Vinstrið slegið út af laginu

Hvarvetna um heim hallar á vinstri menn í kosningum til þjóðþinga og í embætti þjóðhöfðingja.  Stundaglas vinstri manna er að tæmast, enda er ferill þeirra ömurlegur í sögulegu samhengi.  Það flæðir um þessar mundir hratt undan þeim. 

Nýjustu dæmin eru frá Íslandi og Bandaríkjunum, BNA. Á Íslandi var mynduð vinstri blokk fyrir kosningar með bramli og brauki, sem kjósendur  síðan höfnuðu sem misheppnuðu tiltæki.  Í BNA unnu repúblikanar, sem á 20. og 21. öldinni hafa yfirleitt verið taldir vera hægra megin við demókrata,  meirihluta í báðum þingdeildum, og frambjóðandi þeirra til forsetaembættisins vann kosningarnar, þótt hann tapaði í flestum skoðanakönnunum og væri "underdog-tapari" í umsögnum flestra fréttastofanna og meira eða minna óalandi og óferjandi í munni flestra álitsgjafanna.  "Elítan" á öllum sviðum, sem borin er uppi af "Wall Street", hefur demókrata í vasanum og hirðir lítt um hagsmuni almúgans, mátti lúta í gras og sleikir nú sár sín, urrandi ill, eins og Samfylkingin á Íslandi, sem kjósendur sýndu rauða spjaldið og fékk aðeins einn kjördæmakjörinn þingmann 29. október 2016, þótt 2 aðrir flytu á fjörur Alþingis sem hvert annað strandgóss. Fyrrverandi varaformaður þeirra er nú komin í embætti hjá samtökum fjármálafyrirtækja.

Þó að blekbóndi sé ekki stjórnmálafræðingur, tekur hann sér Bessaleyfi og skýrir stefnu og sigur Donalds Trumps þannig, að hún miði öll að því að endurreisa framleiðslukerfi Bandaríkjanna, BNA, iðnaðinn, og skapa þannig grundvöll nýrra, vel launaðra og gefandi starfa, draga þannig úr atvinnuleysi bandarískra ríkisborgara, svo að bandaríski Meðal-Jóninn sjái aftur fjölgun dollara á launaseðli sínum eftir 40 ára hlé á því í raundölum talið. 

Í þessu ljósi ber að líta á afstöðu Donalds til ólöglegra innflytjenda í landinu og ráða hans til að stemma stigu við innflæði fólks yfir landamærin.  Fríverzlunarsamninga hefur hann sömuleiðis gagnrýnt, því að ódýr innflutningur hefur ógnað framleiðslustörfum í BNA og haldið launum niðri í slíkum geirum. 

Hatur spákaupmanna, sem kenndir eru við verðbréfahöllina á "Wall Street", á Donald Trump,  má skýra með því, að stefna hans miði að því, að aukinn hluti verðmætasköpunar bandaríska hagkerfisins lendi í vasa launþeganna.  Aukinn launakostnaður fyrirtækjanna dregur að öðru jöfnu úr hagnaði þeirra, og þá minnka arðgreiðslur til fyrirtækjanna, og pappírssnatarnir á "Wall Street" hafa þá minna upp úr krafsinu.  Kosningasigur Trumps og Repúblikanaflokksins og átökin í kosningabaráttunni verða vel skiljanleg í þessu ljósi, en þeir, sem kenna sig við fræðiheitið Stjórnmálafræði á Íslandi hafa ekki borið við að setja stöðu mála í þetta samhengi, heldur fjargviðrazt einfeldningslega út af einstökum atriðum, að því er virðist vegna andúðar og/eða samúðar með persónum og leikendum.  Verður ekki séð til hvers slík "fræðimennska" er eiginlega nýt.

 Stjórnmálaflokkar, sem staðsetja sjálfa sig vinstra megin við miðju í stjórnmálum, þó að sú miðja sé breytileg frá einu landi til annars, og breytist líka í tíma, eins og Bandaríkin eru skýrt dæmi um, eru í hugmyndafræðilegri úlfakreppu, sem kemur fram í kosningaósigrum um víða veröld.  Vinstri menn á Íslandi, sem 29. október 2016 töpuðu kosningum til Alþingis, þegar þeir töldu sér sigurinn vísan vegna  skoðanakannana, sem vitað er nú, t.d. eftir bandarísku kosningarnar, að er lítið að marka, og er í sumum tilvikum hrein "manipúlasjón", þ.e. misnotkun í því augnamiði að afvegaleiða kjósendur. 

Ríkisstjórn Sigurðar Inga, vinsæls og vel metins dýralæknis af Suðurlandi, féll að vísu, en tilburðir Pírata til að mynda vinstri stjórn fyrir kosningar reyndust alls ekki falla meirihluta kjósenda í geð.  Svikabrigzl sjóræningjadrottningarinnar eftir kosningar í garð þeirra (BF), sem þáðu boð hennar um myndun sýndarríkisstjórnar, sem aldrei varð barn í brók, hljóma eins og spangól kjölturakka. Áður lýsti hún því yfir, að Píratar vildu ekki setjast í ríkisstjórn, en nú vilja þeir í ríkisstjórn með Teflon-Kötu.  Hringlandahátturinn ríður ekki við einteyming á þeim bænum.  Tilburðir til stjórnarmyndunar með þessu tætingsliði á vinstri kantinum eru einber tímasóun. 

Aumkvunarverðar tilraunir vinstri flokkanna til stefnumörkunar eru allar reistar á sandi vanþekkingar og/eða rangtúlkunar á staðreyndum.  Með því að sigla undir fölsku flaggi komast þeir einatt til valda og þá bregst ekki, að þeir nota völdin til að hrinda óvinsælli sérvizku sinni í framkvæmd. Sem dæmi má taka hundakúnstir talsmanna vinstri flokkanna, er þeir fiskuðu í gruggugu vatni jöfnunar tekna og eigna í landinu fyrir kosningar til að fá átyllu til skattahækkana eftir kosningar:

Teflon-Kata, formaður VG, lapti eins og vel strokinn köttur upp úr Kjarnanum og Fréttablaðinu á síðustu dögum síðasta þings, þar sem hún reyndi að gera dreifingu fjármagnstekna og launatekna tortryggilega.  Svandís Svavarsdóttir, SS, illyrtur og hugmyndasnauður sameignarsinni, bætir jafnan um betur til að falla samt ekki í skugga Teflon-Kötu, enda er hún meira í ætt við broddgölt áferðar en Teflon-Kata, og sagði á þingi af þessu tilefni, að baráttan á Íslandi stæði nú um það, hvort lítill hópur eigi að taka til sín miklu meira en aðrir og klykkti svo út þannig:

"Hvort útgerðaraðallinn og Panama-yfirstéttin eigi áfram að efnast meira á kostnað hinna.  Við sjáum það á hverjum einasta degi, að hinir ríku verða ríkari, og misskipting er að aukast dag frá degi."

Þessi tilvitnun í Alþingismanninn SS er groddaleg blanda hálfkveðinna vísna og ósanninda í anda stéttastríðs upp á gamla móðinn.  SS virðist vera genetísk afæta. Téðum þingmanni hentar afar illa að fara með rétt mál, enda helgar tilgangurinn meðalið hjá ómerkilegum stjórnmálamönnum. ("Der Erfolg berechtigt den Mittel" var mottó annarra einræðisafla, sem sölsuðu undir sig ríkisstjórnarvald í veiku  Weimar-lýðveldi eftir þingkosningar í janúar 1933.)

Gunnar Jörgen Viggósson gerði aðdróttanir Teflon-Kötu á þingi um aukna misskiptingu tekna og eigna að umræðuefni í pistli, sem hann fékk birtan á Stundinni fyrir kosningar 29.10.2016. 

Hann hrekur allan vaðalinn í Teflon-Kötu og endar pistilinn þannig:

"Meirihluti þeirra fullyrðinga, sem Katrín Jakobsdóttir hafði eftir Fréttablaðinu í gær á Alþingi voru rangar.  Á undanförnum árum hefur þróunin ekki verið sú, að 2 tekjuhæstu tekjutíundir fái greiddan stærri hlut af launum landsmanna.  Sömu tekjutíundir fengu ekki 2 krónur af 3 af aukningu launatekna, og aukning launatekna nam ekki miakr 200 á milli áranna 2013 og 2015."

Teflon-Kata fær hér falleinkunn fyrir slæleg vinnubrögð og skáldskap, þar sem hún veður að óathuguðu máli upp í ræðupúlt Alþingis og slær um sig með upplýsingum frá fjölmiðli án þess að kynna sér sannleiksgildið.  Það litla, sem hún kom í verk í ráðherratíð sinni, var reyndar þessu markinu brennt að standast illa gagnrýni, t.d. frumvarp hennar um lánsfé til stúdenta erlendis án greiningar á lánsfjárþörf í hverju landi. 

Hvað hefur Óðinn að skrifa um þetta í greininni, "Vopnabúr vinstrimanna er tómt"

í Viðskiptablaðinu, 13. október 2016 ?: 

"Tekjujöfnuður eftir skatta er mestur á Íslandi af ríkjum OECD, var það í tíð síðustu ríkisstjórnar [Jóhönnu Sigurðardóttur] og er enn. Samkvæmt GINI stuðlinum hefur heldur dregið saman með tekjuháum og tekjulágum síðastliðin ár, og var stuðullinn 0,4 stigum lægri (meiri jöfnuður) árið 2015 en við lok síðasta kjörtímabils.

Einnig er hægt að skoða þróun eigin fjár einstaklinga síðustu ár, en eigið fé er í einföldu máli eignir að frádregnum skuldum.  Eigið fé einstaklinga á Íslandi hefur aukizt verulega frá árinu 2010, þegar það var í lágmarki eftir fall bankanna.  Alls nemur aukning eigin fjár einstaklinga miökr 1´384,3, sem er 88 % aukning á milli áranna 2010 og 2015. 

Hlutfallslega hefur staða einstæðra foreldra og hjóna með börn batnað mest.  Árið 2010 var eiginfjárstaða einstæðra foreldra neikvæð um miakr 6,0, en var í árslok 2015 jákvæð um miakr 69,4.  Eiginfjárstaða hjóna með börn hefur batnað um 184 % og farið úr miökr 184,8 í miakr 524,3.  Til samanburðar hefur eiginfjárstaða hjóna án barna batnað um 60 % á tímabilinu."

Þessar tölur sýna, svo að ekki verður um villzt, að eignastaða hinna lakar settu í þjóðfélaginu hefur tekið stakkaskiptum á fáeinum árum, og þvert ofan í getsakir þeirra tveggja sameignarsinnuðu og þó ólíku kvenna, sem vitnað var til hér að ofan, þá hefur hagur hinna lakast settu skánað hlutfallslega mest, sem hefur haft jákvæð áhrif á jöfnuðinn.  Þær hafa þannig báðar orðið berar að gaspri um mál, sem hvorug þeirra hefur þó meiri áhuga á en svo, að hvorki formaður VG né formaður þingflokks hennar nennir að kynna sér málið.  Þar er hinum ráðandi öflum rétttrúnaðarsafnaðarins rétt lýst. Þau vaða á súðum.

Óðinn heldur áfram:  

"Hinir efnuðustu eru vissulega að auka verulega við eignir sínar í krónum talið, en hlutfallslega hefur hagur allra annarra batnað meira en þeirra.  Sést þetta til að mynda á því, að árið 2010 átti efnamesta tíundin um 86 % af heildareiginfé landsmanna, en árið 2015 var hlutfallið komið niður í um 64 %."

Sú spurning vaknar, hvort það sé hlutverk ríkisvaldsins að amast við því, að einhverjum vegni fjárhagslega betur en öðrum ?  Ef féð er heiðarlega fengið, þá hefur sjaldnast nokkur skaðast á velgengni annars.  Oft er um að ræða háskólafólk, sem hefur auðgazt af menntun sinni og sérfræðiþekkingu, t.d. læknar, lögfræðingar, verkfræðingar og viðskiptafræðingar, svo að ekki sé nú minnzt á eftirsótta skipsstjórnendur og flugstjóra.  Það er einmitt hin eftirsóknarverða þjóðfélagslega afleiðing menntunar, að hún eykur s.k. þjóðfélagslegan hreyfanleika, þ.e. tilfærslu fólks á milli stétta og tekjuhópa.  Þessi þjóðfélagslegi hreyfanleiki eftir launastiganum er óvíða meiri en á Íslandi, og hann er miklu eftirsóknarverðara og heilbrigðara þjóðfélagseinkenni en tekju- og/eða eignajöfnuður, sem dregur dám af ríkisvæddu ráni, dregur úr hagvexti og minnkar eða dregur úr vexti skattstofnanna.  Með öðrum orðum á ríkisvaldið að leggja meiri áherzlu á jöfnun tækifæra en jöfnun tekna og/eða eigna, sem ríkið gerir einatt með ranglátri skattheimtu.  Það orkar mjög tvímælis að mismuna þegnunum með misharðri skattheimtu og þannig draga úr hvatanum til að sækja sér menntun eða öðruvísi að leggja harðar að sér við tekjuöflun og eignamyndun. 

"Nær hvernig sem á það er litið, hefur jöfnuður verið að aukast síðustu ár, og er allt tal um annað í bezta falli á misskilningi byggt.  Hitt er svo annað, að jöfnuður á ekki að vera sérstakt markmið í sjálfu sér.  Aðalatriðið er það, hvort almenn velsæld sé að aukast eða minnka.  Það, að nágranni Óðins eigi meira í dag en í gær, hefur ekkert með það að gera, hvort hagur Óðins sjálfs hafi vænkazt eða ekki."

Þarna drepur Óðinn á þjóðfélagslega meinsemd, sem er metingur nágranna, kunningja eða stétta um lífskjör.  Þetta kom síðast fram, þegar Kjararáð kvað upp úrskurð um laun Alþingismanna.  Þegar betur var að gáð, fylgdi Kjararáð bara þróun launavísitölu, þó að stökkið væri hátt, en þau hafa verið tiltölulega fá.  Verkalýðsforingjar réðust að Kjararáði fyrir þennan úrskurð, og fór forseti ASÍ þar fremstur.  Það hefur verið upplýst, að hann sé á hærri launum en Alþingismenn verða eftir téðan úrskurð.  Er það eðlilegt ?  Nei, það er ekkert vit í því, að verkalýðsforingi sé á margföldum launum sinna félagsmanna og á hærri launum en þeir/þau, sem setja eiga þjóðinni allri lög, og sjái svo ekki sóma sinn í því að halda þverrifunni saman, þegar öðrum er dæmd leiðrétting launa sinna. 

Á Íslandi eru heimilin að fá ríflega sinn skerf af batnandi hag fyrirtækja og hins opinbera.  Það er ekki svo alls staðar.  Í Bandaríkjunum hafa t.d. miðlungstekjur hvítra karla, miðgildi launatekna þeirra, "median white male earnings", fremur lækkað að raungildi í 40 ár, þ.e. frá 8. áratuginum, raungildi tekna vel ofan miðgildis hafa þó hækkað, en neðan miðgildis lækkað.  Þetta er algerlega óeðlileg launaþróun, og óánægjan brauzt út með sigri "utangarðsmanns" í forkosningum repúblikana og síðar sigri hans í kosningunum 8. nóvember 2016, þar sem hann fékk yfir 300 kjörmenn, að kjörmönnum Michigan meðtöldum, sem vafi leikur um á þessari stundu, af 528, með sigri í um 70 % ríkjanna, meirihluta flokks hans í báðum þingdeildumm og nú eru um 70 % ríkisstjóranna repúblikanar.  Þótt Donald Trump hafi e.t.v. ekki fengið fleiri atkvæði en Mitt Romney 2012, þá fékk Hillary Clinton mun færri atkvæði, um 6 milljónum, en Barack Obama þá, og þetta er þess vegna einn versti ósigur demókrata í manna minnum á landsvísu, þótt halda beri til haga, að þeir fengu fleiri atkvæði alls en repúblikanar í forsetakosningunum, af því að stuðningur er mikill við þá í fjölmennustu ríkjunum, New York ríki og Kaliforníu.  Slíkt nýtist ekkert í kjörmannakerfi BNA.

Áfram skal vitna í Óðin:

"Í þessu ljósi er vert að benda á, að ráðstöfunartekjur heimila [á Íslandi] jukust árið 2015 um 10,8 % frá fyrra ári.  Ráðstöfunartekjur á mann jukust um 9,6 % á milli ára, og kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann jókst um 7,9 %.  Þá jukust heildartekjur heimila um 9,5 % á milli áranna 2014 og 2015."

Hér er um einstæðar tölur að ræða í sögulegu samhengi á Íslandi, og á seinni árum finnst svo hröð kaupmáttaraukning vart annars staðar á Vesturlöndum.  Íslendingar eru þess vegna án nokkurs vafa "á réttri leið", enda hafa vinstri flokkarnir engan höggstað fundið á efnahagsstjórnuninni 2013-2016. 

Það er fullkomið vindhögg hjá þeim að reyna að gera sér mat úr tekju- eða eignadreifingunni á Íslandi.  Hún er nánast hvergi jafnari en hér, og alþjóðlegir ráðgjafar hafa bent á, að jafnari tekjudreifing geti orðið skaðleg fyrir samfélagið, því að í tekjumuni felist hvati til að komast í hærra tekjuþrep.  Því fleiri leiðir sem einstaklingarnir hafa til slíks, þeim mun betra.  Það er jafnframt kunnara en frá þurfi að segja, að há sérfræðingslaun eru stór þáttur í samkeppnishæfni landa um fólk með verðmæta alþjóðlega þekkingu fyrir stofnanir og fyrirtæki.  Síðast sannaðist það áþreifanlega eftir læknaverkfallið á Íslandi 2015, þó að nokkrir íslenzkir læknar á erlendri grundu bíði bættrar og langþráðrar vinnuaðstöðu á Landspítalanum.     

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Góðir að vanda.

Valdimar Samúelsson, 19.11.2016 kl. 17:18

2 Smámynd: Elle_

Alvarleg villa í fréttaflutningi mbl.is, Bjarni, í sambandi við nýkjörinn forseta Bandaríkjanna.  Í mbl stendur: Trump hef­ur lýst því yfir að hann hyggist senda millj­ón­ir inn­flytj­enda úr landi og reisa vegg á landa­mær­um Bandaríkj­anna og Mexí­kó.

Það er alrangt, hann sagðist ætla að senda ólöglega innflytjendur úr landi og það er mikill munur og nákvæmlega ekkert rangt við það.  Það kallast eðlilegar landvarnir.  Þetta gæti kallast að dreifa lygasögum af hálfu blaðamanns mbl.
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/11/19/innflytjendur_haldi_ro_sinni/

Elle_, 19.11.2016 kl. 20:01

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Einmitt, Elle, ég tók eftir þessu líka.  Að sleppa einu lýsingarorði úr setningu getur gjörbreytt merkingu og/eða boðskap, eins og í þessu tilviki.  Straumur ólöglegra innflytjenda undirbýður bandaríska ríkisborgara á vinnumarkaði.  Þessi aðgerð, sem Trump lofar, er forsenda þess, að hann geti staðið við loforð sitt um "að skapa milljónir starfa" fyrir Bandaríkjamenn og nánast útrýma atvinnuleysinu, sem nánast allt annað snýst um hjá honum, líka riftun fríverzlunarsamninga við láglaunasvæði.  Trumpsinnar segja: "Við höfum skapað fjölmenna millistétt í Asíu á kostnað launþega í Bandaríkjunum, sem hafa orðið fátækari fyrir vikið".  Höfum samt í huga, að Repúblikanaflokkurinn er með meirihluta í báðum þingdeildum, og sá flokkur hefur aðhyllzt "hnattvæðingu viðskipta" nú um áratuga skeið.  Þetta verður enginn dans á rósum fyrir Donald Trump.  Hann hefur náð góðum árangri hingað til, en verður hann nú "Péturslögmálinu" að bráð ?

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 19.11.2016 kl. 21:42

4 Smámynd: Elle_

Já svo var það eitt í sambandi við vegginn sem hann vill reisa við Mexikó.  Halló, það er langur langur veggur þar nú þegar og yfir 1,9 mílna langur.  Það gerir hann samt svo voða vondan að vilja verja landamærin enn betur en nú.

Elle_, 19.11.2016 kl. 23:20

5 Smámynd: Elle_

Æ já, svo var ég alveg sammála um Kötu í VG.

Elle_, 19.11.2016 kl. 23:22

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Elle;

Það er rétt með vegginn.  Hann ætlar bara að klára hann og hefur sagt, að hann muni girða þann hluta leiðarinnar, sem síður hentar til vegghleðslu.

Nákvæmlega hið sama hafa Mið-Evrópuþjóðir á borð við Ungverja gert til að verjast flóttamannafárinu.  Frændur okkar, Norðmenn, hafa tekið upp hraðafgreiðslu á landvistarumsóknum flóttamanna og vísað þeim fumlaust til baka, sem augljóslega eiga ekki rétt á "alþjóðlegri vernd".  Svipuð afgreiðsla hefur verið tekin upp í Danmörku og Svíþjóð.  Hvað gerist þá ?  Straumurinn beinist til Íslands, þar sem skilvirknin á þessu sviði virðist engan veginn ná máli.  Afleiðing ráðleysins er milljarðá útgjaldaauki úr vasa okkar, skattborgaranna, og alls konar óáran á formi minna framboðs húsnæðis, aukaálags á heilbrigðiskerfið, aukin smithætta og pöddufargan og afbrot. 

Bjarni Jónsson, 20.11.2016 kl. 12:23

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þessir "ólöglegu" innflytjendur eru samt milli 2 og 3 milljónir að mati Trumps. Þrælarnir, sem í orði fengu frelsi í frelsisstríðinu voru áfram beittir misrétti á þann veg, að skilyrði kosningalöggjafarinnar til að fá að kjósa voru höfð þannig að þeir voru nær allir "ólöglegir". 

Republikanar, sem ráða ríkjum í Wiscounsin, breyttu kosningalöggjöfinni í síðustu kosningum þannig, að 300 þúsund af þeim, sem helst voru líklegir að kjósa Hillary, voru gerðir "ólöglegir." 

Hingað til hefur það verið trúarsetning frjálshyggjumanna að framleiða eigi vörur þar sem það er hagkvæmast og hafa helst engar hömlur á borð við tolla og innflutningshöft í gildi. 

Nú er þetta allt í einu túlkað af hægri mönnum sem stefna vondra vinstri manna. 

Ómar Ragnarsson, 20.11.2016 kl. 13:19

8 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Ómar;

Það er, eðli málsins samkvæmt, ekki vitað um fjölda ólöglegra innflytjenda í BNA, en Trump hefur slegið fram tölu, sem samsvarar allt að 1 % af löglegum íbúafjölda, en gæti verið enn hærri. Ætla má, að þeir haldi sig aðallega í suðurhluta BNA og eru þá hlutfallslega nógu margir þar til að hafa áhrif á framboð vinnuafls og kaupgjaldið.

Þessi forskráning að eigin frumkvæði á kjörskrá hefur alltaf komið spánskt fyrir sjónir.  Að sögulega skýringin sé takmörkun kosningaréttar kemur ekki á óvart.  Skrýtið, að Bandaríkjamenn skuli ekki hafa afnumið þessa kvöð fyrir löngu. 

Í Wisconsin eru margir af norrænu og þýzku bergi brotnir og hafa oft verið hallir undir demókrata.  Það kemur verulega á óvart, ef möndl með kjörskrána, eins og þú lýsir, er sannleikanum samkvæmt, en ég er ekki í aðstöðu til að rengja það heldur.

Repúblikanaflokkurinn hefur ekki breytt afstöðu sinni til frjálsra viðskipta, og ég efast um, að kjör Donalds breyti henni í einu vetfangi.  Þess vegna á líklega eftir að kastast í kekki á milli Hvíta hússins og Capitol Hill út af viðskiptasamningum. 

Ég hygg, að flestir hagfræðingar telji hnattvæðinguna hafa orðið almenningi á Vesturlöndum til hagsbóta, og enginn vafi leikur á um Þriðja heiminn.  Hins vegar eru skuggahliðar á hnattvæðingunni, sem þarf að sníða af.  Að taka upp "merkantílisma" til varnar er hins vegar að kasta barninu út með baðvatninu. 

Með góðri kveðju /  

Bjarni Jónsson, 20.11.2016 kl. 14:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband