Heilnæmi matvæla í mengaðri veröld

Hneyksli í samskiptum eggjaframleiðanda og eftirlitsstofnunar ríkisins með heilnæmi matvæla skók samfélagið um mánaðamótin nóvember-desember 2016. Hneykslið var þríþætt. 

Í fyrsta lagi illur aðbúnaður, a.m.k. hluta hænsna, á eggjabúum tilgreinds fyrirtækis.  Þetta varðar bæði dýravernd og hollustu matvæla. 

Í öðru lagi aðgerðarleysi eftirlitsaðilans, Matvælastofnunar, MAST, eftir að upp komst um óleyfilegan fjölda fugla á flatareiningu og ljóst var, að umtalsverður fjöldi þeirra var vanhaldinn og þreifst illa. Myndskeið norskættaða dýralæknisins talaði sínu máli um það. Hinu brotlega fyrirtæki voru gefnir frestir á fresti ofan og hótað refsiaðgerðum, ef ekki yrði orðið við aðfinnslunum, en yfirstjórn eftirlitsstofnunarinnar heyktist alltaf á að láta kné fylgja kviði. Slíkt viljaleysi á ekki erindi á þann stað, en fúsk embættismanna er því miður landlægt á Íslandi. Er slíkt tekið að reyna á þolrif almennings í landinu, sem þarf að leita til eftirlitsstofnana og er auðvitað háður þeim, t.d. varðandi gæði og heilnæmi matvæla.   

Í þriðja lagi var hjá þessari eftirlitsstofnun ríkisins, Matvælastofnun, látið hjá líða að upplýsa neytendur um það, að eggjabú þessa fyrirtækis uppfylltu ekki lágmarks gæðakröfur varðandi alifuglarækt og að merking á vöru fyrirtækisins um "vistvæna framleiðslu" væri þess vegna afar villandi og í hróplegu ósamræmi við veruleikann. Með þessu háttarlagi var grafið undan bændum með metnað og dug, sem lagt hafa í talsverðan fórnarkostnað til að þjóna neytendum og dýrum sínum af trúmennsku.  Þeir, sem lengst eru komnir þar á bæ, hafa náð erfiðum hjalla, sem er alþjóðlega faggilt vottun um lífrænan búskap.   

Hér er ekki við starfsfólk eftirlitsstofnunarinnar að sakast, því að viðkomandi dýralæknar gerðu drög að fréttatilkynningu til fjölmiðla á grundvelli athugana og athugasemda sinna, og hefur annar dýralæknirinn gert grein fyrir afstöðu sinni í viðtali við RÚV frá Noregi á lýtalausri íslenzku með hugljúfum, syngjandi norskum hreim, sem unun var á að hlýða, þótt málefnið væri óskemmtilegt. 

Forstjóri MAST hefur tekið á sig ábyrgðina á að banna birtingu þessarar sjálfsögðu tilkynningar til almennings um heilnæmi matvæla, sem neytendur leggja sér til munns í góðri trú. Eru þar hafðar uppi hæpnar lagarefjar.  Forstjórinn segist  þó vilja læra af margítrekuðum mistökum sínum, en rígfullorðnir menn læra ekki dómgreind.  Af dómgreindarleysi var leyndarhjúpi sveipað yfir stofnunina í hverju málinu á fætur öðru.  Almenningur, sem að miklu leyti fjármagnar þessa stofnun, á rétt á öllum upplýsingum án tafar, sem áhrif geta haft á líðan hans og heilsufar, svo og um blekkingariðju gagnvart neytendum. Efnisatriði málsins eru svo alvarleg, að rökréttast er fyrir þennan forstjóra að axla sína ábyrgð í verki og rétta þar með hlut stofnunar sinnar.  Annað er óviðunandi fyrir bæði heiðvirða framleiðendur og alla neytendur.

Hið sama á við um hefðbundin bændabýli og stórvaxinn búskap.  Það er hreinn fyrirsláttur hjá yfirstjórn MAST, að vegna ákvæða í persónuverndarlögum megi hún ekki upplýsa opinberlega um slæma meðferð dýra á almennum búum.  Hvert bú er í raun lögaðili, sem haft getur fjölbreytilegt eignarhald, en einkaeign eins bónda eða sameign hjóna eða fjölskyldu er algengast.  Að opinber stofnun, að miklu leyti á framfæri almennings, haldi því fram, að aðfinnslur um búfjárhald eigi ekki erindi til almennings, er fásinna á 21. öld.  Almenningur á hér hagsmuna að gæta, af því að slæm meðferð dýra hefur óhjákvæmilega neikvæð áhrif á gæði afurða þeirra. Sjónarmið forstjórans er úrelt og á skjön við nútímakröfur um dýravernd og neytendavernd. 

Skilyrði eindregins stuðnings íslenzkra neytenda við íslenzka matvælaframleiðendur er, að allt sé uppi á borðum hjá bændum, er varðar hvaðeina, sem haft getur áhrif á gæði framleiðslu þeirra.  Þarna þarf fullkomið gegnsæi að ríkja og þeir, sem skyggja á það eða hindra, grafa um leið undan trausti á íslenzkum bændum.  Sterkasta tromp bændanna er heilbrigður gróður og vel haldnir og heilbrigðir dýrastofnar, sem fá minnst allra bústofna og nytjajurta Vesturlanda af sýklalyfjum, skordýraeitri og tilbúnum áburði og fá jafnframt hreinasta vatnið og lifa á minnst mengaðri jörð.  Þess vegna kjósa flestir landsmenn íslenzka bændur, þegar þeir verzla í matinn, enda er vistspor þeirra minna en samkeppnisaðila þeirra erlendis. 

Í Fréttablaðinu, 3. desember 2016, á bls. 6 er frétt um dýravernd undir fyrirsögninni,

"Ekki upplýst um aðbúnað hjá bændum":

"Matvælastofnun neitar að afhenda Fréttablaðinu upplýsingar um aðfinnslur héraðsdýralækna stofnunarinnar varðandi aðbúnað og umhirðu dýra á lögbýli á Vesturlandi.

Neitun Matvælastofnunar barst Fréttablaðinu sama dag og forstjóri stofnunarinnar lofaði bót og betrun og ríkari upplýsingagjöf til almennings í Kastljósviðtali.  MAST mun ekki veita upplýsingar um dýravelferð hjá íslenzkum bændum."

Matvælastofnun starfar undir stjórn atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.  Ráðherra ber pólitíska ábyrgð á starfseminni.  Umburðarlyndi landsmanna gagnvart hegðun yfirstjórnar MAST er þrotin.  Stjórnmálaflokkunum er hollt að hugleiða þetta, bæði núverandi valdhöfum og komandi, og leggja fram og samþykkja frumvarp um lagabreytingar, ef þær eru taldar nauðsynlegar til að ná fram ásættanlegri stöðu þessara mála. Skemmd epli mega ekki fá að skemma meira út frá sér.

"Hallgerður Hauksdóttir, formaður Dýraverndarsambands Íslands, segir mikilvægt, að upplýsingum sé ekki haldið leyndum.  "Það skiptir gríðarlega miklu máli, að gögn um illa meðferð búfjár séu opinber almenningi, svo að neytendur geti valið og hafnað", segir Hallgerður.  "Mér sýnist, miðað við þessa neitun, að Matvælastofnun ætli sér ekki að bæta ráð sitt varðandi upplýsingagjöf til almennings"."

Auðvitað er illmannleg meðferð dýra ein hliðin á þessu máli.  Óheft upplýsingagjöf opinberrar eftirlitsstofnunar til almennings er sjálfsagt og beitt vopn í baráttunni gegn dýraníði.  Það er tilhneiging til meðvirkni fólgin í að þegja í hel pervisalegt og skaðlegt framferði manna gegn öðrum mönnum og málleysingjum. Svipta ber hulunni miskunnarlaust ofan af því öllu og refsa harðlega. 

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifaði frétt í Fréttatímann á fullveldisdaginn, 1. desember 2016, og birti viðtal við mann, sem skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, fyrrverandi yfirdýralæknir, fól afgreiðslu erindis um hið alræmda eggjabú, með fyrirsögninni:

"Stóreinkennileg framkoma ráðuneytis": 

"Það er stórkostlegt, að ráðherra skuli draga mig upp úr hattinum til að vísa frá sér ábyrgð í málinu", segir Kristinn Hugason, búfjárkynbóta- og stjórnsýslufræðingur og fyrrverandi starfsmaður atvinnuvegaráðuneytisins, en ráðherra hefur sagt brotthvarf hans úr ráðuneytinu ástæðu þess, að mál Brúneggja sofnaði í ráðuneytinu.  .....

Hann segir málið allt fyrir neðan allar hellur, og málsmeðferð Matvælastofnunar í þessu máli í gegnum árin sé mjög ámælisverð og viðbrögð ráðuneytisins stóreinkennileg.  "Ill meðferð á varphænum hjá Brúneggjum kom aldrei inn á borð til mín í ráðuneytinu.  Þetta mál, sem barst þangað í desember 2013, snýst um vistvæna vottun.  ....

Það er ákaflega miður að horfa upp á þetta klúður; það er til að mynda fráleitt að nema reglugerð um vistvænar merkingar úr gildi án þess að tryggja, að slíkar merkingar séu ekki leyfðar á neytendaumbúðum.  Það er algerlega ljóst, að þar bar Matvælastofnun að grípa strax til aðgerða, þar sem hún fylgist með löglegum merkingum matvæla"."

Það virðist vera fullt tilefni til að framkvæma stjórnsýslurannsókn á þessu ráðuneyti, því að axarsköpt þess eru legío.  Að fyrirspurn undirstofnunar ráðuneytisins til ráðuneytisins skuli ekki vera skráð á framvinduskrá þess og henni fylgt eftir af ráðuneytisstjóra eða skrifstofustjóra, vitnar um stjórnsýslulega óreiðu í ráðuneytinu. Fróðlegt væri að vita, hverjum stjórnendur þessa ráðuneytis telja sig í raun vera að þjóna.  Stjórnunarlegt fúsk kemur upp í hugann í þessu sambandi. Nú er að sjá, hvort nýr ráðherra gerir gangskör að brýnum úrbótum á vinnubrögðum.

Þegar gæðatryggð vottun um lífræna ræktun með rekjanleika til alþjóðlegra staðla var tekin upp á Íslandi, mátti ráðuneytinu vera það ljóst, að leyfilegar fúskmerkingar á neytendaumbúðum matvæla, sem voru til þess fallnar að afvegaleiða neytendur, mundu grafa undan framleiðendum, með fagtryggða vottun um lífræna framleiðslu, vegna þess að fjöldi neytenda mundi ekki átta sig á, að í öðru tilvikinu er um raunverulega og kostnaðarsama hollustu að ræða, en í hinu tilvikinu getur hæglega verið um vörusvik að ræða, eins og reyndin var í téðu eggjamáli.  Að láta duga að nema reglugerð úr gildi um vistvæna framleiðslu var hálfkák eitt og vitnar um ófagleg vinnubrögð. Mál er, að linni.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband