Fjármálakerfið til fólksins

Fyrirsögnin ber með sér andblæ byltingar, og íslenzka fjármálakerfið hefur verið vettvangur mikilla og dýrkeyptra atburða í þjóðarsögunni, og það sýgur til sín mikil verðmæti í nútímanum.  Stór hluti fjármálakerfisins er hins  vegar í eigu almennings, þ.e. lífeyriskerfið og ríkisbankarnir. Hér verða róttækar hugmyndir varðandi eignarhald á bankakerfinu gerðar að umfjöllunarefni. 

Það er rétt að huga að aðdraganda núverandi fjármálakerfis.  Fjármálakerfið var fyrir Hrun aðallega samsett af lífeyrissjóðunum og bankastofnunum og svo er enn.  Lífeyrissjóðirnir töpuðu ægilegum fjárhæðum, e.t.v. miöISK 500, í Hruninu, t.d. vegna fjármálagjörninga tengdum föllnu bönkunum. 

Nú eru nokkrir lífeyrissjóðir enn að bera víurnar í eignir bankanna, í þetta sinn með viðræðum við eigendur að 87 % eignarhlut í Aríon-banka, en þar liggja kröfuhafar Kaupþings á fleti fyrir frá dögum vinstri stjórnar Jóhönnu og Steingríms.  Það ber að vara við því, að lífeyrissjóðir gerist eigendur að bönkum.  Bankastarfsemi er of áhættusöm fyrir lífeyrissjóði, eins og nýleg saga kennir, og á Íslandi eiga lífeyrissjóðir nú þegar stóran hlut í atvinnulífinu og sætu þar með beggja vegna borðs, sem er ótækt og samræmist ekki kröfum um jafnstöðu fyrirtækja og frjálsa samkeppni. Fyrir lífeyrissjóðina er fátt um feita drætti erlendis um þessar mundir, þar sem hagkerfin hafa víðast hvar verið drepin í dróma, og eru ekki að lifna við þrátt fyrir vaxtastig í sögulegu lágmarki.  Eignarhlutur í orkufyrirtækjunum á Íslandi gæti hins vegar hentað lífeyrissjóðunum. 

Ef þingmeirihluti ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur hefði fengið vilja sínum framfylgt, þá hefði ríkissjóður Íslands gengið í ábyrgð fyrir forgangskröfum í þrotabú föllnu bankanna.  Vegna dráttar á innheimtu útistandandi krafna þrotabúanna og annars , hefðu hundruðir milljarða ISK fallið á ríkissjóð, ef vinstri stjórn þessi hefði fengið vilja sínum framgengt.  Það er þess vegna útilokað, að staða hans væri jafngóð og raun ber vitni um nú, ef þjóðin hefði ekki með réttu í tvígang hafnað "Icesave-skuldaklafanum", sem EFTA-dómstóllinn síðan staðfesti lagalega réttmætt, en alltaf sat hin illræmda og ólýðræðislega vinstri stjórn, jafnvel þótt hún missti þingmeirihluta sinn. 

Af ótrúlegri glámskyggni tók þessi ríkisstjórn upp á því á sínu fyrsta ári við völd, 2009, að smjaðra fyrir AGS og ESB og til að friða kröfuhafa gömlu bankanna, sem var undarlegt, þar sem hlutir höfðu þá þegar skipt um hendur, að færa kröfuhöfum föllnu bankanna nýju bankana, Aríon og Íslandsbanka, á silfurfati. 

Það er hægt að fullyrða, að stjórnmálamenn, sem fremja slík axarsköpt, hefðu engan veginn verið í stakk búnir til að greiða fyrir haftalosun og bæta ríkissjóði ríkulega upp tap sitt í Hruninu með samningum við kröfuhafana um stórfelld stöðugleikaframlög, sem m.a. fólu í sér að skila þessum bönkum aftur til ríkisins. Hér var auðvitað um átakamál við kröfuhafana að ræða, sem hryggleysingjar vinstri stjórnarinnar voru engir bógar til að standa í.  Mannvalið vinstra megin miðju hefur ekki batnað, nema síður sé. Þar eru eintóm lindýr. Reynsluheimur þeirra er afar þröngur og "ópraktískur", enda er þekking þeirra á athafnalífi og fjármálum mjög af skornum skammti.  Stjórnunarreynslu er heldur ekki fyrir að fara, enda eiga þau sum fullt í fangi með að stjórna sjálfum sér.

Með öðrum orðum hefði ekkert verið hægt að fást við losun hafta undir vinstri stjórn, og skuldastaða ríkissjóðs væri nú mjög íþyngjandi fyrir rekstur ríkisins. 

Eign lífeyrissjóðanna nemur um þessar mundir miöISK 3500.  Til samanburðar nema eignir (útlán) almennu bankanna þriggja nú um miöISK 2400, sem er tæplega 70 % af lífeyrissjóðseignunum. Hér er þess að gæta, að lífeyrissjóðseign félagsmanna lífeyrissjóðanna myndar skattstofn tekjuskatts og útsvars við útgreiðslu úr sjóðunum, svo að ríkissjóður og sveitarsjóðir eru eigendur að verulegum hluta í lífeyrissjóðunum og fá þessar eignir í sína vörzlu við útgreiðslur til félagsmanna. Að teknu tilliti til þessa, eru félagar lífeyrissjóðanna líklega eigendur að svipaðri eignaupphæð og eigendur bankanna.  Félagar lífeyrissjóðanna eru reyndar að mestu leyti sama fólkið og á meirihluta bankakerfisins nú um stundir, þ.e.a.s. þann hluta, sem er í ríkiseigu.  Þannig má segja, að megnið af fjármálakerfi landsins sé í almannaeigu, en það má þó gera enn betur í þeim efnum með því að færa hluta af ríkiseigninni í einkaeign íslenzkra ríkisborgara með takmörkunum á framsali og eignarhlut hvers og eins.  

Í ársbyrjun 2016 áttu almennu lífeyrissjóðirnir að meðaltali 3,2 % umfram skuldbindingar, og hefur staða þeirra farið stöðugt batnandi frá árinu 2009, þegar staða þeirra var neikvæð um 10,5 % vegna hroðalegra og óafsakanlegra hlutabréfa- og skuldabréfatapa árið 2008.  Á árinu 2011 var staða almennu lífeyrissjóðanna enn neikvæð um 4,9 %, og það varð að skerða lífeyrisgreiðslur, og hún var neikvæð fram á 2013, þ.e. - 2,3 % þá.  Á tímabilinu 2013-2016 hefur hagur þeirra blómgazt, enda blóm í haga hjá launþegunum, sem fengið hafa 20 % - 30 % kjarabætur á þessu tímabili, margir hverjir, og atvinnustigið hækkað í hámark.

Hins vegar er lífeyriskerfi opinberra starfsmanna, ríkis og sveitarfélaga, ósjálfbært.  Staða þessara sjóða er tryggingafræðilega neikvætt um 38 % !  Ríkisstjórn Sigurðar Inga vildi útjafna þennan mikla halla með gríðarframlagi úr ríkissjóði um leið og réttindi allra launþega, án tillits til vinnuveitanda, yrðu jöfnuð.  Þetta var stærsta félagslega framfaramálið um langa hríð, og það tengdist framfaramáli á sviði kjarasamninga, s.k. SALEK-samkomulagi, þar sem innleiða átti kerfisbundin vinnubrögð til að ákvarða launabreytingar á grundvelli samkeppnishæfni fyrirtækjanna, t.d. á útflutningsmörkuðunum.  Hér er um mikið hagsmunamál heildarinnar að ræða, en afturhaldið í landinu, klárlega vinstra megin við miðju í stjórnmálunum, með fáeina sérhagsmunahópa í broddi fylkingar, settu skít í tannhjólin, svo að þetta framfaramál er nú í biðstöðu.  Hverjum dettur í hug, að amlóðaríkisstjórn takist að koma þessu eða öðrum framfaramálum í höfn ?

Í viðtali við Þóreyju S. Þórðardóttur, framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða, í Viðskiptablaðinu 5. október 2016, kom eftirfarandi fram m.a.:

"Umræða er innan lífeyrissjóðanna um, hvort breyta eigi aðferðarfræði við útreikning á lífslíkum.  "Það er ljóst, að breytingar á henni hafa áhrif á sjóðina, og í framhaldinu þarf að ákveða til hvaða mótvægisaðgerða þarf að grípa."

Í dag eru lífslíkur metnar jafnar, en lífslíkur kynslóðanna eru ekki þær sömu, og markast umræðan af því að meta lífslíkur rétt á milli kynslóða.  Þórey segir, að stóra málið nú sé jöfnun lífeyrisréttinda á milli einkamarkaðar og opinbers markaðar, en fyrir Alþingi liggur nú slíkt frumvarp. "Það væri mikið framfaraskref að ná einu samræmdu lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn, sem mundi auka til muna sveigjanleika á vinnumarkaði", segir Þórey."

Lífslíkurnar fara hækkandi, og fólk nær að jafnaði hærri aldri en áður.  Þetta, ásamt lækkandi fæðingartíðni, mun senn hafa neikvæð áhrif á tryggingafræðilega stöðu sjóðanna, þó að iðgjöldin eigi að hækka í almennu lífeyrissjóðina með jöfnun lífeyrisréttindanna.  Af þessum sökum er sjálfsagt að gera starfslokaaldurinn sveigjanlegri og hækka meðalstarfslokaaldur, svo að starfslokabilið verði 65-75 ár.  Hækkunin ætti að verða á 10-15 árum.  Svipuð þróun hlýtur að verða á lífeyrisaldri Tryggingastofnunar ríkisins, TR, með sveigjanlegum réttindaaldri til töku ellilífeyris og stighækkandi upphæð með upphafstöku við 65 ár til 75 ára.

Það er almenn óánægja á meðal fyrirtækja og skuldugra fjölskyldna með hátt vaxtastig í landinu.  Mikill vaxtamunur á Íslandi og flestum löndum hefur ásamt jákvæðum viðskiptajöfnuði ýtt gengi ISK upp.  Á þá þróun þarf nú að slá með verulegri stýrivaxtalækkun Seðlabankans.  Það er þó e.t.v. huggun skuldugra harmi gegn, að Aríon-banki er að 13 % í eigu ríkisins og Íslandsbanki og Landsbanki eru nánast alfarið í eigu ríkissjóðs.  Ánægju landsmanna með eignarhaldið má þó vafalítið auka með því að gera þá að beinum eigendum, hvern og einn, að tilgreindum eignarhlut, t.d. 10 % í upphafi til reynslu. 

Eigið fé bankanna hefur frá 2009 til júní 2016 vaxið um miaISK 315, eða um 93 %, og er nú miaISK 655. Ef 10 % af eign ríkisins, ISK 65,5, verður fært borgurunum sem fyrsta skref í að gera þessa banka að almenningshlutafélögum, þá koma um kISK 197 í hlut hvers einstaklings eða um kISK 788 í hlut hverrar fjögurra manna fjölskyldu. Sama hlutfall af hagnaði bankanna mundi þá hafna beint í vösum hinna eiginlegu eigenda bankanna, sem er mun eðlilegri ráðstöfun en einhvers konar "samfélagsbanki", sem er líklega banki án ágóðavonar; þar hlýtur þá að fara fé án hirðis. 

Um almannavæðingu bankanna skrifaði Óli Björn Kárason, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins til Alþingis í SV-kjördæmi 2016:

"Almenningsvæðing bankakerfisins", 

í Morgunblaðið, 5. október 2016:

"Það er grunnstef Sjálfstæðisflokksins að gera sem flesta að eignamönnum - stuðla að fjárhagslegu sjálfstæði.  Almenningsvæðing banka, líkt og flokksráðsfundur samþykkti, er í takti við þetta grunnstef.  Um leið er aðhald að bönkum - mikilvægum stofnunum samfélagsins, aukið, tiltrú almennings á fjármálakerfið endurreist, og styrkari stoðum er skotið undir fjármálamarkaðinn."  

Í upphafi greinar sinnar skrifaði ÓBK:

""Við viljum almenningsvæða banka.  Rétt er, að almenningur fái drjúgan hlut eignar sinnar milliliðalaust í hendur samhliða skráningu bankanna á markað", segir í stjórnmálaályktun flokksráðsfundar Sjálfstæðisflokksins 24. september síðastliðinn.

Hugmyndafræðin er skýr, og vilji flokksráðsfundar er ákveðinn.  Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að beita sér fyrir því, að almenningur eignist beinan hlut í bönkunum.  Loforðið er í samræmi við það, sem Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, hefur áður sagt, m.a. á Landsfundi á síðasta ári [2015].

Nái stefna Sjálfstæðisflokksins fram að ganga, verður um að ræða einhverja umfangsmestu og áhrifaríkustu aðgerð til að styrkja eignastöðu íslenzkra heimila.  Allir landsmenn verða þátttakendur á hlutabréfamarkaði."

Sjálfstæðisflokkurinn er einn íslenzkra stjórnmálaflokka um að boða þessa sjálfseignarstefnu fyrir kosningar til Alþingis 29. október 2016 og mun auðvitað þurfa að semja um hana, ef hann verður í aðstöðu til stjórnarmyndunar.  Þessi stefna á afar vel við íslenzkar aðstæður, þar sem drjúgur hluti af aflafé fjölskyldna hefur farið í fjármagnskostnað til bankanna.  Með því að gerast beinir eigendur fá þær nokkuð af þessum kostnaði til baka með arðgreiðslum frá bönkunum, og einnig geta þær selt þessa eign sína með ákveðnum skilyrðum.

"Í febrúar síðastliðnum lagði ég [ÓBK] til, að íslenzkum heimilum yrðu afhent hlutabréf í bönkunum og miðaði við 12 %.  Frá þeim tíma hefur staðan gjörbreytzt.  Þar skiptir mestu, hversu vel ríkisstjórnin hefur haldið á málum.  Stöðugleikaframlög þrotabúa bankanna eru langt umfram það, sem mig óraði fyrir.  Eðlilegt er, að almenningur njóti þess með beinum hætti, enda urðu einstaklingar fyrir miklum búsifjum við fall bankanna.  Með því að afhenda eigendum þeirra - almenningi - beinan eignarhlut í bönkunum er stuðlað að endurheimtum vegna áfalla fyrri ára."

Þannig skrifar málsvari einkaframtaks, frjálsrar samkeppni og markaðshyggju, Óli Björn Kárason.  Það er nánast útilokað, að slíkur boðskapur komi að fyrra bragði frá nokkrum öðrum stjórnmálaflokki á Íslandi en Sjálfstæðisflokkinum, því að hinir stjórnmálaflokkarnir eru rígbundnir við ríkisrekstur og/eða ríkisafskipti og munu aldrei eiga neitt frumkvæði að því að lagfæra samkeppnisstöðuna á fjármálamarkaðinum.  Það gengur auðvitað ekki til lengdar, að um 70 % af bankakerfinu, reiknað út frá eiginfé, sé í eigu ríkissjóðs, enda tíðkast slíkt hvergi annars staðar í Evrópu, og þótt víðar væri leitað. 

Ef ríkissjóður heldur eftir 75 % eignarhlut í Landsbanka, en selur aðrar eignir í bönkunum, nema þær, sem afhentar verða landsmönnum beint, þá verða tæplega 30 % af eignunum, sem bankarnir þrír, Aríon, Íslandsbanki og Landsbanki, mynda, í eigu ríkissjóðs, og meira má það ekki vera án markaðsráðandi stöðu ríkisins í þessum áhættusama rekstri.  Seldar eða afhentar landsmönnum verða þá eignir að upphæð um miaISK 290.  Reka verður ýmsa varnagla við slíkar eignabreytingar, og um suma þeirra ritar ÓBK:

"Skynsamlegt er að setja ákveðnar kvaðir á hlutabréfin, þannig að einstaklingar verði að eiga þau í 3-5 ár, en sé þó heimilt að selja þau, ef keypt eru önnur skráð hlutabréf.  Að öðrum kosti er söluverðmætið skattlagt.  Rétt er, að eldri borgarar geti selt sín bréf, hvenær sem er án skattlagningar og skerðingar á lífeyri."

Það þarf að girða fyrir spákaupmennsku með þessi verðbréf, og í því augnamiði mætti sérmerkja þau, banna sölu á þeim til lögaðila, og setja efri mörk á eignarhald slíkra bréfa við 0,1 % af verðmæti útgefinna bréfa af þessari gerð á kennitölu.  Ennfremur ætti ríkissjóður að eiga forkaupsrétt og skattheimta söluverðmætis gæti verið tvöföld sú skattheimta, sem annars tíðkast af fjármagnstekjum, nema í tilviki eldri borgara, eins og ÓBK leggur til.  Þetta eru nauðsynlegar og nægilega öflugar girðingar til að hindra brask með gjafabréf ríkissjóðs til þjóðarinnar, enda öðlist allir íslenzkir ríkisborgarar þennan eignarrétt, þegar þeir eru skráðir í þjóðskrá.

Þetta er umfangsmikið kerfi, sem þarfnast vandaðrar lagaumgjarðar og reglugerðar, en með nútíma skráningartækni og rafrænum fjármagnsflutningum á þetta að vera gerlegt án mikillar yfirbyggingar.  Kostnaður ríkissjóðs við þetta er réttlætanlegur í ljósi þess réttlætismáls, að landsins þegnar njóti hluta af ágóða fjármálakerfisins, sem nánast allir þurfa að standa í dýrum viðskiptum við drjúgan hluta ævinnar.

 

   

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson


Peningar eru bókhald.


Og þá spyrjum við, hvernig högum við bókhaldinu.


Á stór hluti af sköpuðum peningum, bókhaldi, að fara í Heilbrigðiskerfið, skólakerfið, vegakerfið og alla innviði þjóðfélagana?


Þá rennur peningasköpunarbókhaldið, í gegn um þessa aðila, innviðina,  og til fólksins fyrir að viðhalda rekstri þjóðfélagsins, og byggja innviði þjóðfélagsins upp.


Á sama máta verður sköpunarbókhaldið fyrir atvinnuuppbygginguna, og þetta  kemur í stað skatta.


Allt kemur frá fólkinu, vinnan, hugsunin, sköpunin, svo að þetta er rökrétt.


Þú talar um banka í einkaeigu, og samfélagsbanka.


Hver segir að einhver megi ekki reka banka, en að hann eigi skrifaða tölu í bankabókhaldinu og segist svo eiga íbúðarhúsið, nær engri átt.


Við viljum ekki sjá einhverja sem taka 50, 100 eða 200 % af öllu sem við gerum.


Við vitum að stóru félögin á heimsvísu, með dreift eignarhald, lenda strax í eigu stjórna félagana.


Einhver fær lán í banka til að kaupa 6 til 7 % hlut í félögunum.


Þá er komin meiri eign, en eignarhlutur þeirra sem mæta á aðalfund.


Þegar þú ert búinn að ná stjórnar taumunum í félaginu, ræður þú 100 lögfræðinga til að kaupa bréf í félaginu, til dæmis 10%.


Þá ferð þú stjórnarformaðurinn með umboð félagsins á aðalfundum.


Þannig ert þú búinn að yfirtaka félagið.


Þessi aðferðafræði er vel þekkt.


Þetta verður að vera grundvöllur vitrænnar umræðu um fjármálin, peninganna, það er bókhaldið.


Lífeyririnn er einnig aðeins bókhald, og ekkert getur greitt lífeyri nema þróttmiklir framleiðslu atvinnuvegir og skilvirkt þjóðfélag.


Nú setjum við alla á ríkisstyrkta lífeyririnn, og skoðum hvort það gengur, og ef það gengur ekki þá lagfærum við allt lífeyriskerfið.


Skoða gegnumstreymis lífeyriskerfi.


Skoða hvort gáfulegt er að hafa sjóð til uppbyggingar, fyrir Ísland, og á heimsvísu.


Þessi sjóður gæti verið hugsaður til að byggja upp löndin, innviði og atvinnulíf, ekki gjafa fé.


Ef eitthvert land vill fá sitt RARIK, sína Landsvirkjun, og svo framvegis, þá getum við hjálpað til.


Að sjálfsögðu viljum við að einstaklingurinn geti nýtt sköpunargáfu skipulagshæfileika sína.


Við þurfum að lesa um nústaðreynda trúar manninn í okkur,


Og svo skaparann í okkur, sem drífur áfram allar framfarir.


Ekki tíma,


Egilsstaðir, 26.10.2016  Jónas Gunnlaugsson


 

Jónas Gunnlaugsson, 26.10.2016 kl. 15:20

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jónas, á Egilsstaðabúinu/-hótelinu.

Ég þykist vita, að rífandi gangur hafi verið í viðskiptunum í sumar, en þú hefur samt tíma til að íhuga lífsins gagn og nauðsynjar með heimspekilegu ívafi. 

Bókhaldið var grundvöllur viðskiptanna og kom á undan peningunum, enda fólust viðskiptin fyrst í vöruskiptum og skiptivinnu, eins og enn tíðkast á Íslandi.  Er það ekki talinn vera hluti af "svarta hagkerfinu" ?  Síðan var til hagræðis búinn til verðmælir, peningar, myntslátta, seðlaútgáfa og kortaviðskipti. 

Grundvallaratriði velferðarkerfisins, þ.e. aukinnar velferðar, er framleiðniaukning atvinnuveganna.  Hún skapar hluta af hagvextinum, sem Pírataklíkunni og vinstri-skýjaglópunum er í nöp við samkvæmt orðum þeirra sjálfra.  Þess vegna er loku fyrir það skotið, að sjálfbærar framfarir geti orðið undir þeirra stjórn.  Þeirra ær og kýr eru að skuldsetja sameiginlega sjóði almennings og lifa þannig í núinu á kostnað framtíðarinnar, afkomendanna. Þetta eru nagdýr, sem naga undirstöður nútíma samfélags. 

Hvaða mælikvarða, sem við notum, er eitt óumbreytanlegt: undirstaða hvers þjóðfélags er verðmætasköpun.  Skipting verðmætanna á að endurspegla verðmætasköpunina og öflugt öryggisnet að grípa þá, sem ekki geta. 

Regla Karls Marx og Friedrich Engels gengur ekki upp í mannlegu samfélagi peninganna. 

Með góðri kveðju austur á Fljótsdalshérað /

Bjarni Jónsson, 27.10.2016 kl. 11:11

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jónas;

Bráðlega muntu fá meira lesefni frá mér hér á vefnum; í þetta sinn hrollkalda hugvekju í tilefni Alþingiskosninganna á laugardaginn kemur með drjúgum tilvitnunum í gamlan sveitunga þinn, Hjörleif Guttormsson, náttúrufræðing, frá Hallormsstað.

Með góðri kveðju úr Kraganum /

Bjarni Jónsson, 27.10.2016 kl. 22:47

5 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Þú segir, sem er rétt.

Grundvallaratriði velferðarkerfisins, þ.e. aukinnar velferðar, er framleiðniaukning atvinnuveganna.  

Ég segi, sem er rétt.

Hugur og hönd, skapa allt samfélagið, og alla neysluna. 

Þegar við segjum, það eru engir peningar til, þá er það eins og að segja, að það sé ekkert bókhald til.

Bókhald framleiðir ekkert.

Við notum bókhaldið, til að hafa yfirsýn yfir framleiðsluna og öll viðskipti í þjóðfélaginu.

Við eru ekki búnir að gleyma því að fjármálakerfið setti allt á hausinn,

til að geta náð eignunum af fólki og fyrirtækjum. 

Þetta stendur allt í blogginu mínu.

Læra nústaðreyndirnar, og koma með lausnirnar í gegn um sköpunina. 

Við erum raunsægir, en um leið leitandi að nýjum lausnum, skapandi.

Þegar ég segi þetta.

Þarna ætti að vera slóð við hverja setningu til að skýra málið, en ég set aðeins eina.

Gangi þér allt í kaginn.

Egilsstaðir, 30.10.2016  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 30.10.2016 kl. 10:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband