Ráðandi öfl hlutu ráðningu

Bandaríkjamenn kusu þriðjudaginn 8. nóvember 2016 til forseta alríkisins mann, sem helztu forkólfar repúblikanaflokksins og fyrrverandi forsetar á vegum þess flokks höfðu neitað að styðja.  Svo kölluð elíta Bandaríkjanna og annarra Vesturlanda vildi ekki sjá Donald Trump í Hvíta húsinu. Það var vegna þess, að þessi auðjöfur var ómeðfærilegur og ekki í vasa valdamikilla sérhagsmunahópa. Donald J. Trump var ekki til sölu. Ekki þarf að hafa mörg orð um fréttastofur og álitsgjafa í þessu sambandi.  Þar er ríkjandi víðast hvar vinstri slagsíða og ósvífnin og hrokinn næg til, að ekki er reynt að draga fjöður yfir svo ófagmannlega starfshætti. Á "The New York Times" hefur útgefandinn nú séð að sér og sent afsökunarbréf til áskrifenda og lofað þar bót og betrun.  Hvenær skyldi skylduáskrifendum RÚV berast afsökunarbeiðni frá Útvarpsráði vegna hlutdrægs fréttaflutnings af atburðum, mönnum og málefnum, innanlands og utan ?  Í tilviki nýafstaðinna kosninga í Bandaríkjunum hefur keyrt um þverbak á RÚV og fréttastofan sett nýtt met í ófaglegri umfjöllun, sem er lituð af persónulegum viðhorfum fréttamanna og valinna álitsgjafa þeirra, sem hunza gjörsamlega hugtakið hlutlægni, eins og þeir eigi fjölmiðilinn sjálfir.

Miðvikudagsútgáfa Morgunblaðsins, daginn eftir, var enn undir áhrifum stjórnmálafræðinga og fréttastofa, sem lagt höfðu allt sitt traust á viðhorfsmælingar, sem látið var í veðri vaka, að með 85 %-95 % öryggi ("confidence level") bentu til, að frambjóðandi demókrata mundi bera sigur úr býtum.  Jafnan var farið með tugguna um, að Hillary Clinton (HC) nyti svo og svo mikils stuðnings umfram frambjóðanda repúblikana í forsetakjörinu, oft meira en 5 %, þótt þetta væru augljóslega villandi upplýsingar, því að 538 kjörmenn allra ríkjanna velja forseta og til að fá stuðning þeirra allra dugar í flestum tilvikum að fá meirihluta greiddra atkvæða, og HC naut stuðnings drjúgs meirihluta í fjölmennustu ríkjunum. Þess vegna endaði hún með fleiri atkvæði í heild, en færri kjörmenn.

Það var mikið fimbulfambað á fréttastofum og á meðal álitsgjafa um meiri stuðning rómansks fólks við HC, en þessir aðilar hefðu átt að staldra við könnun, sem sýndi Donald J. Trump (DJT) með meirihluta á meðal kaþólskra, og reyndar einnig á meðal evangelískra.  Fréttum, sem vilhallar fréttastofur mátu í hag repúblíkananum, var einfaldlega ekki hampað.  Á fréttastofum er vitað, að fréttaflutningur getur verið skoðanamyndandi, og demókratar í Bandaríkjunum, sem ráða yfir flestum fjölmiðlum og fréttastofum í BNA, hafa iðulega unnið dyggilega í þágu málstaðarins, þó að þeir þar með hafi gert sig seka um þöggun og að þegja óþægilegar staðreyndir í hel. Kannast einhver við þessa lýsingu úr heimahögunum ?  Vinstri slagsíða á fréttastofum ríður ekki við einteyming. 

Þótt undarlega hljómi í Evrópu, þá má ætla, að flestir Bandaríkjamenn séu þeirrar skoðunar nú, að "litli maðurinn", sem útblásinn stjórnmálafræðiprófessor við HÍ kallar "taparann", hrósi nú happi í BNA yfir því, að auðjöfurinn, auðvaldsseggurinn Donald J. Trump, skyldi bera sigur úr býtum í nýafstöðnum forsetakosningum í Bandaríkjunum. 

Það er m.a. vegna þess, að hann var algerlega upp á kant við kerfið, "The Establishment", hin ráðandi öfl alls staðar í þjóðfélaginu, sem mótað hafa umræðuna, ráðið ferðinni, sett fram og varið "rétttrúnaðarstefnu" fjármagnsins á "Wall Street", sem svælt hefur undir sig samfélagið á kostnað hins vinnandi manns, sem vill geta aflað sér og sínum tekna á heiðarlegan hátt og gat það, þar til hann var rændur lífsviðurværinu með því að flytja framleiðsluna á ódýrari staði. 

Meirihluta Bandaríkjamanna þykir líklega, sem "landi tækifæranna-Guðs eigin landi" hafi verið rænt í dagsbirtu rétt framan við nefið á þeim.  "Litli maðurinn", sem stjórnmálafræðiprófessorinn Ólafur Þ. Harðarson, svo ósmekklega kallar "taparann", af því að hann missti starfið sitt, veit, að það er ekki hægt að kaupa Donald J. Trump.  Hið sama varð hins vegar ekki sagt um mótherjann.  Hún var undirlægja fjármálaaflanna. Það sýnir mátt lýðræðisins í BNA, að meirihluti kjósenda þar (það voru mun fleiri en HC og DJT í kjöri) skuli hafa þrek til að andæfa þessu ofurvaldi.  HC hefur nú kennt yfirmanni FBI, Comey, um ósigur sinn.  Það er ódrengilegt, því að hann hélt augljóslega yfir henni hlífiskildi, þó að hún hefði gerzt sek um athæfi, sem stofnaði öryggishagsmunum Bandaríkjanna í hættu.  Það er sjaldgæft, að tapari í forsetakjöri tilnefni blóraböggul fyrir sig.

Nú verður vitnað í 3 forystugreinar Morgunblaðsins í kjölfar kosninganna og í Hjörleif Guttormsson, náttúrufræðing og fyrrverandi iðnaðarráðherra:

Forystugreinin "Loksins lokið", 9. nóvember 2016:

"Fjölmiðlar á Vesturlöndum eru langflestir yfirmannaðir af vinstri sinnuðum blaðamönnum.  Hlutfallið er allt annað en almennt gerist í löndunum sjálfum."

Almenningur á Vesturlöndum hefur gert sér grein fyrir þessu og sprautað sig með móteitri gegn einhliða og oft einfeldningslegum frásögnum blaðamanna af mönnum og málefnum.  Það er hægt að skynja vinnustaðaleiðann, sem fæðir af sér óánægju með hlutskipti sitt, mikla gagnrýnisþörf á þjóðfélagið vegna eigin stöðu og öfund gagnvart öllum, sem betur vegnar. 

Í forystugreininni, "Það óvænta gerðist", 10. nóvember 2016, stóð m.a. þetta:

"Kannanir helztu fyrirtækja á þessu sviði sögðu hana [Hillary] hafa 4 % - 7 % stiga forskot á andstæðinginn, utan við öll vikmörk.  Örstutt var til kjördags og óákveðnir fáir.  Á það var bent hér, að þessar kannanir á landsvísu segðu ekki allt.  Ríkin, þar sem minnstu munaði á milli frambjóðenda, segðu aðra sögu."

Vinnubrögð fyrirtækjanna, sem leggja fyrir sig að leggja mælistiku á fylgi kjósenda við fólk og flokka, sæta furðu, því að augljóslega áttu þau að einbeita sér að mælingum í vafaríkjunum, því að fylgi á landsvísu skiptir engu máli.  Allt fylgi umfram 50,01 % kjósenda fellur víðast hvar dautt.  Því verður ekki trúað, að "fagfólkið" hafi ekki gert sér grein fyrir þessu.  Var verið að afvegaleiða almenning og umheiminn með því að gefa í skyn, að HC hefði, þrátt fyrir einkanetþjóna og fleiri "svín á skóginum", byr í seglin ?

"Sérfræðingar sögðu, að "latinos" bæru þungan hug til Trumps eftir glannaleg ummæli hans um innflytjendur (ólöglega) frá Mexikó og öðrum nágrannaríkjum í suðri.  Útgöngukannanir sýndu hins vegar, að Trump fékk yfir 29 % atkvæða í þessum hópi, hærra hlutfall en Romney í baráttunni við Obama.

Ljóst þótti, að Hillary hefði forskot á meðal kvenna.  Nú sýna fyrrnefndar athuganir, að 53 % hvítra kvenna kusu Trump, en aðeins 44 % þeirra Hillary. 

Ýmsar mýtur kosninganna stóðust illa.  Oft er nefnt réttilega, að Trump sé milljarðamæringur.  En fyrir liggur, að demókratar eyddu margfalt hærri fjárhæðum í kosningarnar en Trump gerði.  Fullyrt var, að fjöldafundir, sem Trump hélt með tugþúsundum í hvert sinn, skiluðu sér sjaldnast í kjörklefana.  Raunin varð önnur."

Demókratar virðast hafa rekið lyga- og ófrægingarherferð á hendur Trump og reynt að breiða yfir það, hversu veikur frambjóðandi HC í raun var, hvort sem hún er með Parkinson-veikina, sem kölluð var lungnabólga, eður ei.  Veikleiki hennar lýsti sér t.d. í því, hversu illa henni gekk að við að yfirbuga hinn "róttæka" Sanders.  Að meirihluti hvítra kvenna skyldi hafna henni, kórónar getuleysið.  Í örvæntingu sinni gripu demókratar til þess ráðs að birta klúrt myndband og leiða fram konur, sem Trump átti að hafa "káfað" á.  Allt var þetta fremur klént og ekki eins krassandi og sögurnar af Bill, eiginmanni frambjóðandans og hjálparhellu, en þessi áburður leiddi óneitanlega hugann að lærlingnum í Hvíta húsinu og Miss Jones. 

Nú víkur sögunni að rannsóknum á viðhorfum fólks og atferlisrannsóknum, sem auðvitað eru mikla lengra komnar en misheppnaðar viðhorfskannanir fyrir kosningarnar í BNA gefa til kynna.  Fyrirtækin, sem að þeim stóðu, eru rúin trausti, enda virðast þau bara hafa verið að dreifa boðskap, sem þeim var þóknanlegur, svo að ekki sé nú minnzt á garmana, álitsgjafana:

"Einn af fréttamönnum sjónvarpsstöðvarinnar CBS sagði um kosninganóttina, að í herbúðum Trumps hefði verið stuðzt við rannsóknir brezks fyrirtækis að nafni "Cambridge Analytica" og það hefði nokkurn veginn greint, hvernig landið lægi.

Í frétt í blaðinu Chicago Tribune segir, að Cambridge Analytica segist geta sagt fyrir um það, hvernig flestir kjósendur muni verja atkvæði sínu með því að greina margvíslegar upplýsingar um hvern kjósanda.  Í greininni segir, að fyrirtækið skoði 5 þúsund atriði um hvern og einn og keyri saman við mörg hundruð þúsund persónuleika- og atferliskannanir til að bera kennsl á milljónir kjósenda, sem lítið þurfi til að telja á að kjósa skjólstæðinga þess, í þessu tilviki Trump.  Segir fyrirtækið, að grundvallarmunur sé á þessu og algengustu aðferðunum, sem felast í að nota lýðfræðileg gögn og keyra saman við upplýsingar á borð við áskriftir að tímaritum og aðild að samtökum til að átta sig á pólitískum tilhneigingum fólks."

"Now you are talking, man."  Það er auðvitað búið að þróa tækni fyrir kosningaherferðir, sem eru mun lengra komnar og nákvæmari en skoðanakannanir, sem okkur eru birtar.  Donald Trump virðist einfaldlega hafa varið fé sínu mun betur en forráðamenn kosningasjóða andstæðingsins.  Donald Trump hafði lag á að koma sér í fréttirnar með atferli sínu og fékk þannig ókeypis auglýsingar.  Herfræði hans var úthugsuð, og hann sló gervallri "elítunni" við. Það hlægir blekbónda óneitanlega, að "elítan" skilur ekki enn, að hún hefur orðið að athlægi.

Hjörleifur Guttormsson átti að vanda góða grein í Morgunblaðinu, og að þessu sinni þann 10. nóvember 2016 um téðar kosningar, þar sem hann greinir stöðuna að sínum hætti í greininni:

"Bandarísku kosningarnar snerust um afleiðingar hnattvæðingar":

"Ástæður stóryrtari umræðu nú en áður eru margþættar og endurspegla djúpstæðari klofning í bandarísku samfélagi en dæmi eru um frá lokum Víetnamstríðsins.  Meginorsökin er að margra mati nýfrjálshyggja og hnattvæðing efnahagslífsins, sem mjög var hert á með frjálsum fjármagnsflutningum fyrir aldarfjórðungi.  Verkafólk og millistéttir, sem urðu bjargálna á eftirstríðsárunum, hafa mátt þola ört dvínandi tekjur og atvinnumissi á stórum svæðum þar vestra án þess að eiga sér öfluga málsvara.  Lengi vel voru demókratar í því hlutverki, en í forsetatíð Bill Clintons eftir 1992 var það merki fellt, og forysta demókrata gekk til liðs við peningaöflin á Wall Street."

Sé þetta rétt greining hjá Hjörleifi, sem vart þarf að efast um, þá er ei kyn, þó að keraldið leki, þ.e. þó að meirihluti ríkjanna og kjörmanna þeirra hafi hafnað frú Clinton.  Staðan er þó skrýtin frá evrópsku sjónarhorni séð.  Auðjöfur tekur upp hanzkann fyrir lítilmagnann og lofar að berjast fyrir málstað hans. Auðjöfurinn lofar að færa launamanninum aftur sjálfsvirðingu hans og vinnu með því að byggja upp innviði landsins að nýju og endurheimta störfin.  Auðjöfrinum er treyst til að fást við hin geysivaldamiklu fjárplógsöfl og rétta við hag "litla mannsins".  Þetta er klassísk uppskrift.  Hvorum megin skyldi sá með horn, klaufir og hala halda sig í þessum hildarleik ? 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Frábær greining, Bjarni.  Það var nefnilega hvorki Comey né glerþakið sem felldi HC.  Önnur og betri kona hefði haft betur - en sú var ekki í framboði í þetta sinn.

Kolbrún Hilmars, 13.11.2016 kl. 15:43

2 Smámynd: Magnús Þrándur Þórðarson

Þú ert heldur fljótur á þér að draga ályktanirnar. 

Við erum ennþá að telja hérna í Gósen, verður ekki fulltalið fyrr en í lok mánaðarins og þá fyrst verður hægt að spá í spilin svo eitthvað vit sé í. 

Þegar þetta er skrifað, hefur Donald Trump enn ekki hlotið sama atkvæðamagn og Mitt Romney í forsetakosningunum fyrir 4 árum.  Líklegt er hann nái atkvæðafjölda Romney, þegar upp verður staðið, þó svo hann vanti ennþá hálfa milljón atkvæða.  Atkvæði á landsvísu ráða ekki forsetakjöri hérna í Ameríku eins og kunnugt er, en það er útlit fyrir, að Hillary Clinton muni að lokum hljóta fleiri atkvæði á landsvísu en Donald Trump (hún er núna með rúmlega 600 þús. atkvæða forskot).  Fari svo, virðist fátt benda til þess, að kjósendur hafi skipt um flokkshollustu í stórum stíl frá því í kosningunum 2012.  Enda virðist þau rök skjóta skökku við, þ.e.a.s að túlka kosningu Trump, sem mótmæli gegn ríkjandi öflum, því kjósendur repúblikana endurkusu að mestu leyti alla sína þingmenn, sem voru í framboði og fyrir í meirihluta í báðum deildum þingins á undangengnu kjörtímabili (ríkjandi öfl sem sagt). 

Það vill gleymast, ekki síst í fjölmiðlum og skoðanakönnunum, að flokkshollustan ræður hér í öllum aðalatriðum.  Kosningarnar nú undirstrika betur en nokkru sinni fyrr, að í raun skiptir ekki meginmáli, hver frambjóðandinn er, þó hann sé bæði skítugur og ljótur.  Dreifing flokkshollustunnar ríki til ríkis, milli dreifbýlis og þéttbýlis, osfrv. er svo önnur saga en engu að síður stór þáttur í niðurstöðu forsetakosninga hérlendis sökum þess hér eru ekki hlutfallskosningar.  Úrslitin ráðast því undantekningalaust í ríkjum, þar sem alla jafna er mjög mjótt á munum, þar sem skiptingin er svo jöfn, að brot úr prósenti ræður úrslitum.

Eins og ég nefndi í upphafi, er enn ekki fulltalið og því of snemmt að túlka tölurnar til fullnustu.  Sé hins vegar grannt skoðað, bendir ekkert til þess að svo komnu máli eins og áður segir, að demókratar hafi flykkt sér um Donald Trump í þeim mæli, sem ætla mætti af fréttum.

Rétt er að bíða með að slá einhverju föstu. 

Magnús Þrándur Þórðarson, 13.11.2016 kl. 17:49

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Takk fyrir, Kolbrún. 

Þetta kjör var sögulegt, svo að það er þess virði að gefa því gaum.  Ég er sammála þér um HC.  Fólk sá í gegnum áróðursmoldviðrið.  Það sá fyrir sér stöðnun og afturför með því að velja HC, en breytingu og von með því að velja DJT.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 13.11.2016 kl. 22:35

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Magnús Þrándur;

Þú kveður talningu ekki lokið þar í Gósenlandi, en ekkert getur þó breytt því, að DJT vann í fleiri ríkjum en Mitt Romney og í nógu mörgum ríkjum til að fá um 290 kjörmenn (þú ert vafalaust með þessa tölu upp á punkt og prik), en þurfti aðeins 270.  Það eru vatnaskilin í þessum kosningum.  Í nokkrum lykilríkjum ákváðu nógu margir að hallast á sveif með frambjóðanda repúblikana, og þeir ákváðu jafnframt að binda ekki hendur hans næstu 2 árin, heldur kusu samflokksmenn hans á þing.  Þetta heitir traust.  Er of snemmt að draga þá ályktun ?

Bjarni Jónsson, 13.11.2016 kl. 22:48

5 identicon

Jú, í raun var önnur og betri kona í framboði ... hún hét Jill Stein.  En því miður, þá er hún með "raunverulega" mannúðarstefnu, ekki fasisma dulbúinn sem "góðvild".

Persónulega hefði ég kosið Jill Stein ... vegna þess að mér finnst BNA eigi að kasta Evrópu á haugana.  Ég "tel" að BNA hafi orðið fornarlamb "poor inteligence", sem á rót sína að rekja frá Evrópu og annarra (Mögulega Soros, tel þó þennan mann vera spurningarmerki). Lybia, Ukraina ... eru afglöp sem rekja má til Evrópu.  G.W.Bush og Írak/Afganistan tel ég einnig Evrópu standa að baki.  Ekki heirðist "búkk" frá Evrópu, en ef þeir væru "raunverulegir" vinir BNA, hefðu þeir allir sem einn staðið upp og barist gegn stríðunum, og fyrir "alvöru" rannsóknum á 9/11 í stað þess að fleigja því á Islam.  Islam, sem Evrópa var "fljót" að spila "góða fólkið" og koma þeim til hjálpar.

Fals, og spilamenska ... sem ég vona að Trump og hans menn, hafa komið auga á.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 13.11.2016 kl. 23:09

6 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Góð grein og fræðandi. Það má segja að það var ótrúlegt hve margir beinlínis hötuðu Trump jafnvel töluðu um heimsendir og ég held að kvennþjóðin hafi látið verst hér á Íslandi. Það reyndar var á tima að engin þorði að mæla með Trump.

Valdimar Samúelsson, 14.11.2016 kl. 00:53

7 Smámynd: Magnús Þrándur Þórðarson

>Er of snemmt að draga þá ályktun ?

Það er of snemmt að draga þá ályktun, að Donald Trump hafi náð kjöri með verulegum stuðningi kjósenda, sem ella hefðu kosið demókrata.  Í raun er fátt, sem bendir til þess.  Trump virðist hafa verið kosinn með atkvæðum, sem demókratar fengu ekki fyrir 4 árum og áttu ekkert frekar möguleika á að fá nú.  Það er flokkshollustan, sem ég minntist á.  Hjá okkur hérna í Amríku kallast það að kjósa hundinn, jafnvel þótt hann sé gulur, og er það jafnt á báða vegu.  Repúblikanar fengur 61 milljón atkvæða 2012 og eru með 60,3 milljónir atkvæða eins og talningin stendur núna.  Ástæðan fyrir ósigri Clinton verður því ekki ljós, fyrr en allt er talið, þá er hægt að spá í, hvar, hvernig og hvers vegna fylgið féll eins og raun ber vitni.  Kosningarnar voru framúrskarandi jafnar.  Atkvæðamunurinn á landsvísu verður líklega innan við 1%.  Í ríkjunum, sem alla jafna gera útum úrslitin í forsetakosningum munaði víða hársbreidd - Michigan 0.3%, New Hampshire 0.4%, Wisconsin 0.9%, Pennsylvania 1.3%, Florida 1.3%, Colorado 2.5%, Maine 2.5% osfrv. - sum féllu Trump í skaut önnur Clinton.  Í 9 ríkjum er munurinn undir 5%, Trump hlaut 101 kjörmann í þessum ríkjum gegn 45 kjörmönnum Clinton.  "Fólk ... sá fyrir sér stöðnun og afturför með því að velja HC, en breytingu og von með því að velja DJT" er því mjög líklega ónákvæm og ófullnægjandi útskýring, þar sem helmingur kjósenda sýnist hafa verið á öndverðri skoðun.

Þú getur hins vegar slegið því föstu, að Trump sigraði og er forseti vor næstu 4 árin.

Magnús Þrándur Þórðarson, 14.11.2016 kl. 03:03

8 Smámynd: Bjarni Jónsson

Já, Valdimar, það er ósjaldan þannig, að þeir, sem verst eru upplýstir og nenna sízt að kynna sér málefnin, láta tilfinningarnar helzt leiða sig í gönur.  Fyrir aðra er alla jafna minnst á slíku fólki að græða. 

Það, sem heyrzt hefur frá nýkjörnum forseta BNA, lofar flest góðu.  Þveröfugt við áróðurinn gegn honum, er hann friðardúfa á erlendum vettvangi m.v. andstæðing hans í forsetakosningunum.  Hann mun væntanlega einbeita sér að innanlandsmálum í BNA, en George W. Bush ætlaði reyndar að gera það líka, en svo verða atburðir, og þá reynir á dómgreind og skipulagshæfni varðandi viðbrögðin.

Bjarni Jónsson, 14.11.2016 kl. 12:53

9 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Það kom reyndar oft fram í fjölmiðlum í kosningabaráttunni að margir þungavigtar-republikar styddu ekki Trump. Svo margir reyndar að það muni einfalda Trump að mynda stjórnarteymi sitt.  Er þetta ekki rétt, Magnús?

Kolbrún Hilmars, 14.11.2016 kl. 12:55

10 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir fróðlegar upplýsingar, Magnús Þrándur;

Í þeim lykilríkjum, sem þú nefnir og hölluðu sér að Obama 2012, en að Trump 2016, hljóta einhverjir kjósendur að hafa skipt um hest.  Við skulum segja, að tilvitnuð málsgrein eigi sérstaklega við um þá af kjósendum Trumps.

Bjarni Jónsson, 14.11.2016 kl. 13:06

11 Smámynd: Magnús Þrándur Þórðarson

Sú staðhæfing þín er einmitt kjarni málsins.  Hafi menn snefil af tölfræðiskilningi, þá vita menn þeir geta ekki haldið slíku fram, án þess að skoða tölurnar. 

Menn þurfa að huga að fleiri en einni breytu og ekki hægt að slá neinu föstu fyrr en lokatölur liggja fyrir.  Þegar upp er staðið, verður hægt að skoða tölur allt niðrí hverja kjördeild og bera saman við fyrri kosningar bæði kjörsókn og niðurstöður.  Þá verður endanlega ljóst, hvort og hvar repúblikanar fengu fleiri atkvæði 2016 en 2012.  Sömuleiðis verður ljóst, hvar Clinton í ár hlaut lakari kosningu en Obama fyrir fjórum árum og hvar betri kosningu.  Einnig verður hægt að gera sér grein fyrir hugsanlegum orsökum lakari stöðu Clinton. 

Tölurnar (ekki endanlegar) í Wisconsin til dæmis, einu af títtnefndum ríkjum, sýna að kjörsókn var ca 124,000 atkvæðum lakari í ár en 2012, rétt við þriggja milljóna atkvæða markið í heildina.  Trump hlaut góða kosningu í dreifbýlinu, Clinton góða kosningu í þéttbýli.  Trump vann með einu prósenti atkvæða og fékk alla 10 kjörmenn ríkisins.  Trump fékk nánast sama atkvæðafjölda og Romney 2012 (1,500 atkvæða munur á þeim).  Clinton fékk 239,000 atkvæðum færri en Obama 2012.  Gary Johnson fékk 86,000 atkvæði umfram þau, sem hann fékk 2012.  Jill Stein fékk 24,000 atkvæði umfram þau, sem hún fékk 2012.  Væru þetta endanlegar tölur, myndi töluglöggur draga þá ályktun, að ósigurs Clinton sé frekar að leita í minni kjörsókn í ár og í flæði atkvæða frá demókrötum til frjálshyggjuflokksins og grænna en síður í flæði atkvæða frá demókrötum til repúblikana - 1,500 atkvæði af 3 milljón eru ekki marktæk.

Að sjálfsögðu er ekki hægt að alhæfa, að svona sé þetta í ríki eftir ríki.  Í sumum ríkjum jókst kjörsókn og þá þarf að nálgast ályktanir með varkárni af eðlilegum ástæðum og ég ætla ekki að gera mig sekan um að slá einhverju föstu á þessu stigi.

Þingmenn og trúnaðarmenn repúblikana hvöttu flokksmenn yfirleitt ekki til að kjósa Clinton.  Jafnvel þeir sem hann gekk fram af og fordæmdu orð hans og æði.  Þeir gáfu í mesta lagi til kynna þeir myndu skila auðu.  Langflestir repúblikanar, forystufólk og almennir kjósendur, tóku pólinn, að Trump væri skárri af tvennu illu.  Yellow dog teorían á ferð.  Það ber líka að hafa í huga, að víða hérlendis tekur almenningur annaðhvort undir fordóma Trump eða er ónæmur fyrir þeim.  Í Texas t.a.m. heyra kjósendur stjórnmálamenn og embættismenn á þeim bæ iðulega segja opinberlega, að ákveðnir þjóðfélagshópar séu holdsveiki smitberar ásamt ýmsu fleira krassandi.  Annars staðar er almenningur viðkvæmari fyrir svoleiðis tali og sleikir nú sár sín, vonsvikinn yfir, að slíkt gildismat hafi haft yfirhöndina í forsetakosningunni.  Hérna í Kaliforníu fékk einungis Franklin Roosevelt (1936) betri kosningu en Clinton nú og er efnahagsástandið og atvinnuleysið hér samt lítt skárra en í uppsveitum Wisconsin og Pennsylvaníu.  Því kannski ekki að furða, að Kaliforníubúar séu uggandi - tala jafnvel um að reisa vegg á landamærum ríkisins til að verjast trumpistum.  Svo það gengur á ýmsu.

Magnús Þrándur Þórðarson, 14.11.2016 kl. 19:17

12 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það var ekki mjótt á mununum alls staðar á milli tveggja efstu frambjóðendanna í lykilríkjum ("swing states").  T.d. vann Trump Ohio með 9 % mun og Iowa með 10 % mun, sem var mun meiri munur en búizt hafði verið við.  Sýnir ekki samanburður við 2012, að kjósendur hafi þar farið frá forsetaframbjóðanda demókrata yfir á repúblikanann ?  Fjölmennasta lykilríkið, Florída, féll að þessu sinni forsetaframbjóðanda repúblikana í skaut.  Hvað sýnir samanburður við 2012 þar um tilflutning fylgis á milli flokka í forsetakosningunum ?

Bjarni Jónsson, 14.11.2016 kl. 21:11

13 Smámynd: Magnús Þrándur Þórðarson

Bið forláts, ég er ekki tíður gestur hérna!  Og einhvern tíma er mál að linni.  Endanlegar tölur liggja fyrir um miðjan desember.  Þá mun ég sjálfsagt gera e-s konar greiningu, svo ég standi klár á, hvaða fjölmiðlar ljúga mest!!

Florida!  Þar jókst kjörsóknin talsvert, eins og talningin stendur núna um 911,000 atkvæði.  442,000 atkvæða aukning rann til Trump, 248,000 til Clinton, 161,000 til Gary Johnson, 55,000 til Jill Stein.  Romney fékk 4,163,447 atkvæði 2012, Trump er með 4,605,515, hvort tveggja 49,1% af heildaratkvæðafjöldanum.  Því væri óhætt að draga þá ályktun, að aukning frjálshyggjuflokksins og grænna sé í aðalatriðum á kostnað Clinton og sé meginskýringin á ósigri hennar í Florida.  Trump sigrar Florida með 120,000 atkvæðum, Johnson er með 206,000 og Stein með 64,000.  Trump fær kjörmennina 29.

Magnús Þrándur Þórðarson, 15.11.2016 kl. 23:46

14 Smámynd: Magnús Þrándur Þórðarson

Ég sendi þér hérna töflu með samanburði á fylgi Trump (2016) og Romney (2012).  Enn einu sinni, ekki endanlegar tölur fyrir 2016.  Vonandi kemur þessi tafla sæmilega til skila.

Hafðu í huga, að ég er þarna einvörðungu með atkvæðamuninn, reikna ekki út prósentuhlutfall hvors um sig af heildaratkvæðum.  Segir sem sé ekki alla söguna, en þú getur reiknað með, að +/- 5% eða þar um bil sé óverulegt.

Bleiki liturinn táknar, að kjörmenn fóru til repúblikana, blái liturinn til demókrata.  Trump vinnur örugglega 6 ríki, sem Obama vann 2012.  Michigan er enn óákveðið, hugsanlegt þar verði endurtalið, en Trump er með 0.3% forskot þar í stöðunni.

Ég ætla ekki að falla í þá gryfju að reyna að túlka dæmið að svo komnu máli - en vonandi hefurðu gaman af að velta þessu fyrir þér.

 

Republican

 

2012

2016

Diff

Diff %

Alabama

1,255,925

1,306,925

51,000

4.1%

Alaska

164,676

130,415

-34,261

-20.8%

Arizona

1,233,654

1,021,154

-212,500

-17.2%

Arkansas

647,744

677,904

30,160

4.7%

California

4,839,958

3,329,627

-1,510,331

-31.2%

Colorado

1,185,243

1,137,455

-47,788

-4.0%

Connecticut

634,892

668,266

33,374

5.3%

Delaware

165,484

185,103

19,619

11.9%

D.C.

21,381

11,553

-9,828

-46.0%

Florida

4,163,447

4,605,515

442,068

10.6%

Georgia

2,078,688

2,068,623

-10,065

-0.5%

Hawaii

121,015

128,815

7,800

6.4%

Idaho

420,911

407,199

-13,712

-3.3%

Illinois

2,135,216

2,118,179

-17,037

-0.8%

Indiana

1,420,543

1,556,220

135,677

9.6%

Iowa

730,617

798,923

68,306

9.3%

Kansas

692,634

656,009

-36,625

-5.3%

Kentucky

1,087,190

1,202,942

115,752

10.6%

Louisiana

1,152,262

1,178,004

25,742

2.2%

Maine (at-large)

292,276

334,838

42,562

14.6%

Maryland

971,869

873,646

-98,223

-10.1%

Massachusetts

1,188,314

1,083,069

-105,245

-8.9%

Michigan

2,115,256

2,279,210

163,954

7.8%

Minnesota

1,320,225

1,322,891

2,666

0.2%

Mississippi

710,746

678,457

-32,289

-4.5%

Missouri

1,482,440

1,585,753

103,313

7.0%

Montana

267,928

274,120

6,192

2.3%

Nebraska (at-large)

475,064

485,819

10,755

2.3%

Nevada

463,567

511,319

47,752

10.3%

New Hampshire

329,918

345,789

15,871

4.8%

New Jersey

1,477,568

1,535,513

57,945

3.9%

New Mexico

335,788

315,875

-19,913

-5.9%

New York

2,490,431

2,640,570

150,139

6.0%

North Carolina

2,270,395

2,339,603

69,208

3.0%

North Dakota

188,163

216,133

27,970

14.9%

Ohio

2,661,433

2,771,984

110,551

4.2%

Oklahoma

891,325

947,934

56,609

6.4%

Oregon

754,175

742,506

-11,669

-1.5%

Pennsylvania

2,680,434

2,912,941

232,507

8.7%

Rhode Island

157,204

179,421

22,217

14.1%

South Carolina

1,071,645

1,143,611

71,966

6.7%

South Dakota

210,610

227,701

17,091

8.1%

Tennessee

1,462,330

1,517,402

55,072

3.8%

Texas

4,569,843

4,681,590

111,747

2.4%

Utah

740,600

419,031

-321,569

-43.4%

Vermont

92,698

95,053

2,355

2.5%

Virginia

1,822,522

1,731,156

-91,366

-5.0%

Washington

1,290,670

1,089,629

-201,041

-15.6%

West Virginia

417,655

486,198

68,543

16.4%

Wisconsin

1,407,966

1,409,467

1,501

0.1%

Wyoming

170,962

174,248

3,286

1.9%

U.S. Total

60,933,500

60,541,308

-392,192

-0.6%

Magnús Þrándur Þórðarson, 16.11.2016 kl. 00:03

15 Smámynd: Magnús Þrándur Þórðarson

Jæja, það gekk ekki betur en þetta, taflan skilar sér ekki sem slík.

Magnús Þrándur Þórðarson, 16.11.2016 kl. 00:04

16 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér kærlega fyrir, Magnús Þrándur, fróðlegt talnaefni um fylgi frambjóðenda í forsetakosningunum í BNA 8. nóvember 2016.  Það kemur manni spánskt fyrir sjónir, að endanlegar tölur verði ekki fyrir hendi fyrr en mánuði eftir kosningar.  Það verður gaman að sjá niðurstöðuna hjá þér á jólaföstu ásamt greiningu á fylgisstraumum.  Ekki er að efa, að flokkarnir tveir og aðrir hagsmunaaðilar, ráðgjafar og fylgiskönnunarfyrirtæki, munu rýna greiningu þína og annarra nákvæmlega til að draga lærdóma af fyrir næstu kosningabaráttu, en eftir stendur, að talið í fjölda kjördæma, fylkja, ríkisstjóra, þingmanna og kjörmanna, er þetta líklega einn stærsti sigur GOP í 100 ár. Mín skýring á því er sú stefna Donalds Trump að endurheimta verkefni og vinnu til BNA og draga úr samkeppni um störfin við ólöglega innflytjendur ásamt mikilli atvinnusköpun með innviðauppbyggingu.  Fyrir slíkan boðskap er góður jarðvegur í landi, þar sem miðgildi launa hvítra karlmanna hefur lækkað að raungildi frá 8. áratugi 20. aldar. 

Með góðri kveðju / Bjarni Jónsson

Bjarni Jónsson, 16.11.2016 kl. 14:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband