Fiskeldi og framleiðni

Framleiðniaukning ætti að vera meginviðfangsefni allra atvinnugreina og allra starfsgreina á Íslandi, alveg óháð rekstrarformi eða eignarhaldi á viðkomandi fyrirtæki eða stofnun. Upplýsa ætti um framleiðniaukningu í hverri grein við endurskoðun kjarasamninga. Flestar starfsgreinar á Íslandi þurfa að vinna upp framleiðniforskot, sem sömu starfsgreinar hafa náð, t.d. á hinum Norðurlöndunum. 

Hvers vegna að gera sér rellu út af þessu á sama tíma og hagvöxturinn er langmestur á Íslandi ? Um það sagði hinn kunni bandaríski hagfræðingur, Paul Krugman, árið 1994:

"Framleiðni skiptir ekki öllu máli, en til lengri tíma litið skiptir hún eiginlega öllu máli.  Geta landsins til að bæta lífskjör til lengdar er algerlega háð því, að takist að auka afköst á hvern starfsmann."

Framleiðni er samsett úr skilvirkni og skynsemi, þ.e. tíma og fjármunum sé varið til örrar verðmætasköpunar.  Því meiri verðmætasköpun á tilgreindu tímabili, t.d. einni klst, þeim mun meiri framleiðni.  Því miður er framleiðni heimilanna torreiknuð í þessu sambandi, en þar verða mestu verðmætin þó til, þ.e. næsta kynslóð. 

Hagvöxturinn á Íslandi að undanförnu á ekki rætur að rekja til heildarframleiðniaukningar, enda hefur hún í heildina staðið í stað síðan 2012, heldur stafar aukin verðmætasköpun aðallega af innflæði fólks til landsins umfram brottflutta. Nam þessi mismunur um 3000 manns árið 2016, sem er meira en náttúruleg fjölgun á vinnumarkaðinum.  Atvinnuþátttaka landsmanna sjálfra hefur líka vaxið, fleiri farið á vinnumarkaðinn og færri eru atvinnulausir en nokkru sinni fyrr eða 2,4 %, ef árið 2007 er undanskilið. 

Fjölgun erlendra ferðamanna á sinn þátt í þessu, en framleiðniaukning í þjónustugreinum er yfirleitt hæg, þær eru mannaflsfrekar, og ferðaþjónustan er ekki sérlega verðmætaskapandi reiknuð niður á hvert starf þar.  Segja má, að ferðaþjónustan á Íslandi sé ein tegund nýtingar á náttúruauðlindum Íslands. Líklega mun um 1,6 M þeirra 2,4 M, sem væntanlegir eru inn í landið erlendis frá, hafa mestan hug á að upplifa sambland elds og ísa og sérstæða norræna náttúru. Sú náttúrunýting var staðbundin komin yfir hættumörk fyrir viðkvæma náttúruna áður en heildarfjöldinn náði 2,0 M, sem þýðir, að þar þarf að hemja ósóknina með gjaldtöku, og dreifa álaginu víðar um landið.  Spáð er erlendum ferðamannafjölda árið 2017 um 2,4 M manns, en á sama tíma hrapar verðgildi stærsta ferðaþjónustufyrirtækis landsins á markaði. Donald Trump er kennt um, en hvernig stendur þá á því, að hlutabréf á bandarísku verðbréfamörkuðunum tóku að rísa, þegar hann náði kjöri, og eru nú í hæstu hæðum. Það er ekki allt sem sýnist.

Mikill vaxtarbroddur er í annarri ólíkri grein, sem er þó reist á íslenzkri náttúru, þar sem er sjókvíaeldi við strendur Vestfjarða og Austfjarða.  Norðmenn, sem framleiða munu um helming alls eldislax í heiminum um þessar mundir, 1,3 Mt/ár, hafa fjárfest í íslenzku fiskeldi, lyft því í nýjar hæðir, miðlað þangað mikilli þekkingu og reynslu, og hyggja á stóraukið laxeldi hér.  Það gæti mest numið 100 kt/ár eða tæplega 8 % af núverandi laxeldi við Noreg, sem mun vera komið nálægt sínum efri mörkum. Hlutfallið er svona lágt vegna þess, að viðlíka verndunarráðstafanir villtra laxategunda og hér eru ekki í Noregi.  Allur er varinn góður. 

Hér verður að fara að öllu með gát til að raska ekki jafnvæginu í íslenzkri náttúru. Vítin eru til að varast þau. Ein varúðarráðstöfunin er að hvíla uppeldisstöðvarnar í eitt ár af þremur, svo að úrgangur safnist ekki upp, heldur nái að dreifast um og mynda þannig botnáburð á sem stærstu svæði.  Lús leggst þungt á eldisfisk við Noreg, og sýklalyfjagjöf er þar töluverð.  Það er mikið í húfi að lús nái ekki fótfestu í eldislaxinum hér, svo að hann verði áfram laus við sýklalyfjagjöf og svo að lúsin nái ekki í villta íslenzka laxinn.  Hún á erfiðara uppdráttar hér vegna svalari sjávar en við Noreg, nema við Norður-Noreg, en segja má, að eldið nái meðfram allri vestanverðri ströndu Noregs.

Mestar áhyggjur hafa menn þó af erfðablöndun villtu íslenzku laxastofnanna og eldislaxins.  Eftirfarandi frétt í Fiskifréttum, 11. febrúar 2016:

"Þriðjungur laus við erfðablöndun",

sýnir svart á hvítu, hvað gæti gerzt á Íslandi við mikið aukið eldi, ef ekki er beitt beztu fáanlegu tækni við laxeldið, sem var ekki fyrir hendi fyrr en eftir síðustu aldamót:

"Aðeins þriðjungur 125 villtra laxastofna í Noregi, sem rannsakaðir voru, reyndist með öllu laus við erfðafræðileg spor frá eldislaxi.  Þetta eru niðurstöður rannsóknar, sem Norska hafrannsóknarstofnunin og Norska náttúrurannsóknarstofnunin, NINA, gerðu á 20´000 löxum, sem klaktir voru úti í náttúrunni. 

Niðurstöðurnar voru þær, að í 35 % laxastofnanna fundust engin spor, í 33 % laxastofnanna voru vægar breytingar, í 7 % stofnanna voru miðlungs breytingar og í 25 % stofnanna voru erfðabreytingarnar miklar.  Einn laxastofn er í hverri á og stundum fleiri. 

Erfðablöndunin stafar af því, að eldislax sleppur úr kvíum og blandast villtum laxi.  Slík slys eru óhjákvæmileg, þegar þess er gætt, að Norðmenn framleiða meira en milljón tonn af eldislaxi á ári og fjöldi þeirra laxa, sem sleppa, nemur allt að 600´000 fiskum á ári."

Talan, sem nefnd er þarna í lokin, stenzt ekki og er sennilega úrelt.  Málið er, að eftir síðustu aldamót var saminn staðall í Noregi fyrir laxeldisstöðvar að fara eftir í hvívetna að viðlögðum refsingum og rekstrarleyfissviptingu til að stórfækka slysasleppingum og þar með að fækka svo mjög eldislaxi á hrygningarstöðvum í norskum ám, að erfðabreytileiki verði ekki merkjanlegur af þeirra völdum. Samkvæmt grein Jóns Arnar Pálssonar, sjávarútvegsfræðings, í Viðskiptablaðinu 6. október 2016, eru líkur á, að eldislax sleppi úr kvíum við Noregsstrendur hjá fyrirtækjum, sem hafa að fullu innleitt NS9415, nú 20 ppm (partar per milljón), og hann segir í þessari grein, að 12´000 eldislaxar hafi leitað í norskar ár veiðitímabilin 2014-2015. Þetta er 1,0 % af fjöldanum, sem sagður er í hinni tilvitnuðu frétt sleppa á ári, og er þetta aðeins eitt af mörgum dæmum um gríðarháar sleppingartölur, sem eru á sveimi, en standast engan veginn, ef sleppingarlíkur hafa nú lækkað niður í 20 ppm/ár. Fróðlegt væri, að Landssamband fiskeldisstöðva á Íslandi mundu kynna nýjustu tölur í þessum efnum og árangurinn hér af innleiðingu NS9415.   

Það verður að gera þá kröfu við útgáfu rekstrarleyfa til laxeldisstöðva við strendur Íslands, sem í öryggisskyni eru ekki úti fyrir Vesturlandi, Suðurlandi né Norðurlandi, nema Eyjafirði, að NS9415 sé uppfylltur að öllu leyti

Árið 2016 voru framleidd um 8 kt af eldislaxi hérlendis, og hugmyndir eru um að tífalda þetta magn á 10-15 árum, þannig að 100 kt/ár er sennilega hámarks magn og verður framleitt í sjóeldiskvíum hérlendis um 2030, þó að eldi í kvíum á landi með hjálp hitaveitu gæti hækkað þessa tölu.  Hámarks fjöldi eldisfiska í sjó verður þá 50 M (M=milljón) og með reynslusleppilíkum frá Noregi sleppa þá hér úr sjóeldiskvíum 1000 laxar/ár.  Líklega verður aðeins um helmingur þeirra hrygningarhæfur, og hlutfall þeirra af 40 k hrygningarstofni er aðeins 1,3 %.  Blekbóndi mundi gizka á, að þetta lága hlutfall dugi ekki til "að skilja eftir erfðafræðileg spor" í villtum íslenzkum laxastofnum, en það hlýtur að verða rannsóknar- og umfjöllunarefni erfðafræðinga og annarra sérfræðinga, hvar mörkin liggja til að vernda erfðafræðilega eiginleika þeirra. Óyggjandi svar við þessari erfðafræðilegu spurningu þarf að birtast á næstu árum, og kannski er það nú þegar á reiðum höndum.   

Hreinar gjaldeyristekjur af laxeldinu munu geta numið 80 miaISK/ár að núvirði við hámarksafköstin 100 kt/ár og jafnvel verða þá hálfdrættingur á við sjávarútveginn að þessu leyti.  Hlutdeild laxeldisins í vergri landsframleiðslu gæti þá orðið 5 % - 10 %, og ef allt fer að óskum, mun þessi starfsemi leggja drjúgan skerf til hagvaxtarins næstu 10-15 árin.  Hún mun einnig leiða til framleiðniaukningar, því að ný störf í greininni munu væntanlega leiða til meiri verðmætasköpunar en flest önnur störf, sem starfsmennirnir koma úr.  Þá mun kolefnisspor starfseminnar verða í lágmarki, því að tiltölulega einfalt er að leysa eldsneytisvélar starfseminnar af hólmi með rafhreyflum, og fóðrið er væntanlega að mestu framleitt innanlands á umhverfisvænan hátt. 

Hér er um nýtingu á náttúruauðlind að ræða.  Sjávarútvegurinn greiðir árlegan skatt af aflahlutdeildum sínum til ríkissjóðs, og stutt er í innleiðingu fasteignaskatts til viðkomandi sveitarfélaga fyrir afnot vatnsréttinda til raforkuvinnslu.  Ef markaðurinn hefur ekki myndað verð á verðmætum náttúruauðlindarinnar, þarf að þróa samræmda aðferð til að meta verðmæti auðlindarinnar og árlegt afnotagjald. Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur krafið yfirvöld um þetta, og hugmyndir eru uppi um fyrirkomulagið.  

Svipaða aðferðarfræði og við mat á orkulindunum má beita á hafsvæðin, sem lögð eru undir sjókvíaeldi.  Afnotagjaldið mætti miða við hvert starfsleyfi, og það er brýnt að koma slíku kerfi til útreikninga á árlegu afnotagjaldi á sem fyrst á meðan mörg starfsleyfi eru enn óútgefin.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í Noregi hefur þróunin orðið sú að auðugustu menn og fyrirtæki landsins hafa keypt laxeldið upp að mestu leyti, svipað og hefur gerst hér á landi í sjávarútveginum. 

Aðeins átta árum eftir Hrunið er talað um að tífalda framleiðsluna á örfáum árum. Já, 2007 virðist komið aftur. 

Ómar Ragnarsson, 2.2.2017 kl. 19:48

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ég hef fyrir satt, að í noskri útgerð megi finna vellauðuga einstaklinga, sem hafa orðið ríkir aðallega af annarri, t.d. verzlunarskipaútgerð.  Þar er tvöfalt meiri aflahlutdeild leyfð per útgerð en hér, eða 25 %, svo að samþjöppun í greininni er meiri en hér. 

Ég hef ekki kynnt mér eignarhaldið á norsku fiskeldi, en ég get trúað því, sem þú skrifar um það hér að ofan.  Það finnst mér þó ekki þurfa að fæla okkur frá nánu samstarfi við Norðmenn á þessu sviði né sé ég ástæðu til tortryggni í garð eignarhaldsins á t.d. Arnarlaxi.  Við lifum á Innri markaði EES með "frelsunum fjórum".  Hins vegar er ég þeirrar skoðunar, að úr því að markaðsverð hefur ekki þróazt á hafsvæðum sjókvíanna, þá þurfi að reikna þessi verðmæti, og ég er með hugmynd um, hvernig það yrði gert, og árlegt afnotagjald sömuleiðis.

Bjarni Jónsson, 2.2.2017 kl. 21:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband