Dagur rafmagns

Dagur án rafmagns er að vísu öllu áhugaverðari en dagur rafmagns, því að rafmagnið er nánast alls staðar, en það er þó vert að rita pistil í tilefni dags rafmagnsins í viku 04/2017.  Dagur rafsviðsins eða stöðurafmagnsins var víst 9. janúar 2017, en nú er komið að rafsegulsviðinu og rafstrauminum. 

Rafmagn er náttúrufyrirbæri, sem hinum viti borna manni (homo sapiens) hefur tekizt að virkja með snilldarlegum hætti.  Elding verður til, þegar rafstraumur (10-100 kA, k=1000) hleypur á milli andstæðra hleðslna.  Rafstraumnum fylgja eldglæringar og drunur, sem vakið hafa óttablandna virðingu frá örófi alda, enda tengdar goðum. Eldingar hafa klofið tré og valdið skógareldum, brunasárum og dauðsföllum. 

Fræg er sagan af Marteini Lúther, 16. aldar þýzkum munki,  sem ofbauð spilling og guðleysi páfastóls þess tíma.  Hann var á gangi með vini sínum, er sá var lostinn eldingu, en Lúther slapp naumlega, þakkaði guðlegri forsjá og efldist að trúarhita við atburðinn. Eldingin leitar alltaf í hæsta punkt á tilteknu svæði.  Þannig draga eldingavarar, sem eru málmtrjónur upp í loftið, til sín eldingar og verja þannig byggingar.  Gildir koparleiðarar eru tengdir við trjónuna og við jarðskaut sérstakrar gerðar í hinn endann. 

Ef slæm spennujöfnun er í jarðskautinu, getur mönnum og dýrum, einkum klaufdýrum, sem standa eða eru á gangi yfir jarðleiðaranum, stafað hætta af straumnum í leiðaranum, sem veldur hættulegri skrefspennu.  Hafa kýr drepizt á Íslandi af völdum skrefspennu, reyndar af völdum straums úr einnar línu loftlínukerfi, þar sem straumurinn var leiddur til baka gegnum jörðina til að spara kopar í loftlínu. 

Þó að Íslendingar sem þjóð noti manna mest af rafmagni eða um 56 MWh/íbúa, samanborið við 3,1 MWh/mann á jörðunni að meðaltali, þá er íbúum landsins enn mismunað gróflega um aðgengi að þriggja fasa rafmagni, þar sem margar blómlegar sveitir með öflugan búrekstur, sem virkilega þurfa á þriggja fasa rafmagni að halda, fá aðeins einfasa rafmagn með eins- eða tveggja víra loftlínu.  Það er til vanza, að stjórnvöld orkumála og RARIK skuli ekki hafa sett enn meiri kraft en raun ber vitni um í þrífösun sveitanna með jarðstrengjum og niðurtekt gamalla og lúinna loftlína.

Öflug hleðslutæki fyrir rafmagnsökutæki, sem hlaða á stytzta tíma, eru þriggja fasa.  Sama verður um vinnuvélar bænda og annarra.  Þess vegna er aðgengilegt þrífasa rafmagn fyrir a.m.k. 32 A alls staðar á landinu forsenda fyrir rafvæðingu ökutækja og vinnuvéla á landinu öllu.  Fyrir RARIK og aðrar rafveitur felur rafvæðing ökutækjaflotans í sér viðskiptatækifæri um aukna orkusölu, og fyrirtækin standa þess vegna frammi fyrir arðsamri fjárfestingu, sem réttlætanlegt er að flýta með lántökum.  Þau munu líka spara viðhaldskostnað á gömlum línum með þessari fjárfestingu. 

Fá lönd, ef nokkur, standa Íslendingum á sporði varðandi hlutdeild endurnýjanlegra orkulinda í heildarorkunotkun.  Hlutfallið er nú um 86 % hérlendis, gæti orðið um 90 % árið 2030 og 100 % um miðja 21. öldina, ef myndarlega verður að orkuskiptum staðið.  Á heimsvísu var hlutdeild jarðefnaeldsneytis af heildarorkunotkun árið 2013 um 81 %.  Raforkunotkun vex hratt í heiminum, og raforkuvinnslan á mestan þátt í miklum og vaxandi styrk koltvíildis í andrúmsloftinu, sem er algengasta gróðurhúsalofttegundin. 

Rafmagnið hefur gjörbreytt atvinnuháttum og daglegu lífi fólks til hins betra, en það gæti orðið blóraböggull rándýrra mótvægisaðgerða vegna hlýnandi lofslags, nema tækniþróunin komi innan 10 ára fram á sjónarsviðið með orkulind fyrir hreina raforkuvinnslu, sem leyst getur eldsneytisorkuverin af hólmi. 

Raforkuvinnslugeta Íslendinga úr fallorku vatns og jarðgufuþrýstingi er takmörkuð við 35 TWh/ár af náttúruverndarsjónarmiðum.  Orkuvinnslugeta núverandi virkjana er um 54 % af þessu.  Fyrir vaxandi þjóð, sem ætlar að rafvæða samgöngutæki á láði, legi og í lofti, er engin orka afgangs til að flytja utan um sæstreng, nema til Færeyja, ef áhugi verður á slíku.  Stórfelldur raforkuútflutningur mundi hafa í för með sér áberandi mannvirki og náttúruinngrip, sem ekki öllum falla í geð.  Fyrir svo dýra framkvæmd sem 1200 km sæstreng skiptir hagkvæmni stærðarinnar meginmáli.  Þá er átt við orkusölu allt að 10 TWh/ár, sem eru tæp 30 % af heildarorku, sem e.t.v. fengist leyfi til að virkja.  Svo hátt hlutfall skapar flókin tæknileg úrlausnarefni í samrekstri lítils rafkerfis og stórs erlends rafkerfis og mundi vafalaust valda hér miklum verðhækkunum á raforku.  Það viljum við alls ekki.  Þvert á móti viljum við njóta ávaxta fjárhagslega afskrifaðra virkjana. 

Á degi rafmagns 2017 á Íslandi eru rafmagnsmálin alls ekki í kjörstöðu.  Verkefnisstjórn um Rammaáætlun þrjózkaðist við að taka allmarga virkjanakosti frá Orkustofnun til athugunar og rannsakaði ekki samfélagslega kosti annarra.  Síðustu niðurstöðu var þess vegna verulega áfátt, of fáir virkjanakostir í nýtingarflokki og of margir í bið m.v. fyrirsjáanlega raforkuþörf landsins fram til 2050. 

Öllu verri er samt staða einokunarfyrirtækisins Landsnets.  Sú markaðsstaða er lögbundin, en eignarhaldið er óeðlilegt.  Rétt er, að ríkissjóður kaupi sig inn í Landsnet og féð verði notað til að greiða fyrir lagningu jafnstraumsjarðstrengs undir Sprengisand án þess að sprengja gjaldskrá fyrirtækisins upp.  Þessi kaup má fjármagna með væntanlegum arðgreiðslum frá orkufyrirtækjunum. 

Þá verður hægt að halda Byggðalínu áfram á 132 kV og grafa hana í jörð í byggð, þar sem hún er fólki mest til ama.  Aðalatriðið er að eyða þeim flöskuhálsum, sem nú eru í flutningskerfinu og standa atvinnulífi á Vestfjörðum og Norðurlandi fyrir þrifum.  Vestfirði þarf að hringtengja með 132 kV línu og með strengnum undir Sprengisand eykst flutningsgetan til Norðurlands og Norð-Austurlands, svo að ný fyrirtæki geta fengið nauðsynlega orku, eldri aukið álag sitt og hægt verður að leysa olíubrennslu af hólmi í verksmiðjum, við hafnir og annars staðar.  Hér bíða verðug verkefni nýs orkumálaráðherra.  Afleiðing eldingar ágúst 2012


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband