Jónsson, 23.10.2016 kl. 11:39

5 Smámynd: S Kristján Ingimarsson

Sæll.  Ég var búsettur á Orkneyjum  og eldissvæðunum í Skotlandi er skipt upp í meginlandið (Þ.e. vesturströnd Skotlands og eyjarnar þar), Orkneyjar og Hjaltlandseyjar.  Á Orkneyjum eru engar laxveiðiár og því engir árekstrar þar við stangveiðimenn en þegar ný leyfi eru gefin út eru það yfirleitt smábátasjómenn sem hafa eitthvað út á þau að setja ef hætta er á að þau rekist á við hagsmuni þeirra en þó hefur alltaf náðst sátt.  Það er hætta á að þetta geti gerst hér á landi af því að lögfrmlegt skipulag strandsvæða á Íslandi er ekki til. Ég verð að viðurkenna að ég hef lítið fylgst með umræðu um erfðablöndun í Skotlandi, aðallega vegna staðsetningar minnar og kannski vegna þess að sú umræða hefur ekki farið hátt en það vill svo til að margir þeira sem eru ráðandi í stangveiði í Skotlandi eru líka innvinklaðir í eldið.   Mér skilst að laxveiði sé vinsælt hobbí í Skotlandi og það sé ágætt laxveiðiland. Annars skrifaði ég þetta hér í gærmorgun:    http://kristjani.blog.is/blog/kristjani/entry/2182699/

S Kristján Ingimarsson, 23.10.2016 kl. 21:04

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Kristján;

Þakka þér fyrir mikinn fróðleik, líka á vefsetrinu þínu, þar sem ég las fróðlega laxeldisgrein og skemmtilega heimferðargrein.  Ég vil nota tækifærið og bjóða þig velkominn til starfa á Íslandi.  Þú hefur aflað þér mikillar þekkingar á fiskeldisgreininni og dýrmætrar reynslu, sem ég er ekki í nokkrum vafa um, að nýtast mun vel á Íslandi í hinni kviku (dynamic) laxeldisgrein, sem tæknilega siglir nú hraðbyri upp að systurgreinum sínum í nágrannalöndunum.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 23.10.2016 kl. 22:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband